• Lykilorð:
  • Játningarmál
  • Sekt dæmd og fangelsi sem vararefsing
  • Tolllagabrot

 

Ár 2013, mánudaginn 6. maí, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjaness, sem háð er að Fjarðargötu 9, Hafnarfirði, kveðinn upp í máli nr. S-189/2013:

 

Ákæruvaldið

(Hildur Sunna Pálmadóttir ftr.)

gegn

Þórarni Ragnarssyni

(Þórólfur Jónsson hdl.)

svofelldur

d ó m u r :

Mál þetta, sem þingfest var í dag og dómtekið samdægurs, er höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri 2. apríl sl. á hendur Þórarni Ragnarssyni, kt. 000000-0000, Blikanesi 25, Garðabæ, nú búsettum í Lúxemburg,  fyrir tollalagabrot, með því að hafa mánudaginn 9. apríl 2012 eftir komuna til Keflavíkurflugvallar með flugi Fi-455 frá London Heathrow ekki gert tollgæslunni grein fyrir armbandsúri af gerðinni Hublot að verðmæti kr. 2.790.000 krónur, en tollverðir fundu vöruna við leit á ákærða.

            Telst þetta varða við 1. mgr. 170. gr., sbr. 6. gr. og 3. mgr. 27. gr. tollalaga nr. 88/2005, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 630/2008 um ýmis tollfríðindi.

            Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til að sæta upptöku á Hublot armbandsúri sem lagt var hald á, samkvæmt 1. mgr. 181. gr. tollalaga.

Ákærði kom fyrir dóminn við þingfestingu málsins og játaði greiðlega sök. Þá samþykkti hann kröfuna um upptöku. Farið var með málið samkvæmt ákvæðum 164. gr. laga nr. 88/2008 og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og verjanda hans, var gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun refsingar. Ákærði krafðist vægustu refsingar.

Er játning ákærða í samræmi við önnur gögn málsins og verður hann sakfelldur fyrir brot sitt en það er í ákæru rétt fært til refsiákvæða. Ákærði hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar. Ákærða hefur ekki verið gerð refsing áður samkvæmt sakavottorði, sem liggur frammi í málinu.

Er refsing ákærða ákveðin sekt að fjárhæð 712.642 krónur sem ákærða ber að greiða innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa en sæta ella fangelsi í fjörutíu og fimm daga. Verjandi ákærða féll frá kröfu um þóknun sér til handa. Með vísan til 1. mgr. 181. gr. tollalaga nr. 88/2005 er gert upptækt Hublot armbandsúr.

 

            Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D ó m s o r ð :

Ákærði, Þórarinn Ragnarsson, kt. 000000-0000, greiði 712.642 króna sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, en sæti ella fangelsi í  45 daga.

Ákærði sæti upptöku á Hublot armbandsúri.

 

 

 

Ástríður Grímsdóttir