- Brot gegn valdstjórninni
- Hegningarauki
D Ó M U R
Héraðsdóms Reykjaness, þriðjudaginn 18. október 2016, í máli nr.
S-237/2016:
Ákæruvaldið
(Þorbjörg Sveinsdóttir saksóknarfulltrúi)
gegn
Karli Inga Þorleifssyni
(Jónas Örn Jónasson hdl.)
Mál þetta, sem var þingfest 21. september 2016 en dómtekið 13. október 2016, er höfðað með ákæru héraðssaksóknara, útgefinni 8. ágúst 2016, gegn Karli Inga Þorleifssyni, kennitala 000000-0000, Laufvangi 8, Hafnarfirði, „fyrir brot gegn valdstjórninni, með því að hafa, föstudaginn 6. nóvember 2015 í kjölfar þess að ákærði var handtekinn og færður í lögreglubifreið við Fjarðargötu í Hafnarfirði, í lögreglubifreið á leið að lögreglustöðinni við Hverfisgötu í Reykjavík, hótað lögreglumanninum A með því að segjast vita hvar A ætti heima og hvar börnin hans gengju í skóla og að hann skyldi því vara sig.“
Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Ákærði hefur fyrir dómi skýlaust játað brot sitt. Farið var með málið samkvæmt ákvæðum 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu eftir að sækjanda og verjanda ákærða, hafði verið gefinn kostur á því að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun refsingar.
Ákærði krafðist vægustu refsingar. Fram kom í máli ákærða að hann hafi játað háttsemi sína fyrir dómi og hafi lýst yfir eftirsjá hjá lögreglu. Bæri að virða honum framangreint til málsbóta auk þess sem ákærði hafi í umrætt sinn þegar hann var handtekinn, eingöngu ætlað að koma flogaveikum manni til aðstoðar, enda haft til þess kunnáttu. Þá kom fram í máli ákærða að hann væri að vinna í sínum vandamálum og væri á leið í meðferð.
Játning ákærða er í samræmi við önnur gögn málsins og er réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru. Verður ákærða því gerð refsing.
Ákærði er fæddur í [...]. Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur honum ellefu sinnum verið gerð refsing frá árinu 2001. Þau brot hafa ekki ítrekunaráhrif, en með dómi Héraðsdóms Reykjaness, 11. nóvember 2015, var ákærði dæmdur til fimm mánaða fangelsisvistar, þar af voru tveir mánuðir skilorðsbundnir til tveggja ára, fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. og 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Brot ákærða nú er hegningarauki við framangreindan dóm.
Við ákvörðun refsingar verður litið til þess að ákærði játaði brot sitt greiðlega fyrir dómi og lýsti yfir eftirsjá hjá lögreglu sem ber að virða honum til málsbóta. Ofbeldi gagnvart lögreglu er alltaf alvarlegt en til þess ber þó að horfa að ekki liggur fyrir að neitt tjón hafi orðið eða að ákærði hafi á einhvern hátt fylgt eftir hótun sinni.
Að framangreindu virtu, sbr. og 78. gr. almennra hegningarlaga, er refsing ákærða ákveðin fangelsi í einn mánuð. Með vísan til þeirra atriða sem að framan greinir og horfa ákærða til málsbóta, þykir mega eins og hér stendur á, binda refsingu ákærða skilorði, eins og nánar greinir í dómsorði.
Með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga um meðferð sakamála verður ákærði dæmdur til að greiða allan sakarkostnað málsins, sem er þóknun skipaðs verjanda hans, Jónasar Arnar Jónassonar hdl., sem ákveðin er að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Bogi Hjálmtýsson, héraðsdómari dæmir mál þetta.
D ó m s o r ð :
Ákærði, Karl Ingi Þorleifsson, sæti fangelsi í einn mánuð en fresta skal fullnustu refsingar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins sem er þóknun skipaðs verjanda síns, Jónasar Arnar Jónassonar héraðsdómslögmanns, 122.760 krónur.
Bogi Hjálmtýsson