• Lykilorð:
  • Hótanir
  • Líkamsárás
  • Miskabætur
  • Fangelsi
  • Skilorð

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness miðvikudaginn 11. nóvember 2015 í máli nr. S-645/2014:

Ákæruvaldið

(Guðrún Sveinsdóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

Karli Inga Þorleifssyni

(Róbert Þ. Skarphéðinsson hdl.)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 14. október 2015, er höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, útgefinni 9. desember 2014, á hendur Karli Inga Þorleifssyni, kt. 000000-0000, Laufvangi 8,  Hafnarfirði, fyrir eftirtalin brot:

I.        (007-2013-62144)

„Fyrir líkamsárás, með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 24. nóvember 2013, að [...] á Álftanesi, ráðist á A og slegið hann tveimur hnefahöggum í andlitið, með þeim afleiðingum að hann hlaut blæðingu undir glæru á vinstra auga, mar á vinstra kinnbeini, rispur undir augum, mar á neðri vör, roða og rispu hægra megin á hálsi, roða vinstra megin á hálsi, rispur á vinstri olnboga, fleiður á vinstri þumli, hægra hné, hægri sköflungi og hægri fæti, sár á vinstri sköflungi og fæti, bólgu á hálsi auk þess sem efri framtönn vinstra megin losnaði.“

Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20, 1981 og 110. gr. laga nr. 82, 1998.

II.      (007-2013-62144)

„Fyrir líkamsárás, með því að hafa, á sama stað og tíma og greinir í ákærulið I, ráðist á B og bitið hana í hægri hendi og slegið hana í andlitið, með þeim afleiðingum að hún hlaut eymsli í kjálka hægra megin, opið beinbrot á fjærkjúku þriðja og fjórða fingurs hægri handar, lausa nögl á þriðja fingri hægri handar auk þess sem nöglin datt af fjórða fingri sömu handar.“

Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20, 1981 og 111. gr. laga nr. 82, 1998.

III.   (007-2013-62144)

„Fyrir líkamsárás, með því að hafa, á sama tíma og greinir í ákæruliðum I og II, fyrir utan [...] í Hafnarfirði, ráðist á C og skallað hana í andlitið og síðan slegið hana ítrekað með krepptum hnefa í andlit og líkama í bifreiðinni [...] er C ók bifreiðinni frá [...] að heimili sínu að [...] á Álftanesi og þar innandyra hrint henni til og frá og hent í gólfið, allt með þeim afleiðingum að hún hlaut mar á brjóstkassa og á hægri hendi.“

Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20, 1981 og 110. gr. laga nr. 82, 1998.

IV.    (007-2014-3524)

„Fyrir hótanir, með því að hafa, laugardaginn 18. janúar 2014, hótað C ofbeldi í neðangreindum smáskilaboðum sem ákærði sendi í farsíma hennar:

  1. Ef þú blandar mömmu minni inn í okkar mál aftur þá brýt ég á þér andlitið tussan þín...Og núna veit ég ekki einusinni hvort ég borgi þér!!!“

  2. Þú mátt vera hrædd!!! Það talar enginn svona um mömmu mína helvítið þitt…Þú er bara lítil heimsk mella!! Tökum dæmi..þú hættir að hitta xxxx kemur svo til mín og talaðir mjög illa um hann..Segjandi fólki að hann væri með lítið tippi og eh svona nasty stuff! Svo aftur til hans!! Þetta kallast að vera lauslát mella! og ef þú ert svo heppin að ég sendi ekki eitthvað lið á mömmu þína og pabba...Þá kemur einhver feit stór stelpa og lemur þig!! Loforð

Hótanirnar voru til þess fallnar að vekja hjá C ótta um líf, heilbrigði og velferð hennar.“ Telst brot þetta varða við 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkröfur:

Vegna ákæruliðar I gerir A þá kröfu að kærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 505.600 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá þeim degi þegar liðinn var mánuður frá þeim tíma sem kærða var birt skaðabótakrafan, til greiðsludags.

Vegna ákæruliðar II gerir B þá kröfu að kærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 1.030.442 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá þeim degi þegar liðinn er mánuður frá þeim tíma, sem kærða var birt skaðabótakrafan, til greiðsludags.

Vegna ákæruliðar III gerir C þá kröfu að kærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 508.636 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá þeim degi þegar liðinn var mánuður frá þeim tíma, sem kærða var birt skaðabótakrafan, til greiðsludags.

Í öllum framangreindum bótakröfum er þess krafist að kærði verði dæmdur til þess að greiða brotaþolum málskostnað við að halda fram kröfum sínum, skv. síðar framlögðum málskostnaðaryfirlitum.

 

Málið var þingfest þann 9. janúar 2015 og afstaða ákærða til sakarefnisins lá fyrir þann 3. febrúar 2015, þegar hann neitaði sök í öllum ákæruliðum. Drátt málsins frá þeim tíma má rekja til ástæðna hjá verjanda ákærða.

Ákærði krefst þess aðallega að verða sýknaður af refsikröfum í ákæruliðum I og III, en til vara að honum verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa. Í ákærulið II krefst hann vægustu refsingar sem lög leyfa og einnig í ákærulið IV, sem hann játaði sök í undir rekstri málsins. Ákærði hafnar öllum bótakröfum sem of háum. Þá er þess krafist að sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda.

I

Málsatvik

Ákæruliðir I, II og III. Fram kemur í frumskýrslu lögreglu að tilkynning hafi borist um að maður væri í átökum við heimilisfólk að [...] á Álftanesi. Þegar lögreglu hafi borið að garði hafi ákærða verið haldið niðri af brotaþolum, þeim A og B. Hafi ákærði að mati lögreglu verið í annarlegu ástandi. Tekin var skýrsla af brotaþolum, C, A og B, á vettvangi. Fram kom í máli C að hún hafi verið með ákærða í umrætt sinn. Hafi þau farið á nokkra staði fyrr um kvöldið þar sem hún hafi verið bílstjóri, en ákærði hafi ítrekað lamið og skyrpt á hana meðan á því stóð. Þá hafi ákærið lamið bifreið hennar að utan og brotið framrúðu bílsins. Hafi hún keyrt heim til sín að [...] en ákærði elt hana inn í húsið. Þar hefði ákærði hrint henni og hún því leitað til föður síns um hjálp. A, faðir C, kvað dóttur sína hafa vakið sig og hann farið fram á gang. Þar hafi verið ókunnugur maður, ákærði þessa máls. Hafi A ítrekað beðið ákærða að fara út en ákærði þá slegið hann tveimur hnefahöggum í andlitið. A hafi í framhaldi af því náð að koma manninum út þar sem hann hafi haldið honum. B, móðir C og maki A, bar að ákærði hafi verið með stæla þegar honum hafi verið vísað út af heimilinu og hún því farið og hringt á lögreglu. Á sama tíma hafi A verið að reyna að koma ákærða út en verið kýldur í andlitið. Eftir að A hafi náð að koma ákærða út hafi hún aðstoðað við að halda ákærða niðri, en ákærði þá náð að bíta hana í höndina.

Tekin var skýrsla af ákærða hjá lögreglu sama dag. Þar kom fram, haft eftir honum sjálfum, að hann hafi verið „hellaður, ógeðslegur“ og væri með mikla eftirsjá, en kvaðst að öðru leyti ekki muna eftir hvað hafi gerst.

Í málinu eru meðal annars vitnisburðir ákærða og allra brotaþola sem gáfu skýrslu fyrir dómi. Þá liggja fyrir skýrslur tveggja lögreglumanna og læknisins D sem gaf út tvö læknisvottorð sem liggja fyrir í málinu. Einnig liggur fyrir í málinu læknisvottorð E. Þá voru lögð fram símagögn.

Ákærði játaði sök í ákærulið IV og er vísað til ákæru um málsatvik.

 

II

Skýrslur fyrir dómi.

Ákærði, Karl Ingi Þorleifsson, kom fyrir dóminn og neitaði sök í ákæruliðum I, II og III, en játaði sök í ákærulið IV. Ákærði kvaðst í umrætt sinn hafa verið hjá vini sínum honum F á Völlunum í Hafnarfirði. C hafi vakið hann og þau keyrt út á Álftanes þrátt fyrir að hann hafi beðið hana um að keyra heim til hans. Eitthvað hafi þau rifist vegna þess að C hafi tekið mynd af honum hlandblautum, enda hann ekki sáttur við það. Á Álftanesi hafi C ætlað að setja hann í sturtu en hann viljað fara heim. Eitthvað ýti þau hvort öðru með þeim afleiðingum að C detti ofan á hvolpa sem þar hafi verið. Í því hafi A, faðir C, komið og það hafi orðið einhver átök sem hafi borist út úr húsinu.

Aðspurður um ákærulið III, meinta líkamsárás gegn C, kvað ákærði hana ranga. C hafi aðeins verið með mar á hendi sem gæti ekki samrýmst því sem á hann væri borið. Ef hann hefði skallað hana hefði hún sennilega verið með meiri áverka en mar á hendi. Þá kvaðst hann ekki kannast við að hafa lamið í bifreið hennar. Hann viti ekki hvers vegna rúða hafi verið brotin í bifreið C. Spurður kvaðst hann ekki hafa verið í góðu ástandi þegar þetta átti að hafa gerst, hann hafi verið ofurölvi. Á umræddum tíma hafi hann og C verið „að deita“.

Aðspurður um ákærulið I, meinta líkamsárás gegn A, og hvort hann hafi slegið brotaþola fyrst, kvað hann svo ekki vera, brotaþoli hafi slegið hann fyrst, en hann gat ekki útilokað að hafa slegið brotaþola eftir það, enda hafi verið átök og hann reynt að verja sig. Hafi C síðar sagt honum að A hafi slegið fyrst.

Aðspurður um ákærulið II bar ákærði að brotaþoli B hafi hoppað ofan á hann fyrir utan húsið og legið ofan á honum. B hafi verið að fikta eitthvað í andliti hans og rifið í munnvik hans. Hafi hann ósjálfrátt bitið í hana en muni ekki eftir að hafa slegið hana.

Spurður um skýrslutöku hjá lögreglu og hvers vegna hann hafi þar játað allt saman og að hafa borið við minnisleysi, kvaðst ákærði þá hafa verið nývaknaður. Hafi hann bara viljað fara heim og því játað. Eftir þetta hafi atburðir smám saman rifjast upp fyrir honum, sérstaklega eftir að hann hafi rætt við brotaþola C, en hún hafi búið hjá honum í tvær vikur eftir þessa atburði. Hafi C upplýst hann nákvæmlega um atburði og henni hafi fundist sem A og B hafi frekar verið að berja hann en hann að lemja á þeim. Hafi C sagt honum að hún hafi ekki orðið við beiðni A og B um að sparka í punginn á honum eins og þau hafi beðið hana um.

Spurður hvort hann hafi beðið brotaþola afsökunar kom fram að hann hafi beðið A og B afsökunar og hafi hann gert það daginn eftir atburði, enda þá ekki vitað betur en að hann hafi gert alla þá hluti sem hann er nú ákærður um. Atburðir málsins hafi hins vegar rifjast upp fyrir honum eftir samtöl hans við C.

 

Vitnið A, brotaþoli í máli þessu, kom fyrir dóminn og bar að hafa vaknað um kl. 04:00 um morgun við það að C bað hann um að koma fram þar sem ákærði hafi verið að lemja hana. Þegar fram var komið hafi ákærði komið innan úr stofu hússins. Ákærði hafi ekki svarað honum þegar hann hafi spurt hvort hann hafi verið að berja C. Hafi hann þá beðið ákærða um að koma sér út. Ákærði hafi þá svarað: „Ég fer ekkert út fyrr en hún segir mér að fara út.“ C hafi þá beðið ákærða að fara út og hann gert það einnig. Í þeirri andrá slái ákærði hann í hægra auga og hægri kinn og hafi hann vankast við það. Aftur hafi ákærði slegið hann og nú á vinstra auga eftir að hann hafi ítrekað við ákærða að koma sér út. Hafi hann náð að ýta ákærða að útidyrahurð og opna en á sama tíma kýli ákærði hann ítrekað. B, eiginkona hans, hafi verið komin og hafi hringt á lögreglu en á meðan hafi hann reynt að halda ákærða. Hafi það gengið illa því að sjálfur hafi hann verið orðinn alblóðugur og bólginn á augum og því séð illa. Var hann við það að gefast upp þegar B hafi komið og hjálpað til við að halda ákærða. Fljótlega hafi B kallað upp: „Hann er búinn að bíta mig,“ og öskrað. Hafi hann ekki fundið önnur ráð til þess að fá ákærða til að sleppa fingrum B en að setja hné sitt í klof ákærða en þrátt fyrir það hafi ákærði haldið áfram að bíta. Það hafi ekki verið fyrr en hann hafi rekið fingur sinn í auga ákærða að ákærði hafi sleppt fingri B. Á sama tíma komi lögreglan.

Brotaþoli neitaði því aðspurður að verið gæti að hann hafi átt upptökin að átökum með því að slá ákærða. Hann hafi aldrei slegið ákærða. Ákærði, sem hann hafi ekki þekkt neitt, hafi staðið þvagblautur, dauðadrukkinn og dópaður inni á hans heimili og neitað að fara út. Sjálfur hafi hann verið allsgáður þegar atburðir gerðust. Aðspurður kvað hann að C hafi gefið honum þá skýringu að eftir að ákærði hafi brotið framrúðu bílsins hafi hún orðið hrædd og því hafi hún ákveðið að keyra heim til sín. C hefði hins vegar ekki nefnt við hann að ákærði hafi lamið hana áður en þau komu út á Álftanes. Sjálfur hafi hann leitað á slysadeild eftir atburðina.

 

Vitnið B, brotaþoli í máli þessu, kom fyrir dóminn og bar að hafa vaknað við það að C hafi komið inn í herbergi þeirra hjóna, hún muni ekki klukkan hvað það var, en það gæti hafi verið kl. 02:00. Hafi C óskað eftir aðstoð við að koma „Kalla“ út, sem hafi komið inn á eftir henni. Hafi C sagt að ákærði hafi verið búinn að stjaka við henni og hrinda henni. Ákærði hafi neitað að fara út og þau því orðið að koma honum út. Áður hafi ákærði kýlt eiginmann hennar „alveg í köku“ og ákærði verið alveg óður. Hún hafi ekki séð fyrstu höggin en séð þegar að augu A hafi verið sokkin og ákærði enn að kýla. Hafi hún þá hringt á lögreglu.

Fyrir utan húsið hafi þau reynt að halda ákærða en ákærði þá bitið hana og verið enn að bíta hana korteri síðar þegar lögreglu hafi borið að. Hafi ákærði bitið bein fingra hennar í sundur þannig að neglurnar hafi dottið af. Aðspurð hvort ákærði hafi veist meira að henni bar hún að hann hafi verið með kýlingar og mundi eftir höggi í andlit þótt hún gæti ekki nákvæmlega staðsett hvar það högg hafi lent. Aðspurð kvaðst hún ekki muna hvernig hún hafi haldið ákærða en einhverra hluta vegna hafi fingur hennar lent í munni ákærða og hafi það ekki verið viljandi af hennar hálfu.

Aðspurð um það hvort C hafi gefið henni einhverjar upplýsingar um af hverju hún hafi komið heim með ákærða, bar vitnið að C hafi lýst fyrir henni að ákærði hafi brotið rúðu í bíl hennar og hún orðið hrædd og ekki losnað við ákærða og því ákveðið að keyra heim. Hafi C lýst því að ákærði hafi verið að kreista hana og eftir að heim kom hafi ákærði verið að hrinda henni utan í dyrastafi og ofan í hundabæli. Aðspurð kvaðst hún ekki hafa þekkt ákærða og hafi hún sjálf ekki verið undir neinum áhrifum.

Fram kom að áverkar á fingrum hafi verið miklir. Hafi hún fengið ígerð í sárin og þurft að fara í aðgerð og fyrirhugaðar séu fleiri aðgerðir þar sem flytja þurfi bein úr líkama hennar í fingur hennar. Hafi hún verið frá vinnu lengi vegna þessa.

 

Vitnið C, brotaþoli í máli þessu, kom fyrir dóminn og bar að hafa ætlað út með ákærða að skemmta sér. Ákærði hafi hins vegar verið orðinn það drukkinn að hún hafi ákveðið að aka sjálf það kvöld. Eitthvað hafi þau keyrt um og meðal annars farið heim til ákærða þar sem hann hafi farið að henda til stólum. Eftir að þau hafi verið í íbúð á Völlunum í Hafnarfirði hafi ákærði tekið reiðikast í lyftu hússins og brotið gler í lyftunni. Spurð hvort ákærði hafi skallað hana bar hún að ákærði hafi „farið eitthvað í hana“ og hún orðið hrædd og ætlað burtu en ákærði komist inn í bílinn. Stuttu síðar, þegar hún var að keyra, hafi ákærði tekið æðiskast og brotið framrúðuna í bílnum með því að kýla einu sinni í hana. Aðspurð hvort ákærði hafi beitt hana ofbeldi í bílnum bar brotaþoli að ákærði hafi slegið hana einu sinni í hægri kinn, ekki fast en með krepptum hnefa. Jafnframt kom fram að hún hafi verið að aka þegar ákærði hafi skallað hana. Spurð hvar sá skalli hafi lent á henni sagðist vitnið ekki muna það, langt væri um liðið og hún vildi ekki muna eftir þessu. Eftir þetta hafi ákærði neitað að fara út og hún ekki verið með síma og því ákveðið að keyra heim til sín út á Álftanes þar sem hún hafi ætlað að hringja á leigubíl. Ákærði hafi hins vegar elt hana inn. Þar hafi hún „fengið nokkur högg“ og ákærði hrint henni ítrekað þannig að hún hafi fallið með bakið ofan á hvolpa í körfu í stofunni. Hafi hún þá ákveðið að vekja föður sinn. Faðir hennar, sem hafi ekki þekkt ákærða, hafi beðið hann að fara út en ákærði ekki viljað fara nema að hún myndi segja honum það. Hafi hún verið margbúin að því. Í því slái ákærði föður hennar í andlitið. Hún hafi farið að ná í síma en á meðan hafi faðir hennar og ákærði fallið út og dottið um snjósleða þar fyrir utan. Hafi móðir hennar reynt að stöðva átökin og við það fengið högg frá ákærða.

Borinn var undir hana framburður ákærða um að faðir hennar hafi átt upptök að átökum og að ákærði hafi aðeins verið að verjast árás föður og móður hennar. Vitnið svaraði: „Nei þetta gamla fólk var úti klukkan fjögur um nótt þegar hann kemur og stútar þeim.“ Ákærði hafi kýlt fyrst. Hún hafi sennilega kallað: „Sparkaðu í punginn á honum,“ og meint það þannig að sparkað væri í pung ákærða, enda hafi ákærði verið að brjótast um og lemja föður hennar og að naga fingur móður hennar og þau augsýnilega ekki verið nógu sterk til að geta haldið honum. Hún hafi hins vegar beðið foreldra sína að hætta öllu þegar ákærði hafi legið hreyfingarlaus eftir að þau hafi náð höfði ákærða niður.

Spurð hvort hún hafi haldið áfram að vera með ákærða í tvær vikur eftir þetta, bar hún að svo hafi alls ekki verið. Aðspurð kannaðist hún við að hafa tekið mynd af ákærða hlandblautum en þau hafi ekki verið að rífast um þá mynd. Spurð hvort hún hafi leitað aðstoðar eftir þetta kom fram að hún hafi farið til læknis nokkrum dögum síðar. Mundi hún eftir að hafa fengið áverka á mjóbak. Hún mundi lítið eftir því hvernig hún hafi fengið mar á brjóstkassa eða hvort hún hafi fengið þar högg. Fram kom að hún sjálf hafi ekki verið undir áhrifum þegar atburðir gerðust.

 

Vitnið F, vinur ákærða, kom fyrir dóminn og gaf skýrslu. Bar hann að hann, ákærði og C hafi verið samferða í bifreið þá nótt þegar atburðir þessa máls áttu að hafa gerst og þau farið heim til hans að [...] í Hafnarfirði. Ákærði hafi sofnað þar en síðan farið ásamt C. Hafi hann séð þau ganga út stigapallinn en ekki séð þau eftir að þau voru farin inn í lyftu hússins.

Vitnið G, vinur ákærða, gaf símaskýrslu fyrir dómi og bar aðspurður að C hafi dvalið hjá ákærða eftir að atburðir þessa máls áttu að hafa gerst. C hafi komið til bróður hans daginn eftir atburði og þá ekkert sést á henni. Síðar hafi hann heyrt frá bróður sínum og ákærða að hún hafi farið til ákærða eftir þetta. Bar hann jafnframt að ákærði hafi verið með glóðarauga nokkrum dögum eftir þetta og rispur í andliti og sprungna vör. Hann hafi sjálfur hins vegar ekki hitt C heima hjá ákærða.

 

Vitnið H lögreglumaður gaf símaskýrslu fyrir dóminum og bar að hafa verið kallaður á vettvang þar sem tilkynnt hafi verið um mann í tökum og einhver „hystería“ verið í gangi. Hafi ákærði verið handtekinn strax. Hann hafi ekki rætt við ákærða og ekki séð áverka á honum en hann hafi rætt við brotaþola og hafi verið áverkar á þeim, bitáverkar á móður og áverkar á andliti föður.

Vitnið I lögreglumaður kom fyrir dóminn og bar að tilkynning hafi borist um „brjálaðan mann“. Er lögreglan hafi komið á vettvang hafi ákærða verið haldið af brotaþolum, A og B. Bæði hafi verið lemstruð. Hafi hún séð að búið var að bíta hluta af fingri B, og hafi hann lafað niður. Vitnið gat ekki lýst sérstökum áverkum A, en þau hafi bæði verið flutt í framhaldi af því á sjúkrahús. Ákærði hafi verið „út úr heiminum“, verið í mjög annarlegu ástandi og lögreglan hafi ekki náð neinu sambandi við hann og hann haldið áfram að berjast um. Aðspurt mundi vitnið ekki hvort áverkar hafi verið á ákærða. Í framhaldi af því hafi hún rætt við brotaþola C, sem hafi gefið henni lýsingu á því sem hafi gerst. Hafi C lýst því að hún og ákærði hafi verið vinir. Í umrætt sinn hafi hún sótt ákærða á [...] í Hafnarfirði og ákærði þá verið í mjög annarlegu ástandi og hún ekki náð að losna við hann úr bifreiðinni og því keyrt heim til sín. Hafi ákærði á þeirri leið verið ýmist að lemja í hana eða skyrpa á hana auk þess að berja í bifreið hennar með þeim afleiðingum að framrúða bifreiðarinnar hafi brotnað. Eftir að heim var komið hafi hún vakið föður sinn til að fá aðstoð. Vitnið mundi ekki eftir því hvort C hafi verið með einhverja áverka.

 

Vitnið E læknir gaf símaskýrslu fyrir dómi og staðfesti læknisvottorð sitt sem liggur frammi í málinu um brotaþola A.

 

Vitnið D læknir gaf símaskýrslu fyrir dómi. Bar vitnið að B og C hafi leitað til hans eftir árás sem þær hafi orðið fyrir.

Beðinn um að gera grein fyrir vottorði sínu um C kom fram að um „milda áverka“ hafi verið að ræða. Hafi hún verið með mar og aum á hægri hendi auk þess sem svo virtist sem hún hafi fengið högg aftan á brjóstbak hægra megin og hafi þar verið bólga í mjúkvefjum. Auk þess hafi hún verið með mar á brjóstkassa. Hafi það mar samrýmst því að henni hafi verið ýtt utan í eitthvað en ekki vera eftir högg. Taldi vitnið að áverkar brotaþola væru þess eðlis að hún myndi jafna sig fljótt. Aðspurður kvað hann áverkar C samrýmast þeirri lýsingu sem hún hafi gefið honum.

Beðinn um að gera grein fyrir vottorði sínu um B kom fram að hann hafi skoðað B stuttu eftir að atburðir áttu að hafa gerst. Hafi B lýst því að hafa fengið högg í andlitið hægra megin og fengið bit á þriðja og fjórða fingur hægri handar. Hafi hann tekið við því að skoða og meðhöndla brotaþola eftir að annar læknir hafi annast hana fyrst. Hafi brotaþoli reynst vera með bitsár og brot á fingri. Flokkist það sem opið brot og auk mannabitsins séu það töluvert alvarlegir áverkar, enda mikil sýkingarhætta. Brotaþoli hafi síðar greinst með sýkingu og þurft að mæta í fjölmargar vitjanir á sjúkrahúsi. Aðspurður kvað hann áverka B samrýmast þeirri lýsingu sem hún hafi gefið honum.

III

Niðurstöður

Fyrir liggur að ákærði kom á heimili brotaþola aðfaranótt 24. nóvember 2013, þar sem atburðir í ákæruliðum I og II gerðust. Ákærði bar hjá lögreglu og fyrir dómi að hann hafi verið ofurölvi og ekki munað eftir atburðum degi síðar. Bað hann brotaþola afsökunar sama dag og atburðir gerðust, enda hafi hann þá talið að hann hafi gert það sem hann er nú ákærður um. Fyrir dómi var ákærði spurður hvers vegna hann hafi játað háttsemi sína hjá lögreglu og svaraði ákærði því að hafa þá verið nývaknaður úr roti og viljað fara heim og því játað. Ákærði bar jafnframt að atburðir málsins hafi rifjast upp fyrir sér eftir að C hafi sagt honum frá þeim. Framburður ákærða að þessu leyti telst ekki trúverðugur, enda í mikilli mótsögn við framburð annarra fyrir dómi, og alls óvíst að ákærði sé í raun að lýsa eigin upplifun.

Ákæruliður I.

Brotaþoli A bar að C hafi vakið hann og sagt honum að ákærði hafi lamið hana. Hafi hann beðið ákærða að fara út en ákærði neitað. Ákærði hafi þá kýlt hann a.m.k. tveimur höggum sem hann muni eftir en þau hafi verið fleiri. Framburður brotaþola, sem er í samræmi við skýrslu hans hjá lögreglu, er að mati dómsins trúverðugur og ekkert komið fram sem getur dregið úr þeim trúverðugleika. Ekki er annað leitt í ljós en að brotaþoli hafi verið allsgáður. Þá er frásögn brotaþola í fullu samræmi við frásögn annarra vitna, eiginkonu hans og C dóttur hans, um að brotaþoli hafi beðið ákærða að fara út en hann neitað og ákærði þá slegið brotaþola í andlitið. Ekkert í málinu styður þá fullyrðingu ákærða að brotaþoli hafi slegið hann fyrst eða haft ástæðu til þess. Þannig liggja ekki fyrir nein áverkavottorð frá ákærða um hugsanlega áverka. Brotaþoli leitaði hins vegar til læknis fjórum dögum síðar vegna áverka sinna. Fram kom í málinu að efni þess vottorðs væri ágreiningslaust að hálfu málsaðila og styður vottorðið því frásögn brotaþola. Í vottorðinu gefur brotaþoli sömu lýsingu og fyrir dómi um upphaf átakanna. Um áverka brotaþola kemur meðal annars fram að brotaþoli hafi verið með blæðingu undir vinstra auga og mar á vinstra kinnbeini og margir yfirborðsáverkar á andliti, en ekki hafi verið grunur um brot í andliti, en vinstri framtönn mun einnig hafa verið laus.

Með vísan til framangreinds er fram komin sönnun þess, sem hafin er yfir skynsamlegan vafa að mati dómsins, að ákærði hafi slegið brotaþola með þeim hætti og afleiðingum sem í ákæru greinir. Verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem um getur í ákæru og er háttsemin réttilega heimfærð undir 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákæruliður II.

Ákærði hefur ekki þrætt fyrir að hafa bitið fingur brotaþolans B. Hins vegar hafi það verið óviljaverk eftir að hún hafi hoppað ofan á hann og sett fingur í munn hans. Brotaþoli bar að ákærði hafi bitið í fingur hennar og enn verið að bíta korteri síðar þegar lögreglu hafi borið að. Brotaþoli A bar með þeim hætti að hann hafi ekki fundið önnur ráð til þess að fá ákærða til að sleppa fingrum B en að setja hné sitt í klof ákærða en þrátt fyrir það hafi ákærði haldið áfram að bíta. Það hafi ekki verið fyrr en hann hafi rekið fingur sinn í auga ákærða að ákærði hafi sleppt fingrum B en það hafi verið á sama tíma og lögreglan hafi komið. C bar að ákærði hafi verið að naga fingur B. Í skýrslu læknisins D hér fyrir dómi kom fram að áverkar hafi verið í hægri kjálka brotaþola en töluvert alvarlegri hefðu verið áverkar hennar á fingrum. Hafi verið um að ræða opin beinbrot á þriðja og fjórða fingri hægri handar. Brotaþoli hafi síðar greinst með sýkingu og þurft að mæta í fjölmargar vitjanir á sjúkrahúsi. Aðspurður kvað hann áverka B samrýmast þeirri lýsingu sem hún hafi gefið honum.

Að mati dómsins telst sannað að ákærði hafi veist að brotaþoli með þeim hætti sem í ákæru greinir og verður bit ákærða á engan hátt metið sem óviljaverk og skiptir þá ekki máli hvernig fingur brotaþola hafi lent í munni ákærða. Má ljóst vera af lýsingum vitna, og sérstaklega af þeim miklu afleiðingum sem af bitinu hlaust, að ákærði hefur af ásetningi bitið lengi og fast í fingur brotaþola.

Með vísan til framangreinds telst sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru greinir, og er háttsemin réttilega heimfærð undir 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákæruliður III.

Ákærði neitaði að hafa veist með nokkrum hætti að brotaþola C. Í ákæru er ákærða gefið að sök að hafa skallað brotaþola og hafi það verið fyrir utan [...] í Hafnarfirði. Brotaþoli bar sjálf að ákærði hafi „farið eitthvað í hana“ í lyftu hússins. Brotaþoli minntist ekkert á að eitthvað hafi gerst fyrir utan húsið en bar hins vegar að ákærði hafi skallað hana í bílnum á leið út á Álftanes. Hún vissi þó ekki hvar sá skalli hafi lent á henni. Þá er ákærða gefið að sök að hafa ítrekað slegið með krepptum hnefa í andlit og líkama hennar þegar þau voru í bifreiðinni. Aðspurð bar brotaþoli fyrir dómi að ákærði hafi slegið hana einu sinni í hægri kinn, ekki fast en með krepptum hnefa. Ekki voru nein vitni að meintum atburðum. Brotaþoli fór á slysadeild sama dag og atburðir gerðust. Í vottorði D er í engu getið um frásögn brotaþola af meintum atburðum fyrir utan [...] í Hafnarfirði eða í bifreið brotaþola. Þá er ekkert minnst á nein hnefahögg eða skalla í læknisvottorðinu og ekki er lýst neinum þeim áverkum sem gætu samrýmst þeirri lýsingu í ákæru. Hvorki móðir né faðir brotaþola gátu borið með þeim hætti að brotaþoli hafi upplýst þau um að ákærði hafi veist að henni áður en þau komu út á Álftanes.

Með vísan til framangreinds verður ákærði sýknaður af þeirri háttsemi sem um getur í ákæru, að hafa ráðist á C og skallað hana í andlitið og síðan slegið hana ítrekað með krepptum hnefa í andlit og líkama í bifreiðinni [...] er C ók bifreiðinni frá [...] að heimili sínu að [...] á Álftanesi.

Brotaþoli bar fyrir dómi að hún hafi „fengið nokkur högg“ frá ákærða eftir að heim var komið. Ekki fékkst nánari skýring á þeim meintu höggum. Ákærði bar hins vegar sjálfur að hann og brotaþoli hafi verið að ýta hvort öðru með þeim afleiðingum að C hafi dottið ofan á hvolpa. Í skýrslu móður brotaþola fyrir dómi kom fram að brotaþoli hafi sagt henni frá því áður en til frekari átaka kom, að ákærði hafi verið að kreista hana og hrint henni utan í dyrastafi og ofan í hundabæli. Í skýrslu sinni fyrir dómi og í vottorði læknisins D kemur fram að brotaþoli hafi komið til læknisins sama dag og atburðir gerðust og lýsti brotaþoli atburðum þá fyrir honum með þeim hætti að ákærði hafi tekið í hönd hennar og hent henni upp að vegg eða þvílíku. Hafi brotaþoli verið með mar og aum á hægri hendi og svo virst sem brotaþoli hafi fengið högg aftan á brjóstbak hægra megin og hafi þar verið bólga í mjúkvefjum. Auk þess hafi hún verið með mar á brjóstkassa. Hafi það mar samrýmst því að henni hafi verið ýtt utan í eitthvað en að það væri ekki eftir högg og hafi það samrýmst þeirri lýsingu sem hún hafi gefið honum.

Með vísan til framangreinds telst hafið yfir skynsamlega vafa að ákærði hafi innandyra, að [...] á Álftanesi, hrint brotaþola til og frá og hent í gólfið, allt með þeim afleiðingum að hún hlaut mar á brjóstkassa og á hægri hendi, og verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi. Er háttsemin réttilega heimfærð undir 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákæruliður IV.

Ákærði játaði sök í þessum ákærulið undir rekstri málsins. Með vísan til þess verður ákærði sakfelldur fyrir brot gegn 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og er háttsemi hans réttilega heimfærð til refsiákvæða.

IV

Refsing

Ákærði er fæddur í [...]. Samkvæmt sakavottorði hans hefur honum ellefu sinnum verið gerð refsing frá árinu 2001. Þau brot sem hafa áhrif við ákvörðun refsingar hans nú eru eftirfarandi dómar: Dómur frá 21. febrúar 2001, en þá var ákærði dæmdur í fangelsi í tvo mánuði, skilorðsbundið til tveggja ára, fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Dómur frá 15. janúar 2003, en þá var ákærði dæmdur í fangelsi í tvo mánuði, skilorðsbundið til þriggja ára, fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga og ákvæðum 45. gr. umferðarlaga. Dómur frá 3. febrúar 2005, en þá var ákærði dæmdur í fangelsi í þrjá mánuði, skilorðsbundið til þriggja ára, fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Dómur frá 17. febrúar 2014, en þar var ákærði dæmdur til greiðslu sektar fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Brot hans nú leiðir til hegningarauka skv. 78. gr. almennra hegningarlaga, við síðastgreindan dóm.

Ákærði hefur samkvæmt framangreindu, þrisvar áður verið dæmdur fyrir líkamsárásarbrot og hefur nú verið sakfelldur fyrir þrjár líkamsárásir þar sem afleiðingar brots voru miklar í einu tilviki auk hótunarbrots. Ákærði játaði hótunarbrotið og ber að virða honum það til málsbóta. Þá kom fram í máli hans að hann sjái mikið eftir því sem gerðist og hafi nú tekið sig á og farið í áfengismeðferð og verið edrú í 12 mánuði.

Með vísan til framangreinds og 78. gr., sbr. 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í fimm mánuði, sem þykir mega skilorðsbinda að hluta eins og nánar greinir í dómsorði.

 

V

Einkaréttarkröfur

Af hálfu brotaþola A var gerð krafa um að ákærði greiddi honum 505.600 krónur, sem skiptist í 500.000 króna miskabótakröfu og kröfu vegna útlagðs kostnaðar, 5.600 krónur. Vísað var til 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 um bótaskyldu ákærða. Ákærða var birt framkomin bótakrafa þann 30. desember 2014.

Ekki voru lögð fram gögn um útlagðan kostnað. Er þeirri kröfu vísað frá dómi. Með broti því sem ákærði er sakfelldur fyrir hefur hann bakað sér bótaábyrgð gagnvart brotaþola, sbr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Miski brotaþola þykir hæfilega metinn 300.000 krónur og ber að dæma ákærða til þess að greiða brotaþola þá fjárhæð ásamt vöxtum eins og nánar greinir í dómsorði.

Í skaðabótakröfu B var gerð krafa um 1.030.442 króna bætur. Skiptist krafan í 500.000 króna miskabætur, 30.442 krónur í útlagðan kostnað og 500.000 krónur vegna vinnutaps. Í munnlegum málflutning breytti réttargæslumaður kröfunni á þann hátt að fallið var frá kröfu um vinnutap en miskabótakrafan hækkuð að sama skapi í 1.000.000 króna. Vísað var til 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 um bótaskyldu ákærða. Ákærða var birt framkomin bótakrafa þann 30. desember 2014.

Ekki voru lögð fram gögn um útlagðan kostnað. Er þeirri kröfu vísað frá dómi. Með broti því sem ákærði er sakfelldur fyrir hefur hann bakað sér bótaábyrgð gagnvart brotaþola, sbr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Við ákvörðun miskabóta verður horft til þess að afleiðingar brotsins hafi verið miklar fyrir brotaþola og ekki enn ljóst um endanlega afleiðingar. Miski brotaþola þykir hæfilega metinn 700.000 krónur og ber að dæma ákærða til þess að greiða brotaþola þá fjárhæð ásamt vöxtum eins og nánar greinir í dómsorði.

Af hálfu brotaþola C var gerð sú krafa að ákærði greiddi henni 508.636 krónur. Annars vegar 500.000 króna miskabótakröfu og kröfu vegna útlagðs kostnaðar, 8.636 krónur. Vísað var til 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 um bótaskyldu ákærða. Ákærða var birt framkomin bótakrafa þann 30. desember 2014.

Ekki voru lögð fram gögn um útlagðan kostnað. Er þeirri kröfu vísað frá dómi. Með broti því sem ákærði er sakfelldur fyrir hefur hann bakað sér bótaábyrgð gagnvart brotaþola, sbr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Við ákvörðun miskabóta verður horft til þess að ákærði var sýknaður af hluta þeirrar háttsemi sem um getur í ákæru og afleiðingar brotsins virðast ekki hafa verið miklar. Miski brotaþola þykir hæfilega metinn 150.000 krónur og ber að dæma ákærða til þess að greiða brotaþola þá fjárhæð ásamt vöxtum eins og nánar greinir í dómsorði.

 

VI

Sakarkostnaður

Samkvæmt 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verður ákærða í ljósi niðurstöðu dómsins gert að greiða allan sakarkostnað, sem er samkvæmt yfirliti ákæruvaldsins, 101.000 krónur auk þóknunar til réttargæslumanns brotaþola, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hrl., 450.000 krónur, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans fyrir dóminum, Róberts Skarphéðinssonar hdl., 550.000 krónur. Við ákvörðun þóknunar og málsvarnarlauna, hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Dóm þennan kveða upp Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari, Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari og Jón Höskuldsson héraðsdómari.

 

D ó m s o r ð:

Ákærði, Karl Ingi Þorleifsson, skal sæta fangelsi í fimm mánuði en fresta skal fullnustu tveggja mánaða af refsingunni og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði A miskabætur að fjárhæð 300.000 krónur ásamt vöxtum, frá 24. nóvember 2013 til 30. janúar 2015, en frá þeim degi með dráttarvöxtum til greiðsludags.

Ákærði greiði B miskabætur að fjárhæð 700.000 krónur ásamt vöxtum, frá 24. nóvember 2013 til 30. janúar 2015, en frá þeim degi með dráttarvöxtum til greiðsludags.

Ákærði greiði C miskabætur að fjárhæð 150.000 krónur ásamt vöxtum, frá 24. nóvember 2013 til 30. janúar 2015, en frá þeim degi dráttarvöxtum til greiðsludags.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Róberts Skarphéðinssonar héraðsdómslögmanns, 550.000 krónur.

Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins, samtals 551.000 krónur, þar af þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 450.000 krónur. 

 

                                                                             Bogi Hjálmtýsson

                                                                             Ástríður Grímsdóttir

                                                                             Jón Höskuldsson