• Lykilorð:
  • Skuldamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 16. apríl 2018 í máli nr. E-2186/2017:

Forysta ehf.

(Þorbjörg Inga Jónsdóttir lögmaður)

gegn Framsóknarflokknum

(Sigurður G. Guðjónsson lögmaður)

 

 

I.                   Dómkröfur

Mál þetta var þingfest 29. júní 2017 en tekið til dóms 1. mars 2018 að lokinni aðalmeðferð. Stefnandi, félagið Forysta ehf., Bíldshöfða 14 í Reykjavík, krefst þess að stefndi Framsóknarflokkurinn, kt. 560169-7749, Hverfisgötu 22 í Reykjavík, greiði sér skuld að fjárhæð kr. 5.512.110, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af þeirri fjárhæð frá 11. desember 2016 til greiðsludags. Þá gerir stefnandi kröfu um málskostnað úr hendi stefnda.

Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda en til vara að dómkrafa stefnanda verði lækkuð. Í báðum tilvikum gerir stefnandi kröfu um málskostnað úr hendi stefnanda.

 

II.                Málsatvik

Forsaga þessa máls er sú að Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, þáverandi borgarfulltrúi stefnda, hafði samband við Viðar Garðarsson, framkvæmdastjóra stefnanda, í maí 2016. Tilefnið mun hafa umfjöllun Kastljóss þáttar Ríkissjónvarpsins um Panamaskjölin en nöfn þeirra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur og Hrólfs Ölvissonar, munu öll hafa komið fyrir í skjölunum en þau gegndu á þessum tíma störfum formanns, borgarfulltrúa og framkvæmdastjóra flokksins. Lýsti Guðfinna því í vitnisburði sínum fyrir dómi að á þessum tíma hefði töluverð vinna farið í það hjá henni að svara fyrir mál Sveinbjargar Birnu sem hún þekkti ekki neitt, en fyrir hefði legið að Sveinbjörg kæmi aftur til starfa í borgarstjórn í júní 2016 að loknu fæðingarorlofi.

Í vitnisburði Guðfinnu kom fram að hún hefði verið kunnug Viðari Garðarssyni og leitað ráða hjá honum um hvernig bregðast ætti við þegar Sveinbjörg kæmi aftur. Mál Sigmundar Davíðs verið í hámæli á sama tíma og sagðist Guðfinna hafa nefnt það við Sigmund Davíð að Framsóknarflokkurinn ætti að hugleiða fá sér almannatengil og það væri þá sjálfsagt að kynna Viðar fyrir Sigmundi. Guðfinna mun síðan hafa kynnt Sigmund Davíð og Viðar hvorn fyrir öðrum á fundi í júní 2016 en með þeim á fundinum var eiginmaður hennar, Svanur Guðmundsson. Lýsti Guðfinna því fyrir dóminum að hana minnti að Sigmundur Davíð hefði sagt á fundinum að Viðar „væri akkúrat maðurinn sem þyrfti“.

Viðar Garðarsson, framkvæmdastjóri stefnanda Forystu ehf., lýsti því í aðilaskýrslu sinni fyrir dómi að hann hefði í kjölfarið átt annan fund með Sigmundi, ásamt Lilju Alfreðsdóttur og Sigurði Hannessyni, sem hafi verið kynntur sem formaður málefnanefndar Framsóknarflokksins. Nokkrum dögum síðar hafi hann síðan hitt Hrólf Ölvisson, fyrrverandi framkvæmdastjóra Framsóknarflokksins á Kaffi Mílanó í Skeifunni. Á fundinum hafi þeir rætt hugsanlega aðkomu Viðars að kosningabaráttu Framsóknarflokksins. Mun Viðar hafa nefnt það á fundinum að sú kosningabarátta sem hann hefði í huga gæti kostað um 100 milljónir. Lýsti Viðar því fyrir dómi að Hrólfur hafi fengið ,,áfall“ við að heyra töluna sem hefði þó verið sett fram í hálfkæringi. Í vitnisburði sínum fyrir dómi kvaðst Hrólfur hafa upplýst Viðar um það á fundinum að Framsóknarflokkurinn ætti ekki slíka fjármuni.

Í aðilaskýrslu sinni fyrir dómi kvaðst Viðar hafa hitt Sigmund Davíð aftur í kjölfarið og að eftir það hafði verið ákveðið að gera þrjá hluti. Í fyrsta lagi að farið yrði með Sigmund Davíð í myndatökur og kvaðst Viðar fyrir dómi hafa skipulagt myndatöku, pantað tíma í stúdíói og ráðið til þess ljósmyndara og förðunarfræðing. Í aðilaskýrslu sinni kvað Viðar ástæður myndatökunnar hafa verið þær að myndirnar sem hefðu birst af Sigmundi í tengslum við umfjöllun um Panama-skjölin hafi verið mjög neikvæðar í samræmi við málefnið en samkvæmt reynslu sinni væru fjölmiðlar yfirleitt samstarfsfúsir ef þeim væri útvegað myndefni.

Í öðru lagi hefði Viðar látið smíða vefsíðuna panamaskjolin.is en í framburði Viðars kom fram að með henni hefði verið ætlunin að „setja strik í sandinn og taka til varna“. Sagði Viðar hugmyndina hafa verið að Sigmundur gæti alltaf vísað í þennan vef ef Panama-skjölin kæmu upp kosningabaráttunni. Þá hefði í þriðja lagi verið smíðaður vefurinn islandiallt.is og lýsti Viðar því að sá vefur hafi verið ætlaður til að „sækja fram“. Aðspurður fyrir dómi nánar um hvaða þjónusta hafi verið veitt til stefnda Framsóknarflokksins á þessum tíma og hvað hafi verið fólgið í störfum Svans Guðmundssonar, eiginmanns vitnisins Guðfinnu Jóhönnu á þessum tíma, kvaðst Viðar hafa fengið hann til að vinna „ákveðna greiningarvinnu, hvaða blaðamenn voru að skrifa hvað“ og „hverjir hefðu verið Sigmundi Davíð erfiðastir.“

Viðar bar fyrir dómi að Sigmundur Davíð hafi beðið sig um að skrifa bréf til framkvæmdastjórnar Framsóknarfloksins vegna fyrirhugaðra starfa hans fyrir flokkinn. Í málinu liggur fyrir bréf frá Viðari fyrir hönd stefnanda stílað á framkvæmdastjórn Framsóknarflokksins, dags. 20. júlí 2016, þar sem fram kemur að hann hafi verið beðin um að taka að sér verkefni fyrir Framsóknarflokkinn og formann hans við undirbúning kosninga. Í bréfinu segir meðal annars:

 

„Um er að ræða hlutverk almannatengils sem hefði yfirumsjón með framsetningu og birtingarmynd á kynningarefni flokksins, aðstoð við formanninn í samskiptum við fjölmiðla, stjórn og skipulag á notkun samfélagsmiðla, auk þess að taka fullan þátt í að virkja félagsmenn til starfa með formanni og framkvæmdastjórn.

Eftir að undirritaður átti fund með formanni flokksins þar sem farið var yfir stöðuna frá sjónarhóli beggja aðila og komandi mánuðir voru ræddir af mikilli einlægni og hreinskilni. Er undirritaður tilbúinn að taka að sér verkefnið á eftirfarandi forsendum:         

Undirritaður heyrir beint undir formann flokksins.

Undirritaður hefur ritstjórnarvald á öllu auglýsinga- og kynningarefni flokksins í öllum kjördæmum.

Undirritaður hefur heimild til þess að ráða undirverktaka í skilgreind verkefni, s.s. ljósmyndara, sminkur, stílista, grafíska hönnuði, samfélagsmiðla sérfræðinga o.s.frv.

Flokkurinn útvegar undirrituðum áskriftar aðgengi að fjölmiðlavakt Credit info á meðan samningstíma stendur.

Tímagjald undirritaðs fyrir þjónustuna er 16.950, að viðbættum VSK, á hverja útselda klukkustund.

Megin vinnuaðstaða undirritaðs verður í Orange Project, Ármúla 6, 108 Reykjavík og er innifalin í tímagjaldi ásamt afnot af bifreið á Reykjavíkursvæðinu og síma og nettengingu.

Samkomulag þetta hefur gildi frá því augnabliki að framkvæmdastjórn og formaður flokksins hefur samþykkt skilmála þessa bréfs og þar til að loknum næstu alþingiskosningum.

Fyllsti trúnaður ríkir um öll samskipti aðila. Viðari er með öllu óheimilt að tjá sig við fjölmiðla eða greina opinberlega frá því í hverju starf hans er fólgið. Á þetta bæði við á meðan þjónustunni stendur og einnig eftir að henni lýkur.“

 

Í framhaldinu segir í bréfinu að markmið þessa starfs sé að „samræma og nýta til fullnustu stefnumiðaða markaðsfærslu og samræma hana almannatengla starfi.“ Þetta verði best gert með því að „skilgreina vel, skýrar víglínur í öllum málaflokkum“ ákvarða „til hvaða markhópa [eigi] að tala og passa að reyna ekki að tala til allra.“ Í niðurlagi bréfsins segir síðan:

 

„Með þessu bréfi er óskað eftir því við framkvæmdastjórn flokksins að hún veiti formanni heimild til að hefja samstarf við undirritaðan á ofangreindum forsendum.“

 

Viðar Garðarsson kvaðst fyrir dómi hafa afhent Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og Hrólfi Ölvissyni ofangreint bréf. Í aðilaskýrslu Viðar fyrir dómi kom þó fram að hann hefði aldrei fengi formlegt svar við þessu. Sigmundur Davíð hafi beðið hann um að hefja vinnuna en aldrei sagt honum um það hvernig þetta hafi farið í framkvæmdastjórn.

Fyrir dómi kvaðst vitnið Sigmundur Davíð ekki minnast þess að hafa lesið umrætt bréf, en hann teldi sig þó ekki getað neitað því að hafa tekið við því. Í skýrslu Sigmundar kom fram að hann hefði talið sú áætlun sem Viðar setti fram gæti orðið árangursrík. Hann hefði hins vegar ekki gert skriflega samninga við stefnanda, enda hefðu hann og Viðar rætt að það þyrfti að gerast í gegnum framkvæmdastjóra sem annaðist þessi mál fyrir flokkinn. Á þessum tíma hefði verið starfandi framkvæmdastjóri til bráðabirgða, Einar Gunnar Einarsson, vegna þess að Hrólfur Ölvisson hefði stigið til hliðar. Kvaðst Sigmundur hafa beint málinu í þann farveg að Viðar yrði í sambandi við Hrólf og Einar en þeir hafi átt að annast samningsgerðina við Viðar og félag hans.

Í vitnisburði Sigmundar kom einnig fram að hann hefði verið sammála Hrólfi um að uppleggið sem Viðar hefði komið með í upphafi hefði verið of dýrt. Framsóknarflokkurinn hefði ekki úr það miklu að spila að hann gæti farið í slíkar aðgerðir. Niðurstaðan hefði orðið sú að Hrólfur og Viðar myndu laga flokkinn að því.

Í vitnisburði sínum fyrir dómi tók Hrólfur undir frásögn Viðars um fund þeirra á Kaffi Mílanó. Hrólfur kvaðst þó ekki þekkja til þess að Viðar myndi vinna einhver verkefni fyrir flokkinn en Sigmundur Davíð hefði þó verið að tala um að fá hann í vinnu. Sjálfur hafi hann þó ekki orðið var við neina vinnu Viðars eftir fund þeirra.

Einar Gunnar Einarsson, framkvæmdastjóri stefnda á þessum tíma, og Eygló Harðardóttir, þáverandi ritari flokksins, sem bæði áttu sæti í framkvæmdastjórn flokksins báru fyrir dómi að bréf stefnanda til framkvæmdastjórnar flokksins frá 20. júlí 2016 sem vitnað er hér til að ofan hafi ekki verið lagt fyrir framkvæmdastjórn. Í vitnisburði Einars Gunnars fyrir dómi kom fram að hann hefði fyrst séð umrætt bréf í desember 2016 í kjölfar þess að honum barst reikningur frá stefnanda. Í aðilaskýrslu sinni fyrir dómi tók Sigurður Ingi Jóhannsson, sem var á þessum tíma varaformaður og meðlimur í framkvæmdastjórn Framsóknarflokksins, í sama streng. Kvaðst hann enga vitneskju eða hugmynd hafa haft um vinnu Viðars Garðarssonar og stefnanda fyrir Framsóknarflokkinn á þessum tíma.

Eygló kvaðst enn fremur í vitnisburði sínum ekkert hafa orðið vör við neina vinnu Viðars Garðarssonar fyrir Framsóknarflokkinn þessari kosningabaráttu. Ef Sigmundur Davíð hefði stýrt vinnunni við kosningabaráttu alveg sjálfur þá hefði það ekki verið í samræmi við lög flokksins. Starfshættir flokksins hafi verið með þeim hætti að þeir sem komi að hönnun samfélagsmiðla og sambærilegra þátta kynntu það fyrir framkvæmdastjórn en hún hefði setið í framkvæmdastjórn frá árinu 2009.

Samkvæmt þeim gögnum sem fyrir liggja í málinu er hluti þeirrar þjónustu sem stefnandi hefur krafið stefnda um greiðslu fyrir vegna myndatöku á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins á Akureyri í byrjun september 2016. Í aðilaskýrslu sinni fyrir dómi kvaðst Viðar hafa fengið Davíð Goða Þorvarðarson til að fara til Akureyrar og taka upp þær ræður sem þar fóru fram. Hann hafi líka klippt úr efninu myndbönd sem voru notuð á Facebook-síðu Framsóknarflokksins. Hann hafi hins vegar ekki verið á landinu þegar þetta var gert og ekki séð þau fara í loftið.

Í vitnisburði Davíðs Goða Þorvarðssonar fyrir dómi staðfesti hann frásögn Viðars Garðarssonar um að hann hefði verið beðin um að taka myndir og klippa efni af miðstjórnarþingi Framsóknarflokksins í september 2016 en hann hafi verið fenginn til verksins þar sem faðir hans og Viðar Garðarssonar séu gamlir vinir. Vitnið kvað hins vegar efnið sem hann útbjó aðeins hafa verið fyrir „kosningaherferð Sigmundar“. Þegar lögmaður stefnanda spurði vitnið sérstaklega útí hvort efnið hafi verið vegna kosningabaráttu stefnda eða Sigmundar svaraði vitnið „bara Sigmundar“. Í því sambandi kvaðst vitnið hafa afhent stefnanda klippta búta úr ræðu Sigmundar Davíðs á miðstjórnarþinginu til að birta á Facebook-síðu Sigmundar Davíðs en hann hefði þar aðeins tekið myndir af Sigmundi Davíð en ekki öðrum á þinginu. Af myndefninu hafi hann bara séð þau myndbönd sem sett voru á Facebook-síðu Sigmundar Davíðs en um hafi verið að ræða þrjú til fjögur myndbönd. Fyrir þessa vinnu hefði vitnið gert stefnanda reikning að fjárhæð 319.500 kr. en hann hefði ekki fengið greitt fyrir þá vinnu. 

Stefnandi lauk að eigin sögn vinnu fyrir stefnda í september 2016 og kom ekki frekar að vinnu fyrir stefnda eftir það en reikningur vegna verksins var gefinn út þann 1. desember 2016. Reikningnum fylgdi skjal sem lýsti hvaða þjónusta sem lægi að baki reikningnum. Samkvæmt því skjali átti Viðar Garðarsson, fyrirvarsmaður stefnanda að hafa unnið 19 klukkustundir fyrir stefnda í júlí, en 36 klukkustundir í ágúst og 42 í september. Í skjalinu kom einnig fram að Svanur Guðmundsson hefði unnið 16 klukkustundir fyrir Framsóknarflokkinn í júlí en 36 klukkustundir í ágúst og 46 í september. Samkvæmt skjalinu átti kostnaður vegna húsaleigu að hafa numið 630.000 þúsund fyrir sama tíma en kostnaður vegna keyptrar þjónustu af þriðja aðila að hafa numið 460.000 krónum. Af þeim kostnaði munu 270.000 hafa verið ætlaður til Davíðs Goða Þorvarðarsonar vegna myndatöku, 140.000 til Oscars Bjarnasonar, grafísks hönnuðar, og 50.000 til Brynjólfs Jónssonar ljósmyndara.

Einar Gunnar Einarsson, framkvæmdastjóri stefnda, svaraði bréfi stefnanda með bréfi, dags. 9. desember 2016. Þar kom fram að skrifstofa Framsóknarflokksins teldi að þarna væri um einhver mistök að ræða þar sem flokkurinn kannaðist ekki við að hafa beðið um eða keypt þá þjónustu sem tilgreind væri í reikningnum. Reikningnum væri því beint að flokknum að tilefnislausu og hann endursendur. Í bréfinu var jafnframt tekið fram að ef stefnandi hygðist halda til streitu innheimtu á reikningnum væri þess óskað að félagið upplýsti nákvæmlega um hvaða þjónustu var að tefla og hverjir óskuðu eftir henni.

Þegar reikningurinn var ekki greiddur mun stefnandi hafa haft samband við Sigmund Davíð sem lagði þá út fyrir stefnda þann hluta reikningsins sem var vegna útlagðs kostnaðar í samræmi við ábyrgðarloforð sitt gagnvart stefnanda. Í málinu liggur fyrir tölvupóstur Sigmundar Davíðs til fyrirsvarsmanns stefnanda frá 22. desember 2016 um þetta efni en þar sagði meðal annars:

„Vegna þess hversu treglega hafði gengið að klára samkomulag um hvenær og hvernig yrði gert upp við ykkur Svan fyrir kosningarnar sagðist ég á sínum tíma vera reiðubúinn til að ábyrgjast endurgreiðslu útlagðs kostnaðar. Reynslan er enda sú í gegnum tíðina hafi oft tekið langan tíma að leysa úr greiðslum vegna kosningabaráttu stjórnmálaflokka.

Þrátt fyrir að bæði Hrólfur og Einar Gunnar, auk fleira fólks sem kom að undirbúningi kosninga, væru meðvitaðir um hversu mikilvægt formaður flokksins taldi að hefja kosningaundirbúning í tæka tíð dróst talsvert að ganga frá fyrirkomulagi vinnunnar. Auk þess hafði fundur þinn með Hrólfi leitt í ljós að Hrólfur taldi þær hugmyndir sem þar voru kynntar of umfangsmiklar og kostnaðinn of mikinn. Brugðist var við því með því að laga umfang verkefnisins að athugasemdunum.

Auk þess setti óvissa um framtíðar verkaskiptingu milli Hrólfs og Einars Gunnars nokkurt strik í reikninginn.

Lengst af var gert ráð fyrir að Hrólfur tæki aftur formlega við starfi framkvæmdastjóra en á endanum varð hann formaður kosningastjórnar.

Mér er ekki ljóst að hversu miklu leyti flokkurinn hefur gert upp við ykkur en skilst að enn eigi eftir að gera upp útlagðan kostnað. Í samræmi við það sem ég nefndi á sínum tíma um að ég skyldi taka ábyrgð á útlögðum kostnaði svo að verkefnið gæti haldið áfram millifæri ég nú á reikning þinn 1.090.000 kr. en það er sameiginlegur skilningur okkar að eftir sem áður sé gert ráð fyrir að flokkurinn standi straum af þeim kostnaði eins og öðrum kostnaði við undirbúning kosninga.“

Stefnandi ítrekaði í kjölfarið kröfu sína um greiðslu til stefnda með bréfi Viðars Garðarssonar, dags. 20. janúar 2017 þar sem beiðni framkvæmdastjóra flokksins um gera nánar grein fyrir þeirri þjónustu sem krafist var greiðslu fyrir var jafnframt svarað. Í bréfinu sagði m.a: 

 

„Á vordögum 2016 kom þáverandi formaður Framsóknarflokksins Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (SDG) að máli við undirritaðan og óskaði eftir því að fá aðstoð við það að undirbúa Framsóknarflokkinn undir kosningar sem þá voru áætlaðar á vordögum 2017.

Eftir nokkra umhugsun nánar um miðjan júlí féllst ég á það að taka að mér þetta verkefni að uppfylltum skilyrðum sem ég setti fram í bréfi til framkvæmdastjórnar flokksins dagsettu 20. júlí 2016. Þetta bréf afhenti ég síðan persónulega bæði SDG og Hrólfi Ölvissyni sem kynntur var fyrir mér sem framkvæmdastjóri flokksins. Að auki vegna slæmrar fyrri reynslu minnar af því að starfa fyrir stjórnmálasamtök fór ég fram á að við SDG að hann persónulega myndi tryggja greiðslur á því sem útlagt væri í þessari vinnu ef illa gengi að innheimta hjá flokknum.

Mikil vinna var innt af höndum, má nefna ljósmyndatökur í stúdíó af SDG. Smíðaðar voru heimasíður sem áttu að styðja framboðið, islandiallt.is og panamaskjolin.is. Kvikmyndatökumaður var sendur á miðstjórnarfund á Akureyri þar sem útbúið var efni til notkunar á samfélagsmiðlum. Gerðar voru greiningar, skrifaðar blaðagreinar, unnin stefnumótunarvinna og áætlanir um hvernig helst væri hægt að ná árangri í væntanlegri kosningabaráttu, tekið var á leigu viðbótarhúsnæði sem notað var undir hina ýmsu aðila innan flokks í þessari vinnu.

Vinnan var kynnt fyrir frammáfólki í flokknum á ýmsum tímum og mismikið unnin. Meðal þeirra aðila sem mættu til fundar og kynntu sér hvaða vinnu var verið að inna af hendi má nefna fólk eins og Lilju Alfreðsdóttur, þá utanríkisráðherra, núverandi varaformann flokksins, Sigurð Hannesson, formann málefnanefndar flokksins, Sveinn Hjört Guðfinnsson formann FR [Framsóknarfélags Reykjavíkur], Guðfinnu Jóhönnu Guðmundsdóttur, borgarfulltrúa, Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmann SDG, SDG sjálfan og marga fleiri.“

 

III.             Málsástæður aðila

Málsástæður stefnanda

Krafa stefnanda byggist á reikningi dagsettum 1. desember 2016 sem lagður er fram fyrir dómi svo og fylgiskjali með honum þar sem greiðslukrafan er sundurliðuð. Af hálfu stefnanda er byggt á því að það sé óumdeilt verkið sem reikningurinn er fyrir hafi verið innt af hendi fyrir stefnda og vegna þess eigi stefnandi rétt á greiðslu í samræmi við hann. Þá byggist krafa stefnanda á samkomulagi aðila um framkvæmd þess verks og þeirrar þjónustu sem reikningurinn lýtur að og hafði þegar verið innt af hendi við útgáfu reikningsins.

Af hálfu stefnanda er aðallega byggt á því að gerður hafi verið gildur og skuldbindandi samningur á milli hans og stefnda sem stefndi hafi vanefnt og eigi hann þar af leiðandi rétt á dómi í samræmi við stefnukröfur. Áður en stefnandi hóf vinnu sína fyrir stefnda hafi aðilar gert munnlegan samning um tilhögun verksins og að greitt yrði fyrir það. Stefnandi hafi nú þegar efnt samkomulag aðila af sinni hálfu og eigi þegar af þeirri ástæðu rétt á greiðslu úr hendi stefnda í samræmi við útgefinn reikning fyrir þjónustunni.

Stefnandi byggir á því að framkvæmd verksins og greiðsla fyrir það hafi verið samþykkt af hálfu stefnda af þeim aðilum sem voru til þess bærir fyrir upphaf verksins. Við það hafi komist á bindandi samningur á milli aðila um að stefnandi innti af hendi þá verkþætti aðilar ræddu um og fengi greiðslu fyrir. Vísað er til þess að stefndi hafi leitað til stefnanda og óskað þess að hann tæki viðkomandi verk að sér. Farið hafi verið yfir umfang og framkvæmd verksins á fundi stefnanda og forsvarsmanna stefnda svo og ákveðið að hrinda því í framkvæmd. Stefnandi hafi þannig mátt gera ráð fyrir að þeir aðilar sem komu fram fyrir hönd stefnda, formaður og framkvæmdastjóri hefðu fullt umboð til að skuldbinda stefnda auk þess sem stefnanda hafi auk þess verið gefnar upplýsingar um að verkið hefði verið samþykkt á fundi framkvæmdarstjórnar flokksins.

Þá er einnig bent á að sú þjónusta sem stefnandi var að veita stefnda hljóti að teljast eðlileg og venjuleg í starfsemi stefnda, það er markaðssetning og kynning í aðdraganda kosninga sem voru við upphaf málsins áætlaðar vorið 2017. Þegar af þeirri ástæðu hafi stefnandi mátt gera ráð fyrir að verkið og greiðsla fyrir það hefði verið samþykkt með nægjanlegum hætti af hálfu stefnda, svo og að formaður stefnda hefði fullt og ótakmarkað uppboð til að skuldbinda stefnda.

Jafnframt er byggt á því af hálfu stefnanda að allir helstu fyrirsvarsmenn stefnda hafi samþykkt að stefnandi tæki að sér og framkvæmdi viðkomandi verk fyrir stefnda í verki með að taka þátt í því beint eða óbeint. Þannig hafi allir þessir aðilar að auki samþykkt með aðgerðum sínum og aðgerðarleysi, að stefnandi sinnti því verki fyrir stefnda sem stefnukrafan lýtur að.

Til vara er byggt á því af hálfu stefnanda að þáverandi formaður stefnda hafi haft stöðuumboð bæði til að ákveða að stefnandi innti verkið af hendi fyrir stefnda og fengið greiðslu fyrir það í skilningi 2. mgr. 10. gr. laga nr. 7/1936. Stefndi sé stjórnmálaflokkur sem falli undir ólögfestar reglur um frjáls félagasamtök og sá sem fer með æðsta vald í slíkum félögum sé ávallt formaður félagins. Auk þess sé formaður félags sjálfgefinn forsvarsmaður félags út á við þannig að allir sem eiga í samskiptum og viðskiptum við viðkomandi félag megi gera ráð fyrir að formaðurinn sé bær til að skuldbinda það, enda liggi ekki fyrir nein opinber skráning um annað. Ekki sé mögulegt að fletta upp hver sé skráður prókúruhafi félags svo sem stjórnmálaflokks í opinberum skrám, en upplýsingar um hver er formaður hans séu ávallt aðgengilegar. Auk þess sem það er vel kynnt, þannig að hver sem vill eiga í viðskiptum við stjórnmálaflokk eins og stefnda megi gera ráð fyrir að formaðurinn hafi ávallt umboð til að skuldbinda hann.

Þá er byggt á því af hálfu stefnanda að hann eigi rétt á að ákveða verð fyrir veitta þjónustu þar sem ekki hafi verið samið um fasta greiðslu fyrir verkið fyrirfram samkvæmt meginreglum kröfuréttarins, sbr.  28. gr. laga nr. 42/2000, um þjónustukaup, og 45. gr. laga nr. 50/2000, um lausafjárkaup. Auk þess sé fjárhæð kröfu stefnanda bæði sanngjörn og eðlileg með tilliti til atvika málsins. Þar sem aðilar hafi ekki samið um sérstakt endurgjald fyrir verkið í upphafi fari um lögskipti þeirra samkvæmt meginreglu kröfuréttarins að greiða skuli það verð sem krafist er nema telja megi það ósanngjarnt. Með tilliti til eðlis og umfangs verksins sem meðal annars komi fram í sundurliðun kröfu þá geti reikningur stefnanda ekki talist annað en hæfilegur, auk þess sem hann sé í samræmi við verð á markaði fyrir sambærilega þjónustu.

Af hálfu stefnanda er jafnframt byggt á því að sá reikningur sem stefnukrafan lúti að hafi hvorki verið mótmælt tölulega né því að verkið væri framkvæmt fyrir stefnda á meðan því stóð. Þá hafi ekki heldur verið byggt á af hálfu stefnda að verkið hafi verið haldið einhverjum ágöllum sem hefði áhrif á endurgjaldið fyrir það og því eigi stefnandi rétt á greiðslu í samræmi við stefnukröfur.

 

Málsástæður stefnda

Sýknukröfu sína byggir stefndi á því að enginn samningur hafi verið gerður milli stefnanda og stefnda um meinta þjónustu stefnanda. Stefndi mótmælir því að komist hafi á munnlegur samningur milli stefnanda og stefnda um tilhögun þjónustu stefnanda og greiðslu vegna hennar. Bendir stefndi á að ekkert styðji slíka staðhæfingar.

Þá hafnar stefndi því að framkvæmd meintrar vinnu stefnanda og greiðsla fyrir hana hafi verið samþykkt af hálfu stefnda af þeim aðilum sem voru til þess bærir fyrir upphaf verksins. Óumdeilt sé að forsvarsmenn stefnda óskuðu hvorki eftir né samþykktu meinta vinnu stefnanda. Fundargerðir framkvæmdastjórnar stefnda beri það með sér að aldrei var fjallað um málefnið og því síður samþykkt að ganga til samninga við stefnanda.

Í stefnu er það einnig rakið að stefnandi hafi sett fram áætlun um hvernig mætti standa að kynningarmálum fyrir stefna vegna þingkosninga vorið 2017 og hefði áætlunin verið afhent formanni og framkvæmdastjóra stefnda um mánaðarmótin maí-júní 2016. Stefndi bendir á að slík áætlun liggi ekki fyrir í gögnum málsins og fullyrðingum í þessa veru sé mótmælt. Þá kemur einnig fram að farið hafi verið yfir áætlunina á fundi um miðjan júní 2016 þar sem kostnaður verkefnisins hafi einnig verið reifaður. Hins vegar liggi ekkert fyrir um framangreindan fund eða með hvaða hætti kostnaður við verkið hafi verið áætlaður. Stefndi mótmælir framangreindu sem algjörlega ósönnuðu en sönnunarbyrði um meint samkomulag og efni þess hvílir alfarið á stefnanda.

Stefndi bendir á að tölvupóstur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar til fyrirsvarsmanns stefnanda frá 22. desember 2016 sem stefnandi vísi til í máli sínu til stuðnings, sé á milli fyrrum formanns stefnda og forráðamanns stefnanda og þar sé fjallað um samkomulag sem framkvæmdastjórn stefnda kom ekki með nokkru móti að. Því til viðbótar er þar rakið að gerðar hafi verið athugasemdir við hugmyndir stefnanda og að kostnaður hafi verið talinn of mikill. Ekkert liggi hins vegar fyrir um framangreint fyrirkomulag, athugasemdir sem við það var gert né breytingar sem gerðar voru í kjölfar þeirra.

Þá mótmælir stefndi því sem röngu sem haldið er fram í stefnu að meintur skoðanamunur í innra starfi stefnda hefði á einhvern hátt tafið fyrir greiðslu til stefnanda en ekki hafi verið ágreiningur um verkið eða hvað rétt væri að greiða fyrir það. Skal það ítrekað í þessu sambandi að stefndi óskaði ekki eftir þjónustu stefnanda og enginn samningur liggi fyrir um meinta þjónustu. Einstaklingar eða skoðanir komi þessu ekki við.

Stefndi hafnar því jafnframt að stefnandi hafi mátt gera ráð fyrir að fyrrverandi formaður og framkvæmdastjóri stefnda hefðu fullt umboð til að skuldbinda stefnda. Í þessu sambandi vísar stefndi til bréfs stefnanda til framkvæmdastjórnar stefnda, dags. 20. júlí 2016. Eins og fyrr er rakið óskaði stefnandi þar sérstaklega eftir að framkvæmdastjórn stefnda veitti formanni heimild til að hefja samstarf við stefnanda og myndi samkomulag gilda frá og með því samþykki. Bendir stefndi á að framangreint sýni bersýnilega að stefnanda var kunnugt um að samþykki þyrfti að koma frá framkvæmdastjórn stefnda og fullyrðingum um annað sé vísað á bug. Þessu til viðbótar er á það bent að ekkert liggur fyrir um að stefnanda hafi verið gefnar þær upplýsingar að verkið hefði verið samþykkt á fundi framkvæmdastjórnar stefnda líkt og stefnandi heldur fram.

Stefndi telur enn fremur að fullyrðingar stefnanda, um að þar sem um „eðlilega og venjulega starfsemi“ að hálfu stefnanda hafi verið að ræða hefði stefnandi mátt gera ráð fyrir því að komist hefði á samningur, séu haldlausar með öllu.

Loks mótmælir stefndi því alfarið að líta megi svo á að einhvers konar samkomulag hafi komist á þar sem allir helstu fyrirsvarsmenn stefnda hafi komið að meintri vinnu stefnanda með beinum eða óbeinum hætti og samþykkt með aðgerðum sínum eða aðgerðarleysi kröfu stefnanda líkt og haldið sé fram. Er því alfarið vísað á bug að stefndi hafi þannig ómeðvitað orðið aðili samnings sem hann þekkti ekkert til og átti ekki frumkvæði að.

Þá sé það beinlínis rangt að helstu fyrirsvarsmenn stefnda hafi komið að vinnu stefnanda líkt og haldið sé fram. Þvert á móti sé forsvarsmönnum stefnda ókunnugt um hvaða meinta vinna liggi að baki kröfu stefnanda. Stefndi ítrekar að þeir sem bærir voru til að skuldbinda stefnda óskuðu ekki eftir þjónustu stefnanda né samþykktu að aðrir gerðu slíkt.

Stefndi telur að þar sem fyrir liggi að stefnandi óskaði með erindi sínu 20. júlí 2016 sérstaklega eftir samþykki framkvæmdastjórnar stefnda til að hefja samstarf við stefnanda á grundvelli ákveðinna skilyrða. Því geti meint athafnaleysi stefnda aldrei komið í stað slíks samþykkis. Að mati stefnda færi slíkt beinlínis gegn meginreglum samningaréttar um tilboð og samþykki. Slík niðurstaða yrði jafnframt talin ósanngjörn og andstæð góðri viðskiptavenju.

Þá skal á það bent að þau skilyrði sem stefnandi setti fram með framangreindu erindi sínu, eru þess eðlis að þau hefðu aldrei verið samþykkt af forsvarsmönnum stefnda en samkvæmt gögnum málsins voru einmitt gerðar athugasemdir við umfang og kostnað verkefnisins, sbr. tölvupóst Sigmundar Davíðs frá 22. desember 2016. Hins vegar liggi ekkert fyrir um að samningur eða samkomulag hafi komist á í framhaldi af þessum athugasemdum né þá heldur efni slíks samkomulags.

Þá er því mótmælt að fyrrum formaður stefnda hafi haft stöðuumboð, í skilningi 2. mgr. 10. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936, til að ákveða að stefnandi ynni verk og fengi fyrir það greiðslu líkt og haldið er fram. Stefndi flokkist sannanlega sem almenn félagasamtök og er skráður sem slíkt. Ýmis gögn er varða stefnda séu hins vegar skráð opinberri skráningu, sbr. tilkynningu um breytingu á póstfangi stefnda frá 27. febrúar 2013, en sú tilkynning beri það með sér að meirihluti stjórnar skuldbindi félagið en ekki formaður þess. Þá séu lög stefnda jafnframt aðgengileg á heimasíðu stefnda, en þar sé stjórnskipan flokksins rakin í þaula. Þar komi m.a. fram í grein 10.1. að miðstjórn fari með umboð flokksins milli flokksþinga en hins vegar fari framkvæmdastjórn með umboð miðstjórnar milli miðstjórnarfunda, sbr. grein 11.1. Þá sé það rakið að framkvæmdastjórn ráði framkvæmdastjóra sem m.a. ræður annað starfsfólk stefnda og stýrir skrifstofu flokksins og fjármálum hans í samráði við framkvæmdastjórn, sbr. grein 13.2.

Stefndi bendir á að þess sé hvergi getið að formaður stefnda hafi heimild til að skuldbinda flokkinn og að honum hafi aldrei verið veitt slíkt umboð, hvorki stöðu sinnar vegna né samkvæmt sérstakri tilkynningu. Þvert á móti sé það ljóst að forsvarsmenn stefnda veittu fyrrum formanni aldrei heimild til að hefja samstarf við stefnanda. Málefnið hafi aldrei verið tekið fyrir hjá framkvæmdastjórn stefnda og beri fundargerðir það skýrlega með sér. Þá sé ekki í gildi vinnu- eða verksamningur milli stefnda og formanns hans og geti formaður stefnda því ekki skuldbundið stefnda á grundvelli stöðu sinnar. Tilvísun stefnanda til stöðuumboðs fyrrum formanns stefnda, skv. 2. mgr. 10. gr., eigi því ekki við í þessu tilviki. Þá eru fullyrðingar um að formaður hafi ávallt umboð til að skuldbinda stjórnmálaflokk á engu byggðar og haldlausar með öllu.

Loks skal á það bent að stefnandi var ekki grandlaus hvað þetta varðar. Vísast í því sambandi til þess að stefnandi óskaði sérstaklega eftir samþykki framkvæmdastjórnar til að semja um meint verkefni. Gat stefnandi því aldrei gert ráð fyrir því að fyrrum formaður stefnda væri allt að einu bær til að skuldbinda stefnda án þess að hafa fyrir því umboð framkvæmdastjórnar. Hafi stefnandi gert það verði hann að bera hallann af því að hafa ekki tryggt sér samþykki framkvæmdastjórnar líkt og hann óskaði eftir eða gengið úr skugga um umboð viðsemjanda síns, ef einhver var.

Þá telur stefndi umfjöllun stefnanda um ákvörðun verðs fyrir meinta þjónustu á villigötum. Er í þessu sambandi vísað til þess sem ítrekað hefur verið rakið um að ekkert liggi fyrir um að óskað hafi verið eftir þjónustu stefnanda og því síður að greiðsla kæmi fyrir. Þær meginreglur sem stefnandi vísi til varðandi sanngjarnt og eðlilegt verð fyrir þjónustu eigi eðli málsins samkvæmt aðeins við þegar samið hefur verið um kaup á þjónustu.

Þessu til viðbótar bendir stefndi á að hafi stefnandi lagt fram verðáætlun, líkt og haldið er fram, megi verðið ekki fara fram úr þeirri áætlun, sbr. 29. gr. laga um þjónustukaup nr. 42/2000. Líkt og áður hefur verið rakið liggur hins vegar ekkert fyrir um meintan samning, efni hans né verðáætlun. Eðli málsins samkvæmt verður því ekki ákvarðað verð fyrir þjónustu sem ekki var óskað eftir.

Í stefnu er það einnig rakið að þegar við upphaf verks stefnanda hafi komið til umræðu greiðsla kostnaðar fyrir verkið og að forsvarsmaður stefnanda hefði rætt við stefnda um tryggingu fyrir greiðslu. Ítrekar stefndi að hvorki hafi verið samið við stefnanda um kaup á þjónustu né settar nokkrar tryggingar fyrir henni. Stefndi mótmælir þessum staðhæfingum enda ósannaðar með öllu.

Loks mótmælir stefndi því að reikningi stefnanda, hafi ekki verið mótmælt líkt og haldið sé fram. Líkt og gögn málsins beri með sér hafi stefndi allt frá útgáfu reikningsins mótmælt því að hafa óskað eftir þjónustu stefnanda. Þá hafi innborgunarreikningur, sem stefnandi vísar til, aldrei komið inn á borð stefnda og stefndi hafi því ekkert tilefni haft til að hafa í frammi mótmæli, enda ókunnugt um að nokkuð verk væri unnið.

Til vara er á því byggt að kröfum stefnanda sé beint að röngum aðila. Telji stefnandi að samkomulag hafi komist á milli hans og fyrrum formanns stefnda, sem stefndi fullyrði ekkert um, ítrekar stefndi hins vegar að slíkt samkomulag hafi ekki verið gert með samþykki né vitund framkvæmdastjórnar stefnda. Hafnar stefndi því að hann verði látinn bera ábyrgð á kröfum á grundvelli samkomulags sem hann var ekki aðili að og virðist af málatilbúnaði stefnanda hafa komist á í samtali manna á milli. Kröfum stefnanda sé þannig beint að röngum aðila og beri því að sýkna stefnda sökum aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Fari svo ólíklega að ekki verði fallist á sýknukröfu stefnda gerir stefndi þá kröfu til vara að krafa stefnanda verði lækkuð verulega og málskostnaður felldur niður. Málsástæður vegna varakröfu stefnda byggi að meginefninu til á þeim málsástæðum sem hafa nú þegar verið raktar vegna aðalkröfu stefnda. Þannig verði tekið tillit til þess að stefnandi hefur nú þegar fengið greiddan hluta reikningsins, tölvupóst Sigmundar Davíðs frá 22. desember 2016. Þá verði einnig litið til þess að hvergi liggi fyrir hvað um var samið né hvaða greiðsla skyldi koma fyrir. Verði einnig tekið tillit til þess hluta reiknings sem sé vegna húsaleigu en samkvæmt þeim skilyrðum sem stefnandi setti fram í bréfi sínu frá 20. júlí 2016, átti hún að vera innifalin í tímagjaldi stefnanda.

Þá hafnar stefndi því sérstaklega að honum verði gert að greiða fyrir vinnu nokkurs annars en fyrirsvarsmanns stefnanda enda hvergi fjallað um vinnu annarra aðila í skilyrðum hans. Verði litið til þess að meint vinna stefnanda hafi staðið yfir frá í júlí til september 2016 en fyrsti reikningur sem barst stefnda var sendur í desember 2016. Stefnda hafi því verið ómögulegt að vita áætlaðan kostnað við verkið fyrr en löngu síðar og hann hafi ekki verið upplýstur um kostnað við meint verkefni um leið og hann féll til.

Loks mótmælir stefndi upphafstíma dráttarvaxta og krefst stefndi þess að dómari miði dráttarvexti við dómsuppsögu fari svo ólíklega að kröfur stefnanda verði teknar til greina. Vísar stefndi í þessu sambandi til þess að ekkert hafi verið samið um greiðslufyrirkomulag milli aðila. Þá hafi stefnandi fengið greiddar kr. 1.090.000 þann 22. desember 2016 og verði því ekki krafist dráttarvaxta af heildarfjárhæð reikningsins frá eindaga hans. Þá hafi stefndi aldrei samþykkt útgáfu reiknings sem stefnandi vísar til og því verið algjörlega ókunnugt um greiðsluskyldu sína. Telji stefndi því einsýnt að miða beri upphafstíma dráttarvaxta við dómsuppsögu fari svo ólíklega að fallist verði á kröfu stefnanda að hluta eða öllu leyti.

 

IV.             Niðurstaða dómsins

Mál þetta lýtur að því hvort stefnandi, félagið Forysta ehf., eigi heimtingu á rúmlega fimm milljón króna greiðslu frá stefnda Framsóknarflokknum vegna starfa fyrir flokkinn í aðdraganda Alþingiskosninganna árið 2016. Framsóknarflokkurinn hefur mótmælt málatilbúnaði stefnanda og þá vísað til þess að til skuldbindingar af þeim toga sem stefnandi byggir kröfu sína sína á verði aðeins gerðar með samþykki framkvæmdastjórnar flokksins. Slíkt samþykki hafi ekki legið fyrir og raunar hafi þeim einstaklingum sem sátu í framkvæmdastjórn flokksins á umræddum tímum, öðrum en þáverandi formanni, verið alls ókunnugt um að stefnandi starfaði fyrir flokkinn í kosningabaráttu.

Stefnandi hefur vísað til þess í málatilbúnaði sínum í stefnu að gerður hafi verið munnlegur samningur milli aðila um tilhögun starfa hans og að einstaklingar innan Framsóknarflokksins sem verið hafi til þess bærir hafi samþykkt þann samning.

Þegar tekin er afstaða til andstæðra fullyrðinga aðila um atvik málsins að þessu leyti verður í fyrsta lagi að horfa til bréfs Viðars Garðarssonar, framkvæmdastjóra stefnanda, dags. 20. júlí 2016, til framkvæmdastjórnar Framsóknarflokksins, en efni þess er rakið er í kafla II hér að framan. Fyrir liggur að stefnandi lét stefnda bréfið í hendur í janúar 2017 eftir að stefndi óskað hafði verið frekari skýringa á kröfu stefnda.

Í bréfinu er beinlínis óskað eftir því að framkvæmdastjórn flokksins veiti þáverandi formanni heimild til að hefja samstarf við Viðar Garðarsson á þeim forsendum sem lýst er í bréfinu. Þá er þar jafnframt tekið fram að samkomulag það sem lýst er í bréfinu hafi „gildi frá því augnabliki að framkvæmdastjórn og formaður hafa samþykkt skilmála [bréfsins] og þar til að loknum næstu Alþingiskosningum“.

            Af hálfu stefnanda er því haldið fram í stefnu að honum hafi verið gefnar upplýsingar um að vinna hans hafi verið samþykkt á fundi framkvæmdastjórnar Framsóknarflokksins. Stefnandi féll hins vegar frá þessari málsástæðu með aðilaskýrslu Viðars Garðarssonar, framkvæmdastjóra stefnanda, fyrir dóminum, sbr. 1.mgr. 50. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, en þar sagði Viðar að stefnandi hefði aldrei fengið formlegt svar við skriflegu erindi sínu. Sagði í aðilaskýrslu Viðars að Sigmundur Davíð hefði beðið hann um að hefja vinnuna en aldrei sagt honum um það hvernig þetta hafi farið í framkvæmdastjórn.

            Af þeim sökum er enginn ágreiningur um það lengur í málinu að stefnandi fékk ekki samþykki framkvæmdastjórnarinnar með þeim hætti sem óskað var eftir í umræddu bréfi. Bréfið sjálft ber þess hins vegar skýrlega með sér að aðilar málsins gengu báðir út frá því að samþykki framkvæmdastjórnarinnar hafi verið forsenda þess að samkomulag gæti komist á með aðilum um að stefnandi starfaði fyrir flokkinn í tengslum við Alþingiskosningarnar 2016.

            Í ljósi þessa gat fyrirsvarmaður stefnanda ekki gengið þess dulinn að hann vantaði tilskilið samþykki þar til bærra aðila innan Framsóknarflokksins um að starfa fyrir flokkinn á þeim forsendum sem krafa hans lýtur að. Þegar af þeirri ástæðu verður heldur ekki séð að stefnandi hafi getað verið í góðri trú um að Sigmundur Davíð hefði sem formaður flokksins einn umboð til að stofna til þeirra skuldbindinga fyrir hönd flokksins sem krafa stefnanda lýtur að. Hvað sem líður grandsemi stefnanda að þessu leyti verður heldur ekki talið að formaður stefnda hafi á þessum tíma getað skuldbundið flokkinn á eigin spýtur á grundvelli stöðuumboðs samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Ræður þar úrslitum að samkvæmt grein 13.2 í lögum Framsóknarflokksins er það í verkahring framkvæmdastjóra að „stýra skrifstofu flokksins og fjármálum hans í samráði við framkvæmdastjórn“.

Þegar horft er til fyrirvara stefnanda sjálfs um samþykki framkvæmdastjórnar flokksins er enn fremur með engu móti unnt að fallast á þann málatilbúnað að allir helstu fyrirsvarsmenn stefnanda hafi samþykkt með aðgerðum sínum og aðgerðaleysi að stefnandi sinnti því verki sem krafa hans lýtur að. Raunar bar þeim aðilum sem sátu í framkvæmdastjórn stefnda árið 2016 algerlega saman um að þeim hefði verið alls ókunnugt um að stefnandi starfaði með flokknum á umræddum tíma og þeir hafi ekki orðið hans varir. Stefnandi hefur ekki hnekkt þeim vitnisburði. Í því sambandi verður ekki dregin fjöður yfir að í vitnisburði Davíðs Goða Þorvarðarsonar sem fyrirsvarsmaður stefnanda fékk til að gera myndefni fyrir sig í september 2016 kom fram að stefnandi hafi einungis falið Davíð að taka myndir af Sigmundi Davíð og efnið sem hann gerði fyrir stefnanda hafi einungis verið ætlað fyrir kosningabaráttu Sigmundar en ekki Framsóknarflokksins.

Með vísan til þess sem framan er rakið hefur enga þýðingu að fjalla um málsástæður stefnanda um rétt hans til að ákveða verð fyrir þjónustu þar sem ekki er samið um greiðslu fyrir verk fyrirfram, enda verður ekki séð með hvaða móti stefnandi eigi tilkall til þess að ákveða verð fyrir þjónustu gagnvart stefnda ef stefndi hefur ekki skuldbundið sig að kaupa þjónustu af stefnanda. Að þessu virtu verður ekki hjá því komist að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda. Í ljósi þessara úrslita verður stefnanda gert að greiða allan málskostnað stefnda sem telst hæfilega ákveðinn 1.100.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Kjartan Bjarni Björgvinsson héraðsdómari kveður upp þennan dóm að gættu ákvæði 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

 

D Ó M S O R Ð :

       Stefndi, Framsóknarflokkurinn, er sýkn af kröfu stefnanda, Forystu ehf. Stefnandi greiði allan málskostnað stefnda alls 1.100.000 krónur.

 

                                    Kjartan Bjarni Björgvinsson (sign.)