- Lykilorð:
- Kynferðisbrot
- Nauðgun
D Ó M U R
Héraðsdóms Reykjaness 21.
maí 2019 í máli nr. S-299/2018:
Ákæruvaldið
(Fanney Björk Frostadóttir aðstoðarsaksóknari)
gegn:
X
(Eggert Páll Ólason lögmaður)
I
Mál þetta, sem dómtekið var
28. mars 2019, að loknum munnlegum málflutningi, er höfðað með ákæru
héraðssaksóknara, útgefinni 24. maí 2018, á hendur „X, kt. 000000-000, […], […],
fyrir nauðgun og brot gegn blygðunarsemi, með því að hafa á tímabilinu frá mars
2015 til byrjunar árs 2017 sýnt af sér lostugt athæfi og sært blygðunarsemi Y
er hann beitti hana blekkingum og nýtti sér villu hennar um að hann væri A í
samskiptum þeirra á milli, í gegnum samskiptaforritið Snapchat, í þeim tilgangi
að eiga í kynferðislegum samskiptum við hana og brjóta gegn henni sem hér
greinir:
1.
Fengið
hana til að senda sér kynferðislegar myndir af henni sjálfri.
Telst
þetta varða við 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með síðari
breytingum.
2.
Þvingað
hana til kynferðislegra samskipta við aðra karlmenn, sem fólust meðal annars í
því að kyssa, hafa samræði um leggöng og stunda önnur kynferðismök með mönnunum
og láta hana taka upp og senda sér myndir, myndupptökur eða hljóðupptökur af
framangreindum samskiptum, með því að hóta að birta opinberlega kynferðislegar
myndir af Y sjálfri.
Telst
þetta varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með síðari
breytingum.
3.
Í
tvö skipti, að kvöldi 9. nóvember 2015 og að kvöldi 13. mars 2016, mælt sér mót
við hana á […] við […] í […] og
eftir að hún kom þangað bundið fyrir augu hennar þannig að hún sá ekki hver
hann var og haft samræði við hana um leggöng og þannig nýtt sér það að hún var
í villu um hver hann raunverulega var.
Telst þetta varða
við 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sbr. áður 209. gr.
almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að
ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Einkaréttarkrafa:
Af hálfu Y kt. 000000-0000, er gerð krafa um að ákærða
verði gert að greiða henni kr. 2.000.000 í miskabætur með vöxtum samkvæmt 1.
mgr. 8. gr. laga um nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. nóvember 2015
til þess dags er mánuður er liðinn frá því að krafa þessi er birt sakborningi
en frá þeim degi er krafist dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga til
greiðsludags. Þá er krafist þóknunar tilnefndum og síðar skipuðum réttargæslumanni
til handa sbr. 48. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.“
II
Verjandi ákærða skilaði greinargerð í málinu 23.
nóvember 2018. Þar var aðallega gerð kafa um að málinu yrði vísað frá dómi en
til vara var krafist sýknu af öllum kröfum ákæruvalds og til þrautavara vægustu
refsingar er lög leyfa og ef til fangelsisrefsingar kæmi að hún yrði
skilorðsbundin að öllu leyti. Þá var þess krafist að sakarkostnaður yrði
greiddur úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda, hver sem úrslit
málsins yrðu.
Með úrskurði dómins 7. desember 2018
var kröfu ákærða um frávísun málsins hafnað. Undir rekstri málsins var og
kveðinn upp úrskurður um að ákærði skyldi víkja úr dómsal meðan brotaþoli gæfi
skýrslu.
III
Upphaf máls þessa er að rekja til þess að brotaþoli, Y,
leitaði í fylgd vinnuveitanda síns til Bjarkarhlíðar, miðstöðvar þolenda
ofbeldis, 4. maí 2017 vegna kynferðisofbeldis sem brotaþoli kvaðst hafa orðið
fyrir af hálfu nafngreinds pilts, A, sem hún hafði verið í sambandi við á
tímabili. Lýsti brotaþoli þar samskiptum sínum við piltinn gegnum
samskiptaforritið Snapchat og hvað hann hefði fengið hana til að gera.
Brotaþoli leitaði til lögreglu daginn eftir, 5. maí 2017, og gaf skýrslu um
málið. Kvað brotaþoli þessi samskipti sín og piltsins, A, hafa staðið frá því í
mars 2015.
Við rannsókn málsins kom í ljós að á bak við auðkenni,
sem brotaþoli hafði verið í samskiptum við á Snapchat og taldi vera auðkenni A,
reyndist vera annar einstaklingur, þ.e. ákærði, X. Var brotaþoli upplýst um það
og síðar í framhaldi af því var ákæra sú er mál þetta varðar, gefin út á hendur
ákærða.
Meðal rannsóknargagna er skýrsla frá Bjarkarhlíð um
upphaf málsins, skýrslur sem teknar voru af brotaþola, ákærða og vitnum við
rannsókn málsins, matsgerð J sálfræðings á þroska- og heilbrigðisástandi
brotaþola og síma- og netgögn frá ákærða og brotaþola.
IV
Skýrslur fyrir
dómi
Ákærði lýsti kynnum sínum af
brotaþola þannig fyrir dómi að þau hefðu kynnst í framhaldsskóla og orðið
vinir. Einu og hálfu ári síðar hefðu þau hafið samskipti gegnum
samskiptaforritið Snapchat, þar sem hann hefði notast við auðkennið „A2“.
Aðspurður hvers vegna hann hefði notað nafn annars manns í samskiptum við
brotaþola kvað ákærði það hafa verið hugsunarlaust grín. Hann hefði valið
auðkennið „A2“ beinlínis til þess að brotaþoli héldi að hún væri í samskiptum
við A. Það auðkenni hefði hann aðeins notað í samskiptum við brotaþola.
Ákærði kvaðst síðar hafa eytt þessu auðkenni og
stofnað annað, „K“, þar sem honum hefði fundist líklegt að brotaþoli hitti á A
sjálfan og þá hefði komist upp um sig. Þá hefði brotaþoli um það leyti stofnað
auðkennið „K-2“ á Snapchat og þau hefðu átt samskipti gegnum þessi auðkenni
nánast daglega þegar komið var fram í árslok 2015, byrjun árs 2016. Hefði
brotaþoli þar iðulega sett inn nektarmyndir af sér. Ákærði kvað samskipti sín
og brotaþola undir þessum auðkennum aðeins hafa verið opin og notuð fyrir
samskipti milli sín og brotaþola. Sjálfur hefði hann almennt notast við annað
auðkenni á samskiptamiðlinum. Aðspurður hvers vegna hann kaus að halda þessum
samskiptum áfram kvað ákærði þau hafa komist upp í vana auk þess sem hann hefði
óttast afleiðingar þess að upp um sig kæmist. Kvaðst ákærði hafa komið fram sem
sami „karaketer“ undir auðkenninu „K“ og undir auðkenninu „A2“. Hann hefði
sagst vera að vinna í […] og eiga kærustu sem héti […]. Ákærði kvaðst hafa gert
sér grein fyrir því að brotaþoli teldi að hún ætti í samskiptum við annan mann
en sig, nefndan A, en kvaðst telja að brotþoli hefði ekki verið viss.
Ákærði kvað að undir lok samskipta sinna við brotaþola
undir auðkenninu „K“ hefði hann sagst berum orðum vera A. Það hefði hann gert
eftir að hann komst að því að brotaþoli hefði sagt sér, í eigin persónu, að hún
ætlaði að kæra þann mann til lögreglunnar, og tilgangur þess hefði verið að fá
brotaþola ofan af því að kæra málið til lögreglu. Aðspurður um heitin „L“ og „L1“
kvað ákærði það vera heiti sem brotaþoli hefði gefið sér, þ.e. breytt í sínum
síma.
Ákærði kvaðst aldrei hafa hótað brotaþola og aldrei
sent henni mynd af sér gegnum forritið. Brotaþoli hefði ítrekað beðið um snapp
af sér, en hann hefði neitað því og kvaðst jafnframt ítrekað hafa sagt
brotaþola að hver sem er gæti verið á bak við þetta auðkenni.
Ákærði kvaðst hafa verið vinur
brotaþola og hafa verið skotinn í henni í byrjun kynna þeirra. Þau hefðu sem
vinir rætt um alla hluti og treyst hvort öðru fyrir persónulegum málum sínum.
Ákærði kvað vinasamband sitt við brotaþola hafa staðið þar til hann hóf samband
við aðra stúlku í árslok 2016. Hann kvað samband sitt við brotaþola aldrei hafa
verið kynferðislegt, en hún hefði sent honum myndir af sér, þ.e. honum sjálfum
sem X.
Ákærði viðurkenndi að hafa hitt brotaþola í tvígang á
hóteli í […]. Þau hefðu rætt um að hittast, hún hefði sótt það fast. En hann
hefði viljað „halda þessu nafnlausu“. Þá hefði komið upp hugmynd um að
brotaþoli yrði með bundið fyrir augu. Hann hefði svo pantað hótelherbergi.
Ákærði kvaðst hafa verið kominn á staðinn á undan brotaþola og beðið inni á
baði. Samskipti þeirra á staðnum hefðu farið fram gegnum Snapchat. Ákærði kvað
brotaþola hafa hætt við í fyrra sinnið og farið heim. Hann hefði samþykkt það.
Brotaþoli hefði svo viljað endurtaka þetta. Hann hefði þá aftur pantað
hótelherbergi og verið mættur inni á baði þegar brotaþoli kom á staðinn.
Samskiptin hefðu þá einnig verið gegnum Snapchat. Brotaþoli hefði klætt sig úr
öllu nema nærfötum. Hann hefði komið fram og þá hefði brotaþoli verið með
svefngrímu fyrir augunum. Hann hefði svo bundið hendur hennar. Þau hefðu
eitthvað kysst. Brotaþoli hefði svo farið að tala, viljað fá pásu eða eitthvað.
Hann hefði þá hætt við, talið að eitthvað færi úrskeiðis. Hann hefði því losað
hendur brotaþola og gengið rösklega út. Ákærði kvaðst hafa greitt fyrir
herbergin í bæði skiptin. Tilganginn með þessu kvað ákærði eflaust hafa verið
kynferðislegan, það hefði verið rætt. Ákærði neitaði að hafa haft samræði við
brotaþola í þessi skipti.
Myndir sem lagðar voru fram í málinu kvað ákærði vera
myndir sem brotaþoli hefði sent sér persónulega, sem X. Ákærði kvaðst hafa
fengið myndir af brotaþola með öðrum mönnum í samskiptum þeirra í milli undir
réttum nöfnum. Ákærði kvaðst sjálfur hafa sent brotaþola myndir af stelpum sem
hann hitti á djamminu en ekki kynferðislegar myndir. Það hefðu verið samskipti
milli sín og brotaþola undir réttum nöfnum. Þá kvað ákærði brotaþola hafa sent
sér myndir af A á Snapchatið „A2“.
Ákærði neitaði að hafa beðið brotaþola um að hitta
aðra menn í kynferðislegum tilgangi eða hafa hótað henni myndbirtingu ella. Þau
hefðu aðeins átt vingjarnleg samskipti. Hann kvaðst hafa reynt að hætta
samskiptum við brotaþola sem þá hefði hótað að fara sér að voða.
Aðspurður um það hvað honum hefði þótt um það að
brotaþoli ætlaði að kæra annan mann fyrir þessi samskipti kvað ákærði sér hafa
liðið mjög illa með það. Hann hefði lagst í þunglyndi og ekki verið í
samskiptum við hana frekar. Þá kvaðst hann hafa eytt samskiptum sínum við
brotaþola.
Aðspurður um framburð sinn hjá lögreglu, þess efnis að
brotaþoli hefði sent honum myndir af sér að totta mann í bíl, á snappið „A2“,
kannaðist ákærði við að hafa játað það áður, en kvaðst nú neita því, það væri
ekki rétt. Þá kannaðist ákærði við að hafa reynt að fá brotaþola ofan af því að
kæra málið til lögreglu. Það hefði hann gert þar sem hún hefði hótað að „birta
þetta allt“. Hann hefði ekki viljað að þetta kæmist upp vegna þess umtals sem
því fylgdi. Ákærði kannaðist við að hafa hringt í brotaþola úr hringdu.is. Þá
kvaðst hann hafa látið brotaþola halda að hann, persónulega sem X, og A, þá sem
„A2“, væru að rífast sín á milli um brotaþola. Kunni ákærði þó aðspurður enga
skýringu á því í hvaða tilgangi hann hefði gert það. Ákærði kvað brotaþola
iðulega hafa sagt sér ósatt um samband sitt við A, þegar hann vissi betur.
Brotaþoli, Y, gaf skýrslu við
aðalmeðferð málsins. Hún kvaðst hafa kynnst ákærða í lok árs 2014. Þau hefðu
átt samskipti á Snapchat og orðið persónulegir vinir. Ákærði hefði gefið henni
dýrt úr í afmælisgjöf […] 2015, sem henni hefði fundist skrýtið, því að þau
hefðu ekki verið svo góðir vinir. Í […] hefði hún fengið skilaboð á Snapchat
frá auðkenninu „A2“, sem hún taldi vera strák sem hún þekkti og var vinur
hennar á Facebook og hún hafði hitt í veislu. Henni hefði þótt skýtið að sá
strákur, A, væri undir þessu auðkenni á Snapchat, þar sem vinkona hennar hefði
verið í samskiptum við hann á þeim samskiptamiðli undir öðru auðkenni, þ.e. „A“.
Hún hefði því spurt viðkomandi sérstaklega um þetta og fengið það svar að það
auðkenni væri bilað. Brotaþoli kvað samskiptin fljótt hafa orðið mikil og
persónuleg. Hún hefði fljótlega fengið beiðnir um myndir af sér og ekki fengið
frið, dag né nótt. Samskiptin hefðu byrjað sakleysislega en stöðugt orðið
grófari. Hún hefði verið farin að senda honum myndir af sér, allt að nakinni.
Ákærði hefði hins vegar ekki sent henni myndir af sér. Kvaðst brotaþoli ekki
hafa óskað eftir slíku. Brotaþoli kvað ákærða oftast hafa beðið um myndir í
góðu.
Brotaþola sagðist svo frá að í nóvember 2015 hefði
ákærði sagt sér að hann væri hættur með kærustunni sinni og vildi hitta
brotaþola á hóteli. Hann væri ekki tilbúinn að koma með stelpu heim til
foreldra sinna strax. Hann hefði sagst hafa sérstakar langanir til þess að
brotaþoli yrði þá bundin og með bundið fyrir augu. Þau hefðu svo í framhaldinu
hist á hóteli. Þegar hún kom á staðinn hefði ákærði verið þar fyrir, inni á
baði. Hún hefði lagst á rúmið, ákærði bundið fyrir augu hennar og bundið hendur
hennar. Þau hefðu haft kynmök og ákærði svo farið. Seinna um kvöldið hefðu þau
rætt saman og ákærði þá sagst hafa verið að ljúga, hann væri enn með
kærustunni. Það hefði valdið henni vonbrigðum. Brotaþoli kvaðst hafa hitt
ákærða aftur á hótelinu síðar, að hans ósk. Atvik hefðu þá verið með sama
hætti. Ákærði hefði beðið inni á baðherbergi en hún klætt sig úr öllu nema
nærfötum. Ákærði hefði fært hana úr þeim og bundið fyrir augu hennar og bundið
hana á höndum. Hann hefði kysst hana og þau haft samræði.
Brotaþoli sagði ákærða oft hafa verið mjög reiðan og í
raun stjórnað henni. Hann hefði hrósað sér og rifið niður til skiptis og
ítrekað hótað að birta af henni myndir ef hún gerði ekki eins og hann segði.
Þannig hefði hann fengið hana til að hitta mann í bílakjallara, sem hún hefði
veitt munnmök og tekið upp á Snapchat og sent ákærða. Þetta kvað brotaþoli hafa
átt sér stað í tvígang með sama manni með einhverju millibili.
Þá hefði ákærði beðið sig að búa til Tinder-aðgang og
stilla aldur sinn hærri en hann væri í raun og veru. Hún hefði svo verið í
sambandi við ákærða um öll samskipti við mann í gegnum það forrit. Þetta hefði
leitt til þess að maður að nafni G hefði sótt hana heim. Hann hefði ekið á […]
og starfað […]. Hún hefði stöðugt verið í símanum á meðan, í samskiptum við
ákærða og fylgt fyrirmælum hans. Þau hefðu ekið að […] þar sem hún hefði veitt
manninum munnmök og hann tekið það upp og hún svo sent ákærða myndbandið.
Þá greindi brotaþoli frá því að ákærði hefði skipað
henni að fara heim með strák sem hún þekkti, F, og viljað fylgjast með því sem
fram fór. Ákærði hefði orðið brálaður af því að hann heyrði ekki nægilega vel
hvað fram fór gegnum símann. Hann hefði þá sent sér sms á hringdu.is, verið
mjög reiður og sagt m.a: „Viltu að ég beili á þér“. Brotaþoli kvað ákærða hafa
verið ótrúlega stjórnsaman og hafa haft tök á sér.
Botaþoli kvaðst hafa verið hrifin af ákærða en líka
hrædd við hann, hann hefði verið yfirþyrmandi reiður, og hótað sér ítrekað með
myndbirtingum. Brotaþoli kvað ákærða hafa verið mjög forvitinn um sín
persónulegu mál og samskipti við stráka. Brotaþoli sagði að sér liði eins og
hún hefði verið heilaþvegin. Hún kvaðst ítrekað hafa eytt aðgangi ákærða, sem
þá hefði búið til önnur og ný auðkenni, eins og „K“, hún hefði þó vitað að það
væri ákærði, það hefði hún ráðið af samskiptunum við hann.
Brotaþoli kvaðst í upphafi hafa notað sitt
aðgangsheiti í samskiptum við ákærða sem hefði svo beðið sig að útbúa annað eða
hann hefði útbúið sérstakt auðkenni fyrir hana, „K2“, sem hún hefði svo notað í
samskiptum við hann á Snapchat. Ákærði hefði sent sér skilaboð gegnum
hringdu.is um það hvenær hún ætti að koma inn á Snapchat.
Þá kvaðst brotaþoli hafa séð samskipti milli ákærða, X,
undir eigin auðkenni við A2/K á Snapcact. Þar hefði ákærði sett á svið rifrildi
milli þeirra, þar sem ákærði persónulega hefði tekið upp hanskann fyrir
brotaþola gagnvart þeim sem hún taldi vera A.
Brotaþoli kvaðst ekki hafa sent ákærða, þ.e. X, í
eigin persónu myndir af sér fáklæddri nema að beiðni „A2“. Brotaþoli kvaðst oft
hafa reynt að hætta þessum samskiptum, en ákærði hefði endalaust sent sér sms
og lofað öllu fögru og beðist fyrirgefningar. Kvaðst brotaþoli hafa viljað
annaðhvort hætta sambandi við „A2“ eða fara að hitta viðkomandi. Hún hefði ekki
viljað eiga bara Snapchat-kærasta.
Ástæðu þess að hún lagði fram kæru á hendur A kvað
brotaþoli hafa verið þá að sér hefði liðið ömurlega, hún hefði verið að bugast
vegna þess sem ákærði hafði fengið hana til að gera. Hún hefði sagt vinkonu
sinni, M, frá þessum samskiptum. Hún hefði þá orðið hissa á því að brotaþoli og
A væru enn í samskiptum. M hefði rætt þetta við C, sameiginlega vinkonu hennar
og A. C hefði í framhaldi af því haft samband við A sjálfan. Kvað brotaþoli A
þá hafa haft samband við sig og rifist við sig um þetta.
Þá kvaðst brotaþoli hafa greint samstarfskonum sínum, O
og B, frá þessu enda hefði hún þá varla getað farið í vinnuna. Þá hefði hún
leitað í Bjarkarhlíð og rætt við N lögreglukonu. Brotaþoli kvaðst hafa viljað
kæra atvikin um mennina þrjá, en í raun ekki annað. Ekki atvikin á hótelinu,
þar sem hún taldi að þar hefði A verið mættur en ekki ákærði.
Brotaþoli kvað sér hafa liðið mjög illa vegna þessa.
Hún hefði alltaf verið á nálum, óvenju reið, sofið illa, borðað lítið og mætt
illa í vinnu.
Aðspurð kvaðst brotaþoli alltaf hafa staðið í þeirri
trú að hún væri að tala við A á þessu snappi og aldrei dottið annað í hug. Hún
kvaðst halda að hún hefði sent ákærða að minnsta kosti 100 myndir af sér.
Vitnið A kom fyrir dóm og greindi frá því hann hefði
heyrt af málinu fyrst þegar vinkona hans, C, hafði samband við hann og ásakað
hann um eitthvað sem ekki átti sér stoð í raunveruleikanum. Þetta taldi vitnið
hafa verið í maí 2017. Áður hafði hann þó heyrt einhverjar sögur um sig og
brotaþola á einhverju hótelherbergi.
Vitnið taldi sig hafa kynnst brotaþola árið 2016-2017,
en hefði áður vitað hver hún var. Þau hefðu hist eða verið að „deita“ í kannski
tvo mánuði. Á samskiptamiðlum hefðu samskipti þeirra verið á Facebook, með sms
og á Snapchat. Þar hefði hann notað auðkennið „A“. Vitnið kvaðst ekki hafa
notast við auðkennið „A2“. Þeirra samskipti hefðu aðeins verið spjall um
daglegt líf. Vitnið kvaðst einu sinni hafa fengið mynd frá brotaþola gegnum
samskiptamiðil, bara ögrandi, ekki nektarmynd. Hún hefði sent sér slíka mynd
eftir eitthvert spjall. Vitnið sagði sér hafa fundist eitthvað skrýtið í gangi
þegar þau voru að draga sig saman, þau hefðu ekki verið samtaka, hún verið eins
og komin lengra en hann í sambandinu. Hún hefði fljótlega, eftir stutt kynni,
verið komin heim til hans með föt og svona, eins og meiri alvara væri í
sambandinu en raunin var. Þá kvað vitnið einhverja ringulreið hafa verið í gangi
í samskiptum þeirra. Hann hefði ekki alltaf verið viss um hver var í samskiptum
við sig.
Aðspurður um brotaþola kvað vitnið hana vera venjulega
stelpu. Þá kvaðst vitnið ekki þekkja ákærða. Staðfesti vitnið að hafa á
tímabili verið í sambandi með stúlku að nafni […], árið 2015-2016, kannski í 10
mánuði eða eitt ár. Sömuleiðis kvaðst hann hafa á þessum tíma átt annríkt,
verið að spila með […], verið með […] og með […]. Aðspurt kvað vitnið brotaþola
aðallega hafa sakað sig um að vilja ekki viðurkenna að hafa átt í samskiptum
við sig á Snapchat.
Vitnið B, fyrrverandi samstarfskona brotaþola, kom
fyrir dóminn. Hún kvaðst hafa farið með brotaþola í Bjarkarhlíð. Hún og
samstarfskona þeirra, O, hefðu haft áhyggjur af breyttri hegðun brotaþola.
Lýsti vitnið því þannig að sér hefði fundist vera að fjara undan brotaþola. Hún
hefði misst gleði sína. Brotaþola hefði liðið illa, hún hefði grátið mikið og
mætt seint og illa til vinnu, meira en eðlilegt gæti talist. Vitnið kvað
brotaþola hafa sent O tölvupóst, þar sem brotaþoli hefði sagst hafa verið í
erfiðu sambandi og í framhaldi af því hefðu þær B og O sest niður og rætt við
brotaþola. Í framhaldi af því hefðu þær
farið með brotaþola í Bjarkarhlíð.
Vitnið C gaf skýrslu fyrir dómi. Hún kvaðst vera
vinkona brotaþola og besti vinur A, en þekkti ekki ákærða. Vitnið kvaðst hafa vitað að brotaþoli og A
hefðu átt í sambandi um stutt skeið. Vitnið kvaðst hafa fengið símtal frá
sameiginlegri vinkonu sinni og brotaþola. Sú vinkona hefði greint sér frá því
að A hefði verið í samskiptum við brotaþola á leynilegu snappi í meira en ár
eftir að sambandi þeirra lauk, og brotaþoli væri mjög leið vegna þeirra
samskipta. Vitnið kvaðst þá hafa rætt þetta við A og krafið hann svara um það
hvers vegna hann hefði komið illa fram við brotaþola. Hann hefði þá komið af
fjöllum. Hún hefði þá rætt þetta frekar við brotaþola sem hefði sagt sér
ýmislegt um þessi samskipti sem vitnið taldi mjög sannfærandi, staðreyndir sem
pössuðu, en um leið skrýtið og ólíkt vini sínum A. Í því samhengi nefndi vitnið
sem dæmi orðalag og stafsetningu á skilaboðum sem hún hafði séð hjá brotaþola.
Þá lýsti vitnið því hvernig brotaþoli hefði greint sér
frá atvikum í apríl 2017. Sagði vitnið brotaþola hafa lýst því hvernig
viðmælandinn á snappinu hefði náð tökum á sér og haft stjórn á sér. Hún hefði
verið farin að senda honum nektarmyndir af sér, og setið undir hótunum um
birtingu á þeim myndum á netinu í tengslum við allt sem ákærði vildi að hún
gerði. Þá hefði brotaþoli greint sér frá því að ákærði hefði aldrei sent sér
myndir af sér á móti. Einnig hefði brotaþoli sagt sér frá því að hún hefði hitt
mann til að hafa við hann munnmök í tvígang í bílakjallara í […] og sömuleiðis
hitt ákærða á hóteli með bundið fyrir augu. Vitnið taldi að brotaþoli hefði
staðið í þeirri trú, þegar hún sagði vitinu frá, að A hefði verið sá sem átti í
hlut. Þá greindi vitnið frá því aðspurt að brotaþoli hefði sagt sér frá því að
snappið hefði þvingað sig til að fara heim með einhverjum strák og taka upp
meðan þau væru að sofa saman. Aðspurt sagði vitnið að brotaþoli hefði átt
erfitt með að greina frá atvikum, liðið illa, verið mjög brothætt og grátið
mikið.
D gaf skýrslu við aðalmeðferð
málsins. Vitnið kvaðst ekki þekkja ákærða neitt en hafði heyrt um hann frá
brotaþola. Vitnið kvað brotaþola hafa verið í heimsókn hjá sér í nóvember 2016
og hefði þá greint sér frá því að hún hefði verið í samskiptum við A á Snapchat
um tíma og þau hefðu hist á hóteli þar sem brotaþoli hefði verið með bundið
fyrir augu og þau hefðu sofið saman. Brotaþoli hefði þá verið með samviskubit
þar sem hún hélt að A væri á föstu, en brotaþoli hefði verið spennt fyrir A á
þessum tíma og fundist hún föst í þessu.
Þá hefði brotaþoli sagt sér frá því síðar, kannski í
janúar 2017, að A hefði sagt sér að gera ýmsa skrýtna hluti, fara að hitta
einhverja menn, og ef hún gerði það ekki ætti hann myndir af henni. Kvað vitnið
brotaþola hafa liðið illa vegna þess. Nánar aðspurt sagði vitnið að brotaþoli
hefði sagst hafa hitt mann í bíl og veitt honum munnmök.
Vitnið kvaðst hafa haldið að það væri A sem ætti í
hlut og var viss um að brotaþoli hefði haldið svo einnig. Þá kvað vitnið
brotaþola hafa hringt í sig þegar í ljós
kom að svo var ekki, þ.e. að í raun hefði ákærði verið í samskiptum við
brotaþola en ekki A. Kvað vitnið brotaþola hafa verið í sjokki yfir þessu.
Aðspurt kvað vitnið brotaþola hafa greint sér frá því
að brotaþoli hefði tekið myndir að kröfu A, þegar hún var með tveimur
nafngreindum mönnum. Brotaþoli hefði verið miður sín vegna þessa, hún hefði
verið veik fyrir A en ekki þessum mönnum. Vitnið kvað brotaþola oft hafa hringt
í sig hágrátandi vegna þessa og skammast sín. Aðspurt um það hvort vitnið hefði
merkt breytingu á brotaþola á þeim tíma sem um ræðir áréttaði vitnið að það
byggi í […] og væri ekki í daglegum samskiptum við brotaþola. Kvað vitnið
brotaþola hafa liðið ömurlega og skammast sín en samt um leið verið ótrúlega
skotin í manninum á sama tíma. Hún hefði verið þunglynd og með kvíða, farið að
djamma svolítið mikið og grátið mikið.
E kom fyrir dóm og kvaðst hafa verið vinkona brotaþola
frá því í í bernsku. Vitnið greindi frá því að brotaþoli hefði hitt ákærða
þegar þau voru saman í framhaldsskóla. Ákærði hefði haft áhuga á brotaþola en
sá áhugi ekki verið gagnkvæmur. Ákærði hefði gefið brotaþola dýrt úr í afmælisgjöf
sem brotaþoli hefði viljað skila en ekki fengið. Vitnið kvað þau brotaþola og
ákærða hafa verið vini og ákærði hefði orðið trúnaðarvinur brotaþola sem hefði
treyst honum fyrir mörgu því sem „snappið“ hefði sagt.
Vitnið kvaðst hafa vitað af Snapchat-samskiptum
brotaþola og „A2“ um leið og þau hófust. Þá kvaðst vitnið hafa þekkt A fyrir.
Brotaþoli hefði sagt sér frá ýmsu því sem þeim fór þar á milli, brotaþola og
„snappinu“. Þessi samskipti hefðu strax orðið ágeng og kynferðisleg. Þau hefðu
verið mikið saman, í símanum.
Vitnið kvað brotaþola hafa viðurkennt í drykkjuleik að
hafa sent nektarmyndir af sér til einhvers og svo síðar sama kvöld að hafa hitt
A á hótelherbergi bundin og með bundið fyrir augu, þar sem þau hefðu sofið
saman, í tvígang.
Vitnið kvað þessi samskipti hafa
haft mikil áhrif á brotaþola, sem varð lokaðri, hún hefði orðið leið, breyst í
skapi og verið pirruð. Vitnið kvaðst nokkrum sinnum hafa séð samskipti milli
brotaþola og „snappsins“. Þar hefðu verið notuð mjög niðurlægjandi orð og þessi
samskipti hefðu haft mikil áhrif á brotaþola og sjálfstraust hennar.
Vitnið kvaðst einnig hafa séð nektarmyndir í síma
brotaþola, nokkuð grófar. Þá kvað vitnið „snapparann“ hafa hótað að senda
foreldrum brotaþola þessar myndir og setja þær á netið. Vitnið kvað brotaþola
hafa verið blinda af ást og ekki trúað neinu upp á þennan mann, A.
Vitnið kvað brotaþola einnig hafa greint sér frá því
að maðurinn hefði látið sig hitta menn í einhverjum bílakjallara í
kynferðislegum tilgangi. Vitnið kvað brotaþola hafa verið í rúst vegna þessa.
Vitnið kvað brotaþola hafa greint sér nánar frá þessu
eftir að hún hefði lagt fram kæru, t.d. að hann hefði látið hana stofna
Tinder-reikning. Sömuleiðis um atvik varðandi F og P. Vitnið kvað brotaþola
hafa sagt frá því að „snappið“ hefði beðið hana að taka myndir af því meðan hún
var með þeim og senda sér. Sömuleiðis að brotaþoli hefði einhverju sinni fengið
skipun um að kyssa strák sem hún hitti og senda „snappinu“ mynd af því.
Aðspurð um samband brotaþola og A, þegar þau voru
saman í raun og veru, svaraði vitnið því til að brotaþoli hefði verið ánægð.
Það hefði þó verið eins og þau væru með leikþátt. Þau hefðu bara ætlað að byrja
upp á nýtt, auk þess sem vitnið taldi að brotaþoli hefði ekki þorað að tala um
þetta vegna þess að á snappinu hefði hann verið viðbjóðslegur, hraunað yfir
hana. En haft tök á henni.
Vitnið F gaf skýrslu gegnum síma við aðalmeðferð
málsins. Vitnið kvaðst hafa átt í sambandi við brotaþola um tíma. Vitnið kvaðst
muna til þess að eftir að því sambandi lauk hefði hann eitt sinn farið heim með
brotaþola, þ.e. 23. október 2016. Hann hefði verið ölvaður en minnti að þau
hefðu þá átt kynferðislegt samneyti. Hún hefði svo farið snemma heim, sagt að
sér væri flökurt. Vitnið lýsti samskiptum þeirra eftir þetta þannig að hann
hefði skilið hana svo að hún vildi ekki eiga frekari samskipti við sig.
Vitnið G kvaðst hafa kynnst brotaþola gegnum Tinder og
þau hefðu ákveðið að hittast. Hann hefði sótt hana á […] og þau hefðu farið í
bíltúr. Hann hefði boðið henni að koma heim með sér en hún ekki viljað það. Hún
hefði beðið sig að aka að bílastæði […] og hún myndi þá gefa honum tott. Hann
hefði átt að taka það upp á síma brotaþola og senda einhverjum þriðja aðila,
sem hún sagði vera kærasta sinn. Hann hefði samþykkt þetta og að þessu loknu
ekið henni heim. Aðspurt kvaðst vitnið hafa tekið mynd á síma brotaþola, gegnum
Snapchat-forritið. Kvaðst vitnið ekki síðan hafa haft samskipti við brotaþola.
Þá kvað hann brotaþola hafa eytt sér af Tinder daginn eftir.
Nánar aðspurt um hvernig brotaþoli hefði komið fyrir
kvað vitnið hana hafa verið venjulega stúlku, ekkert óeðlilegt við hana. Vitnið
kvaðst hafa séð brotaþola á Instagram einhverjum mánuðum seinna og „addað“
henni en ekkert spáð frekar í það eða verið í sambandi við brotaþola. Vitnið
kvaðst hafa starfað […] á þessum tíma og ekið […]. Þá kvað hann þetta hafa átt
sér stað rétt fyrir jól.
Lögreglumaður nr. I
kom fyrir dóminn og staðfesti að hafa hitt brotaþola í Bjarkarhlíð. Þá
hefði málið snúið að öðrum manni en þeim sem ákærður var. Hún kvað brotaþola
hafa lýst atvikum en brotaþoli hefði átt erfitt með að sá sem hún taldi að
hefði stjórnað sér hefði látið hana hitta aðra karlmenn og eiga við þá
kynferðisleg samskipti. Hún hefði verið eins og viljalaust verkfæri í höndum
hans, m.a. hefði brotaþoli sagt sér frá því að hún hefði kastað upp eftir
eitthvert atvikanna. Brotaþoli hefði tekið þetta mjög nærri sér og skammast
sín. Sömuleiðis hefði hún greint frá atvikum á hótelherbergi þar sem hún hefði
hitt mann með bundið fyrir augu.
Lögreglumaður nr. II kom fyrir dóminn. Vitnið kvað
nafn ákærða hafa komið upp við rannsókn málsins, þegar frásögn brotaþola um
hótelheimsókn hefði verið könnuð. Vitnið kvað ákærða ekki hafa kannast við
atvik í upphafi. Vitnið kvað flestum gögnum úr símum aðila málsins hafa verið
eytt áður en rannsókn málsins hófst. Hægt hefði verið að tengja sendingar úr
hringdu.is við síma ákærða. Í skýrslum af báðum aðilum hefði komið fram að þau
hefðu eytt samskiptum sín á milli. En ekkert hefði komið út úr rannsóknum á
símum sem rannsakaðir voru í málinu.
Lögreglufulltrúi nr. III kom fyrir dóm og staðfesti
rannsóknarskýrslu sína. Vitnið kvaðst hafa rannsakað tvo síma,
Snapchat-reikninga og leikjatölvu. Engin gögn hefðu fundist sem tengdust
málinu. Aðspurt kvað vitnið Snapchat-forritið hafa verið skoðað með aðgagnsorði
en ekkert hefði fundist. Að öllu jöfnu geymdi þetta forrit ekki gögn nema í
stuttan tíma, nema viðkomandi notandi gerði ráðstafanir til að vista gögnin. Þá
kvað vitnið mun á sendingum á myndum sem teknar eru í forritinu og á myndum sem
teknar eru með myndvél í síma vera þann að ef mynd er tekin í Snapchat eyðist
hún, nema hún sé vistuð sérstaklega eða tekið skjáskot, meðan myndvélin vistar
myndir sjálfkrafa.
H, starfsmaður í Bjarkarhlíð, gaf skýrslu við
aðalmeðferð málsins. Vitnið staðfesti vottorð sem frá því stafar í málinu.
Vitnið kvað brotaþola hafa greint frá sambandi sem hún átti við fyrrverandi
kærasta gegnum Snapchat og ýmsu sem hann hefði fengið brotaþola til að gera;
atvikum á hóteli í […] þar sem sá sem brotaþoli var í samskiptum við hefði haft
við hana kynmök. Sömuleiðis atvik er vörðuðu tvo menn, tvö skipti í bíl og
atvik niðri í bæ, þar sem brotaþoli hefði samkvæmt fyrirmælum mannsins farið
heim með manni sem hún hitti í bænum. Brotaþoli hefði átt við þessa menn
kynferðisleg samskipti og sent ákærða staðfestingu á því.
Vitnið kvað brotaþola hafa komið til sín í nokkur
skipti. Hún hefði verið mjög reið. Brotaþola hefði liðið mjög illa af
sjálfsásökun, skömm og niðurlægingu, hún hefði átt erfitt með svefn, glímt við
mikla vanlíðan og verið í ójafnvægi. Vitnið kvað allt fas brotaþola hafa verið
í samræmi við það sem fræðin og reynsla þess segði eiga við um þolendur
ofbeldis og brotaþoli hefði verið staðföst í frásögn sinni. Þá kvað vitnið það
hafa verið algert áfall fyrir brotaþola þegar í ljós kom að samskipti brotaþola
höfðu í raun verið við annan mann en brotaþoli hafði talið.
Vitnið I ráðgjafi kom fyrir dóminn og staðfesti
vottorð sem frá því stafar í málinu. Vitnið kvað brotaþola hafa leitað til sín
vegna innri spennu og kvíða. Síðar hefði hún opnað sig um áfall sem hún hefði
orðið fyrir, þ.e. óeðlileg samskipti við ungan mann; kynferðislega og ráðandi
hegðun, sem hefði valdið brotaþola vanlíðan og kvíða og brotaþola hefði verið
hótað ef hún segði frá því. Vitnið kvað brotaþola hafa sagt frá því að hún og
hlutaðeigandi hefðu átt í sambandi en eftir að því lauk hefði hann haldið áfram
að elta brotaþola, verið einhvers konar eltihrellir.
Vitnið kvað brotaþola hafa liðið mjög illa og haft
kvíðaeinkenni. Hún hefði skammast sín og verið óttaslegin.
J sálfræðingur kom fyrir dóminn og staðfesti skýrslu
sína sem er meðal gagna málsins. Vitnið kvað brotaþola hafa lýst samskiptum
sínum við mann sem hefði þróast þannig að maðurinn náði tökum á henni og fékk
hana til að gera ýmislegt kynferðislegt og hótaði henni ella að hætta með henni
eða birta nektarmyndir af henni. Hún hefði gert það sem maðurinn sagði henni en
liðið illa. Hún hefði svo leitað sér aðstoðar hjá sálfræðingi og á
bráðamóttöku.
Vitnið kvaðst hafa lagt próf fyrir brotaþola og tekið
geðgreiningarviðtal. Brotaþoli hefði sýnt kvíðaeinkenni og alvarlegt þunglyndi.
Áfallastreituröskun hefði mælst mikil og sömuleiðis lágt sjálfsmat. Þá kvað
hann brotaþola ekki eiga aðra áfallasögu en þá sem hún hefði greint sér frá.
V
Forsendur og
niðurstaða
Ákærða er í máli þessu gefið að sök að hafa á
tímabilinu frá mars 2015 til byrjunar árs 2017 sýnt af sér lostugt athæfi og
sært blygðunarsemi Y er hann beitti hana blekkingum og nýtti sér villu hennar
um að hann væri A í samskiptum þeirra í milli, í gegnum samskiptaforritið
Snapchat, í þeim tilgangi að eiga í kynferðislegum samskiptum við hana og
brjóta gegn henni með þeim hætti sem í ákæru er gerð grein fyrir í þremur
töluliðum.
Um 1. tl. ákæru
Broti ákærða er nánar lýst í 1. tl. ákæru þannig að
ákærði hafi fengið brotaþola til að senda sér kynferðislegar myndir af henni
sjálfri. Er það brot talið varða við 209. gr. almennra hegningarlaga með síðari
breytingum.
Fyrir dómi hefur ákærði viðurkennt
að hafa kynnst brotaþola í framhaldsskóla. Hann hafi orðið lítillega hrifinn af
henni en ekkert hafi orðið úr því annað en vinátta þeirra á milli. Þá hefur
ákærði viðurkennt að hafa sent brotaþola vinarbeiðni á samskiptaforritinu
Snapchat undir öðru auðkenni en hann notaði sjálfur persónulega í því skyni að
blekkja brotaþola. Hefur ákærði viðurkennt, fyrir dómi og hjá lögreglu, að hafa
um lengri tíma átt í samskiptum við brotaþola á Snapchat undir auðkennunum „A2“
og „K“, sem „sami karakterinn“, þ.e. maður sem ynni í […] og sem ætti kærustu
að nafni […]. Þá kvaðst ákærði fyrir dómi hafa gert sér grein fyrir því að
brotaþoli teldi að hún ætti í samskiptum við annan mann en sig, þ.e. A. Ákærði
sagðist hafa stofnað auðkennið „K“ af því að hann hefði verið hræddur um að
brotaþoli kynni að ræða við A sjálfan, og þá kæmist upp um sig. Ákærði kvað
samskipti sín við brotaþola undir þessum formerkjum hafa verið nánast dagleg um
lengri tíma og kvað brotaþola oft hafa sent sér nektarmyndir í þeim samskiptum.
Ákærði neitaði að hafa haft í hótunum við brotaþola í þessum samskiptum.
Aðspurður kannaðist ákærði við að hafa átt samskipti við brotaþola, sem liggja
fyrir í málinu, þar sem brotaþoli hefur gefið honum heitin L, L1 og L2.
Ákærði hefur ekki getað gefið skýringu á því hvers
vegna hann hætti ekki þessum blekkingarsamskiptum við brotaþola eða upplýsti
hana um það hver hann væri í raun og veru, aðra en þá að brotaþoli hefði þá
hótað að slíta samskiptum við hann og að hann hefði verið hræddur um að upp um
sig kæmist.
Brotaþoli kvaðst fyrir dómi hafa þekkt til A er
samskipti hennar og ákærða hófust gegnum Snapchat, og hefði hitt hann einu
sinni í veislu. Þá hefði hann um tíma verið að hitta vinkonu hennar. Brotaþoli
kvaðst hafa innt hlutaðeigandi eftir því, þegar hún fékk beiðni frá honum um
samskipti á Snapchat, hvers vegna hann notaðist þá við annað auðkenni en hann
notaði endranær á Snapchat, og fengið þau svör að það auðkenni væri bilað og
hún hefði tekið þá skýringu góða og gilda. Brotaþoli kvaðst hafa verið veik
fyrir A og langað að vera í sambandi við hann og því látið til leiðast. Þá
hefði hann rætt við hana um ýmsa persónulega hluti úr lífi A sem ýttu undir trú
brotaþola um að samskiptin væru við þann mann. Brotaþoli lýsti samskiptum sínum
við „A2“ og „K“ þannig að hlutaðeigandi hefði byggt upp traust við hana en um
leið sýnt afbrýðisemi og stjórnsemi í sinn garð. Hann hefði viljað fá að vita
með hverjum hún væri og hvar og viljað fá myndir af því og t.d. beðið hana um
að kyssa stráka og senda sér myndir af því. Brotaþoli kvaðst hafa látið undan
þessu vegna áhuga síns á A og ósk um að þau tækju upp „raunverulegt“
ástarsamband í stað þess að hún ætti bara Snapcat-kærasta. Undir þessum
þrýstingi hefði hún látið undan óskum ákærða, m.a. um að senda honum
kynferðislegar myndir af sér. Brotaþoli kvað samskipti þessi fljótlega hafa
orðið ágeng og ákærði beðið um myndir af sér, sem hún hefði látið undan á
endanum. Ákærði hefði ítrekað lofað að hætta með hinni stúlkunni. Þau hefðu sín
á milli rætt um persónulega hluti sem ættu við um A og hún því trúað því að um
þann mann væri að ræða í raun og veru.
Ákærði og brotaþoli hafa bæði borið um það að
samskipti þeirra sem hér um ræðir hafi farið fram á samskiptamiðlinum Snapchat
og þá hefði ákærði haft samband við brotaþola gegnum leyninúmer eða hringdu.is.
Þá bera gögn málsins það með sér. Þá greindu þau bæði frá því þegar við upphaf
rannsóknar málsins að Snapchat-samskiptum sínum hefðu þau eytt. Í skýrslu
lögreglufulltrúa nr. III fyrir dómi, sem rannsakaði síma og Snapchat-reikninga
aðila, kom fram að engin gögn hefðu fundist þar sem tengdust málinu. Að öllu
jöfnu geymdi forritið ekki gögn nema í stuttan tíma, nema viðkomandi notandi
gerði ráðstafanir til að vista gögnin, ólíkt því ef myndavél á síma er notuð.
Af þeim sökum hefði ekki reynst unnt að staðreyna hvort þær myndir sem liggja
fyrir í málinu fóru milli aðila málsins með þeim hætti eða öðrum né heldur
festa hendur á þeim fjölda mynda sem brotaþoli kveðst hafa sent ákærða. Þrátt
fyrir það hefur ákærði kannast við að hafa fengið kynferðislegar myndir af
brotaþola með þessum hætti, en neitað að hafa beðið brotaþola um þær eða beitt
hana þrýstingi eða hótunum til þess. Þá hefur ákærði viðurkennt að hafa fengið
mynd af brotaþola með karlmanni einu sinni.
Framburður brotaþola hvað efni þessa ákæruliðs varðar
hefur verið stöðugur og trúverðugur. Þá fær framburður hennar stoð í gögnum
málsins og framburði vitna. Vitnið E, vinkona brotaþola, kvaðst fyrir dómi hafa
séð nektarmyndir í síma brotaþola og kvaðst einnig hafa séð samskipti milli
brotaþola og ákærða á Snapchat í síma brotaþola. Þar hefðu verið notuð
niðurlægjandi orð og „snapparinn“ hefði hótað að senda foreldrum brotaþola
þessar myndir og setja þær á netið. Kvað vitnið brotaþola hafa verið blinda af
ást og ekki trúað neinu upp á þennan mann, A. Vitnið D kvaðst sömuleiðis fyrir
dómi hafa haft vitneskju um að brotaþoli hefði sent kynferðislegar myndir til
þess er brotaþoli taldi vera A. Vitnið A bar fyrir dómi að framkoma brotaþola,
þann tíma sem þau áttu í raunverulegu sambandi, hefði verið sérkennileg og eins
og brotaþoli hefði verið komin lengra í sambandinu en hann.
Þá eru skýrslur þeirra H, starfsmanns Bjarkarhlíðar,
og I, sem brotaþoli leitað til vegna málsins, einnig til þess fallnar að renna
stoðum undir frásögn brotaþola. Þá liggur fyrir í skýrslu sálfræðingsins J, sem
staðfest var fyrir dómi, að brotaþoli hefði greint honum frá atvikum og að á
sálfræðilegum prófum og í geðgreiningarviðtali hefði brotaþoli uppfyllt viðmið
fyrir alvarlegu þunglyndi og áfallastreituröskun en einnig kæmi fram lágt
sjálfsmat. Brotaþoli hefði lýst töluverðum einkennum áfallastreituröskunar sem
nánar er lýst í skýrslu hans. Þessi einkenni hefðu hamlandi áhrif á daglegt líf
brotaþola og því fylgdi mikil skömm og tilfinning um viðbjóð.
Ákærði hefur viðurkennt að hafa látist vera annar er
hann var í samskiptum við brotaþola á Snapchat, og á sama tíma komið fram í
eigin persónu sem vinur brotaþola. Fyrir dómi kvaðst hann ekki hafa upplýst
brotaþola um það hver hann væri, af ótta við afleiðingar þess. Ákærði kvað
samskipti sín og brotaþola undir auðkennisheitnum „K“ og „K2“ aðeins hafa verið
milli þeirra tveggja og ekki öðrum aðgengileg. Í þeim samskiptum hefði
brotaþoli m.a. sent honum nektarmyndir af sér. Fyrir liggur að ákærði hafði
frumkvæði að þessum samskiptum í öndverðu og kaus að eiga þessi samskipti á
miðli sem alkunna er að eyðir að jafnaði þeim samskiptum sem þar fara fram,
nema sérstakar ráðstafanir séu gerðar. Þá notaði ákærði einnig hringdu.is til
samskipta við brotaþola, þannig að ekki yrðu borin kennsl á hann. Þá kvaðst
ákærði fyrir dómi hafa staðhæft við brotaþola að hann væri A, þegar hann komst
að því að hún hygðist kæra þann mann til lögreglu, og það hefði hann gert í því
skyni að reyna að fá brotaþola ofan af því. Hefði hann gert það af ótta við
afleiðingar þess fyrir sig sjálfan. Með því að leika tveimur skjöldum gagnvart
brotaþola hafði ákærði tök á að viðhalda þeirri blekkingu sem hann beitti
brotaþola um lengri tíma. Sem dæmi um það bar ákærði fyrir dómi að brotaþoli
hefði iðulega sagt sér ósatt um samband sitt við A, þegar hann vissi betur. Að
þessu virtu verður framburður ákærða þess efnis að hann hafi ekki beitt
brotaþola þvingunum í því skyni að fá hana til að senda sér myndir af
kynferðislegum toga ekki metinn trúverðugur.
Að ofanrituðu virtu og gögnum málsins telur dómurinn
sannað að ákærði hafi blekkt brotaþola til þess að senda sér kynferðislegar
myndir af sjálfri sér. Ákærða var að mati dómsins fulljóst að brotaþoli sendi
honum slíkar myndir, í þeirri trú að hún ætti í samskiptum við annan mann, mann
sem hún hafði áhuga á að taka upp ástarsamband við, en ekki ákærða. Sú háttsemi
ákærða var til þess fallin að særa blygðunarsemi brotaþola og fól í sér lostugt
athæfi í skilningi 209. gr. almennra hegningarlaga. Verður ákærði því
sakfelldur fyrir brot samkvæmt fyrsta tölulið ákæru og brot hans þar talið rétt
heimfært til refsiákvæðis.
Um 2. tl.
ákæru
Í 2. tl. ákæru er ákærða gefið að sök að hafa þvingað
brotaþola til kynferðislegra samskipta við aðra karlmenn, sem fólust meðal
annars í því að kyssa, hafa samræði um leggöng og stunda önnur kynferðismök með
mönnunum og láta hana taka upp og senda sér myndir, myndupptökur eða
hljóðupptökur af framangreindum samskiptum, með því að hóta því að öðrum kosti
að birta opinberlega kynferðislegar myndir af brotaþola.
Telst þetta varða við 1. mgr. 194. gr. almennra
hegningarlaga nr. 19/1940 með síðari breytingum.
Brotaþoli kvaðst fyrir dómi hafa verið hrifin af
ákærða en líka hrædd við hann, hann hefði verið yfirþyrmandi reiður, og hótað
sér ítrekað með myndbirtingum. Hann hefði í raun stjórnað sér og fengið sig til
að gera hluti gegn vilja sínum. Hann hefði talið sér trú um að hún gæti bætt
fyrir „brot sín í sambandinu“ með því að fara að vilja hans. Ákærði hefði verið
góður við hana um tíma, eftir að hún gerði það sem hann krafðist af henni, en
svo hefði allt farið í sama farið. Brotaþoli kvað ákærða hafa verið mjög
forvitinn um sín persónuleg mál og samskipti við stráka.
Með þessu móti kvað brotaþoli ákærða hafa fengið sig
til að kyssa ókunnan mann niðri í bæ og senda sér mynd af því og sömuleiðis í
tvígang til að hitta mann í bílakjallara, sem hún hefði veitt munnmök og tekið
upp á Snapchat og sent ákærða eða vistað þannig að ákærði gæti nálgast það.
Þá greindi brotaþoli frá því að 23. október 2016, er
hún var úti að skemmta sér, hefði ákærði skipað henni að fara heim með strák
sem hún þekkti, F, og hafa við hann samræði. Hefði ákærði viljað fylgjast með
því sem þar fór fram gegnum síma. Þetta hefði hún gert en ákærði orðið
brjálaður af því að hann heyrði ekki nægilega vel hvað fram fór gegnum símann.
Hann hefði sent sér fjölda skilaboða á hringdu.is meðan á þessu stóð, verið
mjög reiður og sagt m.a.: „Viltu að ég beili á þér“. Brotaþoli kvað sér hafa
liðið mjög illa eftir þetta og hefði farið heim í leigubíl um nóttina. Ákærði
hefði ekki verið ánægður með frammistöðu hennar þetta kvöld og notað það gegn
henni síðar.
Brotaþoli kvað ákærða hafa fengið sig til að skrá sig
á Tinder. Brotaþoli hefði svo mælt sér mót við mann eftir fyrirmælum ákærða
gegnum það forrit. Sá maður, G, hefði sótt hana heim. Hann hefði ekið […] og
starfað […]. Meðan á því stefnumóti stóð hefði brotaþoli verið í samskiptum við
ákærða og tekið fyrirmælum hans. Þau hefðu ekið að […] þar sem hún hefði veitt
manninum munnmök og hann tekið það upp og hún svo sent ákærða myndbandið.
Framburður brotaþola um þau atvik sem liggja til
grundvallar þessum lið ákærunnar hefur verið stöðugur og brotaþoli samkvæm
sjálfri sér frá öndverðu. Er ekkert fram komið sem varpar rýrð á trúverðugleika
framburðar brotaþola um þau atvik sem um ræðir. Frásögn brotaþola fær stoð í
framburði vitna. Vitnið E kvaðst nokkrum sinnum hafa séð samskipti milli
brotaþola og „snappsins“. Vitnið kvaðst hafa vitað til þess að „snapparinn“
hefði hótað að senda foreldrum brotaþola kynferðislegar myndir af henni og
setja þær á netið. Kvað vitnið brotaþola
hafa greint sér frá því að ákærði hefði látið sig hitta menn í einhverjum
bílakjallara í kynferðislegum tilgangi og kvaðst hafa orðið vitni að því þegar
brotaþoli kyssti mann í miðborginni og sendi á snappið, en meintur viðtakandi, A,
átti þá að vera í útlöndum.
Þá hefur vitnið F komið fyrir dóm og staðfest frásögn
brotaþola um að þau hefðu farið saman heim til hans úr miðbænum, 23. október
2016. Vitnið kvaðst fyrir dómi ekki muna hvort þau hefðu haft samræði umrætt
kvöld eða hvort brotaþoli hefði verið í símanum en taldi framburð sinn þess
efnis hjá lögreglu nær lagi en minni sitt fyrir dómi. Vinkona brotaþola, E,
kvaðst muna eftir því að brotaþoli hefði farið heim með F þetta sinn, og kvað
það hafa komið sér á óvart, þar sem hún taldi að brotaþoli væri hrifin af A en
ekki F. Brotaþoli hefði síðar sagt sér að hún hefði verið að fylgja fyrirmælum
„snappsins“ um þetta. Sömuleiðis fær
frásögn brotaþola um þetta atvik stoð í vitnisburði þeirra D og C. Af gögnum
málsins má sjá að brotaþoli fékk ítrekuð skilaboð frá ákærða gegnum hringdu.is
þann 23. október sem rennir frekari stoðum undir frásögn hennar af þessu
atviki.
Vitnið G hefur staðfest frásögn brotaþola af tildrögum
fundar þeirra og samskipta og kvað það hafa verið forsendu þess að brotaþoli
veitti honum munnmök að hann tæki það upp á Snapchat, svo að hún gæti sent
kærasta sínum. Vitnin E og D hafa bæði greint frá því að brotaþoli hafi sagt
þeim frá því að hún hefði að tilmælum ákærða stofnað aðgang á Tinder og þar
hafi ákærði valið mann sem hún ætti að hitta og hafa munnmök við og hún hefði
gert það.
Ákærði hefur neitað því sem á hann er borið í 2. tl.
ákæru, en kannast við að hafa fengið mynd af brotaþola að kyssa mann, en kvað
hana hafa gert það að eigin frumkvæði. Ákærði kannaðist við að hafa sent
brotaþola sms-skilaboð sömu nótt og brotaþoli fór heim með nefndum F, 23.
október 2016, en sem fyrr segir fékk brotaþoli þá ítrekuð sms-skilaboð gegnum
hringdu.is, m.a. fyrirmæli um að slökkva á hljóði og skilaboðin „ertu að
grínast“, viltu að ég beili á þér“, „2min eða ég beila“. Kvað ákærði skilaboð sín til brotaþola ekki
hafa falið í sér þvingun né hefði hann átt nokkurn hlut að málum.
Við mat á trúverðugleika framburðar ákærða verður að
líta til þess að framburður hans um ákæruefnið hefur ekki verið stöðugur og tók
breytingum undir rannsókn málsins auk þess sem ósamræmi var í framburði ákærða
fyrir dómi og hjá lögreglu. Í skýrslutökum hjá lögreglu kannaðist ákærði við að
hafa fengið myndir og vídeómyndir af brotaþola í kynferðislegum samskiptum við
menn, m.a. í bílakjallara á Smáratorgi. Þá gekkst ákærði við því hjá lögreglu
að hafa beðið brotaþola um að senda sér myndir af sér með strákum. Sömuleiðis
bar ákærði hjá lögreglu að brotaþoli hefði ekki sent sér myndir undir hótunum,
heldur til þess að „pirra“ sig, þegar hann, sem „A2“, hefði ætlað að hætta að
tala við hana eða ef hún hefði séð A í eigin persónu og hann hefði ekki talað
við hana. Brotaþoli hefði viljað hefna sín.
Ákærði hefur viðurkennt, eins og áður var rakið, að
hafa blekkt brotaþola í samskiptum þeirra þannig að brotaþoli taldi sig eiga í
samskiptum við mann sem hún var hrifin af og langaði að eiga í ástarsambandi
við. Ákærði var á sama tíma persónulegur vinur brotaþola sem treysti honum
fyrir persónulegum málum sínum, m.a. samskiptum sínum við ákærða undir
blekkingarheitum hans. Hefur þetta að mati dómsins óhjákvæmilega áhrif á mat á
trúverðugleika framburðar ákærða. Skýringar ákærða á þeim samskiptum og
myndsendingum sem ákærði kannast við að hafa fengið af brotaþola í þeim
tilvikum sem ákæruliðurinn varðar eru að mati dómsins, í þessu ljósi,
ótrúverðugar og bera þess merki að ákærði reyni að koma sér undan sök.
Framburður brotaþola á hinn
bóginn hefur eins og áður sagði frá öndverðu verið stöðugur og hún samkvæm
sjálfri sér, í samræmi við gögn málsins og framburð vitna. Verður að þessu
virtu að leggja framburð brotaþola til grundvallar þeim atvikum sem um ræðir og
að brotaþoli hafi verið þvinguð með hótunum af hálfu ákærða til þeirra athafna
er 2. tl. ákærunnar varðar.
Að ofanrituðu virtu og gögnum málsins telur dómurinn
sýnt að ákærði hafi með blekkingu og hótunum fengið brotaþola til þeirra
athafna sem lýst hefur verið og lögfull sönnun hafi verið færð fram um sekt
ákærða samkvæmt 2. tl. ákæru, og brot hans þar rétt heimfært til refsiákvæðis.
Um 3. tl.
ákæru
Í 3. tl. ákæru er ákærða gefið að sök að hafa í tvö
skipti, að kvöldi 9. nóvember 2015 og að kvöldi 13. mars 2016, mælt sér mót við
brotaþola á […] […] og
eftir að hún kom þangað bundið fyrir augu hennar þannig að hún sá ekki hver
hann var og haft samræði við hana um leggöng og þannig nýtt sér það að hún var
í villu um hver hann raunverulega var.
Telst þetta varða við 2. mgr. 194. gr. almennra
hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. áður 209. gr. almennra hegningarlaga nr.
19/1940.
Í málinu er óumdeilt að aðilar málsins hittust á
nefndu hóteli í tvígang, þá daga sem greinir í ákæru. Ákærði hefur gengist við
því að hafa pantað og greitt fyrir þessa hóteldvöl auk þess sem rannsóknargögn
eru því til staðfestu. Fyrir dómi viðurkenndi ákærði að tilgangur þessara funda
aðila hefði verið kynferðislegur.
Ákærði hefur borið þannig um þessi atvik að hann hafi
mætt á undan brotaþola og leiðbeint henni með samskiptum gegnum Snapchat, meðan
hann beið inni á baðherbergi. Brotaþoli hefði afklæðst og hann svo bundið fyrir
augu hennar og bundið hana á höndum. Ákærði neitar að hafa haft samræði við
brotaþola í þessi skipti. Í fyrra sinnið hefði brotaþoli viljað hætta við en í
hið síðara hefði honum sjálfum snúist hugur, þar sem brotaþoli hefði farið að
tala við sig og hann óttaðist að eitthvað gæti farið úrskeiðis.
Brotaþoli
bar fyrir dómi að aðdragandi þessara funda hefði verið nokkur, en hún hefði
viljað hitta ákærða í eigin persónu. Ákærði hefði sagst eiga sér draumóra um að
hittast með þessum hætti, með leynd og hefði auk þess í fyrra sinnið ekki verið
tilbúinn að koma með stelpu heim til foreldra sinna á þessum tíma, nýhættur með
annarri stelpu. Brotaþoli kvaðst hafa verið með bundið fyrir augu og bundin á
höndum en kvað ákærða hafa haft samræði við sig um leggöng í bæði skiptin. Hann
hefði svo farið en skilið sig eftir með bundið fyrir augu. Brotaþoli kvaðst
hafa mætt sjálfviljug
í bæði skiptin og staðið í þeirri trú að um A væri að ræða.
Á framburði ákærða og brotaþola um þau atvik sem 3.
tl. ákærðu varðar er sá aðalmunur að aðilum ber ekki saman um hvort kynmök hafi
átt sér stað eða ekki. Stendur þar orð á móti orði.
Við mat á trúverðugleika aðila um þessi atvik verður
litið til þess sem áður hefur verið rakið um trúverðugleika framburðar aðila
málsins. Brotaþoli hefur í framburði sínum frá öndverðu verið stöðug og samkvæm
sjálfri sér. Þá bera skýrslur lögreglu í málinu með sér að brotaþoli leit ekki
á atvik þau sem 3. tl. ákærunnar varðar sem brot gegn sér, enda taldi brotaþoli
að hún hefði í þessi skipti átt kynmök við A, með fullum vilja. Sömuleiðis bera
gögn málsins og framburður vitna með sér að brotaþola var það sérstakt áfall að
uppgötva hver hefði átt í hlut, þegar rannsókn málsins leiddi í ljós að þar
hefði ákærði verið að verki en ekki nefndur A.
Framburður brotaþola um þessi atvik sérstaklega fær
einnig stoð í frásögnum vitnanna D og E sem báðar hafa greint frá því að
brotaþoli hafi lýst þessum atvikum fyrir sér á þeim tíma sem hún var í
samskiptum við ákærða á Snapchat, með þeim sama hætti og brotaþoli hefur
endranær gert, m.a. við komu í Bjarkarhlíð og við lögreglu. Þar á meðal að þau
hafi haft samræði í bæði þessi skipti. Þá eru niðurstöður rannsóknar
sálfræðingsins J á brotaþola einnig til þess fallnar að renna stoðum undir
frásögn brotaþola hvað atvik varðar.
Framburður ákærða er að mati dómsins ótrúverðugur.
Ákærði hefur sem fyrr segir viðurkennt að hafa komið fram undir nafni annars
manns í samskiptum sínum við brotaþola og í tengslum við þessi atvik. Undir því
falska heiti afréð hann að hitta brotaþola á hóteli, í kynferðislegum tilgangi
að hans sögn. Að því virtu og því sem áður hefur verið rakið um samband aðila
máls þessa er það mat dómsins að leggja beri frásögn brotaþola um atvik er 3.
tl. ákærunnar varðar til grundvallar.
Að öllu framanrituðu virtu er það mat dómsins að
ákærði hafi beitt brotaþola blekkingu og villu um aðstæður í því skyni að hafa
við hana kynmök í umrædd skipti og hafði enga ástæðu til þess að ætla að hún
væri því samþykk. Ákærði bjó svo um hnúta að brotaþoli myndi ekki komast að því
hver hann væri í raun og veru, með því mæta á undan henni á hótelið og vera í
felum þar til hann fékk tækifæri til að binda fyrir augu hennar og binda hana
jafnframt á höndum. Er ljóst að framganga ákærða miðaði öll að því að tryggja
að hann fengi sínu framgengt án þess að samþykki brotaþola lægi fyrir en ákærði
hefur viðurkennt að tilgangurinn með þessu stefnumóti hafi verið
kynferðislegur. Telur dómurinn að lögfull sönnun hafi verið færð fram um sekt ákærða samkvæmt 3. tl. ákærunnar.
VI
Ákærði hefur í máli þessu verið fundinn sekur um brot
gegn öllum ákæruliðum. Ákærði er fæddur […]. Sakaferill ákærða hefur ekki áhrif
á ákvörðun refsingar. Við ákvörðun refsingar verður litið til þess sérstaklega
hver framganga og háttsemi ákærða var þann langa tíma sem um ræðir og brot hans
áttu sér stað. Ákærði lék tveimur skjöldum í samskiptum sínum við brotaþola um
lengri tíma. Ákærði kom annars vegar fram við brotaþola með blekkingum sem raunverulegur
maður sem hann vissi að brotaþoli var hrifin af og hins vegar á sama tíma sem
hann sjálfur, trúnaðarvinur brotaþola. Í samskiptum sínum við brotaþola nýtti
ákærði sér samskiptamiðla sem örðugt er eða ómögulegt að afla sönnunargagna frá
eftir á og nýtti sér leyninúmer og faldi þannig slóð sína ef svo má að orði
komast. Ásetningur ákærða var því að mati dómsins einarður og brot hans bæði
alvarleg og óvenjuleg. Frá því að ákærði framdi brot sitt samkvæmt 3. tl. ákæru
hafa almenn hegningarlög breyst, eins og fram kemur í ákærunni, varðandi
heimfærslu til refisákvæðis. Ákærða verður því gerð refsing samkvæmt nýrri
lögunum, þó þannig að ekki verður beitt þyngri refsingu en heimilt var á þeim
tíma er brotin voru framin, sbr. 2. gr. laga nr. 19/1940. Með hliðsjón af
ofnangreindu og 77. gr. almennra hegningarlaga þykir refsing ákærða hæfilega
ákveðin fangelsi í fjögur ár.
Réttargæslumaður brotaþola krefst miskabóta úr hendi
ákærða. Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir kynferðisbrot gagnvart brotaþola og
á hún því rétt til miskabóta út hendi hans á grundvelli b-liðar 1. mgr. 26. gr.
skaðabótalaga nr. 50/1993. Við mat á bótaskyldu ákærða þykir rétt að líta til
þess að brot ákærða voru framin í trausti vinskapar aðila og áhrif þessa á
brotaþola djúpstæð og alvarleg en samkvæmt matsgerð J sálfræðings er brotaþola
nauðsynlegt að fá sértæka áfallameðferð við einkennum sínum vegna þess. Með
hliðsjón af dómaframkvæmd og því að um fleiri brot en eitt er að ræða ákvarðast
miskabætur til handa brotaþola 1.500.000 krónur, með vöxtum eins og krafist er
og greinir í dómsorði.
Samkvæmt áskilnaði 235. gr. laga um meðferð sakamála
nr. 88/2008 verður ákærði dæmdur til greiðslu sakarkostnaðar sem nemur
7.090.873 krónum, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Eggerts Páls
Ólasonar lögmanns, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Arnars Þórs
Stefánssonar lögmanns, eins og nánar greinir í dómsorði. Við ákvörðun þóknunar
lögmanna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Dóm þennan kveður upp Bergþóra Ingólfsdóttir
héraðsdómari. Fyrir uppkvaðningu dómsins var gætt 1. mgr. 184. gr. laga um meðferð sakamála.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í fjögur ár.
Ákærði greiði brotaþola, Y, 1.500.000 krónur í
miskabætur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 8. nóvember
2015 til 1. janúar 2018, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga
frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins, 7.090.873
krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Eggerts Páls
Ólasonar lögmanns, 4.848.400 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns
brotaþola, Arnars Þórs Stefánssonar lögmanns, 1.475.600 krónur.
Bergþóra Ingólfsdóttir