- Afréttur
- Hefð
- Þjóðlenda
D Ó M U R
Héraðsdóms Norðurlands eystra
föstudaginn 11. nóvember í máli nr. E-35/2010:
Jóhann H. Jónsson
(Friðbjörn Eiríkur Garðarsson hrl.)
gegn
Íslenska ríkinu
(Edda Björk Andradóttir hrl.)
Mál þetta, sem var dómtekið 1.
nóvember sl. var höfðað 20. janúar 2010.
Stefnandi er Jóhann H. Jónsson,
Stóradal, Eyjafjarðarsveit.
Stefndi er íslenska ríkið.
Stefnandi krefst þess að felldur
verði úr gildi úrskurður óbyggðanefndar í máli nr. 2/2008, Eyjafjarðarsveit
vestan, dagsettur 19. júní 2009, að því leyti sem hann varði þjóðlendu á landsvæði
innan neðangreindra marka:
Frá grjótgarði þeim sem liggur á móts
við Kambfell er dregin lína til suðausturs í Mælifellshnjúk og þaðan til
suðvesturs á milli þriggja tinda, í 1178, 1041 og 1184 m hæð yfir sjávarmáli.
Frá hinum syðsta þessara tinda er miðað við vatnaskil að sveitarfélagamörkum
Eyjafjarðarsveitar gagnvart Akrahreppi. Áðurnefndur grjótgarður er einnig
viðmið til norðausturs, þar sem Djúpadalsá er fylgt þaðan og niður að ármótum
við Strjúgsá. Síðan er Strjúgsá fylgt upp að ármótum við Sneisará og svo
Sneisará áfram, eins langt sem hún nær. Þegar ánni sleppir er miðað við
kröfulínur gagnaðila ríkisins vegna Stóradals, allt að sveitarfélagamörkum
Eyjafjarðarsveitar gagnvart Akrahreppi. Á milli framangreindra punkta á
sveitarfélagamörkum er miðað við þau mörk.
Stefnandi krefst og viðurkenningar á
því að innan framangreindra merkja sé engin þjóðlenda.
Til vara er þess krafist að felldur
verði úr gildi úrskurður óbyggðanefndar í málinu Eyjafjarðarsveit vestan, 19.
júní 2009, að því er varðar þjóðlendu innan neðangreindra marka:
Frá grjótgarði þeim sem liggur á móts
við Kambfell út í Djúpadalsá en ánni fylgt þaðan og niður að ármótum við
Strjúgsá. Síðan er Strjúgsá fylgt upp að ármótum við Sneisará.
Stefnandi krefst og viðurkenningar á
því að innan framangreindra merkja sé engin þjóðlenda.
Í báðum tilvikum er krafist
málskostnaðar úr hendi stefnda eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Stefndi krefst sýknu og
málskostnaðar, en til vara sýknu og að málskostnaður falli niður.
I
Með bréfi dagsettu 29. mars 2007
tilkynnti óbyggðanefnd fjármálaráðherra f.h. stefnda að hún hefði ákveðið að taka
til meðferðar tiltekið landsvæði á Norðurlandi, hið sjöunda í röðinni hjá
nefndinni. Að ósk ráðherra var umfjöllun skipt, þannig að fyrst yrði einungis
syðri hluti þess til meðferðar. Fékk sá hluti, vestanvert Norðurland, syðri
hluti, númerið 7A. Fjallaði nefndin um hann og fleira í máli nr. 2/2008,
Eyjafjarðarsveit vestan Eyjafjarðarár. Kröfulýsingar stefnda voru sendar
óbyggðanefnd 14. mars 2008. Gerði stefndi kröfu um að viðurkennt yrði sem þjóðlenda
nánar tiltekið svæði, þ.á m. það sem hér er til umfjöllunar. Nefndin birti
tilkynningu um meðferð á svæðinu í Lögbirtingablaði 28. mars 2008 og síðan í
fleiri blöðum. Stefnandi sem er þinglýstur eigandi Stóradals gerði kröfu um að
nefndin hafnaði kröfum stefnda og viðurkenndi eignarrétt hans að öllu landi
jarðarinnar innan þinglýstra merkja.
Hinn 19. júní 2009 kvað nefndin upp
úrskurð í máli nr. 2/2008. Var niðurstaða hennar að á svæðinu ætti að vera
þjóðlenda í afréttareign stefnanda sem eiganda Stóradals.
II
Stefnandi kveðst telja landið
eignarland í skilningi 1. gr. laga nr. 58/1998, þar sem eignarland sé
skilgreint þannig að eigandi fari með öll venjuleg eignarráð innan þeirra marka
sem lög segi til um á hverjum tíma.
Stefnandi kveðst halda því fram að
hið umdeilda svæði hafi verið hluti landnáms Helga hins magra og hafi það verið
staðfest í úrskurði óbyggðanefndar. Samkvæmt Landnámu hafi Djúpadalslönd, á
milli Skjálgdalsár og Háls, fylgt Þóru dóttur Helga, þegar hún hafi verið gefin
Gunnari Úlfljótssyni. Þau hafi búið í Djúpadal.
Stefnandi kveðst byggja á því að hið
umdeilda land hafi frá öndverðu fylgt jörðinni og notið stöðu jarðar að lögum.
Telji hann það hafa verið meginforsendu fyrir niðurstöðu óbyggðanefndar að
jörðin Litlidalur sé á milli umdeilds og óumdeilds lands. Virðist sem nefndin
hafi ekki tekið tillit til þess að hið umdeilda land hafi verið hluti
landnámsjarðarinnar Djúpadals, en við landskipti hafi mál skipast þannig að
einstakar jarðir innan torfunnar séu tvískiptar og skýrist það af landsháttum.
Telur hann að væru landsvæðin ekki aðgreind hefði niðurstaða nefndarinnar orðið
sér í hag. Tekur hann fram að raunar virðist svo sem landsvæði, sem hafi verið
úrskurðuð þjóðlendur á svæði 7A, séu öll því marki brennd að vera aðskildir
hlutar jarða og virðist sem það eitt og sér nægi til þess að land sé úrskurðað
þjóðlenda, jafnvel þó heimildir um eignarhald og nýtingu hafi í sumum tilfellum
verið að minnsta kosti jafn góðar og þær sem hafi verið til umfjöllunar í máli
Hæstaréttar nr. 448/2006, þar sem rétturinn hafi komist að því að Stórhöfði í
Mýrdal hafi verið háður beinum eignarrétti sem heiðaland jarðar, allt frá
landnámi.
Þá sé í tilfelli Leynings í
Eyjafjarðarsveit til dómur frá 1571, þar sem segi um Leyningsdal að ,,...þessi
dalur sem hjá Leyningi liggur og selið í stendur hafi verið haldinn lögleg eign
jarðarinnar oft nefnds Leynings aðkallslaust og átölulaust meira en í sextíu
ár, eður mun lengur, því allt í guðs nafni amen og eftir þessum vitnum svo og
að öllu svo prófuðu máli og fyrir mig komnu þá úrskurða ég nú með ljósum
lagaverknað þennan dal er selið frá Leynings jörðu í stendur, löglega eign oft
nefndrar jarðar Leynings.“ Segi í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns
frá 1712 að jörðin Leyningur eigi selstöðu með tilliggjandi landi á
Leyningsdal, sem liggi fram frá Villingadalslandi fyrir framan Svartá. Segir
stefnandi að sömu tilgreiningu sé að finna í Jarðabókinni um hið umdeilda land,
þ.e. selstöðu með tilliggjandi landi. Kveðst stefnandi halda því fram að slík
tilgreining taki til þess að landið þar sem selið standi sé beinum eignarrétti
undirorpið, sbr. dóm Landsyfirréttar í máli nr. 11/1896 um Hellistungur í
Borgarfirði.
Þá kveðst stefnandi einnig vísa til
þess að stefndi hafi fallið frá kröfum varðandi Hóladal/Steinsstaðadal undir
meðferð máls nr. 3 á svæði 7A, en hann sé aðskilinn frá heimajörðinni af landi
Þverár.
Samkvæmt þessu telur stefnandi að
úrskurður óbyggðanefndar sé í ósamræmi við dóm Hæstaréttar í máli nr. 448/2006,
jafnræðisreglu og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar.
Stefnandi tekur fram að
fyrirliggjandi heimildir beri allar með sér að hið umdeilda land hafi alla tíð
fylgt jörðinni við aðilaskipti og ekki hafi verið gerður greinarmunur á því og
öðru landi hennar. Hafi það verið metið til verðs, greidd af því tíund og síðar
fasteignaskattur. Sé það afmarkað í landamerkjabréfum sem hafi verið gerð fyrir
jörðina og sé því mótmælt að um annað en landamerkjabréf fyrir jörð sé að ræða.
Eigandi Kambfells hafi skrifað upp á landamerkjabréf jarðarinnar og telur
stefnandi það staðfesta að lönd jarðanna hafi náð saman.
Þá segir stefnandi að óbyggðanefnd
virðist ganga út frá því að hið umdeilda landsvæði hafi verið samnotaafréttur
frá fornu fari. Kveðst stefnandi mótmæla þessu með vísan til fyrrnefndra gagna,
auk svars hreppstjóra Saurbæjarhrepps við fyrirspurn félagsmálaráðuneytisins,
dags. 8. janúar 1990, sem og skrá yfir afrétti í Saurbæjarhreppi sem liggi
frammi í málinu. Ekkert í þessum gögnum bendi til þess að um samnotaafrétt hafi
verið að ræða, heldur þvert á móti.
Einnig segir stefnandi að
óbyggðanefnd vísi til þeirra almennu röksemda að hið umdeilda land sé
misjafnlega gróið og hluti þess sé gróðursnautt. Kveðst hann minna á að
staðhættir og gróðurfar sé með öðrum hætti en þegar landið hafi verið tekið til
eignar.
Þá segir stefnandi að litið hafi
verið til þess í sambærilegum málum að réttmætar væntingar eiganda um
eignarrétt sinn, eins og þær sem að framan greini, njóti verndar 72. gr.
stjórnarskrárinnar, sbr. einnig 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu,
sbr. lög nr. 62/1994. Verði eigandi ekki sviptur þeim fjárhagslegu hagsmunum
sem nánar greini í umræddum eignarréttarákvæðum. Athugasemdir við frumvarp sem
hafi orðið að lögum nr. 58/1998 beri skýrlega með sér að það hafi ekki verið
ætlun löggjafans að svipta landeigendur eignarheimildum sem þeir hafi aflað og
notið athugasemdalaust um aldalangt skeið, með því að gera þeim að sýna fram á
órofna sögu eignarréttar frá landnámi og láta þá bera hallann af vafa um þetta
efni. Stefnandi hafi þannig í gegnum tíðina haft réttmætar ástæður til að ætla
að land innan þinglýstra landamerkja jarðarinnar væri undirorpið fullkomnum
eignarrétti og hafi aðgerðir stefnda fram til þessa aðeins styrkt landeigendur
í þeirri trú.
Samkvæmt öllu framangreindu séu þeir
annmarkar á úrskurði óbyggðanefndar að varði ógildingu hans.
Varakröfuna kveðst stefnandi byggja á
sömu málsástæðum og lagarökum og aðalkröfuna. Munurinn á umfangi krafnanna
skýrist af því að varakrafan taki einungis til lands eyðijarðarinnar Mælifells.
Kveðst stefnandi staðhæfa að land þeirrar jarðar hafi verið beinum eignarrétti
undirorpið frá öndverðu, sem hluti Djúpadalstorfunnar og komist í eigu
Stóradals einhvern tíma fyrir árið 1712. Byggir hann á því að heimildir frá
árinu 1775 og 1780 taki af allan vafa um að Mælifell hafi frá öndverðu notið
stöðu jarðar að lögum. Árið 1780 hafi verið skorað opinberlega á hreppsbúa að
taka Mælifell til ábúðar, sem og jörðina Víðines á grundvelli ákvæða
tilskipunar um fríheit fyrir þá sem vildu taka upp eyðijarðir eða óbyggð pláss
á Íslandi. Áskorun af þessu tagi geti einungis hafa komið frá eigendum
jarðarinnar, þar sem allt annan og ólíkan formála hafi þurft til að byggja
jarðir í eigendalausu landi, afréttum eða almenningum. Eignarréttarleg staða
Víðiness sem hafi verið auglýst samtímis, staðfesti þann skilning stefnanda að
Mælifell hafi þá sem nú notið stöðu jarðar að lögum.
Stefnandi kveðst byggja á því að lög
nr. 58/1998 verði ekki skýrð á þá leið að hann þurfi að sýna frekar fram á, en
þegar hafi verið gert, að umrætt landsvæði sé eignarland og þar með utan
þjóðlendu. Ekki ráði úrslitum í þessu máli þótt víða í heimildum sé notað orðið
afréttur um hið umdeilda land. Afréttur geti verið heimaafréttur og ekki
eingöngu notaður til sumarbeitar sauðfjár. Þá ráði ekki úrslitum um eignarhald
þótt land sé aðeins notað til sumarbeitar.
Stefnandi kveðst vísa til þess að
stefndi hafi ekki sýnt fram á að hann eigi nokkurn rétt til umrædds
landssvæðis. Til að stefndi geti öðlast þann rétt sem sé skilgreindur í
þjóðlendulögum verði að sýna fram á að heimildir um landamerki séu rangar og
sömuleiðis þinglesnar landamerkjaskrár, en það hafi hann á engan hátt gert. Þá
þurfi stefndi að sýna fram á að afréttur sé samnotaafréttur en ekki
einkaafréttur eða hluti jarðar, sem hann hafi ekki gert og hafi það mikið að
segja við ákvörðun um inntak eignarréttarins.
Stefnandi kveðst byggja á því að
verði eignarréttur hans ekki viðurkenndur á grundvelli þinglýstra
eignarheimilda hafi hann öðlast eignarrétt að hinu umdeilda landsvæði fyrir
hefð og vísar hann til 1. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 6. gr. laga nr. 46/1905.
Stefnandi og fyrri eigendur hafi í góðri trú haft öll umráð landsins í
aldaraðir. Fullnægt sé öllum skilyrðum um hefðartíma, virk umráð og huglæga
afstöðu. Samkvæmt því verði að telja, án tillits til uppruna og sögu
eignarheimilda fyrir jörðinni að hefð hafi unnist, sbr. 2. gr. laga nr.
46/1905. Með hliðsjón af afstöðu eigenda á hverjum tíma og nýtingar þeirra
verði að telja að sú hefð hafi verið til eignar á landinu en ekki aðeins náð
til takmarkaðra afnota eða ítaksréttinda.
Stefnandi vísar til 25. og 26. gr.
laga nr. 39/1978, 72. gr. stjórnskipunarlaga, sbr. 1. gr. 1. viðauka
mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá er vísað til óskráðra
reglna eignarréttar um beinan eignarrétt, 1. gr. laga nr. 58/1998 og 1. gr.
laga nr. 41/1919 um landamerki, sbr. eldri lög um sama efni. Þá er vísað til
laga nr. 14/1905, venjuréttar, meginreglna einkamálaréttarfars um sönnunargildi
dóma, sbr. nú 116. gr. laga nr. 1991 og málsmeðferðarreglna stjórnsýsluréttar,
sbr. lög nr. 371993.
III
Stefndi kveðst aðallega byggja á því
að landsvæði sem þetta mál varðar og hafi verið nefnt ,,afréttur Stóradals“,
eða ,,Djúpidalur utan grjótgarðs“, sé svæði utan eignarlanda og teljist því
þjóðlenda í samræmi við úrskurð óbyggðanefndar, sbr. 1. og 2. gr. laga nr.
58/1998. Telur hann ljóst af heimildum að svæðið hafi aldrei verið undirorpið
beinum eignarrétti og að nýting þess hafi ekki verið með þeim hætti. Hvíli
sönnunarbyrði á stefnanda um annað.
Þá tekur stefndi fram að óbyggðanefnd
hafi byggt úrskurð sinn á umfangsmikilli upplýsingaöflun og rannsóknum. Sé
niðurstaðan byggð á kerfisbundinni leit nefndarinnar að gögnum og á framlögðum
skjölum frá málsaðilum. Þá hafi verið byggt á skýrslum sem hafi verið gefnar
fyrir nefndinni. Hafi óbyggðanefnd talið að svæðið væri þjóðlenda og úrskurðað
að ,,Djúpidalur utan grjótgarðs“ væri í afréttareign stefnanda.
Kveðst stefndi styðja sýknukröfu við
niðurstöður nefndarinnar auk annarra málsástæðna sinna.
Stefndi vísar til þess að í tveimur
landamerkjabréfum fyrir Stóradal sé lýst tveimur aðskildum landsvæðum, þar af
sé annað austan Djúpadalsár og sé það hið umdeilda svæði í þessu máli. Þótt
svæðið sé innan lýstra merkja beri við mat á gildi slíkra bréfa að gæta að því
að þau feli fyrst og fremst í sér lýsingu merkja milli eigna, en í því felist á
engan hátt að allt land innan merkja skuli vera óskorað eignarland. Þrátt fyrir
að bréfinu hafi verið þinglýst, sé ekki hægt að þinglýsa meiri rétti en viðkomandi
eigi. Með því að gera landamerkjabréf hafi menn ekki getað einhliða aukið við
land sitt eða annan rétt, sbr. m.a. niðurstöðu Hæstaréttar Íslands í málinu nr.
48/2004.
Þá segir stefndi að almennt skipti
það máli hvort um sé að ræða jörð í eignarréttarlegum skilningi, eða annað
landsvæði. Þekkt sé að landamerkjabréf hafi ekki eingöngu verið gerð fyrir
jarðir, heldur einnig önnur svæði, svo sem afréttarsvæði, sem ekki tengist
sérstaklega tiltekinni jörð. Almennt feli landamerkjabréf fyrir jörð í sér
ríkari sönnun fyrir því að um eignarland sé að ræða, þó með hliðsjón af eldri
heimildum, enda verði við slíkt mat að meta gildi hvers landamerkjabréfs
sérstaklega. Þar sem landamerkjabréf kunni að afmarka óbein eignarréttindi,
ekki síður en bein, mótmæli stefndi þeirri málsástæðu að áritun eigenda
Kambfells á landamerkjabréf Stóradals feli í sér sönnun um að land jarðarinnar
Stóradals hafi legið að Kambfelli. Við mat á gildi landamerkjabréfanna verði að
horfa til þess að ágreiningssvæðið sé landfræðilega aðskilið frá jörðinni
Stóradal og afmarkað sérstaklega í landamerkjabréfunum. Telur stefndi að slíkt
dragi úr líkum á að hið aðskilda svæði sé háð beinum eignarrétti.
Þá bendir stefndi á að því sé ekki
lýst í Landnámu hversu langt inn til lands landnám á þessu svæði hafi náð.
Verði að teljast ólíklegt að umdeilda svæðið hafi verið numið í öndverðu,
einkum með hliðsjón af staðháttum gróðurfari, víðáttu og því að það er hálent.
Í samræmi við dómafordæmi teljist
heimildarskortur um þetta leiða til þess að álitið verði ósannað að heiðalönd
eða öræfasvæði hafi verið numin í öndverðu. Verði af dómafordæmum ráðin sú
regla að að sé deilt um upphaflegt nám lands verði aðeins stuðst við glöggar
landfræðilegar heimildir, en heimildarskortur leiði til þess að álitið verði
ósannað að slík svæði hafi verið numin í öndverðu. Hvíli sönnunarbyrðin um
slíka stofnun eignarréttar á þeim sem haldi henni fram.
Ekki verði annað ráðið af heimildum
en að svæðið hafi eingöngu verið nýtt með afar takmörkuðum hætti. Þá séu
dalirnir sem liggi að ágreiningssvæðinu þjóðlendur, bæði að norðvestanverðu og
suðaustanverðu samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar.
Verði talið að svæðið hafi verið
numið í öndverðu hafi það ekki verið numið til eignar, heldur eingöngu til
takmarkaðra nota, svo sem afréttarnota. Frá upphafi Íslandsbyggðar hafi menn
ekki eingöngu helgað sér landsvæði sem hafi verið háð beinum eignarrétti,
heldur einnig ítök, afrétti og öll önnur réttindi sem einhverja þýðingu hafi
getað haft fyrir afkomu þeirra. Meðan landsvæði hafi gefið eitthvað af sér hafi
legið hagsmunir til að halda við merkjum réttindanna, hvers eðlis sem þau hafi
verið.
Verði hins vegar talið að svæðið
kunni að hafa að hluta eða öllu leyti verið innan landnáms eða undirorpið
beinum eignarrétti, kveðst stefndi byggja á til vara, að allar líkur séu á því
að slíkt eignarhald hafi fallið niður, en svæðið hafi verið tekið til
takmarkaðra nota, svo sem afréttarnota. Þó að talið yrði að til beins
eignarréttar hafi stofnast í öndverðu, liggi ekkert fyrir um að sá réttur hafi
haldist í gegnum aldirnar.
Engin gögn sé um það að finna að
svæðið hafi nokkru sinni verið nýtt til annars en sumarbeitar fyrir búfé. Í
úrskurði óbyggðanefndar komi fram sú afstaða nefndarinnar að af heimildum megi
ráða að ágreiningssvæðið hafi haft stöðu afréttar samkvæmt þeirri
eignarréttarlegu flokkun lands sem almennt hafi verið miðað við fram að
gildistöku þjóðlendulaga. Stefndi kveðst sammála þeirri afstöðu og telur það
benda til að svæðið hafi einungis verið undirorpið óbeinum eignarréttindum.
Sýni heimildir að réttindasvæði á Djúpadal hafi frá fornu fari skipst milli
Djúpadals/Stóradals annars vegar og Saurbæjar hins vegar. Yngri heimildir sýni
að mörk þar á milli liggi að norðaustanverðu um grjótgarð sem liggi til austurs
upp frá Djúpadalsá gegnt Kambfelli, sbr. m.a. landamerkjabréf Stóradals. Í
þessu máli sé deilt um ,,Djúpadal utan Grjótgarðs“. Stefndi vísar til þess að
jarðamat 1804 segi að Stóridalur eigi afrétt sem tvær aðrar jarðir nýti sér
yfir sumartímann. Auk þess tilheyri eyðihjáleigan Mælifell jörðinni. Þá komi
fram í jarðamati 1849 að Stóridalur eigi selstöðu í afréttinum Djúpadal þar sem
eyðihjáleigan Mælifell hafi eitt sinn staðið og Ytra og Syðra- Dalsgerði eigi
ítak ásamt Stóradal í afréttinn. Eigi bæði Dalsgerðin selstöðu á Djúpadal og
frían upprekstur á afrétt. Þá segi fasteignamatið 1916-1918 að Stóradal fylgi
afrétturinn ,,Þverdalur“ og hálfur Djúpidalur. Tvær aðrar jarðir eigi þar
upprekstur fyrir geldfé og trippi.
Stefndi kveðst telja að ekki verði
ráðið af landamerkjabréfum Stóradals að ágreiningssvæðið hafi haft stöðu jarðar
að lögum. Telur stefndi að framangreindar heimildir bendi eindregið til þess að
þar hafi verið afréttarland, tilheyrandi Djúpadal/Stóradal en utan marka
jarðarinnar, en að í því hafi ekki falist annað og meira en tilheyrsla óbeinna
réttinda, afréttareign.
Þá verði ekki talið að skilyrði
eignarhefðar séu fyrir hendi, m.a. með vísan til framanritaðra sjónarmiða um
nýtingu lands, staðhætti og eldri heimildir. Í aldanna rás hafi svæðið verið
nýtt með afar takmörkuðum hætti, svo sem til sumarbeitar fyrir sauðfé.
Hefðbundin afréttarnot eða önnur takmörkuð nýting lands geti hins vegar ekki
stofnað til beinna eignarréttinda yfir landi.
Þá kveðst stefndi hafna því að
réttmætar væntingar geti verið grundvöllur fyrir eignarréttartilkalli á
svæðinu, þegar svo hátti til að heimildir, staðhættir, gróðurfar og nýting
lands bendi ekki til beins eignarréttar. Landslög þurfi til ráðstöfunar
landsvæða utan eignarlanda og fasteigna ríkisins. Athafnir eða athafnaleysi
starfsmanna stjórnsýslunnar geti ekki leitt af sér slík yfirráð nema sérstök
lagaheimild hafi verið fyrir hendi, þar með talið að þjóðlenda hafi verið látin
af hendi. Réttmætar væntingar geti því ekki stofnast á þeim grundvelli sem
haldið sé fram. Þar að auki verði væntingarnar einnig að vera réttmætar. Geti
menn ekki vænst þess að öðlast meiri og frekari réttindi en þeir geti mögulega
átt rétt á.
Ef svo hátti til, líkt og hér, að
m.a. heimildir, staðhættir, gróðurfar og nýting lands bendi ekki til beins
eignarréttar, geti réttmætar væntingar ekki stofnað til slíkra réttinda.
Þinglýsing heimildarskjals feli ekki
í sér sönnun um tilvist beins eignarréttar, sbr. þá meginreglu eignarréttarins
að menn geti ekki með eignayfirfærslugerningi öðlast betri rétt en seljandi
hafi átt.
Stefndi segir kröfu um sýknu af
varakröfunni byggða á sömu rökum og að framan greini og einnig eftirfarandi
málsástæðum.
Í nokkrum heimildum um Stóradal sé
vísað til ,,selsins“ eða ,,eyðihjáleigunnar“ Mælifells, t.d. í Jarðabók Árna og
Páls. Telur stefndi að sú heimild mæli eindregið gegn því að Mælifell hafi
notið stöðu jarðar að lögum, þar sem talað sé um það sem sel og heimildir um
byggð einungis reistar á munnmælum. Eldri heimildir geti ekki um Mælifell.
Telur stefndi þetta allt benda til þess að sú byggð sem í fyrndinni kunni að
hafa verið á Mælifelli hafi verið stopul og hverfandi líkur séu á því að hún
eigi rætur að rekja allt aftur til landnáms. Sé það í það minnsta ósannað.
Segir stefndi að eftir að Jónsbók var lögtekin hafi tæpast verið hægt að nema
ný lönd til eignar svo gilt væri að lögum nema á grundvelli sérstakrar
lagaheimildar. Hafi það fyrst verið unnt með tilkomu nýbýlatilskipunarinnar frá
15. apríl 1776. Sýslumaður hafi auglýst Mælifellssel laust til búsetu á
grundvelli hennar, en enginn sýnt áhuga. Sé ekkert fram komið um að stofnað
hafi verið til nýbýlis. Stefndi kveðst vísa til túlkunar óbyggðanefndar á
heimildum um Mælifell. Einnig kveðst stefndi telja rétt að líta til þess að
svæðið liggi á milli afréttarsvæða sem talin séu hafa tilheyrt Saurbæjarafrétti
og séu þjóðlendur samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar.
Stefndi tekur fram að landsvæði geti
verið þjóðlenda og afréttur án þess að um samnotaafrétt sé að ræða.
Stefndi vísar til almennra reglna
eignarréttar, nánar greindra meginreglna hans og til þjóðlendulaga nr. 58/1998.
Þá vísar hann til 72. gr. stjórnskipunarlaga nr. 33/1944.
IV
Ekki er ágreiningur milli aðila um
afmörkun svæðisins sem þetta mál varðar.
Eins og segir í úrskurði
óbyggðanefndar er Djúpadals getið í Landnámu. Er rakið hér að framan að
Djúpadalslönd milli Skjálgdalsár (sem nú heitir Skjóldalsá) og Háls hafi fylgt
Þóru dóttur Helga magra er hún var gefin Gunnari Úlfljótssyni. Verður að miða
við að svæðið sem þetta mál tekur til hafi verið hluti þessa landnáms, en hins
verður að gæta, sem einnig kemur fram í úrskurði óbyggðanefndar að ekkert
liggur fyrir um afmörkun eða yfirfærslu þeirra beinu eignarréttinda sem þar
kann að hafa verið stofnað til og að beinn eignarréttur kann að hafa fallið
niður og landsvæðið í kjölfarið verið tekið til takmarkaðra nota annarra.
Hér að framan er getið dóms Orms
Sturlusonar frá 1571. Fallast má á það með stefnanda að langlíklegast verði að
telja að þar sé fjallað um Leyningsdal, sérstaklega með tilliti til þess að þar
er vísað til selsins frá Leyningsjörð, sem í honum standi. Þótt Ormur úrskurði
þarna dalinn löglega eign Leynings, verður að líta til þess að ekki verður á
því byggt að þar hafi verið um meira en afnotaréttindi að ræða, þ.e. selstöðu
og beitarréttindi, einkum þegar litið er til yngri heimilda. Þannig segir í
Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns að jörðin eigi selstöðu með
tilliggjandi landi á dalnum, en hafi ekki verið notuð í mörg ár nema til
beitar. Verður dómur Orms ekki talinn hafa sérstakt fordæmisgildi um þetta
svæði.
Þótt Djúpadalslönd kunni að hafa
verið numin sem ein heild í öndverðu verður ekki fram hjá því horft að það
skiptir máli að það svæði sem hér er deilt um er nú aðskilið frá landi
jarðarinnar Stóradals og hefur svo verið lengi. Hefur það ekki verið til
annarra nota eftir að hætt var að hafa í seli, en til sumarbeitar fyrir búfé.
Jafnvel þótt sá afnotaréttur hafi tilheyrt stefnanda verður einnig að líta til
þess að svæðið hefur ekki verið varið fyrir ágangi búpenings annarra.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls
Vídalíns frá 1712 segir að Stóridalur eigi selför með tilliggjandi landi austan
fram á Djúpadal með hálfum Þverdal og brúkist jafnlega (þ.e. að jafnaði). Síðar
segir að sel heimajarðarinnar fram á Djúpadal kallist Mælifell. Séu munnmæli að
þar hafi í fyrndinni verið byggð og sjáist þess og nokkur merki af garðlögum.
Ekki megi byggja þarna aftur fyrir heyskaparleysi.
Í landamerkjabréfi Stóradals frá 1890
segir að Stóridalur eigi einnig austanmegin Djúpadalsár allan Þverdal af
Mælifellshálsi fram á fjöll og allt land eyðihjáleigunnar Mælifells. Þar ráði
merkjum að utan bein stefna úr Þrúgsárgilinu ofan Þrúgsáreyrar í Djúpadalsá.
Fram þaðan ráði Djúpadalsá vestan megin Mælifellshólma að grjótgarði þeim sem
liggi til austurs upp frá ánni gegnt Kambfelli. Yngra bréfið, frá 1921, lýsir
merkjum með svipuðum hætti.
Þrátt fyrir þessa lýsingu verður að
fallast á það með stefnda að við mat á gildi slíkra bréfa verði að líta til
þess að þau feli fyrst og fremst í sér lýsingu á merkjum, en í því felist ekki
að allt land innan merkja sé óskorað eignarland. Þá verður einnig að líta til
þess að jarðamötin frá 1804 og 1849 segja að Stóridalur eigi afrétt á svæðinu
og sé hann einnig nýttur af öðrum. Enn fremur segir í fasteignamatinu frá
1916-1918 að Stóradal fylgi afrétturinn Þverdalur og hálfur Djúpidalur.
Þegar þetta er virt verður fallist á
það með stefnda að ekki hafi verið sýnt fram á með landamerkjabréfum að svæðið
samkvæmt aðalkröfu stefnanda hafi í heild haft stöðu jarðar að lögum. Þá verður
ekki fallist á að beinn eignarréttur að því hafi unnist með hefð, miðað við þau
takmörkuðu not sem stefnandi hefur haft af því. Ekki er heldur unnt að fallast
á að stefnandi hafi mátt hafa réttmætar væntingar til að hann ætti að því
beinan eignarrétt, þegar litið er til staðhátta, gróðurfars og nýtingar
svæðisins. Verður að líta svo á að svæðið sé landsvæði utan byggðar, sem að
staðaldri hafi verið notað til sumarbeitar fyrir búfé, þ.e. afréttur í
skilningi 1. gr. laga nr. 58/1998. Stefndi unir þeirri niðurstöðu að það sé í
afréttareign stefnanda.
Svo sem áður greinir segir í Jarðabók
Árna og Páls að munnmæli séu um að sel Stóradals, Mælifell, hafi verið byggt í
fyrndinni. Einnig er tekið fram að ekki sé hægt að byggja þar aftur. Ljóst er
að árið 1775 hefur sýslumaður þó verið þeirrar skoðunar að svo mætti gera, því
þá lét hann færa til bókar á manntalsþingi að hvað frekar áhrærði jarðnæði
handa Guðmundi Benediktssyni, þá væri tiltal um Mælifellssel að hann viki
þangað. Aftur reyndi hann á manntalsþingi 1780 að koma Mælifellsseli í byggð, er
hann bauð upp eyðijarðirnar Víðines og Mælifellssel hverjum frómum manni sem
með þyrfti, með vísan til konunglegrar tilskipunar frá 13 apríl 1776 og gaf sig
enginn fram. Samkvæmt þessari tilskipun varð stofnað til býla á óyrktum
víðáttum í byggðum sveitum, þ.e. landi háðu eignarrétti, landi í
afréttaralmenningum og óbyggðum landplássum fyrir ofan byggðir og enn fremur
með jarðaupptöku í þeim byggðum sem að fornu hefðu verið niður lagðar og látnar
í eyði. Segir tilskipunin um síðastnefndu landsvæðin að eigi sé væntanlegt að
neinn eftir svo langan tíma geti gefið sig fram sem eiganda eða erfingja þar
til, heldur verði að líta á þau sem uppgefna (fyrirlátna) eign og engum
tilheyrandi.
Hólmgeir Þorsteinsson frá Hrafnagili
ritaði í Heimdraga (1972) að hann teldi líklegt að Mælifell hefði lagst í eyði
í einhverri plágunni sem yfir landið gekk. Þess væri ekki getið í manntali 1703
en í manntali 1756 væri talinn gjaldskyldur í Mælifelli Ásmundur nokkur. Um
þennan Ásmund og tengsl hans við Mælifell liggja engar aðrar heimildir fyrir
dómnum.
Eins og málið liggur fyrir samkvæmt
þessu voru aðeins munnmæli um byggð í Mælifelli árið 1712. Ekki liggur fyrir að
tilraunir sýslumanns á 18. öld til að byggja það á ný hafi leitt til nokkurs
árangurs. Um nefndan Ásmund eru heimildir óljósar. Sú mynd sem birtist af
Mælifelli samkvæmt þessu er að þar hafi einhvern tíma verið byggð, en verði að
,,...álítast sem fyrirlátin eign og engum tilheyrandi.“
Samkvæmt þessu verður stefndi
sýknaður af öllum kröfum stefnanda.
Málskostnaður fellur niður. Um
gjafsóknarkostnað fer eins og segir í dómsorði.
Erlingur Sigtryggsson kveður upp
dóminn.
DÓMSORÐ
Stefndi, íslenska ríkið, á að vera
sýkn af kröfum stefnanda, Jóhanns H. Jónssonar í þessu máli.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda
greiðist úr ríkissjóði, þar með talin gjafsóknarlaun lögmanns hans, Friðbjörns
E. Garðarssonar hrl., 900.000 krónur.