- Lykilorð:
- Ógilding stjórnarathafnar
D Ó M U R
Héraðsdóms Reykjavíkur 26. október 2017 í máli nr. E-2782/2016:
Rut Helgadóttir og
Jóhann Ögri Elvarsson
f.h. óskírðrar dóttur sinnar
(Arnar Kormákur Friðriksson hdl.)
gegn
íslenska ríkinu
(Einar K. Hallvarðsson hrl.)
Mál þetta höfðuðu Jóhann Elvarsson og Rut Helgadóttir, bæði til heimilis að Keldugötu 11, Garðabæ, f.h. óskírðrar dóttur sinnar, fæddrar 10. október 2015, með stefnu birtri 19. september 2016 á hendur íslenska ríkinu. Málið var dómtekið 29. september sl.
Stefnandi krefst þess að felldur verði úr gildi úrskurður mannanafnanefndar frá 22. janúar 2016 í máli nr. 86/2015 og að viðurkennt verði að stefnandi megi bera eiginnafnið Zoe. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar.
Stefnandi fæddist 10. október 2015. Foreldrar hennar óskuðu eftir því við Þjóðskrá að eiginnafn hennar, Zoe, yrði skráð í þjóðskrá. Þjóðskrá sendi erindið til mannanafnanefndar, þar sem nafnið var ekki að finna á mannanafnaskrá, sbr. 2. mgr. 22. gr. laga nr. 45/1996.
Mannanafnanefnd kvað upp úrskurð þann 22. janúar 2016 og hafnaði beiðni um skráningu nafnsins. Í úrskurðinum segir:
Til að hægt sé að samþykkja nýtt
eiginnafn á mannanafnaskrá þarf öllum skilyrðum 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996
um mannanöfn að vera fullnægt. Skilyrðin
eru þessi:
(1) Eiginnafn skal geta tekið íslenska
eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli.
(2) Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt
málkerfi.
(3) Nafnið skal ritað í samræmi við almennar
ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Með almennum
ritreglum íslensks máls er vísað til auglýsinga nr. 132/1974 og 261/1977, um
íslenska stafsetningu.
Í
máli þessu reynir á skilyrði (3). Ritháttur nafnsins er ekki í samræmi við
almennar ritreglur íslensks máls þar sem bókstafurinn z er ekki notaður í íslenskri stafsetningu. Á þennan rithátt nafnsins er því aðeins
heimilt að fallast ef hann telst hefðaður samkvæmt lögum um mannanöfn.
Til
stuðnings við mat á hefð í 5. og 6. gr. laga um mannanöfn hefur mannanafnanefnd
stuðst við vinnulagsreglur sem nefndin setti sér á fundi 19. janúar 2015, og
byggðar eru á greinargerð með frumvarpi til laga um mannanöfn og eldri
vinnulagsreglum. Er í reglunum byggt á því að hugtakið hefð í lögum um
mannanöfn varði einkum erlend nöfn frá síðari öldum sem ekki hafa aðlagast
ritreglum íslensks máls. Þau eru stundum nefnd ung tökunöfn og koma fyrst fram í
íslensku máli 1703 þegar manntal var tekið fyrsta sinni. Vinnulagsreglurnar eru
svohljóðandi:
1. Ungt tökunafn telst hafa unnið sér hefð í
íslensku máli ef það fullnægir einhverju eftirfarandi skilyrða:
a. Það er nú borið af a.m.k. 15 Íslendingum;
b. Það er nú borið af 10–14 Íslendingum og hinn
elsti þeirra hefur náð a.m.k. 30 ára aldri;
c. Það er nú borið af 5–9 Íslendingum og hinn
elsti þeirra hefur náð a.m.k. 60 ára aldri;
d. Það er nú borið af 1–4 Íslendingum og kemur
þegar fyrir í manntalinu 1910 eða 1920;
e. Það er ekki borið af neinum Íslendingi nú en
kemur a.m.k. fyrir í tveimur manntölum frá 1703–1920.
2. Með Íslendingum er átt við þá sem öðlast hafa
íslenskan ríkisborgararétt án umsóknar og eiga eða hafa átt lögheimili á Íslandi.
3. Tökunafn getur verið hefðað, þó að það komi
ekki fyrir í manntölum, ef það hefur unnið sér menningarhelgi. Nafn telst hafa
unnið sér menningarhelgi komi það fyrir í alkunnum ritum, frumsömdum og þýddum,
í nafnmynd sem ekki brýtur í bág við íslenskt málkerfi.
Samkvæmt
upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands bera sjö konur nafnið Zoe í þjóðskrá sem
uppfylla skilyrði vinnulagsreglnanna varðandi hefð, sú elsta er fædd árið 1975.
Nafnið kemur ekki fyrir í manntölum frá 1703–1920.
Nafnið
getur í þessu ljósi ekki talist hafa öðlast hefð hér á landi og er
mannanafnanefnd því samkvæmt lögum skylt að hafna því.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir á því að nafnið Zoe uppfylli skilyrði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996. Bendir hún á að það eitt að stafurinn z sé í nafninu valdi því ekki að ritháttur þess sé í ósamræmi við almennar ritreglur tungumálsins. Samkvæmt e-lið 1. mgr. 3. gr. auglýsingar nr. 132/1974 megi nota bókstafinn í sérnöfnum sem séu erlend að uppruna. Fjölmörg nöfn á mannanafnaskrá séu rituð með stafnum z.
Stefnandi byggir á því að nafnið sé hefðað í skilningi 3. ml. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996. Samkvæmt reglum mannanafnanefndar sé nafn talið nægilega hefðað ef það er borið af 10-14 Íslendingum og sá elsti sé orðinn þrítugur. Stefnandi segir að í þjóðskrá sé að finna 25 konur sem beri nafnið og allar hafi þær íslenska kennitölu. Dregur stefnandi í efa að það sé rétt sem fram komi í úrskurði mannanafnanefndar að einungis sjö konur uppfylli skilyrði nefndarinnar.
Stefnandi segir að mannanafnanefnd sé stjórnvald. Ákvarðanir hennar séu matskenndar og um þær gildi stjórnsýslulög nr. 37/1993. Að neita að samþykkja nafn einstaklings sé afar íþyngjandi, varði mikilvæg persónuleg réttindi. Byggir stefnandi á því að nefndin verði að byggja ákvarðanir sínar á skýrum lagaheimildum og hún geti ekki komið sér undan skyldubundnu mati með því að bera fyrir sig áðurnefndar reglur.
Stefnandi segir að túlka verði ákvæði mannanafnalaga í samræmi við ákvæði stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu. Vísar hann til 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs, þ. á m. rétt til nafns. Löggjafinn geti ekki takmarkað þennan rétt nema lög standi til þess og brýna nauðsyn beri til vegna réttinda annarra. Ekki sé nauðsynlegt að takmarka rétt hennar til að bera nafnið og réttindi annarra standi því heldur ekki í vegi. Stefnandi vísar til þess að 25 konur beri nú nafnið og verði stefndi að sanna að skilyrðum laga til að skrá nafnið sé ekki fullnægt. Telur stefnandi sig hafa sýnt fram á að sterk rök um hefð styðji rétt hennar til að bera nafnið. Þá vísar hún til jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar og 11. gr. stjórnsýslulaga.
Stefnandi byggir á 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Viðurkennt sé í dómaframkvæmd mannréttindadómstólsins að friðhelgi einkalífs feli jafnframt í sér réttinn til nafns. Til að takmarka þennan rétt þurfi lagaboð. Þá verði slík takmörkun að vera nauðsynleg í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna þjóðaröryggis, almannaheilla eða efnalegrar farsældar þjóðar, til þess að firra glundroða eða glæpum, til verndar heilsu manna eða siðgæði eða réttindum og frelsi annarra. Ekkert af þessu geti átt við hér. Mannanafnanefnd hafi ekki beitt heimildum sínum í samræmi við tilgang laganna og með tilliti til meðalhófs og jafnræðisreglu.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi byggir á því að ritháttur nafnsins samræmist ekki almennum ritreglum íslensks máls. Bókstafurinn z sé ekki í íslenska stafrófinu og aðeins notaður í undantekningartilfellum. Í íslensku komi stafurinn o ekki fyrir inni í orði á undan e í enda orðs. Hljóðskipun sé ekki í samræmi við reglur og íslenskt málkerfi. Loks taki nafnið ekki eignarfallsendingu. Nafnið uppfylli því ekki skilyrði 5. gr. laga nr. 45/1996.
Stefndi byggir á því að því aðeins sé heimilt að leyfa nöfn sem séu rituð með stöfum sem ekki séu í íslenska stafrófinu að þau hafi unnið sér hefð í málinu í skilningi laganna og vinnulagsreglnanna. Stefndi mótmælir því að ritháttur nafnsins sé hefðaður. Í þjóðskrá sé að finna sjö konur sem skilyrði vinnulagsreglnanna geti tekið til, þ.e. konur sem hafi öðlast íslenskt ríkisfang án umsóknar. Sú elsta þeirra sé fædd 1975. Því sé niðurstaða nefndarinnar í samræmi við vinnureglurnar. Vinnulagsreglur nefndarinnar séu byggðar á greinargerð sem fylgdi frumvarpi til laga um mannanöfn og eldri vinnureglum.
Stefndi mótmælir því að 71. gr. stjórnarskrárinnar útiloki beitingu laga um mannanöfn. Lögin hafi verið sett á lögformlegan hátt, þau séu málefnaleg og hafi aukið frelsi í nafngiftum frá því sem áður hafi verið. Stefndi mótmælir því að ákvarðanir á grundvelli laganna séu íþyngjandi í skilningi stjórnsýsluréttar. Hann telur að löggjöf um mannanöfn styðjist við samfélagslega hagsmuni, almannaheill og allsherjarreglu. Löggjafinn hafi talið að samfélagið hefði veigamikla hagsmuni af löggjöfinni. Þá sé lögunum ætlað að stuðla að varðveislu íslenskrar tungu og málhefðar.
Stefndi mótmælir því einnig að brotið sé gegn jafnræðisreglu. Úrskurður mannanafnanefndar í máli stefnanda hafi verið í samræmi við lögin. Vinnureglur nefndarinnar séu nauðsynlegar til þess að nefndin geti sinnt skyldubundnu mati samkvæmt 5. gr. laganna og gætt jafnræðis. Reglurnar séu málefnalegar og byggi á sjónarmiðum sem fram hafi komið í greinargerð með lögunum. Þá bendir stefndi á að tökunöfn sem ekki hafi unnið sér hefð í málinu séu óheimil, nema ritháttur þeirra sé í samræmi við íslenskar ritvenjur.
Þótt stefndi krefjist sýknu af kröfum stefnanda kvaðst hann telja að vísa bæri frá dómi kröfu stefnanda um viðurkenningu á rétti til að bera nafnið. Það sé ekki hlutverk dómstóla að taka nýja ákvörðun sem stjórnvöld eiga að taka.
Niðurstaða
Eiginnafnið
Zoe er þekkt í ýmsum tungumálum. Það
þekktist í grískri tungu fornaldar, ritað á samsvarandi hátt og nú á dögum (ζωή). Nú er það
þekkt í enskumælandi löndum, í Grikklandi og víðar. Eins og segir í gögnum mannanafnanefndar
finnst það ekki í eldri manntölum hér á landi.
Lögmaður
stefnanda sagði fyrir dómi að nafnið væri borið fram [sɔi].
Stafurinn
z er ekki hluti af íslenska stafrófinu þótt þröng heimild sé til að nota
stafinn í nöfnum. Á það sama við um
nokkra aðra stafi, þar sem tiltekinn ritháttur nokkurra nafna hefur unnið sér
hefð. Þá er ekki að finna dæmi um það í
íslensku að sérhljóðinn o sé næstur á undan sérhljóðanum e í orði. Í málflutningi var því haldið fram að í
eignarfalli bættist endingin –ar við nafnið.
Það er einnig óþekkt í íslensku að þrír sérhljóðar séu ritaðir í
samfellu og bornir fram. Verður ekki
fallist á það með stefnanda að nafnið uppfylli skilyrði 1. mgr. 5. gr. laga um
mannanöfn.
Vinnureglur
mannanafnanefndar eiga sér ekki beina lagastoð eins og um reglugerð væri að
ræða. Hins vegar eru reglurnar í samræmi
við lögin í öllu sem á reynir í þessu máli og þessar reglur geta tryggt samræmi
í afgreiðslu erinda.
Stefnandi
vísar til þess að 25 konur sem heiti Zoe séu skráðar í þjóðskrá. Í vinnureglum nefndarinnar eru sett frekari
skilyrði. Áskilið er að viðkomandi hafi
öðlast íslenskt ríkisfang án umsóknar.
Er þetta málefnalegt skilyrði og hefur stefnandi ekki hnekkt þeim
upplýsingum þjóðskrár að einungis sjö konur uppfylli skilyrðin og að sú elsta
þeirra sé fædd 1975. Er því ósannað að
fullnægt sé skilyrðum vinnureglnanna um hefð, sbr. 3. ml. 1. mgr. 5. gr.
laganna.
Það
stoðar ekki fyrir stefnanda að byggja á því að ákvörðun mannanafnanefndar sé
íþyngjandi fyrir hana. Ekki hefur verið
skýrt nákvæmlega hvers vegna foreldrar stefnanda vilji að hún beri þetta nafn. Þá er meginatriði málsins hvort nafnið
uppfylli skilyrði laga, en augljóst er samkvæmt orðanna hljóðan að skilyrðum
laga nr. 45/1996 er ekki fullnægt.
Verður
þá að leysa úr þeirri röksemd stefnanda að brotinn sé á henni réttur sem henni
sé tryggður með ákvæðum stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu um
jafnrétti og friðhelgi einkalífs.
Stefnandi
hefur ekki sýnt fram á að mannanafnanefnd hafi heimilað öðrum að heita þessu
nafni. Þá verður ekki fallist á að það
feli í sér brot gegn jafnréttisreglu stjórnarskrárinnar eða
mannréttindasáttmálans þótt konum sem eru af erlendu bergi brotnar sé leyft að
halda nafni sínu eftir að þær flytja til Íslands og hafa öðlast íslenskt
ríkisfang.
Löggjafinn
hefur um langt skeið sett reglur um mannanöfn.
Fyrstu heildarlögin voru sett 1913 (lög nr. 41/1913), áður en mannréttindasáttmáli
Evrópu var fullgiltur af Íslands hálfu.
Þá var í gildi stjórnarskráin frá 1874, með breytingum frá 1903, en þar
var einungis að finna ákvæði um friðhelgi heimilis, en ekki einkalífs. Almennt ákvæði um friðhelgi einkalífs var
ekki sett í stjórnarskrána fyrr en með 9. gr. stjórnskipunarlaga nr.
97/1995.
Hæstiréttur
hefur ekki fjallað um lögin um mannanöfn eftir að stjórnarskránni var breytt
1995. Þótt mannréttindasáttmáli Evrópu
hafi einungis verið lögfestur hér á landi sem almenn lög, er 71. gr.
stjórnarskrárinnar samhljóða 8. gr. sáttmálans og hafa því fordæmi um skýringu
þessa ákvæðis sáttmálans fullt gildi við skýringu 71. gr.
stjórnarskrárinnar. Mannréttindadómstóll
Evrópu hefur fjallað um heimildir aðildarríkjanna til að setja og framfylgja
reglum um mannanöfn. Kemur hér einkum
til skoðunar dómur frá 6. september 2007 í málinu Johansson gegn
Finnlandi. Þar taldi dómurinn að ef
verndun nafnahefðar þjóðar væri hluti af varðveislu tungumáls gæti hún talist
vera í „public interest“.
Í
greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 45/1996 segir að höfundar
frumvarpsins telji brýnt að unnið sé að varðveislu íslenska mannanafnaforðans
og íslenskra nafnasiða. En þeir benda
jafnframt á að nafn manns sé einn mikilvægasti þáttur sjálfsmyndar hans og
varði fyrst og fremst einkahagi hans en síður almannahag.
Hér
kemur fram að megintilgangur mannanafnalöggjafarinnar er að varðveita íslenskar
hefðir og siði um nöfn, sem eru frábrugðnir siðum meðal annarra þjóða. Þannig var í áðurnefndum dómi Mannréttindadómstólsins
talið að brotið hefði verið gegn rétti kæranda með því að neita honum um að
heita tilteknu nafni. En í dóminum kemur
fram að tilgangur finnskrar löggjafar var ekki varðveisla tungu og nafnasiða.
Að
þessu sögðu verður ekki fallist á það með stefnanda að beiting laganna um
mannanöfn eins og hún birtist í hinum umdeilda úrskurði mannanafnanefndar
brjóti í bága við 71. gr. stjórnarskrárinnar eða sé ekki samþýðanleg 8. gr.
mannréttindasáttmálans. Hefur
mannanafnanefnd því beitt fullgildum réttarheimildum í samræmi við viðurkenndar
aðferðir við lögskýringu. Verður kröfum
stefnanda því hafnað.
Rétt er að málskostnaður falli niður.
Dóm þennan kveða upp héraðsdómararnir Jón Finnbjörnsson og Hólmfríður Grímsdóttir og Sigrún Steingrímsdóttir málfræðingur.
Dómsorð
Öllum kröfum stefnanda, óskírðrar dóttur Rutar Helgadóttur og Jóhanns Ögra Elvarssonar, er hafnað.
Málskostnaður fellur niður.