• Lykilorð:
  • Ógilding
  • Ógilding stjórnarathafnar

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur föstudaginn 28. nóvember 2014 í máli nr. E-2630/2013:

A

(Dagný Ósk Aradóttir Pind hdl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Einar K. Hallvarðsson hrl.)

 

            Mál þetta, sem var dómtekið 8. október sl., var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af A á hendur íslenska ríkinu vegna Siglingastofnunar Íslands með stefnu birtri 19. júní 2013.

            Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi að ákvörðun siglingamálastjóra frá 11. mars 2013, um að veita stefnanda lausn frá störfum sem umsjónarmaður tölvukerfa hjá Siglingastofnun Íslands, hafi verið ólögmæt. Þá krefst stefnandi greiðslu málskostnaðar úr hendi stefnda.

 

            Atvik máls

            Stefnandi, sem er rafeindavirki og félagsmaður í Rafiðnaðarsambandi Íslands, starfaði sem umsjónarmaður tölvukerfa hjá Siglingastofnun Íslands í fimm ár en áður hafði hann starfað hjá Reiknistofnun Háskóla Íslands í jafnlangan tíma.

            Þann 10. janúar 2012 lenti stefnandi í bílslysi á leið til vinnu. Í slysinu varð hann fyrir alvarlegum bakmeiðslum sem hann kveðst glíma við enn. Í læknisvottorði frá 22. febrúar það ár segir að stefnandi sé óvinnufær með öllu um ótiltekinn tíma. Í öðru vottorði, dags. 15. febrúar 2013, segir að stefnandi sé óvinnufær með öllu á tímabilinu 11. febrúar til 11. maí 2013.

            Með bréfi, dagsettu 11. mars 2013, var stefnanda veitt lausn frá störfum hjá Siglingastofnun Íslands vegna heilsubrests frá og með 31. mars s.á. Segir í bréfinu að ástæða lausnar stefnanda sé langvarandi veikindi og tiltekið að um síðastliðin áramót (þ.e. áramótin 2012/2013) hafi stefnandi verið samfellt frá vinnu vegna veikinda launalaust í jafnlangan tíma og hann átti rétt á að halda launum vegna veikindanna. Vísað er til greinar 12.2.1 í kjarasamningi Rafiðnaðarsambands Íslands og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs til stuðnings ákvörðuninni um að veita stefnanda lausn frá störfum. Jafnframt er vísað til greinar 12.2.6. Jafnframt var stefnanda tilkynnt í bréfinu að honum yrðu greidd laun í þrjá mánuði eftir starfslok og orlof gert upp.

            Stefnandi mótmælti framangreindri uppsögn með bréfi 18. mars 2013 og fór fram á að hún yrði afturkölluð. Slys hans teldist vinnuslys, þar sem hann slasaðist á leið til vinnu og ætti hann því rétt á launum í veikindum í 13 vikur til viðbótar þeim175 dögum sem kveðið væri á um í grein 12.2.1 í kjarasamningnum með vísan til ákvæðis þar að lútandi í sömu grein samningsins. Að teknu tilliti til þess réttar hafi sá tími því ekki verið kominn, þegar honum var veitt lausn frá störfum, að hann hafi verið jafn lengi frá vinnu launalaust og hann hafði verið frá vinnu á launum. Auk þess hefði hann ekki fengið greidd laun í umræddar 13 vikur.

            Eftir nokkur bréfaskipti milli aðila málsins féllst stefndi á að greiða stefnanda laun í veikindafríi í 13 vikur til viðbótar við áður greidd laun þar sem líta yrði svo á að óvinnufærni stefnanda stafaði af slysi sem jafna mætti til vinnuslyss. Á hinn bóginn féllst stefndi ekki á að sá viðbótarréttur til launa hefði nein áhrif á heimild hans til að veita stefnanda lausn frá störfum þegar hann hafi verið búinn að vera frá vinnu án launa í jafnlangan tíma og hann átti rétt á að vera á launum samkvæmt grein 12.2.1, þ.e. í tvisvar sinnum 175 daga. Lausn stefnanda frá störfum er því óhögguð og er tilefni málareksturs þessa.

            Fram kemur í gögnum málsins að stefnandi hafi skilað nýju læknisvottorði þann 29. maí 2013 þar sem fram kemur að stefnandi sé vinnufær. Þá liggur fyrir að með lögunum nr. 119/2012, sem tóku gildi þann 5. desember 2012 og komu til framkvæmda þann 1. júlí 2013, voru ýmsar stofnanir samgöngumála sameinaðar, þar á meðal Siglingastofnun Íslands. Tók hin sameinaða stofnun, Samgöngustofnun, til starfa 1. júlí 2013.

 

            Málsástæður og lagarök stefnanda

            Stefnandi byggir kröfu sína á 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Stefnandi kveðst hafa lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um ólögmæti ákvörðunar siglingamálastjóra þar sem hann hyggist höfða skaðabótamál á hendur ríkinu vegna fjártjóns og miska. Skilyrði 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 og 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 séu því fyrir hendi.

            Stefnandi byggir aðallega á því að ákvörðun um lausn frá störfum hafi verið efnislega röng og þar með ólögmæt þar sem skilyrði lausnar hafi ekki verið uppfyllt. Í 12. kafla kjarasamnings Rafiðnaðarsambands Íslands og fjármálaráðuneytisins f.h. ríkissjóðs sé fjallað um rétt til launa vegna veikinda og slysa. Í grein 12.2.1 sé fjallað um áunnin réttindi og sérstakan rétt vegna vinnuslysa og atvinnusjúkdóma. Stefnandi sé með 10 ára starfsaldur hjá ríkinu og hafi því áunnið sér rétt til veikindalauna í 175 daga á hverju 12 mánaða tímabili. Þessi réttur hafi verið greiddur út og hafi stefnandi fengið laun í veikindaleyfi til og með 2. júlí 2012. Samkvæmt sömu grein skuli svo bæta við þann rétt 91 degi ef óvinnufærni stafar af vinnuslysi eða atvinnusjúkdómi. Maður teljist vera við vinnu sé hann á beinni leið til eða frá vinnu, sbr. t.d. b-lið 2. mgr. 27. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Stefnandi hafi því með réttu átt að fá laun greidd til 1. október 2012. Það hafi ekki verið leiðrétt fyrr en eftir að hann hafi gert athugasemdir við lausnarbréfið og forsendur lausnarinnar.

            Stefnandi byggir á því að skilyrði þess að maður verði leystur frá störfum vegna heilsubrests séu þau að starfsmaður hafi verið samfellt frá vinnu launalaust í jafn langan tíma og þann er hann átti rétt á að halda launum í fjarveru sinni samkvæmt grein 12.2.1. Stefnandi hafi átt rétt á að halda launum í 266 daga, eða til 1. október 2012, eins og stefndi hafi nú viðurkennt. Lausnardagur samkvæmt því hafi átt að vera 23. júní 2013, en ekki „um síðustu áramót“ eins og haldið sé fram af hálfu Siglingastofnunar í lausnarbréfinu dags. 11. mars 2012. Stefndi hafi ekki rökstutt eða vísað til fordæma fyrir þeirri túlkun sem hann byggi uppsögn sína á. Um gildi kjarasamninga sem lágmarkssamninga vísast til 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda.

            Umrædd ákvæði séu heimildarákvæði, sem heimila lausn frá störfum að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Ekki sé um skyldu að ræða. Eðlilegast sé að túlka þau samkvæmt orðanna hljóðan, enda ekkert sem gefi tilefni til annarrar túlkunar. Ef túlka ætti þau með öðrum hætti ættu sjónarmið þeirrar túlkunar að koma skýrt fram en það hafa þau ekki gert í þessu tilviki. Um verulega íþyngjandi ákvörðun hafi verið að ræða fyrir stefnanda og því enn mikilvægara að stjórnvöld byggi ákvarðanir sínar á málefnalegum sjónarmiðum. Að mati stefnanda séu ákvæðin skýr. Því hafi ekki verið heimilt að veita stefnanda lausn frá störfum á grundvelli heilsubrests.

            Verði ekki fallist á aðalmálsástæðu stefnanda byggir hann á því að meginreglum og ákvæðum stjórnsýslulaga hafi ekki verið fylgt við töku umræddrar ákvörðunar og sé hún því ólögmæt af þeim sökum. Ákvörðun um lausn frá störfum sé stjórnsýsluákvörðun og gildi því stjórnsýslulög nr. 37/1993. Nánar tiltekið hafi stefndi brotið rannsóknarreglu 10. gr., meðalhófsreglu 12. gr., reglu um andmælarétt í 13. gr. og reglu um rökstuðning í 22. gr.

            Siglingastofnun hafi ekki rannsakað málið áður en ákvörðun um lausn hafi verið tekin. Ekki hafi verið haft samband við stefnanda í aðdraganda þess að ákvörðun var tekin. Eftir að Siglingastofnun hafi verið bent á að mistök hefðu líklega átt sér stað hafi þó ekki verið brugðist við en þá hefði átt að afturkalla umrædda ákvörðun og taka nýja ákvörðun á réttum grundvelli. Ákvörðun um lausn frá störfum sé íþyngjandi og því enn mikilvægara að stjórnvald sinni rannsóknarskyldu sinni til þess að tryggja að ákvörðun byggist á málefnalegum sjónarmiðum.

            Þá hafi meðalhófs ekki verið verið gætt, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaganna, þar sem hægt hefði verið að taka aðra ákvörðun sem hefði ekki verið jafn afdrifarík fyrir stefnanda. Vandséð er hvaða málefnalegu sjónarmið geti búið að baki lausn frá störfum önnur en þau sem beinlínis séu talin fram í lögum og kjarasamningum og af hálfu stefnda hafa þau ekki komið fram. Um þetta atriði vísar stefnandi til ákvæða 30. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996 um sjónarmið sem gætu komið til skoðunar við slíkt mat, þótt það ákvæði gildi ekki beinlínis um stefnanda. Einnig vísast til dóms Hæstaréttar nr. 236/2012.

            Stefnanda hafi ekki verið gefinn kostur á að andmæla ákvörðuninni, í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga en stefndi hafði fengið sérstakar leiðbeiningar um þann rétt starfsmanna sinna í tengslum við skipulagsbreytingar á stofnuninni og sameiningu hennar við aðrar ríkisstofnanir.

            Þá hafi stefndi brotið ákvæði 22. gr. stjórnsýslulaganna með ófullnægjandi rökstuðningi. Lögmaður stefnanda hafi margoft, símleiðis og með tölvupósti, óskað eftir efnislegum rökstuðningi fyrir þeirri ákvörðun stofnunarinnar að afturkalla ekki ákvörðun um lausn þrátt fyrir að komið hefði í ljós að hún væri ekki byggð á réttum grunni. Engin eða ófullnægjandi svör hafi borist.

            Um lagarök vísar stefnandi til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og meginreglna á því réttarsviði, laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Einnig er vísað til laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, laga nr. 119/2012 um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála og laga nr. 6/1996 um Siglingastofnun. Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

            Málsástæður og lagarök stefnda

            Stefndi hafnar því að ákvörðun um lausn frá störfum hafi verið efnislega röng eða ólögmæt. Stefnandi hafði áunnið sér rétt til veikindalauna í 175 daga á hverju 12 mánaða tímabili þegar hann slasaðist 10. janúar 2012, sbr. grein 12.2.1 í kjarasamningi Rafiðnaðarsambands Íslands og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs. Fyrir liggi að stefnandi hafi fengið greidd laun til og með 2. júlí 2012. Síðar hafi komið í ljós að stefnandi átti einnig viðbótarétt vegna vinnuslyss samkvæmt sömu grein.

            Í grein 12.4.2 í kjarasamningi segi að þegar starfsmaður hafi verið samfellt frá vinnu vegna veikinda eða slysa launalaust í jafnlangan tíma og þann tíma er hann átti rétt á að halda launum í fjarveru sinni samkvæmt grein 12.2.1, megi leysa hann frá störfum vegna heilsubrests. Stefnanda var veitt lausn samkvæmt ákvæðinu með bréfi, dags. 11. mars síðastliðinn, en hann hafði þá verið launalaus í lengri tíma en greinin kveður á um, þ.e. lengur en í 175 daga.

            Í grein 12.4.2 sé vísað til nefndrar greinar. Í tilvísuninni felist ekki að þær 13 vikur eða 91 dagur þar sem stefnandi átti rétt á greiðslum vegna vinnuslyss bætist við áðurnefnda 175 daga. Viðbótarréttur starfsmanna til mánaðarlauna vegna vinnuslysa eða atvinnusjúkdóma sé sérstakur réttur sem sé frábrugðinn rétti starfsmanns til launa vegna veikinda eða slysa. Hann sé sjálfstæður réttur, óháður starfsaldri og réttindum tengdum honum. Um sé að ræða viðbótarrétt til launa, sem gildi í undantekningartilvikum, sem geti samkvæmt ákvæðinu náð út fyrir ráðningartíma viðkomandi starfsmanns. Þessi viðbótarréttur hafi komið inn í kjarasamninga síðar, miðað við það sem hafi verið samkvæmt reglugerð nr. 411/1989. Ekki sé ljóst hvenær hann kom inn í kjarasamninga Rafiðnaðarmanna. Í kjarasamningi Rafiðnaðar­sambandsins frá 2000 hafi umræddur viðbótarréttur til launa verið sérstaklega aðgreindur. Því sé ljóst að ekki hafi verið ætlun aðila kjarasamnings að hann félli undir og bættist við tímann samkvæmt grein 12.4.2. Rök standi því til þess að ákvæðin beri að skýra þröngt þannig að umræddur viðbótarréttur, eðli sínu samkvæmt og í ljósi forsögu ákvæðanna, falli utan greinar 12.4.2 og tilvísun þar eigi ekki við um viðbótarrétt til launa.

            Stefnanda hafi verið veitt lausn frá störfum þegar hann hafi verið samfellt frá vinnu launalaust í 175 daga eftir að hann hafi fengið greidd laun í 175 veikindadaga. Það hafi verið í samræmi við efnisleg skilyrði kjarasamnings aðila svo sem ákvæðum hans er lýst að framan.

            Þá mótmælir stefndi því að ákvörðunin og málsmeðferð Siglingastofnunar hafi ekki verið í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga og ákvæða sérlaga, sem hafi átt við.

            Þegar ákvörðun um lausn frá störfum var tekin hafi legið fyrir læknisvottorð, dagsett 15. febrúar 2013, þar sem fram komi að stefnandi sé óvinnufær með öllu þar til 11. maí það ár. Fullnægjandi upplýsingar um heilsufar hans lágu því til grundvallar ákvörðuninni í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga. Samkvæmt grein 12.4.2 sé ekki skilyrði að starfsmaður sé varanlega óvinnufær þegar honum er veitt lausn samkvæmt ákvæðinu. Ákvæði 30. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, eigi ekki við í tilviki stefnanda, enda hafi hann ekki verið embættismaður.

            Samkvæmt grein 12.4.2 í kjarasamningi hafi verið heimilt að veita stefnanda lausn frá störfum þegar það var gert. Frá því að stefnandi varð óvinnufær vegna slyssins hafi ríkt vandræðaástand í tölvumálum hjá Siglingastofnun þar sem enginn hafi verið til að sinna þeim og ekki hafi verið hægt að ráða mann í stað stefnanda þar sem óvíst var hvort eða hvenær hann yrði vinnufær. Annað hvort hafi verið að veita stefnanda lausn eftir ákvæðum kjarasamningsins eða bíða þess hvenær og hvort hann yrði vinnufær á ný. Stefndi ítrekar að ekki sé skilyrði samkvæmt grein 12.4.2 að starfsmaður sé varanlega óvinnufær þegar honum er veitt lausn samkvæmt ákvæðinu. Í ljósi þessa mótmælir stefndi því að brotin hafi verið meðalhófsregla 12. gr. stjórnsýslulaga.

            Hvað andmælarétt varðar byggir stefndi á því að í þessu tilviki eigi sérlög við. Ákvæði 43. gr. laga nr. 70/1996 heimili forstöðumanni að segja starfsmanni upp störfum eftir því sem nánar greini í ráðningarsamningi. Þá sé mælt fyrir um lausn starfsmanna vegna veikinda í kjarasamningi eins og fyrr er lýst. Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. laga nr. 70/1996 sé skylt að veita starfsmanni áminningu eftir 21. gr. laganna og gefa honum kost á að bæta ráð sitt áður en honum er sagt upp störfum ef uppsögn á rætur að rekja til ástæðna sem þar eru greindar. Annars er ekki skylt að gefa starfsmanni kost á að tjá sig um ástæður uppsagnar áður en hún tekur gildi, þar á meðal ef uppsögn stafar af öðrum ástæðum, svo sem þeirri að verið sé að fækka starfsmönnum vegna hagræðingar í rekstri stofnunar. Af þessu sé ljóst að ekki hafi verið skylt að gefa stefnanda kost á að tjá sig áður en tekin hafi verið ákvörðun um lausn, enda áttu atriði þau sem nefnd eru í 21. gr. ekki við. Um sé að ræða ákvæði sérlaga sem gangi að mati stefnanda framar ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvörðunin hafi verið vinnuréttar eðlis. Auk þess hafi stefnandi verið fyllilega meðvitaður um réttarstöðu sína og gefinn kostur á að tjá sig.

            Loks hafnar stefndi því að skort hafi á rökstuðning ákvörðunar. Meginregla 21. gr. stjórnsýslulaganna sé sú að rökstyðja skuli ákvörðun eftir á, komi fram beiðni um það innan 14 daga. Fyrir liggi að ákvörðun Siglingastofnunar var rökstudd í lausnarbréfi, dags. 11. mars 2013, þar sem getið hafi verið helstu atvika og réttarreglna. Þar hafi verið getið allra atriða sem máli skipta. Ekki verði séð að Siglingastofnun hafi verið skylt að rökstyðja ákvörðun sína um að afturkalla ekki lausn stefnanda.

            Stefndi mótmælir því að lausn stefnanda hafi stafað af öðrum ástæðum en veikindum hans, en sem fyrr segir byggir hún á ákvæðum kjarasamnings. Væntanleg sameining stofnananna fjögurra hafi engin áhrif haft á þá ákvörðun að veita stefnanda lausn. Þar sem um beitingu ákvæða kjarasamnings hafi verið að ræða en ekki árekstur ráðningarsamnings við hann, hafi ákvæði 1aga nr. 55/1980 ekki þýðingu. Hvernig sem á það sé litið telur stefndi ákvörðun um lausn ekki andstæða ákvæðum kjarasamnings og því ekki í trássi við nefnd ákvæði.

            Til stuðnings kröfum stefnda um málskostnað vísast í öllum tilvikum til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

            Niðurstaða

            Í máli þessu er deilt um túlkun 12. greinar í kjarasamningi fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Rafiðnaðarsambands Íslands f.h. aðildarfélaga þess sem gerður var 31. maí 2011 og gilti frá 1. maí það ár til 31. mars 2014. Óumdeilt er að sá samningur gilti um starfskjör stefnanda þegar hann varð fyrir slysi á leið til vinnu.

            Ágreiningur málsins snýst um það hvort stefnda hafi verið heimilt að leysa stefnanda frá störfum vegna heilsubrests svo sem hann gerði 31. mars 2013 með bréfi dags. 11. s.m.

            Í kafla 12.4 í framangreindum kjarasamningi er fjallað um lausn frá störfum sökum endurtekinnar eða langvarandi óvinnufærni vegna veikinda eða slysa. Þar segir í grein 12.4.2:

Þegar starfsmaður hefur verið samfellt frá vinnu vegna veikinda eða slysa launalaust í jafnlangan tíma og þann tíma er hann átti rétt á að halda launum í fjarveru sinni skv. gr. 12.2.1, má leysa hann frá störfum vegna heilsubrests.

            Í 1. málslið greinar 12.2.1 segir að starfsmaður haldi launum í tiltekinn fjölda veikindadaga á hverju 12 mánaða tímabili og fer dagafjöldinn eftir starfsaldri. Eftir sjö ár í starfi á starfsmaður rétt á að halda launum samkvæmt þessum málslið í 175 daga. Óumdeilt er að stefnandi hafði áunnið sér þann rétt. Fékk hann til samræmis við þetta ákvæði því greidd laun frá slysdegi til 2. júlí 2012. Þá segir í 2. málslið greinarinnar: „Við framantalinn rétt bætist auk þess réttur til mánaðarlauna skv. gr. 1.1.1 í kjarasamningi í 13 vikur eða 91 dag ef óvinnufærni stafar af vinnuslysi eða atvinnusjúkdómi. Við þessi laun bætast ekki greiðslur skv. gr. 12.2.6-12.2.7.“ Stefndi taldi í upphafi að stefnandi ætti ekki rétt til launagreiðslna samkvæmt þessu ákvæði en af bréfaskiptum aðila máls má sjá að hann féllst á að greiða stefnanda laun til samræmis við þetta ákvæði eftir að stefnandi hafði mótmælt lausn hans frá starfi.

            Í eldri kjarasamningi aðila frá 1. júní 2004, sem var í gildi frá 1. maí það ár til 31. mars 2008, voru ákvæði samhljóða þeim ákvæðum sem að framan er lýst.

            Í kjarasamningi aðila frá 11. maí 2000, sem var í gildi frá 1. maí það ár til 31. mars 2004, er í grein 6.1 að finna ákvæði um laun í veikindum og slysatilvikum og sérstakt ákvæði, grein 6.2, um laun í forföllum vegna slyss á vinnustað eða á leið til og frá vinnu og vegna atvinnusjúkdóma. Réttur til launa í forföllum samkvæmt báðum greinum fór eftir starfsaldri en með mismunandi hætti eftir því hvort forföll féllu undir grein 6.1 eða 6.2. Í síðastnefnda kjarasamningnum var ekki ákvæði um heimild vinnuveitanda til að veita starfsmanni lausn frá starfi vegna langvarandi veikinda en við gerð hans var í gildi í reglugerð nr. 411/1989, um veikindaforföll starfsmanna ríkisins. Sú reglugerð var felld úr gildi með auglýsingu nr. 122/2002. Í 2. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar sagði að heimilt væri að veita manni lausn frá starfi ef hann hefði verið samfellt frá vinnu vegna veikinda tvöfaldan þann tíma er hann átti rétt á að halda launum í fjarveru sinni samkvæmt 1. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar. Réttur til að halda launum samkvæmt tilvitnaðri grein átti jafnt við um þá sem urðu veikir án nánari tilgreiningar á orsökum veikinda og þeirra sem urðu óvinnufærir vegna slyss á vinnustað eða á eðlilegri leið til og frá vinnu, sbr. 8. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar. Í skammtímakjarasamningi frá 1987, sem var í gildi frá 1. mars til 1. desember það ár, var með sama hætti greint á milli réttar til launa, annars vegar almennt vegna veikinda og hins vegar vegna slysa á vinnustað eða á leið úr og í vinnu og vegna atvinnusjúkdóma. Í síðarnefnda tilvikinu var réttur til óskertra launa í þrjá mánuði óháð starfsaldri. Í samningnum er ekki ákvæði sem heimilar vinnuveitanda að veita starfsmanni lausn frá starfi vegna langvarandi veikinda.

            Svo sem að framan greinir hafa ákvæði um ríkari rétt til launa vegna forfalla sem tengjast vinnuslysum og atvinnusjúkdómum verið í kjarasamningi aðila að minnsta kosti frá því árið 1987. Í eldri kjarasamningum er þessa réttar getið í sérstökum greinum samninganna en í kjarasamningi frá árinu 2004 er ákvæðið komið inn í eina grein þar sem með heildstæðum hætti er kveðið á um rétt til launa í forföllum vegna veikinda eða slysa. Þá er í sama samningi sérstakt ákvæði um heimild vinnuveitanda til að leysa starfsmann frá störfum vegna heilsubrests og er þeirrar greinar getið í heild framar.

            Ekkert í þeim gögnum sem að framan eru rakin veita vísbendingu um það að túlka beri áðurnefnt ákvæði í kjarasamningi aðila á þann hátt sem stefndi heldur fram, þ.e. þannig að ekki beri að telja með þann tíma sem bætist við rétt til launaðs veikindaleyfis ef forföll eiga rætur að rekja til vinnuslyss eða atvinnusjúkdóms þegar metið er hvort sá tími sé kominn að veita megi manni lausn frá starfi af heilsufarsástæðum. Orðalag í grein 12.4.2 er skýrt. Efnislega segir þar að heimilt sé að leysa starfsmann frá störfum vegna heilsubrests þegar hann hefur verið samfellt frá vinnu í tiltekinn tíma. Sá tími sem tiltekinn er, er þegar hann hefur verið fjarverandi „launalaust í jafnlangan tíma og þann tíma er hann átti rétt á að halda launum í fjarveru sinni skv. gr. 12.2.1“. Ekki er deilt um að stefnandi átti samkvæmt nefndri grein rétt á að halda launum í 266 daga, (þ.e. 175 + 91 dag). Af því leiðir að stefnda var ekki heimilt að leysa stefnanda frá störfum fyrr en 532 dögum eftir að hann forfallaðist vegna slyssins sem varð 10. janúar 2012. Sá tími var ekki kominn þegar stefndi leysti stefnanda frá störfum með ákvörðun sem tilkynnt var með bréfi þann 11. mars 2013 og tók gildi 31. mars s.á. og samkvæmt vottorði frá 29. mars 2013 var stefnandi orðinn vinnufær innan þeirra tímamarka.

            Með framangreindum rökstuðningi er niðurstaða dómsins sú að umdeild ákvörðun stefnda um að leysa stefnanda frá störfum vegna heilsubrests geti ekki með réttu byggst á heimild í kjarasamningi aðila. Stefndi hefur ekki vísað til annarra heimilda eða lagaraka sem stutt geta staðhæfingu hans um lögmæti hennar. Ákvörðunin er því ólögmæt þegar af þessari ástæðu og er því ekki þörf á nánari umfjöllun um aðrar málsástæður stefnanda.

            Með hliðsjón af niðurstöðu málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 450.000 krónur.

            Ingibjörg Þorsteinsdóttir kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð :

            Ákvörðun siglingamálastjóra frá 11. mars 2013, um að veita stefnanda, A, lausn frá störfum sem umsjónarmaður tölvukerfa hjá Siglingastofnun Íslands, er ólögmæt. Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda 450.000 krónur í málskostnað.

 

Ingibjörg Þorsteinsdóttir