• Lykilorð:
  • Lánssamningur

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 27. febrúar 2019 í máli nr. E-2895/2017:

E-content ehf.

(Eggert Páll Ólason lögmaður)

gegn

Neytendastofu

(Ólafur Helgi Árnason lögmaður)

 

                                                          I.

Mál þetta var höfðað 13. september 2017 og dómtekið 18. janúar sl. Stefnandi er E-content ehf., pósthólf 530, 202 Kópavogi, en stefndi er Neytendastofa, Borgartúni 21, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess aðallega að úrskurður áfrýjunarnefndar neytendamála nr. 7/2016, dags. 10. mars 2017, verði felldur úr gildi í heild sinni. Til vara er þess krafist að úrskurði áfrýjunarnefndar neytendamála nr. 7/2016 verði breytt á þá leið að ákvæði um að stefnandi skuli greiða stjórnvaldssekt að fjárhæð 2.400.000 krónur verði felld úr gildi. Til þrautavara er þess krafist að úrskurði áfrýjunarnefndar neytendamála nr. 7/2016 verði breytt og sektarfjárhæðin lækkuð verulega. Þá krefst stefnandi greiðslu málskostnaðar.

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda, auk málskostnaðar.

 

II.

Stefnandi rekur smálánafyrirtæki undir heitunum 1909, Hraðpeningar, Múli, Kredia og Smálán. Í máli þessu er deilt um hvort stefnandi hafi brotið gegn ákvæðum 4. mgr. 7. gr. og 2. mgr. 12. gr. laga nr. 33/2013 um neytendalán með ófullnægjandi upplýsingagjöf á stöðluðu eyðublaði og lánssamningi. Einnig er deilt um hvort stefnandi hafi brotið gegn 21. gr. sömu laga með því að telja kaupverð rafbóka ekki til kostnaðar við lánveitingu og 26. gr. laganna með því að skilyrða lántöku við greiðslu kostnaðar sem nemur hærri árlegri hlutfallstölu kostnaðar en 50% að viðbættum stýrivöxtum. Þá er deilt um álagningu stjórnvaldssektar að fjárhæð 2.400.000 kr., sem lögð var á stefnanda með vísan til 1. mgr. 30. gr. laganna.

Nánar tiltekið er fyrirkomulag lánveitinga stefnanda með þeim hætti að lántaka er boðið að kaupa bók, honum er gefinn kostur á láni fyrir kaupverði bókarinnar og að gerðum slíkum samningi getur hann fengið viðbótarlán hjá stefnanda, en það er ávallt skilyrði lántökunnar að keypt sé bók af stefnanda. Býður stefnandi bæði rafbækur og bækur á pappír. Í bréfi stefnanda til Neytendastofu, dags. 31. ágúst 2016, lýsir stefnandi viðskiptunum með eftirfarandi hætti þegar t.d. eru keyptar ein eða tvær bækur:

1 bók, lán greitt eftir

Verð á bók

Afsláttur af bók

Lán umfram bókalán

15 daga

22 daga

30 daga

3.450 ISK

3.450 ISK

3.450 ISK

959 ISK

350 ISK

-ISK

Getur fengið 10.000 kr. lán

Getur fengið 10.000 kr. lán

Getur fengið 10.000 kr. lán

2 bækur, lán greitt eftir

Verð á bók

Afsláttur af bók

Lán umfram bókalán

15 daga

22 daga

30 daga

6.900 ISK

6.900 ISK

6.900 ISK

2.600 ISK

1.450 ISK

884 ISK

Getur fengið 10.000 -20.000 kr. lán

Getur fengið 10.000 -20.000 kr. lán

Getur fengið 10.000 -20.000 kr. lán

 

Eftir því sem keyptar eru fleiri bækur hækkar afsláttur af hverri bók og lánsfjárhæð umfram bókalánið einnig.

Ákvörðun stefnda, Neytendastofu, í máli nr. 59/2016 frá 14. nóvember 2016 varðar smálánafyrirtækin 1909, Hraðpeninga og Múla. Var það m.a. niðurstaða stefnda að verðmæti eða kaupverð umræddra bóka teldist vera kostnaður við lántöku og var sú niðurstaða staðfest af áfrýjunarnefnd neytendamála, sbr. úrskurð nefndarinnar í máli nr. 7/2016 frá 10. mars 2017. Í forsendum ákvörðunar Neytendastofu í umræddu máli stefnanda kemur m.a. fram að þær bækur sem stefnandi selji séu aðgengilegar almenningi á Netinu án greiðslu. Um þetta segir svo í úrskurði áfrýjunarnefndar neytendamála í máli stefnanda:

„Við mat á því hvort telja beri til heildarlántökukostnaðar kaupverð rafbóka, sem viðskiptavinum kæranda er skylt að kaupa í tengslum við töku lána, verður ekki framhjá því litið að lánveitingar kæranda eru að meginstefnu til ekki gerðar í því skyni að fjármagna kaup neytenda á rafbókum. Þrátt fyrir að kærandi virðist nú gefa í skyn að starfsemi hans snúist öðrum þræði um sölu og markaðssetningu rafbóka hefur starfsemi hans frá upphafi lotið að því að veita almenn neyslulán og hefur lántökukostnaður vegna þeirra ítrekað verið til umfjöllunar hjá Neytendastofu. Það var þannig ekki fyrr en eftir tvær ákvarðanir Neytendastofu og úrskurði áfrýjunarnefndarinnar, þar sem til umfjöllunar var umdeild innheimta kæranda á kostnaði vegna flýtiafgreiðslu lána og því slegið föstu að umræddur kostnaður leiddi til þess að heildarlántökukostnaður væri bæði of hár, að kærandi hóf sölu rafbóka og þá þannig að neytendur geti fengið sömu lán án fyrrgreinds gjalds, en þurfa í staðinn að kaupa að minnsta kosti eina rafbók. Þannig verður til dæmis ráðið af gögnum málsins að neytandi þurfi að greiða 6.016 krónur fyrir rafbækur til þess að geta fengið 20.000 króna lán, en um verðmæti umræddra rafbóka, og þann skilning Neytendastofu að í rafbókunum felist einungis dulinn lántökukostnaður í stað sem áður var greiddur vegna flýtiafgreiðslu lána, hefur kærandi vísað til þess að þrátt fyrir að hann geti tekið undir það með Neytendastofu að einhverjir bókatitlanna séu fáanlegir endurgjaldslaust á netinu eigi það ekki við um þá alla. Á heimasíðum kæranda verður að öðru leyti ekkert annað ráðið um efnislegt innihald umræddra bóka, hvert verðmæti þeirra er eða hvaðan bækurnar eru upphaflega keyptar af hálfu kæranda.“

 

Þá segir nánar svo í úrskurði nefndarinnar: 

„… [stefnanda] er hverju sinni skylt að telja kostnað vegna kaupa á rafbókum til heildarlántökukostnaðar samkvæmt g. lið 5. gr. laga nr. 33/2013. Þar sem hann hefur ekki gert það, og þar sem kostnaður vegna lántöku er samkvæmt því sem fram kemur í hinni kærðu ákvörðun margfalt hærri en leyfilegt er samkvæmt 26. gr. laga nr. 33/2013, verður staðfest sú niðurstaða [stefnda] að kærandi hafi brotið gegn 21. gr. og 26. gr. með því að telja kaupverð rafbóka ekki til kostnaðar við lánveitingu og skilyrða lántöku við greiðslu kostnaðar sem nemur hærri árlegri hlutfallstölu kostnaðar en 50% að viðbættum stýrivöxtum.“

 

Í almennum athugasemdum með frumvarpi til laga um neytendalán, sem lagt var fyrir Alþingi á 141. löggjafarþingi 2012–2013, sbr. þingskjal 228 – 220. mál, er vikið sérstaklega að svokölluðum smálánafyrirtækjum. Er tekið fram að fyrirtæki þessi hafi byrjað slíka starfsemi hér á landi í upphafi árs 2010, en veiting smáláns felist í því að lántaka sé veitt lán til skamms tíma og lántaki óski eftir útgreiðslu lánsins á heimasíðu lánveitanda eða með því að senda smáskilaboð úr farsíma í fyrir fram greint símanúmer. Segir í athugasemdunum að mikil umræða hafi verið bæði hérlendis og í nágrannalöndum okkar um skaðsemi þessara lána. Bæði hagsmunaaðilar og eftirlitsaðilar á neytendamarkaði hafi lýst yfir miklum áhyggjum af uppgangi smálánafyrirtækja hér á landi enda sé hér um að ræða lán á okurvöxtum, allt að 648%, árlegrar hlutfallstölu kostnaðar, sem markaðssett séu sérstaklega gagnvart ungu fólki, þeim sem höllum fæti standi og þeim sem hafi lítið á milli handanna. Þá er í frumvarpinu að því vikið að nágrannalönd Íslands hafi mörg í löggjöf sinni ákvæði um hámarksvexti.

Í frumvarpinu er tekið fram að ekki ríki fullkomið samningafrelsi um vexti og kostnað tengdan lánssamningum hér á landi. Er í athugasemdunum í því sambandi m.a. vísað til dráttarvaxta sem ákveðnir eru af Seðlabanka samkvæmt lögum nr. 38/2001. Auk þess sé það almenn skoðun að ástæða sé til að vernda neytendur sérstaklega gegn okurdráttarvöxtum og óhóflegum innheimtukostnaði, sbr. innheimtulög nr. 95/2008. Verði ekki annað séð en að sömu sjónarmið gildi um okurvexti á neytendalán. Því sé lagt til að sett verði hámark á árlega hlutfallstölu kostnaðar vegna neytendalána sem nemi 50 hundraðshlutum að viðbættum stýrivöxtum Seðlabanka Íslands eins og þeir séu þegar lánssamningur er gerður. Ekki sé gert ráð fyrir að þak þetta á hámarkskostnað muni hafa áhrif á aðra aðila á lánamarkaði en smálánafyrirtæki, enda þekkist ekki hjá öðrum lánveitendum að lögð sé á hærri árleg hlutfallstala kostnaðar en sem nemi 50 hundraðshlutum á ársgrundvelli. Nái tillaga þessi fram að ganga muni hún sem dæmi hafa þau áhrif að smálánafyrirtæki sem í dag innheimti 11.700 krónur í kostnað vegna 60.000 króna láns til tveggja vikna verði aðeins heimilt að innheimta 1.101 krónu vegna sams konar láns. Með nokkurri einföldun megi tala um nafnvexti í stað árlegrar hlutfallstölu kostnaðar og þá megi segja, miðað við fyrrgreint dæmi, að nafnvextir séu að lækka úr 468% í 44,05%.          

Í gögnum málsins eru rakin samskipti stefnda við stefnanda í aðdraganda ákvörðunarinnar. Með bréfi, dags. 10. júní 2016, óskaði stefndi eftir gögnum í tengslum við lánveitingar stefnanda, svo sem afriti af skilmálum þjónustunnar og afriti af stöðluðu eyðublaði auk afrits af lánssamningi. Engin svör bárust og tók stefndi í framhaldinu ákvörðun um afhendingu gagnanna, sbr. ákvörðun 27. júní 2016. Svar barst með bréfi stefnanda, dags. 6. júlí 2016, þar sem stefnda var sent afrit af almennum skilmálum stefnanda, sem innihalda m.a. staðlað eyðublað, sbr. 7. gr. laga nr. 33/2013, auk afrits af lánssamningi, og með bréfi, dags. 5. ágúst 2016, óskaði stefndi eftir frekari gögnum í tengslum við lánveitingar stefnanda. Þar sem ekki barst svar frá stefnanda var beiðnin ítrekuð með bréfi stefnda, dags. 22. ágúst 2016. Svar barst frá stefnanda með bréfi, dags. 31. ágúst 2016, ásamt upplýsingum um verð á bókum og lánum sem neytendur gætu sótt um til viðbótar við lán vegna bókakaupanna. Í svari stefnanda kemur m.a. fram að þegar viðskiptavinur skrái sig í þjónustu hjá honum fái hann sent eintak af stöðluðu eyðublaði í tölvupósti. Þá fái hann einnig sent staðlað eyðublað þegar lánsumsókn hans hafi verið samþykkt. Þar fyrir utan sé staðlað eyðublað aðgengilegt á heimasíðu félagsins, fyrir alla viðskiptavini. Þá er tekið fram að áður en viðskiptavinur staðfesti lánsumsókn sína þurfi hann að samþykkja að hafa lesið skilmála en staðlað eyðublað sé hluti af þeim. Það fari því ekkert á milli mála að viðskiptavinir hafi kynnt sér efni staðlaða eyðublaðsins áður en þeir sæki um lán. Með bréfi, dags. 7. september 2016, ítrekaði stefndi ósk um afhendingu á lista yfir þá bókartitla sem í boði væru hjá stefnanda. Svar barst 14. september 2016 frá lögmanni stefnanda ásamt rafrænum lista yfir allar bækur sem í boði væru hjá stefnanda. Um útreikning árlegrar hlutfallstölu kostnaðar og sundurliðun slíks útreiknings vísaði stefnandi til töflu þar sem gerð var grein fyrir kostnaði með hliðsjón af fjölda bóka, dagafjölda útláns, verði bóka, afslætti af bók, aukaláni o.fl. Með bréfi stefnda, dags. 16. september 2016, voru m.a. gerðar athugasemdir við það að í umræddu bréfi hefði ekki verið gerð grein fyrir útreikningi árlegrar hlutfallstölu kostnaðar viðkomandi lána eins og hún væri kynnt neytendum.

Samkvæmt gögnum málsins skiptast almennir skilmálar stefnanda í tvo hluta, annars vegar almenna skilmála um bókakaup og um lán hins vegar. Staðlaðar upplýsingar um neytendalán, sem getið er um í 7. gr. laganna, fylgja með hinum almennu skilmálum.

III.

1. Helstu málsástæður og lagarök stefnanda

Í fyrsta lagi hafnar stefnandi því að lánastarfsemi hans hafi farið í bága við lög nr. 33/2013 um neytendalán. Hann hafi ekki brotið gegn c-., e-, g- og l-liðum 4. mgr. 7. gr. laganna.

Stefnandi hafnar því að það teljist brot gegn c-lið að hafa ekki upplýst um það á staðlaða eyðublaðinu að kaup á bók séu skilyrði fyrir lánveitingu. Það hafi ekki dulist lántakanda að bókakaupin séu tengd lánveitingunni, enda sé hann að sækja um lán fyrir kaupverði bókar hverju sinni og það komi ítrekað fram í ferlinu og öllum skjölum. Stefnandi bendir á að upplýsingar um verð bókanna komi greinilega fram í skjölunum og uppfylli stefnandi því ákvæði e-liðar. Einnig uppfylli stefnandi ákvæði g-liðar þar sem upplýsingar um heildarlántökukostnað komi skýrt fram, m.a. með dæmi. Þá vísar stefnandi til þess að upplýsingar um vanskilavexti hafi komið skýrlega fram í skjalagerðinni og uppfylli stefnandi því ákvæði l-liðar. Til viðbótar byggir stefnandi á því að kostnaður vegna bókakaupa geti, eðli málsins samkvæmt, ekki talist til lántökukostnaðar þar sem um vörukaup sé að ræða.

Í öðru lagi byggir stefnandi á því að hann hafi ekki brotið gegn e- g-, h-, l-, q- og v-liðum 2. mgr. 12. gr. laga nr. 33/2003 um neytendalán. Stefnandi bendir á að allar viðkomandi upplýsingar komi fram í lánssamningum kæranda. Eðli málsins samkvæmt komi ekki fram upplýsingar sem eru lánunum óviðkomandi. Verði ekki séð að hagsmunum neytenda sé betur borgið með því að ýmsum óviðkomandi upplýsingum sé komið fyrir á lánssamningum og það sé síður til þess fallið að upplýsa þá um raunverulega réttarstöðu sína vegna lántökunnar. Mun eðlilegra sé að vísa til lánaskilmálanna, eins og kærandi geri í lánssamningnum, þar sem mun ítarlegri upplýsingar komi fram. Lánaskilmálarnir verði þannig hluti af lánssamningnum. Hvað upplýsingar um kostnað vegna bókakaupa varðar þá ítreki stefnandi að kostnaður vegna bókakaupanna geti ekki talist til lántökukostnaðar. Varðandi athugasemd stefnda um að ekki sé getið um eftirlit stefnda með starfseminni hafi verið brugðist við því á stjórnsýslustigi, en engu að síður hafi meðferð málsins verið eins og það hefði ekki verið gert, sbr. v-lið 2. mgr. 12. gr. laganna.

Í þriðja lagi er á því byggt af hálfu stefnanda að verð bókar teljist ekki til heildarlántökukostnaðar. Samkvæmt g-lið 1. mgr. 5. gr. laganna sé heildarlántökukostnaður allur kostnaður, þ.m.t. vextir, verðbætur, þóknun, skattar og önnur gjöld sem neytandi þarf að greiða í tengslum við lánssamning og lánveitanda er kunnugt um við samningsgerð, að frátöldum þinglýsingarkostnaði. Samkvæmt ákvæðinu sé kostnaður vegna viðbótarþjónustu í tengslum við lánssamning. Kaupverð hlutar, sem lánveitandi lánar til kaupa á, teljist ekki til lántökukostnaðar. Bendir stefnandi á að um eiginleg vörukaup sé að ræða. Kaupverð vörunnar teljist aldrei til heildarlántökukostnaðar. Enginn lánveitandi á markaði reikni heildarlántökukostnað með þeim hætti, sbr. t.d. auglýsingar raftækjaseljenda, bílasala og húsgagnasala. Vörukaup á bókunum geti því ekki talist til kostnaðar við lántökuna, þar sem neytandinn eignast bókina í kjölfar viðskiptanna. Auk þess sé kaupanda heimilt að skila bókinni, kjósi hann svo. Stefndi, svo og áfrýjunarnefnd neytendamála, byggi ákvörðun sína á því að stefnandi sé vísvitandi að sniðganga ákvæði laga um neytendalán með því að skilja kaupverð rafbóka frá heildarlántökukostnaði og þar með útreikningi á árlegri hlutfallstölu kostnaðar. Þá er því mótmælt að stefnandi stundi sölu á vörum sem séu einskis virði og því sé kaupverð bókanna í raun lántökukostnaður, enda séu kaup á rafbókum skilyrði fyrir því að viðskiptavinir stefnanda eigi þess kost að taka lán. Það sé rétt að viðskiptavinum standi ekki til boða að taka lán nema þeir kaupi einnig rafbækur af stefnanda. Það sé ekki óalgengt á neytendalánamarkaði, t.d. láni húsgagnaseljendur ekki neytendum nema þeir kaupi húsgögn af viðkomandi. Stefnandi mótmælir því sem ósönnuðu að virði bókanna sé ekkert.

Í fjórða lagi telur stefnandi að stefndi hafi ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni skv. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í fyrri bréfaskiptum við stefnda hafi stefnandi ítrekað óskað sérstaklega eftir leiðbeiningum ef stofnunin teldi upplýsingagjöf stefnanda til viðskiptavina sinna ábótavant. Vísar hann til bréfa stefnanda frá 6. júlí, 31. ágúst og 14. september 2016. Eftir þessum leiðbeiningum hafi verið óskað þannig að hægt væri að uppfylla skilyrði laga um neytendalán með sem bestum hætti. Stefndi hafi hins vegar kosið að hunsa beiðnir stefnanda og ákveðið að sekta hann, m.a. vegna atriða sem stefnandi hafði óskað leiðbeininga um. Telur stefnandi að þetta varði ógildi ákvörðunarinnar.

Í fimmta lagi telur stefnandi, verði litið svo á að brotið hafi verið gegn ákvæðum laga um neytendalán nr. 33/2013 varðandi hámark á árlegum hlutfallslegum kostnaði, i að ákvæði laganna, einkum 26. gr. þeirra, gangi of langt og stangist á við ákvæði stjórnarskrárinnar um jafnræði, friðhelgi eignarréttar og atvinnufrelsi. Lög um neytendalán feli í sér innleiðingu neytendalánatilskipunar Evrópusambandsins 2008/48/EB í íslensk lög, í öllum megindráttum. Samkvæmt Evróputilskipuninni falli fasteignalán og lán að lægri fjárhæð en 200 evrur ekki undir gildissvið tilskipunarinnar. Aðildarríkjum sé þó frjálst að fella fleiri tegundir lánssamninga undir gildissvið landslaga þegar þau innleiði tilskipunina. Í íslensku lögunum hafi verið farin sú leið að fella burtu lágmarksfjárhæð þeirra lána sem falli undir lögin, auk þess sem sérstakt ákvæði um hámark árlegrar hlutfallstölu kostnaðar sé að finna í 26. gr. laganna. Þar sé sett þak á árlega hlutfallstölu kostnaðar, 50%. Þegar litið sé til aðdraganda og tilgangs ákvæðis 26. gr. laganna, og þeirrar staðreyndar að yfirdráttarlán fjármálastofnana til skemmri tíma en eins mánaðar eru undanskilin gildissviði laganna og þ.m.t. hámarki árlegrar hlutfallstölu kostnaðar, sbr. e-lið 3. gr., sé ljóst að löggjafinn hafi gengið mun lengra en nauðsynlegt var til að ná markmiði sínu um neytendavernd, auk þess sem jafnræðis hafi engan veginn verið gætt við lagasetninguna.

Þá byggir stefnandi á því að hafi ákvæðum g-liðar 1. mgr. 5. gr. og 21. gr. laga um neytendalán nr. 33/2013 verið ætlað að taka til kostnaðar við vörukaupa stefnanda, þannig að honum hafi verið skylt að telja endurgjaldið fyrir bækur til heildarlántökukostnaðar, brjóti umrædd ákvæði gegn þeim skýrleikakröfum sem gera verði til lagaheimilda sem leggja eigi til grundvallar stjórnsýsluviðurlögum þeim sem stefnandi var beittur skv. u-lið 30. gr. laganna. Stefnandi byggir á því að stjórnvaldssektir eða önnur refsikennd viðurlög verði ekki lögð á aðila nema á grundvelli skýrrar lagaheimildar. Verði því að koma skýrt fram í lagaákvæði hvaða athafnir eða athafnaleysi geti leitt til stjórnvaldssekta. Þessu sé ekki til að dreifa í tilviki stefnanda.

Loks gerir stefnandi athugasemdir við fjárhæðir stjórnvaldssektanna. Þær séu órökstuddar, en í því felist brot gagnvart 4. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga. Jafnvel þótt komist væri að þeirri niðurstöðu að fyrirkomulag lánastarfsemi stefnanda fæli í sér brot gegn lögum um neytendalán, þá sé ljóst að stjórnvöld þyrftu að rannsaka slík brot í samræmi við þau sjónarmið sem rakin eru í 30. gr. laganna sem og önnur málefnaleg og viðeigandi sjónarmið, áður en tekin yrði ákvörðun um álagningu stjórnvaldssektar. Við meðferð málsins hjá stefnda hafi umfang lánastarfsemi stefnanda aldrei verið tekið til skoðunar eða aflað upplýsinga um önnur þau atriði sem hljóti að skipta mestu máli við endanlega niðurstöðu um stjórnvaldssekt. Með þessu telur stefnandi að brotið hafi verið gegn rannsóknarreglu, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, og það leiði til þess að stefndi geti ekki tryggt meðalhóf við beitingu 30. gr. laga um neytendalán, svo sem skylt sé samkvæmt ákvæðinu sjálfu, 12. gr. stjórnsýslulaga og 23. gr. tilskipunar nr. 2008/48/EB. Þessi alvarlegi annmarki á meðferð málsins birtist m.a. í því að í ákvörðunum stefnda, svo og ákvörðun áfrýjunarnefndar neytendamála, er sektarfjárhæð ekki rökstudd sérstaklega svo fullnægjandi sé. Hið síðastnefnda sé sjálfstætt brot gegn 4. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga um rökstuðning úrskurða í kærumáli, og leiði þegar af þeirri ástæðu til ógildingar.

Varðandi varakröfur og þrautarvarakröfur sínar í málinu vísar stefnandi til málsástæðna vegna aðalkrafna, að breyttu breytanda.

 

2. Helstu málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi hafnar öllum málsástæðum stefnanda. Tekur stefndi fram að skylt sé að veita allar viðeigandi upplýsingar á stöðluðu eyðublaði, sbr. 4. mgr. 7. gr. laga nr. 33/2013. Sama gildi um upplýsingar í lánssamningi, sbr. 2. mgr. 12. gr. laganna. Vísun stefnanda til þess að veittar hafi verið upplýsingar sem skipti neytanda máli standist því ekki. Lánveitingar stefnanda séu háðar því ófrávíkjanlega skilyrði að neytandi kaupi rafbók af stefnanda. Um það hafi stefnanda því borið að upplýsa á upplýsingablaði sínu samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laganna, sem og kostnað sem því fylgi. Það hafi stefnandi ekki gert. Ekki nægi í þessu sambandi að upplýsingarnar komi fram í almennum skilmálum stefnanda. Vísar stefndi um nánari rökstuðning til niðurstöðu áfrýjunarnefndar neytendamála varðandi brot stefnanda gagnvart stafliðum c, e, g og l í 4. mgr. 7. gr. laganna. Þá er því mótmælt að jafna megi lánveitingu stefnanda við neytendalán sem fyrirtæki veiti í tengslum við vörukaup. Stefnda sé ekki kunnugt um að neytendum sé veitt lán til vörukaupa og gegn slíkri lántöku bjóðist neytanda að taka annað lán sem sé ótengt fyrra láni og neytandi geti ráðstafað til annarra þarfa en kaupa á viðkomandi vöru.

            Varðandi brot stefnanda gegn 12. gr. laga nr. 33/2013 tekur stefndi fram að upplýsingar samkvæmt stafliðum e, g, h, l, q og v í 2. mgr. 12. gr. komi hvergi fram í þeim gögnum sem stefnandi lagði til grundvallar sem lánssamning í skilningi 12. gr. laganna. Stefnandi hafi þó bætt úr skorti á upplýsingum samkvæmt staflið v áður en málið kom til úrlausnar hjá áfrýjunarnefnd neytendamála. Vísar stefndi til úrskurðarins, sbr. töluliði 64–72, um nánari rökstuðning.

            Stefndi byggir á því að verð bókar teljist til heildarlántökukostnaðar og vísar í því sambandi til rökstuðnings í úrskurði áfrýjunarnefndar neytendamála. Tekur stefndi fram að stefnandi bjóði neytendum smálán gegn því skilyrði að keypt sé bók sem neytanda bjóðist að taka einnig lán fyrir. Smálánið geti neytandi nýtt að eigin vild og ótengt bókinni eða öðrum viðskiptum við stefnanda. Vörukaupin séu því gerð að skilyrði fyrir lántökunni. Áfrýjunarnefndin telji að kaupverð bókarinnar sé í raun kostnaður sem neytandi þurfi að greiða í tengslum við lánssamning, sbr. g-lið 5. gr. laga nr. 33/2013. Telji áfrýjunarnefndin að sala umræddra bóka, sem fyrst varð þáttur í starfsemi stefnanda eftir að honum var gert að láta af innheimtu gjalds vegna flýtiafgreiðslu lána í tengslum við lánveitingar sínar, geti ekki talist vera sjálfstæður þáttur í starfsemi stefnanda. Þvert á móti sé um að ræða kostnað sem standi í beinum tengslum við þau lán sem starfsemi stefnanda snúist um. Auk þess bendir stefndi á að hægt hafi verið að nálgast umræddar bækur gjaldfrjálst á netinu undir Googlebooks.

            Stefndi hafnar því að skort hafi á leiðbeiningarskyldu til stefnanda. Neytendastofa hafi undir rekstri málsins ítrekað sent stefnanda beiðni um upplýsingar auk þess sem í bréfunum hafi komið fram afstaða stofnunarinnar til þeirra upplýsinga sem stefnandi hafi veitt samkvæmt 7. og 12. gr. laga nr. 33/2013 og einnig til útreikninga stefnanda á heildarlántökukostnaði og árlegrar hlutfallstölu kostnaðar.

            Stefndi hafnar málsástæðum stefnanda um stjórnskipulegt gildi laga nr. 33/2013 og vísar m.a. til tveggja dóma Héraðsdóms Reykjavíkur í málum nr. E-1934/2015 og 1935/2015 sem stefnandi átti aðild að. Í dómunum hafi sömu málsástæðum stefnanda verið hafnað. Samkvæmt dómunum hafi ákvæði 26. gr. laganna stjórnskipulegt gildi.

            Um fjárhæð stjórnvaldssekta tekur stefndi fram að við ákvörðun sekta skuli tekið tillit til alvarleika brots, hvað það hafi staðið lengi, samstarfsvilja hins brotlega og hvort um ítrekað brot sé að ræða. Stefnandi hafi tafið málið með því að afhenda ekki gögn. Brot stefnanda séu ítrekuð þar sem Neytendastofa hafi áður tekið ákvörðun gagnvart rekstraraðilum 1909, Múla og Hraðpeninga vegna útreiknings á heildarlántökukostnaði og árlegri hlutfallstölu kostnaðar. Brot stefnanda hafi leitt til þess að neytendur voru krafðir um margfalt hærri kostnað vegna lántöku en heimilt sé samkvæmt lögum nr. 3372013. Auk þess hafi neytendur verið leyndir mikilvægum upplýsingum fyrir og við samningsgerð og stefnandi hafi þess vegna brotið í verulegum atriðum gegn 7. og 12. gr. laga nr. 22/2013.

 

IV.

Samkvæmt 26. gr. laga nr. 33/2013 um neytendalán má árleg hlutfallstala kostnaðar af neytendalánum ekki nema meira en 50 hundraðshlutum að viðbættum stýrivöxtum. Skilgreining á hugtakinu árleg hlutfallstala kostnaðar kemur fram í b. lið 1. mgr. 5. gr. laganna, en samkvæmt ákvæðinu merkir árleg hlutfallstala kostnaðar: Heildarlántökukostnað[ur], lýst sem árlegum hundraðshluta af heildarfjárhæð láns þess sem veitt er og reiknað út í samræmi við 21. gr.

Í 4. mgr. 21. gr. laganna segir að við útreikning á árlegri hlutfallstölu kostnaðar skuli ákvarða heildarlántökukostnað neytanda. Ekki skuli meðtalin í útreikningi möguleg viðurlög eða sektargreiðslur vegna vanefnda. Hið sama á við um kostnað sem fylgir kaupum á vörum eða þjónustu, hvort sem kaupin fara fram gegn staðgreiðslu eða láni.

Samkvæmt skilgreiningu h-liðar 1. mgr. 5. gr. laganna er með heildarlántökukostnaði átt við allan kostnað, þ.m.t. vexti, verðbætur, þóknun, skatta og önnur gjöld sem neytandi þarf að greiða í tengslum við lánssamning og lánveitanda er kunnugt um við samningsgerð, að frátöldum kostnaði vegna þinglýsingar. Kostnaður vegna viðbótarþjónustu í tengslum við lánssamning, einkum vátryggingariðgjöld, er einnig tekinn með í útreikninginn ef skylda er að gera viðbótarþjónustusamning til að lánið fáist eða til að fá það með auglýstum skilmálum og kjörum. 

Í r-lið 1. mgr. 5. gr. laganna er skilgreining á tengdum lánssamningi. Með því er átt við lánssamning þar sem viðkomandi lán þjónar eingöngu þeim tilgangi að fjármagna samning um veitingu sérstakrar vöru eða sérstakrar þjónustu og birgir eða þjónustuveitandi fjármagnar sjálfur lánið eða, þar sem þriðji aðili fjármagnar lánið, ef lánveitandi notar þjónustu birgis eða þjónustuveitanda í tengslum við gerð eða undirbúning lánssamnings eða þegar sérstök vara eða veiting sérstakrar þjónustu er sérstaklega tilgreind í lánssamningi.

Stefnandi telur að kostnaður vegna bókakaupanna sem eru skilyrði lánveitingarinnar geti ekki talist til lántökukostnaðar. Um sé að ræða kaupverð hlutar sem lánveitandi láni til kaupa á. Um sé að ræða vörukaup.

Óumdeilt er að neytandi sem tekur lán hjá stefnanda þarf áður að festa kaup á bók hjá honum. Neytandi getur hvort heldur staðgreitt bókina eða fengið lán fyrir henni og að því loknu fengið lán á bilinu 10.000 til 40.000 krónur, allt eftir fjölda bóka sem hann kaupir. Verð á einni bók er 3.450 krónur, en veittur er afsláttur eftir fjölda bóka. Telur dómurinn að lánveiting stefnanda vegna bókakaupa teljist til tengds lánssamnings í skilningi fyrrgreinds r-liðar 1. mgr. 5. gr. laganna og að um sé að ræða kostnað sem fella megi undir viðbótarþjónustu sem teljist til heildarlántökukostnaðar í skilningi h-liðar 5. gr. laganna. Óheimilt er að innheimta hærra gjald á neytendalán stefnanda en nemur 50 hundraðshlutum að viðbættum stýrivöxtum. Er það því niðurstaða dómsins að með því að telja kostnað vegna bókakaupa ekki til heildarlántökukostnaðar hafi stefnandi brotið gegn ákvæðum 21. gr. laga nr. 133/2013 og enn fremur að sú ákvörðun stefnanda að innheimta gjald sem nemur 3.333,87% árlegrar hlutfallstölu kostnaðar hafi farið í bága við ákvæði 26. gr. laga nr. 133/2013.

Víkur þá næst að því hvort stefnandi hafi veitt neytendum fullnægjandi upplýsingar í skilningi 7. gr. laga nr. 33/2013.

Í 7. gr. laga nr. 33/2013 er mælt fyrir um upplýsingar sem lánveitandi skal veita neytanda áður en lánssamningur er gerður og í hvaða formi upplýsingarnar skuli veittar. Samkvæmt 1. mgr. lagagreinarinnar skal lánveitandi með eðlilegum fyrirvara veita neytanda nauðsynlegar upplýsingar til þess að hann geti borið saman ólík tilboð og tekið upplýsta ákvörðun um það hvort gera skuli lánssamning áður en neytandi er bundinn af lánssamningi eða tilboði. Skulu þessar upplýsingar veittar á grundvelli lánsskilmála, skilyrða lánveitanda og, ef við á, fram kominna óska og upplýsinga frá neytanda. Samkvæmt 2. mgr. lagagreinarinnar skal m.a. veita slíkar upplýsingar á stöðluðu eyðublaði sem birt er í reglugerð sem ráðherra setur, sbr. reglugerð nr. 921/2013 um staðlað eyðublað sem lánveitandi notar til að veita neytanda upplýsingar áður en lánssamningur er gerður.

Ágreiningur lýtur að því hvort stefnandi hafi tilgreint nægjanlega þær upplýsingar á staðlaða eyðublaðinu sem tilgreindar eru í c-, e-, g- og l-liðum 4. mgr. 7. gr. laganna.

Samkvæmt c-lið 4. mgr. 7. gr., sbr. einnig 2. tölulið í viðauka 1 í reglugerðinni nr. 921/2013, skal í upplýsingunum koma fram heildarfjárhæð láns og skilyrði fyrir nýtingu þess. Til þess að lántaki geti fengið lán hjá stefnanda þarf hann að kaupa bók af kæranda. Ekkert kemur fram um þetta skilyrði í stöðluðum upplýsingum um neytendalán stefnanda, þ. á m. um verð bókanna. Upplýsingarnar á stöðluðu eyðublaði stefnanda eru því ófullnægjandi að þessu leyti og hefur stefnandi því brotið umrætt ákvæði c-liðar 4. mgr. 7. gr. laganna.

Samkvæmt e-lið 4. mgr. 7. gr., sbr. einnig 2. tölulið í viðauka 1 í reglugerð nr. 921/2013, skal í upplýsingum koma fram um hvaða vöru eða þjónustu er að ræða og staðgreiðsluverð hennar, þegar um er að ræða lán í því formi að greiðslu sérstakrar vöru eða þjónustu er frestað og tengda lánssamninga. Í stöðluðum upplýsingum um neytendalán stefnanda er ekki minnst á bækur sem stefnandi hefur til sölu og lánveitingar stefnanda vegna þeirra. Tekur stefnandi hins vegar sérstaklega fram í stöðluðum upplýsingum að ekki sé skylt að gera annan samning um viðbótarþjónustu til þess að neytandi geti fengið lán hjá stefnanda. Eru þessar upplýsingar því ekki réttar og í andstöðu við fyrrgreint ákvæði e-liðar 4. mgr. 7. gr. laganna. Stefnandi hefur því ekki farið að fyrirmælum laganna að þessu leyti. Er hafnað þeirri málsástæðu stefnanda að þetta megi neytanda vera ljóst af öðrum skjölum.

Samkvæmt g-lið 4. mgr. 7. gr., sbr. einnig 3. tölulið í viðauka 1 í reglugerð nr. 921/2013, skal í upplýsingum koma fram árleg hlutfallstala kostnaðar og heildarfjárhæð sem neytandi greiðir, útskýrt með lýsandi dæmi þar sem fram koma allar forsendur sem eru notaðar við útreikning á hlutfallstölunni;… Í stöðluðum upplýsingum um neytendalán stefnanda segir svo um árlega hlutfallstölu kostnaðar: „ÁHK er mismunandi eftir lánsfjárhæð og lánstíma, þó aldrei hærri en 50% að viðbættum stýrivöxtum.“ Taka verður undir það með stefnda að stefnandi telst ekki hafa farið að skilyrðum laganna að þessu leyti. Engar upplýsingar liggja fyrir um útreikning á árlegri hlutfallstölu kostnaðar og þar með töldu verði umræddra bóka. Framsetning þessi er í meira lagi óskýr og leiðir til þess neytandi getur ekki á einfaldan hátt áttað sig á heildarlántökukostnaði þeim sem fylgir lánveitingu stefnanda. Hefur stefnandi því brotið gegn fyrirmælum g-liðar 4. mgr. 7. gr. laganna.

Samkvæmt l-lið 4. mgr. 7. gr., sbr. einnig 3. tölulið í viðauka 1 í reglugerð nr. 921/2013, skal í upplýsingum koma fram gildandi vextir þegar um er að ræða greiðslu eftir gjalddaga og fyrirkomulag á breytingum á þeim og, ef við á, kostnaður sem þarf að greiða vegna vanskila. Í upplýsingum stefnanda er ekki gerð grein fyrir þessum atriðum. Engar upplýsingar koma fram um vaxtaprósentu og fyrirkomulag við breytingu á þeim. Þá er ekki gerð grein fyrir kostnaði sem leggst á neytanda vegna vanskila.  Þeirri málsástæðu stefnanda að þessum skilyrðum sé fullnægt með því að geta þeirra í skjalagerð er hafnað.

Í 12. gr. laganna er mælt fyrir um upplýsingar sem skulu koma fram í lánssamningum. Samkvæmt 1. mgr. lagagreinarinnar skulu lánssamningar skráðir á pappír eða vera á öðrum varanlegum miðli. Í 2. mgr. eru talin upp þau atriði í stafliðum a- v sem koma skulu fram í lánssamningi á skýran og hnitmiðaðan hátt. Telur stefndi að stefnandi hafi brotið gegn e-, g-, h-, l-, q- og v-liðum ákvæðisins, en stefnandi telur að allar viðeigandi upplýsingar komi fram í lánssamningum hans.

Samkvæmt e-lið 2. mgr. 12. gr. laganna skal koma fram í lánssamningi um hvaða vöru eða þjónustu er að ræða og staðgreiðsluverð hennar, þegar um er að ræða lán í því formi að greiðslu sérstakrar vöru eða þjónustu er frestað og tengda lánsamninga. Í 2. gr. lánssamnings sem stefnandi notar í viðskiptum sínum við neytendur er mælt fyrir um lánsfjárhæð, útborgun lánsins og endurgreiðslu. Í grein 2.4 í lánssamningnum segir enn fremur að auk lánssamningsins gildi ákvæði almennra skilmála stefnanda, sbr. einnig grein 5.3. Í lánssamningi stefnanda er ekki vikið að verðmæti umræddra rafbóka eða láni sem stefnandi veitir vegna þeirra. Það er ekki heldur gert í almennum skilmálum stefnanda. Er því staðfest sú niðurstaða áfrýjunarnefndar neytendamála að stefnandi hafi brotið gegn ákvæðum e-liðar 2. mgr. 12. gr. laganna.

Samkvæmt g-lið 2. mgr. 12. gr. laganna skal í lánssamningi koma fram árleg hlutfallstala kostnaðar og heildarfjárhæð sem neytandi greiðir, reiknað um leið og lánssamningur er gerður, auk þess sem tilgreina skal allar forsendur sem notaðar eru við útreikning á hlutfallstölu. Þetta hefur stefnandi ekki gert. Er því staðfest sú niðurstaða áfrýjunarnefndar neytendamála að stefnandi hafi brotið gegn ákvæði g-liðar 2. mgr. 12. gr. laganna.

Samkvæmt h-lið 2. mgr. 12. gr. skal í lánssamningi m.a. koma fram fjárhæð, sem neytandi þarf að standa skil á. Í lánssamningi stefnanda er, eins og áður segir, hvorki gerð grein fyrir tengdum lánssamningi vegna bóksölu stefnanda né tiltekin fjárhæð keyptra bóka. Er staðfest sú niðurstaða áfrýjunarnefndar neytendamála að stefnandi hafi brotið gegn ákvæði h-liðar 2. mgr. 12. gr. laganna.

Samkvæmt l-lið 2. mgr. 12. gr. skulu í lánssamningi koma fram gildandi vextir þegar um er að ræða greiðslu eftir gjalddaga sem gilda á þeim tíma þegar lánssamningur er gerður og fyrirkomulag við breytingu á þeim og, ef við á, kostnaður sem greiða þarf vegna vanskila. Þessar upplýsingar koma ekki fram í lánssamningi stefnanda. Í grein 3.1 og 3.2 í lánssamningi stefnanda kemur aðeins fram að vextir reiknist frá útborgunardegi og greiðist eftir á, á sama gjalddaga og afborgarnir. Að öðru leyti er í lánssamningi vísað til lánaskilmála og staðlaðra upplýsinga um neytendalán. Þá segir að vanefni lántaki skuld samkvæmt lánssamningi beri honum að greiða dráttarvexti af gjaldfallinni fjárhæð frá gjalddaga til greiðsludags. Með vísan til þess er staðfest niðurstaða áfrýjunarnefndar neytendamála um að stefnandi hafi brotið gegn ákvæði l-liðar 2. mgr. 12. gr. laganna.

Í 17. gr. laga nr. 33/2013 er mælt fyrir um réttarstöðu neytanda þegar hann nýtir rétt sinn til að falla frá samningi um afhendingu vöru eða þjónustu. Samkvæmt q-lið 2. mgr. 12. gr. skulu í lánssamningi koma fram upplýsingar um rétt sem leiðir af 17. gr. laganna, svo og skilyrðin fyrir nýtingu þess réttar. Þetta hefur stefnandi ekki gert. Er því fallist á það með áfrýjunarnefnd neytendamála að stefnandi hafi brotið gegn ákvæði q-liðar 2. mgr. 12. gr. laganna.

Þá verður staðfest niðurstaða stefnda og áfrýjunarnefndar neytendamála um að stefnandi hafi ekki fullnægt skilyrðum v-liðar 2. mgr. 12. gr. með því að gera ekki grein fyrir bærum eftirlitsyfirvöldum í lánssamningi sínum.

Ekki verður fallist á þá málsástæðu stefnanda að stjórnvöld hafi ekki gætt að leiðbeiningarskyldu sinni skv. 7. gr. stjórnsýslulaga. Vísar stefnandi til þess að við meðferð málsins hafi stefnandi óskað eftir leiðbeiningum stefnda. Samkvæmt fyrrgreindu lagaákvæði ber stjórnvöldum að veita þeim sem til þeirra leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þeirra. Áður en stefndi tók ákvörðun í máli stefnanda óskaði hann eftir skýringum og gögnum í tengslum við lánveitingar stefnanda. Auk þess þekkir stefnandi fyrri ákvarðanir stefnda í tengslum við Kredia og Smálán. Þá er í bréfum stefnda til stefnanda í aðdraganda ákvörðunarinnar gerð grein fyrir viðeigandi lagaákvæðum. Málsástæða stefnanda um skort á leiðbeiningum á því ekki við rök að styðjast. Við bætist að stefnandi starfar á lánamarkaði og honum á því að vera kunnugt um einföld atriði við gerð lánasamninga. Er málsástæðu stefnanda um ógildingu ákvörðunar stefnda af þessum sökum hafnað.

Kemur þá til skoðunar málsástæða stefnanda þess efnis að ákvæði 26. gr. laga nr. 133/2013, sem mælir fyrir um hámark árlegrar hlutfallstölu kostnaðar, fari í bága við ákvæði stjórnarskrár um jafnræði, friðhelgi eignarréttar og atvinnufrelsi. Með lögum nr. 133/2013, um neytendalán, var tilskipun Evrópusambandsins 2008/48/EB um lánasamninga fyrir neytendur innleidd í íslenskan rétt. Tilgangur með setningu tilskipunarinnar var að endurskoða reglur um neytendalán til að auka neytendavernd og tryggja samræmt lagaumhverfi við veitingu neytendalána. Í almennum athugasemdum með frumvarpi að lögum nr. 133/2013 er gerð grein fyrir forsendum ákvæðisins um hámark árlegrar hlutfallstölu kostnaðar og tekið fram að ástæða sé til að vernda neytendur sérstaklega gegn okurdráttarvöxtum, auk þess sem haft hafi verið til hliðsjónar að ekki ríkti fullkomið samningafrelsi um vexti og kostnað samkvæmt gildandi lögum. Dómurinn telur ljóst, með vísan til framangreindra sjónarmiða, að tilgangur löggjafans með lögfestingu 26. gr. um hámark árlegrar hlutfallstölu kostnaðar hafi einkum verið sá að vernda neytendur gegn ofurvöxtum. Það á einkum við um ungmenni og aðra þá sem standa höllum fæti fjárhagslega. Í dómaframkvæmd hefur löggjafinn verið talinn hafa víðtækt vald til að banna eða takmarka starfsemi sem telst skaðleg eða óæskileg þó að það feli í sér almennar takmarkanir á eignarrétti, atvinnufrelsi eða að lögin mismuni starfsemi einhvers samanborið við aðra sambærilega starfsemi. Er því hafnað þeirri málsástæðu stefnanda að ákvæði 26. gr. laga nr. 133/2013 hafi ekki stjórnskipulegt gildi eða að með því hafi verið brotið gegn stjórnarskrárvörðum réttindum stefnanda.

Stefnandi byggir á því að sú túlkun stefnda að fella undir heildarlántökukostnað endurgjald fyrir bækurnar, sbr. g-lið 5. gr. og 21. gr. laga nr. 33/2013, leiði til þess að umrædd ákvæði fari í bága við þær kröfur sem gera verði til skýrleika lagaheimilda og að slík ákvæði geti ekki verið grundvöllur stjórnvaldssekta, auk þess sem stefnandi gerir athugasemdir við fjárhæð stjórnvaldssektarinnar. Í því sambandi hafi rannsókn málsins verið ábótavant og sektarfjárhæðin af þeim sökum ekki rökstudd nægjanlega.

Dómurinn telur umrædd ákvæði g-liðar 5. gr. og 21. gr. laga nr. 33/2013 skýr. Í 1. mgr. 30. gr. laga nr. 133/2013 er mælt fyrir um stjórnvaldssektir. Samkvæmt 1. mgr. lagagreinarinnar getur stefndi lagt stjórnvaldssektir á lánveitanda sem brýtur gegn ákvæðum laganna og, eftir atvikum, reglum settum á grundvelli þeirra, m.a. samkvæmt staflið b þegar um er að ræða brot gegn 7. gr., stafhlið h, þegar um brot er að ræða gegn 12. gr., staflið v þegar um er að ræða brot gegn 21. gr. um útreikning á árlegri hlutfallstölu kostnaðar og samkvæmt staflið y. þegar um er að ræða brot gegn 26. gr. um hámark árlegrar hlutfallstölu kostnaðar. Samkvæmt 3. mgr. 30. gr. geta sektir numið frá 100 þús. kr. til 20 millj. kr. Við ákvörðun sekta skal m.a. tekið tillit til alvarleika brots, hvað það hefur staðið lengi, samstarfsvilja hins brotlega aðila og hvort um ítrekað brot sé að ræða.

Dómurinn telur, að virtum gögnum málsins og með vísan til framangreindrar niðurstöðu um brot stefnanda gegn greindum ákvæðum laganna, skilyrðum til að leggja stjórnvaldssekt á stefnanda fullnægt. Þá telur dómurinn ekki tilefni til þess að hnekkja mati áfrýjunarnefndar á fjárhæð sektarinnar.

Samkvæmt framansögðu er stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 800.000 krónur.

Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

 

DÓMSORÐ:

Stefndi, Neytendastofa, er sýknaður af öllum kröfum stefnanda, E-content ehf., í máli þessu.

Stefnandi greiði stefnda 800.000 krónur í málskostnað.

           

                                                            Ragnheiður Snorradóttir (sign.)