- Umboðssvik
- Skaðabótamál
D Ó M U R
Héraðsdóms Reykjavíkur 22. mars 2018 í máli
nr. E-4995/2013:
Þb. B 230 ehf.
(Kristín Edwald lögmaður)
gegn
Hermanni Eyjólfssyni
(Orri Sigurðsson lögmaður)
Árnýju ehf.
(Orri Sigurðsson lögmaður)
og
Birken Ltd.
(Sigurður G. Guðjónsson lögmaður)
Mál þetta, sem dómtekið var 2. febrúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu þingfestri 10. desember 2013 af Þb. B 230 ehf., Árgerði, 630 Akureyri, á hendur Hermanni Eyjólfssyni, Brautarlandi 16, 108 Reykjavík, Árnýju ehf., Síðumúla 1, 108 Reykjavík, og Birken Ltd, skráningarnr. 07062883, 10 John street, London, England, WC1N 2EB.
I.
Stefnandi krefst þess
aðallega að stefndu verði sameiginlega (in solidum) gert að greiða stefnanda
168.304.500 kr. með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti
og verðtryggingu, frá 3. nóvember 2009 til þess dags er liðinn er mánuður frá
birtingu stefnu þessarar, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr.
6. gr. sömu laga til greiðsludags.
Stefnandi krefst þess til
vara að stefnda Birken Ltd. verði dæmt til að greiða stefnanda 168.304.500 kr.
með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu,
frá 3. nóvember 2009 til þess dags er liðinn er mánuður frá birtingu stefnu
þessarar, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga
til greiðsludags.
Þá krefst stefnandi þess í öllum
tilvikum að stefndu verði sameiginlega (in solidum) dæmdir til að greiða
stefnanda málskostnað að skaðlausu.
Stefndi, Hermann Eyjólfsson, gerir þær dómkröfur að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.
Þá krefst stefndi, Hermann Eyjólfsson, málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda.
Stefndi, Árný ehf., gerir þær dómkröfur að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.
Þá krefst stefndi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda.
Stefndi, Birken Ltd., gerir þær dómkröfur að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.
Þá krefst stefndi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda.
Upphaflega var mál þetta jafnframt höfðað á hendur Sigurði Pálmasyni og gerðar sömu kröfur á hendur honum og öðrum stefndu. Í þinghaldi 28. apríl 2015 lýsti stefnandi því yfir að hann og stefndi Sigurður Pálmason hefðu náð sátt um að fella niður málið gegn honum án kostnaðar.
Í þinghaldi 28. apríl 2015 upplýsti lögmaður stefnda Hermanns Eyjólfssonar að sakamál á hendur Hermanni væri í gangi hjá Embætti sérstaks saksóknara, mál 090-2014-0013, sem varðaði sama sakarefni. Af þessum sökum voru lögmenn sammála um að fresta aðalmeðferð, sem fara átti fram 11. nóvember 2015. Málinu var síðan frestað meðan meðferð málsins stóð yfir í héraðsdómi og síðan þangað til niðurstaða Hæstaréttar lá fyrir í málinu nr. 452/2016.
II.
Málsatvik
Í dómi Hæstaréttar
Íslands í málinu nr. 452/2016 eru rakin málsatvik og þar kemur fram að á árinu
2008 keypti einkahlutafélagið Árný ehf., einn stefnda í máli þessu, sem var að
öllu leyti í eigu stefnda, Hermanns Eyjólfssonar, allt hlutafé í B 230 hf.
Framkvæmdastjóri síðargreinda félagsins frá árinu 2005 var Sigurður Pálmason.
Félaginu var breytt úr hlutafélagi í einkahlutafélag 4. september 2012 og frá
sama tíma fékk það nafnið B 230 ehf. Tilgangur félagsins var frá upphafi
alhliða flugrekstur og tengd starfsemi, en það hafði um árabil sinnt
þyrluþjónustu.
Tildrög máls þessa
eru þau að með afsali 3. nóvember 2009 seldi B 230 hf. stefnda Birken Ltd.
þyrlu af gerðinni Bell N230 MG með skráningarnúmerinu TF-HHS nr. 23022. Birken
Ltd. var að öllu leyti í eigu stefnda Hermanns Eyjólfssonar. Afsalið var
undirritað af Sigurði Pálmasyni fyrir hönd seljanda en stefnda Hermanni
Eyjólfssyni fyrir hönd kaupanda.
Samkvæmt bókhaldi B
230 hf. var söluverð þyrlunnar 762.919 bandaríkjadalir. Þyrluna hafði félagið
keypt árið 2007 fyrir 2.050.000 bandaríkjadali. Til að fjármagna kaupin á
þyrlunni og aðrar fjárfestingar félagsins hafði það gert lánssamning við Byr
sparisjóð þann 22. október 2007, en með honum var félaginu veitt lán að fjárhæð
168.500.000 krónur. Samkvæmt samningnum átti að setja þyrluna að veði fyrir
láninu þegar hún kæmi til landsins og hefði verið skráð í loftfaraskrá
Flugmálastjórnar Íslands og réttindaskrá loftfara hjá sýslumanninum í
Reykjavík. Þessu veði var ekki þinglýst á þyrluna eftir að hún kom til Íslands
í lok október 2007 og var skráð hér á landi.
Þegar þyrlan var seld
stefnda Birken Ltd. með afsalinu 3. nóvember 2009 var sama dag gerður víkjandi
lánssamningur milli þess félags og B 230 hf. fyrir öllu kaupverðinu.
Samningurinn var undirritaður af stefnda Hermanni Eyjólfssyni fyrir hönd
lántaka en Sigurði Pálmasyni fyrir hönd lánveitanda. Samhliða þessu var
samdægurs gerður leigusamningur þar sem B-230 hf. tók þyrluna á leigu í eitt ár
og nam leigan 30.000 bandaríkjadölum á mánuði. Þessi samningur var jafnframt
undirritaður af stefnda Hermanni Eyjólfssyni fyrir hönd leigusala en Sigurði
Pálmasyni fyrir hönd leigutaka. Eftir að leigusamningurinn rann út mun hann
hafa verið framlengdur allt til loka júní 2011. Samkvæmt bókhaldi B 230 hf. var
leigugreiðslum skuldajafnað gegn greiðslum samkvæmt fyrrgreindum lánssamningi
3. nóvember 2009 fyrir kaupverði þyrlunnar. Miðað við árslok 2011 nam skuld
Birken Ltd. við B 230 hf. samkvæmt lánssamningum 11.888.078 krónum.
Frá árslokum 2008 mun
þyrlunni ekki hafa verið flogið meðan hún var í eigu B 230 hf., en lofthæfisvottorð
hennar rann út 30. september 2009 án þess að óskað væri eftir því við
Flugmálastjórn að það yrði endurnýjað. Ekki var þyrlunni heldur flogið meðan
félagið hafði hana á leigu á tímabilinu 3. nóvember 2009 til loka júní 2011. Á
þessum tíma hafði Flugvélaverkstæði Reykjavíkur ehf. tekið að sér viðhald
þyrlunnar en heimild þess til að sinna viðhaldi á þessari tegund þyrlu var
afturkölluð með ákvörðun Flugmálastjórnar 12. maí 2010. Sú ákvörðun var felld
úr gildi með úrskurði innanríkisráðuneytisins 31. mars 2011. Þyrlan mun hafa
verið afskráð hér á landi 1. þess mánaðar og flutt af landi brott 1. júlí sama
ár.
Eftir að B 230 hf.
hafði verið breytt í einkahlutafélag og það fengið nafnið B 230 ehf., krafðist
Íslandsbanki hf. þess þann 13. september 2012 að bú félagsins yrði tekið til
gjaldþrotaskipta. Með úrskurði Héraðsdóms Norðurlands eystra 10. janúar 2013
var sú krafa tekin til greina. Með bréfi skiptastjóra 22. janúar 2014 var
sérstökum saksóknara tilkynnt um ætlað auðgunarbrot í starfsemi félagsins með
ráðstöfun þyrlunnar til Birken Ltd. Ákæra var síðan gefin út 26. október 2015.
Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 13. maí 2016 voru stefndi Hermann Eyjólfsson og
Sigurður Pálmason sakfelldir fyrir umboðssvik samkvæmt 249. gr. alm.
hegningarlaga nr. 19/1940, og gert að sæta fangelsi í níu mánuði skilorðsbundið
í tvö ár. Sigurður Pálmason undi dómi en með dómi Hæstaréttar Íslands nr.
452/2016 var stefndi Hermann Eyjólfsson sakfelldur fyrir umboðssvik samkvæmt
249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og niðurstaða héraðsdóms um
refsingu og skilorðsbindingu hennar staðfest.
Stefnandi B 230 ehf. var tekinn
til gjaldþrotaskipta með úrskurði héraðsdóms Norðurlands vestra hinn 13. janúar
2013 í máli nr. X-3/2012. Karl Axelsson hrl. var skipaður skiptastjóri þrotabúsins.
Í kjölfar skipunar skiptastjóra hóf skiptastjóri könnun á bókhaldi félagsins,
mögulegum riftanlegum ráðstöfunum og öðrum ráðstöfunum eigna úr búinu fyrir
gjaldþrot þess. Fékk skiptastjóri endurskoðunarfélagið Ernst & Young til að
gera sérfræðilega úttekt á bókhaldi félagsins og meðferð og ráðstöfun eigna úr
búinu fyrir gjaldþrot þess. Til sérstakrar skoðunar var ráðstöfun á Bell
230-þyrlu (TF-HHS nr. 23022) til stefnda Birken Ltd. hinn 3. nóvember 2009. Mál
þetta á rætur sínar að rekja til umræddra viðskipta B 230 hf. og stefnda Birken
Ltd. hinn 3. nóvember 2009 og ætlaðs tjóns stefnanda vegna ráðstöfunarinnar. Á
þeim tíma sem máli skiptir skipuðu Sigurður Pálmason og Haukur Þór Adolfsson
stjórn félagsins. Sigurður Pálmason var auk þess framkvæmdastjóri stefnanda og
hafði hann gegnt þeirri stöðu frá árinu 2005. Á þessum tíma var stefnda Árný
ehf. eigandi stefnanda og eini eigandi stefnda Árnýjar ehf. var stefndi Hermann
Eyjólfsson. Stefndi Hermann Eyjólfsson var og er jafnframt eini eigandi stefnda
Birken Ltd.
Með ákvörðun Flugmálastjórnar
Íslands, sbr. tölvuskeyti Ómars Þórs Eðvaldssonar, starfsmanns
Flugmálastjórnar, dags. 18. desember 2008, afturkallaði Flugmálastjórn Íslands
samþykki sitt fyrir því, að þjónustufyrirtæki stefnanda, Flugvélaverkstæði
Reykjavíkur ehf., sinnti nauðsynlegu viðhaldi og þjónustu, m.a. vegna TF-HHS
fyrir stefnanda. Loftferðaleyfi stefnanda var bundið við það að stefnandi hefði
slíkan þjónustusamning við viðurkenndan þjónustuaðila. Leiddi því umrædd
ákvörðun Flugmálastjórnar Íslands í máli Flugvélaverkstæðis Reykjavíkur ehf.
til þess að TF-HHS hafði ekki heimild til loftferða eftir 18. desember 2008.
Var TF-HHS frá þeim tíma þannig ónothæf í rekstur stefnanda með tilheyrandi
tekjuskerðingu fyrir hann allt frá árslokum 2008 og fram á mitt ár 2011, þegar
úrskurður Flugmálastjórnar Íslands var felldur úr gildi.
Í skýrslu stefnda Sigurðar
Pálmasonar hjá skiptastjóra, dags. 23. janúar 2013, kom fram að í framhaldi af
stöðvun Flugmálastjórnar Íslands í desember 2008 hafi fyrirsvarsmenn og
eigendur stefnanda leitað allra leiða til að koma TF-HHS á ný í loftið. Á þeim
tíma hafi BYR sparisjóður verið farinn að krefja stefnanda um greiðslu á
skuldum hans við BYR. Á sama tíma hafi þáverandi eigandi stefnanda, Haukur Þór
Adolfsson, staðið illa fjárhagslega og hafi hann því selt allan eignarhlut sinn
í stefnanda til Árnýjar ehf. Fram kom í skýrslu Hauks Þórs Adolfssonar hjá
skiptastjóra, dags. 21. janúar 2013, að hann hefði selt allt hlutafé í
stefnanda árið 2008 stefnda Árnýju ehf., félagi í eigu kunningja hans, stefnda
Hermanns Eyjólfssonar. Stefndi Hermann hefði síðan haft afskipti af daglegum
rekstri stefnanda á árunum 2009 og 2010.
Í skýrslu stefnda Sigurðar
Pálmasonar hjá skiptastjóra kom fram að stefndi Hermann, sem aðaleigandi stefnanda
í krafti eignarhalds á einkahlutafélaginu Árnýju ehf., hefði tekið ákvörðun um
og gefið stefnda Sigurði þau fyrirmæli að stefnandi skyldi ráðstafa TF-HHS til
bresks einkahlutafélags í eigu stefnda Hermanns, sem bar nafnið Birken Ltd.
Félagið hafi verið sérstaklega stofnað í þeim tilgangi að kaupa TF-HHS af
stefnanda. Samkvæmt skýrslu stefnda Hermanns hjá skiptastjóra, dags. 23. júlí
2013, var ákvörðun um sölu TF-HHS tekin sameiginlega af stefndu Sigurði og
Hermanni f.h. Árnýjar ehf.
Undir lánasamning (e.
subordinated loan agreement) vegna kaupanna ritaði stefndi Sigurður fyrir hönd
stefnanda en stefndi Hermann fyrir hönd stefnda Birken Ltd. Samhliða þessum
gerningum var ennfremur gerður leigusamningur (e. Aircraft Master Lease
Agreement) milli Birken Ltd. og stefnanda, dags. 3. nóvember 2009, þar sem kom
fram að stefnandi skyldi leigja TF-HHS í 22 mánuði af Birken Ltd. Skyldi
leiguverð vera 30.000 bandaríkjadalir á mánuði fyrir utan lokagreiðslu að
fjárhæð 90.000 bandaríkjadalir.
Þannig var eign stefnanda í
TF-HHS ráðstafað til stefnda Birken án þess að nokkurt raunverulegt endurgjald
kæmi fyrir. Þó að fyrir lægi að stefnandi hefði engin not fyrir þyrluna var
hann látinn leigja þyrluna aftur af stefnda Birken Ltd. Ekki verður séð hvernig
slíkt samrýmdist hagsmunum stefnanda enda var TF-HHS ónothæf í starfsemi
stefnanda og hafði svo verið um 11 mánaða skeið þegar ráðstöfunin fór fram.
TF-HHS stóð svo óhreyfð í umráðum stefnanda allt fram til 1. júlí 2011, er hún
var flutt af landi brott.
Samkvæmt skýrslu Ernst &
Young, dags. 13. júní 2013, lagði stefndi Birken Ltd. enga fjármuni fram til
greiðslu á umræddu skuldabréfi, sem Birken Ltd. gaf út vegna kaupanna á
þyrlunni. Var greiðslum Birken Ltd. vegna skuldabréfsins þess í stað
skuldajafnað á móti leigugreiðslum stefnanda skv. leigusamningi, dags. 3.
nóvember 2009, þó að þyrlan stæði ávallt óhreyfð og ónothæf í umráðum stefnanda
á leigutímanum. Í skýrslu Ernst & Young kemur fram að samkvæmt bókhaldi
stefnanda hafi skuldajöfnun leigugreiðslna á móti greiðslum samkvæmt
skuldabréfinu verið með eftirfarandi hætti:
Dags. |
Fskj. |
Texti í bókhaldi |
Debet |
Kredit |
Uppsöfnuð fjárhæð |
Skýring |
31.12.2009 |
941 |
Sala Bell 230 Birken EUR 520.000 |
95.342.000 |
|
95.342.000 |
|
31.12.2009 |
944 |
Gengismunur erl. láns til Birken |
|
1.544.400 |
93.797.600 |
|
10.10.2010 |
1308 |
Innborgun |
|
44.626.800 |
49.170.00 |
Leiga vegna 12 mánaða frá nóv. 2009 til okt.2010 |
10.10.2010 |
1308 |
Vextir af verðbr.eign 10.400 EUR |
1.614.808 |
|
50.785.608 |
|
31.12.2010 |
1308 |
Áfallinn gengismunur verðbr.eign |
|
13.609.878 |
37.175.730 |
|
31.12.2011 |
1172 |
Innborgun |
|
27.577.200 |
9.598.530 |
Leiga vegna 8 mánaða frá nóv. 2010-jún. 2011 |
31.12.2011 |
1172 |
Vextir af verðbr.eign |
513.123 |
|
10.111.653 |
|
31.12.2011 |
1172 |
Áfallinn gengismunur verðbr.eign |
1.776.425 |
|
11.888.078 |
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
Staða 31.12.2011 |
|
|
11.888.078 |
|
Fram kemur í skýrslu Ernst &
Young að ráðstöfun stefnanda hinn 3. nóvember 2009 á TF-HHS til Birken Ltd.
hafi að líkindum verið gerð til málamynda. Yfirgnæfandi líkur væru á að
stefnandi hefði orðið fyrir fjárhagslegu tjóni af ráðstöfuninni þar sem ekkert
raunverulegt kaupverð hefði verið greitt fyrir þyrluna. Auk þess var vakin á
því athygli í skýrslunni að stefnandi hefði engar tekjur haft af TF-HHS á þeim
tíma sem félagið leigði hana frá stefnda Birken Ltd. Ekki verði séð að rekstrarlegur
tilgangur hafi búið að baki gerð leigusamnings um TF-HHS. Í skýrslunni segir að
erfitt sé að áætla eðlilegt markaðsverð þyrlunnar í nóvember 2009 en þegar hún
hafi verið auglýst til sölu í Bandaríkjunum hafi uppgefið söluverð verið
1.350.000 bandaríkjadalir eða um 587.081 bandaríkjadal eða 73.367.500 kr. hærra
en félagið seldi hana á til Birken Ltd. í nóvember 2009. Auglýst verð í
íslenskum krónum nam á þessum tíma 168.709.500 kr.
TF-HHS var afskráð hérlendis þann
1. mars 2011, eða rúmum 15 mánuðum eftir að henni var ráðstafað til stefnda
Birken Ltd. Þrátt fyrir það hélt stefnandi áfram að greiða leigu af vélinni
ásamt ýmsum öðrum kostnaði í að minnsta kosti fjóra mánuði eftir afskráningu.
TF-HHS var síðan flutt úr landi 1. júlí 2011 og greiddi stefnandi 1,2 m.kr.
fyrir flutning hennar til Kanada.
III.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Dómkröfur stefnanda á hendur
stefndu byggja á því að ráðstöfun stefnanda á TF-HHS til stefnda Birken Ltd.,
dags. 3. nóvember 2009, hafi verið bæði saknæm, ólögmæt og refsiverð. Reisir
stefnandi málatilbúnað sinn á því að stefndu hafi bakað honum skaðabótaskyldu
með meðferð sinni á eign stefnanda, TF-HHS, hinn 3. nóvember 2009. Stefnandi
hafi upphaflega verið hlutafélag en skömmu fyrir gjaldþrot félagsins verið
breytt í einkahlutafélag og því taki bæði lög nr. 2/1995 um hlutafélög (hfl.)
og lög nr. 138/1994 um einkahlutafélög (ehfl.) til málsins. Stefnandi byggir á
því að ótvíræð eignatengsl hafi verið milli stefnda Árnýjar ehf. og stefnda
Birken Ltd., en bæði félögin voru í eigu stefnda Hermanns.
Stefndi Hermann hafi átt aðkomu
að samningagerð beggja megin borðsins og nýtt til þess eignarráð sín og yfirráð
yfir stefnda Árnýju ehf., og gefið fyrirmæli um viðskiptin. Stefnandi byggir á
því að stefndi Hermann hafi í skjóli yfirburðavalds skv. X. kafla hfl. og X.
kafla ehfl. ráðstafað eign stefnanda, TF-HHS, til stefnda Birken Ltd. Stefndi
Birken Ltd., sem hafi verið og sé alfarið í eigu stefnda Hermanns, hafi notið
fjárhagslegs ávinnings af ráðstöfuninni. Öllum stefndu og öllum fyrirsvarsmönnum
þeirra hafi verið eða mátt vera kunnugt um ólögmæti ráðstöfunarinnar án þess þó
að þeir hafi aðhafst nokkuð og þeir með því brotið gegn skyldum sínum gagnvart
stefnanda. Stefndu hafi brotið reglur félagaréttar með háttsemi sinni og stefnandi
hafi ekki notið sjálfstæðis gagnvart raunverulegum eiganda sínum eða þeirri
félagasamstæðu er stefnandi tilheyrði.
Stefnandi telur ljóst að
markmiðið með ráðstöfuninni hafi einvörðungu verið að ráðstafa TF-HHS frá
stefnanda til stefnda Birken Ltd. án þess að raunverulegt endurgjald kæmi
fyrir. Vísar stefnandi um þau atriði til skýrslu Ernst & Young, dags. 13.
september 201, þar sem kemur fram að ekki verði séð hver rekstrarlegur
tilgangur félagsins hafi verið með því að leigja TF-HHS af Birken Ltd. á sama
tíma og hún hafi verið ónothæf í starfsemi stefnanda.
Sala og endurleiga TF-HHS hafi
ekki haft neinn rekstrar- eða viðskiptalegan tilgang. Því til stuðnings vísar
stefnandi meðal annars til skýrslu stefnda Sigurðar hjá skiptastjóra þann 23.
janúar 2013. Þar bar stefndi Sigurður að í kjölfar ákvörðunar Flugmálastjórnar
Íslands í desember 2008, er leiddi til stöðvunar á lofthæfi TF-HHS, hafi
stefnandi leitað allra leiða til að nýta TF-HHS í önnur verkefni en sú leit
hafi engan árangur borið. Þegar í desember 2008 hafi, að mati stefnda Sigurðar,
verið ljóst að félagið hefði engin not fyrir TF-HHS. Stefnandi byggir á því að
Sigurður og Hermann hafi lagt á ráðin um að eign stefnanda skyldi ráðstafað með
röð málamyndagerninga frá stefnanda, sem hafi átt í rekstrarlegum erfiðleikum,
til stefnda Birken Ltd., nýs bresks einkahlutafélags í eigu stefnda Hermanns,
án þess að raunveruleg verðmæti kæmu fyrir.
Stefnandi byggir á því að
skaðabótaskyldu stefndu leiði af 134. gr. hfl., 108 gr. ehfl., og/eða almennu
sakarreglunni. Þannig sé byggt á því af hálfu stefnanda að allir stefndu hafi
með saknæmum, ólögmætum og refsiverðum hætti valdið stefnanda fjárhagslegu
tjóni, að tjónið sé sennileg afleiðing þeirra háttsemi stefndu og orsakatengsl
séu milli hinnar ólögmætu háttsemi og hins fjárhagslega tjóns stefnanda. Þannig
telur stefnandi að stefndu beri á grundvelli framangreindra réttarreglna
sameiginlega skaðabótaábyrgð á því tjóni, sem hin ólögmætu viðskipti höfðu í
för með sér fyrir stefnanda.
Stefnandi byggir á því að stefndu
Sigurður og Hermann hafi með háttsemi sinni misnotað aðstöðu sína og framið
umboðssvik í skilningi 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og/eða
skilasvik í skilningi 250. gr. sömu laga þegar þeir, ýmist í krafti stöðu
sinnar hjá stefnanda, í krafti hlutafjáreignar eða raunverulegra yfirráða yfir
stefnanda, hafi komið því til leiðar með beinum hætti að TF-HHS var afsalað frá
stefnanda yfir til stefnda Birken Ltd. án þess að raunverulegt kaupverð kæmi í
staðinn.
Þá er jafnframt á því byggt af hálfu
stefnanda að ráðstöfun TF-HHS til Birken Ltd. hafi bersýnilega verið til þess
fallin að afla stefnda Birken Ltd. og eiganda þess, stefnda Hermanni
Eyjólfssyni, sem jafnframt var raunverulegur eigandi (e. beneficial owner)
stefnanda, ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað stefnanda. Hafi ráðstöfunin brotið
í bága við ákvæði 76. gr. hfl., sbr. 51. gr. ehfl., en þar komi fram að
félagsstjórn, framkvæmdastjóri og aðrir þeir er hafa heimild til að koma fram
fyrir hönd félagsins megi ekki gera neinar þær ráðstafanir sem séu fallnar til
þess að afla ákveðnum hluthöfum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað
annarra hluthafa eða félagsins. Ennfremur sé ljóst að ráðstöfunin hafi alfarið
verið gerð á kostnað stefnanda og kröfuhafa stefnanda, til hagsbóta fyrir stefnda
Hermann og/eða aðila honum tengda.
Að mati stefnanda skipti í þeim
efnum ekki máli þótt stefndi Sigurður hafi talið sig vera að framfylgja
ákvörðun hluthafa, enda eigi félagsstjórn og framkvæmdastjóri ekki að
framfylgja ákvörðunum hluthafafundar eða annarra stjórnaraðila ef ákvarðanirnar
eru ógildar vegna þess að þær brjóta í bága við lög eða félagssamþykktir, sbr.
2. mgr. 76. gr. hfl. og 2. mgr. 51. gr. ehfl. Þessa skyldu leiði af
trúnaðarskyldu stjórnenda gagnvart félaginu sjálfu. Þannig sé stjórnendum bæði
rétt og skylt að sporna við framkvæmd ólögmætra ráðstafana, sem tefli hagsmunum
félags í hættu. Stefnandi byggir
jafnframt á því að hefði stefndi Sigurður staðið undir þeim skyldum sem á honum
hvíldu og leiddi af ákvæðum laga um hlutafélög og samþykktum stefnanda hefði
aldrei komið til hinnar ólögmætu ráðstöfunar sem mál þetta lýtur að.
Gagnvart stefnda Árnýju ehf. sé
krafa um skaðabætur byggð á sakarreglunni og 2. mgr. 134. gr. hfl. og 2. mgr.
108. gr. ehfl. Stefndi Árný ehf. hafi verið móðurfélag stefnanda og félögin þar
af leiðandi myndað samstæðu í skilningi 1. mgr. 2. gr. hfl. og 1. mgr. 2. gr.
ehfl. Stefndi Hermann hafi verið eigandi alls hlutafjár í stefnda Árnýju ehf.,
ásamt því að vera stjórnarformaður félagsins. Stefndi Hermann hafi farið með
raunveruleg yfirráð yfir stefnanda, stefnda Árnýju ehf. og stefnda Birken Ltd.
Stefnandi byggir á því að stefndi
Hermann hafi misbeitt áhrifum sínum í stefnanda í gegnum eignarhald sitt á
stefnda Árnýju ehf., hluthafa stefnanda, til að koma því til leiðar að TF-HHS
væri ráðstafað til stefnda Birken Ltd. Stefndi Árný ehf. hafi þannig verið
órjúfanlegur hlekkur í því að hægt var að framkvæma ráðstöfunina með þeim hætti
sem gert var. Þannig hafi stefndi Hermann komið fram fyrir hönd stefnda Árnýjar
ehf. gagnvart stefnanda við viðskiptin. Það komi og fram í skýrslutöku stefnda
Hermanns hjá skiptastjóra að hann hafi verið eigandi alls hlutafjár í stefnda
Árnýju ehf. Jafnframt hafi komið fram í skýrslutökunni að í krafti
hlutafjáreignar stefnda Hermanns í stefnda Árnýju ehf. hefði hann haft
margvísleg afskipti af rekstri stefnanda og meðal annars gefið fyrirmæli um
framkvæmd viðskiptanna með TF-HHS hinn 3. nóvember 2009. Afskipti stefnda
Hermanns af starfsemi stefnanda séu jafnframt staðfest í skýrslu af Hauki Þór
Adolfssyni, fyrrum eiganda og stjórnarformanni stefnanda, hjá skiptastjóra,
dags. 21. janúar 2013. Hvað stefnda Árnýju ehf. varðar sé að öðru leyti byggt á
sömu málsástæðum og eigi við um stefnda Hermann, að breyttu breytanda.
Gagnvart stefnda Árnýju ehf.
byggir stefnandi skaðabótakröfu sína á sakarreglunni og 2. mgr. 134. gr. hfl.
og 2. mgr. 108. gr. ehfl. Þar sem ráða megi af gögnum málsins að stefndi
Hermann hafi í krafti eignarhalds síns í stefnda Árnýju ehf. haft raunveruleg
yfirráð og stjórn stefnanda með höndum byggir stefnandi á því að beita eigi
sakarreglunni gagnvart stefnda Árnýju ehf. Í öllu falli sé þó ljóst að 2. mgr.
134. gr. hfl. og 2. mgr. 108. gr. ehfl. eigi við um stefnda Árnýju ehf. og
byggir stefnandi kröfur sínar um skaðabætur jafnframt á þeim greinum.
Gagnvart stefnda Hermanni sé
krafa um skaðabætur byggð á sakarreglunni og til vara á 134. gr. hfl. og 108.
gr. ehfl. Stefndi Hermann hafi lagt á ráðin um það með stefnda Sigurði að
eigninni TF-HHS væri með ólögmætum, saknæmum og refsiverðum hætti ráðstafað frá
stefnanda til stefnda Birken Ltd. hinn 3. nóvember 2009. Stefndi Hermann hafi
verið stjórnarformaður og eigandi alls hlutafjár í stefnda Árnýju ehf.,
móðurfélagi og eina hluthafa stefnanda, auk þess sem stefndi Hermann var stjórnarformaður
og átti sem fyrr segir alla eignarhluti í stefnda Birken Ltd. Þannig byggir stefnandi á því að stefndi
Hermann hafi verið raunverulegur eigandi stefnanda (e. beneficial owner) og
hann hafi í krafti eignarhalds misnotað þau áhrif sem því fylgdu í þeim
tilgangi að koma eignum stefnanda undan til hagsbóta fyrir sjálfan sig og/eða
tengda aðila. Með hugtakinu raunverulegur eigandi, eins og það komi fyrir í
íslenskum rétti, sé átt við einstakling, einn eða fleiri, sem í raun eigi eða
stýri þeim aðila sem skráður sé fyrir
eða framkvæmi tiltekin viðskipti, sbr. meðal annars 4. tölul. 1. mgr. 3. gr.
laga nr. 64/2006. Stefnandi telur það í ljós leitt, með hliðsjón af
framangreindri skilgreiningu, að stefndi Hermann hafi í krafti hlutafjáreignar
sinnar í Árnýju ehf. farið með raunveruleg yfirráð yfir stefnanda. Eins og ráða
megi af gögnum málsins hafi stefndi Hermann farið með raunveruleg yfirráð yfir
öllum hlutaðeigandi lögaðilum, sem hafi átt hlut að hinum umstefndu
ráðstöfunum.
Í þessu sambandi vísar stefnandi
til og byggir á skýrslu stefnda Sigurðar hjá skiptastjóra þann 23. janúar 2013,
þar sem fram kemur að Hermann hafi tekið ákvörðun og gefið fyrirmæli um
ráðstöfun TF-HHS til stefnda Birken Ltd. og endurleigu TF-HHS til stefnanda. Í
skýrslu Sigurðar komi jafnframt fram að Hermann hafi séð um að útbúa alla
samninga er til þurfti vegna ráðstöfunarinnar og segist Sigurður hafa skrifað
undir gerningana að hans beiðni. Ennfremur vísar stefnandi til skýrslu stefnda
Hermanns hjá skiptastjóra, dags. 23. júlí 2013, þar sem stefndi Hermann
viðurkenni að hafa átt frumkvæðið að ráðstöfun TF-HHS til stefnda Birken Ltd.
Telur stefnandi því í ljós leitt að stefndi Hermann hafi, í krafti eignarhalds
yfir öllum hlutaðeigandi einkahlutafélögum, sem áttu aðkomu að ráðstöfuninni,
misbeitt áhrifum sínum til að afla sjálfum sér og félagi í hans eigu, stefnda
Birken Ltd., ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað stefnanda og kröfuhafa
stefnanda.
Stefnandi byggir á því að stefndi Hermann hafi með háttsemi sinni brotið gegn
hagsmunum stefnanda með skaðabótaskyldum hætti er hann tók ákvarðanir og gaf
fyrirmæli um að TF-HHS skyldi ráðstafað til stefnda Birken Ltd. og endurleigð
aftur til stefnanda. Stefnandi byggir á því að sú röð málamyndagerninga, sem
stefndu Hermann og Sigurður lögðu á ráðin um og áður hafi verið lýst, hafi haft
neikvæð áhrif á eignastöðu stefnanda og takmarkað möguleika stefnanda á því að
geta staðið í skilum við lánardrottna sína. Þetta hafi stefnda Hermanni verið
fulljóst sem raunverulegum eiganda stefnanda. Af hálfu stefnanda er einnig á
því byggt að tilgangurinn hafi öðru fremur verið sá að afla stefnda Birken Ltd.
og stefnda Hermanni og félögum, er honum tengdust, fjárhagslegs ávinnings, allt
á kostnað stefnanda og kröfuhafa stefnanda. Þannig sé á því byggt af hálfu
stefnanda að ráðstöfun TF-HHS til Birken Ltd., sem stefndi Hermann lagði á
ráðin um ásamt stefnda Sigurði, hafi falið í sér saknæman, ólögmætan og
refsiverðan verknað. Líkt og reifað hafi verið að framan hafi ráðstöfunin verið bersýnilega til þess fallin að afla stefnda
Birken Ltd. og raunverulegum eiganda þess, stefnda Hermanni ótilhlýðilegra
hagsmuna, allt á kostnað stefnanda og kröfuhafa stefnanda, í andstöðu við 76.
gr. hfl. Stefnandi telur því leitt í ljós
að saknæm, ólögmæt og refsiverð háttsemi stefnda Hermanns hafi komið niður á
hagsmunum stefnanda og valdið stefnanda fjárhagslegu tjóni.
Stefnandi byggir á því að um beinan ásetning
hafi verið að ræða af hálfu stefnda Hermanns, enda ljóst að hann hafi vitað eða
mátt vita hvað í ráðstöfuninni fælist. Stefndi Hermann sé menntaður á sviði
viðskipta og reyndur bankamaður. Þannig byggir stefnandi á því að háttsemi
stefnda Hermanns hafi falið í sér umboðssvik í skilningi 249. gr. alm. hgl.
Helsta einkenni umboðssvika sé einmitt misnotkun á þeim trúnaði sem felist í
ákveðinni aðstöðu með fjárhagslegri ráðstöfun í skjóli aðstöðunnar í því skyni
að afla sér eða öðrum fjárhagslegs ávinnings á kostnað þess aðila sem bundinn
er við ráðstöfunina. Stefndi Hermann hafi misnotað þau áhrif sem hann hafi haft
í krafti eignarhalds til þess að afla sjálfum sér og félögum honum tengdum
fjárhagslegra hagsmuna á kostnað stefnanda og kröfuhafa hans. Stefndi Hermann
hafi átt frumkvæðið að ráðstöfuninni og séð um nauðsynlega skjalagerð ásamt því
að undirrita skjölin fyrir hönd stefnda Birken Ltd. Við blasi í málinu að
stefndi Hermann hafi ekki skeytt með nokkrum hætti um hagsmuni stefnanda í
þessu sambandi, heldur aðeins um það hvernig hægt væri að hlunnfara stefnanda
og kröfuhafa stefnanda. um skýran
auðgunarásetning að ræða af hálfu stefnda Hermanns. Ennfremur byggir stefnandi
á því að háttsemi stefnda Hermanns hafi falið í sér skilasvik í skilningi 2. og
4. tölul. 1. mgr. 250. gr. alm. hgl.
Gagnvart stefnda Hermanni byggir
stefnandi á sakarreglunni, enda hafi hann með saknæmum, ólögmætum og
refsiverðum hætti valdið stefnanda fjárhagslegu tjóni, að tjónið sé sennileg
afleiðing þeirrar háttsemi og orsakatengsl séu milli hinnar ólögmætu háttsemi
og hins fjárhagslega tjóns stefnanda. Þannig telur stefnandi að stefndi Hermann
beri á grundvelli sakarreglunnar skaðabótaábyrgð á því tjóni sem hin ólögmæta
ráðstöfun hafði í för með sér fyrir stefnanda. Hvað sem öllu öðru líður byggi
stefnandi á því til viðbótar gagnvart stefnda Hermanni að hann beri
skaðabótaábyrgð á grundvelli 134. gr. hfl. og 108. gr. ehfl. enda eigi ákvæði
76. og 95. gr. hfl. og 51. og 70. gr. ehfl. við með lögjöfnun um stefnda
Hermann, eða að minnsta kosti meginreglur þær í félagarétti sem þessi ákvæði
eru reist á. Stefnandi byggir á því að stefndi Hermann hafi brotið gegn þessum
réttarreglum þegar hann misbeitti áhrifum sínum gagnvart stjórnendum stefnanda
í krafti eignarhalds á öllu hlutafé í stefnda Árnýju ehf. til þess að koma því
til leiðar að stefnda Birken Ltd. yrði aflað ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað
stefnanda og kröfuhafa stefnanda. Stefnandi byggir á því að fyrrgreindar
lagagreinar, eða a.m.k. viðkomandi meginreglur, taki með lögjöfnun jafnframt
til þeirra aðila sem fóru með raunverulega stjórn stefnanda í krafti
eignarhalds síns. Það væri
undarlegur skýringarkostur að mati stefnanda ef skýra ætti ákvæðin með svo
þröngum hætti að þau tækju aðeins til skráðra stjórnenda hlutafélags en ekki
til þeirra sem stjórnuðu félaginu í reynd. Þessu til
stuðnings vísar stefnandi til þess að stefndi Hermann hafi í aðdraganda og við
framkvæmd hinnar umstefndu ráðstöfunar ítrekað haft afskipti af starfsemi
stefnanda og beitt sér fyrir afgreiðslu tiltekinna mála. Í áðurnefndri skýrslu
stefnda Hermanns hjá skiptastjóra viðurkenni hann að hafa haft afskipti af
daglegri starfsemi stefnanda í krafti stöðu sinnar sem eigandi stefnda Árnýjar
ehf. Hið sama komi og fram í skýrslu stefnda Sigurðar hjá skiptastjóra, dags.
23. janúar 2013. Þá sé þetta jafnframt staðfest í skýrslu skiptastjóra af Hauki
Þór Adolfssyni, fyrrum eiganda og stjórnarformanni stefnanda, dags, 21. janúar
2013.
Þegar atvik málsins séu metin
heildstætt byggir stefnandi á því að full sönnun hafi tekist fyrir því að
stefndi Hermann hafi með röð málamyndagerninga ráðstafað eigninni TF-HHS út úr
rekstri stefnanda og til stefnda Birken Ltd., sem hann sjálfur átti og
stjórnaði. Þannig hafi stefndi Hermann með saknæmum, ólögmætum og refsiverðum
hætti aflað sjálfum sér og félögum honum tengdum ótilhlýðilegra hagsmuna á
kostnað stefnanda og kröfuhafa stefnanda. Því telur stefnandi að stefndi
Hermann beri á grundvelli sakarreglunnar, og á grundvelli 134. gr. hfl. og 108.
gr. ehfl., sem stefnandi telur að eigi við með lögjöfnun eða a.m.k. á
grundvelli þeirra meginreglna félagaréttar sem þessi ákvæði eru reist á, skaðabótaábyrgð
á því tjóni sem hin ólögmæta ráðstöfun hafi haft í för með sér fyrir stefnanda.
Gagnvart stefnda Birken Ltd. er
gerð krafa um skaðabætur byggð á almennu sakarreglunni og almennri
auðgunarreglu. Stefndi Birken Ltd. hafi verið einkahlutafélag í eigu og undir
stjórn stefnda Hermanns og það félag sem naut alls ágóða af þeirri ráðstöfun er
fólst í ráðstöfun stefnanda á TF-HHS til stefnda Birken Ltd. hinn 3. nóvember
2009. Krafa á hendur Birken Ltd. sé því byggð á sömu málsástæðum og eigi við um
stefnda Árnýju ehf. og eftir atvikum aðra stefndu að breyttu breytanda. Fram komi í skýrslu stefndu Hermanns
og Sigurðar hjá skiptastjóra að félagið hefði verið stofnað í þeim eina
tilgangi að kaupa TF-HHS af stefnanda. Stefndi Birken Ltd. hafi þannig verið órjúfanlegur
hlekkur í hinni ólögmætu háttsemi og röð málamyndagerninga sem miðaði að því að
ráðstafa TF-HHS til stefnda Birken Ltd. án þess að raunverulegt kaupverð væri
innt af hendi. Stefndi Birken Ltd. hafi verið það félag er hafi notið alls
ávinnings af ráðstöfuninni. Þar sem ráða megi af gögnum málsins að Birken Ltd.,
sem var í eigu stefnda Hermanns, hafi þannig með skaðabótaskyldum hætti valdið
stefnanda tjóni byggi stefnandi á því að sakarreglan sé grundvöllur
skaðabótaábyrgðar gagnvart stefnda Birken Ltd.
Stefnandi byggir jafnframt á því
gagnvart stefnda Birken Ltd. að stefndi Birken Ltd. hafi í reynd notið stöðu móðurfélags
stefnanda, sbr. 3. mgr. 2. gr. hfl. og 3. mgr. 2. gr. ehfl, þótt félagið hefði
ekki verið formlegur hluthafi stefnanda. Ráðstöfunin hafi farið fram í skjóli
yfirburðavalds samkvæmt X. kafla hfl. og X. kafla ehfl. Byggi stefnandi þannig
á því að stefndi Birken Ltd. hafi notið greiðslna frá stefnanda og að í reynd
hafi verið um dulda arðsúthlutun að ræða án þess að skilyrði fyrir slíkri
útgreiðslu væru til staðar. Stefnandi byggi á því að stefnda Birken Ltd. beri
að skila til baka peningalegum verðmætum, sem tilheyrt hafi stefnanda og hafi
verið hirt úr búi stefnanda í trássi við ákvæði XII. kafla hfl., sbr. 102. gr.
hfl. Ráðstöfun TF-HHS hafi verið til þess fallin og hafi í reynd aflað stefnda
Birken fjárhagslegra verðmæta, allt á kostnað stefnanda og kröfuhafa stefnanda.
Byggi skaðabótakrafa stefnanda gagnvart stefnda Birken Ltd. að þessu leyti
einnig á 76. gr. og 95. gr. hfl., sbr.
51. og 70. gr. ehfl., sbr. einnig stoð í almennum skaðabótareglum.
Í samandregnu máli byggir
stefnandi á því að stefndi Birken Ltd. hafi verið lykilaðili í röð
málamyndagerninga, sem leitt hafi til fjárhagslegs tjóns fyrir stefnanda.
Stefndi Birken Ltd. hafi haft tengsl við alla hlutaðeigandi aðila og jafnframt
verið sá aðili sem hafi notið fullkomins fjárhagsleg ávinnings af
ráðstöfuninni. Þannig telji stefnandi að stefndi Birken Ltd. hafi með saknæmum
og ólögmætum hætti aflað sér fjárhagslegra hagsmuna á kostnað stefnanda og
kröfuhafa hans og beri hann skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda.
Að mati stefnanda, og með
hliðsjón af öllu framangreindu, liggi fyrir að saknæm og ólögmæt háttsemi
stefndu hafi valdið stefnanda fjártjóni. Stefnandi byggi á því að ef ákvörðun
um sölu TF-HHS hefði verið framkvæmd í samræmi við ákvæði laga nr. 2/1995 um
hlutafélög, laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög og eðlilegar
viðskiptaforsendur hefði aldrei komið til hinna óheimilu viðskipta,sem mál
þetta lýtur að og þ.a.l. aldrei til þess tjóns sem stefnandi krefst nú að verði
að fullu bætt. Þannig séu bein orsakatengsl milli þess fjárhagslega tjóns, sem
stefnandi hafi nú orðið fyrir vegna hinna óheimilu viðskipta og þess fjártjóns,
sem hann krefjist nú að verði bætt. Auk þess sé tjónið sennileg afleiðing
þeirrar saknæmu háttsemi sem stefndu viðhöfðu í þessu máli og lýst hefur verið
að framan.
Með vísan til alls framangreinds
byggir stefnandi á því að stefndu beri, á grundvelli sakarreglunnar, ákvæða 1.
og 2. mgr. 134. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög og 108. gr. laga nr. 138/1994
um einkahlutafélög, sameiginlega skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda á því tjóni
sem hér um ræðir.
Stefnandi byggir kröfu sína
gagnvart stefnda Birken Ltd. til vara á ólögfestum reglum kröfuréttarins um óréttmæta
auðgun. Í dómaframkvæmd hafi verið viðurkennt að
við tilteknar aðstæður verði þeim sem hafi án réttmætrar ástæðu öðlast verðmæti
sem tilheyri öðrum og þannig auðgast á hans kostnað gert að skila eiganda eða
þeim sem varð fyrir tjóni andvirði þeirrar auðgunar. Skilyrði þess sé annars
vegar að um tjón annars sé að ræða og hins vegar að auðgun hins sé í beinum
tengslum við það tjón.
Fyrir liggi að stefndi Birken
Ltd. hafi án réttmætrar ástæðu öðlast verðmæti sem tilheyrðu stefnanda og
þannig auðgast á hans kostnað. Vegna
þeirrar ákvörðunar stefndu að ráðstafa TF-HHS frá stefnanda til stefnda Birken
Ltd. án þess að raunverulegt kaupverð hafi verið greitt fyrir hafi stefnandi
orðið fyrir tjóni sem því nemur og stefndi Birken Ltd. notið samsvarandi auðgunar.
Sú
auðgun stefnda Birken Ltd. hafi verið óréttmæt enda átt rætur að rekja til
þeirrar saknæmu og ólögmætu háttsemi háttsemi sem að framan er lýst. Stefnandi telur
ljóst að uppfyllt séu öll skilyrði til þess að auðgunarreglu verði beitt og að
stefnda Birken Ltd. beri samkvæmt því að skila óréttmætri auðgun sinni til
stefnanda.
Aðalkrafa og varakrafa stefnanda
byggir á því að fjártjón stefnanda, og eftir atvikum samsvarandi auðgun stefnda
Birken Ltd., nemi 168.304.500 kr. eða 1.350.000 bandaríkjadölum miðað við gengi
hinn 3. nóvember 2009., sem var 124,67 kr. Kröfufjárhæðin sé grundvölluð á
lágmarkssöluverði TF-HHS hinn 3. nóvember 2009 samkvæmt sérfræðiskýrslu Ernst
& Young, dags. 13. júní 2013. Stefnandi byggi á því að þessi fjárhæð sé það
fjárhagslega tjón sem stefnandi hafi orðið fyrir vegna háttsemi stefndu í
tengslum við hin ólögmætu viðskipti sem mál þetta lýtur að og ekki hefur
fengist bætt. Stefnandi áskilji
sér rétt til að dómkveðja matsmann til að sannreyna þetta virði og leiðrétta
kröfugerð í samræmi við niðurstöðu hans. Ljóst sé að eignin TF-HHS hafi, hvað
sem öðru líður, verið seld verulega undir markaðsvirði.
Fari svo ólíklega að ekki verði fallist á
stefnufjárhæð þessa máls telur stefnandi að til vara beri að dæma stefndu til
greiðslu 95.113.112 kr., sem sé mismunur á lágmarkssöluverði TF-HHS hinn 3.
nóvember 2009, samkvæmt sérfræðiskýrslu Ernst & Young, og raunsöluverði því
sem lagt var til grundvallar við söluna. (168.304.500 kr. – 73.191.388 kr.). Stefnandi krefjist skaðabótavaxta af stefnufjárhæðum þessa
máls samkvæmt 1. mgr., sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og
verðtryggingu, frá þeim degi er hin bótaskylda athöfn hafi átt sér stað, þ.e.
3. nóvember 2009, til þess dags er liðinn sé mánuður frá birtingu stefnu
þessarar. Frá þeim degi krefjist stefnandi dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6.
gr., sbr. 1. mgr. 9. gr. sömu laga.
Varðandi varnarþing vísar stefnandi til 1. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð
einkamála, en a.m.k. tveir stefndu hafa varnarþing fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.
Um lagarök, er varða grundvöll
skaðabótaábyrgðar stefndu, vísar stefnandi til almennra ólögfestra reglna
íslensks réttar um skaðabætur, sbr. þó einkum sakarregluna. Þá vísar stefnandi
jafnframt til laga nr. 2/1995, um hlutafélög, þá einkum., 68., 72., 76., 95. og
134. gr. laganna auk laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, einkum 2., 44.,
51., 70. og 108. gr. Jafnframt vísar stefnandi til almennra hegningarlaga, nr.
19/1940, einkum 249. gr. (umboðssvik) og 250. gr. (skilasvik). Þá er vísað til
almennra reglna kröfuréttar um óréttmæta auðgun.
Krafan um málskostnað byggir á 1.
mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Um
lagarök að öðru leyti vísar stefnandi til kaflans um málsástæður hér að framan.
IV.
Málsástæður og lagarök stefnda Hermanns
Eyjólfssonar
Stefndi
Hermann telur nauðsynlegt að rekja atvik að nokkru leyti vegna villandi,
óljósrar og í sumum tilfellum rangrar málavaxtalýsingar í stefnu. Stefndi
Hermann sé eigandi alls hlutafjár í Árnýju ehf. Félagið hafi keypt allt hlutafé
í stefnanda af Hauki Þór Adolfssyni seinnihluta árs 2008, þegar Haukur hefði
ákveðið að einbeita sér að því að reyna að tryggja rekstur annarra félaga, sem
voru í hans eigu. Stefndi Hermann
hafi lítil afskipti haft af daglegum rekstri stefnanda en reynt eftir fremsta
megni að tryggja að félagið væri rekstrarhæft. Þegar stjórnendur stefnanda hafi
leitað til stefnda hafi hann ávallt verið reiðubúinn til aðstoðar án þóknunar. Eins og eigi við um mörg félög hér á
landi, þá hafi rekstur stefnanda þyngst gríðarlega í kjölfar bankahrunsins árið
2008. Meðal þess sem hafi haft slæm áhrif á reksturinn hafi verið það að ekki
hafi verið staðið við samning vegna Bell 430-þyrlu, sem var í eigu félagsins,
og því hafi orðið að setja hana á sölu en eftirspurn á markaði á þeim tíma hafi
verið lítil sem engin. Bell 430-þyrlan hafi verið í eigu stefnanda en gert
hefði verið ráð fyrir því að félagið Smáey ehf. hefði hana á leigu. Þær tekjur
sem áætlað hafi verið að stefnandi hefði af þessum leigusamningi hafi numið
tugum milljóna króna. Þá hafi það haft verulega afdrifarík áhrif á reksturinn
þegar Flugmálastjórn hafi ákveðið að afturkalla samþykki til Flugvélaverkstæðis
Reykjavíkur ehf. um að sinna viðhaldi og þjónustu tveggja þyrla í eigu
stefnanda.
Stefnanda hafi borist tölvuskeyti þann 18. desember 2008 frá Ómari Þór Eðvaldssyni, starfsmanni Flugmálastjórnar Íslands. Þar hafi því verið lýst yfir að Flugmálastjórn hygðist afturkalla samþykki sitt fyrir því að Flugvélaverkstæði Reykjavíkur ehf. sinnti nauðsynlegu viðhaldi og þjónustu, m.a. á þyrlum í eigu stefnanda af gerðunum Bell 230 og Bell 430. Stefnandi hafi ekki átt kost á því að leita annað varðandi þessa þjónustu og því orðið að reyna að leysa málið með því að tryggja það að Flugvélaverkstæði Reykjavíkur ehf. uppfyllti kröfur Flugmálastjórnar og gæti þjónað stefnanda. Stjórnendur stefnanda hafi ekkert talið því til fyrirstöðu að leysa málið á skömmum tíma þannig að þyrlur stefnanda kæmust á loft á ný. Þá hafi ekkert í samskiptum stjórnenda stefnanda við Flugmálastjórn bent til þess að neitt ætti að koma í veg fyrir að hægt væri að ljúka þessu máli hratt og örugglega.
Á þessum tíma hafi verið uppi áætlanir um að Bell 230-þyrlan TF-HHS, með skráningarnúmer 23022, yrði send til Grænlands til að sinna ýmsum verkefnum. Ein grunnforsenda þess að þyrlan gæti sinnt verkefnunum hafi verið að heimilt væri að fljúga henni. Stefnandi hafi unnið með Flugmálastjórn að lausn málsins en sú vinna tekið umtalsvert lengri tíma en búist hafi verið við. Að mati stjórnenda stefnanda hafi of mikil áhætta verið fólgin í því að leigja aðrar vélar til þess að sjá um verkefnin á Grænlandi og því verið reynt að leysa málið með viðræðum við Flugmálastjórn. Að mati stjórnenda hafi einnig verið of mikil áhætta, óhagræði og kostnaður fólginn í því að koma þyrlunum yfir á danska skráningu svo unnt væri að sinna verkefnum á Grænlandi. Almennt sé samið um verkefni á Grænlandi um vor ef fyrirhugað er að þau séu unnin yfir sumarið. Umskráning vélar og öflun tilskilinna leyfa í öðru landi sé verulega kostnaðarsöm framkvæmd, sem taki auk þess venjulega marga mánuði, og því hafi verið reynt að finna lausn á málinu í samvinnu við Flugmálastjórn. Stefnandi byggi málatilbúnað sinn á þeim grundvallarmisskilningi að sala þyrlunnar TF-HHS frá stefnanda til stefnda Birken Ltd. hafi verið framkvæmd með röð málamyndagerninga sem hafi ekki haft rekstrarlegan tilgang. Þegar tekin hafi verið ákvörðun um sölu TF-HHS til félags sem hafi verið stofnað í Bretlandi hafi markmiðið m.a. verið að tryggja að eignarhald á þyrlunni væri hjá félagi í landi sem byggi við stöðugra fjármálakerfi og leiðir til fjármögnunar væru greiðari. Þegar þyrlan hafi verið seld til Birken Ltd. hafi verið fyrirhugað að stefnandi fengi tvær þyrlur til viðbótar inn í rekstur félagsins. Með sölu TF-HHS til Birken Ltd. hafi átt að skapa grundvöll fyrir því að það félag gæti séð um að fjármagna kaup á þessum tveimur þyrlum og þær yrðu síðan leigðar til stefnanda. Miðað við stöðu á íslenskum fjármálamarkaði á þessum tíma hafi verið fyrirséð að ómögulegt yrði að fjármagna kaup á tveimur þyrlum á Íslandi. Þetta hafi verið gert til þess að reyna að tryggja það að stefnandi væri rekstrarhæft félag. Stefnandi byggi einnig á því að TF-HHS hafi verið veðsett þegar stefnandi seldi hana stefnda Birken Ltd. Þessu hafnar stefndi enda komi skýrlega fram í skýrslum stefnda, Hermanns Eyjólfssonar og Hauks Þórs Adolfssonar sem teknar voru á skrifstofu skiptastjóra stefnanda 21. janúar 2013 og 23. júlí 2013, að þyrlan hafi ekki verið veðsett. Stefnandi byggi á því að samkvæmt ákvæðum lánssamnings á milli BYRs og stefnanda frá 22. október 2007 hafi ætlunin verið sú að til tryggingar lánsins skyldi vera tryggingarbréf, m.a. tryggt með 1. veðrétti í TF-HHS. Þetta hafi ekki verið gert heldur verið gengið þannig frá málum að Haukur Þór Adolfsson hafi gengist í persónulega ábyrgð vegna lánsins, eins og hann segi sjálfur í skýrslu sem hann gaf á skrifstofu skiptastjóra stefnanda 21. janúar 2013. Lánssamningur þessi hafi ekki verið lagður fram sem skjal í málinu og því mótmæli stefndi öllum tilvísunum stefnanda til samningsins en áskilji sér jafnframt allan rétt til frekari mótmæla ef samningurinn verður lagður fram undir rekstri málsins. Tryggingarbréf á dskj. nr. 11 sýni að lánið hafi verið tryggt með 2. veðrétti í Bell 206 L-1 þyrlunni TF-HHG og með 1. veðrétti í þyrlunni Schweizer 269C, TF-HHX. Þetta tryggingarbréf hafi verið undirritað fyrir hönd stefnanda af stefnda, Sigurði Pálmasyni, og Hauki Þór Adolfssyni þann 22. október 2007. Tryggingarbréfið hafi verið móttekið til skrásetningar í flugvéladagbók degi síðar, 23. október 2007, og innfært í réttindaskrá loftfara 25. október 2007. Með færslu, sem virðist hafa verið vélrituð á tryggingarbréfið 19. desember 2008, sé yfirlýsing um viðbótartryggingu í loftfarinu TF-HHS. Þessi viðbótartrygging hafi ekki verið færð inn í samráði við þáverandi stjórnendur stefnanda og hafi að mati stefnda ekki gildi. Jafnframt megi benda á tölvusamskipti milli Sigurðar Pálmasonar og Árna Möller frá 21. september 2011 og tölvuskeyti Jóns Auðuns Jónssonar til Sigurðar Pálmasonar 20. september 2011 þar sem því sé lýst að þyrlan hafi aldrei verið sett að veði. Á þeim tíma sem þyrlan hafi verið seld frá stefnanda til stefnda Birken Ltd. hafi markaður með þyrlur legið nánast algjörlega niðri og lítil sem engin eftirspurn verið eftir Bell 230-þyrlum. Stefndi telur stefnanda ekki á nokkurn hátt hafa sýnt fram á að umsamið kaupverð hafi verið óeðlilega lágt miðað við aðstæður á markaði á þeim tíma er samið var um kaupin. Um aðstæður á markaði með þyrlur á þessum tíma megi nefna að stefnandi hafði keypt aðra þyrlu í júlí 2007 af gerðinni Bell 430. Kaupverð þyrlunnar hafi verið sjö milljónir bandaríkjadala. Réttum þremur árum seinna, í júlí 2010, hafi þyrlan verið seld til uppgjörs á skuldum við Landsbankann á þrjár milljónir bandaríkjadala. Bankinn hefði lýst því yfir að hann væri tilbúinn að fara niður í 2,5 milljónir bandaríkjadala sem ásættanlegt söluverð. Söluverðið hafi því verið tæplega 43% af þeirri upphæð sem þyrlan hafi verið keypt á þremur árum áður. Markaður með þyrlur af gerðinni Bell 430 hafi þó verið mun skárri en fyrir Bell 230-þyrlur. Stefndi bendi á tölvuskeyti frá Jean Noel de Précigout, forseta Fin Air Trade S.A.S., sem sé umsvifamikið félag í viðskiptum með þyrlur. Stefndi hafi fengið tölvuskeytið framsent 1. desember 2009. Þar komi m.a. fram að áætlað „fair market value“ Bell 230-þyrlunnar sé ein milljón bandaríkjadala en markaður með Bell 230-þyrlur hafi þá legið nánast alveg niðri. Þá verði að hafa í huga að á þeim tíma sem þyrlan var keypt hafi gengi krónunnar gagnvart bandaríkjadalnum verið mjög sterkt en þegar stefnandi seldi þyrluna til Birken Ltd. hafi gengi krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum verið umtalsvert veikara, þannig að litið til munar á kaup- og söluverði í íslenskum krónum megi sjá að söluverðið hafi numið um 76% af kaupverðinu á þeim tíma þegar markaður fyrir þyrluna hafi verið nánast enginn.
Stefndi telji útreikning stefnanda á fjárhæð meints tjóns stefnanda ekki standast nokkra skoðun. Í skýrslu Ernst & Young ehf. sé eðlilegt söluverð í nóvember 2009 sagt vera að lágmarki 1.350.000 bandaríkjadalir. Þessi niðurstaða um eðlilegt söluverð sé byggð á því að þyrlan hafi verið auglýst til sölu í maí 2011, og þetta hafi verið uppsett verð. Ljóst sé að ekki sé hægt að miða við þessa upphæð sem eðlilegt söluverð, enda komi fram í skýrslu stefnda Hermanns frá 23. júlí 2013 að ekki hefði náðst að selja þyrluna. Stefndi telji stefnanda ekki hafa sýnt fram á að kaupverðið hafi verið óeðlilegt miðað við aðstæður á markaði á þeim tíma sem kaupin áttu sér stað.
Það tjón sem stefnandi hafi orðið fyrir sé að rekja til þess að Flugmálastjórn Íslands hafi ákveðið að afturkalla samþykki sitt til Flugvélaverkstæðis Reykjavíkur ehf. Þetta hafi leitt til þess að TF-HHS hafi ekki verið lofthæf, þ.e.a.s. ekki hafi verið leyfilegt að sinna verkefnum á þyrlunni þótt hún hafi verið fullkomlega flughæf. Engu að síður hafi flugmálastjórn tekið þessa ákvörðun, sem innanríkisráðuneytið hafi staðfest að væri ólögmæt og fellt úr gildi með úrskurði nr. 55/2010. Áður en stefnandi hafi verið tekinn til gjaldþrotaskipta hafi starfsmenn stefnanda verið að taka saman og undirbúa framlagningu bótakröfu á hendur ríkinu vegna þessa tjóns. Eins og fram komi í bréfi stefnda Sigurðar Pálmasonar frá 27. júlí 2011 hafi tjón vegna ólögmætrar aðgerðar Flugmálastjórnar Íslands verið gróflega metið 172 milljónir króna. Ef ekki hefði komið til þessarar aðgerðar hefði TF-HHS verið í verkefnum og skapað stefnanda tekjur. Svo virðist sem stefnandi hafi ekkert litið til þessa við mat á því hvort viðskipti með TF-HHS milli stefnanda og stefnda Birken Ltd. hafi haft viðskipta- og rekstrarlegan tilgang.
Snemma árs 2011 hafi staðið til að Birken Ltd. myndi kaupa tvær Bell 407-þyrlur, sem yrðu svo leigðar til stefnanda til afnota í rekstri stefnanda. Þegar í ljós hafi komið að fjármögnun kaupa á þyrlunum tveimur yrði erfiðari en búist hefði verið við hafi Birken Ltd. afsalað sér rétti til annarrar þyrlunnar en keypt hina og fengið hana afhenta fyrri hluta árs 2012. Þyrlan sé á kaupleigu frá Bell Helicopter Textron Inc. Eftir að þyrlan hafi verið afhent kaupanda hafi hún verið leigð til stefnanda á kjörum sem hafi verið langt undir eðlilegum leigukjörum á markaði. Stofnun Birken Ltd. og sala á Bell 230 frá stefnanda til Birken Ltd. hafi verið liður í því að tryggja rekstrarhæfni stefnanda og liðka fyrir fjármögnun kaupa á fleiri þyrlum, sem kæmu inn í rekstur stefnanda. Stefndi telur að allt framangreint staðfesti að viðskiptin hafi ekki á neinn hátt átt sér stað með málamyndagerningum, heldur hafi þyrlan verið seld á verði sem hafi verið vel viðunandi á markaði 3. nóvember 2009, og að rekstrarlegur tilgangur hafi verið með sölu þyrlunnar og leigu hennar frá hinum nýja eiganda í framhaldi af sölunni. Þau ófyrirséðu atvik sem orðið hafi á mánuðunum og árunum eftir viðskiptin leiði ekki til þess að eitthvað sé athugavert við viðskiptin sjálf. Stefndi hafni því alfarið að hann beri bótaábyrgð á því tjóni, sem stefnandi telji sig hafa orðið fyrir vegna sölu þyrlunnar TF-HHS til Birken Ltd.
Stefndi telur sig ekki bera ábyrgð á grundvelli sakarreglunnar. Stefnandi hafi ekki sannað að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna saknæmrar og ólögmætrar háttsemi stefnda, að tjónið sé sennileg afleiðing af háttsemi stefnda og að orsakatengsl séu á milli háttseminnar og tjónsins. Stefndi vísar til fyrri umfjöllunar um eðlilegt kaupverð á TF-HHS. Þá telur stefndi að meintu tjóni hafi ekki verið valdið af ásetningi eða gáleysi né heldur sé meint tjón sennileg afleiðing af háttsemi stefnda. Stefndi telji óviðráðanleg og utanaðkomandi atvik hafa orðið til þess að þróun mála hafi ekki orðið sú sem gert hefði verið ráð fyrir þegar viðskiptin áttu sér stað.
Stefndi telur sig ekki heldur bera ábyrgð á meintu tjóni á grundvelli laga um hlutafélög, nr. 2/1995, laga um einkahlutafélög, nr. 138/1994, eða meginreglna félagaréttar. Í félagarétti gildi sú meginregla að hluthafar beri ekki ábyrgð á félaginu umfram það hlutafé sem þeir hafi lagt félaginu til. Samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum eigi að skýra allar undantekningar frá þessari meginreglu þröngt. Stefnandi byggi á því að brotið hafi verið gegn 76. gr. laga nr. 2/1995 og samsvarandi grein laga nr. 138/1994. Greinin taki samkvæmt orðalagi sínu ekki til stefnda heldur til félagsstjórnar, framkvæmdastjóra og annarra þeirra sem hafi heimild til að koma fram fyrir hönd félags. Stefndi hafi hvorki verið framkvæmdastjóri né í félagsstjórn og hafi ekki haft heimild til að koma fram fyrir hönd félagsins. Þá telji stefndi ljóst að með viðskiptunum hafi hann ekki verið að afla stefnda eða Birken Ltd. ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra hluthafa eða félagsins. Viðskiptin hafi í fullu samræmi við lög og reglur og ekki verið í því skyni að afla neinum ótilhlýðilegra hagsmuna, heldur hafi menn verið leitast við að tryggja rekstrargrundvöll fyrirtækis í gríðarlega erfiðri stöðu.
Stefnandi byggi einnig á því að 76. og 95. gr. laga nr. 2/1995 og samsvarandi ákvæði laga nr. 138/1994 eigi við um stefnda með lögjöfnun. Þessu vísar hafni stefndi og telur ekki vera neinn grundvöll til þess að byggja á þessum ákvæðum með lögjöfnun. Þá telur stefndi engar meginreglur félagaréttar geta leitt til þess að stefndi beri ábyrgð á meintu tjóni stefnanda. Stefndi telur ljóst að 134. gr. laga nr. 2/1995 og 108. gr. laga nr. 138/1994 taki samkvæmt orðalagi sínu ekki til stefnda.
Þá hafnar stefndi því með öllu að viðskipti með þyrluna geti á nokkurn hátt talist fela í sér umboðssvik í skilningi 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eða skilasvik í skilningi 2. og 4. tölul. 250. gr. sömu laga. Stefnandi virðist ekki á nokkurn hátt hafa kynnt sér forsögu viðskiptanna og þær hugmyndir sem að baki þeim hafi legið. Þá virðist stefnandi ekki átta sig á þýðingu þess að með gerningnum hafi þeir verið að reyna að halda rekstri stefnanda gangandi með því að tryggja eignarhald á þyrlu hjá félagi sem kæmi svo til með að kaupa fleiri þyrlur, sem notaðar yrðu í rekstri stefnanda. Þegar í ljós hafi komið að viðræður við Flugmálastjórn reyndust tímafrekari en gert hefði verið ráð fyrir og stefndi Sigurður Pálmason hefði tekið einhliða ákvörðun um að leggja inn flugrekstrarleyfi stefnanda hafi orðið ljóst að stefnandi væri orðið órekstrarhæft félag. Þetta verði ekki að nokkru leyti rakið til sölu á þyrlunni Bell 230 eða athafna stefnda Hermanns Eyjólfssonar. Umfjöllun um ýmis mikilvæg atriði virðist vísvitandi vera sleppt í stefnu málsins, sem skekki mjög svo lýsingu þeirrar atburðarásar, er hafi leitt til viðskiptanna og þeirrar atburðarásar sem hafi fylgt í kjölfarið.
Með vísan til alls framangreinds er það krafa stefnda að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að mati réttarins. Stefndi sé ekki virðisaukaskattsskyldur aðili og óski hann eftir því að litið verði til þess við ákvörðun málskostnaðar.
Stefndi vísar til laga um hlutafélög nr. 2/1995, laga um einkahlutafélög, nr. 138/1994 og meginreglna félagaréttar og skaðabótaréttar.
Varðandi málskostnaðarkröfu vísar stefndi til 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á lögmannsþóknun er byggð á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988.
V.
Málsástæður og lagarök stefnda Birken Ltd.
Í greinargerð stefnda Birken Ltd. kemur fram að Birken Ltd. sé félag með skráð heimilisfang við 10 John Street í London á Englandi, póstnr. WC1N 2EB. Félagið hafi verið stofnað 31. október 2009 og þann 3. nóvember 2009 hafi stefndi Hermann Eyjólfsson verið tilnefndur stjórnarmaður í félaginu. Helstu eignir stefnda séu tvær þyrlur. Annars vegar sé þetta þyrla af gerðinni Bell 230 með verksmiðjunúmerið 23022 og skráningarnúmerið TF-HHS, hér eftir kölluð TF-HHS. Hins vegar sé það þyrla af gerðinni Bell 407 VFR.
Eins og eigi við um mörg félög hér á landi þá hafi rekstur stefnanda þyngst gríðarlega í kjölfar bankahrunsins árið 2008. Meðal þess sem hafi haft slæm áhrif á reksturinn hafi verið það að ekki hafi verið staðið við samning vegna Bell 430-þyrlu sem hafi verið í eigu félagsins og því hafi orðið að setja hana á sölu, en eftirspurn á markaði á þeim tíma verið lítil sem engin. Bell 430-þyrlan hafi verið í eigu stefnanda en gert hefði verið ráð fyrir því að félagið Smáey ehf. fengi hana á leigu. Þær tekjur sem áætlað hafi verið að stefnandi hefði af þessum leigusamningi hafi numið tugum milljóna króna. Þá hafi það haft verulega afdrifarík áhrif á reksturinn þegar Flugmálastjórn hafi tekið ákvörðun um afturköllun samþykkis til Flugvélaverkstæðis Reykjavíkur ehf. um að sinna viðhaldi og þjónustu á tveimur þyrlum í eigu stefnanda. Stefnanda hafi borist tölvuskeyti þann 18. desember 2008 frá Ómari Þór Eðvaldssyni, starfsmanni Flugmálastjórnar Íslands. Í tölvuskeytinu hafi því verið lýst yfir að Flugmálastjórn hygðist afturkalla samþykki sitt fyrir því að Flugvélaverkstæði Reykjavíkur ehf. sinnti nauðsynlegu viðhaldi og þjónustu, m.a. á þyrlum í eigu stefnanda af gerðunum Bell 230 og Bell 430. Stefnandi hafi ekki átt kost á því að leita annað varðandi þessa þjónustu og því orðið að reyna að leysa málið með því að tryggja það að Flugvélaverkstæði Reykjavíkur ehf. uppfyllti kröfur Flugmálastjórnar og gæti þjónustað stefnanda. Stjórnendur stefnanda hafi talið ekkert því til fyrirstöðu að leysa málið á skömmum tíma þannig að þyrlur stefnanda kæmust á loft á ný. Ekkert í samskiptum stjórnenda stefnanda við Flugmálastjórn hafi bent til þess að nokkuð ætti að koma í veg fyrir að hægt væri að ljúka þessu máli hratt og örugglega.
Á þessum tíma hafi verið uppi áætlanir um að Bell 230-þyrlan TF-HHS með skráningarnúmerið 23022 yrði send til Grænlands til að sinna ýmsum verkefnum. Ein grunnforsendna þess að þyrlan gæti sinnt verkefnunum hafi að sjálfsögðu verið að heimilt væri að fljúga henni. Að mati stjórnenda stefnanda hafi verið of mikil áhætta fólgin í því að leigja aðrar vélar til þess að sjá um verkefnin á Grænlandi og því verið reynt að leysa málið með viðræðum við Flugmálastjórn. Að mati stjórnenda hafi einnig fylgt því of mikil áhætta, óhagræði og kostnaður fólginn að koma þyrlunum yfir á danska skráningu svo unnt væri að sinna verkefnum á Grænlandi. Almennt sé samið um verkefni á Grænlandi um vor, ef fyrirhugað er að þau séu unnin yfir sumarið. Umskráning vélar og öflun tilskilinna leyfa í öðru landi sé verulega kostnaðarsöm framkvæmd, sem taki auk þess venjulega marga mánuði, og því hafi verið reynt að finna lausn á málinu í samvinnu við Flugmálastjórn.
Stefnandi byggi málatilbúnað sinn á þeim grundvallarmisskilningi að sala þyrlunnar TF-HHS frá stefnanda til stefnda hafi farið fram með röð málamyndagerninga, sem hafi ekki haft rekstrarlegan tilgang. Þegar tekin hafi verið ákvörðun um sölu TF-HHS til stefnda hafi markmiðið m.a. verið að tryggja það að eignarhald á þyrlunni væri hjá félagi í landi sem byggi við stöðugra fjármálakerfi og þar sem leiðir til fjármögnunar væru greiðari. Þegar þyrlan hafi verið seld stefnda hafi verið fyrirhugað að stefnandi fengi tvær þyrlur til viðbótar inn í rekstur félagsins. Með sölu TF-HHS til stefnda hafi menn verið að skapa grundvöll fyrir því að stefndi gæti séð um að fjármagna kaup á þessum tveimur þyrlum og þær yrðu síðan leigðar til stefnanda. Miðað við stöðu á íslenskum fjármálamarkaði á þessum tíma hafi verið séð fyrir að ómögulegt yrði að fjármagna kaup á tveimur þyrlum í gegnum Ísland og þetta því gert til þess að reyna að tryggja það að stefnandi væri rekstrarhæft félag.
Stefnandi byggi einnig á því að TF-HHS hafi verið veðsett þegar hún hafi verið seld frá stefnanda til stefnda. Þessu hafni stefndi enda komi skýrlega fram í skýrslum stefnda Hermanns Eyjólfssonar og Hauks Þórs Adolfssonar, sem teknar hafi verið á skrifstofu skiptastjóra stefnanda 21. janúar 2013 og 23. júlí 2013, að þyrlan hafi ekki verið veðsett. Stefnandi byggi á því að samkvæmt ákvæðum lánssamnings á milli BYRs og stefnanda frá 22. október 2007 hafi ætlunin verið sú að til tryggingar lánsins skyldi tryggingarbréf m.a. tryggt með 1. veðrétti í TF-HHS. Þetta hafi ekki verið gert heldur verið gengið þannig frá málum að Haukur Þór Adolfsson hafi gengist í persónulega ábyrgð vegna lánsins eins og hann segi í skýrslu, sem hann gaf á skrifstofu skiptastjóra stefnanda 21. janúar 2013. Lánssamningur þessi hafi ekki verið lagður fram sem skjal í málinu og því mótmæli stefndi öllum tilvísunum stefnanda til samningsins en áskilji sér jafnframt allan rétt til frekari mótmæla ef samningurinn verður lagður fram undir rekstri málsins. Tryggingarbréf á dskj. nr. 11 sýni að lánið hafi verið tryggt með 2. veðrétti í Bell 206 L-1-þyrlunni TF-HHG og með 1. veðrétti í þyrlunni Schweizer 269C, TF-HHX. Þetta tryggingarbréf hafi verið undirritað fyrir hönd stefnanda af stefnda Sigurði Pálmasyni og Hauki Þór Adolfssyni þann 22. október 2007 og verið móttekið til skrásetningar í flugvéladagbók degi síðar, 23. október 2007, og innfært í réttindaskrá loftfara 25. október 2007. Í færslu sem virðist hafa verið vélrituð á tryggingarbréfið 19. desember 2008 sé yfirlýsing um viðbótartryggingu í loftfarinu TF-HHS. Þessi viðbótartrygging hafi ekki verið færð inn í samráði við þáverandi stjórnendur stefnanda og hafi að mati stefnda ekki gildi. Jafnframt bendi stefndi á tölvupóstsamskipti á milli Sigurðar Pálmasonar og Árna Möller frá 21. september 2011 og tölvuskeyti Jóns Auðuns Jónssonar til Sigurðar Pálmasonar 20. september 2011.
Á þeim tíma sem þyrlan hafi verið seld stefnda hafi markaður með þyrlur nánast legið algjörlega niðri og lítil sem engin eftirspurn verið eftir Bell 230-þyrlum. Stefndi telji stefnanda ekki á nokkurn hátt hafa sýnt fram á að umsamið kaupverð hafi verið óeðlilega lágt miðað við aðstæður á markaði á þeim tíma er samið hafi verið um kaupin. Um aðstæður á markaði með þyrlur á þessum tíma megi nefna að stefnandi hafi keypt aðra þyrlu í júlí 2007 af gerðinni Bell 430. Kaupverð þyrlunnar hafi verið sjö milljónir bandaríkjadala. Réttum þremur árum seinna, í júlí 2010, hafi þyrlan verið seld til uppgjörs á skuldum við Landsbankann á þrjár milljónir bandaríkjadala. Bankinn hafi lýst því yfir að hann væri tilbúinn að fara niður í 2,5 milljónir bandaríkjadala sem ásættanlegt söluverð. Söluverðið hafi því verið tæplega 43% af þeirri upphæð sem þyrlan var keypt á þremur árum áður. Markaður með þyrlur af gerðinni Bell 430 hafi þó verið mun skárri en fyrir Bell 230-þyrlur. Enn fremur megi nefna tölvuskeyti frá Jean Noel de Précigout, forseta Fin Air Trade S.A.S., sem sé umsvifamikið félag í viðskiptum með þyrlur. Stefndi hafi fengið tölvupóstinn tölvuskeytið framsent 1. desember 2009. Þar komi m.a. fram að áætlað „fair market value“ Bell 230-þyrlunnar sé ein milljón bandaríkjadala en markaður með Bell 230-þyrlur liggi nánast alveg niðri. Þá verði að hafa í huga að á þeim tíma sem þyrlan hafi verið keypt hafi gengi krónunnar gagnvart bandaríkjadalnum verið mjög sterkt, en þegar stefnandi selt þyrluna til stefnda hafi gengi krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum verið umtalsvert veikara. Sé litið til munar á kaup- og söluverði í íslenskum krónum megi sjá að söluverðið nam um 76% af kaupverðinu á þeim tíma sem markaður fyrir þyrluna hafi verið nánast enginn.
Stefndi telji útreikning stefnanda á fjárhæð meints tjóns stefnanda ekki standast nokkra skoðun. Í skýrslu Ernst & Young ehf. sé eðlilegt söluverð í nóvember 2009 sagt vera að lágmarki 1.350.000 bandaríkjadalir. Þessi niðurstaða um eðlilegt söluverð sé byggð á því að þyrlan hafi verið auglýst til sölu í maí 2011, þar sem uppsett verð hafi verið 1.350.000 bandaríkjadalir. Ekki sé hægt að miða við þessa upphæð sem eðlilegt söluverð, enda komi fram í skýrslu stefnda Hermanns frá 23. júlí 2013 að ekki hefði náðst að selja þyrluna. Eftirspurn eftir þessari tegund þyrlu hafi verið afskaplega lítil í nóvember 2009 og fátt sem benti til þess að sú staða kæmi til með að breytast í náinni framtíð. Stefndi telji stefnanda ekki hafa sýnt fram á að kaupverðið hafi verið óeðlilegt miðað við aðstæður á markaði á þeim tíma sem kaupin hafi átt sér stað.
Það tjón sem stefnandi hafi orðið fyrir megi rekja til þess að Flugmálastjórn Íslands hafi ákveðið að afturkalla samþykki sitt til Flugvélaverkstæðis Reykjavíkur ehf. Þetta hafi orðið til þess að TF-HHS hafi ekki talist lofthæf, þ.e.a.s. ekki hafi verið leyfilegt að sinna verkefnum á þyrlunni þótt hún hafi verið fullkomlega flughæf. Sú þjónusta sem Flugvélaverkstæði Reykjavíkur hafi veitt stefnanda hafi verið í samræmi við þær kröfur, sem lög og reglur mæla fyrir um, en engu að síður hafi flugmálastjórn tekið þessa ákvörðun, sem innanríkisráðuneytið hafi staðfest að væri ólögmæt með úrskurði nr. 55/2010. Áður en stefnandi hafi verið tekinn til gjaldþrotaskipta hafi starfsmenn stefnanda verið að taka saman og undirbúa framlagningu bótakröfu á hendur ríkinu vegna þessa tjóns. Tjón vegna ólögmætrar aðgerðar Flugmálastjórnar Íslands hafi gróflega metið verið 172 milljónir króna. Ef ekki hefði komið til þessarar aðgerðar þá hefði TF-HHS verið í verkefnum og skapað stefnanda tekjur. Svo virðist sem stefnandi hafi ekkert litið til þessa við mat á því hvort viðskipti með TF-HHS milli stefnanda og stefnda Birken Ltd.,hafi haft viðskipta- og rekstrarlegan tilgang.
Til hafi staðið að stefndi fjármagnaði kaup á tveimur þyrlum til viðbótar, sem yrðu notaðar í rekstri stefnanda og yrðu svo leigðar honum til afnota í rekstri hans. Þegar í ljós hafi komið að fjármögnun kaupa á þyrlunum tveimur væri erfiðari en búist hefði verið við hafi stefndi afsalað sér rétti til annarrar þyrlunnar en keypt hina og fengið hana afhenta fyrri hluta árs 2012. Þyrlan sé á kaupleigu frá Bell Helicopter Textron Inc. Þegar þyrlan hafi verið afhent kaupanda hafi hún verið leigð til stefnanda á kjörum, sem hafi verið langt undir leigukjörum á markaði. Stefndi telji að allt framangreint staðfesti það að viðskiptin hafi ekki á neinn hátt átt sér stað með málamyndagerningum, heldur hafi þyrlan verið seld á verði sem hafi verið vel ásættanlegt á markaði 3. nóvember 2009, og að rekstrarlegur tilgangur hafi verið með sölu þyrlunnar og leigu hennar frá hinum nýja eiganda í framhaldi af sölunni. Þau ófyrirséðu atvik sem hafi orðið á mánuðunum og árunum eftir viðskiptin leiði ekki til þess að eitthvað sé athugavert við viðskiptin sjálf. Stefndi hafni því alfarið að hann beri bótaábyrgð á því tjóni sem stefnandi sig hafa orðið fyrir vegna sölu þyrlunnar TF-HHS.
Stefndi telji sig ekki bera ábyrgð á grundvelli sakarreglunnar þar sem stefnandi hafi ekki sannað að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna saknæmrar og ólögmætrar háttsemi stefnda, að tjónið sé sennileg afleiðing af háttsemi stefnda og að orsakatengsl séu á milli háttseminnar og tjónsins. Stefndi vísi til fyrri umfjöllunar um eðlilegt kaupverð á TF-HHS. Þá telji stefndi að meintu tjóni hafi ekki verið valdið af ásetningi eða gáleysi né heldur sé meint tjón sennileg afleiðing af háttsemi stefnda. Stefndi telji óviðráðanleg og utanaðkomandi atvik hafa orðið til þess að þróun mála hafi ekki orðið sú sem gert hefði verið ráð fyrir þegar viðskiptin áttu sér stað.
Stefndi mótmæli því sem fram kemur í stefnu, að stefndi hafi verið stofnaður í þeim eina tilgangi að kaupa TF-HHS. Félagið hafi upphaflega verið stofnað í þeim tilgangi að sjá um eignarhald og kaup á þyrlum sem notaðar yrðu í rekstri stefnanda. Upphafið að því hafi verið kaup félagsins á TF-HHS en síðar hafi Bell 407-þyrla einnig verið keypt til félagsins og leigð til stefnanda. Stefndi mótmæli því einnig harðlega að kaupverð þyrlunnar hafi ekki verið greitt eða að það hafi aðeins verið greitt til málamynda. Stefnandi og stefndi hafi gert leigusamning um TF-HHS þar sem stefnandi hafi fengið afnot og umráð þyrlunnar. Stefnandi hafi haft TF-HHS til umráða allt fram til 1. júlí 2011 og á meðan þyrlan hafi verið í umráðum stefnanda hafi stefndi ekki getað haft aðrar tekjur af þyrlunni. Stefndi byggi á því að það sé sér óviðkomandi hvort leigjandi hefði getað hagnýtt sér TF-HHS eða ekki, enda ekkert um það í leigusamningi að leigjandi þyrfti að geta hagnýtt sér þyrluna. Hagnýting þyrlunnar hafi alfarið verið undir leigjandanum sjálfum komin. Stefnandi hafi aldrei látið fjármuni af hendi til greiðslu leigu heldur hafi leigugreiðslurnar verið dregnar frá skuld stefnda við stefnanda. Stefndi telji stefnanda ekki á nokkurn hátt hafa sýnt fram á að kaupverð TF-HHS hafi verið óeðlilega lágt eða að leigugjald hafi verið óeðlilega hátt. Því telur stefndi sig hvorki hafa valdið stefnanda tjóni né hafi hann auðgast á óréttmætan hátt á kostnað stefnanda.
Stefndi telji sig ekki heldur bera ábyrgð á meintu tjóni á grundvelli laga um hlutafélög nr. 2/1995, laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 eða meginreglna félagaréttar. Svo sem áður hefur komið fram sé stefndi félag sem skráð sé í Bretlandi. Augljóst sé að íslenskum lögum um hlutafélög og einkahlutafélög verði ekki beitt um meinta bótaábyrgð bresks félags þegar það kaupi lausafjármuni af íslensku félagi. Þá hafni stefndi því að hann geti talist hluti samstæðu eða að hann hafi í reynd stöðu móðurfélags stefnanda. Samstæða í skilningi íslensks félagaréttar taki aðeins til íslenskra hlutafélaga og einkahlutafélaga. Ein meginástæðna þessa sé sú að lagasetningarvald á Íslandi nái ekki til einstaklinga og félaga sem ekki eru íslensk. Félag sé talið íslenskt þegar það er skrásett á Íslandi, sbr. t.d. 2. tölul. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 2/1995. Því séu engin skilyrði til þess að láta íslensk lög um hlutafélög eða einkahlutafélög gilda um stefnda og viðskipti stefnda við stefnanda. Þá bendi stefndi einnig á að þau ákvæði sem stefnandi vísi til í lögum nr. 2/1995 og lögum nr. 138/1994, eigi, samkvæmt skýru orðalagi sínu, ekki á nokkurn hátt við um stefnda. Loks telur stefndi bótaábyrgð ekki geta verið byggða á framangreindum lögum þar sem viðskipti með TF-HHS hafi ekki verið í neinni andstöðu við lögin eða samþykktir stefnanda.
Enn fremur sé því harðlega mótmælt að sala TF-HHS til stefnda hafi í reynd verið dulin arðsúthlutun úr stefnanda og að stefnda beri að skila til baka peningalegum verðmætum sem stefnandi kveði hafa verið hirt úr búi stefnanda í trássi við ákvæði XII. kafla laga nr. 2/1995. Arðsúthlutun sé úthlutun fjármuna félags til hluthafa. Stefndi fái ekki séð hvernig reglur um arðsúthlutun geti á nokkurn hátt átt við um kaup stefnda á TF-HHS. Tilvísun stefnanda til 102. gr. laga nr. 2/1995 varðandi þetta sé fráleit enda eigi ákvæðið aðeins við um greiðslu til hluthafa. Stefndi sé ekki og hafi aldrei verið hluthafi í stefnanda. Ákvörðun um kaupin hafi verið tekin á eðlilegum viðskiptagrundvelli, m.a. með hag stefnanda í fyrirrúmi og alls ekki hægt að halda því fram að þau hafi á nokkurn hátt verið dulin arðsúthlutun.
Stefndi mótmælir einnig varakröfu stefnanda, enda telji stefndi sig ekki hafa auðgast á óréttmætan hátt á kostnað stefnanda. Stefndi ítreki það að hann hafi orðið eigandi TF-HHS við kaup á þyrlunni og leigt hana í framhaldinu til stefnanda. Á bls. 14 í stefnu séu rakin skilyrði þess að ólögfestum reglum um óréttmæta auðgun verði beitt. Þar segi að skilyrðin séu annars vegar að um tjón annars aðilans sé að ræða og hins vega að auðgun hins sé í beinum tengslum við það tjón. Stefndi telji stefnanda hvorki hafa sýnt fram á að stefndi hafi auðgast né að sú auðgun sé í beinum tengslum við meint tjón stefnanda. Stefndi telji tjón stefnanda vera að rekja til ólögmætrar ákvörðunar Flugmálastjórnar, enda hefði TF-HHS getað skapað stefnanda tekjur hefði sú ákvörðun ekki komið til og svo hefðu enn frekari tekjutækifæri skapast með komu Bell 407-þyrlunnar inn í rekstur stefnanda. Ólíklegt sé að sú þyrla hefði nokkurn tímann komið inn í rekstur stefnanda ef stefndi hefði ekki fjármagnað kaup á henni og leigt hana til stefnanda.
Með vísan til alls framangreinds, og með vísan til málatilbúnaðar stefndu, Árnýjar ehf. og Hermanns Eyjólfssonar, sé það krafa stefnda að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að mati réttarins. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur aðili og líta verði til þess við ákvörðun málskostnaðar.
Stefndi vísar til laga um hlutafélög nr. 2/1995, laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 og meginreglna félagaréttar,skaðabótaréttar og alþjóðlegs einkamálaréttarfars.
Varðandi málskostnaðarkröfu vísar stefndi til 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á lögmannsþóknun er byggð á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988.
VII.
Málsástæður og lagarök stefnda Árnýjar ehf.
Stefndi Árný ehf. telur að af hálfu stefnanda sé byggt á þeim grundvallarmisskilningi að sala þyrlunnar TF-HHS frá stefnanda til stefnda, Birken Ltd. hafi farið fram með röð málamyndagerninga sem hafi ekki haft rekstrarlegan tilgang. Eins og áður hafi komið fram hafi rekstur stefnanda verið þungur í kjölfar bankahrunsins, og þyngst enn frekar þegar Flugmálastjórn Íslands hafi afturkallað samþykki sitt fyrir því að Flugvélaverkstæði Reykjavíkur sinnti viðhaldi og þjónustu vegna TF-HHS. Þegar tekin hafi verið ákvörðun um sölu TF-HHS til félags, sem hafi verið stofnað í Bretlandi hafi markmiðið m.a. verið að tryggja það að eignarhald á þyrlunni væri hjá félagi í landi sem byggi við stöðugra fjármálakerfi og leiðir til fjármögnunar væru greiðari. Þegar þyrlan hafi verið seld til Birken Ltd. hafi verið fyrirhugað að stefnandi fengi tvær þyrlur til viðbótar inn í rekstur félagsins. Með sölu TF-HHS til Birken Ltd. hafi verið að skapa grundvöll fyrir því að það félag gæti séð um að fjármagna kaup á þessum tveimur þyrlum og þær yrðu síðan leigðar til stefnanda. Miðað við stöðu á íslenskum fjármálamarkaði á þessum tíma hafi verið séð fyrir að ómögulegt yrði að fjármagna kaup á tveimur þyrlum í gegnum Ísland. Allt hafi þetta því verið gert til þess að reyna að tryggja það að stefnandi væri rekstrarhæft félag. Stefndi lýsir síðan gangi mála með sama hætti og stefndi Birken Ltd,. ástæðum sölu TF-HHS og aðgerðum til að tryggja rekstur stefnanda, og rekstarörðugleikum í kjölfar hrunsins. Þá rekur hann ástæður tjóns stefnanda eins og og stefndi Birken Ltd. til afturköllunar Flugmálastjórnar Íslands á samþykki sínu til Flugvélaverkstæðis Reykjavíkur ehf. um að sinna viðhaldi og þjónustu á tveimur þyrlum stefnanda. Stefndi telji að stofnun Birken Ltd og sala á Bell 230 til Birken Ltd. hafi verið liður í að tryggja rekstrarhæfni stefnanda og liðka fyrir fjármögnun kaupa á fleiri þyrlum sem kæmu inn í rekstur stefnanda.
Stefndi telji að viðskiptin hafi ekki á neinn hátt átt sér stað með málamyndagerningum, heldur hafi þyrlan verið seld á verði, sem hafi verið vel viðunandi á markaði 3. nóvember 2009, og að rekstrarlegur tilgangur hafi verið með sölu þyrlunnar og leigu hennar frá hinum nýja eiganda í framhaldi af sölunni. Þau ófyrirséðu atvik sem hafi orðið á mánuðunum og árunum eftir viðskiptin leiði ekki til þess að eitthvað sé athugavert við viðskiptin sjálf.
Stefndi hafni því sem fram er haldið í stefnu, að stefndi hafi verið einhvers konar órjúfanlegur hlekkur við sölu á TF-HHS eða að stefndi Hermann Eyjólfsson hafi í krafti eignarhalds misbeitt valdi sínu og komið fram fyrir hönd stefnda gagnvart stefnanda við viðskiptin. Stefndi Hermann Eyjólfsson hafi komið fram fyrir hönd stefnda Birken Ltd. við viðskiptin, en fyrir hönd stefnanda hafi það verið Sigurður Pálmason. Engin þörf hafi verið á aðkomu stefnda Árnýjar ehf. að sölu á TF-HHS, enda komi nafn félagsins ekki nokkurs staðar fram í skjölum tengdum viðskiptunum. Stefndi telji að þegar af þessari ástæðu sé óhjákvæmilegt að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda vegna aðildarskorts.
Verði stefndi ekki sýknaður á grundvelli aðildarskorts hafnar stefndi því alfarið að hann beri bótaábyrgð á því tjóni, sem stefnandi telji sig hafa orðið fyrir vegna sölu þyrlunnar TF-HHS til Birken Ltd.
Stefndi telji sig ekki bera ábyrgð á grundvelli sakarreglunnar þar sem stefnandi hafi ekki sannað að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna saknæmrar og ólögmætrar háttsemi stefnda, að tjónið sé sennileg afleiðing af háttsemi stefnda og að orsakatengsl séu á milli háttseminnar og tjónsins. Stefndi vísi til fyrri umfjöllunar um eðlilegt kaupverð á TF-HHS. Þá telji stefndi að meintu tjóni hafi ekki verið valdið af ásetningi eða gáleysi né heldur sé meint tjón sennileg afleiðing af háttsemi stefnda. Stefndi telji óviðráðanleg og utanaðkomandi atvik hafa orðið til þess að þróun mála hafi ekki orðið sú sem gert hefði verið ráð fyrir þegar viðskiptin áttu sér stað.
Stefndi telji sig ekki heldur bera ábyrgð á meintu tjóni á grundvelli laga um hlutafélög nr. 2/1995, laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 eða meginreglna félagaréttar. Í félagarétti gildi sú meginregla að hluthafar beri ekki ábyrgð á félaginu umfram það hlutafé sem þeir hafi lagt félaginu til. Samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum eigi að skýra allar undantekningar frá þessari meginreglu þröngt.
Sem hluthafi í stefnanda hefði stefndi mögulega getað borið bótaábyrgð á grundvelli 2. mgr. 134. gr. laga nr. 2/1995 og síðar á grundvelli 2. mgr. 108. gr. laga nr. 138/1994. Þegar ákvæðin séu skoðuð verði að hafa í huga að ólíkt stjórnendum hlutafélaga þá hafi hluthafi ekki sérstaka trúnaðarskyldu gagnvart félaginu. Sé litið til 2. mgr. 134. gr. laga nr. 2/1995, sem sé efnislega sambærileg 2. mgr. 108. gr. laga nr. 138/1994, megi sjá að þrjú skilyrði þurfi að vera fyrir hendi svo ákvæðinu verði beitt. Fyrsta skilyrðið sé að félagið, annar hluthafi eða þriðji aðili verði fyrir tjóni. Annað skilyrðið sé að hluthafi valdi tjóninu af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Þriðja skilyrðið sé að brotið hafi verið gegn lögum nr. 2/1995 eða samþykktum félagsins. Til þess að bótaábyrgð verði felld á hluthafa á grundvelli ákvæðisins þurfi öll ofangreind skilyrði að vera uppfyllt. Stefndi telji stefnanda ekki hafa sýnt fram á að stefndi hafi, með broti gegn lögum nr. 2/1995 eða samþykktum stefnanda, valdið stefnanda eða þriðja aðila tjóni af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Stefndi telji stefnanda ekki með nokkru móti hafa sýnt fram á að með sölu á þyrlunni TF-HHS hafi verið brotið gegn lögum nr. 2/1995 eða samþykktum stefnanda. Þá ítrekar stefndi að tjón það sem stefnandi telji sig hafa orðið fyrir sé alls ekki að rekja til þess að TF-HHS hafi verið seld og í framhaldinu tekin á leigu heldur þess að Flugmálastjórn hafi tekið ólögmæta ákvörðun sem hafi valdið því að TF-HHS varð ekki lofthæf og skapaði stefnanda því ekki tekjur.
Með vísan til alls framangreinds og með vísan til málatilbúnaðar stefndu Birken Ltd. og Hermanns Eyjólfssonar sé það krafa stefnda að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að mati réttarins.
Stefndi vísar til laga um hlutafélög nr. 2/1995, laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 og meginreglna félagaréttar og skaðabótaréttar.
Varðandi málskostnaðarkröfu vísar stefndi til 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991.
VIII.
Niðurstaða
Stefnandi byggir kröfur sínar einkum á því að háttsemi stefndu, sem fólst í ráðstöfun B230 hf. á TF-HHS til stefnda Birken Ltd. þann 3. nóvember 2009, hafi verið saknæm, ólögmæt og refsiverð. Í framangreindu máli Hæstaréttar Íslands nr. 452/2016 var stefndi Hermann Eyjólfsson sakfelldur fyrir umboðssvik, sem talin voru varða við 249. gr. alm. hgl., nr. 19/1940, vegna þeirra viðskipta, sem til umfjöllunar eru í máli þessu. Í héraðsdómi vegna málsins var Sigurður Pálmason jafnframt sakfelldur fyrir umboðssvik, en hann undi dómi.
Við aðalmeðferð gaf stefndi Hermann Eyjólfsson aðilaskýrslu og Sigurður Pálmason og Haukur Þór Adolfsson vitnaskýrslur. Þeir vísuðu allir til og staðfestu framburð sinn í skýrslutökum hjá skiptastjóra. Skýrslutaka af stefnda Hermanni fór fram hjá skiptastjóra 23. júlí 2013, skýrslutaka af Sigurði Pálmasyni 23.janúar 2013 og af Hauki Þór Adolfssyni þann 21. janúar 2013. Stefndi Hermann bar að allar ákvarðanir varðandi sölu og leigu á þyrlunni TF-HHS hefðu þeir tekið sameiginlega hann og Sigurður Pálmason, þáverandi framkvæmdastjóri B 230 hf. Sigurður Pálmason bar hins vegar að alla samninga varðandi viðskiptin hefði stefndi Hermann annast en hann hefði skrifað undir samningana skv. fyrirmælum Hermanns.
Samkvæmt því, sem rakið hefur verið,
var stefndi Hermann Eyjólfsson eini eigandi stefnda Árnýjar ehf., en það félag átti allt hlutafé í B 230 hf. þegar
þyrlunni var ráðstafað með afsalinu 3. nóvember 2009. Stefndi Hermann var eini
eigandi Birken Ltd., sem keypti þyrluna. Samkvæmt því er ljóst að ótvíræð
eignatengsl voru milli stefnda Árnýjar ehf. og stefnda Birken Ltd. Stefndi
Hermann átti aðkomu að samningagerð beggja megin borðsins og nýtti til þess
eignarráð sín og yfirráð yfir stefnda Árnýju ehf. og gaf fyrirmæli um
viðskiptin, sbr. framburð Sigurðar Pálmasonar hjá skiptastjóra, sem hann
staðfesti í vitnaskýrslu sinni við aðalmeðferð máls þessa. Með vísan til þessa
verður að telja að stefndi Hermann Eyjólfsson hafi verið í raunverulegri
aðstöðu til að taka ákvörðun um viðskiptin þótt hann gegndi engri formlegri
stöðu hjá B 230 hf.
Ljóst virðist vera að markmiðið með ráðstöfuninni hafi einvörðungu verið að ráðstafa TF-HHS frá B230 hf. til stefnda Birken án þess að raunverulegt endurgjald kæmi fyrir, en við sölu þyrlunnar var kaupverð hennar greitt með því að ráðstafa leigugreiðslum fyrir hana inn á lánssamning fyrir öllu kaupverðinu. Þegar leigusamningurinn var gerður samhliða sölunni 3. nóvember 2009 hafði þyrlan ekki nýst í starfsemi félagsins um langt skeið auk þess sem lofthæfisvottorð hennar hafði runnið út 30. september það ár. Þá var leigusamningurinn framlengdur eftir að hann rann út í nóvember 2010, en á þeim tíma hafði verið afturkölluð heimild Flugvélaverkstæðis Reykjavíkur ehf., sem annaðist viðhald þyrlunnar, til að veita þá þjónustu. Þyrlunni var síðan ekkert flogið allan þann tíma sem hún var leigð B 230 hf. Af hálfu stefndu hafa ekki verið færðar sönnur á að viðskiptalegur tilgangur hafi búið að baki því að taka þyrluna á leigu, heldur verður talið að ráðstöfunin hafi eingöngu verið gerð í því skyni að láta leigugreiðslur ganga upp í kaupverðið. Með þessu móti misnotaði stefndi Hermann aðstöðu sína hjá B 230 hf. Í þessu tilliti þykir ekki skipta máli þótt hann hafi verið eini eigandi félagsins í gegnum annað félag, enda eru hlutafélög sjálfstæðar lögpersónur og verða ekki samsamaðar hluthöfum þess, sbr. dóma Hæstaréttar 28. apríl 2016 í máli nr. 74/2015 og 6. apríl 2016 í máli nr. 770/2015, og fyrrgreindan dóm Hæstaréttar nr. 452/2016.
Samkvæmt því sem rakið hefur verið
þá skiptu engir
peningar um eigendur við sölu þyrlunnar og B 230 hf. en seljandi tók á sig alla
áhættuna af viðskiptunum með því að leigja þyrluna þótt engin verkefni væru
fyrir hana í starfsemi félagsins. Þannig varð félagið fyrir fjártjóni í bráð og
til lengdar var fjártjónshættan veruleg þar sem alls óvíst var hvort þyrlan
gæti nýst í rekstri þess. Þá naut stefndi Birken Ltd., sem var alfarið í eigu stefnda Hermanns, fjárhagslegs
ávinnings af ráðstöfuninni.
Telja verður, samkvæmt því sem rakið
hefur verið, að stefndi Hermann hafi með háttsemi sinni misnotað aðstöðu sína
og framið umboðssvik í skilningi 249. gr. alm. hegningarlaga nr. 19/1940, ýmist
í krafti stöðu sinnar, í krafti hlutafjáreignar eða raunverulegra yfirráða yfir
stefnanda. Umboðssvik fela í sér einhliða og ólögmæta misnotkun aðstöðu eða
trúnaðar til þess að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert, sem annar maður eða
lögaðili verður bundinn við, enda sér verkið unnið af ásetningi í
auðgunarskyni. Varðandi þetta er vísað til niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr.
452/2016. Þannig er það niðurstaða dómsins að Hermann hafi valdið stefnanda með
saknæmum, ólögmætum og refsiverðum hætti fjárhagslegu tjóni og tjónið sé
sennileg afleiðing þeirrar háttsemi stefnda og orsakatengsl séu milli hinnar
ólögmætu háttsemi og hins fjárhagslega tjóns stefnanda og skaðabótaskyldu hans
leiði af almennu sakarreglunni.
Varðandi grundvöll skaðabótakröfu á
hendur stefnda Árnýju ehf. þá byggir stefnandi á sakarreglunni og 2. mgr. 134.
gr. hfl. og 2. mgr. 108 gr. ehfl. Árný ehf. var móðurfélag stefnanda og félögin
mynduðu þannig samstæðu í skilningi 1. mgr. 2. gr. hfl. og 1. mgr. 2. gr. ehfl.
Hermann var, eins og rakið er hér að framan, eigandi alls hlutafjár í stefnda
Árnýju ehf. ásamt því að vera stjórnarformaður félagsins. Stefndi Hermann fór
þannig með raunverulega yfiráð yfir stefnanda Árnýju ehf. og stefnda Birken
Ltd. Í skýrslu, sem stefndi Hermann gaf hjá skiptastjóra, kom fram að hann
hafði margvísleg afskipti af rekstri B 230 hf. og gaf fyrirmæli um framkvæmd
viðskiptanna með TF-HHS þann 3. nóvember 2009. Telja verður að gegnum
eignarhald sitt á stefnda Árnýju ehf. hafi stefndi Hermann komið því til leiðar
í krafti hlutafjáreignar sinnar í Árnýju ehf. að TF-HHS var ráðstafað til
Birken Ltd. Árný ehf. var þannig órjúfanlegur hlekkur í því að þessi ráðstöfun
var með þeim hætti sem raunin varð á. Ekki verður því fallist á að sýkna beri
stefnda Árnýju ehf. á grundvelli aðildarskorts eins og byggt er á af hálfu
stefnda Árnýjar ehf. Samkvæmt því er fallist á með stefnanda að stefnda Árnýju ehf. beri skaðabótaábyrgð
á tjóni stefnanda með vísan til sakarreglunnar og 2. mgr. 134. gr. hfl. og 2.
mgr. 108. gr. ehfl. þar sem ráða megi af gögnum málsins að stefndi Hermann hafi
í krafti eignarhalds síns í stefnda Árnýju ehf. haft raunveruleg yfirráð og
stjórn stefnanda með höndum. Þá verður einnig talið að 2. mgr. 134. gr. hfl. og
2. mgr. 108. gr. ehfl. eigi við um stefnda Árnýju ehf.
Varðandi kröfur
stefnanda á hendur stefnda Birken Ltd. byggir hann á almennu sakarreglunni og
almennri auðgunarreglu. Fyrir liggur að stefndi Birken Ltd. var í eigu stefnda
Hermanns og félagið naut alls ágóða af ráðstöfun B 230 hf. á TF-HHS til stefnda
Birken Ltd. þann 3. nóvember 2009. Telja verður að stefndi Birken Ltd. hafi
veri órjúfanlegur hlekkur í ólögmætri háttsemi stefndu sem miðaði að því að
ráðstafa TF-HHS án þess að raunverulegt kaupverði væri greitt. Stefndi Birken
Ltd. var, sem áður segir, í eigu stefnda Hermanns og félagið hefur þannig með
skaðabótaskyldum hætti valdið stefnanda tjóni og sakarreglan er því grundvöllur
skaðabótaábyrgðar Birken Ltd. þar sem félaginu var með saknæmum og ólögmætum
hætti aflað fjárhagslegra hagsmuna á kostnað stefnanda og kröfuhafa hans.
Fallist er á með stefnanda að bein orsakatengsl séu milli fjárhagslegs tjóns
sem stefnandi varð fyrir vegna hinna ólögmætu viðskipta og þess fjártjóns sem
stefnandi gerir kröfu um að verði bætt. Ekki verður fallist á að máli skipti
varðandi skaðabótaskyldu stefnda Birken Ltd. á grundvelli sakarreglu og
ólögfestra reglna skaðabótaréttar að félagið sé skráð í Bretlandi, en það er
einkahlutafélag í eigu og undirstjórn stefnda Hermanns Eyjólfssonar.
Allt það sem rakið hefur verið
leiðir til þess að stefndu verði á grundvelli sakarreglunnar in solidum taldir
bera skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda á því tjóni sem um ræðir.
Varðandi fjárhæð tjónsins þá liggur
fyrir að skiptastjóri í þrotabúi B 230 hf. fékk endurskoðunarfyrirtækið Ernst & Young til að gera
sérfræðilega rannsókn á bókhaldi og ráðstöfun eigna stefnanda fyrir gjaldþrotið
og skilaði fyrirtækið skýrslu, dagsettri 13. júní 2013. Í skýrslunni kemur fram
að stefndi Birken Ltd. lagði enga fjármuni fram til greiðslu á umræddu
skuldabréfi, sem Birken Ltd. gaf út vegna kaupanna á þyrlunni. Greiðslum Birken
Ltd. vegna skuldabréfsins var þess í stað skuldajafnað á móti leigugreiðslum
stefnanda skv. leigusamningi, dags. 3. nóvember 2009, þó að þyrlan stæði ávallt
óhreyfð og ónothæf í umráðum stefnanda á leigutímanum, eins og rakið hefur
verið. Í niðurstöðum Hæstaréttar í framangreindu máli segir að slá megi því
föstu að enginn viðskiptalegur tilgangur hafi búið að baki því að taka þyrluna
á leigu, heldur hafi ráðstöfunin eingöngu verið gerð í því skyni að láta
leigugreiðslur ganga upp í kaupverðið
Í
skýrslu Ernst &Young kemur fram að erfitt sé að áætla eðlilegt markaðsverð
þyrlunnar í nóvember 2009 en þegar hún hafi verið auglýst til sölu í
Bandaríkjunum hafi uppgefið söluverð verið 1.350.000 bandaríkjadalir, eða um
587.081 bandaríkjadal eða 73.367.500 kr. hærra en félagið seldi hana á til
Birken Ltd. í nóvember 2009. Auglýst verð í íslenskum krónum nam á þessum tíma
168.709.500 kr. Gengi bandaríkjadals þann 3. nóvember 2009 var 124,67 kr.
Niðurstaða endurskoðunarfyrirtækisins var að þessi fjárhæð væri væntanlega
lágmarkssöluverð þyrlunnar.
Við aðalmeðferð mótmæltu stefndu
verðmati Ernst & Young á þyrlunni þar sem um væri að ræða sérfræðimat, sem hefði verið aflað einhliða.
Lögmaður stefnanda mótmælti þessum athugasemdum sem of seint fram komnum þar
sem hvergi í greinargerðum stefndu væri á því byggt að mats Ernst & Young
hefði verið einhliða aflað og hefði því ekki þýðingu sem sönnunargagn í málinu.
Fallist er á að mótmæli um að aflað hafi verið einhliða sérfræðimats sé of
seint fram komin þó gerðar hafi verið efnislegar athugasemdir við niðurstöðu
endurskoðunarfyrirtækisins í greinargerðum.
Dómari telur að álit í framangreindri
skýrslu um verðmæti þyrlunnar á umræddum tíma sé ekki sérfræðimat heldur
eingöngu tilvísun í upplýsingar, sem fram koma í gögnum málsins, meðal annars
framburði stefnda Hermanns Eyjólfssonar. Í skýrslu stefnda Hermanns
Eyjólfssonar hjá skiptastjóra 23. júlí 2013 var hann spurður hvort 762.000
bandaríkjadalir væri eðlilegt söluverð þyrlunnar þar sem hún hefði verið
auglýst árið 2011 á 1.350.000 bandaríkjadali. Stefndi kvað þyrluna hafa verið
auglýsta hjá Controler og spurður hvort hún hefði verið auglýst á því verði sem
hún var síðan seld á svaraði hann „Það var verið að selja þyrlur á þessu verði
á þessum tíma.“ Stefndi Hermann vísaði í máli sínu til tölvuskeytis fransks
aðila, dags. 1. desember 2009, sem hann fékk framsent frá olafur.olafsson@samskip.com, en þar kom fram að þessi aðili
taldi að markaðsverð Bell 230 þyrlu væri um ein milljón bandaríkjadala. Þetta
er óstaðfest og verður ekki byggt á verðmati, sem fram kemur í þessu
tölvuskeyti.
Í skýrslu Sigurðar Pálmasonar hjá
skiptastjóra þann 3. janúar 2013 kom fram að hann kvaðst hafa upplýsingar um að
Birken Ltd. væri með E230-þyrluna til sölu í Bandaríkjunum og búið væri að
hafna 850 þúsund dala tilboði vegna þess að Birken Ltd. skuldaði Sigurjóni Ásbjörnssyni
vegna láns til þyrlukaupa 1,2 milljónir dala.
Í málinu liggur ekki fyrir hvort
umrædd þyrla er enn í eigu Birken Ltd. eða hvort hún hafi verið seld og þá á
hvaða verði. Því verður ekki byggt á öðru varðandi verðmæti þyrlunnar þegar hún
var seld en því verði, sem Birken Ltd. auglýsti hana á til sölu en ganga verður
út frá því að það hafi verið það verð, sem stefndi Hermann Eyjólfsson taldi
eðlilegt söluverð þrátt fyrir að söluverð hafi verið annað í sölu þyrlunnar til
Birken Ltd. Er þá einnig litið til kaupverðs B230 á þyrlunni í október 2007 en
það var skv. bókhaldi B-230 hf. 2,05 m. bandaríkjadala. Sama niðurstaða um
lágmarkssöluverð þyrlunnar liggur fyrir í sérfræðiskýrslu Ernst & Young frá
13. júní 2013 þar sem það er talið vera 168.304.500 kr. eða 1.350.000
bandaríkjadalir miðað við gengi hinn 3. nóvember 2009, 124,67 kr.
Dómurinn telur, samkvæmt því sem
rakið hefur verið, að saknæm og ólögmæt háttsemi stefndu hafi valdið stefnanda
og kröfuhöfum hans fjártjóni. Telja verður að fyrir liggi að bein orsakatengsl
séu milli þess fjárhagslega tjóns, sem stefnandi hefur orðið fyrir, og hinna
ólögmætu viðskipta. Þá verður að telja tjónið sennilega afleiðingu þeirrar
saknæmu háttsemi sem stefndu viðhöfðu við ráðstöfun TF-HHS
Samkvæmt því sem rakið hefur
verið verður að telja að fjártjón stefnanda samsvari auðgun stefnda Birken Ltd.
og nemi 168.304.500 kr. eða 1.350.000 bandaríkjadölum miðað við gengi hinn 3.
nóvember 2009, 124,67 kr. Stefndu verða skv. framansögðu dæmdir til að greiða
sameiginlega stefnanda 168.304.500 kr.
Fallist er á kröfu stefnanda um
að honum beri skaðabótavextir af 168.304.500 kr. frá þeim degi er hin
skaðabótaskylda háttsemi átti sér stað, það er 3. nóvember 2009, sbr. 1. mgr.,
sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, til 10. janúar
2014 er mánuður var liðinn frá þingfestingu málsins, en dráttarvextir samkvæmt
1. mgr. 6. gr., sbr. 1. mgr. 9. gr., sömu laga frá þeim tíma til greiðsludags.
Að fenginni þessari niðurstöðu og
með vísan til 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, ber að dæma
stefndu sameiginlega til að greiða stefnanda málskostnað sem telst hæfilega
ákveðinn eins og nánar er kveðið á um í dómsorði.
Vegna embættisanna dómara hefur
uppkvaðning dóms dregist umfram frest skv. 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991,
um meðferð einkamála. Aðilar eru sammála dómara um að ekki sé þörf á
endurflutningi málsins.
Þórður Clausen Þórðarson
héraðsdómari kveður upp dóminn.
Dómsorð:
Stefndu, Hermann
Eyjólfsson, Árný ehf. og Birken Ltd., greiði sameiginlega stefnanda, þrotabúi B
230 ehf., 168.304.500 kr. með vöxtum
samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 3.
nóvember 2009 til 10. janúar 2014 og frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt
1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.
Stefndu greiði stefnanda
sameiginlega 3.500.000 kr. í málskostnað.
Þórður Clausen Þórðarson