• Lykilorð:
  • Skaðabætur
  • Uppsögn
  • Skaðabótamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 14. mars 2014 í máli nr. E-2187/2013:

Hjalti Þórisson

(Gísli Guðni Hall hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Einar K. Hallvarðsson hrl.)

 

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 20. febrúar sl., er höfðað með stefnu 28. maí 2013 af Hjalta Þórissyni, Laugateigi 37, Reykjavík, gegn íslenska ríkinu, Arnarhvoli við Lindargötu, Reykjavík.

            Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 9.876.242 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þingfestingardegi til greiðsludags, auk málskostnaðar.

            Stefndi krefst aðallega sýknu auk málskostnaðar en til vara að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og að málskostnaður verði felldur niður.

 

                                                                        I.

            Stefnandi var fastráðinn kennari við Iðnskólann í Hafnarfirði frá og með 1. ágúst 2005. Skólameistari Iðnskólans í Hafnarfirði boðaði stefnanda á sinn fund 27. desember 2011. Var stefnanda á þeim fundi sagt upp störfum með þriggja mánaða fyrirvara miðað við 1. janúar 2012 um leið og honum var afhent uppsagnarbréf því til staðfestingar. Var ástæða uppsagnar sögð vera hagræðing í rekstri skólans vegna verulegs niðurskurðar fjárheimilda. Leitaði stefnandi til stéttarfélags síns í kjölfarið. Með bréfi 3. janúar 2012 fór Kennarasamband Íslands fram á frekari rökstuðning af hálfu skólameistara fyrir uppsögninni og óskaði eftir að tilgreindum spurningum yrði svarað. Í bréfi félagsins kom fram að áður en gripið yrði til uppsagna í sparnaðarskyni væri gerð krafa um að settu marki í rekstri yrði ekki náð með öðru og vægara móti. Þá væri gerð krafa um vandaða stjórnsýsluhætti og að fyrir lægju gögn eða upplýsingar á skráðu formi um undirbúning og einstaka ákvarðanir. Með bréfi 20. janúar 2012 rökstuddi skólameistari uppsögnina frekar. Var þar ítrekað að ástæður uppsagnar væru rekstrarlegar forsendur, fyrst og fremst vegna skertra fjárheimilda og verulegrar fækkunar ársnemenda. Afleiðingar væru verulegur og viðvarandi hallarekstur og væri það skylda hvers forstöðumanns að fara hvergi fram úr fjárheimildum. Þá kom fram að fækkun nemenda hefði verið viðvarandi frá árinu 2009. Hefði það leitt til uppsagna. Stefnandi væri með leyfisbréf og BA gráðu í félagsfræði en hefði kennt aðrar bóklegar greinar þar sem einungis væri kenndur einn félagsfræðilegur áfangi við skólann. Allir kennarar sem kenndu viðlíka námsgreinar við skólann væru með leyfisbréf til kennslu á framhaldsskólastigi. Með bréfi 1. febrúar 2012 fór Kennarasambandið fram á frekari rökstuðning fyrir uppsögninni. Var tekið fram að ekki væri nægjanlegt að fá einungis útlistun á rekstrarforsendum þar sem ástæða væri til að ætla að rekstrarrök væru ekki þau raunverulegu sem hafi ráðið þeirri ákvörðun að segja stefnanda upp störfum. Mikilvægt væri að fá upplýsingar við öllum þeim spurningum sem félagið beindi til skólameistara til að hægt væri að meta stöðu stefnanda. Ósvarað væri útlistun á þeim leiðum sem skólinn hefði notað áður en ákvörðun hafi verið tekin um uppsögn. Þá væri ósvarað útlistun á því af hverju ákveðið hafi verið að setja stefnanda upp störfum. Þá var óskað eftir yfirliti yfir kennara í tilgreindum greinum á vorönn 2011, haustönn 2011 og vorönn 2012. Svaraði skólameistari þessu bréfi með ítarlegri rökstuðningi 14. febrúar 2012. Í bréfi skólameistara kemur fram að skólameistari hafi í fyrra bréfi rakið ítarlega þróun í fjármálum skólans sem og fækkun kennslustunda. Þar hafi komið fram meginsjónarmið sem höfð hafi verið að leiðarljósi og verulega þýðingu hafi haft við ákvörðun um að segja stefnanda upp störfum. Er því næst getið um kennara og kennslumagn þeirra á vorönn 2012 og þess getið að yfirvinna sé á nokkrum kennurum en aðallega sé um að ræða kennslu í sérhæfðum greinum eins og dönsku og ensku.

            Stefnandi hefur höfðað mál þetta til heimtu skaðabóta vegna ólögmætrar uppsagnar úr starfi. Kveður stefnandi uppsögnina hafa átt lengri aðdraganda en þann að rekstrarerfiðleikar hafi leitt til þess að stefnanda var sagt upp starfi í lok árs 2011. Skólameistari, sem komið hafi til starfa um áramótin 2010 til 2011, hafi kallað stefnanda á sinn fund í febrúar 2011 vegna kvörtunar frá nemendum. Framkoma skólastjóra hafi einkennst af yfirlæti. Á vorönn 2011 hafi stefnandi leitað til skólameistara vegna þriggja einstaklinga úr nemendahópi sem stefnandi hafi haft sérstakar áhyggjur af. Í viðtali við skólameistara af þessu tilefni hafi skólameistari látið að því liggja að stefnandi ætti verr með að ná til nemenda en aðrir kennarar. Á haustönn 2011 hafi stefnandi verið sviptur allri kennslu, að undanskildum tveim áföngum. Stefnandi hafi gert alvarlegar athugasemd við það og óskað eftir fundi með skólameistara og trúnaðarmanni. Á fundi þeirra þriggja hafi skólameistari brugðist skætingslega við athugasemdum um að stefnandi væri ekki sáttur við stundatöflu sína. Í kjölfar þessa hafi skólameistari búið til heimanámsáfanga í stundatöflu stefnanda. Ákvörðun um að svipta stefnanda kennslu hafi ekkert haft með fjármál skólans að gera, heldur persónulega skoðun skólameistara á stefnanda og ásetning til að niðurlægja. Augljóst samhengi hafi síðan verið milli þess að taka kennslu af stefnanda og uppsagnarinnar nokkrum mánuðum síðar. Stefndi hefur mótmælt framangreindum málatilbúnaði stefnanda og telur hann ekki eiga við rök að styðjast.

 

                                                                        II.

            Dómkröfur stefnanda byggja á því að hann sé ríkisstarfsmaður og að um uppsögn hans gildi ákvæði laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og skráðar og óskráðar reglur stjórnsýsluréttar, sbr. stjórnsýslulög nr. 37/1993. Sé íslenska ríkinu stefnt vegna Iðnskólans í Hafnarfirði. Stefnandi telji að Iðnskólanum í Hafnarfirði hafi ekki verið heimilt að segja stefnanda upp störfum án málefnalegra ástæðna, auk þess sem stefndi hafi verið bundinn af meðalhófsreglu við ákvörðunina. Stefnandi geri ekki ágreining um að endurskipulagning á rekstri og sparnaðarþörf kunni að teljast vera málefnaleg ástæða fyrir fækkun að öðrum skilyrðum uppfylltum, en telji að svo hafi þó ekki verið raunin í þessu tilviki. Stefnandi telji að endurskipulagning eða sparnaðarþörf, sem skólameistari hafi tiltekið sem uppsagnarástæðu, hafi verið tylliástæða en ekki hin raunverulega ástæða uppsagnar. Skólameistari hafi áður en til uppsagnar kom, svipt stefnanda mest allri kennslu sem hann hafi haft með höndum, án málefnalegra skýringa, og þannig lagt fæð á hann. Hafi sú ákvörðun ekkert með fjármál skólans að gera, heldur hafi skólameistari ákveðið að losa sig við stefnanda. Stefnandi telji að líta beri til þess að hann hafi verið í hópi kennara við Iðnskólann í Hafnarfirði og að hann hafi einn kennara verið tekinn út úr þeim hópi og sagt upp. Hafi stefnda borið að rökstyðja og færa fram málefnalegar ástæður fyrir því að stefnandi hafi verið valinn úr hópnum og sagt upp. Hafi Iðnskólinn í Hafnarfirði ekki fært fram neinar málefnalegar ástæður fyrir valinu á stefnanda og ekkert hæfnismat verið gert. Þá hafi stefnanda ekki verið veitt undanfarandi formleg áminning, sem áskilið sé vegna uppsagnar er varði stefnanda sjálfan. Stefnandi telji að skólameistari Iðnskólans í Hafnarfirði hafi ekki gætt lögmætra sjónarmiða við undirbúning og ákvörðun um uppsögn stefnanda. Sé hér því um brot á réttmætisreglu auk meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar að ræða. Sé krafa stefnanda um  skaðabætur reist á almennu skaðabótareglunni innan og utan samninga. Telji stefnandi að honum beri að fá tjón sitt bætt og vísi stefnandi til dómvenju um ólögmæta starfsuppsagna. Stefnandi krefjist skaðabóta vegna fjártjóns og miska. Samsvari fjárhæð kröfunnar launum sem stefnandi hefði haft í starfi hjá Iðnskólanum í Hafnarfirði á 24 mánaða tímabili að meðtöldu 11,5% mótframlagi vinnuveitanda í ríkissjóð (kr. 381.642 x 24 x 1,115%). Hafi stefnandi frá síðastliðnum áramótum verið atvinnulaus. Sé fjárhæð kröfunnar að álitum og miðist ekki við að stefnandi fái tiltekið tekjutjón á tilteknu tímabili bætt, heldur heildartekjutjón af uppsögninni til lengri framtíðar, að teknu tilliti til allra aðstæðna. Við mat á fjártjóni beri að líta til aldurs stefnanda, kyns, menntunar, starfsreynslu og aðstæðna að öðru leyti. Atvinnuhorfur séu ekki góðar og hafi stefnandi verið atvinnulaus frá lok marsmánaðar 2012.  Stefnandi telji að við ákvörðun bóta beri að líta til þess að stefnandi hafi notið sérstakra réttinda sem ríkisstarfsmaður og sem sjóðfélagi í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Krafa stefnanda um miskabætur sé gerð með stoð í 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Stefnanda var sagt upp fyrirvaralaust á grundvelli uppsagnarástæðu, sem ekki standist  skoðun, og hafi öll framganga skólameistara gagnvart stefnanda verið niðurlægjandi. Sé byggt á því að framganga skólameistara hafi falið í sér einelti, eins og það sé skilgreint í lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, og í reglugerð nr. 1000/2004 um aðgerðir gegn einelti á vinnustað.  Stefnandi telji að þessi atriði hafi falið í sér ólögmæta meingerð gegn honum og valdið miklum miska. Fjárhæð skaðabótakröfu sé sett fram að álitum, 1.000.000 krónur. Dráttarvaxtakrafa sé gerð með stoð í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Málskostnaðarkrafa sé gerð með vísan til 130. gr. laga nr. 91/1991.

 

                                                                        III.

 

            Stefndi byggir kröfu um sýknu á því að uppsögn á ráðningarsamningi hafi verið lögmæt og í samræmi við ákvæði laga nr. 70/1996. Hafi uppsögnin byggt á réttmætum forsendum svo sem fram kom í uppsagnarbréfi. Forsendur uppsagnarinnar hafi verið þær sem greindi í uppsagnarbréfi skólameistara þess efnis að gerð hafi verið krafa um aukna hagræðingu í rekstri skólans, sem meðal annars hafi birst í verulegum niðurskurði fjárheimilda. Hafi það leitt til hallareksturs skólans. Á sama tíma hafi ársnemendum skólans farið fækkandi, sem aftur hafi leitt til færri kennslustunda við skólann. Hafi því þurft að segja stefnanda upp störfum. Hafi skólinn átt í talsverðum rekstrarörðugleikum árin fyrir uppsögn stefnanda og hann verið rekinn með halla frá árinu 2008. Hafi ástæða uppsagnar verið tilgreind í rökstuðningi uppsagnarbréfs. Hafi verið um að ræða skertar fjárheimildir til skólans í fjárlögum og svo veruleg fækkun ársnemenda. Afleiðingar hafi verið viðvarandi hallarekstur. Hafi meginmarkmið uppsagnar stefnanda ásamt öðrum aðgerðum verið að draga úr rekstrarkostnaði skólans og ná tökum á þeim rekstrarvanda sem myndast hafi frá árinu 2008, sbr. yfirliti yfir framgang hagræðingar við skólann árið 2011. Stefndi hafni málsástæðum stefnanda um að uppsögnin hafi verið ólögmæt og að ástæða uppsagnar um sparnaðarþörf hafi verið tylliástæða en ekki hin raunverulega ástæða uppsagnar. Sé ekki verið að brjóta gegn grundvallarreglum laga nr. 37/1993 og óskráðum reglum stjórnsýsluréttarins. Hafi starfslok stefnanda stafað af því að leggja hafi þurfti niður starf vegna samdráttar og hagræðingar. Hafi starfslok hans ekki komið til af ávirðingum eða framgöngu stefnanda í starfi. Ekki hafi verið tilefni til að ávirða hann, hvað þá beita áminningu í skilningi 21. gr. laga nr. 70/1996. Stefndi mótmæli því að skólameistari hafi haft horn í síðu stefnanda. Stefndi telji að ákvörðun um uppsögn stefnanda hafi byggst á málefnalegum rökum og lögmætum ástæðum. Samkvæmt ákvæðum laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, hafi skólameistara verið heimilt og rétt að segja starfsmanni upp störfum samkvæmt 44. gr. laganna vegna samdráttar við þær aðstæður sem skapast höfðu í rekstri skólans. Ákvæði 2. málsliðar 1. mgr. 44. gr. laganna mæli auk þess sérstaklega fyrir um það að ekki sé skylt að gefa starfsmanni kost á að tjá sig um ástæður uppsagnar áður en hún taki gildi ef hún stafar af ástæðum á borð við þær að verið sé að fækka starfsmönnum vegna hagræðingar í rekstri stofnunar. Sé hér um sérákvæði er að ræða sem víki frá almennum kröfum laga nr. 37/1993, sbr. 13. og 14. gr. þeirra. Þá sé á því byggt að heimildir forstöðumanna til að segja upp ráðningu, vegna skipulagsbreytinga og hagræðingar, séu að mati stefnda rúmar og undir mati forstöðumanns komið, sbr. ákvæði laga nr. 70/1996, einkum IV. kafla og 2. mgr. 38. gr. Sé það mat forstöðumanns hvort og hvenær sé rétt að fækka starfsmönnum eða leggja niður störf til að markmiðum hagræðingar verði náð. Af ársreikningum skólans frá 2008 megi ráða að fjárhagur hans hafi farið hríðversnandi hin síðari ár og verið nauðsynlegt að grípa til sparnaðaraðgerða. Sú lagaskylda hafi hvílt á skólameistara að grípa til nauðsynlegra aðgerða til að koma rekstri skólans í rétt horf, sbr. 2. mgr. 38. gr. laga nr. 70/1996 og erindisbréf fyrir skólameistara frá 25. janúar 2011. Fari útgjöld  fram úr fjárlagaheimildum, verkefnum stofnunar sé ekki sinnt sem skyldi eða þjónusta hennar teljist óviðunandi, geti það varðað forstöðumann viðurlögum. Þá beri að líta til 49. gr. laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins. Skólameistara hafi verið skylt að hagræða í rekstri skólans og hafi uppsögn á þeim grundvelli verið byggð á lögmætum sjónarmiðum. Í lok árs 2011 hafi legið fyrir að eigið fé skólans var neikvætt og fyrirsjáanleg lækkun fjárheimilda til skólans vegna verulegrar fækkunar ársnemendafjölda á vorönn 2012. Þegar skólameistari hafi komist að þeirri niðurstöðu að nauðsynlegt væri að beita uppsögn til að ná fram sparnaði eða hagræðingu í rekstri skólans hafi hann þurft að taka ákvörðun um það hverjum átti að segja upp störfum. Sú ákvörðun skólameistara hafi verið undir mati hans komin enda engar tilteknar leiðbeiningar um það að finna um það í lögum nr. 70/1996. Stefndi telji að það mat hafi byggst á málefnalegum sjónarmiðum er hafi tekið mið af þeim markmiðum sem skólanum séu sett að lögum. Stefndi telji að við val á leiðum til að ná þeim markmiðum hafi verið málefnalegt að byggja á atriðum er hafi varðað hæfni starfsmanns og áherslum í starfsemi skólans. Þannig geti þættir á borð við starfsreynslu og þekkingu á viðkomandi sviði haft þýðingu við valið. Þá geti afköst og árangur í starfi skipt máli auk þess sem heimilt sé að byggja valið á forgangsröðun einstakra starfsmanna, fjárhagslegri stöðu verkefna og faglegum ávinningi þannig að verkefnum þess starfsmanns sem komi verst út við slíkan samanburð sé hætt og honum sagt upp. Ástæður þess að stefnandi hafi orðið fyrir valinu hafi verið nokkrar. Stefndi leggi áherslu á að gera verði greinarmun á því hvenær óhjákvæmilegt sé að grípa til uppsagna og á hinn bóginn mats um það hvaða starfsmanni skuli við þær aðstæður sagt upp. Stjórnendur skólans hafi farið yfir gögn og upplýsingar er snertu kennslu og þjónustu við nemendur. Skólameistari hafi byggt niðurstöðu sína á kenndum áföngum, niðurstöðum kennslukannana, umkvartana nemenda og samanburð milli kennara sem til greina myndu koma varðandi uppsögn. Aðrir kennarar en stefnandi hafi komið betur út úr kennslu­könnunum. Kvartanir hafi síður borist vegna starfa annarra kennara. Skóla­meistari hafi metið það þannig að þegar velja hafi þurft á milli starfsmanna við svo erfiðar aðstæður sem þessar hlyti að vega þungt hvernig kennarar hefðu sinnt nemendum og þjónustað þá. Þá hafi engu skipt að einungis séu kenndar 6 kennslustundir á viku á önn í félagsfræði við skólann, en það sé það fag sem stefandi hafi háskólagráðu í. Val skólameistara hafi tekið mið af þörfum skólans í samræmi við markmið hans að lögum og hæfni og reynslu af stefnanda, en einnig kennslumagni. Stefndi mótmæli því að brotið hafi verið gegn grundvallarreglum laga nr. 37/1993 og óskráðum reglum stjórnsýsluréttarins. Stefndi byggi á því að málið hafi verið nægjanlega upplýst samkvæmt kröfum 10. gr. laga nr. 37/1993. Á árinu 2008 hafi rekstrarhalli skólans verið 22,9 milljónir króna, á árinu 2009, 87,1 milljónir króna, á árinu 2010, 33,1 milljónir króna og þegar ákvörðun um uppsögn stefnanda hafi verið tekin í desember 2011 hafi hallinn á árinu 2011 verið áætlaður 25,0 milljónir króna. Hallarekstur hafi leitt til þess að eigið fé skólans hafi farið úr 98,6 milljónum króna jákvæðu eigin fé í árslok 2008 í 4,7 milljónir króna neikvætt fé í árslok 2009 og 37,8 milljónir króna neikvætt eigið fé í árslok 2010.  Með bréfi mennta- og menningarmálaráðuneytisins í janúar 2011 hafi verið tilkynnt um lækkun fjárheimilda vegna fækkunar ársnemenda á árinu 2010. Hafi skerðingin á rekstrarframlagi til skólans numið 24,5 milljónum króna. Á árinu 2011 hafi fækkun ársnemenda haldið áfram og í lok árs 2011 verið orðið ljóst í hvað stefndi með ársnemendafjölda vorannar 2012 og um leið blasið við veruleg fækkun kennslustunda. Þetta hafi verið staðfest með bréfi mennta- og menningarmálaráðuneytisins í janúar 2012 þar sem fram hafi komið að framlög til skólans yrðu skert um 30,6 milljónir króna vegna verulegrar fækkunar ársnemenda frá því sem áætlað hafi verið fyrir árið 2011. Stefndi telji að samkvæmt 44. gr. laga nr. 70/1996 sé ekki skylt að gefa starfsmanni kost á að tjá sig um ástæður uppsagnar áður en hún taki gildi ef hún stafi af þeirri ástæðu að verið sé að fækka starfsmönnum vegna hagræðingar í rekstri stofnunar. Þó hafi stefnandi fengið tækifæri til að tjá sig er hann leitaði eftir fundi með skólameistara. Stefndi byggi á því að þótt talið yrði að málsmeðferðarreglna hafi ekki verið gætt verði stefnandi að sanna grundvöll bótakröfu sinnar. Hafi stefnandi ekki sýnt fram á að fremur hefði átt að segja upp öðrum starfsmönnum eða að val skólameistara hafi verið ómálefnalegt. Stefndi mótmæli því að meðalhófsregla 12. gr. laga nr. 37/1993 hafi verið brotin. Hafi það verið mat skólameistara að með uppsögn stefnanda væri sú ákvörðun tekin sem minnst raskaði starfsemi skólans, hefði ekki áhrif á gæði hans og tæki mið af þróun hans til lengri tíma litið. Hafi ákvörðun um sparnaðaraðgerðir og síðan ákvörðun um uppsögn stefnanda í framhaldi af því í árslok 2011 verið byggð á málefnalegum sjónarmiðum þar sem settu markmiði um sparnað vegna lækkunar fjárheimilda og fækkunar ársnemenda yrði ekki náð með öðru og vægara móti.

            Stefndi mótmæli sérstaklaga bótakröfu stefnanda. Stefnandi miði við bætur sem samsvari þeim launum sem stefnandi hefði haft hjá skólanum á 24 mánaða tímabili að meðtöldu 11,5% mótframlagi vinnuveitanda í lífeyrissjóð. Komi til bótaskyldu mótmæli stefndi kröfu stefnanda sem allt of hárri og tímaviðmiðun of langri. Almennt mega starfsmenn ríkisins búast við því að breytingar geti orðið á starfsumhverfi þeirra og þar með á störfum þeirra og verkefnum. Starfsmaður, sem ráðinn sé ótímabundið með gagnkvæmum uppsagnarfresti, geti ekki gengið út frá því að störf hans verði óbreytt alla starfsævina eða lengur en nemi uppsagnarfresti. Komi til bótaskyldu verði að lækka umkrafðar bætur verulega. Draga verði frá kröfunni atvinnuleysisbætur og ígildi réttar til slíkra bóta á viðkomandi tímabili. Þá beri að horfa til aldurs stefnanda, sem og þekkingar og menntunar, sbr. 2. mgr. 32. gr. laga nr. 70/1996. Stefndi byggi á því að líta verði til dómaframkvæmdar og til þess að stefndi ætti sér málsbætur, ef á bótaskyldu reyndi. Þá verði ekki séð að stefnandi hafi leitað eftir atvinnu annars staðar að marki enda engar starfsumsóknir lagðar fram. Hafi stefnandi ekki leitast við að takmarka ætlað tjón sitt. Stefndi mótmæli kröfu stefnanda um miskabætur og telji skilyrði 26. gr. laga nr. 50/1993 ekki uppfyllt. Engri ólögmætri meingerð sé til að dreifa í garð stefnanda. Stefndi hafi í engu sýnt fram á að í ákvörðunum stefnda hafi falist ólögmætar meingerðir gegn frelsi, friði, æru eða persónu stefnanda. Þá mótmæli stefndi því sem ósönnuðu að framganga skólameistara hafi falið í sér einelti, sbr. lög nr. 46/1980 og í reglugerð 1000/2004. Ekkert í háttsemi skólameistara megi rekja til þess að hann hafi lagt stefnanda í einelti. Hafi skólameistari vegna fækkun nemenda við skólann orðið að grípa til þess úrræðis að fækka kennslustundum hjá stefnanda á haustönn 2011 með því að fela honum kennslu í áföngum FRV 103 og ÖRF 101. Hafi stefnanda verið gert að kenna 14 kennslustundir á viku auk þess að sinna heimanámsáfanga sem hafi falist í því að aðstoða nemendur, sem þurftu á aðstoð að halda, við heimanám. Þessi ákvörðun skólameistara hafi verið tekin á grundvelli stjórnunarréttar hans. Sé því mótmælt sem ósönnuðu að framganga skólameistara vegna þessa hafi tengst persónu stefnanda. Hafi ástæður að baki uppsögn eingöngu verið af rekstrarlegum ástæðum, þ.e.a.s. vegna lækkunar fjárheimilda og verulegrar fækkunar ársnemenda við skólann. Til stuðnings varakröfu sé vísað til framangreindra mótmæla við bótakröfu. Þá sé miskabótakröfu mótmælt sem allt of hárri. Kröfum um vexti og dráttarvexti sé mótmælt, einkum upphafstíma þeirra. Til stuðnings kröfum stefnda um málskostnað vísist í öllum tilvikum til XXI. kafla laga nr. 91/1991.

 

                                                                        IV.

            Í máli þessu er til úrlausnar hvort löglega hafi verið staðið að þeirri ákvörðun skólameistara Iðnskólans í Hafnarfirði 27. desember 2011 að segja stefnanda upp störfum sem kennara við skólann. Stefnandi byggir á því að málsmeðferð skólameistara hafi verið í ósamræmi við reglur laga nr. 70/1996 og skráðar og óskráðar reglur stjórnsýsluréttar.

            Stjórnendur framhaldsskóla ráða sjálfir innri málefnum sinna skóla. Mat á því hverra skipulagsbreytinga er þörf til að koma til leiðar hagræðingu í rekstri er þannig í höndum yfirstjórnar skólans og sætir ekki öðrum takmörkunum en þeim að aðgerðir sem gripið er til verða að vera í samræmi við lög og meginreglur stjórnsýsluréttar. Æðstu stjórnendur hafa ekki frjálsar hendur um hvernig að uppsögn úr starfi er staðið við þær aðstæður að verið er að hagræða og ber í þeim efnum að haga undirbúningi og framkvæmd í samræmi við ákvæði laga nr. 70/1996, laga nr. 37/1993 og meginreglur um vandaða stjórnsýsluhætti. Er ákvæðum laga nr. 37/1993 meðal annars ætlað að tryggja að ekki sé verið að dylja hinar raunverulegu ástæður að baki uppsögn úr starfi. Dómstólar hafa slegið föstu að þegar grípa þarf til aðgerða eins og uppsagna úr starfi verði forstöðumaður að afmarka þau störf sem slíkar aðgerðir geta beinst gegn og velja úr þá sem telja verður að stofnunin geti helst verið án. Slíku vali eru takmörk sett af réttmætisreglu stjórnsýsluréttar. Verður valið að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum er taka mið af þeim opinberu hagsmunum sem hin opinbera stofnun vinnur að. Verður að gera þá kröfu til forstöðumanna opinberra stofnana að þeir gæti almennra stjórnsýslureglna í samskiptum sínum við starfsmenn sína, sérstaklega þegar um er að ræða ákvarðanir sem þýðingu hafa að lögum og ætlað er að hafa íþyngjandi áhrif. Uppsögn úr starfi sem framhaldsskólakennari er stjórnvaldsákvörðun, sem er hluti af stjórnsýslu skóla. Við undirbúning og ákvörðun ber stjórnendum því að fara eftir reglum laga nr. 37/1993, sbr. 1. gr. laganna.   

            Í máli því sem hér er til úrlausnar byggir stefnandi á því að skólameistara Iðnskólans í Hafnarfirði hafi ekki verið heimilt að segja stefnanda upp störfum án málefnilegra ástæðna, auk þess sem skólameistari hafi verið bundinn af meðalhófsreglu við ákvörðunina. Sú ástæða sem skólameistari hafi gefið upp hafi verið tylliástæða en ekki hin raunverulega ástæða uppsagnarinnar. Þá hafi stefnanda einum úr hópi kennara verið sagt upp. Ekki hafi verið rökstutt um málefnalegar ástæður þar að baki. Ekkert hæfnismat hafi verið framkvæmt á stefnanda. Af þessum ástæðum hafi ekki verið gætt lögmætra sjónarmiða við undirbúning og ákvörðun um uppsögn.

            Að því er aðdraganda að uppsögn varðar og samskipti stefnanda og skólameistara í því tilliti verður að líta til þess að skólameistari er æðsti stjórnandi Iðnskólans í Hafnarfirði. Ræður hann innri málefnum skólans og ber ábyrgð á því að starfsemi skólans sé jafnan í réttu horfi. Skólameistari, eða sá er hann felur vald til, ákveður hvaða kennslugreinar einstakir kennarar hafa með höndum. Verða kennarar að lúta ákvörðunarvaldi yfirstjórnar í þeim efnum. Fær af þessum ástæðum ekki staðist sú staðhæfing stefnanda að hann hafi á haustönn 2011 verið sviptur kennslu. Fyrir liggur að ársnemendum skólans hafði fækkað frá árinu 2009. Af því leiddi, eðli málsins samkvæmt, að fækka varð kennslustundum. Við mat á því hvernig haga bæri kennslu við slíkar aðstæður bar skólameistara fyrst og fremst að taka mið af þeim opinberu hagsmunum sem stofnun hans vann að. Yrði niðurstaðan sú að kennslugreinar, sem stefnandi hefði haft með höndum, yrðu færðar yfir á aðra kennara, bar stefnanda að lúta því. Þá varð hann, í ljósi stjórnunarréttar skólameistara, að sæta því að vera falið að hafa umsjón með heimanámi nemenda. Í ljósi mótmæla stefnda og með vísan til framangreinds eru með öllu ósannaðar þær staðhæfingar stefnanda að skólameistari hafi haft horn í síðu stefnanda og að framganga skólameistara hafi tengst persónu hans.   

            Stefndi hefur leitt að því lýkur að fjárhagsstaða Iðnskólans í Hafnarfirði árin 2009 til 2011 hafi verið slík að stjórnendum skólans hafi bæði verið rétt og skylt að ráðast í endurskipulagningu á innri starfsemi skólans í ljósi mikils rekstrarhalla og fækkunar á ársnemendum við skólann. Samkvæmt 2. mgr. if. 44. gr. laga nr. 70/1996 er ekki skylt að gefa starfsmanni kost á að tjá sig um ástæður uppsagnar áður en hún tekur gildi ef uppsögn stafar af ástæðum svo sem þeirri að verið sé að fækka starfsmönnum vegna hagræðingar í rekstri stofnunar. Með hliðsjón af þessu bar skólameistara ekki að gefa stefnanda kost á að tjá sig um ástæður uppsagnarinnar.  

            Stendur þá eftir að leysa úr hvort málefnalegar ástæður hafi legið að baki þeirri ákvörðun að stefnanda var sagt upp störfum en ekki öðrum kennurum og hvort gætt hafi verið meðalhófs í því sambandi. Við aðalmeðferð málsins gáfu skólameistari, aðstoðarskólameistari og mannauðsstjóri skýrslu fyrir dóminum. Í vætti skólameistara kom fram að áður en að uppsögn kom og á árunum á undan hafi verið búið að leita allra leiða til að hagræða í rekstri skólans og ekki lengur undan því vikist að segja kennara upp störfum. Þá bar skólameistara, aðstoðarskólameistara og mannauðsstjóra saman um að innan æðstu stjórnar hafi verið lagt mat á hvaða starfsmanni skyldi sagt upp störfum í lok árs 2011, þegar fyrir lágu upplýsingar um fjölda nemenda á vorönn 2012. Hafi það mat byggst á yfirferð um hvaða kennara væri helst hægt að segja upp störfum út frá þeim fögum sem kennd væru og þeim kennurum sem myndu kenna á vorönninni. Sú vinna hafi leitt til þess að skólameistari hafi ákveðið að stefnanda skyldi sagt upp störfum. Með hliðsjón af vætti skólameistara, aðstoðarskólameistara og mannauðsstjóra er komin fram sönnun um að mat hafi verið lagt á nauðsyn þess að segja fastráðnum starfsmanni upp störfum og að mat hafi verið lagt á hvaða starfsmanni skyldi sagt upp. Þó svo ekki njóti við skriflegra gagna um þetta mat getur það eitt og sér ekki ráðið niðurstöðu um þetta atriði. Er jafnframt til þess að líta að í niðurlagi bréfs skólameistara 20. janúar 2012 til Kennarasambands Íslands er vísað til samanburðar á stefnanda og öðrum kennurum við skólann og verður að ætla að það sé gert á grundvelli þeirra málefnalegu sjónarmiða að mat hafi verið lagt á þörf fyrir stefnanda sem kennara við skólann samanborið við aðra fastráðna kennara. Með hliðsjón af framansögðu hefur stefnandi ekki leitt í ljós að undirbúningi og framkvæmd þeirrar ákvörðunar að segja stefnanda upp störfum hafi verið ábótavant. Verður stefndi því sýknaður af öllum kröfum stefnanda.    

            Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

            Af hálfu stefnanda flutti málið Gísli Guðni Hall hæstaréttarlögmaður en af hálfu stefnda Einar K. Hallvarðsson hæstaréttarlögmaður.

            Dóm þennan kveður upp Símon Sigvaldason héraðsdómari.

                                                            Dómsorð:

            Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfum stefnanda, Hjalta Þórissonar.

            Málskostnaður fellur niður.

 

 

                                                            Símon Sigvaldason