• Lykilorð:
  • Vinnulaunamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness, þriðjudaginn 18. október 2016, í máli nr. E-1252/2015:

Sveinn Vignir Björgvinsson

(Dagný Ósk Aradóttir Pind hdl.)

gegn

Víkingaheimum ehf.

(Elísabet Guðbjörnsdóttir hdl.)

 

I.

            Mál þetta, sem tekið var til dóms 20. september 2016, er höfðað með áritun á stefnu 2. desember 2015.

            Stefnandi er Sveinn Vignir Björgvinsson, kt. 000000-0000, Eikardal 3, Reykjanesbæ.

            Stefndi er Víkingaheimar ehf., kt. 000000-0000, Víkingabraut 1, Reykjanesbæ.

            Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 1.917.484 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 142.750 krónum frá 1. október 2015 til 1. nóvember 2015, af 642.750 krónum frá þeim degi til 1. desember 2015, af 1.142.750 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2016, en af stefnufjárhæð frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt mati dómsins.

            Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda, til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega, en til þrautavara að kröfur stefnanda verði lækkaðar. Í öllum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.

 

II.

Stefnandi, sem er félagsmaður í Rafiðnaðarsambandi Íslands, kveðst hafa starfað hjá Víkingaheimum í Reykjanesbæ frá janúar 2011 sem umsjónarmaður safnsins þar, sem kallað hefur verið víkingasafnið. Stefnandi kveðst hafa starfað á grundvelli kjarasamnings Rafiðnaðarsambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins og samtaka rafverktaka. Af gögnum málsins má sjá að safnið var rekið af Íslendingi ehf., kt. 000000-0000, en stefnandi var hins vegar á launum hjá Reykjanesbæ, að sögn stefnanda frá janúar 2011 til júní 2015, þegar aðilaskipti urðu á rekstrinum. Ráðningarsamningur stefnanda og Reykjanesbæjar var undirritaður í september 2012.

Með bréfi, dagsettu 11. júní 2015, tilkynnti Reykjanesbæjar stefnanda að stefndi tæki við rekstrinum, en að starfsfólk héldi sínum störfum í samræmi við ákvæði laga nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.

Nýr ráðningarsamningur var í kjölfarið gerður á milli stefnanda og stefnda og undirritaður 17. júní 2015. Þar var starfsheiti stefnanda sagt vera forstöðumaður Víkingaheima. Stefnandi hélt áfram að vinna á safninu þar til honum var sagt upp störfum með bréfi, dagsettu 15. september 2015. Stefnandi kveðst hafa verið látinn hætta störfum strax og að lokað hafi verið fyrir aðgang hans að húsinu og tölvukerfum þegar í stað.

Stefnandi kveður stefnda ýmist hafa haldið því fram að stefnandi ætti engan uppsagnarfrest eða aðeins vikuuppsagnarfrest, og hefur um það m.a. vísað til 8. gr. ráðningarsamnings þar sem fram kemur að á þriggja mánaða reynslutíma sé enginn uppsagnarfrestur. Stefnandi kveðst hafa mótmælt þessum skilningi stefnda strax og spurt hvort hann ætti að mæta til vinnu á uppsagnarfresti. Stefndi hafi neitað því og tekið sér nokkra daga til þess að kanna málið. Hinn 21. september 2015 hafi stefndi síðan staðfest að stefnandi ætti einungis rétt á vikuuppsagnarfresti. Stefnandi kveðst þá hafa leitað til stéttarfélags síns, Rafiðnaðarsambands Íslands, og hafi lögmaður sent bréf fyrir hans hönd 24. september 2015. Í því bréfi hafi verið rakið að um aðilaskipti samkvæmt lögum nr. 72/2002 væri að ræða og að stefnandi ætti þriggja mánaða uppsagnarfrest og að ráðningarsambandi myndi því ljúka 31. desember 2015. Bréfinu hafi verið svarað af hálfu lögmanns stefnda 28. september 2015. Þar hafi því verið mótmælt að um aðilaskipti væri að ræða og hafi ekki verið fallist á kröfur stefnanda. Lögmenn aðila hafi verið í sambandi eftir þessi bréfaskipti, en ekki hafi tekist að sætta málið. Hafi stefnandi því ekki annarra kosta völ en að stefna til greiðslu launa á uppsagnarfresti, orlofs og desember- og orlofsuppbóta.

Stefndi kveður lýsingu málavaxta í stefnu vera afar villandi og beinlínis ranga um veigamikil atriði. Stefndi kveðst vera lítið einkahlutafélag sem hafi aðsetur í Reykjanesbæ. Aðalstarfsemi stefnda sé rekstur víkingasafnsins Víkingaheimar.

Hinn 15. júní 2015 hafi stefndi ritað undir leigusamning við félagið Útlending ehf., kt. 000000-0000, um leigu á húsnæði að Víkingabraut 1 í Reykjanesbæ, en um hafi verið að ræða fasteign með fastanúmer 231-8628. Sama dag hafi stefndi ritað undir afnotasamning við félagið Íslending ehf. um afnota- og nytjarétt á víkingaskipinu Íslendingi. Tilgangurinn hefi verið að nýta skipið í starfsemi sinni við rekstur á víkingasafninu. Reykjanesbær hafi leigt út hina og þessa starfsmenn gegnum tíðina, en aldrei hafi kom til tals í samningaviðræðum við Útlending ehf. og Íslending ehf. að stefndi tæki við starfsmönnum Reykjanesbæjar enda hafi Reykjanesbær ekki átt aðild að samningum við stefnda.

Stefndi kveðst hafa hafið starfsemi sína í safninu á þjóðhátíðardaginn 17. júní 2015. Við það tilefni hafi stefndi ákveðið að ráða stefnanda til starfa sem forstöðumann safnsins. Stefndi kveðst hafa boðið stefnanda föst mánaðarlaun, 450.000 krónur, auk bifreiðarstyrks að fjárhæð 50.000 krónur, eða samtals 500.000 krónur á mánuði, en um hafi verið að ræða verulega launahækkun frá fyrra starfi hans hjá Reykjanesbæ, enda um gerólíkt starf að ræða, bæði að eðli og formi. Hafi málsaðilar komist að samkomulagi um að stefnandi væri ráðinn til þriggja mánaða til reynslu án uppsagnarfrests.

Stefnandi hafi áður verið starfsmaður Reykjanesbæjar. Samkvæmt ráðningarsamningi hafi stefnandi hafið störf hjá bænum 28. september 2012. Í stefnu sé því haldið fram að stefnandi hafi hafið störf hjá Reykjanesbæ í janúar 2011 og jafnframt að ráðningarsamningurinn hafi verið undirritaður í janúar 2012. Báðum þessum fullyrðingum sé mótmælt sem röngum og ósönnuðum af hálfu stefnanda.

Stefndi kveðst hafa sagt stefnanda upp störfum 15. september 2015 vegna fyrirsjáanlegs tekjusamdráttar. Hinn 16. september 2015 hafi stefnandi óskað eftir því að stefndi staðfesti að stefnandi þyrfti ekki að vinna uppsagnafrestinn. Stefndi kveðst hafa tekið sér nokkra daga til að skoða stöðu stefnanda án þess að hafna því að stefnandi þyrfti að vinna uppsagnarfrestinn.

Hinn 21. september 2015 hafi stefndi sent stefnanda tölvupóst þar sem stefndi hafi boðið stefnanda laun í nokkrar vikur án vinnuskyldu, en ítrekað að ef stefnandi teldi sig eiga inni þriggja mánaða uppsagnarfrest þá gerði stefndi kröfu um að hann ynni út uppsagnarfrestinn.

Hinn 24. september 2015 hafi lögmaður Rafiðnaðarsambands Íslands sent stefnda bréf og krafist þess að laun í uppsagnarfresti yrðu greidd. Umrætt bréf hafi komið stefnda í opna skjöldu í ljósi þess að stefnandi hafði aldrei óskað eftir því að greiða stéttarfélagsgjöld til Rafiðnaðarsambands Íslands. Lögmaður stefnda hafi svarað umræddu bréfi og mótmælt kröfu stefnanda og jafnfram hafnað röksemdum lögmannsins um að um aðilaskipti hafi verið að ræða.

Í kjölfarið hafi lögmenn málsaðila átt í tölvupóstsamskiptum, setið fundi og átt fjölmörg símtöl til að reyna að ná sáttum, en allt án árangurs. Kveðst stefndi mótmæla atvikalýsingu stefnanda að svo miklu leyti sem hún fari í bága við lýsingu stefnda á atvikum málsins.

            Stefnandi og fyrirsvarsmaður stefnda, Björn Jónasson, komu fyrir dóminn og gáfu skýrslu.

 

III.

            Stefnandi kveðst byggja mál sitt á því að honum beri þriggja mánaða uppsagnarfrestur samkvæmt 8. gr. ráðningarsamnings. Samkvæmt 6. mgr. 1. gr. laga nr. 19/1979 um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla skuli uppsögn vera skrifleg og miðast við mánaðamót. Uppsögnin hafi því tekið gildi 1. október 2015 og uppsagnarfresti hafi lokið 31. desember 2015. Stefnandi kveðst byggja á því að aðilaskipti í skilningi 4. töluliðar 1. mgr. 2. gr. laga nr. 72/2002 hafi orðið þegar stefndi keypti rekstur Víkingaheima í júní 2015 og þar með hafi öll réttindi og skyldur aðila samkvæmt ráðningarsamningi flust frá framseljanda yfir til framsalshafa, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Í 2. mgr. 3. gr. segir að framsalshafi skuli virða áfram launakjör og starfsskilyrði samkvæmt kjarasamningi með sömu skilyrðum og gilt hafi gagnvart framseljanda. Í lögum nr. 72/2002 séu reglur sem byggist á tilskipun 2001/26/EB. Aðilaskipti séu skilgreind í 4. tölulið 2. gr. laganna. Þar segir að aðilaskipti séu aðilaskipti á efnahagslegri einingu sem haldi einkennum sínum, þ.e. skipulagðri heild verðmæta sem notuð verði í efnahagslegum tilgangi, hvort sem um sé að ræða aðal- eða stoðstarfsemi. Í athugasemdum sem fylgt hafi frumvarpi að lögum nr. 72/2002 sé um skýringu á hugtakinu aðilaskipti vísað til túlkunar Evrópudómstólsins. Dómstóllinn hafi sagt að meta þurfi heildstætt hvort um aðilaskipti sé að ræða. Sjónarmið sem ráði því mati séu m.a. hvers konar fyrirtæki um sé að ræða, hvort áþreifanleg verðmæti séu framseld o.fl. Þá skipti einnig máli hvort rekstri sé haldið áfram með sambærilegum hætti. Hæstiréttur hafi túlkað lögin á sambærilegan hátt, sbr. t.d. í málum réttarins nr. 222/2006 og 313/2005. Kveðst stefnandi telja ótvírætt að um aðilaskipti í skilningi laganna hafi verið að ræða á rekstri Víkingaheima. Safnið hafi starfað áfram í sömu mynd og stefnandi hafi sinnt sambærilegu starfi og hann hafi gert fyrir aðilaskiptin. Því hafi stefnandi ekki verið á reynslutíma þegar uppsögn hans fór fram heldur miðist réttindi hans við það tímamark er hann hóf störf við safnið á árinu 2011.

Stefnandi kveðst hafa mótmælt skilningi stefnda um að hann ætti ekki rétt á neinum uppsagnarfresti, en stefndi hafi ekki verið tilbúinn að fallast á kröfur stefnanda. Stefnandi kveðst í tölvupósti til stefnda hafa lýst sig reiðubúinn til vinnu á uppsagnarfresti, en aldrei hafi komið til þess að stefndi kallaði hann til vinnu. Stefnandi kveðst eiga inni laun í þriggja mánaða uppsagnarfresti samkvæmt ráðningarsamningi, auk eftirstöðva launa fyrir septembermánuð, fram að þeim tíma er uppsögn tók gildi. Þá sé ógreitt orlof af ógreiddum launum, sem og full desemberuppbót og orlofsuppbót í samræmi við starfshlutfall stefnanda á orlofsárinu 2015-2016.

            Stefnandi sundurliðar kröfu sína á eftirfarandi hátt:

 

Eftirstöðvar launa í september 2015                                142.750 krónur

Laun í október 2015                                                        500.000 krónur

Laun í nóvember 2015                                                     500.000 krónur

Laun í desember 2015                                                     500.000 krónur

Orlof af ógreiddum launum, 10,17%                              167.068 krónur

Desemberuppbót 2015                                                      78.000 krónur

Orlofsuppbót 2016, 67%                                                   29.667 krónur

Samtals                                                                         1.917.484 krónur

 

Stefnandi kveðst byggja á meginreglu um skuldbindingagildi samninga og skuldbindingagildi kjarasamninga aðila vinnumarkaðarins og að kjarasamningar kveði á um lágmarkskjör, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda og 7. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Þá kveðst stefnandi byggja á lögum nr. 19/1979 um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla og lögum um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum nr. 72/2002. Þá kveðst stefnandi vísa til laga nr. 30/1987 um orlof. Jafnframt kveðst stefnandi vísa til kjarasamnings Rafiðnaðarsambands Íslands vegna aðildarfélaga annars vegar og Samtaka atvinnulífsins og Samtaka rafverktaka hins vegar.

Um dráttarvaxtakröfu sé vísað til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Dráttarvextir séu reiknaðir í samræmi við meginreglu á vinnumarkaði, þ.e. að laun séu greidd eftir á, fyrsta dag hvers mánaðar og að gjalddagi orlofs og persónuuppbóta sé við starfslok.

Kröfu sína um málskostnað kveðst stefnandi byggja á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

IV.

Stefndi kveðst byggja sýknukröfu sína á því að engin aðilaskipti hafa orðið að fyrirtæki eða hluta fyrirtækis í skilningi laga nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. Stefndi hafi efnt að fullu skyldur sínar við stefnanda og eigi stefnandi því engar frekari kröfur á hendur stefnda. Krafa stefnanda um þriggja mánaða uppsagnarfrest frá stefnda hafi enga stoð í lögum, kjarasamningum aðila eða ráðningarsamningum.

Með lögum nr. 72/2002 hafi verið innleidd tilskipun nr. 2001/23/EB um samræmingu á lögum aðildarríkja um vernd launamanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, atvinnurekstri eða hluta fyrirtækja eða atvinnurekstri, sbr. tilskipun nr. 77/187/EBE og tilskipun nr. 98/50/EB um sama efni. Samkvæmt athugasemdum í frumvarpi til laganna sé meginmarkmið laganna að vernda launamann þegar „nýir vinnuveitendur taki við.“ Samkvæmt 1. gr. laganna sé gert að skilyrði að aðilaskipti á fyrirtæki til annars vinnuveitanda séu á grundvelli „framsals eða samruna“. Hvorugt eigi við í máli þessu.

Reykjanesbær hafi aldrei framselt til stefnda starfsemi eða rekstur líkt og haldið sé fram í bréfi Reykjanesbæjar og stefnandi byggi á í stefnu. Kveðst stefndi mótmæla því að umrætt bréf teljist hafa einhverja þýðingu í máli þessu. Umrætt bréf sé að öllu leyti óviðkomandi stefnda. Fyrrum vinnuveitandi stefnanda, Reykjanesbær, hafi ákveðið, án vitneskju og samráðs við stefnda, að senda stefnanda, sem áður hafði starfað við safnið og verið á launaskrá hjá bænum, bréf um að hann yrði starfsmaður stefnda, en umrætt bréf bæjarins, dags. 11. júní 2015, virðist hafa verið byggt á röngum upplýsingum. Hinn 9. júní 2015 hafi starfsmaður Reykjanesbæjar haft samband við Samband íslenskra sveitarfélaga og tilkynnt sambandinu að nýr rekstraraðili væri að taka við safninu af Reykjanesbæ. Umræddum tölvupósti hafi verið svarað af lögfræðingi sambandsins sama dag og virðist svar sambandsins byggjast á þeim röngu forsendum sem komið hafi fram í tölvupósti starfsmanns Reykjanesbæjar til sambandsins þess efnis að stefndi hafi verið að taka við rekstri Reykjanesbæjar á safninu.

Þegar stefndi hafi gengið til samninga við félögin Íslending ehf. og Útlending ehf. hafi verið skýrt markmið samningsaðila að stefndi tæki eingöngu við fasteigninni að Víkingabraut 1 og jafnframt víkingaskipinu Íslendingi. Samningar aðila hafi ekki tekið til annars. Í samræmi við þessi markmið hafi leigu- og afnotasamningar verið undirritaðir 15. júní 2015. Reykjanesbær hafi ekki verið hluti af umræddum samningum og hafi stefndi því ekki skuldbundið sig til að taka yfir ráðningarsamninga Reykjanesbæjar við starfsmann bæjarins þegar stefndi hafi gengið til samningaviðræðna við umrædd félög. Stefndi hafi aldrei gert samninga né átt viðskipti við Reykjanesbæ og þar af leiðandi aldrei tekið yfir réttindi og skyldur samkvæmt ráðningarsamningi starfsmanna Reykjanesbæjar. Stefndi hafi því eingöngu verið að leigja húsnæði, innanstokksmuni og afnotarétt af víkingaskipi, en hafi ekki keypt neinn rekstur eins og haldið sé fram í stefnu. Annarri túlkun sé mótmælt sem rangri og ósannaðri en almennar reglur réttarfars leiði til þess að stefnanda beri að sýna fram á ætlað framsal á rekstrinum til stefnda. Enginn samningur hafi verið lagður fram af hálfu stefnanda um að stefndi hafi yfirtekið reksturinn frá Reykjanesbæ.

Stefndi kveðst mótmæla því að lög nr. 72/2002 eigi við í máli þessu. Stefndi kveðst ekki hafa yfirtekið öll réttindi og skyldur starfssambandsins, sbr. 3. gr. laga nr. 72/2002, þar á meðal rétt til þriggja mánaða uppsagnarfrests. Umrædd lög hafi enga þýðingu í málinu, enda hafi engin aðilaskipti átt sér stað í skilningi laganna, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar í máli nr. 435/2002.

Þar sem stefndi hafi ekki tekið yfir neinn rekstur hafi stefndi þurft að ráða nýja starfsmenn og hafi stefndi ákveðið að ráða stefnanda til starfa. Málsaðilar hafi gert með sér ráðningarsamning, dags. 17. júní 2015, þar sem stefnandi hafi verið ráðinn sem forstöðumaður safnsins og hafi launakjör verið hækkuð umtalsvert miðað við fyrri kjör hans hjá Reykjanesbæ, enda um gjörólíkt starf að ræða. Í ljósi þess að um nýja starfsemi hafi verið að ræða hafi málsaðilar orðið sammála um að láta ráðningarsamninginn gilda frá undirritun hans til og með 17. september 2015 án sérstaks uppsagnarfrests, en um hafi verið að ræða tímabundna ráðningu í þrjá mánuði, sbr. lög nr. 139/2003 um tímabundna ráðningu starfsmanna. Hafi stefnandi gengist undir samninginn og engar athugasemdir gert við hann. Samkvæmt 1. gr. samningsins hafi stefnandi verið ráðinn til starfa sem forstöðumaður Víkingaheima. Í 8. gr. samningsins hafi verið svohljóðandi uppsagnarákvæði: „Að loknum þriggja mánaða reynslutíma er uppsagnartími beggja aðila þrír mánuðir“.

Stefnanda hafi verið sagt upp störfum sökum tekjusamdráttar hjá stefnda og hafi uppsögnin átt sér stað innan þriggja mánaða reynslutímabilsins eða 15. september 2015. Það sé viðurkennd regla í vinnurétti að í tímabundinni ráðningu geti falist að ráðningu ljúki ákveðinn dag, eða að um sé að ræða ráðningu bundna við ákveðið verkefni og að semja megi fyrirfram um að henni ljúki þegar því verki er lokið. Við það tímamark falli réttarárhrif ráðningarinnar niður án þess að starfsmaðurinn eigi neinar frekari kröfur á hendur vinnuveitanda sínum. Ráðningartímabili stefnanda hafi lokið við uppsögn stefnanda en við það tímamark hafi fallið niður öll réttaráhrif ráðningarinnar.

Við gerð ráðningarsamningsins hinn 17. júní 2015 hafi báðir aðilar gengið út frá því að stefnandi væri ráðinn til reynslu til þriggja mánaða. Stefnandi hafi aldrei mótmælt umræddu ákvæði eða samningnum sem undirritaður hafi verið áðurgreindan dag. Staðreyndin sé sú að stefndi hafi verið að hækka laun stefnanda verulega. Bendir stefnandi á að hér á landi gildi meginreglan um samningsfrelsi. Stefnandi hafi hafið störf hjá stefnda 17. júní 2015 og hafi störfum hans lokið 15. september 2015. Hann eigi því ekki rétt á þriggja mánaða uppsagnarfresti samkvæmt samningnum í ljósi þess að ráðningarsamband aðila var rofið á uppsagnardegi. Eigi því hvorugur aðili frekari kröfur á hinn.

Hvað varðar aðalkröfu sína um sýknu kveðst stefndi mótmæla því að stefnandi hafi starfað í þágu stefnda á grundvelli kjarasamnings Rafiðnaðarsambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins líkt og stefnandi haldi fram í stefnu, enda hafi starf hans ekki krafist rafiðnaðarþekkingar. Stefndi eigi enga aðild að umræddum samningi og sé því ekki skuldbundinn til að framfylgja samningnum. Stefnandi hafi aldrei óskað eftir því að greidd yrðu stéttarfélagsgjöld til sambandsins og því hafi stefndi gengið út frá því að stefnandi væri ekki félagsmaður í neinu stéttarfélagi. Á Íslandi gildi sú grundvallarregla að engan megi skylda til aðildar að félagi, sbr. 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944. Að sama skapi sé gert ráð fyrir því í 2. mgr. 3. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur að meðlimir stéttarfélaga geti hvenær sem er sagt sig úr slíkum félögum. Stefndi hafi því réttilega mátt gera ráð fyrir því að stefnandi væri ekki félagsmaður í neinu stéttarfélagi og því síður rafiðnaðarmaður, m.a. vegna þess að aldrei hafi komið beiðni frá stefnanda um neinar greiðslur til sambandsins, sbr. launaseðla stefnanda. Um réttarsamband aðila gildi því eingöngu ráðningarsamningur aðila sem undirritaður hafi verið 17. júní 2015, en samkvæmt honum njóti stefnandi ekki uppsagnarfrests fyrr en að loknu þriggja mánaða reynslutímabilinu, sem hafi ekki verið lokið þegar stefnanda var sagt upp störfum 15. september 2015.

Stefndi kveðst hafa gert upp við stefnanda að öllu leyti. Sýkna beri því stefnda af kröfum stefnanda.

Til vara krefst stefndi þess að dómkrafa stefnanda verði lækkuð verulega og að stefnanda verði eingöngu dæmd laun sem nema eins mánaðar uppsagnafresti. Í fyrsta lagi kveðst stefndi byggja á því að um engin aðilaskipti hafi verið að ræða í skilningi 4. töluliðar 1. mgr. laga nr. 72/2002 líkt og haldið sé fram í stefnu og því gildi ráðningarsamningur stefnda við stefnanda, dags. 17. júní 2015, og kjarasamningur Rafiðnaðarsambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins um samningssamband málsaðila.

Líkt og áður greini hafi stefnanda verið sagt upp störfum 15. september 2015 og hafi það verið innan þriggja mánaða ráðningartímabilsins sem ráðningarsamningur málsaðila hafi tiltekið. Stefnandi hafði því eingöngu starfað í þágu stefnda í tvo mánuði og 15 daga þegar honum hafi verið sagt upp störfum. Í grein 13.2 í kjarasamningi Rafiðnaðarsambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins komi fram að uppsagnarfrestur af beggja hálfu, vinnuveitanda og rafiðnaðarmanna, skuli vera einn mánuður. Einnig segir þar að þegar rafiðnaðarmenn séu ráðnir til ákveðins tíma þurfi ekki uppsagnarfrest nema rafiðnaðarmaðurinn hafi unnið fjórar vikur eða lengur samfleytt. Með vísan til framangreinds eigi stefnandi ekki rétt á lengri uppsagnarfresti en einum mánuði. Stefnanda hafi verið sagt upp störfum á reynslutíma sínum hjá stefnda og komi því ekki til skoðunar þau réttindi sem stefnandi hefði getað notið ef ráðningarsamband málsaðila hefði enn verið virkt 17. september 2015. Almennar meginreglur vinnuréttar leiði til sömu niðurstöðu.

Ef dómurinn kemst að þeirri niðurstöðu að um aðilaskipti hafi verið að ræða í skilningi laga nr. 72/2002 kveðst stefndi byggja á því að stefnanda beri eingöngu eins mánaðar uppsagnarfrestur, samanber ráðningarsamning og áðurgreindan kjarasamning.

Í 3. gr. laga nr. 72/2002 komi fram að framsalshafi skuli virða áfram launakjör og starfsskilyrði samkvæmt kjarasamningi með sömu skilyrðum og gilt hafi fyrir framseljandann. Ráðningarsamningur stefnanda og Reykjanesbæjar frá 28. september 2012 tilgreini ekki að ráðningin byggist á ákveðnum kjarasamningi. Stefnandi leiði rétt sinn af framangreindum kjarasamningi Rafiðnaðarsambandsins og virðist umræddur ráðningarsamningur vera í samræmi við kjarasamning sambandsins. Stefnandi hafi því starfað í þágu Reykjanesbæjar og stefnda í tvö ár, átta mánuði og 15 daga þegar honum hafi verið sagt upp störfum 15. september 2015.

Í grein 13.3 í kjarasamningi Rafiðnaðarsambandsins komi fram að lög nr. 19/1979 um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla gildi um uppsagnarfrest þeirra sem leiði rétt sinn af kjarasamningnum. Í 2. mgr. 1. gr. þeirra laga komi fram að verkafólki, sem starfað hafi hjá sama atvinnurekanda í þrjú ár samfleytt, beri tveggja mánaða uppsagnarfrestur. Í 3. mgr. greinarinnar komi jafnframt fram að verkafólk þurfi að hafa starfað í fimm ár samfleytt hjá sama atvinnurekanda til að geta átt rétt á þriggja mánaða uppsagnarfresti.

Stefndi kveður ekki um það deilt að stefnandi hafi hafið störf hjá Reykjanesbæ 28. september 2012. Öðrum upphafstíma starfa hans hjá Reykjanesbæ sé mótmælt sem ósönnuðum og röngum, en sönnunarbyrðin um að stefnandi hafi hafið störf hjá bænum fyrr en ráða megi af dagsetningu ráðningarsamnings hans hjá Reykjanesbæ hvíli á stefnanda. Stefnandi hafi ekki axlað þá sönnunarbyrði og teljist því umrædd fullyrðing um að stefnandi hafi hafið störf hjá Reykjanesbæ í janúar 2011 ósönnuð.

Í 8. gr. ráðningarsamnings málsaðila frá 17. júní 2015 sé kveðið á um þriggja mánaða uppsagnarfrest að loknu reynslutímabili stefnanda, þ.e.a.s. frá og með 17. september 2015. Líkt og áður greini hafi stefnanda verið sagt upp störfum 15. september 2015 og á þeim degi hafi ráðningarsambandi málsaðila lokið. Við það tímamark hafi fallið niður réttur stefnanda til ríkari réttar til uppsagnarfrests en áðurgreindur kjarasamningur veiti, en stefndi kveðst byggja á því í varakröfu sinni að kjarasamningur Rafiðnaðarsambandsins gildi um uppsagnarfrest stefnanda.

Samkvæmt framansögðu uppfylli stefnandi hvorki starfsaldursskilyrði laganna né ráðningarsamninga til að geta átt rétt á þriggja mánaða uppsagnarfresti eins og stefnandi gerir kröfu um í stefnu. Slíkur réttur verði heldur ekki leiddur af lögum nr. 72/2002, kjarasamningum eða ráðningarsamningum sem um sé deilt í þessu máli. Stefndi krefjist því til vara að stefnanda verði eingöngu dæmd laun sem nemi eins mánaðar uppsagnarfresti.

Að öðru leyti kveðst stefndi byggja varakröfu sína á sömu málsástæðum og lagarökum og áður greinir um aðalkröfu.

Verði ekki fallist á aðal- og varakröfu stefnda kveðst stefndi krefjast þess til þrautavara að dómkrafa stefnanda verði lækkuð og að stefnanda verði eingöngu dæmd laun sem nemi tveggja mánaða uppsagnafresti.

Í þrautavarakröfu sinni kveðst stefndi byggja á því að stefndi hafi tekið yfir réttindi og skyldur stefnanda 17. júní 2015. Samkvæmt ákvæði 13.3 í kjarasamningi Rafiðnaðarsambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins beri verkafólki tveggja mánaða uppsagnarfrestur ef það hefur starfað í þágu sama atvinnurekanda í þrjú ár samfleytt, sbr. lög nr. 19/1979. Eftir fimm ára samfellda ráðningu hjá sama atvinnurekanda beri verkafólki þriggja mánaða uppsagnarfrestur, sbr. sömu lög.

Stefnandi hafi samkvæmt framansögðu hafið störf hjá Reykjanesbæ 3. janúar 2011 og marki það tímamark upphaf ráðningartímabils hans hjá bænum. Stefnandi hafi lokið störfum 15. september 2015 eða fjórum árum, níu mánuðum og 12 dögum eftir að ráðningartími hans hófst. Stefnandi hafi því starfað í þágu vinnuveitanda lengur en í þrjú ár, en skemur en í fimm ár þegar ráðningarsambandi málsaðila var slitið, en samkvæmt framangreindu beri stefnanda tveggja mánaða uppsagnarfrestur. Hvorki af lögum, kjarasamningum né ráðningarsamningum verði ráðið að stefnandi eigi rétt á lengri uppsagnarfresti.

Að öðru leyti kveðst stefndi byggja á sömu málsástæðum og lagarökum og áður greini um aðal- og varakröfu.

Stefndi kveðst gera þær athugasemdir við málatilbúnað stefnanda að í stefnu sé engin grein gerð fyrir því á hvern hátt leiða megi rétt stefnanda af ákvæðum laga nr. 55/1980, laga nr. 80/1938 og laga nr. 19/1979. Þá bendir stefndi á að stefnandi hafi ekki lagt fram neina útreikninga með kröfu sinni eða gert nánari grein fyrir þeim og teljist hún því vanreifuð.

Stefndi styður kröfur sína við almennar meginreglur samningaréttar, einkum meginregluna um samningsfrelsi, meginreglur vinnuréttarins og almennar meginreglur kröfuréttar. Stefndi vísar til laga nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum og laga nr. 19/1979 um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla. Stefndi vísar einnig til laga nr. 139/2003 um tímabundna ráðningu starfsmanna og laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeildur. Þá vísar stefndi til stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944.

Til stuðnings málskostnaðarkröfu vísar stefndi til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

V.

            Eins og fram hefur komið réð Reykjanesbær stefnanda til starfa sem umsjónarmann safnsins Víkingaheima með ráðningarsamningi, dagsettum 28. september 2012, en í ráðningarsamningi kemur fram að stefnandi hafi hafið störf hjá Reykjanesbæ 3. janúar 2011. Safnið mun hafa verið byggt utan um víkingaskipið Íslending, sem er í eigu einkahlutafélagsins Íslendings, en það félag er að 99,76% í eigu Reykjanesbæjar. Safnið er til húsa að Víkingabraut 1 í Reykjanesbæ, í húsnæði sem er í eigu Útlendings ehf., en það félag er að öllu leyti í eigu Íslendings ehf.

            Eins og fram kemur í gögnum málsins tók stefndi hinn 15. júní 2015 á leigu af Útlendingi ehf. áðurnefnt húsnæði að Víkingabraut 1 til reksturs víkingasafns, minjagripasölu, listviðburða, veitingasölu og annars skylds rekstrar. Á sama tíma gerði stefndi samning við Íslending ehf. um afnota- og nytjarétt á víkingaskipinu Íslendingi, sem stefndi hugðist nýta í starfsemi sinni við rekstur á víkingasafninu. Fram hefur komið að af hálfu Íslendings ehf. og Útlendings ehf. hafi komið að samningum þessum bæjarstjóri og bæjarlögmaður Reykjanesbæjar.

            Stefnandi var eini fastráðni starfsmaður safnsins þegar stefndi tók við rekstri þess um miðjan júní 2015. Stefndi hóf starfsemi sína í safninu á þjóðhátíðardaginn 17. júní 2015. Sama dag réð stefndi stefnanda til starfa sem forstöðumann safnsins. Óumdeilt er að starfsemi og rekstur safnsins breyttist lítið eftir að stefndi tók við rekstri þess.

            Stefnandi reisir kröfur sínar á því að aðilaskipti hafi orðið að rekstrinum 15. júní 2015 í skilningi laga nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. Þar með hafi skyldur Reykjanesbæjar samkvæmt ráðningarsamningi við stefnanda frá 28. september 2012 flust til stefnda samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laganna.

            Í lögum nr. 72/2002 eru reglur sem svara til ákvæða tilskipunar nr. 2001/23/EB um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vernd launamanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, atvinnurekstri eða hluta fyrirtækja eða atvinnurekstrar. Í 2. gr. laganna eru orðskýringar og í 4. tölulið greinarinnar segir að með aðilaskiptum sé átt við aðilaskipti á efnahagslegri einingu sem heldur einkennum sínum, þ.e. skipulagðri heild verðmæta sem notuð eru í efnahagslegum tilgangi, hvort sem um er að ræða aðal- eða stoðstarfsemi. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi að lögum nr. 72/2002 er um skýringu á aðilaskiptum í skilningi fyrrnefndrar tilskipunar vitnað til túlkunar Evrópudómstólsins á 1. mgr. 1. gr. tilskipunar nr. 77/187/EBE í máli C-24/85 (Speijkers). Taldi dómstóllinn að um aðilaskipti væri að ræða ef fyrirtæki héldi einkennum sínum. Við mat á því átti að áliti dómstólsins meðal annars að líta til þess um hvers konar fyrirtæki væri að ræða, hvort áþreifanleg verðmæti væru framseld og hvert væri verðgildi óhlutbundinna verðmæta. Þá skyldi líta til þess hvort meirihluti starfsmanna flyttist til hins nýja vinnuveitanda og hvort framsalshafi héldi viðskiptavinum framseljanda. Sá tími sem starfsemi liggur niðri og að hve miklu leyti reksturinn er sambærilegur fyrir og eftir aðilaskiptin skyldi einnig hafa áhrif á þetta mat. Líta skyldi heildstætt á öll þessi atriði en ekki hvert og eitt sér. Í athugasemdum við frumvarpið var þess einnig getið að EFTA-dómstóllinn hefði litið með hliðstæðum hætti á aðilaskiptin og lagt áherslu á það hvort rekstri væri haldið áfram með sambærilegum hætti. Jafnframt kom fram í athugasemdunum að meginmarkmið laganna hafi verið að setja ákvæði til að tryggja réttindi launamanna þegar nýir vinnuveitendur taki við starfsemi. Einnig kom fram í athugasemdunum með 1. gr. m.a. að eðli aðilaskiptanna, þ.e. hvort þau verði t.d. fyrir sölu eða leigu á fyrirtæki, sé ekki aðalatriðið, heldur skipti meginmáli að nýr vinnuveitandi komi að rekstri fyrirtækisins í stað hins fyrri.

            Þegar litið er heildstætt til þeirra áhersluatriða, sem vísað er til í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi að lögum nr. 72/2002, og þau virt með hliðsjón af því meginmarkmiði laganna að setja ákvæði um verndun launamanna við þær aðstæður þegar nýir vinnuveitendur taka við atvinnustarfsemi, er það niðurstaða dómsins að með leigu- og afnotasamningum stefnda og einkahlutafélaga á vegum Reykjanesbæjar hafi rekstur á áðurgreindu víkingasafni verið færður til stefnda, sem síðan hafi haldið rekstrinum áfram með sambærilegum hætti og áður. Er það mat dómsins að með nefndum gerningum hafi orðið aðilaskipti að efnahagslegri einingu sem haldið hafi einkennum sínum í merkingu laga nr. 72/2002, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 23. nóvember 2006 í máli nr. 222/2006 og 19. janúar 2006 í máli nr. 313/2005.

Samkvæmt 1. og 2. mgr. 3. gr. laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum nr. 72/2002 er stefndi bundinn af ákvæðum ráðningarsambands stefnanda við Reykjanesbæ frá 28. september 2012, svo og ákvæðum kjarasamnings milli Rafiðnaðarsambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins, líkt og byggt er á í stefnu, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda og 7. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Var stefnandi því ekki á reynslutíma þegar uppsögn hans fór fram heldur miðast réttindi hans samkvæmt áðurgreindum kjarasamningi við að starf hans hafi hafist í janúar 2011. Samkvæmt 8. gr. ráðningarsamnings málsaðila átti stefnandi rétt á þriggja mánaða uppsagnarfresti. Samkvæmt 6. mgr. 1. gr. laga nr. 19/1979 um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla skal uppsögn vera skrifleg og miðast við mánaðamót. Uppsögn stefnanda tók því gildi 1. október 2015 og lýkur uppsagnarfresti 31. desember 2015.

Með hliðsjón af öllu framangreindu er fallist á dómkröfur stefnanda í máli þessu, en ekki er tölulegur ágreiningur með aðilum.

            Með hliðsjón af málsúrslitum er stefnda gert að greiða stefnanda 500.000 krónur í málskostnað.

Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.

 

Dómsorð:

            Stefndi, Víkingaheimar ehf., greiði stefnanda, Sveini Vigni Björgvinssyni, 1.917.484 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 142.750 krónum frá 1. október 2015 til 1. nóvember 2015, af 642.750 krónum frá þeim degi til 1. desember 2015, af 1.142.750 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2016, en af 1.917.484 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

            Stefndi greiði stefnanda 500.000 krónur í málskostnað.

                                                                        Ragnheiður Bragadóttir