- Afréttur
- Hefð
- Þjóðlenda
D Ó M U R
Héraðsdóms Norðurlands eystra föstudaginn 4. nóvember
2016 í máli
nr. E-70/2010:
Leyningsbúið ehf.
(Guðjón Ólafur Jónsson hrl.)
gegn
íslenska ríkinu
(Edda Björk Andradóttir hdl.)
Mál þetta, sem var dómtekið 1.
nóvember sl. var höfðað 20. janúar 2010.
Stefnandi er Leyningsbúið ehf.,
Leyningi, Eyjafjarðarsveit.
Stefndi er íslenska ríkið.
Stefnandi krefst þess að felldur
verði úr gildi úrskurður óbyggðanefndar í máli nr. 2/2008, Eyjafjarðarsveit
vestan Eyjafjarðarár, dagsettur 19. júní 2009, að því leyti sem hann taki til
lands jarðarinnar Leynings í Eyjafjarðarsveit. Þá krefst stefnandi þess að
viðurkenndur verði einkaeignarréttur hans að umræddu landsvæði, sem afmarkist
þannig:
Torfufellsá er fylgt frá ármótum við Svartá og að Galtá, sem fylgt er
til upptaka. Frá upptökum Galtár er dregin lína til sveitarfélagamarka
Eyjafjarðarsveitar og Akrahrepps, í samræmi við kröfulínu ríkisins. Frá ármótum
Torfufellsár og Svartár er þeirri síðarnefndu fylgt til upptaka sinna og þaðan
dregin lína til áðurnefndra sveitarfélagamarka. Á milli framangreindra tveggja
punkta á sveitarfélagamörkum er miðað við þau mörk.
Þá er krafist málskostnaðar eins og
málið væri ekki gjafsóknarmál.
Stefndi krefst sýknu og
málskostnaðar, en til vara sýknu og að málskostnaður falli niður.
Gengið var á vettvang.
I
Jörðin Leyningur í Eyjafirði er innan
marka landnáms Helga magra, sem gaf Auðuni rotin Þórólfssyni smjörs land upp
frá Hálsi til Villingadals. Stefnandi er eigandi jarðarinnar.
Jarðarinnar er getið í bréfi 14. mars
1375, um það að Gunnar Pétursson seldi Jóni Ólafssyni Hóla og Vatnsenda fyrir
Auðbrekku og var tekið fram að Hólar ættu skógarpart í Leyningsjörð og
Vatnsendi ,,áttfeðminga skurð“ í sömu jörð.
Þann 13. september 1437 seldi
Þorvarður Loftsson Gunnsteini Jónssyni hálfa jörðina í Leyningi í Hólaþingum í
Eyjafirði, fyrir jörðina Voga við Mývatn. Fékk Margrét Vigfúsdóttir hálfan
Leyning eftir Þorvarð þann 30. apríl 1446.
Ormur Sturluson lögmaður úrskurðaði
árið 1571 [stafsetningu er hér breytt] ,,...ég hefi aldrei lagareið áriðið þann
dal sem hjá Leyningi er og sagt er að eignaður sé Hólum í Eyjafirði frá
Leyningi. Nú ég hefi það heyrt af mörgum ærlegum mönnum skilvísum sagt, að
Leyningur ætti þennan sama dal en ekki Hólar og í öðru lagi hefur mér sagt
verið að ég skyldi hafa átt að ríða á þennan dal með góðum mönnum og skikka
hann eign Hóla í Eyjafirði, hvað ég aldrei gjört hefi því eftir framburði og
vottun góðra manna sem mér sagt hafa að þessi dalur sem hjá Leyningi liggur og
selið í stendur hafi verið haldinn lögleg eign jarðarinnar oft nefnds Leynings
aðkallslaust og átölulaust meira en í sextíu ár, eður mun lengur, því allt í
guðs nafni amen og eftir þessum vitnum svo og að öllu svo prófuðu máli og fyrir
mig komnu þá úrskurða ég nú með ljósum lagaverknað þennan dal er selið frá
Leynings jörðu í stendur, löglega eign oft nefndrar jarðar Leynings.“
Í jarðaskjölum Saurbæjarhrepps í
Eyjafjarðarsýslu er að finna vitnisburð Jóns Péturssonar frá 29. mars 1633, sem
hljóðar um að [stafsetningu breytt]
,,...með því Jón Jónsson hans af mér óskar útí það ég má til vita um
landamerki Leynings, ólst ég upp frá því ég var v vetra og til þess ég var xv
vetra á Skáldstöðum og fjögur ár í Torfufelli fullorðinn og vissi ég fyrir
fullsönnuð að Gunnlaugur heitinn Ormsson sem átti Leyning hélt, beitti og
brúkaði átölulaust frá Leyningi útí þann Ytra Grófarlæk á milli Jórunnarstaða
og réttsýnis upp á fjall og ofan í á og aldrei heyrði ég annað en Leyningur
ætti alla Leyningsskál, en það vissi ég að þeir Jórunnarstaðamenn beittu í
Leynings land með leyfi Gunnlaugs ...“
Í landamerkjabréfi dagsettu 20. maí
1885 er merkjum Leynings þannig lýst:
,,Fyrst heimalandið: Takmörk þess að
neðan er Eyjafjarðará og að ofan fjallsbrúnirnar. Millum Jórunnarstaða og
Leynings eru merkin í vörðu norðanvert við svokallað Básgil niður við ána og
svo beina stefnu til fjalls [...]
Að sunnanverðu eru merkin í
svokallaðan Rauðklett og frá honum í sjónarhól þaðan í Kringluvatn.
Og frá því bein stefna suður í
Torfufellsgil og úr Torfufellsgilskjaftinum bein stefna ofan eyrarnar í
Halldórsstaðagil.
Líka fylgir jörðinni afrétt
svokallaður Leyningsdalur. Takmörk hans að neðan er Torfafellsá og fjallsbrúnir
að ofan, Galtá að framan og Svartá að heiman.“
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls
Vídalíns segir m.a. um Leyning að jörðin eigi selstöðu með tilliggjandi landi á
Leyningsdal, sem liggi fram frá Villingsdals landi fyrir framan Svartá, en hafi
ekki brúkast í mörg ár nema fyrir hross og geldfé á sumrum.
Í Jarðamati 1849 segir að afrétt sé
góð og nóg fyrir heimilið, á henni sé selstaða sem ei sé notuð þar sem afréttin
sé lítil. Heiti hún Leyningsdalur.
Fleiri skjala um Leyning verður getið
síðar.
Með bréfi dagsettu 29. mars 2007
tilkynnti óbyggðanefnd fjármálaráðherra f.h. stefnda að taka ætti til meðferðar
tiltekið landsvæði á Norðurlandi, hið sjöunda í röðinni hjá nefndinni. Að ósk
ráðherra var umfjöllun skipt, þannig að fyrst yrði einungis syðri hluti þess
til meðferðar. Fékk sá hluti, vestanvert Norðurland, syðri hluti, númerið 7A.
Fjallaði nefndin um hann og fleira í máli nr. 2/2008, Eyjafjarðarsveit vestan
Eyjafjarðarár. Kröfulýsingar stefnda voru sendar óbyggðanefnd 14. mars 2008.
Gerði stefndi kröfu um að viðurkennt yrði sem þjóðlenda nánar tiltekið svæði,
sem hér eftir verður í heild nefnt Leyningsdalur. Nefndin birti tilkynningu um
meðferð á svæðinu í Lögbirtingablaði 28. mars 2008 og síðan í fleiri blöðum.
Stefnandi gerði kröfu um að nefndin viðurkenndi eignarrétt hans að Leyningsdal
milli Galtár að framan til upptaka og Svartár að heiman til upptaka. Fjallið
(vatnaskil) skyldi ráða að ofan og Torfufellsá að neðan. Til vara var krafist
viðurkenningar á fullkomnum afnotarétti til þessa lands.
Hinn 19. júní 2009 kvað nefndin upp
úrskurð í máli nr. 2/2008, þar sem ,,Leyningsdalur“ var afmarkaður eins og lýst
er í dómkröfum stefnanda. Var fallist á að svæðið væri þjóðlenda, en viðurkennt
að það væri í afréttareign eigenda Leynings.
II
Stefnandi kveður ágreining í málinu
lúta að þeim hluta jarðarinnar Leynings, sem nefndur sé Leyningsdalur. Sé ekki
ágreiningur um afmörkun svæðisins, en um eignarrétt að því. Kveðst stefnandi
byggja á því að það sé hluti Leynings, eins og land þeirrar jarðar hafi verið
afmarkað frá landnámi. Einnig kveðst hann byggja á því að eignarhefð að svæðinu
sé fullnuð.
Stefnandi segir að ótvírætt hafi
verið fjallað um Leyningsdal í úrskurði Orms Sturlusonar árið 1571, því þar
hafi staðið selið, sem vísað sé til í dómnum. Vísar stefnandi um þetta til
Jarðabókar Árna og Páls, þar sem komi fram að Leyningur eigi selstöðu með
tilliggjandi landi á Leyningsdal, sem liggi fram frá Villingadalslandi fyrir
framan Svartá.
Landsvæði þetta hafi ætið verið
talinn hluti Leynings og gengið kaupum og sölum um aldir, án þess að nokkur
greinarmunur hafi verið gerður á því landi sem hafi verið selt.
Landamerkjabréfið frá 1885 hafi verið
samþykkt af eigendum flestra aðliggjandi jarða og þinglesið og fært í
landamerkjabók án athugasemda. Sé það í samræmi við eldri heimildir um lýsingu
landsins, m.a. lýsingu Jarðabókarinnar og lögfestna. Þá komi fram í jarðamati
1804 að tvær eyðihjáleigur séu tilheyrandi Leyningi, Tjarnargerði og
Klaufagerði, og auk þess hafi jörðin afrétt sem geti tekið við lömbum frá
tveimur jörðum. Samkvæmt jarðamatinu eigi Leyningur afrétti, góða og nóga, í
Leyningsdal. Einnig megi vísa til viðauka við mat Leynings í Jarðatali
Johnsens. Fram komi í fasteignamati jarðarinnar 1916-1918 að jörðinni fylgi
upprekstrarlandið Leyningsdalur. Allt þetta bendi til þess að Leyningsdalur
hafi haft stöðu eignarlands.
Þá kveðst stefnandi byggja á því að
heimildir bendi til þess að eignarhald á landi Leynings, Leyningsdal þar með
töldum, hafi verið í höndum ákveðins eiganda á hverjum tíma og að hið umþrætta
svæði hafi verið talið hluti jarðarinnar. Notkun orðsins ,,afréttur“ eða
,,afréttarland“ í heimildarskjölum endurspegli í þessu sambandi eingöngu þau
not sem menn hafi helst tengt við landið. Þess utan geti afréttur verið
fullkomið eignarland eins og til dæmis þegar jarðir hafi verið lagðar til
afréttar.
Þótt dalurinn sé landfræðilega
aðskilinn frá Leyningi geti hann ekki haft aðra eignarréttarlega stöðu en
annað land jarðarinnar. Gögn og heimildir bendi til að langt sé síðan landið
hafi verið lagt undir Leyning og líklega tilheyrt honum frá öndverðu, en verið
haldið eftir þegar jörðunum í Villingadal hafi verið skipt út úr jörðinni. Eins
og fram komi í heimildum hafi öllum ekki verið frjáls not af landinu og raunar
bendi heimildir til þess að landsvæðið teljist fremur til heimalands eiganda en
afréttar. Nefnir stefnandi sérstaklega dóm Orms lögmanns í þessu samhengi.
Stefnandi segir að ætíð hafi verið
gengið út frá því að land innan landamerkja Leynings sé í einkaeign. Sama gildi
um dalinn, sem lýst sé í landamerkjabréfi sem hluta jarðarinnar. Með gerð
landamerkjalýsingarinnar hafi eignarland jarðarinnar verið afmarkað og
staðfestur einkaeignaréttur sem hafi stofnast við landnám. Hafi ekki vafist
fyrir neinum að eigandi þessa lands hafi farið með eignarráð þess eins og það
hafi verið afmarkað frá öndverðu. Hafi ætíð verið út frá þessu gengið og hafi
stefnandi ekki haft tilefni til að ætla annað en að af hálfu ríkisins væri
eignarréttur á svæðinu samkvæmt merkjaskrám, kaupsamningum og afsölum
viðurkenndur og óumdeildur. Svæðið sé skýrlega afmarkað og gengið út frá í
öllum lögskiptum um jörðina að um fullkomið eignarland væri að ræða. Hafi
stefnandi því haft réttmætar ástæður til að vænta þess að merkjum á umræddu
landi væri rétt lýst sem og eignarhald hans væri án ágreinings, enda engar
athugasemdir gerðar við eignarráð hans.
Stefnandi segir að í samræmi við
almennar reglur íslensks réttar verði sá sem vefengi landamerkjalýsingar og
geri tilkall til lands innan landamerkja jarða að bera sönnunarbyrðina fyrir
því. Í því sambandi kveðst hann minna á það að sá sem hafi þinglýsta
eignarheimild samkvæmt lögum hvers tíma myndi verða talinn sá sem ætti eignina og
þá að eign hans væri undirorpin einkaeignarrétti hans, nema annað yrði sannað.
Eignarheimild stefnanda og fyrirrennara hans hafi ekki verið vefengd. Nefna
megi að dómstólar hafi litið svo á að lönd jarða, sem hafi verið lögð til
afréttar, séu beinum eignarrétti undirorpin. Land innan marka eignarlands samkvæmt
merkjalýsingu verði ekki skert, nema stefndi geti sýnt fram á eignarrétt sinn
að umræddu landi, lýsing landamerkja sé röng og að auki að viðkomandi
landeigandi hafi ekki unnið eignarhefð á landi sem gert sé tilkall til. Í ljósi
þess sem fyrir liggi um eignarheimildir stefnanda á þessu svæði, dómsúrlausnir,
þinglýstar merkjalýsingar sem og aðrar heimildir, megi fullyrða að stefnda sé
ókleift að gera tilkall til landsvæðis stefnanda, enda hafi engar athugasemdir
komið fram í gegnum tíðina við þinglýsingu á landamerkjaskrám Leynings eða
öðrum gerningum, hvorki af hálfu sýslumanns né annars handhafa opinbers valds.
Hér hafi einnig þýðingu sú viðurkennda
og athugasemdalausa beiting á eignarráðum eigenda landsins og hagnýtingu þess,
sem styðjist við eignarheimildir þeirra. Sé venjuréttur því ekki aðeins
sjálfstæð eignarheimild í þessu tilviki, heldur hafi hann einnig sönnunarlega
þýðingu að því leyti til að hann styðji að öllu leyti þær málsástæður og sjónarmið
stefnanda að umrætt landsvæði hafi verið afhent til eignar og að um eignarland
sé að ræða. Sá sem haldi öðru fram hafi sönnunarbyrði fyrir þeirri staðhæfingu
sinni.
Innan landamerkja jarðar gildi aðeins
beinn eignarréttur eiganda og stefnda hafi ekki tekist að færa nein söguleg eða
lögfræðileg rök fyrir því að heimilt sé að skipta jörð að álitum í einkaeign og
annars konar eign. Þá sé ekki lagaskilyrði fyrir eignarrétti að landi að það sé
í ,,heilsársnotum“. Allt land stefnanda hafi verið nýtt hvort heldur sem sé til
beitar eða annarra nota allt árið um kring frá ómunatíð og hafi stefndi ekki
fært sönnur fyrir því að svo hafi ekki verið gert. Þá geti það ekki skipt máli
fyrir vernd eignarréttar hversu mikið eða oft land sé notað af eigandanum.
Þá kveðst stefnandi byggja á því að
hann eigi umrætt landsvæði og það hafi verið nýtt með þeim hætti sem lög
frekast leyfi frá ómunatíð. Hann hafi haft allar venjulegar
ráðstöfunarheimildir eiganda fasteignar varðandi meðferð á landinu og réttindum
þess. Hann byggi því eignarrétt sinn ekki einungis á þinglýstum
eignarheimildum, heldur einnig á því að hefð sé fullnuð, sbr. lög nr. 46/1905.
Stefnandi hafi farið með svæðið sem sína eign og farið með það sem sitt frá
ómunatíð. Enginn hafi dregið eignarrétt hans í efa allan þennan tíma. Sé
skilyrði hefðarlaga um óslitið eignarhald því uppfyllt. Því til stuðnings sé
ótvíræð huglæg afstaða hefðanda og almennt álit nágranna hans sem og yfirvalda.
Varðandi hefðarsjónarmið tekur
stefnandi einnig fram að reglur um ómunahefð séu viðurkenndar þegar ekki sé
öðrum heimildum fyrir að fara. Þegar landamerkjalög frá 1882 hafi komið til
framkvæmda hafi verið til jarðir, þar sem eigendur hafi ekki haft skjalleg gögn
til sönnunar eignarrétti, svo sem þegar jörð hafi verið í eigu sömu fjölskyldu
mann fram af manni og upphafleg eignarheimild ekki verið til. Hafi verið stuðst
við ómunahefð ef heimildum hafi ekki verið til að dreifa. Þetta hafi til dæmis
verið gert í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu árið 1997 í málinu Hin helgu
klaustur gegn Grikklandi, þar sem notkun frá ómunatíð hafi komið í stað
skjallegrar eignarheimildar. Ómunatíð merki að sjálfsögðu ekki meira en örfáa
mannsaldra. Hvað varði stofnun eignarréttar fyrir hefð á eigandalausu landi
megi vísa til dómaframkvæmdar hér á landi, sbr. Hrd.1997:2792.
Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar
á meginreglum eignarréttar um nám, töku og óslitin not, sem og meginreglum um
eignarráð fasteignareiganda, almennum reglum samninga- og kröfuréttar, tilhögun
merkjalýsinga og sönnun fyrir eignarrétti. Þá kveðst hann byggja á hefðarlögum
nr. 14/1905, lögum nr. 58/1998 um þjóðlendur, jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar,
ákvæði stjórnarskrár um friðhelgi eignarréttar, auk samningsviðauka við
Mannréttindasáttmála Evrópu um vernd sama réttar.
III
Stefndi kveðst byggja á því að
Leyningsdalur sé svæði utan eignarlanda og teljist því þjóðlenda í samræmi við
úrskurð óbyggðanefndar, sbr. 1. og 2. gr. laga nr. 58/1998. Telur hann ljóst af
heimildum að svæðið hafi aldrei verið undirorpið beinum eignarrétti og að nýting
þess hafi ekki verið með þeim hætti. Hvíli sönnunarbyrði á stefnanda um annað.
Þá tekur stefndi fram að óbyggðanefnd
hafi byggt úrskurð sinn á umfangsmikilli upplýsingaöflun og rannsóknum. Sé
niðurstaðan byggð á kerfisbundinni leit nefndarinnar að gögnum og á framlögðum
skjölum frá málsaðilum. Þá hafi verið byggt á skýrslum sem hafi verið gefnar
fyrir nefndinni. Hafi óbyggðanefnd talið ótvírætt að við gildistöku laga nr.
58/1998 hafi Leyningsdalur talist til afréttar samkvæmt þeirri eignarréttarlegu
flokkun lands sem almennt hafi verið miðað við fram til þess tíma. Kveðst
stefndi styðja sýknukröfur við niðurstöður nefndarinnar auk annarra málsástæðna
sinna.
Stefndi kveðst byggja á því að
Leyningsdalur sé utan eignarlanda, en heimildir greini að hann hafi tilheyrt
Leyningi. Telur stefndi að sú tilheyrsla hafi einungis falið í sér óbein eignarréttindi.
Í landamerkjabréfinu frá 1885 sé að finna lýsingu á merkjum heimalandsins
annars vegar og hins vegar sérstaks afréttarlands. Telur stefndi að þessi
aðgreining feli ótvírætt í sér að svæðið hafi verið afréttarsvæði utan
eignarlanda.
Fyrir liggi að dalurinn sé
landfræðilega aðskilinn frá jörðinni. Liggi eignarland Villingadals á milli.
Almennt hafi verið litið svo á af hálfu dómstóla að þegar svo hátti til bendi
það ótvírætt til þess að um sé að ræða svæði utan eignarlanda.
Stefndi segir landamerkjabréf fyrst
og fremst vera til sönnunar um mörk milli eigna, en í því felist á engan hátt
að allt land innan merkja skuli vera óskorað eignarland. Þrátt fyrir að bréfinu
hafi verið þinglýst, sé ekki hægt að þinglýsa meiri rétti en viðkomandi eigi.
Með því að gera landamerkjabréf hafi menn ekki getað einhliða aukið við land
sitt eða annan rétt, sbr. m.a. niðurstöðu Hæstaréttar Íslands í málinu nr.
48/2004.
Þá segir stefndi að almennt skipti
það máli hvort um sé að ræða jörð í eignarréttarlegum skilningi, eða annað
landsvæði. Þekkt sé að landamerkjabréf hafi ekki eingöngu verið gerð fyrir
jarðir, heldur einnig önnur svæði, svo sem afréttarsvæði, sem ekki tengist
sérstaklega tiltekinni jörð. Almennt feli landamerkjabréf fyrir jörð í sér
ríkari sönnun fyrir því að um eignarland sé að ræða, þó með hliðsjón af eldri
heimildum, enda verði við slíkt mat að meta gildi hvers landamerkjabréfs
sérstaklega. Við mat á gildi landamerkjalýsingarinnar verði einnig að horfa til
þess að ekki verði séð að landamerkjabréfið hafi verið samþykkt af umráðamönnum
allra aðliggjandi landsvæða.
Þá bendi heimildir ekki til þess að á
hinu umrædda svæði hafi nokkru sinni verið búið, þótt þar hafi ef til vill
stundum verið haft í seli. Bendi þetta ótvírætt til þess að svæðið hafi
eingöngu verið nýtt til sumarbeitar fyrir búfé og teljist því landsvæði utan
eignarlanda jarða.
Þá bendir stefndi á að því sé ekki
lýst í Landnámu hversu langt inn til lands landnám á þessu svæði hafi náð.
Verði að teljast ólíklegt að það hafi verið numið í öndverðu, einkum með
hliðsjón af staðháttum, gróðurfari, víðáttu og því að það er hálent. Sé það
öræfalandsvæði, langt frá byggðum bólum. Standi dómafordæmi til þess að álíta
verði ósannað að heiðarlönd eða öræfasvæði hafi verið numin í öndverðu. Hafi sú
regla verið mótuð að sé deilt um upphaflegt landnám verði aðeins stuðst við
glöggar landfræðilegar heimildir, en heimildarskortur leiði til þess að álitið
verði ósannað að slík svæði hafi verið numin í öndverðu. Hvíli sönnunarbyrðin
um slíka stofnun eignarréttar á þeim sem haldi henni fram.
Ekki verði annað ráðið af heimildum
en að svæðið hafi eingöngu verið nýtt með afar takmörkuðum hætti. Verði ekki
annað séð en að réttur til þess hafi upphaflega orðið til á þann veg að það
hafi verið tekið til sumarbeitar fyrir búpening og ef til vill til annarrar
takmarkaðrar notkunar.
Verði talið að svæðið hafi verið
numið í öndverðu hafi það ekki verið numið til eignar, heldur eingöngu til
takmarkaðra nota, svo sem afréttarnota. Frá upphafi Íslandsbyggðar hafi menn
ekki eingöngu helgað sér landsvæði sem hafi verið háð beinum eignarrétti,
heldur einnig ítök, afrétti og öll önnur réttindi sem einhverja þýðingu hafi
getað haft fyrir afkomu þeirra. Meðan landsvæði hafi gefið eitthvað af sér hafi
legið hagsmunir til að halda við merkjum réttindanna, hvers eðlis sem þau hafi
verið.
Verði hins vegar talið að svæðið
kunni að hafa að hluta eða öllu leyti verið innan landnáms eða undirorpið beinum
eignarrétti, kveðst stefndi byggja á til vara, að allar líkur séu á því að
slíkt eignarhald hafi fallið niður, en svæðið hafi verið tekið til takmarkaðra
nota, svo sem afréttarnota.
Þá telur stefndi að staðhættir og
fjarlægð frá byggð bendi til þess að landið hafi verið numið í öndverðu, eða
teljist lúta beinum eignarrétti. Það liggi í yfir 300 m hæð yfir sjávarmáli,
með legu í austur-vestur. Land rísi skarpt upp af Svartá, sem afmarki það að
norðaustanverðu og Torfufellsá að sunnanverðu, í Leyningsöxl, (1.407m). Að
vestanverðu sé það hallalítið, gróðurlítið og með litlum stöðuvötnum á stöku
stað. Engin gögn sé um það að finna að svæðið hafi nokkru sinni verið nýtt til
annars en sumarbeitar fyrir búfé. Telur stefndi að sá háttur sem hafður hafi
verið við fjallskil geti ekki einn og sér haft þýðingu við mat á
eignarréttarlegri stöðu þess, enda verði við mat á því jafnframt að horfa til
annarra heimilda er svæðið varði. Af þeim verði ekki annað ráðið en að svæðið
kunni eftir atvikum að hafa talist tilheyra jörðinni Leyningi, en þá hafi ekki
í þeirri tilheyrslu falist annað og meira en tilheyrsla á afnotaréttindum,
eftir atvikum fullkominni afréttareign, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr.
laga nr. 58/1998. Beri einnig að horfa til þess að svæðið sé ekki afgirt og
þangað hafi búfénaður getað leitað frá öðrum án hindrana.
Eldri heimildir bendi einnig til þess
að jörðin hafi átt afrétt á hinu umdeilda svæði, en ekki beinan eignarrétt.
Kveðst stefndi um það einkum vísa til landamerkjabréfs, þar sem landið sé kallað
,,afrjett“, auk þess sem svæðið sé ekki í neinum landfræðilegum tengslum við
jörðina Leyning, en ekkert liggi fyrir um að Leyningur, Villingadalsjarðir og
Leyningsdalur hafi í öndverðu verið hlutar af sömu jörð. Þyki þetta benda
ótvírætt til eignarréttarlegrar stöðu svæðisins. Þá vísar stefndi til
Jarðabókar Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, sem segi að jörðin eigi selstöðu
með tilliggjandi landi á Leyningsdal, en hafi ekki brúkast í mörg ár nema fyrir
hross og geldfé um sumur. Komi hið sama fram í jarðamötum 1804 og 1849, þar sem
getið sé afréttarsvæðis á Leyningsdal. Vísar stefndi einnig til skrár yfir
afrétti og fjárréttir í Eyjafjarðarsýslu frá 1894 og til svars sýslumanns
Eyjafjarðarsýslu við fyrirspurn um afréttarlönd í sýslunni þann 1. ágúst 1979,
þar sem Leyningsdalur sé talinn meðal afréttarsvæða.
Þá kveðst stefndi telja að í tilvísun
hinna fornu heimilda sem vísað sé til af hálfu stefnanda um Leyningsdal, felist
ekki annað en hugsanleg staðfesting á afnotarétti, eftir atvikum í
afréttareign. Eigi þetta m.a. við um úrskurð Orms Sturlusonar. Hafi honum ekki
verið unnt að mynda beinan eignarrétt, sem ekki hafi áður verið til staðar. Þá
sé alveg óvíst að orðin ,,...þessi dalur sem hjá Leyningi liggur...“ vísi til
Leyningsdals. Þá sé allt óljóst um tildrög þeirrar deilu sem úrskurður Orms
lýtur að og nánara efni, t.d. um selið sem vísað sé til í úrskurðinum.
Stefndi kveðst telja að þessar
heimildir bendi ótvírætt til þess að svæðið sé ekki háð beinum eignarrétti,
heldur sé um að ræða þjóðlendu, sbr. 1. gr. laga nr. 58/199, sem að hluta til
sé háð takmörkuðum eignarrétti stefnanda, sbr. c-lið 7. gr. sömu laga.
Þá verði ekki talið að skilyrði
eignarhefðar séu fyrir hendi, m.a. með vísan til framanritaðra sjónarmiða um
nýtingu lands, staðhætti og eldri heimildir. Í aldanna rás hafi svæðið verið
nýtt með afar takmörkuðum hætti, svo sem til sumarbeitar. Hefðbundin
afréttarnot eða önnur takmörkuð nýting lands geti hins vegar ekki stofnað til
beinna eignarréttinda yfir landi.
Þá kveðst stefndi mótmæla því að réttmætar
væntingar geti verið grundvöllur fyrir eignarréttartilkalli á svæðinu, þegar
svo hátti til að heimildir, staðhættir, gróðurfar og nýting lands bendi ekki
til beins eignarréttar. Þinglýsing heimildarskjals feli ekki í sér sönnun um
tilvist beins eignarréttar, sbr. þá meginreglu eignarréttarins að menn geti
ekki með eignayfirfærslugerningi öðlast betri rétt en seljandi hafi átt. Þá sé
því sérstaklega mótmælt sem komi fram í stefnu að óbyggðanefnd hafi skilið að
álitum milli eignarlands og afréttarlands Leynings. Í landamerkjabréfi sé
mörkum jarðarinnar lýst með nokkuð skýrum hætti og sé við þá lýsingu miðað í
úrskurði nefndarinnar.
Stefndi vísar til almennra reglna
eignarréttar, nánar greindra meginreglna hans og til þjóðlendulaga nr. 58/1998.
Þá vísar hann til 72. gr. stjórnskipunarlaga nr. 33/1944.
IV
Landsvæðið sem um ræðir í þessu máli,
Leyningsdalur, er afmarkað í úrskurði óbyggðanefndar og er sú afmörkun tekin
upp í kröfugerð stefnanda. Ekki er ágreiningur um þessa afmörkun. Þá unir
stefndi við niðurstöðu nefndarinnar um að svæðið sé í afréttareign eigenda
Leynings.
Ekki verður ráðið með vissu af
lýsingu Landnámu á landnámi Helga magra að svæðið hafi verið numið í öndverðu. Ef
svo er, tileyrir það þeim hluta sem Helgi gaf Auðuni rotin, þ.e. upp frá Hálsi
til Villingadals. Liggur það fram og vestur af Villingadal. Lítill hluti þess
er í um 300 m hæð en mest af því um og yfir 1.000 m. Miðað við að ekki liggur
fyrir annað en að það hafi helst verið haft til sumarbeitar, auk selstöðu fyrr
á öldum, verður ekki byggt á því með vissu að fullkominn eignarréttur að því
hafi stofnast fyrir nám.
Hér að framan er getið dóms Orms
Sturlusonar frá 1571. Fallast má á það með stefnanda að langlíklegast verði að
telja að þar sé fjallað um Leyningsdal, sérstaklega með tilliti til þess að þar
er vísað til selsins frá Leyningsjörð, sem í honum standi. Þótt Ormur úrskurði
þarna dalinn löglega eign Leynings, verður að líta til þess að ekki verður á
því byggt að þar hafi verið um meira en afnotaréttindi að ræða, þ.e. selstöðu
og beitarréttindi, einkum þegar litið er til yngri heimilda. Þannig ræðir
Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns um að jörðin eigi selstöðu með
tilliggjandi landi á dalnum, en hafi ekki verið notuð í mörg ár nema til
beitar.
Leyningsdalur er aðskilinn frá
jörðinni Leyningi. Liggja Villingadalsjarðirnar á milli, þannig að svæðið er um
þrjá kílómetra frá Leyningi þar sem styst er. Í landamerkjabréfinu frá 20. maí
1885, sem rakið er hér að framan, er merkjum jarðarinnar lýst sér og merkjum
afréttar jarðarinnar, Leyningsdals, sér. Er þannig um tvö sjálfstæð landsvæði
að ræða, það er jörðina og afréttinn. Verður ekki af bréfinu ráðið að þar sé
lýst merkjum fullkomins eignarlands. Ekkert sérstakt liggur fyrir sem bendir
til þess að Villingadalsjörðunum hafi verið skipt út úr Leyningi fremur en að
um sjálfstæðar jarðir hafi verið að ræða frá öndverðu.
Fallast ber á með stefnda að
stefnandi hafi ekki mátt gera sér sérstakar væntingar um fullkominn eignarrétt
að svæðinu. Þá verður ekki fallist á það, með tilliti til notkunar landsins, að
unnist hafi að því fullkominn eignarréttur fyrir hefð.
Í 1. gr. laga nr. 58/1998 er tekið
fram að þjóðlenda sé landsvæði utan eignarlanda þó að einstaklingar eða
lögaðilar kunni að eiga þar takmörkuð eignarréttindi. Afréttur sé landsvæði
utan byggðar sem að staðaldri hafi verið notað til sumarbeitar fyrir búfé.
Leyningsdalur er utan byggðar og
liggur ekkert fyrir um að svæðið hafi verið notað til annars en sumarbeitar
fyrir búfé, að einhverju leyti með selstöðu fyrr á öldum. Stefnanda hefur að
mati dómsins ekki tekist að sýna fram á að stofnast hafi til frekari
eignarréttinda yfir svæðinu. Samkvæmt því ber að sýkna stefnda.
Rétt þykir að málskostnaður falli
niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda
greiðist úr ríkissjóði eins og greinir í dómsorði.
Erlingur Sigtryggsson kveður upp
dóminn.
DÓMSORÐ
Stefndi, íslenska ríkið, á að vera
sýkn af kröfum stefnanda, Leyningsbúsins ehf.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda
greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. gjafsóknarlaun lögmanns hans, Guðjóns Ólafs
Jónssonar hrl., 1.500.000 krónur.