• Lykilorð:
  • Aðild
  • Framsal kröfu
  • Fyrning
  • Samningur
  • Skaðabætur
  • Vanefndir
  • Skaðabótamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur miðvikudaginn 5. júní 2019 í máli nr. E-837/2015:

Grunnstoð ehf.

(Sigurður S. Júlíusson lögmaður)

gegn

Arkís arkitektum ehf. og

Henning Larsen Architects AS

(Jóhannes Karl Sveinsson lögmaður)

 

Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 6. febrúar 2015 og dómtekið 12. apríl sl. Stefnandi er Grunnstoð ehf., Menntavegi 1 í Reykjavík, og stefndu eru Arkís arkitektar ehf., Höfðatúni 2 í Reykjavík, og Henning Larsen Architects AS, Vesterbrogade 76 í Kaupmannahöfn.

Stefnandi krefst aðallega greiðslu 248.575.816 króna óskipt úr hendi stefndu auk vaxta skv. 1. mgr. 8. gr. l. nr. 38/2001 frá 24. janúar 2013 til 17. október 2016 og dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hann greiðslu 183.680.496 króna óskipt úr hendi stefndu auk vaxta skv. 1. mgr. 8. gr. l. nr. 38/2001 frá 24. janúar 2013 til 17. október 2016 en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga af 125.116.019 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Í báðum tilvikum krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnanda.

Stefndu krefjast sýknu af öllum kröfum stefnanda auk þess sem báðir stefndu krefjast málskostnaðar úr hendi stefnanda.

 

I

Málavextir eru þeir að á árinu 2007 var hafist handa við að byggja 34.000 fermetra hús við Menntaveg 1 í Reykjavík sem skyldi hýsa starfsemi Háskólans í Reykjavík. Þann 20. mars 2007 var undirritaður samningur milli Eignarhaldsfélagsins Fasteignar ehf., Háskólans í Reykjavík ehf. og Hástoðar ehf. um uppbyggingu svæðisins. Samkvæmt samningnum skyldi Háskólinn í Reykjavík framselja Eignarhaldsfélaginu Fasteign hluta lóðar- og byggingarréttar síns. Eignarhaldsfélagið skyldi byggja og eiga fasteignirnar á lóðinni og leigja Hástoð þær. Síðarnefnda félagið var að fullu í eigu Háskólans í Reykjavík. Með samningnum tók Eignarhaldsfélagið Fasteign yfir eldri samninga Háskólans í Reykjavík um hönnun bygginga á svæðinu og yfirumsjón með skipulagi, hönnun og framkvæmdum. Samkvæmt samningnum skyldi fulltrúi Háskólans í Reykjavík áfram sækja fundi og hafa aðgang að öllum gögnum um framvindu framkvæmdarinnar. Eignarhaldsfélagið Fasteign greiddi Háskólanum í Reykjavík 1.500.000.000 króna fyrir hönnunargögn og framsal lóðarréttinda.

Þann 13. apríl sama ár gerði Eignarhaldsfélagið Fasteign samning við tvö fyrirtæki um hönnun fyrstu tveggja áfanga háskólabyggingarinnar eins og þeim var nánar lýst í viðauka við samninginn. Í samningnum eru fyrirtækin nefnd Arkís og Henning Larsen Architects. Þorvarður Björgvinsson kom fram fyrir hönd þess fyrrnefnda og Mette Kynne Frandsen fyrir hönd þess síðarnefnda. Sá samningur sem liggur fyrir dóminum er ekki undirritaður af hálfu Arkís, og svo sem rakið verður síðar er deilt um aðild stefnda Arkís arkitekta að málinu.

Í samningnum kemur m.a. fram að stefndu skuli annast alla hönnun í tengslum við byggingu 1. og 2. áfanga hússins, þar á meðal arkitektóníska hönnun og hönnun loftræsi- og ofnakerfa. Af samningnum má ráða að Hönnun ehf., nú Mannvit hf., var falin hönnun loftræsi- og ofnakerfa sem undirverktaka stefndu. Umfangi verkefnisins og samningsskilmálum er ítarlega lýst í meginefni samningsins og samningsviðaukum A–F. Ráða má af samningnum, sem er á ensku, að hann er sniðinn eftir stöðluðum samningsskilmálum FIDIC frá 1998 (fr. Fédération Internationale Des Ingénieurs-Conseils). Í 16. til 19. gr. almenns hluta samningsins eru ákvæði um ábyrgð milli aðila, skaðabætur, tímamörk ábyrgðar, takmörkun skaðabóta og skaðleysi og tryggingar. Í 17. gr. er ákvæði, sem mestu máli skiptir fyrir úrlausn þessa máls, svohljóðandi í þýðingu löggilts skjalaþýðanda:

Hvorki viðskiptavinurinn né ráðgjafinn skulu teljast bera ábyrgð á nokkru tjóni eða tapi sem stafar af hvaða atburði sem er nema krafa sé formlega sett fram gegn honum áður en viðeigandi tímamörk sem kveðið er á um í sérskilmálum hafa runnið út eða fyrr ef lög kveða svo á um.

Í viðeigandi ákvæði sérskilmála segir:

Tímalengd ábyrgðar 5 ár reiknað með frá lokum.

Hámarksfjárhæð bótaábyrgðar stefndu samkvæmt samningnum nam 30.000.000 danskra króna nema tjóni væri valdið af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi, og ábyrgðartími var fimm ár. Stefndu tryggðu sig fyrir kröfum hjá danska tryggingarfélaginu AXA. Kveðið er á um það í samningnum að um hann gildi íslensk lög og sé Héraðsdómur Reykjavíkur bær til að leysa úr ágreiningi milli aðila.

Samkvæmt verkáætlun skyldi hönnun lokið í júlí 2008 og byggingu hússins 25. ágúst 2010.

Í samningnum kemur fram að sameiginlegt markmið allra samningsaðila hafi verið að byggingarkostnaður yrði ekki hærri en 220.000 á hvern fermetra en í hönnunartillögu var gert ráð fyrir að byggingarkostnaður á hvern fermetra yrði 234.000 krónur. Greiðslur til stefndu voru að hluta árangurstengdar miðað við að þetta markmið næðist.

Eignarhaldsfélagið Fasteign samdi við Ístak hf. um byggingu hússins en hið síðarnefnda samdi við undirverktaka um framkvæmd annarra verkþátta en uppsteypu. Húsið var tekið í notkun í áföngum á árunum 2010 og 2011 og gaf byggingarfulltrúinn í Reykjavík út vottorð um lokaúttekt 17. desember 2010.

Nokkru eftir að húsið var tekið í notkun fór að bera á kvörtunum frá nemendum og starfsmönnum háskólans vegna hitastigs í ýmsum rýmum og hávaða frá loftræsikerfi. Auk þess komu fljótlega í ljós vandamál með ofnakerfi hússins, ofnar hitnuðu ekki og stíflur voru í stillitéum og ofnlokum sem raktar voru til óhreininda í kerfinu. Loks komu í ljós miklar sprungur í sýnilegum steyptum gólfflötum húsnæðisins, þ.e. á stærstum hluta jarðhæðar byggingarinnar. Sprungumyndun þessi mun hafa hafist skömmu eftir að gólfið var steypt.

Í máli þessu er deilt um hvort ágalla þessa megi rekja til ófullnægjandi hönnunar stefndu. Málatilbúnaður stefnanda er á því reistur að stefndu hafi vanefnt samning sinn um hönnun byggingarinnar og krefst hann skaðabóta á þeim grundvelli, svo sem nánar er lýst í kaflanum um málsástæður og lagarök stefnanda. Ágöllunum sem stefnandi byggir á kröfu sína er skipt í þrjá höfuðliði; galla á loftræsikerfi, galla á hitakerfi og sprungur í gólfi.

Í málinu liggur fyrir fjöldi skýrslna, minnisblaða og fundargerða frá aðilum sem fengnir voru til að skoða framangreinda ágalla, greina orsakir þeirra og leggja til úrbætur.

Meðal fyrirliggjandi gagna er skýrsla, dagsett 12. maí 2010, með úttekt á loftræsikerfinu frá Eflu verkfræðistofu, sem annaðist framkvæmdareftirlit, og fjöldi fundargerða frá fundum sem haldnir voru á árinu 2010 fram í febrúar 2011 þar sem vandamál við loftræsingu, einkum stillingu og stjórnun þess, og hitastýringu voru til umfjöllunar.

Þá er í minnisblaði Mannvits, sem svo sem áður greinir sá um hönnun loftræsikerfisins sem undirverktaki stefndu, frá 28. júní 2011, samantekt á þeim atriðum í rekstri loftræsi- og hitakerfa Háskólans í Reykjavík sem rekstraraðili er ósáttur við ásamt áætluðum kostnaði við endurbætur þessara atriða. Í minnisblaðinu er greint frá því að kvartanir snúi að hitastýringu í kennslusölum, þar sé ýmist of heitt eða of kalt, og jafnframt lýst vandamálum við hitastýringu í tilteknum minni fundar- og vinnuhópaherbergjum. Í minnisblaðinu segir að kerfin séu að mestu byggð samkvæmt fyrirliggjandi hönnunargögnum en þó hafi hönnuðir samþykkt að stjórntækjaverktaki fengi að stilla sjálfur afköst flæðiloka í kerfinu í stað þess að kaupa staðlaðar flæðilokur með stýribúnaði. Stjórnbúnaðurinn sem verktakinn kaus að nota hafi hins vegar ekki virkað eins og til stóð, og það skýri hluta vandans. Leggur höfundur minnisblaðsins til að stýring flæðiloka verði bætt, viðbótarkælikerfi komið fyrir í fyrirlestrarsölum og hússtjórnarkerfið lagfært.

Þá er kvartað yfir hávaða frá náttúrulegu loftræsikerfi í kennslustofum, svokölluðum Navent-tækjum, einkum þegar vindur stendur upp á þá húshlið sem tækið er á. Vandinn, sem er nánar lýst í minnisblaðinu, er óumdeildur og sagt er frá því að sérfræðingur frá framleiðanda tækjanna hafi tvívegis reynt að bæta úr ágallanum án þess að það hafi skilað viðunandi árangri. Greint er frá því að skoða þurfi nánar orsakir þess að tækin valdi þessum hávaða og reyna þurfi einfaldar lausnir til að ráða bót á honum.

Í minnisblaðinu er jafnframt fjallað um kvartanir vegna loftleysis og of mikils hita eða kulda í rýmum á 2. og 3. hæð hússins. Fram kemur að þessi rými séu opin vinnurými en hafi verið hönnuð sem einmenningsskrifstofur. Lagt er til í minnisblaðinu að komið verði upp vélrænni loftræsingu í þessum rýmum til að bæta úr vandanum.

Loks er lýst vandamálum við útsogsblásara í útloftunarstokkum og náttúrulega loftræsingu og lagðar fram tillögur að úrbótum, og áætlaður kostnaður af þeim metinn tæplega 60 milljónir króna. Tekið er fram að inni í þeirri fjárhæð sé ekki kostnaður vegna eins verkliðar, þ.e. vegna lagfæringa á óþéttum ofnum og breytinga á tengingum. Segir að sá verkliður hafi þegar verið kostnaðarmetinn, en ekki tekið fram hver fjárhæð þeirrar áætlunar sé.

Í minnisblaði frá Eflu verkfræðistofu, dagsettu 16. febrúar 2012, er enn að finna úttekt á loftræsingu byggingarinnar. Þar er fjallað um flæðilokur og vandamál við hitastillingu. Þar er þess líka getið að loftmagn sé í a.m.k. einum sal ófullnægjandi miðað við hönnunarforsendur. Í minnisblaðinu kemur fram að kostnaður við úrbætur sé talinn vera að lágmarki 23 milljónir króna. Þar af hafi þegar verið varið 8,5 milljónum í úrbætur.

Í öðru minnisblaði frá sama aðila, dagsettu 19. desember sama ár, er yfirlit um aðgerðir við úrbætur og lagfæringar á loftræsikerfi byggingarinnar. Segir í minnisblaðinu að tilraunir til að ráða bót á vandamálunum í samvinnu við hönnuði kerfisins hafi ekki skilað viðunandi árangri og segir að samvinnu við þá hafi verið hætt þegar minnisblaðið er skrifað. Telja höfundar minnisblaðsins að lengra verði ekki komist í að ná frekari afköstum loftræsikerfis í þeim tveimur rýmum sem tekin höfðu verið til sérstakrar skoðunar, nema með verulegum úrbótum og breytingum. Að mati höfunda minnisblaðsins nái annað kerfið (VE2.4.) engan veginn því loftmagni sem hönnunarforsendur gerðu ráð fyrir og hitt kerfið (VE3.1.) nái forsendum um loftmagn en ekki um hraða, auk þess sem hávaði sé of mikill.

Mannvit gerði athugasemdir við framangreint minniblað Eflu í minnisblaði, dagsettu 5. febrúar 2013. Þar er því mótmælt að loftræsikerfið sé ekki hannað í fullu samræmi við hönnunarforsendur. Jafnframt er staðhæft að hönnunarforsendur séu líkar forsendum sem miðað sé við í sambærilegum byggingum, innan lands og utan, og þær séu í samræmi við kröfur byggingarreglugerðar.

Hvað ofnakerfið varðar kemur fram í gögnum málsins að vandamál hafi komið í ljós fljótlega eftir að húsnæðið var tekið í notkun. Kerfið var í upphafi hannað sem lokað hringrásarkerfi með frostlegi ásamt náttúrulegum innblæstri fersklofts í gegnum svokallaða „Naventa“ sem settir voru á útveggi húsnæðisins. Áður er því lýst að vandamálin við þessi tæki lýstu sér í því að við viss veðurskilyrði hvein í þeim. Hvað ofnakerfið varðar, þá mun fljótlega hafa komið í ljós að tæring myndaðist í lagnakerfi þeirra sem leiddi til þess að óhreinindi mynduðust inni í kerfinu sem stífluðu ventla og hitastýringartæki ofanna. Ofnarnir hitnuðu því ekki eðlilega. Er þessu vandamáli lýst í minnisblaði frá Eflu, dagsettu 4. febrúar 2010. Ítarlegar rannsóknir fóru fram á orsökum þessa. Meðal fyrirliggjandi gagna er niðurstaða rannsóknar Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands frá 8. mars sama ár þar sem staðfest er að ryð hafi myndast vegna súrefnistæringar auk þess sem efnagreiningar á útfellingum sýndu talsvert magn af sinki. Í janúar 2012 var ákveðið að breyta ofnakerfinu tímabundið í opið kerfi. Áfram var ofnakerfið skoðað og leitað leiða til að lagfæra það á árunum 2012 og 2013. Þann 30. nóvember 2013 var ákveðið að breyta kerfinu varanlega í gegnumstreymiskerfi. Til grundvallar þeirri ákvörðun lágu ýmsar rannsóknir á ofnakerfinu, m.a. skýrsla sérfræðings frá verkfræðistofu VSB frá 21. sama mánaðar, þar sem segir að ekki sé hægt að nota kerfin áfram eins og þau voru hönnuð, og skýrsla Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands frá 25. október s.á. um ástand lagna.

Þá liggur fyrir matsgerð frá VSB verkfræðistofu, dagsett 15. maí 2014, sem unnin var að beiðni Þorkels Sigurlaugssonar, framkvæmdastjóra fjármála og fasteignareksturs Háskólans í Reykjavík, til að leggja mat á hönnun loftræsikerfis með hliðsjón af hugsanlegum göllum. Jafnframt er í matsgerðinni skoðað hitakerfi hússins og sprungur í gólfum. Segir í matsgerðinni að stuðst sé við áðurnefnt minnisblað Eflu frá 19. desember 2010 og minnisblöð Mannvits frá 28. júní 2011 og 5. febrúar 2013. Matsgerðin var unnin án samvinnu við hönnuði og liggur til grundvallar upphaflegri kröfugerð stefnanda. Helstu niðurstöður matsgerðarinnar eru þær að verulegir annmarkar séu á loftræsi- og hitakerfi byggingarinnar og því gerð ítarleg skil í hverju þessir annmarkar felist og hvaða leiðir séu færar til úrbóta. Niðurstaða matsgerðarinnar er sú að annmarka þessa megi að verulegu leyti rekja til ófullnægjandi hönnunar. Er kostnaður af úrbótum á þessum kerfum áætlaður á bilinu 147.000.000–163.000.000 króna. Um ástæður sprungumyndana í gólfi er í matsgerðinni greint frá því að ekki hafi verið fylgt verklýsingu hönnuða og talið að ef það hefði verið gert hefði verið unnt að minnka sprungumyndun til muna. Lagt er til að lagður verði dúkur á gólfið og kostnaður af því metinn um 47.000.000 króna.

Loks er rétt að geta minnisblaðs frá Verkís verkfræðistofu, sem er dagsett 14. desember 2014 og fjallar um sprungumyndanir í gólfi út frá verklýsingu hönnuða. Þar segir að sprungur séu langt umfram það sem eðlilegt teljist og eigi það við um allan gólfflötinn. Þá segir að verklýsingin sé ekki í lagi þar sem fyrirskrifað hlutfall á milli sements og sands leiði til þess að efjuhlutfall steypunnar verði of hátt. Þá hafi í verklýsingu ekki verið brugðist við rýrnun steypunnar að öðru leyti en því að fyrirskrifa notkun állista en samkvæmt verklýsingu skyldi reita gólfið með 6x20 mm állistum. Í minnisblaðinu er gerð nánari grein fyrir því hvernig höfundur þess telur að fullnægjandi verklýsing hefði átt að líta út.

Undir rekstri málsins hefur verið aflað tveggja matsgerða, undirmatsgerðar að beiðni stefnanda og yfirmatsgerðar að beiðni stefndu. Þessar matsgerðir eru afar ólíkar, bæði hvað varðar efnistök og niðurstöðu.

Í matsbeiðnum er lagt fyrir matsmenn að svara eftirfarandi spurningum:

Varðandi loftræsikerfið:

a)      Er loftræsikerfið haldið annmörkum og ef svo er, má rekja þá til ófullnægjandi hönnunar? Jafnframt er óskað mats á því hvaða úrbóta sé þörf til að bæta úr annmörkum og hver kostnaðurinn sé við þær úrbætur.

b)      Var nauðsynlegt og eðlilegt að ráðast í þær rannsóknir og úrbætur sem þegar hefur verið ráðist í á kerfinu og er kostnaður við þær sanngjarn og eðlilegur? Ef svo er ekki, hvaða kostnað var nauðsynlegt og eðlilegt að ráðast í og hver er sanngjarn og eðlilegur kostnaður vegna þess?

c)      Hver er kostnaðurinn við úrbætur samkvæmt framangreindum liðum (a-b) að frádregnum þeim kostnaði sem fallið hefði til ef loftræsikerfið hefði verið hannað með fullnægjandi hætti fyrir eða samhliða byggingu hússins?

Varðandi ofnakerfið:

a)      Var hitakerfi haldið annmörkum og má rekja þá til ófullnægjandi hönnunar. Var eðlilegt og nauðsynlegt að ráðast í þær rannsóknir og úrbætur sem ráðist var í og var kostnaður við þær sanngjarn og eðlilegur? Ef svo er ekki, hvaða kostnað var nauðsynlegt og eðlilegt að ráðast í og hver er sanngjarn og eðlilegur kostnaður vegna þessa?

b)      Er hitakerfið enn haldið annmörkum og má rekja þá til ófullnægjandi hönnunar? Hvaða úrbóta er þörf og hver yrði kostnaður við þær úrbætur?

c)      Hver er kostnaðurinn við úrbætur samkvæmt framangreindum liðum (a-b) að frádregnum þeim kostnaði sem fallið hefði til ef hitakerfið hefði verið hannað með fullnægjandi hætti fyrir eða samhliða byggingu hússins?

Varðandi gólfið

a)      Matsmenn/yfirmatsmenn staðreyni sprungur á gólfi húsnæðisins og meti hvort annmarka megi rekja til ófullnægjandi hönnunar. Jafnframt til hvaða úrbóta þurfi að grípa og hver sé kostnaðurinn við þær úrbætur.

b)      Jafnframt er þess óskað að metinn verði sanngjarn og eðlilegur kostnaður við úrbætur að frádregnum þeim kostnaði sem fallið hefði til ef gólfið hefði verið hannað með fullnægjandi hætti fyrir eða samhliða byggingu hússins.

Annar kostaður

Matsmenn/yfirmatsmenn meti annan kostnað vegna rasks og óþæginda vegna þeirra úrbóta sem nauðsynlegt kann að vera ráðist í og kostnaðar vegna endurhönnunar. Í yfirmatsgerð er staðhæft að undirmatsmenn hafi ekki svarað þessari spurningu með sjálfstæðum hætti og segir í yfirmatsbeiðninni að þörf fyrir svör við þessari spurningu ráðist af öðrum niðurstöðum.

Í niðurstöðu undirmatsmanna kemur fram að þeir telji að loftræsi- og hitakerfin hafi verið haldin ágöllum sem rekja megi til hönnunar þessara kerfa og jafnframt er það niðurstaða þeirra að þær ráðstafanir sem gripið hafi verið til hafi verið nauðsynlegar og kostnaður af þeim eðlilegur og sanngjarn. Í niðurstöðu undirmatsgerðar varðandi gólfið staðreyna matsmenn að finna megi miklar sprungur í gólfi. Með hliðsjón af verklýsingu hönnuða segir í niðurstöðu matsmanna að fyrirsjáanleg hafi verið mikil hætta á umtalsverðri sprungumyndun. Hönnunin hafi því verið ófullnægjandi, að því gefnu að markmiðið hafi verið að gólfið yrði sprungufrítt eða með tiltölulega fáum og fíngerðum sprungum.

Samtals áætla matsmenn að nauðsynlegar úrbætur á loftræsi- og hitakerfunum, auk þeirra sem þegar hafi verið lagt í, nemi u.þ.b. 221.830.000 krónum, að meðtöldum kostnaði vegna rasks og óþæginda. Að teknu tilliti til þess kostnaðar sem hefði fallið til í upphafi, ef kerfið hefði verið hannað með fullnægjandi hætti, telja matsmenn hreinan viðbótarkostað vera liðlega 98,5 milljónir króna. Hvað úrbætur á gólfi varðar leggja undirmatsmenn til grundvallar að leggja þurfi línóleum-dúk á öll steypt gólf og áætla kostnað vegna þess vera tæplega 68 milljónir króna.

Niðurstaða yfirmatsgerðar hvað varðar loftræsikerfið er sú að það sé haldið annmörkum sem rekja megi til ófullnægjandi hönnunar. Kostnaður við úrbætur er metinn 41.175.000 krónur. Þá telja yfirmatsmenn að nauðsynlegt og eðlilegt hafi verið að ráðast í hluta þeirra rannsókna og úrbóta sem þegar hafi verið ráðist í og sanngjarn, og eðlilegur kostnaður vegna þessa er metinn 7.252.000 krónur. Þá meta yfirmatsmenn að kostnaður við úrbætur skv. lið a) og b), að frádregnum kostnaði sem fallið hefði til ef loftræsikerfið hefði verið hannað með fullnægjandi hætti fyrir eða samhliða byggingu hússins, nemi 13.768.000 krónum.

Varðandi hitakerfið þá er það niðurstaða yfirmatsmanna að annmarkar hafi verið á hitakerfi hússins þegar það var lokað kerfi, svo sem það var hannað í upphafi, en þá annmarka sé ekki að rekja til ófullnægjandi hönnunar.

Svo sem rakið er að framan var hitakerfinu breytt varanlega úr lokuðu kerfi í opið kerfi í lok nóvember 2013. Yfirmatsmenn lýsa þeirri afstöðu sinni að kerfið í núverandi mynd sé enn haldið annmörkum og hætta sé á frekari vandamálum, en þetta sé ekki að rekja til ófullnægjandi hönnunar.

Hvað ástand gólfsins varðar þá staðfesta yfirmatsmenn að sprungur séu víða á þeim gólfflötum sem eru með sýnilegu steyptu yfirborði. Orsaka þessa telja yfirmatsmenn hins vegar ekki vera að leita í ófullnægjandi hönnun heldur því að verkkaupi hafi ákveðið að breyta hönnun gólfsins með því að sleppa því að setja lista í steypuna sem ætlaðir voru til að bregðast við rýrnun hennar.

Stefnandi keypti fasteignina af Eignarhaldsfélaginu Fasteign 24. janúar 2013 fyrir 10.500.000.000 króna. Í kaupsamningi segir að eignin sé seld í því ástandi sem hún sé við afhendingu og í fylgiskjali með kaupsamningi var upplýst um annmarka á eigninni, m.a. á loftræsikerfi, ofnakerfi og gólfum. Þá segir í kaupsamningnum að eigninni fylgi allar kröfur sem almennt fylgi fasteignum þegar þær séu seldar, þar með taldar kröfur á hendur hönnuðum. Í mars 2014 eignuðust Háskólinn í Reykjavík og eigendur hans allt hlutafé í stefnanda og 16. júlí s.á. framseldi Eignarhaldsfélagið Fasteign stefnanda öll réttindi og skyldur samkvæmt hönnunarsamningnum frá 2007, þar með taldar kröfur vegna skaðabóta og aðrar kröfur vegna galla á eigninni. Sama dag framseldu Hástoð ehf. og Háskólinn í Reykjavík ehf. til stefnanda allar kröfur sem þessi félög eiga eða kunna að eignast vegna kostnaðar við úrbætur auk skaðabótakrafna sem þau kunna að eiga eða muni eignast vegna galla á eigninni.

Skömmu eftir að stefnandi eignaðist fasteignina aflaði hann áðurnefndrar skýrslu VSB verkfræðistofu um ætlaða galla á fasteigninni. Þann 20. maí 2014 sendi hann stefndu og Mannviti samhljóða bréf ásamt skýrslunni og lýsti því yfir að húsið væri gallað hvað varðaði loftræsikerfi, ofnakerfi og gólf. Í bréfunum óskaði stefnandi eftir formlegum viðræðum um bætur til handa stefnanda. Viðræður stóðu yfir milli aðila á tímabilinu júní til nóvember s.á. um bótakröfurnar og mun stefndi Arkís arkitektar ehf. hafa boðist til að veita stefnanda þjónustu í tengslum við úrbætur á þeim annmörkum sem stefnandi teldi vera á eigninni en hafnað bótakröfu. Þar kemur einnig fram sú afstaða stefnda Arkís arkitekta ehf. að hönnun sé forsvaranleg og fagleg miðað við gefnar forsendur.

Við aðalmeðferð málsins gáfu eftirfarandi aðilar skýrslu fyrir dómi: Helle Larsen arkitekt, fyrirsvarsmaður Henning Larsen Architects, Birgir Teitsson arkitekt, fyrirsvarsmaður Arkís arkitekta, Þorkell Sigurlaugsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri stefnanda, Hermann Ragnarsson múrarameistari, Einar Gunnar Hermannsson, forstöðumaður fasteigna- og tæknisviðs Háskólans í Reykjavík, Eggert Aðalsteinsson, verkfræðingur hjá Mannviti, Friðberg Stefánsson, verkefnastjóri hjá Mannviti, Þorlákur Jónsson, vélaverkfræðingur hjá Verkís, undirmatsmennirnir Ólafur Árnason og Gylfi Sigurðsson og yfirmatsmennirnir Högni Hróarsson, Haukur J. Eiríksson og Björn Marteinsson. Framburður þessara aðila er rakinn í niðurstöðukafla dómsins eftir því sem tilefni er til.

 

II

Stefnandi byggir á því að loftræsikerfi, ofnakerfi og gólf umræddrar byggingar séu gölluð í skilningi fjármuna- og kröfuréttar vegna ófullnægjandi hönnunar sem stefndu beri sameiginlega og óskipta ábyrgð á. Með því hafi stefndu vanefnt hönnunarsamning frá 13. apríl 2007, sem framseldur hefur verið stefnanda. Því eigi stefnandi rétt á skaðabótum eða afslætti úr hendi stefndu. Þó að stefndu hafi ráðið undirverktaka við hönnun hússins séu þeir samt sem áður sameiginlega ábyrgir gagnvart verkkaupa vegna hönnunar undirverktaka samkvæmt almennum reglum verktakaréttar og samningi aðila. Þá hafi Eignarhaldsfélagið Fasteign framselt stefnanda öll réttindi og skyldur skv. gögnum málsins, sbr. einnig 45. gr. laga um fasteignakaup nr. 40/2002.

Stefnandi byggir á því að í samningi aðila, og á grundvelli almennra krafna sem gerðar séu til hönnuða, felist skuldbinding stefndu til hönnunar loftræsikerfis sem dugi til að loftræsa húsnæðið með fullnægjandi hætti miðað við fyrirhugaða notkun og til samræmis við viðurkenndar venjur, staðla og ákvæði laga og reglna. Raunin hafi hins vegar orðið önnur, eins og kvartanir nemenda og starfsfólks beri vitni um. Kennsla hafi truflast eða jafnvel fallið niður í sumum tilvikum vegna annmarkanna.

Samkvæmt endanlegum dómkröfum stefnanda gerir hann aðallega kröfu um greiðslu bóta að fjárhæð 123.459.797 krónur vegna annmarka á loftræsikerfinu. Er sú krafa sundurliðuð nánar vegna einstakra annmarka með eftirfarandi hætti:

Úrbætur til að ná æskilegu hitastigi/kælingu                                       28.010.000     kr.

Úrbætur vegna hávaða frá loftræsikerfi                                                 5.640.000     kr.

Kostnaður við að skipta út blaðlokum                                                 21.630.000     kr.

Úrbætur á náttúrulegri loftræsingu                                                       18.500.000     kr.

Kostnaður vegna rasks, óþæginda og eftirlits                                      11.000.000     kr.

Bætur vegna útlagðs kostnaðar                                                            38.679.797     kr.

Til stuðnings kröfu sinni vísar stefnandi til niðurstöðu undirmatsgerðar varðandi alla liði nema úrbætur vegna hávaða, en sá liður er byggður á niðurstöðu yfirmatsgerðar.

Í varakröfu stefnanda er bótakrafan vegna þessa liðar 58.564.477 krónur og sundurliðast þannig:

Úrbætur til að ná æskilegu hitastigi/kælingu                                         3.600.000     kr.

Úrbætur vegna hávaða frá loftræsikerfi                                                 5.640.000     kr.

Kostnaður við að skipta út blaðlokum                                                 16.675.000     kr.

Úrbætur á náttúrulegri loftræsingu                                                         1.100.000     kr.

Kostnaður vegna rasks, óþæginda og eftirlits                                        4.470.000     kr.

Bætur vegna útlagðs kostnaðar                                                            27.079.477     kr.

Til stuðnings varakröfu sinni vísar stefnandi til niðurstöðu yfirmatsgerðar varðandi alla kröfuliði.

Þá gerir stefnandi kröfu um bætur vegna annmarka á hitakerfi að fjárhæð 57.153.519 krónur, bæði í aðal- og varakröfu, sem er sundurliðuð með eftirfarandi hætti:

Kostnaður við ný hitaelement, leiðslur og búnað í Naventa                30.350.000     kr.

Bætur vegna útlagðs kostnaðar                                                            26.803.519     kr.

Kröfuna styður stefnandi við niðurstöðu undirmatsgerðar um greiningu gallans og kostnað við úrbætur. Hvað varðar kröfuliðinn um bætur vegna útlagðs kostnaðar vísar stefnandi til þess að leigutaki fasteignarinnar, Hástoð ehf., hafi upphaflega greitt kostnaðinn en krafa þess félags hafi formlega verið framseld stefnanda hinn 16. júlí 2014.

Loks gerir stefnandi kröfu um bætur að fjárhæð 67.962.500 krónur, bæði í aðal- og varakröfu, vegna lagfæringa á gólfi en krafan er byggð á áætluðum kostnaði við að leggja dúk á gólfið ásamt kostnaði því tengdum.

Með hliðsjón af niðurstöðu dómsins og með vísan til síðari málsliðar e-liðar 114. gr. laga nr. 91/1991 er ekki þörf á að fjalla nánar um lýsingu á umfangi og eðli gallanna eða til hvaða gagna stefnandi vísar varðandi einstaka kröfuliði.

Stefnandi byggir á því að gögn málsins staðfesti að loftræsikerfi hússins, hitakerfi og gólf sé gallað í skilningi fjármuna- og kröfuréttar vegna ófullnægjandi hönnunar. Hönnunarsamningur aðila hafi falið í sér að hannað yrði fullnægjandi loftræsikerfi án verulegs hávaða í ljósi fyrirhugaðrar notkunar hússins. Hönnun kerfisins sé hvorki faglega fullnægjandi né í samræmi við viðurkenndar venjur, staðla og ákvæði laga og reglna sem gilda um mannvirki og mannvirkjagerð. Ófullnægjandi hönnun kerfisins sé vanefnd á hönnunarsamningnum frá 13. apríl 2007 og stefndu beri skaðabótaábyrgð sökum þess samkvæmt greinum 16.1 og 5(i) í sama samningi. Ljóst sé að stefndu hafi ekki uppfyllt skyldur sínar af kunnáttu, aðgát og kostgæfni í ljósi þeirra galla sem séu á loftræsikerfi hússins og verði því að bera skaðabótaábyrgð á því tjóni sem af hefur hlotist í samræmi við ákvæði samnings aðila og almennar reglur um skaðabætur innan samninga. Hafa beri í huga að stefndu hafi gefið sig út fyrir að vera sérfræðingar á sínu sviði og verði því að gera strangar kröfur til þeirra í þessu samhengi.

Stefnandi byggir kröfur sínar einnig á ákvæðum laga um fasteignakaup nr. 40/2002. Allar kröfur vegna annmarka húsnæðisins hafi fylgt kaupsamningi frá 24. janúar 2013. Telur stefnandi að annmarkar á eigninni verði að teljast til galla í skilningi l. nr. 40/2002, einkum 18. og 19. gr., og stefnandi geti því krafist skaðabóta skv. 37. gr., sbr. 43. gr., sömu laga og geti komið þeirri kröfu að gagnvart stefndu á grundvelli 45. gr. laganna.

Verði ekki talið að stefnandi eigi rétt á skaðabótum skv. framangreindu er byggt á því að að hann eigi rétt á afslætti úr hendi stefndu á grundvelli almennra reglna fjármuna- og kröfuréttar, sbr. einnig 37. gr., sbr. 41. gr., l. nr. 40/2002, en stefnandi telur að framangreindir gallar rýri verðmæti hússins verulega. Afsláttarkrafan er sömu fjárhæðar og skaðabótakrafan þar sem byggt er á því að verðmæti framlags stefndu hafi rýrnað um a.m.k. framangreinda fjárhæð.

Stefandi mótmælir því að krafa hans sé fallin niður fyrir fyrningu eða tómlæti. Stefnandi hafi sjálfur komið kröfum sínum á framfæri innan þess ábyrgðartíma sem samningurinn tilgreini. Ábyrgð hönnuða hafi verið fimm ár frá verklokum samkvæmt 17. gr. samningsins og stefndu hafi tekið tryggingu til jafnlangs tíma. Miða beri við að fimm ára fresturinn hafi hafist við lokaúttekt fasteignarinnar, 17. desember 2010. Stefnandi hafi sett fram formlega kröfu innan fjögurra ára, eða 20. maí 2014, og höfðað mál innan fimm ára frá sama degi. Þá vísar stefnandi jafnframt til þess að hann hafi eignast fasteignina í janúar 2013 og það hafi fyrst verið með skýrslu VSB verkfræðistofu, sem hafi verið skilað í maí 2014, sem hann hafi fengið vitneskju um kröfur sínar og að hverjum unnt væri að beina henni. Hann hafi þá þegar beint formlegri kröfu að stefndu og höfðað mál innan eins árs frá þeim tíma. Krafa hans sé því ekki fyrnd. Um lagarök í þessu efni vísar stefnandi til 4. mgr. 2. gr., 9. gr. og 10. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007. Þá mótmælir stefnandi því að hann hafi sýnt af sér tómlæti og vísar til áðurnefnds fimm ára tilkynningarfrests samkvæmt samningnum og þess að hann hafi haft uppi kröfu um leið og hann fékk vitneskju um hana auk þess sem hönnuðir hafi verið með í ráðum a.m.k. frá árinu 2011, þegar leitað var lausna á umdeildum vandamálum.

 

III

Stefndu byggja sýknukröfu sína, hvað Arkís arkitekta varðar, í fyrsta lagi á aðildarskorti þess stefnda. Samningur Eignarhaldsfélagsins Fasteignar ehf. um hönnun fyrstu tveggja áfanga Háskólans í Reykjavík frá 13. apríl 2007 hafi verið við stefnda Henning Larsen Architects og Arkís ehf., kt. 671197-2919. Bú hins síðarnefnda hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði héraðsdóms þann 23. nóvember 2011 og skiptum lokið 17. apríl 2012. Stefndi Arkís arkitektar ehf., kt. 531107-0550, hafi ekki verið aðili að framangreindum samningi og ekki komið að hönnuninni. Í raun hafi engin starfsemi hafist hjá þeim stefnda fyrr en eftir að hönnun á grundvelli samningsins var lokið. Stefndi Arkís arkitektar ehf. hafi ekki með neinum hætti tekið á sig hugsanlegar skuldbindingar Arkís ehf. Þegar af þeirri ástæðu geti stefnandi ekki átt neinar kröfur á hendur stefnda Arkís arkitektum ehf. og beri að sýkna hann á grundvelli aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.

Þá byggja stefndu á því að hugsanlegar kröfur stefnanda séu fyrndar eða fallnar niður fyrir tómlæti hans samkvæmt almennum reglum kröfu- og verktakaréttar.

Í 17. gr. samnings aðila sé fjallað um ábyrgðartíma og fyrningu krafna og þar sé kveðið á um hvernig eigi að koma kröfum á framfæri á grundvelli samningsins og innan hvaða tíma. Samkvæmt 17. gr. beri að höfða mál innan þess tíma sem vísað sé til og einungis málsókn fullnægi því skilyrði að vera formleg tilkynning í skilningi samningsákvæðisins. Samkvæmt sömu grein sé málshöfðunarfrestur fimm ár nema kveðið sé á um skemmri frest í lögum. Þannig sé ljóst að greininni hafi verið ætlað að stytta málshöfðunarfrest svo hann yrði aldrei lengri en fimm ár en skemmri ef svo væri mælt fyrir um í lögum. Samkvæmt 36. tölulið í sérskilmálum samningsins gildi íslensk lög um hann. Um fyrningu hugsanlegra krafna á grundvelli hans fari því að íslenskum lögum, enda mæli þau fyrir um skemmri fyrningarfrest. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 150/2007 er almennur fyrningarfrestur kröfuréttinda fjögur ár. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. sömu laga reiknast upphaf fyrningarfrests „frá þeim degi þegar kröfuhafi gat fyrst átt rétt til efnda“. Samkvæmt því sé upphaf fyrningarfrests í málinu í síðasta lagi frá verklokum. Allar kröfur vegna þess hafi því fallið niður fjórum árum síðar eða í ágúst 2014. Jafnvel þó miðað yrði við lokaúttekt hússins hefðu kröfur fallið niður 17. desember 2014. Hið sama gildi ef upphaf fyrningarfrests er miðað við þann dag er samningurinn var vanefndur, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna. Af málatilbúnaði stefnanda megi ráða að hann byggi á því að samningur um hönnun hafi verið vanefndur meðan á hönnun stóð. Stefnandi höfðaði málið með birtingu stefnu í febrúar 2015 en þá hafi allar kröfur vegna verksins verið fyrndar samkvæmt framangreindu. Ákvæði 9. gr. fyrningarlaganna um upphaf fyrningarfrests skaðabótakrafna gildi ekki um skaðabætur innan samninga og komi því ekki til álita í þessu máli.

Framangreind málsástæða um fyrningu hugsanlegra krafna byggist á því hvenær kröfurnar hafi fyrnst í allra síðasta lagi. Kröfurnar hafi hins vegar fyrnst mun fyrr. Í því efni benda stefndu á að kröfur stefnanda stafi frá a.m.k. þremur mismunandi aðilum; Eignarhaldsfélaginu Fasteign ehf., Háskólanum í Reykjavík ehf. og Hástoð ehf. Í stefnu sé hvorki gerð grein fyrir því hvenær eða hvernig stefnandi telji framangreinda framseljendur hafa eignast kröfur á hendur stefndu né hve stór hluti dómkrafna stafi frá hverjum framseljanda. Skorti þannig að viðhlítandi grein sé gerð fyrir grundvelli og stofnunartíma dómkrafna. Ljóst sé að hafi þær verið fyrir hendi hafi þær stofnast á mismunandi tíma og grundvelli. Upphafsdagur fyrningar sé því einnig mismunandi. Þar sem stefnandi hafi ekki gert grein fyrir því hvenær kröfur stofnuðust hafi stefndu ekki tök á að fjalla um fyrningartíma hverrar kröfu stefnanda. Stefndu árétti þó að allar kröfur hafi fyrnst í síðasta lagi á þeim tíma sem áður greinir.

Vegna sama óskýrleika um það hvað af dómkröfum stefnanda stafi frá hverjum framseljanda og á hvaða lagagrundvelli hver þeirra hvíli byggja stefndu á því að aðild stefnanda að málinu sé ósönnuð.

Enn fremur byggja stefndu á því að hafi stefnandi átt einhverjar kröfur á hendur stefndu, þá hafi hann glatað þeim fyrir tómlæti samkvæmt almennum reglum kröfuréttar. Hafi stefnandi talið ágalla á verki stefndu hafi honum borið að snúa sér án ástæðulauss dráttar til stefndu og veita þeim kost á að gæta hagsmuna sinna. Það hafi hins vegar ekki verið gert, svo sem fram komi í stefnu, en þar tiltaki stefnandi að annmarkar hafi komið í ljós árin 2010 til 2011. Sú háttsemi hafi ekki verið í samræmi við skyldur stefnanda gagnvart stefndu. Þeim hafi ekki verið tilkynnt um hina meintu ágalla fyrr en með bréfum 20. maí 2014, eða þremur til fjórum árum eftir að húsið hafi verið tekið í notkun og ágalla varð vart að sögn stefnanda. Sá tími sé langt umfram þann tíma sem sanngjarn eða eðlilegur geti talist í þessum efnum og með tómlæti stefnanda hafi hagsmunir stefndu verið fyrir borð bornir.

Verði ekki fallist á framangreindar málsástæður byggja stefndu sýknukröfu sína á því að stefndu hafi ekki vanefnt samning sinn. Vísa stefndu almennt til þess að ósannað sé að hönnun fasteignarinnar hafi ekki verið í samræmi við umsamdar og lögbundnar kröfur, ekki hafi verið sýnt fram á að orsakir ágalla sé að rekja til hönnunar fasteignarinnar og með öllu sé óljóst og vanreifað hver sé þáttur annarra aðila, svo sem byggingaraðila og einstakra undirverktaka. Hönnun loftræsikerfisins hafi uppfyllt umsamdar kröfur, að minnsta kosti sé ósannað að svo hafi ekki verið. Verði talið að hönnun kerfisins hafi ekki uppfyllt umsamdar kröfur byggja stefndu á því að miða eigi fjárhæð bótakröfunnar við niðurstöðu yfirmatsgerðar. Hvað ofnakerfið varðar, þá liggi fyrir að annarmarkar séu á því en þá sé ekki að rekja til ófullnægjandi hönnunar. Þá byggja stefndu á því að ekki hafi verið fylgt verklýsingu hönnuða við lagningu þess og því sé með öllu ósannað og vanreifað á hvaða forsendum stefndu geti borið ábyrgð á ástandi þess. Loks vísa stefndu almennt til þess að við hönnun byggingarinnar hafi verkkaupar lagt mikla áherslu á að kostnaður yrði sem minnstur og hafi hönnuðir tekið mið af því. Þá hafi verkkaupi í mörgum tilvikum breytt hönnunarforsendum og á því geti stefndu ekki borið ábyrgð.

Með hliðsjón af niðurstöðu málsins og með vísan til síðari málsliðar e-liðar 114. gr. laga nr. 91/1991 er ekki þörf á að rekja nánar málsástæður stefndu sem lúta að því að hönnun fasteignarinnar hafi verið forsvaranleg og í samræmi við samning aðila og sönnunaratriðum í því efni.

Loks byggja stefndu á því að sökum þess hvernig staðið var að framsali krafna frá Eignarhaldsfélaginu Fasteign til stefnanda séu ekki uppfyllt skilyrði fyrir ábyrgð stefndu á greiðslu skaðabóta eða afsláttar í málinu. Í 3. gr. í kaupsamningi, dagsettum 24. janúar 2013, komi fram að stefnandi hafi keypt fasteignina í því ástandi sem hún var í við afhendingu. Stefnandi hafi því ekki greitt neitt fyrir kröfur á hendur stefndu heldur hafi virði eignarinnar í kaupsamningi þvert á móti tekið mið af ástandi hennar. Stefnandi hafi þannig ekki orðið fyrir neinu tjóni og ekki eignast neinar kröfur á hendur seljanda um bætur eða afslátt. Geti hann því ekki átt kröfu á hendur stefndu. Með nefndu ákvæði í kaupsamningi hafi stefnandi gefið sérstaklega eftir allar kröfur sem hann hefði annars kunnað að eiga á hendur seljanda vegna ástands fasteignarinnar. Með því að stefnandi hafi gefið eftir aðalkröfuna á hendur Eignarhaldsfélaginu Fasteign, hafi slík krafa verið fyrir hendi, hafi einnig fallið niður hugsanleg krafa stefnanda á hendur stefndu samkvæmt almennum reglum kröfu- og fasteignakauparéttar. Stefnandi geti enda ekki átt betri rétt á hendur stefndu en stefnandi ætti á hendur seljanda fasteignarinnar. Samkvæmt almennum reglum kröfuréttar sé krafa stefnanda á hendur seljanda fasteignarinnar nauðsynlegur grundvöllur hugsanlegrar kröfu á hendur stefndu. Þar sem aðalkrafan sé ekki fyrir hendi sé hugsanleg afleidd krafa stefnanda á hendur stefndu því sömuleiðis fallin niður. Framangreind eftirgjöf stefnanda á hugsanlegum kröfum endurspeglist enn fremur í því að framsal krafna hafi ekki verið útbúið fyrr en 16. júlí 2014, löngu eftir að hugsanlegar kröfur vegna fasteignarinnar hafi verið fallnar niður. Eðli máls samkvæmt sé ekki með einhliða hætti hægt að endurvekja kröfur á hendur stefndu sem þegar hafi verið fallnar niður. Vísa stefndu í því sambandi til almennra reglna samninga- og kröfuréttar um stofnun samninga og brottfall kröfuréttinda auk almennra sjónarmiða kröfuréttar um framkröfur og afleiddar kröfur.

Verði ekki fallist á sýknukröfu stefndu krefjast þeir lækkunar krafna. Ef talið yrði að stefnandi ætti rétt á skaðabótum eða afslætti byggja stefndu á þeim málsástæðum að háttsemi stefnanda sjálfs hafi haft í för með sér verulegan kostnað sem komast hefði mátt hjá og geti hvorki talist vera sennileg afleiðing af hinum meintu göllum né í beinu orsakasambandi við þá. Stefndu byggja á því að háttsemi stefnanda, eftir að hann taldi sig hafa fundið ágalla á fasteigninni, hafi ekki verið í samræmi við skyldur hans gagnvart stefndu. Hafi stefnandi talið að á hönnun væru ágallar hafi honum borið að snúa sér að stefndu með þær hugmyndir án ástæðulauss dráttar og veita þeim kost á að gæta hagsmuna sinna. Stefndu telja stefnanda ekki geta krafið stefndu um þann kostnað sem háttsemi hans hafi haft í för með sér, enda sé kostnaður af völdum framgöngu stefnanda sjálfs stefndu óviðkomandi. Vísa stefndu í því sambandi til almennra reglna um tjónstakmörkun innan kröfu-, verktaka- og fasteignakauparéttar, sem og sjónarmiða um sennilega afleiðingu og orsakatengsl, sem gilda um skaðabótakröfur jafnt innan sem utan samninga.

Að endingu vísa stefndu til þess að algjörlega séu vanreifaðar og ósannaðar stefnukröfur um bætur vegna kostnaðar og óþæginda, rasks og endurhönnunar, samtals að fjárhæð yfir 30.000.000 kr. Þeim mótmæli stefndu sérstaklega, enda sé enginn grunnur fyrir þeim í samningum eða lögum og engin sönnunargögn færð fram af hálfu stefnanda um þá þætti.

 

IV

Í máli þessu hefur stefnandi uppi skaðabótakröfu innan samninga á hendur stefndu vegna ætlaðra ágalla á hönnun stefndu á byggingunni að Menntavegi 1 í Reykjavík sem hýsir nú Háskólann í Reykjavík.

Áður en til álita kemur að greiða úr ágreiningi aðila um bótakröfu stefnanda er nauðsynlegt að fjalla um málsástæður stefndu um sýknu á grundvelli aðildarskorts og fyrningar.

Stefndu byggja á því að sýkna beri stefnda Arkís arkitekta ehf. vegna þess að það félag hafi ekki verið aðili að samningi um hönnun fasteignarinnar sem sé grundvöllur bótakröfu stefnanda. Í samningnum sem gerður var 13. apríl 2007 er samningsaðili nefndur Arkís. Í samningnum er ekki að finna nánari tilgreiningu þess félags, svo sem kennitölu eða heimilisfang. Fyrir liggur að einkahlutafélagið Arkís ehf. var stofnað árið 1997. Með tilkynningu til fyrirtækjaskrár 7. desember 2010 var nafni félagsins breytt í Rekstur arkitekta og með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 23. nóvember 2011 var það félag tekið til gjaldþrotaskipta. Einkahlutafélagið Arkís arkitektar, sem var stofnað af sömu aðilum árið 2007, er hins vegar enn starfandi. Fyrirsvarsmaður Arkís ehf. í framangreindum samningi frá 13. apríl 2007 var Þorvarður Björgvinsson en hann er framkvæmdastjóri stefnda Arkís arkitekta. Af gögnum málsins má sjá að samskipti stefnanda og þeirra félaga sem áður hafa komið að byggingu Háskólans í Reykjavík eða verið eigendur eða leigjendur fasteignarinnar, hafa ýmist verið við Arkís eða Arkís arkitekta. Þrír reikningar sem gefir voru út á tímabilinu maí til desember 2010 eru ýmist gefnir út af hálfu fyrrnefnda eða síðarnefnda félagsins. Tveir þessara reikninga eru merktir kennimerki Arkís en með kennitölu Arkís arkitekta og með öðrum þeirra fylgdi tímaskýrsla frá Arkís Arkitektum en með hinum tímaskýrsla frá Arkís, en reikningarnir eru báðir fyrir vinnu sömu sérfræðinga. Þá er í bréfi stefnda Arkís arkitekta frá 12. nóvember 2014 að finna viðbrögð þess stefnda við kröfum stefnanda um bætur vegna ætlaðra galla. Það bréf er undirritað af Þorvarði f.h. Arkís arkitekta en á bréfsefni merkt Arkís og efnislega er þar að finna umfjöllun um ábyrgð Arkís, sem stefnandi hafnar að sé fyrir hendi á þeim grundvelli að sá aðili hafi að fullu efnt samninginn. Ekki er vikið að því í bréfinu að kröfunni sé beint að röngum aðila. Þá liggur fyrir að fyrirsvarsmenn Arkís voru þeir sömu og nú stýra Arkís arkitektum. Ekki verður séð að þeir hafi gert upphaflegum viðsemjendum sínum eða öðrum sem hagsmuna áttu að gæta grein fyrir því að félagið hefði skipt um nafn og síðar verið tekið til gjaldþrotaskipta. Þvert á móti verður ekki annað ráðið af gögnum málsins og vitnisburði Birgis Teitssonar, eins eigenda stefnda Arkís arkitekta, en að sá stefndi hafi í reynd gengið þannig fram að viðsemjendur hans hafi mátt ætla að félagið hefði tekist á hendur samningsskyldur Arkís ehf. Í skýrslu Birgis fyrir dómi kom einnig fram að Arkís arkitektar hefðu unnið áfram að verkefnum tengdum umræddum samningi eftir að félagið Rekstur arkitekta var tekið til gjaldþrotaskipta.

Að mati dómsins hefur stefndi með framangreindri háttsemi sinni þannig í verki tekist á herðar þá ábyrgð sem í öndverðu hvíldi á öðru félagi með líku nafni og í eigu sömu aðila, sem eins og áður greinir skipti um nafn árið 2010 og var tekið til gjaldþrotaskipta árið 2011. Með framangreindum röksemdum er hafnað málsástæðum sem lúta að aðildarskorti stefnda Arkís arkitekta ehf.

Þá verður að skilja málatilbúnað stefndu á þann veg að þeir telji aðild stefnanda vanreifaða eða að minnsta kosti meðal þeirra atriða sem dómarar eigi að taka til skoðunar án kröfu. Í því efni verður að leggja til grundvallar að stefnandi byggir mál þetta á því að honum hafi verið framseldar kröfur sem upphaflegur viðsemjandi stefndu kunni að hafa eignast á hendur þeim á grundvelli vanefnda á samningi stefndu um hönnun eignarinnar. Upphaflegur samningur er á milli Eignarhaldsfélagsins Fasteignar ehf. og stefndu. Stefnandi, sem áður hét EFF 4 ehf. og var dótturfélag Eignarhaldsfélagsins Fasteignar ehf., keypti eignina af móðurfélagi sínu 24. janúar 2013. Í kaupsamningi er tekið fram að með honum fylgi mögulegar kröfur eiganda á hendur hönnuðum. Rúmu ári síðar, eða 16. júlí 2014, framseldi móðurfélagið til stefnanda öll réttindi og skyldur samkvæmt hönnunarsamningnum, þ.m.t. allar kröfur vegna skaðabóta eða annarra krafna sem kynnu að hafa stofnast eða mundu stofnast vegna hugsanlegra galla á fasteigninni Menntavegi 1 eða að því leyti sem fasteigninni kynni að vera áfátt að öðru leyti, eins og greinir í annarri málsgrein framsalsyfirlýsingarinnar. Að mati dómsins eru framangreind gögn fullnægjandi sönnun þess að stefnandi hefur fengið mögulegar kröfur á hendur stefndu framseldar frá upphaflegum viðsemjanda þeirra og er hvorki tilefni til að vísa málinu frá dómi vegna vanreifunar á þessum þætti í kröfugerð stefnanda né heldur kemur til álita að sýkna stefndu á grundvelli aðildarskorts stefnanda. Í þessu sambandi skiptir ekki máli þótt kaupsamningur stefnanda og fyrri eiganda hússins taki mið af ástandi þess á kaupsamningsdegi. Krafan sem hér er til úrlausnar lýtur að bótakröfu viðsemjanda stefndu á grundvelli samnings þeirra um hönnun fasteignarinnar, sem stefnandi hefur fengið framselda frá upphaflegum kröfuhafa. Almennt gildir um framsal kröfu að framsalið sem slíkt hefur ekki áhrif á efni hennar, hvorki til lækkunar né hækkunar, sé á annað borð fallist á að hún hafi stofnast í upphafi og sé að öðru leyti gild þegar málið er höfðað.

Þá er sýknukrafa stefndu byggð á því að kröfur stefnanda séu fyrndar. Vísa þeir í því efni annars vegar til 17. gr. samnings aðila og viðeigandi hluta sérskilmála samningsins og hins vegar til 3. gr. fyrningarlaga nr. 150/2007, þar sem kveðið er á um fjögurra ára fyrningarfrest. Stefndu byggja á því að upphaf fyrningarfrests kröfunnar sé í síðasta lagi í ágúst 2010, sem er áætlaður verklokatími samkvæmt samningi aðila.

Ákvæði 17. gr. samnings aðila er svohljóðandi í íslenskri þýðingu: „Hvorki viðskiptavinurinn né ráðgjafinn skulu teljast bera ábyrgð á nokkru tjóni eða tapi sem stafar af hvaða atburði sem er nema krafa sé formlega sett fram gegn honum áður en viðeigandi tímamörk sem kveðið er á um í sérskilmálum hafa runnið út eða fyrr ef lög kveða svo á um.“ Í viðkomandi ákvæði sérskilmála segir: „tímalengd ábyrgðar 5 ár reiknað með frá lokum“.

Varðandi túlkun á framangreindra samningsákvæða verður að taka mið af öðrum ákvæðum samningsins og sérskilmála hans. Í enskri útgáfu samningsins er notað hugtakið „completion“ um upphaf ábyrgðartíma. Í 22. gr. er nánar kveðið á um gildistíma samningsins en þar segir að þjónusta samkvæmt honum skuli hefjast og ljúka á þeim tímum eða innan þess tímaramma sem getið sé í sérskilmálum og hönnunaráætlun með fyrirvara um framlengingar í samræmi við samninginn. Í lið 22 í viðeigandi sérskilmála segir að upphaf sé 31. október 2006 og lok (e. completion) séu samkvæmt tímaáætlun í viðauka C. Í viðauka C er tímaáætlun þar sem gert er ráð fyrir að hönnun ljúki í ágúst 2008, en verklok framkvæmda verði í ágúst 2010. Ekki er á því byggt að sá tímafrestir hafi verið framlengdir. Ekki er vafalaust hvora tímasetninguna beri að miða við upphaf fimm ára tilkynningarfrestsins en vafalaust er að hann getur ekki hafa hafist síðar en í ágúst 2010.

Hvað sem því líður framangreindri niðurstöðu dómsins verður að leggja til grundvallar úrlausn málsins að með tilvísun samningsákvæðisins til þess að skemmri frestur geti gilt, sé kveðið á um það í lögum, sé átt við fyrningarfrest krafna samkvæmt fyrningarlögum nr. 150/2007 enda er þar að finna almennar reglur um líftíma krafna. Þá verður jafnframt að leggja til grundvallar að reglur þeirra laga um upphaf og slit fyrningar gildi enda ekki með skýrum hætti samið um annað.

Almennur fyrningarfrestur samkvæmt 3. gr. fyrningarlaga er fjögur ár, eða einu ári skemmri en tilkynningarfrestur 17. gr. samningsins. Um upphaf fyrningarfrests verður að líta til þess að málatilbúnaður stefnanda er fyrst og fremst á því reistur að stefndu beri skaðabótaábyrgð á tjóni hans á grundvelli reglna um skaðabætur innan samninga vegna ætlaðra vanefnda á samningi um hönnun byggingarinnar frá 13. apríl 2007. Fyrningarfrestur krafa sem stofnast vegna vanefnda reiknast frá þeim degi þegar samningurinn er vanefndur, sbr. 2. mgr. 2. gr. fyrningarlaga. Stefnandi byggir málssókn sína ekki á því að um skaðabótakröfu utan samninga sé að ræða og því kemur ekki til frekari skoðunar ákvæði 1. mgr. 9. gr. sömu laga um upphafstíma skaðabótakrafna enda er alveg skýrt af lögskýringargögnum að það ákvæði á ekki við um bótakröfur vegna vanefnda samninga.

Við mat á því við hvaða tímamark beri að telja að vanefndir hafi orðið verður að líta til þess að þótt sú þjónusta sem innt var af hendi hafi að mestu leyti farið fram á árunum 2006 til 2008 þá er það ekki fyrr en að loknum byggingarframkvæmdum sem í raun er unnt að staðreyna hvort tjón hafi orðið sem rekja megi til hönnunargagna. Af þeim sökum getur upphaf fyrningarfrests ekki verið fyrr en þegar lokið var við að reisa bygginguna á grundvelli þeirra hönnunargagna sem byggt er á að feli í sér vanefnd. Húsið var byggt á árunum 2008 til 2010 og lokaúttekt byggingarfulltrúa fór fram 17. desember 2010. Með hliðsjón af þeim rökum sem að framan eru rakin verður við það miðað að sá dagur marki upphaf fyrningarfrests kröfunnar. Stefnandi höfðaði mál þetta með stefnu birtri 9. febrúar 2015 og var þá þegar liðinn fyrningarfrestur samkvæmt 3. gr., sbr. 2. mgr. 2. gr., laga nr. 150/2007. Ekki er fallist á þá málsástæðu stefnanda að kröfubréf hans til stefndu í maí 2014 geti rofið fyrningu, sbr. 1. mgr. 15. gr. fyrningarlaga.

Stefnandi byggir á því, hvað sem líði almennum reglum um fyrningarfrest, að viðbótarfrestur skv. 10. gr. sömu laga eigi við í máli þessu og krafan sé því allt að einu ekki fyrnd. Í nefndri grein fyrningarlaganna segir að hafi kröfuhafi ekki uppi kröfu sökum þess að hann skorti nauðsynlega vitneskju um kröfuna eða skuldarann, þá fyrnist krafa hans aldrei fyrr en einu ári eftir þann dag þegar kröfuhafi fékk eða bar að afla sér slíkrar vitneskju. Stefnandi byggir á því að hann hafi skort þessa vitneskju um kröfuna og skuldarann allt fram til þess tíma er VSB verkfræðistofa lauk skýrslu um ástand og orsakir annmarka fasteignarinnar í maí 2014. Stefndu hafi verið send formleg krafa síðar í sama mánuði og málið höfðað innan árs frá því að stefnanda barst skýrslan.

Dómurinn fellst ekki á framangreinda málsástæðu stefnanda. Svo sem rakið er í atvikalýsingu dómsins, þá komu í ljós ýmiss konar ágallar á loftræsi- og hitakerfi byggingarinnar þá þegar er hún var tekin í notkun á árinu 2010. Hvað varðar þau vandamál má sjá af fyrirliggjandi minnisblöðum og fundargerðum frá Eflu, sem sá um eftirlit með framkvæmdum, frá árunum 2010 og 2011, og getið er um í atvikalýsingu dómsins, að þegar á árinu 2010 beindu aðilar sjónum sínum m.a. að hönnun loftræsikerfisins þótt önnur vandamál, svo sem gallar í stjórnkerfi þess, hafi einnig valdið vanda og gert greiningu orsaka örðuga. Þá sneri þáverandi eigandi fasteignarinnar sér fljótlega til Mannvits, sem hannaði loftræsikerfið, og var í samvinnu við þann aðila leitað orsaka og reynt að bæta úr vanköntum. Minnisblöð og skýrslur Mannvits frá sama tímabili bera þess glögg merki að þáverandi eigandi taldi mögulegt að orsakir vandamála lægju í hönnun loftræsingarinnar. Þá liggur fyrir ítarlegt minnisblað frá Eflu, dagsett 19. desember 2012, þar sem því er lýst að þá hafi stjórnkerfi flæðiloka verið komið í lag en afköst kerfisins séu enn ófullnægjandi. Af umfjöllun og niðurstöðu minnisblaðsins verður ekki önnur ályktun dregin en að höfundar þess telji að annmarka á loftræsikerfinu sé að leita í hönnun þess og þeim forsendum sem lagðar voru til grundvallar hönnuninni. Mannvit gerði ýmsar athugasemdir við þessa niðurstöðu sem er að finna á minnisblaði dagsettu 5. febrúar 2013.

Í inngangi framangreindrar skýrslu VSB verkfræðistofu segir að stuðst sé við upplýsingar af minnisblaði Eflu frá 19. desember 2012 og minnisblöðum frá Mannviti, dagsettum 28. ágúst (á líklega að vera júní) 2011 og 5. febrúar 2013. Þá er gerð grein fyrir því að niðurstaða skýrslunnar, að því er varðar ætlaða galla á loftræsikerfi, byggist á virknimælingum sem gerðar hafi verið til að sannreyna á tölfræðilegan hátt að kerfið nái þeim gildum sem hönnun tilgreinir. Stefnandi hefur ekki útskýrt eða rökstutt hvers vegna honum hafi ekki verið unnt að gera þá rannsókn á fyrri stigum málsins en svo sem áður hefur verið greint frá risu vandamál tengd loftræsikerfinu um leið og það var tekið í notkun og fyrirliggjandi minniblöð og fundargerðir úttektarfunda taka af allan vafa um það að vitneskja um mögulega galla lá þegar fyrir á fyrsta ári eftir að byggingin var tekin í notkun. Þá má einnig slá því föstu að þegar á árinu 2012, eftir að minnisblað Eflu frá 19. desember það ár lá fyrir og enn frekar eftir að Mannvit gerði athugasemdir við niðurstöðu þess í febrúar 2013, hafi verið fullt tilefni til að afla þeirrar vitneskju sem talin var nauðsynleg til að fylgja eftir kröfum gagnvart stefndu.

Hvað ofnakerfið varðar þá liggur jafnframt fyrir að greint er frá vandamálum í upphafi árs 2010 og í kjölfar ítarlegrar skoðunar á kerfinu var gripið til umfangsmikilla ráðstafana til að reyna að ráða bót á þeim. Liggur fyrir fjöldi minnisblaða og skýrslna um ástand ofnakerfisins frá árunum 2010 til 2012. Í nóvember 2013 var kerfinu varanlega breytt úr lokuðu kerfi í gegnumstreymiskerfi. Niðurstaða yfirmatsmanna var sú að ofnakerfið hefði frá öndverðu verið haldið göllum og væri það enn þrátt fyrir framangreindar breytingar en jafnframt er það niðurstaða yfirmatsmanna að þessa galla sé ekki að rekja til ófullnægjandi hönnunar. Hvað sem þessari niðurstöðu yfirmatsmanna líður verður því að minnsta kosti slegið föstu með þessum dómi að fullnægjandi upplýsingar hafi legið fyrir, eða tilefni hafi verið til að afla þeirra, áður en fyrningarfrestur kröfunnar var úti. Nægir að benda á að 30. nóvember 2013 var ákveðið að breyta kerfinu varanlega í gegnumstreymiskerfi. Til grundvallar þeirri ákvörðun lágu umfangsmiklar rannsóknir á ofnakerfinu, m.a. skýrsla sérfræðings frá verkfræðistofu VSB frá 21. sama mánaðar, þar sem segir að ekki sé hægt að nota kerfin áfram eins og þau voru hönnuð, og skýrsla Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands frá 25. október s.á. um ástand lagna.

Hvað sprungumyndun í gólfi varðar þá liggur fyrir að sprungur fóru að koma í ljós mjög fljótlega eftir að byggingin var tekin í notkun. Fyrirmæli hönnuða um framkvæmd þessa verkþáttar lágu fyrir allt frá því að hönnunargögn voru unnin. Stefnandi hefur ekki fært nein haldbær rök fyrir því hvers vegna ekki var unnt að krefja stefndu um bætur vegna vanefnda ef hann taldi hönnunarlýsingu ófullnægjandi þá þegar er í ljós kom að sprungur á gólfinu voru meiri en stefnandi taldi ásættanlegt.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það mat dómsins að stefnandi og sá sem framseldi honum kröfur sínar á hendur stefndu hafi haft nauðsynlega vitneskju eða borið að afla sér slíkrar vitneskju um orsakir allra þeirra galla sem bótakrafa hans er reist á í síðasta lagi á árinu 2013. Er af þessum sökum hafnað þeirri málsástæðu stefnanda að eins árs viðbótarfresturinn sem kveðið er á um í 10. gr. fyrningarlaga haggi þeirri niðurstöðu dómsins að krafa stefnanda var fyrnd þegar málið var höfðað.

Að endingu skal þess getið að dómurinn telur ekki koma til álita að miða upphafsdag fyrningar við tímamark sem kveðið er á um í 4. mgr. 2. gr. fyrningarlaga en stefnandi vísar einnig til þess lagaákvæðis til stuðnings þeirri málsástæðu að krafan sé ófyrnd. Málatilbúnaður stefnanda er í meginatriðum reistur á almennum reglum kröfuréttar um skaðabætur vegna vanefnda samnings. Framangreint ákvæði fyrningarlaga getur því aðeins komið til skoðunar að krafan sé byggð á ábyrgðaryfirlýsingu sem veitir kröfuhafa meiri rétt en hann ætti samkvæmt almennum reglum. Slík aðstaða er ekki uppi í þessu máli og ekki á því byggt að 17. gr. samnings aðila feli í sér slíka aukna ábyrgð.

Framangreind niðurstaða dómsins byggist á því að bótakrafa stefnanda sé reist á vanefnd samnings við stefndu um hönnun byggingarinnar. Stefnandi reisir kröfu sína einnig á vanefndaúrræði á grundvelli laga nr. 40/2002 um fasteignakaup og vísar í því efni til þess að eignin sé gölluð í skilningi 18. og 19. gr. þeirra laga og það veiti honum rétt til skaðabóta eða afsláttar á grundvelli þeirra laga, sbr. 37., 41. og 43. gr. laganna. Byggir stefnandi á því að hann geti beint kröfu að stefndu á grundvelli 45. gr. sömu laga, þar sem fjallað er um svokallaðar sprangkröfur. Hvað þessa málsástæðu varðar skal tekið fram að til þess að til álita komi að stefnandi hafi eignast kröfu á hendur stefndu á grundvelli 45. gr. laga um fasteignakaup verður sú frumforsenda að vera fyrir hendi að sá sem framseldi honum kröfuna hafi verið unnt að reisa kröfu á hendur stefndu á grundvelli laga nr. 40/2002 um fasteignakaup. Um gildissvið laganna segir í 1. gr. þeirra að þau eigi við um fasteignakaup og enn fremur um kaup á eign þegar seljandi á að annast smíði hennar í heild eða að hluta. Stefndu voru hvorki seljendur né aðilar sem sáu um byggingu fasteignarinnar. Af þeim sökum geta ábyrgðar- og skaðabótareglur þeirra laga ekki átt við í lögskiptum þessa máls. Kemur því ekki til frekari skoðunar hvort ákvæði þeirra laga geti breytt þeirri niðurstöðu að krafan sé fyrnd.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða dómsins að kröfur stefnenda séu fyrndar og beri af þeim sökum að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda. Er af sömu ástæðu ekki þörf á að taka afstöðu til annarra málsástæðna stefndu, umfram það sem þegar hefur verið gert. Þá verður stefnanda gert að greiða báðum stefndu málskostnað, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Við ákvörðun um fjárhæð hans er litið til umfangs málsins, gagnaöflunar, þ.m.t. öflunar yfirmatsgerðar, og fjárhæðar umkrafinna skaðabóta, en jafnframt til þess hagræðis sem stefndu hafa haft af því að halda sameiginlega uppi vörnum byggðum að mestu leyti á sömu málsástæðum. Er málskostnaður hæfilega ákveðinn 2.800.000 krónur til hvors um sig.

Dóminn kveða upp Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari og dómsformaður og meðdómsmennirnir Magnús Þór Jónsson vélaverkfræðingur og Jón Ágúst Pétursson byggingartæknifræðingur. Gætt var ákvæðis 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.

 

D Ó M S O R Ð :

Stefndu, Arkís arkitektar ehf. og Henning Larsen Architects AS, eru sýknir af kröfu stefnanda, Grunnstoðar ehf. Stefnandi greiði stefndu hvorum um sig 2.800.000 krónur í málskostnað.

 


Ingibjörg Þorsteinsdóttir

Magnús Þór Jónsson

Jón Ágúst Pétursson