- Kjarasamningur
- Veikindaforföll
D Ó M U R
Héraðsdóms Reykjavíkur miðvikudaginn 24. september 2014 í máli nr. E-5160/2013:
Ingvar Kristinn Hreinsson
(Hilmar Gunnarsson hdl.)
gegn
íslenska ríkinu
(Guðrún M. Árnadóttir hrl.)
Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 16. desember 2013. Það var dómtekið 4. september 2014.
Stefnandi er Ingvar Kristinn Hreinsson, Laugarvegi 14, Siglufirði.
Stefndi er íslenska ríkið, Arnarhvoli, Reykjavík.
Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 3.142.920 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, af 206.385 krónum frá 1. júlí 2011 til 1. ágúst 2011, af 412.770 krónum frá þeim degi til 1. september 2011, af 619.155 krónum frá þeim degi til 1. október 2011, af 825.540 krónum frá þeim degi til 1. nóvember 2011, af 1.031.925 krónum frá þeim degi til 1. desember 2011, af 1.238.310 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2012, af 1.444.695 krónum frá þeim degi til 1. febrúar 2012, af 1.651.080 krónum frá þeim degi til 1. mars 2012, af 1.857.465 krónum frá þeim degi til 1. apríl 2012, af 2.063.850 krónum frá þeim degi til 1. maí 2012, af 2.270.235 krónum frá þeim degi til 1. júní 2012, af 2.476.620 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2012, af 2.683.005 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 2012, af 2.889.390 krónum frá þeim degi til 1. september 2012, af 3.095.775 krónum frá þeim degi til 1. október 2012 og af 3.142.920 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnda.
Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar, en til vara að stefnukröfurnar verði stórlega lækkaðar og að málskostnaður verði látinn niður falla.
I
Stefnandi var ráðinn til starfa sem sjúkraflutningamaður við heilbrigðisstofnunina á Siglufirði frá 1. febrúar 2006. Fram kemur í ráðningarsamningnum að stéttarfélag stefnanda sé starfsmannafélagið Kjölur. Heilbrigðisstofnunin á Siglufirði sameinaðist heilsugæslu Ólafsfjarðar 1. janúar 2010 og tók þá til starfa sameinuð stofnun, Heilbrigðisstofnunin Fjallabyggð. Ráðningarsamningi stefnanda var ekki breytt vegna sameiningarinnar.
Stefnandi sinnti sjúkraflutningum á bakvöktum, en starfaði í dagvinnu hjá skattstofunni á Siglufirði. Samkvæmt ráðningarsamningi var vinnuskylda hans „bakvakt og útkallsskylda samkv. vaktarplani frá kl. 17.00 eh til kl. 8.00 að morgni virka daga og sólarhringsvaktir um helgar“. Stefnandi sinnti bakvöktunum ásamt fjórum öðrum starfsmönnum. Þann 1. júní 2009 fækkaði Heilbrigðisstofnunin starfsmönnum sem sinntu sjúkraflutningum á dagvöktum. Frá þeim tíma var stefnanda falið að sinna bakvöktum alla daga vikunnar frá kl. 8:00 til kl. 17:00 og fimmtu hverja viku allan sólarhringinn.
Hinn 22. desember 2010 slasaðist stefnandi við störf sín sem sjúkraflutningamaður. Tildrög slyssins voru þau að stefnandi var að bera sjúkrarúm en rann til með þeim afleiðingum að hann fékk hnykk á skrokkinn og rúmgaflinn lenti framan á brjóstkassa. Vegna slyssins hefur stefnandi ekki getað sinnt starfi sínu sem sjúkraflutningamaður frá og með 23. desember 2011.
Stefnandi fékk greidd veikindalaun í 121 dag vegna vinnuslyssins. Réttur hans til launa vegna veikinda féll niður 31. maí 2011. Kröfu stefnanda um frekari veikindalaun vegna slyssins var hafnað. Heilbrigðisstofnunin Fjallabyggð byggði á því að stefnandi hefði verið ráðinn í tímavinnu samkvæmt grein 12.2.2 í kjarasamningi fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, og Kjalar, stéttarfélags starfsmanna í almannaþjónustu.
Í framhaldi af því að Heilbrigðisstofnunin hafnaði kröfu stefnanda leitaði hann til kjarasamningsbundinnar samráðsnefndar um veikindarétt, en nefndina skipuðu fulltrúar samningsaðila að samkomulagi BHM, BSRB og KÍ við fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, Reykjavíkurborgar og launanefndar sveitarfélaga (nú samningsnefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga) frá 24. október 2000, um tiltekin atriði, þ.m.t. veikindarétt launþega. Óskaði stefnandi eftir því að nefndin tæki til umfjöllunar hvort stefnandi nyti veikindaréttar samkvæmt grein 12.2.1 í umræddum kjarasamningi, sem starfsmaður á mánaðarlaunum, eða grein 12.2.2, sem starfsmaður ráðinn í tímavinnu.
Nefndin komst ekki að sameiginlegri niðurstöðu, en nefndarmenn voru þó sammála um að réttindi starfsmanns, sem eingöngu væri ráðinn á bakvaktir, til veikinda væri ekki allskostar skýr í kjarasamningi. Fulltrúar samningsnefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga, fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs og Reykjavíkurborgar töldu stefnanda vera ráðinn í tímavinnu í skilningi kjarasamnings Kjalar og ríkissjóðs og vísuðu meðal annars til þess að stefnandi hefði ekki verið ráðinn til starfa á mánaðarlaunum og hann áynni sér ekki rétt til orlofstöku, orlofsuppbótar eða persónuuppbótar í desember. Þá væri starfið ekki aðalstarf stefnanda og vinnufyrirkomulagið bæri með sér að hann væri tímavinnumaður sem félli undir heimild atvinnurekanda samkvæmt kjarasamningi til að vera ráðinn í tímavinnu þar sem hann ynni afmörkuð verkefni. Fulltrúar BSRB, BHM og KÍ töldu stefnanda hins vegar hafa verið ráðinn á mánaðarlaun í skilningi kjarasamningsins. Vísuðu þeir meðal annars til þess að tilgreint væri að hann hefði verið ráðinn til starfa á bakvöktum en ekki í tímavinnu. Þá áréttuðu þeir skyldu atvinnurekenda til að upplýsa starfsmenn um ráðningarkjör með skriflegum ráðningarsamningi og sögðu að heimild atvinnurekanda til að ráða starfsfólk í tímavinnu samkvæmt áðurnefndum ákvæðum kjarasamnings ætti að nota í undantekningartilvikum og bæri að skýra þröngt.
II
Stefnandi byggir kröfu sína á því að hann eigi rétt til veikindalauna í samræmi við grein 12.2.1 í kjarasamningi fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs og stéttarfélagsins Kjalar, sem gilt hafi frá 1. maí 2011 til 31. mars 2014. Grein 12.2.1 í kjarasamningnum, sé svohljóðandi: „Starfsmaður sem ráðinn er til starfa á mánaðarlaunum skv. gr. 1.1.1 í kjarasamningi í a.m.k. 2 mánuði, skal halda launum skv. gr. 12.2.6 - 12.2.7 svo lengi sem veikindadagar hans, taldir í almanaksdögum, verða ekki fleiri á hverjum 12 mánuðum en hér segir [...].“
Stefnandi byggi á því að hann hafi verið ráðinn til starfa á mánaðarlaunum samkvæmt grein 1.1.1. Fyrirkomulag launa stefnanda skipti ekki máli í því sambandi, en hann hafi fengið greidd laun vegna þeirra bakvakta sem hann hafi sinnt í hverjum mánuði. Meginreglan samkvæmt kjarasamningnum sé sú að starfsmaður sé ráðinn til starfa á mánaðarlaunum. Einungis í undantekningartilvikum, sem séu tæmandi talin í kjarasamningnum, sé heimilt að ráða starfsmann á tímavinnukaup, sbr. grein 1.4.2, sem sé svohljóðandi: „Heimilt er að greiða tímavinnukaup í eftirfarandi tilvikum: 1. nemendum við störf í námshléum 2. starfsmönnum sem ráðnir eru til skamms tíma vegna sérstakra árvissra álagstíma ýmissa stofnana þó ekki lengur en 2 mánuði. 3. Starfsmönnum sem ráðnir eru til að vinna að sérhæfðum, afmörkuðum verkefnum. 4. Starfsmönnum sem starfa óreglubundið um lengri eða skemmri tíma þó aðeins í undantekningartilvikum. 5. Lífeyrisþegar sem vinna hluta úr starfi.“ Ljóst sé að töluliðir 1, 2 og 5 eigi ekki við um starf stefnanda, eins og það sé skilgreint í ráðningarsamningi og í lögum. Þá sé ekki hægt að halda því fram að hann hafi verið ráðinn til að vinna að „sérhæfðum, afmörkuðum verkefnum“ í skilningi 3. töluliðar eða að hann hafi starfað „óreglubundið um lengri eða skemmri tíma“ í skilningi 4 töluliðar. Sjúkraflutningar séu hluti af lögbundinni heilbrigðisþjónustu sem falli undir lög um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna og reglugerð um framkvæmd og skipulag sjúkraflutninga nr. 262/2011. Um lögbundna þjónustu sé að ræða sem stefnandi hafi sinnt frá árinu 2006. Starfið sé því ekki sérhæft, afmarkað verkefni. Þá uppfylli stefnandi ekki það skilyrði að hafa starfað „óreglubundið um lengri eða skemmri tíma“ enda hafi hann starfað á föstum vöktum sem hafi verið skipulagðar hálft ár fram í tímann.
Stefnandi telji að þar sem svokallaðir tímavinnumenn í skilningi kjarasamningsins njóti lakari kjara en þeir starfsmenn sem ráðnir séu á mánaðarlaunum hafi stefnda verið skylt að tiltaka það í ráðningarsamningi stefnanda, með skýrum hætti, að hann hefði verið ráðinn til starfa í tímavinnu. Þar sem það hafi ekki verið gert geti stefndi ekki skert réttindi stefnanda á þeim grundvelli að hann hafi verið tímavinnumaður í skilningi kjarasamningsins. Framangreindu til stuðnings vísi stefnandi til þeirra grundvallarreglna sem gildi um túlkun ráðningarsamninga. Í fyrsta lagi skuli sérhver vafi túlkaður starfsmanni í hag. Í öðru lagi verði réttindi starfsmanns samkvæmt ráðningarsamningi ekki skert nema skerðingin komi fram með skýrum hætti í ráðningarsamningi. Í þriðja lagi sé vísað til 8. og 42. gr. laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, nr. 70/1996, sem geri þær kröfur að ráðningarsamningar séu skriflegir og að þeir tilgreini „ráðningarkjör“ starfsmannsins.
Stefnandi sé og hafi verið í fullu starfi hjá skattstofu Norðurlandsumdæmis vestra. Stefnandi hafi því gegnt tveimur störfum fyrir sama launagreiðanda, stefnda, og reglubundin vinnuskylda hans hafi verið meiri en 100% á mánuði. Þar sem stefnandi hafi verið fastráðinn hjá stefnda og vinnuskylda hans hafi verið meiri en 100% á mánuði sé ljóst að stefnandi hafi ekki verið ráðinn í tímavinnu til að sinna sjúkraflutningum.
Samkvæmt grein 12.2.1 í kjarasamningnum, skuli starfsmaður halda launum samkvæmt grein 12.2.6 – 12.2.7 svo lengi sem veikindadagar hans, taldir í almanaksdögum, verði ekki fleiri á hverjum 12 mánuðum en hér segi :
Starfstími | Fjöldi daga |
0-3 mánuðir í starfi | 14 dagar |
Næstu 3 mánuði í starfi | 35 dagar |
Eftir 6 mánuði í starfi | 119 dagar |
Eftir 1 ár í starfi | 133 dagar |
Eftir 7 ár í starfi | 175 dagar. |
Eftir 12 ár í starfi | 273 dagar. |
Eftir 18 ár í starfi | 360 dagar. |
Við framantalinn rétt bætist réttur til mánaðarlauna samkvæmt grein 1.1.1 í kjarasamningi í 13 vikur eða 91 dag ef óvinnufærni stafar af vinnuslysi eða atvinnusjúkdómi. Við þessi laun bætist ekki greiðslur skv. gr. 12.2.6 – 12.2.7.
Í þessu sambandi vísi stefnandi til greinar 12.2.5 í kjarasamningnum, sem segi að við mat á ávinnslurétti starfsmanns samkvæmt grein 12.2.1 skuli auk þjónustualdurs hjá viðkomandi launagreiðanda einnig telja þjónustualdur hjá stofnunum ríkis. Við mat á fjölda veikindadaga stefnanda samkvæmt grein 12.2.1 beri því að líta til þess að starfsaldur stefnanda hjá íslenska ríkinu hafi verið 25 ár og fjórir mánuðir þegar umrætt vinnuslys hafi átt sér stað. Stefnandi hafi því áunnið sér rétt til að halda launum í 360 daga. Stefnandi hafi haldið launum sínum í 30 daga í samræmi við grein 12.2.2. Hann geri því kröfu um greiðslu sem nemi ígildi launa í 330 daga, sbr. grein 12.2.1. Auk þess telji stefnandi sig eiga rétt á að fá greitt meðaltal þeirra yfirvinnustunda sem hann hafi fengið greiddar síðustu 12 mánaðarleg uppgjörstímabil yfirvinnu eða 12 heilu almanaksmánuðina, sbr. greinar 12.2.1 og 12.2.7.
Umsamin mánaðarlaun stefnanda hafi verið 419,8 krónur fyrir hverja klukkustund á „bakvakt I“ en 565,96 krónur fyrir hverja klukkustund á „bakvakt II“, eins og framlagðir launaseðlar stefnanda sýni fram á. Fyrstu fjóra mánuðina á árinu 2011 hafi stefnandi fengið greitt að meðaltali 253,3 klukkustundir á „bakvakt I“ og 80,105 klukkustundir á „bakvakt II“. Stefnandi byggi á því að meðaltal fyrstu fjóra mánuðina á árinu 2011 gefi rétta mynd af mánaðarlaunum hans. Mánaðarlaun stefnanda séu því samtals 171.366 krónur að meðtöldu orlofi (13,04%). Laun stefnanda fyrir hvern dag séu þá 7.908 krónur miðað við að meðaltalsfjöldi vinnudaga í mánuði sé 21,67, sbr. grein 1.1.2 í umræddum kjarasamningi.
Umsamin yfirvinnulaun stefnanda hafi verið 2.123,74 krónur fyrir hverja yfirvinnustund. Stefnandi hafi fengið að meðaltali greitt fyrir 14,58 yfirvinnustundir síðustu tólf heilu almanaksmánuðina fyrir vinnuslysið. Laun stefnanda fyrir yfirvinnu hafi því verið 1.616 krónur að meðtöldu orlofi (13,04%) fyrir hvern dag miðað við að meðaltalsfjöldi vinnustunda í mánuði hafi verið 21,67, sbr. grein 1.1.2 í umræddum kjarasamningi.
Umsamin veikindalaun stefnanda samkvæmt grein 12.2.1 séu því 3.142.920 krónur (7.908+1.616*330). Stefndi hafi hætt að greiða stefnanda veikindalaun 31. maí 2011. Umsamin veikindalaun stefnanda hafi fallið í gjalddaga sem hér segi:
Júní 2011 (21,67*9.524) | 206.385 |
Júlí 2011 (21,67 *9.524) | 206.385 |
Ágúst 2011 (21,67 *9.524) | 206.385 |
September 2011 (21,67 *9.524) | 206.385 |
Október 2011 (21,67 *9.524) | 206.385 |
Nóvember 2011 (21,67 *9.524) | 206.385 |
Desember 2011 (21,67*9.524) | 206.385 |
Janúar 2012 (21,67*9.524) | 206.385 |
Febrúar 2012 (21,67*9.524) | 206.385 |
Mars (21,67*9.524) | 206.385 |
Apríl (21,67*9.524) | 206.385 |
Maí 2012 (21,67*9.524) | 206.385 |
Júní 2012 (21,67*9.524) | 206.385 |
Júlí 2012 (21,67*9.524) | 206.385 |
Ágúst 2012 (21,67 *9.524) | 206.385 |
September 2012 (5 *9.524) | 47.125 |
Samtals: | 3.142.920 |
Kröfu um dráttarvexti byggi stefnandi á 1. mgr. 5. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 en laun beri að greiða fyrsta hvers mánaðar eftir á, sbr. framlagðan ráðningarsamning málsaðila.
Auk þeirra lagaákvæða sem vísað sé til hér að framan vísi stefnandi til 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda og laga nr. 30/1987 um orlof. Varðandi varnarþing vísi stefnandi til 1. mgr. 32. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um málskostnað byggist á 130. gr. laga nr. 91/1991. Varðandi aðild stefnda vísi stefnandi til þess að heilbrigðisstofnunin Fjallabyggð sé rekin á ábyrgð og kostnað stefnda, sbr. 2. gr. laga nr. 40/2007, auk þess sem stofnunin sé rekin á A-hluta fjárlaga, sbr. 1. tölulið 3. gr. laga nr. 88/1997.
III
Stefndi hafnar kröfum stefnanda og vísar til þess að samkvæmt grein 2.5.3 í kjarasamningi Kjalar sé með bakvakt átt við það þegar starfsmaður sé ekki við störf en sé reiðubúinn að sinna útkalli. Samkvæmt grein 1.6.2, sbr. grein 1.4.1, í sama kjarasamningi sé greitt fyrir bakvaktir með tímakaupi, en komi til útkalls greiðist yfirvinna fyrir útkallið og falli þá bakvaktagreiðsla niður fyrir þann tíma, sbr. grein 2.5.3.
Um laun í veikindaforföllum sé fjallað í grein 12.2 í kjarasamningnum. Í þeirri grein sé að finna mismunandi reglur um veikindarétt starfsmanna eftir því hvort þeir séu ráðnir til starfa á föstum mánaðarlaunum samkvæmt grein 1.1.1 í kjarasamningnum, en þá geti starfsmenn eftir 18 ára starfsaldur notið veikindalauna í allt að 360 daga, sbr. grein 12.2.1, eða hvort þeir séu ráðnir sem tímavinnumenn, en þá geti starfsmenn í mesta lagi notið veikindalauna í 121 dag, enda sé um að ræða veikindaforföll vegna vinnuslyss eða atvinnusjúkdóms, sbr. grein 12.2.2. Þar sem stefnandi hafi slasast í starfi sínu sem sjúkraflutningamaður og í kjölfarið verið óvinnufær hafi hann fengið greidd veikindalaun í samræmi við grein 12.2.2 í kjarasamningnum.
Stefndi mótmæli því að stefnandi eigi rétt til greiðslu launa vegna veikinda á grundvelli greinar 12.2.1 í kjarasamningnum. Samkvæmt grein 1.1.1 í kjarasamningnum skuli mánaðarlaun starfsmanns sem gegnir fullu starfi greidd samkvæmt meðfylgjandi launatöflum í fylgiskjali sem taki nánar tilteknum breytingum á samningstímanum. Stefnandi hafi ekki verið ráðinn til starfa sem sjúkraflutningamaður á mánaðarlaunum, enda sé í ráðningarsamningi hans í reitnum „vinnutímaskipulag“ merkt við „annað“ og þar tiltekið „bakvaktir“. Þá komi einnig fram að um sé að ræða bakvakt og útkallsskyldu samkvæmt vaktaplani frá kl. 17:00 til kl. 8:00 að morgni virka daga og sólarhringsvaktir um helgar. Ekki hafi verið merkt við dagvinnu. Stefnandi hafi fengið greitt vaktaálag fyrir bakvaktir samkvæmt bakvaktarplönum. Þá hafi hann fengið greidda yfirvinnu þegar hann hafi verið kallaður út. Stefnandi hafi hvorki verið ráðinn í fullt starf né í ákveðið starfshlutfall. Þá hafi starf hans hjá Heilbrigðisstofnun Fjallabyggðar verið aukastarf, en hann hafi verið í fullu starfi hjá öðrum vinnuveitanda. Stefnandi hafi því eðli máls samkvæmt ekki getað verið í öðru fullu starfi á sama tíma.
Stefndi telji að sjónarmið stefnanda um að ekki hafi verið heimilt samkvæmt kjarasamningnum að ráða stefnanda til starfa á tímakaupi standist ekki. Stefnda hafi verið heimilt að ráða stefnanda í tímavinnu samkvæmt 3. og 4. tölulið greinar 1.4.2 í áðurnefndum kjarasamningi, en samkvæmt þeim ákvæðum sé heimilt að greiða tímavinnukaup þeim starfsmönnum sem ráðnir hafi verið til að vinna að sérhæfðum, afmörkuðum verkefnum og starfsmönnum sem starfi óreglubundið um lengri eða skemmri tíma, þó aðeins í undantekningartilvikum.
Verkefni stefnanda hafi verið bæði sérhæfð og afmörkuð. Hann hafi sinnt starfi við sjúkraflutninga, verið á bakvöktum og haft útkallsskyldu. Verkefni í starfi stefnanda sem sjúkraflutningamanns séu sérhæfð í þeim skilningi að þau krefjist ákveðinnar sérhæfingar, en sá einn hafi rétt til að kalla sig sjúkraflutningamann og starfa sem slíkur sem hafi fengið leyfi landlæknis til þess, sbr. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1110/2012 um menntun, réttindi og skyldur sjúkraflutningamanna og bráðatækna og skilyrði til að hljóta starfsleyfi. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. sömu reglugerðar megi veita þeim leyfi sem lokið hafa viðurkenndu námi í sjúkraflutningum samkvæmt námskrá sem landlæknir viðurkenni og starfsþjálfun sem uppfylli viðmið sem eru sett af fagráði sjúkraflutninga. Stefnandi hafi lokið grunnnámskeiði í sjúkraflutningum (EMT-B).
Verkefni stefnanda sem sjúkraflutningamanns hafi verið afmörkuð að því leyti að hann sé samkvæmt ráðningarsamningi eingöngu ráðinn í sjúkraflutninga og þá eingöngu á bakvöktum. Stefnandi hafi fengið greidd laun fyrir starf sitt sem sjúkraflutningamaður samkvæmt kjarasamningi Kjalar við fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs. Sjúkraflutningamenn taki almennt laun samkvæmt kjarasamningum fjármálaráðherra og Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. Það félag geri tvo samninga við fjármálaráðherra, annars vegar fyrir sjúkraflutningamenn í aðalstarfi og hins vegar fyrir hlutastarfandi sjúkraflutningamenn. Störf hlutastarfandi sjúkraflutningamanna, eins og stefnandi hafi verið, séu því afmörkuð að þessu leyti enda hafi verið talin þörf á að gerður yrði sérstakur kjarasamningur við hlutastarfandi sjúkraflutningamenn. Hlutastarfandi sjúkraflutningamenn eigi rétt til launa vegna veikinda og slysa sem tímavinnumenn samkvæmt grein 12.2.2 í kjarasamningi fyrir sjúkraflutningamenn.
Starf stefnanda sem sjúkraflutningamanns sé jafnframt óreglubundið að því leyti að samkvæmt ráðningarsamningi hafi hann verið ráðinn á bakvaktir og með útkallsskyldu. Ekki sé um viðveruskyldu að ræða en hann hafi þurft að vera reiðubúinn að bregðast við þegar hann yrði kallaður út.
Til vara mótmæli stefndi kröfum stefnanda sem alltof háum og krefjist stórkostlegrar lækkunar þeirra verði ekki alfarið sýknað. Stefnandi geri kröfu til greiðslu veikindalauna að fjárhæð 206.805 krónur á mánuði í alls 16 mánuði frá og með júní 2011 til og með september 2012 til viðbótar þeim veikindalaunum í fimm mánuði sem stefnandi hafi fengið greidd í kjölfar slyssins til 31. maí 2011. Ljóst sé að ef fallist yrði á að stefnandi hafi átt rétt á launum í veikindum samkvæmt grein 12.2.1 í 360 daga gæti sá réttur aldrei náð lengra en til desember 2011. Kröfur stefnanda vegna níu mánaða á árinu 2012 að fjárhæð 1.698.205 krónur fái þannig ekki staðist. Beri þegar af þeim ástæðum að lækka kröfu stefnanda um þá fjárhæð.
IV
Stefnandi gerir í máli þessu kröfu um vangreidd laun í veikindaleyfi. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort stefndi njóti réttar til veikindalauna samkvæmt grein 12.2.1 eða samkvæmt grein 12.2.2 í kjarasamningi fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, og Kjalar, stéttarfélags starfsmanna í almannaþjónustu.
Samkvæmt framangreindum ákvæðum kjarasamningsins gilda mismunandi reglur um veikindarétt starfsmanna eftir því hvort þeir eru ráðnir á föstum mánaðarlaunum eða sem tímavinnumenn. Stefndi hefur greitt stefnanda laun vegna veikindaleyfis í samræmi við ákvæði 12.2.2, sem á við um starfsmenn sem ráðnir eru í tímavinnu. Stefnandi heldur því hins vegar fram að hann eigi rétt til greiðslna í samræmi við ákvæði 12.2.1 þar sem hann hafi verið ráðinn á mánaðarlaunum.
Í ráðningarsamningi stefnanda er um vinnutímaskipulag hvorki merkt við dagvinnu eða yfirvinnu, heldur „annað“ og þar skráð „bakvaktir“. Ekkert er merkt í reit þar sem ætlast er til að gerð sé grein fyrir starfshlutfalli. Þá hefur „dagleg og/eða mánaðarleg vinnuskylda og mörk reglubundins vinnutíma“ verið skilgreind sem „bakvakt og útkallsskylda samkv. vaktarplani frá kl. 17.00 eh til kl. 8.00 að morgni virka daga og sólarhringsvaktir um helgar“.
Grein 12.2.1 í framangreindum kjarasamningi á við um starfsmenn sem ráðnir eru á mánaðarlaunum samkvæmt grein 1.1.1 í samningnum. Samkvæmt þeirri grein eru mánaðarlaun starfsmanns greidd samkvæmt meðfylgjandi launatöflum. Stefnandi fékk hins vegar greitt fyrir bakvaktirnar með tímakaupi sem reiknast af dagvinnukaupi, sbr. greinar 1.6.2 og 1.4.1 í framangreindum kjarasamningi. Við útkall var greidd yfirvinna og bakvaktargreiðsla féll niður fyrir þann tíma, sbr. greinar 2.3.3 og 2.5.3 í kjarasamningnum. Samkvæmt framangreindu var stefnandi ekki ráðinn til starfa á föstum mánaðarlaunum, heldur fékk hann greitt tímakaup fyrir þær bakvaktir og þau útköll sem hann sinnti.
Stefnandi heldur því fram að ekki hafi verið heimilt að ráða hann í tímavinnu, en þau tilvik þar sem heimilt sé að greiða starfsmanni tímavinnukaup séu tæmandi talin í grein 1.4.2 í kjarasamningnum og tilvik stefnanda geti ekki fallið þar undir. Framangreint ákvæði er rakið í kafla II hér að framan, en samkvæmt því er meðal annars heimilt að greiða tímavinnukaup þeim starfsmönnum sem ráðnir eru til að vinna að sérhæfðum, afmörkuðum verkefnum og þeim sem starfa óreglubundið um lengri eða skemmri tíma, þó aðeins í undantekningartilvikum. Stefnandi starfaði við sjúkraflutninga hjá Heilbrigðisstofnuninni Fjallabyggð. Hann sinnti eingöngu sjúkraflutningum og einungis á bakvöktum. Hann hefur lokið viðurkenndu námi í sjúkraflutningum og hlotið leyfi landlæknis, sem er skilyrði þess að mega starfa sem sjúkraflutningamaður, sbr. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1110/2012 um menntun, réttindi og skyldur sjúkraflutningamanna og bráðatækna og skilyrði til að hljóta starfsleyfi. Með hliðsjón af þessu þykir sýnt að stefnandi hafi unnið að sérhæfðum, afmörkuðum verkefnum og því hafi verið heimilt að ráða hann til starfa á tímakaupi.
Stefnandi heldur því fram að nauðsyn hafi borið til þess að það kæmi fram í ráðningarsamningi hans ef hann væri ráðinn í tímavinnu. Hann geti ekki notið lakari réttinda en fram komi í samningnum. Þá beri honum réttur til þess að fá upplýsingar um starfskjör sín, en hann hafi ekki verið upplýstur um að hann hafi verið ráðinn í tímavinnu eða hver réttur hans til launa vegna veikinda og slysa væri. Í ráðningarsamningi stefnanda er ekki tiltekið sérstaklega að hann sé ráðinn í tímavinnu. Þar er þó skýrt tilgreint að hann sé ráðinn á bakvaktir. Um launagreiðslur og önnur starfskjör er vísað til kjarasamnings starfsmannafélagsins Kjalar. Eins og hér hefur verið greint frá er í þeim samningi gerð grein fyrir því að tímakaup sé greitt fyrir bakvaktir. Þykir því ekki leika slíkur vafi um túlkun á ráðningarsamningi stefnanda að hann skuli njóta aukins réttar til veikindalauna. Þá þykja önnur atriði sem stefnandi hefur bent á, svo sem ákvæði um uppsagnarfrest, ekki benda til þess að stefnandi hafi verið ráðinn á mánaðarlaunum.
Samkvæmt öllu framangreindu þykir stefnandi ekki eiga rétt til frekari greiðslna vegna veikindaleyfis en hann hefur þegar fengið og verður stefndi því sýknaður af kröfu hans.
Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af rekstri málsins.
Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan dóm.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfu stefnanda, Ingvars Kristins Hreinssonar.
Málskostnaður fellur niður.
Barbara Björnsdóttir