- Þjóðlenda
- Eignarréttarmál
D Ó M U R
Héraðsdóms Austurlands mánudaginn 20. apríl 2009 í máli nr. E-344/2007:
Helga Hallbjörg Vigfúsdóttir
Hallgrímur Kjartansson
Bergljót Kjartansdóttir
Björk Kjartansdóttir
Hjörleifur Kjartansson og
Þórhalla Agla Kjartansdóttir
(Friðbjörn Eiríkur Garðarsson hdl.)
gegn
Íslenska ríkinu
(Þórhallur Haukur Þorvaldsson hdl.)
Mál þetta, sem dómtekið var 23. mars 2009, var höfðað 17. desember 2007.
Stefnendur eru Helga Hallbjörg Vigfúsdóttir, Bringubakka, Fljótsdalshreppi, Hallgrímur Kjartansson, Glúmsstöðum II, Fljótsdalshreppi, Bergljót Kjartansdóttir, Stekkjartröð 7, Egilsstöðum, Björk Kjartansdóttir, Klúku, Fljótsdalshreppi, Hjörleifur Kjartansson, Glúmsstöðum II, Fljótsdalshreppi og Þórhalla Agla Kjartansdóttir, Krossholti, Borgarbyggð.
Stefndi er íslenska ríkið, Arnarhváli, Reykjavík.
Dómkröfur stefnenda eru þær að felldur verði úr gildi úrskurður óbyggðanefndar í málinu nr. 1/2005: Fljótsdalur og Jökuldalur austan Jökulsár á Jökuldal, frá 29. maí 2007, að því er varðar þjóðlendu á landsvæði innan neðangreindra marka, sem oft er nefnt Múli í skjallegum heimildum:
Eftir Sníkilsá, þeirri er sunnar liggur, frá þeim stað þar sem hún rennur í Jökulsá í Fljótsdal og allt að upptökum. Þaðan er dregin lína í Þverfell, við Tunguá, þeirri á fylgt fram á Tungufell. Þaðan er dregin lína til suðurs á vatnaskilum og þeirri línu fylgt til jökuls, síðan er jökuljaðrinum fylgt, eins og hann var við gildistöku þjóðlendulaga 1. júlí 1998, að upptökum Jökulsár í Fljótsdal við Eyjabakkajökul og loks fylgir línan þeirri á að fyrstnefndri Sníkilsá.
Stefnendur krefjast og viðurkenningar á því að innan framangreindra merkja sé engin þjóðlenda. Þá krefjast þeir málskostnaðar án tillits til gjafsóknar sem þeim hefur verið veitt hér fyrir dómi.
Stefndi krefst sýknu. Þá krefst hann aðallega málskostnaðar en til vara að hver aðila verði látinn bera sinn kostnað af málinu.
I.
Samkvæmt þinglýsingarvottorðum sem fyrir liggja er stefnandi Helga Hallbjörg Vigfúsdóttir eigandi jarðarinnar Glúmsstaða I, en aðrir stefnendur eru eigendur jarðarinnar Glúmsstaða II í þar nánar greindum eignarhlutföllum, en báðar eru jarðirnar í Fljótsdalshreppi. Kemur fram í stefnu að jörðin Glúmsstaðir sé forn jörð og sé önnur tveggja jarða í öllum Fljótsdal sem aldrei hafi komist í eigu kirkju eða kirkjustofnana svo vitað sé. Jörðin hafi þannig verið í bændaeign frá því til hennar hafi verið stofnað og því hafi varðveist sárafáar beinar heimildir um landamerki jarðarinnar. Jörðinni hafi verið skipt í Glúmsstaði I og II að því er virðist á þriðja áratug 20. aldar, en þó ekki formlega fyrr en með landskiptagerð dags. 20. júlí 1958. Heimalandinu hafi verið skipt með merkjum en hið umþrætta landsvæði sé í óskiptri sameign stefnenda í hlutföllunum 2/3 í eigu Glúmsstaða I, en 1/3 í eigu Glúmsstaða II.
II.
Í samræmi við ákvæði laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, tók óbyggðanefnd til meðferðar nánar tilgreint landsvæði á Norðausturlandi, sem nefndin kallaði svæði nr. 5. Hófst málsmeðferðin á árinu 2004 og lauk með uppkvaðningu úrskurða 29. maí 2007 í málum sem fengu númerin 1 til 5/2005. Var útdráttur úrskurðanna birtur í Lögbirtingablaðinu 18. júlí 2007 lögum samkvæmt, en mál þetta var höfðað 17. desember sama ár og því innan þess sex mánaða málshöfðunarfrests sem kveðið er á um í 1. mgr. 19. gr. laga nr. 58/1998. Stefnendur áttu aðild að málsmeðferð óbyggðanefndar vegna jarða sinna Glúmsstaða I og II. Ágreiningsefni í máli þessu varðar þann hluta úrskurðar óbyggðanefndar í máli nr. 1/2005 sem lýtur að eignarréttarlegri stöðu svonefnds Múla, vestan við vatnaskil, innan þeirra merkja sem fram koma í kröfugerð stefnenda hér að framan. Um þann hluta Múla sem liggur austan vatnaskila er fjallað í samskonar máli sem er til úrlausnar fyrir dómnum og varðar jörðina Þorgerðarstaði og hefur það mál númerið E-351/2007, en niðurstaða óbyggðanefndar um þann hluta Múla varð sambærileg og varðandi það land sem hér er deilt um. Komst óbyggðanefnd að þeirri niðurstöðu í nefndum úrskurði að landsvæðið væri þjóðlenda í afréttareign, stefnenda, sem eigenda jarðanna Glúmsstaða I og II, en einnig í afréttareign jarðarinnar Glúmsstaðasels.
III
Eins og mál þetta er lagt fyrir dóminn er ekki uppi deila með aðilum um það hvernig umrætt landsvæði er afmarkað gagnvart aðliggjandi svæðum. Þykir því ekki nauðsynlegt að gera grein fyrir þeim þáttum í niðurstöðu óbyggðanefndar er varða afmörkun svæðisins en látið við það sitja að gera grein fyrir niðurstöðu nefndarinnar að því er varðar ákvörðun á eignarréttarlegri stöðu þess. Fjallar óbyggðanefnd í einu lagi um það svæði sem nefnt er Múli en það nær yfir landsvæði það sem hér er deilt um en einnig landsvæði sem deilt er um í máli nr. E-351/2007, sem einnig er til meðferðar hér fyrir dómi og áður hefur verið getið og varðar eignarréttartilkall eigenda jarðarinnar Þorgerðarstaða.
Kemur fram í niðurstöðu óbyggðanefndar að því sé ekki lýst í Landnámabók hvort og þá að hvaða marki landnám á þessu svæði hafi náð inn til landsins. Sé tekið mið af staðháttum og fjarlægðum við túlkun landnámslýsinga verði þó að telja fremur ólíklegt að Múli hafi verið numinn. Óvissa um aðferðir við landnám sé þó of mikil til þess að hægt sé að fullyrða um stærð landnáma á þeim grundvelli.
Heimildir um merki Glúmsstaða, Glúmsstaðasels og Þorgerðarstaða bendi ekki til þess að Múlaafréttur hafi verið innan merkja jarðanna. Á hann sé ekki minnst í landamerkjabréfum þessara jarða. Ýmsar heimildir geti þó um rétt Glúmsstaða til Múla. Í sóknarlýsingu 1840-1841 segi þannig um Glúmsstaði að þeir eigi „heimaland allt fram allan Norðurdalinn fyrir sunnan ána og svo eftir það afréttarland á Múlanum fast fram að jökli.“ Í jarðamati frá árinu 1804 komi fram að Glúmsstaðir eigi „afrétt“ sem metinn sé til 20 álna og í sóknarlýsingu frá árinu 1873 segi að þriðji afrétturinn sem Fljótsdælingar noti sé á Múlanum sem Glúmsstaðaeigendur eigni sér. Jarðamatið 1849 greini einnig frá því að Glúmsstaðir eigi ekki „einúngis nægilegt land fyrir sitt eigid géldfé, heldur einnig gétur sér ad skadlausu midlad ödrum afrétt fyrir 400 fjár.“ Þegar gert hafi verið sitt hvort landamerkjabréfið fyrir Glúmsstaði og Glúmsstaðasel, samdægurs 1885, hafi ekkert verið tekið fram um hvernig farið skyldi með framangreint afréttarland á Múlanum. Landsvæðið muni hafa verið nýtt til beitar frá báðum jörðunum, sbr. t.d. umfjöllun um Glúmsstaðasel í ritinu Sveitir og jarðir í Múlaþingi II (1975) þar sem segi m.a. svo: „Afréttir eru á Múla, og taka fyrstu göngur þar 4 daga.“ Verði því að líta svo á að þau réttindi sem þar um ræði hafi verið óskipt.
Að því er varði Þorgerðarstaði beri þess fyrst að geta að sú jörð hafi lengst af verið meðal eigna Valþjófsstaðakirkju sem kallað hafi til réttinda á Múla. Heimildir um það tilkall virðist þó taka til lands á norðan- og austanverðum Múla, þ.e. innan merkja jarða á því svæði, sbr. t.d lögfestu Valþjófsstaðaprests frá 1840. Í óársettri skýrslu um eignir og ítök kirkjunnar sé þó að finna lista yfir „afréttarlönd“ og þar segi m.a. svo: „Múlaland ad austanverdu fra Tungua fram á motsvid Grafarnes, edur fram til Jökla.“ Þetta svæði sé hins vegar hvorki nefnt í landamerkjabréfi Valþjófsstaðarkirkjueignar né ítakaskrá, frá 6. júní 1885, en þar sé hins vegar getið um Suðurfell. Um Þorgerðarstaði sjálfa segi í jarðamatinu 1849 að jörðin þurfi ekki að kaupa afrétt fyrir sig. Í Göngum og réttum segi að Múlinn sé afréttarland þeirra sem í Múlanum búi. Af hálfu Glúmsstaða og Glúmsstaðasels sé ekki gerð krafa til þess landsvæðis á sunnan- og austanverðum Múla, sem eigendur Þorgerðarstaða geri kröfur til í máli þessu. Kröfulínur aðila í því sambandi séu miðaðar við vatnaskil inn til jökuls.
Óbyggðanefnd telji framangreint benda til þess að Múlaafréttur sé afréttur jarða í þeim skilningi að Glúmsstaðir, Glúmsstaðasel og Þorgerðarstaðir eigi þar óbein eignarréttindi fremur en beinan eignarrétt, sbr. einnig landamerkjabréf þessara jarða, sem ekki taki til þessa landsvæðis. Engin gögn liggi fyrir um að fyrir gildistöku þjóðlendulaga hafi Múlaafréttur nokkurn tíma verið nýttur til annars en sumarbeitar og ef til vill annarra takmarkaðra nota. Staðhættir styðji þá niðurstöðu en land þetta liggi í um 650 – 900 metra hæð yfir sjávarmáli og fjarri byggð. Svör hreppstjóra við fyrirspurn Sýslumanns Múlasýslu árið 1920 samrýmist þessu. Að því er varði greiðslu felligjalda hreindýra til Glúmsstaðabænda telji óbyggðanefnd að slíkar greiðslur séu í samræmi við þann rétt sem afréttareign veiti.
Ekkert liggi fyrir um það hvernig eigendur framangreindra jarða á hverjum tíma séu komnir að rétti sínum til þess landsvæðis sem hér sé til umfjöllunar. Í máli þessu sé þannig ekki sýnt fram á annað en að réttur til Múlaafréttar hafi orðið til á þann veg, að landsvæðið hafi verið tekið til sumarbeitar fyrir búpening og, ef til vill, annarrar takmarkaðrar notkunar. Um afréttarnotkun og fjallskil hafi snemma verið settar opinberar reglur, sem sveitarstjórn hafi verið falið að annast framkvæmd á.
Að öllu framangreindu virtu hafi ekki verið sýnt fram á það að afréttarsvæðið Múli, þ.e. land á þjóðlendukröfusvæði íslenska ríkisins og sunnan þeirra landamerkja jarðanna Glúmsstaðasels og Þorgerðarstaða sem skilgreind hafi verið fyrr í úrskurðinum, sé eignarland, hvorki fyrir nám, löggerninga né með öðrum hætti. Eins og notkun landsins hafi verið háttað hafi ekki heldur verið sýnt fram á að eignarhefð hafi verið unnin á því. Rannsókn óbyggðanefndar leiði einnig til þeirrar niðurstöðu að framangreint svæði sé þjóðlenda, að hluta í afréttareign Glúmsstaða og Glúmsstaðasels og að hluta í afréttareign Þorgerðarstaða.
Ljóst sé að einstakir hlutar þess svæðis sem hér hafi verið fjallað um og talið þjóðlenda í afréttareign séu misjafnlega fallnir til beitar. Beitarsvæði taki þó breytingum, auk þess sem þau séu ekki endilega samfelld. Land það sem hér sé til umfjöllunar verði því talið falla undir skilgreininguna „landsvæði ... sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfé“, sbr. 1. gr. laga nr. 58/1998. Þá gerir óbyggðanefnd nánari grein fyrir ákvörðun sinni um mörk landsvæðisins gagnvart jökli, en ekki er ágreiningur í málinu um þá afmörkun.
Þá greinir í úrskurðinum að það sé niðurstaða óbyggðanefndar að það landsvæði sem afmarkist hér síðar, þ.e Múlaafréttur, sé þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998:
„Eftir Sníkilsá, þeirri er sunnar liggur og aðilar miða við í kröfugerð sinni, frá þeim stað þar sem hún rennur í Jökulsá í Fljótsdal og allt að upptökum. Þaðan er dregin lína í Þverfell, við Tunguá, þeirri á fylgt fram á Tungufell og síðan dregin lína í Grasanes. Þaðan er Kelduá fylgt til jökuls, síðan jökuljaðrinum, eins og hann var við gildistöku þjóðlendulaga 1. júlí 1998, að upptökum Jökulsár í Fljótsdal við Eyjabakkajökul og loks þeirri á að fyrstnefndri Sníkilsá.“
Sama landsvæði sé í afréttareign Glúmsstaða og Glúmsstaðasels vestan megin við vatnaskil en Þorgerðarstaða austan megin, sbr. kröfulínur aðila, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. laga nr. 58/1998.
Þá er þess loks getið að hluti sama landsvæðis sé háður sérstökum eignarréttarlegum takmörkunum samkvæmt lögum um náttúruvernd nr. 44/1999, sbr. nánari skilgreiningu í náttúruminjaskrá: „Eyjabakkar“.
Eins og fyrr hefur verið gerð grein fyrir í dómi þessum miðar kröfugerð stefnenda að því að umrætt landsvæði sem samkvæmt framansögðu telst í afréttareign Glúmsstaða I og II verði talið undirorpið beinum eignarrétti þeirra og að viðurkennt sé að þar sé engin þjóðlenda. Stefndi unir hins vegar niðurstöðunni.
IV
Stefnendur kveðast í stefnu halda því fram að hið umdeilda land sé eignarland í skilningi 1. gr. þjóðlendulaga nr. 58/1998 þar sem eignarland sé skilgreint þannig að það sé landsvæði þar sem eigandi landsins fari með öll venjuleg eignarráð þess innan þeirra marka sem lög segi til um á hverjum tíma. Þjóðlenda sé hins vegar landsvæði utan eignarlanda þó að einstaklingar kunni að eiga þar takmörkuð eignarréttindi. Það hafi því verið röng niðurstaða hjá óbyggðanefnd að telja hið umdeilda landsvæði til þjóðlendu.
Stefnendur telji að hið umdeilda land hafi verið hluti landnáms Brynjólfs hins gamla sem numið hafi Fljótsdal allan fyrir ofan Hengifossá fyrir vestan, en fyrir ofan Gilsá að austan, samkvæmt frásögn Landnámu.
Eignarréttur hafi þannig stofnast við landnám og fullljóst að um fullkominn eignarrétt hafi verið að ræða þar sem engar heimildir bendi til þess að landnámsmenn hafi numið land til annars en fullrar eignar. Engin rök séu fyrir því að ætla að hluti lands, sem verið hafi á einni hendi um aldir, hafi verið skilinn frá og talinn einungis undirorpinn afnotarétti. Slíkt væri hugsanlegt ef um almenning eða samnotaafrétt margra jarða eða heillar sveitar væri að ræða, sem ekki sé í þessu tilviki.
Hið umdeilda land liggi ekki innan landamerkja jarðarinnar samkvæmt landamerkjabréfi hennar, en á því séu eðlilegar skýringar að mati stefnenda:
Landamerkjabréf hafi verið gerð samdægurs fyrir Glúmsstaði og Glúmsstaðasel þann 8. júní 1885.
Af landamerkjabréfi Glúmsstaðasels megi ráða hver talin hafi verið suðurmerki heimalands Glúmsstaða, þ.e. suðurmerki Glúmsstaðasels. Afrétturinn hafi verið þar fyrir sunnan og hafi ekki verið gert sérstakt landamerkjabréf fyrir hann af ástæðum sem nú verði raktar.
Landamerkjabréf Glúmsstaða og Glúmsstaðasels frá árinu 1885 hafi verið gerð með stoð í hinum eldri landamerkjalögum nr. 5/1882 og ekki hafi verið gerð ný landamerkjabréf í kjölfar nýrra landamerkjalaga nr. 41/1919, í það minnsta hafi þau ekki varðveist.
Í ljósi slæmrar reynslu að hinum eldri landamerkjalögum hafi verið sett ný lög um landamerki árið 1919, lög nr. 41/1919, þar sem hvort tveggja hafi verið skerpt á efnis- og formsatriðum til þess að tryggja betri framkvæmd. Nýja löggjöfin hafi verið vandlega undirbúin og hafi ríkisstjórnin fengið lagadeild Háskóla Íslands til þess að semja frumvarp til nýrra landamerkjalaga. Lagadeildin hafi falið Einari Arnórssyni prófessor að semja frumvarpið.
Í greinargerð Einars Arnórssonar sem fylgt hafi frumvarpinu segi:
„Landamerkjaskrár hafa ekki verið gerðar fyrir allar jarðir á landinu að því er ætla má. En þó þær hafi sjálfsagt verið gerðar að nafni til, þá munu margar þeirra eigi hafa hlotið samþykki allra aðilja.... Og er eigi heldur trygging fyrir því að merki hafi verið rétt samkvæmt því.“
Til þess að bæta úr þessum ágöllum hafi því ákvæði verið bætt í landamerkjalög nr. 41/1919 að landamerkjaskrár skyldi afhenda hreppstjóra, er rannsaka skyldi hvort allir aðilar hefðu samþykkt hana og afhenda hana að því búnu sýslumanni til þinglýsingar. Þetta hafi verið ein mikilvægasta breytingin sem gerð hafi verið með lögum nr. 41/1919, en lögin skyldi bæði hreppstjóra og sýslumenn til að gæta þess sérstaklega eftirleiðis að lögunum yrði fylgt. Þannig hafi ábyrgð hins opinbera á réttri framkvæmd laganna verið ákveðin miklu skýrar en áður og þar með sönnunargildi landamerkjaskráa um eignarrétt aukið.
Önnur mikilvæg breyting sem gerð hafi verið með lögum nr. 41/1919 varði skyldu eigenda og fyrirsvarsmanna jarða, afrétta og annarra óbyggðra lendna til merkjasetningar og skráningar landamerkja milli jarða, afrétta og annarra óbyggðra lendna. Skyldi sama regla gilda um þessi mörk og mörk milli jarða, ef sá krefðist þess sem land ætti að afrétti eða óbyggðri lendu, sbr. 1. gr. laga nr. 41/1919. Samkvæmt landamerkjalögum nr. 5/1882 hafi almenna reglan um merkjasetningu og skráningu merkja milli jarða annars vegar og óbyggða hins vegar verið sú að merki skyldi þá aðeins skrá eftir því sem við yrði komið eins og segi í 1. gr. laganna. Þessar breytingar á löggjöf um landamerki sé sérstaklega mikilvægt að hafa í huga þegar mörk eignarlanda og þjóðlendna séu ákveðin.
Stefnendur haldi því fram að þegar landamerkjabréf Glúmsstaða hafi verið gert 8. júní 1885 hafi engin lagaskylda um merkjagerð eða skráningu merkja hvílt á eiganda jarðarinnar um annað en heimaland jarðarinnar. Verði því að meta landamerkjabréfið með hliðsjón af þeirri löggjöf sem gilt hafi á þeim tíma sem það hafi verið samið. Það hafi óbyggðanefnd látið undir höfuð leggjast og sé það mat stefnenda að þegar af þeirri ástæðu, að nefndin hafi ekki sinnt lögbundinni rannsóknarskyldu sinni, sbr. 5. mgr. 10. gr. laga nr. 58/1998, beri að ógilda úrskurð hennar.
Stefnendur haldi því fram að á sama hátt og ekki sé einhliða hægt að auka við land jarða með gerð landamerkjabréfs sé heldur ekki hægt að afsala landi jarða einhliða með gerð landamerkjabréfs. Fjöldi óbeinna heimilda styðji eignartilkall eigenda Glúmsstaða að hinu umdeilda landsvæði og verði þær helstu raktar hér á eftir.
Í jarðamati frá árinu 1804 komi fram að Glúmsstaðir eigi „afrétt“ sem metinn sé til 20 álna. Þannig hafi hið umdeilda land verið metið til verðs og eigendur Glúmsstaða eftir sem áður greitt tíund og afgjald af hinu umdeilda landsvæði.
Í sóknarlýsingu 1840 – 1841 segi þannig um Glúmsstaði að þeir eigi „heimaland allt fram allan Norðurdalinn fyrir sunnan ána og svo eftir það afréttarland á Múlanum fast fram að jökli.“
Jarðamati frá 1849 greini einnig frá því að Glúmsstaðir eigi ekki „einúngis nægilegt land fyrir sitt eigid géldfé, heldur einnig gétur sér ad skadlausu midlad ödrum afrétt fyrir 400 fjár.“ Hér geri jarðamatsmenn ráð fyrir því að Glúmsstaðamenn geti með einkaréttarlegum gerningi leyft öðrum nýtingu á hinu umdeilda landsvæði. Bendi það ekki til annars en að jarðamatsmenn hafi talið landið allt háð beinum eignarrétti.
Í sóknarlýsingu frá árinu 1873 segi að þriðji afrétturinn sem Fljótsdælingar noti sé á Múlanum sem Glúmsstaðaeigendur eigni sér. Hér verði að hafa í huga að afrétturinn á Múlanum hafi verið tekinn undir fjallskilaframkvæmd árið 1864, sbr. fjallskilareglugerð Fljótsdalshrepps frá 1864.
Í fasteignamati 1930 – 32 komi fram um jarðirnar Glúmsstaði I og II: „Múlaafréttur fylgir jörðinni.“
Um Glúmsstaðasel segi í sama fasteignamati: „Jörðin á upprekstur á Múlaafrétt.“
Umfjöllun þessi í fasteignamati renni stoðum undir þá skoðun stefnenda að hið umþrætta landsvæði sunnan Glúmsstaðaselslands, hafi eftir sem áður talist hluti Glúmsstaða þegar Glúmsstaðaseli hafi verið skipt út úr jörðinni og afmarkað sérstakt land.
Í fimmta bindi bókarinnar Göngur og réttir, á bls. 372 – 373, komi fram að eigendur Glúmsstaða reki fé sitt ekki til skilaréttar hreppsins heldur:
„...helst enn við sú forna venja að reka saman á Glúmsstöðum og Glúmsstaðaseli enda eru heimalöndin smöluð um leið og safnið kemur að innan. Svo er og um heimahaga annarra jarða í Múlanum, að þeir eru í raun og veru hreinsaðir með afréttinni og að mestu af sömu mönnum og hana hafa gengið.“
Í Vilchinsmáldaga frá árinu 1397 segi meðal annars um eignir Valþjófsstaðar: „Mariukirkia aa walþiofstodum aa heimaland allt. mulaland milli mekrigardz oc wt fra Rnnallzstödum oc þess merkigardz sem wt er fra gnufsstödum [Gnupstodum, í öðru handriti]. Þorgerdarstade. ... fiordung j kelldudal. ...“
Telja verði að Gnúfsstaðir eða Gnúpsstaðir geti ekki verið önnur jörð en Glúmsstaðir. Samkvæmt máldaganum eigi staðurinn Múlaland milli merkigarðs og út frá Arnaldsstöðum og þess merkigarðs sem út sé frá Glúmsstöðum. Athygli veki að í máldaganum sé Múlaland ekki tilgreint út í Jökulsá á Fljótsdal og renni það stoðum undir þann skilning stefnenda að merkigarður hafi skilið land Glúmsstaða og Þorgerðarstaða á vatnaskilum á Múlanum. Það sé þannig ákaflega ósennilegt að suðurmerki Glúmsstaða hafi verið í Sníkilsá, eins og óbyggðanefnd komist að í úrskurði sínum, heldur hafi lönd Þorgerðarstaða og Glúmsstaða legið saman suður í Vatnajökul. Hafi eigendur Þorgerðarstaða og Glúmsstaða og miðað við þá skiptingu um langan aldur, meðal annars við smölun Múlans.
Að mati stefnenda sé það engum vafa undirorpið að Múlinn vestanverður tilheyri landi jarðarinnar og hafi gert það frá öndverðu. Glúmsstaðamenn hafi greitt skatt af hinu umdeilda landsvæði og hafi sjálfir séð um að smala landið eins og um heimaland væri að ræða. Engu skipti þótt landið hafi verið tekið undir fjallskilaframkvæmd, enda bendi aðrar heimildir og sterkari til þess að um eignarland sé að ræða. Sé það og í samræmi við almennar niðurstöður óbyggðanefndar í málum 1-7/2000 og 1-5/2001, en þar komi fram á bls. 29, að innan merkja jarða kunni að vera svæði sem nefnd séu afréttir. Í því þurfi þó ekki að felast mismunandi eignarréttarleg staða lands innan jarðarinnar. Hugsanlegt sé, að verið sé að vísa til gamalgróinnar notkunar á viðkomandi jarðarhluta sem beitarlandi. Og jafnvel þó slíkur jarðarhluti sé alfarið tekinni undir fjallskilaframkvæmd gefi slík tilhögun ein og sér enga vísbendingu um eðli eignarhalds á slíkum jarðarhluta, sbr. bls. 30 í almennum niðurstöðum óbyggðanefndar. Þessar niðurstöður nefndarinnar hafi og verið staðfestar af dómstólum.
Mál þetta snúist að mati stefnenda um réttaráhrif þess að ekki hafi verið gert landamerkjabréf um hið umdeilda landsvæði. Verði þá að líta til þeirrar grundvallarreglu að íslenskum rétti að enginn geti einhliða aukið við land sitt með gerð landamerkjabréfs, en út frá þeirri reglu megi álykta að enginn geti einhliða afsalað landi sínu með gerð landamerkjabréfs. Öll gögn málsins bendi til þess að um eignarland sé að ræða auk þess að lega landsins og staðhættir bendi til þess að það sé hluti Glúmsstaðalands og hafi verið það frá öndverðu.
Stefnendur bendi á að í tilfelli jarðar, þar sem ekkert landamerkjabréf hefði verið ritað eða varðveist, væri engan veginn sjálfgefið að land jarðarinnar yrði úrskurðað eða dæmt þjóðlenda. Meta þyrfti slík tilfelli sérstaklega á nákvæmlega sama hátt og meta þurfi hvert landamerkjabréf fyrir sig sérstaklega. Í því tilfelli sem hér sé til umfjöllunar bendi öll gögn til þess að hið umþrætta land hafi verið hluti lands Glúmsstaða frá öndverðu og því beinum eignarrétti undirorpið.
Stefnendur mótmæli því harðlega sem fram komi í úrskurði óbyggðanefndar, að í svari hreppstjóra Fljótsdalshrepps við fyrirspurn sýslumanns Múlasýslu árið 1920, megi ráða að hið umdeilda land sé ekki beinum eignarrétti undirorpið. Stefnendur telji miklu nærtækara að komast að gagnstæðri niðurstöðu, en í svari hreppstjóra segi:
„...hjer í hreppi er ekkert svæði sem talin er almenníngur, og að ekkert afréttar land er hjer, sem ekki sannanlega tilheyrir einhverju býli ...“
Samkvæmt framangreindu öllu telji stefnendur vera alvarlega annmarka á úrskurði óbyggðanefndar og hafi nefndin í senn með úrskurði sínum farið á svig við eða brotið grundvallarreglur stjórnsýsluréttarins, þar á meðal meðalhófsreglu, rannsóknarreglu og jafnræðisreglu. Beri þegar af þeirri ástæðu að ógilda úrskurð óbyggðanefndar í málinu.
Stefnendur bendi á að í dómsmálum vegna þjóðlendna hafi verið á það litið við úrlausn málanna að réttmætar væntingar eiganda um eignarrétt sinn, eins og þær sem að framan greini, nytu verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. einnig 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu sem lögfestur hafi verið með samnefndum lögum nr. 62/1994. Verði eigandi ekki sviptur þeim fjárhagslegu hagsmunum sem felist í slíkum réttmætum væntingum nema að uppfylltum þeim skilyrðum sem nánar greini í umræddum eignarréttarákvæðum. Athugasemdir við það frumvarp sem orðið hafi að lögum nr. 58/1998 beri skýrlega með sér að það hafi ekki verið ætlun löggjafans að svipta landeigendur eignarheimildum sem þeir hafi aflað og notið athugasemdalaust um aldalangt skeið, með því að gera þeim að sýna fram á órofna sögu eignarréttar þeirra frá landnámi og láta þá bera hallan af vafa um þetta efni.
Það sé og skoðun stefnenda að lög nr. 58/1998 verði ekki skýrð á þá leið að landeigendur þurfi að sýna frekar fram á, en þegar hafi verið gert, að umrætt landsvæði sé eignarland þeirra og þar með utan þjóðlendu.
Ekki ráði úrslitum í þessu máli þótt víða í heimildum sé notað orðið afréttur um hið umdeilda land. Afréttur geti verið heimaafréttur og ekki eingöngu notaður til sumarbeitar sauðfjár. Þá ráði ekki úrslitum um eignarhald þótt land sé aðeins notað til sumarbeitar eins og fram komi í dómi Hæstaréttar í máli nr. 48/2004.
Stefnendur vísi til þess að stefndi hafi ekki sýnt fram á að hann eigi nokkurn rétt til umrædds landsvæðis. Til að stefndi geti öðlast þann rétt, sem skilgreindur sé í þjóðlendulögum verði að sýna fram á að heimildir um landamerki séu rangar, en það hafi hann á engan hátt gert. Þá þurfi stefndi að sýna fram á að afrétturinn sé samnotaafréttur en ekki einkaafréttur eða hluti jarðar, sem hann hafi ekki gert og hafi það mikið að segja við ákvörðun um inntak eignarréttarins, sbr. fyrrgreindan Hæstaréttardóm.
Stefnendur byggi á því að verði eignarréttur ekki viðurkenndur hafi núverandi eigendur öðlast eignarrétt að hinu umdeilda landsvæði fyrir hefð og vísi þeir til 1. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 6. gr. laga um hefð nr. 46/1905. Eignarhefð verði unnin á fasteign með 20 ára óslitnu eignarhaldi og stefnendur og fyrri eigendur hafi í góðri trú haft öll umráð landsins í árhundraðaraðir. Fullnægt sé öllum skilyrðum hefðar um eignarhaldstíma, virk umráð og huglæga afstöðu og samkvæmt því verði að telja, án tillits til uppruna og sögu eignarheimilda fyrir jörðina, að hefð hafi unnist, sbr. 2. gr. laga nr. 46/1905 um hefð, að því er varði umrætt landsvæði. Með hliðsjón af afstöðu eigenda á hverjum tíma og nýtingar þeirra verði að telja að sú hefð hafi verið til eignar á landinu, en ekki aðeins náð til takmarkaðra afnota eða ítaksréttinda.
Stefnendur vísi um lagarök til 25. og 26. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978 um rétt þinglýsts eiganda og til 72. gr. stjórnarskrárinnar um vernd eignarréttinda, sbr. einnig 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu sem lögfestur hafi verið með samnefndum lögum nr. 62/1994. Einnig sé vísað til óskráðra reglna eignarréttarins um beinan eignarrétt, til 1. gr. laga um þjóðlendur o.fl. nr. 58/1998, að því er varði skilgreiningu á eignarlöndum, og 1. gr. laga um landamerki nr. 41/1919, sbr. eldri lög um sama efni. Þá sé vísað til 1. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 6. gr. laga um hefð nr. 46/1905, enda hafi stefnendur haft umráð landsins fullan hefðartíma fasteigna margfalt og meinað öðrum afnot þess. Einnig vísi stefnendur til venju, þ.e. að land sem að fornu hafi verið notað eingöngu af landeigendum sé með vísan til venjuréttar talið eignarland þeirra án takmarkana enda hafi nýting þeirra gefið slíkt til kynna. Þá vísi stefnendur til meginreglna einkamálaréttarfars um sönnunargildi dóma, sbr. og núgildandi ákvæði 116. gr. laga nr. 91/1991. Þá vísi stefnendur til kröfulýsingar og greinargerðar sem þeir hafi lagt fram undir rekstri óbyggðanefndar á málinu og allra þeirra gagna sem þeim hafi fylgt.
Stefnendur byggi málskostnaðarkröfu á XXI. kafla laga nr. 91/1991 og vísi til gjafsóknarleyfis dóms- og kirkjumálaráðuneytis.
V
Af hálfu stefnda er á því byggt, að landsvæði það sem mál þetta varði sé svæði utan eignarlanda og teljist þannig vera þjóðlenda í samræmi við úrskurð óbyggðanefndar á svæðinu, sbr. 1. og 2. gr. laga nr. 58/1998. Telji stefndi fullljóst af heimildum, að landsvæðið hafi aldrei verið undirorpið beinum eignarétti, og að nýting þess hafi ekki verið með þeim hætti, sbr. nánar eftirgreint. Að mati stefnda hvíli sönnunarbyrðin ótvírætt á stefnendum að sýna fram á tilvist beins eignaréttar að landsvæðinu, eða einstökum hlutum þess.
Óbyggðanefnd byggi úrskurð sinn á umfangsmikilli upplýsingaöflun og rannsóknum. Sé niðurstaðan byggð á kerfisbundinni leit nefndarinnar að gögnum og framlögðum gögnum frá málsaðilum. Þá hafi einnig verið byggt á skýrslum sem gefnar hafi verið fyrir nefndinni. Hafi óbyggðanefnd talið ótvírætt, að við gildistöku laga nr. 58/1998, hefði landsvæði það sem um sé deilt í máli þessu, talist til afrétta samkvæmt þeirri eignaréttarlegu flokkun lands sem almennt hafi verið miðað við fram til þess tíma.
Stefndi geri niðurstöður nefndarinnar að sínum til stuðnings sýknukröfu.
Stefndi taki undir með óbyggðanefnd um að fyrri heimildir er varði eignarréttarlega stöðu landsvæðisins bendi til þess að um sé að ræða afréttarsvæði sem ekki sé undirorpið beinum eignarrétti.
Rétt þyki að fjallað sé heildstætt um það landsvæði sem nefnt hafi verið Múlaafrétt.
Ekkert landamerkjabréf hafi verið gert fyrir Múla, eftir setningu landamerkjalaga nr. 5/1882. Stefndi lýsi sig sammála óbyggðanefnd, að afmörkun hins umþrætta landsvæðis og raunar alls þess svæðis sem nefnt hafi verið einu nafni Múlaafrétt, verði helst ráðin af landamerkjabréfum jarðanna Glúmsstaðasels, Glúmsstaða og Þorgerðarstaða, almennum afréttarlýsingum, svo sem tillögum hreppstjóra Fljótsdalshrepps að gangnamörkum frá 1864 og í bókinni Göngur og réttir V frá árinu 1987, auk heimilda um afmörkun Suðurfells eins og því sé lýst í heimildum um Valþjófsstaðakirkju.
Af hálfu stefnda sé fallist á þá ályktun óbyggðanefndar að fyrirliggjandi heimildir, sbr. hér að framan, bendi ótvírætt til þess að afmörkun Múlaafréttar í heild sinni miðist við Sníkilsá, þá er sunnar liggur, frá þeim stað þar sem hún renni í Jökulsá á Fljótsdal og allt að upptökum. Þaðan sé dregin lína í Þverfell, við Tunguá, þeirri á fylgt fram á Tungufell og síðan dregin lína fram í Grasanes. Þaðan sé Kelduá fylgt til jökuls, síðan jökuljaðrinum að upptökum Jökulsár á Fljótsdal við Eyjabakkajökul og síðan þeirri á að fyrstnefndri Sníkilsá. Að öðru leyti um afmörkun Múlaafréttar leyfi stefndi sér að vísa til umfjöllunar óbyggðanefndar í úrskurði nefndarinnar á bls. 109-112.
Hvað norðurmerki Múlaafréttar varði sérstaklega, þá vísist jafnframt til eldri heimilda um merki jarðanna, sbr. að ofan. Í landamerkjabréfi Glúmsstaðasels, dags. 8. júní 1885, segi að merki til suðurs séu dregin úr Jökulsá á Fljótsdal í „Sníkilsá og í Stórahnúk, þaðan í Þverfell.“ Samkvæmt landamerkjabréfi Þorgerðarstaða dags. 6. júní 1885, ráði Þverfellin merkjum jarðarinnar gagnvart Múlaafrétt „allt að Tungná fram í Tungufell og fram í Grasnes.“
Af hálfu stefnda sé talið að skoða beri þögn landamerkjabréfa Glúmsstaða og Glúmsstaðasels um hið umþrætta landsvæði á þann veg að landeigendur hafi ekki talið það háð beinum eignarrétti á þeim tíma er bréfið hafi verið gert. Ekki verði heldur séð að til beins eignarréttar hafi verið stofnað eftir gerð bréfsins. Jafnframt sé hafnað þeirri ályktun stefnenda að gagnálykta megi útfrá þeirri meginreglu eignarréttar sem lúti að því að menn geti ekki einhliða aukið við land sitt hvorki með gerð landamerkjabréfs né með öðrum hætti. Álíti stefndi vandséð að unnt sé að gagnálykta frá þeirri grundvallarreglu á þann veg að menn geti ekki með einhliða yfirlýsingu afsalað eignarrétti sem þeir hafi öðlast með lögmætum hætti.
Bent sé á að því sé ekki lýst í Landnámu hversu langt upp til fjalla og inn til lands landnám á þessu svæði hafi náð. Ólíklegt verði að teljast að land á umþrættu landsvæði hafi verið numið í öndverðu, einkum með hliðsjón af staðháttum og fjarlægðum.
Í samræmi við dómafordæmi teljist heimildarskortur hvað þetta varði leiða til þess að álitið verði ósannað að heiðarlönd eða öræfasvæði hafi verið numin í öndverðu. Sé þetta til samræmis við þá reglu sem ráðin verði af dómafordæmum Hæstaréttar að sé deilt um upphaflegt nám lands verði aðeins stuðst við glöggar landfræðilegar heimildir en heimildaskortur leiði til þess að álitið verði ósannað að heiðarlönd hafi verið numin í öndverðu, sbr. til hliðsjónar t.d. dóma Hæstaréttar í málunum nr. 67/1996 (Eyvindarstaðaheiði) og 48/2004 (Úthlíð). Hvíli sönnunarbyrðin um slíka eignarréttarstofnum á þeim sem haldi slíku fram.
Ekki verði annað séð en að réttur stefnenda til hins umþrætta landsvæðis hafi orðið til á þann veg að landsvæðið hafi verið tekið til sumarbeitar fyrir búpening og ef til vill annarra takmarkaðra nota.
Verði talið, að svæðið hafi verið numið í öndverðu, hafi það ekki verið numið til eignar, heldur eingöngu til takmarkaðra nota, svo sem afréttarnota. Frá upphafi Íslandsbyggðar hafi menn helgað sér ekki eingöngu ákveðin landsvæði, sem háð hafi verið beinum eignarétti, heldur einnig ítök, afrétti og öll önnur réttindi sem einhverja þýðingu hafi getað haft fyrir afkomu þeirra. Meðan landsvæði hafi gefið eitthvað af sér hafi hagsmunir legið til þess að halda við merkjum réttindanna, hvers eðlis sem þau hafi verið. Um þetta sé m.a. vísað til dóma Hæstaréttar í málunum nr. 67/2006 (Skjaldbreiður) og nr. 27/20007 (Grænafjall).
Verði hins vegar talið, að svæðið kunni að hafa að hluta eða að öllu leyti verið innan landnáms eða undirorpið beinum eignarétti, byggi stefndi á til vara, að allar líkur séu á því, að slíkt eignarhald hafi fallið niður en svæðið verið tekið til takmarkaðra nota, þ.e. afréttarnota. Þó að talið yrði að til beins eignaréttar hefði stofnast í öndverðu, liggi ekkert fyrir um að sá réttur hafi haldist í gegnum aldirnar.
Engin gögn liggi fyrir um að svæðið hafi verið nýtt til annars en sumarbeitar fyrir búfé og ef til vill annarra takmarkaðra nota.
Vísist um það til þess sem áður hafi verið rakið og rakið verði sem og til staðhátta og gróðurfars á svæðinu, en um sé að ræða víðfeðma hásléttu, fjarri byggð. Þá hafi fjallskil verið á hendi sveitarfélags, landsvæðið ekki afgirt og þangað hafi búfénaður getað leitað frá öðrum jörðum án hindrana. Um afréttarnotkun og fjallskil hafi snemma verið settar opinberar reglur sem sveitarstjónum hafi verið falið að annast framkvæmd á.
Eldri heimildir bendi jafnframt til þess að Múlaafréttur sé afréttur jarða í þeim skilningi að Glúmsstaðir, Glúmsstaðasel og Þorgerðarstaðir eigi þar óbein eignarréttindi fremur en beinan eignarrétt. Í fyrsta lagi beri að nefna að ekki sé minnst á umþrætt landsvæði í landamerkjabréfum fyrrgreindra jarða. Ýmsar heimildir geti þó um rétt Glúmsstaða til Múla. Í sóknarlýsingu 1840-1841 segi þannig um Glúmsstaði að þeir eigi „heimaland allt fram allan Norðurdalinn fyrir sunnan ána og svo eftir það afréttarland á Múlanum fast fram að jökli.“ Í jarðamati frá árinu 1804 komi fram að Glúmsstaðir eigi „afrétt“ sem metinn sé til 20 álna og í sóknarlýsingu frá árinu 1873 segi að þriðji afrétturinn sem Fljótsdælingar noti sé á Múlanum sem Glúmsstaðaeigendur eigni sér. Jarðamati 1849 greini einnig frá því að Glúmsstaðir eigi ekki „einúngis nægilegt land fyrir sitt eigid géldfé, heldur einnig gétur sér ad skadlausu midlad ödrum afrétt fyrir 400 fjár.“ Þegar gert hafi verið sitt hvort landamerkjabréfið fyrir Glúmsstaði og Glúmsstaðasel, samdægurs 1885, sé ekkert tekið fram um hvernig farið skuli með framangreint afréttarland á Múlanum. Landsvæðið muni hafa verið nýtt til beitar frá báðum jörðunum, sbr. t.d. umfjöllun um Glúmsstaðasel í ritinu Sveitir og jarðir í Múlaþingi II (1975) þar sem segi m.a. svo: „Afréttir eru á Múla, og taka fyrstu göngur þar 4 daga.“ Verði því að líta svo á að þau réttindi sem þar um ræði hafi verið óskipt.
Að því er varði Þorgerðarstaði beri þess fyrst að geta að sú jörð hafi lengst af verið meðal eigna Valþjófsstaðakirkju sem kallað hafi til réttinda á Múla. Heimildir um það tilkall virðist þó taka til lands norðan- og austanverðum Múla, þ.e. innan merkja jarða á því svæði, sbr. t.d. lögfestu Valþjófsstaðaprests frá 1840. Í órársettri skýrslu um eignir og ítök kirkjunnar sé þó að finna lista yfir „afréttarlönd“ og þar segi m.a. svo: „Múlaland ad austanverdu fra Tungua fram á motsvid Grafarnes, edur fram til Jökla.“ Þetta svæði séu hins vegar hvorki nefnt í landamerkjabréfi Valþjófsstaðar kirkjueignar né ítakaskrá, frá 6. júní 1885, en þar sé hins vegar getið um Suðurfell. Um Þorgerðarstaði sjálfa segi í jarðamatinu 1849 að jörðin þurfi ekki að kaupa afrétt fyrir sig. Í Göngum og réttum segi að Múlinn sé afréttarland þeirra sem í Múlanum búi.
Jafnframt kveðst stefndi vekja athygli á því að stefnendur vísi til umþrætts landsvæðis sem afréttar sunnan Glúmsstaða og Glúmsstaðasels, sbr. bls. 3 í stefnu.
Þá sé á því byggt af hálfu stefnda að staðhættir og fjarlægðir frá byggð bendi ekki til þess að landið hafi verið numið í öndverðu eða teljist lúta beinum eignarrétti.
Umþrætt landsvæði sé háslétta í um 650 metra hæð yfir sjávarmáli en syðst mæti landið jökli í um 900 metra hæð. Frá ármótum Jökulsár á Fljótsdal og Ytri-Sníkilsár og suður í jökul séu um það bil 26 kílómetrar í beinni loftlínu. Til vesturs sé afréttarlandið Undir Fellum, til austurs sé afréttarlandið Suðurfell, en til suðurs sé Vatnajökull.
Að teknu tilliti til staðhátta, víðáttu, gróðurfars á svæðinu og hæðar þess yfir sjó virðist því augljóst að svæðið hafi ekki verið nýtt til annars en beitarafnota.
Ekki verði talið að skilyrði eignarhefðar séu fyrir hendi, m.a. með vísan til framanritaðra sjónarmiða um nýtingu lands, staðhætti og eldri heimildir. Nýting svæðisins hafi í aldanna rás ekki falist í öðru en sumarbeit fyrir búfénað, en hefðbundin afréttarnot geti ekki stofnað til beinna eignaréttinda yfir landi, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar í málunum nr. 47/2007 (Bláskógabyggð) og 48/2004.
Stefndi hafni því einnig, að réttmætar væntingar geti verið grundvöllur fyrir eignaréttartilkalli á svæðinu. Sú regla verði leidd af Landmannaafréttardómi Hæstaréttar hinum síðari, að löggjafinn sé einn bær til þess að ráðstafa réttindum yfir landsvæði utan eignarlanda. Landslög þurfi til sölu eigna ríkissjóðs. Athafnir eða athafnaleysi starfsmanna stjórnsýslunnar geti ekki leitt af sér slík yfirráð nema sérstök lagaheimild hafi verið fyrir hendi, þ.m.t. það að þjóðlenda hafi verið látin af hendi. Réttmætar væntingar geti því ekki stofnast á þeim grundvelli sem haldið sé fram. Þar að auki verði væntingarnar vitanlega einnig að vera réttmætar í skilningi laga, þ.e. menn geti ekki haft væntingar til að öðlast meiri og frekari réttindi en þeir geti mögulega átt rétt á. Ef því hátti þannig til, líkt og í þessu tilviki, að m.a. heimildir, staðhættir, gróðurfar og nýting lands bendi ekki til beins eignaréttar, geti réttmætar væntingar ekki stofnað til slíkra réttinda.
Þeim málatilbúnaði stefnenda sé jafnframt hafnað, er lúti að því að ákvæði þjóðlendulaga uppfylli ekki lagaskilyrði 72. gr. stjórnarskrár og 1. mgr. 1. gr. samningsviðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu. Með lögunum sé ekki verið að gera eignir manna upptækar, heldur skera úr um eignaréttindi.
Með vísan til alls þess sem að framan sé rakið, hvers um sig og saman, þá telji stefndi að ekki hafi verið sýnt fram á að niðurstaða óbyggðanefndar í málinu nr. 1/2005, hvað varði hið umþrætta svæði, hafi verið röng. Þannig sé fallist á með óbyggðanefnd að Múlaafréttur sé þjóðlenda í skilningi laga nr. 58/1998, en niðurstöður óbyggðanefndar varðandi svæðið hafi bæði varðað Þorgerðarstaði og Glúmsstaði/Glúmsstaðasel.
Ljóst sé að einstakir hlutar þess svæðis sem hér hafi verið fjallað um, séu misjafnlega fallnir til beitar. Beitarsvæði taki þó breytingum, auk þess sem þau séu ekki endilega samfelld. Landsvæði það sem hér sé til meðferðar, verði því talið falla undir skilgreininguna „landsvæði ...sem að staðaldri [hafi] verið notað til sumarbeitar fyrir búfé...“, sbr. 1. gr. laga nr. 58/1998. Engin gögn liggi fyrir um að landsvæði þetta hafi haft mismunandi eignaréttarlega stöðu. Telji stefndi því að landsvæði það sem hér sé til umfjöllunar, svo sem það sé afmarkað í kröfugerð stefnenda og fari saman við niðurstöður óbyggðanefndar, teljist þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998.
Að öðru leyti mótmæli stefndi öllum sjónarmiðum og málsástæðum stefnenda, svo sem þeim sé lýst í stefnu, en byggi um leið á þeim röksemdum sem lagðar hafi verið til grundvallar í úrskurði óbyggðanefndar í málinu nr. 1/2005, auk þess sem byggt sé á þeim sjónarmiðum og röksemdum sem settar hafi verið fram af hálfu stefnda, fjármálaráðherra f.h. íslenska ríkisins, í kröfulýsingu hans fyrir nefndinni, dags. 14. október 2004, sbr. greinargerð hans dags. 10. desember 2005, og þess krafist að úrskurður óbyggðanefndar frá 29. maí 2007, í fyrrgreindu máli nr. 1/2005, verði staðfestur, þannig að miðað verði við að þjóðlendulína verði dregin með þeim hætti sem þar sé gert.
Auk framangreindra lagatilvísana, vísi stefndi máli sínu til stuðnings til almennra reglna eignaréttar og til þjóðlendulaga, nr. 58/1998. Þá sé vísað til 72. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944. Byggt sé á meginreglum eignaréttar um nám, töku og óslitin not, sem og meginreglum um eignarráð fasteignareigenda og almennra reglna samninga- og kröfuréttar. Vísað sé til hefðarlaga, nr. 46/1905 og til laga nr. 6/1986, um afréttarmálefni og fjallskil. Þá sé vísað til ýmissa eignaréttarreglna Grágásar og Jónsbókar.
Krafa um málskostnað styðjist við XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, aðallega 129. og 130. gr. þeirra laga.
VI
Stefnendur byggja á því að hið umdeilda land sé eignarland í skilningi 1. gr. þjóðlendulaga nr. 58/1998. Telja þeir að eignarréttur hafi stofnast við landnám og byggja á að landið sé innan landnáms Brynjólfs hins gamla sem numið hafi Fljótsdal allan fyrir ofan Hengifossá fyrir vestan, en fyrir ofan Gilsá að austan, samkvæmt frásögn Landnámu.
Ekki verður talið að framangreind lýsing Landnámu veiti nokkra leiðbeiningu um eignarréttarlega stöðu hins umþrætta lands, enda verður ekki af henni ráðið með nokkurri vissu hve langt inn til fjalla land hafi verið numið.
Umþrætt landsvæði er í um 650 metra hæð yfir sjávarmáli en syðst mætir landið jökli í um 900 metra hæð. Frá ármótum Jökulsár á Fljótsdal og Ytri-Sníkilsár og suður í jökul eru um það bil 26 kílómetrar í beinni loftlínu. Til vesturs er afréttarlandið Undir Fellum, til austurs er afréttarlandið Suðurfell, en til suðurs er Vatnajökull.
Af fordæmum Hæstaréttar í sambærilegum málum verður ráðið að sönnunarbyrði um beinan eignarrétt hvílir á þeim landeiganda sem hans krefst. Þá hefur á hinn bóginn verið lagt til grundvallar í dómum Hæstaréttar að landamerkjalýsingar í landamerkjabréfum veiti löglíkur fyrir því að um beinan eignarrétt á landi sé að ræða, þó skoða þurfi hvert landamerkjabréf sérstaklega. Í máli þessu háttar svo til að hið umþrætta landsvæði er ekki innan landamerkjalýsinga fyrirliggjandi landamerkjabréfa. Leiðir þetta til þess að stefnendur njóta ekki þess sönnunarhagræðis sem, samkvæmt dómvenju hefur skapast, ef svo háttar til. Breytir að mati dómsins engu um þessa aðstöðu þær skýringar sem stefnendur telja vera á þessari staðreynd og raktar eru hér að framan í kafla um málsástæður þeirra. Er því ekki um það að ræða að óbyggðanefnd hafi látið undir höfuð leggjast að skýra landamerkjabréf jarðanna með hliðsjón af þeim lagareglum sem gilt hafi á þeim tíma sem landamerkjabréfin voru gerð, enda verður landamerkjabréf ekki skýrt um landsvæði sem þar er að engu getið. Verður ekki talið að í þessu felist einhver ádráttur um að landeigandi hafi með gerð landamerkjabréfsins afsalað sér einhverjum réttindum, eins og stefnendur byggja öðrum þræði á, enda er leitað annarra gagna þegar landamerkjabréfum sleppir. Eru því ekki efni til að hreyfa við úrskurði óbyggðanefndar á þessum forsendum.
Þar sem engu landamerkjabréfi er til að dreifa um hið umdeilda svæði rekur óbyggðanefnd réttilega og fjallar um þær rituðu heimildir sem þekktar eru um svæðið og kemst að þeirri niðurstöðu að ekkert bendi til þess að umrætt land sé eða hafi verið undirorpið beinum eignarrétti. Eru þær skjallegu heimildir, sem helstar eru, raktar hér að framan þar sem grein er gerð fyrir málsástæðum aðila. Umrædd niðurstaða óbyggðanefndar byggir á heildarmati þeirra heimilda sem fyrir liggja. Engar þær heimildir sem getið er, eða stefnendur vísa til, greina frá öðru en að hið umdeilda svæði hafi verið nýtt sem afréttarland og þá til sumarbeitar fyrir búfé. Heimildir veita þó líkindi fyrri því að Glúmsstaðir og Glúmsstaðasel hafi átt afréttinn og hafi getað, í það minnst að einhverju marki, ráðið nýtingu hans. Ekki er unnt að fallast á með stefnendum að þessar heimildir veiti vísbendingu um að þeir hafi átt landið beinum eignarrétti. Verður að telja að afréttur geti verið í afréttareign tiltekinnar jarðar og að aðrir sem nýta vilji afréttinn kunni að þurfa að gera það með samningum við viðkomandi jarðeiganda. Með úrskurði óbyggðanefndar var fallist á að hið umþrætta landsvæði væri í afréttareign Glúmsstaða I og II og Glúmsstaðasels. Hefur stefnendum að mati dómsins ekki tekist að sýna fram á að þeir eigi ríkari rétt til landsvæðisins en felst í framangreindri niðurstöðu og geta sjónarmið um hefð eða réttmætar væntingar ekki haggað því, eins og fyrirliggjandi heimildum um nýtingu landsins er háttað.
Er það því niðurstaða dómsins með vísan til alls þess er að framan greinir að engir form- eða efniságallar séu í nefndum úrskurði þannig að nægi til ógildingar hans. Eru að þeirri niðurstöðu fenginni engin efni til að verða við viðurkenningarkröfu stefnenda. Verður stefndi því sýknaður af kröfum stefnenda í málinu.
Rétt þykir að málskostnaður falli niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnenda greiðist úr ríkissjóði að meðtalinni málflutningsþóknun lögmanns þeirra, Friðbjörns Garðarssonar héraðsdómslögmanns, sem telst hæfilega ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði.
Halldór Björnsson dómstjóri kveður upp dóminn.
Dómsorð:
Stefndi, íslenska ríkið, skal sýkn af kröfum stefnenda, Helgu Hallbjargar Vigfúsdóttur, Hallgríms Kjartanssonar, Bergljótar Kjartansdóttur, Bjarkar Kjartansdóttur, Hjörleifs Kjartanssonar og Þórhöllu Öglu Kjartansdóttur, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarakostnaður stefnenda greiðist úr ríkissjóði og er þar meðtalin þóknun lögmanns þeirra, Friðbjörns Garðarssonar héraðsdómslögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin 311.250 krónur og er virðisaukaskattur meðtalinn í þeirri fjárhæð.
Halldór Björnsson