• Lykilorð:
  • Lögreglurannsókn
  • Miskabætur
  • Skaðabætur
  • Sönnun
  • Sönnunargögn
  • Skaðabótamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur miðvikudaginn 20. júní 2018 í máli nr. E-372/2017:

A

(Sigrún Ingibjörg Gísladóttir lögmaður)

gegn

Íslenska ríkinu

(Guðrún Sesselja Arnardóttir lögmaður)

 

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 25. apríl 2018, höfðaði A, [...], hinn 31. janúar 2017, á hendur íslenska ríkinu.

            Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði gert að greiða honum skaðabætur að fjárhæð 3.437.760 krónur, með 4,5% vöxtum skv. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 1.937.760 krónum frá 1. febrúar 2013 til þingfestingardags en frá þeim degi með dráttarvöxtum til greiðsludags, og með vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 af 1.500.000 krónum frá 1. febrúar 2013 til þingfestingardags en frá þeim degi með dráttarvöxtum til greiðsludags.

            Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda að teknu tilliti til virðisaukaskatts eins og málið sé eigi gjafsóknarmál.

            Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda í málinu, en til vara lækkunar á dómkröfum stefnanda. Þá er krafist málskostnaðar, en til vara að málskostnaður verði felldur niður.

            Undirritaður dómari tók við máli þessu 2. janúar 2018 en hafði fram að því engin afskipti haft af rekstri þess.

 

I

Helstu málsatvik og ágreiningsatriði

            Í máli þessu krefst stefnandi bóta vegna tjóns og miska sem hann byggir á að hann hafi orðið fyrir vegna aðgerða lögreglu gagnvart honum 1. febrúar 2013. Þann dag var stefnandi handtekinn laust fyrir hádegið á Reykjanesbraut, skammt frá Mjódd, eftir að akstur hans hafði verið stöðvaður, vegna gruns um aðild hans að stórfelldum innflutningi fíkniefna sem lögregla hafði til rannsóknar. Í kjölfarið fór fram húsleit á heimili hans, en fyrirfram hafði verið aflað heimildar til leitarinnar með úrskurði héraðsdómara. Við leitina voru haldlagðir ýmsir munir í eigu stefnanda, þar á meðal tölvur og farsími. Stefnandi var færður á lögreglustöð og vistaður í fangaklefa frá kl. 12.20 til 16.36, en meðan á vistun stóð var hann færður til læknis og er komutími hans þar skráður kl. 14.36. Honum var sleppt úr haldi laust fyrir kl. hálfsex síðdegis, að lokinni skýrslutöku. Rannsókn lögreglu var felld niður gagnvart stefnanda 18. apríl sama ár.

            Fyrir liggur að lögregla beitti kylfum við handtöku stefnanda, en umdeilt er hvort aðstæður hafi verið með þeim hætti að beiting kylfa væri réttlætanleg. Jafnframt er umdeilt fyrir hve mörgum kylfuhöggum stefnandi varð og hvar á líkamann, en óumdeilt er að hann varð fyrir áverkum við handtökuna, eins og læknisvottorð er til marks um.

            Eftir kæru sem lögmaður stefnanda beindi til ríkissaksóknara 5. júní 2013 fór fram rannsókn á því hvort stefnandi hefði verið beittur harðræði við handtökuna. Embætti ríkissaksóknara felldi niður málið 30. júní 2015, þar sem það sem fram var komið þótti ekki nægjanlegt eða líklegt til sakfellis. Í kjölfarið, 4. desember 2015, óskaði lögmaður stefnanda eftir upplýsingum og gögnum frá ríkissaksóknara í tilefni af væntanlegri málhöfðun, m.a. afhendingar myndskeiðs úr „Eye witness“-búnaði lögreglubifreiðar sem sýndi handtökuna. Þeirri beiðni hafnaði saksóknari embættisins með bréfi 10. desember sama ár.

            Með bréfi 31. maí 2016 til ríkislögmanns mun stefnandi hafa krafist þess að viðurkennd yrði bótaskylda íslenska ríkisins vegna tjóns hans af aðgerðum lögreglu. Því hafnaði embætti ríkislögmanns með bréfi 6. september sama ár, þar sem aðgerðir lögreglu hefðu verið nauðsynlegar eins og á stóð og meðalhófs hefði verið gætt.

            Í málinu liggur fyrir matsgerð Z dr. med., sérfræðings í heila- og taugasjúkdómum og mati á líkamstjóni, dags. 26. janúar 2017, sem stefnandi aflaði á grundvelli 10. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Í niðurstöðukafla hennar er lýst varanlegum heilsufarslegum afleiðingum handtökunnar en að niðurstöðum matsgerðarinnar verður nánar vikið í kafla um málsástæður stefnanda hér á eftir.

            Við aðalmeðferð málsins gaf stefnandi aðilaskýrslu. Þá gáfu skýrslu sem vitni nokkrir lögreglumenn sem komu að handtöku stefnanda umrætt sinn, auk þess sem framangreindur læknir staðfesti matsgerð sína fyrir dómi.

           

 

II

Málsástæður stefnanda

            Stefnandi byggir á því að hann eigi rétt á skaðabótum úr hendi stefnda þar sem hann hafi þurft að þola aðgerðir samkvæmt IX.–XIV. kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála í máli sem fellt var niður án ákæru í skilningi 1. mgr., sbr. 2. mgr., 228. gr. laganna, en ákvæði þeirrar lagagreinar er nú að finna óbreytt í 246. gr. sömu laga. Að auki hafi stefnandi verið beittur óhóflegu harðræði við handtökuna. Byggir stefnandi á því að lögreglumennirnir hafi umrætt sinn sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi. Á grundvelli fyrrnefndrar 228. gr. laga nr. 88/2008, svo og almennu sakarreglunnar, 26. gr. skaðabótalaga og meginreglunnar um vinnuveitendaábyrgð beri stefndi ábyrgð á tjóni sem stefnandi hafi orðið fyrir vegna þessa. Nánar tiltekið séu málsástæður stefnanda eftirfarandi.

            Krafa um skaðabætur á grundvelli 228. gr. sakamálalaga

            Stefnandi byggi í fyrsta lagi á því að hann eigi rétt á bótum samkvæmt 1. mgr., sbr. 2. mgr., 228. gr. laga nr. 88/2008 þar sem hann hafi þurft að þola handtöku, húsleit, leit í bifreið og haldlagningu, þ.e.a.s. aðgerðir samkvæmt IX., X. og XIII. kafla laga nr. 88/2008, vegna rannsóknar lögreglu í máli sem síðar var fellt niður án ákæru.

            Líta beri til þess að um umfangsmiklar aðgerðir hafi verið að ræða sem falið hafi í sér víðtæk inngrip í friðhelgi einkalífs stefnanda, sbr. 71. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu (MSE). Vegna þessa geri 228. gr. laga nr. 88/2008 ráð fyrir hlutlægri bótaábyrgð stefnda við þessar aðstæður.

            Útilokað sé að líta svo á að stefnandi hafi valdið fyrrgreindum aðgerðum og hafa beri í huga að aðgerðirnar hafi verið meira íþyngjandi en þörf var á. Í því sambandi beri að líta til þess að lögreglan hafi brotið sér leið inn á heimili stefnanda, í gegnum glugga, þótt hún vissi að hann væri ekki heima, enda hafi lögreglan fylgst með honum yfirgefa heimili sitt nokkrum mínútum áður. Ekkert hafi fundist sem gæti leitt til sakfellis eða stutt grun lögreglu, en stefnandi hafi þurft að þola það að vera sviptur eignum sínum.

            Loks byggi stefnandi á að ekki verði litið svo á að lögreglan hafi gætt hófs þegar hún barði stefnanda ítrekað með kylfum á miðjum vegi um hábjartan dag við handtöku og gerði leit í bifreið hans. Ekki hafi verið tilefni til aðgerðanna. Þær hafi a.m.k. ekki borið meiri árangur en svo að málið var fellt niður gagnvart stefnanda tveimur mánuðum síðar. Líta beri til þessa við ákvörðun bóta.

            Óhóflegt harðræði við handtöku

            Til viðbótar framangreindu byggi stefnandi á því að handtaka hans umrætt sinn hafi verið ólögmæt og að framkvæmd hennar hafi þar að auki verið óþarflega harkaleg og meiðandi í hans garð. Lögmæt skilyrði til handtökunnar hafi brostið og framkvæmd handtökunnar hafi verið með þeim hætti að hann eigi rétt til bóta á grundvelli 228. gr. laga nr. 88/2008, 26. gr. skaðabótalaga og almennu sakarreglunnar, en hann hafi orðið fyrir bæði tímabundnu og varanlegu líkamstjóni vegna handtökunnar.

            Skilyrði 1. mgr. 90. gr. laga nr. 88/2008 ekki uppfyllt

            Engan megi svipta frelsi nema samkvæmt heimild í lögum, sbr. 1. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 1. mgr. 5. gr. MSE. Um grundvallarréttindi sé að ræða og skýra beri allar heimildir lögreglu til handtöku þröngt. Stefnandi byggi á því að handtakan 1. febrúar 2013 hafi verið ólögmæt enda hafi ekkert tilefni verið til að grípa til slíkrar þvingunarráðstöfunar og skilyrði 1. mgr. 90. gr. laga nr. 88/2008 hafi ekki verið uppfyllt.

            Ástæða handtökunnar virðist hafa verið sú að menn sem stefnandi veitti atvinnu hafi verið bornir sökum í sakamáli án þess að nokkuð benti til þess að stefnandi væri tengdur málinu. Í þessu felist ekki rökstuddur grunur um refsiverða háttsemi í skilningi 1. mgr. 90. gr. laga nr. 88/2008. Þá verði ekki séð að handtakan hafi verið nauðsynleg til að koma í veg fyrir áframhaldandi brot, tryggja návist stefnanda eða öryggi hans eða annarra. Loks hafi ekki verið nauðsynlegt að handtaka stefnanda til að koma í veg fyrir að hann kynni að spilla sönnunargögnum.

            Handtakan hafi samkvæmt framangreindu falið í sér ólögmæta og saknæma háttsemi og hafi leitt til þess að stefnandi var sviptur frelsi að ósekju. Þá hafi stefnandi orðið fyrir tímabundnu og varanlegu líkamstjóni. Stefndi beri vinnuveitandaábyrgð á lögreglumönnum og eigi stefnandi rétt á bótum vegna þess á grundvelli 228. gr. laga nr. 88/2008, 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 5. mgr. 5. gr. MSE, almennu sakarreglunnar og 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga.

            Brot gegn meðalhófi í aðgerðum lögreglu

            Hvað sem framangreindu líði byggi stefnandi á því að handtakan hafi gengið mun lengra en nauðsynlegt var, í andstöðu við 2. ml. 14. gr. lögreglulaga nr. 90/1996, 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 2. mgr. 93. gr. og 3. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008.

            Stefnandi byggi annars vegar á því að brotið hafi verið gegn framangreindum meðalhófsreglum er hann var handtekinn, enda hafi slíkt ekki verið nauðsynlegt til að ná fram lögmætu markmiði. Hins vegar byggi stefnandi á því að jafnvel þótt litið yrði svo á að skilyrði hefðu verið til að handtaka hann, þá hafi handtakan verið framkvæmd með þeim hætti að útilokað sé að líta svo á að hófs hafi verið gætt.

            Vart þurfi að taka fram að óheimilt sé að beita sakborninga harðræði umfram það sem lög heimila og nauðsynlegt er til að vinna bug á mótþróa þeirra gegn lögmætum aðgerðum eða á annan hátt beita þá ólögmætri þvingun í orði eða verki. Stefnandi telji óljóst hvað lögreglu hafi gengið til með framgöngu sinni en ljóst sé að með handtökunni og þeim aðferðum sem þar var beitt hafi stefnanda verið gert meira tjón og óhagræði en óhjákvæmilegt var. Skýringum lögreglunnar á valdbeitingu við handtökuna í lögregluskýrslu, dags. 2. febrúar 2013, sé mótmælt sem villandi og ósannfærandi, en skýrslan skýri m.a. ekki frá því að a.m.k. fjórir lögreglumenn hafi beitt stefnanda líkamlegu harðræði við handtökuna. Því sé sérstaklega mótmælt að til þess hafi staðið nokkur nauðsyn. Á því sé byggt að undir engum kringumstæðum geti verið forsvaranlegt að stefnandi hafi orðið fyrir líkamstjóni, hvað þá varanlegu, vegna harðræðis lögreglu.

            Á tjóni stefnanda og miska sem af hlaust beri stefndi ábyrgð enda um ólögmætar og saknæmar athafnir að ræða sem falið hafi í sér að stefnandi hlaut af líkamstjón í skilningi 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga, auk þess sem vegið hafi verið með ólögmætum hætti gegn frelsi, friði og persónu stefnanda í skilningi 2. mgr. sömu lagagreinar. Þá hafi af þessu hlotist tímabundið og varanlegt líkamstjón, en um það vísi stefnandi til fyrirliggjandi matsgerðar.

            Eins og fyrr sagði beri stefndi vinnuveitandaábyrgð á athöfnum lögreglumanna og sé þannig ljóst að stefnandi eigi rétt á bótum úr hendi stefnda á grundvelli 228. gr. laga nr. 88/2008, 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 5. mgr. 5. gr. MSE, almennu sakarreglunnar og 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga.

            Óforsvaranlegt sé að starfsmenn íslenska ríkisins beiti kylfum á borgara að ósekju. Senda þurfi skýr skilaboð þess efnis við ákvörðun bóta til handa stefnanda.

            Framkvæmd handtöku var vanvirðandi í skilningi 68. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 3. gr. MSE

            Stefnandi byggi jafnframt á því að framkvæmd handtökunnar hafi verið vanvirðandi í skilningi 68. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 3. gr. MSE. Um hafi verið að ræða óþarflega harkalega og meiðandi framkvæmd og byggi stefnandi á því að jafnvel þótt tilefni og nauðsyn verði talin hafa staðið til handtökunnar, þá eigi stefnandi samt sem áður rétt til bóta samkvæmt XXXVII. kafla laga nr. 88/2008, þar sem málið hafi verið fellt niður og samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga, þar sem framkvæmd handtökunnar hafi verið vanvirðandi.

            Um hafi verið að ræða vanvirðandi meðferð enda hafi þeir lögreglumenn sem komu að handtökunni farið offari við framkvæmd hennar með þeim afleiðingum að stefnandi varð fyrir líkamstjóni. Stefnandi ítrekar að atburðurinn hafi átt sér stað um hábjartan dag á miðjum vegi fyrir augum allra sem leið áttu hjá.

            Þá sé enn fremur ljóst að lögregla hafi, með vistun stefnanda í fangaklefa án þess að koma honum undir læknishendur, farið langt út fyrir heimildir sínar og brotið á grundvallarrétti stefnanda. Stefnandi telji að framkvæmd lögreglumannanna umrætt sinn hafi verið þannig háttað að stefnandi hafi orðið fyrir vanvirðandi meðferð í skilningi 3. gr. MSE. Í öllu falli hafi handtakan verið óþarflega harkaleg, meiðandi og særandi fyrir stefnanda, eins og fyrr var lýst.

            Þegar litið sé til heildarmyndar þeirra atburða sem áttu sér stað þann 1. febrúar 2013 sé ljóst að aðfarir lögreglu gagnvart stefnanda hafi ekki verið í nokkru samhengi við þá háttsemi sem honum hafi verið gefin að sök samkvæmt lögregluskýrslum, hvað þá raunverulegar gjörðir hans. Sé niðurstaða um niðurfellingu máls tveimur mánuðum síðar skýrasta sönnunin um þetta.

            Stefnandi byggi á því að hvert og eitt framangreindra atriða leiði til bótaskyldu stefnda, og þá sérstaklega þegar þau séu metin öll saman, enda hafi háttsemi lögreglumanna verið vítaverð og ágallar á málsmeðferð í heild stórfelldir.

            Þótt játa megi þeim sem fari með opinbert vald nokkurt svigrúm til ákvarðanatöku megi það aldrei leiða til þess að heimilt sé að standa þannig að málum að það fari í bága við lög og grundvallarmannréttindi einstaklinga. Þegar út af bregði með svo alvarlegum hætti sem hér hafi verið lýst beri að bæta það tjón sem orðið hafi.

            Miski

            Eins og fyrr var lýst byggi stefnandi á því að hann eigi rétt á bótum vegna handtökunnar, húsleitar, leitar í bíl og haldlagningar á grundvelli 228. gr. laga nr. 88/2008, enda hafi mál gegn honum verið fellt niður án ákæru.

            Þá byggi stefnandi á því að ekki hafi verið skilyrði til handtöku og hún gengið mun lengra en nauðsynlegt var, með þeim hætti að skilyrði séu til skaðabóta á grundvelli 228. gr. laga nr. 88/2008, eins og áður sagði, en jafnframt sakarreglunnar, 1. og 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga og loks 67., 68. og 71. gr. stjórnarskrárinnar.

            Stefnandi byggi á að líta beri til þess að leit, haldlagning og handtaka teljist vera alvarleg inngrip í friðhelgi einkalífs borgara. Almennt sé talið að slík brot leiði ein og sér til miskabóta og beri að líta til þess að stefnandi hafi verið beittur miklu harðræði um hábjartan dag fyrir allra augum.

            Stefnandi hafi leitað til læknis vegna áverka sem hann hlaut við handtökuna og liggi fyrir læknisvottorð um þær afleiðingar. Lýstir atburðir hafi bæði valdið stefnanda líkamlegri og andlegri vanlíðan. Í læknisvottorði, dags. 10. október 2016, komi fram að stefnandi hafi ekki enn náð fullum bata, en hann sé með verki í stoðkerfi, þá sérstaklega vinstra hné og baki. Þá glími hann við kvíða og svefntruflanir og hafi þurft lyf vegna þess. Þá liggi fyrir matsgerð sem staðfesti að stefnandi hafi hlotið bæði tímabundið og varanlegt líkamstjón vegna atviksins og beri að líta það mjög alvarlegum augum hversu miklar afleiðingar hafi hlotist af þessum atburðum.

            Stefnandi krefjist miskabóta samtals að fjárhæð 1.500.000 krónur vegna háttsemi lögreglunnar þann 1. febrúar 2013. Þess sé krafist að stefnda verði gert að greiða stefnanda vexti samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu af miskabótunum frá þeim degi til þingfestingardags, en frá þeim degi dráttarvexti samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga. Í því sambandi sé bent á að stefndi hafi þegar verið krafinn um viðurkenningu á bótaskyldu en ekki orðið við henni, þó að um hlutlæga bótaábyrgðarreglu sé að ræða.

            Líkamstjón

            Stefnandi byggi á því að hann hafi orðið fyrir líkamstjóni við handtökuna þann 1. febrúar 2013 og vísi um það til áðurnefndrar matsgerðar, dags. 26. janúar 2017.

            Niðurstaða matsins sé sú að heilsufar stefnanda hafi verið orðið stöðugt þann 1. ágúst 2013 (stöðugleikapunktur). Tímabundin óvinnufærni samkvæmt 2. gr. skaðabótalaga teljist engin vera en stefnandi teljist hafa verið veikur án rúmlegu í skilningi 3. gr. skaðabótalaga í þrjár vikur frá 1. febrúar 2013 að telja. Varanlegur miski stefnanda samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga vegna atviksins teljist vera 18 stig samkvæmt matsgerðinni og hafi þá verið tekið tillit til fyrri heilsufarssögu til lækkunar. Sundurliðist miskinn þannig að 5 stig séu talin vegna háls- og lendhryggjar, 3 stig vegna kvíða, 2 stig vegna brjóstkassa, 5 stig vegna hægra læris og 3 vegna vinstra hnés. Niðurstaða matsins sé sú að atvikið hafi ekki leitt til varanlegrar fjárhagslegrar örorku samkvæmt 5.–7. gr. skaðabótalaga.

            Á grundvelli fyrirliggjandi matsgerðar, sbr. 10. gr. skaðabótalaga, og með vísan til alls framangreinds geri stefnandi kröfu um bætur vegna 3. gr. og 4. gr. skaðabótalaga, samtals að fjárhæð 1.937.760 krónur. Stefnandi áskilur sér í stefnu rétt til þess að láta dómkveðja matsmann undir rekstri málsins og breyta kröfugerð sinni, þ.á.m. til hækkunar ef ný gögn eins og matsgerð dómkvadds matsmanns gefa tilefni til þess, svo sem vegna þess að afleiðingar atburðarins hafi verið aðrar og/eða meiri.

            Uppreiknuð krafa samkvæmt 3. og 4. gr. skaðabótalaga miðist við lánskjaravísitölu í janúar 2017 (8656) og sundurliðist þannig:

            1. Bætur skv. 3. gr. skaðabótalaga: 21 x 700 (8656/3282) = 21 x 1850 = 38.850 krónur

            2. Bætur skv. 4. gr. skaðabótalaga: 18% x 4.000.000 (8656/3282) = 18% x 10.549.500 = 1.898.910 krónur

            Samtals: 38.850 + 1.898.910 = 1.937.760 krónur

            Þá sé krafist vaxta samkvæmt 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga af kröfunni með vísan til 3. og 4. gr. skaðabótalaga frá 1. febrúar 2013 til þingfestingardags, en frá þeim degi sé krafist dráttarvaxta til greiðsludags, sbr. 2. mgr. 16. gr. skaðabótalaga.

            Samtals hljóði krafa stefnanda þannig upp á 1.500.000 krónur (miskabótakrafa), 38.850 krónur (þjáningabætur) og 1.898.910 krónur (varanlegur miski), eða alls 3.437.760 krónur.

            Vextir reiknist frá 1. febrúar 2013, þegar atburðir sem krafist er bóta vegna áttu sér stað. Miskabótakrafa skv. 26. gr. skaðabótalaga beri vexti skv. 1. mgr. 8. gr. vaxtalaga en bótakröfur skv. 3. gr. og 4. gr. skaðabótalaga beri vexti skv. 16. gr. skaðabótalaga. Krafist sé dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga frá þingfestingardegi.

            Í stefnu skoraði stefnandi á stefnda að leggja fram allar myndbandsupptökur, skýrslur og önnur gögn sem orðið hefðu til vegna handtökunnar.

           

III

Málsástæður stefnda

            Samkvæmt greinargerð er aðalkrafa stefnda um sýknu byggð á eftirtöldum málsástæðum:

            Skilyrði 1. mgr. 90. gr. laga nr. 88/2008 um handtöku uppfyllt

            Stefndi vísar til málsatvikalýsingar í greinargerð og kveður af henni mega vera ljóst að er stefnandi var handtekinn hafi leikið á rökstuddur grunur um að hann ætti aðild að innflutningi á miklu magni af fíkniefnum til landsins. Hafi hann þannig verið undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem sætt gæti ákæru og jafnframt telji stefndi ljóst að handtakan hafi verið nauðsynleg til að tryggja návist hans og koma í veg fyrir að hann spillti sönnunargögnum. Stefndi byggi þannig á því að skilyrði 1. mgr. 90. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála hafi verið uppfyllt í hvívetna og þar með einnig skilyrði 1. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 1. mgr. 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu (MSE). Stefndi telji ljóst að hvorki hafi verið um ólögmæta né saknæma háttsemi að ræða af hálfu lögreglumanna og að stefnandi hafi ekki verið sviptur frelsi að ósekju. Á því sé byggt af hálfu stefnda að skilyrði bótaskyldu samkvæmt 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og almennu sakarreglunni séu ekki fyrir hendi og að skaðabætur verði ekki dæmdar í málinu á þeim grundvelli, enda hafi handtaka stefnanda í alla staði verið lögformleg og tilefnið skýrt, eins og áður var rakið.

            Skilyrði 74. og 75. gr. laga nr. 88/2008 um húsleit voru uppfyllt

            Stefndi byggir á því að skilyrði húsleitar samkvæmt 1. og 3. mgr. 74. gr., sbr. 1. mgr. 75. gr., laga nr. 88/2008 hafi verið uppfyllt. Til grundvallar húsleit hafi legið úrskurður Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. R-76/2013, sem kveðinn hafi verið upp sama dag og aðgerðir lögreglu gagnvart stefnanda fóru fram. Í úrskurðinum hafi verið fallist á kröfu lögreglustjóra um húsleit með vísan til rannsóknarhagsmuna og tekið fram að húsleit gæti skipt miklu fyrir rannsókn málsins. Þá sé að mati stefnda ljóst að við leitina hafi lögregla farið eftir ákvæðum framangreindra laga og hagað leitinni í samræmi við viðurkennt verklag. Mikilvægt hafi verið að tryggja vettvang og ekki hafi verið gengið lengra en nauðsyn krafði, en leit hafi ekki hafist fyrr en verjandi stefnanda hafi verið kominn á staðinn.

            Gætt var meðalhófs við handtöku og framkvæmd hennar var ekki vanvirðandi

            Stefndi hafnar því alfarið að lögregla hafi brotið gegn meðalhófi við handtökuna og að handtakan hafi gengið mun lengra en nauðsynlegt var, í andstöðu við 2. ml. 14. gr. lögreglulaga nr. 90/1996, 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 2. mgr. 93. gr. og 3. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008.

            Stefnandi hafi ítrekað komið við sögu lögreglu vegna ýmiss konar mála, meðal annars í tengslum við ofbeldis- og hótunarbrot. Þá hafi lögreglu borist tilkynningar um vopnaburð af hans hálfu, þ. á m. að hann gengi daglega um með skammbyssu. Jafnframt sé stefnandi hávaxinn og mjög sterklegur og lögreglumenn hafi einnig séð stóran hund í bifreið hans, þótt ekki hafi þeir séð nákvæmlega af hvaða tegund hundurinn væri. Lögregla hafi því haft fullt tilefni til að telja að stefnandi gæti verið hættulegur. Þess beri jafnframt að geta að stefnandi hafi áður verið handtekinn vegna annarra stórfelldra og þaulskipulagðra brota, nánar tiltekið vegna umfangsmikils peningaþvættis þar sem komið hafi verið undan hátt í 300 milljóna króna ávinningi af fjársvikum á hendur ríkinu, auk stórfellds fíkniefnalagabrots á árunum 2009 og 2010. Með dómi Héraðsdóms Reykjaness þann 11. apríl 2017 í máli nr. S-126/2016 hafi stefnandi hlotið tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir framangreind brot sín, en refsingin hafi verið skilorðsbundin vegna mikils dráttar á meðferð málsins hjá lögreglu og ákæruvaldi. Fjöldi einstaklinga hafi verið meðákærðir og dæmdir í málinu, en sýnt hafi þótt að stefnandi hefði leikið lykilhlutverk við skipulagningu og framkvæmd brotanna. Allt framangreint hafi gefið lögreglu fullt tilefni til að nálgast stefnanda af ítrustu varúð og varkárni, enda hafi hún metið það svo að stefnandi gæti verið hættulegur.

            Stefnandi hafi ekki sinnt fyrirmælum lögreglu um að stöðva akstur bifreiðar sinnar, en honum hafi mátt vera ljóst að lögregla vildi hafa afskipti af honum. Stefnandi hafi verið handtekinn við fjölfarna umferðargötu og aðstæður á vettvangi hafi því verið þannig að réttlætanlegt hafi verið talið að lögreglumenn væru með kylfur í viðbragðsstöðu við handtökuna. Þá hafi stefnandi ekki heldur sinnt fyrirmælum lögreglu er hann stöðvaði aksturinn, hvorki um að koma samstundis út úr bifreiðinni né um að leggjast á jörðina, auk þess sem hann hafi veitt mótspyrnu við handtökuna. Hafi valdbeiting lögreglu og meðferð og notkun valdbeitingartækja og vopna verið talin nauðsynleg vegna framangreindrar hegðunar stefnanda. 

            Af hálfu stefnda sé byggt á því að notkun og beiting lögreglu á kylfu við handtökuna hafi uppfyllt reglur um valdbeitingu lögreglumanna og meðferð og notkun valdbeitingartækja og vopna frá 22. febrúar 1999. Sé þar einkum vísað til til b- og e-liðar 16. gr. um notkun kylfu, þar sem segi að lögreglu sé heimilt að nota kylfu þegar brýna nauðsyn beri til, m.a. til að handtaka hættulega brotamenn og til að knýja fram hlýðni við skipun sem ekki er fylgt, enda sé nauðsynlegt að henni sé framfylgt tafarlaust. Þá byggi stefndi á því að beiting kylfunnar hafi verið í samræmi við 17. gr. framangreindra reglna, þar sem segi að kylfu skuli beita með þeirri aðgæslu að ekki hljótist af meira hnjask eða meiðsl en þörf krefur og að lögreglumenn skuli leitast við að hæfa handleggi og fætur. Af hálfu stefnanda hafi því verið haldið fram að lögregla hafi slegið hann með kylfu um allan líkamann, m.a. í höfuðið, en því sé alfarið hafnað af hálfu stefnda. Framburði stefnanda um fjölda kylfuhögga og hvar þau lentu sé því hafnað, enda fái sú frásögn hvorki stoð í myndbandsupptöku úr lögreglubifreiðinni né framburði viðstaddra lögreglumanna. Sama sé að segja um framburð stefnanda þess efnis að einn lögreglumannanna hafi staðið á höfði hans og viðhaft óviðurkvæmileg ummæli, þeim framburði sé alfarið hafnað sem röngum og ósönnuðum. 

            Áverkavottorð sem liggi fyrir í málinu, dags. 14. apríl 2012, reki ýmsa áverka sem stefnandi hafi hlotið við handtökuna. Af hálfu stefnda sé vottorðið ekki dregið í efa efnislega, en eins og að framan greinir sé deilt um fjölda högga með kylfu og hvar höggin lentu. Lögreglumaðurinn Y hafi viðurkennt að hafa veitt stefnanda 2–3 högg með kylfunni í lærið. Þá hafi einn annar lögreglumaður viðurkennt að hafa ætlað að slá stefnanda í lærið með kylfu, en höggið hafi geigað og lent með miklum skelli í bifreið stefnanda. Hafi síðastnefndur framburður í raun verið staðfestur af stefnanda sjálfum, sem og með framburði annarra lögreglumanna. Ekkert liggi fyrir um að aðrir lögreglumenn hafi beitt kylfum, þótt einhverjir þeirra hafi verið með kylfu í viðbragðsstöðu. Samkvæmt framansögðu sé framburði stefnanda um fjölda kylfuhögga um allan líkamann vísað á bug sem beinlínis röngum og ósönnuðum.

            Af hálfu stefnda sé því einnig alfarið mótmælt að framkvæmd handtöku hafi verið vanvirðandi í skilningi 68. gr. stjórnarskrár, sbr. 3. gr. MSE, eins og haldið sé fram í stefnu. Jafnframt sé því mótmælt að óhæfilegur dráttur hafi orðið á því að stefnandi yrði færður undir læknishendur, sem hafi falið í sér vanvirðandi meðferð í skilningi 3. gr. MSE. Áverkar stefnanda hafi ekki verið þess eðlis að þeir krefðust tafarlausrar læknisskoðunar, en stefnandi hafi verið vistaður í fangaklefa í um tvær klukkustundir, áður en farið hafi verið með hann á slysadeild. Verði það ekki talinn óhæfilegur dráttur, né heldur ómannúðleg eða vanvirðandi meðferð í skilningi umræddra ákvæða stjórnarskrár og MSE. 

            Vísist í þessu sambandi nánar til alls þess sem rakið hafi verið, en að mati stefnda hafi verið gætt meðalhófs við handtökuna og lögreglumenn hafi ekki farið offari við hana, eins og myndbandsupptaka af handtökunni beri raunar með sér. Þá skuli áréttað að ríkissaksóknari hefur rannsakað það hvort lögreglumenn hafi við handtöku stefnanda brotið gegn ákvæðum lögreglulaga og almennra hegningarlaga. Niðurstaða þeirrar rannsóknar hafi verið sú að ekkert væri komið fram í málinu sem styddi þann framburð stefnanda að lögreglumenn hafi farið offari eða beitt meiri hörku en því valdi sem rétt hafi verið að beita við handtöku stefnanda, eins og aðstæður voru á þeim tíma sem hún fór fram. Í niðurstöðu ríkissaksóknara, bls. 12, komi einnig fram að meðal gagna málsins hafi verið upptaka úr myndavélabúnaði tveggja lögreglubifreiða og að handtakan sjáist á annarri upptökunni. Sé því sem fram komi á upptökunni ítarlega lýst undir kafla VIII á bls. 12 í niðurstöðu ríkissaksóknara og af því sem þar sé rakið verði ekki séð að framburður stefnanda um handtökuna fái staðist, heldur styðji upptakan þvert á móti framburð þeirra lögreglumanna sem komið hafi að handtökunni, en framburður þeirra sé einnig rakinn í niðurstöðu ríkissaksóknara. Sérstaklega mótmæli stefndi því sem komi fram á bls. 2 í stefnu, þar sem því sé haldið fram að fram lagðar ljósmyndir sýni þegar stefnandi hafi verið sleginn með kylfum. Þetta sé alrangt, enda sýni ljósmyndirnar einungis tvo lögreglumenn með kylfur sínar í viðbragðsstöðu, en það hafi einmitt komið fram í framburði lögreglumannanna við rannsókn ríkissaksóknara. Vísar stefndi einnig til síðari umfjöllunar um áskorun í stefnu um framlagningu myndbandsupptökunnar.

            Hlutlæg bótaregla 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála

            Stefndi rekur í greinargerð sinni ákvæði 1. og 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008, sem nú er að finna óbreytt í 246. gr. sömu laga, og bendir á að stefnandi hafi neitað að fara að fyrirmælum lögreglu og streist á móti handtöku. Aðgerðir lögreglu hafi verið nauðsynlegar eins og á stóð og verið í samræmi við meðalhóf. Í bótamáli sem þessu hljóti stefnandi sjálfur að bera ábyrgð á því að hann streittist á móti handtöku og neitaði að hlýða fyrirmælum lögreglu, sem leiddi til þess að valdi var beitt við handtökuna, m.a. með notkun kylfu. Hefði stefnandi hlýtt fyrirmælum lögreglu, svo sem honum hafi borið skylda til að lögum, þá megi ætla að handtakan hefði gengið hnökralaust og afar ólíklegt að hann hefði hlotið nokkra áverka vegna hennar, eða í það minnsta líklegt að þeir áverkar hefðu orðið óverulegir. Hin hlutlæga bótaregla 228. gr. laga nr. 88/2008 styðji ekki, frekar en aðrar bótareglur, kröfugerð stefnanda eins og hún sé sett fram. Sýknukrafa stefnda sé af þessum ástæðum byggð á 2. mgr. 228. gr. laganna. Sú regla sé undantekning frá hinni hlutlægu reglu lagaákvæðisins og eigi við þegar sakborningur hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfu sína á. Að mati stefnda eigi þetta ákvæði við í þessu máli, þar sem stefnandi hafi sjálfur kosið að virða ekki fyrirmæli lögreglu og streitast á móti handtökunni. Með þeim hætti hafi stefnandi sjálfur orðið valdur að þeim valdbeitingaraðferðum sem beitt var umrætt sinn eða í það minnsta stuðlað að þeim með framkomu sinni. Stefnandi beri því sjálfur ábyrgð á því að beita þurfti valdi við handtökuna og verði að taka afleiðingum þess. Kröfugerð stefnanda sé þar af leiðandi andstæð ákvæðum sakamálalaga um hlutlæga ábyrgð, sbr. 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008, sem og öðrum ákvæðum íslensks réttar um sakarábyrgð. 

            Með hliðsjón af öllu framansögðu beri því að sýkna stefnda af bótakröfu stefnanda.

            Varakrafa um lækkun

            Til vara krefst stefndi lækkunar á dómkröfum stefnanda, komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að hin hlutlæga regla 228. gr. laga nr. 88/2008 eigi við, þrátt fyrir það sem rakið hafi verið hér að framan.

            Dómkrafa stefnanda sé að mati stefnda of há. Handtaka stefnanda hafi verið nauðsynleg í því skyni að tryggja nærveru hans og koma í veg fyrir að sönnunargögnum yrði spillt. Aðstæður á vettvangi hafi verið erfiðar og það sé mat stefnda að stefnandi hafi í það minnsta stuðlað að því að aðgerðirnar gegn honum urðu með þeim hætti sem raun bar vitni og því beri að lækka bætur til hans með vísan til 2. mgr. 228. gr. laganna. Dæmdar bætur verði að taka mið af aðstæðum við handtökuna og þeirri staðreynd að stefnandi hafi neitað að fara að fyrirmælum lögreglu og streist á móti handtökunni. Auk þess verði bæturnar að endurspegla eðlilegt tjón stefnanda með hliðsjón af dómaframkvæmd í sambærilegum málum. Í þessu sambandi bendir stefndi á að matsgerðar Z, dags 26. janúar 2017, hafi verið aflað einhliða af stefnanda, án þess að stefndi hefði átt þar nokkra aðkomu. Réttur til að óska eftir mati dómkvaddra matsmanna á meintum afleiðingum af handtöku stefnanda sé áskilinn, en stefndi dragi í efa niðurstöður matsgerðarinnar, sérstaklega að við matið hafi nægilegt tillit verið tekið til slyss sem stefnandi hafi orðið fyrir á árinu 2007.

            Rannsóknaraðgerðir lögreglu, bæði handtaka stefnanda, húsleitin á heimili hans, sem og haldlagning muna, hafi verið nauðsynlegar í ljósi atvika og hvorki ólögmætar né saknæmar. Stefnandi hafi verið afar ósamvinnuþýður, eins og rakið hafi verið, og stefndi telji að til alls þessa verði dómurinn að taka tillit, ef á reynir. Beri því að lækka dómkröfur stefnanda verulega, fari svo að dómurinn telji að hin hlutlæga bótaregla 228. gr. laga nr. 88/2008 eigi við í málinu.

            Stefndi mótmæli að öðru leyti öllum dómkröfum og málsástæðum stefnanda. Miskabótakröfu stefnanda samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga sé mótmælt sérstaklega, enda hafi ekki verið fyrir að fara neinni sök hjá starfsmönnum stefnda og saknæmisskilyrði ákvæðisins séu ekki uppfyllt.

            Í greinargerð stefnda er vikið að áskorun í stefnu um að leggja fram allar myndbandsupptökur, skýrslur og önnur gögn sem orðið hafi til vegna handtökunnar. Er þar bent á bréf ríkissaksóknara til lögmanns stefnanda, dags. 10. desember 2015, þar sem beiðni um afhendingu myndbandsupptaka hafi verið hafnað, með vísan til þess að slíkar upptökur teljist ekki til skjala máls, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 205/2012. Hafi ríkissaksóknari tekið fram að aðgangur að slíkum gögnum hafi sætt takmörkunum og í framkvæmd hafi verið miðað við að efni þeirra yrði ekki afhent, en þess í stað væri unnt að kynna sér efni upptaka á lögreglustöð eða skrifstofu ríkissaksóknara. Þá bendir stefndi á að við rannsókn ríkissaksóknara á kæru stefnanda vegna ætlaðs harðræðis við handtöku hafi stefnanda verið sýnt myndskeið sem hafði að geyma myndir af handtökunni. Þá sé í bréfi ríkissaksóknara frá 30. júní 2015 að finna ítarlega lýsingu á því sem fram komi á myndbandsupptökunni sem sýni handtökuna. Með vísan til þessarar afstöðu ríkissaksóknara telji stefndi sér ekki fært að verða við áskorun stefnanda um að leggja fram umræddar myndbandsupptökur.

 

IV

Niðurstaða

            Stefnandi reisir bótakröfu sína einkum á hlutlægri bótareglu 246. gr. laga nr. 88/2008, sem á þeim tíma sem um ræðir var að finna í 228. gr. sömu laga. Samkvæmt 1. og 2. mgr. þeirrar lagagreinar á maður sem borinn hefur verið sökum í sakamáli rétt til bóta vegna aðgerða samkvæmt IX.–XIV. kafla laganna ef mál hans hefur verið fellt niður eða hann verið sýknaður með endanlegum dómi án þess að það hafi verið gert vegna þess að hann var talinn ósakhæfur. Þó má, samkvæmt síðari málslið 2. mgr., fella niður bætur eða lækka þær ef sakborningur hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfu sína á. Fyrir liggur að stefnandi sætti aðgerðum samkvæmt IX., X. og XIII. kafla laganna, þ.e. handtöku, húsleit og haldlagningu muna, vegna rannsóknar lögreglu á máli sem fellt var niður gagnvart honum með bréfi ríkissaksóknara 18. apríl 2013. Á hann því rétt til skaðabóta frá stefnda vegna þessara aðgerða, nema því aðeins að telja megi hann sjálfan hafa valdið eða stuðlað að þeim, líkt og stefndi byggir á. 

            Samkvæmt gögnum málsins og vitnisburði lögreglumanna fyrir dómi var stefnandi handtekinn umrætt sinn, 1. febrúar 2013, vegna gruns um aðild hans að innflutningi mikils magns fíkniefna sem lögregla hafði lagt hald á fáeinum dögum fyrr. Beindist grunur að stefnanda vegna framburðar tveggja manna, sem úrskurðaðir höfðu verið í gæsluvarðhald vegna málsins, um að þeir hefðu fundað í a.m.k. þrígang á og við heimili stefnanda.

            Úrskurður héraðsdómara um heimild til húsleitar á heimili stefnanda var kveðinn upp sama dag og stefnandi var handtekinn. Samkvæmt framburði lögreglumanna fyrir dómi voru atvik þau að lögregla vaktaði heimili hans á meðan beðið var úrskurðar dómara og stóð til að kveðja dyra þegar húsleitarheimild lægi fyrir, handtaka stefnanda og færa hann til yfirheyrslu vegna málsins. Í ljósi fyrirliggjandi gagna verður að leggja til grundvallar að heimild hafi staðið til þess að handtaka stefnanda vegna rökstudds gruns um aðild hans að málinu, sbr. 1. mgr. 90. gr. laga nr. 88/2008.

            Áður en til þess kom að húsleitarheimild bærist í hendur lögreglu gerðist það að stefnandi yfirgaf heimili sitt á bifreið sinni. Hófst þá eftirför lögreglu og var óskað aðstoðar sérsveitar lögreglu þar sem stefnandi var talinn hættulegur. Eins og gögnum málsins er háttað verður það mat lögreglu ekki dregið í efa. Er þar m.a litið til útskriftar úr dagbók lögreglu frá árinu 2011 sem lögð var fram eftir að afmáðar höfðu verið persónuupplýsingar um aðra en stefnanda og eru mótmæli stefnanda gegn því að litið verði til þess skjals haldlaus. 

            Samkvæmt framburði lögreglumanna var stefnanda gefið stöðvunarmerki er hann beið á rauðu ljósi við gatnamót Bústaðavegar og Reykjanesbrautar. Deilt er um það hvort stefnandi hafi virt stöðvunarmerki lögreglu að vettugi, en stefnandi heldur því fram að hann hafi ekki orðið var við stöðvunarmerki lögreglu fyrr en komið var út á Reykjanesbraut og í fyrstu ekki áttað sig á því að þau væru ætluð sér. Þegar hann áttaði sig á því hafi hann leitað að heppilegum stað til að stöðva bifreiðina, en um sé að ræða mikla umferðaræð þar sem erfitt sé að stöðva. Mun hann hafa stöðvað bifreiðina á Reykjanesbraut nálægt afrein að Breiðholtsbraut. Að virtum framburði lögreglumanna fyrir dómi er ósannað að stefnandi hafi vitað að hann sætti eftirför eða mátt átta sig á því að stöðvunarmerki lögreglu væru honum ætluð fyrr en komið var inn á Reykjanesbraut. Getur framburður lögreglumanns sem taldi stefnanda hafa séð lögreglu í baksýnisspegli ekki hnekkt þeirri ályktun. Þá varð ekki ráðið af framburði lögreglumanna að stefnandi hefði aukið hraðann eða reynt að stinga lögreglu af áður en hann stöðvaði bifreiðina á framangreindum stað. Eins og aðstæðum var háttað, þar sem um stofnæð er að ræða, verður það ekki lagt stefnanda til lasts að hafa ekki stöðvað bifreiðina fyrr en hann gerði.

            Fyrir liggur að lögreglumenn sem komu að handtöku stefnanda höfðu á lofti kylfur. Sjást a.m.k. fjórir lögreglumenn á fyrirliggjandi ljósmyndum úr „Eye witness“-búnaði lögreglubifreiðar og er upplýst að lögreglumenn sem tóku þátt í aðgerðinni voru fleiri, þ.e. áhafnir a.m.k. þriggja merktra og ómerktra lögreglubifreiða. Er óumdeilt að a.m.k. tveir lögreglumenn beittu kylfum sínum, annar með því að slá stefnanda að eigin sögn tvö til þrjú högg í læri stefnanda, en högg hins lögreglumannsins geigaði og lenti á bifreið stefnanda. Stefndi varð ekki við áskorun stefnanda um að leggja fram í málinu myndskeið úr „Eye witness“-búnaði lögreglubifreiðar, og hefur gefið á því vissar skýringar. Fyrir liggur lýsing saksóknara á efni myndskeiðsins í niðurfellingarbréfi ríkissaksóknara frá 30. júní 2015, ásamt útprentuðum ljósmyndum úr myndskeiðinu. Eins og gögnum málsins er háttað, þ.m.t. læknisfræðilegum gögnum og framburði vitna fyrir dómi, verður ekki fallist á það með stefnanda að leggja beri til grundvallar þá lýsingu hans að hann hafi verið sleginn fjölda kylfuhögga, m.a. á höfuð, af mörgum lögreglumönnum.  

            Stefndi byggir á því að notkun kylfa hafi verið réttlætanleg miðað við aðstæður og samræmst reglum um valdbeitingu lögreglumanna og meðferð og notkun valdbeitingartækja og vopna, sem settar voru í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu 22. febrúar 1999. Vísar stefndi í því efni til þess að stefnandi hafi verið talinn hættulegur og að handtakan hafi farið fram á hættulegum stað, þ.e. mikilli umferðaræð. Eins og fyrr sagði verður það mat lögreglu að stefnandi gæti verið hættulegur ekki dregið í efa. Eins og aðstæðum var háttað verður ekki fundið að því að kylfur hafi verið hafðar á lofti við handtöku hans. Öðru máli kann að gegna um beitingu kylfu á líkama hans og verður nú að því vikið.

            Sá lögreglumaður sem sló stefnanda með kylfu bar fyrir dómi að stefnandi hefði ekki hlýtt fyrirmælum um að stíga út úr bifreiðinni, heldur streist á móti er hann var dreginn út úr bifreiðinni og ekki farið að fyrirmælum um að leggjast í jörðina. Hafi vitnið því beitt kylfunni tvisvar eða þrisvar sinnum á læri stefnanda til að knýja hann niður, en mikilvægt hafi verið að koma honum niður sem fyrst til að koma í veg fyrir átök úti á miðri stofnæðinni. 

            Líta verður til þess að um fyrirfram skipulagða aðgerð var að ræða gagnvart stefnanda og verður því að ætla að lögregla hefði átt að geta skipulagt handtökuna þannig að hún færi fram við ákjósanlegri aðstæður en raun varð á. Vissulega virðist atburðarásin hafa orðið önnur en lögregla vænti, er stefnandi hélt á brott akandi frá heimili sínu, áður en húsleitarúrskurður lá fyrir. Ósannað er að stefnandi hafi þá haft grun um að lögregla vaktaði heimili hans. Verður því að ætla að lögregla hafi haft nokkurt ráðrúm til þess að fylgja stefnanda eftir og velja hentugan stað til að stöðva akstur hans. Samkvæmt framburði lögreglumanna var honum ekki gefið stöðvunarmerki fyrr en við gatnamót sem liggja inn á stofnæð. Verður ekki séð að brýna nauðsyn hafi borið til þess að stöðva akstur stefnanda á því tímamarki, enda er ekkert fram komið sem benti til þess að hann væri vís með að hefja ofsaakstur. Verður heldur ekki séð að um neinn ofsaakstur hafi verið að ræða eftir að stefnandi varð lögreglu var, áður en hann stöðvaði bifreið sína.

            Ekkert bendir til þess að stefnandi hafi sýnt ógnandi hegðun er honum var sagt að stíga út úr bifreiðinni eða eftir að út úr henni var komið, þótt hann kunni að hafa streist á móti er hann var dreginn út úr bifreiðinni. Þá var fjöldi lögreglumanna sem kom að handtökunni slíkur að ætla má að þeir hefðu haft í fullu tré við stefnanda hefði hann sýnt af sér ógnandi hegðun.

            Eftir handtöku stefnanda, sem virðist hafa átt sér stað kl. 11.30, þótt tímasetningarinnar 11.55 sé einnig getið í gögnum málsins, var stefnandi færður á lögreglustöð og var hann vistaður þar á meðan húsleit fór fram á heimili hans, að viðstöddum verjanda stefnanda. Leitinni lauk kl. 13.30 en við hana voru haldlögð raftæki (tölvur, sími og myndavél), en engin ávana- og fíkniefni. Stefnandi var færður á heilsugæslu til læknisaðhlynningar um kl. 14.30 en ekki liggur fyrir hvenær þeirri aðhlynningu lauk. Leit í bifreið stefnanda hófst kl. 16.40 og lauk 10 mínútum síðar. Verður ekki séð að stefnandi byggi á öðru en að heimild hafi staðið til leitar bæði á heimili hans og í bifreiðinni. Skýrslutaka af stefnanda hófst kl. 17.00 og henni lauk 17.17. Var stefnanda sleppt að lokinni yfirheyrslu.Var stefnandi þannig sviptur frelsi sínu í nálægt sex klukkustundir.

            Í framburðarskýrslu stefnanda kom fram að hann kannaðist við mennina tvo sem þá sátu í gæsluvarðhaldi og að hann útilokaði ekki að þeir gætu hafa hist á heimili hans, þótt hann neitaði að hafa verið viðstaddur þá fundi sjálfur og neitaði alfarið allri aðkomu að málinu. Rannsóknargögn þess lögreglumáls sem fellt var niður, önnur en framangreind framburðarskýrsla og húsleitarúrskurður, hafa ekki verið lögð fram og er málatilbúnaður stefnda raunar fremur óljós um það með hvaða hætti stefnandi hafi stuðlað að því að grunur beindist að honum í því máli. 

            Í ljósi alls þess sem hér hefur verið rakið er ósannað að stefnandi hafi á einhvern hátt valdið eða stuðlað að þeim þvingunaraðgerðum lögreglu sem hann var beittur. Þá er einnig rétt að stefndi beri hallann af því að ósannað er að meðalhófs hafi verið gætt við framkvæmd handtöku stefnanda, þegar kylfu var beitt á líkama hans án þess að séð verði að hegðun hans hafi gefið nægt tilefni til þess eða að hann beri ábyrgð á því hvar akstur hans var stöðvaður. 

            Ekki verður séð að unnt hefði verið að taka skýrslu af stefnanda fyrr en að lokinni húsleit og læknisaðhlynningu. Ætla má þó að færa hefði mátt stefnanda fyrr til læknisaðhlynningar, enda liggur ekkert fyrir sem hnekkir staðhæfingu stefnanda um að hann hafi strax kvartað undan áverkum og krafist þess að fá aðhlynningu læknis. Verður því fallist á að ekki hafi verið gætt fyllsta meðalhófs við lengd þeirrar frelsisskerðingar sem stefnandi sætti.

            Ekki verður hins vegar fallist á að stefnandi hafi sætt vanvirðandi meðferð í skilningi 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sökum þess að handtakan fór fram um hábjartan dag á fjölfarinni umferðaræð, né heldur sökum tafar á því að koma stefnanda undir læknishendur eftir handtökuna og vistunar hans í fangaklefa fram að því.

            Þar sem skilyrði 246. gr., áður 228. gr., laga nr. 88/2008 eru uppfyllt og ekki er fallist á að ákvæði síðari málsliðar 2. mgr. greinarinnar eigi við, á stefnandi rétt á bótum. Samkvæmt 5. mgr. 246. gr. skal bæta fjártjón og miska ef því er að skipta.

            Fyrir liggur matsgerð læknis um líkamstjón stefnanda. Ekki er deilt um að stefnandi hafi orðið fyrir þeim áverkum við handtökuna sem greinir í læknisvottorðum, sjást á ljósmyndum og lagðir voru til grundvallar í matsgerð. Um er að ræða sérfræðilega álitsgerð læknis sem gert er ráð fyrir í 10. gr. skaðabótalaga að megi afla og að annar hvor aðila geti síðan borið undir örorkunefnd. Þessi álitsgerð hefur hvorki verið borin undir örorkunefnd né hefur henni verið hnekkt með öflun matsgerðar dómkvadds matsmanns. Þá er ekkert fram komið sem rýrir niðurstöður álitsgerðarinnar, en líkt og höfundur hennar staðfesti fyrir dómi var við niðurstöður hennar tekið tillit til fyrri heilsufarssögu stefnanda. Verður álitsgerðin lögð til grundvallar við sönnun á tjóni stefnanda. Útreikningi stefnanda á bótakröfunni hefur ekki verið mótmælt. Verða stefnanda því dæmdar bætur fyrir líkamstjón (þjáningabætur og bætur vegna varanlegs miska) eins og hann krefst, að fjárhæð 1.937.760 krónur.

            Stefndi mótmælir sérstaklega kröfu stefnanda um miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga. Hér að framan hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að ósýnt sé að meðalhófs hafi verið gætt varðandi lengd frelsissviptingar og er kylfu var beitt á líkama stefnanda við handtöku. Að því gættu verður fallist á að stefnandi eigi rétt til miskabóta. Ekki verður séð að atvik varðandi húsleit, leit í bifreið og haldlagningu muna hafi aukið verulega á þann miska, þótt þessar aðgerðir hafi falið í sér inngrip í friðhelgi einkalífs hans. Þykja miskabætur til handa stefnanda hæfilega ákveðnar 300.000 krónur.

            Samtals verður stefndi því dæmdur til að greiða stefnanda bætur að fjárhæð 2.237.760 krónur. Þótt vaxtakröfum, þ.m.t. upphafstíma dráttarvaxta, hafi ekki verið mótmælt sérstaklega með rökstuddum hætti verður að skilja málatilbúnað stefnda svo að þeim kröfum sé mótmælt. Krafa stefnanda um almenna vexti á sér stoð í 16. gr. skaðabótalaga og 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Skilja verður dráttarvaxtakröfu stefnanda svo að átt sé við dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., laga nr. 38/2001. Ekki verður séð að stefnandi hafi lagt fram fullnægjandi upplýsingar til stuðnings bótakröfu sinni fyrr en við höfðun máls þessa, 31. janúar 2017, og verður upphafstími dráttarvaxta því miðaður við það er mánuður var liðinn frá þeirri dagsetningu, sbr. fyrri málslið 9. gr. laga nr. 38/2001.

            Stefnandi nýtur gjafsóknar í málinu samkvæmt gjafsóknarleyfi, útgefnu 3. nóvember 2016. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Sigrúnar Ingibjargar Gísladóttur, sem þykir hæfilega ákveðin með þeirri fjárhæð sem greinir í dómsorði, án virðisaukaskatts. Málskostnaður milli aðila verður látinn falla niður.

            Hildur Briem héraðsdómari kveður upp dóm þennan. Dómari og lögmenn aðila voru sammála um það að endurflutningur málsins væri óþarfur, þrátt fyrir þann drátt sem varð á uppkvaðningu dómsins, sem helgaðist af embættisönnum dómara.

 

Dómsorð:

            Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, A, 2.237.760 krónur, með 4,5% vöxtum skv. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 1.937.760 krónum frá 1. febrúar 2013 til 28. febrúar 2017 en frá þeim degi með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 til greiðsludags, og með vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 af 300.000 krónum frá 1. febrúar 2013 til 28. febrúar 2017 en frá þeim degi með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 til greiðsludags.

            Málskostnaður milli aðila fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Sigrúnar Ingibjargar Gísladóttur, 2.400.000 krónur.

 

                                                                 Hildur Briem