• Lykilorð:
  • Kynferðisbrot
  • Nauðgun
  • Sönnun
  • Sönnunarbyrði
  • Sönnunarmat
  • Sýkna

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 20. desember 2017 í máli nr. S-434/2017:

Ákæruvaldið

(Matthea Oddsdóttir saksóknarfulltrúi)

gegn

A

(Gestur Jónsson hrl.)

 

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 28. nóvember 2017, var höfðað með ákæru héraðssaksóknara, dags. 24. júlí 2017, á hendur:

 

            A, kennitala 000000-0000,

            [...], Reykjavík

 

fyrir nauðgun, með því að hafa aðfaranótt [...] 2012, að X í Reykjavík, haft samræði og önnur kynferðismök við B, en ákærði hafði samræði og munnmök við stúlkuna gegn vilja hennar með því að notfæra sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum svefndrunga og ölvunar.

 

Telst þetta varða við 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

Einkaréttarkrafa:

Af hálfu B, kennitala 000000-0000, er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni skaðabætur að fjárhæð krónur 2.500.000, með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, frá [...] 2012, til þess dags er mánuður er liðinn frá þeim tíma sem ákærða var birt bótakrafan, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags. Þá er þess krafist að ákærða verði gert að greiða brotaþola málskostnað við að halda fram kröfunni samkvæmt síðar framlögðu málskostnaðaryfirliti.“

 

            Verjandi ákærða krefst sýknu af ákæru. Komi til sakfellingar krefst hann vægustu refsingar er lög leyfa. Þá krefst hann þess að allur sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun verjanda, verði greiddur úr ríkissjóði. Einnig krefst hann þess að bótakröfu verði vísað frá dómi og hafnar bótakröfunni.

                                                                 I.

Málsatvik

            Með bréfi dagsettu [...] 2015 lagði lögmaður brotaþola, B, fram kæru á hendur ákærða A, fyrir nauðgun sem brotaþoli kvað hafa átt sér stað í [...] árið 2012 í íbúð að X, nánar tiltekið aðfaranótt [...] 2012. Í bréfinu eru málsatvik rakin og kemur þar fram að brotaþoli hafi farið í eftirpartý heim til ákærða. Hafi hún verið mjög ölvuð umrætt sinn og lagst til svefns ásamt ákærða, C og D. Hún hafi vaknað við að ákærði hafði við hana munnmök. Hafi hún í kjölfarið leitað á neyðarmóttöku en ekki treyst sér til þess að leggja fram kæru. Í bréfinu kemur fram að brotaþoli hafi í kjölfar atviksins glímt við andleg veikindi og leitað sér aðstoðar vegna vanlíðunar sinnar.

            Skýrsla var tekin af brotaþola [...] 2015. Lýsti hún aðdraganda þess að hún hefði ákveðið að fara að X. Hún kvað sig, C, ákærða og D öll hafa lagst fullklædd til svefns á sama tíma, þá komið undir morgun. Hafi hún vaknað við að einhver hafði við hana munnmök en hún fann fyrir tungu á kynfærum sínum. Hún hafi séð ákærða, sparkað honum frá sér, spurt hvað hann væri að gera og farið fram. Kvaðst hún hafa álitið hann samkynhneigðan og aldrei hafa sýnt honum kynferðislegan áhuga. Hún hafi verið í miklu uppnámi og C hafi í kjölfarið hringt á leigubifreið fyrir hana. Kvaðst hún hafa farið úr leigubifreiðinni á [...] og hringt í vin sinn sem ók henni á neyðarmóttökuna.

            Í skýrslu um réttarlæknisfræðilega skoðun, sem brotaþoli gekkst undir [...] 2012 kl. [...], er haft eftir brotaþola að hún hafi lagst til svefns ásamt ákærða og tveimur vinum hans. Hún hafi þá verið fullklædd. Hún hafi vaknað við að gerandinn var að hafa við hana samfarir og hafi hún þá ekki lengur verið í stuttbuxum og samfellu. Hafi hún „fríkað út“ og hlaupið út en vinur hennar reynt að hugga hana. Fram kom að hún hafi ekki viljað leggja fram kæru eða að K, sem starfaði á [...], yrði gert viðvart. Í skýrslunni er ástandi hennar lýst svo að hún hafi verið hágrátandi, angandi af vínlykt og hafi átt bágt með að tala sökum ekka. Tilfinningaástandi hennar er lýst með því að merkja við losta, eirðarlaus, grátköst, óttaslegin, í hnipri og man lítið/ekkert. Ekki hafi verið skemmdir á fatnaði hennar og áverkar ekki sjáanlegir. Við kvenskoðun hafi komið í ljós lifandi sæðisfrumur í sýni frá leggangatoppi og frá leghálsi. Þá má sjá að blóðprufa var tekin úr brotaþola til eiturefna- og alkóhólrannsóknar en niðurstöður liggja ekki fyrir í málinu. Var hún send með samfelluna heim í bréfpoka og sagt að geyma ef henni snerist hugur um að kæra.

            Eftir að brotaþoli lagði fram kæru [...] 2015 var ákærði yfirheyrður eða þann [...] 2015. Lýsti hann atvikum að aðdraganda svo, að vel hefði farið með brotaþola og honum á skemmtistað að kvöldi [...] 2012 og einnig heima hjá honum að X aðfaranótt [...]. Þau hafi farið og lagt sig fullklædd í herbergi íbúðarinnar ásamt C og D, sem hafi verið að draga sig saman fyrr um kvöldið. Brotaþoli hafi legið við hlið hans og hafi þau farið að kyssast og hún m.a. gripið um kynfæri hans utanklæða. C og D hafi farið út úr herberginu og hafi hann þá afklætt brotaþola og sig, veitt henni munnmök og síðan haft við hana samræði. Hafi hún tekið virkan þátt í kynmökunum og lýsti hann því frekar. Um fimm mínútum eftir að þeim lauk hafi brotaþoli farið fram og hann hafi heyrt hana gráta og segja við C „ég hélt þetta væri þú“. Þá hafi C sagt við hann að brotaþoli héldi því fram að hann hefði nauðgað henni. Ákærði þvertók fyrir að hann hefði haft kynmök við brotaþola gegn hennar vilja og að brotaþoli hefði sparkað honum frá sér. Ákærði kannaðist við að bæði hafi verið ölvuð en þau hafi bæði verið meðvituð um kynferðislegar athafnir sínar.

 

            Meðal gagna málsins er vottorð dr. E, en brotaþoli sótti níu meðferðarviðtöl hjá henni á tímabilinu [...] 2012 til [...] 2012. Var henni veittur sálrænn stuðningur en byrjað var á hugrænni atferlismeðferð við einkennum áfallastreituröskunar. Endurtekið greiningarmat var framkvæmt á afleiðingum meints kynferðisbrots á tímabilinu sem sýndi að brotaþoli þjáðist af áfallastreituröskun í kjölfar ætlaðs kynferðisbrots. Þótti ljóst að atburðurinn hefði haft víðtæk og langvarandi áhrif á hana. Brotaþoli hafi sýnt jákvæð viðbrögð við meðferðinni og vaxandi getu til að takast á við afleiðingar meints kynferðisbrots. Forðunareinkenni hafi hins vegar verið greinileg og því áframhaldandi áskorun hjá henni að takast á við þau. Þá sótti brotaþoli meðferðarviðtöl hjá F sálfræðingi, í fjarveru E, samtals sex sinnum á tímabilinu [...] 2015 til [...] 2015. Greiningarviðtal [...] 2015 leiddi í ljós að brotaþoli hafði veruleg áfallastreitueinkenni sem voru talin vísbending um alvarlega áfallastreituröskun og var brotaþola því boðið að hefja meðferð á ný.

            E skilaði viðbótarvottorði sem er dagsett 22. nóvember sl. Þar kemur fram að frá fyrra vottorði hafi sálfræðingurinn hitt brotaþola 13 sinnum á tímabilinu [...] til [...] 2017. Í samantekt sálfræðivottorðs E kemur fram að í viðtölunum hafi farið fram endurtekið greiningarmat á afleiðingum meints kynferðisbrots. Henni hafi verið veittur sálrænn stuðningur og hugrænni atferlismeðferð beitt við afleiðingum þess. Niðurstöður greiningarmats hafi sýnt að brotaþoli þjáðist af áfallastreituröskun í kjölfar meints kynferðisbrots og felmturröskun (panic disorder). Niðurstöður sjálfsmatskvarða samsvari vel frásögnum hennar í viðtölum. Hún virtist ávallt hreinskilin, trúverðug og samkvæm sjálfri sér. Þá kemur fram að gert sé ráð fyrir að brotaþoli haldi áfram meðferðarvinnunni en ekki sé hægt að segja með vissu hve langan tíma meðferð taki eða hvort bati náist.

 

            Með ákvörðun héraðssaksóknara 29. mars 2017 var mál þetta fellt niður með vísan til 145. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sú ákvörðun var kærð af hálfu réttargæslumanns brotaþola til ríkissaksóknara og þess krafist að hún yrði felld úr gildi og ákæra gefin út í málinu. Afstaða ríkissaksóknara lá fyrir 13. júlí 2017 og var ákvörðun héraðssaksóknara felld úr gildi og honum falið að taka málið til nýrrar meðferðar með útgáfu ákæru. Brotaþoli og ákærði komu að athugasemdum sínum í tengslum við meðferð málsins hjá ríkissaksóknara.

           

 

                                                                II.

            Verður nú gerð grein fyrir framburði ákærða, brotaþola og annarra vitna fyrir dóminum við aðalmeðferð málsins, að því marki sem nauðsynlegt þykir til úrlausnar þess.

            Ákærði lýsti atvikum svo að hann hefði verið að skemmta sér í [...] og hitt brotaþola á skemmtistaðnum [...]. Hann kvað hafa farið vel á með þeim og hafi honum fundist sem hún hefði áhuga á honum. Hann kvaðst ekki hafa vitað á þessum tímapunkti um forsögu hennar og C, sem væri góður vinur hans. Þau hafi ekki rætt þau mál. Eftir að staðnum var lokað um kl. 04:00 eða 05:00 hafi þau ákveðið að fara heim til hans. Man hann ekki sérstaklega hvernig þau fóru þangað eða hverjir fóru saman. Hins vegar hafi þau verið eftir fjögur, hann, brotaþoli, C og D. Héldu þau sig mest í stofunni að spjalla. C og D hafi dregið sig saman og hann og brotaþoli hafi daðrað við hvort annað. Þau hafi knúsast, kysst og hann hafi fléttað hárið á henni. Ákærði kvaðst ekki muna sérstaklega eftir áfengisdrykkju og kvað fíkniefni ekki hafa verið notuð. Allir höfðu þó drukkið og hafi ölvunarástand verið svipað hjá öllum en enginn hafi verið ofurölvi. Á einhverjum tímapunkti hafi þau farið inn í svefnherbergi hans og man hann eftir þeim öllum þar. Þau hafi lagst í rúmið í fötunum væntanlega í þeim tilgangi að fara að sofa. Kvað hann hafa verið bjart í herberginu en gluggatjöld fyrir glugga. Hann hafi legið í rúminu með brotaþola öðrum megin við sig en C hinum megin. D hafi legið við hlið C. Mjög fljótlega hafi brotaþoli sett hönd í klof hans en þau hafi snúið hvort að öðru. Þau hafi strokið hvoru öðru og farið að kyssast. Bæði hafi þau verið vakandi og brotaþoli hafi ekki sofnað. C og D hafi farið út úr herberginu og þá hafi hann klætt sig úr og hjálpað brotaþola úr. Hafi þau verið nakin. Í kjölfarið hafi hann veitt brotaþola munnmök að því er honum fannst nokkuð lengi. Meðan á munnmökun stóð varð hann var við að C og D komu inn en þau hafi farið strax aftur út. Þetta hafi verið um 15-20 mínútum eftir að þau fóru fram. Eftir munnmökin hafi hann haft samræði við brotaþola í trúboðastellingunni í 5-10 mínútur. Hafi brotaþoli tekið virkan þátt allan tímann, hún hafi horft á hann, kysst hann og tekið á móti honum. Hann hafi upplifað það svo að þau hafi bæði notið kynlífsins og hann hafi fengið sáðlát í leggöng hennar. Eftir þetta hafi þau legið í rúminu í 4-5 mínútur, brotaþoli hafi svo klætt sig og farið fram. Þá hafi hann heyrt hana segja við C „ég hélt að þetta værir þú“. Hann hafi heyrt að hún komst í uppnám og var grátandi. Honum hafi brugðið og fundið til mikillar niðurlægingar vegna þess sem hafði gerst á milli þeirra áður. Hann hafi farið fram og verið reiður yfir þessu. Sá hann C með brotaþola í fanginu að hugga hana. Kvaðst ákærði hafa rekið brotaþola á dyr. Kvað ákærði C þá hafa sagt við hann að brotaþoli hefði sakað hann um nauðgun. Ákærði kvaðst hafa farið að sofa en síðar um daginn hafi vinkona brotaþola hringt og ásakað hann um að hafa brotið gegn brotaþola. Hafi hann sent brotaþola fésbókarskilaboð í kjölfarið og aftur síðar í mánuðinum og lagði hann þau fram í málinu. Aðspurður kvað hann C hafa sagt sér, eftir að mál þetta kom upp, að hann og brotaþoli hefðu átt vingott.

            Ákærði kvaðst aðspurður ekki vita hvers vegna brotaþoli ætti að bera á hann rangar sakir. Hann myndi aldrei hafa kynmök við kvenmann sem ekki tæki þátt í þeim af fúsum og frjálsum vilja. Ákærði kvað mál þetta hafa hvílt þungt á sér allt frá því að það kom upp og hann hafði margoft rætt það við C vin sinn. Í dag væri hann giftur, ætti barn og [...].

            Brotaþoli kvaðst hafa verið að skemmta sér umrætt kvöld með G vinkonu sinni. Þær hafi farið í [...] og drukkið áfengi. Á skemmtistaðnum [...] hafi hún séð C og einnig rekist á ákærða. Hafi hún talað stuttlega við ákærða þó mest um C. Hafi ákærði hælt henni fyrir klæðaburðinn. Kvaðst hún hafa talið að ákærði væri samkynhneigður. Hún hafi ekki haft nokkurn kynferðislegan áhuga á honum. Þá kvaðst hún hafa haft einhver samskipti við ákærða fyrir þetta og þá þegar hún var með C. Eftir lokun minnir hana að hún hafi tekið leigubifreið að X en man ekki með hverjum. Alltaf hafi staðið til að hitta C. Eitthvað hafi verið drukkið og kvaðst hún hafa verið ölvuð. Nánar spurð kvaðst hún hafa fundið á sér. Aðspurð kvaðst hún hafa séð fíkniefni á staðnum en ekki notað þau eða horft á aðra nota efnin. Hún hafi séð að C var utan í öðrum stelpum og fannst það skrítið því hún hafi haldið að hann væri bara að hitta hana. Man hún ekki hverjir voru þarna en fólk hafi komið og farið. Hún hafi ekki þekkt D en sá að hún og C drógu sig saman. Undir lokin hafi þau verið fjögur saman á staðnum. Hún kvaðst hafa talað við ákærða en þau hafi ekki daðrað eða skipst á kossum. Þau fjögur hafi farið inn í svefnherbergi og lagst upp í rúm til að sofa. Hún hafi legið á milli ákærða og C. Kvaðst hún hafa sofnað svo til strax. Hún hafi ekki gefið sig neitt að ákærða eða kysst hann. Hún hafi rankað við sér og séð höfuð í klofinu á sér. Einhver hafi verið að sleikja á henni kynfærin. Hún hafi ekki séð hver þetta var strax, sparkað frá sér eða spyrnt frá sér með viðbragði fóta og farið fram úr. Hún hafi áttað sig á því að þetta var ákærði og hafi spurt hann hvað hann væri að gera, tínt upp fötin sín af gólfinu og farið fram. Nánar spurð kvað hún aðeins einhverjar sekúndur hafa liðið þar til hún sparkaði. Frá þessum tímapunkti muni hún lítið, hún hafi verið í það miklu uppnámi. Hún mundi ekki hvort hún klæddi sig í eitthvað þar inni eða hve lengi hún var að koma sér út. Taldi hún það samt hafa verið nær strax í kjölfarið. Brotaþoli kvaðst hafa verið klædd í samfellu, sokkabuxur yfir samfelluna og gallastuttbuxur, jakka og skó. Þegar hún vaknaði hafi hún verið ber að neðan og búið að hneppa samfellunni frá. Kvaðst hún ekki gera sér grein fyrir því hve lengi hún hefði sofið en hún svæfi fast eftir að hún hefði smakkað áfengi. Brotaþoli kvaðst hafa farið rakleiðis til C og síðan á klósettið. Hún hafi sagt að hún hafi haldið að þetta hefði verið C því henni hefði ekki komið annað til hugar. Aðspurð kvað hún að viðbrögð sín hefðu orðið þau sömu ef þetta hefði verið hann. Kvaðst hún ekki muna hvort hún ásakaði ákærða um að hafa brotið gegn henni. Brotaþoli kvaðst hafa heyrt ákærða öskra eitthvað og C hafi látið hana fá peninga fyrir leigubifreið. Hún hafi farið út úr leigubifreiðinni á leiðinni og hringt í vinkonur sínar. Hafi hún náð sambandi við I sem hafi hringt í kærasta sinn sem síðan hafi sótt hana og farið með hana á neyðarmóttökuna. Allan tímann hafi hún verið í miklu uppnámi. Brotaþoli kvaðst hafa talið sig finna á líkama sínum að ákærði hefði líka haft samræði við hana og fengið það staðfest á neyðarmóttökunni.

            Spurð um misræmi vegna framburðar um það tímamark sem hún vaknaði kvaðst hún ekki hafa verið í óminnisástandi vegna ölvunar eða í villu um hver hefði verið að verki umrætt sinn. Hún hafi ekki vitað af því þegar ákærði hafði samræði við hana heldur vaknað við munnmökin. Hafi hún átt erfitt með að segja frá munnmökunum. Hún hafi því ekki sagt neinum frá atvikum í smáatriðum heldur forðast það. Brotaþoli lýsti því að mál þetta eitt og sér hefði haft mikil áhrif á hana. Hún hafi átt verulega erfitt og glímt við þunglyndi og sjálfsvígshugsanir. Hún hafi leitað sér sálfræðiaðstoðar með hléum. Fyrstu viðbrögð hennar hafi verið að loka á þetta og vilja alls ekki kæra en síðar hafi hún fundið að hún þyrfti á hjálp að halda. Þegar hún var yngri hafi hún glímt við átröskun og búlimíu en náð tökum á þeim vanda, m.a. með fagaðstoð. Aðspurð kvað hún það rétt vera að unnusti hennar hefði beitt hana ofbeldi og hefði hún rætt það mál við sálfræðing sinn. Það væri hins vegar nokkuð sem þau bæði hefðu unnið úr og hefði það ekki áhrif á líðan hennar í dag.

            Brotaþoli upplýsti fyrir dóminum að fyrir milligöngu aðila, sem hún nefndi með fornafni, hafi kærasti hennar verið beðinn um að bjóða henni verulega fjármuni eftir að gefin var út ákæra í máli þessu. Hann hafi ekki sagt henni frá þessu fyrr en nýverið og taldi hún það ekki skipta máli. Hún hefði því ekki látið lögreglu vita af því. Auk þess hafi hún ekki ætlað að taka við peningunum.

            D kvaðst hafa verið að skemmta sér umrætt kvöld. Hún man ekki hvernig leiðin lá að X en hún man eftir að hafa verið þar með C, ákærða og brotaþola eftir skemmtun í [...]. Kvaðst hún ekki hafa þekkt brotaþola, bara C og ákærða. Þau höfðu öll drukkið áfengi og mögulega líka á X. Vitnið kvaðst ekki getað sagt til um ölvunarástand annarra en í það minnsta hafi það ekki verið þannig að það vekti athygli hennar. Á einverjum tímapunkti hafi þau ætlað að fara að sofa í svefnherbergi í íbúðinni. Hafi brotaþoli legið á milli ákærða og C en vitnið lá við hlið hans. Kvaðst hún ekki hafa tekið eftir neinu á milli ákærða og brotaþola og ekki séð kossa. Hafi henni gengið illa að sofna. Ástæða þess hafi verið að brotaþoli hafi fljótlega byrjað að hrjóta. Hafi hún reynt að sofna en þegar það hafi ekki gengið hafi hún beðið C að koma með sér fram í stofu. Hún hafi ekki tekið eftir því hvort ákærði var vakandi þegar þau fóru út. Eftir einhvern tíma hafi hún viljað komast aftur inn í herbergið því að í stofunni var bjart en ekki eins bjart í herberginu, enda gardínur þar. Taldi hún það hafa verið um hálftíma eftir að þau fóru út. C hafi opnað dyrnar inn í svefnherbergið en bakkað út og sagt eitthvað á þá leið að þau þyrftu að vera í stofunni. Hafi vitnið ekki séð inn en dregið þá ályktun að brotaþoli og ákærði væru að „kela“. Hún hafi lagst fyrir á sófanum og náð að sofna. Vissi hún ekki hve lengi hún hefði sofið þegar hún heyrði læti og hafi brotaþoli þá verið komin fram og í uppnámi. C hafi verið að róa hana en hún hafi ekki vitað út á hvað þetta gekk. Ákærði hafi komið fram reiður og viljað að brotaþoli færi út. Hún kvaðst ekki muna hvort brotaþoli hefði ásakað ákærða um eitthvað eða hvort það hafi verið rætt. Þá man hún ekki hvernig brotaþoli var klædd. Aðspurð kvaðst vitnið ekki muna hvort einhver samdráttur hefði verið með ákærða og brotaþola fyrr um kvöldið. Hún kvaðst fremur hafa skynjað áhuga brotaþola á C og hún hafi sótt í hann. Hafi C og ákærði rætt um að brotaþoli hefði áhuga á C en hún man ekki hvort það var eftir atvikið eða í spjalli þeirra síðar. Hún sjálf kvaðst ekki hafa vitað um forsögu brotaþola og C. Einhverju sinni eftir atvikið kvaðst hún hafa heyrt samtal á milli C og ákærða um að brotaþoli bæri á hann rangar sakir um nauðgun. Þau töluðu ekki mikið um atvikið og staðfesti vitnið að það gæti verið að hún hafi verið beðin um að ræða það ekki. Vitnið kvað kvöldið ekki hafa verið neitt minnisstætt í sjálfu sér en þessi uppákoma hafi verið það og hafi þetta litið út eins og eitthvað hefði gerst.

            C kvaðst hafa farið heim til ákærða ásamt D. Ákærði væri góður vinur hans. Brotaþoli, sem hann hafði átt í kynferðislegu sambandi við á tímabili, hefði hringt í hann og komið líka og minnti hann að hann hefði sótt hana eða komið á móti henni. Hann kvað samskipti sín hafa verið mest við D á X. Samskipti brotaþola og ákærða hafi verið nokkuð náin og minnti hann að hann hefði séð kossa. Aðspurður kvaðst hann ekki muna eftir að hafa hitt brotaþola fyrr um kvöldið en taldi líklegt að hann hefði verið í samskiptum við hana þá. Ákærði kvað engan hafa verið áberandi ölvaðan og fíkniefni hafi ekki verið höfð um hönd. Á tilteknum tímapunkti hafi hann, D, ákærði og brotaþoli lagst upp í rúm í herbergi íbúðarinnar til þess að fara að sofa. Þau hafi verið fullklædd. Aðspurður kvað hann jafn bjart í herberginu og í stofunni og engin gluggatjöld. Hann hafi legið við hlið ákærða og hafi fundið fyrir hreyfingum hans upp við sig. Þegar hann hafi litið við hafi hann séð hægri hönd brotaþola á efri hluta líkama ákærða. Kvaðst hann ekki hafa séð hvort þau voru vakandi. Hann og D hafi fært sig fram og reynt að sofna. Kvað hann það hafa verið gert í því skyni að gefa brotaþola og ákærða næði. Hann kvaðst ekki kannast við það sem vitnið D sagði um hrotur brotaþola og að hún hefði beðið hann að koma fram því hún ætti af þeim sökum erfitt með svefn. Nánar spurður hvort hann myndi þetta ekki eða hvort þetta væri rangt hjá D, kvað hann hvort tveggja vera. Hann myndi atvik ekki á þann hátt sem hún segði. Illa hafi gengið að sofna frammi og hafi þau ákveðið að fara aftur inn í herbergið um 10-25 mínútum síðar. D hafi staðið fyrir aftan hann þegar hann opnaði inn. Hafi hann þá séð ákærða veita brotaþola munnmök og bakkað strax út. Hann hafi aðeins litið inn sekúndubrot og þau farið aftur inn í stofuna. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa séð hvort brotaþoli var vakandi. Hún hafi verið ber að neðan en hann gat ekki sagt til um hvort hún hefði verið í einhverju að ofan. Hún hafi legið á bakinu, hælarnir í rúminu og fætur glenntir og dregnir upp að rassi, eins konar fæðingarstelling, hafi honum fundist sem hún hlyti að vera vakandi auk þess sem hann hafi séð hendur hennar á höfði ákærða. Hafi honum aldrei komið til hugar að þarna ætti eitthvað óeðlilegt sér stað. Hafi honum ekki þótt óeðlilegt að þetta hefði atvikast á þessa leið á milli ákærða og brotaþola vegna samskipta þeirra fyrr um kvöldið. Auk þess hefði hann einfaldlega gefið sér að brotaþoli væri vakandi en ekki öfugt. Um 15-20 mínútum eftir þetta hafi brotaþoli komið í hurðargætt herbergsins. Hún hafi verið í uppnámi, grátandi og hann elt hana á salernið. Hann hafi reynt að hugga hana og staðfesti hann lýsingu sína í skýrslu lögreglu um að hún hafi verið hysterísk, óhuggandi og hann hafi ekki fengið neitt upp úr henni, eins og eitthvað hræðilegt hefði komið fyrir. Þá hafi hún sagt á einhverjum tímapunkti að hún hafi haldið að þetta væri hann. Aðspurður kvaðst hann ekki muna eftir því hvernig hún var klædd eða hvort hún hefði klætt sig í eitthvað eftir að fram kom. Kvaðst vitnið hafa hringt á leigubifreið fyrir hana og beðið með henni eftir honum í einhvern tíma á neðri hæð hússins. Aðspurður kvaðst hann ekki muna eftir samskiptum sínum við ákærða eftir þetta en hann taldi hann hafa verið sofandi. Hann kvaðst ekki muna eftir því að hafa sagt við ákærða að brotaþoli bæri á hann sakir um nauðgun. Kvaðst hann hafa talað við brotaþola næsta dag sem taldi ákærða hafa misnotað ástand hennar. Aðspurður kvaðst hann ekki muna eftir því að hafa rætt samband sitt við brotaþola við ákærða og kannaðist ekki við að þau hefðu umgengist þrjú fyrir þetta atvik.

            G kvaðst vera mjög góð vinkona brotaþola. Þær hefðu verið saman umrætt kvöld, farið í [...] og drukkið áfengi á veitingastað. Síðan hafi förinni verið heitið á [...]. Þar hafi þær verið fram til lokunar en brotaþoli kvaðst ætla heim með C. Vitnið fór þá heim og kvað brotaþola þá ekki hafa verið ofurölvi. Hún hafi vaknað sennilega um hádegisbil og séð þá að brotaþoli hafði hringt í hana margoft um morguninn. Hún hafi hringt til baka og heyrt þá strax að ástand brotaþola var mjög slæmt. Hún hafi sagt sér að hún hefði vaknað með einhvern ofan á sér en meira hafi hún ekki sagt henni þá. Staðfesti vitnið það sem hún sagði í lögregluskýrslu um að brotaþoli hefði opnað augun og séð ákærða en haldið að það hefði verið C. Vitnið kvaðst hafa hitt brotaþola heima hjá vitninu H en þar hafi hún verið í miklu uppnámi, titrandi og ólík sjálfri sér. Augljóst var að henni leið mjög illa. Hún og H hefðu hlúð að henni og í kjölfarið upplýsti hún K um stöðuna. Ástand brotaþola hafi verið slæmt og erfitt að ganga með henni í gegnum þennan feril. Vitnið kvað brotaþola hafa sagt henni nýverið að hún hefði ekki getað sagt nákvæmlega hvað var í gangi en hún hafi vaknað með andlit í klofi sínu. Hafi ákærði verið að sleikja kynfæri hennar Hún hafi ekki getað horfst í augu við það.

            H kvað brotaþola hafa hringt í sig í miklu uppnámi og sagt honum frá því að hún hefði vaknað með aðila ofan á sér. Hún hafi komið til hans einhverju síðar og þá hafi hún verið „í losti“ og geðshræringu. Kvað hann brotaþola ekki hafa rætt við hann um það sem gerðist í smáatriðum.

            I kvaðst vera mjög góð vinkona brotaþola. Hún hafi verið á [...] þegar brotaþoli hringdi í hana. Hún hafi strax heyrt að eitthvað hefði komið fyrir en brotaþoli var í uppnámi og grátandi. Hún hafi sagt henni að sér hefði verið nauðgað en lýsti því ekki nánar. Vitnið kvaðst hafa hringt í J þáverandi kærasta sinn sem hafi sótt brotaþola og ekið henni á neyðarmóttökuna. Vitnið kvaðst hafa rætt við brotaþola um atvikið síðar og hafi hún þá sagt henni að hún hefði verið „næs“ við vin C en hafi seinna vaknað við það að hann var ofan á henni og „fríkaði út“. Hann hafi verið ofan á henni að nauðga henni og hafi hún haldið að þetta væri C. Hún hafi alls ekki haft kynferðislegan áhuga á þessum aðila að eigin sögn.

            J kvaðst hafa sótt brotaþola að beiðni þáverandi kærustu sinnar að morgni [...] 2012 við [...], að giska kl. 8:00-9:00. Hún hafi verið brotin og „einn grátur“. Spurður um ástand hennar kvað vitnið hana alls ekki hafa verið ölvaða. Hann hefði ekið henni strax á neyðarmóttökuna og beðið eftir henni á meðan, u.þ.b. hálftíma eða klukkutíma. Sagði hún honum að henni hefði verið nauðgað og að hún hefði vaknað með aðila ofan á sér.

            K, [...], kvaðst hafa hitt hana eftir að G hringdi í hana. Brotaþoli hafi þá verið í sjokki og ekki trúað því sem hafði gerst. Hún hafi sagt lítið og hafi vitnið fyrst og fremst hugsað um að vera til staðar fyrir hana. Hafi hún ekki gengið á hana en þó reynt að leiðbeina henni eftir bestu getu enda væri hún sálfræðingur að mennt og þekkti einkennin sem hún sá á brotaþola. Kvaðst vitnið starfa á [...] og vera undirmanneskja E sem hafi síðan tekið við málinu. Vitnið kvað brotaþola hafa sagt sér að hún hefði sofnað í heimahúsi og orðið fyrir kynferðisofbeldi. Kannaðist vitnið við að brotaþoli hefði sagt að hún hefði vaknað með ákærða ofan á sér.

            Vitnið kvað þennan atburð vera vendipunkt í lífi brotaþola og hefði haft gríðarleg áhrif á hennar líf. Þetta hefði „blossað upp“ og haft hamlandi áhrif á hana. Hafi hún stundum ekki séð tilgang í því að lifa. Það sem hún hefði glímt við áður í tengslum við átröskun hafi verið nokkuð sem hún hafði yfirstigið.

            L læknir staðfesti læknisvottorð sitt og fór yfir helstu atriði þess. Hann kvaðst hafa rætt við brotaþola og fyllt út vottorðið í samræmi við svör hennar. Hafi hann kynnt henni að sæði hefði fundist í sýni sem tekið var úr leggöngum hennar eftir það. Sjá megi af vottorðinu að brotaþoli hafi lítið munað og sé lýsing hennar á atvikum því takmörkuð. Hann kvað blóðsýni hafa verið tekið en staðfesti að blóðsýnum hafði verið eytt þegar kæra var lögð fram.

            O hjúkrunarfræðingur gerði grein fyrir aðkomu sinni að málinu og fór yfir helstu atriði sem fram koma á móttökuskýrslu neyðarmóttöku sem hún fyllti út við komu brotaþola. Þar komi fram að brotaþoli hafi verið komin kl. [...] og læknir skoðað hana kl. [...]. Þá lýsti hún verklagi við móttöku brotaþola og taldi líklegt að hún hefði tekið sýni og undirbúið skoðun áður en læknirinn kom. Sennilega hafi hún fyllt út sögu brotaþola í vottorði sínu um leið og læknirinn. Varðandi orðið „vímuefnaáhrif“ í framangreindri skýrslu, kvað vitnið litið til þess hvort merkjanleg væru áhrif áfengis eða fíkniefna. Kvaðst hún merkja við dálk um andlegt ástand og legði til grundvallar sitt mat á viðkomandi.

            E, [...], fór yfir aðkomu sína að málinu, efni og inntak vottorða sinna og vinnunnar að baki meðferð brotaþola hjá henni. Hún kvað forðunareinkenni hafa verið sterk hjá brotaþola strax í byrjun og hún hafi ýtt atvikinu frá sér. Hún hafi strax byrjað meðferð vegna sjálfsvígshugsana og fór líðanin batnandi með haustinu. Hún hafi verið hjá F sálfræðingi á árinu 2015 en þá hafi hún staðið frammi fyrir sömu áskorunum og áður og borið á forðunareinkennum. Meðferðin hafi styrkt hana. Á árinu 2017 gerðu kvíðaköst vart við sig hjá brotaþola og tengdist það því er mál hennar var látið niður falla. Hafi meðferðin byrjað að nýju og hún gengið í gegnum ítarlegt greiningarferli. Var hún þá greind með áfallastreituröskun og felmturröskun eða (panic disorder). Vitnið taldi brotaþola enn eiga töluvert inni til að vinna með en hún hefði byggt upp ákveðna getu til þess að takast á við vanlíðan sína og bera kennsl á atriði sem hindra að hún nái að vinna úr því. Nefndi vitnið að brotaþoli hefði glímt við mikinn viðbjóð sem það vakti hjá henni að ákærði hefði sleikt hana og átt við hana munnmök. Einnig hafi hún glímt við skömm. Það væru varnarviðbrögð að lýsa einhverju fjarrænna. Hafi hún bælt þetta niður og ekki getað rætt þetta við neinn. Hún hafi þó sagt vitninu frá munnmökunum strax á árinu 2012 og hafi nú í meðferðarvinnu á þessu ári opnað meira á erfiðar minningar.

            Vitnið gerði frekari grein fyrir meðferðarvinnu og greiningu, sjálfsmatslistum sem notaðir væru við skimun á einkennum áfallastreitu og samspili við greiningarviðtöl hjá sálfræðingi þar sem einkennin væru jafnframt metin.            Aðspurð kvaðst vitnið vera yfirmaður K en hún umgengist hana bara í tengslum við vinnu. Mál brotaþola hafi farið í gegnum hefðbundið ferli innanhúss og lýsti vitnið því frekar. K hefði leitað til hennar á árinu 2017 og spurt hvert hún ætti að vísa brotaþola en vitnið kvaðst hafa tekið hana í meðferð til að tryggja ákveðna samfellu.

            Þá komu fyrir dóminn M lögreglumaður og N en ekki þykir ástæða til að gera grein fyrir framburði þeirra.

 

                                                               III.

Niðurstaða

            Í máli þessu er ágreiningslaust að aðfaranótt [...] 2012 voru ákærði, brotaþoli, C og D að skemmta sér að X, þáverandi dvalarstað ákærða. Allir hlutaðeigandi voru undir áhrifum áfengis eftir skemmtanahald í [...]. Þá er ágreiningslaust að þau fóru saman inn í svefnherbergi ákærða þegar langt var liðið á morgun og lögðust fullklædd til svefns. Svo fór að C og D fóru fram í stofu íbúðarinnar en hugðust fara aftur inn í svefnherbergið einhverju síðar. Þegar C leit þangað inn sá hann ákærða hafa munnmök við brotaþola þar sem hún lá á bakinu í rúminu og fór því strax út. Þá liggur fyrir að nokkru síðar kom brotaþoli úr svefnherberginu, í miklu uppnámi og grátandi.

            Ákærði kannast við að hafa haft kynmök við brotaþola, fyrst munnmök og svo samræði. Kveður hann brotaþola hafi haft frumkvæði að atlotum þeirra á milli í svefnherberginu og eftir að C og D hafi farið þaðan út hafi atlotin haldið áfram og endað með kynmökum. Hafi brotaþoli tekið virkan þátt og bæði hafi þau notið kynmakanna. Eftir að þeim lauk hafi brotaþoli farið fram og eftirmálinn orðið eins og raun bar vitni.

            Brotaþoli ber hins vegar að hún hafi hvorki haft kynferðislegan áhuga á ákærða né sýnt slíkan áhuga í verki. Hún hafi sofnað um leið og hún lagðist í rúmið og hafi ekki vitað af sér fyrr en hún fann að einhver hafði við hana munnmök. Reyndist það vera ákærði.

 

            Hjá því verður ekki litið að langur tími leið frá því að atvik áttu sér stað og þar til rannsókn málsins hófst en kæra var lögð fram í [...] 2015. Þannig voru skýrslur teknar af öllum hlutaðeigandi rúmum þremur árum síðar sem óneitanlega setur mark sitt á framburð þeirra og hefur áhrif á sönnunarmat. Einnig fóru mikilvæg sönnunargögn forgörðum eins og nánar verður vikið að.

            Ákærða og brotaþola ber saman um að þau hafi haft samskipti á skemmtistaðnum [...] í aðdraganda þess sem gerðist að X. Brotaþoli kveðst hafa kannast við ákærða sem vin C en honum hafi verið kunnugt um að hún hefði átt vingott við hann og hafi hrifningu hennar á C borið á góma þetta kvöld. Ákærði kannast hins vegar ekki við það, heldur kveðst hafa heyrt af því síðar. Telst þetta atriði ósannað en framburður vitna varpar ekki ljósi á þetta atriði. Þá verður ekki dregin ályktun um þetta af skilaboðum ákærða til brotaþola á fésbók. Dómurinn telur einnig ósannað að samskipti ákærða og brotaþola að X hafi verið náin áður en gengið var til hvílu, en um það ber vitnum ekki saman.

            Ákærða er gefin að sök nauðgun sem heimfærð er undir 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga. Hann hefur neitað sök og telur skilyrði ákvæðisins ekki uppfyllt. Samkvæmt ákvæðinu telst það nauðgun og varðar sömu refsingu og mælt er fyrir í 1. mgr. 194. gr., að notfæra sér geðsjúkdóm eða aðra andlega fötlun manns til þess að hafa við hana samræði eða önnur kynferðismök, eða þannig er ástatt um hann að öðru leyti að hann getur ekki spornað við verknaðinum eða skilið þýðingu hans. Í máli þessu er það einkum seinni hluti málsgreinarinnar sem kemur til skoðunar.

 

            Niðurstaða blóðprufu brotaþola, um alkóhólmagn og eiturefni, liggur ekki fyrir í málinu en blóðsýnum var fargað að tilteknum tíma liðnum. Brotaþoli kvaðst hafa neytt áfengis og fundið til mikilla áfengisáhrifa. Vitnið G kvað brotaþola hafa verið undir áhrifum áfengis en ekki ofurölvi þegar leiðir þeirra skildi. Vitni sem stödd voru að X veittu ölvunarástandi brotaþola ekki sérstaka athygli. Þá kvað ákærði hann og brotaþola hvorug hafa verið ofurölvi. J sem ók brotaþola á neyðarmóttöku merkti ekki að brotaþoli hefði verið ölvuð en man einkum eftir slæmu andlegu ástandi hennar. Ekki er að finna lýsingu á ölvunarástandi brotaþola í móttökuskýrslu neyðarmóttöku en merkt var „nei“ við vímuefnaáhrif í dálk þar sem er að finna lýsingu á ástandi við komu. Þá segir jafnframt á einum stað að hún hafi drukkið amaretto. Í skýrslu um réttarlæknisfræðilega skoðun kemur aðeins fram að brotaþoli hafi angað af vínlykt. Ekkert í framangreindum gögnum bendir til þess að brotaþoli hafi verið illa áttuð vegna drykkju eða annars ástands.

 

            Samkvæmt framansögðu liggur ekki fyrir sönnun þess að brotaþoli hafi vegna ölvunarástands síns, eins og sér, verið ófær um að sporna við kynmökunum umrætt sinn. Á hinn bóginn liggur fyrir að brotaþoli hafði vakað lengi og byrjaði að drekka kvöldið fyrir atvikið. Af framburði brotaþola, ákærða og vitna verður ekki ráðið með vissu hvort og þá að hvaða marki drykkja hafi haldið áfram að X. Telst það því ósannað. Kemur þá til skoðunar hvernig ástandi brotaþola var háttað að öðru leyti og hvort sannað sé að hún hafi, vegna svefndrunga og þá sumpart vegna undanfarandi drykkju og vöku, ekki getað spornað við kynmökunum.

            Brotaþoli bar að hún hefði sofnað nær strax og hún lagðist til svefns. Ákærði bar um hið gagnstæða og kvað brotaþola hafa verið vakandi allan tímann. Ósannað er að ákærði og brotaþoli hafi, áður en C og D fóru út úr herberginu, látið vel hvort að öðru og kysst, en hvorki C né D vitnaði um að hafa séð slíkt.

            Vitnið D hefur frá upphafi borið að brotaþoli hafi fljótlega sofnað í rúminu og farið að hrjóta. Hafi það haldið fyrir henni vöku og orðið til þess að hún bað C að lokum að koma með sér fram. Þar hafi henni ekki gengið vel að sofna vegna birtu í stofunni. Hér fyrir dómi var vitnið trúverðugt og afdráttarlaust um þetta atriði. Vitnið þekkti brotaþola ekki fyrir og er ekki í vinfengi við hana.

            Vitnið C kannaðist á hinn bóginn ekki við að hafa yfirgefið herbergið af þeim ástæðum er D tiltók. Framburður C um þetta atriði var að mati dómsins óþvingaður og skýr um ástæður þess að hann og D fóru út úr herberginu. Við mat á sönnunargildi framburðarins ber þó að líta til náinna tengsla hans við ákærða, en fram er komið að þeir hafi margoft rætt málið. Hins vegar er ekkert sem bendir sérstaklega til þess að hann og ákærði hafi samræmt framburð.

            Samkvæmt framansögðu fær framburður brotaþola, um að hún hafi sofnað, stoð af trúverðugum framburði D. Framburður ákærða um að brotaþoli hafi vakað allan tímann eftir að í svefnherbergið kom, er í andstöðu við þetta og þykir rýra sönnunargildi framburðar hans. Telur dómurinn að líta verði til þess að þegar hér var komið [...] sögu hafði brotaþoli vakað í tæpan sólarhring og drukkið eitthvað á því tímabili en auk þess fóru fjórmenningarnir inn í svefnherbergið gagngert til þess að sofa.

 

            Engin vitni eru að atburðarásinni í svefnherberginu í heild eftir að C og D fóru þaðan út en á þeim tíma átti meint brot sér stað. Stendur þar orð á móti orði eins og framburður ákærða og brotaþola ber með sér.

            Ekki liggur ljóst fyrir hve langur tími leið þar til C leit inn í svefnherbergið. Nefna C, D og ákærði allt frá tíu mínútum upp í hálftíma. Vegna þess hve langt er um liðið frá atvikum er ekki unnt að byggja á framburði þeirra hvað þetta varðar. Framburður C um að hann hafi séð ákærða hafa munnmök við brotaþola rennir að mati dómsins hvorki stoðum undir framburð ákærða né brotaþola um að munnmökin hafi farið fram með þeim hætti sem þau hafa greint frá, enda leit vitnið aðeins örstutt inn í herbergið.

            Brotaþoli hefur frá upphafi borið að ákærði hafi brotið gegn henni kynferðislega. Ákærði bar um það hjá lögreglu og hér fyrir dómi að brotaþoli hefði borið sakir á hann strax á vettvangi en það hafi verið C sem sagði honum að brotaþoli hefði sagt að hann hefði nauðgað sér. Aðspurð hér fyrir dómi mundu brotaþoli, C og D ekki eftir því hvort ásökun hafi komið fram þá þegar eða síðar. Telst þetta atriði því ósannað.

            Framburður brotaþola um við hvað hún vaknaði hefur ekki verið á einn veg. Vitnið J kvað brotaþola hafa sagt við sig að sér hefði verið nauðgað og að hún hefði vaknað með ákærða ofan á sér. Á neyðarmóttöku er haft eftir henni bæði í móttökuskýrslu og skýrslu um réttarlæknisfræðilega skoðun að hún hafi vaknað við það þegar ákærði hafði samræði við hana og var þá búið að klæða hana úr samfellu. Merkt var „já“ við kynmök/samfarir um leggöng. Þá var merkt við reitinn „veit ekki“ varðandi hvort kynfæri hefðu verið sleikt og það sama gilti um aðrar kynferðisathafnir, að undanskyldum kynmökum um endaþarm og getnaðarlim í munn en þar er merkt „nei“. Þá er haft eftir brotaþola að hún hafi reynt að þurrka sér mikið með pappír en hélt að gerandinn hefði ekki fengið það.

            Brotaþoli greindi vitnunum G, I, H og K, skömmu eftir atvikið, frá því að hún hefði vaknað með ákærða ofan á sér en þá hafði hún fengið staðfestingu á neyðarmóttöku á því að sæði hefði fundist í leggöngum hennar. Í skýrslutöku hjá lögreglu á árinu 2013 og hér fyrir dómi greindi brotaþoli frá því að hún hefði vaknað við það þegar kynfæri hennar voru sleikt. Kvaðst hún enga minningu hafa um að ákærði hefði áður klætt hana úr fatnaði eða haft við hana samræði. Í skýrslutöku hjá lögreglu var hún ekki sérstaklega spurð að því hvort hún hefði verið allsnakin þegar hún vaknaði. Ekki liggur fyrir í málinu að brotaþoli sofi óvenjulega fast en hún hefur greint frá því að hún sofi fast eftir drykkju.

            Brotaþoli hefur skýrt það á trúverðugan hátt hvers vegna hún tók svo til orða að hún hefði haldið að C væri að verki. Er ekkert í framburði ákærða eða vitna sem styður að hún hafi í reynd verið í villu um það hver átti í hlut. Hér fyrir dómi gaf brotaþoli skýringar á því hvers vegna hún hefði ekki treyst sér að segja að hún hefði vaknað við munnmök ákærða og taldi það eiga sér sálrænar orsakir. Þetta staðfesti E sálfræðingur en hún kvað brotaþola hafa greint henni frá því í meðferðarviðtölum á árinu 2012 að ákærði hefði sleikt kynfæri hennar. Að þessu atriði er þó ekki sérstaklega vikið í sálfræðivottorðum en ítrekað tekið fram að forðunareinkenni hafi verið áberandi hjá brotaþola. Hvað sem þessu atriði líður hefur þetta misræmi í framburði brotaþola áhrif við mat á sönnunargildi framburðar hennar þegar leyst er úr því hvort sannað sé að hún hafi verið ófær um að sporna við því sem fram fór vegna svefndrunga.

            Við mat á trúverðugleika framburðar ákærða um atburðarásina eftir framangreint tímamark er til þess að líta að hann hefur verið stöðugur. Lýsti hann kynmökunum ítarlega og kvaðst hafa klætt brotaþola úr með hennar vilja. Hér fyrir dómi hefur hann verið nákvæmur í frásögn sinni, sérstaklega þegar kemur að lýsingu kynmakanna. Eins og áður hefur komið fram telur dómurinn þó frásögn ákærða af því að brotaþoli hafi verið vakandi allan tímann í svefnherberginu rýra sönnunargildi framburðar hans.

 

            Ásetningur er ótvírætt saknæmisskilyrði nauðgunarbrots og er því ekki heimilt að refsa fyrir gáleysisbrot gegn 194. gr. almennra hegningarlaga. Ásetningur þarf að ná til allra efnisþátta eins og brotinu er lýst og orsakasambandsins á milli verknaðaraðferða sem leiða til þvingunar og kynmaka. Þungamiðja brota gegn 2. mgr. 194. gr. er, eins og á við um 1. mgr. ákvæðisins, að samræði eða önnur kynferðismök fari fram gegn vilja þolanda, þ.e. án samþykkis hans þegar hann er í slíku ástandi að hann getur ekki spornað við kynmökunum. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því sem varð að lögum nr. 61/2007 er tekið fram að þegar ákærði neitar sök geti verið mjög erfitt að sanna huglæga afstöðu hans til verknaðarins. Verða dómstólar þá að meta hverju ákærði hafi hlotið að gera sér grein fyrir og tvinnast þá saman sakarmat og sönnunarmat. Mat ákærða á aðstæðum er lagt til grundvallar þannig að ekki er unnt að refsa honum fyrir nauðgun ef hann hafði réttmæta ástæðu til að ætla að þolandi væri samþykkur kynmökunum. Ástæða þess er þá sú að þá er ekki fyrir hendi ásetningur til þess að þvinga þolanda til kynmaka.

            Að mati dómsins var framburður brotaþola og ákærða trúverðugur hér fyrir dómi þegar þau greindu frá atvikum hvort með sínum hætti. Ljóst var að frásögnin tók verulega á þau bæði. Á hinn bóginn eru veigamikil atriði sem hafa áhrif á sönnunargildi framburðar þeirra beggja, svo mjög að varhugavert er að leggja annan framburðinn til grundvallar niðurstöðu án þess að fá styrka stoð af öðrum gögnum málsins.

            Óumdeilt er að brotaþoli var í miklu uppnámi og grátandi þegar hún kom út úr svefnherbergi ákærða. Að mati dómsins styðja viðbrögð brotaþola það að eitthvað hafi gerst sem gekk mjög nærri henni. Að sama skapi styðja viðbrögð ákærða í kjölfarið að honum hafi misboðið ummæli brotaþola, eftir kynmök sem hann kvað hafa verið með vilja beggja. Í fésbókarskilaboðum ákærða til brotaþola sem hann sendi sama dag og atvik áttu sér stað, lýsti hann undrun sinni yfir framkominni ásökun enda hafi hann talið brotaþola njóta þess að vera með honum en hún hafi talið sig njóta ásta með C. Þá sendi hann brotaþola aftur skilaboð [...] 2012 þar sem fram kom að honum hafi virst sem hún nyti þess allan tímann og aldrei grunað að hún væri sofandi eða með óráði. Fyrri skilaboðunum svaraði brotaþoli ekki en þeim seinni svaraði hún á m.a. þann veg að upplifun hans væri greinilega önnur en hennar. Skilaboð þessi, þótt þau séu sett fram einhliða, hafa þó þýðingu við sakarmat en þau þykja fremur benda til þess að ákærði hafi talið brotaþola taka þátt í kynmökum við hann með fúsum og frjálsum vilja.

            Eins og fram hefur komið liggur fyrir framburður vitna og gögn frá neyðarmóttöku sem staðfesta að brotaþoli var í miklu uppnámi í kjölfar meints brots og eftir það. Hefur hún glímt við andlega erfiðleika í kjölfar atviksins eins og ítarlega er gerð grein fyrir í sálfræðivottorðum E. Strax á árinu 2012 var brotaþoli greind með áfallastreituröskun og er það óbreytt í dag. Er ekkert fram komið í málinu sem þykir draga úr sönnunargildi þessara vottorða sálfræðingsins og gildir hér einu þó að brotaþoli hafi glímt við annars konar erfiðleika bæði fyrir og eftir brotið. Sálfræðigögnin styðja að sú lífsreynsla sem brotaþoli varð fyrir hafi haft fyrrgreind áhrif og renna því stoðum undir framburð hennar að nokkru. Hins vegar eru þau ekki sönnun þess að atvik hafi verið með þeim hætti sem greinir í ákæru.

 

            Eins og rakið hefur verið er ljóst að svo er ástatt að þau gögn sem fyrir hendi eru bæta ekki úr sönnunarstöðu þessa máls um þau atvik og aðstæður sem ákærða og brotaþola greinir á um. Samkvæmt 108. gr. laga nr. 88/2008 hvílir sönnun um sekt ákærða og atvik, sem telja má honum í óhag, á ákæruvaldinu. Samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laganna metur dómari hverju sinni hvort nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sé fram komin um hvert það atriði er varðar sekt og ákvörðun viðurlaga við broti, þar á meðal hvaða sönnunargildi skýrslur ákærða hafi, vitnisburður, mats- og skoðunargerðir, skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins metur dómari það enn fremur hvert sönnunargildi þær staðhæfingar hafa sem varða ekki beinlínis það atriði sem sanna skal en ályktanir má leiða af um það.

            Áður er komist að þeirri niðurstöðu að ósannað sé að brotaþoli hafi vegna ölvunarástands síns verið ófær um að sporna við kynmökunum umrætt sinn. Þegar litið er til þess sem að framan er rakið og þegar gögn málsins eru virt í heild telur dómurinn auk þess ekki sannað svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa að atvik hafi, vegna svefndrunga brotaþola, verið með þeim hætti sem í ákæru greinir eða að saknæmiskilyrði séu uppfyllt. Ber því með vísan til framangreindra ákvæða laga nr. 88/2009 að sýkna ákærða af sakargiftum.

 

            Samkvæmt 2. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008 verður einkaréttarkröfu brotaþola vísað frá dómi.

            Eftir þessum úrslitum skal allur sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarþóknun tilnefnds verjanda á rannsóknarstigi, málsvarnarlaun laun skipaðs verjanda ákærða og þóknun réttargæslumanns brotaþola, greiddur úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008, eins og nánar greinir í dómsorði. Við ákvörðun sakarkostnaðar er málið virt í heild og tekið mið af meðferð þess á rannsóknarstigi og í tengslum við kæru á stjórnsýslustigi og umfangi að öðru leyti. 

            Verjandi ákærða lagði fram tímaskýrslu við aðalmeðferð málsins vegna vinnu sinnar og vinnu tilnefnds verjanda á rannsóknarstigi, sem er samstarfsmaður hans. Í því fyrirkomulagi fólst ákveðið hagræði, t.d. við öflun gagna, en þó tvíverknaður varðandi ákveðna þætti og er til þess litið við ákvörðun málsvarnarlauna. Verjandi ákærða skilaði ítarlegri greinargerð sem talsverð vinna fór í samkvæmt tímaskráningu. Á fyrri stigum í tengslum við framkomna kæru á niðurfellingu málsins hjá héraðssaksóknara sendi tilnefndur verjandi ríkissaksóknara ítarlegar athugasemdir. Þá sendi skipaður verjandi héraðssaksóknara ítarlega beiðni um viðbótarrannsókn eftir að ákvörðun ríkissaksóknara um útgáfu ákæru lá fyrir. Ljóst má vera að vinna á fyrri stigum málsins hefur nýst að einhverju leyti, m.a. við greinargerðarskrif og undirbúning aðalmeðferðar. Til þess er litið við ákvörðun málsvarnarlauna. 

 

            Dóminn kveða upp héraðsdómararnir Sigríður Hjaltested, Sigríður Elsa Kjartansdóttir og Ásmundur Helgason.

 

D ó m s o r ð :

            Ákærði, A, er sýkn af kröfum ákæruvaldsins.

            Allur sakarkostnaður málsins, þ.m.t. málsvarnarþóknun tilnefnds verjanda ákærða á rannsóknarstigi, Almars Möller hdl., 1.275.000 krónur, málsvarnarlaun skipaðs verjanda, Gests Jónssonar hrl., 1.062.500, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hrl., 956.250 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

            Einkaréttarkröfu B er vísað frá dómi.

 

                                                            Sigríður Hjaltested (sign.)

                                                            Ásmundur Helgason (sign.)

                                                            Sigríður Elsa Kjartansdóttir (sign.)