- Lykilorð:
- Kynferðisbrot
- Nauðgun
D Ó M
U R
Héraðsdóms Reykjavíkur 28.
mars 2019 í máli nr. S-3/2019:
Ákæruvaldið
(Katrín Hilmarsdóttir saksóknarfulltrúi)
gegn
X
(Jón Egilsson lögmaður)
Mál þetta, sem dómtekið var 7. mars sl., er höfðað með ákæru útgefinni af héraðssaksóknara 4. janúar 2019 á hendur X, fyrir nauðgun, með því að hafa að næturlagi í ágústmánuði árið 2015, án samþykkis haft samræði við A, á þáverandi sameiginlegu heimili þeirra að ... Reykjavík, með því að beita A ofbeldi og ólögmætri nauðung, en ákærði fór upp í rúm til hennar, reif utan af henni náttföt og nærföt, og eftir mikil átök milli þeirra náði ákærði að yfirbuga hana og hafa við hana samræði.
Er þetta talið varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Af hálfu brotaþola er þess krafist að ákærði greiði henni 8.000.000 króna ásamt vöxtum af fjárhæðinni skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 11. september 2015 en síðan með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags. Þá er þess krafist að ákærða verði gert að greiða brotaþola málskostnað að skaðlausu.
Ákærði neitar sök. Verjandi ákærða krefst
aðallega sýknu en til vara vægustu refsingar er lög leyfa. Þá krefst hann þess
að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi, til vara sýknu af henni og þrautavara
lækkunar bótakröfu. Loks krefst hann þess að sakarkostnaður, þ.m.t.
málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.
Miðvikudaginn 30.
september 2015 mætti brotaþoli á lögreglustöð til að leggja fram kæru á hendur
ákærða fyrir kynferðisbrot. Við það tækifæri var tekin skýrsla af brotaþola.
Greindi brotaþoli m.a. frá því að í ágúst 2015 hefði ákærði að næturlagi ruðst
inn í herbergi hennar á heimili brotaþola og rifið föt utan af henni. Hafi
ákærði því næst þvingað brotaþola til kynferðismaka. Sonur brotaþola hafi verið
í næsta herbergi og orðið var við atvikið. Við skýrslugjöfina greindi brotaþoli
nánar frá þessu atviki, sem og þrem öðrum tilvikum þar sem brotaþoli bar að
ákærði hefði nauðgað henni sumarið 2015.
Á meðal gagna málsins
er vottorð sem sálfræðingur hefur ritað 15. maí 2017 á vegum Áfallateymis
Landspítala háskólasjúkrahúss vegna brotaþola. Fram kemur að brotaþola hafi
verið vísað í áfallahjálp hjá áfallamiðstöðinni af hjúkrunarfræðingi á
Bráðamóttöku Landspítala háskólasjúkrahúss 5. september 2015. Hafi brotaþoli
leitað þangað vegna ætlaðrar líkamsárásar þann sama dag. Hafi sálfræðingurinn
hitt brotaþola tvisvar í framhaldinu. Afleiðingar líkamsárásarinnar hafi verið
metnar og fylgst með andlegu ástandi brotaþola. Hafi brotaþola verið veitt
áfallahjálp og sálrænn stuðningur. Eins hafi verið metin þörf fyrir
sálfræðilega meðferð og veitt eftirfylgni. Í vottorðinu kemur fram að brotaþoli
hafi greint frá öðrum líkamsárásum og kynferðisofbeldi af hálfu ákærða þau tvö
ár sem þau hafi verið saman á árunum 2013 til 2015. Ekki hafi gefist tækifæri
til að meta áhrif þeirra áfalla á daglegt líf brotaþola.
Á meðal gagna málsins
eru dagálar Þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða frá árinu 2015. Í dagál frá
25. júní 2015 kemur fram að ráðgjafi hafi farið með brotaþola í Kvennaathvarfið
til að fá ráðgjöf vegna sambýlismanns. Samkvæmt dagál frá 14. ágúst 2015 kom
brotaþoli í viðtal. Hafi hún greint frá því að frá því síðast hafi einu sinni
komið til líkamlegra átaka á milli hennar og sambýlismanns. Hafi
sambýlismaðurinn hrint brotaþola og rifið harkalega í hár hennar. Hafi hann í
tvígang nauðgað brotaþola. Hafi brotþoli verið hvött til að leita í
Kvennaathvarfið og hafa samband við lögreglu þegar til átaka kæmi. Samkvæmt
dagál 27. ágúst 2015 hafi brotaþoli komið í viðtal þann dag. Hafi hún greint
frá því að aðstæður væru óbreyttar. Frá síðasta viðtali hafi ákærði nauðgað
brotaþola og hafi sonur brotaþola heyrt það sem fram fór. Brotaþoli hafi ekki
leitað til Kvennaathvarfsins. Hafi ráðgjafi ítrekað mikilvægi þess að brotaþoli
leitaði til lögreglu þegar sambýlismaðurinn bryti gegn henni. Hafi brotaþoli
verið hvött til að kæra ítrekaðar nauðganir. Hafi brotaþoli lýst því að hún
væri tilbúin til að leggja fram kæru en þegar ráðgjafi hafi haft samband við
rannsóknarlögreglumann hafi brotaþoli dregið kæru til baka þar sem hún hafi
óttast viðbrögð ákærða. Í dagál 1. september 2015 kemur fram að brotaþoli hafi
sagt að ákærði væri líklegast að flytja út, en hún hafi beðið hann um að fara.
Hafi ákærði sagt að hann ætlaði að skrifa bifreið á brotaþola og væri hann
fluttur úr svefnherbergi þeirra. Samkvæmt yfirliti Þjónustumiðstöðvarinnar 3.
september 2015 kemur fram að brotaþoli hafi komið í afgreiðslu Þjónustumiðstöðarinnar
og skilið eftir bréf þar sem fram hafi komið að til harkalegra átaka hafi komið
milli hennar og ákærða fyrr um daginn, en ákærði hafi lagt á hana hendur og
sagt að hann ætlaði ekki úr íbúðinni.
Félagsráðgjafi hjá
Bjarkarhlíð, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis, hefur 26. febrúar 2019 ritað
staðfestingu vegna brotaþola. Fram kemur að brotaþoli hafi komið í sitt fyrsta
viðtal 23. október 2017. Frá þeim tíma hafi brotaþoli einnig komið reglulega í
opið hús hjá pólskum konum í Bjarkarhlíð. Það verkefni hafi haft þann tilgang
að veita konum frá Póllandi stuðning sem sætt hafi ofbeldi. Hafi brotaþoli lýst
alvarlegu heimilisofbeldi í sambandi sínu við ákærða. Hafi hún lýst endurteknu
líkamlegu ofbeldi og andlegu ofbeldi þar sem nauðgun hafi verið hluti af
ofbeldinu. Hafi brotaþoli verið með sterk einkenni áfallastreituröskunar þar
sem hún hafi óttast um líf sitt við árásir mannsins. Hafi hún átt erfitt með að
tala um ofbeldið og komist í mikið tilfinningalegt uppnám. Hafi þetta haft í
för með sér mikla vanlíðan sem brotaþoli hafi átt erfitt með að ráða við en
einnig hafi hún átt við mikinn svefnvanda að etja. Væri það mat félagsráðgjafa
að ætlað ofbeldi hafi haft verulega alvarlegar afleiðingar fyrir brotaþola þar
sem trú hennar á heiminn sem öruggs staðar hafi verið kippt undan henni og
eftir staðið ótti, öryggisleysi og reiði í garð ákærða.
Með bréfi 30. maí 2016
tilkynnti lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu ákærða og brotaþola að ekki þætti
lengur grundvöllur fyrir frekari rannsókn varðandi kæru brotaþola á hendur
ákærða, en fyrir lá kæra brotaþola um nauðgun af hálfu ákærða í fjögur skipti á
árinu 2015. Með bréfi 7. júlí 2016 tilkynnti lögreglustjóri ríkissaksóknara að
gögn frá Félagsþjónustu Reykjavíkur hefði ekki verið inni í rannsókn málsins en
í viðtölum þar hafi brotaþoli í viðtölum lýst því að ákærði hafi nauðgað henni.
Þessi gögn hafi ekki legið fyrir við ákvörðun um að hætta rannsókn málsins. Í
ljósi þessara gagna væri tilefni til að halda rannsókn málsins áfram. Brotaþoli
kærði 14. júní 2016 greinda ákvörðun lögreglustjóra um að hætta rannsókn
málsins. Með ákvörðun 7. september 2016 var sú ákvörðun felld úr gildi og lagt
fyrir lögreglustjóra að halda rannsókn málsins áfram. Með bréfi
héraðssaksóknara 18. september 2018 var ákærða og brotaþola tilkynnt um
niðurfellingu á rannsókn málsins. Af hálfu brotaþola var sú ákvörðun kærð til
ríkissaksóknara, sem með ákvörðun 17. desember 2018 lagði fyrir
héraðssaksóknara að gefa út ákæru á hendur ákærða fyrir að hafa nauðgað
brotaþola í ágúst 2015 á þáverandi sameiginlegu heimili þeirra í Reykjavík.
Staðfest var niðurstaða héraðssaksóknara um að fella niður aðra þætti
málsins.
Ákærði gaf skýrslu
vegna málsins hjá lögreglu 25. nóvember 2015. Þá gaf hann skýrslu við
aðalmeðferð málsins fyrir dómi. Ákærði hefur greint svo frá að hann og
brotaþoli hafi kynnst á árinu 2013 á meðan þau hafi búið í Póllandi. Þau hafi
tekið upp sambúð ytra. Í mars 2014 hafi þau flutt saman til Íslands. Ákærði
hafi farið á undan ásamt syni sínum og hans kærustu. Brotaþoli og sonur hennar
hafi komið saman til landsins í kjölfarið. Brotaþoli hafi verið í mánuð en þá
farið aftur til Póllands. Hún hafi komið alkomin í júlí á því ári. Ákærði og
brotaþoli hafi búið saman ... í Reykjavík. Ákærði kvað brotaþola hafa borið upp
á hann að hann hefði nauðgað brotaþola sumarið 2015 á ... . Það væri alfarið
rangt. Þau hafi búið saman á ... og ekkert slíkt átt sér stað. Mánuðina apríl
2015 og fram eftir sumri hafi ákærði verið í tvöfaldri vinnu. Hafi hann unnið
að nóttu til og komið heim um það leyti sem brotaþoli hafi farið til vinnu.
Hafi þau því ekki sofið saman þetta sumar. Þau hafi glímt við peningavandamál
og brotaþoli sífellt viljað meiri peninga frá ákærða. Samskipti þeirra hafi
versnað í júní 2015 vegna þessa. Hafi ákærði þá farið að sofa í stofu í
íbúðinni en brotaþoli hafi sofið inni í svefnherbergi. Þau hafi síðan slitið
sambúðinni í september þetta sama ár. Á meðan þau hafi stundað kynlíf í
sambúðinni hafi allt gengið vel og ekkert ofbeldi átt sér stað. Ákærði gaf
skýrslu hjá lögreglu miðvikudaginn 25. nóvember 2015. Ákærði var spurður að því
hvort hann og brotaþoli hefðu stundað reglulega kynlíf frá maí til september
2015. Ákærði svaraði því til að ákærði og brotaþoli hefðu elskast eðlilega og
lifað eðlilega. Fyrir dómi lýsti ákærði því að ákærði hefði ekki rifið utan af
brotaþola náttföt og nærföt, svo sem honum væri gefið að sök. Þá hafi hann
aldrei veitt brotaþola áverka á kynfærum. Sem fyrr greinir hafi ákærði og
brotaþoli farið að rífast í ágúst 2015. Hafi brotaþoli þá farið til lögreglu og
kært ákærða fyrir nauðgun. Í september þetta sama ár hafi brotaþoli fengið sett
nálgunarbann á ákærða. Hafi ákærði og brotaþoli rifist 1. september 2015 vegna
bifreiðar er ákærði hafi átt. Hafi þá komið til líkamlegra átaka á milli þeirra.
Ákærði hafi í kjölfarið flutt inn á heimili sonar síns. Brotaþoli hafi hringt í
ákærða skömmu síðar og viljað fá hann aftur inn á heimilið. Ákærði hafi flutt
aftur inn en vandamál tengd peningum strax komið upp aftur. Eftir fjóra daga
hafi ákærði farið aftur út af heimilinu. Hafi brotaþoli verið reið yfir því að
ákærði flutti á brott. Ákærði kvað samband sitt og sonar brotaþola hafa verið
fínt á meðan ákærði var í sambúð með brotaþola. Hafi ákærði viljað ganga
drengnum í föðurstað. Ákærði kvað brotaþola aldrei hafa borið upp á sig að hafa
nauðgað brotaþola. Hafi ákærði ekki staðið frammi fyrir því fyrr en honum hafi
verið kynnt það er hann hafi verið boðaður í skýrslugjöf hjá lögreglu. Ákærði
kvaðst ekki vera í neinum samskiptum við brotaþola í dag.
Brotaþoli lýsti
atvikum þannig fyrir dóminum að hún hafi kynnst ákærða í júní 2013 er þau hafi
átt heima í Póllandi. Brotaþoli hafi þá nýlega verið búin að missa móður sína.
Hafi ákærði verið góður við brotaþola og verið eins konar öxl til að gráta á.
Þau hafi síðan flutt saman til Íslands. Eftir að til Íslands kom hafi margt
gerst. Hafi ákærði ítrekað nauðgað brotaþola, en því hafi hann áður verið búinn
að hóta. Fyrir dómi var brotaþoli treg til að lýsa atvikinu sem mál þetta snýst
um. Væri henni mjög þungbært að rifja atvikið upp. Eftir nokkurn eftirgang
lýsti brotaþoli því aðspurð að ákærði hefði nauðgað henni í ágúst 2015 að ... í
Reykjavík. Umrædda nótt hafi sonur brotaþola verið í næsta herbergi og heyrt
það sem fram fór. Á þessum tíma hafi brotaþoli verið búin að vísa ákærða út úr
svefnherberginu og hafi hann sofið frammi í stofu. Brotaþoli hafi verið sofandi
seint að nóttu til er ákærði hafi komið inn í svefnherbergið til hennar.
Brotaþoli hafi vaknað og orðið hrædd. Hafi hún sagt ákærða að fara út úr
herberginu. Hann hafi ekki gert það. Hafi ákærði viljað liggja uppi í rúmi hjá
brotaþola. Hafi brotaþoli sett sæng yfir sig. Hafi hún öskrað og sagt ákærða að
láta sig vera og að hann ætti að fara. Ákærði hafi lagst ofan á brotaþola og
með valdi rifið náttföt og nærföt utan af henni. Hann hafi með valdi stungið
getnaðarlim sínum inn í leggöng brotaþola. Ákærði og brotaþoli hafi verið í
líkamlegum átökum á meðan, en brotaþoli hafi barist um til að komast undan
ákærða. Ákærði hafi verið sterkur og fest hendur og fætur brotaþola undir
ákærða. Brotaþoli væri ekki viss um hve lengi atlagan hefði staðið en á endanum
hafi ákærði staðið upp, farið út úr herberginu og fram í stofu. Átökin á milli
ákærða og brotaþola hafi tekið langan tíma. Hafi brotaþoli hrópað á hjálp. Til
að ekki heyrðist í brotaþola hafi ákærði sett púða yfir andlit hennar.
Brotaþoli kvaðst hafa fengið áverka við árásina. Hafi hún farið í sturtu, en
blætt hafi úr brotaþola. Hafi blóðið komið úr leggöngum hennar. Brotaþoli
kvaðst hafa sagt syni sínum og vinkonu frá þessu atviki. Hafi það verið stuttu
eftir þetta atvik, á meðan ákærði hafi enn búið á ... . Brotaþoli kvaðst hafa
leitað á slysadeild 5. september 2015 í kjölfar líkamsárásar af hálfu ákærða
skömmu áður. Ekki myndi brotaþoli hvort hún hefði á þeim tíma lýst
kynferðisbrotinu fyrr þetta sumar. Allt hafi á þeim tíma snúist um
líkamsárásina. Í ágúst 2015 hafi brotaþoli unnið á hóteli í Reykjavík. Hafi
brotaþoli sagt samstarfskonu sinni á hótelinu frá brotum ákærða. Hafi brotaþoli
sagt samstarfskonu sinni frá því að brotaþoli hafi ekki viljað fara heim til
sín að ... fyrr en ákærði væri sofnaður. Hafi hún fram að því gengið um bæinn.
Föstudaginn 9.
desember 2016 var tekin skýrsla af syni brotaþola í Barnahúsi, á grundvelli 1.
mgr. c-liðar 59. gr. laga nr. 88/2008. Var vitnið þá 12 ára að aldri. Vitnið
lýsti því að ákærði og brotaþoli hefðu rifist mikið á heimilinu. Varla nokkur
dagur hafi liðið án rifrildis. Hafi ákærði öskrað mikið og notað ljót orð
gagnvart brotaþola. Hafi vitnið einu sinni heyrt er ákærði hafi nauðgað
brotaþola en brotaþoli hafi sagt það hafa gerst oftar. Ákærði hafi farið úr
íbúðinni í september til október 2015. Það brot sem vitnið hafi orðið áskynja
um hafi verið mánuði eða tveim áður. Umrætt sinn hafi vitnið verið inni í
herberginu sínu. Hafi brotaþoli verið sofandi inni í hinu svefnherberginu, en
það herbergi hafi verið við hliðina á herbergi vitnisins. Hafi vitnið heyrt
brotaþola segja ákærða að hætta, að þessu lyki ekki svona og að hún ætlaði til
lögreglu og að ákærði færi í fangelsi. Hann kæmist ekki upp með þetta. Þessi
orðaskipti hafi vitnið heyrt. Þá hafi ákærði hætt og vitnið ekkert meira heyrt
úr herberginu. Þessi atburðarás hafi staðið í tuttugu mínútur til hálftíma.
Ákærði hafi sennilega farið í kjölfarið. Af hljóðum að dæma úr herberginu hafi
vitnið talið líklegt að ákærði væri að nauðga brotaþola. Hafi hann ráðið það af
rödd ákærða og brotaþola. Vitnið hafi rætt þessa hluti við brotaþola næsta dag.
Hafi brotaþoli þá sagt að ákærði hefði nauðgað henni. Hafi brotaþoli ekki mikið
vilja ræða það af ótta við að ákærði myndi heyra. Ákærði hafi þá verið inni í
stofu.
Vitnið B kvaðst hafa
kynnst brotaþola hér á landi og þær orðið vinkonur. Hafi brotaþoli sagt vitninu
frá því að ákærði hafi í ágúst 2015 nauðgað henni. Hafi tekið á brotaþola að
lýsa þessu. Hafi brotaþoli lýst nokkrum tilvikum þar sem ákærði hafi nauðgað
brotaþola. Frá þessu hafi brotaþoli sagt eftir líkamsárás, sem brotaþoli hafi
orðið fyrir af hálfu ákærða í byrjun september 2015. Brotaþoli hafi lýst því að
í einu tilviki er ákærði hafi nauðgað brotaþola hafi sonur brotaþola verið í
næsta herbergi. Á þeim tíma hafi vitnið og brotaþoli umgengist hvor aðra mikið.
Hafi vitnið hvatt brotaþola til að leita til lögreglu með sín mál.
Vitnið C kvaðst hafa
flutt til landsins á árinu 2013. Hafi vitnið og brotaþoli byrjað að vinna saman
á árinu 2014. Hafi brotaþoli á sínum tíma sagt vitninu frá því að ákærði hafi
nauðgað sér. Hafi atvikið gerst á heimili ákærða og brotaþola. Hafi staðan
verið erfið á heimili brotaþola. Hafi brotaþoli sagt að hún ætlaði að kæra
ákærða fyrir nauðgun. Vitnið lýsti því að hún myndi atvik ekki vel í dag, en
hún hefði munað þau mun betur er hún gaf skýrslu hjá lögreglu. Í skýrslu
vitnisins hjá lögreglu er greint frá því að brotaþoli hafi oft komið
taugaveikluð í vinnuna. Hafi brotaþoli sýnt vitninu marbletti sem hún hafi sagt
vera eftir átök við ákærða. Hafi brotaþoli oft verið hágrátandi. Hafi brotaþoli
sagt að ákærði hafi þvingað nánd við hana. Hafi brotaþoli oft hringt í vitnið
og sagt að ákærði hafi þvingað nánd við hana. Hafi hún sagt hann hafa hótað sér
og sagt að þetta væri skylda hennar. Hún ætti að vera heima og sofa hjá ákærða
óháð því hvort hún vildi það eða ekki. Einu sinni hafi brotaþoli hringt og sagt
að hún væri búin að gráta í hálfa klukkustund. Hafi ákærði beðið eftir að sonur
brotaþola væri sofnaður. Hafi hann komið inn til hennar, klætt hana úr bol og
nærbuxum, þrýst henni í rúmið og haft við hana samræði. Hafi hún ekkert getað
sofið um nóttina.
Sonur ákærða kom fyrir
dóminn. Kvaðst vitnið hafa búið á Íslandi í maí 2015. Hafi verið nokkur
samgangur á milli heimilis ákærða og brotaþola annars vegar og heimili
vitnisins hins vegar. Hafi vitninu fundist samband ákærða og brotaþola vera
eðlilegt. Hafi brotaþoli ekki greint vitninu frá því að ákærði hafi beitt hana
ofbeldi.
Unnusta sonar ákærða
kvaðst hafa verið í sambúð með syni ákærða á árinu 2015. Hún hafi ekki farið
oft á heimili ákærða og brotaþola á þessum tíma og ekki orðið vör við ofbeldi
af hálfu ákærða í garð brotaþola. Vitnið hafi fyrst heyrt af slíku ofbeldi
eftir að brotaþoli hafi lagt fram kæru á hendur ákærða.
Sálfræðingur er ritaði
vottorð 15. maí 2017 á vegum Áfallateymis Landspítala háskólasjúkrahúss lýsti
því að brotaþoli hefði komið í tvö viðtöl vegna líkamsárásar er hún hefði orðið
fyrir í byrjun september 2015. Í viðtölum hafi brotaþoli einnig greint frá
fyrri áföllum. Hafi komið fram í þeim viðtölum að ákærði hafi brotið
kynferðislega gegn brotaþola. Hafi brotaþoli óttast ákærða mjög. Brotaþola hafi
verið vísað til áfallateymisins af slysadeild vegna líkamsrárásarinnar. Væri
ekkert óeðlilegt við það að brotaþoli hefði þá ekki greint frá fyrri áföllum,
þar sem hugur hennar hafi þá mest snúist um hið nýafstaðna ofbeldi. Í viðtölum
hafi ekki verið farið nákvæmlega í tímasetningar varðandi kynferðisbrotin. Í
viðtölum við brotaþola hafi komið fram að brotaþoli hafi fundið fyrir
sjálfsvígshugsunum þegar ákærði hafi hótað því að drepa brotaþola.
Félagsráðgjafi er
ritað hefur dagála vegna viðtala við brotaþola á vegum félagsþjónustunnar gerði
grein fyrir viðtölum sem brotaþoli sótti hjá félagsþjónustunni. Fram kom að
margt hafi verið til umræðu. Fyrir utan lýsingu á ofbeldi er brotaþoli hafi
upplifað hafi verið rætt um son brotaþola. Brotaþoli hafi komið í tvö viðtöl í
ágúst 2015. Fyrra tilvikið hafi verið um miðjan maí. Þá hafi brotaþoli talað um
nauðganir af hálfu brotaþola. Hún hafi komið aftur stuttu síðar, eða 27. maí,
og þá talað um að hafa verið nauðgað einu sinni aftur. Í bæði þessi skipti hafi
brotaþoli verið í miklu uppnámi og hrædd. Hafi hún verið óviss um framtíð sína,
en hún hafi viljað út úr sambandinu með ákærða. Hafi félagsráðgjafinn bent
brotaþola á að leita til lögreglu en brotaþoli verið hrædd við það vegna
ákærða. Hafi brotaþoli verið félagslega einangruð. Vitnið hafi farið með
brotaþola í Kvennaathvarfið í júní 2015. Vitnið hafi þekkt til þess að
brotaþoli hafi fengið nálgunarbann sett á ákærða í september 2015.
Félagsráðgjafi hjá Bjarkarhlíð, miðstöð fyrir
þolendur ofbeldis, staðfesti fyrir dómi vottorð frá Bjarkarhlíð vegna
brotaþola, sem dagsett er 26. febrúar 2019.
Niðurstaða:
Ákærða er gefin að sök
nauðgun, með því að hafa án samþykkis brotaþola, að næturlagi í ágúst 2015,
haft samræði við hana á þáverandi heimili þeirra í Reykjavík, með því að beita
brotaþola ofbeldi og ólögmætri nauðung, á þann hátt að hafa farið upp í rúm til
hennar, rifið utan af henni náttföt og nærföt og eftir átök að hafa yfirbugað
hana og haft við hana samræði. Er brot ákærða talið varða við 1. mgr. 194. gr.
laga nr. 19/1940.
Ákærði neitar sök.
Hann kveðst hafa unnið tvöfalda vinnu í apríl 2015 og fram eftir sumri það
sumar. Er ákærði hafi komið heim eftir vakt hafi brotaþoli verið á leið til
sinnar vinnu. Hafi þau því aldrei sofið saman þetta sumar. Ákærði hafi ekki
brotið gegn brotaþola svo sem í ákæru greinir.
Brotaþoli hefur lýst
því að greint sinn hafi ákærði komið inn í herbergi til brotaþola að næturlagi.
Hafi brotaþoli bannað ákærða að koma inn. Ákærði hafi ekki farið eftir því.
Hafi hann óboðinn farið upp í rúm til brotaþola, rifið utan af henni náttföt og
nærföt og þvingað hana til samræðis. Hafi brotaþoli streist á móti, en ekki
ráðið við ákærða, sem beitt hafi aflsmunum. Brotaþoli hafi rætt þetta atvik við
son sinn næsta dag, en hann hafi verið vakandi og heyrt það sem fram fór.
Sonur brotaþola gaf
skýrslu í Barnahúsi í desember 2016, þá 12 ára að aldri. Í vætti hans kom fram
að brotaþoli hefði verið sofandi inni í svefnherbergi, en það herbergi hafi
verið við hlið herbergis vitnisins. Hafi vitnið heyrt brotaþola segja ákærða að
hætta, að þessu lyki ekki svona og að hún ætlaði til lögreglu og að ákærði færi
í fangelsi. Hann kæmist ekki upp með þetta. Þessi atburðarás hafi staðið í
tuttugu mínútur til hálftíma. Af hljóðum að dæma úr herberginu hafi vitnið
talið líklegt að ákærði væri að nauðga brotaþola. Hafi hann ráðið það af rödd
ákærða og brotaþola. Vitnið hafi rætt þessa hluti við brotaþola næsta dag. Hafi
brotaþoli þá sagt að ákærði hefði nauðgað henni. Tvö vitni, sem á þessum tína voru
vinir brotaþola, komu fyrir dóminn. Annað þeirra gerði grein fyrir því að
brotaþoli hefði tjáð vitninu í maí 2015 að ákærði hefði nauðgað brotaþola á
meðan sonur brotaþola hafi verið í næsta herbergi. Á þessum tíma hafi vitnið og
brotaþoli umgengist hvor aðra mikið. Hitt vitnið, fyrrum samstarfskona
brotaþola, lýsti því hjá lögreglu að brotaþoli hefði oft komið taugaveikluð í
vinnuna. Hafi brotaþoli sýnt vitninu marbletti sem hún hafi sagt vera eftir
átök við ákærða. Hafi brotaþoli oft verið hágrátandi. Hafi brotaþoli sagt að
ákærði hafi þvingað nánd við hana. Hafi hún sagt að hann hefði hótað sér og
sagt að þetta væri skylda hennar. Hún ætti að vera heima og sofa hjá ákærða
óháð því hvort hún vildi það eða ekki. Einu sinni hafi brotaþoli hringt og sagt
að hún væri búin að gráta í hálfa klukkustund. Hafi ákærði beðið eftir að sonur
brotaþola væri sofnaður. Hafi hann komið inn til hennar, klætt hana úr bol og
nærbuxum, þrýst henni í rúmið og haft við hana samræði.
Ákærði hefur orðið
missaga um tiltekin atriði málsins. Hjá lögreglu lýsti hann því sérstaklega,
aðspurður um kynlíf, að ákærði og brotaþoli hefðu elskast frá maí til september
2015. Hér fyrir dómi lýsti ákærði því að hann hefði unnið tvöfalda vinnu
sumarið 2015 og ávallt komið heim þegar brotaþoli hafi verið á leið til vinnu.
Hafi ákærði og brotaþoli því aldrei getað haft samfarir það sumar, þó svo að
brotaþoli héldi öðru fram. Með vísan til þessa misræmis er ákærði ótrúverðugur
um þessi mikilvægu atriði málsins. Brotaþoli hefur á móti verið sjálfri sér
samkvæm um meginatriði málsins. Hún hefur lýst miklu ofbeldi af hálfu ákærða
sumarið 2015. Fær sú staðhæfing hennar stoð í framburði vitna sem til hennar
þekktu, sem og félagsráðgjafa sem hún leitaði til þetta sumar. Vitnum og
félagsráðgjafa greindi hún frá endurteknu ofbeldi af hálfu ákærða. Fyrir liggur
að brotaþoli fór í Kvennaathvarfið þetta sumar. Þá liggur fyrir að ákærði var
dæmdur fyrir líkamsárás gagnvart brotaþola sem átti sér stað 5. september 2015.
Í kjölfarið fékk brotaþoli sett á nálgunarbann á ákærða.
Við mat á framburði
sonar brotaþola verður litið til tengsla þess vitnis við brotaþola, sbr. 1.
mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008. Framburður þessa vitnis styður framburð
brotaþola um að alvarlegur atburður hafi átt sér stað að nóttu til í ágúst 2015
í herbergi brotaþola. Til þess er rétt að líta í þessu sambandi að brotaþoli
greindi vinum sínum frá því þetta sumar að sonur hennar hefði orðið vitni að
því er ákærði nauðgaði henni. Brotaþoli greindi vinkonum sínum frá þessu
atviki, sem og félagsráðgjafa hjá félagsþjónustunni. Brotaþoli var trúverðug í
framburði sínum fyrir dóminum, þrátt fyrir að vera í miklu tilfinningalega
uppnámi þegar hún greindi frá atvikinu.
Þegar litið er til ótrúverðugs framburðar
ákærða um mikilvægt atriði málsins, og hliðsjón höfð af trúverðugum framburði
brotaþola, sem stuðning hefur af framburði sonar brotaþola og vitna er
brotaþoli var í samskiptum við þetta tiltekna sumar, er að mati dómsins hafið
yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi brotið gegn brotaþola, svo sem hún
staðhæfir. Verður ákærði sakfelldur fyrir nauðgun, með því að hafa þvingað
brotaþola til samræðis að nóttu til í ágúst 2015. Er brot ákærða rétt heimfært
til refsiákvæða í ákæru.
Ákærði er fæddur í
ágúst 1966. Hann var 20 desember 2017 dæmdur í sex mánaða fangelsi
skilorðsbundið til tveggja ára fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. b í lögum nr.
19/1940. Brot ákærða nú er hegningarauki við dóminn. Verður refsing ákveðin með
hliðsjón af 78. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 77. gr. sömu laga. Við ákvörðun refsingar
er til þess að líta að ákærði hefur verið sakfelldur fyrir alvarlegt brot. Til
hins er að líta að nokkuð er um liðið síðan brotið var framið. Verður ákærða
ekki kennt um þann drátt. Verður það haft til hliðsjónar við ákvörðun
refsingar. Ákærða var gerð skilorðsbundin refsing 20. desember 2017. Með
hliðsjón af alvarleika háttseminnar kemur ekki til álita að skilorðsbinda
refsingu í þessu máli. Verður því að gera ákærða nýja heildarrefsingu fyrir öll
brotin. Með hliðsjón af öllu framansögðu verður refsing ákærða ákveðin fangelsi
í 2 ár og sex mánuði.
Af hálfu brotaþola er krafist miskabóta úr
hendi ákærða að fjárhæð 8.000.000 króna auk vaxta. Skaðabótakrafan var sett
fram þegar fyrir lá kæra brotaþola fyrir fjögur tilgreind brot ákærða gagnvart
brotaþola. Nú liggur fyrir að þrjú þessara mála hafa verið felld niður. Ákærði
hefur með ólögmætri háttsemi sinni valdið brotaþola miskatjóni. Gögn sem frammi
liggja gefa ótvíræðar vísbendingar um að brotaþoli hafi orðið fyrir alvarlegu
miskatjóni vegna brota ákærða. Bætur verða ákveðnar að álitum og eru þær
hæfilega ákveðnar 1.500.000 krónur. Um vexti fer sem í dómsorði greinir.
Ákærði greiði sakarkostnað, málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og
þóknun réttargæslumanna brotaþola, sem nánar greinir í dómsorði. Við ákvörðun
málsvarnarlauna og þóknunar réttargæslumanna hefur verið tekið tillit til
virðisaukaskatts.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Katrín
Hilmarsdóttir saksóknarfulltrúi.
Símon Sigvaldason héraðsdómari kveður upp
þennan dóm.
D
ó m s o r ð :
Ákærði, X, sæti fangelsi
í 2 ár og sex mánuði.
Ákærði greiði A
miskabætur að fjárhæð 1.500.000 krónur, ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr.
laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001 frá 11. september 2015 til 30.
febrúar 2019 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim
degi til greiðsludags.
Ákærði greiði
3.095.624 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda
síns, Jóns Egilssonar lögmanns, 1.496.680 krónur, og þóknun réttargæslumanns
brotaþola Guðbjarnar Eggertssonar lögmanns, 896.520 krónur, og þóknun
réttargæslumanns brotaþola á rannsóknarstigi, Arnars Kormáks Friðrikssonar
lögmanns, 437.410 krónur.
Símon
Sigvaldason