• Lykilorð:
  • Áminning
  • Miskabætur
  • Skaðabætur
  • Uppsögn
  • Skaðabótamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 11. apríl 2014 í máli nr. E-2266/2013:

Soffía Friðriksdóttir

(Hilmar Gunnarsson hdl.)

gegn

Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, ÁTVR

(Erla Skúladóttir hdl.)

 

I.

Mál þetta, sem dómtekið var 20. mars sl., var höfðað af Soffíu Friðriksdóttur, Höfn 2, Akureyri, á hendur Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, ÁTVR, með stefnu birtri 30. maí 2013. Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða henni 4.780.000 krónur með vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. febrúar 2012 til 16. desember sama ár og með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún þess að stefndi greiði henni málskostnað samkvæmt málskostnaðaryfirliti eða að mati dómsins.

 

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda en til vara að dómkröfur verði lækkaðar verulega. Stefnandi krefst og málskostnaðar að mati dómsins.

 

II.

Fram kemur í greinargerð stefnda að honum hafi borist ábendingar um einelti í vínbúð stefnda á Akureyri snemmsumars 2010. Leitaði hann af því tilefni til Lífs og sálar sálfræðistofu ehf., sem viðurkennds þjónustuaðila skv. 66. gr. a. í lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með beiðni um að lagt yrði mat á samskipti starfsmanna á vinnustaðnum og gengið úr skugga um hvort einelti ætti sér þar stað. Var þjónustuaðilanum falið að skila skriflegri skýrslu um úttektina og gera tillögur um viðbrögð ef ástæða þætti til. Hélt hann meðal annars fund af þessu tilefni með stefnanda 23. júní 2010. Á fundinum undirritaði stefnandi yfirlýsingu um að hún staðfesti að hafa fengið fræðslu um tilgang viðtalsins og hlutverk þjónustuaðilans, en hann myndi hvorki tiltaka nafn hennar né vitna beint í frásögn hennar í skýrslu um hið meinta einelti.

 

Þjónustuaðilinn skilaði skýrslu um úttektina, sem undirrituð er af sálfræðingunum Einari Gylfa Jónssyni og Þórkötlu Aðalsteinsdóttur, hinn 2. júlí 2010. Sökum viðkvæms eðlis málsins var þar hvorki greint frá nöfnum starfsmanna né endursögð frásögn þeirra. Hins vegar kemur fram í greinargerð stefnda að stefndi hefði fengið í hendur nánari persónugreinanlegar upplýsingar til þess að honum væri unnt að bregðast við ástandinu á viðeigandi hátt. Í skýrslunni kom fram að stjórnun vínbúðarinnar væri ábótavant hvað varðaði íhlutun í erfið samskipti og uppbyggingu á starfsanda. Samskipti tiltekins kjarna fastra starfsmanna væri með öllu óviðunandi og hallaði þar mjög á vaktstjóra. Hann væri baktalaður og mætti kuldalegu viðmóti og hunsun frá hópi starfsmanna. Við mat á því hvort um einelti væri að ræða væri stuðst við eftirfarandi skilgreiningu á hugtakinu einelti: „Einelti er endurtekin neikvæð og/eða niðurlægjandi hegðun sem erfitt er að verjast og leiðir til vanlíðunar hjá þeim sem fyrir henni verður.“ Þá segir í skýrslunni að ámælisverð hegðun umræddra stafsmanna gagnvart vaktstjóra hafi hafist þegar skipað hafi verið í stöður aðstoðarverslunarstjóra og vaktstjóra. Hafi þessi hegðun verið viðvarandi síðan. Staðfest sé að tilteknir starfsmenn sýni vaktstjóranum oft kuldalega framkomu. Þeir baktali og hunsi hann, séu með smásmugulegt eftirlit og klagi hann til yfirmanns. Þá er og lýst í skýrslunni einangrun þolandans í starfshópnum, vanlíðan hans og öðrum afleiðingum. Loks eru settar fram tillögur um viðbrögð vegna þessa, þar sem meðal annars er tilgreint að gerendum eineltisins verði greint frá þeim niðurstöðum skýrslunnar að um einelti sé að ræða og að slík framkoma verði ekki liðin á vinnustaðnum. Þeim verði gefinn kostur á að bæta sig og fylgst verði reglulega með samskiptum þeirra við fórnarlambið.

 

Mannauðsstjóri stefnda hélt fund með stefnanda hinn 13. júlí 2010 í tilefni af framangreindri skýrslu sálfræðinganna. Heldur stefnandi því fram að henni hafi verið greint þar frá þeirri niðurstöðu skýrslunnar að samstarfsmaður hennar hefði verið lagður í einelti, en hið meinta einelti hefði þá ekki verið útskýrt nánar, svo sem í hverju það hefði falist og hvernig stefnandi ætti að bregðast við því. Hafi niðurstaða úttektarinnar komið stefnanda í opna skjöldu, enda hafi hún ekki kannast við einelti í garð viðkomandi starfsmanns. Þá hafi stefnandi verið ósátt við að hafa ekki fengið tækifæri til að kynna sér og gera athugasemdir við skýrsluna áður en henni væri skilað. Stefndi heldur því hins vegar fram að stefnandi hafi á fundinum verið upplýst um það hver hennar þáttur í eineltinu teldist vera samkvæmt úttektinni, eins og síðar er rakið. Hafi hún og fengið tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum sínum og andmælum við niðurstöðu skýrslunnar.

 

Stefndi lýsir því að mannauðsstjóri stefnda hafi í júní 2011 átt viðtöl við starfsmenn vínbúðarinnar á Akureyri og farið þá yfir samskipti á vinnustaðnum til að kanna hvort eineltið væri enn til staðar. Hafi niðurstaða viðtalanna, ábendingar sem hafi tekið að berast fljótlega í kjölfar þeirra, svo og hríðversnandi afköst í vínbúðinni á árinu 2011, bent til þess að svo væri. Hafi því verið talin ástæða til að kanna ástandið nánar. Starfsmenn stefnda áttu síðan viðtöl við starfsmenn á vinnustaðnum í desember sama ár, þar á meðal stefnanda. Í kjölfarið komust stjórnendur stefnda að þeirri niðurstöðu, eftir samráð við úttektaraðilann, að þar sem eineltishegðun stefnanda væri enn til staðar væri ekki annað úrræða en að veita henni formlega áminningu. Var það gert með bréfi, dags. 11. janúar 2012.

 

Hinn 10. janúar 2012 var stefnanda veitt formleg áminning af forstjóra stefnda og var þar vitnað í 1. mgr. 44. gr., sbr. 21. gr., laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Kemur þar meðal annars fram að stefnandi hafi „ítrekað brotið gegn 21. gr. starfsmannalaga en háttsemin felur m.a. í sér óhlýðni við lögleg boð og bönn yfirmanna þinna og þykir að öðru leyti ósæmileg, óhæfileg og ósamrýmanleg starfi þínu“.

 

Með bréfi, dags. 8. febrúar 2012, var stefnanda sagt upp störfum hjá stefnda, með þriggja mánaða uppsagnarfresti miðað við næstu mánaðamót, sbr. 43. gr. laga nr. 70/1996, þannig að starfslok yrðu 31. maí 2012. Var ekki óskað eftir vinnuframlagi stefnanda á uppsagnarfresti. Er í bréfinu vísað til framangreindrar áminningar en tekið fram að stefndi telji hana þó ekki hafa verið nauðsynlegan undanfara uppsagnar hennar með vísan til grundvallarreglna vinnuréttar, opinbers starfsmannaréttar og meginreglu tilvitnaðrar 43. gr. Um einelti væri að ræða sem fæli í sér viðvarandi og alvarleg brot á ábyrgðar- og trúnaðarskyldum og hefði stefnandi ekki látið af því þrátt fyrir áminninguna og aðrar aðgerðir stefnda til að stöðva háttsemina.

 

III.

Við aðalmeðferð málsins gaf stefnandi skýrslu. Einnig voru teknar skýrslur af Emmu Ásudóttur Árnadóttur, mannauðsstjóra stefnda, Jónínu Sanders, aðstoðarframkvæmdastjóra sölu- og þjónustusviðs stefnda, Einari S. Einarssyni, framkvæmdastjóra sölu- og þjónustusviðs stefnda, og sálfræðingunum, Einari Gylfa Jónssyni og Þórkötlu Arnardóttur.

 

IV.

Stefnandi byggir kröfu sína á því að uppsögn stefnda á stefnanda hafi verið ólögmæt. Við mat á ólögmæti ákvörðunarinnar leggi stefnandi áherslu á að starfsmissir sé afar íþyngjandi ákvörðun, sem varði mikilsverða hagsmuni hennar. Gera verði kröfu til þess að stefndi, sem og aðrar stofnanir sem séu reknar af stjórnvöldum, gæti allra viðeigandi reglna, lögfestra sem og ólögfestra, þegar slíkar ákvarðanir séu teknar.

 

Stefnandi vísar í fyrsta lagi til þess að stefndi hafi ekki virt lögbundinn andmælarétt stefnanda skv.  21. gr. laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna nr. 70/1996, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Stefndi hafi áminnt stefnanda og sagt henni upp störfum á þeim grundvelli að hún hefði lagt samstarfsmann sinn í einelti. Henni hafi hins vegar ekki verið veitt færi á að tala sínu máli áður en þessar ákvarðanir voru teknar. Hefði stefndi virt andmælarétt stefnanda hefði komið í ljós að hún hefði ekki tekið þátt í að leggja umræddan starfsmann í einelti. Að minnsta kosti hafi hún ekki gert sér grein fyrir því. Að framangreindu virtu, og með vísan til þess að stefndi rannsakaði ekki nægjanlega forsendur uppsagnarinnar, sé ljóst að stefnanda hafi verið sagt upp með saknæmum og ólögmætum hætti.

 

Í öðru lagi sé vísað til þess að stefndi hafi ekki virt meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga, við ákvörðunina um uppsögn stefnanda. Með fyrirliggjandi gögnum sé sýnt fram á að stefndi hafi ekki framkvæmt neitt mat á því hvort mögulegt hefði verið að beita vægara úrræði til að koma í veg fyrir meint einelti umrædds starfsmanns.

 

Krafan sé í þriðja lagi á því byggð að stefndi hafi við töku umræddrar ákvörðunar brotið gegn jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga. Sé í því sambandi lögð áhersla á að stefnandi hafi verið eini starfsmaðurinn sem sagt hefði verið upp, þrátt fyrir að Líf og sál ehf. hafi vísað til þess að fleiri starfsmenn hefðu lagt viðkomandi starfsmann í einelti.

 

Í fjórða lagi vísi stefnandi til þess að stefndi hafi ekki virt rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga. Feli regla þessi í sér að stjórnvaldi beri að eigin frumkvæði að sjá til þess að málsatvik séu nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin. Í fyrirliggjandi gögnum sé ekkert sem staðfesti að stefnandi hafi lagt samstarfsmann sinn í einelti. Í skýrslu Lífs og sálar ehf., sem hinar umdeildu ákvarðanir hafi byggst á, sé ekki minnst einu orði á stefnanda. Þá bendi skýrslan til þess að hið meinta einelti megi rekja til skipulagsleysis hjá stefnda. Þannig segi þar orðrétt: „Stjórnun vínbúðarinnar er ábótavant hvað varðar íhlutun í erfið samskipti og uppbygging [sic] á starfsanda.“ Bendi skýrslan til þess að stefndi hafi vanrækt skyldur sínar samkvæmt reglugerð nr. 1000/2004, um aðgerðir gegn einelti á vinnustað, sbr. 4. gr. reglugerðarinnar, sem leggi þær skyldur á stefnda að skipuleggja vinnu starfsmanna þannig að dregið sé úr hættu á að þær aðstæður skapist sem leitt geti til eineltis. 

 

Loks sé í fimmta lagi bent á að ákvörðun stefnda hafi brotið gegn réttmætisreglu stjórnsýsluréttar, þar sem uppsögnin hafi ekki byggst á málefnalegum sjónarmiðum. Því sé mótmælt að stefnandi hafi lagt samstarfsmann sinn í einelti og hafi stefnda því ekki verið heimilt að byggja ákvörðun sína á því.

 

Við mat á fjártjóni stefnanda vegna hinnar ólögmætu ákvörðunar beri m.a. að hafa í huga aldur hennar, kyn, menntun og starfsreynslu. Atvinnumöguleikar 55 ára konu séu fáir, eins og atvinnuleit stefnanda undanfarna mánuði staðfesti. Stefnandi hafi sótt um fjölda starfa en án árangurs.

 

Þá beri að hafa í huga að stefnandi hafi notið réttinda samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996, almennum reglum stjórnsýsluréttar, stjórnsýslulögum nr. 37/1993 og lögum nr. 1/1997, um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Hún hafi þar af leiðandi mátt vænta þess að geta haldið starfi sínu til venjulegra starfsloka opinbers starfsmanns, svo lengi sem starfseminni yrði haldið áfram á vegum stefnda og hún gerðist ekki brotleg í starfi.

 

Í ljósi alls framangreinds sé krafa stefnanda um skaðabætur vegna fjártjóns, er svari til 4.080.000 króna  árslauna, því síst of há. Miðað sé við að stefnandi hafi í starfi sínu hjá stefnda verið með að meðaltali 340.000 krónur í laun á mánuði, eins og fyrirliggjandi staðgreiðsluyfirlit ríkisskattstjóra sýni fram á. Krafa um skaðabætur sem nemi árslaunum sé sett fram á hefðbundinn hátt miðað við sambærileg mál, en samkvæmt dómafordæmum Hæstaréttar beri að ákvarða fjártjónsbætur að álitum, með tilliti til allra atvika, en með það að leiðarljósi að tjónþoli fái tjón sitt bætt. Horfa verði til þess að stefnandi hafi verið atvinnulaus frá því að henni hafi verið sagt upp störfum í febrúar 2012. Tekjumissir stefnanda frá því að laun í uppsagnarfresti hafi hætt að berast henni sé alls 1.531.847 krónur, miðað við aprílmánuð 2013, þegar frá hafi verið dregnar atvinnuleysisbætur sem hún hafi fengið greiddar á sama tímabili, samtals 1.188.153 krónur.

 

Krafa um vexti byggist á 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 og miðist upphafstími vaxtanna við að hið bótaskylda atvik hafi átt sér stað við uppsögn stefnanda hinn 8. febrúar 2012. Þá byggist krafan um dráttarvexti á 9. gr. laga nr. 38/2001, sem kveði á um að skaðabótakröfur skuli bera dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. laganna að liðnum mánuði frá þeim degi er kröfuhafi sannanlega hafi lagt fram þær upplýsingar sem þörf hafi verið á til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta. Kröfubréf hafi fyrst verið sent stefnda hinn 27. ágúst 2012 og frá þeim degi hafi stefndi getað metið tjónsatvik.

 

Krafa stefnanda um miskabætur styðst við 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Stefnandi hafi án réttmætrar ástæðu verið sökuð um að leggja samstarfsmann sinn í einelti. Um alvarlega ásökun sé að ræða sem geti hæglega útilokað atvinnumöguleika hennar í framtíðinni. Með vísan til framangreinds telji stefnandi að uppfyllt séu skilyrði tilvitnaðs lagaákvæðis og að krafa hennar um 700.000 króna miskabætur sé hófleg.

 

V.

Stefndi byggir kröfur sínar á því að aðdragandi uppsagnar stefnanda og uppsögnin sjálf hafi verið í fullu samræmi við gildandi lög, stjórnvaldsfyrirmæli og óskráðar reglur á sviði vinnuréttar og stjórnsýslu. Fyrir uppsögninni hafi verið gildar, málefnalegar ástæður og fullt tilefni, einkum í ljósi þeirrar fortakslausu skyldu sem á vinnuveitendum hvíli, að láta einelti á vinnustað ekki viðgangast. Byggt sé á því að rannsóknarskyldu hafi verið fullnægt, meðalhóf virt og andmælaréttur veittur. Þá sé því hafnað að jafnræði hafi ekki verið virt, en sú málsástæða stefnanda sé með öllu tilhæfulaus, órökstudd og ósönnuð. Ljóst sé að uppsögn stefnanda hafi verið lögmæt og þar af leiðandi ekki um bótaskyldu að ræða. Hvorki séu uppfullt skilyrði skaða- né miskabóta.

 

Í því skyni að afla hlutlægra upplýsingar um málsatvik, leggja mat á samskipti starfsmanna á vinnustaðnum og ganga úr skugga um hvort einelti ætti sér þar stað, hafi stefndi leitað til Lífs og sálar sálfræðistofu ehf., sem sé viðurkenndur þjónustuaðili skv. 66. gr. a. í lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Hafi úttektaraðilinn átt formleg viðtöl við starfsmenn stefnda, þar á meðal stefnanda, hinn 23. júní 2010, þar sem hverjum og einum hafi verið gerð grein fyrir því að viðtalið væri hluti af athugun á samskiptum á vinnustaðnum vegna vanlíðunar eins starfsmanna og að tilgangurinn væri sá að meta hvort um einelti væri að ræða. Hlutverk fagaðilans hafi verið að afla hlutlægra upplýsinga um málavöxtu, draga ályktanir af fram komnum upplýsingum og gera tillögur um hvernig stefndi gæti brugðist við. Stefnanda hafi einnig verið kynnt að frá rannsókninni og niðurstöðum hennar yrði greint í skýrslu sem stefndi fengi í hendur. Stefnandi hafi undirritað yfirlýsingu þess efnis að hún hefði fengið ofangreindar upplýsingar um tilgang viðtalsins, hlutverk úttektaraðilans og meðferð frásagnar hennar.

 

Niðurstaða hinnar faglegu úttektar hafi afdráttarlaust verið sú að einelti ætti sér stað á vinnustað stefnda og að stefnandi væri einn gerenda. Hafi úttektaraðilinn skilað skýrslu um niðurstöður sínar, en sökum viðkvæms eðlis málsins hafi þar hvorki verið greint frá nöfnum starfsmanna né endursögð frásögn þeirra. Stefndi hafi hins vegar fengið í hendur nánari persónugreinanlegar upplýsingar til þess að honum væri unnt að bregðast við ástandinu á viðeigandi hátt. Sé á því byggt að öll viðbrögð stefnda, eftir að eineltið hefði verið staðfest, hafi verið í fullu samræmi við tillögur hins faglega úttektaraðila, sem og kröfur stjórnvaldsfyrirmæla, verkferla fyrirtækisins og leiðbeiningar SFR. Um hafi verið að ræða samfellt gegnsætt og markvisst ferli.

 

Fyrsta skref stefnda til þess að útrýma eineltinu hafi verið að gefa skýr skilaboð um að eineltið bæri að stöðva og að ábyrgð yrði lögð á hendur gerenda. Tveir starfsmenn stefnda hafi fundað með meintum gerendum, þ.m.t. stefnanda, þar sem þeim hafi verið gerð grein fyrir niðurstöðu úttektar fagaðilans. Á fundinum með stefnanda hafi hún verið upplýst um það hver hennar þáttur í eineltinu teldist vera, þ.e. baktal, kuldaleg framkoma, klögumál og hunsun. Á fundinum hafi stefnanda gefist tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum sínum og andmælum við niðurstöðu hins óháða aðila. Hafi stefnanda verið tilkynnt að einelti væri litið alvarlegum augum og yrði ekki liðið á vinnustaðnum, eins og skýrt sé mælt fyrir um í starfsmannahandbók stefnda, mannauðsstefnu og siðareglum. Hafi stefnanda  jafnframt verið gerð grein fyrir því að fylgst yrði með samskiptum hennar við þolanda eineltisins og boðað að ef hún bætti ekki úr yrði nauðsynlegt að grípa til formlegrar áminningar. Með hliðsjón af þessu sé því alfarið mótmælt sem röngu, sem fram komi á bls. 2 í stefnu, að stefnanda hafi aldrei verið tilkynnt um eineltið, í hverju það fælist eða hvernig hægt væri að bregðast við því.


Úttektaraðilinn hafi í kjölfar athugunar sinnar haldið fræðslufund um einelti fyrir allt starfsfólk vinnustaðarins og veitt verslunarstjóra sérstaka fræðslu um efnið, auk þess að halda mánaðarlega fundi með verslunarstjóranum frá hausti 2010 fram á vetur. Hafi mannauðsstjóri aflað reglulega upplýsinga frá verslunarstjóranum og fylgst með líðan þolanda eineltisins. Einnig hafi verið gerðar skipulagsbreytingar á vinnustaðnum í því skyni að draga úr hættu á að þær aðstæður væru í vinnuumhverfinu sem leitt gætu til eineltis eða annarrar ótilhlýðilegrar háttsemi. Þá hafi mannauðsstjóri stefnda átt viðtöl við starfsmenn vínbúðarinnar á Akureyri í júní 2011, þar sem farið hafi verið yfir samskipti á vinnustaðnum til að kanna hvort eineltið væri enn til staðar. Niðurstaða viðtalanna og ábendingar sem tekið hafi að berast fljótlega í kjölfar þeirra, auk hríðversnandi afkasta í vínbúðinni á árinu 2011, hafi bent til þess að svo væri. Hafi því verið talin ástæða til að kanna ástandið nánar.


Í desember 2011 hafi stefndi því átt viðtöl við starfsmenn á vinnustaðnum, stefnanda þar á meðal. Hafi í viðtölunum komið fram að stefnandi baktalaði þolanda eineltisins, dylgjaði um persónulegar aðstæður hans, andlega heilsu, heimilislíf og fjölskyldu. Hafi efni starfsmannaviðtalanna verið borið undir hinn óháða fagaðila sem hafi metið ástandið algjörlega óviðunandi. Eineltið væri enn viðvarandi og stefnandi gerandi. Við svo búið hafi stefndi ekki átt annan kost en að grípa til áminningar gagnvart stefnanda, enda hafi vægari úrræði að hans mati verið fullreynd.


Í áminningarbréfinu, dags. 11. janúar 2012, sé ítarlega gerð grein fyrir tilefni áminningarinnar, sem stefnandi hafi verið vel upplýstur um, enda aðdragandinn langur. Frá því skýrsla hins óháða úttektaraðila hafi legið fyrir hafi stefnanda verið kunnugt um að sú ámælisverða háttsemi hennar, sem þar hafi verið staðfest, yrði ekki liðin. Hafi henni verið kunnugt um hvaða háttsemi þar væri um að ræða, að fylgst yrði með þróun mála og að brugðist yrði við með áminningu ef ástæða þætti til. Hin ámælisverða háttsemi hafi verið viðvarandi ástand og samskiptamáti sem farið hafði verið yfir með stefnanda lið fyrir lið. Hafi stefnanda verið veittur tveggja vikna frestur til að bæta ráð sitt, ella kynni henni að verða sagt upp störfum. Tveir starfsmenn stefnda hafi afhent stefnanda áminningarbréfið og farið yfir efni þess með henni. Á fundinum hafi stefnandi viðurkennt að hafa hunsað þolanda eineltisins. Hún hafi hins vegar neitað að bera nokkra ábyrgð á einelti í hans garð, þrátt fyrir að úttektir óháðs fagaðila hefðu ítrekað leitt annað í ljós.

 

Hafi viðbrögð hennar á þessum fundi og viðmót í kjölfar áminningarinnar, allt í ljósi forsögunnar og viðvarandi eineltis um langt skeið, svo leitt til uppsagnar hennar, sem hafi verið rökstudd ítarlega í bréfi, dags. 8. febrúar 2012. Hafi uppsögnin verið með samningsbundnum þriggja mánaða uppsagnarfresti og hafi stefnandi notið launa út frestinn.


Varakrafa stefnda um lækkun krafna byggist, eftir því sem við eigi, á sömu sjónarmiðum, málsatvikum, málsástæðum og lagarökum og sýknukrafan. Því til viðbótar sé á það bent að hvorki hafi verið tekið tillit til þess í stefnu að stefnandi hafi notið launa í uppsagnarfresti né  að stefnandi hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur að þeim fresti liðnum, en meginregla skaðabótaréttar sé sú að draga beri aðrar tekjur frá meintu tjóni. Af fyrirliggjandi dómvenju verði ráðið að bótakröfurnar séu úr öllu hófi. Þá sé vaxtakröfu mótmælt, bæði að því er varði vaxtafót og upphafstíma.

 

VI.

Niðurstaða

Eins og fyrr segir var stefnanda sagt upp störfum hjá stefnda 8. febrúar 2012, að undangenginni áminningu hinn 10. janúar sama ár, vegna staðhæfinga um að hún hefði átt þátt í einelti gagnvart tilteknum samstarfsmanni sínum í vínbúð stefnda. Sýnist ekki um það deilt að uppsögnin hafi grundvallast á 44. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, en þar kemur fram að skylt sé að veita starfsmanni áminningu skv. 21. gr. og gefa honum færi á að bæta ráð sitt áður en honum er sagt upp störfum, eigi uppsögnin rætur að rekja til ástæðna sem þar eru greindar.

 

Samkvæmt framburði Emmu Árnadóttur, mannauðsstjóra stefnda, og Jónínu Sanders, aðstoðarframkvæmdarstjóra á sölu- og þjónustusviði stefnda, héldu þær fund með stefnanda á Akureyri 13. júlí 2010 þar sem henni var gerð grein fyrir niðurstöðum framangreindrar skýrslu sálfræðinganna Einars Gylfa Jónssonar og Þórkötlu Aðalsteinsdóttir. Stefnandi fékk þó ekki afrit af skýrslunni eða samantekt vegna hennar. Staðfest er með framburði framangreindra stjórnenda stefnda, gegn neitun stefnanda, að stefnanda hafi á þessum fundi verið gerð grein fyrir þeirri niðurstöðu sálfræðinganna að hún væri í hópi þeirra starfsmanna sem legðu samstarfsmann sinn í einelti, í hverju eineltið fælist og að ef ekki yrði brugðist við gæti það leitt til uppsagnar í starfi. Þá kom fram hjá mannauðsstjóranum að hún hefði hitt stefnanda og fleiri starfsmenn í desember 2011, en ekki er komin fram sönnun um að hún hafi þar rætt við stefnanda um þessi mál.

 

Áminning skv. 21. gr. laga nr. 70/1996 er stjórnvaldsákvörðun og fer um hana eftir almennum sjónarmiðum stjórnsýsluréttar, auk þeirra málsmeðferðarreglna er fram koma í lögum 70/1996, sbr. 2. mgr. 2. gr. stjórnsýslulaga. Eins og fram er komið er áminning skv. 21. gr. laga nr. 70/1996 nauðsynlegur undanfari þegar gripið er til brottvikningar starfsmanns á grundvelli 44. gr. laganna. Hún er því alvarleg ráðstöfun sem vanda þarf til, bæði að efni og formi. Af 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 leiðir að stefnda var óheimilt að taka slíka ákvörðun gagnvart stefnanda áður en hann hefði gefið henni færi á að tjá sig um þær upplýsingar sem ávirðingar hans í garð stefnanda byggðust á. Enda þótt fram sé komið að stefnandi hafi verið upplýst um það á fundi með stjórnendum stefnda á fyrrgreindum fundi í júlí 2010 að hún teldist þátttakandi í einelti gagnvart viðkomandi samstarfsmanni liggur ekkert fyrir um að stefnandi hafi verið boðuð sérstaklega til þess fundar með fyrirvara eða kynnt tilefni hans. Liggur heldur ekkert fyrir um að henni hafi verið afhent framangreind skýrsla sálfræðinganna, eða skrifleg samantekt á þeim þætti skýrslunnar er sneri að stefnanda, áður en til áminningar hennar kom. Loks verður heldur ekki talið að stefndi hafi sýnt fram á að stefnanda hafi verið tilkynnt með skýrum hætti og með góðum fyrirvara að til athugunar væri að veita henni áminningu skv. 21. gr. laga nr. 70/1996 vegna nánar tilgreindrar háttsemi hennar.

 

Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið verður að telja að stefnanda hafi ekki verið gefið fullnægjandi og raunhæft tækifæri til að tjá sig um framangreindar ávirðingar í hennar garð áður en ákvörðun um að áminna hana var tekin í janúar 2012. Var með því brotið gegn lögbundnum andmælarétti hennar samkvæmt lögum nr. 70/1996 og 13. gr. stjórnsýslulaga. Leiðir þegar af þessu að uppsögn stefnanda úr starfi sínu hjá stefnda hinn 8. febrúar 2012 var ólögmæt, er veitir henni rétt til skaðabóta vegna fjártjóns hennar.

 

Við ákvörðun skaðabóta vegna fjártjóns stefnanda verður horft til þess að stefnandi var 53 ára að aldri þegar henni var sagt upp starfi sínu hjá stefnda. Að öllu óbreyttu mátti hún gera ráð fyrir að fá að gegna starfi þessu áfram þrátt fyrir að hafa verið ráðin með gagnkvæmum uppsagnarfresti. Fyrir liggur að stefnandi fékk greidd laun í þriggja mánaða uppsagnarfresti, á tímabilinu mars til maí 2012, samtals 883.672 krónur. Þá fékk hún atvinnuleysisbætur á tímabilinu ágúst 2012 til febrúar 2013, samtals 1.188153 krónur. Að þessu virtu þykja bætur til stefnanda hæfilega ákveðnar að álitum 1.500.000 krónur.

 

Svo sem að framan hefur verið rakið var ákvörðun stefnda um að segja stefnanda upp starfi ólögmæt. Með hliðsjón af því að uppsögnin var reist á ætluðum ávirðingum, sem stefnanda hafði ekki verið gefið svigrúm til að tjá sig um og verjast áður en ákvörðunin var tekin, verður stefnandi talin hafa orðið fyrir ólögmætri meingerð á æru sinni og persónu. Verða henni því dæmdar miskabætur samkvæmt b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sem þykja hæfilega ákveðnar 500.000 krónur.

 

Kröfu um greiðslu skaðabóta var fyrst beint til stefnda með bréfi lögmanns stefnanda, dags. 27. ágúst 2012. Að gættu því hvernig krafa stefnanda um vexti og dráttarvexti er sett fram verður á hana fallist.

 

Stefndi greiði stefnanda 900.000 krónur í málskostnað.

 

Dóm þennan kveður upp Ásgeir Magnússon héraðsdómari.

                                               

Dómsorð:

Stefndi, Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, ÁTVR, greiði stefnanda, Soffíu Friðriksdóttur, 2.000.000 króna með vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. febrúar til 16. desember 2012 og dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

 

Stefndi greiði stefnanda 900.000 krónur í málskostnað.

                                        

                                                     Ásgeir Magnússon