- Skaðabætur
- Skaðabótamál
D Ó M U R
Héraðsdóms Reykjavíkur 18. mars 2010 í máli nr. E-3228/2009:
Þorleifur Friðriksson
(Guðni Á. Haraldsson hrl.)
gegn
íslenska ríkinu
(Óskar Thorarensen hrl.)
Mál þetta, sem dómtekið var 25. febrúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Þorleifi Friðrikssyni, Hlíðarhvammi 4, Kópavogi, á hendur íslenska ríkinu, Arnarhváli, Reykjavík, með stefnu áritaðri um birtingu 6. mars 2009.
Dómkröfur stefnanda eru þessar:
- Aðallega að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð kr. 10.509.193 með vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. ágúst 2006 til þingfestingardags en dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Til vara að stefndi verið dæmdur til þess að greiða stefnanda bætur að álitum samkvæmt mati réttarins.
- Að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda kr. 1.200.000 í miskabætur með vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. ágúst 2004 til þingfestingardags en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
- Að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda málskostnað skv. gjaldskrá Löggarðs ehf.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati réttarins. Til vara er þess krafist að stefnukrafa verði lækkuð verulega og að málskostnaður verði felldur niður.
Málsatvik
Stefnandi er framhaldsskólakennari. Hann útskrifaðist frá Kennaraskólanum árið 1973. Hann nam sagnfræði við Háskóla Íslands eftir það og lauk BA prófi í sagnfræði árið 1974. Hann er með doktorspróf í sagnfræði frá Háskólanum í Lundi frá árinu 1990. Hann stundaði um langt árabil sagnfræðirannsóknir og kennslu við Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands.
Árið 1997 var hann ráðinn sem kennari við Menntaskólann við Sund. Upphaflega var hann ráðinn í hálft starf en kenndi síðar meira eða minna fullt starf. Eftir að hann hafði kennt í tvö ár var honum boðin fastráðning sem hann þáði.
Með auglýsingu í Morgunblaðinu 21. apríl 2002 auglýsti Menntaskólinn í Kópavogi (MK) m.a. lausa stöðu sögukennara við skólann fyrir skólaárið 2002 til 2003. Í auglýsingunni kom fram að laus væri til umsóknar 1 staða í sögu við skólann. Stefnandi sótti um þá stöðu og var umsókn hans tekin til greina og haustið 2002 var hann ráðinn tímabundið til eins árs við skólann eða frá 1. ágúst 2002 til 31. júlí 2003. Kenndi hann 22 kennslustundir og var þannig í 95% starfi. Sá samningur var síðan endurnýjaður frá 1. ágúst 2003 til 31. júlí 2004 og var þá miðað við 100% starfshlutfall. Haustið 2004 var enn á ný gerður tímabundinn ráðningarsamningur við stefnanda í 100% starf frá 1. ágúst 2004 til 31. júlí 2005. Haustið 2005 var útbúinn ráðningarsamningur við stefnanda sem átti að gilda frá 1. ágúst 2005 en stefnandi neitaði að skrifa undir þann samning. Skólameistari MK útbjó á ný samning við stefnanda sem átti að gilda frá 1. janúar 2006 til 31. júlí s.á. en stefnandi neitaði einnig að skrifa undir þann ráðningarsamning. Með tölvupósti 6. júní 2006 tilkynnti skólameistari Menntaskólans í Kópavogi (MK) að ekki gæti orðið af frekari ráðningu stefnanda hjá skólanum og starfaði stefnandi ekki við skólann eftir það.
Stefnandi kvartaði til umboðsmanns Alþingis í febrúar 2007 vegna fyrirkomulags ráðningar hans til kennslu við Menntaskólann í Kópavogi og starfsloka hans við skólann. Samkvæmt áliti umboðsmanns Alþingis 31. desember 2007 er það niðurstaða hans að sú ákvörðun Menntaskólans í Kópavogi haustið 2004 að bjóða stefnanda aðeins tímabundinn ráðningarsamning eftir að hann hafði starfað við skólann samfellt í tvö ár hafi ekki verið í samræmi við ákvæði 41. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
Með bréfi Félags framhaldsskólakennara til Menntaskólans í Kópavogi 11. apríl 2008 var þess óskað að skólinn tæki afstöðu til þess með hvaða hætti yrði komið til móts við stefnanda í ljósi álits umboðsmanns Alþingis.
Með bréfi lögmanns Menntaskólans í Kópavogi 22. maí 2008 var bótaskyldu hafnað. Af þeim sökum hefur stefnandi höfðað mál þetta.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Á því sé byggt í máli þessu að stefnandi hafi verið ráðinn sem framhaldsskólakennari við Menntaskólann í Kópavogi haustið 2002. Á því sé byggt að haustið 2004 hafi hann átt rétt á fastráðningu í starf sem framhaldsskólakennari við Menntaskólann í Kópavogi. Sú ákvörðun skólameistara Menntaskólans í Kópavogi að hafna beiðni hans um fastráðningu hafi verið ólögmæt. Þá sé einnig á því byggt að stefnandi hafi haft stöðu fastráðins starfsmanns þegar honum var hinn 6. júní 2006 einhliða tilkynnt með tölvupósti að hann yrði ekki ráðinn áfram hjá stefnda.
Fyrir liggi í máli þessu að stefnandi sótti um stöðu sögukennara við Menntaskólann í Kópavogi. Í auglýsingu hafi hvorki verið tekið fram að um afleysingu né tímabundið starf hafi verið að ræða heldur kom þar fram að um væri að ræða fulla stöðu. Þegar stefndi hugðist ráða stefnanda áfram til starfa tímabundið haustið 2004 hafi stefnandi neitað að rita undir tímabundna ráðningu og hafi vitnað um rétt sinn til ákvæða laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna. Í 1. mgr. 41. gr. laga nr. 70/1996 sé að finna eftirfarandi texta:
Starfsmenn ríkisins, aðrir en embættismenn, skulu ráðnir til starfa
ótímabundið með gagnkvæmum uppsagnarfresti.
Þá segi í athugasemdum með frumvarpi að lögunum að það sé meginregla að starfsmenn skuli vera ráðnir ótímabundið. Þessi regla eigi sér einnig stoð í 1. mgr.
16. gr. laga nr. 86/1998 um lögverndun o.fl.
Framhaldsskólakennarar skulu ráðnir til starfa ótímabundið með gagn-
kvæmum uppsagnarfresti.
Þannig fari það ekki milli mála að það sé vilji löggjafans að framhaldsskólakennarar skuli að meginstefnu til vera ráðnir til starfa með ótímabundnum ráðningarsamningum. Þannig sé hér um meginreglu að ræða og fjármálaráðuneytið hafi í bréfi sínu til umboðsmanns Alþingis frá 2. júlí 2007 viðurkennt reglu þessa.
Í 2. mgr. 41. gr. laga nr. 70/1996 sé að finna undanþáguheimild fyrir því að ráða ríkisstarfsmenn tímabundið. Tímabundin ráðning skuli þó samkvæmt ákvæðinu aldrei vara samfellt lengur en í tvö ár. Samskonar ákvæði sé að finna í 2. mgr. 16. gr. laga nr. 86/1998 um lögverndun o.fl. Þar segir að heimilt sé að ráða framhaldsskólakennara tímabundið. Slík ráðning skuli þó aldrei vara samfellt lengur en tvö ár.
Samskonar ákvæði sé einnig að finna í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 139/2003 um tímabundnar ráðningar starfsmanna.
Á því sé byggt að fyrirkomulag kennslu við áfangakerfi í framhaldsskólum rými ekki burt þeim lögum og reglum er Alþingi Íslendinga hafi sett, heldur verði framhaldsskólar að aðlaga kennslu og kennsluhætti eftir þeim lögum er gilda í landinu hverju sinni.
Á því sé byggt að stefnandi hafi verið ráðinn tímabundið sem framhaldsskólakennari við Menntaskólann í Kópavogi skólaárið 2002-2003 og skólaárið 2003-2004. Þannig hafi tímabundin ráðning hans varað samfellt í tvö ár. Því hafi hann haustið 2004 er honum var boðin kennsla við Menntaskólann í Kópavogi borið ótímabundinn ráðning í samræmi við þær meginreglur sem fram séu settar í framangreindum lagaákvæðum. Engu máli hafi skipt hvort óljóst hafi þá verið um kennslumagn eða hvort starfshlutfall hafi verið 100%. Sú staðreynd ein að hann hafði verið ráðinn tímabundið í tvö ár átti að leiða til þess að næsti ráðningarsamningur hans átti að vera ótímabundinn. Þannig hafi verið hægt að ráða hann ótímabundið í annað og lægra starfshlutfall en fullt starf. Sú afsökun skólameistara að kennslumagn hafi verið óvíst komi ekki til skoðunar þegar skoðuð séu ákvæði laga nr. 70/1996 og ákvæði laga nr. 86/1998. Þannig hafi ákvæði laganna ekki slíkar undantekningar og þannig mátti skólameistari ekki setja slíkt fyrir sig þegar hann bauð stefnanda áframhaldandi ráðningu.
Með því að viðurkenna slíkar undanþágur væri meginregla laganna í raun ónýt. Þannig væri með hægu móti hægt að komast fram hjá henni og virða þannig að vettugi þessa meginreglu sem nú hafi verið staðfest á öllu áhrifasvæði Evrópska efnahagssvæðisins. Löggjafinn, Alþingi Íslendinga, hafi með framangreindum ákvæðum sett þá meginreglu að ráðningar ríkisstarfsmanna skuli verða ótímabundnar. Þá hafi hann að sama skapi fært framhaldsskólakennurum þann rétt að ef þeir eru ráðnir tímabundið í tvö ár eigi þeir eftir það rétt á fastráðningu.
Þá sé á það bent að ótímabundin ráðning upphefji ekki uppsagnarfrest vinnuveitandans. Vinnuveitandinn geti hvenær sem málefnalegar ástæður séu til staðar, eins og fækkun nemenda, sagt upp slíku starfi með þriggja mánaða uppsagnarfresti. Þess vegna sé tregða skólameistara Menntaskólans í Kópavogi í raun óskiljanleg.
Því sé hafnað sem fram komi í bréfi lögmanns Menntaskólans í Kópavogi frá 22. maí 2008 að um hafi verið að ræða afleysingastöðu. Stefnandi hafi tekið þessa meðvituðu ákvörðun um að ráða sig til kennslu við nýjan skóla með það í huga að gera þá kennslu að aðalstarfi sínu. Hann hefði aldrei farið úr fastri stöðu nema vegna þess að hann taldi sig vera að fá aðra sambærilega stöðu. Þá sé því alfarið hafnað að það breyti eða felli niður rétt stefnanda þótt einhverjir kennarar hafi farið í frí og hann þar af leiðandi sinnt hluta af starfi þeirra. Það breyti engu um lögbundinn rétt hans til ótímabundinnar ráðningar. Sú undanþága sem fram komi í ákvæðum laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur ríkistarfsmanna og 86/1998 um lögverndun hafi ekki að geyma undanþágu vegna afleysinga. Þannig upphefji ákvæðin ekki rétt stefnanda við slíkar aðstæður.
Þá skipti engu máli í þessu sambandi þótt stefnanda hafi verið greint frá því að ekki kæmi til greina að ráða hann ótímabundið. Slík neitun samhliða endurráðningu hans hafi verið og sé klárt brot á 41. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sbr. 2. mgr. 16.gr. laga um lögverndun nr. 86/1998, sbr. nú 16. gr. laga nr. 87/2008 og 1. mgr. 5. gr. laga um tímabundna ráðningu starfsmanna nr. 139/2003. Þannig varð skólameistari að bjóða honum og ráða hann ótímabundinni ráðningu fyrst hann á annað borð bauð honum endurráðningu.
Þá sé um þetta vitnað til afstöðu fjármálaráðuneytis sem fram komi í áliti umboðsmanns Alþingis frá 31. desember 2007.
Á því sé byggt í máli þessu að hin ólögmæta ákvörðun skólameistara hafi leitt af sér tjón fyrir stefnanda sem hann eigi með vísan til almennu sakarreglunnar og 8. gr. laga nr. 139/2003 að fá bætt að fullu. Þannig hafi verið um ásetning að ræða, til vara gáleysi, þegar tekin var sú ákvörðun að neita honum um ótímabundna ráðningu. Tjónið megi beinlínis rekja til athafna starfsmanna stefnda, verið fyrirsjáanlegt og í eðlilegum tengslum við hina ólögmætu athöfn. Hefði stefnandi verið ráðinn ótímabundinni ráðningu verði að ætla að hann væri þar enn við störf. Þannig hefði hann haft laun eins og þau sem rakin séu hér að neðan. Þau laun séu talsvert hærri en laun þau sem hann hafi haft eftir að hann lét af störfum hjá Menntaskólanum í Kópavogi sumarið 2006. Krafið sé um mismun launa frá þeim tíma og fram til loka ársins 2008, sbr. sundurliðun hér að neðan.
Þá sé að lokum vísað til röksemda í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 4929/2007.
Um rétt sinn vísar stefnandi til 41. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, til 2. mgr. 16. gr. laga um lögverndun o.fl. nr. 86/1998, til 1. mgr. 5. gr. laga nr. 139/2003 um tímabundnar ráðningar starfsmanna og 8. gr. sömu laga. Einnig til almennu sakarreglunnar. Þá vísar hann til almennra reglna kröfuréttar og skaðabótaréttar innan samninga. Um dráttarvexti og vexti á skaðabótakröfu vísar hann til 1. mgr. 6. gr. og 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001. Um málskostnað til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um aðild íslenska ríkisins sé vísað til laga nr. 92/2008 um framhaldsskóla, sbr. áður lög nr. 80/1996.
Bótakrafan
Fyrsti hluti skaðabótakröfu stefnanda byggist á því að hann hafi átt að halda fullum launum miðað við fullt starf frá 1. ágúst 2004 út júlí 2006. Þannig hafi hann verið ráðinn í fullt starf. Ekki sé fyrir að fara ráðningarsamningi um annað en fullt starf og því hafi hann átt rétt á fullum launum fyrst stefndi ákvað að ráða hann áfram til starfa eftir tveggja ára tímabundna ráðningu. Um útreikning á þeim launum sem stefnandi hefði átt að fá greitt miðað við fullt starf og fékk síðan greitt sé vísað til framlagðs útreiknings. Samkvæmt því nemi mismunur kr. 759.142 að viðbættu lífeyrisframlagi.
Á því sé byggt að stefnandi hafi átt að hafa stöðu sem fastráðinn þegar honum hinn 6. júní 2006 var tilkynnt án fyrirvara að starfa hans væri ekki framar óskað hjá stefnda. Þannig hafi í raun verið um ólögmæta uppsögn að ræða sem stefnandi beri ábyrgð á þar sem stefnandi hefði þannig átt að hafa þriggja mánaða uppsagnarfrest. Uppsögnin hafi svo aftur leitt til þess að stefnandi hafi tapað tekjum og í raun ekki fengið neina vinnu við sögukennslu eftir þetta. Hann geri því kröfu um skaðabætur er jafngildi þriggja mánaða launum eins og þau voru á þessum tíma. Um þann útreikning sé vísað til framlagðs útreiknings.
Að lokum krefur stefnandi um bætur er jafngildi launum hans sem framhaldsskólakennara í fullu starfi frá og með júlí 2006 til 31. desember 2008 að frádregnum þeim launum sem hann hafði á því tímabili. Um samantekt á kröfunni sé vísað til framlagðs útreiknings. Frá þeim launum dragist laun sem stefnandi hafði á sama tímabili og vísast um það til staðgreiðsluyfirlita. Á því sé byggt í þessum þætti að engin staða við sögukennslu hafi í raun losnað á höfuðborgarsvæðinu frá því að stefnanda var á ólögmætan hátt sagt upp störfum. Þannig hafi hann ekki getað stundað þá vinnu sem hann sé menntaður til heldur hafi neyðst til þess að finna sér önnur verkefni.
Krafa stefnanda sundurliðast því þannig:
1. Mismunur á launum fyrir fulla stöðu og hlutastarf
1. sept. 2004-júlí 2006 kr. 759.142
2. Bætur er jafngilda launum í uppsagnarfresti 3 x 259.123 kr. 777.369
3. Bætur er jafngilda launum fyrir fullt starf að frádregnum
launum sem stefnandi hafði tímabilið september 2006
út desember 2008 kr. 7.760.369
4. Bætur er jafngilda 13.04% orlofi á töluliði 1.-3. kr. 1.212.313
Samtals kr. 10.509.193
Verði ekki fallist á aðalkröfur stefnanda sé þess krafist að honum verði með vísan til dómvenju Hæstaréttar dæmdar bætur að álitum. Hæstiréttur Íslands hafi margoft, þegar um ólögmæta uppsögn starfsmanna sé að ræða, dæmt bætur að álitum og sé vitnað til þeirra dóma.
Miskabætur
Stefnandi krefur stefnda um miskabætur á grundvelli 26. gr. laga nr. 50/1993. Því sé haldið fram að sú ákvörðun stefnda að neita að fastráða stefnanda þrátt fyrir skýr lagaákvæði þar um hafi verið tekin af ásetningi, til vara af stórkostlegu gáleysi. Ákvörðunin hafi beinst að stefnanda sem kennara og þannig verið brot á starfsheiðri hans og æru. Stefnandi sem haft hafi fasta stöðu í fyrri skóla hafi mátt vænta þess að fá fastráðningu eftir tveggja ára starf við skólann. Eftir að hann hafi verið flæmdur úr skólanum um vorið 2006 hafi engin staða sögukennara verið auglýst á höfuðborgarsvæðinu og hann því í raun verið atvinnulaus í sínu fagi. Þannig hafi ákvörðunin einnig verið brot á hans persónu. Krafið sé um kr. 1.200.000 sem stefnandi telur hæfilegar bætur honum til handa.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi tekur það fram að hann telur ekki heimilt að ráða starfsmenn tímabundið samfellt í lengri tíma en tvö ár, sbr. 2. mgr. 41. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og ákvæði laga nr. 139/2003, um tímabundna ráðningu starfsmanna. Því bar við lok þess tíma sem stefnandi hafði starfað tímabundið í 2 ár að auglýsa stöðuna, sbr. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 70/1996, enda hefði starfið þá átt að vera laust. Ósannað sé með öllu hverjir hefðu sótt um starfið að undangenginni auglýsingu. Það sé m.a. sé ósannað að stefnandi hefði sótt um og hvort hann hefði verið talinn hæfastur umsækjenda. Að mati stefnda sé útilokað að segja að skólameistara hafi borið að fastráða stefnanda eins og stefnandi heldur fram. Stefndi mótmælir því að stefnandi hafi átt rétt á fastráðningu. Hann átti aðeins rétt á fastráðningu ef hann var talinn hæfastur umsækjenda að undangenginni auglýsingu um starfið.
Felist það í niðurstöðu umboðsmanns Alþingis að borið hafi að fastráða stefnanda haustið 2004, þá sé stefndi ósammála þeirri niðurstöðu.
Stefnandi haldi því fram í stefnu að í auglýsingu um starfið hafi hvorki verið tekið fram að um afleysingu væri að ræða eða tímabundið starf, heldur fulla stöðu. Stefndi er ósammála þessu. Í auglýsingunni komi fram að við Menntaskólann í Kópavogi séu laus störf næsta skólaár. Að auki megi benda á að gerður hafi verið við stefnda tímabundinn ráðningarsamningur og gat þetta mikilvæga atriði ekki farið fram hjá honum.
Í stefnu komi fram að stefnandi hefði aldrei farið úr fastri stöðu nema vegna þess að hann væri að fá sambærilega stöðu. Ekki hafi verið sýnt fram á starfshlutfall stefnanda í Menntaskólanum við Sund og hvort hann hafi verið þar í fastri stöðu. Bent sé á að stefnandi hafi sótt um tímabundið starf í Menntaskólanum í Kópavogi án nokkurs fyrirvara.
Fyrir liggi að stefnandi hafi verið ráðinn tímabundið lengur en umrædd 2 ár. Stefndi telur hins vegar að stefnandi geri allt of mikið úr þeim annmarka og alls ekki verði séð að það hafi leitt til tjóns fyrir stefnanda og sé öðru mótmælt sem röngu og ósönnuðu.
Stefnandi byggir á því að sú ákvörðun skólameistara að hafna beiðni stefnanda um fastráðningu hafi verið ólögmæt. Stefndi mótmælir þessu sem röngu. Vísast til röksemda hér að framan, en aðalatriði hafi verið að engin skylda hvíldi á skólameistara að fastráða stefnanda og því hafi sú ákvörðun ekki verið ólögmæt. Telur stefndi einnig að taka þurfi mið af þeim sjónarmiðum sem Menntaskólinn í Kópavogi hafi sett fram og fyrir liggi í gögnum málsins.
Stefndi mótmælir þeirri uppbyggingu máls sem blasir við í stefnu, þar sem stefnandi sé settur í ákveðna stöðu sem hann sé ekki í. Stefndi telur þá röksemdafærslu ekki ganga upp að hann reyni í sama máli að fá leyst úr því hvort stefnda verði gert að greiða stefnanda bætur vegna þeirrar ákvörðunar að fastráða hann ekki og reikna síðan með að hann hafi verið fastráðinn og krefjast bóta vegna ólögmætrar uppsagnar. Stefndi mótmælir þessu sem fráleitu.
Sá sem ekki var fastráðinn árið 2004 verði ekki fastráðinn aftur í tímann með þeim hætti sem stefnandi byggir á. Sú staðreynd blasir við að stefnandi hafi aldrei verið fastráðinn við Menntaskólann í Kópavogi. Fastráðning sé formbundinn gerningur sem aldrei hafi farið fram og verði ekki framkvæmd löngu síðar.
Þá byggir stefnandi einnig á því að stefnandi hafi haft stöðu fastráðins starfsmanns þegar honum hafi hinn 6. júní 2006 verið einhliða tilkynnt með tölvupósti að hann yrði ekki ráðinn áfram hjá stefnda.
Stefndi mótmælir því að stefnandi geti sett sig í stöðu fastráðins starfsmanns með framangreindum rökum og sé því mótmælt. Stefnandi hafi verið ráðinn tímabundið allan starfsferill hans hjá Menntaskólanum í Kópavogi. Fyrstu þrjú árin hafi stefnandi undirritað ráðningarsamninga og sé á því byggt að hann hafi sjálfur falast eftir því að fá tímabundna ráðningu. Stefnandi hafi ekki verið fastráðinn þegar honum barst tölvupóstur frá skólameistara 6. júní 2006. Að mati stefnda séu engin skilyrði til að fallast á þá málsástæðu stefnanda að hann hafi haft stöðu fastráðins starfsmanns 6. júní 2006 og sé öðru mótmælt sem röngu. Stefnandi hafi alltaf verið ráðinn tímabundið.
Því sé mótmælt að skólameistari hafi orðið að bjóða honum og ráða hann ótímabundinni ráðningu fyrst hann á annað borð hafi boðið honum endurráðningu.
Sjónarmið Menntaskólans í Kópavogi komi fram í gögnum málsins og sé vísað til þeirra. Verði að líta til þess að skólameistari hafi litið svo á að stefnandi væri ráðinn tímabundið. Hver samningur gilti ákveðið tímabil og hafi því ekki verið þörf á að segja honum upp, sbr. 1. mgr. 43. gr. laga nr. 70/1996.
Því sé mótmælt að í tölvupósti frá 6. júní 2006 hafi falist uppsögn. Slíkt sé fráleitt.
Vilji svo ólíklega til að litið verði á tölvupóst þennan sem uppsögn þá sé á því byggt að málefnalegar ástæður hafi verið að baki því að ráða stefnanda ekki áfram við skólann og telur stefndi engan bótagrundvöll til staðar.
Bent sé á að allir samningar við stefnanda hafi verið efndir að fullu og eigi stefnandi enga kröfu á stefnda.
Á því sé byggt að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir tjóni. Tjón sé þannig algerlega ósannað. Kröfur stefnanda séu skaðabótakröfur. Stefnandi hafi sönnunarbyrði fyrir öllu sem bótakröfu hans viðkomi, m.a. um sök, ólögmæti, tjón, orsakatengsl og sennilega afleiðingu. Stefnandi telur að meint tjón megi beinlínis rekja til athafna starfsmanna stefnda, verið fyrirsjáanlegt og í eðlilegum tengslum við hina meintu ólögmætu athöfn. Stefnandi telur að ef hann hefði verið ráðinn ótímabundinni ráðningu verði að ætla að hann væri enn við störf hjá Menntaskólanum í Kópavogi. Stefndi mótmælir framangreindum rökum stefnanda.
Þá sé á það bent að þó ekki sé heimilt að ráða starfsmenn tímabundið samfellt í lengri tíma en tvö ár, þá sé ekki hægt að sjá með nokkru móti að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni. Með réttu hefði átt að auglýsa starfið og ósannað sé með öllu að stefnandi hefði verið talinn hæfastur og verið ráðinn. Ekki sé annað að sjá en stefnandi hafi notið góðs af því að hann var ráðinn tímabundið áfram en hafi ekki orðið fyrir neinu tjóni vegna þess. Þá sé á því byggt að stefnandi hefði ekki fengið hærri laun fastráðinn en tímabundið ráðinn.
Stefndi telur að kröfur stefnanda skarist og því sé að hluta um sömu kröfu að ræða í mismundi búningi undir kröfuliðum 1-3 samkvæmt sundurliðun í stefnu.
Fyrsti hluti skaðabótakröfu stefnanda byggir á því að hann hafi átt að halda fullum launum miðað við fullt starf frá 1. ágúst 2004 út júlí 2006. Stefnandi heldur því fram að hann hafi verið ráðinn í fullt starf og því hafi hann átt rétt á fullum launum fyrst skólameistari Menntaskólans í Kópavogi ákvað að ráða hann áfram til starfa eftir tveggja ára tímabundna ráðningu. Útreikningur á þeim launum sem stefnandi telur sig hafa átt að fá greidd miðað við fullt starf og fékk síðan greidd kemur fram í framlögðum útreikningi.
Stefndi mótmælir því að stefnandi eigi rétt til bóta samkvæmt þessum hluta kröfunnar. Stefnandi hafi ekki verið ráðinn í fullt starf og hafi hann fengið greidd að fullu þau laun sem honum bar á þessu tímabili miðað við starfshlutfall, sbr. framlagðar vinnuskýrslur. Menntaskólinn í Kópavogi hafi greitt stefnanda samkvæmt vinnuskýrslum í samræmi við vinnuskyldu á þessu tímabili. Stefndi verði ekki krafinn launa fyrir umrætt tímabil sem nemi hærra starfshlutfalli en stefnandi gegndi. Það sé fráleitt að mati stefnda. Stefnandi gat ekki gengið út frá því að Menntaskólinn í Kópavogi hefði fullt starf handa honum. Stefnandi hafi verið ráðinn samkvæmt auglýsingu í upphafi tímabundið skólaárið 2002 til 2003 og síðan aftur án auglýsingar tímabundið skólaárið 2003 til 2004 og síðan áfram eins og áður sé rakið. Fram hafi komið hjá skólameistara að ekki hafi verið laust fullt starf hjá skólanum er tveggja ára tímabundnum ráðningartíma stefnanda lauk hjá Menntaskólanum í Kópavogi. Á starfstímanum hjá Menntaskólanum í Kópavogi hafi stefnandi því ekki átt kröfu á 100% starfi né gat hann ráðgert aðra og meiri vinnu en stóð til boða af hálfu Menntaskólans í Kópavogi. Kröfu stefnanda samkvæmt þessum lið sé að öllu leyti mótmælt.
Annar hluti skaðabótakröfu stefnanda byggir á því að hann hafi átt að hafa stöðu sem fastráðinn starfsmaður þegar honum hafi hinn 6. júní 2006 verið tilkynnt að starfa hans væri ekki framar óskað hjá Menntaskólanum í Kópavogi. Stefnandi heldur því fram að honum hafi í raun verið sagt upp með ólögmætum hætti og hann hefði því átt rétt á launum í þriggja mánaða uppsagnarfresti. Þessu sé mótmælt sem fráleitu.
Stefndi mótmælir því að líta megi svo á að stefnanda hafi verið sagt upp störfum. Bent sé á að hver ráðningarsamningur hafi verið tímabundinn og ekki hafi þurft að segja honum upp, sbr. 1. mgr. 43. gr. laga nr. 70/1996 og hafi íslenska ríkið efnt alla samninga sem gerðir voru við stefnanda. Þá verði bótaábyrgð ekki lögð á stefnda er jafngildi þriggja mánaða launum eins og þau voru á þessu tímabili. Ekki séu skilyrði til þess. Fastráðning í það 95% starf sem stefnandi hafi í upphafi verið ráðinn í til afleysinga skólaárið 2002 til 2003, hafi ekki staðið til boða, enda hafi kennsla í sögu farið minnkandi. Stefnanda hafi aftur á móti boðist 100% starf skólaárið 2003 til 2004 þar sem losnað hafi tímabundið um hluta af öðru starfi við sögukennslu. Stefnanda hefði mátt vera ljóst af samtölum við skólameistara Menntaskólans í Kópavogi að ekki gæti komið til fastráðningar í framhaldi af tveggja ára tímabundinni ráðningu. Stefnanda hafi ekki verið sagt upp störfum heldur tilkynnt þann 6. júní 2006 að ekki yrði af endurnýjun ráðningarsamnings. Bent sé á lýsingu skólameistara í gögnum málsins á því að ekki hafi náðst um nokkurt skeið til stefnanda. Að auki sé bent á að uppsagnarfrestur í tímabundnum ráðningarsamningum sé einn mánuður samkvæmt ákvæðum í þeim. Þau ákvæði breyti þó ekki lagaákvæði 1. mgr. 43. gr. starfsmannalaga. Kröfu stefnanda samkvæmt þessum lið sé að öllu leyti mótmælt.
Þriðji hluti skaðabótakröfu stefnanda byggir á því að hann eigi rétt á bótum er jafngildi launum hans sem framhaldsskólakennara í fullu starfi frá og með júlí 2006 til 31. desember 2008 að frádregnum þeim launum sem hann hafði á því tímabili. Byggir stefnandi kröfuna í þessum hluta á því að engin staða við sögukennslu hafi í raun losnað á höfuðborgarsvæðinu frá því að honum hafi á ólögmætan hátt verið sagt upp störfum. Hafi stefnandi þannig ekki getað stundað þá vinnu sem hann sé menntaður til heldur hafi hann neyðst til þess að finna sér önnur verkefni.
Kröfugerð stefnanda um bætur samkvæmt þessum hluta séu fjarri lagi og eigi sér enga stoð í dómvenju um bætur handa þeim er sæti ólögmætri uppsögn eða frávikningu úr starfi. Í ljósi málavaxta geti stefnandi ekki borið því við að hann hafi mátt treysta því að geta gegnt áfram störfum um ókominn tíma. Starfsmenn ríkisins megi almennt búast við því að breytingar geti orðið á starfsumhverfi þeirra og þar með á störfum þeirra og verkefnum. T.d. geti starfsmaður, sem ráðinn hafi verið ótímabundið með gagnkvæmum uppsagnarfresti, ekki gengið út frá því að störf hans verði óbreytt alla starfsævina. Stefnandi hafi að baki langa starfsreynslu sem framhaldsskólakennari. Hann hafi að auki mjög góða menntun. Hann ætti því að hafa góða möguleika á því að fá annað starf. Aldur stefnanda við starfslok ætti ekki að verða honum fjötur um fót við atvinnuleit og einnig sé með öllu ósannað að atvinnuleysi stefnanda verði rakið til aðstæðna sem varða kynnu stefnda bótaábyrgð að lögum. Kröfu stefnanda samkvæmt þessum lið er að öllu leyti mótmælt.
Skorað sé á stefnanda að upplýsa um allar tekjur sínar þann tíma sem hann miðar bótakröfur sínar við. Skorað sé á stefnanda að upplýsa hver sé eigandi Söguferða ehf. Skorað sé á hann að leggja fram launaseðla og skattframtöl fyrir tekjutímabilið frá 1. ágúst 2006 út árið 2008. Þá sé skorað á stefnda að leggja fram skattframtöl frá tekjuárinu 2002 til og með 2008 svo hægt sé að sjá hvort stefnandi hafi leitað nýrrar vinnu eftir starfslok hjá Menntaskólanum í Kópavogi. Allar tekjur stefnanda á viðmiðunartímabili bótakrafna eigi að koma til frádráttar kröfum hans.
Þá sé á það bent að á þeim sem telja sig hafa orðið fyrir tjóni hvílir skylda til að takmarka tjón sitt. Stefndi hafi alls ekki sýnt fram á að hann hafi reynt að takmarka meint tjón sitt. Að mati stefnda sé algjörlega vanreifað hvers vegna stefnandi fann ekki betur launaða vinnu á viðmiðunartímabili því sem hann styðjist við, en lengst af á því tímabili hafi atvinnuleysi verið í sögulegu lágmarki hér á landi. Fráleitt sé að miða við svo lág laun, t.d. séu laun stefnanda frá september út desember 2006 rúmlega 64.000 á mánuði! Þá sé skorað á stefnanda að upplýsa um starfshlutfall í þeim störfum sem hann sinnti eftir starfslok hjá Menntaskólanum í Kópavogi út tekjuárið 2008.
Því telur stefndi að þau laun sem stefnandi miðar við sem frádrátt frá bótakröfu séu allt of lág og frádráttur eigi að vera miklu meiri, en laun stefnanda samkvæmt skattframtölum séu oft langt undir atvinnuleysisbótum! Þá sé á það bent að stefnandi hafi engar upplýsingar lagt fram um tekjur frá 1. júlí 2008 til ársloka 2008 og virðist stefnandi engan frádrátt gera vegna þess tímabils og sé því mótmælt af hálfu stefnda.
Þá mótmælir stefndi öllum fjárhæðum, útreikningum og forsendum útreikninga í málinu sem ósönnuðum, m.a. í stefnu og á framlögðum dómsskjölum. Þannig sé að mati stefnda fjárhæð launa og launatengdra gjalda ósönnuð og einnig séu hækkanir ósannaðar. Stefndi telur kröfugerð vanreifaða. Ekki séu lagðir fram neinir launaseðlar af hálfu stefnanda og sé skorað á hann að leggja launaseðla fram sem sýni tekjur áranna 2004-2006.
Ekki séu skilyrði til að dæma miskabætur í málinu. Stefnandi geri kröfu um miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 að fjárhæð kr. 1.200.000.- þar sem sú ákvörðun skólameistara Menntaskólans í Kópavogi að neita að fastráða stefnanda þrátt fyrir skýr lagaákvæði þar um hafi verið tekin af ásetningi, til vara af stórkostlegu gáleysi, hafi beinst að stefnanda sem kennara og þannig verið brot á starfsheiðri hans og æru og falið í sér meingerð gegn persónu stefnanda í skilningi hinnar tilgreindu lagareglu, sem stefndi beri bótaábyrgð á.
Stefndi mótmælir miskabótakröfu og framangreindum rökum stefnanda. Engin skilyrði séu til að dæma miskabætur og sé ekki fullnægt skilyrðum 26. gr. laga nr. 50/1993. Engar þær hvatir eða ástæður er stefnandi nefnir í stefnu hafi legið að baki ákvörðun skólameistara. Ákvörðun skólameistara Menntaskólans í Kópavogi beindist á engan hátt gegn stefnanda persónulega, starfsheiðri hans, æru eða persónu, hvað þá að í henni hafi falist meingerð í hans garð. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að í ákvörðun skólameistara Menntaskólans í Kópavogi hafi falist ólögmætar meingerðir gegn frelsi, friði, æru eða persónu stefnanda í skilningi 26. gr. laga nr. 50/1993.
Stefndi telur stefnanda ekki eiga neina kröfu á sig enda hafi stefnandi sjálfur samþykkt að vinna tímabundið hjá skólanum.
Stefnandi haldi því fram í stefnu að engu máli hafi skipt hvort óljóst hafi þá verið um kennslumagn eða hvort starfshlutfall hafi ekki verið 100% og að skólameistari hafi ekki mátt setja kennslumagn fyrir sig þegar rætt hafi verið um áframhaldandi ráðningu. Stefndi mótmælir þessum málsástæðum.
Því sé mótmælt að stefnandi hafi verið flæmdur úr skólanum.
Um málskostnaðarkröfu er vísað til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
Varakrafa
Fallist dómurinn á einhvern af kröfuliðum í stefnu þá sé krafist verulegrar lækkunar dómkrafna stefnanda. Um varakröfu sé vísað til sömu málsástæðna og sjónarmiða og fram koma hér að framan varðandi aðalkröfu.
Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að stefnandi eigi rétt á launum í uppsagnarfresti vegna starfsloka sinna hjá Menntaskólanum í Kópavogi með einhverjum hætti, og ekki sé fallist á að stefnandi hafi fengið þann frest greiddan að fullu, sé á það bent að uppsagnarfrestur tímabundinna ráðningarsamninga sé einn mánuður en ekki þrír. Stefnanda hafi verið tilkynnt þann 6. júní 2006 að ekki yrði um frekari endurnýjun á ráðningarsamningi að ræða. Stefnandi hafi fengið greidd laun frá Menntaskólanum í Kópavogi vegna júlí og ágúst 2006.
Vegna kröfu um bætur er jafngildi launum fyrir fullt starf að frádregnum launum sem stefnandi hafði tímabilið september 2006 út desember 2008 bendir stefndi á að viðmiðunartímabil þetta sé allt of langt og ekki í samræmi við neina dómvenju. Telur stefndi að stefnandi byggi hér á allt of löngu tímabili og krefjist allt of hárrar greiðslu. Vísast til mótmæla hér að framan varðandi allar forsendur útreikninga stefnanda.
Stefnanda hafi borið skylda til að takmarka meint tjón sitt en ekki sé að sjá að hann hafi gert það. Það sé að mati stefnda ótæk skýring að stefnandi hafi átt að bíða eftir að fá sambærilegt starf. Tekjur hans á viðmiðunartímabili bóta séu allt of lágar til að geta fullnægt því skilyrði að hann hafi takmarkað meint tjón sitt, í raun langt undir fjárhæð atvinnuleysisbóta. Ósönnuð sé fullyrðing stefnanda um að hann hafi ekki fengið vinnu við sögukennslu eftir að hann starfaði hjá Menntaskólanum í Kópavogi. Stefnandi geti ekki bundið skyldu sína við að takmarka tjón sitt við það eitt að starfa sem sögukennari.
Þess sé krafist að allar greiðslur sem stefnandi hafi þegið á viðmiðunartímabili bóta dragist frá bótakröfu hans, hverju nafni sem nefnast.
Telji dómurinn skilyrði til að dæma miskabætur þá mótmælir stefndi miskabótakröfu sem allt of hárri og í engu samræmi við dómaframkvæmd. Engar þær hvatir eða ástæður er stefnandi nefni í stefnu hafi legið að baki uppsögninni. Engin dómafordæmi séu fyrir svo háum miskabótum vegna ólögmætra uppsagna, hvorki hjá ríkinu né á almennum markaði.
Upphafstíma vaxta sé mótmælt. Fráleitt sé að miða eigi fjárhæðir undir lið 1 í stefnu við 1. ágúst 2006 heldur telur stefndi að miða eigi við miklu seinna tímamark. Þá sé mótmælt dráttarvaxtakröfu og bent á að skaðabótakröfur, þ.m.t. miskabótakrafa, komi fyrst fram með stefnu í málinu og ætti stefnandi því aldrei rétt til dráttarvaxta fyrr en mánuði eftir birtingardag stefnu, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001. Stefndi mótmælir því að miskabótakrafa beri vexti frá 1. ágúst 2004 og telur að miða eigi við miklu seinna tímamark.
Stefndi mótmælir öllum rökum og málsástæðum stefnanda.
Niðurstaða
Svo sem fram er komið var stefnandi ráðinn í lausa stöðu sögukennara við Menntaskólann í Kópavogi á grundvelli auglýsingar í Morgunblaðinu 21. apríl 2002. Var stefnandi ráðinn tímabundið til eins árs við skólann frá 1. ágúst 2002 til 31. júlí 2003. Samningurinn var endurnýjaður frá 1. ágúst 2003 til 31. júlí 2004. Í bréfi skólameistara Menntaskólans í Kópavogi til umboðsmanns Alþings, dags. 20. ágúst 2007, er greint frá því að stefnanda hafi verið gerð grein fyrir því vorið 2004, að loknu tveggja ára starfi, að ekki gæti komið til fastráðningar hans við skólann þar sem kennslumagn í sögu færi ört minnkandi vegna breytinga á aðalnámskrá framhaldsskóla og skólaskrá Menntaskólans í Kópavogi. Gerður var við stefnanda nýr tímabundinn ráðningarsamningur frá 1. ágúst 2004 til 31. júlí 2005. Stefnandi skrifaði undir þann samning en neitaði hins vegar að skrifa undir ráðningarsamning sem átti að gilda frá 1. ágúst 2005 og samning sem átti að gilda frá 1. janúar 2006 til 31. júlí s.á. Skólameistari Menntaskólans í Kópavogi tilkynnti stefnanda með tölvupósti 6. júní 2006 að ekki gæti orðið af frekari ráðningu stefnanda hjá skólanum og lauk þar með störfum stefnanda við skólann.
Stefnandi byggir dómkröfur sínar í málinu á því að hann hafi átt rétt á fastráðningu í starf sem framhaldsskólakennari við Menntaskólann í Kópavogi haustið 2004. Sú ákvörðun skólameistara Menntaskólans í Kópavogi að hafna beiðni hans um fastráðningu hafi verið ólögmæt. Þá byggir stefnandi einnig á því að hann hafi haft stöðu fastráðins starfsmanns þegar honum var einhliða tilkynnt með tölvupósti 6. júní 2006 að hann yrði ekki ráðinn áfram hjá stefnda.
Í auglýsingu um kennarastarfið í apríl 2002 kemur fram að laus sé til umsóknar ein staða framhaldsskólakennara í sögu fyrir næsta skólaár, en ekki kemur fram að um afleysingarstarf sé að ræða.
Í 1. mgr. 41. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins segir að starfsmenn ríkisins, aðrir en embættismenn, skuli ráðnir til starfa ótímabundið með gagnkvæmum uppsagnarfresti. Þessi meginregla á sér einnig stoð í 1. mgr. 16. gr. laga nr. 86/1998 um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara o.fl. þar sem fram kemur að framhaldsskólakennarar skuli ráðnir til starfa ótímabundið með gagnkvæmum uppsagnarfresti.
Samkvæmt framansögðu er ljóst að vilji löggjafans stendur til þess að framhaldsskólakennarar skuli að meginstefnu til vera ráðnir til starfa með ótímabundnum ráðningarsamningum.
Samkvæmt 2. mgr. 41. gr. laga nr. 70/1996 er heimilt að ráða starfsmann til starfa tímabundið. Tímabundin ráðning skal aldrei vara samfellt lengur en í tvö ár. Samskonar ákvæði er að finna í 2. mgr. 16. gr. laga nr. 86/1998 að því er varðar framhaldsskólakennara sérstaklega. Þá segir í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 139/2003 um tímabundna ráðningu starfsmanna að óheimilt sé að framlengja eða endurnýja tímabundinn ráðningarsamning þannig að hann vari samfellt lengur en í tvö ár nema annað sé tekið fram í lögum.
Þá hefur fjármálaráðuneytið í bréfi sínu til umboðsmanns Alþingis 2. júlí 2007 lýst þeim skilningi ráðuneytisins að þegar tímabundin ráðning hefur varað samfellt í tvö ár, sbr. 2. mgr. 41. gr. laga nr. 70/1996, beri að gera ótímabundinn ráðningarsamning við starfsmann ef framlengja á ráðninguna.
Í samræmi við framangreind lagafyrirmæli verður fallist á það með stefnanda að hann hafi átt rétt á ótímabundinni ráðningu er hann var ráðinn áfram til kennslu við Menntaskólann í Kópavogi haustið 2004. Þau sjónarmið stefnda að ekki gæti komið til fastráðningar stefnanda við skólann vegna minnkandi kennslumagns í sögu og breytinga á námskrá framhaldsskóla og skólaskrá skólans breyta engu í þessu efni. Þá heldur stefndi því fram að átt hefði að auglýsa starfið aftur að loknum tveggja ára starfstíma stefnanda. Á þá málsástæðu verður ekki fallist. Stefnandi var upphaflega ráðinn tímabundið á grundvelli auglýsingar í samræmi við ákvæði 2. mgr. 7. gr. laga nr. 70/1996 og kom ekki til álita, svo vitað sé, að starfið yrði auglýst að nýju.
Sú ákvörðun skólans að gera aðeins tímabundinn ráðningarsamning við stefnanda haustið 2004, eftir að hann hafði starfað við skólann samfellt í tvö ár, braut gegn 2. mgr. 41. gr. laga nr. 70/1996, sbr. og ákvæði laga nr. 139/2003 og var því ólögmæt. Með vísan til almennu sakarreglunnar og 8. gr. laga nr. 139/2003 er stefndi bótaskyldur gagnvart stefnanda vegna þessa.
Samkvæmt aðalkröfu stefnanda er krafist skaðabóta að fjárhæð kr. 10.509.193. Er sú bótakrafa í fyrsta lagi á því byggð að stefnda beri að greiða fyrir mismun á launum fyrir fullt starf og hlutastarf á tímabilinu 1. september 2004 til júlí 2006, kr. 759.142. Í öðru lagi krefur stefnandi um bætur er jafngilda þriggja mánaða launum í uppsagnarfresti, kr. 777.369. Í þriðja lagi gerir stefnandi kröfu um bætur fyrir tímabilið september 2006 til desember 2008 í samræmi við framlagðan útreikning á launum, kr. 7.760.369. Loks gerir stefnandi kröfu um orlof, 13.04%, kr. 1.212.313.
Ekki liggur annað fyrir en stefnandi hafi fengið greidd laun í samræmi við starfshlutfall sitt á starfstíma sínum hjá stefnda. Stefnandi hefur ekki sýnt fram á að ótímabundin ráðning hans hjá Menntaskólanum í Kópavogi í samræmi við ákvæði 2. mgr. 41. gr. laga nr. 70/1996 hefði leitt til þess að hann hefði gegnt þar fullu starfi. Verður því ekki unnt að fallast á þessa kröfu hans. Ekki verður litið svo á að stefnandi hafi haft stöðu fastráðins starfsmanns hjá stefnda að loknu tveggja ára starfstímabili sínu enda þótt vanrækt hafi verið að ganga frá ótímabundinni ráðningu hans. Verður því ekki fallist á að hann eigi rétt til launa í uppsagnarfresti á þeim grundvelli og er þeirri kröfu hafnað. Þá er fallist á með stefnda að engin grundvöllur sé fyrir bótakröfu stefnanda er jafngildi launum hans sem framhaldsskólakennara í fullu starfi frá og með júlí 2006 til 31. desember 2008 að frádregnum þeim launum sem hann hafði á því tímabili. Er fallist á málsástæður stefnda í þessu efni og er kröfunni hafnað. Samkvæmt framansögðu verður aðalkröfu stefnanda í málinu um skaðabætur hafnað.
Eftir atvikum, og í samræmi við varakröfu stefnanda, verða bætur til hans metnar að álitum. Þykja þær hæfilega ákveðnar 900.000 krónur og er þá höfð hliðsjón af bótakröfu stefnanda um þriggja mánaða laun í uppsagnarfresti.
Þá gerir stefnandi kröfu um miskabætur að fjárhæð kr. 1.200.000. Fallist er á með stefnda að ekki sé, eins og atvikum er háttað í máli þessu, fullnægt skilyrðum 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 til þess að dæma stefnanda miskabætur og er þeirri kröfu hafnað.
Vextir verða dæmdir, eins og krafist er, og nánar greinir í dómsorði.
Þá ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 627.500 krónur. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Þorleifi Friðrikssyni, 900.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. ágúst 2006 til 12. mars 2009, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags og 627.500 krónur í málskostnað.
Eggert Óskarsson