- Galli
- Málskostnaður
- Skaðabætur
- Lausafjárkaup, gallar
D Ó M U R
Héraðsdóms Reykjaness miðvikudaginn 21. nóvember 2018 í máli nr.
E-124/2018:
Hilmar F. Thorarensen
(Lúðvík Bergvinsson lögmaður)
gegn
Ásafli ehf.
(Jón Elvar Guðmundsson lögmaður)
Mál þetta, sem þingfest var 7. febrúar sl. og dómtekið
6. nóvember sl., var höfðað með stefnu birtri 31. janúar 2018.
Stefnandi er Hilmar F. Thorarensen, kt.
080640-2269, Kaplaskjólsvegi 62, Reykjavík. Stefndi er Ásafl ehf., kt.
421107-1220, Hjallahrauni 2, Hafnarfirði.
Stefnandi krefst þess að hið stefnda félag verði dæmt
til að greiða honum 1.299.588 krónur auk dráttarvaxta af 1.101.588 krónum frá
12. apríl 2013 til 23. apríl 2014 en af 1.299.588 krónum frá þeim degi til
greiðsludags. Til vara krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að
greiða stefnanda 261.244 krónur og skaðabætur að álitum dómsins auk
dráttarvaxta af 63.222 krónum og skaðabótunum frá 12. apríl 2013 til 23. apríl
2014 en af 261.244 krónum og skaðabótunum frá þeim degi til greiðsludags. Í
öllum tilvikum gerir stefnandi þá kröfu að stefndi verði dæmdur til að greiða
honum málskostnað.
Stefndi krefst þess aðallega að máli
þessu verði vísað frá dómi. Til vara krefst stefndi sýknu af kröfum stefnanda
en til þrautavara að fjárkrafa stefnanda verði lækkuð verulega. Þá er krafist
málskostnaðar auk álags á málskostnað.
Málflutningur vegna frávísunarkröfu
stefnda fór fram þann 20. júní sl. og var kröfu stefnda um frávísun málsins frá
dómi hafnað með úrskurði þann 6. júlí sl. Aðalmeðferð málsins fór fram 6.
nóvember sl. og var málið dómtekið að málflutningi loknum.
Málsatvik.
Samkvæmt gögnum
málsins og framburði vitna eru málsatvik þau að stefnandi ákvað að gera upp
trilluna Hönnu ST-49 (skipaskrár nr. 9806). Stefnandi keypti af þessu tilefni
vél, gír og varahluti af stefnda. Stefndi seldi stefnanda vél sem heitir
Westerbeke 30C.
Stefndi sendi
stefnanda skriflegt tilboð dags. 28. janúar 2011. Þar er stefnanda boðið að
kaupa vélina Westerbeke 30C ásamt varahlutum. Í tilboðinu kemur fram að verð á
vél og varahlutum miðist við gengi Bandaríkjadollara (USD) 116,24. Stefndi
sendi stefnanda tölvupóst 2. mars 2011 þar sem bætt var við tilboðið verði á
aukahlutum sem voru ekki í upprunalega
tilboðinu.
Stefnandi
samþykkti tilboð stefnda um verð á vél og varahlutum með tölvupósti sama dag. Í
þeim tölvupósti tekur stefnandi fram að hann taki tilboðinu og að verðið sé háð
gengi á Bandaríkjadollar (USD). Stefnandi kveður að þegar kaupin hafi átt sér
stað hafi gengið verið honum hagstæðara og hann eigi því rétt á lækkun
kaupverðs í samræmi við það. Stefnandi miðar við gengi dollars (USD) á útgáfudegi
reiknings. Stefndi kveður að ekki hafi samist um að miða við gengi með þeim
hætti sem stefnandi krefst. Kröfuliður stefnanda vegna þessa er 63.222 krónur.
Að öðru leyti er ekki ágreiningur um kaupverð á vél og varahlutum.
Stefnandi kveður
að í fyrsta sinn sem hann fór í róður á bátnum þann 16. maí 2012, frá Karlshöfn
á Gjögri þar sem hann hefur aðstöðu fyrir bátinn, hafi hann lent í óhappi. Hann
hafi fengið tóg (kaðal) í skrúfuna þegar hann kúplaði áfram og vélin hafi
stöðvast umsvifalaust. Á þessum tíma hafi vélinni verið ekið 5 klst. Stefnandi
notaði bátinn nokkrum sinnum í viðbót en þann 4. júní 2012 hafi gír vélarinnar
hætt að virka. Þá hafi skrúfan aðeins snúist löturhægt áfram en virkaði
eðlilega afturábak. Stefnandi kveður að vélin hafi á þessum tíma verið keyrð 31
klst. samtals.
Aðilar eru ekki
sammála um atburðarás í kjölfarið. Stefnandi kveður að hann hafi strax haft
samband við stefnda og upplýst hann um vandamál með gírinn og um að hann hafi
lent í óhappi í fyrstu sjóferðinni. Stefnandi kveður að hann og stefndi hafi
sammælst um að leita til Kristmundar Kristmundssonar vélfræðings sem rekur
fyrirtækið Stálver ehf. Stefndi hafi svo afráðið 8. júní 2012 að panta nýjan
gír frá framleiðandanum í Bandaríkjunum og afhenda stefnanda að kostnaðarlausu.
Jafnframt hafi stefndi lofað að gera upp við Stálver ehf.
Stefndi kveður
hins vegar að stefnandi hafi ekki látið hann vita af því að tóg hafi fest í
skrúfu bátsins heldur hafi stefnandi tjáð honum að gírinn virkaði ekki sem
skyldi. Ráðleggingar stefnda hafi tekið mið af þeim upplýsingum og hann hafi í
kjölfarið talið að gírinn væri haldinn galla og pantað nýjan gírkassa fyrir
stefnanda, sem var afhentur 20. júní 2012.
Stefndi taldi að
tryggingarfélag, framleiðandi eða stefnandi myndi þurfa að bera kostnað af
tjóninu og hann hafi því afráðið að bíða með að gefa út reikning þar til málið
skýrðist.
Stefnandi kveður
jafnframt að þegar nýi gírinn hafi verið afhentur hafi vantað stýrisarm og hann
hafi því verið ónothæfur. Stefnandi kveðst hafa þurft að aka frá Gjögri til
Hafnarfjarðar fjórum sinnum vegna þessa, sem eru 1280 km samtals, og hann gerir
kröfu um kostnað vegna þessa.
Stefnandi óskaði
álits kærunefndar lausafjár- og þjónustukaupa áður en hann höfðaði mál þetta.
Stefnandi byggði m.a. á því fyrir kærunefndinni að gírinn hafi ekki haft þá
eiginleika sem stefndi hafi sagt og að gírinn henti ekki í bátinn. Stefndi hafi
átt að ráðleggja honum betur og hefði sem sérfræðingur átt að vita að varan sem
hann seldi hentaði ekki stefnanda.
Kærunefndin
kvaddi til sérfræðing til að aðstoða við úrlausn málsins. Álit
kærunefndarinnar, dags. 13. mars 2014, var að gírinn væri ekki gallaður.
Kærunefndin féllst ekki á að eiginleikar gírsins hafi ekki hentað í bát
stefnanda. Þá var það álit sérfræðings sem aðstoðaði kærunefndina að eðlileg
viðbrögð vegna óhappsins væru að kanna hvort afstaða skrúfunnar og
skrúfuöxulsins hefðu breyst. Það sé líklegasta skýringin á óstarfhæfni gírsins.
Það hafi ekki verið gert og því megi rekja ástæður þess að gírinn hætti að
virka til stefnanda í skilningi 1. mgr. 30. gr. laga nr. 50/2000 um
lausafjárkaup.
Í kjölfar þessa
álits gaf stefndi út reikning 18. mars
2014 vegna gírkassa sem var afhentur 20. júní 2012. Stefnandi greiddi
reikninginn en telur að hann sé óréttmætur og krefst í máli þessu
endurgreiðslu.
Í gögnum málsins
er yfirlýsing dagsett 19. nóvember 2015 vegna skoðunar á gírnum, PRM 80, sem
Guðmundur Gunnar Símonarson framkvæmdi. Guðmundur telur að tógið hafi ekki
skemmt gírinn að neinu leyti.
Stefnandi
leitaði til umboðsmanns Alþingis vegna niðurstöðu kærunefndar lausafjár- og
þjónustukaupa. Umboðsmaður Alþingis sendi í kjölfarið athugasemdir til
kærunefndarinnar vegna málsins og í framhaldi af því var málið endurupptekið af
kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa en nefndin komst að sömu niðurstöðu og
áður í áliti dags. 29. mars 2016.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi byggir á því að tilboð stefnda
um sölu á vél í bátinn Hönnu ST-49 hafi verið gert miðað við gengi gjaldmiðils
og hafi átt að taka hækkunum eða lækkunum miðað við umsamið gengi gagnvart
íslensku krónunni. Á útgáfudegi reiknings stefnda hafi gengið verið 111,34 en
verðtilboð hafi miðast við 116,34. Því hafi átt að lækka reikning um 63.222
krónur.
Stefnandi byggir á því að stefndi beri
ábyrgð á því gagnvart stefnanda að gír sem settur var í bátinn Hönnu ST-49 hafi
ekki virkað og að það hafi þurft að taka hann úr bátnum til frekari skoðunar.
Gírinn hafi verið tekinn úr bátnum að fyrirmælum stefnda.
Stefnandi byggir á því að óhapp sem varð
þegar tóg flæktist í skrúfu bátsins hafi ekki haft nein áhrif á gírinn eða
virkni hans.
Stefnandi byggir á því að stefndi hafi
skuldbundið sig til að greiða reikning frá Stálveri ehf., vegna vinnu við
skoðun gírsins og að taka hann frá, að fjárhæð 39.200 krónur. Jafnframt að
stefndi beri bótaábyrgð gagnvart stefnanda á fjárhæð sem samsvari reikningnum
vegna ábyrgðar hans á virkni gírsins.
Stefnandi byggir á því að viðbrögð
stefnda þegar hann fékk upplýsingar um að gírinn virkaði ekki hafi verið röng
og óforsvaranleg. Stefndi hafi sem sérfræðingur og seljandi gírsins átt að sjá
að það sem að var hafi ekkert haft með það að gera að tóg hafi fest í skrúfu
bátsins.
Hin röngu viðbrögð stefnda og
óforsvaranleg og saknæm háttsemi hafi leitt til tjóns stefnanda sem stefndi beri
ábyrgð á gagnvart stefnanda og beri að bæta honum. Sundurliðun bótakröfunnar sé
þannig:
Reikningur Stálvers ehf. kr. 39.200
Kostnaður / Skaðabætur: kr. 146.944
Tapaður
afli kr.
852.222
Alls kr.
1.038.366
Liður 1 grundvallist á reikningi eins
og rakið sé að framan.
Liður 2
sé kostnaður við akstur stefnanda. Um sé að ræða akstur með gírinn og
vegna gírsins frá Gjögri til Hafnarfjarðar og svo aftur sömu leið til að ná í
búnað sem stefndi hafi ekki afhent með nýja gírnum. Um sé að ræða fjórum sinnum
320 kílómetra og sé krafist 114,80 króna fyrir hvern ekinn kílómetra sem
grundvallist á ferðakostnaðarreglum ríkisins á þeim tíma sem um ræði.
Liður 3 sé grundvallaður á útreikningum
stefnanda eins og þeir voru settir fram í upphaflegri kröfugerð til kærunefndar
lausafjár- og þjónustukaupa. Stefnandi telji sig hafa misst úr ellefu róðra
vegna málsins og miðar við meðalafla í róðrum á árinu 2012. Stefnandi finnur
síðan meðalverð fyrir aflann að frádregnum kostnaði og samkvæmt þessu nemi tap
hans 852.222 krónum. Útreikningarnir hafi verið settir fram á sérstöku
dómskjali.
Auk framangreinds krefst stefnandi
endurgreiðslu á greiddum reikningi stefnda dagssettum 18. mars 2014 að fjárhæð
198.000 krónur. Um sé að ræða reikning fyrir nýjum gír sem stefndi hafi tekið
ákvörðun um að panta. Byggt sé á því að sú ákvörðun hafi verið óforsvaranleg og
saknæm og leitt til tjóns stefnanda að sömu fjárhæð og reikningurinn sem
stefnandi greiddi þann 23. apríl 2014.
Sundurliðun heildarkröfu:
Lækkun kaupverðs v. gengismunar kr. 63.222
Skaðabætur kr. 1.038.366
Endurgreiðsla reiknings stefnda kr. 198.000
Alls kr.
1.299.588
Vísar stefnandi til allra framangreindra
málsástæðna fyrir aðalkröfu um varakröfu. Varakrafan byggist á því að fyrir
liggi að stefnda beri að endurgreiða stefnanda gengismun vegna upphaflegra
viðskipta að fjárhæð 63.244 krónur og reikninginn vegna nýja gírsins sem
stefndi krafði stefnanda um greiðslu á. Því til viðbótar krefji stefnandi
stefnda um skaðabætur að álitum dómsins, samanber meginreglur samninga- og
kröfuréttar og almennra skaðabótareglna.
Stefnandi styður kröfu sína um vexti við
lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 1. mgr. 6. gr. þeirra laga. Sé
upphafstími vaxtakrafna miðaður við þann dag sem krafa var lögð fram hjá
kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa en þó við greiðsludag að því er varðar
reikninga stefnda, annars vegar vegna gengismunar af upphaflegu tilboðsverði og
hins vegar vegna greiðslu fyrir nýjan gír.
Stefnandi byggir kröfur sínar á
meginreglum kröfu-, samninga- og lausafjárkauparéttar. Þá sé jafnframt vísað
sérstaklega til laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup, meðal annars að því er varði
galla og skyldur seljanda hlutar. Um rétt til skaðabóta sé byggt á V. kafla
laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup, m.a. 38. gr., 39. gr. og 40. gr., sbr. 30.
gr. sömu laga. Þá sé enn fremur vísað til almennra reglna kröfuréttar um
vanefndir og vanefndaheimildir. Kröfur stefnanda séu ekki fyrndar, sbr. 16. gr.
laga um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007.
Málskostnaðarkrafa byggist á ákvæðum
XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, meðal annars 130. gr.
laganna. Varðandi varnarþing vísast til
1. mgr. 33. gr. sömu laga.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Stefndi mótmælir öllum rökum og
fullyrðingum stefnanda sem röngum og ósönnuðum.
Stefndi byggir á því að sá gír sem
upphaflega hafi verið seldur stefnanda hafi ekki verið haldinn neinum galla. Að
því marki sem stefnandi kunni að byggja á sé meintur galli ekki fyrir hendi og
ósannaður með öllu. Þvert á móti byggi stefndi á því að öll gögn málsins
staðfesti ítrekað að ekkert hafi verið að gírnum. Að sama skapi byggir stefndi
á því að stefnandi hafi í engu upplýst stefnda um það að hann hafi fengið kaðal
í skrúfu bátsins áður en vandræði hans hófust og að það hafi ekki verið gert
fyrr en eftir að pantaður var fyrir hann nýr gír og hann afhentur.
Stefndi byggir á því að í engu hafi
verið samið um að kaupverð þess búnaðar sem hann seldi stefnanda skyldi ráðast
af gengi dollars. Byggt sé á því að vísun til gengis í tilboði breyti engu um
þetta og að þurft hafi að semja sérstaklega um slíkt svo bindandi gæti verið.
Jafnframt sé byggt á því að ef vilji hefði verið til slíkrar samningagerðar
hefði stefnanda borið að fara sérstaklega fram á það en þá hefði útgáfudagur
reiknings ekki getað verið viðmið enda sá dagur tilviljanakenndur í tengslum
við það hvenær stefndi þurfti að leggja út greiðslur til framleiðanda í
erlendri mynt. Enginn slíkur samningur hafi verið gerður og beri stefnandi alla
sönnunarbyrði fyrir fullyrðingum um annað.
Stefndi byggir á því að hann geti enga
ábyrgð borið á vandræðum stefnanda og meintum kostnaði sem lýst sé í stefnu.
Hafi hvorugt leitt af hinum selda gír eða athöfnum stefnda. Miklu heldur hafi
tjón stefnanda, ef eitthvert var, orðið af vangá stefnanda sjálfs þegar hann
fékk kaðal í skrúfu báts síns.
Hafi eitthvert tjón leitt af því gat
stefnda ekki verið um að kenna auk þess sem stefndi byggir á því að stefnandi
hafi verið tryggður fyrir slíku tjóni og fengið það að fullu bætt frá
tryggingarfélagi sínu.
Þá byggir stefndi á því í þessu sambandi
að stefnandi beri alla sönnunarbyrði fyrir fullyrðingu um að atvikið hafi ekki
haft áhrif á gírinn eða virkni hans, enda sé það alveg ljóst að bátur stefnanda
og búnaður hans hafi orðið fyrir verulegu hnjaski við að fá kaðal í skrúfuna.
Stefndi byggir á því að hann geti enga
ábyrgð borið á meintum kostnaði stefnanda þar sem allan hafi hann leitt af
aðgerðum stefnanda sjálfs og á hans ábyrgð. Í öllu falli hafi engan kostnað
leitt af hinum meinta galla í gírnum þar sem ekkert reyndist vera að honum.
Stefndi byggir á því að hann hafi í engu
sýnt af sér saknæma háttsemi í viðbrögðum sínum við umkvörtunum stefnanda. Því
geti ekki verið um neins konar bótaskyldu að ræða vegna þeirra viðbragða og
alls ekki á grundvelli þeirra málsástæðna sem stefnandi byggir á.
Stefndi byggir á því að ósannað sé með
öllu að eitthvað hafi verið að hinum umdeilda gír. Af því leiði í fyrsta lagi
að stefndi geti enga ábyrgð borið á kostnaði samkvæmt reikningi frá
stefnanda. Hið sama gildi, í öðru lagi,
um þann þátt kröfu stefnanda sem tilgreindur sé sem kostnaður eða skaðabætur að
fjárhæð 146.944 krónur. En jafnvel þótt bótakrafa gæti verið fyrir hendi þá sé
þessi þáttur kröfunnar úr lausu lofti gripinn enda hafa ferðakostnaðarreglur
ríkisins ekkert með mál þetta að gera. Í þriðja lagi gildi hið sama um þann
þátt kröfu sem tilgreind sé sem tapaður afli. Að auki sé sá þáttur kröfu einnig
úr lausu lofti gripinn, enginn grundvöllur sé lagður fyrir honum í stefnu né
heldur nokkur gögn sem styðji við, hvað þá sanni, tilvist slíkrar kröfu. En
jafnvel þótt bótakrafa gæti verið fyrir hendi sé ekkert sem bendi til þess að
þessi þáttur kröfunnar eigi rétt á sér auk þess sem hún sé svo fjarlæg atvikum
máls að útilokað sé að telja hana sennilega afleiðingu þeirra.
Að því er varði kröfu um endurgreiðslu á
reikningi frá stefnda vegna gírsins, þá sé þar um að ræða kröfu um
endurgreiðslu reiknings vegna gírs sem sannanlega hafi verið pantaður fyrir
stefnanda, afhentur og notaður til fjölda ára í bát hans. Byggt sé á því að
enginn grundvöllur geti verið fyrir slíkri kröfu enda því ekki einu sinni
haldið fram í málinu að eitthvað sé að þeim gír. Að sama skapi sé byggt á því
að kaup á fyrri gírnum, sem einnig sé í eigu stefnanda, geti ekki skapað
grundvöll fyrir umkrafinni endurgreiðslu og í raun sé alveg óljóst hvaða
grundvöll stefnandi telji geta verið fyrir endurgreiðslu vöru sem hann á og
notar.
Að því er varði varakröfu sé byggt á
sömu málsástæðum og greini að ofan. Að auki sé mótmælt sérstaklega kröfum um
skaðabætur að álitum. Ekkert sé sett fram í stefnu um grundvöll slíkra
skaðabóta né fjárhæð þeirra. Byggt sé á því að almennar tilvitnanir til
meginreglna samninga- og kröfuréttar auk almennra skaðabótareglna geti ekki
talist leggja neinn slíkan grundvöll. Þá sé byggt á því að stefndi hafi ekki
sýnt af sér neina saknæma háttsemi sem geti verið grundvöllur kröfu né heldur
geti afleiðingar meintrar háttsemi sem stefnandi heldur fram talist sennileg
afleiðing slíkrar háttsemi.
Ef svo ólíklega vilji til að talinn sé
grundvöllur fyrir bótaskyldu sé í öllum tilfellum byggt á því að stefnandi hafi
sýnt af sér svo mikla eigin sök með því að skemma bát sinn sjálfur er hann fékk
kaðal í skrúfuna að hann beri tjón sitt að fullu.
Að því er varði kröfu um dráttarvexti
byggir stefndi á því að hafna eigi gerðri kröfu enda sé hún ekki í samræmi við
lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Ella verði dráttarvextir ekki dæmdir
nema frá því að mánuður var liðinn frá því að mál var höfðað, sbr. 4. mgr. 5.
gr. laga nr. 38/2001.
Að því er varði málsgrundvöll stefnanda
þá sé hann svo óljós að það sé erfiðleikum háð að setja fram varnir í
greinargerð. Ef vera skyldi að hann byggðist að einhverju leyti á sakarreglu
skaðabótaréttar byggir stefndi á því að skilyrði sakarreglunnar séu ekki uppfyllt. Að því marki sem stefnandi byggir á V. kafla
laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup byggir stefndi á því að skilyrði þess kafla
til bótagreiðslna séu ekki uppfyllt en þar að auki sé byggt á því að stefnandi
sjálfur hafi valið að byggja ekki á 67. gr. þeirra laga og því taki meint
bótaskylda ekki til óbeins tjóns og því beri í öllu falli að hafna öllum þáttum
krafna sem teljast til óbeins tjóns.
Vilji svo ólíklega til að talinn verði
einhver grundvöllur fyrir gerðum kröfum byggir stefndi á því að í öllu falli
teljist þær allar fyrndar. Vísast um það til laga nr. 150/2007 um fjögurra ára
fyrningarfrest gerðra krafna. Öll atvik máls er máli kunna að skipta hafi orðið
að fullu sumarið 2012 þannig að fyrningarfrestur sé að fullu liðinn við
birtingu stefnu í lok janúar 2018 en fram að því hafi fyrningu aldrei verið
slitið. Beri því í öllu falli að fallast á gerðar kröfur. Gerð sé krafa um að
stefnda verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda samkvæmt framlögðum
málskostnaðarreikningi auk álags á málskostnað hvort sem máli þessu verði vísað
frá dómi eða stefndi verði sýknaður af kröfum stefnanda.
Byggir stefndi á því að málssókn
stefnanda sé tilhæfulaus og að stefnandi hafi uppi kröfur sem hann viti að séu
rangar eða haldlausar. Í dómskjölum með stefnu komi ítrekað fram gögn sem kveða
skýrlega á um það að ekkert hafi verið að hinum umdeilda gír. Að sama skapi sé
þar um að ræða öll gögn sem til séu um gírinn, þ.e. öll gögn um hann og
stefnandi leggi sjálfur fram staðfesti að ekkert hafi verið að honum.
Í ljósi þessa byggir stefndi á því að
samkvæmt 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 séu skilyrði
fyrir kröfu um málskostnað uppfyllt og auk þess skilyrði 131. gr. sömu laga
fyrir því að dæmd sé krafa um álag á málskostnað.
Byggt sé á því að allir liðir 1. tl.
131. gr. laga nr. 91/1991 séu uppfylltir þar sem mál sé höfðað að þarflausu og
án tilefnis eins og stefnandi veit eftir áralangan málarekstur. Jafnframt hafi
stefnandi dregið málið árum saman, m.a. í ítrekuðum deilum fyrir kærunefnd
lausafjár- og þjónustukaupa. Loks hafi stefnandi uppi kröfur og staðhæfingar
sem hann viti að séu rangar eða haldlausar.
Loks sé byggt á því að sakir samkvæmt ofangreindu verði að teljast
miklar enda finnist engar ástæður fyrir framgöngu stefnanda sem stefndi geti borið
ábyrgð á heldur hafi hann þurft að þola málarekstur til fjölda ára með ærnum
tilkostnaði og illu umtali sem eingöngu sé til þess fallið að valda honum
tjóni. Byggir stefndi á því að stefnanda hafi með engu móti getað dulist að
kröfur samkvæmt stefnu séu tilhæfulausar en hann hafi engu að síður stefnt máli
þessu fyrir héraðsdóm og hafi þannig valdið tilefnislausum kostnaði og
óþægindum hjá stefnda.
Skýrslur fyrir dómi.
Stefnandi og fyrirsvarsmaður stefnda,
Jóhann Ólafur Ársælsson, gáfu skýrslu fyrir dóminum. Þá gáfu skýrslu fyrir
dóminum vitnin Kristmundur Kristmundsson og Guðmundur Gunnar Símonarson. Verður
vitnað til þeirra eftir því sem þörf þykir.
Forsendur og niðurstaða.
Stefnandi ákvað að gera upp gamlan bát, Hönnu ST-49. Stefnandi keypti af því
tilefni vél, gír og varahluti af stefnda. Stefnandi prufukeyrði bátinn með nýja
búnaðinum 20. ágúst 2011 og flutti hann síðan norður á Strandir. Notaði hann
ekki bátinn aftur fyrr en vorið 2012. Þegar stefnandi fór í fyrsta róðurinn á
bátnum, 16. maí 2012, vildi það óhapp til að tóg festist í skrúfu bátsins og
drap vélin á sér. Stefnandi losaði tógið úr skrúfunni og fór, að eigin sögn, í
sex róðra eða notaði bátinn í 26 klukkustundir eftir það, áður en gírinn hætti
að virka. Gírinn gekk löturhægt áfram en virkaði afturábak að sögn stefnanda.
Aðila málsins greinir á um hvort gírinn hafi verið gallaður frá upphafi eða
hvort fyrrnefnt óhapp hafi valdið því að gírinn hætti að virka.
Aðilar eru ekki sammála um hvort
stefnandi hafi upplýst stefnda um óhappið þegar hann sagði honum frá því að
gírinn virkaði ekki sem skyldi. Að áliti dómsins var stefndi trúverðugur í
skýrslugjöf fyrir dómi. Stefndi lýsti því hvernig hann aðstoðaði stefnanda í
gegnum síma þegar gírinn hætti að virka. Hann hafi beðið hann að kanna olíuhæð
og gera prófanir til að sannreyna hvað væri að gírnum. Stefndi sagðist
jafnframt hafa spurt stefnanda hvort eitthvað hafi komið fyrir. Stefnandi hafi
svarað því neitandi. Stefndi taldi miðað við lýsingar stefnanda að gírinn, sem
var nýr og lítið notaður, væri gallaður. Stefndi hafi því afráðið að panta
strax nýjan gír. Hann hafi síðar heyrt frá stefnanda að tóg hafi fests í skrúfu
bátsins. Það hafi breytt málinu í hans huga frá því að vera gallamál yfir í að
vera sjótjón. Stefndi skoraði á stefnanda að leggja fram upplýsingar um bætur
sem hann hafi fengið vegna óhappsins frá tryggingarfélagi sínu.
Í áskoruninni segir að verði stefnandi
ekki við henni beri að byggja á því að hann hafi fengið meint tjón sitt bætt að
fullu auk þess sem fullyrðingar í stefnu um að ekkert tjón hafi leitt af því að
hann hafi fengið kaðal í skrúfu bátsins séu rangar og villandi. Í 2. mgr. 67.
gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála kemur fram að ef aðili skorar á
gagnaðila að leggja fram skjal þá skuli gagnaðili verða við því ef aðili á rétt
til skjalsins án tillits til málsins eða efni skjalsins er slíkt að gagnaðila
væri skylt að bera vitni um það ef hann væri ekki aðili að málinu. Í 1. mgr.
68. gr. eml. segir að verði aðili ekki við áskorun skv. 2. mgr. 67. gr. sömu laga
um að leggja fram skjal sem sannað þyki að hann hafi undir höndum þá geti
dómari skýrt það svo að hann samþykki frásögn áskoranda um efni skjalsins. Í
skýrslutöku fyrir dómi kom það fram hjá stefnanda að hann hafi fengið bætur frá
tryggingarfélagi sínu en það var nokkuð á reiki hver fjárhæðin hafi verið. Hann
sagðist ekki eiga nein gögn um þetta nema millifærslu á bankayfirliti. Nánar
aðspurður sagði stefnandi að hann hefði ekki fundið gögn hjá sér um þetta og að
hann hafi reynt að fá gögn frá tryggingarfélagi sínu. Aðspurður um hvort
stefnandi hafi gert ágreining um bætur frá tryggingarfélaginu svaraði stefnandi
neitandi og bæti við að hann hafi verið feginn að fá eitthvað upp í tjón sitt.
Stefnandi lagði fyrrgreint bankayfirlit ekki fram undir rekstri málsins og að
sögn stefnanda var upphæðin 149.200 krónur. Af framanröktu er ljóst að til eru
gögn frá tryggingarfélagi stefnanda þar sem hann fær greiddar bætur vegna
óhappsins. Stefnandi hefur kosið að leggja þau gögn ekki fram og því er ekki
hægt að sannreyna hvernig málið var kynnt fyrir tryggingarfélaginu né hvaða
fjárhæð tryggingarfélagið innti af hendi og á hvaða forsendum og þá hvort
stefnandi hafi fengið tjón sitt greitt að fullu. Stefnandi ber hallann af þeim
sönnunarskorti sem af þessu hlýst.
Við meðferð málsins fyrir dómi hafa
engin gögn verið lögð fram um galla á gírnum. Þvert á móti er það álit allra
sem hafa komið að skoðun gírsins að ekkert sjái á honum. Vitnið Guðmundur
Gunnar Símonarson skoðaði gírinn og sá ekkert að gírnum. Í skýrslugjöf fyrir
dómi sagði vitnið að líklegast væri að tóg hefði kæft á vélinni og því hefði
gírinn ekki orðið fyrir neinu tjóni. Vitnið taldi jafnframt ljóst að það myndi
sjást á gírnum ef tógið hefði skemmt hann. Vitnisburður Guðmundar var í samræmi
við yfirlýsingu hans, dags. 19. nóvember 2015.
Sérfræðingur, sem kærunefnd lausafjár-
og þjónustukaupa leitaði til, sá ekkert að gírnum en hann taldi að afstaða
skrúfunnar og skrúfuöxulsins hafi breyst við að fá tógið í skrúfuna. Afstaða
skrúfunnar og skrúfuöxuls hafi verið ástæða þess að gírinn virkaði ekki.
Sérfræðingurinn tók fram að þetta hafi ekki verið skoðað þegar óhappið varð
heldur hafi verið ákveðið að skipta gírnum út. Þegar hinn nýi gír hafi verið
settur í hafi afstaðan verið yfirfarin og stillt. Að mati dómsins gæti þetta
skýrt hvers vegna ekkert sést á gírnum sem stefnandi fékk upphaflega og hvers
vegna hann virkaði ekki sem skyldi eftir óhappið.
Í beiðni stefnanda um álitsgerð frá
kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa kemur fram að báturinn hafi verið sjósettur
20. ágúst 2011. Það hafi gengið vel en snúningshraðamælir hafi ekki virkað vel.
Þá kemur fram í beiðninni að 26. apríl 2012 hafi Hafliði Aðalsteinsson komið á
Gjögur og gengið frá nokkrum atriðum sem ekki vannst tími til að ljúka áður en
báturinn var fluttur norður. Þá segir stefnandi í beiðni um álit að Hafliði
hafi stillt öxul en smá skekkja hafi myndast en það þyki eðlilegt þegar um
nýsmíði sé að ræða. Þetta er skömmu áður en stefnandi fær tóg í skrúfu bátsins
sem kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa telur að hafi afstillt skrúfuna eða
skrúfuöxul. Hafa ber í huga að þessar fullyrðingar eru allar frá stefnanda
komnar.
Stefnandi heldur því jafnframt fram að
viðbrögð stefnda hafi verið röng og óforsvaranleg þegar óhapp stefnanda átti
sér stað, því að hann hafi átt að vita að bilun gírsins tengdist ekki óhappinu
með tógið. Þannig beri hann ábyrgð á tjóni sem stefnandi varð fyrir vegna þess
að nýr gír var pantaður. Það er álit dómsins líkt og fyrr greinir að óhappið
hafi leitt til þess að gírinn virkaði ekki. Þá voru viðbrögð stefnda, sem
greint var frá hér að framan, öll til þess fallin að leysa það mál sem komið
var upp. Þessari málsástæðu er því hafnað.
Af framanröktu leiðir að ósannað er að
gírinn sé gallaður í skilningi 17. og 18. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup
og ekki verður byggt á ákvæðum V. kafla laganna um vanefndir seljanda. Stefndi
verður af þeim sökum ekki skaðabótaskyldur vegna óbeins tjóns skv. 67. gr. laga
nr. 50/2000. Stefnandi taldi tjón sitt af þessum sökum vera greiðsla reiknings
Stálvers ehf., skaðabætur vegna aksturs og tapaðs afla. Gegn mótmælum stefnda
er þessum kröfum stefnanda hafnað.
Þá er krafist greiðslu á reikning að
fjárhæð 198.000 krónur vegna nýja gírsins. Byggt er á því að stefndi hafi
ákveðið að panta gírinn og að sú ákvörðun hafi verið óforsvaranleg og saknæm og
leitt til tjóns fyrir stefnanda. Líkt og komið hefur fram helguðust viðbrögð
stefnda af því að hann taldi í upphafi að um galla væri að ræða, sem síðar
reyndist ekki vera. Þá er að áliti dómsins óljóst á hvaða grunni krafan byggist
þar sem vísað er til laga um lausafjárkaup og meginreglna kröfu- og
samningaréttar. Á hinn bóginn er krafan rökstudd á grundvelli þess að stefndi
hafi sýnt af sér saknæma háttsemi sem hafi leitt til tjóns. Ekki verður séð á hvaða
lagaákvæðum lausafjárkaupalaga stefnandi byggir þessa kröfu. Þá er ekki ljóst
hvernig kröfu- og samningaréttur leiði til þess að krafan skuli greidd af
stefnda. Gegn mótmælum stefnda er þessari kröfu hafnað.
Stefnandi krefst þess jafnframt að
stefndi endurgreiði honum reikning Stálvers ehf. að fjárhæð 39.200 krónur á
þeim grundvelli að stefndi hafi skuldbundið sig til að greiða reikninginn. Í
skýrslutöku fyrir dómi sagði stefndi að hann hafi tjáð stefnanda að hann myndi
greiða fyrir vinnuna en það hafi verið þegar hann hélt að gírinn væri gallaður
og að um ábyrgðartjón væri að ræða. Að mati dómsins var það forsenda loforðs
stefnda að gír sem hann seldi hafi hætt að virka án skýringar eftir stutta
notkun. Ekki er fallist á að loforðið bindi stefnda í ljósi þess sem síðar kom
fram. Gegn mótmælum stefnda er þessari kröfu stefnanda hafnað.
Stefnandi telur að aðilar hafi samið um
að miða kaupverð á fyrrgreindri vél, gír og varahlutum við gengi á
Bandaríkjadollar. Stefnandi byggir á því að gengið hafi verið hærra á þeim tíma
sem tilboðið var gefið en þegar hann greiddi kaupverðið.
Í upphafi samskipta aðila málsins var
samið um kaupverð á vél, gír og varahlutum í bát stefnanda. Fyrst sendi stefndi
tilboð til stefnanda í lok janúar 2011 og sendi síðan viðauka við það tilboð 2.
mars. 2011. Ágreiningur aðila hvað kaupverðið varðar lýtur einvörðungu að því
hvort verðið skyldi hækka eða lækka í samræmi við gengi á Bandaríkjadollar. Í
tilboði stefnanda segir „[v]erðin eru án vsk. og samkvæmt USD 116,24.“ Í svari
stefnanda 2. mars 2011 þar sem hann samþykkir tilboðið segir m.a. „[þ]akka þér
fyrir greinargott tilboð sem hljóðar þá upp á 1.499.800 krónur án vsk, þegar ég
hef bætt við verðum samkvæmt bréfi þínu 28.01.2011. Þetta er þó háð gengi á
dollar (USD), sem var kr. 116.24 þann 28.01.2011.“ Stefndi svarar daginn eftir
án þess að bregðast sérstaklega við þessum orðum. Stefndi þakkaði stefnanda
eingöngu fyrir bréfið og sagðist ætla að ganga frá pöntuninni. Fjárhæð
reikninga vegna viðskiptanna var 1.499.800 krónur án virðisaukaskatts.
Fyrir dómi kvað stefndi að stefnandi
hafi verið sáttur þegar hann greiddi reikninginn og að þessi krafa hafi komið
fram síðar þegar ágreiningur fór að gerjast. Ljóst er að aðilar málsins sömdu
ekki um að verðið skyldi hækka eða lækka miðað við tiltekið tímamark, t.d.
miðað við pöntun vélar eða dagsetningu reiknings líkt og stefnandi byggir á. Að
mati dómsins hefði þurft að semja um þetta atriði með skýrum hætti. Óeðlilegt
er að miða við útgáfu reiknings líkt og stefnandi krefst enda tengist hann ekki
verði sem greitt var fyrir vél og varahluti við pöntun. Með hliðsjón af
framanröktu telur dómurinn að aðilar hafi ekki samið um að miða við gengið til
hækkunar eða lækkunar heldur hafi tilvísun stefnda til gengis verið árétting á
forsendum tilboðsins. Er þessari málsástæðu stefnanda hafnað.
Stefnandi kveðst hafa ekið frá Gjögri
til Hafnarfjarðar samtals fjórar ferðir vegna stefnda. Fyrir liggur að
stefnandi ók ekki allar þessar ferðir. Kristmundur Kristmundsson fór með
gírinn, sem upphaflega var talinn gallaður, í bæinn fyrir stefnanda. Þá var
stefnandi staddur í Vestmannaeyjum í eitt skipti, líkt og hann greindi frá
fyrir dómi, þannig átti hann leið framhjá Reykjavík á leið sinni norður.
Stefnandi getur ekki miðað kostnað sinn af akstri við ferðakostnaðarreglur
ríkisins heldur bar honum að sýna fram á raunverulegan kostnað við akstur. Þá
reyndi stefnandi ekki að takmarka tjón sitt með því að fá hlutinn sendan til
sín með pósti. Af þessum sökum og með vísan til framanritaðs er ekki fallist á
þessa kröfu stefnanda.
Stefnandi reisir varakröfu sína á sömu
málsástæðum og aðalkröfu. Með vísan til forsendna fyrir sýknu á aðalkröfu er
varakröfu stefnanda jafnframt hafnað.
Að öllu framanröktu virtu er dómkröfum
stefnanda hafnað og stefndi sýkn af öllum kröfum stefnanda.
Stefndi krefst málskostnaðar og álags á
málskostnað úr hendi stefnanda. Að þessum niðurstöðum fengnum verður stefnandi
dæmdur til að greiða stefnda málskostnað eins og segir í dómsorði.
Í 131. gr. laga nr. 91/1991 kemur meðal
annars fram að dæma megi álag á málskostnað ef aðili höfðar mál að þarflausu og
ef hann heldur fram staðhæfingum eða kröfum sem hann veit að eru rangar. Til
þess að álag sé dæmt þurfa sakir aðila að vera miklar, sbr. 2. mgr. 131. gr.
laganna. Í þessu máli liggur fyrir að stefnandi hafði fengið bætur frá
tryggingarfélagi vegna óhappsins sem hann varð fyrir. Stefnandi upplýsti ekki
um þær bætur nema að hluta að því er dómurinn telur og ekki fyrr en aðspurður
við skýrslutöku við aðalmeðferð málsins. Þá varð stefnandi ekki við þeirri
áskorun stefnda að leggja fram gögn frá tryggingarfélagi sínu undir rekstri
málsins, sem hann sannanlega hafði upplýsingar um. Kvaðst stefnandi hálfpartinn
hafa tekið þátt í tryggingarsvindli með því að taka á móti bótum frá
tryggingarfélaginu. Stefnandi hefur þrátt fyrir það haldið tryggingarfénu án
þess að greina frá því í stefnu eða að verða við áskorun um að upplýsa um þær
bætur.
Við ákvörðun álags er sérstaklega litið
til þess að stefnandi hélt fram staðhæfingum sem hann vissi að voru rangar,
sbr. c-lið 1. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991.
Þá liggur fyrir álit kærunefndar
lausafjár- og þjónustukaupa frá 13. mars 2014 í máli nr. M36/2013. Er þar öllum
kröfum stefnanda hafnað og tekið fram að ekki sé um galla að ræða í þeim
gírkassa sem þrætt er um í máli þessu. Álit sömu kærunefndar í máli nr.
85/2015, uppkveðið 29. mars 2016, vegna endurupptöku á máli M36/2013, liggur
einnig fyrir. Þar komst kærunefndin að sömu niðurstöðu og í fyrra áliti.
Stefnandi lýsti því yfir fyrir dóminum í máli þessu að niðurstaða
kærunefndarinnar væri röng. Þrátt fyrir það hefur hann ekki reynt að fá
niðurstöðum hennar hnekkt heldur leggur úrskurðina fram kröfum sínum til
stuðnings í máli þessu.
Í
yfirlýsingu sérfræðingsins Guðmundar Gunnars Símonarsonar frá 19. nóvember
2015, sem stefnandi aflaði sjálfur og lagði fram í máli þessu, kemur fram að
gírinn hafi ekki verið gallaður. Þrátt fyrir þetta hélt stefnandi áfram með
bréfum lögmanns síns, þann 26. júní og 3. október 2017, að krefja stefnda um
bætur vegna galla og óréttmætra viðskiptahátta.
Að mati dómsins var málshöfðun þessi
þarflaus í ljósi þess sem að framan er rakið. Að þessum niðurstöðum fengnum og
með vísan til 130. og 131. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 verður
stefnandi dæmdur til að greiða stefnda 2.500.000 krónur í málskostnað.
Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður
upp dóm þennan.
Dómsorð.
Stefndi, Ásafl ehf., er sýkn í máli
þessu.
Stefnandi greiði stefnda 2.500.000
krónur í málsvarnarlaun.
Ástríður
Grímsdóttir