- Afréttur
- Eignarréttur
- Frávísun frá héraðsdómi
- Kröfugerð
- Landamerki
- Þjóðlenda
Ár 2006, þriðjudaginn 17. október, er á dómþingi Héraðsdóms Suðurlands, sem háð er að Austurvegi 4, Selfossi, kveðinn upp úrskurður í máli nr. E-492/2005:
Jón Sigurðsson o.fl.
(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)
gegn
íslenska ríkinu.
(Skarphéðinn Þórisson hrl.)
Mál þetta, sem dómtekið var 24. ágúst s.l., er höfðað með stefnu birtri 14. september 2005.
Stefnendur eru Jón Sigurðsson og Gunnar Sigurðsson, eigendur Eyvindarhóla, Sigurður Björgvinsson, eigandi Stóru-Borgar, Sigurður Sigurjónsson og Ingimundur Vilhjálmsson, eigendur Klambra, Jón Ársæll Þórðarson og Sigurður Björgvinsson, eigendur Sitjanda, Kolbeinn Gissurarson, Jón A. Gissurarson, Sigríður Gissurardóttir, Ása Gissurardóttir, Kristinn Skæringsson, Vilborg Sigurjónsdóttir og Sigurjón Pálsson, eigendur Minni-Borgar, Vilborg Sigurjónsdóttir og Sigurjón Pálsson, eigendur Rauðsbakka og Rangárþing eystra í umboði annarra rétthafa skv. 2. mgr. 11. gr. laga nr. 58/1998.
Stefndi er íslenska ríkið og fyrir hönd þess er fjármálaráðherra stefnt.
Dómkröfur stefnenda eru eftirfarandi: Að felld verði úr gildi sú niðurstaða óbyggðanefndar í málinu nr. 5/2003: um Eyjafjallasvæði og Þórsmörk í Rangárþingi eystra í úrskurði frá 10. desember 2004, að afréttarlöndin Hólatungur og Borgartungur í Rangárþingi eystra teljist þjóðlendur. Jafnframt er þess krafist að viðurkennt verði með dómi að stefnendurnir Jón Sigurðsson og Gunnar Sigurðsson, eigendur Eyvindarhóla, eigi í óskiptri sameign beinan eignarrétt að Hólatungum og aðrir stefnendur sem eigendur jarðanna Stóru-Borgar, Klambra, Sitjanda, Minni-Borgar og Rauðsbakka eigi í óskiptri sameign beinan eignarrétt að Borgartungum, en afréttarlöndin afmarkast þannig:
Frá jaðri Eyjafjallajökuls, þaðan sem áin í gilinu vestan Þorvaldstungna kemur undan Eyjafjallajökli og þangað sem hún rennur saman við ána úr Kaldaklifsárgili, austan Rauðafellstungna. Þaðan er hinni síðarnefndu á fylgt norður að upptökum sínum við jökul. Innan þessa svæðis eru Hólatungur að vestanverðu og Borgartungur að austanverðu og skilur á milli á sú sem rennur frá jökli á milli hinna tveggja. Á milli fyrrnefndra tveggja punkta við jaðar Eyjafjallajökuls vestan Þorvaldstungna og austan Rauðafellstungna, ráði jökuljaðar eins og hann er á hverjum tíma.
Verði talið að afréttarlöndin teljist þjóðlendur er krafist viðurkenningar á fullkomnum afnotarétti stefnenda til hvers kyns gagna og gæða á afréttarlandinu að engum afnotum undanskildum. Stefnendur krefjast þess að þeim verði tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnda samkvæmt mati dómsins eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en stefnendur fengu gjafsókn í máli þessu með leyfum dóms- og kirkjumálaráðuneytis dagsettum 20. júní og 28. október 2005.
Dómkröfur stefnda eru þær að staðfestur verði úrskurður óbyggðanefndar frá 10. desember 2004 í máli nr. 5/2003 hvað varðar eignarréttarlega stöðu Hólatungna og Borgartungna sem þjóðlendna og stefndi þannig sýknaður af kröfum stefnenda. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu.
Málavextir.
Með lögum nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, sem tóku gildi 1. júlí 1998, var sérstakri stjórnsýslunefnd, óbyggðanefnd, falið að kanna og skera úr um hvaða landsvæði innan íslenska ríkisins teljist til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda, skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur og úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna, sbr. 7. gr. laganna.
Með bréfi dagettu 12. október 2000 var fjármálaráðherra tilkynnt með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 58/1998 að óbyggðanefnd hefði á fundi ákveðið að taka til meðferðar sem svæði 3 landsvæðið vestan sveitarfélagsins Hornafjarðar. Þetta svæði afmarkaðist til austurs af austurmörkum jarðarinnar Núpsstaðar í Fljótshverfi og að sunnan afmarkaðist svæðið af hafinu, til norðurs í samræmi við tillögu starfshóps um stjórnsýslumörk á miðhálendinu frá 1996, en á Vatnajökli við línu þá sem samvinnunefnd um svæðisskipulag miðhálendis Íslands hefur notað við vinnu sína. Til vesturs náði kröfusvæðið að kröfusvæði 1, Árnessýslu. Fjármálaráðherra var veittur frestur til að lýsa kröfum sínum um þjóðlendur á svæðinu og eftir að kröfulýsingum hafði verið skilað var landeigendum og öðrum rétthöfum veittur frestur til að skila inn kröfugerðum. Að því er hið umdeilda svæði varðar var kröfugerð fyrir nefndinni þannig háttað að einn eigenda Eyvindarhóla krafðist þess að Hólatungur yrðu viðurkenndar sem beitarítak „með tilteknum merkjum innan Hrútafellsheiðar, en viðurkennd að öðru leyti eign Hrútafells að Tungunum“. Jafnframt var þess krafist að kröfum ríkisins til þjóðlendu á svæðinu yrði hafnað og einnig var sú krafa gerð „að viðurkennt verði að það land sem undan jökli kann að koma falli til viðkomandi jarða með fullkomnum (beinum) eignarrétti, svo langt sem vötnum hallar til, með sama hætti og vötn nú deila“. Sambærilegar kröfur voru gerðar fyrir nefndinni af hálfu eins eigenda Stóru-Borgar að því er Borgartungur varðaði. Þessir stefnendur tóku þátt í málarekstri fyrir óbyggðanefnd, en sérstakt mál var rekið um þjóðlendur á Eyjafjallasvæði og Þórsmörk sem mál nr. 5/2003. Eigandi Hrútafells gerði þá kröfu fyrir nefndinni að viðurkenndur yrði fullkominn eignarréttur hans að Hrútafellsheiði og kröfum ríkisins til þjóðlendna á svæðinu yrði hafnað.
Nefndin komst að þeirri niðurstöðu í úrskurði sínum upp kveðnum 10. desember 2004 að land Hrútafells teldist ekki til þjóðlendu en Hólatungur og Borgartungur, sem taldar voru utan landamerkja Hrútafells, teldust þjóðlendur í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laganna. Er nánari grein gerð fyrir afmörkun þessa landsvæðis í úrskurðarorði. Þá var komist að þeirri niðurstöðu að tungurnar væru afréttareign tiltekinna jarða, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. laganna.
Stefnendur undu ekki þessari niðurstöðu óbyggðanefndar og krefjast því ógildingar úrskurðarins að því er hið umdeilda landsvæði varðar. Eigendur Hrútafells eru ekki aðilar máls þessa.
Útdráttur úr úrskurði óbyggðanefndar í málinu nr. 5/2003 var birtur í Lögbirtingablaðinu 15. mars 2005, svo sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 18. gr. laga nr. 58/1998.
Í greinargerð sinni gerir stefndi þá kröfu að hann verði sýknaður vegna aðildarskorts og byggir á því að þeir aðilar, sem nú geri kröfur um beinan eignarrétt, hafi ekki gert slíka kröfu fyrir óbyggðanefnd, heldur einungis kröfu um beitarítak í hinum umdeildu löndum. Uppfylli þetta ekki ákvæði 19. gr. laga nr. 58/1998 um að leggja megi fyrir dómstóla hverja þá kröfu sem gerð hafi verið fyrir nefndinni. Hvergi sé getið um kröfur frá Hrútafelli, sem þó hafi gert eignarréttarkröfuna fyrir óbyggðanefnd.
Niðurstaða.
Í 1. mgr. 19. gr. þjóðlendulaga nr. 58/1998, sbr. l. nr. 65/2000, segir að sá sem ekki vilji una úrskurði óbyggðanefndar, skuli höfða einkamál innan sex mánaða frá útgáfudegi þess Lögbirtingablaðs sem útdráttur úr úrskurði er birtur í skv. 1. mgr. 18. gr. Í síðari málslið greinarinnar segir að unnt sé að leggja til úrlausnar hverja þá kröfu sem gerð hafi verið fyrir nefndinni. Í 2. mgr. 14. gr. laganna segir að mál, sem heyri undir óbyggðanefnd, verði ekki borið undir dómstóla fyrr en eftir að nefndin hafi lokið umfjöllun sinni um það. Í greinargerð sem fylgdi frumvarpi til laganna segir um 2. mgr. 14. gr. að álitaefni, sem lögð séu til óbyggðanefndar, verði ekki lögð fyrir dómstóla fyrr en nefndin hefur fjallað um þau og feli ákvæðið það í sér að slíkri kröfu ætti að vísa frá dómi og aðili yrði að leggja hana fyrir óbyggðanefnda og fá úrskurð um hana áður en hann leitaði til dómstóla. Þá segir í greinargerðinni um 19. gr. laganna að gert sé ráð fyrir því að sá sem leiti til dómstóla geti haft þar uppi sömu kröfur og gert hafi verið fyrir óbyggðanefnd en vegna reglu 2. mgr. 14. gr. verði ekki höfð uppi víðtækari kröfugerð fyrir dómstólum en gert hafi verið fyrir nefndinni. Þá verði að líta svo á að viðkomandi geti þrengt kröfugerð sína frá því sem gert hafi verið fyrir nefndinni.
Eins og að framan er rakið var kröfugerð stefnenda máls þessa fyrir óbyggðanefnd með þeim hætti að gerð var krafa um að hin umdeildu svæði yrðu viðurkennd sem beitarítök en að öðru leyti væri viðurkennd eign Hrútafells að Tungunum. Eigendur Hrútafells eru ekki aðilar málsins fyrir dómi. Með úrskurði nefndarinnar var fallist á að Hólatungur væru í afréttareign eigenda jarðarinnar Eyvindarhóla og Borgartungur í afréttareign eigenda jarðarinnar Stóru-Borgar og því jafnframt slegið föstu að tungurnar teldust til þjóðlendna. Þar sem kröfugerð stefnenda hér fyrir dómi er í ósamræmi við þær kröfur sem þeir höfðu uppi fyrir óbyggðanefnd, verður ekki hjá því komist með vísan til 1. mgr. 19. gr þjóðlendulaga, sbr. 2. mgr. 14. gr. sömu laga, að vísa máli þessu frá dómi.
Málskostnaður fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnenda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns þeirra, Ragnars Aðalsteinssonar, hrl., 200.000 krónur. Samkvæmt yfirliti lögmannsins nam útlagður kostnaður hans 24.286 krónum.
Hjörtur O. Aðalsteinsson, dómstjóri, kvað upp dóminn. Uppkvaðning úrskurðar hefur dregist fram yfir lögbundinn frest vegna mikilla embættisanna dómarans, en lögmenn aðila töldu endurflutning óþarfan.
ÚRSKURÐARORÐ:
Máli þessu er vísað frá dómi
Málskostnaður fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnenda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns þeirra, Ragnars Aðalsteinssonar, hrl., 200.000 krónur.
Hjörtur O. Aðalsteinsson.