- Eignarréttur
- Eignarréttarmál
D Ó M U R
Héraðsdóms Norðurlands eystra þriðjudaginn 2. febrúar
2016 í máli
nr. E-196/2012:
Einar Sigurbjörnsson
Guðrún Edda Gunnarsdóttir
(Ólafur Björnsson hrl.)
gegn
íslenska ríkinu
(Edda Andradóttir hrl.)
Mál þetta, sem dómtekið var 14. desember sl., eftir endurflutning, var höfðað með stefnu Einars Sigurbjörnssonar, kt. 060544-3879, og Guðrúnar Eddu Gunnarsdóttur, kt. 010946-4179, Neðstabergi 8, Reykjavík, á hendur íslenska ríkinu, birtri 9. maí 2012.
Dómkröfur stefnenda eru:
Að felldur verði úr gildi úrskurður óbyggðanefndar frá 10. október 2011 í málinu nr. 1/2009, Eyjafjörður ásamt Lágheiði en án Almennings norðan Hrauna, þess efnis að eignarhald Atlastaða, Hnjótafjall, sé þjóðlenda, þ.e. eftirtalin úrskurðarorð: „Það er því niðurstaða óbyggðanefndar að landsvæði það sem kallað hefur verið Hnjótafjall, svo sem það er afmarkað hér á eftir, sé þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998. Frá þeim stað þar sem Skallá fellur í Svarfaðardalsá er Skallá fylgt að upptökum í Hákömbum og í mörk Eyjafjarðar- og Skagafjarðarsýslna. Þaðan er sýslumörkum fylgt til suðurs um Hákamba, þar til komið er að fremstu upptökum Svarfaðardalsár. Loks er Svarfaðardalsá fylgt þangað sem Skallá fellur í hana.“
Þá er þess krafist að stefnda verði gert að greiða stefnendum málskostnað að skaðlausu í samræmi við framlagðan málskostnaðarreikning, eða samkvæmt mati dómsins eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Stefndi, íslenska ríkið, krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnenda og að honum verði dæmdur hæfilegur málskostnaður. Til vara krefst stefndi þess að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.
I.
1. Tildrög þessa máls eru þau, að með bréfi, dagsettu 29. mars 2007, tilkynnti óbyggðanefnd fjármálaráðherra, f.h. íslenska ríkisins, þá ákvörðun sína að taka til meðferðar tiltekin landsvæði á vestanverðu Norðurlandi, eins og þau eru nefnd í bréfinu, sbr. 8. gr., 1. mgr. 10. gr. og 11. gr. laga nr. 58, 1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta. Afmarkaðist kröfusvæðið nánar af Eyjafjarðarsýslu, Skagafjarðarsýslu og Austur-Húnavatnssýslu, austan Blöndu, auk Hofsjökuls. Var þetta landsvæði auðkennt sem svæði nr. 7 hjá óbyggðanefnd. Á síðari stigum meðferðar hjá óbyggðanefnd var afráðið að skipta landsvæðinu í tvennt og þá þannig að fjallað yrði sérstaklega um syðri og nyrðri hlutann. Var síðar greint svæði nefnt „vestanvert Norðurland, nyrði hluti (7B)“. Svæðið var nánar afmarkað þannig: Tröllaskagi norðan Öxnadalsheiðar, sem síðar var skipt í mál nr. 1/2009, Eyjafjörður ásamt Lágheiði en án Almennings norðan Hrauna, og mál nr. 2/2009, Skagafjörður ásamt Almenningi norðan Hrauna en án Lágheiðar. Er hið fyrrnefnda svæði hér til umfjöllunar.
Kröfulýsingar fjármálaráðherra, fyrir hönd íslenska ríkisins á umræddu landsvæði, þ.e. svæði 7B í máli nr. 1/2009, bárust óbyggðanefnd 11. maí 2009. Óbyggðanefnd birti tilkynningu um meðferð sína á svæðinu, svo og útdrátt úr kröfum aðila, m.a. stefnenda, ásamt uppdrætti, í Lögbirtingablaðinu 22. maí sama ár, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 58, 1998. Skorað var á þá sem teldu til eignarréttinda á því landsvæði sem félli innan kröfusvæðis ríkisins að lýsa kröfum sínum fyrir óbyggðanefnd í síðasta lagi 25. ágúst 2009. Kom jafnframt fram að yfirlýsingum um kröfugerð og málsmeðferð yrði þinglýst á þær fasteignir á svæðinu sem skráðar væru í þinglýsingabók og málið varðaði. Samkvæmt gögnum voru kröfur fjármálaráðherra gerðar aðgengilegar almenningi á skrifstofum sýslumanna norðanlands, auk sveitarfélaga á kröfusvæðum og á heimasíðu óbyggðanefndar. Jafnframt var málið kynnt í fjölmiðlum.
Óbyggðanefnd tilkynnti breytingu á kröfusvæðinu í Lögbirtingablaðinu 5. mars 2010 og var þá á ný skorað á þá sem teldu til eignarréttinda á því landsvæði sem félli innan kröfusvæðis íslenska ríkisins að lýsa kröfum sínum fyrir óbyggðanefnd í síðasta lagi 7. júní það ár.
Gefið var út yfirlit yfir allar lýstar kröfur og þær færðar inn á uppdrátt. Lögboðin kynning fór fram með því að yfirlit og uppdrátturinn lágu frammi á skrifstofum fyrrnefndra sýslumanna frá 5. mars til og með 6. apríl 2010, sbr. 12. gr. laga nr. 58, 1998, og var athugasemdafrestur veittur til 13. apríl sama ár. Vegna fyrrnefndra breytinga fór fram sérstök kynning og var frestur veittur vegna þeirra til 7. júní 2010. Engar athugasemdir bárust fyrir lok athugasemdafrests.
Vettvangsferð vegna máls óbyggðanefndar nr. 1/2009 fór fram 31. ágúst 2009. Málið var fyrst tekið fyrir af nefndinni, sem skipuð var Karli Axelssyni hæstaréttarlögmanni, Benedikt Bogasyni héraðsdómara, og Sif Guðjónsdóttur héraðsdómslögmanni, og forsvarsmönnum aðila 19. nóvember 2009. Voru þá gögn lögð fram og línur lagðar um málsmeðferð. Við aðra fyrirtekt málsins 21. janúar 2010 var m.a. lögð fram greinargerð stefnda, íslenska ríkisins, en við þriðju fyrirtökuna 11. mars sama ár lögðu gagnaðilar og þar á meðal stefnendur, sem eru þinglýstir eigendur jarðarinnar Atlastaða í Svarfaðardal, fram greinargerðir sínar og önnur gögn. Þá var málið tekið fyrir hjá óbyggðanefnd 21. janúar og 11. mars og 9. apríl, en aðalmeðferð hjá nefndinni fór fram 30. apríl 2010 með skýrslutökum og munnlegum málflutningi, en í framhaldi af því var málið tekið til úrskurðar. Málsmeðferðin var endurupptekin 12. september 2011 og voru þá lögð fram ný gögn, en málið að því loknu tekið til úrskurðar að nýju. Hinn 10. október sama ár kvað óbyggðanefnd upp úrskurð sinn. Var það m.a. niðurstaða nefndarinnar að landsvæði það sem hér er til umfjöllunar, Hnjótafjall, sbr. dómkröfur aðila, væri þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. a-lið 7. gr., laga nr. 58, 1998, en þó þannig að svæðið væri í afréttareign eigenda Atlastaða í Svarfaðardal, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga. Í úrskurðinum var tekið fram að jörðin Atlastaðir ætti veiðirétt í Svarfaðardalsá samkvæmt II. kafla laga um lax- og silungsveiði, nr. 61/2006.
Í úrskurði óbyggðanefndar, niðurstöðukafla, var það m.a. niðurstaðan að jörðin Vífilstaðir/Kot, sem er sunnan Svarfaðardalsár og Hnjótafjalls, væri eignarland.
Útdráttur úr úrskurði óbyggðanefndar var birtur í Lögbirtingablaðinu.
Stefnendur undu ekki niðurstöðu óbyggðanefndar og leitast þeir við með málssókn sinni hér að fá henni hnekkt, og krefjast ógildingar á úrskurðinum, líkt og fram kemur í stefnu. Stefnendur fengu gjafsókn þann 23. apríl 2012.
Mál þetta var þingfest 28. júní 2012. Það var höfðað innan þess frests sem veittur er í 19. gr. laga nr. 58, 1998 til þess að bera úrskurð óbyggðanefndar undir dómstóla. Fjármálaráðherra er í fyrirsvari fyrir stefnda, íslenska ríkið, samkvæmt 11. gr. laganna, en hann lagði fram greinargerð sína þann 7. mars 2013.
Vettvangsferð dómsins var, vegna lögmætrar fjarveru stefnenda og síðar ótíðar, ekki farin haustið 2013 líkt og ætlað hafði verið. Hún var því farin ári síðar, þann 19. ágúst 2014, en þá var með í för staðkunnugur byggðamaður, Kristján Eldjárn Hjartarson byggingafræðingur.
2. Hér á eftir verður gerð grein
fyrir helstu atriðum og forsendum í úrskurði óbyggðanefndar, en einnig verður
að nokkru vikið að öðrum gögnum sem aðilar lögðu fram eins og nauðsynlegt er
til úrlausnar málsins.
Úrskurður
óbyggðanefndar skiptist í sjö kafla og er 175 blaðsíður. Í fyrstu köflunum er lýst málsmeðferð fyrir
óbyggðanefnd, kröfugerð og gagnaöflun svo og þeim sjónarmiðum sem aðilar byggja
á. Í síðari köflum úrskurðarins er lýst
landnámi og afmörkun, en einnig að nokkru afnotum og sögu landsvæðisins, en þar
er einkum byggt á heimildaröflun og samantekt frá Þjóðskjalasafni Íslands. Þá er gerð grein fyrir niðurstöðum
óbyggðanefndar um einstakar jarðir, en að lokum eru úrskurðarorð. Með úrskurðinum fylgir sérstakur uppfærður
viðauki þar sem lýst er almennum
niðurstöðum óbyggðanefndar, en þær eru m.a. ítarlega raktar í dómi
Hæstaréttar Íslands í máli nr. 48/2004.
Einnig eru önnur skjöl meðfylgjandi, þ. á m. viðeigandi kort með
árituðum merkja- og kröfulínum aðila.
3. Í úrskurði óbyggðanefndar er sérstaklega fjallað um hið umþrætta
landsvæði, Hnjótafjall, og tengsl þess við jörðina Atlastaði, sem er fremst í
Svarfaðardal, en hún er norðan eða vestan Svarfaðardalsár. Þá er fjallað um aðrar nágrannajarðir, sem
tengjast ágreiningssvæðinu í vesturhluta Svarfaðardals og þá einkum um jörðina
Urði, en einnig er vikið að jörðum sunnan Svarfaðardalsár, í framdalnum, þ. á
m. Koti/Vífilstaði, en samkvæmt staðbundinni málvenju er það svæði nefnt austan
ár.
Í úrskurðinum segir nánar um Svarfaðardal og Hnjótafjall:
„Hnjótafjall liggur fremst, eða vestast inn
til landsins, í Svarfaðardal á austanverðum Tröllaskaga. Dalurinn teygir sig
frá sjávarmáli við Dalvík og að Hnjótafjalli, upp undir Heljardalsheiði,
Deildardalsjökul og Unadalsjökul. Fjallið er í 200 til 1121 m hæð yfir
sjávarmáli, bratt og með hamrabeltum ofan til. Norðan Hnjótafjalls rennur
Skallá, sunnan þess Svarfaðardalsá og austan þess sameinast árnar. Meðfram ánum
er svæðið gróið en gróður fer minnkandi með aukinni hæð í hlíðum fjallsins.
Úr 1121 m
hæðarpunkti í Hnjótafjalli austur til ármóta Skallár og Svarfaðardalsár eru
tæpir 3,4 km og frá sama stað til sjávar á Dalvík eru um 22 km, mælt í beinni
loftlínu.“
Í úrskurði óbyggðanefndar segir að heimildir um landnám og landnámsmörk í Eyjafirði sé helst að finna í Landnámu. Segir þar m.a. frá því að Þorsteinn „svarfaðr“, sonur Rauðs ruggu í Naumudal, hafi numið Svarfaðardal að ráði landnámsmannsins Helga hins magra. Landnáma getur ekki um landnám einstakra jarða í Svarfaðardal.
Í úrskurðinum er um heimildir einkum vísað
til gagna sem Þjóðskjalasafn Íslands aflaði um nýtingu, réttindi og afmörkun
fremstu jarða í Svarfaðardal, en til
þessara gagna vísa aðilar máls einnig í stefnu og greinargerð og verða þau
reifuð hér á eftir.
Norðan Svarfaðardalsár í vesturhluta
framdalsins er kirkjujörðin Urðir, en þar næst fyrir framan er eyðibýlið
Þorleifsstaðir. Þar fyrir framan eru
jarðirnar Hóll, Klaufabrekkukot, Klaufabrekkur, Göngustaðakot, Göngustaðir,
eyðibýlið Sandá, Þorsteinsstaðir, en fremst er jörðin Atlastaðir. Sunnan Svarfaðardalsár, í austurhluta
framdalsins, eru m.a. jarðirnar Búrfell, Hræringsstaðir og Skeið, en fremst er
eyðijörðin Kot/Vífilsstaðir.
Í úrskurðinum segir að Atlastaðajörðin sé
talin upp á meðal eyðijarða Möðruvallaklausturs í reikningi, frá 6. nóvember
1447, sem Sigurður príor Jónsson gerði fyrir Gottskálk Keneksson Hólabiskup
(1442-1471). Vísað er til þess að í
leigumála Þorláks Hólabiskup árið 1633 segir að Atlastaðir hafi verð eign
Hóladómstóls. Í Jarðabók Árna
Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1712 segir að Atlastaðir sé 10 hundraða jörð,
en ekki er þar getið um upprekstur.
Í úrskurðinum er vísað til þess að jörðin
Urðir hafi fyrr á öldum verið eitt helsta höfuðbýlið í héraðinu og þar hafi m.a.
setið á 14. og 15. öld feðgarnir og hirðstjórarnir Þorsteinn Eyjólfsson og
Arnfinnur og hafi hinn fyrrnefndi verið talinn ,,mestur valdamaður á Íslandi á
14. öld.
Í úrskurðinum segir að elstu heimildir um
Urðakirkju sé að finna í máldagabók Auðunar rauða Þorbergssonar biskups frá
1318, en þar segir að hún eigi m.a. eftirfarandi eignir: „... land ä skroblustodum og annad ä hole.
kidiaholm. mariuholm. [...] vij. hundrud j audnalandi.“ Sömu upplýsingar um eignir kirkjunnar eru tíundaðar í máldagabók
Péturs biskups Nikulássonar frá 1394, í vísitasíugerð Jóns biskups
Vilhjálmssonar frá 1429 og í máldagabók Ólafs biskups Rögnvaldssonar frá 1461,
en þar segir einnig að hún eigi jörðina Köngustaði, sem síðar var nefnd
Göngustaðir. Í testamentisbréfi Gottskálks biskups Nikulássonar frá 6. júní
1520 segir að Urðir hafi verið lagðar til beneficium.
Urðir er talin upp á meðal jarðeigna
Hólastóls í elsta hluta Sigurðarregisturs frá 1525.
Í máldaga frá 1590 segir að Urðakirkja eigi
reit fyrir framan Skallárdalsá, en einnig í Skíðadalsafrétti. Hið sama kemur
fram í vísitasíum kirkjunnar frá árunum 1692, 1713, 1748 og 1769. Í úrskurði óbyggðanefndar segir að slá megi
því sem föstu að nefndur reitur í Skallárdal hafi verið og sé í næsta nágrenni
við Hnjótafjall en verði þó ekki staðsettur nákvæmlega eftir þessum heimildum.
Í úrskurðinum er vísað til þess að í bréfabók
Guðbrands biskups Þorlákssonar, í skjali frá árinu 1595, segi m.a. um eignir
Urðakirkju að hún eigi allt Hnjótafjall fyrir framan Skallá og sé um að ræða
a.m.k. 10 hundraða land. Nánar segir um
þetta í skjalinu: Jtem Hniotafjall allt
fyrir framan Skallaa xcland. eda meir. torfreitur j kkKlaufab[recku] jörd. og
reitur fyrir handan ä. Þett Klaufa(brecku) jörð. og reitur fyrir framan á. Þetta ä nu kirkian ä Vrdum allt.
Samkvæmt heimildum byggði Þorlákur Hólabiskup
árið 1633 Nikulási Jónssyni Urðastað með eftirfarandi skilmálum: [F]irst að hann skilldi hafa nefnda Vrdi thil
leiguböls, med reit þeim er fÿrer sunnann Klaufabreckur er. Jtem Hniotafialle,
og hafi j þessu alla leigulida nitkan, sem honum þarfar. Jtem med reit þeim,
sem er hinumeigenn är giegnt Vrdum. Í
leigumálanum segir að Atlastaðir hafi verið eign Hóladómstóls.
Í Jarðabók Árna og Páls kemur fram að
Urðajörðin hafi árið 1712 verið orðin eign Þrúðar Þorsteinsdóttur biskupsekkju,
og jafnframt að jörðinni hafi fylgt tvær hjáleigur og að hún sé samtals 80
hundruð að dýrleika. Þá segir í
Jarðabókinni um Urðakirkju að hún eigi afréttarland sem kallast Hnjótar, en nánar
segir þar um: [F]ram frá Atlastaðalandi,
eitt fjall sem Hnjótar kallast. Þángað er rekið lömb og geldfje hjeðan, og so
ljær bóndinn þennan afrjett stöku manni hjer nálægt fyrir lömb á sumardag og
þiggur þar fyrir óákveðna greiðasemi eður góðvilja. Rifhrís lítið í sama landi,
valla teljandi.
Í úrskurði óbyggðanefndar segir frá því að á
manntalsþingi að Völlum í Svarfaðardal, þann 20. júní 1739, hafi ábúandi
Urðajarðarinnar, Jón Finnsson, lögfest land hennar svo og fjallið Hnjóta og að
hann hafi fyrirboðið þar hverjum manni nauta-, lamba- eður geldfjárrekstur án
síns leyfis, en að auki bannað þar grasatekju. Lögfestunni var ekki mótmælt.
Í úrskurðinum segir frá því að á
manntalsþingi, sem haldið var að Urðum þann 4. júní 1751, hafi samkvæmt beiðni
þáverandi eiganda Urðajarðarinnar, Laurits Scheving klausturhaldara
(1723-1784), heimajörðin verið metin 40 hundruð að dýrleika, að meðtalinni
hjáleigunni Þorleifsstöðum. Þá segir frá
því að árið 1792 hafi verið upplesið makaskiptabréf Lauritz Scheving, frá árinu
1781, á heimajörðinni Urðum, ásamt með hjáleigunum, Þorleifsstöðum,
Göngustaðakoti og Gróugerði, ásamt Teigafjalli hinum megin ár og öllum
Hnjótaafrétti, til Jóns Sigurðssonar, fyrir jarðirnar Sjöundastaði í
Vesturfljótum, Ytrahvarf í Svarfaðardal og Syðri-Kambhóla á Kalmansströnd
(Galmansströnd). Jón mun eftir þetta
hafa búið stórbúi á Urðum, en hann eignaðist einnig fleiri jarðir innan og utan
sveitar.
Í riti alþýðufræðimannsins Stefáns
Aðalsteinssonar Svarfdælingar, frá
árinu 1976, segir að Þorkell Jörundsson (1747-1833) hafi keypt Atlastaði árið
1802 á 142 ríkisbankadali, en hafi selt jörðina aftur árið 1808 og „[h]efur
sennilega verið kaupleppur“, eins og segir í ritinu.
Í úrskurði óbyggðanefndar segir að í
jarðamati frá árinu 1804 sé getið um afrétt Urðajarðarinnar þannig: Jorden tilhörer en Afret hvorpaa indtages om
sommeren Lam fra 4 Jorde mod betaling. [...] Den öde Hialeje Gróugerde er
herunder indbefattet. Á það er bent
að í matinu sé ekki sérstaklega getið um afrétt vegna
Atlastaðajarðarinnar. Þá segir í
úrskurðinum að Jón Sveinsson, þáverandi eigandi Urðajarðarinnar, en var um tíma
einnig eigandi Atlastaða, hafi árið 1826 selt Arngrími hreppstjóra
Arngrímssyni, eiganda kotbýlisins Þorsteinsstaða, hagbeitarréttindi fyrir hross
og búsmala á Skallárdal fyrir 50 ríkisdali.
Segir frá því að sölubréfið hafi verið upplesið á manntalsþingi að
Völlum árið 1827, en einnig árið 1838. Í
nefndu bréfi er afmörkun ítaksins og aðgangi skepna að landsvæðinu þannig
lýst: Byrjast Itak þetta ad heiman í svokölludum Steckiarhólum nedarlega á
Skallárdal, sem adskilja Eingia takmörk frá búfiárhaga og nær allt fram ad
svokalladri Fögrukinn, framarlega á Skallárdal, svoframt ecki annad bevísist en
umtalad pláts sé Atlastada Eigindóms land. En framveigis til eptir
mögulegleikum ad fyrir byggja misklídir útaf fluttníngi sképnanna, yfir
Atlastada land til hagans, sem orsakast kynnu vid meinbægne á þá einu en
misbrúkun og óreglur á þá adra Sídu, þá hefi jeg ogkaupandi þarum svoleidis
foreinast og áqvardad, ad fluttníngs vegur Sképnanna skyldi leggjast fram og upp
frá Þorsteinsstada qvíum (upp undan bænum) og fram og upp þadan ofanverdt vid
Atlastada eingi, eptir þar verandi götutrodníngum þar efftir fram og ofan á
Rekstrar götur fyrir ofan Atlastada Túngard sídan eptir þeim fram í umgétna
hóla og svo aptur til baka sama veg.En verdi Þorsteinsstada bær færdur úr Stad
sem nockurnpart er í Rádi hafa núverandi hlutadeigendur ályktad ad þar mætt
annar vegur leggjast eins haganlegur fyrir Þorsteinsstadi en skadlítill fyrir
Atlastadi ad ödru leiti .... ennú ... ...ad ... [skemmdir í frumriti] fornu
Jardanna landeignir, garduren sem liggur frá Dalsánne ad nedan og sunnanverdt
vid Þorsteinsstada Tún upp til fialls og þadan réttsínis á fiall upp.
Af heimildum Þjóðskjalasafns verður ráðið að
tilurð nefnds gernings hafi átt rót sína að rekja til ágreinings þáverandi
eiganda nefndra jarða um hagabeit í Atlastaðalandeign í Skallárdal.
Í úrskurði óbyggðanefndar segir frá því að á
manntalsþingi að Völlum árið 1833 hafi verið upplesin lögfesta nefnds Jóns
Sveinssonar fyrir Urðajörðinni, en einnig fyrir ítökum Urðakirkju í heimalandi.
Þá segir að Jón hafi án andmæla á
manntalsþingi árið 1838 lögfest allt svokallað Urðatorfuland, en einnig
Hnjótafjall og hafi lögfestunni verið þinglýst sama ár og færð inn í veðmálabók
Eyjafjarðar. Í lögfestunni segir
m.a.: Eg undirskrifadur Lögfesti hér i Dag Eignarjörd mína Urdi í
Svarfadardal ásamt med hjáleigunni Þorleifstödum, samt Kirkiunnar Eidilandi
Skröflustödum, svo vel sem þeim Jtökum, sem Urda Kjrkiu eptir Máldögum eignast
Kynni, innan eftir skrifadra Takmarka [...]Þessu Framar [þ.e. einnig] lögfesti
eg undir sama Skilyrdi allt Hnjóta Fjall ábádar Sídur med adliggandi Hálsum og
Dölum, Heidardal og Skallárdal milli dalsár og skallár framm til Hejdar Jökla
og efstu Vatna Upptaka, Þetta eitt og sér hvad sem hér er tiltekid lögfesti eg
til þeirra Ummerkja sem adrir á móti eiga, og fijrirbíd, undir frekustu
Landnáms og Laga sektir þar vid Eigandi, að nokkur Madur án míns Leifis yrkji,
beiti, eda brúki, edur í nokkurn Mátasér i nitie, allar síst Spilli edur skemmi
framar skrifadar Eignir.
Á fyrrnefndu manntalsþingi árið 1838
þinglýsti nefndur Jón Sveinsson lögfestu sinni fyrir Atlastaðalandi án andmæla,
en þar koma m.a. fram upplýsingar um örnefnið Skallárdalur. Í úrskurði óbyggðanefndar segir að örnefnið
eigi aðeins við um landsvæðið vestan til í dalnum, þ.e. norðan samnefndrar
ár. Nánar segir um þetta í lögfestunni: Hér med Lögfesti eg i Dag Eignarjörd mína
Atlastadi liggjandi sunnan Svarfadardals og Urdarkyrkju Sóknar, med húsum,
Túnum, Eingium, Haga, samt öllu því Landi og Landsnytjum til Fjalls og
Láglendis, sem þeirri Jörd fijlgt hefur og fylgja ber ad Rétti. Rædur
Landamerkium ad Nordan Gardur, hart nær vid Þorsteinstada Tún frá Dalsánni upp
til Fjalls, og þadan réttsínis til Fjallseggia, Dalsáin ad nedan, enn Skalláin
ad framann; þetta eitt og sérhvad, sem hér er tiltekid, lögfesti eg og
fijrirbíd, undir vidliggandi Landnáms og Lagasektir, ad nokkur Madur án míns
Leifis, yrki, beiti, brúki, edur i nokkurn Máta sér í nytie. Þó undann Skilst
þessari Lögfestu á Atlastada Landeign a). svoköllud Fagrakinn á Skallárdal, ad
því Leiti sem hún Kynnni Urdum edur Kirkiunni ad eignast b). og sjálfsagt
Hagabeitar Jtakid frá Þorsteinsstödum á Skallárdal eptir þarum sömdu Afsals
bréfi þann 10da August 1826 var þínglýstu á Völlum 11. Junii 1827, þó svo
frammt ad Þorsteinstada Ábúenda í öllum Ordum og þaulum hafi og sér eptir
haldnir og uppfylltir verdi, þeir þessu Jtaki og í Afsals bréfid innfærdu
Skilmálar [...] Þessa mína Lögfestu bid eg hérmed audmjúkliga ad Herra
Sýslumadur B. H. Borgen vildi opinberlega upplesa fyrir væntanlegum Manntals
Þíngs Rétti á Völlum þann 22. Maji. Framanskrifudu til frekari stadfestu er
mitt undirskrifad nafn.
Í úrskurði óbyggðanefndar er um örnefnið
Fagrakinn vísað til Sýslu- og sóknalýsingar Eyjafjarðarsýslu um Tjarnasókn, sem
er talin rituð á árabilinu 1839-1842 af séra Árna Halldórssyni á Tjörn í
Svarfaðardal. Í þessari skýrslu séra
Árna segir m.a. um staðhætti og eignarhald á fremsta hluta Skallárdals og á
Hnjótafjalli: Um jökulinn fram úr nefndum
Skallárdal liggja tveir vegir, annar ofan í .... Deildardal að vestan, en hinn
ofan í Unudal, sem liggur á hlið við hinn að austan, Fremsti partur dalsins,
allt heim fyrir svonenfnda Fögrukinn, er ásamt Hnjótafjallinu eignaður Urðak[ir]kju.
Þar fyrir heiman byrjar Atlastaðaland, [...]
Í Sýslu- og sóknalýsingunni er einnig kveðið
á um afmörkun Atlastaðajarðarinnar, en um það segir: Þar fyrir heiman byrjar Atlastaðaland, sem er fremsti bær að
vestanverðu í sveitinni og nærstur fyrir utan Skallá. Þessi jörð [Atlastaðir],
15. hndr. að dýrleika, heyrði fyrrum til Hólastól, en nú er hún bóndaeign.
Í gögnum segir frá því að Halldór Þorkelsson hafi eignast Urðajörðina
skömmu eftir 1841 og jafnframt að hann hafi fengið Atlastaðajörðina í arf árið
1842 eftir margnefndan Jón Sveinsson.
Í úrskurði óbyggðanefndar segir að í
jarðamati frá árinu 1849 sé greint frá upprekstri jarðanna Atlastaða, Urða og
Þorsteinsstaða. Þar segir um upprekstur
Atlastaða: Atlastaðir, 15 hndr., [...]
Skriduhætt, frí upprekstur fyrir ágáng. Bent er á að í mati þessu sé aðeins
minnst á Hnjóta einu sinni og þá í sambandi við Urðir, þ.e. að jörðin sé
bændaeign og eigi upprekstrarland í Hnjótum fyrir 300 fjár. Ekkert sé í matinu vikið að rétti
Þorsteinsstaða eða Atlastaða til upprekstrar á Hnjóta, en á það bent að um
búfjárhaga Þorsteinsstaða segi, að þeir séu sáralitlir, en að ábúandinn hafi
„... keypt beitarítak fyrir allan búsmala
á Skallárdal í Atlastada landi, sem ördugleikar fylgja ad nota sér“.
Landamerkjabréf fyrir Atlastaði var útbúið og
þinglýst 15. maí 1884 og hljóðar það svo:
„Að sunnan ræður Skalláin merkjum
til jökla móts við afrjettarlandið Hnjóta. Að norðan móts við Þorsteinsstaði er
garður frá Svarfaðardalsá og upp sunnan við Þorsteinsstaðatún, og þaðan beint á
fjall upp. Afrjettarlandið Hnjótar fylgja tjeðri jörðu, sem Svarfaðardalsá
greinir frá Kotslandi upp til sýsluskila á Heljardalsheiði. Að norðan móts við
heimaland Atlastaða ræður fyrrnefnd Skallá merkjum“.
Björn Sigurðsson, bóndi á Atlastöðum, ritaði
undir landamerkjabréfið, en það var samþykkt af Stefáni Arngrímssyni vegna
Þorsteinsstaða. Bréfið var fært inn í landamerkjabók sýslumanns.
Í fasteignamati 1916-1918 segir að engjar
jarðarinnar Atlastaða liggi að nokkru leyti til fjalls, en að jörðin eigi
einnig upprekstrarland, „Hnjótafjall“, sem Urðir eigi frían upprekstur í. Þá er í matinu áréttað að Þorsteinsstaðir
eigi fría hagabeit fyrir búpening sinn að sumri í búfjárhaga Atlastaða.
Í úrskurði óbyggðanefndar segir að samkvæmt
afsals- og veðmálabókum hafi Atlastaðajörðin framselst með hefðbundnum hætti og
verið veðsett.
Landamerkjabréf Urðajarðarinnar var útbúið og
þinglýst 12. maí 1884. Er þar lýst
landamerkjum heimalandsins, en um annað land hennar síðan eftirfarandi: „Teigurinn,
selland frá Urðum hinumegin Svarfaðardalsár merki: Að norðan Teigaráin upp til
jökla, að sunnan Búrfellsáin. Jörðunni fylgir frí upprekstur fyrir geldpening
ábúandans í Hnjótaafrjett“.
Sigurhjörtur Jóhannesson, eigandi Urða,
ritaði undir landamerkjabréfið, en það var samþykkt af eigendum
nágrannajarðanna, þeim Sigurði Jónssyni vegna Þorleifsstaða og Sigurði
Sigurðssyni vegna Hreiðarsstaðakots.
Í úrskurði óbyggðanefndar segir að ekki liggi
fyrir heimildir um hvernig Hnjótafjall hafi komist undir Atlastaði frá Urðum, en
þar um er helst vísað til áðurrakinna landamerkjabréfa jarðanna. Í því sambandi er þó áréttað að Urðir hafi um
skeið verið Hólajörð, en að árið 1712 hafi hún verið talin eign Þrúðar
Þorsteinsdóttur biskupsekkju. Staðhæft
er að elsta dæmið sem fundist hafi í heimildum Þjóðskjalasafns Íslands um
„Hnjótaafrétt“ sé að finna í fyrrnefndu landamerkjabréfi Urðajarðarinnar frá
12. maí árið 1884, en að venjulega sé landsvæðið í heimildum nefnt Hnjótar eða
Hnjótafjall. Enn fremur er bent á að í
landamerkjabréfi Urða segi að jörðinni fylgi frír upprekstur fyrir geldpening
ábúandans í Hnjótaafrétt. Þá er vísað
til þess að í landamerkjabréfi Atlastaða frá sama ári hafi svæðið verið kallað
afréttarlandið Hnjótar, og loks að í fasteignamati Atlastaðajarðarinnar frá 1916-1918
segi að jörðin eigi upprekstrarland, Hnjótafjall.
Í úrskurðinum er, að ofangreindu sögðu, bent
á að í svarbréfi þáverandi hreppstjóra Svarfaðardalshrepps frá 15. mars 1920,
við fyrirspurn sýslumannsins í Eyjafjarðarsýslu, um afréttarland í hreppnum,
segi í stuttri lýsingu, að ein afrétt, þ.e. Skíðadalsafrétt, sé í hreppnum sem
ekki hafi tilheyrt neinu lögbýli, svo kunnugt sé. Bent er á að í svarbréfinu sé þannig ekki
getið um Hnjóta, ólíkt því sem fram komi í 2. bindi ritraðar Braga
Sigurjónssonar, Göngur og réttir frá árinu 1949, en þar sé sagt að dálítil
afréttarlönd séu framan við Kot og Atlastaði, fremstu bæina og að þau kallist
Skallárdalur, Hnjótar, Vífilsdalur og Vífilsgrundir.
Í úrskurðinum er greint frá því að
félagsmálaráðuneytið hafi spurst fyrir um upprekstrarrétt sveitarfélaga í bréfi
til sveitarfélaga á Íslandi, dagsettu 20. febrúar árið 1989. Hafi þáverandi
oddviti Svarfaðardalshrepps svarað erindinu 6. mars sama ár, en þá ekkert vikið
að fremsta landsvæðinu í Svarfaðardal.
Í úrskurðinum er að lokum vísað til Árbókar
Ferðafélags Íslands frá 1990 og bent á að þar sé greint frá því að
Hnjótafjallið sé mikið eftirlætisfjall heimamanna í Svarfaðardal og sé vinsælt
útivistarsvæði og enn fremur að við skýrslutökur hjá nefndinni hafi komið fram
að fjallið hafi verið nytjað til beitar fyrir búfé af nærliggjandi bæjum og
verið nýtt til fjallagrasa- og berjatekju, auk fyrrnefndrar útivistar af göngu-
og hestafólki.
Í úrskurði óbyggðanefndar, niðurstöðukafla,
er vísað til framangreindra heimilda um jarðirnar Urðir og Atlastaði, að því er
varðar sögu, afmörkun, ráðstafanir að eignarrétti og nýtingu og þar með talið á
hinu umþrætta landsvæði Hnjótafjalli.
Bent er á að heimildirnar nái allt aftur til 15. aldar og að af þeim
megi ráða að Atlastaðir hafi verið sjálfstæð jörð. Þá er bent á að Hnjótafjalls
sé fyrst getið í bréfabók biskups, í skjali frá 1595, um eignir Urðakirkju og
einnig í nokkrum yngri heimildum um Urðir. Vísað er til þess að jörðin Urðir
liggi utan við ágreiningssvæðið og sé aðskilin frá Hnjótafjalli af öðrum
jörðum. Staðhæft er að fyrst sé minnst á „afréttarlandið Hnjóta“ í tengslum við
Atlastaði í landamerkjabréfi jarðarinnar frá 15. maí 1884, þar sem segir svo:
„Afrjettarlandið Hnjótar fylgja tjeðri jörðu“. Í bréfinu sé annars vegar lýst
merkjum „heimalandsins“ og hins vegar merkjum „afrjettarlandsins Hnjóta“. Áréttað er að Atlastaðir liggi norðan við
Hnjótafjall, aðskildir frá fjallinu af Skallá.
Þá er á það bent að Atlastaðir og Urðir hafi á tímabili verið í eigu
sömu aðila, a.m.k. á fyrri hluta 19. aldar.
Í niðurstöðukaflanum fjallar óbyggðanefnd
nánar um mörk Hnjótafjalls, en þar um er vísað til áðurrakinna skjala,
landamerkjabréfs Atlastaða frá 1884 og lögfestu fyrir Urðir frá árinu
1838. Einnig er vísað til gagna um merki
aðliggjandi landsvæða, þ.e. vegna Vífilsstaðalands til suðurs og Unadals- og
Deildardalsafréttar til vesturs. Bent er
á að til norðurs sé óumdeilt eignarland Atlastaða og til austurs og suðausturs
sé óumdeilt eignarland Kots. Að þessu
sögðu er það niðurstaða nefndarinnar að hið umþrætta landsvæði Hnjótafjall
falli innan lýsingar á „afrjettarlandinu Hnjótum“ í landamerkjabréfi Atlastaða,
sem gert hafi verið í kjölfar þess að landamerkjalög tóku gildi 1882, sé tekið
mið af eldri heimildum, staðháttum og heimildum um afmörkun aðliggjandi
landsvæða. Áréttað er að bréfinu hafi verið þinglýst og það innfært í
landamerkjabók sýslumanns.
Að ofangreindu sögðu tekur óbyggðanefnd til
skoðunar hver sé eignarréttarleg staða hins umþrætta landsvæðis. Segir um þetta
álitaefni í niðurstöðukafla úrskurðarins:
Um almenna þýðingu
landamerkjabréfa og hugtakanna jörð og afrétt(ur) við mat á sönnun um
eignarhald á landi vísast til fyrirliggjandi umfjöllunar dómstóla og
óbyggðanefndar, ...og Almennar niðurstöður óbyggðanefndar í viðauka. Svo sem
þar kemur fram hafa landamerkjabréf bæði verið gerð fyrir jarðir og annars
konar réttindasvæði, svo sem ítök og afrétti(r). Bréf jarða hafa haft ríkara
vægi sem sönnunargögn um beinan eignarrétt og í fyrirliggjandi dómum og
úrskurðum hefur að meginreglu verið komist að þeirri niðurstöðu að þau afmarki
eignarland. Land utan jarða, þar á meðal afréttarland, hefur á hinn bóginn að
meginreglu verið talið þjóðlenda. Notkun hugtaksins afrétt(ur) í
landamerkjabréfi og/eða öðrum heimildum hefur þó ekki úrslitaþýðingu um að þar
sé þjóðlenda, enda hefur merking þess ekki verið einhlít. Slíkt landsvæði er
því eftir atvikum eignarland eða þjóðlenda. Á meðal þeirra atriða sem máli
skipta við mat á stofnun og viðhaldi eignarréttar er eignarréttarleg staða
aðliggjandi landsvæða. Jafnframt er mögulegt að unninn hafi verið réttur að
áður eigendalausu landi, svo sem á grundvelli hefðar.
Í niðurstöðukaflanum víkur óbyggðanefnd því næst að frásögnum Landnámu og segir að af þeim verði ekki ráðið hversu langt upp til fjalla landnám á hinu umþrætta svæði hafi náð og því verði engar afdráttarlausar ályktanir af þeim frásögnum dregnar. Síðan segir í úrskurðinum: Sé tekið mið af staðháttum og fjarlægðum við túlkun landnámslýsinga verður þó að telja líklegt að a.m.k. hluti þess lands sem hér er deilt um hafi verið numinn. Ekkert liggur hins vegar fyrir um afmörkun eða yfirfærslu þeirra beinu eignarréttinda sem þar kann að hafa verið stofnað til. Þannig kann beinn eignarréttur að hafa fallið niður og landsvæðið í kjölfarið tekið til takmarkaðra nota annarra. Í því sambandi ber að líta til þess sönnunarmats sem lagt hefur verið til grundvallar um afrétti(r) einstakra jarða og/eða stofnana og styðst við fjölda dóma í sambærilegum málum.
Að ofangreindu sögðu vísar óbyggðanefndin í niðurstöðu sinni til eigin umfjöllunar í hinum Almennu niðurstöðum, en bendir jafnframt á að á þeim landsvæðum sem nærri Hnjótafjalli liggja séu bæði eignarlönd og þjóðlendur, sé litið heildstætt á niðurstöður í málum nr. 1 og 2/2009 hjá nefndinni. Þá áréttar nefndin efni áðurrakinna heimilda um Hnjótafjall og segir að af þeim megi ráða að fjallið hafi fyrst legið undir Urðir en síðan undir Atlastaði. Nánar segir nefndin um þetta atriði:
Í heimildum um Urðakirkju frá 1595 og 1633 er Hnjótafjall talið upp með eignum Urðakirkju og sama máli gegnir um lögfestur ábúanda á Urðum frá 1739 og 1838. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalínsfrá 1712 eru Hnjótar nefndir afréttarland, sbr. einnig makaskiptabréf frá 1792 og jarðamatið 1804, auk landamerkjabréfa Urða og Atlastaða frá 1884. Í hinu síðarnefnda landamerkjabréfi er sérstök afmörkun á Hnjótafjalli, hinum megin Skallár. Í jarðamatinu 1849 segir að Urðir eigi upprekstrarrétt í Hnjótafjalli og sama máli gegnir um fasteignamatið 1916-1918, en þar kemur að auki fram að Atlastaðir eigi þar upprekstrarland.
Samkvæmt framangreindum heimildum er Hnjótafjalls jafnan getið með sérstökum hætti og oftast í tengslum við afréttarnot. Ekkert bendir til þess að á þessu svæði hafi verið byggð og engin gögn liggja fyrir um önnur not en sumarbeit og aðra takmarkaða nýtingu, auk þess sem svæðið hefur í seinni tíð verið notað til útivistar. Svæðið er að stórum hluta hálent og inn á það hefur búfénaður leitað án hindrana.
Óbyggðanefnd telur framangreint benda til þess að Hnjótafjall hafi verið afrétt Urðakirkju og síðar Atlastaða í þeim skilningi að kirkjan og jörðin hafi átt þar óbein eignarréttindi fremur en beinan eignarrétt.
Lokaorðin í niðurstöðukafla úrskurðar óbyggðanefndar eru þessi:
Ekkert liggur fyrir um hvernig
Urðakirkja, sem eigendur Atlastaða leiða rétt sinn frá, var komin að rétti
sínum til þessa landsvæðis. Í máli þessu er ekki sýnt fram á annað en að réttur
til Hnjótafjalls hafi orðið til á þann veg að það hafi verið tekið til
sumarbeitar fyrir búpening og, ef til vill, annarrar takmarkaðrar notkunar. Um
afréttarnotkun og fjallskil voru snemma settar opinberar reglur sem
sveitarstjórnum var falið að annast framkvæmd á. Eins og notkun landsins hefur
verið háttað hefur heldur ekki verið sýnt fram á að eignarhefð hafi verið unnin
á því.
Að öllu framangreindu virtu
hefur ekki verið sýnt fram á að Hnjótafjall sé eignarland, hvorki fyrir nám,
löggerninga né með öðrum hætti. Rannsókn óbyggðanefndar leiðir einnig til
þeirrar niðurstöðu að þar sé þjóðlenda. Af fyrirliggjandi gögnum verður hins
vegar ráðið að umrætt landsvæði sé í afréttareign eigenda Atlastaða. Þá liggja
fyrir samþykktir Veiðifélags Svarfaðardalsár, í suðurmörkum Hnjótafjalls, þar
sem Atlastaðir eru taldir meðal aðila.
Ljóst er að einstakir hlutar
þess svæðis sem hér hefur verið fjallað um og talið þjóðlenda í afréttareign
eru misjafnlega fallnir til beitar. Beitarsvæði taka þó breytingum, auk þess
sem þau eru ekki endilega samfelld. Land það sem hér er til umfjöllunar verður
því talið falla undir skilgreininguna „landsvæði [...] sem að staðaldri hefur
verið notað til sumarbeitar fyrir búfé“, sbr. 1. gr. laga nr. 58/1998.
Það er því niðurstaða óbyggðanefndar að landsvæði það sem kallað hefur verið Hnjótafjall, svo sem það er afmarkað hér á eftir, sé þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998. Frá þeim stað þar sem Skallá fellur í Svarfaðardalsá er Skallá fylgt að upptökum í Hákömbum og í mörk Eyjafjarðar- og Skagafjarðarsýslna. Þaðan er sýslumörkum fylgt til suðurs um Hákamba, þar til komið er að fremstu upptökum Svarfaðardalsár. Loks er Svarfaðardalsá fylgt þangað sem Skallá fellur í hana. Sama landsvæði er í afréttareign eigenda Atlastaða,sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga, sem nýtur veiðiréttar í Svarfaðardalsá samkvæmt II. kafla laga um lax- og silungsveiði, nr. 61/2006. Svæði það sem hér hefur verið lýst þjóðlenda er háð sérstökum eignarréttarlegum takmörkunum samkvæmt lögum um náttúruvernd, nr. 44/1999, sbr. náttúruminjaskrá.
II.
Málsástæður og lagarök stefnenda.
Aðalkröfu sína byggja stefnendur á því að umrætt landsvæði, Hnjótafjall, eins og því er lýst hér að framan, sé háð eignarrétti/eða sé eign þeirra, sem njóti verndar 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33, 1944, sbr. 10. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97, 1995 og 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við Mannréttindasáttmála Evrópu (MSE) sem lögfestur hafi verið með lögum nr. 62, 1994. Fjallið sé innan landamerkja jarðarinnar Atlastaða, þinglýstrar eignar stefnenda.
Stefnendur byggja kröfu sína auk þess á neðangreindum rökum:
Stefnendur byggja á því að umrætt landsvæði hafi frá öndverðu verið numið og hafi sá eignarréttur ekki fallið niður síðan og því sé hið umdeilda land háð eignarrétti þeirra. Þessu til stuðnings vísa stefnendur til fyrrgreindar lýsingar í Landnámu um Svarfaðardal. Benda þeir á að oft hafi Landnáma verið túlkuð þannig að hún styðji við beinan eignarrétt, t.d. í dómum Hæstaréttar Íslands, í máli frá 1960, bls. 726, og frá 1994, bls. 2228. Stefnendur staðhæfa að óbyggðanefnd hafi í úrskurði sínum viðurkennt að land á Tröllaskaga hafi almennt verið numið. Þeir andmæla á hinn bóginn ályktun nefndarinnar um að eftir landnám hafi eignarréttindi að því er varðar Hnjótafjall fallið niður eða áhöld séu um yfirfærslu á beinum eignarrétti, en þar um vísa þeir til þess að svæðið sé innan þinglýstra merkja jarðar, en sé ekki svæði sem nefnt hafi verið samnotaafréttur.
Stefnendur byggja á því að jörð með þinglýstum landamerkjum sé eignarland og sá er haldi öðru fram hafi sönnunarbyrði fyrir því. Benda stefnendur á að hér sé um meginreglu íslensks eignarréttar að ræða og árétta að umrætt landsvæði hafi allt frá landnámi verið undirorpið beinum eignarrétti, enda fari landnámsheimildir í Eyjafirði ekki í bága við landamerkjabréf jarðarinnar. Þá sé til þess að líta að við landnám hafi landið verið betur gróið og náð lengra inn á heiðar en nú sé. Þeir staðhæfa og að landsvæðið sé umlukið eignarlandi og að ljóst megi vera að landnám hafi verið samfellt á þessum slóðum svo sem almennt hafi tíðkast á Íslandi, sbr. þjóðlendudóma Hæstaréttar í Mýrdal.
Stefnendur benda á að landamerkjabréf fyrir jörðina Atlastaði hafi verið útbúið 15. maí 1884. Þá hafi landamerki hins umþrætta lands, Hnjótafjalls, verið óumdeild lengi, en þar um vísa þeir til áðurrakinnar bréfabókar Guðbrands biskups á Hólum þar sem því sé lýst að Hnjótar hafi verið í eigu Urðakirkju á 16. öld og að Hnjótafjallið hafi verið metið til 10 hundraða eða meira árið 1595. Einnig benda stefnendur á áðurrakin gögn, þ. á m. lögfestu Jóns Sveinssonar, bónda á Urðum, frá árinu 1838 og fasteignamat frá 1916-1918. Þeir benda á að ítak sé ævinlega í eignarlandi, og því hafi beitarland Urða greinilega verið í eignarlandi Atlastaða.
Stefnendur árétta að landamerkjabréfi Atlastaða hafi verið þinglýst og það fært í landamerkjabók án athugasemda og hafi það ráðið merkjum síðan án ágreinings. Þeir benda á að við setningu landamerkjalaganna nr. 5, 1882 og síðan laga nr. 41, 1919 hafi það verið ætlan löggjafans að framkvæmdavaldið hefði frumkvæði að því að gengið yrði frá landamerkjum jarðeigna og þau skráð og að leyst yrði úr ágreiningi um merki ef slíkt væri fyrir hendi. Stefnendur byggja á því að landamerkjabréfið fyrir Atlastaði byggist á eldri heimildum, en um það vísa þeir til þess sem rakið var úr úrskurði óbyggðanefndar hér að framan. Þeir staðhæfa að þær heimildir fari ekki gegn landamerkjum jarðarinnar. Í því viðfangi benda þeir á það sjónarmið er fram komi í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 48/2004, en þar hafi verið talið skipta máli hvort land teldist innan upphaflegra landnáma og hvort að með landið hefði verið farið sem eignarland samkvæmt elstu heimildum.
Stefnendur byggja á því að þeir hafi farið með ráðstöfun á öllum þeim heimildum/réttindum sem fylgja þeirri eign sem umrætt landsvæði er, en þar á meðal sé beitarréttur svo og önnur þau afréttarnot sem getið er um í úrskurði óbyggðanefndar. Þá hafi skattar og önnur lögboðin gjöld verið greidd af öllu landinu.
Stefnendur vísa til þess að eignarréttur þeirra hafi verið virtur af öllum frá ómunatíð, þar á meðal af stefnda, sem m.a. hafi lýst sér í því að þeir hafi getað bannað öðrum not eignarinnar. Eignarréttur stefnenda hafi og verið virtur í öllum viðskiptum, en af þeim sökum sé eignarhald þeirra einnig byggt á viðskiptavenju.
Stefnendur byggja á því að venjuréttur og hefðarreglur leiði til þeirrar niðurstöðu að umrætt landsvæði sé undirorpið eignarrétti í skilningi fyrrnefndrar 72. gr. stjórnarskrárinnar og ákvæða Mannréttindasáttmála Evrópu, en fullur hefðartími sé liðinn frá því að þeir tóku að nytja landið. Árétta stefnendur að öll afnot og nytjar landsins séu háðar leyfi þeirra sem landeigenda, enda hafi enginn notað landið með nokkrum hætti nema þeir. Sjónarmiði óbyggðanefndar þess efnis að flokka hefð með lögum sem frumstofn eignarréttar hafi ekki verið hnekkt af Hæstarétti. Um þetta vísa stefnendur nánar til dóma Hæstaréttar, m.a. frá árinu 1997, bls. 2792, og frá árinu 1999, bls. 28, þar sem eignarhefð hafi verið viðurkennd. Enn fremur vísa stefnendur til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) frá 9. desember 1994, series A 301 – A, og skrifa fræðimanna um venjurétt.
Stefnendur benda á að við mat á því hvort umrætt landsvæði sé eign/eignarréttur í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar beri að líta til þeirra sjónarmiða sem lögð hafi verið til grundvallar af Mannréttindadómstóli Evrópu. Benda þeir á að hugtakið eign í skilningi 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við Mannréttindasáttmálann hafi verið túlkað af dómstólum á þá leið að það hafi sjálfstæða merkingu. Með sjálfstæðri merkingu sé átt við að til komi mat á því hvort í tilteknu máli sé um að ræða eign sem njóti verndar nefndrar 1. gr. og þurfi að kanna hvort svo sé samkvæmt innanlandsrétti þess ríkis sem í hlut eigi. Skortur á slíkri vernd í landsrétti ráði hins vegar ekki alltaf úrslitum um hvort um eign sé að ræða í skilningi nefndrar 1. gr. Benda stefnendur á að um eign í skilningi ákvæðisins geti verið að ræða þótt dómstólar aðildarríkis hafi ekki talið svo vera samkvæmt innanlandsrétti. Mannréttindadómstóllinn hafi lagt mat á atvik máls í hverju tilviki fyrir sig og lagt áherslu á að úrslitum réði tiltekið heildarmat. Þannig hafi dómstóllinn bæði litið til staðreynda og lagalegra atriða, en við matið hafi í ákveðnum tilvikum einnig ráðið úrslitum hvernig farið hafi verið með umrædda eign í framkvæmd, sérstaklega í lögskiptum, og hvaða traust menn báru til þeirrar framkvæmdar. Þá hafi framkoma handhafa ríkisvaldsins í garð eigenda einnig skipt máli. Og í þeim málum þar sem komið hafi verið fram við einstaklinga eða lögaðila sem réttmæta eigendur ákveðinna eigna hafi slík framkoma verið talin vekja ákveðnar væntingar hjá þeim aðilum um löglegt eignarhald sitt á þeim eignum. Benda stefnendur á að af þessu megi ráða að afskipti og afskiptaleysi ríkisvaldsins skipti máli við greint sönnunarmat. Benda stefnendur einnig á, að þegar tekið sé mið af dómum Hæstaréttar Íslands, en þó sérstaklega Mannréttindadómstóls Evrópu, hafi ríkisvaldið með einum eða öðrum hætti viðurkennt eignarrétt landeigenda að jörðum, t.d. með því að þinglýsa eignaryfirfærsluskjölum athugasemdalaust um áratugaskeið, gera um þær samninga og skattleggja þær, og séu réttmætar og lögmætar væntingar landeigenda verndaðar af þessum ákvæðum, sérstaklega nefndri 1. gr., ef þær eru byggðar á sanngjörnu og réttlætanlegu trausti á réttargerningi, sem tengdur er við eignarréttindi og hafi áreiðanlegan lagagrundvöll. Máli sínu til stuðnings vísa stefnendur m.a. til dóma Mannréttindadómstólsins (MDE) í máli Papamichaloppulos gegn Grikklandi frá árinu 1993, dóms yfirdeildar MDE í máli fyrrum Grikklandskonungs og fleiri gegn Grikklandi frá árinu 2000, dóms yfirdeildar MDE í máli Beyeler gegn Ítalíu frá árinu 2000, dóms MDE í máli Stretch gegn Bretlandi frá árinu 2003 og dóms yfirdeildar MDE í máli Kopecký gegn Slóvakíu frá árinu 2004 svo og sjónarmiða um lögmætar væntingar.
Stefnendur byggja á því, að verði ekki fallist á að þær eignarheimildir sem þeir hafi teflt fram í málinu séu fullnægjandi, sé verið að mismuna eigendum jarða með því að gera aðrar kröfur til þeirra um sönnun en annarra eigenda lands hér á landi.
Með vísan til alls þessa telja stefnendur að óbyggðanefnd hafi ranglega metið sönnunargögn málsins og ekki beitt lögum um réttarágreining með réttum hætti. Beri því að ógilda úrskurð nefndarinnar.
Stefnendur byggja á því að þeir hafi sannað með málatilbúnaði sínum beinan eignarrétt sinn að umræddu landi, en íslenska ríkið hafi ekki sýnt fram á að það hafi með réttum lögum í samræmi við stjórnarskrána eignast landið. Þvert á móti styðji öll gögn málsins greint eignartilkall þeirra. Úrskurður óbyggðanefndar sé því rangur og brjóti hann í bága við fyrrgreint eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við Mannréttindasáttmála Evrópu.
Stefnendur gera í málarekstri sínum og málflutningi ýmsar athugasemdir við úrskurð óbyggðanefndar og þar með röksemdir stefnda. Falla þær í meginatriðum saman við áðurraktar málsástæður og lagarök þeirra. Þeir árétta m.a. að það sé almenn lagaregla á Íslandi, að eignarréttur að fasteign teljist sannaður með framvísun þinglesinnar eignarheimildar og að frá þeirri reglu verði ekki vikið nema að sá sem véfengir réttmæti eignarheimildarinnar sýni fram á betri rétt sinn eða annarra eða að eignarheimildin sé haldin slíkum göllum að hún verði ekki lögð til grundvallar dómi í máli um eignarréttinn. Telja stefnendur að sú ríka sönnunarbyrði sem óbyggðanefnd leggi á þá, með því að krefjast sannana um framsal eignarréttar á landinu allt frá landnámi, standist ekki eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar né heldur Mannréttindasáttmála Evrópu, en að auki sé málatilbúnaður stefnda í andstöðu við tilgang löggjafans, sbr. að því leyti 1. gr. laga nr. 58, 1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.
Stefnendur árétta að umrætt landsvæði hafi verið numið í öndverðu og staðhæfa að það sé í raun óumdeilt. Þeir andmæla því að eignarrétturinn hafi fallið niður á síðari tímum, og byggja á því að það standi stefnda nær að sanna að svo hafi verið og þá í ljósi þeirra gagna sem þeir hafi teflt fram. Þeir árétta að aldrei hafi verið ágreiningur um eignarrétt þeirra aðila sem þeir leiði rétt sinn frá.
Stefnendur vísa til þess að í niðurstöðu óbyggðanefndar sé alfarið byggt á því að ósannað sé hvernig eigendur jarðanna Urða og Atlastaða séu komnir að hinu umþrætta svæði, Hnjótafjalli. Þeir staðhæfa að með þessu geri nefndin meiri og þyngri sönnunarkröfur en almennt hafi tíðkast um jarðir. Þar um vísa þeir til þess að samkvæmt þeim heimildum sem fyrir liggi í málinu sé eignaréttur jarðeigendanna rakinn aftur til 16. aldar. Þeir benda á að almennt sé erfitt að rekja eignaréttinn lengra á Íslandi og almennt hafi verið talið nægja að rekja eignarétt jarða þrjú til fjögur hundruð ár aftur í tímann. Stefnendur byggja á því að engu breyti um eignarétt að Hnjótafjalli þótt ekki liggi nákvæmlega fyrir hvernig eignaréttur á því færðist frá Urðum til Atlastaða. Þeir vísa til þess að samkvæmt gögnum hafi umrætt landsvæði verið háð beinum eignarétti eiganda Urða um aldir og um tíma á 19. öldinni hafi Atlastaðir og Urðir verið í eigu sama aðila. Þeir staðhæfa að ljóst megi vera að á tímabilinu frá 1840 til 1884 hafi grunneignaréttur að landinu legið undir Atlastöðum en að Urðir hafi haldið eftir beitarítaki á landinu. Þeir benda á að þetta ástand hafi verið óumdeilt á milli eigenda jarðanna og skipti ekki máli hvernig það hafi gerst, enda hafi enginn véfengt eignatilkall eiganda Atlastaða til landsvæðisins fyrr en stefndi gerði það fyrir óbyggðanefnd.
Stefnendur árétta að landamerkjabréf fyrir Atlastaði hafi verið gert í fullu samræmi við þáverandi landmerkjalög, en þar hafi komið að málum handhafi opinbers valds og hafi verið byggt á þessari heimild í yfir hundrað ár. Því hafi stefnendur haft lögmætar væntingar til þess að heimildin væri rétt, að auki hafi íslenska ríkið, stefndi, látið óátalið í allan þennan tíma að véfengja réttmæti landamerkjabréfsins. Að þessu leyti vísa stefnendur til dóma Mannréttindadómstóls Evrópu um túlkun á eignahugtaki 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við MSE um lögmætar væntingar.
Stefnendur vísa til þess að hugtakið afréttur hafi ekki mikið sjálfstætt gildi við mat á grunneignarétti að landi, enda hafi það margræða merkingu í löggjöf fyrr og síðar. Þannig geti afréttarlönd eins verið eignarlönd líkt og margdæmt hafi verið. Stefnendur byggja á því að Hnjótafjall sé ekki lögafréttur í merkingu gömlu lögbókanna og ekki heldur samnotaafréttur líkt og almennir afréttir byggðamanna hafi verið nefndir í seinni tíð, þvert á móti sé umrætt landsvæði einkaafréttarland Atlastaða og Urða.
Stefnendur vísa til almennra forsendna í úrskurði óbyggðanefndar um hefðir og þýðingu hefðar við úrlausn í þjóðlendumáli. Í því sambandi vísa stefnendur til þess að Hnjótafjall sé innan þinglýstra landamerkja og háð einkanýtingarrétti þeirra þó þannig að eigendur Urða eigi beitarítak á landið. Þeir árétta að ítak sé ævinlega í eignarlandi annars aðila. Þá benda þeir á að umrætt landsvæði sé mjög skýrt landafræðilega afmarkað og hafi ekki verið nýtt af neinum án leyfis eigenda. Vegna þessa sé hefð augljóslega fullnuð á umræddu landsvæði.
Með vísan til alls ofangreinds byggja stefnendur á því að óbyggðanefnd hafi metið ranglega sönnunargögn málsins og lagt óhóflega sönnunarbyrði á þá, sem ekki fái staðist jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, og því beri að ógilda úrskurð nefndarinnar.
Stefnendur byggja kröfur sínar að síðustu á því að í úrskurði óbyggðanefndar skorti fullnægjandi rökstuðning og fari hann því gegn 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37, 1993, sbr. 16. gr. laga nr. 58, 1998. Þeir byggja á því að í úrskurðinum séu engin rök færð fram fyrir því hvernig Hnjótafjall eigi að hafa verið „eigendalaust landsvæði“ sem menn hafi síðar kastað eign sinni á. Að því leyti segir þar að hugmyndir óbyggðanefndar um túlkun eignaskjala Urðakirkju í þessu sambandi séu fráleitar.
Stefnendur byggja á því að í niðurstöðu óbyggðanefndar hafi þeir sætt mismunun sem bann sé lagt við í 14. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Þeir byggja enn fremur á því að við málsmeðferðina hafi verið brotið gegn 1. gr. samningsviðauka nr. 1, sbr. 14. gr. MSE. Málin sínu til stuðnings segja stefnendur að það sé almenn lagaregla á Íslandi að beinn eignaréttur að jörð teljist sannaður með framvísun þinglesinnar eignarheimildar, sem styðjist við eldri eignarheimildir. Frá þessari reglu verði ekki vikið nema sá, sem vefengi réttmæti eignarheimildarinnar, sýni fram á betri rétt sinn, eða annarra eða að eignarheimildir séu haldnar slíkum göllum að þær verði ekki lagðar til grundvallar í dómi í málum um eignarheimildir. Stefnendur vísa til þess að slíku sé ekki fyrir að fara í þessu máli enda byggist eignartilkall þeirra á aldagömlum heimildum.
Það er álit stefnenda að ekki nægi að vísa til dóma Hæstaréttar Íslands í fyrstu málum um þjóðlendukröfur og þar á meðal þess, að þinglýstir eigendur jarða þurfi að styðja eignarheimildir sínar við enn eldri heimildir. Slík íþyngjandi sönnunarbyrði jafngildi bótalausri sviptingu eignarréttar. Staðhæfa þeir að sönnunarkröfur óbyggðanefndar, og þar með stefnda, séu óljósar, ógagnsæjar, ófyrirsjáanlegar og tilviljunarkenndar. Benda þeir á að við slíkri mismunun sé lagt bann í fyrrnefndri 14. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Þeir halda því og fram að með þessu sé einnig brotið gegn 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við sáttmálann, en að auki sé um brot að ræða gegn 6. gr. hans vegna ófullnægjandi rökstuðnings.
Um lagarök vísa stefnendur til stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33, 1944 með síðari breytingum, sérstaklega 72. gr. um friðhelgi eignarréttar og jafnræðisreglu 65. gr. Stefnendur vísa einnig til réttarreglna um stofnun eignarréttar, um afréttarmál, hefð, réttarvenju og tómlæti, en að auki vísa þeir til þjóðlendulaga, landamerkjalaga, stjórnsýslulaga, réttlátrar málsmeðferðar, en enn fremur til venjuréttar, almennra reglna samninga- og kröfuréttar, reglna um ítaksrétt og stofnun ítaka og meginreglna um traustfang og traustnám og almennra reglna um tómlæti. Loks vísa þeir til Mannréttindasáttmála Evrópu og viðauka hans og til laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála, að því er varðar varnarþing og málskostnað.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Af hálfu stefnda, íslenska ríkisins, er á því byggt að Hnjótafjall sé svæði utan eignarlanda og teljist því vera þjóðlenda í samræmi við úrskurð óbyggðanefndar, sbr. ákvæði 1. og 2. gr. laga nr. 58, 1998. Telur stefndi fullljóst af heimildum að svæðið hafi aldrei verið undirorpið beinum eignarrétti, og að nýting þess hafi ekki verið með þeim hætti. Að mati stefnda hvílir sönnunarbyrðin ótvírætt á stefnendum, að sýna fram á tilvist beins eignarréttar að landsvæðinu.
Stefndi bendir á að úrskurður óbyggðanefndar sé byggður á umfangsmikilli upplýsingaöflun og rannsóknum og sé niðurstaðan reist á kerfisbundinni leit að gögnum og skjölum frá málsaðilum sjálfum, en einnig á skýrslum sem gefnar hafa verið fyrir nefndinni. Gerir stefndi niðurstöðu nefndarinnar að sinni til stuðnings sýknukröfunni, þ.e. að við gildistöku laga nr. 58, 1998 hafi landsvæðið talist til afrétta samkvæmt þeirri eignarréttarlegu flokkun lands sem almennt hafi verið miðað við fram til þess tíma. Af hálfu stefnda er um röksemdir að þessu leyti einnig vísað til úrskurðarins.
Stefndi byggir á að því sé ekki lýst í Landnámu hversu langt upp til fjalla og inn til lands landnám á hinu umþrætta landsvæði náði og verði því engar afdráttarlausar ályktanir dregnar af þeim frásögnum. Sé hins vegar tekið mið af staðháttum og fjarlægðum við túlkun landnámslýsinga kunni hluti þess lands sem hér sé deilt um að hafi verið numinn. Ekkert liggi hins vegar fyrir um afmörkun eða yfirfærslu þeirra beinu eignaréttinda sem þar kunni að hafa verið stofnað til og engar heimildir séu um að þar hafi verið byggð. Byggir stefndi á því að þannig hafi sá beini eignarréttur sem kunni að hafa stofnast í öndverðu hafa fallið niður og landsvæðið í kjölfarið verið tekið til takmarkaðra nota. Vísar stefndi í þessu sambandi m.a. til þess að á landsvæðum sem liggja nálægt séu bæði eignarlönd og þjóðlendur.
Þá byggir stefndi á því að af heimildum megi ráða að Hnjótafjall hafi fyrst legið undir jörðina Urðir en svo Atlastaði. Svæðið, sem hafi eingöngu verið nýtt til hefðbundinna afréttarnota, sé landfræðilega aðskilið frá Urðum og er bent á að u.þ.b. 7 km séu frá Urðum og inn að Hnjótafjalli og Atlastöðum, en enn fremur skilji Skalláin svæðið af. Þá hafi svæðisins jafnan verið getið með sérstökum hætti í heimildum. Að þessu leyti vísar stefndi til þess sem áður var rakið úr Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1712 um afréttarland Urðakirkju og að það sé fjallið sem nefnist Hnjótar. Enn fremur vísar stefndi til áðurrakinnar umfjöllunar óbyggðanefndar um eldri heimilir. Í því sambandi er bent á dómabók þar sem ábúandi á Urðum lögfesti Hnjótafjall árið 1739 og að í makaskiptabréfi klausturhaldara frá 1781 hafi verið talað um heimajörðina Urðir „ásamt ... öllum Hnjótaafrétti“. Þá vísar stefndi til áðurrakinna jarðamata frá 1849-1850 og 1916-1918 svo og landamerkjabréfa jarðanna Urða og Atlastaða frá 1884 og byggir hann á því að af þessum heimildum megi ráða að Hnjótafjall hafi verið sérstakt landsvæði aðskilið frá jörðinni Urðum og að nýting þess hafi eingöngu verið bundið við afréttarnot.
Stefndi vísar til þess að ekkert liggi fyrir um hvernig hvernig Hnjótafjall komst undir Atlastaði frá Urðum.
Stefndi áréttar að um afréttarsvæði sé að ræða og að það sé aðskilið frá jörðunum tveimur. Stefndi byggir á því að almennt hafi verið litið svo á að þegar svo hátti til þá bendi það ótvírætt til þess að um sé að ræða svæði utan eignarlanda.
Stefndi bendir á að samkvæmt landamerkjabréfi Atlastaða frá 1884 segi að afréttarlandið Hnjótar fylgi jörðinni. Stefndi byggir á því að þessi aðgreining bendi ótvírætt til þess að svæðið hafi verið afréttarsvæði utan eignarlanda. Að þessu leyti vísar stefndi til dómafordæma Hæstaréttar. Stefndi bendir á að sæki lýsing landamerkjabréfs ekki stoð í eldri heimildir dragi það úr sönnunargildi þess, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í máli nr. 48/2004.
Stefndi byggir á því og áréttar að í heimildum sé Hnjótafjalls almennt getið í tengslum við upprekstur og afréttarnot, en engar heimildir séu um byggð þar eða önnur not en sumarbeit og e.t.v. takmarkaðar nytjar, en í síðari tíð hafi það þó einnig verið notað til útivistar. Stefndi bendir á að svæðið sé á stórum hluta hálent og inn á það hafi búfénaður leitað án hindrana. Um afréttarnotkun og fjallskil hafi snemma verið settar opinberar reglur sem sveitarstjórnum hafi verið falið að annast framkæmd á.
Með vísan til ofangreindra atriða byggir stefndi á því að stefnendur hafi ekki sýnt fram á að Hnjótafjall sé eignarland, hvorki fyrir nám, löggerninga eða með öðrum hætti. Þvert á móti bendi heimildir einmitt til þess að Hnjótafjall hafi verið afréttur Urðakirkju í þeim skilningi að hún hafi átt þar óbein eignaréttindi fremur en beinan eignarrétt.
Stefndi hafnar þeim málatilbúnaði stefnenda að réttmætar væntingar geti verið grundvöllur fyrir eignarréttartilkalli á umræddu landsvæði. Bendir stefndi á að sú regla hafi verið leidd af Landmannaafréttardómi Hæstaréttar hinum síðari, sbr. mál nr. 199/1978, að löggjafinn sé einn bær til þess að ráðstafa réttindum yfir landsvæði utan eignarlanda. Landslög þurfi til sölu eigna ríkissjóðs. Athafnir eða athafnaleysi starfsmanna stjórnsýslunnar geti ekki leitt af sér slík umráð nema sérstök lagaheimild hafi verið fyrir hendi, þ.m.t. að þjóðlenda hafi verið látin af hendi. Réttmætar væntingar geti því ekki stofnast á þeim grundvelli sem haldið sé fram af hálfu stefnenda. Þar að auki verði væntingarnar vitanlega einnig að vera réttmætar, þ.e. menn geta ekki haft væntingar til að öðlast meiri eða frekari réttindi en þeir geti mögulega átt rétt á. Ef því háttar þannig til, líkt og í þessu tilviki, að m.a. heimildir, staðhættir, gróðurfar og nýting lands bendi ekki til beins eignarréttar, geti réttmætar væntingar ekki stofnað til slíkra réttinda.
Stefndi andmælir því að skilyrði eignarhefðar séu fyrir hendi, og vísar þar um til áðurgreindra sjónarmiða um nýtingu lands, staðhátta og eldri heimilda. Áréttar stefndi að nýting svæðisins hafi í aldanna rás ekki falist í öðru en sumarbeit fyrir búfénað, en hefðbundin afréttarnot geti ekki stofnað til beinna eignarréttinda yfir landi, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar í málum nr. 47/2007 (Bláskógabyggð) og nr. 48/2004.
Að öðru leyti mótmælir stefndi öllum sjónarmiðum og málsástæðum stefnenda, svo sem þeim er lýst í stefnu, en byggir um leið á þeim röksemdum sem lagðar voru til grundvallar í úrskurði óbyggðanefndar í máli nr. 1/2009, og krefst þess að hann verði staðfestur. Verði þannig miðað við að þjóðlendulínan verði dregin með þeim hætti sem í úrskurðinum er lýst.
Um lagarök er af hálfu stefnda vísað til almennra reglna eignarréttar og til þjóðlendulaga nr. 58, 1998. Þá vísar stefndi til 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33, 1944. Stefndi byggir einnig á meginreglum eignarréttar um nám, töku og óslitin not, og á meginreglum um eignarráð fasteignareiganda og almennum reglum samninga- og kröfuréttar, svo og á hefðarlögum nr. 14, 1905. Þá vísar hann til laga nr. 6, 1986 um afréttarmálefni og fjallskil og til eignarréttarreglna Grágásar og Jónsbókar og loks til laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála, þar á meðal málskostnaðarákvæði 129. og 130. gr.
III.
Við aðalmeðferð málsins gáfu stefnendur aðilaskýrslur, en vitnaskýrslur gáfu Kristján Eldjárn Hjartarson, og Guðmundur Gunnarsson, Herbert Hjálmarsson, Dalvíkurbyggð, og Hjörleifur Stefánsson, Reykjavík.
1. Með lögum Alþingis nr. 58, 1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, sem tóku gildi 1. júlí 1998, var sérstakri stjórnsýslunefnd, óbyggðanefnd, falið að kanna og skera úr um hvaða landsvæði innan íslenska ríkisins teljist til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda, skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur og úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna, sbr. 7. gr. laganna.
Í 1. gr. laganna er þjóðlenda skilgreind sem landsvæði utan eignarlanda þó að einstaklingur eða lögaðilar kunni að eiga þar takmörkuð eignarréttindi. Í lagagreininni er eignarland skilgreint sem: „Landsvæði sem er háð einkaeignarétti þannig að eigandi landsins fer með öll venjuleg eignaráð þess innan þeirra marka sem lög segja til um á hverjum tíma.“ Þá er afréttur skilgreindur sem: „... landsvæði utan byggðar sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfé.“
Fram að gildistöku laga nr. 58, 1998, sem nefnd hafa verið þjóðlendulög, voru ýmis landsvæði á Íslandi sem enginn eigandi var að. Með lögunum er íslenska ríkið lýst eigandi þessara svæða, auk þeirra landsréttinda og hlunninda þar sem aðrir eiga ekki, og þau nefnd þjóðlendur.
Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi til nefndra laga segir m.a. að þjóðlendur séu landsvæði sem nefnd hafa verið nöfnum eins og hálendi, óbyggðir, afréttir og almenningur, allt að því tilskildu að utan eignarlanda sé. Er tilgangur laganna að leysa úr þeirri óvissu sem lengi hefur verið uppi um eignarhald á ýmsum hálendissvæðum landsins. Eigi er áskilið að landsvæði þessi séu á miðhálendinu og ber eigi að skýra ákvæðið svo þröngt að það geti ekki tekið til landsvæða annars staðar. Þá segir í athugasemdunum að til þess eigi að líta að þótt land í þjóðlendum sé eign ríkisins samkvæmt framansögðu geti verið að einstaklingar, sveitarfélög eða aðrir lögaðilar eigi þar takmörkuð réttindi, en lögin raski ekki slíkum réttindum. Þannig skuli þeir sem hafi nýtt land innan þjóðlendna sem afrétt fyrir búfénað, eða haft þar önnur hefðbundin not sem afréttareign fylgja, halda þeim rétti í samræmi við ákvæði laga þar um. Þjóðlendulögin veita þannig ekki heimild til að svipta menn eign sinni, hvorki eignarlöndum né öðrum réttindum.
Í þjóðlendulögum er ekki að finna sérstakar reglur um það hvernig óbyggðanefnd skuli leysa úr málum, þ.e. hvaða land skuli teljast eignarland og hvað þjóðlenda. Niðurstaða ræðst því af almennum sönnunarreglum og þeim réttarreglum sem færðar eru fram í hverju einstöku tilviki. Það eru því grundvallarreglur íslensks eignarréttar sem gilda.
Eins og áður var rakið tilkynnti óbyggðanefnd með bréfi dagsettu 29. mars 2007 þá ákvörðun sína að í samræmi við III. kafla laga nr. 58, 1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta ætlaði hún að taka til umfjöllunar landsvæði á vestanverðu Norðurlandi, og þ. á m. það svæði sem hér um ræðir, í framdal Svarfaðardals í Dalvíkurbyggð. Að lokinni málsmeðferð samkvæmt nefndum kafla laganna kvað óbyggðanefnd upp úrskurð sinn hinn 10. október 2011, sbr. mál nefndarinnar nr. 1/2009. Varð það m.a. niðurstaðan að umrætt landsvæði, Hnjótafjall, væri þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. a-lið 7. gr., en að það sama svæði væri afréttareign jarðarinnar Atlastaða, sbr. ákvæði 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. laga nr. 58, 1998.
Það er álit dómsins að áðurlýst málsmeðferð óbyggðanefndar, sbr. kafla I.1 hér að framan, hafi verið í samræmi við fyrirmæli þjóðlendulaga og verður ekki fallist á með stefnendum að form- eða efnisgallar séu á úrskurðinum, þar á meðal að því er varðar meðalhófsreglu stjórnsýslulaga, þannig að varði ógildi hans. Þykir að þessu leyti mega vísa til hæstaréttarmálsins nr. 48/2004, en þar er það m.a. rökstutt að málsmeðferðin sé eigi andstæð 1. mgr. 70. gr. og 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands og 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62, 2994. Í þessu viðfangi þykir og fært að líta til ákvörðunar Mannréttindadómstóls Evrópu frá 23. september 2008 í máli nr. 46461/06: Örn Bergsson o.fl. gegn Íslandi, en málið varðaði dóm Hæstaréttar í máli nr. 496/2005 um landsvæðin Fjall og Breiðamörk í Öræfum.
2. Ágreiningsatriði máls þessa varðar samkvæmt framansögðu eignarréttarlega stöðu landsvæðis sem nefnt er Hnjótafjall, en stefnendur, sem eru þinglýstir eigendur Atlastaða í Svarfaðardal, krefjast viðurkenningar á beinum eignarrétti fjalllendisins. Stefndi krefst sýknu, en um rökstuðning vísar hann m.a. til úrskurðar óbyggðanefndar.
Svarfaðardalur, sem skerst suðvestur af miðjum Eyjafirði og er umlukinn háum fjöllum, 700-1445 m, klofnar í tvo dali miðsveitis um fjall það, sem Stóllinn nefnist. Heitir vestari dalurinn Svarfaðardalur eins og meginsveitin, en Skíðadalur hinn austari, en hann gengur áfram til suðurs. Ytri hluti Svarfaðardals að austan er oft nefndur Austurkjálki. Ytri hlutinn að vestan er nefndur Vesturkjálki og nær að Hreiðarsstaðakoti, en þar innan við er dalurinn gjarnan nefndur framdalur.
Inn í fjöllin beggja vegna við sveitina liggja margir afdalir eða þverdalir, en allir eru þeir óbyggðir og eru ekki sagnir um að nokkurn tíma hafi verið byggð í þeim, en sumarbeit er þar víða góð og selstaða hefur verið í mörgum þessara dala. Í innsta hluta framdals Svarfaðardals að sunnanverðu, en samkvæmt staðbundinni málvenju er það austurhluti dalsins, eru afdalirnir Vatnsdalur og Vífilsdalur, en gegnt þeim að norðan eru Sandárdalur og Skallárdalur. Ummerki eru m.a. í síðastnefnda dalnum um selstöður, sbr. m.a. örnefnaskrá Jóhannesar Óla Sæmundssonar námsstjóra.
Hnjótafjall er í innsta hluta framdals Svarfaðardals, en um mörk þess og hins umþrætta landsvæðis er ekki ágreiningur með aðilum og þá þannig að svæðið falli innan lýsingar á „afréttarlandinu Hnjótum“ í áðurröktu landamerkjabréfi Atlastaða frá árinu 1884. Er þannig óumdeilt að til suðurs nær landsvæðið að Svarfaðardalsá, en handan hennar er samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar eignarland jarðarinnar Kots/Vífilsstaða, og fylgja merkin með ánni „upp til sýsluskila á Heljardalsheiði“. Að suðvestan og vestan eru takmörkin við sýsluskil Eyjafjarðar- og Skagafjarðarsýslu og ná þannig að merkjum Unadals- og Deildarafrétta, en þar næst vestan við sýslumerkin er þjóðlenda samkvæmt dómi Héraðsdóms Norðurlands vestra í máli nr. 50/2012. Til norðurs miðast merkin við Skallána, en handan hennar er samnefndur dalur og fjöllin Hrafnabjörg og Skjöldur.
Um sýslumörk Eyjafjarðar- og Skagafjarðarsýslu segir nánar í ritinu Lýsing Eyjafjarðar, sem rituð var af Steindóri Steindórssyni náttúrufræðingi, að þau fylgi háhryggjum fjallanna milli Svarfaðardals og dalbotna frá Fljótum úr Skagafirði fyrir ofan Sköld og Hrafnabjörg og um Einstakafjall, sem er norðanvert við botn Skallárdals, þaðan yfir Háröðla Unadalsjökuls og yfir þvera Heljardalsheiði á vatnaskilum.
Svarfaðardalsá kemur úr botni framdals Svarfaðardals, undir Heljardalsheiði. Fellur hún niður dalinn á allbreiðum malareyrum og niður hjá jörðinni Urðum. Þar þrengist allmikið að henni, vegna framhlaups, og fellur hún í gili, klettalausu, niður fyrir dalmót dalsins og Skíðadals. Fyrir framan framhlaupið er býlið Urðir og dregur það nafn sitt af því. Fyrir miðjum botni Svarfaðardals er umrætt Hnjótafjall, milli Heljardalsheiðar að sunnan og Skallárdals að norðan, en í dölunum beggja vegna fjallsins eru allmiklir jöklar, Unadalsjökull að norðan en Deildardalsjökull suðvestan.
Undir rekstri málsins fór dómari á vettvang ásamt málsaðilum og lögmönnum, en einnig staðkunnugum aðila, Kristjáni Eldjárn Hjartarsyni byggingafræðingi, frá Tjörn í Svarfaðardal.
Í úrskurði óbyggðanefndar er auk lýstrar afmörkunar um hið umþrætta landsvæði að nokkru vikið að staðháttum og gróðurfari í framdal Svarfaðardals, en eigi er um það deilt að gróður hafi náð lengra inn til fjalla á landnámsöld en nú er.
Af hálfu stefnenda er á því byggt að umrætt landsvæði hafi verið numið í öndverðu, en því til stuðnings vísa þeir helst til áðurrakinnar landnámslýsingar.
Samkvæmt Landnámu og öðrum sögulegum heimildum er Svarfaðardalur nefndur eftir Þorsteini svörfuði. Kom hann frá Noregi þegar meginhérað Eyjafjarðar var orðið mjög byggt. Varð hann því að gera sér að góðu, líkt og segir í ritinu Byggðir Eyjafjarðar, að setjast að í hinum snjóþunga og harðbýla dal utar í firðinum, sem þá var lítt byggður. Reisti landnámsmaðurinn sér bæ í miðri sveit, nærri bökkum og engjaflæmum Svarfaðardalsár og kallaði Grund, en þar varð byggð síðar allþétt. Sonur hans, Karl rauði, byggð bú sitt að Karlsá á Uppsaströnd.
Dómurinn fellst á röksemdir stefnda um að frásögn Landnámu sé harla óljós um landnámið og mörk þess. Um sumt er frásögnin þannig misvísandi um landnám fremst í Svarfaðardal og í Skíðadal. Verður meðal annars ekki ráðið umfram það sem áður sagði hversu langt inn til landsins landnám Þorsteins hafi náð, en ekkert er í Landnámu vikið að Urðum, en jörðin er um 7 km innar en landnámsjörðin Grund. Sennilegt má telja að á Urðum hafi, líkt og á Grund, verið sjálfstætt landnám þó að það hafi ef til vill gerst síðar, líkt og í Skíðadal. Í framdal Svarfaðardals og í Skíðadal var byggðin ætíð strjálli en neðar í byggðinni. Í Svarfdæla sögu segir: „Mörk var svá þykk upp frá Tungunni, at aldri var rjoðr í.“ Í sögunni er getið um Böðvar á Urðum, son Eyjólfs breiðhöfða sem Urðamenn eru taldir komnir frá. Í Landnámu er getið um Þorvarð á Urðum, sem var tengdafaðir Gunnólfs landnámsmanns í Ólafsfirði. Samkvæmt alþekktum fræðiritum dr. Kristjáns Eldjárns og öðrum gögnum hafa merki um kuml ekki fundist í fremsta hluta Svarfaðardals, sem er öfugt við ytri hlutann. Hins vegar fannst í framdalnum m.a. skáli, sem ætlað er að hafi verið byggður á 11. öldinni. Í Svarfdæla sögu, Laxdælu, Prestasögu Guðmundar og Valla-Ljóts sögu er getið um jarðir austan/sunnan Svarfaðardalsár í framdalnum, þ.e. Skeið, Hræringstaði og Búrfell, sem virðist staðfesta að byggð hafi þegar verið komin þar á 12. og 13. öld. Verður tæpast efast um að allar þessar jarðir hafi verið komnar í byggð á 10. öldinni ásamt öðrum býlum í framdalnum, svo sem Sandá, Göngustöðum og Dæli.
Urðajörðin var samkvæmt fyrstu jarðamötum stærsta jörðin í framdalnum, en aðrar jarðir þar eru litlar á norðlenskan mælikvarða.
Að virtum ofangreindum heimildum verða að mati dómsins ekki dregnar með vissu ályktanir um eignarréttarlega stöðu heiðarlanda eða fjalllendis í Svarfaðardal, en ekki er þar m.a. minnst á Hnjótafjall.
Af heimildum verður ráðið að byggðin í framdal Svarfaðardals hafi verið tiltölulega stöðug utan áfalla í kjölfar plágunnar miklu 1402-1404 og 1447. Atlastaðir voru í eyði á þessum árum, líkt og Sandá, en báðar voru jarðirnar þá taldar eign Möðruvallaklausturs, líkt og allur botn framdalsins. Atlastaðir og Sandá voru samkvæmt heimildum örugglega aftur komnar í byggð á 16. öldinni, en þá voru þær orðnar eign Hóladómstóls, líkt og um tíma höfuðbýlið Urðir. Um tíma voru þannig allar jarðirnar í hinni fornu Urðasókn eign kirkjunnar, a.m.k. að einhverju leyti, utan Másstaða og Tungufells. Á fyrri hluta og um miðbik 17. aldar voru stofnuð nýbýlin Göngustaðakot og Þorsteinsstaðir í framdalnum. Síðarnefnda jörðin var samkvæmt heimildum byggð á rústum eyðibýlisins Sandárlandi og var skráð eign Hólastóls allt þar til í byrjun 19. aldar er jörðin varð bændaeign.
Samkvæmt heimildum hefur eignarhald á Urðum tekið breytingum, en jörðin hefur þó lengst af verið bændaeign.
Urðakirkju er fyrst getið í máldaga Auðunar Þorbergssonar biskups frá 1318. Samkvæmt þessari heimild, sem er í samræmi við aðra kirkjumáldaga, átti kirkjan framan af engan hlut í Urðajörðinni, en hins vegar ýmsar jarðir í grenndinni og alls konar ítök. Einnig var í hennar þágu innheimtir ljósa- og heytollar. Samkvæmt máladaga Ólafs Rögnvaldssonar biskups 1461 átti Urðakirkja auk þess reit í Skíðadalsafrétt, en þann afrétt átti Vallakirkja. Jörðin Vellir er í megindal Svarfaðardals, á Austurkjálka.
Urðajörðin var á miðöldum höfuðból og höfðingjasetur og sátu þar
lögmenn, hirðstjórar, sýslumenn og mektarbændur, eins og rakið var að nokkru í
kafla I.3 hér að framan. Á meðal þeirra voru langfeðgarnir og hirðstjórarnir Eyjólfur, Þorsteinn,
Arnfinnur, Eyjólfur sýslumaður og Guðni mektarbóndi, og ,, var þá setinn
Svarfaðardalur.“
Samkvæmt heimildum átti Jón Sigmundsson, sýslumaður og lögmaður í Víðidalstungu í Vestur-Húnavatnssýslu, á meðal annarra jarðeigna Urðir í Svarfaðardal. Hann átti í byrjun 16. aldar í landskunnum málaferlum og illdeilum við Gottskálk Nikulásson hinn grimma, Hólabiskup. Vörðuðu málaferlin m.a. hjúskaparmál Jóns, ætluð tíundasvik hans auk fleiri ávirðinga. Lyktir þessara málferla urðu að lokum þau, árið 1508, að Jón var dæmdur af 12 presta dómi til hárra sektargreiðslna. Þá var bætt um betur og var Jón af báðum biskupum landsins bannfærður. Í kjölfar þess missti Jón fjölmargar jarðir og þar á meðal Urðir, en einnig Klaufabrekkur og Auðnir, en er hér var komið sögu átti Urðakirkja hlut í Urðajörðinni. Árið 1525 var Urðajörðin í Sigurðarregistri alfarið skráð sem eign biskupsstólsins á Hólum. Hélst sú skipan mála í tíð Jóns biskups Arasonar. Eftir siðaskiptin gekkst Guðbrandur Þorláksson, síðar biskup á Hólum, en hann var dóttursonur Jóns Sigmundssonar, fyrir því að dómar hins kaþólska biskups yrðu ógiltir. Spunnust af þessum framgangi langvinn málaferli. Varð Guðbrandi að lokum nokkuð ágengt og endurheimti hann fyrir hönd ættar sinnar, með aðstoð konungs, meginhlutann af fyrri jarðeignum og þar á meðal jörðina Urðir. Eftir það varð Guðbrandur umráðamaður Urða og leigði hann jörðina, en einnig jarðeignir Hólastóls, til nafnkunnra manna. Var þetta nefnt Urðaumboð. Hélst þessi háttur á eftir daga Guðbrands biskups og kom þá m.a. við sögu um tíma dóttursonur hans, Þorlákur Skúlason Hólabiskup.
Í fræðiritinu Svarfdælingar er þess getið að á síðari hluta 17. aldar hafi Jón Illugason, hreppstjóri og lögréttumaður, verið búsettur á Urðum, en hann hafði með höndum fyrrnefnt Urðaumboð. Segir frá því að Jón hafi í lögfestu fyrir Urðum lýst landamerkjum jarðarinnar þannig: „Ræður að utan garður sá er liggur úr Dalsánni upp Sandhólagil og upp á fjall að norðan, Dalsáin að neðan, en að sunnan eða framan, sá garður úr Svarfaðardalsá er kemur gegn Búrfellshöfða og rétt fyrir ofan Þorleifsstaðagil, síðan í fjall upp til fremstu vatnsupptaka. Þar í allt Hnjótafjall með báðum þeim megin aðliggjandi dölum, Heiðardal og Skallárdal.“
Jarðirnar Urðir og Atlastaðir eru norðan Svarfaðardalsár, í vesturhluta framdalsins. Eru rúmir 6 kílómetrar á milli bæjarhúsa, mælt í beinni línu, en þar í milli, þ.e. fram að dalbotninum, eru einnig áðurnefndar 6-7 jarðir, en ekki verður annað ráðið en að þær hafi allar verið sjálfstæðar jarðeignir.
Í Jarðabók Árna og Páls frá 1712 segir að Göngustaðir og samnefnt kot, en einnig Hóll, hafi verið í eigu Urðakirkju. Þá segir í Jarðabókinni að Auðnir, bæði Klaufabrekkubýlin, Sandá, Þorsteinsstaðir og Atlastaðir hafi verið í eigu biskupsstólsins á Hólum.
Í Jarðabókinni segir nánar um jarðirnar í vestanverðum framdalnum, þ. á m. að í úthögum Urða hafi verið eyðihjáleigurnar Gróugerði og Þorleifsstaðir, en þar fyrir framan fyrrnefndur Hóll, jörðin Auðnir, sem fór í eyði eftir snjóflóð 1953, en einnig Klaufabrekkukot, Klaufabrekka, Konungsstaðakot, Konungsstaðir, sem nú eru nefndar Göngustaðir og Göngustaðakot, Sandá og Þorsteinsstaðir, en um 600 m framar, í dalbotninum, jörðin Atlastaðir. Fremstu býlin í framdalnum sunnan Svarfaðardalsár voru við ritun bókarinnar Vífilsstaðir og Kot.
Í heimildum er vikið að landgæðum og búfjárhögum Urðajarðarinnar og tengslum hennar við hið umþrætta landsvæði, Hnjótafjall. Líkt og rakið var í kafla I.3 hér að framan er þessum gæðum m.a. lýst í máldaga frá 1590, bréfabók Guðbrands biskups Þorlákssonar frá 1595, leigumála Þorláks Hólabiskups Skúlasonar frá 1633 og í Jarðabók Árna og Páls frá 1712. Í fyrstu heimildinni segir að kirkjan eigi reit fyrir framan Skallárdalsá, í bréfabók Guðbrands biskups segir að kirkjan eigi Hnjótafjall allt fyrir framan Skallárdalsá og í leigumálanum frá 1633 segir að með Urðajörðinni fylgi einnig Hnjótafjall. Loks segir í Jarðabókinni, en Urðajörðin var þá í eigu Þrúðar, dótturdóttur Þorláks biskups, að Urðakirkja eigi afréttarland sem kallist Hnjótar.
Samkvæmt áðurröktum ritheimildum frá 18. og 19. öldinni voru margoft lögfest réttindi eigenda Urða í heimalandi jarðarinnar, en einnig í ítökum kirkjunnar þar á bæ. Þessi réttindi voru að nokkru áréttuð í jarðamötum síðar. Í þessum heimildum, en einnig í makaskiptabréfi frá 1781, var enn fremur fjallað um tiltekin réttindi jarðeigenda Urða í Hnjótafjalli, en í þeirri síðastnefndu er sagt að um afrétt sé að ræða, sbr. að því leyti jarðamat frá árinu 1804. Í lögfestu jarðeiganda Urða árið 1839 var fjalllendið afmarkað nánar, en í Sýslu- og sóknalýsingunni, sem séra Árni Halldórsson á Tjörn ritaði um svipað leyti, segir að fjalllendið tilheyri Urðakirkju. Í síðastnefndu heimildinni er landsvæðinu þannig lýst:
„Er fjall þetta á ofan og langt ofaneftir brattanum allt klettum þakið og graslaust allt niður til miðhlíðis og mjög framhlaupið í skriður, er sumarganga allt niður til ár, en geirarnir þó neðarlega grösugir; allt fjallið á þennan veg alsett skriðugiljum og grjótrindum á milli allt út að öxl, útaf hverri gengur stuttur háls út að Skallá, sem að greinir samnefndan dal frá Hnjótafjalli að vestan og að norðan og rennur í Svarfaðardalsá. Fjallið að vestan er undirlendis laust og snarbratt niður til ár með mosagrónum rindum milli skriðugilja, þessu megin eins og að austan verðu er það ofan allt klettum sett, svo það er til að sjá eins og einn klettahjálmur.“
Engar formlegar heimildir hafa fundist um það hvernig hin ætluðu réttindi í Hnjótafjalli færðust frá Urðajörðinni eða Urðakirkju yfir til Atlastaða.
Stefnendur byggja á því að tilfærslan hafi gerst um miðja 19. öldina, en þá hafi Halldór Þorkelsson á Urðum einnig átt Atlastaði. Vísa stefnendur jafnframt til þess að eignatilfærslunnar sé skýrlega getið í áðurröktum landamerkjabréfum jarðanna, sem gerð voru vorið 1884.
Samkvæmt jarðamati frá 1849 á Urðajörðin upprekstur fyrir 300 fjár í Hnjótum. Í matinu er ekkert vikið að réttindum Atlastaða í Hnjótafjalli, en aftur á móti er þar vísað til búfjárhaga jarðarinnar í Skallárdal og enn fremur beitarítaks kotjarðarinnar Þorsteinsstaða þar í dalnum.
Fyrir liggur að býlið Atlastaðir lá í þjóðbraut á meðan Heljardalsheiði var helsti fjallvegur vestur í Skagafjörð, að biskupssetrinu að Hólum, en eins og áður var rakið var jörðin fyrr á öldum um tíma í eyði.
Í fyrrgreindum heimildum, þ. á m. Sýslu- og sóknalýsingu séra Árna, en einnig í síðari fræðiritum, þ. á m. ritverkunum Svarfdælingar og örnefnaskrá Sæmundar Óla Jóhannessonar námstjóra, er vikið nánar að býlinu Atlastöðum. Segir m.a. frá því að bæjarhús Atlastaða standi mjög hátt á allstórri hólaþyrpingu, í um 225 metra hæð yfir sjó, skammt austan ármóta Svarfaðardalsár og Skallár. Í nefndu riti Svarfdælingar er vikið að búfjárhögum, en einnig að svonefndum afrétti jarðarinnar, en þar segir: „Búfjárhagar Atlastaða eru einkum á Skallárdal. Dalurinn liggur suður og upp frá bænum, nær að Unadalsjökli og við rætur hans á Skallá upptök sín. Nafnið Skallárdalur gildir aðeins vestan ár. Við mynni dalsins, skammt sunnan Atlastaða, er hólaþyrping, sem heitir Hólar. .... Innan við Hóla er nokkurt undirlendi, sem smá mjókkar, eftir því sem ofar kemur í dalinn ... Afréttur Atlastaða heitir Hnjótar, þeir takmarkast af Skallá að vestan og norðan, en Svarfaðardalsá að austan og eru auðvitað kenndir við fjallið, sem er þarna uppfrá bænum. ... Hnjótaháls liggur út frá fjallinu. Hefur Skallá gert sér fyrir ævalöngu farveg gegnum hálsinn utarlega og skilið eftir stúf lítinn utan ár, er kallast Skallárhóll. Árgilið er þarna geysidjúpt, klettótt á köflum og gróðurlítið. Gegnt Skallárdal, vestan megin hálsins, er kallað Hnjótarnir að vestan, en kjálkinn austan megin Hnjótarnir að austan. Gamlar seltóftir eru beggja megin hálsins, en nafnlausar báðar.“
Hið umþrætta landsvæði Hnjótafjall er samkvæmt framansögðu skýrt afmarkað landfræðilega og þá helst af Svarfaðardalsá og gangvart Atlastöðum af Skallá, en næst bæjarhúsum og fornum útihúsum er hið djúpa Svartagil. Þar fyrir framan og norðan Skallárinnar er aðalbeitilandið, í Skallárdal. Landsvæðið er ógirt og verður ráðið, m.a. af vitnisburði fyrir dómi, að búfé hafi auðveldlega runnið yfir ána framarlega á Skallárdalnum.
Hnjótafjallið er aðskilið frá Urðajörðinni, en þar í milli eru fyrrnefndar sjálfseignarjarðir.
Stefnendur byggja kröfur sínar um beinan eignarrétt á Hnjótafjalli á Landnámu, en einnig á fyrrnefndum heimildum og þá ekki síst á bréfabók Guðbrands biskups frá árinu 1595. Að auki byggja þeir á áðurröktum lögfestum og landamerkjabréfum fyrir Atlastaði og Urðir frá árinu 1884.
Bréf Guðbrands biskups er elsta skráða heimildin um Hnjótafjall, sem málsaðilar hafa lagt fram. Fyrir liggur að bréfið var skráð eftir að Urðajörðin hafði eftir tæplega 70 ára umráð Hólastóls og fyrrgreindar málaþrætur komist á ný undir yfirráð ættar biskupsins.
Í nefndum landamerkjabréfum er lýst heimalandi jarðanna Urða og Atlastaða. Í bréfi Atlastaða er sérstaklega tiltekið að afréttarlandið Hnjótar fylgi jörðinni, en í bréfi Urða er sagt að jörðin eigi þar upprekstrarrétt. Eldri heimildir greina einnig frá því að um afréttar- og upprekstrarland sé að ræða, sbr. áðurrakið jarðamat frá 1804, makaskiptabréf frá 1781 og Jarðabók Árna og Páls frá 1712.
Um gildi landamerkjabréfa, og því hvert sé inntak eignarréttar á svæði sem í þeim er lýst, hefur Hæstiréttur Íslands lýst þeirri afstöðu, t.d. í máli réttarins nr. 48/2004, að almennt skipti máli hvort um sé að ræða jörð eða annað landsvæði. Segir í dómsmálinu m.a. að þekkt sé að landamerkjabréf hafi ekki eingöngu verið gerð fyrir jarðir, heldur einnig afrétti, sem ekki tengist sérstaklega tiltekinni jörð. Enn fremur segir að landamerkjabréf fyrir jörð feli almennt í sér ríkari sönnun fyrir því að um eignarland sé að ræða þótt jafnframt verði að meta gildi hvers bréfs sérstaklega. Þá segir að það auki almennt gildi landamerkjabréfs sé það áritað um samþykki eigenda aðliggjandi jarða, en að þess verði að gæta að með því að gera landamerkjabréf geti menn ekki einhliða aukið við land sitt eða annan rétt umfram það. Verði til þess að líta hvort til séu eldri heimildir sem fallið geti að lýsingu í landamerkjabréfi, enda stangist sú lýsing heldur ekki á við staðhætti, gróðurfar og upplýsingar um nýtingu lands. Rétturinn hefur í síðari dómum áréttað þessa afstöðu, t.d. í dómi í máli nr. 496/2005.
Ber við niðurstöðu máls þessa m.a. að hafa allt framangreint í huga.
Það er meginregla í íslenskum rétti að sá sem telur til eignarréttar yfir landi verður að færa fram heimildir fyrir eignartilkalli sínu eða þeirra sem hann leiðir rétt sinn frá.
Að áliti dómsins benda áðurraktar heimildir ekki til annars en að Hnjótafjall hafi nær einvörðungu verið notað til beitar fyrir kvikfénað og hafi verið afréttur jarðarinnar Urða og eftir atvikum Urðakirkju, en einnig að einhverju leyti annarra býla í framdal Svarfaðardals og þá gegn gjaldi, sbr. jarðamat frá árinu 1804. Er í því viðfangi til þess að líta að um aldamótin 1800 fjölgaði almennt kvikfénaði landsmanna.
Að mati dómsins er ekki fyllilega ljóst hvernig Hnjótafjall komst um miðbik 19. aldar undir yfirráð jarðeiganda Atlastaða.
Þótt tekið hafi verið svo til orða í bréfi Guðbrands Þorlákssonar biskups árið 1595 að Urðakirkja ætti Hnjótafjall geta þau ummæli að áliti dómsins, m.a. í ljósi misvísandi orða í lögfestum, ein og sér að virtu öllu öðru framangreindu í heild ekki gefið tilefni til að álykta annað en að réttindi kirkjunnar hafi verið bundin við óbein eignarréttindi, sem fólust í rétti til upprekstrar búfjár til beitar og annarra hefðbundinna afréttarnota.
Að þessu sögðu og þegar litið er til legu þrætulandsins og annarra þeirra atriða sem vísað er til í fyrrnefndum hæstaréttarmálum, er það niðurstaða dómsins að stefnendur hafi ekki fært fram fullnægjandi sönnun fyrir því að þeir eigi beinan eignarrétt að Hnjótafjalli. Að áliti dómsins benda framlögð gögn heldur ekki til annars en að landsvæði þetta hafi verið hluti afréttar, líkt og það hefur jafnan verið nefnt. Verður ekki annað ráðið en að landsvæðið hafi allt frá öndverðu verið aðskilið frá öðru landi Urðajarðarinnar af öðrum sjálfstæðum jörðum.
Það er því niðurstaða dómsins að líkur standi til að afmörkunin í landamerkjabréfi Atlastaða um Hnjótafjall varði óbein eignarréttindi og nægir, að virtum röksemdum og andmælum stefnda, fyrrnefnt bréf biskups frá 1595 eða forboð í lögfestum að því leyti ekki til að dæma stefnendum eignarrétt að því.
Að þessu virtu og þar sem kröfur og heimildir stefnenda styðjast ekki við önnur gögn verður fallist á með stefnda að ekki hafi verið sýnt fram á að Hnjótafjall sé eignarland, hvorki fyrir nám, löggerninga né með öðrum hætti.
Stefnendur hafa að áliti dómsins ekki fært fram sönnur um að skilyrði eignarhefðar á greindu landi hafi verið fullnægt með þeim venjubundnu afréttarnotum sem þeir hafa haft af því, ásamt fleiri bændum, sem nýtt hafa það til sumarbeitar. Hafa stefnendur heldur ekki rökstutt frekar slík réttindi.
Að þessu virtu, ásamt andmælum og röksemdum stefnda, en einnig með hliðsjón af áðurnefndri ákvörðun Mannréttindadómstóls Evrópu frá 23. september 2008 í máli nr. 46461/06, verður ekki séð að stefnendur hafi mátt vænta þess að þeir ættu nokkur frekari réttindi á þessu landsvæði en hefðbundin afréttarnot.
Verður niðurstaða óbyggðanefndar um að hið umþrætta landsvæði, Hnjótafjall, sé þjóðlenda, en í afréttareign stefnenda, því staðfest.
Verður stefndi samkvæmt öllu þessu sýknaður af kröfum stefnenda í máli þessu.
Eftir atvikum þykir rétt að aðilar beri sinn kostnað af málarekstrinum.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda
greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningsþóknun lögmanns hans, Ólafs Björnssonar
hæstaréttarlögmanns.
Með hliðsjón af umfangi málsins og
hagsmunum, en einnig þegar virt eru gögn um vinnuframlag, þar á meðal vegna
vettvangsferðar, en einnig vegna endurflutnings, er nefnd þóknun ákveðin
2.300.000 krónur og er þá virðisaukaskattur ekki meðtalinn. Samkvæmt 2. mgr. 127. gr. laga nr. 91, 1991
kemur aðeins í hlut dómstóla að ákveða þóknun handa lögmanni gjafsóknarhafa og
á því ekki að réttu lagi að taka afstöðu til útlagðs kostnaðar hans í dómi.
Fyrir uppsögu dómsins var gætt ákvæða 115. gr. laga nr. 91, 1991.
Dóm þennan kveður upp Ólafur Ólafsson, héraðsdómari.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfum stefnenda í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnenda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningsþóknun lögmanns þeirra, Ólafs Björnssonar hæstaréttarlögmanns, 2.300.000 krónur.