• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Fangelsi
  • Eignaupptaka
  • Upptaka
  • Sýkna

Árið 2018, miðvikudaginn 28. mars, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Guðjóni St. Marteinssyni héraðsdómara, kveðinn upp dómur í málinu nr. S-666/2017: Ákæruvaldið gegn Krzysztof Obrebski, Robert Borowski Beszta, Arkadiusz Rusanowski og A, en málið var dómtekið 13. þ.m.

            Málið er höfðað með ákæru héraðssaksóknara, dagsettri 16. nóvember 2017, á hendur:

 

„Krzysztof Obrebski, pólskum ríkisborgara,

fæddum 26. janúar 1986,

 

Robert Borowski Beszta, pólskum ríkisborgara,

fæddum 7. mars 1972,

 

Arkadiusz Rusanowski, pólskum ríkisborgara

fæddum 20. mars 1985 og

 

A, kennitala [...],

[...]

 

fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot, með því að hafa í ágúst mánuði árið 2017 staðið saman að innflutningi á samtals 1.328 ml. af vökva sem innihélt amfetamínbasa, sem hafði 49% styrkleika, frá Póllandi til Íslands ætlaðan til söludreifingar í ágóðaskyni hér á landi og fyrir tilraun til stórfellds fíkniefnalagabrots, með því að hafa ætlað sér að flytja allt að 3.912 ml. af samskonar vökva til viðbótar framangreindu magni, sem lak úr Audi A6  bifreið með skráningarnúmerið BAU-24080 á leiðinni frá Danmörku til Reykjavíkur, eða samtals 5.240 ml. af vökva sem innihélt amfetamínbasa frá Póllandi til Íslands í fyrrgreindum tilgangi en ákærðu skiptu með sér verkum sem hér greinir;

 

1. Gegn ákærða Krzysztof, með því að hafa, að beiðni ótilgreindra aðila, móttekið fíkniefnin sem falin voru í styrktarbita fremst í fyrrgreindri Audi bifreið og flutt fíkniefnin til Íslands frá Póllandi en ákærði ók bifreiðinni frá Póllandi, með viðkomu í Þýskalandi, til Danmerkur og þaðan með farþegaferjunni Norrænu sem kom til Seyðisfjarðar að morgni fimmtudagsins 24. ágúst og þaðan áfram norðurleiðina, uns hann kom til Reykjavíkur að kvöldi sama dags. Við komuna til Reykjavíkur mæltu meðákærðu sér mót við Krzysztof á bifreiðastæði við Hótel Nordica og veittu fíkniefnunum og bifreiðinni móttöku og meðákærði Arkadiusz settist í Audi bifreiðina og fylgdi Krzysztof ásamt meðákærðu A og Robert, sem óku annarri bifreið, að gistiheimili við Bergstaðarstræti þar sem ákærðu allir, að undanskildum A gistu um nóttina.

 

2. Gegn ákærðu Robert og Arkadiusz, fyrir að hafa að kvöldi fimmtudagsins 24. ágúst komið til Íslands með flugi frá Varsjá í Póllandi og sama kvöld mælt sér mót við meðákærða A á veitingastaðnum Chuck Norris við Laugaveg í Reykjavík. Síðar um kvöldið farið í fylgd meðákærða A, eftir að hafa mælt sér mót við meðákærða Krzysztof, í þeim tilgangi að veita fíkniefnunum sem í Audi bifreiðinni voru móttöku. Ákærði Arkadiusz settist yfir í Audi bifreiðina, eins og lýst er í ákærulið 1, og var Audi bifreiðinni ekið að Bergstaðarstræti þar sem henni var lagt yfir nóttina í nágrenni við fyrrgreint gistiheimili. Að morgni föstudagsins 25. ágúst óku ákærðu Robert og Arkadiusz Audi bifreiðinni frá Bergstaðarstræti að bílskúr við Skipholt í Reykjavík þar sem fyrirhugað var að fjarlægja fíkniefnin úr Audi bifreiðinni en þar voru ákærðu handteknir ásamt meðákærða A sem var á gangi skammt frá fyrrnefndum bílskúr.

 

3. Gegn ákærða A, fyrir að hafa undirbúið og aðstoðað meðákærðu Robert og Arkadiusz fyrir ferð þeirra til Íslands, séð um að bóka gistingu á gistiheimilinu við Bergstaðarstræti og sett kreditkort sitt til tryggingar fyrir bókuninni, séð til þess að útvega bílskúrinn í Skipholti sem ætlað var að nota í þeim tilgangi að fjarlægja fíkniefnin úr Audi bifreiðinni, auk þess að hafa ekið og leiðbeint meðákærðu milli staða í Reykjavík á meðan á dvöl þeirra stóð. Ákærði A var handtekinn skammt frá fyrrgreindum bílskúr í Skipholti á sama tíma og meðákærðu Robert og Arkadiusz voru að undirbúa það að fjarlægja fíkniefnin úr Audi bifreiðinni.

 

Telst háttsemi ákærðu varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Einnig er þess krafist að gerð verði upptæk þau fíkniefni sem hald var lagt á, samkvæmt heimild í 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002. Þá er þess jafnframt krafist að bifreið af gerðinni Audi A6 með skráningarnúmerið BAU-24080, sem notuð var til að flytja framangreind fíkniefni til landsins og lögregla lagði hald á verði gerð upptæk samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 69. gr. a. almennra hegningarlaga, sbr. 2. gr. laga nr. 149/2009.“

 

Verjandi ákærða Krzysztofs Obrebski krefst vægustu refsingar að því er varðar innflutning á 1.328 ml af amfetamínbasa en að sýknað verði að öðru leyti. Til vara er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa. Krafist er málsvarnarlauna úr ríkissjóði samkvæmt tímaskýrslu.

Verjandi ákærða Roberts Borowski Beszta krefst aðallega sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa og að gæsluvarðhaldsvist ákærða komi að fullu til frádráttar dæmdri refsingu. Þess er krafist að allur sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.

Verjandi ákærða Arkadiusz Rusanowski krefst aðallega sýknu en til vara, komi til sakfellingar að einhverju leyti, að ákærða verði aðeins gert að sæta vægustu refsingu sem lög leyfa og að gæsluvarðhaldsvist ákærða komi að öllu leyti í stað refsivistar, eða að hún verði dregin frá henni. Málsvarnarlauna er krafist úr ríkissjóði samkvæmt tímaskýrslu.

Verjandi ákærða A krefst aðallega sýknu en til vara vægustu refsingar og ef refsivist verður dæmd að gæsluvarðhaldsvist ákærða komi til frádráttar. Þess er krafist að sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þ.m.t. málsvarnarlaun samkvæmt tímaskýrslu.

 

Samkvæmt frumskýrslu lögreglu bárust lögreglu upplýsingar frá tollayfirvöldum um að ákærði Krzysztof væri á leiðinni hingað til lands með ferjunni Norrænu með bifreiðina sem í ákæru greinir. Því er lýst í skýrslunni að ákærði hafi farið um borð í ferjuna í Danmörku en dönsku tollgæsluna hafi grunað að fíkniefni væru falin í bifreiðinni. Skammur tími hafi verið til stefnu til að leita fullkomlega í bifreiðinni og því ákveðið að hleypa ákærða með bílinn um borð í ferjuna en að láta íslensku tollgæsluna vita af ferðum hans.

Í skýrslunni er lýst undirbúningi lögreglunnar vegna þessa, en m.a. var komið fyrir eftirfararbúnaði og hlustunarbúnaði í bifreiðinni og sími ákærða Krzysztof tengdur til hlustunar, eins og síðar verður vikið að.

Þá er því lýst í skýrslunni er fylgst var með ferðum ákærðu uns þeir voru handteknir 25. ágúst 2017 og úrskurðaðir í gæsluvarðhald í framhaldinu, sem þeir sæta enn.

Við skýrslutökur hjá lögreglu neituðu allir ákærðu sök. Sá framburður verður rakinn að hluta síðar eins og ástæða þykir.

           

Nú verður rakinn framburður ákærðu og vitnisburður fyrir dómi

Ákærði Krzysztof játar að hafa flutt til landsins 1.328 ml af efninu sem í ákæru greinir en neitar sök að öðru leyti. Þá neitaði hann því að ákærðu hefðu saman staðið að innflutningnum og hann viti ekki um aðra sem tengist þessu máli en aðilana í Póllandi, svo sem síðar verður rakið.

Ákærði kvaðst hafa lent í slysi fyrir um ári og eftir það hefði loftslagið í Póllandi ekki hentað honum og að læknisráði hefði hann þurft að halda sig fjarri sól eins og unnt væri. Honum hefði því dottið í hug að koma hingað til lands, en ákærði kvaðst hafa heyrt að þörf væri fyrir sjúkraþjálfara hér á landi en hann kvaðst vera sjúkraþjálfari. Hann kvað mál hafa þróast þannig í Póllandi að maður hefði komið að máli við sig og beðið sig að flytja eitthvað hingað til lands, og hann hefði fengið afhenta bifreiðina sem í ákæru greini í þessu skyni. Hann kvaðst ekki geta nafngreint þennan mann vegna ótta um fjölskyldu sína. Hann kvaðst hafa samþykkt þetta og keypt farmiða með ferjunni Norrænu hingað til lands og greitt með reiðufé. Auk bifreiðarinnar hefði hann fengið afhentan síma. Hann kvaðst hafa átt að fá bílinn sem greiðslu fyrir ferðina auk þess að fá kostnað greiddan. Spurður um það hvað var í bifreiðinni sem hann flutti til landsins kvað hann að eftir því sem hann vissi best væru það lyf eða sterar. Hann kvaðst hafa vitað að það sem falið var í bílnum væri ólöglegt því ella hefði það ekki verið falið í bílnum. Hann kvaðst ekki vita hvar felustaðurinn í bílnum hefði verið.

Ákærði kvaðst hafa tekið við bifreiðinni og haldið áleiðis hingað til lands. Í Danmörku var hann stöðvaður af tollvörðum en síðan sleppt og farið með bílinn um borð í Norrænu. Þarna vissi hann að eitthvað væri ekki í lagi með bílinn. Eftir stuttan tíma um borð í ferjunni greindi öryggisvörður eða starfsmaður ferjunnar honum frá því að það læki úr bílnum. Hann hefði farið með starfsmanninum á bílaþilfarið og séð að eitthvað hafði lekið úr bílnum en ekki vitað hvað hefði lekið, talið í fyrstu að þetta væri kælivökvi. Hann kvað strætisvagn hafa verið við hliðina á bifreiðinni og eitthvað hefði lekið úr honum svo ákærði kvaðst ekki hafa verið viss. Ákærði kvað sér hafa fundist þetta skrítið og grunur vaknað hjá sér um að lekinn gæti tengst því sem hann flutti í bílnum. Ákærði kvaðst hafa farið síðar á bílaþilfarið með starfsmanni skipsins en lekinn hefði þá verið hættur.

Er ákærði fór frá borði með bílinn stöðvuðu tollverðir hann en slepptu síðan  og ók hann þá til Reykjavíkur þar sem hann hitti meðákærðu. Hann kvaðst hafa gert sér grein fyrir því er hann var um borð í ferjunni að hann væri í vandræðum vegna bílsins og því reynt að finna einhvern á Íslandi sem þekkti til. Hann hefði haft netsamband og leitað á Facebook og þar spurt meðákærða Arkadiusz sem var á leiðinni hingað til lands. Úr varð að þeir mæltu sér mót og reiknaði ákærði með því að Arkadiusz myndi hringja í sig síðar, sem hann gerði, og hefði ákærði greint honum frá vandræðum sínum. Arkadiusz hefði sagt „að hann segðist ekkert vilja tengjast þessu neitt“. Spurður nánar um þetta fyrir dómi og hverju Arkadiusz vildi ekki tengjast kvaðst ákærði hafa sagt honum frá lekanum og að einhverjir aðilar í Póllandi hefðu boðið ákærða að flytja eitthvað og að hann væri í vandræðum og væri hræddur og vissi ekki hvað hann ætti að gera. Þeir Arkadiusz hefðu rætt saman um að gera við bílinn vegna tjóns á vélarhlífinni, auk þess sem bremsurnar hefðu verið bilaðar. Hann kvaðst aðeins hafa rætt flutninginn til Íslands við meðákærða Arkadiusz. Hann hefði greint Arkadiuszi frá því að hann hefði engan stað til að gista á og hefði Arkadiusz þá stungið upp á því að hann gisti hjá meðákærðu, sem hann gerði. Morguninn eftir kvaðst ákærði hafa farið í bakarí og hefði sú ferð tekið um eina klukkustund, en við komu til baka hefði hann verið handtekinn. 

Ákærði kvað þá meðákærðu Arkadiusz þekkjast frá námsárum sínum í Póllandi. Þeir hefðu haft eitthvert samband fyrir ferðina hingað til lands en ekki mikið. Ákærði kvaðst hafa rætt ferðina hingað til lands við nokkra kunningja sína ytra, en hann mundi ekki hvort hann gerði það við meðákærða Arkadiusz. Hann kvaðst hafa komist að för meðákærða Arkadiuszar hingað til lands eftir að hann hefði leitað eftir aðstoð á netinu er hann var um borð í ferjunni eins og rakið var og þá fengið upplýsingar um að meðákærði Arkadiusz væri á leiðinni hingað til lands. Ákærði kvaðst þekkja hvorugan meðákærðu Robert og A og hvorugan hafa séð áður.

            Ákærði kvað fyrirmæli til sín vegna ferðarinnar hafa verið þau að eftir komuna til landsins hefði hann átt að hafa samband við breskt símanúmer og í framhaldinu yrði haft samband við hann, en hann vissi ekki hver hefði átt að gera það. Ekki hefði komið til þess vegna handtökunnar. Því hefði meðákærði Arkadiusz verið sá eini sem hefði haft samband við hann eftir komuna til landsins, en hann kvaðst hafa sent Arkadiuszi símanúmer sitt er hann var um borð í ferjunni.

Ákærði kvaðst hafa lagt bílnum á bílastæði við Hilton-hótelið. Spurður um það hvernig það kom til að meðákærðu hittu ákærða á bílastæðinu kvaðst ákærði ekki hafa séð hverjir hefðu komið þangað. Hann hefði sofið í bílnum en meðákærði Arkadiusz kom yfir í bifreið ákærða.

Fyrir liggur hlustun samtals ákærðu í bifreiðinni. Í samtalinu segir „hundurinn merkti strax við“. Arkadiusz svaraði „hentu þeir þessu“. Þá sagði ákærði „þeir fundu þetta ekki“. Spurður um það fyrir dóminum hvað ákærðu hefðu rætt þarna kvað ákærði það hafa verið það sem ákærði hefði átt að flytja til landsins, en ákærði kvaðst áður hafa sagt að hann væri í vandræðum og hvers vegna sér væri svona brugðið. Meðákærði Arkadiusz spurði „lak þetta allt“. Ákærði kvaðst áður hafa sagt að eitthvað hefði lekið úr bílnum og meðákærði Arkadiusz hefði verið að spyrja hann um þetta. Á einum stað í samtalinu spyr meðákærði Arkadiusz „lak þetta út og varð að kristal eins og brúnn“. Spurður um þetta fyrir dómi kvaðst ákærði ekki muna eftir þessu. Ákærði var spurður út í það að af samtalinu virtist mega ráða að báðir hefðu vitað hvert efnið sem ákærði flutti var og í hvaða formi. Ákærði kvaðst ekki líta þannig á. Meðákærði Arkadiusz spurði hvort ekki hefði verið hægt að koma einhverju fyrir til að hindra lekann. Ákærði kvaðst ekki muna þetta en ekki draga þetta í efa þar sem þetta væri hljóðritað. Hann kvaðst hafa verið orðinn mjög þreyttur eftir ferðalagið.

            Ákærði kvaðst hafa elt bifreið sem meðákærði Arkadiusz hefði komið á að gistiheimilinu og Arkadiusz hefði boðið sér að gista þar á gólfinu. Hann hefði ekki rætt við meðákærða og ekki vitað hvert erindi Arkadiuszar var hingað til lands. Ákærði kvaðst hafa gleymt einhverju í bílnum við gistiheimilið og þá farið út og sótt það en meðákærðu hefðu allir farið með honum og skoðað vélarhlífina, en ákærði kvaðst hafa greint frá bilun bifreiðarinnar, bæði bremsum og vélarhlíf, og rætt hefði verið um það að ef til vill væri hægt að gera eitthvað í þessu daginn eftir. Á ljósmyndum meðal gagna málsins sést er allir ákærðu eru við bifreiðina sem ákærði lýsti. Spurður um það hvernig það hefði komið til að meðákærðu tóku bílinn daginn eftir kvaðst ákærði hafa farið í bakarí og meðákærðu vaknað og er hann kom til baka. Þá hafi verið rætt um að fara og kaupa í matinn og heyra í meðákærða Aog athuga hvort eitthvað væri hægt að gera við bílinn. Spurður um það hvort hann hefði vitað að meðákærðu hefðu tekið bílinn að morgni 25. ágúst, og að þeir ætluðu að gera við hann, kvaðst ákærði ekki hafa vitað það en þeir hefðu ef til vill getað lagað hann. Hann hefði ekki hugsað þetta og beðið á gistiheimilinu. Nánar spurður mundi ákærði ekki hvernig það hefði komið til að meðákærðu tóku bifreiðina.

Fyrir liggur að í bifreiðinni fannst talstöð. Spurður um það hvort ákærði hefði átt hana kvað hann það hugsanlegt. Hann myndi það ekki.   

Fyrir liggur hljóðritað símtal ákærða á leið hans til Reykjavíkur. Þar hringir ákærði í breskt símanúmer. Hann kvaðst hafa átt að hringja í þetta númer við komuna til landsins, en vissi ekki hver viðmælandinn hefði verið. Þar segist ákærði hafa verið á leiðinni að heimilinu sem hann var með en fram kom að ákærði hafði ritað á miða nafn hótelsins. Spurður um þetta fyrir dóminum kvaðst ákærði hafa ákveðið fyrir fram að fara að Hilton hótelinu, sem hann gerði. Þá segir í símtalinu „já, ræðum saman þegar við hittumst“. Spurður um þetta kvaðst hann ekki geta skýrt þetta. Síðan segir „næst þegar ég kem þá ræðum við saman“ og síðan „ræðum saman þegar ég kem“. Fyrir dómi kvað ákærði þetta mögulegt en skýrði þetta ekki frekar. Hann viti ekki hvort þetta hafi verið aðilinn sem hann átti að hitta þar sem hann þekkti hann ekki. Síðar í samtalinu segir „ég er á leiðinni, verð kominn í kvöld, ég verð í bandi við hann“. Spurður um þetta kvaðst ákærði ekki geta skýrt þetta. Þetta væri tekið úr samhengi.

Þá liggur fyrir hljóðritað símtal við meðákærða Arkadiusz, sem segir að það sé klukkutími. Spurður um þetta fyrir dómi kvaðst ákærði hafa verið í sambandi við meðákærða Arkadiusz frá skipinu og hann hefði ætlað að vera í sambandi við hann er hann kæmi til landsins, kannski daginn eftir eða hinn daginn.

Ákærði var spurður hvenær hann hefði ráðgert að fara aftur til Póllands. Kvaðst ákærði hafa ætlað á Vinnumálastofnun og ekki verið með ákveðinn dag í huga.

Ákærði Robert Borowski Beszta neitar sök. Hann kvaðst hafa hitt meðákærða Arkadiusz fyrir tilviljun á flugstöðinni í Póllandi við brottför hingað til lands og þeir orðið samferða. Við skýrslutöku hjá lögreglu kvaðst ákærði Arkadiusz hafa hitt meðákærða fyrir tilviljun í flugvélinni og ekki vita hver hann væri. Ákærði Robert var spurður um skýringu á þessu fyrir dómi og kvaðst hann hafa verið illa fyrirkallaður og nefndi að lögreglan hefði lamið sig, eins og ákærði bar, og hann hefði sagt alls kyns hluti við skýrslutöku hjá lögreglu í fyrstu. Hann kvað þá meðákærða Arkadiusz þekkjast en ekki hefði verið fyrir fram ákveðið að þeir yrðu samferða hingað til lands heldur hefði það verið tilviljun að þeir áttu bókað flug sama dag og hann gæti ekki svarað spurningum um það hvernig á því stæði að flug beggja var bókað sama dag. Ákærði kvaðst muna illa frá þessum atburði og kvaðst eiga við veikindi að stríða, sem hann lýsti.

Ákærði kvað tilgang ferðarinnar hingað hafa verið að ferðast um landið. Ákærða var gerð grein fyrir framburði meðákærða Arkadiuszar hjá lögreglu, sem lýsti því að ákærði hefði ætlað að aðstoða hann við að leita að vinnu og þess vegna hefðu þeir farið saman hingað til lands. Spurður um þetta kvaðst hann ekki minnast þessa, að  þetta hefði verið ákveðið fyrir fram, en ákærðu hefðu drukkið í flugvélinni og hugsanlega rætt þetta þar, en ákærði kvaðst ekki muna þetta. Ákærði kvaðst hafa hitt meðákærða A einu sinni til tvisvar sinnum en hann þekkti son hans sem væri kunnugur B, syni ákærða, og hefði meðákærði A í gegnum þennan kunningsskap ætlað að athuga gistingu fyrir ákærða hér á landi. Ákærði hefði ætlað að greiða hótelherbergið en hann vissi ekki hvort hann hefði gert það, en hann kvaðst hafa verið mjög drukkinn og ekki muna þetta en telja að greiða hefði átt eftir á og hann hefði ekki vitað hversu margar nætur hann myndi gista á gistiheimilinu sem um ræðir. Fyrir liggur samkvæmt gögnum málsins að meðákærði A bókaði herbergi fyrir tvo. Spurður um þetta kvað hann það skýrast af því að oft væri sama verð fyrir herbergi hvort sem bókað væri fyrir einn eða tvo. Hann kvaðst ekki muna hvort hann hefði beðið um að bókað yrði fyrir einn.

Ákærði kvað þá meðákærða Arkadiusz hafa tekið rútu frá flugstöðinni til Reykjavíkur og fyrir tilviljun hefðu mál þróast svo að meðákærði Arkadiusz hefði gist í herberginu sem ákærði hafði til umráða. Þeir meðákærði Arkadiusz hefðu tekið leigubíl frá Umferðarmiðstöðinni að veitingahúsinu Chuck Norris, sem sonur hans hefði unnið á, og til hefði staðið að hitta meðákærða A þar en það hefði verið samkvæmt skipulagi eða ákvörðun B, sonar ákærða, sem hefði verið í sambandi við meðákærða A. Hann mundi ekki hvort A hefði verið með símanúmer sitt. Við skýrslutöku hjá lögreglu greindi ákærði svo frá að sonur hans hefði greint sér frá því viku fyrir brottförina að búið væri að bóka gistingu fyrir hann. Ákærði kvaðst ekki muna þetta nú. Ákærði kvað það hafa staðið til að meðákærði A æki ákærða á hótelið. Hann mundi ekki umræðuefnið er þeir hittust á veitingastaðnum en ákærði endurtók að hann hefði verið mjög drukkinn þetta kvöld. Hugsanlega hefði meðákærði Arkadiusz ætlað að gista hjá ákærða.

Ákærði hitti meðákærða Krzysztof fyrst á hótelinu en hann mundi ekki eftir því að meðákærði Krzysztof hefði gisti í herberginu með þeim meðákærða Arkadiuszi, þótt hann rámaði í dýnu á gólfinu. Hann mundi ekki eftir því að hafa boðið Krzysztof að gista í herberginu. Þá lýsti ákærði því að rætt hefði verið um bilaðan bíl kunningja meðákærða Arkadiuszar og að allir ákærðu hefðu verið viðstaddir er þetta hefði verið rætt. Ákærði kvað ákærðu hafa haft hug á því að hjálpa meðákærða Krzysztof með bílinn, en greint hefði verið frá því að eitthvað hefði lekið úr honum og eitthvað hefði verið í ólagi undir bílnum. Talað hefði verið um að útvega bílskúr í þessu skyni og meðákærði A útvegað bílskúr daginn eftir.

Fyrir liggja ljósmyndir sem sýna alla ákærðu við bifreiðina kvöldið sem þeir komu að gistiheimilinu 24. ágúst 2017. Spurður um erindi þeirra kvaðst hann ekki vita það, kannski hefði einhver verið að sækja eitthvað í bílinn, og þeir hefðu skoðað bílinn og opnað vélarhlífina. Ákærði kvaðst hafa skoðað undir bílinn og séð plaststykki hanga þar niður. Daginn eftir var farið með bílinn í bílskúrinn. Spurður um það hver hefði komið með bílskúrslykilinn kvað ákærði þá meðákærða Arkadiusz hafa farið í búð um morguninn á bílnum og í bílskúrinn á eftir, en hann vissi ekki hver hefði komið með lykilinn. Hann kvað meðákærða Krzysztof hafa verið þreyttan og stressaðan vegna bílsins og hann hefði orðið eftir á hótelinu. Lögreglan hefði komið mjög stuttu eftir komuna að bílskúrnum.

Ákærði var með síma á sér við handtöku. Fyrir liggur að hringt var úr þeim síma í meðákærða Krzysztof eftir komuna til landsins. Ákærði kvaðst hafa lánað meðákærða Arkadiuszi símann í þessu skyni, en hann hefði ekki vitað þá í hvern hann hefði hringt.

Við rannsókn síma ákærða komu í ljós skilaboð milli þeirra meðákærða Arkadiuszar í ágúst, fyrir ferðina hingað til lands. Hinn 8. ágúst sendi meðákærði Arkadiusz ákærða persónulegar upplýsingar um nafn, kennitölu og heimilisfang. Sama dag var bókað flug beggja hingað til lands. Spurður um þetta mundi hann ekki eftir þessu en kvað þetta hafa verið tilviljun.

Fyrir liggur hlustun samtals þeirra meðákærða Arkadiuszar í bifreiðinni er henni var ekið frá gistiheimilinu að bílskúrnum að morgni 25. ágúst sl. Ákærði mundi ekki eftir þessu samtali en hann hefði verið mjög þreyttur á þessum tíma. Þeir ræða lekann úr bifreiðinni. Spurður um þetta kvað hann mögulegt að þetta væru orð slitin úr samhengi. Talað var um að búið væri að bora í bílinn og fleira. Spurður um þetta kvað hann þetta hafa verið rætt á hótelherberginu eða að eitthvað hefði lekið úr bílnum. Síðar í samtalinu er sagt efnislega að það þurfi að fara varlega við svona og það komi vond lykt núna og það hlýtur eitthvað að vera eftir af þessu. Spurður um hvað ákærðu hafi þarna rætt kvaðst hann ekki vita það. Eftir að komið er inn í bílskúrinn er sagt „sjáðu litla op hér, klárum þetta og drullum okkur í burtu (stinga af)“. Spurður um þetta fyrir dóminum kvaðst hann ekki muna eftir þessu en þeir hefðu rætt margt.

Fyrir liggur að talstöð fannst í bílnum og að ákærðu voru í talstöðvarsamskiptum við meðákærða A á leiðinni að bílskúrnum. Spurður um þetta kvaðst hann ekki muna eftir að hafa talað í talstöðina þótt það gæti verið. Hann mundi ekki hvort meðákærði notaði talstöðina.

Spurður um það er ákærðu hittust við Hótel Nordica kvaðst hann muna það illa, en ákærði kvaðst ekki þekkja meðákærða Krzysztof. Hann mundi ekki eftir þessu og að Arkadiusz hefði farið yfir í aðra bifreið.

Ákærði Arkadiusz Rusanowski neitar sök og kvaðst enga vitneskju hafa haft um fíkniefni í bílnum er hann fór með hann í bílskúrinn þeirra erinda að gera við hann.

Ákærði kvaðst hafa komið hingað til lands þeirra erinda að fá vinnu og ferðast en meðákærði Robert hefði ætlað að aðstoða ákærða í þessu skyni. Þeir hefðu aðeins rætt þetta lauslega en ekkert ákveðið en þeir hefðu einnig rætt þetta á leiðinni hingað til lands. Þeir meðákærði Robert væru kunningjar og hefðu haft samskipti af og til.

Ákærði svaraði óljóst spurningu um hvort og þá hvernig þeir hefðu sammælst um að ferðast hingað til lands. Þeir hefðu hist fyrir tilviljun á flugvellinum en ákærði hefði vitað af ferð hans hingað til lands. Þeir hafi ekki keypt miðana saman. Hann hefði hins vegar sent meðákærða persónulegar upplýsingar til að Robert gæti athugað hvort flugmiðar væru á lausu og að hann keypti flugmiða fyrir ákærða. Hann kvaðst hins vegar hafa keypt miðann sjálfur en ekki meðákærði Robert.

Ákærði Arkadiusz kvaðst þekkja meðákærða Krzysztof frá því er þeir voru í námi, en meðákærða A hefði hann fyrst hitt hér á landi og ekki þekkt hann fyrir.

Ákærði kvaðst ekki hafa vitað að meðákærði Krzysztof væri á leiðinni til Íslands á þeim tíma sem um ræðir. Hann kvaðst hafa frétt af því þremur til fjórum dögum fyrir ferðina hingað til lands er meðákærði Krzysztof hefði sent ákærða skilaboð og sagt að eitthvað væri að, að hann væri mjög stressaður og þreyttur en hann væri á leið til landsins með eitthvað, en hann hefði engin fíkniefni nefnt eða neitt ólöglegt. Ákærði kvaðst hafa haft símanúmer Krzysztofs en hann hefði haft símsamband við hann um annað símanúmer sem meðákærði Krzysztof hefði sent honum. Ákærði kvaðst hafa hringt í Krzysztof úr farsíma meðákærða Roberts eftir komu til landsins og látið vita af komu sinni og þeir hefðu ætlað að hittast eftir klukkutíma við Hótel Nordica, en það hefði verið í því skyni að aðstoða meðákærða Krzysztof vegna vandræðanna með bílinn, en ákærði hefði tekið fram að hann vildi ekki aðstoða ef eitthvað ólöglegt eins og fíkniefni væri í bílnum. Meðákærði Krzysztof hefði sagt sér að eitthvað væri að bremsunum og eitthvert vandamál væri en hann væri að koma með eitthvað fyrir eitthvert fólk, eins og ákærði bar. Þá hefði eitthvað lekið úr bílnum.

Ákærði kvaðst ekki hafa bókað gistingu fyrir ferðina hingað til lands, en meðákærði Robert hefði sagst hafa gistingu og boðið ákærða að gista á þeim stað. Ákærði kvað þá meðákærða Robert hafa tekið rútu til Reykjavíkur af flugvellinum en síðan leigubíl í miðbæinn. Hann viti núna að það hafi verið til að hitta meðákærða A, en hann hefði ekki vitað það er þeir fóru í miðbæinn. Hann kvað þá hafa hitt meðákærða A á Chuck Norris. Meðákærði A hafi ekið þeim á gistiheimilið en hann hefði beðið meðákærða A að koma við á Hótel Hilton til að hitta meðákærða Krzysztof, en þá fyrst kvaðst hann hafa rætt við meðákærðu um bilaðan bíl en hann hefði ef til vill rætt það lauslega áður. Hann kvaðst síðar hafa greint meðákærða Robert frá því að hann ætti að hitta meðákærða Krzysztof og að hann ætti í vanda og að þeir ættu að fara upp að Hilton hóteli að sækja hann.

Fyrir liggur upptaka samtals þeirra meðákærða Krzysztofs í bifreiðinni á leiðinni á gistiheimilið. Hann kvað Krzysztof kunna að hafa rætt um lekann úr bílnum þarna en hann hefði vitað af þessu eftir skilaboðin sem meðákærði hefði sent honum áður. Á einum stað í samtalinu spyr ákærði „lak þetta út og varð að kristal eins og brúnn“. Spurður um þetta fyrir dóminum kvaðst hann ekki muna þetta en hann hefði ekki vitað hvað þetta væri. Ákærði spurði síðan „lak þetta allt“. Meðákærði Krzysztof hefði sagt að hann hefði flutt eitthvað til landsins fyrir eitthvert fólk. Hann hefði ekki vitað sjálfur hvað það var og ekki ákærði. Hann kvað ákærðu hafa kíkt á bílinn eftir komu á gistiheimilið og athugað með ástand hans, en hugsanlega hefðu þeir rætt að gera þyrfti við bílinn. Ákærði kvaðst ekki vera bifvélavirki en hann gæti lagað smávægilegar bilanir. Hann mundi ekki hvenær rætt hefði verið um að fá bílskúr til afnota.

Ákærði kvaðst ef til vill hafa grunað að eitthvað væri ólöglegt í bílnum eftir samskiptin sem hann átti við meðákærða Krzysztof, en hann hefði sagt að ekkert væri eftir í bílnum.

Morguninn eftir kom í ljós að A hafði útvegað bílskúr en hann viti ekki hver hafi beðið um það. Hann kvaðst telja að hann hefði beðið meðákærða Robert að koma með sér til að gera við bílinn, en meðákærði Krzysztof hefði verið í svo miklu áfalli að hann hefði ekki verið í ástandi til að koma með.

Fyrir liggur að talstöð fannst í bílnum og að talað var í hana á leiðinni að bílskúrnum. Ákærði mundi hvorki eftir talstöðinni né að hafa talað í hana. Meðákærði A bar hjá lögreglu að þeir ákærði Arkadiusz og Robert hefðu látið hann hafa talstöðina sem um ræðir.

Ákærði var spurður um 4 kg af koffíni sem fundust á hótelherberginu og kvaðst hann eiga það og hafa ætlað til eigin nota eða að selja.

Ákærði A neitar sök. Hann neitaði að hafa undirbúið og aðstoðað meðákærðu Robert og Arkadiusz fyrir ferð þeirra hingað til lands að öðru leyti en að bóka gistingu, eins og rakið verður. Þá hefði hann ekki vitað að nota ætti bílskúrinn í Skipholti til að fjarlægja fíkniefni úr bifreiðinni, enda hefði hann ekki vitað af fíkniefnunum og enginn hefði minnst á þau við sig, enda hefði hann aldrei samþykkt slíkt.

Ákærði kvaðst hafa fengið símtal frá B, syni meðákærða Roberts, í hádeginu 24. ágúst sl., þar sem ákærði hefði verið beðinn um að útvega gistingu fyrir meðákærða Robert fyrstu daga hans hér á landi. Ákærði kvað þá B þekkjast nokkuð og lýsti hann því, en þeir hefðu kynnst er báðir dvöldu hér á landi. Ákærði kvað B ekki hafa beðið sig að bóka hótel, aðeins að útvega gistingu, en ákærði kvaðst ekki hafa viljað fá neinn inn á sig og því ákveðið að finna ódýra gistingu, sem hann hefði gert og bókaði herbergi fyrir par með einu rúmi þar sem ákærði hefði haldið að meðákærði Robert kæmi hingað til lands með konu sinni. Við hótelbókunina lét ákærði kreditkort sitt sem tryggingu eins og lýst er í ákærunni. Þeir B ræddu það að meðákærði Robert myndi hitta ákærða á veitingastaðnum Chuck Norris, þar sem þeir B og meðákærði Robert þekktu til. Ákærði beið þar framangreindan dag, uns meðákærði Robert kom ásamt meðákærða Arkadiusz sem ákærði þekkti ekki en Robert kynnti fyrir honum. Við skýrslutöku hjá lögreglu greindi ákærði svo frá í upphafi að hann hefði hitt meðákærða Robert fyrir tilviljun á Chuck Norris. Fyrir dómi kvað ákærði skýringu þess þá að sér hefði verið mjög brugðið við handtökuna og það skýri þennan framburð, en hann hefði áttað sig á því að hann væri ekki í góðum aðstæðum. Ákærði kvað meðákærðu hafa verið þreytta og ekki viljað borða heldur fara beint á hótelið.

Á leiðinni á hótelið greindi meðákærði Arkadiusz frá því að vinur hans væri í vandræðum með bílinn sinn og að hann biði við Hilton hótel og spurði hann ákærða hvort hann vissi hvar það væri. Úr varð að ákærði A ók að Hilton í leiðinni, þar sem meðákærði Arkadiusz fór út úr bílnum, en að lokum óku þeir bílnum sem þarna var á eftir ákærða A að gistiheimilinu þar sem ákærði kvaðst hafa hitt alla ákærðu og meðákærði Krzysztof hefði lýst erfiðleikum sínum með bílinn. Þeir hefðu rætt þau vandræði og hvað væri að bílnum, en nefndar hefðu verið bilaðar bremsur og vélarhlíf undir bílnum. Meðákærði Krzysztof hefði spurt sig hvort hann gæti á einhvern hátt bjargað sér og útvegað stað þar sem unnt væri að kíkja á bílinn. Hann kvaðst ætla að kanna það og hafa samband morguninn eftir vegna þessa og koma til þeirra milli klukkan 8 og 10 áður en hann færi í vinnu. Hann kvað alla ákærðu hafa kíkt á bílinn fyrir utan gistiheimilið að kvöldi komudagsins. Ljósmyndir meðal gagna málsins bera með sér að þetta hafi verið um klukkan 23:30. Ákærði kvaðst hafa útvegað bílskúr svo unnt væri að gera við bílinn. Á heimleiðinni, eftir að hafa ekið meðákærðu á gistiheimilið, kvaðst hann hafa komið við hjá C, kunningja sínum, þar sem hann var við vinnu í bílskúrnum við Skipholt, sem í ákæru greinir, og spurt C hvort hann gæti lánað sér bílskúrinn. C kvaðst þurfa að ljúka viðgerð á bíl en hann gæti afhent ákærða lyklana að skúrnum morguninn eftir, sem hann hefði gert. Eftir að hafa fengið lyklana í hendur hefði ákærði farið til fundar við meðákærðu á gistiheimilinu og leiðbeint þeim að bílskúrnum. Ákærði hefði hleypt þeim inn í bílskúrinn og kvaðst hann hafa verið á leið til foreldra sinn, sem búa skammt frá, er lögreglan hefði komið stuttu síðar og handtekið ákærða.

Ákærða var kynntur vitnisburður C hjá lögreglu þar sem hann taldi að ákærði hefði komið til hans í bílskúrinn í síðasta lagi kl. 21 um kvöldið. Ákærði kvað það ekki geta verið því ákærðu hefðu hist á Chuck Norris kl. 21 og ákærði hefði verið á æfingu frá kl. 18:30 til 19:30 og fjöldi manns geti vitnað um það. Auk þess hefði ákærði ekki vitað af biluninni í bílnum fyrr en síðar þetta kvöld, eins og rakið var. Hann kvaðst telja C hafa ruglast á tímanum þar sem hann hefði verið upptekinn við vinnu sína. Ákærði kvaðst viss um tímann er hann ræddi við C um að fá bílskúrinn lánaðan. Það hafi hann gert á heimleiðinni eins og rakið var.

Ákærði kvaðst hafa farið að gistiheimilinu að morgni 25. ágúst og hefðu meðákærðu Robert og Arkadiusz komið þaðan út en hann hefði ekki séð meðákærða Krzysztof. Hann vissi ekki hvernig meðákærðu Robert og Arkadiusz þekktu meðákærða Krzysztof og hann hefði ekki velt sér upp úr slíkum smáatriðum. Meðákærðu hefðu viljað fara í búð, sem þeir gerðu, og ákærði á meðan farið á bensínstöð. Þeir hefðu mælt sér mót við Hilton hótelið, þangað sem allir rötuðu. Þaðan hefðu þeir farið þeir að bílskúrnum skammt frá. Talstöð sem fannst í bifreið ákærða kvaðst hann hafa fengið hjá meðákærðu fyrir utan Hilton en sér hefði ekki fundist það neitt skrítið þar sem slíkar talstöðvar væru mjög algengar í Póllandi. Ákærði kvaðst hafa talað við meðákærðu í talstöð á leiðinni í bílskúrinn þar sem hann hefði opnað fyrir þeim og síðan farið, eins og áður var rakið. Hann kvaðst hafa lagt bílnum skammt frá og ætlað til foreldra sinna en koma síðan aftur í bílskúrinn og athuga hvort viðskilnaðurinn væri í lagi.

Meðal gagna málsins er skýrsla tollgæslunnar í Álaborg, þar sem lýst er afskiptum tollvarða af bifreið ákærða Krzysztof fyrir brottför hans frá Danmörku með Norrænu 22. ágúst 2017. Meðal þeirra sem komu að málinu ytra var D tollvörður. Hún gaf símaskýrslu fyrir dóminum. Hún kvað alla bíla sem fara um borð í ferjuna til Færeyja og Íslands skoðaða og eftir að hafa skannað bíl ákærða hefðu fíkniefnaleitarhundar merkt við bílinn að framan og aftan. Eftir það hefði bíllinn verið tekinn til frekari skoðunar, jafnt með handafli og með aðstoð leitarhunds. Þá hefði verið borað gat fyrir aftan númeraplötu að framan en einskis orðið vart. Bílnum hefði þá verið þá hleypt um borð í ferjuna til Íslands þó að talið væri að fíkniefni væru í honum. Hún kvað tvær röntgenmyndir, frá tveimur sjónarhornum, hafa verið teknar af bifreiðinni. Tilgangur röntgenmyndanna hefði verið sá að kanna hvort eiturlyf væri að finna í bílnum, en ekki til að varpa ljósi á efnismagn. Vitnið var spurt um skugga sem fram kemur framan á bílnum á röntgenmyndinni. Hún kvað hafa verið talið að þar væri eitthvað að finna og merkti hún það af samanburði við myndir af bílum sömu tegundar. Erfitt hafi verið að sjá hvort skugginn sem um ræðir fyllti rýmið en svo hafi virst sem skugginn næði upp að númeraplötunni. Af þessum sökum hafi verið send tilkynning til færeyskra og íslenskra yfirvalda um að skoða bifreiðina, en rannsóknin í Danmörku hefði ekki verið fullnægjandi til að ganga endanlega úr skugga um það hvort fíkniefni væru í bílnum. Hún kvaðst ekki vita hvort tækið væri löglegt tæki til að mæla rúmmál.

Vitnið E var starfsmaður á ferjunni Norrænu í ferðinni sem ákærði Krzysztof kom með bílinn hingað til lands. Hann ræddi við ökumann bílsins eftir að í ljós kom leki frá bílnum. Hann kvað lekann hafa verið lítinn og ef til vill hefði lekið úr honum um einn lítri af glærum vökva, að hans sögn. Hann kvað fötu hafa verið setta undir og sag til að þurrka upp af þilfarinu. Ökumaðurinn hefði talið lekann vera kælivökva. Þetta hefði ekki verið rætt frekar og ekki hefði komið í ljós hvaðan lekinn kom, nema að hann hefði verið fyrir framan vélina. Fylgst hefði verið með lekanum í framhaldinu og enginn leki sést, aðeins bleyta, en vitnið fór af skipinu í Færeyjum. Hann kvað bílaþilfarið lokað og ökumaður hefði ekki komist þangað án fylgdar.

Vitnið F lögreglumaður kvaðst hafa rætt við áhöfn ferjunnar Norrænu við komuna til Seyðisfjarðar 24. ágúst og athugað hvort til væri upptaka frá ferðinni. Svo reyndist ekki vera. Hann kvaðst hafa rætt við aðilana úr áhöfninni vegna ferðarinnar. Hann hefði rætt lekann úr bílnum en ekkert um magn hefði komið fram.

Vitnið G lögreglumaður tók ljósmyndir af sagi sem notað var til að þurrka upp lekann frá bifreiðinni BAU24080, er bifreiðin var um borð í Norrænu á leiðinni hingað til lands. Við komu sýnanna í tæknideild lögreglu hafði sýni gefið svörun sem amfetamín við forprófun.

Vitnið H lögreglumaður lýsti vinnu sinni við símhlustun úr síma ákærða Krzysztofs er hann var á leiðinni frá Seyðisfirði til Reykjavíkur. Hún hafi ritað símtalið upp og hún hefði hlýtt á símtöl ákærða Krzysztof frá því að hann kom úr ferjunni, en vitnið er pólskumælandi og skrifaði skýrslurnar beint á íslensku. Fram kom að ákærði Krzysztof hefði mælt sér mót við einhvern eftir klukkutíma, eftir heimilisfangi sem hann hafði meðferðis á miða. Fram kom að það voru ákærðu Krzysztof og Arkadiusz sem ræddu saman. Ákærðu var fylgt af lögreglu. Það liggur fyrir hlustun samtals ákærðu Arkadiuszar og Roberts í Audi-bifreiðinni 25. ágúst. Vitnið ritaði skýrslu um þetta og kvað greinilega hafa komið fram að rætt væri saman í talstöð og að þeir sem í bílnum voru ræddu við ákærða A sem vísaði leiðina að bílskúrnum. Hún staðfesti skýrslurnar sem hún ritaði og tengjast þessu.

Vitnið I lögreglumaður ritaði skýrslu um hljóðritað samtal ákærðu Krzysztofs og Arkadiuszar í Audi-bifreiðinni 24. ágúst 2017, en þeir hafi þá verið við Hilton hótel. Þeir hefðu rætt að eitthvað hefði komið fyrir og að eitthvað hefði lekið út og ákærði Krzysztof hefði verið mjög stressaður og fram hefði komið hjá honum að hann hefði þurft að múta skipverja. Hún lýsti samtalinu. Hún ritaði skýrslu eftir rannsókn á tölvu ákærða A og þar hefði komið í ljós að hann hefði leitað á netinu að koffíni, sams konar því og fannst við leit í hótelherberginu þar sem ákærðu gistu. Af þessum sökum hefði þetta vakið athygli lögreglu. Þá ritaði vitnið skýrslu um rannsókn sína á farsíma ákærða Roberts. Þar kom í ljós að hringt var úr þessum síma í síma ákærða Krzysztofs. Þá komu í ljós samskipti milli ákærðu Arkadiuszar og Roberts fyrir komu hingað til lands, auk þess sem í ljós kom að ákærði Arkadiusz hefði sent ákærða Robert persónulegar upplýsingar um sig.

Vitnið J lögreglumaður lýsti því að tollgæslan hefði röntgenmyndað bifreiðina og fengið senda röntgenmynd sem tekin hefði verið af sömu bifreið í Danmörku. Hann lýsti vinnu við þetta og skoðun bifreiðarinnar í framhaldinu og að í ljós hefði komið að lekið hefði úr burðarbita framan á bifreiðinni og sterka lykt hefði lagt frá þessu. Hann kvað ljóst að lekið hefði um gat sem borað hefði verið á bitann. Hann kvað talstöð hafa fundist í bifreiðinni og GPS-tæki sem notað sé til að trufla GPS-staðsetningar og til að brengla sendingu eða stoppa alveg. Hann var spurður um algengan götustyrkleika amfetamíns og kvaðst hann telja hann u.þ.b. 24%.

Vitnið K lögreglumaður rannsakaði farsíma ákærða A og kvað hafa komið í ljós að ákærði A væri að leita að gistingu eða herbergi. Hann lýsti þessu nánar og staðfesti skýrslu sína um þetta.

Vitnið L lögreglumaður var viðstaddur rannsókn á stálbitanum sem fíkniefnin fundust í. Hann kvað gat hafa verið framan á bitanum og lýsti hann þessu nánar. Efnið í bitanum mældist 1.310 ml. Hann lýsti því að rúmmál bitans hefði verið mælt og reyndist unnt að koma fyrir í honum 5.200 ml af vatni. Hann skýrði og svaraði spurningum um þetta með hliðsjón af ljósmyndum meðal gagna málsins.

Vitnið M lögreglumaður lýsti myndum sem fengnar voru af flugvellinum við komu ákærðu Roberts og Arkadiuszar hingað til lands. Þá liggja fyrir myndir af komu ákærðu á gistiheimilið og er þeir voru við bifreiðina við skoðun undir vélarhlífinni, eins og rakið hefur verið. Þá eru einnig skýrsla og myndir frá því skömmu áður en ákærðu fóru á bifreiðinni áleiðis í bílskúrinn. Fram kemur að ákærðu Robert og Arkadiusz ganga fyrst fram hjá bifreiðinni áður en þeir snúa við og koma til baka og aka af stað. Í millitíðinni ók ákærði A fram hjá gistiheimilinu. M kvað rannsóknina hafa leitt í ljós að flug ákærðu Roberts og Arkadiuszar hefði verið pantað í Póllandi sama dag. Hann kvað hafa fundist 4 kg af koffíni á gistiheimilinu og það hefði vakið athygli vegna þess að slíkt efni væri notað til að drýgja amfetamín. Hann mundi eftir miða í bifreið ákærða Krzysztof þar sem var skrifað á Hótel Hilton. Hann kvað ekki hafa verið haft samband við B, son ákærða Roberts, í þágu rannsóknarinnar.

Vitnið C kvaðst þekkja ákærða A og hann hefði beðið sig um að fá lánuð afnot af bílskúrnum 24. ágúst sl. Hann kvaðst hafa verið að vinna í bílskúrnum er ákærði A  hefði komið þangað seint um kvöld og spurt hvort hann gæti fengið að nota bílskúrinn daginn eftir. Við skýrslutöku hjá lögreglu greindi vitnið svo frá að ákærði A hefði komið að máli við sig um kl. 19:30 þetta kvöld, og ekki síðar en kl. 21. Fyrir dóminum kvaðst hann mögulega hafa sagt þetta en hið rétta væri að hann myndi ekki nákvæmlega hvenær þetta var, enda hefði hann haft um annað að hugsa. Hann taldi sig hafa tekið fram í skýrslutökunni hjá lögreglunni að hann væri ekki viss um tímann að þessu leyti. Hann kvaðst hafa afhent ákærða A lyklana að skúrnum daginn eftir. Vitninu var gerð grein fyrir framburði ákærða A sem kvaðst hafa komið að máli við vitnið eftir kl. 23:30 að kvöldi 24. ágúst. C kvað það hugsanlegt. Við skýrslutöku af vitninu hjá lögreglunni kvaðst hann hafa farið í bílskúrinn um klukkan 18 og verið þar fram að miðnætti. Fyrir dómi kvaðst hann telja sig hafa byrjað vinnuna í skúrnum um kl. 18, en hann var ekki viss hvenær hann hefði lokið þar störfum þetta kvöld. Hann kvaðst ekki fylgjast með tímanum og í lögregluskýrslunni kemur fram að hann geti ekki svarið af sér höndina fyrir að fundurinn við ákærða A þetta kvöld hafi ekki verið seinna en kl. 21. Hann staðfesti þetta fyrir dómi.

Vitnið N, fyrrverandi tollsérfræðingur, lýsti vinnu sinni er hann tók röntgenmyndir af bílnum sem um ræðir í málinu. Hann kvaðst hafa unnið við gámaskanna, eins og þann sem notaður var, frá árinu 2012 til síðustu áramóta. Hann kvað tækið sem notað var hér sams konar og það sem notað var í Danmörku. Hann lýsti starfinu við að finna út mögulegt rúmmál þess sem hægt væri að koma fyrir í bitanum sem rætt hefur verið um. Þá lýsti hann samanburði á myndum teknum hér á landi og röntgenmynd sem tekin var í Danmörku og taldi hann mega ráða að meira magn hefði verið í bitanum er röntgenmyndin var tekin í Danmörku en við komu bifreiðarinnar hingað til lands, m.v. það er teknar voru myndir af bitanum með 1.310 ml í. Hann skýrði þetta með hliðsjón af myndum sem liggja frammi meðal gagna málsins. Hann kvað röntgenmyndir notaðar til að sjá hvort eitthvað sé í tilteknu rými en ekki til að mæla rúmmál.

Fyrir liggja matsgerðir Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði. Í niðurstöðunni segir að sýnin sem greind voru hafi innihaldið 49% amfetamínbasa. O, verkefnastjóri á rannsóknarstofunni, skýrði og staðfesti niðurstöður rannsóknarinnar og útreikninga sem gerðir voru um möguleika á framleiðslu amfetamínssúlfats á grundvelli fyrirfram gefins styrks amfetamínssúlfats. Hann kvað 49% styrk efnisins í máli þessu vera aðeins undir meðallagi vökvasýna sem borist hafi og rannsökuð hafa verið undanfarin sjö ár, en meðaltal styrkleika þeirra væri 55%.

 

Niðurstaða

Samkvæmt matsgerð Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði reyndist vökvinn sem fannst í styrktarbita Audi-bifreiðarinnar sem í ákæru greinir innihalda 49% amfetamínbasa. Þá liggur fyrir að í styrktarbitanum fundust 1.310 ml af efninu og 18 ml voru í ílátum sem tollgæslan lagði hald á og lekið höfðu úr styrktarbitanum eða alls 1.328 ml.

Auk þess að flytja til landsins 1.328 ml af efninu er ákærðu gefin að sök tilraun til að flytja til landsins 3.912 ml af sams konar efni, sem lak úr bifreiðinni eins og lýst er í ákærunni. Allir hafa ákærðu neitað þessu.

Þessi hluti ákærunnar er á því byggður að ráða megi magnið með samanburði röntgenmynda sem teknar voru af styrktarbita Audi-bifreiðarinnar í Álaborg fyrir brottför hennar með ferjunni Norrænu hingað til lands við röntgenmyndir sem teknar voru af styrktarbitanum eftir komu bifreiðarinnar hingað til lands. Rannsókn sýni að unnt hafi verið að koma fyrir 3.912 ml af vatni í styrktarbitanum til viðbótar þeim 1.328 ml vatns sem búið var að koma þar fyrir í stað fíkniefnisins og þannig hafi verið í styrktarbitanum alls 5.240 ml af fíkniefnum við brottförina frá Danmörku eins og lýst er í ákærunni.

Vitnið D, tollvörður í Álaborg, lýsti afskiptum danskra tollyfirvalda af ferðum ákærða Krzysztof fyrir brottför hans frá Danmörku hingað til lands og rannsókn á bifreiðinni sem um ræðir. Hún kvað tvær röntgenmyndir hafa verið teknar af bifreiðinni til að kanna hvort eiturlyf væri að finna þar, en ekki til að varpa ljósi á efnismagn. Vitnið var spurt um skugga sem fram kemur framan á bílnum á röntgenmyndinni. Hún kvað hafa verið talið að þar væri eitthvað að finna og merkti hún það af samanburði við myndir af bílum sömu tegundar. Erfitt hafi verið að sjá hvort skugginn sem um ræðir hafi fyllt rýmið en svo virðist sem skugginn nái upp að númeraplötunni. Samkvæmt þessu hefur styrktarbitinn ekki verið fullur er hann var rannsakaður í Danmörku.

Þótt leiddar hafi verið líkur að því að meira magn fíkniefna hafi verið í bitanum við brottförina frá Danmörku en þeir 1.328 ml sem lagt var hald á hér á landi eru engin viðhlítandi gögn til að byggja á svo unnt sé að slá því föstu að í bitanum hafi verið 5.240 ml eins og lýst er í ákærunni. Samkvæmt þessu er þessi hluti sakargifta ósannaður og ber að sýkna ákærðu af þeim hluta ákærunnar sem lýtur að tilraun til innflutnings 3.912 ml af efninu sem í ákæru greinir en ekki er vikið að því í heimfærslu til refsiákvæða í ákæru eins og hefði þurft að gera.

1

Sannað er með skýlausri játningu ákærða Krzysztof fyrir dómi og með öðrum gögnum málsins að hann hafi, að beiðni ótilgreindra aðila, móttekið 1.328 ml af vökva sem innihélt amfetamínbasa. Fíkniefnin sem voru falin í styrktarbita fremst í fyrrgreindri Audi-bifreið, og flutt fíkniefnin til Íslands frá Póllandi, en ákærði ók bifreiðinni frá Póllandi, með viðkomu í Þýskalandi, til Danmerkur og þaðan með farþegaferjunni Norrænu sem kom til Seyðisfjarðar að morgni fimmtudagsins 24. ágúst og þaðan áfram norðurleiðina, uns hann kom til Reykjavíkur að kvöldi sama dags.

Sannað er með framburði ákærða Krzysztof og með framburði meðákærða Arkadiusz að við komuna til Reykjavíkur mæltu þeir sér mót á bifreiðastæði við Hótel Nordica. Þar veittu meðákærðu Arkadiusz og Robert fíkniefnunum og bifreiðinni móttöku en ekki meðákærði A, eins og síðar verður rakið. Meðákærði Arkadiusz settist í Audi-bifreiðina og fylgdi Krzysztof ásamt meðákærðu A og Robert, sem óku annarri bifreið, að gistiheimili við Bergstaðastræti þar sem ákærðu allir, að undanskildum A, gistu um nóttina.

Ákærði Krzysztof er í samræmi við þetta sakfelldur fyrir brot samkvæmt þessum ákærulið að teknu tilliti til sýknu af tilraunaverknaðinum eins og rakið var.

2

Ákærðu Robert og Arkadiusz hafa báðir borið um það fyrir dómi að ferðalagið hingað til lands, samskiptin við meðákærða A og akstur þeirra og ferðir með Audi-bifreiðina hafi verið eins og lýst er í þessum ákærulið, nema að hvorugur hafi vitað af fíkniefnunum og byggist neitun beggja á því.

Því var lýst að framan að ákærðu komu hingað til lands með sama flugi frá Póllandi en ferð þeirra þaðan var bókuð sama dag. Ákærði Robert kvaðst ekki muna eftir því að meðákærði Arkadiusz hefði sent sér persónulegar upplýsingar með SMS-skeyti hinn 8. ágúst sl., eins og rakið var, og þá kvað hann það tilviljun að ákærðu hefðu átt bókað flug sama dag. Ákærði Arkadiusz svaraði óljóst spurningu um það hvort og þá hvernig þeir meðákærði Robert hefðu sammælst um að ferðast hingað til lands. Hann kvað þá hafa hist fyrir tilviljun á flugvellinum en ákærði vissi af ferð meðákærða Roberts hingað til lands. Þeir hefðu ekki keypt miðana saman en ákærði Arkadiusz kvaðst hins vegar hafa sent meðákærða Robert persónulegar upplýsingar til að hann gæti athugað hvort flugmiðar væru á lausu og að hann keypti flugmiða fyrir sig. Ákærði Arkadiusz kvaðst  hins vegar vegar hafa keypt miðann sjálfur.  

Framburður ákærðu um aðdraganda ferðarinnar og samskiptin ytra tengd ferðinni er mjög ótrúverðurgur og hið sama á við um framburð beggja um tilgang ferðarinnar.

Ákærðu Robert og Arkadiusz báru báðir um það að tilgangur ferðarinnar hingað til lands hefði verið að ferðast um landið og ákærði Arkadiusz bar jafnframt um það að hann hefði ætlað að athuga með vinnu. Fyrir liggur framburður allra ákærðu og ljósmyndir sem sýna ákærðu við Audi-bifreiðina í Bergstaðastræti að kvöldi 24. ágúst sl. Þá liggur fyrir að þessir tveir ákærðu fóru með bifreiðina í bílskúrinn morguninn eftir. Að mati dómsins sýna ljósmyndir meðal gagna málsins að ákærðu voru mjög varir um sig er þeir sóttu bílinn um morguninn. Þeir sjást ganga fyrst fram hjá bílnum, snúa síðan við og ganga til baka að bílnum áður en þeir leggja af stað í bílskúrinn.

Fyrir liggja upptökur hljóðritaðra samtala ákærðu Arkadiuszar og Krzysztofs í Audi-bifreiðinni, eins og rakið var, og hlustun samtals ákærðu Arkadiuszar og Roberts í sömu bifreið að morgni 25. ágúst á leiðinni í bílskúrinn auk annarra hlustunar- og símagagna. Þessir ákærðu hafa allir kannast við samtölin en skýringar þeirra á efni samtalanna, að svo miklu leyti sem þeir skýrðu þau, eru mjög ótrúverðugar og fjarstæðukenndar að hluta. Að mati dómsins er augljóst að innihald samtalanna sem lýst var snýst um fíkniefnin sem flutt voru til landsins falin í bifreiðinni.

Það er mat dómsins við mat á öllu því sem nú hefur verið rakið að ekki verði vefengt með skynsamlegum rökum að ákærðu Robert og Arkadiusz vissu af fíkniefnunum í bifreiðinni. Því var lýst að framan að ákærðu báru báðir um að lýsingin í þessum ákærulið væri rétt fyrir utan það að þeir hefðu ekki vitað af fíkniefnunum í bílnum.

Með vísan til alls framanritaðs er sannað, gegn neitun beggja ákærðu, að þeir hafi gerst sekir um háttsemina sem þeim er gefin að sök í þessum ákærulið, að teknu tilliti til sýknu af tilrauninni eins og rakið var.

3

Ákærði A neitar sök. Hann kvaðst hafa bókað hótelgistingu að beiðni B, sonar meðákærða Roberts. Þá hefði hann verið ákærðu innan handar eins og lýst er í ákærunni og fengið lánaðan bílskúr. Hann hefði hins vegar ekki vitað af fíkniefnunum í bifreiðinni. Ekki voru teknar skýrslur af B undir rannsókn málsins og hann kom ekki fyrir dóminn. Ákærði kvaðst hafa leitað til C á heimleið að kvöldi 24. ágúst og beðið hann um að fá bílskúrinn lánaðan. Vitnisburður C hefur verið nokkuð á reiki um það hvenær ákærði A kom að máli við hann þetta kvöld. Að mati dómsins er sú leið ótæk að skýra vitnisburðinn þannig að ákærði A hafi komið svo snemma til fundar við vitnið þetta kvöld að af því megi ráða að ákærði A hafi vitað af biluðum bílnum fyrr en hann hefur borið fyrir dóminum. Engin vitnisburður eða framburður meðákærðu bendir til þess að ákærði A hafi vitað af fíkniefnunum. Þá er ekkert í símagögnum sem rennir stoðum undir sakfellingu hans. Önnur gögn málsins eru heldur ekki til þess fallin að renna stoðum undir sakfellingu ákærða A. Fundir hans og meðákærðu virðast eiga rætur að rekja í samskiptum ákærða við B, son meðákærða Roberts, en B kom ekki fyrir dóminn eins og rakið var.

Að öllu þessu og öðrum gögnum málsins virtum er ósannað, gegn neitun ákærða A, að hann hafi vitað af fíkniefunum í bifreiðinni og ber samkvæmt því að sýkna hann.

Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið er sannað að ákærðu Krzysztof, Robert og Arkadiusz stóðu saman að innflutningi á 1.328 ml af vökva sem innihélt 49% amfetamínbasa. Magnið eitt sannar að efnið var flutt hingað til lands til söludreifingar í ágóðaskyni. Um er að ræða verkskipta samaðild og er ekki gerandi mun á milli ákærðu að því er þátt hvers um sig varðar en tekið er tillit til játningar ákærða Krzysztof við refsiákvörðun.  

Brot ákærðu varða við 173. gr. a almennra hegningarlaga eins og í ákæru greinir.

Í ákærunni er því hvorki lýst að breyta hefði átt amfetamínbasanum sem fluttur var til landsins í amfetamínsúlfat né hvað hefði verið unnt að framleiða mikið af því fíkniefni miðað við tiltekinn styrk. Verður því ekki fjallað frekar um þetta, enda verða ákærðu ekki dæmdir fyrir aðra háttsemi en þá sem í ákæru greinir, sbr. 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Ákærðu hafa samkvæmt sakavottorðum ekki áður gerst brotlegir við lög.

Að þessu virtu og efnismagninu sem um ræðir þykir refsing hvors um sig, ákærðu Roberts og Arkadiusz, hæfilega ákvörðuð fangelsi í 3 ár og 6 mánuði en refsing ákærða Krzysztof, sem játar sök, fangelsi í 3 ár. Með vísan til 76. gr. almennra hegningarlaga skal draga frá refsingunni óslitið gæsluvarðhald ákærðu frá 25. ágúst 2017 til dagsins í dag að telja.

Með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 eru dæmd upptæk fíkniefnin svo sem krafist er og greinir í dómsorði.

Fíkniefnin sem um ræðir í málinu voru flutt til landsins falin í bifreiðinni BAU-24080. Með vísan til 1. tl. 1. mgr. 69. gr. a almennra hegningarlaga er bifreiðin dæmd upptæk til ríkissjóðs og skiptir núverandi eignarhald ekki máli.

Ákærðu Krzysztof, Robert og Arkadiusz greiði óskipt 247.735 krónur vegna útlagðs sakarkostnaðar ákæruvaldsins.

Ákærði Krzysztof greiði helming 3.451.850 króna málsvarnarlauna Inga Freys Ágústssonar lögmanns á móti helmingi sem greiðst úr ríkissjóði. Ákærði og ríkissjóður greiði í sömu hlutföllum 86.304 króna aksturskostnað og 154.500 krónur vegna útlagðs kostnaðar verjandans.

Ákærði Robert Borowski greiði helming 3.583.600 króna málsvarnarlauna Bjarna Haukssonar lögmanns á móti helmingi sem greiðist úr ríkissjóði. Ákærði og ríkissjóður greiði í sömu hlutföllum 39.600 króna aksturskostnað og 30.900 krónur vegna útlagðs kostnaðar verjandans.

Ákærði Arkadiusz greiði helming 3.451.850 króna málsvarnarlauna Lilju Margrétar Olsen lögmanns á móti helmingi sem greiðist úr ríkissjóði. Ákærði og ríkissjóður greiði í sömu hlutföllum 37.620 króna aksturskostnað og 68.750 krónur vegna útlagðs kostnaðar verjandans.

2.911.706 króna málsvarnarlaun Guðbjarna Eggertssonar lögmanns, skipaðs verjanda ákærða A, greiðist úr ríkissjóði og sömuleiðis 38.940 króna aksturskostnaður og 154.500 krónur vegna útlagðs kostnaðar verjandans.

Ríkissjóður greiði 1.255.500 króna verjandaþóknun Sögu Ýrar Jónsdóttur lögmanns, skipaðs verjanda ákærða A undir rannsókn málsins.

Anna Barbara Andradóttir aðstoðarsaksóknari flutti málið fyrir ákæruvaldið.

Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

 

            Dómsorð:

Ákærði, A, er sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.

Ákærðu, Robert Borowski Beszta og Arkadiusz Rusanowski, sæti hvor um sig  fangelsi í 3 ár og 6 mánuði.

Ákærði, Krzysztof Obrebski, sæti fangelsi í 3 ár.

Til frádráttar refsivist ákærðu skal draga óslitið gæsluvarðhald þeirra frá 25. ágúst 2017 til dagsins í dag að telja.

Upptækir eru dæmdir 1.328 ml af vökva sem innihélt amfetamínbasa.

Upptæk er dæmd bifreiðin með skráningarnúmerinu BAU-24080.

Ákærðu Krzysztof, Robert og Arkadiusz greiði óskipt 247.735 krónur vegna útlagðs sakarkostnaðar ákæruvaldsins.

Ákærði Krzysztof greiði helming 3.451.850 króna málsvarnarlauna Inga Freys Ágústssonar lögmanns á móti helmingi sem greiðist úr ríkissjóði. Ákærði og ríkissjóður greiði í sömu hlutföllum 86.304 króna aksturskostnað og 154.500 krónur vegna útlagðs kostnaðar verjandans.

Ákærði Robert Borowski greiði helming 3.583.600 króna málsvarnarlauna Bjarna Haukssonar lögmanns á móti helmingi sem greiðist úr ríkissjóði. Ákærði og ríkissjóður greiði í sömu hlutföllum 39.600 króna aksturskostnað og 30.900 krónur vegna útlagðs kostnaðar verjandans.

Ákærði Arkadiusz greiði helming 3.451.850 króna málsvarnarlauna Lilju Margrétar Olsen lögmanns á móti helmingi sem greiðist úr ríkissjóði. Ákærði og ríkissjóður greiði í sömu hlutföllum 37.620 króna aksturskostnað og 68.750 krónur vegna útlagðs kostnaðar verjandans.

2.911.706 króna málsvarnarlaun Guðbjarna Eggertssonar lögmanns greiðist úr ríkissjóði og sömuleiðis 38.940 króna aksturskostnaður og 154.500 krónur vegna útlagðs kostnaðar verjandans.

Ríkissjóður greiði 1.255.500 króna verjandaþóknun Sögu Ýrar Jónsdóttur lögmanns, skipaðs verjanda ákærða A undir rannsókn málsins.

Tekið hefur verið tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun þóknunar lögmanna.

 

Guðjón St. Marteinsson