- Börn
- Kynferðisbrot
D Ó M U R
Héraðsdóms Norðurlands eystra föstudaginn 28. mars 2018 í máli
nr. S-224/2017:
Ákæruvaldið
(Katrín Hilmarsdóttir saksóknarfulltrúi)
gegn
X
(Ásgeir Örn Blöndal Jóhannsson lögmaður)
Mál þetta sem var dómtekið 2. febrúar höfðaði héraðssaksóknari hér fyrir dómi 3. nóvember 2017 með ákæru á hendur X;
„fyrir
kynferðisbrot gegn [A], með því að hafa á heimili sínu að [...] í fjölda skipta
frá því að stúlkan var þriggja ára gömul þar til hún var ellefu eða tólf ára
gömul, á tímabilinu frá árinu 2006 til 2014 eða 2015, látið stúlkuna snerta
kynfæri hans og látið hana fróa honum og í nokkur skipti einnig strokið brjóst
hennar og kynfæri innanklæða og farið með fingur inn í leggöng hennar, með því
að nýta sér yfirburði sína gagnvart stúlkunni og traust hennar og trúnað til
hans sem fósturafa hennar.
Telst
þetta varða við 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr.
19/1940,
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til
refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Einkaréttarkrafa:
Af hálfu [B], vegna
ólögráða dóttur hans, [A] er þess krafist að ákærði greiði stúlkunni 4.000.000
kr. í miskabætur með vöxtum samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 4. apríl
2007, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laganna frá því
einum mánuði eftir að ákærða er birt bótakrafa þessi til greiðsludags. Þá er
krafist hæfilegrar þóknunar vegna starfa réttargæslumanns að mati réttarins eða
samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi auk virðisaukaskatts.“
Ákærði neitar
sök. Hann krefst aðallega sýknu en til
vara að verða dæmdur til vægustu refsingar sem að lög leyfa. Þá krefst hann frávísunar bótakröfu en til
vara að hún verði lækkuð verulega.
I
Brotaþoli er
fósturbarn C dóttur ákærða. Fósturforeldrar hennar skildu árið […]. Auk þess að fóstra brotaþola ættleiddu þau D.
Eiginkona ákærða lést […].
Eru meint brot talin hafa átt sér stað
meðan brotaþoli var í gæslu eða í heimsókn hjá henni en eru þó sögð hafa haldið
áfram um skeið eftir að ákærði varð ekkill og þá einkum er hann gætti brotaþola
síðdegis.
Þann 13. október 2016 sendi
J sálfræðingur Barnavernd Eyjafjarðar tölvupóst þar sem hún lýsti því að
brotaþoli hefði komið til hennar daginn áður í þriðja viðtal haustsins. Í upphafi samtalsins hefði hún greint frá því
að hún þyrfti að segja frá stóru máli sem að hún hefði aldrei greint öðrum frá
og sagt það snúast um kynferðislegar athafnir sem hefðu verið hafðar við hana
frá því að hún hafi verið þriggja til ellefu ára gömul. Hún hafi sagt ákærða vera gerandann. Sagði sálfræðingurinn að ekkert hefði komið
fram hjá brotaþola hvað gerst hefði annað en að það hefðu verið kynferðislegar
athafnir.
F uppeldisráðgjafi og
starfsmaður barnaverndarnefndarinnar ræddi við brotaþola og ritaði síðan kæru
til lögreglu, 2. nóvember 2016. Segir þar
að í viðtalinu hafi komið fram að ákærði hafi á heimili sínu leitað á brotaþola
frá þriggja ára aldri uns hún hafi verið orðin ellefu ára gömul. Hann hafi strokið kynfæri hennar innan klæða
og látið hana strjúka lim sinn. Ef amma
hennar hafi verið heima hafi hann átt það til að fara með hana inn á
baðherbergi en ef þau hafi verið ein hafi þetta gerst í hægindastól hans. Hún hafi hætt að heimsækja hann eftir að hún varð
ellefu ára gömul.
II
Skýrsla var tekin af
brotaþola fyrir dómi 15. nóvember 2016. Þar
lýsti hún því að ákærði hefði brotið gegn henni frá þriggja ára aldri uns hún var
orðin ellefu ára gömul. Fyrst hefði
þetta falist í því að hann hefði fengið hana til að fara með sér niður á
bryggju og snerta á honum typpið. Það
hefði einnig gerst heima hjá honum. Hún
minntist þess að hafa barnung, líklega þriggja ára gömul, gert sér að leik að
úthluta fólki salernispappír. Ákærði
hefði notfært sér þetta til að láta hana fylgja sér á salerni og snerta
sig. Nánar tiltekið hefði hann látið
hana strjúka á sér liminn. Þegar hún var
orðin sex eða sjö ára gömul hefði hann látið hana nota hraðari hreyfingar og
eitthvað hefði komið úr limnum. Eftir
lát ömmu sinnar hefði hún stundum verið í gæslu hjá ákærða og beðið þess að
móðir hennar kæmi að sækja hana. Atvik
hefðu gjarnan verið þannig að ákærði hefði byrjað á því að fara með hana í
bakaríið og þau fengið sér að borða.
Eftir það hefði hann látið hana fróa honum. Þegar hún hefði verið orðin um ellefu ára
gömul hefði ákærði farið að þreifa á henni innan klæða, bæði á brjóstum og
kynfærum. Hann hefði síðan farið með
fingur inn í kynfæri hennar. Þetta hefði
meitt hana. Ákærði hefði spurt hvort
þetta væri vont og hún ekki þorað að neita.
Hún kvaðst hafa sagt sálfræðingnum J fyrstri frá þessu. Hún var spurð hversu oft hún héldi að
eitthvað hefði komið úr typpi ákærða. Kvaðst
hún ekki vera viss en muna sérstaklega eftir því þegar það hefði farið á flík
sem hún hefði þá fargað. Yfirleitt hefði
þetta farið á buxur hans eða á gólfið.
III
Í málinu liggur
vottorð dags. 29. janúar sl., frá G barna- og unglingageðlækni. Vottar hún að brotaþoli hafi nokkrum sinnum í
viðtölum við sig nefnt að hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi af hálfu
fósturafa. Hvað hafi gerst og hvenær
hafi ekki verið rætt í þessum viðtölum. Brotaþoli hafi fyrst komið til
meðferðar hjá lækninum að tilhlutan barna- og unglingageðteymis Sjúkrahúss Akureyrar
í mars 2017. Hafi verið beðið um aðkomu
teymisins af barnaverndarnefnd vegna vanlíðunar og hegðunarvanda brotaþola.
Þá liggur fyrir
staðfesting, dagsett 8. nóvember 2017, frá H starfsmanni Barnahúss, á að
brotaþoli hafi mætt í 14 meðferðarviðtöl til I sérfræðings í klínískri
barnasálfræði á tímabilinu 24. nóvember 2016 til 22. júní 2017. Brotaþoli hafi síðan notið áframhaldandi
stuðnings í heimabyggð vegna veikindaleyfis I.
Þá liggur fyrir
vottorð I, dagsett 17. janúar sl., vegna greiningar og meðferðar
brotaþola. Segir í samantekt í lok
vottorðsins að brotaþoli hafi komið í 14 viðtöl en gera hafi þurft hlé á
meðferð og sé henni ólokið. Brotaþoli
hafi tekið virkan þátt í meðferðinni og gert góða grein fyrir líðan sinni á
skýran og eðlilegan hátt. Hún hafi gert
grein fyrir kynferðisofbeldi á trúverðugan hátt og þeim afleiðingum sem það
hafi haft í för með sér á líðan hennar, sjálfsmynd, samskipti og tengsl við
annað fólk. Þegar tekið sé mið af þeim neikvæðu áhrifum sem meint
kynferðisofbeldi hafi haft á brotaþola, birtingu og þróun einkenna og niðurstöðu
mats og greiningartækja sé það álit sálfræðingsins að brotaþoli glími við
umtalsverðar sálrænar og félagslegar afleiðingar vegna ofbeldisins. Erfitt sé að segja til um það með nokkurri
vissu hve langvarandi erfiðleikar brotaþola komi til með að verða eða hvaða
meðferð hún þurfi til lengri tíma litið, sérstaklega þar sem meðferð sé ekki
lokið. Sálfræðingurinn kveðst telja að brotaþoli þurfi verulega á áframhaldandi
meðferð að halda og hún þurfi að hefjast sem fyrst. Einnig sé algengt að erfiðleikar af þessu
tagi taki sig upp aftur í tengslum við ýmsa aðra reynslu sem fólk verður fyrir
og því sé ekki ólíklegt að brotaþoli þurfi meðferð aftur síðar á lífsleiðinni.
Ennfremur liggur fyrir
í málinu vottorð J, dags. 15. nóvember 2017, þar sem segir að hún hafi þekkt
til málefna brotaþola um langt skeið.
Brotaþoli hafi komið í viðtöl um það bil hálfsmánaðarlega ,,frá hausti“ sem
og reglulega síðustu tvo vetur.
Sálfræðingurinn hafi haft miklar áhyggjur af líðan brotaþola og haft
frumkvæði að því að vísa henni til K barna-og unglingageðlæknis. Einnig hafi brotaþoli greint frá því í
viðtali að hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi og hafi það verið tilkynnt
til barnaverndarnefndar. Þá hafi
sálfræðingurinn átt samskipti við uppeldisföður brotaþola eftir þörfum sem og G
barna- og unglingageðlækni.
Sálfræðingurinn segir að þau brotaþoli hafi ekki rætt þá atburði sem
hafi leitt til þess að brotaþoli hafi notið þjónustu Barnahúss en brotaþoli
hafi endurtekið greint frá því að hugsa oft um þær aðstæður, segist óttast að
sjá meintan geranda auk þess sem hún geti ekki horft á myndir þar sem
kynferðislegt ofbeldi komi við sögu án þess að falla saman. Hafi það gerst bæði í skóla sem og í […] þar
sem hún njóti þjónustu. Í undanförnum
tveimur viðtölum hafi brotaþoli verið mjög vör um sig og þegar sálfræðingurinn
hafi eitt sinn andvarpað hafi brotaþoli kippst við og sagt reiðilega með tár í
augum að þetta mætti sálfræðingurinn aldrei gera aftur því að það hafi minnt á
meintan geranda. Brotaþoli hafi nefnt að
viðtöl í meðferð hjá Barnahúsi hafi verið erfið og hún viti ekki hvort hún
treysti sér til að halda þeim áfram.
Sálfræðingurinn kveðst telja að brotaþoli þurfi áframhaldandi þjónustu
hjá Barnahúsi. Þær upplýsingar sem
sálfræðingurinn hafi úr viðtölum við hana bendi til mikillar vanlíðunar sem að
hluta virðist tengd því kynferðislega ofbeldi sem hún hafi greint frá að hafa
orðið fyrir.
Þá liggur fyrir
vottorð frá L umsjónarkennara í ...skóla, dags. 29. janúar 2018. Samkvæmt því
kom brotaþoli í umsjónarbekk kennarans haustið 2016. Segir þar að vanlíðan hafi verið að búa um
sig í barninu um nokkurt skeið. Það hafi
virst frekar dapurt og kvíðið og dregið sig alltaf meir og meir frá
bekkjarsystkinum sínum. Eftir að barnið
hafi komið í umsjón kennarans hafi líðan þess greinilega versnað, það dragi sig
meir og meir í hlé, sinni ekki námi og hafi lítil sem engin samskipti við
bekkjarsystkinin. Í samtölum tjái það
sífellt meiri vanlíðan sem hafi meðal annars komið fram í sjálfskaðandi hegðun.
Þá liggur í málinu
vottorð vegna afskipta Barnaverndar Eyjafjarðar dags. 27. janúar 2018,
undirritað af M félagsráðgjafa. Segir
þar að afskipti barnaverndarnefndar hafi byrjað í apríl 2015 eftir tilkynningu
frá ...skóla vegna áhyggna af líðan brotaþola.
Málið hafi verið kannað og í framhaldi af því hafi verið gerð
meðferðaráætlun með foreldrum og stuðningur veittur síðan. Áhyggjur hafi verið uppi af andlegri líðan
brotaþola undanfarin ár. Umsjónarkennari
í 6. bekk hafi lýst því í bréfi að brotaþoli sýndi mikla vanlíðan í skólanum og
hafi greint frá því að vilja ekki lifa.
Hafi kennarinn metið það svo að brotaþoli þyrfti á mikilli aðstoð að
halda. Fundað hafi verið til samráðs frá
hausti 2015. Síðastliðið skólaár hafi
brotaþoli unnið sér lítið til gagns í skólanum þrátt fyrir að mæta. Hún hafi sýnt starfsfólki mótþróa og ekki
gert það sem að fyrir hana hafi verið lagt.
Félagsleg staða hennar hafi verið veik um langt skeið en hún hafi ekki
sjálf gefið jafnöldrum færi á að tengjast sér.
Brotaþoli hafi verið í sálfræðiviðtölum hjá J frá september 2015. Tilkynning hafi komið frá J í október 2016 og
rannsókn byrjað á meintum kynferðisbrotum í framhaldi af því. Brotaþoli hafi átt ágætt tímabil í byrjun
þessa skólaárs. Hún hafi verið jákvæðari
og tilbúin til að leggja eitthvað af mörkum í skólanum. Sótt hafi verið um […]. Fari brotaþoli þangað tvisvar í viku og hafi
nýtt sér það ágætlega. Fljótt hafi farið
að halla undan fæti og hafi áhyggjur starfsfólks og meðferðaraðila sem að málum
hennar hafi komið aukist jafnt og þétt.
Brotaþoli hafi ítrekað sagt frá því að vilja ekki lifa og tekið inn
mikið magn lyfja í skólanum 15. janúar sl., þá verið flutt á spítala og dvalið
á gjörgæslu í sólarhring og þaðan farið á barnadeild, síðan í innlögn á barna-
og unglingageðdeild Landspítalans 24. janúar sl. og dvalið þar í þrjá
sólarhringa. Stefnt sé að því að fá
innlögn aftur sem fyrst.
IV
Ákærði kaus að tjá sig
ekki um sakargiftir fyrir dómi.
Dóttir ákærða, C, gaf
vitnaskýrslu. Hún kveðst vera einkabarn
móður sinnar heitinnar en eiga ... hálfsystkini. Hún kveðst hafa skilið við mann sinn fyrir
tveimur árum og dætur þeirra tvær búi hjá honum. Hún kveðst ekkert hafa vitað um meint brot
ákærða gegn brotaþola fyrr en það hafi verið hringt í sig síðastliðið haust af
lögreglu og henni sagt frá þessu. Hún
segir að brotaþoli hafi ekki sagt sér neitt um atvikin nema að brotið hafi
verið gegn sér. Hún kveðst hafa orðið
hissa á þessu en eftir á að hyggja hafi hún tekið eftir því að dætur hennar D
og brotaþoli hafi vikið frá þegar faðir hennar hafi verið að kveðja þær. Faðir hennar hafi oft gætt brotaþola. Sjálf hafi hún verið að vinna í verslun og
hann hafi sótt brotaþola í skóla og farið með hana heim og síðan hafi þau komið
heim til þeirra í kvöldmat. Vitnið
kveðst muna að brotaþoli hafi oft elt föður hennar inn á baðherbergi og kveðst
hún muna eftir því að brotaþoli hafi sem barn skammtað fólki
salernispappír. Þá hefur vitnið eftir
dóttur sinni, D, að ákærði hafi þuklað á henni en hún hafi ekki viljað fara
nánar út í það. Þetta hafi D sagt henni fljótlega
eftir að þetta mál hafi komið upp.
Vitnið kveðst trúa frásögn brotaþola, m.a. með tilliti til þess atviks á
síðasta ári þegar faðir brotaþola hafi ætlað að fara með hana í tiltekið bakarí
og brotaþoli hafi þá fallið saman og sagt að afi hennar hafi alltaf farið með
hana í þetta bakarí áður en hann hafi farið með hana heim. Þá hafi brotaþola farið að líða betur eftir
að hún hafi sagt frá þessu.
Vitnið B fyrrverandi
tengdasonur ákærða og fósturfaðir brotaþola gaf skýrslu fyrir dómi. Hann rifjaði upp að hafa ekið brotaþola til
sálfræðings og hún þá látið falla alvarleg orð í þá veru að hann myndi kannski
drepa einhvern en hann hafi ekkert vitað hvað hún ætti við. Síðan hafi sálfræðingurinn látið sig vita um
meint kynferðisbrot. Vitnið kannaðist við
að brotaþoli hefði fallið saman þegar vitnið hefði ætlað að fara með hana í
bakarí og það hefði verið vegna þess að ákærði hefði oft farið með hana þangað.
Fóstursystir brotaþola,
D, gaf skýrslu fyrir dómi. Hún sagði að brotaþoli hefði greint sér frá því
síðla árs 2016 að hafa orðið fyrir brotum af hálfu ákærða. Vitnið kvaðst þegar hafa trúað þessu því að
ákærði hefði viðhaft óviðeigandi hegðun gagnvart henni þegar hún var barn. Hann hefði nuddað sér upp við hana þannig að
henni hefði þótt það óþægilegt, hún hefði ekki viljað vera nálægt honum og
alltaf þegar hann hefði komið hefði hún forðað sér. Hún kvaðst minnast þess að ákærði hefði oft farið
með brotaþola til baðherbergis en kvaðst ekki hafa velt því fyrir sér á þeim
tíma.
Vitnið J staðfesti
framangreint bréf sitt og það að hafa tilkynnt barnaverndaryfirvöldum á sínum
tíma um meint brot eftir að brotaþoli hefði greint henni frá því. Hún sagði að brotaþoli hefði ekki rætt
háttsemi ákærða í einstökum atriðum, aðeins sagt að hann hefði haft kynferðislega
tilburði við hana.
Þá gaf skýrslu vitnið I
og staðfesti framangreint vottorð sitt og svaraði einstökum spurningum varðandi
efni þess.
Vitnið F starfsmaður
Barnaverndar Eyjafjarðar staðfesti að hafa rætt við brotaþola sem hefði sagt
frá því að stjúpafi hennar hefði misnotað hana frá þriggja til ellefu eða
þrettán ára aldurs.
V
Eins og áður segir
neitar ákærði sök og tjáði sig ekki um sakargiftir fyrir dómi. Er því ekki unnt
að leggja mat á trúverðugleika framburðar hans.
Ákærði og brotaþoli
eru ein til frásagnar um þá háttsemi sem ákærða er gefin að sök. Framburður brotaþola fær stoð í nokkrum
atriðum. Er það fyrst að nefna að
fósturmóðir hennar og fóstursystir kannast við það að brotaþoli hafi gert sér
að leik að úthluta salernispappír eins og hún lýsir og að hún hafi oft fylgt
ákærða á salerni. Þá hefur brotaþoli
greint starfsmanni Barnaverndar Eyjafjarðar og sálfræðingum frá því að brotið
hafi verið gegn sér og er í vottorðum sálfræðinganna lýst einkennum sem vel
geta samrýmst því að vera afleiðingar slíkrar reynslu. Þá kom fram í framburði fósturföður brotaþola
að hún hafi fallið saman við að fara í tiltekið bakarí sem hún segir ákærða
hafa farið með sig í áður en hann braut gegn henni og sálfræðingur lýsti því að
það hefði fengið mjög á brotaþola þegar sálfræðingurinn andvarpaði vegna þess
að það minnti brotaþola á andvarp frá ákærða. Þá kom fram í framburði fósturmóður brotaþola
að brotaþoli og fóstursystir hennar hafi forðast að kveðja ákærða. Fóstursystirin
og brotaþoli bera báðar að hafa forðast ákærða.
Þegar þetta er virt þykir
framburður brotaþola vera trúverðugur. Verður
hann lagður til grundvallar og talið nægilega sannað að ákærði hafi gerst sekur
um þá háttsemi sem í ákæru greinir og varðar við þar tilgreind refsiákvæði.
Ákærði hefur ekki áður sætt refsingum
samkvæmt sakavottorði. Brot hans gegn
brotaþola voru alvarleg og til þess fallin að valda henni miklum þjáningum.
Liggur fyrir að sálfræðimeðferð hefur verið henni erfið. Brotin stóðu yfir í langan tíma. Hefur ákærði engar málsbætur en litið verður
til þess við ákvörðun refsingar að hann er í hárri elli, sbr. 4. tl. 1. mgr.
70. gr. almennra hegningarlaga. Þá ber
að líta til 1. tl. og 2. tl. sömu mgr., svo og 3. mgr. 70. gr. Ákveðst refsing ákærða fangelsi í fjögur ár.
Ákærði hefur bakað sér bótaskyldu gagnvart
brotaþola og þykja bætur hæfilega ákveðnar 2,5 milljónir króna með vöxtum eins
og krafist er og nánar greinir í dómsorði. Ákærði verður dæmdur til að greiða allan
kostnað sakarinnar sem samkvæmt yfirliti nemur 75.000 krónum. Málsvarnarlaun skipaðs verjanda og þóknun
skipaðs réttargæslumanns ákveðast eins og greinir í dómsorði að
virðisaukaskatti meðtöldum.
Dóminn kveða upp Erlingur Sigtryggsson
dómstjóri, Halldór Björnsson héraðsdómari og Halldór Halldórsson dómstjóri. Gætt var ákvæðis 1. mgr. 184. gr. laga nr.
88/2008.
D Ó M S O R Ð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í fjögur ár.
Ákærði greiði A 2.500.000 krónur með vöxtum
samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 4. apríl 2007 til 21. janúar 2017, en
dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til
greiðsludags.
Ákærði greiði 1.213.320 krónur í
sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ásgeirs Arnar
Blöndals lögmanns, 653.480 krónur og réttargæslulaun Auðar Harnar Freysdóttur
lögmanns, 484.840 krónur.