• Lykilorð:
  • Miskabætur
  • Fangelsi
  • Skilorð
  • Sönnunarmat
  • Ærumeiðingar

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness fimmtudaginn 3. janúar 2019 í máli nr. S-158/2018:

Ákæruvaldið

(Fanney Björk Frostadóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

X

(Lúðvík Bergvinsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 8. nóvember 2018, höfðaði héraðssaksóknari með ákæru 22. mars 2018 á hendur ákærða, X, kt. […], […], […]:

Fyrir brot gegn blygðunarsemi og stórfelldar ærumeiðingar gegn fyrrum sambýliskonu hans, A, með því að hafa að morgni sunnudagsins 6. september 2015, í bílskúr við […] í […], í heimildarleysi tekið ljósmynd á síma sinn af A, hálfnakinni, ásamt nöktum karlmanni þar sem þau lágu sofandi í rúmi A og í kjölfarið sent  myndina á B, C og D í gegnum samskiptaforritið facebook.com, en með háttsemi sinni móðgaði og smánaði ákærði A auk þess að særa blygðunarsemi hennar.

Telst þetta varða við 209. gr. og 233. gr. b. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa:

Af hálfu A, kt. […] er þess krafist að ákærða verði gert að greiða henni miskabætur samtals að fjárhæð kr. 800.000.- auk vaxta skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001, sbr. 4. gr. laganna frá 15.09.2015 til þess dags er mánuður er liðinn frá því bótakrafan var kynnt fyrir ákærða en með dráttarvöxtum frá þeim degi skv. 9. gr. sbr. 6. gr. vaxtalaga til greiðsludags. Þá er krafist greiðslu lögmannsþóknunar við réttargæslu skv. mati dómara eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi auk virðisaukaskatts á þóknun, brotaþola að skaðlausu.

Kröfur ákærða:

Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvalds en til vara að honum verði gerð sú vægasta refsing sem lög leyfa. Hvað bótakröfu brotaþola varðar krefst ákærði þess aðallega að kröfunni verði vísað frá dómi, til vara krefst ákærði sýknu af kröfunni og til þrautavara að krafan verði stórlega lækkuð. Þá krefst verjandi hæfilegrar þóknunar sér til handa að mati dómsins sem greiðist úr ríkissjóði.

I

Með bréfi Auðar Bjargar Jónsdóttur lögmanns, dagsettu 19. janúar 2016, sem lögmaðurinn ritaði fyrir hönd brotaþola, A, var þess farið á leit að hafin yrði lögreglurannsókn á meintu hegningarlagabroti ákærða gegn brotaþola. Í bréfinu var til þess vísað að brotaþoli og ákærði hefðu verið í sambandi frá því í júlí 2014 til september 2015, þar af í sambúð frá janúar til september 2015. Tveimur dögum eftir að sambúðinni lauk hefði ákærði notað lykil, sem hann hefði þá enn ekki skilað, til þess að fara inn í íbúð brotaþola í heimildarleysi þar sem hann hefði tekið myndir af brotaþola og manni sem hjá henni gisti. Bæði hefðu þau verið nakin. Þar sem þau hefðu verið sofandi hefðu þau ekki orðið myndatökunnar vör. Brotaþoli hefði hins vegar frétt af töku myndarinnar skömmu síðar þegar hún hefði haft af því spurnir að mynd af henni og áðurgreindum manni væri komin í dreifingu. Í bréfi lögmannsins var fullyrt að ákærði hefði að minnsta kosti sent myndina til B, C, E og D, en líklega hefði hann sent myndina víðar.

Brotaþoli gaf skýrslu vegna málsins hjá lögreglu 8. apríl 2016. Greindi hún þar frá atvikum með sambærilegum hætti og þeim var lýst í tilvitnuðu bréfi lögmanns hennar. Skýrsla var tekin af ákærða 31. maí 2016. Ákærði kannaðist þá við að hafa tekið umrædda mynd af brotaþola og karlmanni sem hjá henni gisti í upphafi septembermánaðar 2015. Ákærði taldi að hann hefði sent þremur vinum sínum myndina, þeim C, B og D. Myndina kvaðst ákærði hafa tekið í áfalli yfir því sem fyrir augu hans bar þegar hann kom heim til sín umrætt sinn. Hann sagðist hafa sent myndina til vina sinna til þess að færa sönnur á orð sín. Samhliða því að senda myndina hefði hann beðið vini sína um að eyða henni.

Í febrúar og mars 2017 tók lögregla skýrslur af fyrrnefndum þremur vitnum, C, B og D. Rannsókn lögreglu lauk í mars 2017. Var ákæra síðan gefin út á hendur ákærða 22. mars 2018 samkvæmt áðursögðu.

II

Við aðalmeðferð málsins sagði ákærði þau brotaþola hafa verið búin að vera í sambandi í um eitt ár þegar atvik máls gerðust. Mestan hluta þess tíma hefðu þau búið saman. Þau hefðu leigt saman íbúð í bílskúr að […] í […] og hvort um sig greitt helming leigufjárhæðarinnar. Þegar atvik máls gerðust hefðu þau verið búin að greiða leigu septembermánaðar. Í íbúðinni hefði meðal annars verið ísskápur sem þau keyptu saman. Einnig hefði þar verið rúm, skrifborð, stóll og sjónvarp í eigu ákærða. Auk þess að leigja saman hefðu ákærð og brotaþoli keypt sér bifreið saman.

Ákærði sagði honum og brotaþola hafa orðið sundurorða fimmtudaginn 3. september 2015. Þau hefðu hins vegar sæst og hefð þau bæði sofið íbúðinni það kvöld. Kvöldið eftir hefðu þau borðað saman heima og síðan lagst saman til hvílu. Morguninn eftir hefði ákærði farið til vinnu. Um kl. 14:00 hefðu honum borist skilaboð frá brotaþola þess efnis að hún vildi slíta sambandi þeirra. Brotaþoli hefði samhliða því farið þess á leit að ákærði gisti annarsstaðar næstu nótt þar sem hún ætti von á vinkonu til sín, sem byggi úti á landi, er brotaþoli hygðist hýsa. Ákærði kvaðst hafa tekið  jákvætt í þá málaleitan brotaþola. Hann hefði síðan farið heim í íbúðina eftir vinnu og sótt sér fatnað til að vera í um kvöldið.

Ákærði kvaðst hafa verið að skemmta sér um kvöldið og nóttina á Ljósanætur­hátíðinni í Reykjanesbæ. Um morguninn hefði hann fengið far til […] með vinkonu brotaþola. Hún hefði skutlað ákærða að […]. Klukkan hefði þá verið átta eða níu. Kvaðst ákærði hafa ætlað „... að athuga þá hvort hún hefði bara gist ein og hvort að ég, sem sagt, gæti komið og náð í föt og svona. Og kannski talað við hana ef hún væri vakandi.“ Ákærði sagðist hafa horft inn um glugga á útihurðinni og ekki annað séð en brotaþoli væri ein í íbúðinni. Hann hefði því ákveðið að fara inn. Þegar inn var komið hefði ákærði hins vegar séð að í rúmi hans lá, ásamt brotaþola, einhver strákur. Þau hefðu bæði sofið. Ákærða hefði verið verulega brugðið við þessa sýn og hann í kjölfarið tekið upp símann sinn og tekið mynd af brotaþola og stráknum þar sem þau lágu. Spurður um ástæðu þess sagðist ákærði hafa viljað eiga myndina ef brotaþoli myndi, þegar hann myndi ræða við hana síðar, neita því að karlmaður hefði gist hjá henni, sem hún hefði einmitt gert síðar þennan sama dag. Eftir að hafa tekið myndina kvaðst ákærði hafa farið út úr bílskúrnum.

Þegar út var komið hefði ákærði orðið var við að fólk var á fótum inni í húsinu. Hann hefði því ákveðið að berja að dyrum og ganga inn. Ákærði hefði síðan sagt foreldrum brotaþola frá því að hann hefði komið að ókunnugum strák sofandi uppi í rúmi í bílskúrnum. Þeim hefði þótt það mjög leiðinlegt. Ákærði hefði síðan fengið vinkonu  brotaþola til þess að keyra sig til frænku sinnar þar sem hann hefði fengið gistingu.

Síðar um daginn sagðist ákærði hafa sent myndina, sem hann tók af brotaþola og stráknum, á vini sína, B, C og D. Ástæðu sendingarinnar kvað ákærði hafa verið þá að hann hefði langað til þess að ræða við þá um það sem hafði gerst. Neitaði ákærði að hafa verið reiður brotaþola er hann sendi myndin. Hann kvaðst aðspurður hvorki hafa sent né sýnt fleirum þessa mynd. Myndinni hefði ákærði eytt síðar þennan sama dag eftir að hann og brotaþoli höfðu hist og talað saman. Hann hefði jafnframt beðið vini sína þrjá um að gera slíkt hið sama. Það hefði hann gert um leið og hann sendi þeim myndina. Þá hefði B nefnt í samtali þeirra þennan dag að það væri ekki rétt að senda svona mynd. Myndina hefði ákærði ekki séð aftur fyrr en við skýrslutöku hjá lögreglu. Tók ákærði fram að hann hefði í samtali þeirra brotaþola sagt henni frá því að hann hefði tekið myndina. Brotaþoli hefði sagst fyrirgefa ákærða það og hún jafnframt lýst yfir vilja til þess að halda sambandi þeirra áfram. Ákærði hefði hins vegar ekki verið í ástandi til þess taka ákvörðun um það. Síðar um daginn hefði brotaþoli síðan sent ákærða skilaboð þess efnis að henni hefði enn snúist hugur og að hún vildi ekki áframhaldandi samband.

Ákærði kvaðst hafa sótt eigur sínar í bílskúrinn að […] nokkrum dögum eftir að atvik máls gerðust.

III

A, brotaþoli í máli þessu, bar fyrir dómi að hún og ákærði hefðu byrjað saman sumarið 2014. Sambandi þeirra hefði lokið 5. september 2015. Hefði það verið sameiginleg ákvörðun þeirra að binda enda á sambandið. Meðan á sambandinu stóð hefðu þau búið saman „... í einhverja mánuði.“ Um tíma hefðu þau haft á leigu íbúð í bílskúr í eigu föður brotaþola og skipt leigugreiðslum á milli sín. Á því tímabili hefðu þau haldið saman heimili og meðal annars keypt sér bifreið og ísskáp. Ákærða sagði brotaþoli hafa komið með rúm og sjónvarp í sambúðina.

Nánar spurð út í sambandsslit þeirra ákærða bar brotaþoli að sambandið hefði verið búið að vera mjög erfitt í langan tíma og hefði því í raun verið lokið löngu fyrir 5. september 2015. Það hefði hins vegar tekið þau langan tíma að binda enda á sambandið, sem þau hefðu loks gert nefndan dag. Ákærða sagði brotaþoli þá hafa tekið með sér helstu nauðsynjar en aðrar eigur sínar hefði hann sótt nokkrum dögum síðar.

Brotaþoli sagði ástæðu þess að málinu var ekki komið á framfæri við lögreglu fyrr en í janúar 2016 hafa verið þá að fyrr hefði hún ekki fengið ljósmyndina í sínar vörslur. Brotaþoli hefði hins vegar fengið vitneskju um myndina strax 6. september 2015 frá vinkonu sinni sem hringt hefði og upplýst hana um að myndin væri í umferð. Við þær fréttir kvaðst brotaþoli hafa brotnað saman. Brotaþoli hefði í framhaldinu rætt við föður sinn og stjúpmóður sem upplýst hefðu hana um að ákærði hefði komið til þeirra um morguninn og sagt þeim „frá þessu.“

Síðar þennan sama dag sagði brotaþoli þau ákærða hafa hist. Ákærði hefði þá beðist afsökunar á því að hafa tekið og sent myndina. Hann hefði sýnt brotaþola myndina við þetta tækifæri en síðan eytt henni. Ákærði hefði fullyrt að myndin væri ekki í dreifingu og að vinir hans hefðu líka eytt myndinni. Brotaþoli kvað myndina og það sem við hana stóð hafa verið mjög niðurlægjandi fyrir sig, enda hefði ákærði látið líta út fyrir að hún hefði verið að halda framhjá honum. Þá hefðu brotaþoli og maðurinn sem hjá henni lá að mestu verið nakin myndinni.

Brotaþoli sagðist hafa glímt við mikla vanlíðan vegna myndarinnar. Fullyrti brotaþoli að mjög margir hefðu séð myndina og vísaði hún í því sambandi til þess að hún hefði fengið fregnir af myndinni frá mörgum aðilum. Kvíði og félagsfælni, sem brotaþoli hefði glímt við fyrir, hefðu versnað mikið vegna málsins.

F, faðir brotaþola, kvað ákærða hafa komið heim til hans að morgni 6. september 2015. Ákærði hefði þá rætt við konu vitnisins. Ákærði hefði komið aftur í hádeginu þann sama dag og þá greint vitninu frá því, sem vitnið hefði þá þegar verið búið að fregna, að einhver annar maður en ákærði hefði gist í bílskúrnum hjá brotaþola um nóttina. Fram kom hjá vitninu að brotaþoli hefði verið búinn að greina vitninu frá því á föstudeginum að sambandi hennar og ákærða væri lokið og að ákærði væri fluttur út. Staðfesti vitnið að brotaþoli og ákærði hefðu haft bílskúrinn við hús vitnisins á leigu er atvik máls gerðust.

Síðar um daginn hefði brotaþoli hringt hágrátandi í síma vitnisins vegna dreifingar á mynd sem hún kvað ákærða hafa tekið af henni og áðurnefndum manni uppi í rúmi. Vitnið sagði brotaþola hafa liðið mjög illa vegna þessa.

G sagði ákærða og brotaþola, stjúpdóttur vitnisins, hafa haft íbúð í bílskúr við heimili vitnisins á leigu um tíma og þau búið þar saman. Þegar atvik málsins gerðust hefði brotaþoli verið nýbúin að segja vitninu að þau væru hætt saman. Það hefði hún gert annað hvort á föstudeginum eða laugardeginum þessa sömu helgi.

Vitnið sagðist hafa verið vakandi umræddan sunnudagsmorgun þegar ákærði hefði litið við. Ákærði hefði þá sagt vitninu að brotþoli væri í íbúðinni í bílskúrnum með öðrum manni. Hefði ákærði verið mjög leiður vegna þess. Ákærði hefði komið aftur heim til vitnisins í hádeginu þennan sama dag og þá rætt við vitnið og eiginmann þess.

Síðar um daginn hefði brotaþoli hringt í síma föður síns og hefði vitnið svarað. Brotaþoli hefði verið hágrátandi og vitnið átt erfitt með að skilja hana. Vitnið og faðir brotaþola hefðu því hraðað sér heim til þess að tala við hana. Þegar heim var komið hefði brotaþoli greint þeim frá því að ákærði hefði tekið mynd af henni og manninum sem gisti hjá henni um morguninn og sent á vini sína. Hefði brotaþola liðið illa vegna þessa.

C bar fyrir dómi að ákærði hefði sent honum mynd sem ákærði hafði skömmu áður tekið af brotaþola og karlmanni heima hjá ákærða. Vitnið sagðist hafa rætt við ákærða í kjölfar þess að því barst myndin, sem vitnið minnti að hefði verið að morgni til. Ákærði hefði greint vitninu frá því að hann hefði komið að brotaþola með öðrum manni á heimili þeirra. Ákærða hefði verið mjög brugðið vegna þessa. Eftir samtalið hefði vitnið eytt myndinni að beiðni ákærða.

D greindi svo frá að ákærði hefði sent honum mynd af tveimur sofandi manneskjum. Önnur þeirra hefði verið brotaþoli. Ástæða þeirrar sendingar hefði verið sú að ákærði hefði viljað tala við vitnið um það sem gerst hafði þar sem vitnið hefði þekkt bæði ákærða og brotaþola. Ákærði hefði verið brotinn og honum liðið mjög illa vegna þess sem gerst hafði. Vitnið kvaðst hafa sagt ákærða að senda myndina ekki á fleiri aðila.

Vitnið bar jafnframt að það hefði verið í sambandi við ákærða daginn áður og hefði þá komið fram hjá ákærða að hann og brotaþoli væru hætt saman. Ákærði hefði beðið vitnið um að hafa auga með brotaþola í starfsmannapartíi, sem vitnið og brotaþoli hefðu bæði verið að fara í um kvöldið, og passa að  það yrði í lagi með hana. Áðurnefnda mynd hefði ákærði síðan líklega sent vitninu daginn eftir.

Vitnið kvaðst ekki hafa sent neinum myndina sem það fékk frá ákærða. Myndinni hefði vitnið síðan eytt þegar það gaf skýrslu hjá lögreglu vegna málsins.

B skýrði svo frá að ákærði hefði sent honum mynd þar sem sjá hefði mátt karl og konu liggjandi í rúmi. Vitnið hefði ekki borið kennsl á fólkið en ákærði hefði sagt vitninu hver þau væru. Konan á myndinni hefði verið brotaþoli en manninn hefði vitnið ekki kannast við. Vitnið hefði sagt ákærða að eyða myndinni, „... þetta væri ekki í lagi“, sama hvað á undan væri gengið. Sjálft hefði vitnið strax eytt myndinni. Ástæðu þess að ákærði sendi vitninu myndina kvaðst vitnið ekki þekkja.

H greindi svo frá að hann hefði aðstoðað ákærða við flutninga úr íbúðinni í bílskúrnum að […] í […] eftir að sambandi ákærða og brotaþola lauk. Taldi vitnið að það hefði verið tveimur til þremur dögum eftir sambandsslitin.

IV

Í málinu er ákærða gefið að sök brot gegn blygðunarsemi og stórfelldar ærumeiðingar gegn brotaþola, fyrrum sambýliskonu sinni, með því að hafa á þeim stað og tíma sem í ákæru greinir tekið í heimildarleysi ljósmynd á síma sinn af brotaþola, hálfnakinni, ásamt nöktum karlmanni þar sem þau lágu sofandi í rúmi brotaþola og í kjölfarið sent myndina á B, C og D, en með þeirri háttsemi hafi ákærði móðgað og smánað brotaþola, auk þess að særa blygðunarsemi hennar.

Ákærði hefur gengist við því að hafa að morgni sunnudagsins 6. september 2015 tekið í heimildarleysi ljósmynd á síma sinn af brotaþola og karlmanni í íbúð í bílskúr að […] í […] þar sem þau lágu sofandi í rúmi. Hann hefur einnig viðurkennt að hafa í kjölfarið sent myndina á B, C og D í gegnum samskiptaforritið facebook.com/messenger. Ljósmynd þessi er meðal gagna málsins og er brotaþoli hálfnakin á myndinni en karlmaðurinn nakinn. Samkvæmt þessu liggur fyrir að ákærði sýndi af sér þá háttsemi sem í ákæru er lýst. Af hans hálfu er haldið uppi þeim vörnum í málinu að með háttseminni hafi hann hvorki sýnt af sér lostugt athæfi í skilningi 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 né hafi hann gerst sekur um stórfelldar ærumeiðingar með því að móðga brotaþola og smána, sbr. 233. gr. b. sömu laga

Samkvæmt 209. gr. almennra hegningarlaga skal hver sá sem með lostugu athæfi særir blygðunarsemi manna eða er til opinbers hneykslis sæta fangelsi allt að fjórum árum, en fangelsi allt að sex mánuðum eða sektum ef brot er smávægilegt. Til þess að háttsemi teljist refsinæm samkvæmt ákvæðinu þarf hún að vera lostug og vera til þess fallin að særa blygðunarsemi einhvers manns eða vera til opinbers hneykslis.

Sú háttsemi ákærða að taka ljósmynd á síma sinn af brotaþola, hálfnakinni, og nöktum karlmanni, þar sem þau lágu saman í rúmi, og senda hana í kjölfarið til þriggja vina sinna, var að mati dómsins til þess fallin að særa blygðunarsemi brotaþola. Hefur því enda ekki verið andmælt af ákærða. Varnir ákærða hvað umræddar sakargiftir varðar eru samkvæmt áðursögðu hins vegar á því reistar að lýst háttsemi hans geti í ljósi málsatvika ekki talist lostugt athæfi í skilningi 209. gr. almennra hegningarlaga.

Með lostugu athæfi er átt við háttsemi af kynferðislegum toga, er stjórnast af kynhneigð, sem einhver annar verður vitni að. Með lögum nr. 40/1992 voru gerðar breytingar á kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga. Í almennum athugasemdum með frumvarpi til laganna kom fram að ef kynferðis­athafnir gætu ekki talist vera samræði, önnur kynferðismök eða önnur kynferðisleg áreitni gæti 209. gr. almennra hegningarlaga átt við um þær. Þá sagði í athugasemdum við 15. gr. frumvarpsins að það leiddi af nýjum sérákvæðum í 200.-202. gr. laganna, sbr. 8.-10. gr. frumvarpsins, um kynferðislega áreitni, að undir 209. gr. félli nú fyrst og fremst ýmiss konar háttsemi, önnur en káf og þukl á líkama, t.d. gægjur á glugga, berháttun og önnur strípihneigð, og klúrt orðbragð í síma.

Ákærði hefur borið því við að sú háttsemi hans að taka áðurlýsta ljósmynd og senda hana til þriggja vina sinna hafi ekki verið sprottin af kynferðislegum rótum. Aðspurður fyrir dómi um hvað honum gekk til vísaði ákærði einkum til þess að honum hefði verið verulega brugðið við að koma að brotaþola og manninum. Hann hefði vilja eiga myndina ef brotaþoli myndi síðar þræta fyrir að karlmaður hefði gist hjá henni þessa nótt, eitthvað sem hún hefði síðan gert síðar þennan sama dag.

Ljóst er af framburði ákærða og vætti brotaþola, foreldra hennar og H, sbr. kafla II og III hér að framan, að sambandi ákærða og brotaþola lauk um það leyti sem atvik máls gerðust. Af framburði þeirra vitna sem samskipti höfðu við ákærða umræddan dag má ráða að ákærði hafi verið leiður og í uppnámi vegna þess sem fyrir augu hans bar í íbúðinni í bílskúrnum um morguninn. Brotaþoli hefur borið að sambandi hennar og ákærða hafi lokið daginn áður en ákærði vill meina að því hafi ekki verið lokið þegar hann kom að henni og karlmanninum í bílskúrnum að morgni 6. september 2015. Þótt ákærða og brotaþola beri ekki saman um þetta atriði er í öllu falli ljóst að ákærði hafði ekki flutt eigur sínar út úr íbúðinni í bílskúrnum nema að litlu leyti er atvik máls gerðust og telur dómurinn upplýst að ákærði hafi á þeim tímapunkti ekki átt annað heimili.

Samkvæmt framansögðu er lostugt athæfi í skilningi 209. gr. almennra hegningarlaga athöfn af kynferðislegum toga sem stjórnast af kynhneigð manna en gengur skemmra en samræði og önnur kynferðismök. Að öllu því hlutrænt virtu sem að framan hefur verið rakið um aðstæður þykir því ekki verða slegið föstu að sá verknaður ákærða að taka myndina og senda hana til þriggja vina sinna teljist lostugt athæfi í skilningi 209. gr. almennra hegningarlaga. Verður ákærði því sýknaður af ákæru um brot gegn því ákvæði.

Eins og fyrr var getið er ákærða einnig gefið að sök í málinu að hafa gerst sekur um stórfelldar ærumeiðingar gegn brotaþola með áðurlýstri háttsemi sinni en með henni hafi hann móðgað og smánað brotaþola og brotið gegn 233. gr. b. almennra hegningarlaga.

Samkvæmt 233. gr. b. almennra hegningarlaga skal sá sem móðgar eða smánar maka sinn eða fyrrverandi maka, barn sitt eða annan mann sem er nákominn geranda, og verknaður verður talinn fela í sér stórfelldar ærumeiðingar, sæta fangelsi allt að tveimur árum. Af orðalagi ákvæðisins er ljóst að engu máli skiptir hér hvort brotaþoli teljist hafa verið sambúðarmaki ákærða eða fyrrverandi sambúðarmaki hans þegar meint brot var framið.

Svo sem fyrr var rakið liggur fyrir að ákærði tók margnefnda ljósmynd og sendi hana í kjölfarið til þriggja vina sinna. Spurður um ástæður fyrir töku myndarinnar sagðist ákærði hafa viljað eiga mynd ef brotaþoli myndi í samræðum þeirra síðar neita því að karlmaður hefði gist hjá henni, sem hún hefði einmitt gert síðar þennan sama dag. Ástæðu sendingar myndarinnar til vinanna þriggja kvað ákærði hafa verið að hann hefði langað til þess að ræða við þá um það sem gerst hafði.

Samkvæmt því sem fyrir liggur um málsatvik, meðal annars því sem áður er rakið um samband og sambandsslit ákærða og brotaþola og þeim texta sem ákærði lét fylgja ljósmyndinni er hann sendi hana, fólst að mati dómsins í hinni heimildarlausu myndatöku af brotaþola, hálfnakinni, og nöktum karlmanni, þar sem þau lágu sofandi saman í rúmi og eftirfarandi sendingu myndarinnar, móðgun og smánun af hálfu ákærða í garð brotaþola.  Það hlaut ákærða að vera ljóst en skýringar hans á ástæðum þessarar háttsemi sinnar eru að mati dómsins haldlitlar og samrýmast illa þeim skilaboðum sem ákærði sendi brotaþola síðar, en afrit þeirra liggja frammi í málinu. Samkvæmt öllu þessu telur dómurinn að ákæruvaldinu hafi tekist að sanna, gegn neitun ákærða, svo ekki verði vefengt með skynsamlegum rökum, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að ákærði hafi með fyrrgreindri háttsemi sinni gerst sekur um stórfelldar ærumeiðingar gegn brotaþola og hann með háttseminni brotið gegn 233. gr. b. almennra hegningarlaga.

V

Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins var ákærði með dómi Héraðsdóms […] […] sakfelldur fyrir fjárdrátt. Var ákærði dæmdur í 30 daga fangelsi vegna brotsins en fullnustu refsingarinnar frestað skilorðsbundið í tvö ár.

Með broti sínu nú rauf ákærði skilorð fyrrgreinds dóms. Samkvæmt því og með vísan til 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 ber að taka skilorðsdóminn upp og ákveða ákærða refsingu í einu lagi samkvæmt fyrirmælum 77. gr. almennra hegningarlaga.

Að broti ákærða virtu og með vísan til þess sem að framan er rakið þykir refsing ákærða réttilega ákveðin fangelsi í tvo mánuði. Vegna hins langa málsmeðferðartíma hjá lögreglu og ákæruvaldi þykir ekki annað koma til álita en fresta fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

VI

Í málinu krefst brotaþoli miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 800.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. september 2015, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi er liðinn var mánuður frá birtingu bótakröfunnar.

Samkvæmt framansögðu hefur dómurinn slegið því föstu að ákærði hafi brotið gegn brotaþola svo varði við 233. gr. b. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með hinni refsiverðu háttsemi hefur ákærði bakað sér bótaábyrgð gagnvart brotaþola á grundvelli b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Bætur fyrir miska skulu ákvarðaðar eftir því sem sanngjarnt þykir og við mat á fjárhæð þeirra skal einkum líta til alvarleika brotsins, sakarstigs brotamanns, huglægrar upplifunar brotaþola og loks umfangs tjónsins. Telja verður að brot af því tagi sem hér um ræðir séu almennt til þess fallin að valda þeim sem fyrir verður sálrænum erfiðleikum. Er framburður brotaþola, föður hennar og stjúpmóður því til stuðnings að sú sé raunin í tilviki brotaþola. Í málinu liggja hins vegar engin sérfræðigögn frammi til stuðnings kröfu brotaþola. Að endingu verður við mat á miskabótum til handa brotaþola litið til þess að ekkert haldbært liggur fyrir um útbreiðslu títtnefndrar ljósmyndar en óvissa hvað það varðar er að sínu leyti til þess fallin að auka á miska brotaþola. Að öllu þessu gættu þykja miskabætur til handa brotaþola réttilega ákvarðaðar 300.000 krónur. Um vexti og dráttarvexti af kröfunni fer svo sem í dómsorði greinir, en samkvæmt framlögðum rannsóknargögnum var krafan birt ákærða 31. maí 2016.

VII

Með vísan til úrslita málsins, sbr. 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, verður ákærða gert að greiða helming sakarkostnaðar. Ákærði dæmist því til að greiða helming þóknunar skipaðs verjanda síns, Lúðvíks Bergvinssonar lögmanns, og helming þóknunar skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Auðar Bjargar Jónsdóttur lögmanns, en þóknun hvors þeirra um sig þykir að gættu umfangi málsins hæfilega ákveðin svo sem í dómsorði greinir.

Dóm þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari. Fyrir uppsögu dómsins var gætt 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í tvo mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði 948.600 krónur í sakarkostnað, sem er helmingur þóknunar skipaðs verjanda ákærða, Lúðvíks Bergvinssonar lögmanns, sem í heild nemur 1.306.960 krónum að virðisaukaskatti meðtöldum, og helmingur þóknunar skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Auðar Bjargar Jónsdóttur lögmanns, 590.240 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum.

Ákærði greiði brotaþola, A, 300.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. september 2015 til 30. júní 2016, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

 

Kristinn Halldórsson