- Bókhald
- Fésekt
- Hegningarauki
- Fangelsi
- Virðisaukaskattur
Ár 2018, þriðjudaginn 22. maí, er á dómþingi Héraðsdóms Suðurlands, sem háð er í dómsal embættisins að Austurvegi 4, Selfossi af Hirti O. Aðalsteinssyni dómstjóra í málinu nr. S-33/2017:
Ákæruvaldið
(Kristín
Ingileifsdóttir aðstoðarsaksóknari)
gegn
Gunnari Rúnari Gunnarssyni
(Kristján Stefánsson lögmaður)
kveðinn upp svohljóðandi
dómur:
Mál þetta, sem dómtekið var þann 27. mars sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurlandi, dagsettri 8. mars 2017 á hendur ákærða, Gunnari Rúnari Gunnarssyni:
„A
090-2013-00120
fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum sem
framkvæmdastjóra og stjórnarmanni einkahlutafélagsins Listflísar, […], nú
gjaldþrota, með því að hafa:
1 Staðið skil á efnislega rangri virðisaukaskattsskýrslu einkahlutafélagsins
fyrir uppgjörstímabilið september –
október rekstrarárið 2008 og fyrir að hafa eigi staðið ríkissjóði skil á
virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri félagsins vegna sama
uppgjörstímabils, í samræmi við IX. kafla laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt,
samtals að fjárhæð kr. 3.185.000.
B
300-2016-00080
fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum sem daglegur
stjórnandi 36 ehf.,
kt. […], nú gjaldþrota, með því að hafa:
1 Eigið staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum
einkahlutafélagsins fyrir uppgjörstímabilin
maí – júní til og með september – október rekstrarárið 2014 og fyrir að hafa
eigi staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri
félagsins vegna sömu uppgjörstímabila, í samræmi við IX. kafla laga nr.
50/1988, um virðisaukaskatt, samtals að fjárhæð kr. 1.371.519 sem sundurliðast
sem hér greinir :
maí – júní kr. 375.327
júlí – ágúst kr. 313.518
september – október kr. 682.674
kr. 1.371.519
2. Látið
undir höfuð leggjast að
færa tilskilið bókhald einkahlutafélagsins í samræmi við kröfur laga nr.
145/1994 um bókhald, vegna starfsemi einkahlutafélagsins rekstrarárið 2014.
Framangreind brot ákærða samkvæmt A og B lið ákæru
teljast varða við:
a) 1. mgr. 262. gr. almennra
hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig 1. mgr.
40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995 og
3. gr. laga nr. 134/2005, að því er varðar 1. tölulið A og B liðar ákæru.
b) 2. mgr. 262. gr.
almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig
1. tölulið 1. mgr. 37. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 145/1994 um bókhald, sbr. 1.
gr. laga nr. 37/1995, að því er varðar 2. tölulið B liðar ákæru
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til
refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Ákærði krefst þess að
ákærulið A verði vísað frá dómi en hann verði sýknaður af ákærulið B.
Málavextir.
Ákæruliður
A.
Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins til embættis sérstaks saksóknara
dagsettu 13. nóvember 2013 var málefnum ákærða vísað til rannsóknar, en ákærði
var fyrirsvarsmaður skattaðilans Listflísa ehf. sem þá hafði verið tekið til
gjaldþrotaskipta. Hafði skattrannsóknarstjóri tekið ákvörðun um að rannsaka
bókhald og virðisaukaskattskil skattaðilans vegna rekstrartímabilsins 1. ágúst
2008 til og með 1. desember sama ár. Í
bréfinu kemur fram að ákærða hafi með bréfi dagsettu 4. mars 2013 verið
tilkynnt að hafin væri rannsókn á virðisaukaskattskilum skattaðilans. Hafi
verið óskað eftir því að afhent yrði fært bókhald og fylgiskjöl svo og öll
önnur gögn er varði reksturinn á ofangreindu rekstrartímabili. Hafi rannsóknin
síðan verið afmörkuð við tímabilið 1. september 2008 til og með 31. október
sama ár. Í skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra hafi ákærði sagt að bókhald
hefði ekki verið fært og gæti hann ekki afhent bókhaldsgögn skattaðilans. Talið
var að ákærði hefði af ásetningi eða af stórkostlegu hirðuleysi staðið skil á
rangri virðisaukaskattskýrslu fyrir hönd skattaðila vegna ofangreinds
uppgjörstímabils og með því vanframtalið skattskylda veltu og virðisaukaskatt.
Samkvæmt niðurstöðu skattrannsóknarstjóra hafi vanframtalin skattskyld velta
numið samtals 13.000.000 krónum og
vanframtalinn útskattur samtals 3.185.000 krónum, en ekki séu fyrirliggjandi
gögn vegna mögulegs innskatts. Þá hafi ákærða verið gefið að sök að hafa ekki
fært tilskilið bókhald, en bókhaldsgögn hafi ekki fengist afhent. Ákærði mun á
þeim tíma sem um ræðir hafa verið stjórnarmaður skattaðilans og
framkvæmdastjóri hans með prókúru frá 20. febrúar 2008 og hafi starfsemi
skattaðilans verið fólgin í viðgerðum og viðhaldi. Í skýrslutöku hjá
skattrannsóknarstjóra mun ákærði hafa skýrt svo frá að bókhald hefði ekki verið
fært vegna trassaskapar. Ákærði kannaðist við að hafa skilað svokallaðri
núll-skýrslu vegna uppgjörstímabilsins september-október 2008 og þá staðfesti
hann að hafa gefið út reikning dagsettan 28. október 2008 að fjárhæð 16.185.000
krónur. Hann kvaðst ekki hafa fengið reikninginn greiddan en innheimta hans
hefði ekki verið reynd til þrautar. Ákærði kvaðst á þessum tíma hafa verið í
neyslu og hafi hann talið kostnað skattaðila hafa verið umfram tekjur. Ákærði
mun ekki hafa afhent nein gögn um innskattsbær rekstrargjöld.
Ákæruliður B.
Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins til embættis héraðssaksóknara dagsettu 13. júní 2016 var málefnum ákærða vísað til rannsóknar, en ákærði var fyrirsvarsmaður skattaðilans 36 ehf. sem þá hafði verið tekið til gjaldþrotaskipta. Hafði skattrannsóknarstjóri tekið ákvörðun um að rannsaka bókhald og virðisaukaskattskil skattaðilans vegna rekstrartímabilsins maí-júní til og með nóvember-desember rekstrarárið 2014. Í bréfinu kemur fram að ákærða hafi verið tilkynnt símleiðis þann 27. maí 2015 að hafin væri rannsókn á virðisaukaskattskilum skattaðilans og hafi hann móttekið tilkynningu þar að lútandi þann 1. júní sama ár. Hafi rannsókn leitt í ljós að skattaðili hefði skilað efnislega röngum virðisaukaskattskýrslum vegna ofangreindra uppgjörstímabila, bókhald hafi ekki verið afhent og varðveislu bókhaldsgagna hafi verið ábótavant. Þá hafi gögn um innskattsbær rekstrargjöld ekki verið afhent. Hafi rannsóknin leitt í ljós að vanframtalin skattskyld velta hafi numið samtals 5.425.918 krónum og að vanframtalinn útskattur hafi numið samtals 1.383.609 krónum. Samkvæmt gögnum málsins var C skráður stjórnarformaður skattaðila frá 1. janúar 2014 en með tilkynningu þann 24. mars sama ár verður hann einnig framkvæmdastjóri og prókúruhafi. Hann mun hafa sagt sig úr stjórninni með tilkynningu dagsettri 25. september 2014 en ákærði er skráður varamaður frá 1. janúar sama ár. Ákærði skýrði svo frá í skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra að C væri bróðir hans en ákærði hefði sjálfur stýrt félaginu allan tímann, verið eini raunverulegi stjórnandi þess og séð um allt sem hafi viðkomið rekstri þess.
Framburður ákærða og vitna fyrir dómi.
Ákærði skýrði svo frá
fyrir dómi að hann hefði verið skráður stjórnarmaður með prókúru fyrir
fyrirtækið Listflísar ehf. Hann kvaðst á þessum tíma hafa verið í neyslu og
myndi hann því lítið eftir þessum tíma. Hann kvað fyrirtækið engan rekstur hafa
stundað og engum skattskýrslum hafi verið skilað. Ákærði kannaðist við að hafa
gefið út reikning á hendur A að fjárhæð 16.185.000 krónur. Hann kvað
reikninginn hafa verið tilbúning og hafi hann ekki verið greiddur að öðru leyti
en því en að hann hafi fengið 300.000 krónur. Ákærði kvaðst hafa tekið við
félaginu 36 ehf. af bróður sínum í október eða nóvember 2014, en fyrirtækið
hafi verið á leiðinni í þrot. Ákærði kannaðist við að hafa verið í varastjórn
félagsins frá því í september sama ár. Hann kvað engan rekstur hafa verið í
félaginu og hefði hann verið svokallaður útfararstjóri félagsins. Hann kvaðst á
þessum tíma einnig hafa verið í neyslu. Hann kannaðist við að
virðisaukaskattskýrslum hafi ekki verið skilað. Hann kvaðst hafa gefið út
reikninga og fengið fíkniefni í staðinn. Ákærði gerði ekki athugasemdir við þá
reikninga sem lagðir hafa verið fram í málinu vegna Vitastígs 12. Ákærði
kannaðist ekki við að hafa fengið greiðslur frá Markmið verktökum ehf., að öðru
leyti en því að hann hafi fengið 200.000-300.000 krónur greiddar, en um
fíkniefnaviðskipti hafi verið að ræða. Ákærði kannaðist við að hafa gefið út
reikninga á hendur B og hafi þeir verið greiddir að hluta með peningum og að
hluta með vörum. Ákærði kvaðst hafa verið metinn greindarskertur og hafi hann
því ekki vitað hvað hann væri að gera á tímabili.
Vitnið A skýrði svo frá í
símaskýrslu fyrir dómi að ákærði og félag hans Listflísar ehf. hafi unnið fyrir
hann á grundvelli tilboðs og hafi reikningur þar að lútandi verið greiddur. Þá
kannaðist hann við að hafa fengið virðisaukaskatt að hluta til endurgreiddan.
Reynt var að taka
símaskýrslu af vitninu B en í miðri skýrslutöku sleit vitnið símtalinu og
svaraði síðan ekki hringingu til þess og virtist sem síminn hefði verið
stilltur á talhólf eða slökkt á honum. Vitnið kannaðist við þá 5 reikninga sem
36 ehf. gaf út á hendur honum og þá staðfesti hann að vinna sem þar hafi verið
greind hafi verið unnin. Hann kvaðst hafa greitt reikningana með peningum.
Niðurstaða.
Ákærði krefst þess að ákærulið A verði vísað frá dómi og byggir á því að engri virðisaukaskattskýrslu hafi verið skilað. Á dómskjali nr. 4, bls. 33 sést að svokallaðri núllskýrslu hefur verið skilað. Eru því engin efni til þess að vísa þessum ákærulið frá dómi.
Ákærði hefur
við rannsókn málsins og fyrir dómi kannast við að hafa verið fyrirsvarsmaður
félaganna Listflísa ehf. og 36 ehf. en hann kvað hvorugt þessara félaga hafa
stundað rekstur og engum skattskýrslum hafi verið skilað. Þá er upplýst í
málinu að bókhaldsgögn hafi ekki verið afhent. Ákærði kannaðist við þá
reikninga sem mál þetta snýst um en þeir hafi ýmist verið tilbúningur, ekki
verið greiddir eða notaðir í fíkniefnaviðskiptum, en ákærði hefur borið að hann
hafi verið í neyslu fíkniefna á þessum tíma.
Vitnið A kannaðist við
að ákærði og félag hans Listflísar ehf.
hafi unnið fyrir hann á grundvelli tilboðs og hafi reikningur þar að lútandi
verið greiddur. Þá kannaðist vitnið B við þá 5 reikninga sem 36 ehf. gaf út á
hendur honum og þá staðfesti hann að vinna sem þar hafi verið greind hafi verið
unnin.
Eins og stöðu ákærða innan
ofangreindra félaga var háttað og með vísan til 44. gr. laga nr. 138/1994 um
einkahlutafélög bar honum að sjá til þess að starfsemi félaganna væri í réttu
horfi og þá bar honum að tryggja að félögin inntu af hendi lögboðin gjöld og
jafnframt að bókhald yrði fært í samræmi við lög. Ákærði hefur að mestu leyti
kannast við vanrækslu sína að þessu leyti og engin sannfærandi rök færð fyrir
sýknukröfu sinni. Telur dómurinn því sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá
háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar þykir rétt færð til
refsiákvæða.
Samkvæmt framlögðu
sakavottorði ákærða hefur hann 14 sinnum áður verið sakfelldur fyrir
refsiverðan verknað og nær sakaferillinn aftur til ársins 1995. Síðast var
ákærði dæmdur 8. mars sl. í fjögurra mánaða fangelsi fyrir brot gegn 4. mgr.
264. gr. almennra hegningarlaga. Þann 27. júní 2011 var ákærði dæmdur í tveggja
mánaða fangelsi fyrir brot gegn 1. mgr. 248. gr. almennra hegningarlaga, sbr.
22. gr. laganna. Þann 15. desember 2010 var ákærði dæmdur í 2 mánaða fangelsi
og til greiðslu 11.000.000 kr. fésektar fyrir brot gegn 262. gr. almennra
hegningarlaga og fleiri brot. Þar áður hlaut ákærði 6 mánaða fangelsisrefsingu samkvæmt dómi 24. september 2010 fyrir fjársvik
og umboðssvik. Þá var ákærði sakfelldur en ekki gerð sérstök refsing fyrir
gripdeild, fjársvik og skjalafals með dómi 3. október 2008. Þá var ákærði
dæmdur í 3 mánaða fangelsi fyrir fjársvik þann 25. október 2002, 30 daga
fangelsi fyrir skjalafals þann 11. október 2000, 30 daga fangelsi fyrir
fjársvik þann 16. janúar 1997, 8 mánaða fangelsi fyrir skjalafals og þjófnað
þann 18. júlí 1995 og 4 mánaða fangelsi fyrir skjalafals, fjársvik og tilraun til
þjófnaðar þann 23. mars 1995. Þess utan hefur ákærði verið dæmdur í
fangelsi í 6 ár og 10 mánuði samtals fyrir kynferðisbrot með samtals þremur
dómum, auk dóma fyrir umferðarlagabrot.
Brot þau sem fjallað er um í A-lið ákærunnar voru framin áður en fjórir síðastgreindir dómar gengu og verður því höfð hliðsjón af ákvæðum 78. gr. almennra hegningarlaga við ákvörðun refsingar ákærða. Með hliðsjón af þessu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði. Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 varða brot gegn ákvæðunum sekt sem aldrei skal vera lægri en nemur tvöfaldri fjárhæð vanskilanna og ekki hærri en tífaldri fjárhæðinni. Brot ákærða voru stórfelld og verður því miðað við þrefalda fjárhæð vanskila. Verður ákærði því jafnframt dæmdur til að greiða 13.600.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa en sæta ella fangelsi í 7 mánuði.
Þá ber með vísan til 1. mgr. 233. gr., sbr. 1. mgr.
235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að dæma ákærða til greiðslu alls
sakarkostnaðar, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Kristjáns
Stefánssonar lögmanns, 2.200.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp dóm þennan. Dómsuppkvaðning hefur dregist fram yfir lögbundinn frest en dómari og málflytjendur töldu ekki þörf endurflutnings.
Dómsorð:
Ákærði, Gunnar Rúnar Gunnarsson, sæti fangelsi í 6 mánuði.
Ákærði greiði jafnframt 13.600.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa en sæti ella fangelsi í 7 mánuði.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Kristjáns Stefánssonar lögmanns, 2.200.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Hjörtur O. Aðalsteinsson