Ú R S K U R Ð U R
Héraðsdóms Reykjavíkur 28. janúar 2014 í máli nr. E-332/2013:
A
(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)
gegn
Ríkislögreglustjóranum,
lögreglustjóranum á [...] og
íslenska ríkinu
(Soffía Jónsdóttir hrl.)
Mál þetta, sem þingfest var 24. janúar 2013, var höfðað sama dag af hálfu A á hendur ríkislögreglustjóra, lögreglustjóranum á [...] og íslenska ríkinu.
Við undirbúning aðalmeðferðar málsins, sem fram átti að fara 28. ágúst sl., kom upp ágreiningur um atriði varðandi skýrslugjöf aðila og vitna fyrir dóminum, sem úrskurðað var um 5. september 2013. Aðalmeðferð málsins var þá frestað og fór hún fram 20. janúar sl. Þá komu fram ný gögn sem gáfu dómara tilefni til að taka til skoðunar hvort vísa bæri málinu frá dómi með úrskurði án kröfu. Sú athugun leiðir til þess að í stað dóms verður í málinu kveðinn upp úrskurður í samræmi við 2. ml. 4. mgr. 112. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991.
Dómkröfur stefnanda í stefnu eru þær að þess er krafist að réttur stefnanda samkvæmt stjórnvaldsákvörðun ríkislögreglustjóra, dags. 4. desember 2012, til þess að taka á nýjan leik við embætti lögreglumanns við embætti lögreglustjórans á [...], verði viðurkenndur með dómi. Þá er þess krafist að stefndu verði dæmdir til greiðslu málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi að viðbættum 25,5% virðisaukaskatti.
Við aðalmeðferð málsins lagði lögmaður stefnanda fram breytta kröfugerð og eru endanlegar dómkröfur stefnanda þær að þess er krafist að réttur stefnanda samkvæmt stjórnvaldsákvörðun ríkislögreglustjóra, dags. 4. desember 2012, til þess að taka á nýjan leik við embætti lögreglumanns við embætti lögreglustjórans á [...], með starfsstigið varðstjóri, verði viðurkenndur með dómi. Þá er þess krafist að stefndu verði dæmdir til greiðslu málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi að viðbættum 25,5% virðisaukaskatti.
Dómkröfur stefndu eru þær að stefndu krefjast sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefndu málskostnað að mati dómsins.
Tildrög málsins eru þau að stefnanda, sem ákærður hafði verið fyrir [...], var veitt lausn frá embætti sínu, sem varðstjóri við embætti lögreglustjórans á [...], um stundarsakir í október 2010. Stefnanda var veitt lausn frá störfum að fullu í júní 2012, eftir sakfellingu hans í héraðsdómi ..., en sýknudómi sama dómstóls í sakamálinu hafði Hæstiréttur áður heimvísað. Seinni dóminum var einnig áfrýjað og var stefnandi loks sýknaður með dómi Hæstaréttar 29. nóvember 2012. Með bréfi frá embætti ríkislögreglustjóra 4. desember 2012 var stefnanda boðið að taka aftur við starfi lögreglumanns við embætti lögreglustjórans á [...]. Það var afstaða starfsmannaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins að engin lagaheimild stæði til þess að bjóða embættismanni aftur embætti sem honum hafi verið vikið úr að fullu og því væri lögreglustjóranum rétt að hafna því að stefnandi kæmi aftur til starfa.
Stefnandi höfðaði mál þetta til viðurkenningar á rétti sínum til að taka á ný við embætti lögreglumanns við embætti lögreglustjórans á [...].
Í þinghaldi til undirbúnings aðalmeðferðar málsins 10. janúar sl. upplýsti lögmaður stefndu að gefið hefði verið út skipunarbréf til stefnanda 1. nóvember sl., sem lagt yrði fram við aðalmeðferð málsins. Stefnandi hafi þar verið skipaður lögreglumaður eins og krafist sé viðurkenningar á rétti hans til í stefnu. Lögmaður stefnanda boðaði þá breytta kröfugerð í málinu af hálfu stefnanda, sem hann lagði svo fram við aðalmeðferð málsins. Lögmaður stefndu mótmælti í þinghaldinu 10. janúar sl. boðaðri breyttri kröfugerð stefnanda sem of seint fram kominni. Lögmaðurinn ítrekaði mótmæli sín við aðalmeðferð málsins og minnti á ábendingu í greinargerð sinni um frávísun málsins án kröfu. Stefnandi hélt fast við kröfu sína um viðurkenningardóm. Við þá kröfu sem gerð er í stefnu málsins, um viðurkenningu á rétti stefnanda til að taka við embætti lögreglumanns við embætti lögreglustjórans á [...], er í nýrri kröfugerð bætt áskilnaði um að hann hafi starfsstigið varðstjóri.
Niðurstaða
Samkvæmt 1. mgr. 111. gr. laga um meðferð einkamála í héraði, nr. 91/1991, skal kröfu, sem ekki kemur fram í stefnu, vísað frá dómi, nema stefndi hafi samþykkt að hún kæmist að án þess. Sama er um hækkun á kröfu eða aðrar breytingar stefnda í óhag. Fyrir liggur að stefndu hafa ekki samþykkt þá breytingu á kröfugerð stefnanda sem lögð var fram við aðalmeðferð málsins. Þá er ljóst að aukið er við kröfugerðina þar sem ný krafa er um viðurkenningu á rétti til starfs í hærra starfsstigi en gerð var krafa um í stefnu málsins. Ber því, þegar af þeirri ástæðu, að vísa hinni endanlegu kröfugerð stefnanda frá dómi og leggja til grundvallar við úrlausn málsins þá kröfugerð hans sem fram kemur í stefnu.
Framsetning kröfugerðar stefnanda í stefnu er með þeim hætti að þar er í fyrsta lagi sett fram krafan um viðurkenningu á rétti stefnanda til að taka á nýjan leik við embætti lögreglumanns við embætti lögreglustjórans á [...], sbr. d-lið 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála, þar sem meðal annars kemur fram að til dómkrafna stefnanda geti talist krafa um viðurkenningu á tilteknum réttindum. Í öðru lagi er í stefnukröfunni tilgreind málsástæða sem stefnandi byggir viðurkenningarkröfu sína á, sem felst í stjórnvaldsákvörðun ríkislögreglustjóra frá 4. desember 2012. Málsástæður skal í stefnu greina svo glöggt sem verða má, sbr. e-lið 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála, en málsástæður eiga ekki heima í dómkröfum og geta ekki staðið sjálfstætt í dómsorði. Eins og krafan er fram sett er blandað saman málsástæðu og dómkröfu og fullnægir dómkrafan því ekki skilyrðum d-liðar 80. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991.
Málsókn stefnanda byggist á 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála, sem heimilar sóknaraðila, sem hefur lögvarða hagsmuni af því að skorið sé úr um tilvist eða efni réttinda eða réttarsambands, að leita viðurkenningardóms um kröfur sínar í þeim efnum.
Með skipunarbréfi ríkislögreglustjóra, sem lagt var fram við aðalmeðferð málsins, er stefnandi skipaður til að vera lögreglumaður við embætti lögreglustjórans á [...] og gildir skipunin í fimm ár frá 1. nóvember 2013. Upplýsti stefnandi sjálfur fyrir dóminum að hann hefði þegar hafið störf sem lögreglumaður við embætti lögreglustjórans á [...]. Þar sem stefnandi hefur nú verið skipaður í þá stöðu, sem hann krefst með málsókninni viðurkenningar á rétti sínum til að vera skipaður í, telur dómurinn að hann hafi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr þessari viðurkenningarkröfu með dómi. Þar sem það er nauðsynlegt skilyrði 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála, að stefnandi hafi af því lögvarða hagsmuni að fá dóm um viðurkenningarkröfu sína, og þeir hagsmunir stefnanda eru ekki lengur fyrir hendi, verður, eins og hér stendur á, að vísa málinu frá dómi.
Með vísan til alls framanritaðs verður málinu í heild sinni vísað frá dómi án kröfu.
Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.
Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Máli þessu er vísað frá dómi án kröfu.
Málskostnaður fellur niður.
Kristrún Kristinsdóttir