- Líkamsárás
- Umferðarlagabrot
D Ó M U R
Héraðsdóms Reykjavíkur miðvikudaginn 6. desember 2017 í máli nr.
S-432/2017:
Ákæruvaldið
(Hildur Sunna Pálmadóttir aðstoðarsaksóknari)
gegn
Denis Shramko
(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)
Mál þetta, sem dómtekið var 9.
nóvember sl., er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglustjóranum á
höfuðborgarsvæðinu 11. júlí 2017, á hendur Denis Shramko, kt. 000000-0000,
Suðurhólum 20, Reykjavík,
1.
fyrir líkamsárás
með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 24. maí 2015, í Hafnarstræti á milli
Pósthússtrætis og Veltusunds í Reykjavík, kýlt A kt. 000000-0000, einu
hnefahöggi í andlitið með þeim afleiðingum að hann hlaut djúpan skurð á vör.
Telst brot þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra
hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981.
2.
fyrir
umferðarlagabrot með því að hafa þriðjudaginn 17. maí 2016 ekið bifreiðinni [...]
aftan á bifreiðina [...] þar sem henni var ekið norður Reykjanesbraut við
Sprengisand í Reykjavík og ekki numið staðar og veitt hjálp heldur hlaupið á
brott af vettvangi.
Telst brot þetta varða við 10. gr., sbr. 100. gr.
umferðarlaga nr. 50/1987.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar
og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Verjandi ákærða krefst þess að hann verði sýknaður, en
til vara að honum verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa, sem öll verði
skilorðsbundin. Þá krefst hann hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins sem
greiðist úr ríkissjóði.
Málsatvik
1.
ákæruliður
Þann
4. júní 2015 kærði A til lögreglu líkamsárás sem hann varð fyrir 24. maí 2015. Kvaðst
hann hafa verið úti að skemmta sér og verið staddur í Hafnarstræti milli
Pósthússtrætis og Veltusunds. Eftir lokun skemmtistaða um þrjúleytið hafi hann
rölt um með félögum sínum. Þeir hafi allir verið undir áhrifum áfengis. Hann
hefði spurt yfir hóp fólks hvort það ætti sígarettu og ekki vitað fyrr en hann
hefði verið kýldur. Hann hefði verið að fara að snúa sér við til að ræða við
félaga sinn þegar hann hefði verið kýldur, en árásarmaðurinn hefði hlaupið á
brott. Höggið hefði komið á andlit hans hjá vinstra munnviki þannig að vörin
hefði rifnað illa alveg í gegn. Þá hefði festing vegna tannréttinga losnað við
höggið. Hann hefði farið á slysadeild þar sem vörin hefði verið saumuð. Vinur
hans, E , hefði séð atvikið og sagt árásarmanninn vera ákærða.
Í málinu liggur fyrir
vottorð Theodórs Friðrikssonar, sérfræðilæknis á slysa- og bráðadeild
Landspítala, frá 23. júní 2015. Þar kemur fram að brotaþoli hafi leitað á
slysadeild um klukkan fjögur eftir miðnætti þann 24. maí 2015 vegna áverka sem
hann hefði orðið fyrir sama kvöld í Austurstræti við verslunina 10-11. Hann
hefði skýrt frá því að hann hefði fengið eitt hnefahögg á andlitið að
ástæðulausu. Við skoðun hefði hann verið með flipalaga skurð utarlega vinstra
megin á vör út við munnvik, en hann hefði ekki haft aðra áverka. Skurðurinn
hefði verið alldjúpur og náð niður undir mörkin á húðinni og rauða svæði varar.
Þá hefði hann einnig náð aðeins inn í munninn. Sárið hefði verið deyft, þrifið
og saumað með djúpum saumum og síðan nokkrir saumar í yfirborðið. Brotaþoli
hefði komið aftur daginn eftir og haft áhyggjur af hugsanlegri sýkingu. Ekki
hefði verið um það að ræða og hann hefði verið útskrifaður eftir skoðun og
áætluð saumataka hjá heimilislækni. Sárið ætti að gróa á 10 til 14 dögum, en
endanleg örmyndun taki 6 til 12 mánuði.
2.
ákæruliður
Þann 17. maí 2016
barst lögreglu tilkynning um umferðarslys á Reykjanesbraut til norðurs við
Bústaðaveg. Kom fram að tveir aðilar væru slasaðir en tveir aðilar úr annarri
bifreið hefðu hlaupið á brott í átt að Byggðarenda. Er lögregla kom á staðinn
sást hvar bifreiðinni [...] hafði verið ekið aftan á bifreiðina [...] og var
fyrrgreinda bifreiðin mikið skemmd. Sjá mátti ákomu á vegrið vinstra megin sem
stemmdi við ákomu [...] á 67 metra kafla að þeim stað sem bifreiðin staðnæmdist.
Einnig var 51 metra svart far í malbiki eftir hjólbarða bifreiðarinnar að
framhjólum hennar. Í bifreiðinni [...] voru tvær stúlkur, bílstjórinn K og
farþeginn S. Þær kvörtuðu báðar undan bakverkjum og voru fluttar með
sjúkrabifreið á slysadeild. Vitni bentu á að tveir menn hefðu hlaupið frá
bifreiðinni [...] í átt að Byggðarenda í gegnum bensínstöð Atlandsolíu við
Sprengisand. Vitnið J lýsti því að ökumaður [...] hefði verið dökkhærður,
stæltur og með dökka húð. Vitnið X kvaðst hafa séð hvar bifreiðinni [...] hefði
verið ekið utan í vegrið og síðan nauðhemlað og lent aftan á [...]. Ökumaður [...]
hefði strax farið úr bifreiðinni og hlaupið yfir Reykjanesbraut til vesturs í
átt að Byggðarenda. Farþegi í hægra framsæti hefði hlaupið á eftir ökumanninum,
en síðan snúið við og sótt eitthvað í bifreiðina og hlaupið svo aftur á eftir
ökumanninum. Vitnið Y lýsti því að hafa séð hvar bifreiðinni [...]var ekið
aftan á bifreiðina [...]. Ökumaður [...] hefði því næst hlaupið frá bifreiðinni
til austurs yfir Reykjanesbraut. Farþeginn hefði hlaupið á eftir ökumanninum,
en síðan snúið við, sótt eitthvað í aftursætið og stungið því í vasann. Hann
hefði sagst ætla að ná í ökumanninn og hefði svo hlaupið af stað.
Samkvæmt
dagbókarfærslu lögreglu vegna málsins komu ákærði og D á lögreglustöð vegna
atviksins þann 19. maí 2016. D greindi frá því að hafa ekið bifreiðinni [...]
umrætt sinn. Hann hefði „farið í panik“ vegna aftanákeyrslunnar og því hafi
þeir ákærði hlaupið á brott. Vegna lýsinga vitna á vettvangi á hæð mannanna sem
hlupu frá bifreiðinni vöknuðu grunsemdir lögreglu um að ákærði hefði verið sá
sem hefði ekið. Kemur fram í dagbókarfærslunni að D hefði fyrst haldið því fram
í yfirheyrslu að hann hefði ekið en svo viðurkennt að það hefði verið ákærði,
en ákærði hefði beðið hann um að ljúga að lögreglunni.
Þá liggja fyrir
ljósmyndir af vettvangi sem sýna afstöðu bifreiðanna tveggja eftir áreksturinn.
Framburður fyrir dómi
Ákærði
neitar sök samkvæmt 1. lið ákærunnar. Hann kvaðst ekki hafa kýlt brotaþola og
kvaðst ekki viss um hvort hann hefði verið í bænum á þessum tíma. Hann kvaðst
hugsanlega kannast við vini brotaþola, E og C, en hann þekkti ekki brotaþolann
sjálfan.
Ákærði
neitar einnig sök vegna 2. liðs ákærunnar. Hann kvaðst hafa verið í
bifreiðinni, sem hefði verið í eigu föður hans. Ds hefði ekið bifreiðinni þar
sem hann sjálfur hefði verið í símanum. Hann mundi þó ekki við hvern hann hefði
rætt þetta sinn enda væri langt um liðið. Það væri ekki rétt sem hefði komið
fram hjá D hjá lögreglu að hann hefði beðið hann um að segja rangt frá. Hann
gat ekki greint frá því hvers vegna áreksturinn hefði orðið eða af hverju þeir
hefðu hlaupið af vettvangi. Þá mundi hann ekki hvor hefði hlaupið burt á undan.
Spurður um hæð sína kvaðst hann vera um 185 en það stæði 184 eða 185 í
vegabréfi hans.
Vitnið
A skýrði frá því að hann hefði verið að ganga fram hjá 10-11 í Austurstræti með
félögum sínum. Þeir hefðu stoppað til að reykja sígarettur. Hann hefði átt
orðaskipti við stráka í kringum sig og spurt um sígarettur. Skyndilega hefði
hann fengið högg á sig sem hann hefði vankast við. Hann kvaðst ekki hafa orðið
var við hver hefði kýlt hann, en vinir hans, E og C, hefðu séð hver þetta var
og strax sagt að um ákærða væri að ræða.
Vitnið
E lýsti því að hann hefði umrætt sinn verið að rölta af bar ásamt félögum sínum
A og C. Þetta hefði verið seint um kvöld
og þeir hefðu verið drukknir. A hefði spurt ákærða um sígarettu en ákærði hefði
þá skyndilega kýlt hann. Hann kvaðst kannast við ákærða í gegnum vini sína.
Hann kvaðst ekki alveg viss um hvort hann hefði séð höggið sjálft eða bara
heyrt það, en strax á eftir hefði ákærði gengið hratt í burtu.
Vitnið
C lýsti því að atvikið hefði átt sér stað eftir lokun í miðbænum. Hann hefði
verið að ganga um ásamt félögum sínum og A hefði spurt ákærða hvort hann ætti
sígarettu. Ákærði hefði neitað en A þá spurt hann hvort hann væri það háður
sígarettum að hann gæti ekki gefið eina. Þá hefði hann fengið á sig högg frá
ákærða. Vitnið hefði séð höggið og gripið A. Höggið hefði komið beint framan á
hann og vörin á honum farið í tvennt. Vitnið kvaðst ekki hafa þekkt ákærða, en
E vinur hans hefði gert það og sýnt honum mynd af viðkomandi og hann þá þekkt
ákærða aftur.
Vitnið
Theodór Friðriksson, sérfræðilæknir á slysa- og bráðadeild Landspítala, staðfesti
framangreint vottorð sitt frá 23. júní 2015. Hann kvað áverka brotaþola
samræmast því að þeir gætu verið eftir eitt hnefahögg eins og hann hefði greint
frá.
Vitnið
D greindi frá því að ákærði hefði beðið hann um að aka bifreiðinni [...]. Hann
kvaðst vera með geðhvarfasjúkdóm og hefði farið í paranoju og misst stjórn á
bifreiðinni með þeim afleiðingum að hann hefði ekið á aðra bifreið. Hann hefði
hræðst átök og því flúið af vettvangi. Hann kvaðst ekki minnast þess að hafa
hlaupið til baka. Hann skýrði breytingu á framburði sínum frá því sem hann
hefði greint lögreglu þannig að hann hefði verið hræddur um að missa
ökuskírteinið og því sagt að ákærði hefði ekið. Vegna sjúkdóms hans væri hætta
á að hann missti réttindin við svona atburð. Þá myndi hann hugsanlega ekki fá
vegabréf. Hann vildi hins vegar ekki að ákærða yrði kennt um það sem hann hefði
gert.
Vitnið
K kvaðst hafa skipt um akrein og verið nýlega komin yfir þegar hún hefði fengið
bifreið aftan á sig. Hún kvað konu hafa stöðvað á bifreið fyrir framan og komið
til þeirra. Nokkuð af fólki hefði verið í kring. Hún hefði heyrt það öskra að
menn hefðu hlaupið úr bifreiðinni. Einhver hefði elt þá. Hún hefði hins vegar
ekki séð mennina sjálf heldur einungis bifreiðina tóma.
Vitnið
S sem var farþegi í bifreiðinni með K kvað allt hafa verið óskýrt sem hefði
gerst. Kona sem væri hjúkrunarfræðingur hefði komið til þeirra. Hún hefði svo
heyrt að menn úr bifreiðinni sem ók á þær væru farnir af vettvangi.
Vitnið
Y kvaðst hafa ekið eftir Breiðholtsbraut
og séð hvar bifreið fyrir framan hana hefði farið yfir á vinstri akrein. Önnur
bifreið hefði svo komið og ekið aftan á hana. Hún hefði farið út úr bifreiðinni
til að huga að fólki. Þá hefði ökumaðurinn stokkið út úr bifreiðinni og hlaupið
í burtu. Hann hefði komið út ökumannsmegin. Farþegi í bifreiðinni hefði virst
ringlaður en hefði síðan farið út úr bifreiðinni og hlaupið á eftir
ökumanninum. Hann hefði snúið til baka og sótt eitthvað undir farþegasætið.
Hann hefði svo hlaupið aftur í burtu og sagt, á íslensku, að hann ætlað að
sækja ökumanninn. Vitnið lýsti ökumanninum sem dökkhærðum meðalmanni á hæð.
Farþeginn hefði verið áþekkur yfirlitum.
Vitnið
X kvaðst hafa séð tvo stráka hlaupa fá bifreiðinni. Farþeginn hefði svo snúið
til baka, en það hefði verið sá hávaxnari þeirra tveggja. Ökumaðurinn hefði
verið örlítið þéttari. Hann hefði verið dökkhærður en hinn aðeins ljósari. Hann
kvað einhver orðaskipti hafa átt sér stað. Hann mundi þau ekki nánar, en þau
hefðu verið á íslensku.
Vitnið
J kvaðst hafa séð tvo menn koma út úr bifreiðinni og virst mjög ringlaðir. Hann
taldi að báðir mennirnir hefðu komið farþegamegin út úr bifreiðinni þar sem hún
hefði verið upp við vegrið. Mennirnir hefðu skoðað bifreiðina og svo hefði
annar farið aftur fyrir hana og yfir vegrið. Hann hefði gengið yfir götuna og
horfið milli húsa. Hann kvaðst ekki gera sér grein fyrir hvort það hefði verið
ökumaðurinn eða farþeginn en staðfesti að framburður hans hjá lögreglunni um
þetta hefði verið réttur. Annar mannanna hefði orðið eftir. Sá hefði verið
frekar hávaxinn og ljósari yfirlitum en hinn, sem hefði verið áberandi dökkur.
Vitnið
V kvaðst hafa komið að slysinu úr gagnstæðri átt. Hann hefði séð einhvern
hlaupa í burtu. Hann hefði svo séð annan mann hlaupa burt en snúa aftur við. Sá
hefði verið hærri en hinn. Hann hefði ekki séð hvor þeirra hefði ekið.
Vitnið
Ingólfur Birgir Sigurgeirsson lögreglumaður staðfesti frumskýrslu sína í málinu
og lýsti því að hann hefði komið á vettvang eftir að ökumaðurinn hefði farið.
Hann kvaðst hafa rætt við nokkur vitni á staðnum. Lýsing þeirra á ökumanninum
hefði passað við son eiganda bifreiðarinnar, samkvæmt upplýsingum frá öðrum
lögreglumanni.
Vitnið
Heiða Rafnsdóttir lögreglumaður kvaðst hafa komið á vettvang. Bifreiðin sem
hefði verið ekið aftan á hefði verið mjög skemmd og hefði virst ekið á á
mikilli ferð. Enginn hefði verið í bifreiðinni heldur hefði viðkomandi stungið
af. Hún kvaðst ekki muna afstöðu bifreiðanna. Þá hefði hún ekki vitað hver
ákærði var.
Vitnið
Grétar Stefánsson lögreglumaður kvaðst hafa verið kallaður á vettvang vegna
áreksturs og afstungu. Mikið tjón hefði verið á aftari bifreiðinni. Reynt hefði
verið án árangurs að hafa uppi á bílstjóranum. Leitað hefði verið eftir upptöku
frá nálægri bensínstöð en ekkert hefði sést á henni.
Vitnið
Gísli Breiðfjörð Árnason lögreglumaður greindi frá skýrslu af vitninu D. Hann
kvað vitnið hafa komið á lögreglustöð til að gefa skýrslu um að hann hefði ekið
bifreiðinni umrætt sinn. Hann hefði hins vegar viðurkennt í skýrslunni að hann
hefði ætlað að segja ósatt en hefði skipt um skoðun. Hann kvað andlegt ástand
vitnisins ekki hafa verið rætt sérstaklega, en ekkert hefði bent til annars en
að hann væri hæfur til að gefa skýrslu.
Niðurstaða
1.
ákæruliður
Ákærða er í fyrri lið
ákærunnar gefin að sök líkamsárás með því að hafa kýlt brotaþola einu
hnefahöggi í andlitið með þeim afleiðingum að hann hlaut djúpan skurð á vör.
Ákærði neitar sök. Hann kveðst ekki vita hvort hann hafi verið í bænum þessa
nótt en hann hafi ekki kýlt brotaþola og þekki ekki til hans.
Brotaþoli
kvaðst ekki hafa séð hver hefði kýlt hann en vinir hans hefðu strax á eftir
sagt honum hver hefði verið að verki. Vitnin E og C voru með brotaþola þetta
kvöld. Vitnunum ber saman um að brotaþoli og ákærði hafi átt í samskiptum sem
hafi endað með því að ákærði veitti brotaþola högg. Vitnið E kvaðst hafa heyrt
höggið, en var ekki viss um hvort hann hefði séð það. Strax eftir höggið hefði
ákærði hraðað sér í burtu. Vitnið C kvaðst hafa séð höggið og afleiðingar þess.
Hann hefði ekki þekkt ákærða en E hefði sýnt honum mynd af honum og hann hefði
þá þekkt hann aftur sem þann sem veittist að brotaþola. Þá bar læknir, sem
skoðaði brotaþola á slysa- og bráðadeild Landspítala þegar eftir atvikið, um að
áverkar hans samræmdust lýsingu á því að honum hefði verið veitt eitt
hnefahögg.
Samkvæmt öllu framangreindu, og með vísan til læknisfræðilegra gagna í málinu, þykir sannað, gegn neitun ákærða, að hann hafi veist að A eins og lýst er í ákæru og með þeim afleiðingum sem þar greinir. Verður ákærði því sakfelldur og er háttsemi hans rétt færð til refsiákvæða í ákæru.
2.
ákæruliður
Í
síðari lið ákærunnar er ákærða gefið að sök umferðarlagabrot með því að hafa
ekið aftan á bifreið og ekki numið staðar og veitt hjálp heldur hlaupið á brott
af vettvangi. Ákærði neitar sök. Hann kveðst hafa verið farþegi í bifreiðinni,
en annar maður hafi ekið. Hann gat hins vegar ekki gefið neinar skýringar á því
hvers vegna þeir hefðu hlaupið af vettvangi. Vitnið D greindi frá því fyrir
dóminum að hann hefði ekið bifreiðinni umrætt sinn. Hann kvaðst hafa flúið af
vettvangi vegna hræðslu við átök.
Fjögur
vitni sem voru á vettvangi hafa lýst því að tveir menn hafi komið út úr
bifreiðinni eftir áreksturinn. Með hliðsjón af myndum af vettvangi og framburði
vitna þykir sýnt að þeir komu hvor út um sínar dyr. Vitnunum ber öllum saman um
að mennirnir hafi hlaupið frá bifreiðinni, en annar snúið til baka. Þá ber þeim
saman um að sá sem hljóp til baka hafi verið hávaxnari en hinn og tvö vitnanna
fullyrða að þar hafi verið um farþegann að ræða.
Ákærði
bar fyrir dóminum að hann væri um 184 til 185 cm á hæð. Samkvæmt upplýsingum úr
brotamannaskrá er hann skráður 181 cm á hæð. Útlit hans samræmist lýsingum
vitna á vettvangi á ökumanninum. Vitnið D, sem kom fyrir dóminn, var sýnilega
hærri en ákærði. Hann greindi frá því að hann væri 189 til 190 cm að hæð.
Samkvæmt þessu er framburður vitnisins D um að hann hafi ekið umrætt sinn
andstæður framburði vitna á vettvangi. Við mat á framburði hans verður
jafnframt að líta til þess að við skýrslutöku hjá lögreglu greindi hann frá því
að hann hefði verið farþegi í bifreiðinni en ákærði hefði ekið. Þá greindi hann
frá því að hafa, að beiðni ákærða, upphaflega ætlað að greina ranglega frá því
að hann hefði ekið. Breyttur framburður hans fyrir dómi þykir, í ljósi alls
framangreinds, ekki trúverðugur. Þá breytir sú staðreynd að vitni lýstu því að
farþeginn hefði talað íslensku, engu um framangreint. Um takmörkuð samskipti
var að ræða en hann skýrði sjálfur frá því í upphafi skýrslutöku fyrir dóminum
að hann talaði smá íslensku og átti stutt samtal við dómara á íslensku áður en
dómtúlkur tók að túlka fyrir hann.
Í
ljósi framangreinds þykir framburður ákærða um að hann hafi ekki ekið
bifreiðinni umrætt sinn einnig ótrúverðugur. Sannað er með framburði vitna á
vettvangi og gögnum málsins að ákærði ók bifreiðinni og gerðist sekur um þá
háttsemi sem lýst er í 2. lið ákærunnar. Verður ákærði því sakfelldur og er
brotið rétt heimfært til refsiákvæða.
Refsing og sakarkostnaður
Ákærði er fæddur í
nóvember 1993. Hann hefur einu sinni gengist undir lögreglustjórasátt vegna
umferðarlagabrots. Með hliðsjón af framangreindu og 77. gr. almennra
hegningarlaga þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga
en fullnustu refsingarinnar er frestað
og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi
ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði
málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms
Hans Vilhjálmssonar hrl., 632.400 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti,
og 36.000 krónur í annan sakarkostnað.
Af hálfu ákæruvaldsins
flutti málið Hildur Sunna Pálmadóttir aðstoðarsaksóknari.
Barbara Björnsdóttir
héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð:
Ákærði, Denis Shramko, sæti fangelsi í 30 daga en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði
málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms
Hans Vilhjálmssonar hrl.,
632.400 krónur, og 36.000 krónur í annan sakarkostnað.
Barbara Björnsdóttir