- Aðilaskýrsla
- Atvinnuréttindi
- Kjarasamningur
- Opinberir starfsmenn
- Rannsóknarregla
- Ríkisstarfsmaður
- Skaðabætur
- Stjórnsýsla
- Stjórnvaldsákvörðun
- Sönnun
- Uppsögn
- Veikindaforföll
- Vinnusamningur
D Ó M U R
Héraðsdóms Reykjavíkur miðvikudaginn 19.
desember 2018 í máli nr. E-2891/2017:
Emilía Guðrún Jónsdóttir
(Hilmar Gunnarsson lögmaður)
gegn
íslenska ríkinu
(María Thejll lögmaður)
I.
Dómkröfur o.fl.:
Mál þetta var höfðað 20. september 2017 og dómtekið 23. nóvember 2018. Stefnandi er Emilía Guðrún Jónsdóttir, [...],[...]. Stefndi er íslenska ríkið, Arnarhváli við Lindargötu, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða henni 15.457.630 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 af 14.116.549 krónum frá 22. febrúar 2016 til 2. júní 2016 og með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til 1. október 2016, af 14.683.203 krónum frá þeim degi til 1. nóvember 2016, af 15.249.857 krónum frá þeim degi til 1. desember 2017 og af 15.457.630 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá gerir stefnandi kröfu um málskostnað úr hendi stefnda að skaðlausu samkvæmt mati dómsins.
Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og að hún verði dæmd til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins. Til vara krefst stefndi þess að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og að málskostnaður verði felldur niður.
Dómara var úthlutað málinu 10. janúar 2018 en fram að þeim tíma hafði hann ekki komið að meðferð þess.
II.
Málavextir:
1.
Stefnandi er fyrrum starfsmaður Kvennaskólans í Reykjavík. Hún var fyrst ráðin tímabundið til starfa 18. ágúst 2004 sem umsjónarmaður með húsakynnum skólans. Hinn 1. desember 2005 var gerður við hana ótímabundinn ráðningarsamningur sem var samhljóða fyrri ráðningarsamningi. Eðli og umfangi starfsins var lýst í minnispunktum Ingibjargar Guðmundsdóttur, þáverandi skólameistara, dagsettum 1. desember 2005. Þar greinir meðal annars að umsjónarmaður hafi átt að hafa umsjón með húsakynnum, munum og lóð skólans og annast innkaup á ræstingar- og rekstrarvöru samkvæmt beiðnabók. Umsjónarmaður hafi einnig átt að annast smáviðgerðir og viðhald sem féllu utan verksviðs lögverndaðra starfa, þar með talið að sjá um að skipta um perur, annast viðgerðir á skrám og losa stíflur.
Samkvæmt minnispunktunum hafi umsjónarmaður jafnframt átt að hafa eftirlit með móðurklukkum, loftræsti- og hitunarkerfum, viðvörunarkerfum og slökkvitækjum. Umsjónarmaður hafi auk þess átt að hafa eftirlit með umgengni og áminna ef tilefni væri til, líta eftir húsum skólans kvölds og morgna þá daga sem ekki var skólahald og vera til eftirlits ef samkomur væru utan skólatíma. Þá hafi umsjónarmaður einnig átt að undirbúa húsnæðið fyrir kennslu, próf, fundi o.fl. Þessu til viðbótar hafi umsjónarmaður átt að sjá um snjómokstur og hálkuvarnir í kringum fasteignina, hirða lóð og stéttir í kringum skólahúsin og sjá um að gluggar skólans væru hreinir að utan. Enn fremur hafi umsjónarmaður átt að sjá um önnur verkefni, meðal annars að draga fána að húni á lögboðnum fánadögum, hafa umsjón með óskilamunum í samráði við skrifstofu og vera til aðstoðar á skrifstofu á álagstímum o.fl.
2.
Hinn 23. september 2015 var Hjalti Þór Sveinsson skipaður í embætti skólameistara við Kvennaskólann frá og með 1. janúar 2016. Að sögn stefnda fór hinn nýi skólameistari þegar að kynna sér aðstæður. Taldi skólameistari fljótlega að umsjón með húsum skólans og ræstingar væru ekki í nægilega góðu lagi, auk þess sem ýmislegt í húsunum væri úr sér gengið. Að sögn stefnda taldi skólameistari þörf á því að breyta starfslýsingu umsjónarmanns til samræmis við það sem tíðkaðist hjá öðrum framhaldsskólum. Mörg verkefni blöstu við, að sögn stefnda, sem þurfti að semja um við Ríkiseignir eða átti að vera í verkahring umsjónarmanns. Að því virtu þurfti, að sögn stefnda, að gera miklar breytingar á starfslýsingu og menntun þess starfsmanns sem átti að sinna starfinu. Voru breytingarnar svo miklar að mati stefnda að um hafi verið að ræða nýtt starf eftir breytingu.
Að sögn stefnda voru ræstingar einnig óviðunandi, svo mjög að athugasemdir bárust frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur. Að sögn stefnda var rekstur skólans erfiður um skeið og mat nýs skólameistara var á þá leið að nýta þyrfti fjármuni betur og breyta fyrirkomulagi húsumsjónar og ræstinga. Verksamningi um ræstingar var sagt upp 1. október 2016 og réð skólinn til sín starfsfólk til þeirra starfa frá og með 1. janúar 2017. Að sögn stefnda var markmiðið með breytingunni að bæta þrifin og ná fram fjárhagslegri hagræðingu. Þá var að sögn stefnda útbúin framkvæmdaáætlun fyrir árin 2016 og 2017 þar sem farið var yfir verkefni sem voru framundan o.fl. og var það gert í samvinnu við Ríkiseignir.
Að sögn stefnanda var hinn nýi skólameistari mjög gagnrýninn á störf hennar á þessum tíma og taldi hann vinnuframlag hennar vera of lítið miðað við laun sem hún fékk fyrir starfið. Að hennar sögn lagðist gagnrýni skólameistarans og framkoma hans í hennar garð að öðru leyti þungt á hana og leitaði hún meðal annars til trúnaðarmanns starfsmanna Kvennaskólans og fékk leiðbeiningar í því sambandi.
Stefnandi tók sér veikindaleyfi frá og með 8. febrúar 2016 vegna bakverkja sem að hennar sögn mátti rekja til vinnuslyss sem hún varð fyrir haustið 2011.
3.
Með bréfi 22. febrúar 2016 var stefnanda tilkynnt um þá ákvörðun Kvennaskólans að leggja niður starf hennar í þáverandi mynd og jafnframt um starfslok hennar við skólann af þeim ástæðum. Í bréfinu var meðal annars tekið fram að starfi hennar hefði verið breytt og það framvegis kallað umsjónarmaður fasteigna og að það yrði auglýst laust til umsóknar. Jafnframt var upplýst að gerð yrði krafa um að sá sem yrði ráðinn uppfyllti hæfniskröfur á borð við iðnmenntun. Stefnanda var veittur sex mánaða uppsagnarréttur án þess að óskað væri eftir vinnuframlagi frá henni í uppsagnarfresti. Í bréfinu var vísað til kjarasamnings SFR – stéttarfélags í almannaþjónustu og fjármála- og efnahagsráðherra vegna ríkissjóðs, ráðningarsamnings frá 18. ágúst 2004 og 43. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Að sögn stefnda var veikindaleyfi stefnanda ástæða þess að ekki var óskað eftir vinnuframlagi frá henni í uppsagnarfresti. Veikindaleyfið var frá og með 8. febrúar 2016 en samkvæmt læknisvottorði var gert ráð fyrir að leyfið myndi vara í að minnsta kosti einn mánuð. Að sögn stefnda var talið mikilvægt að ráða í nýtt starf sem allra fyrst vegna ástands bygginga og þar sem ekki var neinn afleysingamaður, eins og hefði þurft. Að sögn stefnda kölluðu aðstæður í skólanum á skjótar aðgerðir. Samhliða tilkynningu um starfslok var stefnandi upplýst um rétt til rökstuðnings, sbr. 1. málsl. 2. mgr. 44. gr. laga nr. 70/1996.
Að sögn stefnanda gat hún ekki skilið ákvörðun Kvennaskólans um að leggja niður starfið. Að hennar mati var augljóst að starfinu yrði áfram sinnt og að niðurlagning þess væri tilbúningur af hálfu skólans. Að sögn stefnanda taldi hún sig jafnframt geta sinnt starfinu áfram þrátt fyrir auknar hæfniskröfur. Hún hafi verið búin að starfa við rekstur fasteigna og ræstingar frá árinu 1995 og búin að ljúka fjölmörgum námskeiðum fyrir umsjónarmenn fasteigna. Á þeim námskeiðum hafi verið farið yfir öll atriði sem tengdust viðhaldi og umsjón fasteigna, svo sem hönnun, tækni og öryggi, gæðastjórnun, undirbúning breytinga, samningatækni, skemmdir o.fl. Þá hefði Kvennaskólanum, að mati stefnanda, verið unnt að hafa samband við Ríkiseignir, sem umsýsluaðila fasteigna skólans, um atriði varðandi daglega umsjón og viðhald á fasteignunum.
4.
Stefnandi óskaði ekki eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni en leitaði þess í stað til stéttarfélags síns, SFR, sem fundaði með skólameistara 9. mars 2016. Í minnisblaði skólameistara, sem tekið var saman vegna fundarins, greinir meðal annars að eftir að hann kom til starfa í Kvennaskólanum hefði honum strax orðið ljóst að viðhaldi eigna, umhirðu og ræstingum væri ábótavant. Fljótlega hefði komið í ljós að starfslýsing og verksvið umsjónarmanns fasteigna væri mun þrengra en skólameistarinn hefði átt að venjast úr fyrri störfum sínum sem stjórnandi annarra menntastofnana í langan tíma. Skólameistari hefði metið það svo að aldrei kæmi annað til greina en að umsjónarmaður fasteigna væri menntaður og reyndur iðnaðarmaður. Í Kvennaskólanum væri meiri þörf á slíku vegna aldurs og staðsetningar bygginga og umgengni um þær. Af hálfu skólans hefði hins vegar ekki tíðkast að gera slíkar hæfiskröfur til umsjónarmanns. Húsakynni skólans væru þrjú gömul hús sem krefðust mikillar umsjár og stöðugs viðhalds. Skólameistari hefði fljótt gert sér það ljóst að breyta þyrfti starfi umsjónarmanns og að breytingin yrði svo mikil að um nýtt starf væri að ræða með auknum kröfum til þess sem því sinnti. Umsjónarmaður fasteigna þyrfti að búa yfir menntun og innsæi reynds iðnaðarmanns, húsasmiðs eða rafvirkja, og hann þyrfti að vera í nánu faglegu sambandi við tengilið Ríkiseigna. Þá þyrfti umsjónarmaður að annast ýmislegt viðhald sjálfur og sjá til þess að slík verk væru falin öðrum þegar þannig stæði á. Umsjónarmaður þyrfti að gera áætlanir um viðgerðir, endurbætur, viðhald og framkvæmdir vegna húseigna og lóðar. Einnig þyrfti umsjónarmaður að hafa eftirlit með notkun rafmagns og hita og stuðla að því að það nýttist sem best. Enn fremur væri fyrirhugað að setja upp nýtt tölvustýrt húsumsjónarkerfi á næstu tveimur árum í samvinnu við Ríkiseignir.
Í minnisblaðinu var enn fremur tekið fram að umsjónarmaður fasteigna þyrfti að þjónusta skjávarpa og hafa eftirlit með tækjum en það starf hefði áður verið hluti af starfi faktors við skólann en það starf hefði verið verið lagt niður tveimur árum áður. Umsjónarmaður þyrfti að hafa tölvukunnáttu. Bæta þyrfti ræstingar og gert væri ráð fyrir því að framvegis yrði það á ábyrgð umsjónarmanns fasteigna að sjá til þess að ræstingarnar væru í lagi og að hann yrði milliliður skólans og ræstingarfyrirtækis og starfsmanna á vegum þess fyrirtækis. Þá þyrfti umsjónarmaðurinn að geta gert tillögur að nýju fyrirkomulagi ræstinga í samráði við skólameistara og meta þörfina á því. Skólinn myndi jafnvel segja upp samningi við ræstingarfyrirtæki og ráða sjálfur fólk til þeirra starfa og umsjónarmanni fasteigna yrði þá ætlað að stjórna ræstingum. Ekki væri talin ástæða til þess að stefnandi héldi áfram að starfa fyrir skólann þar sem reiknað væri með því að nýr starfsmaður hæfi störf 1. apríl 2016 samkvæmt nýrri starfslýsingu. Því væri ekki um annað að ræða en að segja stefnanda upp störfum og ráða umsjónarmann fasteigna til starfa í samræmi við nýja starfslýsingu og kröfur um hæfi. Mikið væri í húfi til þess að bæta ástandið og þjónustuna fyrir haustið. Breytingin væri metin svo að hún ætti eftir að skila verulegri hagræðingu og betri þjónustu þó að hún myndi kosta laun fyrrum umsjónarmanns í sex mánaða uppsagnarfresti. Tekið var fram í minnisblaðinu að ekkert annað starf væri í boði við skólann og að umsjónarmaður fasteigna yrði ekki hærra launaður en fyrrverandi umsjónarmaður nema að því leyti sem taka þyrfti tillit til menntunar. Þá var enn fremur tekið fram að ákvörðun skólameistara um að leggja niður starf stefnanda og stofnun nýs starfs umsjónarmanns fasteigna hefði verið tekin samkvæmt þeirri meginskyldu hans sem forstöðumanns ríkisstofnunar að nýta fjármuni á sem árangursríkastan hátt, sbr. 2. mgr. 38. gr. laga nr. 70/1996.
5.
Að sögn stefnanda stóð hún sig vel í starfi og höfðu yfirmenn hennar verið ánægðir með störf hennar, sbr. skýrslu fyrrverandi skólameistara dagsetta 13. mars 2015 um starfsþróunar- og frammistöðusamtal við stefnanda 27. febrúar sama ár. Að sögn stefnanda var hún jafnframt ánægð í starfi og voru engar athugasemdir gerðar við það hvernig hún sinnti starfinu, hvorki varðandi viðhald og umhirðu eigna né heldur varðandi fyrirkomulag ræstinga. Á þessu hafi hins vegar orðið breyting eftir að nýr skólameistari kom til starfa. Að sögn stefnanda komu aldrei upp tilvik sem sýndu fram á nauðsyn þess að umsjónarmaður fasteigna væri iðnmenntaður. Að þessu virtu taldi stefnandi að fram komnar skýringar Kvennaskólans bæru það með sér að uppsögnin væri dulbúin sem niðurlagning starfs.
Með bréfi lögmanns stefnanda 2. maí 2016 til Kvennaskólans var gerð krafa um skaðabætur vegna þeirrar ákvörðunar að segja henni upp störfum og var sú fjárkrafa studd rökum, meðal annars þeim að Kvennaskólinn hefði getað breytt starfi stefnanda í samræmi við heimild samkvæmt 19. gr. laga nr. 70/1996. Þá var einnig vísað til þess að uppsögnin hefði verið sérlega meiðandi. Með bréfi skólameistara Kvennaskólans 11. maí 2016 var kröfunni hafnað og jafnframt tekið fram að 19. gr. laga nr. 70/1996 hefði ekki átt við. Því til skýringar var vísað til þess að breytingar á starfi stefnanda hefðu verið svo umfangsmiklar að um nýtt starf væri að ræða eftir þær. Þá var því hafnað að menntun stefnanda yrði jafnað við sveinspróf og starfsreynslu í löggiltri iðngrein. Bréfinu fylgdi meðal annars rökstuðningur fyrir uppsögninni og lýsing á nýju starfi umsjónarmanns fasteigna.
Í rökstuðningi skólameistarans komu í meginatriðum fram sömu sjónarmið og í fyrrgreindu minnisblaði vegna fundar hans með fulltrúa stéttarfélags stefnanda 9. mars 2015. Sérstaklega var tekið fram að ákjósanlegt væri að umsjónarmaður fasteigna hefði sveinspróf í rafvirkjun, auk starfsreynslu á því sviði, en slíkt hefði margvíslegt hagræði í för með sér, meðal annars varðandi daglegt viðhald og rekstur raf- og tölvubúnaðar skólans sem krefðist sífelldrar og síaukinnar vöktunar. Þá væru breytingar á starfinu meðal annars þær að meiri kröfur yrðu gerðar til þess að viðkomandi gæti annast almennt viðhald á breiðum grundvelli. Umsjónarmaðurinn þyrfti að hafa góða þekkingu til þess að meta ástand á húsum og tækjabúnaði hverju sinni og hafa getu til að meta nauðsyn viðhalds og viðgerða. Vísað var til þess sem áður greinir varðandi breytingar á fyrirkomulagi ræstinga og að gert væri ráð fyrir því að frá áramótum 2017 færi umsjónarmaður fasteigna með mannaforráð á þeim vettvangi í stað þess að kaupa ræstingu frá ræstingarfyrirtæki. Þá yrðu gerðar kröfur um áætlanagerð á sviði viðhalds og endurbóta og náið samráð við skólameistara og starfsmann Ríkiseigna. Einnig þyrfti umsjónarmaður fasteigna að skila vikulegri skýrslu til skólameistara um verkefni síðustu viku og stöðu þeirra. Þá þyrfti umsjónarmaður fasteigna að hafa fasta viðveru í öllum húsum skólans alla virka daga og eiga frumkvæði að greiningu á þjónustuþáttum tengdum rekstri og þjónustu við húsnæðið, svo sem notkun rafmagns og hita, ræstingu og öðrum þáttum sem vægju þungt í rekstrarkostnaði. Að auki þyrfti hann að setja sig inn í nýtt húsumsjónarkerfi sem komið yrði á laggirnar í samvinnu við Ríkiseignir, en slíkt kerfi væri hugsað til þess að auka öryggi og hagræðingu í rekstri húsnæðis skólans. Gert væri ráð fyrir því að umsjónarmaður hefði eftirlit með framkvæmdum vegna lóðar og húsnæðis í samráði við skólameistara og tengilið Ríkiseigna. Einnig væri gert ráð fyrir því að hann bæri ábyrgð á að verkefni sem féllu undir hann væru unnin samviskusamlega og innan settra tímamarka þannig að skólinn gæti hverju sinni veitt notendum sínum sem besta þjónustu. Þá skipulegði hann framkvæmdatíma einstakra verkefna í samráði við skólameistara og tengilið Ríkiseigna.
Stefnandi og Hjalti Þór Sveinsson skólameistari gáfu aðilaskýrslu við aðalmeðferð. Þá gaf skýrslu við aðalmeðferð vitnið Ólafur Óskar Óskarsson, núverandi umsjónarmaður fasteigna Kvennaskólans.
III.
Helstu
málsástæður og lagarök stefnanda:
Dómkrafa stefnanda er tvíþætt. Annars vegar er krafa um vangoldin veikindalaun samkvæmt kjarasamningi SFR og stefnda. Hins vegar er svo krafa um skaða- og miskabætur vegna ólögmætrar uppsagnar úr starfi.
Krafa stefnanda um vangoldin veikindalaun er reist á grein 12.2.1 í fyrrgreindum kjarasamningi. Stefnandi vísar til þess að hún hafi tekið sér veikindaleyfi frá 8. febrúar 2016 til 1. febrúar 2017. Á því tímamarki hafi stefnandi verið búin að starfa í meira en tólf ár hjá stefnda, nánar tiltekið í fjögur ár hjá Háskóla Íslands og rúmlega tólf ár hjá Kvennaskólanum. Stefnandi hafi því átt rétt á að halda launum í 273 daga samkvæmt greinum 12.2.6–12.2.7 í kjarasamningnum, nánar tiltekið á tímabili frá 8. febrúar 2016 til og með 11. nóvember sama ár. Stefndi hafi hins vegar hætt að greiða stefnanda áunnin laun í veikindum eftir ágústmánuð 2016. Stefndi hafi borið því við að ekki þyrfti að greiða frekari veikindalaun þar sem búið væri að leggja starf stefnanda niður.
Stefnandi byggir á því að hún eigi rétt á umsömdum veikindalaunum óháð því hvort starf hennar hafi verið lagt niður. Um áunninn rétt sé að ræða sem verði hvorki skertur með uppsögn né því að leggja starf niður. Að því virtu geri stefnandi kröfu um veikindalaun fyrir mánuðina september og október árið 2016, auk ellefu daga í nóvember sama ár. Krafan sundurliðist með þeim hætti að krafist sé umsaminna veikindalauna að fjárhæð [...] krónur fyrir hvorn mánuð og [...] krónur fyrir nóvembermánuð ([...] ÷ 30 = 18.888 x 11 = [...]), samtals [...] krónu. Um upphafsdag dráttarvaxta vísar stefnandi til 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001. Stefnandi tekur fram að veikindalaun hennar vegna septembermánaðar hafi fallið í gjalddaga 1. október 2016, laun vegna októbermánaðar hafi fallið í gjalddaga 1. nóvember sama ár og laun vegna nóvembermánaðar hafi fallið í gjalddaga í desember sama ár.
Stefnandi byggir skaðabótakröfu sína á því að ákvörðun stefnda um að leggja niður starf hennar hafi verið ólögmæt. Skilyrði sakarreglunnar um ólögmæta háttsemi sé uppfyllt í málinu. Stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna uppsagnarinnar í formi tekjumissis þar sem hún hafi eftir uppsögnina ekki átt þess kost að afla sér sambærilegs starfs og hún hafði gegnt hjá Kvennaskólanum. Við mat á ólögmæti ákvörðunarinnar verði að líta til þess að hún hafi leitt til starfsloka stefnanda en ákvörðun um lausn frá störfum sé stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ákvörðunin hafi því þurft að vera í samræmi við skráðar og óskráðar reglur stjórnsýsluréttar.
Nánar tiltekið byggir stefnandi skaðabótakröfuna í fyrsta lagi á því að stefndi hafi ekki virt meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 12. gr. laga nr. 37/1993, við þá ákvörðun að leggja niður starf hennar. Reglan feli í sér að stjórnvald skuli aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar því markmiði sem að er stefnt verði ekki náð með öðru og vægara móti. Í fyrirliggjandi gögnum málsins sé ekkert sem bendi til þess að farið hafi fram mat á því af hálfu stefnda hvort mögulegt hefði verið að beita vægara úrræði en að leggja niður starf stefnanda til að ná fram þeim markmiðum sem að var stefnt. Þá mótmælir stefnandi því sem röngu að nauðsynlegt hafi verið að leggja niður starf hennar. Stefndi hefði hæglega getað gert breytingar á starfi stefnanda eða breytt störfum annarra starfsmanna í stað þess að leggja starfið niður.
Í öðru lagi byggir skaðabótakrafan á því að ákvörðun stefnda hafi brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 10. gr. laga nr. 37/1993. Reglan feli í sér að stjórnvald skuli að eigin frumkvæði sjá til þess að málsatvik séu nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Stefnandi byggir á því að stefndi hafi hvorki rannsakað starf stefnanda né heldur hvort hún hefði getað tekið að sér þau verkefni sem umsjónarmaður fasteigna hafi átt að sinna. Þar af leiðandi hafi ekki verið rannsakað sérstaklega hvort stefnandi gæti tekið að sér aukin verkefni áður en gripið var til þess ráðs að leggja starf hennar niður. Stefnandi telur að hefði stefndi uppfyllt rannsóknarskyldu sína hefði honum orðið ljóst að hún væri fær um að sinna verkefnunum með fullnægjandi hætti, enda hafi hún verið með margra ára starfsreynslu af ræstingum og umsjón fasteigna. Þá hafi ekki verið rannsakað sérstaklega hvort tilefni væri til að leggja niður önnur störf en starf stefnanda.
Í þriðja lagi byggist krafa um skaðabætur á því að stefndi hafi ekki virt réttmætisreglu stjórnsýsluréttar við þá ákvörðun að leggja niður starfið. Reglan kveði á um að ákvarðanir stefnda verði að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum. Stefnandi byggir á því að ekki hafi verið nauðsynlegt að gera breytingar á starfi hennar, ekki síst í ljósi þess að Ríkiseignir beri ábyrgð á viðhaldi Kvennaskólans. Þá byggir stefnandi á því að hún hafi sinnt þeim verkefnum sem nú séu á hendi umsjónarmanns fasteigna og hún hefði getað sinnt þeim verkefnum áfram. Af þessum ástæðum sé ljóst að ákvörðun skólameistara hafi verið reist á ómálefnalegum sjónarmiðum.
Stefnandi telur að við mat á fjártjóni hennar beri meðal annars að hafa í huga aldur hennar, kyn, menntun og starfsreynslu. Atvinnumöguleikar stefnanda séu því miður fáir en henni hafi ekki verið unnt að afla sér sambærilegs starfs og hjá stefnda, þrátt fyrir ítrekaða atvinnuleit, og sé hún enn atvinnulaus. Við mat á tjóninu eigi jafnframt að hafa í huga að stefnandi hafi notið réttinda samkvæmt almennum reglum stjórnsýsluréttar og lögum nr. 37/1993. Að því virtu hafi hún mátt vænta þess að halda starfi sínu til venjulegra starfsloka opinbers starfsmanns, svo lengi sem starfseminni yrði haldið áfram á vegum stefnda og hún gerðist ekki brotleg í starfi.
Að öllu framangreindu virtu sé krafa stefnanda um hæfilegar skaðabætur vegna fjártjóns miðuð við tvöföld árslaun, samtals [...] krónur. Miðað sé við að mánaðarlaun stefnanda hafi að meðaltali verið [...] krónur síðasta starfsárið hennar hjá Kvennaskólanum. Krafan sé sett fram á hefðbundinn hátt í málum sem þessum en samkvæmt dómafordæmum Hæstaréttar Íslands beri að ákvarða fjártjónsbætur að álitum með tilliti til allra atvika en með það að leiðarljósi að tjónþoli fái tjón sitt bætt.
Stefnandi tekur fram að krafa hennar um vexti frá 22. febrúar 2016 byggist á 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001. Upphafstími þeirra vaxta eigi að miðast við að hið bótaskylda atvik hafi átt sér stað þann dag sem hin ólögmæta ákvörðun var tilkynnt stefnanda. Krafa um dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá og með 2. júní 2016 sé reist á 2. mgr. 5. gr. laganna en í því sambandi tekur stefnandi fram að kröfubréf hafi verið sent til Kvennaskólans 2. maí 2016.
Stefnandi tekur fram að krafa hennar um miskabætur styðjist við 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Stefnandi byggir á því að aðferðin sem hafi verið viðhöfð þegar stefnanda var tilkynnt um að búið væri að leggja niður starf hennar hafi verið sérstaklega meiðandi, einkum í ljósi þess að stefnandi hafi verið búin að starfa í tólf ár hjá stefnda án athugasemda. Stefnanda hafi ekki verið gefið færi á því að vinna út umsaminn uppsagnarfrest. Út á við beri uppsögnin þess merki að stefnandi hafi gerst sek um brot á vinnuskyldum sínum sem réttlætt hafi fyrirvaralausan brottrekstur af vinnustað. Með vísan til framangreinds og í ljósi þess að uppsögn stefnanda hafi brotið gegn málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttar byggir stefnandi á því að uppfyllt séu skilyrði 26. gr. laga nr. 50/1993. Að þessu virtu telur stefnandi að krafa hennar um miskabætur að fjárhæð 1.000.000 króna sé hófleg.
Um málskostnaðarkröfu vísar
stefnandi til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefnandi tekur
fram að hún sé ekki virðisaukaskattsskyldur aðili og eignist því ekki
frádráttarrétt við greiðslu slíks skatts. Varðandi aðild stefnda vísar stefnandi
til þess að Kvennaskólinn sé rekinn á ábyrgð og kostnað stefnda.
Helstu
málsástæður og lagarök stefnda:
Stefndi mótmælir málatilbúnaði
og kröfum stefnanda. Stefndi hafnar því að með því að leggja niður starf
umsjónarmanns hafi stefnanda verið sagt upp störfum með ólögmætum hætti.
Stefndi byggir á því að öll meðferð málsins hafi verið í samræmi við lög. Að
því virtu krefst stefndi sýknu af kröfum stefnanda.
Stefndi mótmælir túlkun
stefnanda á kjarasamningi SFR og fjármála- og efnahagsráðherra sem
rangri varðandi kröfu um vangoldin veikindalaun. Stefndi vísar til þess að í
gr. 12.2.1 (3. mgr.) sé sérstaklega tekið fram að laun í veikindum greiðist
ekki lengur en ráðningu sé ætlað að standa. Að því virtu sé ljóst að stefnandi
geti ekki átt rétt á launum í veikindum eftir að ráðningarsambandi er slitið.
Stefndi ítrekar einnig að breytingar á starfi umsjónarmanns, sem leiddu til
niðurlagningar þess, séu ekki í neinum tengslum við veikindi stefnanda.
Stefnandi geti því ekki gert kröfu um betri réttindi í uppsagnarfresti en aðrir
starfsmenn á þeirri forsendu að hún hafi verið óvinnufær vegna veikinda. Að
þessu virtu hafnar stefndi kröfu stefnanda um vangoldin veikindalaun sem
rangri. Þá vísar stefndi til þess að engin gögn liggi fyrir því til stuðnings,
sem fram komi á læknisvottorðum, að stefnandi hafi verið óvinnufær frá 8.
febrúar 2016 til 8. mars sama ár vegna sjúkdóms og vinnuslyss sem hafi átt sér
stað fimm árum áður, nánar tiltekið haustið 2011. Stefndi bendir á að ekki
liggi fyrir neinar tilkynningar til Vinnueftirlits ríkisins og þá hafi
stefnandi ekki lagt fram nein gögn um óvinnufærni í framhaldi af slysi árið
2011. Að mati stefnda sé því ósannað að óvinnufærni stefnanda í febrúar 2016
stafi af meintu slysi.
Stefndi byggir á því að honum
hafi verið heimilt að gera breytingar á störfum og verksviði stefnanda. Í
því sambandi vísar stefndi til almenns stjórnunarréttar og 19. gr., sbr. 2.
mgr. 38. gr., laga nr. 70/1996. Stefndi tekur fram að skólameistari hafi lagt
mat á aðstæður og breytingar, áður en ákvörðun var tekin um að leggja niður
starfið, til samræmis við auknar kröfur sem hann hafi talið rétt að gera svo
verkefnum umsjónarmanns fasteigna væri sinnt með faglegri hætti.
Skólameistari hafi í því sambandi leitað til kjara- og mannauðssýslu ríkisins
með tölvuskeyti 18. febrúar 2016 og farið yfir þau atriði sem hann hafi talið
rétt að breyta og ástæður að baki því. Að mati stefnda sé ljóst að stefnandi
hafi verið sú eina sem hafi sinnt starfi umsjónarmanns við skólann og því hafi
aðeins verið unnt að gera breytingar á hennar starfi en ekki störfum
annarra starfsmanna. Þá hafi ekki heldur verið unnt að gera breytingar á
starfi stefnanda innan heimildar samkvæmt 19. gr. laga nr. 70/1996 svo hún
gæti haldið starfinu. Þessu til viðbótar hafi ekki verið laust starf við
Kvennaskólann til að bjóða stefnanda. Að framangreindu virtu byggir stefndi
á því að gætt hafi verið að rannsóknarreglu og meðalhófsreglu
stjórnsýsluréttar áður en ákvörðun var tekin um breytingu á starfi stefnanda.
Breytingin hafi verið svo mikil að jafna megi til þess að starfið væri lagt
niður.
Stefndi hafni þeirri
fullyrðingu sem fram kemur í stefnu að ekki hafi verið rannsakað sérstaklega
hvort tilefni væri til að leggja niður önnur störf en starf stefnanda. Stefndi
bendir á í þessu sambandi að starf annars tveggja bókasafnsfræðinga við
skólann hafi verið lagt niður í hagræðingarskyni og viðkomandi starfsmanni
verið sagt upp frá og með 1. október 2016. Niðurlagning starfs umsjónarmanns
og stofnun nýs starfs umsjónarmanns fasteigna hafi verið liður í hagræðingu
í rekstri skólans á breiðum grunni, auk uppsagnar á samningi við ræstingarfyrirtæki.
Stefndi hafnar því að
stefnandi hefði getað sinnt starfi umsjónarmanns þrátt fyrir auknar
hæfniskröfur. Þá hafnar stefndi því að námskeiðum fyrir umsjónarmenn fasteigna,
sem stefnandi hafi lokið á árum áður, verði jafnað til formlegs viðurkennds
iðnnáms. Stefndi tekur hins vegar undir með stefnanda, í ljósi
málsmeðferðarreglna stjórnsýsluréttar, að hugsanlega hefði átt að veita
stefnanda tækifæri til að tjá sig um væntanlegar breytingar áður en þær komu
til framkvæmda. Slíkur andmælaréttur hefði þó ekki getað leitt til þess að rétt
hefði verið af stefnda að bjóða stefnanda hið nýja starf. Af framlögðum gögnum
frá stefnanda sé ljóst að þó að hún hefði lokið námskeiðum þá hefði hún ekki
uppfyllt þær auknu hæfniskröfur sem stefndi gerði til rækslu hins nýja starfs.
Að því virtu hafi stefndi ekki getað hvatt hana til að sækja um starfið. Þá
hefði stefnda í raun verið óheimilt að ráða hana til starfsins að teknu tilliti
til meginreglunnar um að stjórnvaldi beri að ráða hæfasta einstaklinginn til
starfa og eðli málsins samkvæmt eingöngu þá sem uppfylla áskildar hæfnikröfur
til óaðfinnanlegrar rækslu starfsins, sbr. 5. tölulið 1. mgr. 6. gr. laga
nr. 70/1996. Einnig bendir stefndi á að stefnandi hafi ekki verið meðal
umsækjanda um breytt starf umsjónarmanns. Að mati stefnda hafi því ekki verið
um það að ræða að fara vægari leið en þá sem farin var til að ná því markmiði
að efla starf umsjónarmanns fasteigna. Stefndi hafi lagt hlutlaust mat á
starfsskyldur stefnanda yfir þriggja mánaða tímabil og komist að þeirri
niðurstöðu að rétt væri að gera auknar kröfur um iðnmenntun og tölvufærni svo
hægt væri að sinna viðhaldi og umsjón fasteigna skólans með viðhlítandi hætti
og í samræmi við þau verkefni sem framundan voru.
Stefndi mótmælir þeim staðhæfingum
stefnanda sem ósönnuðum að skólameistari Kvennaskólans, Hjalti Jón
Sveinsson, hafi frá þeim tíma er hann var skipaður í það embætti verið
gagnrýninn á störf stefnanda og að sú gagnrýni hafi lagst mjög þungt á
stefnanda. Þá bendir stefndi á að stefnandi hafi engan reka gert að því að
leggja fram gögn máli sínu til stuðnings, þó að henni hafi verið leiðbeint af
stéttarfélagi sínu um að skrá niður atvik sem talist gætu til gagnrýni. Þessu
til viðbótar hafi engin gögn verið lögð fram sem styðji þá fullyrðingu
stefnanda að hún hafi orðið fyrir andlegum skaða af ómálefnalegri gagnrýni
skólameistara. Þá áréttar stefndi að í því að leggja niður starf stefnanda
hafi ekki falist neinar ávirðingar um störf hennar og sé þeim ásökunum
hafnað.
Stefndi hafnar einnig
fullyrðingum stefnanda um að réttmætisregla stjórnsýsluréttar hafi ekki verið
virt. Stefndi tekur fram að húsnæði skólans hafi verið mjög komið til ára sinna
og það krafist mikils og vandaðs eftirlits, viðhalds og ræstinga. Stefndi vísar
til þess að fyrir liggi það mat skólameistara Kvennaskólans að brýnt hafi verið
að breyta starfi umsjónarmanns þar sem hæfniskröfur og verkefni hafi ekki tryggt
nauðsynleg gæði viðhalds og umsjónar húsnæðisins, sér í lagi í ljósi aldurs
þess og viðkvæmrar stöðu. Stefndi byggir á því að rétt hafi verið að breyta
starfi umsjónarmanns og búa til nýtt starf sem gerði annars konar kröfu um
hæfi, nánar tiltekið að starfsmaðurinn þyrfti að vera iðnmenntaður. Hæfni
af því tagi hafi verið metin nauðsynleg til þess að unnt væri að leysa
starfið af hendi á fullnægjandi hátt í samræmi við áskildar kröfur um skólahald
og rekstur. Slík breyting hafi haft margvíslega hagræðingu í för með sér.
Þegar bornar séu saman lýsingar á því starfi sem stefnandi gegndi og hinu nýja
starfi megi sjá að í hinu nýja starfi séu gerðar meiri kröfur til þess að viðkomandi
starfsmaður geti annast almennt viðhald á breiðum grundvelli og hafi góða þekkingu
til þess að meta ástandið á húsum skólans og tækjabúnaði hverju sinni. Í samræmi
við ný verkefni beri umsjónarmaður fasteigna nú ábyrgð á ræstingu og samskiptum
við ræstingarfólk og stjórnendur ræstingaraðila og hafi umsjón með áætlanagerð
um viðhald og endurbætur í nánu samráði við Ríkiseignir. Að mati stefnda séu
skyldur leigutaka hjá Ríkiseignum, sem fram koma í verklagsreglum þeirrar
stofnunar, þess eðlis að rétt sé að þær séu á hendi iðnmenntaðra og í samræmi
við kröfur í gildandi byggingarreglugerðum hvers tíma, meðal annars þegar
litið sé til brunavarna. Fyrrgreindar breytingar á hæfniskröfum hafi verið
gerðar með hliðsjón af ástandi húsa skólans, nýjum verkefnum við umsjón
tölvustýrðs húsumsjónarkerfis, skjávarpa og tækja, auk breyttrar framkvæmdar
á ræstingum. Stefndi byggir á því að þær ástæður séu málefnalegar og rökstuddar
og muni leiða til aukinnar hagkvæmni til lengri tíma litið. Þá séu þær einnig
nauðsynlegar svo stefndi geti sinnt skyldum sínum sem forstöðumaður samkvæmt
38. gr. laga nr. 70/1996 um árangursríka nýtingu fjármagns. Að öllu þessu
virtu hafnar stefndi þeim fullyrðingum að ákvörðun um breytingar sem
leiddu til þess að starf umsjónarmanns var lagt niður hafi verið ómálefnalegar
og óréttmætar.
Stefndi mótmælir kröfu stefnanda
um skaðabætur og vísar til þess að ástæður þess að starf stefnanda var lagt af hafi
verið lögmætar og málefnalegar. Þá beri stefnanda að takmarka tjón sitt en ekki
hafi verið sýnt fram á að þess hafi verið gætt af hennar hálfu. Stefndi bendir
á að stefnandi hafi ekki lagt fram nein gögn því til staðfestingar að
ógerningur hafi verið fyrir hana að fá vinnu við hæfi, en atvinnuástand hafi
almennt verið gott undanfarið. Þá mótmælir stefndi fjárhæð bótakröfunnar sem
of hárri.
Þessu til viðbótar mótmælir
stefndi miskabótakröfu stefnanda og telur hann engar forsendur til þess að
fallast á slíka kröfu. Þá hafnar stefndi öllum fullyrðingum sem standi til
grundvallar þeirri kröfu. Stefndi bendir einnig á að stefnandi hafi verið í
veikindaleyfi og óvinnufær með öllu á þeim tíma þegar starfi hennar var
breytt. Samkvæmt bréfi skólans til stefnanda hafi hún verið upplýst um að gert
væri ráð fyrir að ráðið yrði í hið nýja og breytta starf frá og með 1. apríl
2016. Á þeim tíma, 22. febrúar, hafi stefnandi hins vegar verið óvinnufær
samkvæmt læknisvottorði til 8. mars og óvíst hafi verið um endurkomu hennar. Í
því ljósi og í samræmi við kröfuna um meðalhóf hafi ekki þótt rétt að krefja
stefnanda um að vinna hluta uppsagnarfrestsins. Hafi hún því verið leyst undan
starfsskyldum sínum. Uppsagnarfrestur hafi engu að síður verið greiddur að
fullu og stefnandi hafi því verið eins sett og hún hefði unnið uppsagnarfrestinn.
Ekki hafi því verið um að ræða fyrirvaralausa brottvikningu. Þá telur stefndi
rétt að vekja athygli á þeirri staðreynd, sem stefnandi vottar sjálf með
framlögðum læknisvottorðum, að hún var með öllu óvinnufær frá 8. febrúar
2016 til 1. febrúar 2017. Að því virtu hafi stefnandi verið líkamlega ófær um
að vinna uppsagnarfrest og geti hún því ekki sett það fram sem réttmæta kröfu
fyrir greiðslu miskabóta. Í ákvörðun stefnda hafi því ekki falist ólögmæt
meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu stefnanda í skilningi 26. gr.
laga nr. 50/1993.
Stefndi vísar auk þess til
skilyrða fyrir miskabótum samkvæmt b-lið 1. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1993, sbr.
13. gr. laga nr. 36/1999. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr.
50/1993 komi fram að í skilyrði ákvæðisins um ólögmæta meingerð felist að um
sé að ræða saknæma hegðun en gáleysi myndi þó þurfa að vera verulegt til
þess að tjónsatvik yrði talið falla þar undir. Þá telur stefndi að ráða megi af
dómafordæmum Hæstaréttar Íslands að lægsta stig gáleysis uppfylli ekki
kröfu þessa ákvæðis um ólögmæta meingerð. Í þessu sambandi leggur stefndi
áherslu á að sú aðferð sem viðhöfð hafi verið við að tilkynna stefnanda að
starfið yrði lagt niður nægi ekki til, enda hafi umrædd ákvörðun og öll málsmeðferðin
í tengslum við hana verið í fullu samræmi við lög.
Stefndi mótmælir einnig
fjárhæð miskabótakröfu sem of hárri og að hún samrýmist ekki dómaframkvæmd.
Verði hins vegar talið að stefnandi eigi rétt til miskabóta þá sé til vara
krafist verulegrar lækkunar á miskabótakröfunni. Þá mótmælir stefndi einnig
kröfum stefnanda um vexti og dráttarvexti, einkum upphafstíma.
Að öllu framangreindu virtu
áréttar stefndi mótmæli við kröfum stefnanda og byggir á því að engar forsendur
séu til þess að fallast á þær. Þá vekur stefndi athygli á ósamræmi milli
krafna sem settar voru fram í fyrsta kröfubréfi stefnanda, skaðabætur sem
jafngiltu einum árslaunum, og miskabótakrafa að fjárhæð 700.000 krónur, en í
stefnu sé gerð krafa um tvöföld árslaun og 1.000.000 króna í miskabætur. Þá
vísar stefndi til XXI. kafla laga nr. 91/1991 til stuðnings kröfu um
málskostnað.
IV.
Niðurstöður:
Í málinu er ekki tölulegur ágreiningur um inntak veikindaréttar samkvæmt greinum 12.2.6–12.2.7 í fyrrgreindum kjarasamningi né heldur starfstíma stefnanda hjá stefnda fram að því að henni var sagt upp störfum. Ágreiningur aðila tekur til þess hvort stefnandi hafi verið óvinnufær af völdum vinnuslyss á árinu 2011, eins og staðhæft er í stefnu, en málatilbúnaður stefnda verður ekki skilinn á annan hátt en svo að ekki sé gerður ágreiningur um að stefnandi hafi verið óvinnufær af völdum veikinda. Þá tekur ágreiningur aðila til þess hversu lengi veikindaréttur hafi varað að teknu tilliti til þess að ráðningarsambandi stefnanda við Kvennaskólann var slitið með bréfi 22. febrúar 2016 frá og með 1. mars sama ár og starf hennar lagt niður.
Samkvæmt læknisvottorðum sem lögð hafa verið fram var stefnandi óvinnufær vegna veikinda og eða vinnuslyss á tímabili frá 8. febrúar 2016 til 1. febrúar 2017. Þá liggur auk þess fyrir að í skýrslu fyrrverandi skólameistara Kvennaskólans um starfsþróunar- og frammistöðusamtal við stefnanda, dagsett 13. mars 2015, er meðal annars vikið að því að stefnandi hafi orðið fyrir slysi við bifreiðastæði hjá einu af húsum skólans árið 2011. Er um að ræða opinber skjöl og telst efni þeirra vera rétt þar til annað sannast, sbr. 1. og 3. mgr. 71. gr. laga nr. 91/1991. Stefndi hefur ekki fært fram sönnur fyrir fyrir því að efni læknisvottorðanna, að því er varðar óvinnufærni vegna vinnuslyss, sé rangt. Þá hefur stefndi ekki fært fram haldbær rök fyrir því að efni fyrrgreindrar skýrslu fyrrverandi skólameistara, sem er undirrituð án athugasemda, að því er varðar umrætt slys, fái ekki staðist. Að því virtu verður lagt til grundvallar að stefnandi hafi verið óvinnufær á framangreindu tímabili af völdum veikinda og eða vinnuslyss og hið síðarnefnda megi rekja til slyss í starfi stefnanda árið 2011.
Krafa stefnanda um vangoldin veikindalaun er reist á grein 12.2.1 í kjarasamningi SFR og fjármálaráðherra. Í þeirri grein er kveðið á um að starfsmaður sem ráðinn er til starfa á mánaðarlaunum samkvæmt grein 1.1.1 í kjarasamningi skuli halda launum samkvæmt greinum 12.2.6–12.2.7 svo lengi sem veikindadagar hans, taldir í almanaksdögum, verði ekki fleiri á hverjum tólf mánuðum, sem nánar er kveðið á um í greininni miðað við starfstíma starfsmanns. Er miðað við áunninn veikindarétt. Eftir tólf ár og fram að átján árum í starfi er miðað við að starfsmaður hafi áunnið sér veikindarétt í 273 daga. Þá er kveðið á um í lokamálslið greinar 12.2.1 að laun greiðist þó ekki lengur en ráðningu sé ætlað að standa. Stefnandi var ráðin til starfa hjá stefnda á mánaðarlaunum samkvæmt grein 1.1.1 í kjarasamningi og hafði starfað í rúm sextán ár hjá stefnda þegar hún varð óvinnufær, þar af rúm tólf ár hjá Kvennaskólanum og fjögur ár hjá Háskóla Íslands. Stefnandi hafði þannig áunnið sér veikindarétt vegna starfstíma í 273 daga samkvæmt ráðningarsamningi og greinum 12.2.6–12.2.7 í fyrrgreindum kjarasamningi áður en til uppsagnar kom.
Stefnandi var óvinnufær í tæpt ár frá 8. febrúar 2016 að telja, en henni var sagt upp störfum 22. sama mánaðar. Liggur þannig fyrir að stefnanda var sagt upp störfum eftir að hún varð óvinnufær. Veikindaréttur starfsmanns er áunninn réttur og verður sá réttur almennt ekki skertur með uppsögn, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands frá 9. desember 2010 í máli nr. 128/2010. Ekki er eðlismunur á réttarstöðu starfsmanns í þessu tilliti, hvort heldur sem starfslok starfsmanns í veikindaleyfi eru til komin vegna uppsagnar eða vegna þess að starf hans er lagt niður. Þá hafa ástæður veikindanna ekki þýðingu í þessu sambandi. Að þessu virtu verður fallist á kröfu stefnanda um að stefnda beri að greiða henni veikindalaun vegna september, október og ellefu daga í nóvember 2016, samtals að fjárhæð [...] króna.
Breytingar á starfi og verksviði opinbers starfsmanns grundvallast á stjórnunarrétti forstöðumanns stofnunarinnar sem starfsmaður starfar hjá. Stjórnunarréttur forstöðumanns er byggður á óskráðri meginreglu, en í honum felst meðal annars að forstöðumaður getur gefið starfsmanni fyrirmæli um starfið. Að því leyti sem skipulag stofnunar hefur ekki verið ákveðið með almennum lögum tekur valdið til þess að skipuleggja stofnun mið af uppbyggingu og stigskiptingu innan stjórnsýslunnar. Í því felst að ef innra skipulag stofnunar er ekki lögfest þá er það hlutverk þeirra sem fara með stjórn hennar á hverjum tíma að ákveða nánar hvernig skipulagi hennar skuli háttað. Einn þátturinn í þessum stjórnunarrétti er valdið til að ráða starfsmenn, segja þeim upp störfum og ákveða verkefni þeirra.
Í 19. gr. laga nr. 70/1996 er kveðið á um skyldu starfsmanns til að hlíta breytingum á störfum sínum og verksviði. Þá er í 1. mgr. 15. gr. sömu laga kveðið á um að starfsmanni sé skylt að hlýða löglegum fyrirskipunum yfirmanns um starf sitt. Í 17. gr. sömu laga er kveðið á um að forstöðumaður ákveði vinnutíma o.fl. innan ramma annarra laga og kjarasamninga. Stjórnunarréttur forstöðumanns sætir takmörkunum, annars vegar af sérstökum reglum um réttindi starfsmanna stofnunar, og hins vegar af almennum reglum sem gilda um starfsemi hins opinbera. Ýmsar sérreglur starfsmannaréttar geta sett stjórnvaldi skorður hvað varðar breytingar á störfum starfsmanns, auk þess sem fylgja ber málsmeðferðar- og efnisreglum stjórnsýsluréttar, þar með talið að breytingar byggist á málefnalegum sjónarmiðum og að lagður sé fullnægjandi grunnur að þeim, sbr. 10. gr. laga nr. 37/1993, og að þær séu ekki meira íþyngjandi fyrir starfsmann en nauðsyn ber til, sbr. 12. gr. sömu laga. Ef breytingar rúmast ekki innan þeirra skyldna sem hvíla á opinberum starfsmanni verða þær ekki gerðar nema með uppsögn ráðningarsamnings eða starfssambands. Ef forstöðumaður gerir breytingar á starfi starfsmanns, sem rúmast ekki innan 19. gr. laga nr. 70/1996, er litið svo á að slíkum breytingum fylgi starfslok og tilboð um nýtt starf ef þannig stendur á að óskað er eftir áframhaldandi vinnuframlagi viðkomandi starfsmanns eftir breytingu á starfi.
Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 123/2015 um opinber fjármál, sem er
að finna í IV. kafla þeirra laga, skal framkvæmd fjárlaga og fjárstýring vera
skilvirk og hagkvæm og í samræmi við lög, fjárlög og fjáraukalög á hverjum
tíma. Þá ber forstöðumaður almennrar ríkisstofnunar, samkvæmt 4. mgr. sömu
lagagreinar, meðal annars ábyrgð gagnvart hlutaðeigandi ráðherra á að
starfsemin skili tilætluðum árangri og að rekstur og afkoma sé í samræmi við
fjárveitingar og áætlanir sem samþykktar hafa verið. Nánar er kveðið á um
skyldur forstöðumanns í þessu sambandi í öðrum ákvæðum IV. kafla laganna.
Skyldur af sama toga eru lagðar á forstöðumann samkvæmt 38. gr. laga nr.
70/1996. Alkunna er að krafa um hagræðingu í rekstri opinberrar stofnunar eða
aðrar faglegar ástæður tengdar starfsemi stofnunar geta leitt til þess að fækka
þurfi starfsfólki eða gera aðrar breytingar á störfum þeirra. Samkvæmt 43. gr.
laga nr. 70/1996 er forstöðumanni heimilt að segja starfsmanni upp störfum
eftir því sem fyrir er mælt í ráðningarsamningi, með þeim takmörkunum sem
leiðir af lögum o.fl. Í 21. gr. sömu laga er meðal annars kveðið á um að
forstöðumaður skuli veita starfsmanni skriflega áminningu, að því gættu að
starfsmanni hafi áður verið gefinn kostur á að tala máli sínu, hafi starfsmaður
sýnt af sér óvandvirkni eða ekki náð fullnægjandi árangri í starfi. Þá er samkvæmt
1. málsl. 1. mgr. 44. gr. laganna miðað við að slík áminning sé nauðsynlegur
undanfari starfsloka ef uppsögn á rætur að rekja til ástæðna sem greinir í
21. gr. þeirra laga. Að öðru leyti er ekki skylt samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 44.
gr. laganna að gefa starfsmanni kost á að tjá
sig um ástæður uppsagnar áður en hún tekur gildi, þar á meðal ef uppsögn stafar
af því að verið sé að fækka starfsmönnum vegna hagræðingar í rekstri stofnunar. Uppsögn
starfsmanns þegar staða hans er lögð niður samkvæmt lögum nr. 70/1996 er
stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. laga nr. 37/1993, þrátt fyrir
lögbundið frávik um andmælarétt, eins og áður greinir. Af þessu leiðir að forstöðumaður
þarf að öðru leyti að virða málsmeðferðar- og efnisreglur stjórnsýslulaga
nr. 37/1993 og óskráðar meginreglur stjórnsýsluréttar þegar starfsmanni er
sagt upp störfum vegna þess að staða hans er lögð niður.
Málatilbúnaður stefnanda byggist í
meginatriðum á því að starf hennar hafi ekki verið lagt niður, markmiðið hafi
einfaldlega verið að segja henni upp störfum en það hafi verið gert undir því
yfirskini að verið væri að leggja starfið niður. Ómálefnalegar ástæður hafi
legið að baki uppsögninni, auk þess sem skólameistari hafi vanrækt rannsóknarskyldu
og brotið gegn meðalhófsreglu. Málatilbúnaður stefnda er hins vegar reistur á
því að skólameistari hafi haft aðra sýn eða áherslur varðandi
starf stefnanda og hann hafi talið að ná hefði mátt meiri hagræðingu og betri
árangri í umsjón með húsnæði skólans með því að breyta starfinu og gera aðrar
hæfiskröfur. Þá hafi að mati skólameistara þurft að sinna betur nauðsynlegum
tækjabúnaði í kennslustofum, viðhaldi o.fl., en skólameistarinn bar
meðal annars um fyrir dómi að þau verkefni hefðu áður verið á hendi annars
starfsmanns við skólann, faktors, sem einnig hafi haft kennsluskyldur
við skólann. Sá starfsmaður hafi hins vegar látið af því starfi nokkru áður
vegna aldurs og starf faktors þá lagst af. Til viðbótar byggir stefndi á því
að skólameistari hafi talið nauðsynlegt að gera breytingar á fyrirkomulagi
þrifa, sem hafi verið í ófullnægjandi horfi. Í því sambandi liggur fyrir að
bæði skólameistari og stefnandi báru um það við aðalmeðferð að þrifin í
skólanum hefðu fyrir umrædda breytingu á starfslýsingu verið á hendi starfsfólks
ræstingarfyrirtækis og að fjármálastjóri skólans hefði verið tengiliður við
ræstingarfyrirtækið vegna þeirra starfa. Málatilbúnaður stefnda byggir
þannig á því að skólameistari hafi metið það svo að starfslýsing umsjónarmanns
hafi verið ófullnægjandi og nauðsynlegt hafi verið að breyta
henni og gera breytingar á hæfiskröfum til að ná betur utan um framangreind
verkefni og ná fram rekstrarhagræðingu. Málefnalegar ástæður hafi þannig búið
að baki breytingunni og rétt hafi verið að henni staðið.
Þegar bornar eru saman starfslýsingar
umsjónarmanns fasteigna skólans, fyrir og eftir breytingu, er ljóst að hin nýja
starfslýsing er mun ítarlegri en sú eldri. Það sem blasir við í því sambandi er
að í nýju starfslýsingunni er sérstakur áskilnaður um iðnmenntun og reynslu af
slíkum störfum, auk þess sem krafist er tölvuþekkingar, skipulagshæfileika
o.fl. Þá er í nýju starfslýsingunni kveðið á um markmið og ábyrgðarsvið
umsjónarmanns fasteigna. Því til viðbótar eru í hinni nýju starfslýsingu
talin upp helstu verkefni umsjónarmanns fasteigna. Í eldri starfslýsingunni
eru hins vegar aðeins tilgreind verkefni umsjónarmanns en ekki vikið að
hæfniskröfum eða ábyrgðarsviði. Af orðalagi beggja starfslýsinganna, að því
er varðar verkefni, er ljóst að upptalningin á verkefnum er ekki
tæmandi. Þegar verkefnin eru hins vegar borin saman, eins og þeim er
lýst, fyrir og eftir breytingu, verður hins vegar ráðið að flest þau verkefni
sem tilgreind eru í eldri starfslýsingunni sé enn að finna í hinni nýju starfslýsingu,
en með breyttu orðalagi eða sem viðbót við önnur verkefni af svipuðum toga.
Það á þó ekki við um tvö tiltekin verkefni, annars vegar eftirlit með
móðurklukkum og hins vegar aðstoðarstörf á skrifstofu á álagstímum. Í því
sambandi ber þó að líta til þess að í hinni nýju starfslýsingu er gert ráð
fyrir öðrum ótilgreindum verkefnum sem umsjónarmanni eru falin og
samkomulag er um, en slíkur áskilnaður er ekki í eldri starfslýsingunni.
Hvað varðar ný verkefni samkvæmt nýrri
starfslýsingu, sem ekki er getið í eldri starfslýsingunni, og að teknu
tilliti til fyrrgreindra nýmæla varðandi ábyrgðarsvið umsjónarmanns
fasteigna, þá ber hin nýja starfslýsing með sér að breytt verkefni umsjónarmanns
taki einkum til aukins stjórnunarhlutverks og meiri aðkomu að rekstri,
áætlanagerð, framkvæmdum og eftirliti vegna ástands skólahúsnæðis, þar með
talið kostnaðar- og þarfagreiningar og markmiðssetningar vegna viðhalds
og þjónustuþátta, auk samráðs og upplýsingamiðlunar til skólameistara og
samstarfs við Ríkiseignir o.fl. Hið sama á við um verkefni og ábyrgðarsvið
varðandi staðalbúnað í kennslustofum o.fl., mat á þörf á tiltekt, viðhaldi
og endurnýjun á búnaði og í því sambandi auknar starfsskyldur varðandi
það að fást við bilanir, viðgerðir, peruskipti í skjávörpum o.fl., sem var áður
verkefni faktors. Enn fremur er í hinni nýju starfslýsingu gert ráð fyrir að
umsjónarmaður fasteigna sjái mun meira um skipulagningu og beri meiri ábyrgð
á hreingerningum, auk samskipta við ræstingaraðila, en það var áður
á meðal verkefna fjármálastjóra. Að framangreindu virtu ber hin nýja
starfslýsing með sér að breyting sú sem gerð var á starfi stefnanda hafi verið
umtalsverð og nýtt starf hafi verið búið til sem áður var að hluta til á hendi
umsjónarmanns, faktors og fjármálastjóra. Liggur þannig fyrir að aukin verkefni
og ábyrgð fylgdi hinu nýja starfi, og styður það málatilbúnað stefnda um að
breytingin hafi verið liður í rekstrarhagræðingu skólans og leið
skólameistarans til að ná betri tökum á mikilvægum þáttum í starfseminni.
Til fleiri þátta þarf hins vegar að
líta til við úrlausn þessa máls. Hér háttar svo til að stefnandi hafði starfað
í rúm tólf ár hjá Kvennaskólanum þegar henni var sagt upp störfum. Því til
viðbótar hafði hún svipaða starfsreynslu í nokkur ár hjá annarri menntastofnun,
auk þess sem hún hafði áður starfað sem ræstingarstjóri hjá öryggisfyrirtæki
o.fl. Starfsreynsla stefnanda á fyrrgreindu sviði tók samanlagt til tuttugu og
eins árs tímabils. Þá hafði hún einnig lokið ýmsum námskeiðum fyrir
umsjónarmenn fasteigna o.fl. Hún var því starfsmaður með langa starfsreynslu
af umsjón fasteigna og stjórnun fasteignaþrifa, auk menntunar sem nýttist í
starfi. Ekkert liggur fyrir um að það hafi hamlað stefnanda í starfi að hafa
ekki iðnmenntun eða starfsreynslu á því sviði þegar starf hennar var lagt
niður. Einnig liggur fyrir að stefnandi hafði í meginatriðum komið vel út úr
frammistöðumati hjá fyrrverandi skólameistara 27. febrúar 2015, sbr.
skýrslu þess efnis dagsetta 13. mars sama ár. Þar greinir meðal annars að stefnandi
var talin hafa sýnt góða frammistöðu varðandi frumkvæði og breytingar,
góða þjónustu, samstarf innan skólans, framkomu og viðmót. Þá var frammistaða
varðandi skipulag og vinnubrögð metin framúrskarandi og umfram væntingar.
Lökust var frammistaða stefnanda hins vegar metin varðandi starfsþróun,
en þar var hún undir væntingum og tekið fram að hún tæki gagnrýni of
persónulega og færi stundum í mikla vörn og að hún þyrfti á sjálfsstyrkingu að
halda. Engin gögn hafa verið lögð fram sem sýna eða gera sennilegt að mikil
breyting hafi átt sér stað á frammistöðu stefnanda tæpu ári síðar,
þegar henni var sagt upp störfum, og verður ekki ráðið af fyrrgreindu frammistöðumati
að sérstök þörf hafi verið á því að gera aðrar hæfiskröfur til starfsins.
Einnig ber að líta til þess að Kvennaskólinn
er í leiguhúsnæði í eigu ríkisins og er það að meginstefnu skylda leigusala,
Ríkiseigna, að annast og standa straum af viðhaldi vegna húsnæðis skólans.
Stefndi hefur ekki lagt fram verklagsreglur frá Ríkiseignum til stuðnings
þeirri staðhæfingu sem fram kemur í greinargerð hans fyrir dómi að það leiði
af slíkum reglum, vegna skyldna Kvennaskólans sem leigutaka, að nauðsynlegt sé
að umsjónarmaður fasteigna hafi iðnmenntun. Þá hefur stefndi ekki fært fram
haldbær rök fyrir því að slíkt leiði af byggingarreglugerðum, þar með talið vegna
reglna um brunavarnir. Er málatilbúnaður stefnda haldlaus að þessu leyti.
Jafnframt er til þess að líta að gögn
frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, sem stefndi lagði fram eftir áskorun
frá stefnanda, styðja það ekki að þrifum á skólanum hafi verið verulega áfátt
eða að sérstakur munur hafi verið á stöðu þeirra mála frá sjónarhóli
heilbrigðiseftirlitsins fyrir og eftir uppsögn stefnanda. Þá verður ekki séð að
iðnmenntun eða reynsla af slíkum störfum sé sérstaklega mikilvæg við stjórnun
ræstinga en í því sambandi ber að hafa í huga að stefnandi hafði meðal annars
gegnt starfi ræstingarstjóra til margra ára.
Þá ber að líta til þess að engin
skrifleg gögn liggja fyrir um það hvort, hvenær, hvar eða hvernig nýr skólameistari
hafi rætt við stefnanda um að nauðsynlegt væri að gera breytingar á starfi
hennar og hæfiskröfum til að gegna því áður en til uppsagnar kom, sbr. 1.
mgr. 27. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Það eina sem liggur fyrir í þeim
efnum er annars vegar framburður skólameistarans fyrir dómi um að slík samtöl
hefðu átt sér stað við stefnanda innan veggja skólans og að hann hefði skráð
hjá sér minnispunkta í dagbók um þau samskipti, og hins vegar framburður
stefnanda um að skólameistarinn hefði í eitt skipti haft á orði við hana að
starfslýsing hennar væri ekki í lagi. Að þessu virtu og þar sem annarra gagna
nýtur ekki við þá liggur ekki annað fyrir en að sú yfirferð af hálfu
skólameistarans hafi verið mjög óveruleg áður en stefnanda var sagt upp
störfum. Þá eru engin gögn sem liggja fyrir um að skólameistari hafi í raun
tekið til sérstakrar athugunar hæfni stefnanda til viðgerða á tækjum eða peruskipta
í skjávörpum, tölvufærni eða hvort hún væri líkleg til að geta unnið með nýtt
tölvustýrt húsumsjónarkerfi. Hið sama á við um ýmis önnur atriði sem skólameistari
taldi mikilvæg í starfi umsjónarmanns fasteigna.
Þegar stefnanda var skyndilega sagt upp
störfum 22. febrúar 2016 var hún búin að vera fimmtán daga í veikindaleyfi,
nánar tiltekið frá 8. sama mánaðar. Fram að þeim tíma höfðu stefnandi og
skólameistarinn starfað saman í rúman mánuð. Það er stuttur tími á almennan
mælikvarða þegar lagt er mat á störf starfsmanns. Hið sama á við þegar nýr
forstöðumaður kemur að opinberri stofnun og er að átta sig á nýjum aðstæðum.
Skólameistarinn bar um það fyrir dómi að veikindaleyfi stefnanda hefði
borið að án fyrirvara í beinu framhaldi af samtali eða samtölum hans við hana á
vinnustaðnum. Þá verður ráðið af framburði stefnanda fyrir dómi að
upplifun hennar af samskiptum við skólameistarann á þessum tíma hafi
verið af neikvæðum toga og að þau hafi ekki náð vel saman í samskiptum á
vinnustaðnum. Að þessu virtu verður lagt til grundvallar að hnökrar hafi
verið á samskiptum þeirra á milli á þessum tíma og þar til stefnandi fór í
veikindaleyfi.
Í málinu liggur fyrir tölvuskeyti frá
skólameistara til kjara- og mannauðssýslu ríkisins, sem var sent 10. febrúar
2016, tveimur dögum eftir að stefnandi fór í veikindaleyfi, þar sem fram kemur
að skólameistarinn taldi nauðsynlegt að gera breytingar á starfi umsjónarmanns
og var meðal annars vísað til þess að eftirliti með gæðum ræstingar væri áfátt
og að starfslýsingu væri áfátt þannig að ekki væri ljóst hver ætti að gera hvað
með tilliti til viðhalds o.fl. Með tölvuskeytinu fylgdu drög að nýrri starfslýsingu,
auk eldri starfslýsingar til samanburðar, og greinir meðal annars í skeytinu að
skólameistarinn hafi talið nauðsynlegt að umsjónarmaður fasteigna væri
iðnmenntaður og með reynslu af því sviði. Þá greinir þar að skólameistarinn
hafi ekki talið það koma til greina að stefnandi tæki við hinu nýja starfi,
þótt líklegt mætti telja að hún myndi vilja þiggja starfið í breyttri mynd, þar
sem hún uppfyllti ekki að öllu leyti fyrrgreindar hæfiskröfur. Auk þess hafi
skólameistarinn talið augljóst að stefnandi þyrfti að láta af störfum svo koma
mætti umræddum þáttum skólastarfsins í lag. Hið sama verður ráðið af
minnisblaði skólameistarans vegna fundar hans með formanni SFR þann 9. mars
2015. Bera gögn þessi með sér að um var að ræða einhliða mat skólameistarans
eftir stuttan tíma í starfi.
Skólameistarinn bar meðal annars fyrir
dómi að veikindaleyfi stefnanda hefði verið mjög óheppilegt fyrir starfsemi
skólans, vandræði hefðu verið með afleysingu og hann hefði talið sig þurfa að
bregðast skjótt við. Þá bar skólameistarinn um að stefnandi hefði hlaupið frá
starfi sínu í þjósti og borið fyrir sig veikindi. Með því hafi hún sýnt honum
eða starfseminni lítilsvirðingu. Skólameistari hafi því ekki séð ástæðu til
að ræða frekar við stefnanda eða leita eftir hug hennar til hans eða breytts
starfs. Hann hafi því ekki séð ástæðu til að kalla hana frekar til viðtals um
það hvort hún sæi sér fært að breyta starfinu eða taka að sér fleiri verkefni.
Stefnandi hafi ekki gefið neitt færi á slíku. Af framburði skólameistarans
verður því ekki annað ráðið en hann hafi verið verulega ósáttur við skyndilega
fjarveru stefnanda og haft efasemdir um veikindaforföll hennar. Þá verður
ekki litið fram hjá því að framburður skólameistarans fyrir dómi var ýmist
á þá leið að starfslýsing stefnanda hefði ekki verið í lagi, en hún ekki borið
ábyrgð á því, en einnig, og ekki síður, bar skólameistarinn um það fyrir dómi
að stefnandi hefði í raun ekki staðið sig nægjanlega vel í starfi, sumt í
starfinu hefði verið illa gert, samskipti þeirra hefðu gengið illa og að hún
hefði ekki haft nægilegan metnað fyrir starfinu o.fl.
Þegar allt framangreint er virt þá
þykir ekki hafa verið sýnt fram á það að uppsögn stefnanda hafi átt rætur að
rekja til raunverulegrar endurskipulagningar heldur megi fyrst og fremst rekja hana
til persónu stefnanda og þess að skólameistari kaus að fá annan mann með meiri
menntun til þess að gegna starfi stefnanda í þeirri von að betur tækist til við
umsjón með húsnæði skólans o.fl. Stefnandi fékk ekki skriflega áminningu eða
áskorun um að bæta sig í starfi, mál hennar var ekki sett í ferli samkvæmt 21.
gr. laga nr. 70/1996, ekki var rætt við stefnanda og farið heildstætt yfir
starf hennar og mögulegar breytingar á því og ekkert haldbært liggur fyrir um
að raunverulega hafi verið lagt mat á það hvort stefnandi gæti sinnt starfinu
í breyttri mynd áður en henni var sagt upp störfum. Þá hefur ekkert haldbært
komið fram í málinu sem styður það að skólameistari hafi í raun lagt mat á það
hvort unnt væri að ná sama markmiði með vægari hætti með því að breyta
starfi hennar, sbr. 19. gr. laga nr. 70/1996, í stað þess að leggja starfið
niður, segja stefnanda upp störfum og gera kröfu um iðnmenntun og þess háttar
starfsreynslu o.fl. í hinu nýja starfi. Þá hefur ekki þýðingu í þessu sambandi
þótt stefnandi hafi ekki sótt um hið nýja starf og að stefndi hafi verið
bundinn af verðleikareglunni o.fl. við val á umsækjendum, enda liggur fyrir að
í uppsagnarbréfinu 22. febrúar 2016 var tekið fram að gerð yrði krafa um
iðnmenntun í hinu nýja starfi. Var því tilgangslaust fyrir stefnanda að sækja
um starfið. Ber því að fallast á það með stefnanda að grundvöllur að uppsögn
hennar hafi ekki verið í nægjanlegu samræmi við 10. og 12. gr. laga nr.
37/1993 og réttmætisreglu stjórnsýsluréttar. Að öllu þessu virtu ber
stefndi skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda vegna umræddrar uppsagnar samkvæmt
sakarreglunni um ólögmæta háttsemi.
Stefnandi hafði starfað í meira en tólf
ár hjá Kvennaskólanum og var með ótímabundinn ráðningarsamning. Stefnandi gat
því vænst þess að halda starfi sínu til venjulegra starfsloka opinbers
starfsmanns vegna aldurs, sbr. 2. mgr. 43. gr. laga nr. 70/1996. Hún er 61 árs
að aldri og með sérhæfða starfsreynslu í langan tíma og dregur það úr möguleikum
hennar á nýju starfi. Stefnandi hefur eftir uppsögn verið án atvinnu en þegið
atvinnuleysisbætur og greiðslur frá lífeyrissjóði o.fl. Tjón stefnanda er því
mikið. Stefnandi fékk greidd laun í sex mánaða uppsagnarfresti. Við starfslok
námu mánaðarlaun stefnanda að meðaltali [...] krónum á verðlagi þess
tíma. Stefnandi hefur ekki lagt fram gögn sem sýna fram á það að hún hafi verið
í virkri atvinnuleit eftir að hún varð vinnufær að nýju og hún með því leitast
við að takmarka tjón sitt. Ber hún hallann af því. Að öllu þessu virtu þykja
skaðabætur til handa stefnanda hæfilega ákveðnar 8.000.000 króna.
Framangreind niðurlagning á starfi
stefnanda var meiðandi og í henni fólst ólögmæt meingerð í garð stefnanda.
Stefnandi hafði starfað lengi hjá Kvennaskólanum og fyrir liggja gögn um
að hún hafi í meginatriðum staðið sig vel í starfi á tímabilinu áður en nýr
skólameistari kom til starfa. Þá bar uppsögnin brátt að á meðan stefnandi var
frá vegna veikinda og án þess að rætt væri við hana áður eða að henni væri
gefinn kostur á að vinna uppsagnarfrest. Samkvæmt læknisvottorði, dagsettu 5.
febrúar 2016, var ráðgert að veikindatímabil stefnanda myndi vara til 8. mars
sama ár. Að mati dómsins er ósannað að á þeim tíma hafi legið fyrir að
veikindi stefnanda yrðu langvinn. Að mati dómsins hefur óvinnufærni stefnanda
eftir 8. mars 2016 ekki sérstaka þýðingu í þessu sambandi, eins og mál þetta
er vaxið. Út á við gagnvart samstarfsfólki, nemendum o.fl. leit uppsögnin út
fyrir að vera fyrirvaralaus brottrekstur. Skólameistarinn sem stóð að
uppsögninni hafði langa reynslu af stjórnun menntastofnana á þeim tíma
þegar hann ákvað að segja stefnanda upp störfum með fyrrgreindum hætti.
Að því virtu mátti skólameistaranum vera ljóst að betur þyrfti að standa að
málum varðandi stefnanda. Gögn málsins bera það með sér að það var skólameistarinn
sem lagði einhliða upp forsendurnar gagnvart kjara- og mannauðssýslu ríkisins
fyrir hinu breytta starfi og breyttum hæfiskröfum í aðdraganda uppsagnarinnar
og tók ráðgjöfin sem hann fékk mið af því. Sakarstig hans er því hátt.
Stefnandi á því rétt á miskabótum úr hendi stefnda á grundvelli b-liðar 1.
mgr. 26. gr. laga nr. 50/1993. Eru miskabætur hæfilega ákveðnar 700.000
krónur.
Um vexti vegna skaðabótakröfu fer
samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 en um upphafstíma þeirra vaxta ber að
miða við þann dag sem hið bótaskylda atvik átti sér stað með birtingu
ákvörðunar um uppsögn stefnanda, sbr. uppsagnarbréf 22. febrúar 2016. Varðandi
upphafsdag dráttarvaxta vegna vangreiddra veikindalauna stefnanda fer
samkvæmt 1. mgr. 5 gr. sömu laga, en þau laun stefnanda vegna september 2016
féllu í gjalddaga 1. október sama ár, veikindalaun vegna október 2016 féllu í
gjalddaga 1. nóvember sama ár og veikindalaun vegna nóvember 2016 féllu í gjalddaga
1. desember sama ár. Þá fer um dráttarvexti vegna skaðabótakröfu samkvæmt 1.
mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 og ber að miða upphafstímamark þeirra vaxta við
mánuð frá því að kröfubréf var sent til Kvennaskólans, sbr. 2. mgr. 5. gr.
sömu laga. Allt eins og nánar greinir í dómsorði.
Eftir niðurstöðu málsins og í samræmi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað sem telst með hliðsjón af eðli og umfangi málsins hæfilega ákveðinn 1.500.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Af hálfu stefnanda flutti málið Hilmar Gunnarsson lögmaður. Af hálfu stefnda flutti málið María Thejll lögmaður.
Daði Kristjánsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð:
Stefndi, íslenska ríkið, greiði
stefnanda, Emilíu Guðrúnu Jónsdóttur, 10.041.081 krónu ásamt vöxtum samkvæmt 1.
mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 af 8.700.000 krónum frá 22. febrúar 2016 til 2.
júní sama ár og með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim
degi til 1. október 2016, af 9.266.654 krónum frá þeim degi til 1. nóvember
2016, af 9.833.308 krónum frá þeim degi til 1. desember 2016 og af 10.041.081
krónu frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 1.500.000
krónur í málskostnað.
Daði
Kristjánsson