• Lykilorð:
  • Gjaldþrotaskipti

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 30. janúar 2015 í máli nr. E-746/2014:

Valís ehf.

(Þorsteinn Ingi Valdimarsson hdl.)

gegn

Tollstjóra

(Jóhanna Lára Guðbrandsdóttir hdl.)

 

 

Mál þetta, sem dómtekið var 6. janúar 2015, var höfðað með stefnu útgefinni 17. febrúar 2014 af Þrotabúi Valíss ehf., Smáratorgi 3, 201 Kópavogi, á hendur Tollstjóra, Tryggvagötu 19, 101 Reykjavík.

 

I.

        Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 448.561 krónu auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 17. júní 2013 til greiðsludags.

        Stefnandi krefst þess einnig að stefnda verði gert að greiða sér málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

 

        Af hálfu stefnda eru gerðar þær dómkröfur að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins.      

        Til vara krefst stefndi þess að fjárkröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og að málskostnaður verði felldur niður.

 

II.

Málsatvik

        Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness þann 17. janúar 2013 var bú Valíss ehf. tekið til gjaldþrotaskipta og var Einar Hugi Bjarnason hrl. skipaður skiptastjóri í þrotabúinu. Stefndi var skiptabeiðandi og lagði hann fram tryggingu fyrir skiptakostnaði að fjárhæð 350.000 kr.,

sbr. 2. mgr. 67. gr. laga nr. 21/1991. Stefndi lýsti kröfu í búið vegna opinbera gjalda, samtals að fjárhæð 38.842.808 krónur, og var hann jafnframt eini kröfuhafinn í búinu. Vangreiddar kröfur félagsins voru m.a. vegna ógreiddra aðflutningsgjalda vegna innflutnings félagsins á áfengi. Fyrirsvarsmaður félagsins var Hendrik Björn Hermannsson.

        Skiptastjóri kannaði hver hefðu orðið afdrif hins innflutta áfengis en enginn árangur var af þeirri könnun. Fyrirsvarsmaður félagsins mætti ekki til skýrslutöku og reyndi skiptastjóri að fá skýrslutöku fyrir dómi, en af henni varð ekki þar sem fyrirsvarsmaðurinn mætti ekki.

        Þann 2. apríl 2013 var haldinn skiptafundur í búinu þar sem kröfulýsingaskrá var lögð fram. Í fundargerðinni kom fram að engar eignir fyndust í búinu, en skiptastjóri teldi ekki úilokað að eignir væru til skipta. Ef eignir fyndust myndi skiptastjóri taka afstöðu til krafna og boða sérstaklega til skiptafundar. Ef búið væri eignalaust yrði skiptum lokið skv. 155. gr. laga nr. 21/1991 án þess að boðað yrði til skiptafundar.

         Við athugun skiptastjóra kom í ljós að Valís ehf. hafði flutt hingað til lands gám með sterku áfengi frá breska fyrirtækinu G&J Grenall. Skiptastjóri hafði rökstuddan grun um að áfengið hefði verið selt en söluandvirðið hafi aldrei borist félaginu. Í ljósi þess reyndi skiptastjóri að afla upplýsinga um það hvað orðið hefði af sendingunni. Í ljós kom að félagið Vínheimar ehf. hafi í fyrstu verið skráð greiðandi áfengisins hjá seljandanum G&J Grenall, en í tölvupósti, dags. 13. apríl 2012, hafi fyrirverandi stjórnarmaður Valíss ehf., Halldór Leví, sem jafnframt var stjórnarmaður Vínheima ehf., óskað eftir því við seljandann að Valís ehf. yrði skráður greiðandi.

        Skiptastjóri boðaði fyrirsvarsmann þrotabúsins tvívegis til skýrslutöku á skrifstofu sinni en án árangurs, fyrst þann 21. janúar 2013 og svo aftur þann 4. apríl. Með vitnakvaðningu héraðsdóms Reykjaness þann 17. apríl 2013 var fyrirsvarsmaður félagsins boðaður til skýrslugjafar þann 3. maí 2013, en ekki var mætt af hálfu fyrirsvarsmanns félagsins.

        Þann 17. maí 2013 sendi skiptastjóri stefnda reikning að fjárhæð 448.561 kr. vegna kostnaðar umfram eignir og tryggingafé vegna vinnu við skiptastjórn sem var síðan ítrekaður með bréfi skiptastjóra, dags. 3. júní 2013, til stefnda.

        Vegna gruns um refsivert athæfi forsvarsmanna félagsins sendi skiptastjóri þann 5. júní 2013 kæru til embættis sérstaks saksóknara.

        Stefndi svaraði bréfi skiptastjóra frá 3. júní með tölvubréfi, dags. 12. júní 2013, og óskaði eftir því að sér yrði send tímaskýrsla vegna starfa skiptastjóra. Þá gerði hann athugasemdir við að ekki hefi verið haft samband við stefnda þegar ljóst var að skiptatrygging nægði ekki fyrir kostnaði við að ljúka skiptum. Skiptastjóri svaraði með tölvupósti 4. júlí 2013 og baðst velvirðingar á því að hafa ekki gert stefnda viðvart um að skiptatrygging dygði ekki til að standa straum af kostnaði.

        Þann 8. júlí 2013 svaraði stefndi skiptastjóra með tölvupósti og gerði frekari athugasemdir við að ekki hefði verið gætt hagsmuna stefnda þegar ákvarðanir hefðu verið teknar um aðgerðir. Þá krafðist stefndi og skýringa á reikningi skiptastjóra. Skiptastjóri svaraði með tölvupósti þann 12. júlí 2013 og rakti helstu aðgerðir sínar. Skiptastjóri sendi stefnda tölvupóst þann 15. nóvember 2013 og vakti athygli á því að reikningur sinn væri enn ógreiddur. Krafa um tímaskýrslu skiptastjóra var ítrekuð af hálfu stefnda með tölvupósti þann 18. nóvember 2013krafa .

          Skiptastjóri sendi stefnda síðan tímaskýrslu , dags. 19. nóvember 2013, með tölvupósti og lagði þar fram sáttaboð um að helmingur reiknings síns yrði greiddur en hann yrði að öðru leyti afskrifaður. Með tölvupósti þann 22. nóvember 2013 ítrekaði stefndi mótmæli sín og gerði athugasemdir við einstaka liði í tímaskýrslu skiptastjóra og lagði til að skiptastjóri afturkallaði reikning sinn.

 

III.

Málsástæður og lagarök stefnanda

         Stefnandi byggir á því að stefndi hafi ekki innt af hendi þann kostnað sem skiptastjóri hafi lagt í umfram skiptatryggingu og að öll verk sem unnin hafi verið við skiptin hafi verið nauðsynleg til að ljúka mætti skiptum búsins samkvæmt 1. mgr. 155. gr. laga nr. 21/1991, sbr. skýrslu yfir vinnustundir skiptastjóra og reikning, dags. 17. maí 2013.

        Stefnandi vísaði til þess að samkvæmt 2. mgr. 66. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991 ábyrgist sá sem krefst gjaldþrotaskipta greiðslu kostnaðar af meðferð kröfu hans og af gjaldþrotaskiptunum sé krafa hans tekin til greina og kostnaðurinn greiðist ekki af fé búsins. Gildi það einnig þó svo að skiptabeiðandi hafi ekki verið krafinn um tryggingu skv. 2. mgr. 67. gr. laganna. Stefnandi byggir á því að skiptastjóra hafi ekki verið unnt að ljúka starfsskyldum sínum í samræmi við ákvæði 1. málsliðar 1. mgr. 155. gr. laganna nema með því að gera þær ráðstafanir sem gerðar voru. Ekki hafi verið hjá því komist að boða fyrirsvarsmann þrotabúsins ítrekað til skýrslutöku og kanna nánar ætluð undanskot.

        Þá hafi einnig hvílt lagaskylda á skiptastjóra um að tilkynna sérstökum saksóknara grun um refsiverða háttsemi, sbr. 84. gr. gjaldþrotalaga, en þar segi að fái skiptastjóri vitneskju í starfi sínu um atvik sem hann telji geta gefið tilefni til rökstudds gruns um að þrotamaðurinn eða aðrir kunni að hafa gerst sekir um refsivert athæfi skuli hann tilkynna það embætti sérstaks saksóknara.

        Stefnandi byggir einnig á því að þó svo að skiptabeiðanda hafi verið gert af hálfu dómara að leggja fram 350.000 krónur til tryggingar á skiptakostnaði þá beri skiptabeiðandi ábyrgð á þeim kostnaði sem fer umfram það ef ekki eru eignir í búinu til greiðslu skiptakostnaðar. Fjárhæð þeirrar tryggingar sem stefndi hafi verið krafinn um hafi verið áætluð af dómstólunum og ákveðin með það fyrir augum að hún dygði fyrir vinnu skiptastjóra við einföld eða eignalaus þrotabú. Þannig sé sú fjárhæð, sem skiptabeiðanda sé gert að leggja fram sem tryggingu fyrir skiptakostnaði með beiðni sinni, ekki endanleg fjárhæð fyrir skiptakostnaði, sbr. 2. mgr. 67. gr. laga nr. 21/1991.

        Eins og fram komi í gögnum málsins hafi skiptatrygging sú er stefndi lagði fram, að fjárhæð 350.000 krónur til greiðslu á kostnaði skiptastjóra ekki dugað til að greiða fyrir lögbundna og nauðsynlega vinnu skiptastjóra, enda hafi engar eignir fundist í þrotabúinu. Hins vegar hafi það verið mat skiptastjóra að nauðsynlegt væri, í ljósi þeirra miklu hagsmuna sem í húfi voru, að leggja vinnu í gagnaöflun í því skyni að upplýsa hvar eignir búsins væri að finna, sem og að kveða fyrirsvarsmann fyrir dóm til skýrslutöku. Á grundvelli þeirrar vinnu hafi embætti sérstaks saksóknara svo verið sent ítarleg kæra vegna gruns um refsivert athæfi þann 5. júní 2013.

       Af framlögðum gögnum sjáist að mikil vinna hafi verið lögð í málið af hálfu skiptastjóra í því skyni að finna eignir búsins. Með vísan til þeirra hagsmuna sem um hafi verið að tefla og framlagðra gagna í málinu telur stefnandi að hagsmuna skiptabeiðanda hafi verið gætt í hvívetna. Reynt hafi verið með öllum löglegum leiðum að komast að því hvað varð um það áfengi sem flutt var inn á vegum hins gjaldþrota félags. Öll vinna skiptastjóra hafi lotið að því að reyna að grafast fyrir um hvar eignir félagsins væri að finna. Hefði sú leit skilað árangri hefðu verðmætin runnið óskipt til stefnda sem sé eini kröfuhafinn í þrotabúið.

        Eins og áður hafi verið rakið komi fram í 2. mgr. 66. gr. laga nr. 21/1991 að skiptabeiðandi beri ábyrgð á kostnaði af meðferð kröfu hans og af gjaldþrotaskiptunum ef krafa hans er tekin til greina og kostnaðurinn greiðist ekki af fé búsins. Þessu til fyllingar segi í lokamálslið 1. mgr. að þetta gildi einnig þrátt fyrir að skiptabeiðandi hafi ekki verið krafinn um tryggingu. Af þessu sé ljóst að skiptabeiðandi geti búist við auknum kostnaði við búskiptin þrátt fyrir framlagða tryggingu fyrir skiptakostnaði. Með hliðsjón af því og 1. mgr. 119. gr. laganna ráði það ekki úrslitum um ábyrgð skiptabeiðanda á kostnaði við búskiptin hvort skiptastjóri hafi leitað samþykkis hans eða kröfuhafa fyrir auknum kostnaði vegna skyldustarfa skiptastjóra.

        Varðandi umkrafða fjárhæð, sbr. dómkröfu, vísar stefndi til reiknings sem sendur hafi verið stefnda þann 17. maí 2013 og bréfs vegna skiptakostnaðar, dags. 3. júní s.á. Þann 7. febrúar 2013 hafi búið verið skuldfært fyrir 208.624 kr. Af tímaskýrslu skiptastjóra megi sjá að töluverð vinna hafi verið unnin í þágu þrotabúsins, bæði fyrir og eftir útgáfu reikningsins. Stefnandi bendir sérstaklega á vinnustundir sem unnar hafi verið í þágu þrotabúsins eftir að reikningurinn var gefinn út og sendur stefnda. Þrátt fyrir fjölda vinnustunda í þágu þrotabúsins eftir útgáfu reikningsins hafi stefnandi ekki sent stefnda reikning fyrir þeim vinnustundum sem unnar voru eftir 17. maí 2013.

        Stefnandi leggur fram með stefnunni tímaskýrslu yfir unnin verk og vinnustundir skiptastjóra í þágu þrotabúsins og áskilur stefnandi sér allan rétt til að gera nánari grein fyrir tímafjölda og þeim vinnustundum sem hann hafi lagt í við skipti á búinu við aðalmeðferð málsins ef til hennar kemur, eftir atvikum með framlagningu frekari gagna, gefi varnir stefnda tilefni til. Aðilar máls hafi átt í umtalsverðum samskiptum um það hvort þörf hafi verið á að leggja svo mikla vinnu í málið og um fjárhæð kröfunnar en viðræður um uppgjör kröfunnar hafi ekki skilað árangri. Stefnandi sé því knúinn til að höfða mál þetta til heimtu skuldar stefnda þar sem stefndi hafi ekki orðið við áskorunum stefnanda.

        Varðandi lagarök vísar stefnandi auk framangreindra laga til XXI. kafla laga nr. 91/1991, einkum 129. og 130. gr. varðandi málskostnaðarkröfu sína. Kröfu um dráttarvexti styður stefnandi við III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. einkum 3. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 6. gr. laganna.

 

Málsástæður og lagarök stefnda

        Stefndi mótmælir því að honum beri skylda til að greiða stefnanda fjárkröfu sem hann hefur sett fram vegna skiptakostnaðar. Stefndi telur að skiptastjóri hafi með ónauðsynlegum og óskynsamlegum ráðstöfunum valdið því að skiptakostnaður í eignalausu þrotabúi hafi orðið alltof hár miðað við aðstæður og óforsvaranlegur. Því sé ekki hægt að fella ábyrgð vegna kostnaðar sem hafi fallið til á stefnda. Málsástæður stefnda snúa enn fremur að því að gjaldfærðir hafi verið tímar við gjaldþrotaskiptin sem séu ekki í neinu samhengi við þær aðgerðir sem sinnt hafi verið hverju sinni.

        Þó að fram kæmi á skiptafundi 2. apríl 2013 að þrotabúið væri líklega eignalaust hafi skiptastjóri ráðist í aðgerðir á kostnað búsins til að rannsaka afdrif hins innflutta áfengis sem var gjaldstofn hinna álögðu aðflutningsgjalda. Vegna þessara aðgerða hafi stofnast til umtalsverðs kostnaðar sem stefndi sé nú krafinn um greiðslu á.

        Stefndi telur að skiptastjóra hafi borið að hafa samband við sig 2. apríl 2013 þegar fyrirsjáanlegt hafi verið að skiptatrygging myndi ekki nægja til þess að greiða skiptakostnað, sbr. 1. mgr. 155. gr. i.f. laga nr. 21/1991. Stefndi hafi enn fremur haft umtalsverða hagsmuni af þeim ráðstöfunum skiptastjóra í skilningi 3. mgr. 124. gr. laga nr. 21/1991, að skiptakostnaður í eignalausu þrotabúi yrði sem minnstur. Skiptastjóra hafi því borið að ljúka skiptum án aukins tilkostnaðar þegar ljóst var að um eignalaust þrotabú var að ræða. Skiptastjóra hafi því borið að bera aðgerðir sínar undir stefnda og fá fyrir fram samþykki hans fyrir ábyrgð á kostnaði vegna frekari aðgerða, sbr. fyrrnefnt ákvæði 1. mgr. 155. gr. laga nr. 21/1991.

        Þá hafi aðgerðir skiptastjóra frá upphafi verið ólíklegar til þess að leiða til eignaaukningar fyrir þrotabúið. Einföld netleit gefi strax til kynna að fyrirsvarsmaður félagsins hafi áður gerst sekur um stórfellt efnahagsbrot og hafi mikil tengsl við „veitingabransann“ og því eðlilegt að álykta að áfenginu hafi verið komið undan án þess að hægt sé að finna það. Stefndi telur augljóst að frá upphafi hafi verið óvíst að eftirgrennslan skiptastjóra myndi leiða til eignaaukningar þrotabúsins og taki skiptastjóri undir þau sjónarmið í tölvupósti, dags. 20. nóvember 2013. Í tölvupóstinum komi jafnframt fram að skiptastjóri hafi gefið sér að stefndi vildi að málinu yrði fylgt eftir jafnvel þó að þær ykju ekki eignir búsins. Stefndi telur að með því hafi skiptastjóri farið út fyrir umboð sitt sem skiptastjóri og geti því ekki krafið stefnda um greiðslu kostnaðar vegna slíkra aðgerða.

        Stefndi telur einsýnt að þar sem ráðstafanir skiptastjóra hafi ekki verið venjulegar eða nauðsynlegar til þess að ljúka skiptum, hafi skiptastjóra ekki verið heimilt, án þess að leita áður samþykkis gerðarbeiðanda, að leggja í viðamiklar aðgerðir þar sem ljóst hafi verið að skiptatrygging dygði ekki til að standa undir kostnaði við þær og búið væri eignalaust. Í þessu sambandi bendir stefndi á að skiptastjóra hafi ekki verið skylt að rannsaka á kostnað skiptabeiðanda ætlað brot fyrirsvarsmanns á lögum, sbr. 84. gr. l. nr. 21/1991. Hér sé því ekki sama aðstaða og í þeim tilvikum sem skiptastjóra beri að sinna ákveðnum verkefnum, svo sem að fara yfir launakröfur vegna ábyrgðarsjóðs launa eða ljúka meðferð mála fyrir dómi.

        Stefndi vísar til þess að hann hafi gert athugasemdir við tímaskýrslu skiptastjóra. Með bréfi skiptastjóra, dags. 3. júní 2013, hafi fylgt reikningur, dags. 17.5.2013, að fjárhæð 448.561 króna. Stefndi hafi strax gert athugasemdir við reikninginn og jafnframt beðið um að tímaskýrsla yrði send sér. Stefndi hafi síðan átt í nokkrum tölvupóstssamskiptum við skiptastjóra en tímaskýrsla hafi ekki verið send fyrr en sem viðhengi við tölvupóst, dags. 20. nóvember 2013. Í kjölfar þess að tímaskýrsla barst hafi stefndi gert athugasemdir við hana með tölvupósti, dags. 22. nóvember 2013.

       Athugasemdir stefnda við tímaskýrslu skiptastjóra voru svohljóðandi:

  1. Gjaldfærð er grunnfletting í Lánstrausti þann 8. janúar 2013 áður en félagið var úrskurðað gjaldþrota þann 17. janúar 2013.

  2. Færðir eru 4 tímar við upphafsaðgerðir skiptastjóra. Upphafsaðgerðir sem hægt er að vinna á innan við klukkustund af færum og skilvirkum lögmanni enda um mjög staðlaðar aðgerðir að ræða. Þ.e.a.s. stofnun máls í málakerfi lögmanns, tilkynningar til fjármálastofnana og opinberra aðila. Þá eru sérstaklega færði 2 á tímar á innköllun og bréf til fyrirsvarsmanns þannig að alls eru 6 tímar færðir á staðlaðar aðgerðir skiptastjóra við upphaf skipta sem erfitt er að sjá að eigi allir rétt á sér.

  3. Færðir eru 10,7 klst. á liðinn undirbúningur skýrslutöku. Það er með ólíkindum að hver fyrirhuguð skýrslutaka krefjist þess að vera undirbúin sérstaklega og að ekki hafi nægt skiptastjóra að undirbúa sig einu sinni. Stefndi fellst á að skýrslutaka og umsýslan í kringum hana krefjist undirbúnings, en telur óásættanlegt að færa 10,7 klst. á liðinn. Þá er vakin athygli á því að umræddar 10,7 klst. fela ekki í sér þann tíma var varið í boðun og samskipti við héraðsdóm og lögreglu vegna leitar að fyrirsvarsmanni félasins, sá tími er reikningsfærður sérstaklega.

  4. Reikningsfærðir eru í tvígang tími vegna skýrslutöku sem ekki fór fram en ekki kemur fram hvernig þeim tíma var að öðru leyti ráðstafað í þágu þrotabúsins. Þó að skiptastjóri hafi tekið frá tíma fyrir skýrslutökuna er óásættanlegt að gjaldfæra heila klukkustund á hvort skiptið þegar ljóst er að hún fer ekki fram og ekki kemur fram með hvaða öðrum hætti tíma skiptastjóra var varið í þágu gjaldþrotaskipta búsins.

  5. Í málinu var einni kröfu lýst, en færðir eru þrír tímar við að undirbúa kröfuskrá og færa hana. Stefndi telur óréttmætt að gjaldfæra þrjár klukkustundir við að færa eina kröfu í kröfuskrá. Aðrir liðir í tímaskýrslu gjaldfæra samskipti við stefnda og Eimskip við rannsókn á grunni kröfunnar og því er óskiljanlegt að færðir séu þrír tímar vegna kröfuskrár.

  6. Í málinu var ritað bréf til stefnda, dags. 3. júní, sem fylgdi með reikningi. Færðir eru 2.5 tímar við ritun þess bréfs. Stefndi telur efni þess það rýrt að heldur sé vel í lagt að gjaldfæra 2,5 tíma á það. Það hefði skilvirkur lögmaður skrifað á innan við tíma.

  7. Í málinu voru athafnir fyrirsvarsmanns félagsins kærðar til lögreglu og eru 4 tímar færðir á þann lið. Stefndi telur að sömu sjónarmið eigi við um kæruna og erindi sent stefnda í lið 6.

  8. Í tímaskýrslum eru færðir tímar vegna óskilgreindrar skiptastjórnunar þrátt fyrir að allar aðgerðir virðist hafa verið ríflega reikningsfærðar. Ekki verði séð í hverju þessi ætlaða skiptastjórn fólst og ekki hafa verið gefnar skýringar á henni.

  9. Stefndi taldi ástæðu til að skýringar væru gefnar á því í hverju gjaldfærð samskipti við LÍ fælust en ekki fengið svör.

        Stefndi telur að skiptastjóri hafi gjaldfært tíma á búið sem ekki séu í samræmi við vinnuframlag hans, en ekki hafa verið gefnar skýringar við athugasemdum stefnda sem skiptastjóra hafi þó verið í lófa lagið að gera. Stefndi telur að það sé óásættanlegt og ekki í samræmi við góða lögmannshætti að gjaldfæra tíma með þeim hætti sem gert var við skiptin. Stefndi telur færslur í tímaskýrslu í held ótrúverðugar og ljóst sé að ekki hafi verið unnið með skilvirkum og hagkvæmum hætti við skiptin.

        Stefndi krefst til vara lækkunar á kröfu stefnanda telji dómurinn að stefndi beri ábyrgð á greiðslu skiptakostnaðar og fer fram á að hann verði lækkaður þar sem stefndi hafi gjaldfært tíma á skiptin sem ekki séu í samræmi við efni og aðstæður.

        Verði vextir eða dráttarvextir dæmdir mótmælir stefndi upphafstíma þeirra, en fyrir liggi að stefnandi hafi ekki gefið stefnda umbeðnar skýringar á kostnaði fyrir málshöfðunina þrátt fyrir beiðni um það í tölvupósti til hans.

        Til stuðnings kröfum stefnda um málskostnað er í öllum tilvikum vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

IV.

Niðurstaða

        Samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 66. gr. laga nr. 21/1991 skal sá sem hefur krafist gjaldþrotaskipta ábyrgjast greiðslu kostnaðar af meðferð kröfu sinnar og af gjaldþrotaskiptum ef krafa hans er tekinn til greina og kostnaðurinn greiðist ekki af fé þrotabúsins. Þetta gildir einnig þótt hann hafi ekki verið krafinn um tryggingu skv. 2. mgr. 67. gr. laganna. Stefndi lagði fram 350.000 krónur til tryggingar skiptakostnaði og var eini kröfuhafinn. Engar eignir fundust í búinu en skiptastjóri hafði rökstuddar grunsemdir um undanskot eigna og gerði ráðstafanir til að hafa uppi á þeim.

        Ef það kemur í ljós eftir lok kröfulýsingarfrests að þrotabú eigi ekki eignir umfram það sem þarf til að efna kröfur samkvæmt 109. gr. og 1. og 2. tölulið 110. gr. laga 91/1991 skal skiptum lokið í samræmi við ákvæði 1. mgr. 155. gr. sömu laga. Við þær aðstæður þarf skiptastjóri að öðru jöfnu ekki sérstakt samþykki þess sem krafist hefur gjaldþrotaskipta til þess að inna lögmæltar athafnir af hendi sem og aðrar nauðsynlegar og venjulegar aðgerðir til að ljúka skiptum í samræmi við ákvæði 1. mgr. 155. gr. laganna þó að kostnaður af þeim fari fram úr þeirri tryggingu sem lögð var fram samkvæmt 2. mgr. 67. gr. laganna.

        Telja verður að aðgerðir skiptastjóra í þágu þrotabúsins hafi ekki verið aðrar en þær sem honum var að lögum skylt að vinna og teljast nauðsynlegar og venjulegar aðgerðir við skipti þrotabús sem lokið verður samkvæmt 1. mgr. 155. gr. laga nr. 21/1921.

        Krafa stefnanda byggir eingöngu á vinnustundafjölda skiptastjóra skv. tímaskýrslu dags. 19. nóvember 2013, en á reikningi hans, dags. 17. maí 2013, kemur fram að kostnaður umfram eignir og tryggingafé sé samtals 448.561 króna. Stefndi óskaði með tölvupósti 12. júní 2013 eftir tímaskýrslu vegna aðgerða skiptastjóra. Skiptastjóri sendi ekki fyrr en í nóvember sama ár tímaskýrslu, dags. 19. nóvember 2013, og stefndi gerði þegar 22. nóvember 2013 alvarlegar athugasemdir við hana sem raktar hafa verið. Tímaskýrsla skiptastjóra tekur til aðgerða frá 8. janúar 2013 til 12. júlí 2013. Hinn umstefndi reikningur er hins vegar dagsettur 17. maí 2013 og varða reikninginn því væntanlega aðeins aðgerðir skiptastjóra til þess tíma.

        Skiptastjóri gaf stefnda ekki viðhlítandi skýringar á þeim liðum sem gerðar voru athugasemdir við af hálfu stefnda og úr því var ekki bætt við meðferð málsins. Telja verður að athugasemdir stefnda hafi átt rétt á sér. Uppfletting í Lánstrausti sem fram kemur að hafi tekið eina klukkustund fór skv. tímaskýrslu skiptastjóra fram áður en félagið var úrskurðað gjaldþrota. Þá eru tímar vegna upphafsaðgerða skiptastjóra langt umfram það sem eðlilegt getur talist hjá reyndum skiptastjóra enda um staðlaðar aðgerðir að ræða. Þá eru tímar vegna undirbúnings fyrirhugaðrar skýrslutöku langt umfram það sem gera má ráð fyrir. Sama á við um færslu á kröfuskrá þar sem aðeins er um að ræða eina kröfu í búið. Þá eru ýmsir liðir óskilgreindir. Samkvæmt því sem rakið hefur verið verður að telja sýnt að fjöldi vinnustunda er miklu meiri en kröfuhafi mátti gera ráð fyrir að væru nauðsynlegir og ber stefnandi hallann af því að skiptastjóri varði mun meiri tíma til verksins en við mátti búast. Verður því að fallast á varakröfu stefnda um lækkun kröfu stefnanda.

        Í málinu liggur ekki fyrir gjaldskrá lögmannsstofu Íslensku lögfræðistofunnar sem bókað er í fundargerð skiptafundar í þrotabúi stefnanda þann 2. apríl 2013 að gildi um tímagjald skiptastjóra. Í málinu hefur ekki verið aflað matsgerðar eða hliðstæðra sönnunargagna um það hverja telja megi hæfilega þóknun skiptastjóra. Í málinu liggja fyrir tveir reikningar Íslensku lögfræðiskrifstofunnar sl. vegna kostnaðar vegna skiptastjórnar, samtals að fjárhæð 657.185 krónur. Stefnandi krefst til viðbótar framlögðu tryggingarfé, 350.000 króna, 448.561 krónu að meðtöldum virðisaukaskatti og samtals nemi því kostnaður við skiptastjórn í búinu 798.561 krónu. Ekki er gerð grein fyrir því í hverju þessi mismunur liggur og hvaða kostnað þar er um að ræða. Samkvæmt því sem rakið hefur verið eru ekki tök á öðru en að meta þóknun skiptastjóra við búskiptin eftir álitum og þykir hún hæfilega ákveðin 500.000 krónur að teknu tilliti til virðisaukaskatts. Stefndi hefur þegar innt af hendi 350.000 krónur til tryggingar skiptakostnaði og ógreiddar eru samkvæmt þessari niðurstöðu 150.000 krónur sem dæma ber stefnda til að greiða til viðbótar

        Upphafstíma dráttarvaxta er mótmælt af hálfu stefnda og vísað til þess að stefnandi hafi ekki gefið stefnda umbeðnar skýringar á skiptakostnaði áður en málið var höfðað. Eftir atvikum þykir því rétt að miða upphafstíma dráttarvaxta við þingfestingu málsins þann 6. mars 2014.

        Með hliðsjón af atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

        Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kveður upp dóminn.

 

Dómsorð:

        Stefndi, Tollstjóri, greiði stefnanda, Þrotabúi Valíss ehf., 150.000 kr. auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. mars 2014 til greiðsludags.

        Málskostnaður fellur niður.

                                                                        Þórður Clausen Þórðarson