- Börn
- Líkamsárás
D Ó M U R
Héraðsdóms Reykjavíkur þriðjudaginn 20. mars 2018 í máli nr.
S-659/2017:
Ákæruvaldið
(Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari)
gegn
X
(Brynjólfur Eyvindsson lögmaður)
Mál þetta, sem
dómtekið var 20. febrúar sl., er höfðað með ákæru, útgefinni af
héraðssaksóknara 17. nóvember 2017, á hendur X, kennitala [...], [...], [...],
fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás og barnaverndarlagabrot, með því að hafa
mánudaginn 17. október 2016 á heimili sínu að [...] í [...] veist með ofbeldi
að A, sem þá var [...] mánaða gömul og ákærða gætti sem dagforeldri, með þeim
afleiðingum að A hlaut mikla maráverka og punktblæðingar á hálsi, mar og hrufl
hægra megin á andliti, punktblæðingar á kinnbeinum hægra megin, undir hægra
auga og framan við hægra eyra, yfirborðssprungu á húð í hægri augnkróki, mar á
vinstri kinn og vinstri eyrnasnepli og punktblæðingu aftan við vinstra eyra.
Telst þetta varða við
2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 98. gr. barnaverndarlaga
nr. 80/2002.
Þess er krafist að
ákærða verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Af hálfu B, kt. [...],
og C, kt. [...], fyrir hönd ófjárráða dóttur þeirra, A, kt. [...], er þess
krafist að ákærða verði dæmd til að greiða henni skaðabætur að fjárhæð
2.000.000 króna, ásamt vöxtum af fjárhæðinni samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001
um vexti og verðtryggingu frá 17. október 2016 en síðan með dráttarvöxtum
samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu
kröfunnar til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærðu verði gert að
greiða brotaþola málskostnað að skaðlausu.
Verjandi ákærðu krefst þess aðallega að ákærða verði sýknuð og bótakröfu verði vísað frá dómi. Til vara krefst hann vægustu refsingar sem lög leyfa og verulegrar lækkunar bótakröfu. Þá krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins, sem greiðist úr ríkissjóði.
Málsatvik
Lögreglu barst þann 17. október 2016 tilkynning frá Fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra um slys að [...] í [...]. Fram kom að ungt barn hefði fallið úr barnastól niður á gólf. Er lögreglumenn komu á vettvang var verið að flytja barnið, A, [...] mánaða gamla, burt í sjúkrabifreið á Bráðamóttöku barna við Hringbraut. Ákærða, dagmóðir brotaþola, skýrði frá því að hún hefði ekki séð þegar brotaþoli féll úr stólnum en komið að henni liggjandi á gólfinu fyrir aftan stólinn. Hún hefði tekið hana upp og huggað þar sem hún hefði grátið mikið en skömmu síðar hefði hún verið orðin hin hressasta. Hún hefði síðan tekið eftir áverkum á hálsi brotaþola og þá hringt eftir aðstoð. Slysið hafi orðið um klukkan 12:40 en hringt hafi verið eftir aðstoð kl. 13:34. Klukkan 15 hafi þær upplýsingar borist frá lækni á Barnaspítala Hringsins að áverkar á brotaþola væru talsverðir og ekki í samræmi við frásögn ákærðu.
Í kjölfarið fóru rannsóknarlögreglumenn á vettvang og rannsökuðu og mynduðu aðstæður. Atvikið átti sér stað í íbúð ákærðu, sem starfar sem dagmóðir. Fram kom að þennan dag hefði ákærða gætt fjögurra barna, en hún hefði starfað sem dagmóðir í átta ár. Í eldhúsi íbúðarinnar voru nokkrir barnastólar og kom fram að brotaþoli hefði setið í hvítum IKEA-barnastól við hlið viðarlitaðs Tripp Trapp-barnastóls. Fram kom hjá ákærðu að hún hefði verið að sinna einu barnanna og taka það úr barnastólnum eftir hádegismatinn um kl. 12:40 er hún hefði skyndilega séð fætur brotaþola steypast niður. Hún hefði strax brugðist við og komið að henni liggjandi á grúfu á gólfinu við hlið IKEA-stólsins þar sem hún hefði grátið mikið. Brotaþoli hefði verið með smekk með frönskum rennilás sem hefði legið á Tripp Trapp-stólnum. Ákærða kvaðst hafa huggað brotaþola og reynt að hringja í foreldrana en þau hefðu ekki svarað. Þá hefði hún hringt í daggæslufulltrúa [...]. Ákærða hefði tilkynnt málið til lögreglu kl. 13:34 eftir að hafa rætt símleiðis við föður brotaþola sem hefði óskað eftir því. Ákærða kvaðst hafa séð áverka myndast á hálsi brotaþola og hafa reynt að kæla hálsinn með kælipoka.
Lögreglumenn fóru því næst á Barnaspítala Hringsins þar sem áverkar á brotaþola voru myndaðir. Hún hafi verið með greinilega áverka á hálsi beggja vegna og að aftan eins og eftir ól eða eitthvað þess háttar. Þá hafi hún verið marin, bólgin og með roða á báðum kinnum. Vakthafandi læknir sagði að ekki liti út fyrir að brotaþoli hefði hlotið varanlega áverka, þungt högg á höfuðið eða heilahristing.
Í bráðamóttökuskrá kemur fram að við komu hafi brotaþoli verið vakandi og grátið. Lífsmörk hafi verið eðlileg og ekki að sjá aðra áverka en á hálsi og höfði. Hún hafi hreyft alla útlimi eðlilega og fljótlega verið farin að hlaupa um. Áverkum brotaþola er lýst þannig að um hafi verið að ræða 15 cm langt línulaga mar (húðblæðingu) sem hafi náð frá miðlínu hnakka aftanvert og fram á við vinstra megin í átt að vinstra eyra. Þetta hafi verið rauð lína sem hafi verið nokkrir millimetrar á breidd. Neðan við þessa línu hafi verið um 20 mm breitt svæði þar sem verið hafi margar litlar punktblæðingar. Þetta svæði hafi verið skarpt afmarkað og legið samsíða rauðu línunni. Þetta gæti í heild samrýmst þrýstingi frá ól þar sem mesti þrýstingur hefði verið þar sem marið hefði verið mest. Neðri kantur þessa marsvæðis hafi runnið saman við annað línulegt skarprautt mar hliðlægt á hálsi vinstra megin sem hafi legið í sömu stefnu. Þetta mar hafi verið um 7 cm langt og legið fram á við u.þ.b. að fremri kanti m. sternocleidomastoideus (höfuðvendir). Hægra megin hliðlægt á hálsi hafi einnig verið línulegt mar, um 4 cm langt, um miðbik hálsins yfir höfuðvendisvöðva með stefnu lárétt fram-aftur. Rétt ofan við þetta mar hafi verið tvær styttri marlínur og dreifðar punktblæðingar á sama svæði. Hægra megin á andliti hafi verið 4 cm langt og 2 cm breitt mar á gagnauga og hrufl og dreifðar litlar punktblæðingar yfir kinnbeininu, fram á við undir hægra auga og á svæðinu fyrir framan hægra eyra. Í augnkrók hægra megin hafi verið um 5 mm löng yfirborðssprunga í húðinni. Vinstra megin á andliti hafi verið dýpra mar á vinstri kinn sem hafi verið eins og tvær línur þar sem efri marlínan hafi legið frá vinstri eyrnasnepli og fram á miðja kinn, neðri marlínan hafi byrjað undir vinstra eyra og legið samsíða þeirri efri fram á miðja kinn. Um 2 cm hafi verið á milli þessara lína. Á miðri vinstri kinn hafi síðan verið línulegt mar sem hafi legið þvert á hinar tvær marlínurnar og tengt þær saman. Aftan við vinstra eyra hafi verið illa afmarkað svæði þar sem hafi verið litlar punktblæðingar. Þessir áverkar geti í heild samrýmst þrýstingi frá ól eða belti sem framkalli húðblæðingu (mar) og hrufl. Samkvæmt skráningunni var brotaþoli undir eftirliti í um þrjár klukkustundir. Ekki var um neina öndunarerfiðleika að ræða eða merki um áverka á barka. Hún borðaði og drakk eðlilega og var ekki með verki, ógleði eða uppköst. Þannig hafi engin merki verið um heilahristing eða dýpri áverka á hálsi.
Lögreglan leitaði álits D réttarmeinafræðings á áverkum brotaþola og orsökum þeirra. Álit hans, dags. 7. nóvember 2016, byggði á stafrænum ljósmyndum sem teknar voru 17. október og 2. nóvember 2016. Fram kemur að sjá hafi mátt tvöfalda línulaga, rákótta margúla innan hægra gagnaugasvæðis og á hálsi, svo og á vinstri kinn. Línulaga rákóttir margúlar hafi verið á báðum hliðum, svo og á aftari hluta hálsins. Einnig hafi verið hugsanlegar depilblæðingar á hliðlægum og neðri hluta efra og neðra augnloks hægra megin, á vinstra gagnaugasvæði, svo og umhverfis rákótta margúla á hálsi. Þá hafi verið óreglulega lagaðir doppóttir margúlar innan beggja hálssvæða.
Það er álit réttarmeinafræðingsins að brotaþoli hafi verið með ummerki um marga sljóa áverka báðum megin á andliti og á hálsi. Húðblettina sem sjáist á myndunum megi túlka sem margúla sem verði til við sljóa áverka. Brotaþoli hafi sýnt algeng blóðlaus áverkamerki, föl á miðsvæði og umlukin af samsíða marblettum. Þegar húðin lendi á hörðum hlut þrýstist blóðið til beggja hliða höggsins á húðina og rof verði á háræðum undir húðinni, sem myndi blóðlaust áverkasvæði. Slíkir áverkar hafi sést innan hægra gagnaugasvæðis, á hálsi og á vinstri kinn. Þessi mynstur sljórra höggáverka verði til við snertingu við hart/stíft eða mjúkt/sveigjanlegt, mjótt og langt yfirborð og séu almennt af völdum höggs með litlu, mjóu priki eða löðrungi með opnum lófa. Högg með belti eða einhvers konar beltis- eða reipislaga hlut sem samrýmist mynstrinu sé einnig mögulegt. Á vinstri kinn myndi tvöföldu, línulaga, rákóttu margúlarnir mynstur sem hægt væri að túlka sem ummerki frá hörðum hlut, svo sem beltissylgju eða hring (sem borinn er á fingri sem veitir löðrung).
Línulaga, rákóttu margúlarnir á hálsinum séu einnig vegna sljós höggáverka á háls sem hafi orðið af völdum mjúks/sveigjanlegs langs hlutar. Með tilliti til formfræði, styrks og staðsetningar áverkanna á hálsinum sé ekki hægt að greina hvort þeir hafi verið af völdum höggs með priki, hlutum líkum belti eða hvort áverkarnir hafi orsakast af hörðum þrýstingi um hálsinn með slíkum hlut, eins og um kyrkingu væri að ræða.
Fall eins og það sem ákærða hafi lýst myndi yfirleitt einhliða áverkamynstur. Brotaþoli hafi sýnt áverka á mörgum svæðum líkamans. Stjórnlaust fall úr 90 cm hæð myndi valda því að húðin kremdist og tognaði þannig að hún myndi rofna á álagssvæðinu. Hvirfil/gagnaugasvæðið (þar sem sumir áverkarnir hafi verið á brotaþola) séu viðkvæmari en ennið og hnakkinn. Fall úr 90 cm hæð á hvirfil/gagnaugasvæði myndi aftur valda alvarlegum áverkum, svo sem sárum á húð eða jafnvel höfuðkúpubroti. Aðeins sjáist minni háttar áverkar/margúlar á brotaþola sem hafi áhrif á húðina og undirliggjandi mjúkvef án nokkurra ummerkja um sár á húð eða dýpri skemmdir á vefjum.
Áverka í þessu máli sé aðallega að finna á lítt útistandandi svæðum á andliti og hálsi samanborið við þá hluta líkamans sem almennt verði fyrir falli, svo sem enni, augabrúnir, nef og kinnar. Þessi mynstur og dreifing áverkanna mæli einnig gegn því að um einfalt fall sé að ræða.
Réttarmeinafræðingurinn telur að ekki sé hægt að útskýra áverkana á andliti og hálsi brotaþola með einu atviki, sérstaklega ekki einu falli með höfuðið á undan eins og ákærða hafi lýst, þótt höfð sé hliðsjón af ýmsum ólíkum aðstæðum við fall. Ummerkin megi sennilega rekja til nokkurra sljórra áverka, svo sem löðrungs með opnum lófa, högga með mjóum, mjúkum/sveigjanlegum hlut eða ákafs þrýstings niður á harðan hlut með óreglulegt/mynsturlaga yfirborð.
Eftir að álit réttarmeinafræðingsins lá fyrir fór, þann 22. desember 2016, fram sviðsetning á atvikum að [...]. Sviðsetningin var tekin upp í hljóði og mynd og var hún sýnd við aðalmeðferð málsins. Ákærða sýndi þar hvernig aðstæður voru við atvikið og sýndi atburðarásina, en stuðst var við litla gínu sem brotaþola.
Framangreindur réttarmeinafræðingur var viðstaddur sviðsetninguna og vann í kjölfarið viðbótargreinargerð byggða á vettvangsrannsókn og endurgerð atvika, dags. 16. mars 2017. Kemur þar fram að ákærða hafi sýnt hvar brotaþoli hefði fallið og hvað hún hefði getað rekist í. Það var niðurstaða réttarmeinafræðingsins að eftir vettvangsrannsókn og endurgerð aðstæðna við atvikið væru skoðun hans og niðurstöður óbreyttar. Áverkar á andliti og hnakka brotaþola verði ekki skýrðir sem afleiðingar eins atviks, sérstaklega ekki eins tilviks um stakt fall með höfuðið á undan eins og ákærða hafi lýst. Að öllum líkindum sé um að ræða áverka eftir nokkur högg, svo sem löðrunga með lófa, eða högg með þunnum teygjanlegum/sveigjanlegum hlut, eða mikinn þrýsting á harðan/mynstraðan flöt.
Þann 21. júlí 2017 var E réttarmeinafræðingur dómkvaddur sem matsmaður til að leggja mat á áverka brotaþola og hvort hægt væri að útiloka að þeir væru tilkomnir með þeim hætti sem ákærða bar um, sérstaklega hvort áverkarnir gætu skýrst af því að brotaþoli hefði dottið á eða utan í barnastól. Í matsgerðinni, sem dagsett er 20. október 2017, kemur fram að þegar um sé að ræða fall séu áverkar á höfði einkum á útstæðum hlutum þess. Til þeirra teljist enni, augabrúnir, haka, nef og gagnaugu. Í slysatilvikum megi vanalega einnig finna fylgiáverka á útlimum eða bol þar sem fall eingöngu á höfuðið sé fremur óvenjulegt.
Í því tilviki sem hér um ræði séu áverkarnir einkum á þeim hlutum höfuðsins sem séu ekki útstæðir og áverkar á vöngum séu ekki dæmigerðir fyrir fall. Þessi staðsetning áverkanna sé algengari þegar um sé að ræða ofbeldi gegn börnum. Á hægri hlið höfuðsins sjáist húðáverki á augabrún eða svæðinu við gagnaugað sem út frá staðsetningunni gæti hafa orsakast af falli. Þessi áverki takmarkist þó ekki við framstæða hluta andlitshliðarinnar og sé rekjanlegur eftir útstæðum kúptum hluta andlitsins yfir vangann. Áverki sem nái út fyrir kúptan hluta andlitsins geti ekki samræmst falli á gólfið. Þá sé sú staðreynd að áverkar séu á báðum vöngum ekki útskýranleg frá sjónarhóli réttarmeinafræðinnar út frá einstöku fallatviki eins og ákærða lýsi. Þegar um sé að ræða u.þ.b. eins metra fallhæð verði flókið fall sem snerti báðar hliðar andlitsins að teljast fremur ósennilegt. Þá séu ekki fyrir hendi neinir fylgiáverkar á bol eða útlimum barnsins. Staðsetning áverkanna ein og sér valdi grunsemdum um að brotaþoli hafi orðið fyrir ofbeldi.
Striklaga áverkarnir á hálsinum séu annars eðlis og ekki unnt að rekja þá til falls. Blæðingarnar séu að hluta til rauðleitar, striklaga og formaðar. Slíkir áverkar geti aðeins orðið til með tvennum hætti. Annars vegar geti verið um að ræða fall á formaðan hlut en hins vegar högg með formuðum hlut. Matsmaður hafi ekki séð neinn hlut sem svo mikið sem komist í líkingu við form blæðinganna við vettvangsrannsókn. Frá sjónarhóli réttarmeinafræðinnar séu hinar samhliða striklaga og rauðleitu litabreytingar húðarinnar frekar til marks um áverka sem verði til við högg með flatri hendi eða öðrum hlut af svipaðri lögun. Þegar um sé að ræða högg með hendi eða formuðum, sveigjanlegum hlut leiði það vanalega til þess að blóðið þrýstist burt og æðarnar pressist saman þar sem fingurnir eða hluturinn lendi á húðinni. Á svæðunum milli fingranna eða við brúnir hlutarins fyllist æðarnar þá snögglega af blóðinu sem hafi þrýst í burtu undan högginu og það valdi fíngerðu æðarofi og blæðingum inn á vefinn sem komi fram sem rauðleitar striklaga blæðingar í húðinni. Útbreiðsla áverkanna út fyrir kúpt form höfuðsins bendi til þess að hluturinn sem hafi valdið áverkanum hafi verið nokkuð sveigjanlegur. Form blæðinganna bendi því til þess að áverkarnir hafi ekki orsakast við slys.
Í tilviki striklaga rauðleitra litabreytinga húðarinnar á hálsinum með depilblæðingum á jöðrunum sé um að ræða teygjuáverka á húðinni. Þegar húðin sé teygð of mikið leiði það vanalega til þess að smágerðar æðar í henni rifni og það birtist sem smágerðar, depillaga breytingar húðarinnar sem renni saman. Á áverkasvæðinu sjálfu fyrirfinnist hinar striklaga og samrunnu blæðingar inn á húðina, á jaðarsvæðunum sjáist frekar stakar depillaga blæðingar. Slíkir áverkar orsakist vanalega við það að togað sé í fatnað sem yfirfæri togkraftinn á húðina og það leiði loks til hinna formuðu áverka. Frá sjónarhóli réttarmeinafræðinnar samræmist teygjuáverki beggja vegna á hálsinum ekki falláverka. Frá þeim sjónarhóli sé sú tilgáta órökrétt að teygjublæðingarnar hafi orðið til við það að brotaþoli hafi flækst í stólnum við fallið, enda séu blæðingarnar inn á húðina á báðum hliðum hálsins, auk þess sem franski rennilásinn á smekknum hefði átt að opnast við slíkan kraft sem hefði leitt til svo umfangsmikilla teygjublæðinga.
Á heildina litið sé unnt að draga þá ályktun að áverkar brotaþola verði ekki skýrðir með stöku falli eins og ákærða greini frá. Því beri að ganga út frá því að sterkur grunur sé fyrir hendi um að ekki hafi verið um slys að ræða heldur ofbeldisverknað.
Framburður ákærðu og vitna
fyrir dómi
Ákærða neitar sök. Hún kvaðst ekki hafa veitt brotaþola neina áverka. Hún lýsti atvikinu þannig að það hefði átt sér stað þegar hún hefði verið að ljúka við að gefa börnunum hádegismat. Hún hefði lyft einu barninu upp og þrifið matinn af því. Þá hefði hún séð hreyfingu út undan sér, litið upp og séð fætur brotaþola hvolfast niður. Hún hefði þá rokið til og komið að henni liggjandi á gólfinu fyrir aftan Tripp Trapp-stól sem hefði verið við borðið. Brotaþoli hefði legið á grúfu með höfuðið að borðinu. Smekkur hennar hefði legið á neðra þrepi stólsins. Hún hefði gripið hana og hálfmisst hana, en hún væri ekki viss um hvort hún hefði þá getað rekist í eitthvað. Brotaþoli hefði grátið og hún hefði tekið hana upp til að hugga hana. Brotaþoli hefði fljótlega róast og þá hefði hún séð að hún hefði verið með áverka við gagnauga. Hún hefði náð í kælipoka og sett á hana. Skömmu síðar hefði hún einnig séð áverka á hálsinum á henni. Hún hefði hringt í foreldra hennar, í samræmi við verklagsreglur, en hvorugt þeirra hefði svarað. Hún hefði þá hringt í F daggæslufulltrúa sem hefði ráðlagt henni að halda áfram að reyna að ná sambandi við foreldrana. Faðir brotaþola hefði svo hringt til baka. Hann hefði heimtað að hún hringdi á sjúkrabíl. Hún hefði ekki sagt honum að brotaþoli væri ekki með sjálfri sér, en hún hefði verið þreytt þar sem hún hefði ekki þorað að láta hana sofna. Hann hefði svo verið kominn á undan sjúkrabílnum og hefði tekið brotaþola af henni. Ákærða kvaðst ekki geta skýrt áverkana á brotaþola með öðrum hætti en að hún hefði fengið þá við fallið. Hún kvaðst ekki hafa séð hana standa upp. Hún benti á að brotaþoli og stúlkan sem hefði setið við hliðina á henni hefðu verið að rífa smekkinn hvor af annarri. Þá taldi hún mögulegt að smekkurinn hefði flækst í einhverju við fallið. Brotaþoli hefði oft náð að losa sig úr barnastólnum, en ólíklegt væri að hún hefði getað vafið bandinu um sig. Ákærða kvaðst ekki hafa séð neina áverka á brotaþola við komu um morguninn. Enginn annar hefði verið heima hjá henni þennan morgun, hún hefði verið ein með fjögur ung börn. Ákærða kvaðst hafa átt góð samskipti við foreldra brotaþola. Brotaþoli hefði verið líflegt og skemmtilegt barn og virst vera ánægð hjá henni. Hún hefði verið á þeim aldri sem börn meiðast oft. Ákærða lýsti atviki sem átti sér stað nokkru fyrr. Hún hefði verið að skipta á einu barninu. Þá hefði brotaþoli farið undir sams konar barnastól og hún hefði fallið úr. Ólarnar undir honum hefðu verið bundnar saman. Brotaþoli hefði sett höfuðið í bandið og snúið sér. Hún hefði fengið svipaðan hálsáverka við það. Foreldrarnir hefðu tilkynnt um þetta til daggæslufulltrúa. Ákærða kvaðst hafa hætt störfum sem dagmóðir í apríl 2017 og ekki hafa starfað síðan. Hún sækti sálfræðimeðferð vegna kvíða og þunglyndis og hefði verið greind með áfallastreituröskun.
Vitnið B, faðir brotaþola, kvaðst vera lögreglumaður. Hann hefði þennan dag þurft að sinna útkalli vegna slyss og að því loknu séð að ákærða hefði hringt. Hann hefði hringt til baka og þá fengið að vita að brotaþoli hefði fallið úr barnastól. Ákærða hefði sagt að brotaþoli væri ekki með sjálfri sér. Brotaþoli hefði verið blágrá og stjörf. Hún hefði verið með áverka, meira á vinstri hlið. Þá hefði hún verið með greinileg för á hálsi og díla í augum og virst vera með skerta meðvitund. Brotaþoli hefði byrjað að sýna viðbrögð þegar þau hefðu verið komin nokkuð áleiðis í sjúkrabílnum. Hann hefði ekki skilið hvernig þetta hefði gerst, en hann hefði ekki gefið ákærðu færi á að skýra það. Hann hefði farið með brotaþola í rannsóknir á spítalanum. Hún hefði jafnað sig, en áverkarnir hefðu verið nokkurn tíma að fara.
Vitnið C, móðir brotaþola, kvaðst hafa verið í vinnu er hún hefði fengið tilkynningu um áríðandi símtal. Hún hefði náð sambandi við ákærðu sem hefði verið í uppnámi. Hún hefði flýtt sér af stað og mætt sjúkrabíl á leiðinni. Sjúkrabílar og lögregla hefðu verið á staðnum. Ákærða hefði viljað útskýra fyrir henni hvað hefði gerst. Hún hefði sagt að hún hefði verið að gefa börnunum að borða og séð út undan sér hvar brotaþoli hefði fallið. Hún hefði klifrað úr barnastólnum og dottið á Tripp Trapp-stól. Vitnið kvaðst hafa séð beltið í barnastólnum. Það hefði verið fest saman en mjög vítt. Hún hefði síðan farið á spítalann og fengið áfall þegar hún hefði séð áverkana. Þau hefðu verið á spítalanum fram að kvöldmat. Brotaþoli hefði verið lítil í sér allan daginn. Hún hefði sent ákærðu skilaboð þegar þau hefðu komið heim um að allt væri í lagi og fengið það svar að henni væri létt. Þau hefðu ekki viljað að brotaþoli færi aftur til ákærðu og haft hana heima þar til hún hefði fengið pláss í leikskóla viku síðar. Áverkar hefðu þá enn verið sjáanlegir á henni. Þá greindi vitnið frá atviki nokkrum mánuðum áður, þegar brotaþoli hefði flækst í ólum á barnastól hjá ákærðu, sem hún hefði tilkynnt daggæslufulltrúa þar sem hún hefði haft áhyggjur af slysahættu. Brotaþoli hefði þá verið með sams konar línur á hálsinum. Vitnið taldi brotaþola hafa jafnað sig eftir atvikið. Hún hefði ekki breyst í viðmóti.
Vitnið F, daggæslufulltrúi í [...], greindi frá því að ákærða hefði hringt til sín og tilkynnt að brotaþoli hefði dottið og hún næði ekki sambandi við foreldrana. Hún hefði spurt hana hvort þetta hefði verið alvarlegt og hvort ástæða væri til að hringja á sjúkrabíl. Ákærða hefði ekki talið svo vera og hún hefði ekki minnst á áverka. Hún hefði verið óróleg yfir því að ná ekki í foreldrana. Hún hefði heyrt aftur í ákærðu um klukkan 13:30 en þá hefði verið búið að sækja brotaþola. Ákærða hefði þá greint nánar frá atvikum og talað um roða í andliti brotaþola. Hún hefði sagt að brotaþoli hefði aldrei misst meðvitund en faðir hennar virtist hafa haldið það. Vitnið hefði farið á heimili ákærðu síðar um daginn og beðið hana að sýna sér hvað hefði gerst. Hún hefði sýnt henni hvar brotaþoli hefði fallið á Tripp Trapp-stól. Hún hefði verið með smekk. Hún hefði sjálf skrifað minnisblað um atvikið skömmu síðar. Hún kvaðst líta svo á að ákærða hefði farið að verklagsreglum um viðbrögð við slysum. Þá greindi vitnið frá öðru atviki sem tengdist barnastólnum nokkru áður. Hún greindi jafnframt frá því að ekki hefðu borist kvartanir vegna starfa ákærðu.
Vitnið G lögreglumaður kvaðst hafa komið á vettvang þegar verið var að flytja brotaþola burt. Upplýsingar hefðu borist um slys hjá dagmóður. Þau hefðu rætt við ákærðu en óljóst hefði verið hvað hefði gerst, og hún hefði ekki séð atvikið. Barnastóllinn sem brotaþoli hefði setið í hefði verið eins og á myndum sem fylgdu lögregluskýrslu. Ekkert hefði verið að sjá sem hægt hefði verið að festa hendur á. Viðbótarupplýsingar hefðu svo borist frá lögreglumanni á barnaspítalanum. Rannsóknardeild hefði svo tekið við málinu.
Vitnið H lögreglumaður kom einnig á vettvang þegar sjúkrabíllinn var að fara. Hún kvað þar hafa verið fínt og snyrtilegt og búið að svæfa börnin. Ákærða hefði bent á IKEA-barnastól og talað um að brotaþoli hefði farið á hvolf og líklega flækt sig í smekknum. Þau hefðu séð að beltið í stólnum var mjög vítt. Á þessum tíma hefðu þau ekki vitað neitt um áverka á brotaþola. Ákærða hefði verið róleg og yfirveguð.
Vitnið I [...]læknir greindi frá vottorði sínu vegna komu brotaþola á bráðamóttöku. Hann kvaðst þekkja hana sem [...], en það hefði verið tilviljun að hann hefði tekið á móti henni þennan dag. Brotaþoli hefði verið með augljósa áverka á andliti og hálsi. Ekki hefðu verið áverkar annars staðar á líkama hennar. Þá hefði hún ekki verið með stórar kúlur eða merki um þung högg. Hann hefði fengið upplýsingar um atvikið frá föður hennar og hugsanlega líka frá lögreglu. Brotaþoli hefði ekki verið með lífshættulega áverka eða áverka á barka. Hann hefði ekki myndað sér skoðun á því eftir hvað þetta gæti verið, en einbeitt sér að því að meta hana læknisfræðilega. Hann hefði þó ekki talið áverkana venjubundna áverka eftir fall barns, jafnvel þótt það hefði fallið á stól við hliðina. Við slíkt væri algengt að sjá kúlur og áverka á höfði. Rispa við auga væri t.d. ekki áverki sem kæmi við fall á sléttan flöt. Líklegra væri að slíkt kæmi eftir að vera sleginn eða við fall á borðbrún. Ef áverkar kæmu báðum megin á andlitið þyrfti fallið helst að vera niður stiga. Hann hefði átt erfitt með að átta sig á mynstri sem hefði myndast á kinn brotaþola. Hann hefði leitað að myndum af slíkum áverkum og fundið samsvarandi myndir en þar hefði áverkinn verið af völdum kinnhests. Þá hefðu áverkar á hálsi brotaþola ekki verið vegna sama atburðar. Hann taldi ólíklegt að þeir áverkar væru eftir smekk með frönskum rennilás, en þeir væru hannaðir til að gefa fljótt eftir og ættu því ekki að geta valdið slíkum áverkum. Hann hefði talið áverkana á hálsinum vera eftir ól. Honum hefði fundist þörf á frekari rannsókn á þessu atviki. Brotaþoli hefði fljótt farið að hreyfa sig og borða eðlilega.
Vitnið
D réttarmeinafræðingur kvaðst hafa unnið álit sitt með hliðsjón af myndum af
brotaþola og framburði ákærðu. Þá hefði hann verið viðstaddur sviðsetningu
atviksins. Hann taldi gæði myndanna ekki hafa getað haft áhrif á niðurstöðu
sína. Brotaþoli hefði verið með áverka á báðum hliðum andlitsins og hálsi og
auk þess aftan á hnakka. Hún hefði verið með margúla og hugsanlegar
depilblæðingar á gagnaugasvæði á hægri hlið andlitsins. Hún hefði verið með
svipaða áverka á vinstri hlið sem hefðu þó ekki verið jafn vel komnir fram. Þá
hefði hún verið með mjög rauðar rákir á hálsi. Framangreindir áverkar væru ekki
á dæmigerðum fallstöðum. Ef einhver dytti á gólfflöt yrði snerting við
útistandandi hluta, svo sem nef, höku eða augabrúnir. Þá væri ekki bara að
vænta margúla heldur einnig húðáverka, t.d. skráma. Hann teldi því að ekki væri
um að ræða áverka sem kæmu til við eitt fall. Ákærða hefði lýst einu falli en
vissi ekki hvort brotaþoli hefði rekist á eitthvað í fallinu. Þótt tekið væri
tillit til þess að brotaþoli hefði getað rekist í eitthvað í fallinu kæmu
áverkarnir ekki heim og saman við það. Um væri að ræða einhvers konar fjaðrandi
hlut með útlínur sem svöruðu til áverkanna. Mögulega gætu áverkarnir verið
eftir löðrung. Brotaþoli hefði hlotið marga sljóa áverka. Áverkarnir á hálsinum
væru eftir mjóan sveigjanlegan hlut. Þetta gæti verið eftir skammvinna tilraun
til kyrkingar, t.d. með bandi eða fatnaði með harða brún. Þetta gæti verið
eftir ól í barnastól eða tog í föt en það þyrfti að herða að beggja vegna.
Hugsanlegt væri að svona kæmi fram við að gripið væri í föt brotaþola og snúið.
Hann hefði skoðað ólina í barnastólnum en hún hefði verið of stutt til þess að
koma til greina. Þá hefði smekkurinn sem brotaþoli hefði verið með losnað
auðveldlega þegar togað hefði verið í hann. Hann gæti því ekki hafa hert að í
falli. Áverkar á vinstri hlið andlits brotaþola virðist geta verið handafar. Á
hægri hlið séu langir áverkar með bjartari svæðum á milli. Vitnið lýsti því að
ef fullorðin manneskja hefði veitt þessa áverka hefði einungis þurft
miðlungsmikið afl til þess að veita áverkana í andlitinu. Hins vegar hefði
þurft mikið afl til þess að veita áverkana á hálsinum. Ef depilblæðingarnar í
andlitinu væru af þessum sökum hefði þurft miðlungs- til mikið afl. Snerting
við fall væri of stutt til þess að geta lokað æðunum. Áverkarnir í andlitinu
væru ekki hættulegir. Hins vegar gætu áverkarnir á hálsinum verið af völdum
kyrkingartaks sem gæti verið lífshættuleg fyrir barn á þessum aldri.
Vitnið E, réttarmeinafræðingur og dómkvaddur matsmaður, staðfesti matsgerð sína í málinu. Hann greindi frá því að rannsókn hans hefði verið unnin eftir ljósmyndum, en hann hefði ekki rannsakað brotaþola. Helsti gallinn við það væri að ekki væri mælikvarði á myndunum. Myndgæðin hefðu þó verið nægjanleg til að meta þetta, en algengt væri að möt sem þessi byggðu á ljósmyndum. Brotaþoli hefði verið með blæðingar á báðum hliðum höfuðsins. Á vinstri vanga hennar hefðu verið blæðingar með skýra formgerð. Þessi áverki gæti bara komið til við fall á formaðan hlut eða að hún hefði verið slegin með formuðum hlut. Hann hefði ekki séð neitt slíkt á vettvangi. Á báðum hliðum hefðu verið smáar depillaga blæðingar. Ef barn félli úr barnastól niður á gólf mætti búast við áverkum öðrum megin. Áverkarnir á brotaþola hefðu einungis verið á höfði og hálsi. Ef um fall væri að ræða mætti búast við að áverka væri líka að finna á bol, öxlum eða útlimum. Blæðingarnar í andlitinu væru ekki bara á útstæðum hlutum heldur næðu út fyrir það. Það væri ekki í samræmi við fall. Áverki hægra megin utanvert á augabrún gæti samræmst falli. Á heildina litið samræmdist staðsetning áverkanna, form þeirra og vöntun áverka annars staðar á líkamanum því ekki að þeir hefðu orðið til við fall, heldur bentu þeir til þess að þeir hefðu orðið til við högg með hendi. Alls ekki sé hægt að útskýra áverkana með einhliða falli á gólf. Það breyti þessu ekki þótt brotaþoli hefði hugsanlega rekist í barnastólinn við hliðina á henni í fallinu. Við þetta bættust áverkarnir á hálsinum. Þar væri um að ræða teygjuáverka vegna fasts togs á húðinni. Um væri að ræða punktlaga áverka sem saman mynduðu striklaga áverka. Þetta gæti verið eftir flík sem væri hert að hálsinum, en yrði ekki skýrt með falli. Brotaþoli hefði verið með smekk með frönskum rennilás. Þar sem mikið afl hefði valdið áverkunum á hálsi brotaþola yrði að gera ráð fyrir því að hann hefði opnast. Við skoðun á vettvangi og skoðun mynda þaðan hafi hann ekki séð neitt það sem smekkurinn hefði getað fest við og valdið þessu. Það sé niðurstaða hans að brotaþoli hafi orðið fyrir ofbeldi og áverkarnir samræmist því ekki að um fall hafi verið að ræða. Áverkarnir hafi verið á báðum hliðum andlitsins og það bendi til þess að um tvö atvik hafi verið að ræða. Aðhersluför hafi verið á báðum hliðum hálsins. Ef ól hefði herst að hálsi brotaþola í fallinu væri við því að búast að áverkinn væri fyrst og fremst öðrum megin nema um væri að ræða fall úr nægilega mikilli hæð. Ef svo væri hefði aðherslan að hálsinum dregið úr fallinu. Höggáverkarnir hefðu þá orðið mun minni. Það sé ekki rökréttur möguleiki að það hafi gerst í þessu tilviki.
Niðurstaða
Ákærðu
er gefin að sök sérstaklega hættuleg
líkamsárás og barnaverndarlagabrot með því að hafa veist að brotaþola,
sem hún gætti sem dagforeldri, með þeim afleiðingum að brotaþoli hlaut
talsverða áverka. Þykir þessi
verknaðarlýsing í ákæru vera nægjanlega skýr þegar tekið er tillit til
sakargifta og ekki vera þess valdandi að ákærðu hafi verið óhægt um vik að taka
afstöðu til sakargifta og halda uppi viðhlítandi vörnum. Ákærða neitar
sök og hefur gefið þær skýringar að áverkarnir hafi hlotist af falli brotaþola
úr barnastól.
Umræddan dag gætti ákærða fjögurra ungra barna á heimili sínu. Enginn annar var á heimilinu á þessum tíma. Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að brotaþoli hafi orðið fyrir einhvers konar falli eða öðru slysi fyrir komuna til ákærðu þennan dag. Þá ber ákærða að hún hafi ekki orðið vör við neitt slíkt áður en brotaþoli hafi fallið úr barnastólnum. Það er því ljóst að brotaþoli hlaut áverkana meðan hún var í umsjá ákærðu.
Ákærða er ein til frásagnar um það sem gerðist á heimili hennar þennan dag. Hún lýsti því að hún hefði verið að sinna öðru barni er hún hefði séð fætur brotaþola þar sem hún steyptist úr barnastólnum og lenti á gólfinu. Hún hefði komið að henni liggjandi á grúfu á gólfinu við hlið stólsins, aftan við Tripp Trapp-stól sem hefði verið við borðið við hlið barnastólsins sem brotaþoli sat í. Smekkur sem hún hefði haft um hálsinn hefði legið á Tripp Trapp-stólnum. Hún kvaðst hafa tekið utan um brotaþola og lyft henni upp en misst takið augnablik áður en hún hefði náð að taka hana í fangið. Þá lýsti hún því að hún hefði fljótlega séð áverka byrja að myndast á brotaþola.
Fyrir liggja myndir af áverkum brotaþola sem teknar eru samdægurs og skömmu síðar. Á þeim má sjá talsverða maráverka og punktblæðingar báðum megin í andliti og skýrar dökkrauðar línur á báðum hliðum hálsins og að aftan, en áverkunum hefur verið lýst ítarlega hér að framan. Í málinu liggja fyrir álit læknis og tveggja réttarmeinafræðinga og hefur þegar verið gerð ítarleg grein fyrir þeim. Læknir sem tók á móti brotaþola á bráðamóttöku skýrði fyrir dóminum hvers vegna hann hefði ekki talið áverkana á brotaþola samræmast sögu um fall úr barnastól. Hann taldi áverkana ekki vera dæmigerða fyrir fall, auk þess sem þeir hefðu þá ekki átt að vera á báðum hliðum andlitsins. Einnig skorti annars konar áverka sem algengt væri að sjá eftir fall. Þá taldi hann áverkana á hálsinum ekki vera eftir sama atvik.
Réttarmeinafræðingur sem lögregla leitaði til tók þátt í sviðsetningu atviksins. Það er skoðun hans að áverkar á brotaþola verði ekki skýrðir af einu falli úr barnastól, þótt tekið sé tillit til aðstæðna á vettvangi, þess sem brotaþoli hefði getað rekist í, ólar á barnastólnum og smekks sem hún hafði um hálsinn. Staðsetning áverkanna mælti gegn þeim möguleika, auk þess sem ekki væri fyrir að fara öðrum áverkum sem reikna mætti með. Hann kvað ekkert hafa verið að sjá á vettvangi sem hefði getað orsakað áverkana á barninu, en líklegast væri að þeir væru eftir nokkur högg, svo sem löðrunga, högg með sveigjanlegum hlut eða eftir mikinn þrýsting á mynstraðan flöt. Þá væru áverkar á hálsi brotaþola eftir mjóan sveigjanlegan hlut. Ólin í barnastólnum hefði verið of stutt til að koma til greina og smekkurinn sem brotaþoli hefði haft um hálsinn hefði verið með frönskum rennilás sem hefði auðveldlega gefið eftir og hefði því ekki getað herst að og valdið slíkum áverkum.
Réttarmeinafræðingur sem var dómkvaddur sem matsmaður til að leggja mat á áverkana og hugsanlegar orsakir þeirra, sérstaklega hvort þeir gætu hafa orsakast af falli utan í barnastól, telur áverkana ekki verða skýrða af einstöku falli. Áverkar á brotaþola hafi ekki verið á stöðum sem séu dæmigerðir fyrir fall og ekki hafi verið fyrir hendi fylgiáverkar sem venjulega sjáist. Áverkana á hálsinum sé ekki hægt að rekja til falls, sérstaklega þegar litið sé til þess að þeir hafi ekki einungis verið á annarri hlið hálsins. Hann hafi ekkert séð við vettvangsrannsókn sem gæti hafa valdið áverkunum. Matsmaðurinn telur áverkana samræmast því að um ofbeldisverknað hafi verið að ræða.
Samkvæmt framangreindu er það samdóma álit tveggja sjálfstæðra réttarmeinafræðinga, en annar þeirra var dómkvaddur matsmaður, og læknis sem skoðaði brotaþola á bráðamóttöku að áverkar á henni hafi ekki getað orsakast af falli eins og ákærða hefur lýst. Dómurinn, sem skipaður er sérfróðum meðdómanda, hefur skoðað ljósmyndir af vettvangi, upptöku frá vettvangsskoðun og ljósmyndir af áverkum á brotaþola. Er dómurinn sammála framangreindu mati á því að þeir áverkar sem brotaþoli var með verði ekki skýrðir með falli úr barnastól þótt litið sé til alls þess sem hún hefði getað flækst í eða rekist í við fallið. Er þá litið til staðsetningar áverkanna á báðum hliðum andlitsins og á svæðum sem eru ekki útistandandi, en slíkt samræmist ekki falli úr barnastól. Þá var brotaþoli ekki með áverka sem reikna hefði mátt með við slíkt fall, svo sem kúlur á höfðinu eða áverka á öðrum líkamshlutum. Áverkarnir á hálsi brotaþola virðast ekki hafa getað komið til við fall, einkum vegna staðsetningar þeirra. Þá er ljóst að ólin í barnastólnum var föst og ekki nægjanlega löng til þess að geta flækst um háls brotaþola við fall eins og ákærða hefur lýst. Smekkurinn sem brotaþoli hafði um hálsinn er sérstaklega hannaður til að gefa eftir ef togað er í hann. Réttarmeinafræðingur sem skoðaði smekkinn staðfesti að hann hefði auðveldlega gefið eftir. Það hefði því engu breytt þótt barn sem sat í barnastól við hlið brotaþola hefði togað í smekk hennar skömmu fyrir fallið.
Þegar allt framangreint er virt er sannað að brotaþoli hlaut áverkana ekki við fall eins og ákærða hefur skýrt frá. Enginn annar en ákærða kom nálægt henni á þeim tíma sem hún hlaut áverkana. Þar sem ekkert annað hefur komið fram sem mögulega getur skýrt áverka brotaþola verður að hafna framburði ákærðu um að þeir hafi hlotist af slysförum.
Framangreindir
sérfræðingar telja allir að áverkar á brotaþola samræmist því að hún hafi verið
beitt einhvers konar ofbeldi, en áverkar á andliti gætu til að mynda verið
eftir löðrunga eða högg með sveigjanlegum hlut. Þá séu áverkar á hálsi eftir
sveigjanlegan hlut, svo sem ól, belti eða tog eftir fatnað sem hertur hafi
verið að hálsinum. Með hliðsjón af áliti sérfræðinganna og að teknu tilliti til
allra þeirra atriða sem gerð hefur verið grein fyrir hér að framan telur
dómurinn sannað svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærða hafi veitt
brotaþola þá áverka sem lýst er í ákærunni.
Af áverkum á brotaþola
er ljóst að um fleiri en eitt högg var að ræða, en áverkarnir voru á báðum
hliðum andlits hennar, auk hálsins. Réttarmeinafræðingur sem mat áverkana hefur
lýst því svo að miðlungsmikið afl frá fullorðinni manneskju hafi þurft til þess
að veita áverkana í andliti en talsvert afl hafi þurft til að valda áverkunum á
hálsi. Þá hefði slíkt atvik getað haft alvarlegar afleiðingar fyrir svo ungt
barn og jafnvel valdið lífshættu. Afleiðingar árásarinnar urðu meðal annars
punktblæðingar í andliti brotaþola. Ljóst er að töluvart afl þarf til þess að
valda þeim. Brotaþoli er fædd í [...] og var því um [...] mánaða er atvikið
átti sér stað. Árás fullorðinnar manneskju á höfuð og háls svo ungs barns, sem
getur ekki varið sig á neinn hátt, með beitingu slíks afls sem hér hefur verið
lýst, er að mati dómsins sérstaklega hættuleg líkamsárás. Verður ákærða
því sakfelld fyrir þá háttsemi sem lýst er í ákæru og er háttsemi hennar þar
rétt heimfærð til refsiákvæða.
Ákærða er fædd árið [...]. Hún hefur ekki áður gerst
sek um refsivert brot. Brot ákærðu var mjög alvarlegt og gat haft töluverðar
afleiðingar. Það beindist að ungu barni sem henni hafði verið treyst fyrir í
starfi sínu sem dagforeldri. Við ákvörðun refsingar verður litið til 1., 2. og
3. töluliðar 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Með hliðsjón af
framangreindu þykir refsing ákærðu hæfilega ákveðin fangelsi í níu mánuði en fresta skal
fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá
uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra
hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Af hálfu brotaþola er krafist miskabóta að fjárhæð 2.000.000 króna. Með vísan til b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 verður ákærða dæmd til að greiða brotaþola miskabætur. Brot hennar var alvarlegt, en samkvæmt framburði móður brotaþola hefur hún náð sér vel. Ekki liggja fyrir gögn um miska hennar. Þykja miskabætur hæfilega ákveðnar 500.000 krónur og bera þær vexti eins og í dómsorði greinir.
Ákærða greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjólfs Eyvindssonar lögmanns, 1.000.000 króna, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Þyríar Höllu Steingrímsdóttur lögmanns, 600.000 krónur. Við ákvörðun þóknunar lögmanna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Þá greiði ákærða 326.119 krónur í annan sakarkostnað.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari.
Dóm þennan kveða upp héraðsdómararnir Barbara Björnsdóttir og Pétur Dam Leifsson og Jón R. Kristinsson barnalæknir.
D Ó M S O R Ð :
Ákærða, X,
sæti fangelsi í níu mánuði en fresta skal
fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá
uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra
hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærða greiði A 500.000 krónur, með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 17. október 2016 til 27. apríl 2017, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærða greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjólfs Eyvindssonar lögmanns, 1.000.000 króna, þóknun réttargæslumanns brotaþola, Þyríar Höllu Steingrímsdóttur lögmanns, 600.000 krónur, og 326.119 krónur í annan sakarkostnað.