- Mengun
- Skaðabætur
D Ó M U R
Héraðsdóms Vestfjarða 13. júní í máli nr.
E-50/2015:
Steingrímur Jónsson
(Björn Jóhannesson hrl.)
gegn
Ísafjarðarbæ
(Andri Árnason hrl.)
og íslenska ríkinu
(Ólafur Helgi Árnason hrl.)
Mál þetta, sem dómtekið var 24.
apríl sl., er höfðað af Steingrími Jónssyni, Efri-Engidal, Ísafjarðarbæ, á hendur Gísla
Halldóri Halldórssyni, Seljalandsvegi 36, Ísafirði, sem bæjarstjóra, fyrir hönd
Ísafjarðarbæjar, Hafnarstræti 1, Ísafirði. Þá er stefnt til vara í málinu
Sigrúnu Magnúsdóttur, Efstaleiti 14, Reykjavík, sem umhverfis- og
auðlindaráðherra, og Bjarna Benediktssyni, Bakkaflöt 2, Garðabæ, sem fjármála-
og efnahagsráðherra, fyrir hönd íslenska ríkisins, Arnarhvoli, Reykjavík, með
stefnu birtri 31. ágúst 2015.
I
Stefnandi gerir þær dómkröfur að
aðalstefnda, Ísafjarðarbæ, verði gert að greiða honum skaðabætur, aðallega að fjárhæð kr.
31.945.212.- ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 1.
janúar 2012 til þingfestingardags, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr.
laga nr. 38/2001 frá þingfestingardegi til greiðsludags, en til vara aðra lægri fjárhæð að
mati dómsins ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 1.
janúar 2012 til þingfestingardags, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr.
laga nr. 38/2001 frá þingfestingardegi til greiðsludags, vegna þess búfjár- og
afurðatjóns, tjóns vegna verðrýrnunar á mannvirkjum og jörðinni Efri-Engidal,
Ísafjarðarbæ, svo og þeim vélum, tækjum og búnaði sem tilheyrði búrekstri
stefnanda í Efri-Engidal, og sem rekja má til mengunar frá sorpbrennslustöðinni
Funa í Engidal.
Þá er í aðal- og varakröfu gerð krafa um að
aðalstefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað.
Þá gerir stefnandi þær kröfur, komi
til sýknu aðalstefnda í máli þessu, með vísan til 2. mgr. 19. gr. laga nr.
91/1991, á hendur varastefnda, íslenska ríkinu, að því verði gert að greiða
stefnanda skaðabætur aðallega
að fjárhæð kr. 31.945.212.- ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr.
38/2001 frá 1. janúar 2012 til þingfestingardags, en með dráttarvöxtum samkvæmt
1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þingfestingardegi til greiðsludags, en til vara aðra lægri fjárhæð að
mati dómsins ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 1.
janúar 2012 til þingfestingardags, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr.
laga nr. 38/2001 frá þingfestingardegi til greiðsludags, vegna þess búfjár- og
afurðatjóns, tjóns vegna verðrýrnunar á mannvirkjum og jörðinni Efri-Engidal,
Ísafjarðarbæ, svo og þeim vélum, tækjum og búnaði er tilheyrði búrekstri
stefnanda í Efri-Engidal, og sem rekja má til mengunar frá sorpbrennslustöðinni
Funa í Engidal.
Þá er í aðal- og varakröfu gerð krafa um að
varastefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað.
Aðalstefndi, Ísafjarðarbær, krefst aðallega sýknu af
öllum dómkröfum stefnanda.
Til vara er krafist lækkunar
dómkrafna stefnanda. Í báðum tilvikum krefst aðalstefndi málskostnaðar úr hendi
stefnanda.
Varastefndi krefst sýknu af
öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða málskostnað
að mati dómsins.
Til vara krefst varastefndi verulegrar lækkunar
kröfufjárhæðar og að málskostnaður verði látinn niður falla.
II
Málsatvik og helstu ágreiningsefni
Aðalstefndi, Ísafjarðarbær, starfrækti á árunum 1995
til ársloka 2010 sorpbrennslustöðina Funa í Engidal, Ísafjarðarbæ. Funi hóf
starfsemi á grundvelli starfsleyfis til fjögurra ára, fyrir móttöku, flokkun,
pökkun og förgun úrgangs á athafnasvæði sorpbrennslustöðvarinnar. Rúmu ári
síðar, 1996, tók stefnandi við búskap á jörðinni Efri-Engidal, í næsta nágrenni
við sopbrennslustöðina. Á Efri-Engidal hafði um árabil verið rekinn búskapur,
einkum kúabúskapur.
Í fyrsta starfsleyfi Funa voru ákvæði um búnað,
aðbúnað og framkvæmd mælinga og eftirlits, sem skyldi vera í samræmi við ákvæði
mengunarvarnareglugerðar nr. 48/1994, sbr. og br. rgl. nr. 378/1994. Funi fékk
einnig útgefið bráðabirgðastarfsleyfi fyrir tilraunabrennslu tiltekinna
spilliefna frá 1. júní 1995 til 31. ágúst 1995. Síðar var útgefið starfsleyfi,
dags. 24. september 1999, fyrir brennslu úrgangs og urðun við Klofning, sem
gilti til 30. nóvember 2003. Í því starfsleyfi var kveðið á um losunarmörk
fyrir mengunarefni í útblæstri og vatni, þó ekki díoxín eða skyld efni. Þá var
gefið út starfsleyfi, 9. júlí 2002, til fjögurra ára. Þar voru tilgreind
losunarmörk, m.a. fyrir mengunarefni í útblæstri og vatni, og voru losunarmörk
fyrir díoxín og fúrön 0,1 mg/Nm³, auk þess sem kveðið var á um skyldu til að
mæla nefnd efni í samráði við eftirlitsaðila. Loks var gefið út nýtt
starfsleyfi fyrir Funa, 16. febrúar 2007.
Leyfið skyldi tekið til endurskoðunar á fjögurra ára fresti, en ef
mengun af völdum starfseminnar væri meiri en „búast mátti við“, fram kæmu nýjar
reglur um mengunarvarnir eða breytingar yrðu á kröfum hvað varðar „bestu
fáanlegu tækni“, skyldi rekstraraðili í samráði við Umhverfisstofnun „hrinda í
framkvæmd áætlun um að draga úr mengun“. Ef slík áætlun skilaði ekki tilætluðum
árangri gæti Umhverfisstofnun krafist „frekari aðgerða til úrbóta“ og
endurskoðunar starfsleyfis, sbr. nánar 21. gr. reglugerðar nr. 785/1999. Kveðið
var á um losunarmörk fyrir mengunarefni í útblæstri, en ekki var kveðið á um
losunarmörk að því er varðar díoxín sérstaklega. Díoxín og fúrön skyldi þó mæla
minnst einu sinni fyrir 1. janúar 2008, í samráði við Umhverfisstofnun.
Slík mæling var gerð af Norsk Energi árið 2007 og
sýndu niðurstöður hennar að magn díoxíns var langt yfir viðmiðunarmörkum
tilskipunar 2000/76/EB. Umhverfisstofnun framkvæmdi reglubundið
mengunarvarnareftirlit í Funa varðandi meðhöndlun úrgangs árin 2008 og 2009. Í
október 2009 gerði stofnunin athugasemdir við rekstur stöðvarinnar, m.a. vegna
mælinga á styrk díoxína og fúrana árið 2007, og gerði kröfur um tilteknar
úrbætur á stöðinni og áréttaði að skyldubundnum mælingum samkvæmt starfsleyfi skyldi
sinnt, og eigi síðar en 15. desember 2009. Niðurstöður mælinga í árslok 2009
sýndu verulega aukningu þungmálma og rykmagns í úrblæstri brennslustöðvarinnar.
Í upphafi árs 2010 voru nokkur samskipti milli
aðalstefnda og Umhverfisstofnunar vegna athugasemda stofnunarinnar við
reksturinn og þess að ekki var brugðist við þeim athugasemdum með þeim hætti
sem stofnunin gerði kröfu um. Var þá boðað af hálfu Umhverfisstofnunar að til
stæði að veita formlega áminningu vegna þess. Af hálfu aðalstefnda var því borið
við að framtíðarskipulag sorpmála í sveitarfélaginu sætti endurskoðun og því
ekki fjárhagslega skynsamlegt að leggja fjármagn í endurbætur á stöðinni. Þá
hefði sveitarfélagið ekki annan betri kost en brenna sorp í Funa. Óskaði
aðalstefndi því eftir heimild til að halda áfram brennslu í Funa þar til
bæjarstjórn hefði tekið afstöðu í málinu. Umhverfisstofnun veitti Funa formlega
áminningu í maí 2010. Aðalstefndi brást við því með því að ítreka ósk um
tímabundna undanþágu til áframhaldandi reksturs sorpbrennslunnar, til allt að
sex mánaða, meðan unnið væri að útboði á sorpmálum sveitarfélagsins.
Í desember 2010 lét Mjólkursamsalan
mæla ólífræn snefilefni og klórlífræn efnasambönd í hrámjólk frá búi stefnanda
og öðru búi til samanburðar. Var það gert vegna fyrirspurnar blaðamanns til
þáverandi mjólkurbússtjóra MS á Ísafirði, um hvort mjólk frá búi stefnanda gæti
verið menguð vegna nálægðar við sorpbrennslustöðina Funa. Niðurstaða þeirra
mælinga sýndi að mjólk frá búi stefnanda var menguð díoxíni og líkum efnum og
ekki talin hæf til neyslu, en ekki mjólk frá samanburðarbúinu. Hætti
Mjólkursamsalan í kjölfarið vinnslu á mjólk frá búi stefnanda. Á sama tíma, eða
í árslok 2010, bannaði Matvælastofnun stefnanda sölu allra afurða frá bænum sem
og flutning lifandi dýra frá bænum og réðst í sýnatökur á mjöli og kjöti frá
Efri-Engidal, frístundabændum á svæðinu og fimm öðrum bæjum á Vestfjörðum og í
Öræfum til samanburðar. Sýndu niðurstöður þeirra rannsókna að styrkur díoxíns í
mjólk frá Efri-Engidal var yfir viðmiðunarmörkum og sama átti við um sýni úr
nautakjöti frá bænum. Mengun fannst einnig í kindakjöti og heyi í Engidal.
Aðalstefndi hætti starfsemi
sorpbrennslustöðvarinnar Funa í lok janúar 2011. Matvælastofnun tilkynnti
stefnanda í apríl 2011 um bann til frambúðar á markaðssetningu matvælaafurða úr
bústofni stefnanda og sömuleiðis við nýtingu landsins til beitar og öflunar
fóðurs fyrir búfé sem ætlað væri til manneldis, þar til ný gögn kæmu fram um
heilnæmi landsins í dalnum. Öllum búfénaði stefnanda var slátrað í lok apríl
2011, á kostnað aðalstefnda, en stefnandi hafði þá óskað eftir afstöðu
aðalstefnda til bótaskyldu og greiðslu kostnaðar vegna þessa.
Banni við beit og fóðuröflun frá
Engidal var aflétt með ákvörðun Matvælastofnunar 11. janúar 2012. Síðar í sama mánuði óskaði stefnandi, ásamt
tveimur öðrum bændum, eftir afstöðu aðalstefnda til bótaskyldu vegna tjóns sem
þeir töldu sig hafa orðið fyrir vegna mengunar sem rekja mætti til
sorpbrennslustöðvarinnar Funa. Það erindi var ítrekað um mitt ár 2013. Aðalstefndi
hafnaði bótaskyldu vegna meints tjóns af völdum díoxíns frá
sorpbrennslustöðinni, en féllst á að taka til athugunar að greiða afmarkaðar
fjárhæðir vegna skerðingar á búrekstri þessara bænda.
Að beiðni þessara aðila unnu
Haraldur L. Haraldsson hagfræðingur og Runólfur Sigursveinsson ráðunautur
álitsgerð er laut að meintu tjóni vegna rekstarstöðvunar á búrekstri vegna
meintrar díoxínmengunar frá sorpbrennslustöðinni Funa á Ísafirði. Álit þeirra
lá fyrir í febrúar 2014 og var ætlað tjón stefnanda samkvæmt því 11.418.394
krónur. Ekki náðist samkomulag við stefnanda um greiðslu bóta á grundvelli
þessa álits, en samkomulag mun hafa verið gert við hina bændurna, sem álitið
tók til, á grundvelli þess. Stefnandi gerði ýmsar athugasemdir við álitið og forsendur
þess, og setti í framhaldinu fram bótakröfur á hendur aðalstefnda í maí 2015.
Aðalstefndi hafnaði bótaskyldu í málinu og í framhaldi þess var mál þetta
höfðað.
Undir rekstri málsins voru að beiðni
stefnanda dómkvaddir þeir Karl Otto Karlsson, vélfræðingur og
viðskiptafræðingur, og Ástráður Guðmundsson, húsasmíðameistari, búfræðingur og
fasteignamatstæknir, til að framkvæma skoðun og leggja mat á hvort
búrekstrartæki og búnaður matsbeiðanda, svo og mannvirki og land/landgæði
jarðarinnar Efri-Engidals, Ísafjarðarbæ, hefðu rýrnað að verðgildi og sem rakið
yrði til mengunar frá soprbrennslustöðinni Funa. Matgerðin var lögð fram í
dómþingi 3. febrúar 2016. Var niðurstaða þess mats að verðrýrnun á tækjum næmi
2.435.000 kr., verðrýrnun jarðarinnar næmi 14.770.420 krónum, en ekki voru
metnar skemmdir á útihúsum.
Með yfirmatsbeiðni, dags.
23. júní 2016, fór aðalstefndi Ísafjarðabær fram á að dómkvaddir yrðu þrír
matsmenn til að meta rýrnun á verðmæti tækja sem nýtt voru til búrekstar
stefnanda, rýrnun á verðmæti húsakosts, og rýrnun á verðmæti jarðar stefnanda.
Hinn 13. júlí 2017 voru dómkvaddir yfirmatsmennirnir Henry Þór Gränz, Kristján
Birkir Jónsson og Kristján Jóhannsson, til að framkvæma hið umbeðna yfirmat.
Yfirmatsgerð lá fyrir 21.
júní 2017. Samkvæmt henni nam verðrýrnun véla, tækja og búnaðar í Efri-Engidal
á fimm ára tímabili frá apríl 2011, þegar búrekstri var hætt, 2.520.063 krónum.
Töldu matsmenn ómögulegt að meta sérstaklega hvaða þátt verðrýrnunar mætti
rekja til notkunarleysis á því tímabili. Verðrýrnun jarðarinnar töldu matsmenn
nema 11 milljónum króna.
III
Helstu málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi gerir kröfu um skaðabætur aðallega úr hendi
aðalstefnda, en til vara úr hendi varastefnda, vegna búfjár- og afurðatjóns,
tjóns vegna rýrnunar á verðmætum véla, tækja og búnaðar tilheyrandi búrekstri
stefnanda og vegna rýrnunar á verðmætum jarðarinnar Efri-Engidals í
Ísafjarðarbæ. Stefnandi telur sig hafa orðið fyrir tjóni sem alfarið megi rekja
til mengunar frá sorpbrennslustöðinni Funa í Engidal.
Um bótaábyrgð
Kröfur sínar um skaðabætur kveður stefnandi byggðar á
meginreglum skaðabótaréttarins, einkum almennu skaðabótareglunni. Hvað ábyrgð
aðalstefnda, Ísafjarðarbæ, varðar vísar stefnandi til þess að aðalstefndi sé
eigandi sorpbrennslustöðvarinnar Funa í Engidal. Funi – sorpbrennsla hafi verið
skráð stofnun aðalstefnda og því á hans ábyrgð.
Sorpi og öðrum úrgangi frá Ísafjarðarbæ og
nærliggjandi sveitarfélögum auk sóttmengaðs úrgangs frá heilbrigðisstofnunum á
höfuðborgarsvæðinu hafi verið brennt í stöðinni í rúm 15 ár, frá árinu 1995 til
ársloka 2010. Sóttmengaður úrgangur frá heilbrigðisstofnunum á
höfuðborgarsvæðinu hafi verið brenndur í stöðinni frá og með árinu 2003.
Sorpbrennslustöðin Funi hafi starfað á grundvelli
opinbers starfsleyfis, sem grundvallaðist á lögum um hollustuhætti og
mengunarvarnir, lögum nr. 81/1988 og lögum nr. 7/1998, og reglugerða sem á þeim
byggðust, mengunarvarnarreglugerð, reglugerð um sorpbrennslustöðvar og
reglugerð um brennslu úrgangs. Í starfsleyfum stöðvarinnar hafi verið kveðið á
um þær mengunarvarnir sem stöðinni bar að hlýta. Stöðinni hefði t.d. verið
skylt að nota bestu fáanlegu tækni við mengunarvarnir frá stöðinni. Rekstraraðila hefði borið skylda til að láta
framkvæma reglulega mengunarmælingar í útblæstri, frárennsli og ösku frá
stöðinni og sérstök losunarmörk (viðmiðunarmörk) hafi verið sett varðandi
efnainnihald í útblæstri, frárennsli og ryki frá stöðinni.
Stefnandi kveðst telja gögn málsins bera með sér að
mengun hafi aukist jafnt og þétt frá stöðinni. Í þessu samhengi vísar stefnandi
til niðurstaðna mengunarmælinga á árunum 1997 – 2001. Sömuleiðis bréfs
Umhverfisstofnunar til stöðvarinnar 2. janúar 2003, þar sem fram kom að sum
mengunarefni frá stöðinni væru komin yfir eða farin að nálgast leyfileg
losunarmörk. Þá hafi stofnunin ítrekað gert athugasemdir vegna vaxandi mengunar
frá stöðinni á árunum 2003–2009. Umhverfisstofnun hafi m.a. gert athugasemdir
við að mengunarmælingar hefðu ekki verið framkvæmdar, og að þær
mengunarmælingar, sem þó hefðu verið framkvæmdar, sýndu að þungmálmainnhald í
ösku, leir og ryki frá stöðinni færu yfir losunarmörk. Þá hafi mengunarmælingar
einnig sýnt að mengun í útblæstri frá stöðinni hafi í sumum tilvikum farið yfir
viðmiðunarmörk.
Stefnandi kveðst og byggja á því að aðalstefndi hafi
ekki sinnt ítrekuðum kröfum Umhverfisstofnunar um úrbætur á búnaði stöðvarinnar
og þá einkum á þeim búnaði sem snéri að mengunarvörnum. Aðalstefndi hafi ekki
sinnt þessum kröfum nema að mjög takmörkuðu eða litlu leyti. Aðalstefndi hafi
ýmist borið því við að úrbætur væru kostnaðarsamar eða að ákvörðun um
endurbætur eða lagfæringar á stöðinni væru til skoðunar. Þá hafi aðalstefndi
einnig borið því við að óvissa væri um framtíð stöðvarinnar og því ekki
forsvaranlegt að ráðast í kostnaðarsamar endurbætur á búnaði stöðvarinnar.
Þá kveður stefnandi að frá því í lok
árs 2007 hafi aðalstefnda verið það ljóst að magn díoxíns og fúrana í útblæstri
frá stöðinni var tugfalt yfir þeim mörkum sem sett höfðu verið í reglugerð nr.
739/2003 um brennslu úrgangs, sem leyfileg losunarmörk fyrir þær
sorpbrennslustöðvar sem hófu starfsemi eftir gildistöku þeirrar reglugerðar.
Nefnd reglugerð nr. 739/2003 hafi verið sett með hliðsjón af tilskipun EB nr.
2000/76/EB um brennslu úrgangs, en þar komi fram leyfileg losunarmörk varðandi
díoxín. Sú reglugerð hafi gilt um starfandi sorpbrennslustöðvar, eins og Funa,
frá 28. desember 2005, sbr. ákvæði til bráðabirgða þar um í nefndri reglugerð
nr. 739/2003. Þrátt fyrir að aðalstefnda hafi verið ljóst að styrkur díoxíns og
fúrana í útblæstri frá Funa hafi verið langt yfir þeim mörkum sem sett voru í
reglugerð, hafi aðalstefndi áfram brennt sorp í stöðinni og það þrátt fyrir
kröfur af hálfu Umhverfisstofnunar um úrbætur. Þá hefði stefnda jafnframt mátt
vera það ljóst, þegar niðurstöður mengunarmælinga Norsk Energi lágu fyrir
varðandi styrk díoxíns og fúrana í útblæstri frá stöðinni árið 2007, að styrkur
þessara efna, sem hafi verið tugfalt yfir viðmiðunarmörkum, kynni að hafa
skaðleg áhrif á umhverfið svo og velferð dýra og heilsu manna. Viðmiðunarmörk
þessi, í reglugerð nr. 739/2003, hafi ekki verið sett að ástæðulausu.
Þá kveðst stefnandi vísa til þess að Umhverfisstofnun
hafi ákveðið að veita aðalstefnda áminningu árið 2010, þar sem starfsemi
stöðvarinnar uppfyllti ekki ákvæði starfsleyfis. Engu að síður hafi aðalstefndi
haldið áfram rekstri stöðvarinnar. Umhverfisstofnun hafi áformað að svipta Funa
starfsleyfinu, skömmu áður en aðalstefndi ákvað að loka stöðinni. Aðalstefndi
hafi haldið áfram starfsemi í brennslustöðinni þrátt fyrir að hún uppfyllti
ekki ákvæði starfsleyfisins hvað varðaði mengun. Niðurstöður mengunarmælinga
hafi sýnt að mengunarvörnum var verulega ábótavant og hafði verið um langan
tíma áður en starfseminni var hætt í lok árs 2010. Kveður stefnandi ljóst að aðalstefndi hafi
vanrækt skyldur sínar samkvæmt starfsleyfi. Annars vegar þær að nota bestu
fáanlegu tækni og búnað til mengunarvarna og hins vegar að haga starfsemi
stöðvarinnar með þeim hætti að mengun frá henni væri innan leyfilegra losunarmarka.
Aðalstefnda hafi verið fyllilega ljós sú hætta sem fylgdi starfsemi
sorpbrennslustöðvarinnar Funa. Mengunarvörnum í stöðinni hafi verið verulega
ábótavant. Kveður stefnandi það hafið yfir allan vafa að aðalstefndi hafi sýnt
af sér stórkostlegt gáleysi, með því að halda áfram brennslu í stöðinni,
meðvitaður um að mengunarvörnum væri verulega ábótavant. Aðalstefnda hafi mátt
vera það ljóst á árinu 2007 að magn díoxíns í útblæstri frá stöðinni væri
gríðarlegt og langt yfir þeim mörkum sem sett höfðu verið í reglugerð um
brennslu úrgangs á árinu 2003. Aðalstefnda hafi verið ljóst að starfsemi
stöðvarinnar var ekki í samræmi við starfsleyfi, en engu að síður hafi hann
haldið áfram að brenna sorp í stöðinni, sem hafi haft í för með sér viðvarandi
mengun fyrir næsta nágrenni stöðvarinnar.
Stefnandi kveður það grundvallarreglu að aðilar nýti
eignir sínar og hagi starfsemi sinni með þeim hætti að það valdi ekki öðrum
tjóni eða hætta stafi af. Starfsemi sorpbrennslustöðvarinnar Funa hafi ekki
verið með þeim hætti, magn díoxíns og fleiri þungmálma í útblæstri frá stöðinni
hafi verið langt umfram leyfileg mörk, með þeim afleiðingum að slátra hafi
þurft öllum bústofni stefnanda og valdið honum margvíslegu tjóni.
Stefnandi kveðst telja að fyrir liggi sönnun þess að
orsakatengsl séu milli mengunar frá sorpbrennslustöðinni og þess mikla magns
díoxíns sem fannst í afurðum (mjólk og kjöti) frá búi stefnanda í Efri-Engidal,
sem leiddi til þess að öllum bústofni stefnanda var fargað. Rannsóknir á mjólk
frá búinu hafi sýnt mjög há gildi díoxíns, margfalt hærri en niðurstöður
viðmiðunarsýna frá öðrum svæðum. Það sama gildi um kjötsýni úr skepnum frá Efri-Engidal og Kirkjubóli IV.
Þá hafi niðurstöður rannsókna á heyfeng frá Efri-Engidal og niðurstöður
jarðvegs- og beitarrannsókna sýnt að díoxínmengun var mun meiri í Engidal og
næsta nágrenni en á öðrum svæðum sem rannsökuð voru til viðmiðunar. Í áliti
sérfræðihóps Matvælastofnunar, sem skipaður var á árinu 2011, hafi komið fram
að ástæðu þessara háu gilda díoxíns og díoxínlíkra efna í skepnunum og afurðum
búsins mætti alfarið rekja til nálægðar býlisins við sorpbrennslustöðina Funa.
Ekkert hafi komið fram sem bendi til annars en að orsök þessara háu gilda
díoxíns í bústofni stefnanda megi alfarið og eingöngu rekja til mengunar frá
sorpbrennslustöðinni. Því hafi ekki verið mótmælt af hálfu aðalstefnda en telji
aðalstefndi annað verði aðalstefndi, í ljósi atvika, að bera sönnunarbyrði
fyrir því að tjón stefnanda sé ekki afleiðing af starfsemi
sorpbrennslustöðvarinnar Funa.
Kveðst stefnandi telja, að þessu
virtu, að aðalstefndi beri skaðabótaábyrgð á því tjóni sem stefnandi hafi orðið
fyrir og rekja megi til díoxínmengunar frá sorpbrennslustöðinni Funa. Öll
skilyrði almennu skaðabótareglunnar séu fyrir hendi. Þá beri að líta til þeirrar
grundvallarreglu að aðilar nýti eignir sínar eða hagi starfsemi sinni með þeim
hætti að hún valdi ekki öðrum tjóni og sömuleiðis til þeirrar grundvallarreglu
umhverfisréttar að bótaskylda sé lögð á þann sem veldur mengun.
Um
bótaábyrgð á hendur varastefnda
Stefnandi gerir kröfur á hendur varastefnda, íslenska
ríkinu, með vísan til 2. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991.
Hvað bótaábyrgð varastefnda varðar kveðst stefnandi
byggja á því að sorpbrennslustöðin Funi hafi starfað á grundvelli opinbers
starfsleyfis, fyrst frá umhverfisráðuneytinu og síðan frá Umhverfisstofnun.
Þessi leyfi hafi ekki kveðið á um sérstök viðmiðunarmörk (losunarmörk) fyrir
díonxín eða díoxínskyld PCB-efni. Þrátt fyrir gildistöku reglugerðar nr.
739/2007 hafi stjórnvöld ekki séð ástæðu til að setja sérstök ákvæði hvað þetta
varðar í starfsleyfi stöðvarinnar sem gefið var út 19. febrúar 2007.
Umhverfisstofnun hafi, í síðasta lagi í upphafi árs
2008, verið kunnugt um niðurstöður mengunarmælinga Norsk Engeri síðla árs 2007,
sem sýndu að styrkur díoxíns og skyldra efna í útblæstri frá stöðinni var
tugfalt yfir þeim mörkum sem sett höfðu verið af EB varðandi leyfilegt magn
díoxíns í útblæstri frá sorpbrennslustöðvum. Þessar niðurstöður hafi ekki leitt
til sérstakra viðbragða af hálfu Umhverfisstofnunar. Umhverfisstofnun og aðrir
eftirlitsaðilar hafi brugðist mjög seint við mælingum sem sýndu að
sorpbrennslustöðin uppfyllti ekki ákvæði starfsleyfis varðandi mengunarvarnir
og leyfileg losunarmörk.
Stefnandi kveður opinbera aðila, svo sem Umhverfisstofnun,
hafa sýnt af sér mikið aðgerðarleysi í þessum efnum. Þeim hafi í raun borið
skylda til að stöðva starfsemi stöðvarinnar þegar í stað eftir að niðurstöður
Norsk Energi lágu fyrir. Þá hafi ítrekað legið fyrir að mengun frá stöðinni
varðandi önnur efni, s.s. þungmálma, hafi ítrekað verið yfir viðmiðunarmörkum.
Umhverfisstofnun hefði því mátt vera ljóst að mengun frá stöðinni gæti haft
skaðleg áhrif á umhverfið, búfénað og heilsu manna á svæðinu.
Um fjárhæð
tjóns stefnanda /sundurliðun bótakröfu:
Stefnandi krefst aðallega skaðabóta úr hendi stefndu
að fjárhæð kr. 31.945.212.- og sundurliðast sú krafa þannig:
a)
Búfjártjón vegna förgunar nautgripa kr. 5.400.000.-
b)
Afurðatjón vegna tapaðrar mjólkur- og kjötframleiðslu kr. 11.814.826.-
c)
Búfjártjón vegna förgunar sauðfjár kr. 1.578.411.-
d)
Afurðatjón vegna tapaðrar sauðfjárframleiðslu kr. 2.176.975.-
e)
Flutningur lífgripa kr
. 250.000.-
f)
Kostnaður vegna förgunar á heybirgðum kr. 225.000.-
g)
Kostnaður vegna hreinsunar á útihúsum kr. 500.000.-
h)
Verðrýrnun á vélum, tækjum og búnaði tilheyrandi
búrekstri stefnanda kr. 3.000.000.-
i)
Verðrýrnun á mannvirkjum og jörðinni Efri-Engidal kr.
7.000.000.-
Búfjár- og
afurðatjón stefnanda (liðir a. – f):
Stefnandi kveðst styðja skaðabótakröfur sínar, sem
snúa að búfjár- og afurðatjóni hans, að hluta til við forsendur álitsgerðar
Haraldar L. Haraldssonar og Runólfs Sigursveinssonar frá 4. febrúar 2014.
Kveður stefnandi tjón sitt þó vanáætlað hvað varðar tímalengd reiknaðs afurðatjóns
í mjólkurframleiðslu og að rétt sé að miða við greiðslumark jarðarinnar í mjólk
á árinu 2011. Kveður stefnandi kröfurgerð sína taka mið af þessu.
Nánari
sundurliðun forsendna einstakra kröfuliða bótakröfu stefnanda er eftirfarandi:
a)
Búfjártjón vegna förgunar
nautgripa
Stefnandi kveður að í apríl 2011 hafi verið slátrað 13
kúm og 6 kvígum í eigu hans. Stefnandi hafi ekkert fengið greitt fyrir þessa
gripi. Stefnandi kveðst jafnramt eiga rétt til bóta vegna mikilla affalla sem
hafi orðið á bústofni hans fyrir niðurskurðinn í apríl 2011. Nærtækast sé að
ætla að ástæður þess megi að hluta eða öllu leyti rekja til mengunar frá
sorpbrennslustöðinni Funa. Telur stefnandi ekki óeðlilegt að miða útreikninga
vegna búfjártjónsins að lágmarki við 14 fullorðnar kýr og 6 kvígur.
Kveður stefnandi að bótakrafa hans miðist við
afurðaverð í algengasta gæðaflokki kýrkjöts (KIA, 525 kr./kg) og algengasta
gæðaflokki ungnautakjöts (UN1 M 550 kr./kg). Þá sé miðað við meðalfallþunga
gripa (193 kg per kú og 154 kg per kvígu). Til viðbótar við afurðaverð sé tekið
tillit til þess mismunar sem sé á kaupverði lífgripa til framleiðslu annars
vegar á móti reiknuðu innleggsverði, þar sem kaupverð lífgripa sé umtalsvert
hærra en innleggsverð hins vegar. Algengt gangverð á mjólkurkúm samkvæmt
upplýsingum frá Bændasamtökum Íslands kveður stefnandi að nemi um kr. 300 –
350.000.- á hvern grip og kr. 200.000.- fyrir hverja kvígu. Að þessu virtu nemi
bótakrafa stefnanda vegna þess tjóns sem hann hafi orðið fyrir vegna förgunar
nautgripanna samtals kr. 5.400.000.- sem sundurliðist þannig:
Innleggsverð
(14 kýr *525 kr. *193 kg + 6 kvígur * 550 kr. * 154 kg).kr. 1.926.750.-
Mismunur
innleggsverðs og kaupverðs lífgripa
(14
* 300.000.- + 6 * 200.000.- - 1.926.750.-) kr. 3.473.250.-
kr.
5.400.000.-
b)
Afurðatjón vegna tapaðrar
mjólkur- og kjötframleiðslu
Stefnandi kveður fyrirliggjandi gögn gefa til kynna
gríðarlegan samdrátt í mjólkurframleiðslu hjá stefnanda, árin fyrir
niðurskurðinn á árinu 2011. Nyt kúnna hafi dregist mikið saman og mikil vanhöld
verið á bústofninum. Telur stefnandi einsýnt að ástæður þess megi að einhverju
eða öllu leyti rekja til mengunarinnar frá sorpbrennslustöðinni Funa. Hluti
tjóns hans hafi komið fram í minnkandi mjólkurframleiðslu búsins á árunum fyrir
niðurskurðinn. Stefnandi kveðst hafa þurft að selja frá sér hluta af
greiðslumarki jarðarinnar og telur að taka beri tillit til þessa við mat á
afurðatjóni hans vegna tapaðrar mjólkur- og kjötframleiðslu. Eðlilegt sé að
miða við innlagða mjólkurlítra árið 2007 en ekki í apríl 2011.
Af þessum sökum miðist bótakrafa, hvað þetta varðar,
við fullt afurðatjón vegna tapaðs mjólkurinnleggs í þrjá mánuði eftir að hætt
var að taka mjólk frá búinu, þ.e. frá 14. apríl 2011 til 13. júlí 2011, enda
hafi allur meginkostnaður við framleiðslu þess tímabils verið kominn fram þegar
bústofninum var fargað. Kveðst stefnandi miða við mjólkurinnlegg búsins í
mánuðunum apríl – júní á árinu 2007 (17.422 lítrar). Tjón vegna tapaðs hagnaðar
af afurðainnleggi til lengri tíma kveður stefnandi miðast við 42 mánuði (3½
ár), þ.e. frá júlí 2011 til ársloka 2014. Kúabúskapur sé enn ekki hafinn á
jörðinni og telur stefnandi að fyrsta mögulega tímamarkið til að hefja slíkan
búskap aftur hafi verið í árslok 2014, þegar liðinn hafi verið sá tími sem
eðlilegur geti talist til að koma kúabúskap stefnanda til fyrra horfs að nýju.
Þá kveður stefnandi aðalstefnda aldrei hafa viðurkennt
bótaskyldu sína og ekki boðið stefnanda bætur fyrr en sumarið 2014. Stefnandi
hafi því ekki haft fjárhagslegt bolmagn til að koma sér upp nýjum bústofni en
forsenda sé sú að hann fái bætur fyrir tjón sitt.
Bótakröfu sína kveður stefnandi miðast við
meðalafurðaverð á mjólk í apríl 2011 (82,92 kr./ltr). Þá kveður stefnandi sig
hafa notið aukagreiðslu vegna góðrar flokkunar á mjólk, sem var 5 krónur á
lítra og gerir kröfur um þá greiðslu. Þá sé gerð krafa um greiðslu bóta sem
nemi 60% kostnaðar/framlegðarstiga af búrekstrinum (82,92 kr./ltr + 5 kr./ltr x
60% = 38,16 kr./ltr). Til viðbótar bótagreiðslum vegna tapaðs hagnaðar af
afurðainnleggi mjólkur sé við útreikning kröfunnar tekið tillit til þess
kjötmagns sem fellur til á hverju ári vegna endurnýjunar á kúastofninum. Hvað
það varðar miði stefnandi við að slátrað sé 4 kúm á ári, eða alls 14 kúm í 3½
ár, og meðalfallþunga og afurðaverð í algengasta gæðaflokki kýrkjöts (KIA, 525 kr./kg). Þá kveður stefnandi bótakröfu sína einnig
taka mið af svokölluðum gripagreiðslum til bænda samkvæmt búvörusamningi, 5,21
kr. per lítra.
Samkvæmt framansögðu kveður stefnandi tjón
sitt vegna afurðatjóns vegna tapaðrar mjólkur- og kjötframleiðslu nema kr.
11.449.812.- sem sundurliðist þannig:
1.
Afurðatjón
vegna tapaðs mjólkurinnleggs á tímbilinu apríl – júlí 2011
(17.422 ltr. * 82,92 kr./ltr) kr. 1.444.632.-
2.
Afurðatjón
vegna tapaðs mólkurinnleggs eftir júlí 2011.
(62.710 ltr. * 38,16 kr. * 3,5 ár) kr. 8.375.547.-
3. Gripagreiðslur (62.710 ltr. * 5,21 * 3,5 ár) kr. 1.143.517.-
4. Tjón vegna tapaðrar kjötframleiðslu
(
14 (4 x 3,5) kýr * 193 kg * 525 kr/kg * 0,6) kr. 851.130.-
kr.
11.814.826.-
c) Búfjártjón vegna förgunar sauðfjár
Stefnandi kveður að í apríl 2011 hafi verið slátrað 80
kindum í hans eigu. Kröfu sína um bætur vegna þessa kveðst stefnandi byggja á
álitsgerð Haraldar L. Haraldssonar og Runólfs Sigursveinssonar, dags. 4.
febrúar 2013, að teknu tilliti til leiðréttingar sem stefnandi kveður Runólf
Sigursveinsson hafa fallist á að ætti rétt á sér, vegna greiðslu
gæðastýringarálags sem stefnandi hefði notið endranær.
Fjárhæð kröfunnar kveður stefnandi taka mið af
afurðaverði í gæðaflokknum DR2, kr. 571 kr./kg og 16 kg meðalvigt. Þá sé gerð
krafa um að tekið verði tillit til mismunar á innleggsverði annars vegar og
verði á líflömbum hins vegar, þar sem innleggsverð sé talsvert lægra en verð
líflamba. Reiknaður mismunur þess nemi 156,74 kr./kg. Þá sé við útreikning kröfunnar gert ráð fyrir
60% álagi vegna minni afurðasemi vegna fjártöku á fyrsta ári. Bótakröfu sína vegna þessa liðar sundurliðar
stefnandi þannig:
Innleggsverð (80 kindur * 16 kg * 571 kr.) kr. 730.880.-
Mismunur innleggsverðs og kaupverðs lífgripa
(80 kindur * 16 kg * 156,74 kr.) kr. 200.627.-
60% álag á viðkomandi verðtölu vegna minni afurðasemi
fyrsta árið. kr. 558.904.-
Viðbótargreiðslur vegna
ullar. (80 x 1.100.-) kr. 88.000.-
kr. 1.578.411.-
d) Afurðatjón vegna tapaðrar
sauðfjárframleiðslu
Kröfu um greiðslu vegna afurðatjóns í
sauðfjárframleiðslu kveðst stefnandi byggja á álitsgerð Haraldar og Runólfs, að
öðru leyti en því að gerð sé krafa um bætur vegna ásetningslamba (12 lömb) til
viðbótar við meðaltalsfjölda lamba sem lögð voru inn til slátrunar á árunum
2008 – 2010 (73 lömb). Miðist krafa stefnanda við tapaðan hagnað af
sauðfjárinnleggi í 2½ ár, kr. 571.- í afurðaverð og 60% framlegðarstig vegna
búrekstrarins. Þá sé jafnframt gert ráð fyrir sérstakri greiðslu vegna ullar á
sama tímabili. Bótakrafa stefnanda vegna þessa liðar sundurliðist þannig:
Tapað afurðainnlegg að hausti 2011
(85 lömb * 16,49 kg * 571.- kr.) kr. 800.342.-
Tjón vegna tapaðs sauðfjárinnleggs
(1.401 kg (85 * 16,49 kg) * 353 kr.(571.- kr. – 228 kr.) * 2,5 ár. kr. 1.236.383.-
Viðbótargreiðsla vegna tapaðs ullarinnleggs
(85 * 660.- kr. * 2,5 ár.) kr. 140.250.-
kr. 2.176.975.-
e) Flutningur lífgripa
Stefnandi kveður nauðsynlegt, áður en búskapur hefst
að nýju á jörðinni, að flytja lífgripi til búsins í stað þeirra sem var fargað
á sínum tíma. Umtalsverður kostnaður muni hljótast af því. Kveður stefnandi
kröfugerð sína í þessu efni byggjast á áliti Haraldar og Runólfs, og nema
250.000 krónum.
f) Kostnaður vegna förgunar á heybirgðum
Stefnandi kveður kröfur sínar um bætur vegna tapaðs og
ónýts heyfengs, að fjárhæð 225.000 krónur, byggjast á því að Matvælastofnun
hafi bannað nýtingu þessa fóðurs, 80 rúllur af heyi hafi reynst mengaðar og
ekki nýst stefnanda. Kveður stefnandi tjón sitt vegna þessa nema 225.000
krónum.
g) Kostnaður vegna hreinsunar á útihúsum
Stefnandi kveður kröfu sína um bætur vegna hreinsunar
á útihúsum byggjast á niðurstöðu sérfræðihóps Matvælastofnunar um nauðsyn þess
að hreinsa öll gripahús, hlöður og fóðurgeymslur í Efri-Engidal. Þá hefði
borist mengun inn í fóðurgeymslur og önnur mannvirki með menguðu heyi. Í ljósi
þessa hafi stefnandi strax vorið og sumarið 2011 hreinsað öll gripahús og
fóðurgeymslur á jörðinni með sótthreinsandi efnum eftir leiðbeiningum frá
Matvælastofnun.
Stefnandi kveðst hafa unnið um það bil 100 stundir við
þessa hreinsun. Sú vinna hafi beinlínis verið tilkomin vegna mengunar frá
sorpbrennslustöðinni og því beri honum bætur sem nemi kr. 500.000.- vegna vinnu
og efniskaupa.
h) Verðrýrnun á vélum, tækjum og búnaði tilheyrandi búrekstri
stefnanda
Stefnandi kveður sig hafa verið í óvissu um það hvenær
hann gæti hafið búskap að nýju. Véla- og tækjabúnaður hafi farið mjög illa á
því að vera ekki í notkun, sérstaklega búnaður í fjósi. Viðbúið sé að búnaður
þessi sé ónýtur af notkunarleysi. Kveðst stefnandi hafa orðið fyrir tjóni vegna
þessa sem nemi varlega áætlað 3.000.000 króna.
i ) Verðrýrnun á mannvirkjum og jörðinni
Efri-Engidal
Stefnandi kveður einsýnt að umtalsverð verðrýrnun hafi
orðið á mannvirkjum og verðgildi jarðarinnar í Efri-Engidal, sem rekja megi til
mengunar frá sorpbrennslustöðinni. Sorpbrennslustöðin Funi sé einungis í nokkur
hundruð metra fjarlægð frá jörð stefnanda.
Rannsóknir hafi sýnt að afurðir og jarðvegur á jörðinni hafi verið
mengað díoxíni, ljóst sé að jarðvegurinn sé talsvert mengaður, díoxín fari mjög
seint úr jarðvegi. Þær staðreyndir og nálægð jarðarinnar við
sorpbrennslustöðina Funa hafi haft í för með sér rýrnun á verðgildi
jarðarinnar. Þá ætlar stefnandi og að verðgildi útihúsa á jörðinni hafi rýrnað
verulega m.a. vegna notkunarleysis. Kveður stefnandi tjón sitt vegna þessa nema
7.000.000 króna.
Um lagarök kveðst stefnandi vísa til meginreglna
skaðabótaréttar, einkum almennu skaðabótareglunnar. Þá er og vísað til 72. gr.
stjórnarsskrárinnar. Enn fremur ákvæða laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs,
laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og eldri laga sama efnis nr.
81/1988 og reglugerða sem settar hafa verið á grundvelli þessara laga, reglugerðar um brennslu úrgangs nr. 739/2003
og reglugerðar nr. 808/1999 um sorpbrennslustöðvar, nr. 807/1999 um brennslu
spilliefna, nr. 786/1999 um mengunarvarnareftirlit svo og þágildandi
mengunarvarnarreglugerðar nr. 48/1994 með síðari breytingum. Þá er vísað til
tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2000/76/EB frá 4. desember 2000 um brennslu
úrgangs. Þá kveðst stefnandi einnig vísa til þeirrar meginreglu umhverfisréttar
að bótaskylda sé lögð á þann sem mengun veldur. Kröfur um vexti styður
stefnandi við ákvæði vaxtalaga nr. 38/2001, einkum við ákvæði 6. og 8. gr.
laganna. Krafa stefnanda um málskostnað byggist á XXI. kafla laga nr. 91/1991
um meðferð einkamála, einkum 129. og 130. gr. laganna. Um varnarþing vísar
stefnandi til 3. mgr. 33. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 1. mgr. 42. gr. sömu laga.
Um heimild til að beina kröfum sínum aðallega að einum, en öðrum til vara er
vísað til 1. og 2. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991.
IV
Helstu málsástæður og lagarök aðalstefnda,
Ísafjarðarbæjar
Aðalstefndi krefst sýknu af öllum dómkröfum stefnanda,
en til vara lækkunar dómkrafna stefnanda. Þá krefst aðalstefndi málskostnaðar
úr hendi stefnanda en til vara að málskostnaður falli niður.
Aðalstefndi kveðst byggja sýknukröfu sína aðallega á
því að hann hafi ekki sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi sem valdið hafi
stefnanda fjártjóni. Aðalstefndi hafi leitast við að fara að lögbundnum kröfum
og með þeim hætti sem til mátti ætlast af honum með hliðsjón af þeim lögbundnu
skyldum sem á honum hvíldu. Aðalstefndi hafi ekki verið bundinn af
losunarmörkum í reglugerð nr. 793/2003 hvað varðar díoxín og skyld efni, né
samkvæmt starfsleyfi. Til vara að þessu leyti, verði talið að aðalstefndi hafi
sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi, kveðst aðastefndi byggja á því að
hvorki séu orsakatengsl milli háttseminnar og þess meinta tjóns sem krafist er
bóta fyrir, né teljist meint tjón sennileg afleiðing af háttsemi aðalstefnda.
Verði fallist á bótaskyldu aðalstefnda kveður aðalstefndi ekki liggja fyrir
fullnægjandi sönnun fyrir meintu fjártjóni stefnanda. Þá kveðst aðalstefndi
einnig byggja á því til vara að þessu leyti að lækka beri kröfur stefnanda
m.t.t. þeirra tekna sem stefnandi hafi aflað á því tímabili sem hann krefst
bóta fyrir og/eða með réttu mátti ætlast til að stefnandi aflaði sér.
Aðalstefndi kveðst
jafnframt hafna bótaskyldu á grundvelli annarra reglna en almennu
skaðabótareglunnar og mótmælir staðhæfingum um tilvist slíkra hlutlægra reglna
að íslenskum rétti. „Grundvallarregla“ um að aðilar nýti eignir sínar eða hagi
starfsemi sinni með þeim hætti að hún valdi ekki öðrum tjóni sé órökstudd af
hálfu stefnanda, í íslenskum rétti sé ekki að finna almenna ólögfesta reglu sem
feli í sér að eigandi beri almennt ábyrgð, án sakar, á tjóni sem eignir hans
eða starfsemi kunna að valda.
Aðalstefndi kveðst og
mótmæla því að á þeim tíma, sem hér um ræðir, hafi verið í gildi sérstök regla
á sviði íslensks umhverfisréttar um bótaskyldu þess sem veldur mengun, án
tillits til sakar. Slík hlutlæg ábyrgð verði ekki lögð á hann án þess að
ótvíræður lagagrundvöllur sé fyrir hendi. Bótagrundvelli sem byggist á slíkri
reglu sé því hafnað.
Aðalstefndi kveðst
byggja á því að losun díoxíns af hálfu Funa geti ekki talist saknæm háttsemi í
skilningi skaðabótaréttar. Aðalstefndi hafi ekki brotið gegn ákvæðum
starfsleyfis frá 2007, að því er varðar díoxínmengun. Starfsleyfi stefnda frá árinu
2007 hafi ekki kveðið á um losunarmörk fyrir díoxín og skyld efni. Íslensk
stjórnvöld hafi enda fengið undanþágu frá ESB-tilskipun (2000/76/EB) fyrir
eldri starfandi sorpbrennslur hvað þetta varðar. Tilvitnuð reglugerð hafi því
ekki gilt fyrir allar starfandi sorpbrennslustöðvar. Krafa samkvæmt starfsleyfi
um not á „bestu fáanlegu tækni (BAT)“ við mengunarvarnir hafi ekki falið í sér
að aðastefnda hefði borið að hafa þann hreinsibúnað sem fyrir lá að hann hefði
ekki. Þá hafi aðalstefndi látið framkvæma mælingu á díoxíni í október 2007, eða
fyrir 1. janúar 2008, eins og kveðið var á um í starfsleyfi hans.
Aðalstefndi kveðst
hafna því að hafa sýnt af sér stórkostlegt gáleysi, með því að halda áfram
starfsemi þrátt fyrir tilmæli Umhverfisstofnunar um úrbætur, áminningu og
fyrirhugaða sviptingu starfsleyfis. Athugasemdir Umhverfisstofnunar, sem hafi
verið grundvöllur áminningar, hafi í engu lotið að losun díoxíns og skyldra
efna og Umhverfisstofnun hafi ekki gert nokkrar kröfur hvað þetta varðar
gagnvart aðalstefnda. Aðalstefndi geti því ekki talist hafa gerst brotlegur á
neinn hátt við starfsleyfi eða aðrar reglur hvað þetta varðaði.
Aðalstefndi kveðst
þegar er honum bárust athugasemdir Umhverfisstofnunar hafa hafist handa við að
finna aðrar lausnir varðandi losun sorps innan sveitarfélagsins. Niðurstaðan
hafi orðið sú að hætta rekstri Funa í lok árs 2010.
Hvað varðar mögulega
ábyrgð varastefnda, íslenska ríkisins, í málinu áréttar aðalstefndi að
varastefndi hafi fengið undanþágu (aðlögun) frá ákvæðum tilskipunar ESB.
Starfsemi aðalstefnda hafi ekki farið gegn lögum og því lögmæt í skilningi
skaðabótaréttar. Kveður aðalstefndi að
íslenska ríkið kunni eftir atvikum að bera ábyrgð á meintu tjóni m.t.t.
umræddrar undanþágu, en slíkt geti ekki átt við um aðalstefnda.
Þá kveðst aðalstefndi
byggja á því að Matvælastofnun beri ein ábyrgð á ákvörðun stofnunarinnar um
bann við markaðssetningu matvælaafurða stefnanda. Bótaskylda vegna þeirrar
ákvörðunar verði ekki lögð á aðalstefnda. Ljóst sé að Matvælastofnun hafi ekki
rannsakað málið með fullnægjandi hætti, sérstaklega í ljósi þess hversu
íþyngjandi umrædd ákvörðun var fyrir stefnanda. Matvælastofnun hafi gengið of
langt með banni sínu, en ljóst sé að það bann hafi verið forsenda og undanfari
þess að nauðsynlegt var talið, miðað við aðstæður, að skera niður allan bústofn
stefnanda.
Aðalstefndi kveður
stefnanda bera sönnunarbyrði fyrir því gagnvart aðalstefnda að niðurstöður
mælinga teljist hafa verið fullnægjandi grundvöllur þess að nauðsynlegt hafi
verið að leggja á framleiðslubann, og þá svo jafn umfangsmikið og raun ber
vitni. Kveðst aðalstefndi byggja á því að í reynd sé ósannað að meint mengun af
völdum nefndra efna hafi verið svo mikil að nauðsynlegt hafi verið að mæla
fyrir um stöðvun sölu afurða o.s.frv., m.a. með tilliti til þess að þá hafði
Funa verið lokað. Séu skilyrði orsakatengsla því ekki til staðar.
Þá kveður aðalstefndi
ekki liggja fyrir gögn sem styðji staðhæfingu Matvælastofnunar um að
díoxínmengun í sauðfé hafi farið yfir leyfileg mörk, sem var grundvöllur
ákvörðunar stofnunarinnar um að banna til frambúðar markaðssetningu
matvælaafurða frá búi stefnanda. Misræmis gæti milli niðurstaðna díoxínmælinga
í Engidal, annars vegar frá Umhverfisstofnun og hins vegar frá Matvælastofnun.
Því sé með öllu óljóst hvort og þá hversu mikil díoxínmengun hafi raunverulega
verið á svæðinu, og eftir atvikum hvaða þýðingu slík meint mengun hafi haft á
vinnslu afurða frá búi stefnanda, en slíkt teljist í öllu falli ósannað. Í
þessu sambandi áréttar aðalstefndi þó að hann geri ekki athugasemd við að
slátrun hafi verið forsvaranleg ráðstöfun, enda hafi bann Matvælastofnunar þá
legið fyrir.
Til vara krefst
aðalstefndi þess að fjárkröfur stefnanda verði lækkaðar, og vísar í því efni
til sömu málsástæðna og um sýknu. Fjártjón stefnanda sé ósannað. Stefnandi hafi
að nokkru leyti byggt kröfur sínar á álitsgerð Haraldar L. Haraldssonar og
Runólfs Sigursveinssonar, sem aðilar komu sér saman um að afla, en ekki að öllu
leyti. Kveðst aðalstefndi mótmæla öllum kröfum stefnanda umfram álit
álitsgjafanna sem órökstuddum og ósönnuðum. Stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir
fjártjóni sínu hvað þetta varðar, en hann hafi ekki stutt kröfur sínar matsgerð
eða öðrum fullnægjandi sönnunargögnum.
Þá kveður aðalstefndi
stefnanda hafa aukið við kröfur umfram það sem álitsgerðin gerði ráð fyrir
vegna búfjár- og afurðatjóns, þannig að krafist sé 950.000 kr. umfram það sem
lagt var til vegna búfjártjóns vegna förgunar nautgripa, 787.906 kr. vegna
afurðatjóns vegna tapaðs mjólkurinnleggs apríl-júlí 2011, 5.618.329 kr. vegna
afurðatjóns vegna tapaðs mjólkurinnleggs frá júlí 2011, 516.767 kr. vegna
gripagreiðslna, 243.180 kr. vegna tapaðrar kjötframleiðslu, 120.376 kr. vegna
búfjártjóns vegna förgunar sauðfjár, 112.989 kr. vegna tapaðs afurðainnleggs
haustið 2011, 174.800 kr. vegna tapaðs sauðfjárinnleggs og 19.800 kr. vegna
tapaðs ullarinnleggs. Samtals nemi þetta 8.543.403 kr. vegna kröfuliða a-e í
stefnu. Nánar um málsástæður hvað varðar einstaka kröfuliði stefnanda kveðst
aðalstefndi byggja á eftirfarandi málsástæðum:
a) Búfjártjón vegna
förgunar nautgripa
Aðalstefndi kveður
engar forsendur til þess að miða við fleiri gripi en þá sem raunverulega var
slátrað, þ.e. 13 kýr (þar af 2 ígildi kúa) og 6 kvígur. Telur aðalstefndi að
bætur skuli eingöngu miða við að koma bústofninum í sama horf og hann var fyrir
niðurskurð. Hvað varði meint afföll í bústofni stefnanda fyrir niðurskurðinn
kveður aðalstefndi það ósannað að kúm hafi áður fækkað af ástæðum sem megi „að
hluta til eða að öllu leyti rekja til mengunar.“ Aðilar séu sammála um
forsendur afurðaverðs og um að tekið skuli tillit til mismunar á innleggsverði
og kaupverði lífgripa. Krafa stefnanda miðist hins vegar við að kaupverð
lífgripa sé kr. 300.000 á hvern grip og því kveðst aðalstefndi mótmæla sem órökstuddu
og ósönnuðu. Hæfilegt kaupverð lífgripa sé kr. 250.000 á hvern grip eins og
fyrrnefnt álit gerði ráð fyrir.
b) Afurðatjón vegna
tapaðrar mjólkur- og kjötframleiðslu
Afurðatjón
vegna tapaðs mjólkurinnleggs frá apríl til júlí 2011
Aðalstefndi kveðst mótmæla kröfum stefnanda umfram það sem nefnd
álitsgerð gerði ráð fyrir. Engin rök standi til þess að miða eigi útreikning á
afurðatjóni við innlagða mjólkurlítra á árinu 2007. Stefnandi hafi ekki lagt
fram nein gögn um meintan samdrátt mjólkurframleiðslu síðustu árin fyrir
niðurskurðinn árið 2011. Þá liggi ekkert fyrir um að mjólkurframleiðsla hafi
minnkað á þessu tímabili af ástæðum sem stefnandi byggi á, og/eða aðalstefnda
varðar. Stefnandi bendi raunar sjálfur á að engar skýringar hafi fengist á meintri
minnkandi mjólkurframleiðslu. Kveðst aðalstefndi hafna fullyrðingum stefnanda í
þessum efnum alfarið sem órökstuddum og ósönnuðum. Miða beri við raunverulega
framleiðslu og skráð greiðslumark jarðarinnar eins og það var við niðurskurðinn
í apríl 2011, eða 48.119 l, sbr. fyrirliggjandi álitsgerð. Þá bendir
aðalstefndi á að stefnandi hafi jafnframt verið búinn að selja frá sér
greiðslumark og væntanlega á markaðsvirði á þessum tíma og því ekki orðið fyrir
tjóni af þessum sökum.
Afurðatjón vegna tapaðs mjólkurinnleggs frá
júlí 2011
Aðalstefndi kveðst
byggja varnir sínar hvað varðar kröfur stefnanda um bætur vegna þessa liðar á
því að banni við beit og fóðuröflun í Engidal hafi verið aflétt með bréfi
Matvælastofnunar til stefnanda, dags. 11. janúar 2012. Bannið hafi því staðið í
rétt um 13 mánuði. Með hliðsjón af því, og þeim forsendum sem álitsgjafar lögðu
til grundvallar, telur aðalstefndi bótatímabil í tvö og hálft ár í reynd umfram
rauntíma og því ekki bótaskylt. Þá sé það aðalstefnda óviðkomandi hvenær
stefnandi taldi sig geta hafið kúabúskap að nýju, en fjárhagslegar aðstæður eru
hvort tveggja ósannaðar og aðalstefnda óviðkomandi.
Hvað tölulegar
forsendur þessa kröfuliðar varðar kveðst aðalstefndi telja eðlilegt, að öðru
ósönnuðu af hálfu stefnanda, að miða við meðalverð á lítra. Það sé í samræmi
við niðurstöðu álitsgerðarinnar hvað þetta varðar. Munur á milli útreiknings
aðalstefnda og stefnanda í þessum lið nemi samtals kr. 5.618.329 (kr. 8.375.548
– kr. 2.757.219). Fjártjón stefnanda samkvæmt þessum lið geti aldrei numið
hærri fjárhæð en kr. 2.757.219.
Gripagreiðslur
Aðalstefndi kveðst
hafna útreikningi stefnanda á fjártjóni vegna gripagreiðslna og telur rétt að
miða við raunverulega framleiðslu og skráð greiðslumark jarðarinnar, eins og
það var við niðurskurðinn í apríl 2011, eða 48.119 l, en ekki við 62.710 l,
eins og stefnandi hafi kosið að gera. Munur á útreikningi aðila hvað þennan lið
varðar sé kr. 516.767 (kr. 1.143.517 – kr. 626.750). Telur stefndi að fjártjón
stefnanda skv. þessum lið geti aldrei numið hærri fjárhæð en kr. 626.750.
Tjón vegna tapaðrar kjötframleiðslu
Aðalstefndi kveðst
telja rétt að miða tjónstímabilið að hámarki við tvö og hálft ár, sem sé
jafnvel umfram rauntjón. Þannig sé miðað við tíu kýr á því tímabili en ekki
fjórtán eins og stefnandi miði við. Munurinn á kröfu stefnanda og mati stefnda
í þessum lið sé kr. 243.180 (kr. 851.130 - kr. 607.950), og telur aðalstefndi
að fjártjón stefnanda skv. þessum lið geti aldrei numið hærri fjárhæð en kr.
607.950.
Aðalstefndi kveður
allar bótakröfur stefnanda skv. þessum liðum, umfram niðurstöðu fyrrgreindarar
álitsgerðar, tilefnislausar og ósannaðar.
c-d) Búfjártjón vegna förgunar sauðfjár
Afurðatjón vegna tapaðrar sauðfjárframleiðslu
Aðalstefndi kveðst
ekki mótmæla útreikningi stefnanda á töpuðu innleggsverði, kaupverði lífgripa
og viðbótarverði vegna ullar. Engin rök standi þó til þess að reikna 60% álag
vegna minni afurðasemi umfram það sem gert er í álitsgerð Haraldar og Runólfs,
sem aðilar öfluðu í sameiningu. Stefnandi hafi ekki fært nein rök fyrir því.
Kveðst aðalstefndi því hafna kröfu stefnanda umfram kr. 1.458.035 hvað þetta
varðar. Þá kveðst aðalstefndi hafna því sem röngu að álitsgjafinn Runólfur hafi
fallist á að réttara væri að miða við að fjöldi ásetningslamba væri 85. Engin
sönnun liggi fyrir um þennan fjölda ásetningslamba og því ekki forsendur til
annars en að miða við 73 ásetningslömb, líkt og gert er í álitsgerð.
Bætur vegna tapaðs sauðfjárinnleggs
Aðalstefndi kveðst
mótmæla kröfum stefnanda í þessu efni með sömu rökum og fyrr hvað varðar lengd
bótatímabils, en bendir auk þess á að svo virðist sem stefnandi hafi aftur
hafið fjárbúskap haustið 2013. Því eigi bótatímabilið í reynd að taka mið af
því.
Viðbótargreiðsla vegna tapaðs ullarinnleggs
Aðalstefndi kveðst
mótmæla kröfum stefnanda í þessu efni með sömu rökum og fyrr hvað varðar lengd
bótatímbils og um fjölda ásetningslamba.
e) Flutningur lífgripa
Aðalstefndi kveður
ekki vera ágreining með aðilum um kostað af flutningi lífgripa til förgunar.
Aðalstefndi kveðst
mótmæla öðrum kröfum stefnanda vegna kostnaðar og verðrýrnunar, enda séu þær
ekki studdar neinum haldbærum rökum eða gögnum og ekki liggi fyrir
rökstuðningur fyrir útreikningum á fjárhæðum einstakra liða. Kveður aðalstefndi
matsgerð dómkvaddra matsmanna, undirmat, ekki til þess fallna að skýra eða
styðja kröfugerð stefnanda í þessum efnum. Sömuleiðis kveðst aðalstefndi
mótmæla kröfu stefnanda um bætur fyrir ónýtan og tapaðan heyfeng, kr. 225.000,
sem ósannaðri. Aðalstefndi kveðst og hafna kröfu um greiðslu vegna þrifa á
útihúsum. Engin krafa hafi verið gerð þar um til stefnanda eða hann sýnt fram á
nauðsyn þess. Þá hafi stefnandi ekki lagt fram nein gögn sem styðja kröfur hans
um vinnulaun eða kostnað við hreinsun og krafa hans að þessu leyti því ósönnuð.
Kröfum stefnanda um
bætur vegna verðrýrnunar á vélum, tækjum og öðrum búnaði kveðst aðalstefndi
mótmæla sem vanreifuðum. Samkvæmt undirmatsgerð, sem aflað hafi verið undir
rekstri málsins, hefði verðrýrnun á tækjum verið metin kr. 2.435.000, á 5 árum.
Þar væri hins vegar ekki tekið tillit til þess hver verðrýrnun þeirra hefði
verið á sama tímabili endranær. Af rökstuðningi matsgerðarinnar megi þó ætla að
það hefði a.m.k. verið jafnmikil rýrnun. Telur aðalstefndi því ljóst að engu
bótaskyldu tjóni sé fyrir að fara í þessu tilviki. Ekki séu fyrir hendi
orsakatengsl og sennileg afleiðing vegna þess meinta tjóns sem krafist er bóta
fyrir undir þessum lið. Þá kveðst aðalstefndi einnig byggja á því í þessu efni
að stefnandi hafi ekki sinnt þeirri skyldu að takmarka tjón sitt með
ráðstöfunum, sem sanngjarnar teldust, af hans hálfu.
Þá kveðst aðalstefndi
hafna því að verðmæti jarðarinnar eða mannvirkja á henni hafi rýrnað, hvað þá
varanlega, vegna meintrar mengunar frá Funa. Engin sönnun liggi fyrir um
verðrýrnun mannvirkja sem aðalstefndi kunni að bera ábyrgð á. Kröfu vegna þessa
sé því hafnað sem ósannaðri, þ.m.t. varðandi orsakatengsl og sennilega
afleiðingu.
Aðalstefndi kveðst
gera kröfur til þess, verði hann talinn skaðabótaskyldur vegna meints tjóns
stefnanda, að til lækkunar á bótafjárhæð stefnanda komi tekjur sem stefnandi
naut á viðkomandi bótatímabili. Stefnandi hafi getað ráðstafað aflahæfi sínu
með öðrum störfum en bústörfum á þeim tíma. Kveðst aðalstefndi í þessu sambandi
vísa til þeirrar grundvallarreglu í skaðabótarétti að tjónþoli skuli vera eins
settur og ef hið bótaskylda atvik hefði ekki átt sér stað, en hann eigi ekki að
njóta ávinnings þar af. Kveðst aðalstefndi jafnframt vísa til þess að á
tjónþola hvílir skylda til að takmarka tjón sitt með ráðstöfunum sem
sanngjarnar og eðlilegar megi teljast, af hans hálfu.
Um lagarök kveðst aðalstefndi vísa til almennra reglna
skaðabótaréttar, þ.m.t. um bótaábyrgð og afmörkun fjártjóns o.fl. Krafa um
málskostnað byggist á 130. gr. laga nr. 91/1991.
V
Helstu málsástæður og lagarök varastefnda,
íslenska ríkisins
Varastefndi kveðst byggja á því að
bótaskylda hans komi fyrst til skoðunar verði aðalstefndi sýknaður. Kveðst hann
mótmæla öllum kröfum, málsástæðum og lagarökum stefnanda gagnvart sér.
Starfsleyfi til Funa frá árinu 2007
hafi verið í samræmi við reglugerð nr. 739/2003 um brennslu úrgangs, en
samkvæmt þeirri reglugerð hafi gilt sérákvæði um starfandi brennslu- og
sambrennslustöðvar, sbr. VIII. kafla þeirrar reglugerðar. Sú reglugerð hafi
haft að geyma sérákvæði er varðaði starfandi brennslustöðvar, en þeim voru ekki
sett losunarmörk fyrir díoxín. Þess í stað hafi verið sett það skilyrði að ein
mæling á díoxíni í útblæstri skyldi fara fram á tímabilinu 1. janúar 2006 til
1. janúar 2008. Sérákvæði þetta hafi grundvallast á aðlögun sem Ísland fékk við
tilskipun nr. 2000/76/ESB um brennslu úrgangs. Hafi aðlögunin átt við starfandi
brennslustöðvar, m.a. sorpbrennslustöðina Funa, og grundvallast m.a. á því að
kostnaður við þær mælingar, sem tilskipunin áskildi, gerði rekstur slíkra
stöðva í afskekktum sveitarfélögum óhóflega dýran. Aðlögunin skyldi endurskoðuð
á fimm ára fresti eða þegar fram kæmi ný og ódýrari tækni til umfangsmeiri
mengunarmælinga, hvort sem fyrr yrði. Umrætt starfsleyfi sorpbrennslunnar Funa
hefði uppfyllt þau skilyrði.
Varastefndi kveður Umhverfisstofnun hafa fjallað um
niðurstöður mælinga sem framkvæmdar voru hjá Funa árin 2008 og 2009, en ekki beitt
þvingunaraðgerðum, enda ekki kveðið sérstaklega á um losunarmörk díoxíns fyrir
eldri brennslustöðvar eins og Funa. Engar málefnalegar forsendur hafi því verið
til að bregðast við á þessum tíma og ekki í samræmi við góða stjórnsýslu, enda
þurfi stjórnvald ávallt að starfa innan lagaheimilda.
Umhverfisstofnun hafi hins vegar, á árunum 2003 til
2009, margítrekað gert athugasemdir við búnað stöðvarinnar. Tilteknar
endurbætur hafi verið gerðar á stöðinni í kjölfar mælinga á þessu tímbili en
öllu viðhaldi virðist hafa verið hætt frá árinu 2008, þegar losun mengandi efna
frá stöðinni hafi sífellt farið hækkandi. Á þetta hafi verið bent í eftirliti
Umhverfisstofnunar í júní 2008 og september 2009. Kveður varastefndi að slík
vanræksla hljóti að vera á ábyrgð rekstraraðila en ekki eftirlitsaðila.
Þá kveður varastefndi litlar rannsóknir hafi verið gerðar
hér á landi um uppsöfnun díoxíns í jarðvegi við sorpbrennslur fyrr en mál þetta
kom upp 2010, og þær rannsóknir sem gerðar hafi verið hafi ekki bent til þess
að uppsöfnun díoxíns hefði átt sér stað í jarðvegi. Af því kveður varastefndi
rétt að draga þá ályktun að veðurfræðilegar og landfræðilegar aðstæður í
Engidal í Skutulsfirði hafi haft mikið að segja um uppsöfnun mengandi efna þar.
Varastefndi kveður staðhæfingu stefnanda um að hið
opinbera hafi sýnt af sér mikið aðgerðarleysi varðandi starfsemi Funa
órökstudda. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á ásetning starfsmanna varastefnda
til að valda stefnanda tjóni né heldur gáleysi. Þá hafi stefnandi heldur ekki
sýnt fram á að meint tjón tengist starfsmönnum varastefnda þannig að
varastefndi beri ábyrgð á því tjóni.
Varastefndi kveðst byggja á því að aðilar, sem reki
starfsemi sem hafi í för með sér mengun, beri sjálfir ábyrgð á þeirri starfsemi
en ekki opinberir eftirlitsaðilar.
Þá
kveður varastefndi meint tjón stefnanda vanreifað og ósannað og að óskýrleiki
sé í málatilbúnaði hans. Halla af þessu beri að fella á stefnanda.
Varastefndi kveðst mótmæla kröfu stefnanda um
skaðabætur í heild og að hluta, þar sem ekki liggi fyrir sannanir fyrir því að
varastefndi hafi bakað stefnanda tjón með saknæmum og ólögmætum hætti. Þá hafi
stefnandi ekki takmarkað tjón sitt með neinum hætti auk þess sem verðmat á jörð
miðist að sjálfsögðu við andvirði þess við sölu hverju sinni.
Hvað einstaka kröfuliði stefnanda varðar kveðst
varastefndi byggja nánar á eftirfarandi málsástæðum:
a) Búfjártjón vegna förgunar nautgripa
Varastefndi kveður fullyrðingu stefnanda um að
óútskýrð afföll hafi orðið á bústofninum skömmu fyrir niðurskurð í apríl 2011
koma eina og sér í veg fyrir að varastefndi geti borið ábyrgð á tjóni vegna
þeirra affalla, enda njóti ekki við sönnunar fyrir því að þau séu af ástæðum
sem varastefndi geti borið ábyrgð á.
b) Afurðatjón vegna tapaðrar mjólkur- og kjötframleiðslu
Varastefndi kveður enga sönnun liggja fyrir um að hann
beri ábyrgð á samdrætti í framleiðslu stefnanda, en fyrir því beri stefnandi
sönnunarbyrði. Varastefndi kveðst mótmæla því sérstaklega að unnt sé að miða
slíka kröfu við innlagða mjólkurlítra frá búinu á árinu 2007. Þá bendir
varastefndi á að stefnandi hafi selt frá sér hluta af greiðslumarki jarðarinnar
í mjólk en geri enga grein fyrir því og því verði stefnandi að bera allan halla
af skorti á sönnun vegna þessa kröfuliðar.
b)
Búfjártjón vegna förgunar
sauðfjár
Varastefndi kveðst
hafna kröfum stefnanda vegna þessa kröfuliðar, enda hafi hann ekki komið að því
mati sérfræðinga sem stefnandi og aðalstefndi létu vinna í tilefni af
fyrirhugaðri slátrun búfjár stefnanda á árinu 2011.
c)
Afurðatjón vegna tapaðrar
sauðfjárframleiðslu
Varastefndi kveðst hafna
þessum kröfulið.
d)
Flutningur lífgripa
Varastefndi kveður að hér sé um að ræða kröfu um
greiðslu óþekkts kostnaðar í framtíðinni. Meint skaðabótaskylda varastefnda
geti ekki tekið til slíks kostnaðar.
e)
Kostnaður vegna förgunar á
heybirgðum
f)
Kostnaður vegna hreinsunar á
útihúsum
Varastefndi kveðst mótmæla þessum kröfuliðum sem
ósönnuðum, engra gagna njóti við til sönnunar fyrir þeim.
g)
Verðrýrnun á vélum, tækjum
og búnaði tilheyrandi búrekstri stefnanda
Varastefndi kveðst byggja á því að krafa samkvæmt
þessum lið sé órökstudd. Tjón vegna þessa sé ósannað auk þess sem ekki liggi
fyrir hvort stefnandi hefði mátt takmarka meint tjón sitt með ráðstöfunum sem
telja megi eðlilegar og sanngjarnar.
h)
Verðrýrnun á mannvirkjum og
jörðinni Efri-Engidal
Varastefndi kveður enga sönnun liggja fyrir um tjón í
þessu sambandi og ekkert bendi til annars en að meint tjón sé ekki varanlegt.
Að öðru leyti varðandi stafliði a) til i) kveður
varastefndi sig vilja vísa til málatilbúnaðar aðalstefnda og gera að sínum enda
sé hann ekki í ósamræmi við málatilbúnað varastefnda.
Varastefndi kveðst mótmæla vaxtakröfu sérstaklega,
engar kröfur hafi verið gerðar á hendur honum fyrr en með stefnu.
Um lagarök kveðst varastefndi vísa til laga og
reglugerða á málefnasviði umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Til stuðnings
kröfum varastefnda um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um
meðferð einkamála.
VI
Niðurstaða
Um
bótaábyrgð
Í máli þessu gerir stefnandi kröfur um bætur vegna
tjóns sem hann telur sig hafa orðið fyrir vegna mengunar frá
sorpbrennslustöðinni Funa í Ísafjarðarbæ. Beinir stefnandi kröfum sínum að
aðalstefnda Ísafjarðarbæ, sem eiganda og rekstraraðila stöðvarinnar, en til
vara að íslenska ríkinu, fari svo að aðalstefndi verði sýknaður í málinu. Ber
því nauðsyn til þess að leysa úr því fyrst hvort aðalstefndi beri bótaábyrgð á
tjóni því sem stefnandi gerir kröfu um.
Málavextir hvað varðar rekstur
sorpbrennslustöðvarinnar eru að mestu óumdeildir, en ágreiningur aðila lýtur
fyrst og fremst að því hvort aðalstefndi hafi hagað rekstri stöðvarinnar með
þeim hætti að það verði virt honum til sakar, þannig að til bótaskyldu hafi
stofnast gagnvart stefnanda. Fallist er á það að ekki verði lögð hlutlæg
bótaábyrgð á aðalstefnda enda standa ekki lög til þess.
Af gögnum málsins verður ráðið að
opinberir eftirlitsaðilar gerðu margvíslegar athugasemdir við rekstur
sorpbrennslustöðvarinnar Funa vegna mengunarvarna og búnaðar á rekstrartíma
hennar; athugasemdir sem lutu m.a. að framkvæmd mengunarmælinga og niðurstaðna
þeirra. Virðist sem aðalstefndi hafi gegnum tíðina brugðist seint eða ekki við
flestum þessara athugasemda.
Í starfsleyfi stöðvarinnar, sem gefið var út í febrúar
2007, var kveðið á um skyldu stöðvarinnar til að nota bestu fáanlegu tækni til
mengunarvarna, auk þess sem tilgreind voru ákveðin losunarmörk fyrir mengunarefni
í útblæstri. Ekki voru tilgreind sérstök losunarmörk fyrir díoxín eða skyld
efni í þessu leyfi, en mælt fyrir um mælingu þeirra engu að síður, minnst einu
sinni innan árs frá veitingu leyfisins.
Niðurstöður þeirra mælinga lágu fyrir í árslok 2007 og sýndu þær að
styrkur díoxíns og skyldra efna var tugfalt yfir þeim viðmiðunarmörkum sem
nýrri sorpbrennslustöðvum höfðu verið settar á grundvelli reglugerðar nr.
739/2003 um brennslu úrgangs. Sorpbrennslustöðvar, sem höfðu fengið starfsleyfi
fyrir 28. desember 2003, líkt og Funi, höfðu hins vegar verið undanþegnar þeim
mörkum með sérstöku ákvæði, 4. mgr. 37. gr. nefndarar reglugerðar.
Það er mat dómsins að þrátt fyrir að starfsemi Funa
hafi verið sett önnur viðmiðunarmörk í starfsleyfi, hvað varðaði greind
eiturefni, hafi aðalstefnda mátt vera það ljóst, í seinasta lagi þegar
niðurstöður þessara mælinga lágu fyrir í árslok 2007, að starfsemi stöðvarinnar
gat haft í för með sér mengun sem hætta gæti stafað af. Eðli starfsemi stöðvarinnar var með þeim hætti
að hún sætti sérstökum og ítarlegum skilyrðum sem lutu að umfangi starfseminnar
og öllum rekstri hennar. Þannig var sem dæmi sérstaklega kveðið á um margvísleg
atriði til varnar mengun ytra umhverfis í starfsleyfinu. Fyrirsvarsmönnum
stöðvarinnar mátti því vera ljóst að reksturinn gat í eðli sínu verið
hættulegur umhverfinu og fyllsta ástæða til að sýna aðgát og standa vel að
málum, ekki hvað síst hvað varðaði mengunarvarnir. Þrátt fyrir það verður ekki
betur séð en rekstraraðilar hafi hunsað tilmæli um úrbætur almennt og það
jafnvel eftir að ljóst var að nefnd eiturefni mældust frá stöðinni. Í ljósi
þess magns eiturefna sem niðurstöðurnar sýndu, 2,1 ng TE/Nm3
díoxins, meðan almenn viðmiðunarmörk reglugerðar nr. 379/2003 hvað það varðar
eru 0,1 ng TE/Nm3, verður ekki talið að stefndi geti borið það fyrir
sig að hafa verið undanþeginn losunamörkum reglugerðar í þessum efnum. Að mati
dómsins verður að gera þá kröfu til þeirra, sem reka starfsemi sem þessa, að
þeir þekki helstu mengunarefni sem af slíkri starfsemi kunna að stafa sem og
þær afleiðingar sem af þeim kunna að hljótast. Getur stefndi því ekki borið því
við að stjórnvöld hafi undanþegið hann losunarmörkum, meðan önnur sambærileg
starfsemi var sett undir mun strangari mælikvarða í því efni. Þá getur stefndi
heldur ekki skýlt sér á bak við athafnaleysi annarra í þessu efni, heldur ekki
eftirlitsaðila. Stefndi hlaut að gera sér grein fyrir hættueiginleikum þessara
efna og bar að bregðast við þegar ljóst var að efnin mældust í því verulega
magni sem raun ber vitni. Stefnda mátti vera það ljóst þegar niðurstöðurnar
lágu fyrir að starfsemi hans gat haft í för með sér mengunarhættu og honum bar
að bregðast við í því skyni að takmarka mögulegt umhverfistjón. Það gerði hann
hins vegar ekki, heldur hélt starfsemi sinni áfram óbreyttri í þrjú ár til
viðbótar. Verður þetta athafnaleysi stefnda ekki virt með öðrum hætti en sem
stórfellt gáleysi. Með því að bregðast á engan hátt við upplýsingum um
hættulega mengun frá starfsemi sinni hefur stefndi að mati dómsins brotið gegn
þeirri almennu grundvallar hátternisreglu að hver og einn nýti eigur sínar og
hagi starfsemi sinni þannig að öðrum sé ekki bakað tjón eða hætta starfi af.
Háttsemi stefnda hafi því í senn verið saknæm og ólögmæt.
Sævar Hjaltason, fyrrverandi mjólkurbússjóri MS á
Ísafirði, bar fyrir dómi að hann hefði í árslok 2010, í kjölfar fyrirspurnar
blaðamanns sem hugðist skrifa grein um sorpbrennslustöðina, sent mjólkursýni
frá Engidal til rannsóknar. Niðurstaða þeirrar rannsóknar hafi verið slæm,
mjólkin hefði verið menguð. Þá hefði þegar verið hætt að nota mjólk frá bændum
í Engidal. Samkvæmt bréfi MAST til Sævars Hjaltasonar, dags. 15. desember 2010,
mældust díoxín og skyld efni yfir viðmiðunarmagni evrópskra og íslenskra reglna
í mjólk frá Engidal og hún því talin óhæf til neyslu. Í kjölfar þessa réðst
Matvælastofnun (MAST) í frekari rannsóknir á afurðum frá stefnanda og mælti í
framhaldi þess fyrir um bann við markaðssetningu afurða dýra og nýtingu fóðurs
frá bæ stefnanda vegna díoxínmengunar. Stóð það bann frá því í apríl 2011 fram
í janúar 2012. Allur bústofn stefnanda var felldur í apríl 2011. Kostnaður af
förgun og flutningi gripanna var greiddur af aðalstefnda.
Það er mat dómsins að gögn málsins renni stoðum undir
það að díoxínefni sem fundust í mjólk og kjötafurðum frá stefnanda hafi átt
uppruna sinn í sorpbrennslustöðinni Funa. Það geti ekki verið tilviljun ein að
sömu eiturefni hafi fundist í miklu magni í stöðinni, sem staðsett var nokkur
hundruð metrum frá bæ stefnanda. Stefndi hefur í málatilbúnaði sínum ekki sýnt
fram á að aðrar skýringar kunni að búa þar að baki, en eins og málum er hér
háttað telur dómurinn rétt að stefndi beri hallann af skorti á sönnun um þetta
efni. Ljóst sé að mengun varð til þess að stefnandi varð að bregða búi nær fyrirvaralaust
að kröfu yfirvalda.
Verður samkvæmt framansögðu fallist á kröfu stefnanda
um að stefndi beri bótaábyrgð á því fjárhagstjóni sem hann varð fyrir vegna
þessa. Þegar af þeirri ástæðu ber að sýkna varastefnda af kröfum stefnanda í
máli þessu.
Um fjárhæð
tjóns stefnanda
Eins og fram er komið hefur dómurinn komist að þeirri
niðurstöðu að aðalstefndi beri skaðabótaábyrgð á því tjóni sem stefnandi varð
fyrir í búrekstri sínum vegna reksturs aðalstefnda á sorpbrennslustöðinni Funa
og liggur þá fyrir að taka afstöðu til einstakra liða skaðabótakröfu stefnanda.
Stefnandi, tveir aðrir bændur og aðalstefndi öfluðu sameiginlega álitsgerðar
Haraldar L. Haraldssonar hagfræðings og Runólfs Sigursveinssonar ráðunautar „á
meintu tjóni vegna rekstrarstöðvunar á búrekstri vegna meintrar díoxínmengunar
frá Sorpbrennslustöðinni Funa á Ísafirði.“ Skiluðu þeir álitsgerð í febrúar
2014 vegna þessa og miðast hún við það tímamark, en tekur m.a. mið af
afurðaverði haustið 2013. Í kjölfar álitsgerðarinnar greiddi aðalstefndi
tveimur aðilum bætur á grundvelli hennar án viðurkenningar á bótaskyldu.
Stefnandi sætti sig hins vegar ekki alfarið við niðurstöður álitsgerðarinnar og
eru kröfuliðir hans hærri en álitsgerðin segir til um hvað varðar búfjár- og
afurðatjón. (Hér eftir verður niðurstaða HLH og RS nefnd álitsgerðin). Nánari
niðurstöður dómsins hvað varðar einstaka kröfuliði stefnanda eru eftirfarandi:
a) Búfjártjón vegna förgunar nautgripa
Þegar bústofni stefnanda var fargað
í apríl 2011 voru það 11 kýr og 2 kvígur, sem litið var á í álitsgerðinni sem
ígildi tveggja kúa í innleggi. Við mat á þessum skepnum var miðað við
frálagsverð í gæðaflokknum KIA sem var u.þ.b. 525 kr./kg og meðalfallþunga upp
á 193 kr. Tjón vegna þessa var því metið á 1.317.225 kr. Þá voru felldar til
viðbótar sex kvígur á mismunandi aldri og var þar miðað við gæðaflokkinn UN1 M
þar sem meðalverð var um 550 kr./kg og meðalþyngdin talin 154 kg á kvígu. Tjón vegna kvíganna var því talið vera
508.200 kr. Síðan er í álitsgerðinni talið eðlilegt að meta til viðbótar mismun
á lífgripum til framleiðslu í stað þeirra gripa sem var fargað. Var talið
hæfilegt að bæta þar við 100.000 kr. á hverja kú eða samtals 1.300.000 kr. og
85.000 kr. á hverja kvígu eða samtals 510.000 kr. Tjón vegna nautgripa sem var
fargað var því talið nema alls 3.635.425 kr. (1.317.225 + 508.200 + 1.300.000 +
510.000).
Krafa stefnanda vegna förgunar
nautgripanna nemur 5.400.000 kr. og skýrist sú fjárhæð m.a. af því að hann
telur rétt að miða við 14 kýr vegna vanhalda sem hafi orðið skömmu fyrir
niðurskurðinn í apríl 2011, sem engar skýringar hafi fundist á, en nærtækast sé
að ætla að vanhöldin megi rekja til mengunar frá Funa. Þá telur stefnandi að
mismunur á innleggsverði kúa og lífgripa sé 300.000 kr. og á kvígum 200.000 kr.
Stefnandi hefur engar sönnur fært
fyrir þeirri fullyrðingu sinni að vanhöld hafi verið óvenjumikil skömmu áður en
bústofni hans var fargað í apríl 2011, né að þau megi rekja til mengunar frá
Funa. Þá hefur stefnandi ekki heldur fært sönnur á það að mismunur á innleggsverði
og kaupverði lífgripa sé eins og hann heldur fram. Eftir að álitsgerðin lá
fyrir sendi stefnandi höfundum hennar athugasemdir og taldi m.a. að kaupverð á
kúm og kvígum til lífs væri þar metið of lágt. Runólfur, annar höfunda
álitsgerðarinnar, svaraði þessu í september 2014 og féllst þar á að hækka
verðið á hverja kú í 250.000 kr. úr 200.000 kr. og í 200.000 kr. á hverja kvígu
úr 170.000 kr. Hækkun frá álitsgerðinni væri því 830.000 kr. og búfjártjón
vegna nautgripa því samtals 4.455.425 kr. Runólfur skýrir þessa hækkun aðeins
með því að verð á kúm og kvígum til lífs hafi hækkað frá þeim tíma sem
álitsgerðin var gerð. Eins og fram er komið er álitsgerðin gerð í febrúar 2014
og tekur mið af því tímamarki. Ef fallist yrði á nefnda hækkun myndi þessi eini
liður matsgerðarinnar taka mið af ástandinu í september 2014, en aðrir liðir
miðast við febrúar 2014. Ekki er hægt að fallast á að hækka einn lið
álitsgerðarinnar á þessari forsendu einni og verður það því ekki gert.
Dómurinn telur að stefnandi hafi ekki
hnekkt öðru því sem fram kemur í álitsgerðinni hvað tjón stefnanda vegna
förgunar á nautgripum varðar, en telja verður að í álitsgerðinni séu færð góð
rök fyrir því að tjón stefnanda vegna þess sé 3.635.425 kr.
b)
Afurðatjón vegna tapaðrar
mjólkur- og kjötframleiðslu
Í álitsgerðinni
er talið eðlilegt, hvað tímabundið afurðatjón í mjólk varðar, að miða við beint
afurðatjón í tvo mánuði frá 14. apríl til 13. júní 2011, en til þess tíma fékk
stefnandi greitt fullt verð fyrir mjólkina frá afurðastöð, þótt hún væri ekki
nýtt. Er síðan miðað við meðaltal viðkomandi mánaða árin 2008-2010, þ.e.
apríl-júní, og þágildandi afurðaverð til bænda. Tjón vegna þessa var því talið
fyrir apríl-júní 2011 að upphæð 657.058 kr. Stefnandi gerir kröfu til þess að
bætur fyrir tímabundið afurðatjón verði miðaðar við apríl-júlí 2011 og 17.422
lítra og 82,92 kr. á hvern lítra eða samtals 1.444.632 krónur. Stefnandi telur
eðlilegt að miða við þrjá mánuði þar sem allur meginkostnaður við framleiðslu
þessa tímabils var kominn fram þegar bústofninum var fargað.
Dómurinn er
telur rétt, eins og í álitsgerðinni, að miða tímabundið afurðatjón í mjólk við
tvo mánuði og fellst á þær forsendur sem þar eru lagðar til grundvallar þeirri
niðurstöðu þannig að bætur vegna þessa liðar eru ákveðnar 657.058 kr.
Þá er komið að
mati á afurðatjóni til lengri tíma að teknu tilliti til framleiðslukostnaðar,
þ.e. á þeim tíma sem búfjárframleiðsla á jörðinni gat ekki farið fram vegna
mengunar frá Funa. Í álitsgerðinni er tekið fram að í reglugerð nr. 651/2001 um
útrýmingu riðuveiki og bætur vegna niðurskurðar sé að jafnaði miðað við bætur
til tveggja ára. Í álitsgerðinni er hins vegar miðað við 2,5 ár og tekið fram
að það sé vegna þess að álitsgerðin sé unnin í lok árs 2013 og bændum því ekki
ljóst fyrr en þá hverjar yrðu hugsanlegar tjónabætur vegna niðurskurðarins.
Einnig væri við mat á tjóni og bótatímabili haft í huga að þegar frá liði yrði
að gera ráð fyrir að búrekstraraðili gæti ráðstafað aflahæfi sínu með öðrum
hætti og þannig takmarkað tjón sitt.
Tjónið hvað
mjólk varðaði var síðan miðað við þáverandi greiðslumark jarðarinnar, 48.119
lítra í 30 mánuði og 22,92 kr. á lítrann eða samtals 2.757.219 kr.
Framlegðarstig var miðað við breytilegan kostnað 31 kúabús í Eyjafirði árið
2012 en kostnaðurinn var um 57 kr á hvern lítra. Miðað við verðlag á tímamarki
álitsgerðarinnar var breytilegi kostnaðurinn 60 kr./ltr en afurðaverðið var
82,92 kr./ltr og mismunurinn því 22,92 kr./ltr.
Stefnandi gerir
kröfu um bætur vegna tapaðs mjólkurinnleggs eftir júlí 2011 að fjárhæð
8.375.547 kr. og vegna gripagreiðslna 1.143.517 kr. Þar munar mest um að stefnandi telur rétt að
tap til lengri tíma miðist við 3,5 ár, þ.e. frá júlí 2011 til ársloka 2014.
Stefnandi rökstyður þær kröfur sínar með því að það hafi fyrst verið í árslok
2014 sem honum hefði verið mögulegt að
koma kúabúskap sínum í fyrra horf. Þá verði einnig að taka mið af því að
stefnandi hafi ávallt fengið aukagreiðslu vegna góðrar flokkunar á mjólk.
Dómurinn telur
ekki standa rök til þess að miða afurðatjón stefnanda til lengri tíma við meira
en 2,5 ár, enda hefur stefnandi ekki fært fullnægjandi rök fyrir öðru. Í þessu
sambandi verður ekki horft framhjá þeirri meginreglu að tjónþola beri að
takmarka tjón sitt og verður að ætla að stefnanda hafi átt að nægja 2,5 ár til
að koma tekjum sínum í sambærilegt horf og var fyrir niðurskurð á bústofni
hans. Samkvæmt þessu telur dómurinn að afurðatjón stefnanda til lengri tíma
vegna mjólkurframleiðslu sé að fjárhæð 2.757.219 kr. eins og álitsgerðin kveður
á um.
Hluti af stuðningsgreiðslum
íslenska ríkisins til bænda er skilgreindur í formi svokallaðra gripagreiðslna,
þ.e. ákveðin fjárhæð á hverja kú eða hvern lítra. Þar sem öllum bústofni
stefnanda var fargað fékk hann ekki þann hluta sem fólst í gripagreiðslum. En
lagt er til í álitsgerðinni að miðað verði við greiðslumark jarðarinnar í mjólk
eins og það var við niðurskurðinn og krónutölu fyrir þennan hlut stuðningsins
eins og hún var samkvæmt búvörusamningnum fyrir árið 2013. Þannig að þessi
liður var ákveðinn 48.119 lítrar x 5,21 kr./ltr í 2,5 ár eða samtals 626.750
kr. og fellst dómurinn á þá niðurstöðu.
Í álitsgerðinni
segir að til viðbótar þessu sé eðlilegt að taka það kjötmagn sem fellur til ár
hvert vegna endurnýjunar kúastofnsins og var miðað við að endurnýjunarhlutfallið
væri 30%. Miðað við að 13 kýr væru að jafnaði í framleiðslu í Efri-Engidal væri
fjórum kúm slátrað á ári eða tíu kúm á tveimur og hálfu ári. Meðalþyngd var
talin 193 kg og gæðaflokkurinn KIA væri 525 kr./kg. Að teknu tilliti til 60%
framlegðar væri þessi liður 607.950 kr. og fellst dómurinn á þá
niðurstöðu.
Fellst dómurinn
samkvæmt þessu á að tjón stefnanda vegna þessa kröfuliðar nemi samtals
4.648.977 kr. (657.058 + 2.757.219 + 626.750 + 607.950).
c)
Búfjártjón vegna förgunar
sauðfjár
Í álitsgerðinni
er miðað við að slátrað hafi verið 80 fjár frá stefnanda og miðað við að
þyngdin hafi verið að meðaltali 16 kg og fyrir hvert kíló í gæðaflokknum DR2
hafi fengist 571 kr. Tjón vegna þessa væri því 730.880 kr., þ.e. beint
afurðatjón til eins árs. Þá væri rétt með
hliðsjón af reglum vegna bótagreiðslna fyrir niðurskurð vegna riðuveiki
að bæta við 60% álagi á fyrrgreinda tölu vegna minni afurða á fyrsta ári eftir
fjártöku. Álagsgreiðsla í tilviki stefnanda væri því 438.528 kr. Til viðbótar
kæmi greiðsla vegna ullar sem væri 1.100 kr. á hverja kind eða samtals 88.000.
Tjón vegna förgunar væri því alls 1.257.408 kr. (730.880 + 438.528 + 88.000).
Stefnandi telur að tjónið vegna förgunar á sauðfé sé meira, þar sem ekki hafi
verið tekið tillit til mismunar á afurðaverði annars vegar og kaupverði
líflamba hins vegar. Tjónið vegna
förgunar sé því að upphæð 1.578.411 krónur.
Dómurinn fellst
á það með stefnanda að eðlilegt sé að hann fái bætur vegna þess að verð
líflamba sé hærra en verð sláturlamba og þykir krafa stefnanda um 200.627 kr.
vegna þessa hófleg og verður því fallist á hana.
Dómurinn telur
að stefnandi hafi ekki fært fullnægjandi sönnun fyrir því að álagsgreiðslan
eigi að vera önnur og hærri en fram kemur í álitsgerðinni og telur dómurinn að
fallast megi á niðurstöðu álitsgerðarinnar hvað þann þátt varðar. Tjón
stefnanda vegna förgunar sauðfjár sé því 1.458.035 kr. (730.880 + 438.528 +
88.000 + 200.627).
d)
Afurðatjón vegna tapaðrar sauðfjárframleiðslu
Varðandi
afurðatjón vegna sauðfjár haustið 2011 er í álitsgerðinni byggt á innleggstölum
kindakjöts áranna 2008-2010 og þær tölur notaðar sem viðmið við útreikning á
ætluðu tjóni. Niðurstaðan var sú að
lömbin væru 73, meðalvigtin 16,49 kg og meðalverð á hvert kíló 571 kr. þannig
að afurðatjónið haustið 2011 er talið 687.353 kr. Stefnandi telur að tjón vegna
þessa sé 800.342 kr. þar sem ekki sé í álitsgerðinni tekið tillit til líflamba,
sem hafi verið að meðaltali um 12 á ári. Við útreikning ætti því að miða við 85
lömb.
Í álitsgerðinni
er byggt á meðaltali þriggja ára hvað fjölda lamba varðar eða 73 en stefnandi
telur að miða eigi við 85 lömb að teknu tilliti til ásetnings. En telja verður
að í kröfulið c (búfjártjón vegna förgunar sauðfjár) hafi verið tekið tillit
til þessa. Dómurinn telur því ekki rétt að víkja frá niðurstöðu
álitsgerðarinnar hvað þennan lið varðar og afurðatjónið haustið 2011 telst því
vera 687.353 kr.
Við útreikning á
afurðatjóni til lengri tíma eða í 2,5 ár vegna sauðfjárræktarinnar er í
álitsgerðinni miðað við 60% framlegð, eins og áður er getið varðandi
mjólkurframleiðsluna. Afurðaverð sé 571
kr./kg og breytilegi kostnaðurinn á hvert kíló 228 kr. þannig að tekjutapið sé
353 kr./kg í 2,5 ár og magnið 1.198 kg, þannig að tjónið sé 1.057.235 kr. vegna
þessa liðar. Ekki verður betur séð en útreikningur
í álitsgerðinni sé rangur þannig að tekjutapið á hvert kg sé reiknað 353 í
staðinn fyrir 343 (571-228) sem er rétt tala miðað við forsendur sem annars eru
lagðar til grundvallar í álitsgerðinni. Að teknu tilliti til þess reiknast
tjónið vegna þessa vera 1.027.285 kr.
Við það bætist
greiðslur fyrir ull, 1.100 kr. á kind, og að teknu tilliti til framlegðar væri
greiðslan 660 kr. á kind sem eru 80 í 2,5 ár og reiknist þá 132.000 krónur.
Afurðatjón vegna
sauðfjárframleiðslu telst því að mati dómsins nema samtals 1.846.638 kr.
(687.353 + 1.027.285 + 132.000).
e)
Flutningur lífgripa
Stefnandi gerir kröfu um
greiðslu flutningskostnaðar vegna lífgripa sem verða fluttir á búið aftur þegar
búskapur verður hafinn að nýju í Efri-Engidal. Þegar skorið er niður vegna
riðuveiki skv. ákvörðun yfirdýralæknis, sbr. fyrrnefnda reglugerð nr. 651/2001,
greiðir ríkissjóður stærstan hluta
flutningskostnaðar líflamba úr fjarlægum héruðum. Með hliðsjón af því m.a.
þykir rétt að aðalstefndi greiði sambærilegan kostnað í því tilfelli sem hér um
ræðir. Krafa stefnanda hvað þetta varðar er að fjárhæð 250.000 kr. og þykir hún
eðlileg og verður því fallist á að aðalstefnda beri að greiða hana.
f)
Kostnaður vegna förgunar á heybirgðum
Dómurinn hefur þegar komist að
þeirri niðurstöðu að stefnandi skuli fá bætur fyrir tímabundið afurðatjón í
mjólk í tvo mánuði, en þar með fékk hann bætur fyrir hey sem hann hafði aflað
vegna framleiðslunnar sem hefði orðið ef ekki hefði komið til niðurskurðar.
Ætla verður að kostnaður við förgunina hafi verið svipaður og kostnaður sem
hefði fallið til hefði heyrúllunum verið ráðstafað á annan hátt. Þá hefur
stefnandi ekki lagt fram staðfestingu á því heymagni sem hann kveðst hafa
fargað né yfirlit um kostnað við förgunina. Verður því ekki fallist á þennan
kröfulið.
g)
Kostnaður vegna hreinsunar á útihúsum
Af gögnum málsins verður ekki
ráðið að stefnanda hafi verið gert að hreinsa útihús með þeim hætti sem hann
kveðst hafa gert. Þá hefur stefnandi ekki lagt fram gögn til stuðnings
kröfunni, þ.e. um meint vinnuframlag eða vegna efniskaupa. Verður því ekki
fallist á þennan kröfulið.
h og i)
Verðrýrnun á vélum, tækjum og búnaði tilheyrandi búrekstri stefnanda og verðrýrnun
á mannvirkjum og jörðinni Efri-Engidal
Í september 2015
fór stefnandi fram á dómkvaðningu tveggja matsmanna til að meta „hvort búrekstrartæki og búnaður
matsbeiðanda svo og mannvirki og land/landgæði jarðarinnar Efri-Engidal,
Ísafjarðarbæ, hafi rýrnað að verðgildi og sem rakið verður til mengunar frá
sorpbrennslustöðinni Funa í Engidal ...“ Niðurstaða matsmannanna var sú að
verðrýrnun á tækjum væri að fjárhæð 2.435.000 krónur og á jörðinni 14.770.420
krónur. Ekki voru metnar „skemmdir“ á útihúsum.
Í júní 2016 fór
aðalstefndi fram á dómkvaðningu yfirmatsmanna til að skoða, lýsa og meta ástand
véla, tækja og annars búnaðar sem stefnandi nýtti til búrekstar að Efri-Engidal
og hvort þetta lausafé hefði rýrnað að verðgildi sökum þess að búrekstri varð
ekki komið við á jörðinni um ákveðinn tíma. Yrði það niðurstaða yfirmatsmanna
að lausaféð hefði rýrnað að gæðum/verðgildi var þess óskað að þeir legðu mat á
það hversu mikil sú verðrýrnun væri og þá að hve miklu leyti hún væri tilkomin
vegna þeirrar ákvörðunar að farga öllum bústofninum vegna mengunar frá
sorpbrennslustöðinni Funa. Þá var þess einnig óskað að yfirmatsmenn legðu mat á
það hvort verðgildi jarðarinnar Efri-Engidals hefði lækkað vegna ástæðna sem
rekja mætti til mengunar frá Funa. Einnig skyldi lagt mat á það hvort
nýtingarmöguleikar jarðarinnar eða almenn gæði hennar hefðu skerst frá því sem
áður var, þ.e. áður en upplýst var um mengun frá Funa.
Niðurstaða
yfirmatsmanna var sú að verðrýrnun á vélum og tækjum næmi 2.520.063 kr. á fimm
ára tímabili frá apríl 2011, þegar búrekstri var hætt. Þeir tóku hins vegar
fram að ekki hafi reynst mögulegt að meta sérstaklega hvaða þátt verðrýrnunar
mætti rekja til notkunarleysis frá því búrekstri var hætt. Yfirmatsmenn mátu að
verðmæti jarðarinnar væri 23.000.000 kr. en verðrýrnun á henni sem fullgildrar
landbúnaðarjarðar væri 11.000.000 kr. Verðmæti hennar væri því 12.000.000 króna
„sem sködduð landbúnaðarjörð með rýrt
orðspor“.
Stefnandi gerir
kröfu um bætur að fjárhæð 3.000.000 króna vegna verðrýrnunar á vélum, tækjum og
búnaði tilheyrandi búrekstri stefnanda í Efri-Engidal. Eins og fram er komið
var komist að því í undirmati að verðrýrnunin væri að fjárhæð 2.435.000 krónur,
en í yfirmati var verðrýrnunin talin vera 2.520.063 krónur, en ekki þykir
ástæða til að gera nánari grein fyrir því hvernig þessar fjárhæðir voru fundnar
út í matsgerðunum.
Í þessu samhengi
er rétt að taka fram að í upphafi aðalmeðferðar var gengið á vettvang og jörð,
mannvirki og tæki að Efri-Engidal skoðuð.
Að mati dómsins
er ljóst að hefði stefnandi haldið áfram búskap í óbreyttri mynd í Efri-Engidal
og ekki komið til niðurskurðar á bústofni hans hefði hann væntanlega notað
áfram vélar sínar og tæki eins og hann hafði gert fyrir niðurskurðinn. Þá hefði
eðli málsins samkvæmt, og eins og afskriftarreglur segja til um, verðmæti þessa
lausafjár lækkað eins og gerist jafnan með lausafé sem er notað og afskrifað.
Hafi stefnandi talið að þessi verðmæti myndu rýrna umfram eðlilegar afskriftir
yrðu þau ekki notuð var honum mögulegt að selja tækin eða hugsanlega koma þeim
í notkun þannig að verðmæti þeirra héldust í því horfi sem hann taldi eðlilegt.
Hvað þetta varðar verður ekki litið framhjá meginreglunni um að tjónaþola beri
að takmarka tjón sitt. Aðalstefndi verður því sýknaður af þessum kröfulið.
Loks gerir
stefnandi kröfu um bætur að fjárhæð 7.000.000 kr. vegna verðrýrnunar á jörðinni
Efri-Engidal, þ.m.t. mannvirkjum. Í undirmati var verðrýrnun á jörðinni talin
vera 14.770.420 kr. Forsendur að baki þeim útreikningi eru að mati dómsins
ófullnægjandi eins og atvikum er háttað í máli þessu og eru því ekki til
stuðnings þessum kröfulið stefnanda. Í yfirmati er verðrýrnun jarðarinnar talin
nema 11.000.000 kr., þar sem verðmæti hennar hefði lækkað úr 23.000.000 króna í
12.000.000 króna. Um væri að ræða skaddaða landbúnaðarjörð með rýrt orðspor.
Af gögnum
málsins má ráða að díoxínmengunin frá Funa var fyrst og fremst yfirborðsmengun,
sem virðist þrátt fyrir allt hafa horfið að mestu á tiltölulega skömmum tíma,
og nú hefur stefnandi hafið þar sauðfjárbúskap að nýju þótt í litlum mæli sé.
Því má ætla að mengunin frá Funa, þótt slæm hafi verið, hafi ekki rýrt gæði
jarðarinnar Efri-Engidals til lengri tíma. Þrátt fyrir allt verður því ekki
fullyrt að nýtingarmöguleikar jarðarinnar hafi skerst að öllu leyti þegar atvik
málsins eru virt í heild sinni.
Dómurinn telur því ekki sannað að
stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna verðrýrnunar á jörðinni Efri-Engidal sem
aðalstefndi beri ábyrgð á. Verður því aðalstefndi sýknaður af þessum kröfulið.
Samkvæmt öllu
ofanrituðu verður aðalstefndi Ísafjarðarbær dæmdur til að greiða stefnanda,
Steingrími Jónssyni, skaðabætur að fjárhæð 11.839.075 kr.
Um er að ræða skaðabótakröfu og
dæmast því vextir skv. 8. gr vaxtalaga nr. 38/2001 af fjárhæðinni frá 11.
janúar 2012, en á því tímamarki telur dómurinn sannað að allt tjón stefnanda
hafi verið komið fram. Eins og málið er vaxið verður upphafstími dráttarvaxta
miðaður við þingfestingu málsins 16. september 2015.
Með vísan til 3. mgr. 130 gr. laga um meðferð
einkamála verður aðalstefnda gert að greiða stefnanda 2.000.000 króna í
málskostnað. Með hliðsjón af atvikum þykir rétt að málskostnaður milli
stefnanda og varastefnda falli niður.
Dómur þessi er kveðinn upp af
Bergþóru Ingólfsdóttur dómstjóra, ásamt meðdómendunum Inga Tryggvasyni,
löggiltum fasteignasala og lögmanni, og Eiríki Blöndal landbúnaðarverkfræðingi.
Uppkvaðning dómsins hefur
dregist fram yfir frest samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, en aðilar
og dómarar töldu ekki efni til þess að endurflytja málið.
D Ó M S O R Ð:
Stefndi, Ísafjarðarbær,
Hafnarstræti 1, Ísafirði, greiði stefnanda, Steingrími Jónssyni, Efri-Engidal, Ísafjarðarbæ, skaðabætur að
fjárhæð kr. 11.839.075.-, ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 11. janúar
2012 til 16. september 2015, en með
dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til
greiðsludags. Stefndi,
Ísafjarðarbær, greiði stefnanda 2.000.000 króna í málskostnað.
Varastefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfum
stefnanda. Málskostnaður milli stefnanda og varastefnda fellur niður.