• Lykilorð:
  • Ávana- og fíkniefni
  • Fangelsi
  • Eignaupptaka
  • Sýkna

Árið 2018, miðvikudaginn 25. apríl, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Guðjóni St. Marteinssyni héraðsdómara, kveðinn upp dómur í málinu nr. S-741/2017: Ákæruvaldið gegn Jerzy Arkadiusz Ambrozy og A en málið var dómtekið samdægurs.    Málið er höfðað með ákæru héraðssaksóknara, dagsettri 21. desember 2017, á hendur:

 

„Jerzy Arkadiusz Ambrozy, kt. [...],

pólskum ríkisborgara, dvst. fangelsið Hólmsheiði,

 

A, kt. [...],

pólskum ríkisborgara, dvst. fangelsið Hólmsheiði,

 

Fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot, með því að hafa staðið saman að innflutningi á samtals 11.550 ml af vökva sem innihélt amfetamínbasa, sem hafði 23% styrkleika, ætlaðan til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni. Fíkniefnin fluttu ákærðu frá Póllandi til Íslands, í 23 stykkjum af 0,5 lítra plastflöskum sem faldar voru í eldsneytistanki bifreiðar af gerðinni Citroen C5 með skráningarnúmerið WGM-04322 sem ákærði Jerzy Arkadiusz var farþegi í og ákærði A ók frá Varsjá í Póllandi til Þýskalands, þaðan til Hirtshals í Danmörku og þaðan með farþegaferjunni Norrænu, með viðkomu í Þórshöfn í Færeyjum, til Seyðisfjarðar þriðjudaginn 3. október 2017, en fíkniefnin fundu tollverðir við leit í eldsneytistanki bifreiðarinnar við tollskoðun á Seyðisfirði.

 

Telst framangreint varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá er gerð krafa um upptöku á ofangreindum fíkniefnum, með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002. Þá er þess jafnframt krafist að bifreiðin WGM-04322, sem notuð var til að flytja framangreind fíkniefni til landsins og lögreglan lagði hald á verði gerð upptæk samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 69. gr. a. almennra hegningarlaga, sbr. 2. gr. laga nr. 140/2009.“

 

Verjandi ákærða Jerzy Arkadiusz Ambrozy krefst aðallega sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa og að gæsluvarðhaldsvist ákærða komi til frádráttar refsivist. Upptökukröfu er hafnað. Málsvarnarlauna er krafist úr ríkissjóði að mati dómsins.

Verjandi ákærða A krefst aðallega sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa og að gæsluvarðhald ákærða komi til frádráttar refsivist. Málsvarnarlauna og útlagðs kostnaðar er krafist úr ríkissjóði samkvæmt reikningi.

Samkvæmt frumskýrslu lögreglunnar voru ákærðu handteknir við komu ferjunnar Norrænu til Seyðisfjarðar 3. október 2017 eftir að fíkniefnin sem í ákæru greinir fundust við leit tollvarða í bifreiðinni sem í ákæru greinir.

Ákærðu voru báðir úrskurðaðir í gæsluvarðhald 4. október 2017 sem þeir hafa sætt síðan.

Ákærðu neituðu báðir sök við skýrslutökur hjá lögreglu.

           

Nú verður rakinn framburður ákærðu og vitnisburður fyrir dómi

Ákærði Jerzy Arkadiusz Ambrozy neitar sök. Hann kvað lýsinguna í ákærunni um ferðalagið hingað til lands rétta, fyrir utan það að hann kvaðst ekki hafa vitað af fíkniefnunum í bifreiðinni. Hann kvað þá meðákærða hafa þekkst lengi en þeir hefðu ekki verið í sambandi lengi, ákærði hefði hitt meðákærða við útför móður hans á síðasta ári. Ákærði kvað aðdraganda ferðarinnar hingað til lands vera þann að maður, sem hann kvað heita B, sem hann hitti í Póllandi, hefði beðið sig að fara hingað til lands í því skyni að sækja peninga og að fara með bíl hingað til lands. Ákærði kvaðst hafa ætlað að nota ferðina til að leita sér að vinnu hér á landi. Ákærði tók fram að hann vissi ekki hvort nafn mannsins væri rétt en hann hefði kynnst þessum manni á bar í Póllandi. Eftir að þeir B hefðu hist nokkrum sinnum hefði B beðið ákærða að fara til Íslands þeirra erinda að sækja hingað peninga. Ákærði kvaðst hvorki vita um fjárhæð né gjaldmiðil og í raun ekkert vita um peningana. Ákærði kvaðst hafa átt að hitta einhvern í Reykjavík eftir að hringt yrði í hann eftir komuna til landsins og þeir síðan að mæla sér mót. Ákærði kvaðst ekkert hafa spurt frekar út í þetta, utan það að hafa spurt hvort allt væri löglegt við þetta. Hann hefði fengið þau svör að fjárhæðin sem hann ætti að flytja væri ekki svo há að hún stangaðist á við heimildir til að flytja fjármuni á milli landa. Spurður um það, fyrst svona hefði staðið á, hvort ekki hefði verið unnt að millifæra fjármunina milli landa kvaðst ákærði ekki hafa hugsað út í það en sér hefði fundist þetta gott tækifæri fyrir sig til að leita að vinnu hér á landi, sem hann hefði haft í hyggju, og að nota ferðina til að skrá sig hér á landi eins og krafist væri vegna atvinnuleitar. Ákærði hefði átt að flytja peningana til Póllands með flugi en ekki haft upplýsingar um það hvað hann ætti að gera við bifreiðina. Spurður um það hvers vegna hann hefði ekki flogið hingað til lands í stað þess að ferðast á bílnum, eins og lýst er í ákærunni, kvaðst ákærði hafa farið að fyrirmælum B í Póllandi. Engin tímamörk hefðu verið varðandi það hvenær ætti að koma með peningana til Póllands. Ákærði lýsti því að hefði honum tekist að fá hér vinnu hefði hann farið með bílinn til Póllands með Norrænu en komið síðan aftur með flugi. Ákærði kvaðst hafa átt að fá 10.000 zloty fyrir ferðina en mánaðarlaun í Póllandi væru um 2 til 3 þúsund zloty. Hann kvað bifreiðina hafa verið skráða á sitt nafn og hann hefði því litið á hana sem tryggingu fyrir greiðslu fjárhæðarinnar sem honum hefði verið lofað.

Við skoðun á farsíma ákærða fundust SMS-skilaboð sem liggja fyrir meðal gagna málsins. Ákærði kvaðst muna eftir sumum þeirra. Hann var spurður um skilaboð frá 28. september, deginum áður en lagt var af stað í ferðina hingað til lands, þar sem segir „þeir munu taka hausinn ef þið náið ekki“. Spurður um þetta fyrir dómi kvað ákærði þetta myndlíkingu frá kunningja sínum og skýrði hann þetta þannig að þeim sem sendi skilaboðin fyndist alltaf að verið væri að fylgjast með sér og skýrði ákærði þetta nánar. Þessi skilaboð væru ekki frá manninum sem fékk hann til fararinnar. Hinn 29. september fær ákærði svofelld skilaboð: „eru búin að eyða úr hinn (eldri) skilaboð? Af því hitt er áskrift þú veist“. Spurður um þessi skilaboð fyrir dómi kvaðst ákærði ekki muna eftir þessu. Hinn 30. september fær ákærði svofelld skilaboð: „Manstu um dæla eldsneytið (Manst hvernig á að dæla)“. Spurður um þessi skilaboð fyrir dómi kvaðst ákærði ekki muna eftir þessu en hann hefði ekki fylgst með skilaboðunum. Hinn 30. september bárust svofelld skilaboð „lekur ekki/dropar ekki?“. Ákærði kvaðst hafa sett of mikið eldsneyti á bílinn í eitt skiptið og lekið hefði út fyrir og hann hefði greint kunningja sínum frá þessu í símtali. Þetta hefði verið tilefni fyrrgreindrar spurningar kunningja síns. Hinn 2. október bárust svofelld skilaboð „Varst þú bara tekinn í skoðun eða einhverjir fleiri?“ Þessi spurning er síðan endurtekin stuttu síðar. Spurður um það fyrir dóminum hvers vegna ákærði hefði verið spurður um þetta kvaðst hann hafa farið út að reykja og þá hringt í kunningja sinn og það hefði verið tilefni skilaboðanna, eftir því sem helst mátti ráða af framburði ákærða. Síðar sama dag, þ.e. 2. október, fær ákærði svofelld skilaboð „þegar þú leggur af stað, vertu í bandi“. Ákærði kvað þetta skilaboð frá sama aðilanum og sendi önnur skilaboð sem rakin hafa verið. Spurður um það hvort þetta liti ekki út eins og verið væri að fylgjast með ferðum hans hingað til lands kvað ákærði svo ekki hafa verið. Hann kvað SMS-skilaboðin ekki fjalla um flöskurnar sem faldar voru í bílnum, enda hefði hann ekki vitað af þeim.

Ákærði kvað þá meðákærða hafa ekið í 10 til 12 klukkustundir að ferjunni, og tekið bensín á bílinn í Póllandi, Þýskalandi og Belgíu. Hann mundi ekki hversu oft það var gert. Hjá lögreglunni greindi hann svo frá að það hefðu verið fimm skipti. Fyrir dómi kvaðst hann ekki muna þetta. Við skýrslutöku af meðákærða A hjá lögreglunni greindi hann svo frá að ákærði hefði alltaf tekið bensín er bensíntankurinn var u.þ.b. hálfur. Fyrir dómi kvað ákærði þetta líklegt. Hann skýrði hvers vegna þetta var gert, en þær skýringar tengjast ekki flöskunum sem voru í bensíntanknum. Ákærði kvaðst hafa dælt bensíni á bílinn í öll skiptin, en það hefði verið vegna þess að bensínlokið var þeim megin á bílnum sem ákærði sat. Ákærði kvaðst ekki hafa heyrt nein hljóð í bílnum á leiðinni hingað til lands.

Við skýrslutöku hjá lögreglunni greindi ákærði svo frá að hann hefði spurt ytra hvort eitthvað væri í bifreiðinni. Spurður um það fyrir dómi hvort hann hefði grunað að eitthvað væri í bifreiðinni kvað hann svo ekki hafa verið. Hann hefði einnig leitað í bifreiðinni en ekkert fundið. Spurður um ástæðu þessa kvaðst hann hafa gert þetta til að ganga úr skugga um að sér hefði verið greint rétt frá um þetta.

Fartölva, myndavél og málningartrönur voru í bifreiðinni og kvaðst ákærði hafa átt munina, en hjá lögreglunni kvað hann munina hafa verið setta í bílinn fyrir brottför hingað til lands fyrir ákærða, sem hefði haft hug á því að taka myndir.

Ákærði kvaðst hafa leitað til meðákærða og spurt hvort hann væri til í að koma með sér hingað til lands og að allur kostnaður af ferðinni yrði greiddur fyrir hann. Ástæða bónarinnar hefði verið sú að ákærði væri án ökuréttinda og hefði því fengið meðákærða með sér sem ökumann. Meðákærði hefði ekki fallist á þetta í fyrstu og ætlað að hugsa málið, en gert það að lokum. Ákærði kvaðst hafa sagt meðákærða að hann þyrfti að reka erindi hér á landi en ekki sagt honum hvert það væri. Hann hefði sagt meðákærða að þeir gætu leitað sér að vinnu í leiðinni.

            Ákærði A neitar sök. Hann kvað neitun sína byggjast á því að hann hefði ekki vitað af fíkniefnunum í bensíntanki bifreiðarinnar. Hann kvað aðdraganda ferðarinnar þann að þeir meðákærðu hefðu hist við útför móður ákærða, en þeir hefðu þá ekki hist lengi þótt þeir hefðu haft samskipti. Þar hafi meðákærði greint sér frá viðskiptaferð og þeir ákveðið að vera í sambandi síðar. Þetta hefði orðið til þess að þeir hittust á kaffihúsi um þremur vikum síðar. Meðákærði hefði þá beðið ákærða að koma með sér sem ökumaður hingað til lands, þar sem meðákærði hefði misst ökuréttindi sín, en hann þyrfti að reka erindi hér á landi. Auk þessa hefðu þeir rætt möguleikana á því að nota ferðina til að athuga með vinnu hér á landi, en meðákærði hafði komið hingað til lands áður og vissi hvernig þau mál gengju fyrir sig. Þá hefði ákærði átt að fá 5.000 zloty greiðslu fyrir ferðina. Ákærði kvaðst ekki hafa getað svarað meðákærða strax um erindið vegna vinnu sinnar í Póllandi, auk þess sem hann hefði þurft að ræða þetta við son sinn og ganga úr skugga um það að hann gæti á sama tíma annast systur sína. Meðákærði hefði hringt í sig um viku síðar og spurt um erindið og ákærði þá sagt að hann væri laus á þeim tíma sem í ákæru greinir, en hann þyrfti að vera kominn aftur til Póllands á tilteknum tíma vegna vinnu. Upphaflega var rætt um að ákærðu færu aftur til Póllands sömu leið með bílinn. Hann hefði síðan komist að því að það gengi ekki vegna vinnu sinnar í Póllandi og þá reiknað með því að taka flug til Póllands en ekki hefði verið hugsað fyrir þessu fyrirfram. Ákærði hefði fallist á erindið enda illa staddur fjárhagslega og átt að fá aukapening, 5.000 zloty, fyrir að fara sem bílstjóri meðákærða. Meðákærði hefði ekki sagt neitt frekar um það hvert erindið var til Íslands og ákærði ekki spurt frekar út í það. Hann hefði treyst meðákærða sem gömlum vini og að hann myndi ekki taka áhættu eða gera eitthvað ólöglegt. Ákærði kvaðst ekki hafa kynnt sér neitt um störf hér á landi enda aldrei komið hingað áður og treyst meðákærða, sem áður hafði komið til landsins, og að hann þekkti til að þessu leyti. Ákærði kvaðst aldrei hafa dælt eldsneyti á bílinn á leiðinni hingað. Við skýrslutöku hjá lögreglu kvað ákærði meðákærða alltaf hafa tekið bensín á bílinn er bensíntankurinn var hálfur. Hann kvaðst ekki hafa sagt það heldur hefðu þeir tekið bensín eftir þörfum, en honum hefði ekki virst neitt óeðlilegt við það þar sem þeir óku ókunnuga leið að næturlagi og ekki hefði verið gott að verða bensínlaus. Hann kvaðst ekki hafa heyrt nein grunsamleg hljóð í bílnum á leiðinni hingað til lands, en heyrn hans væri skert.

Ákærði A neitaði því í upphafi, við skýrslutöku hjá lögreglu, að hafa átt að fá greiðslu vegna ferðarinnar. Spurður um ástæðu þess fyrir dómi kvaðst ákærði hafa verið þreyttur og undir miklu álagi þar sem hann hefði haft áhyggjur af dóttur sinni. Ákærði leiðrétti upphaflegan framburð sinn hjá lögreglu um þetta við síðari skýrslutöku. Ákærði var spurður hvort honum hefði fundist eitthvað ólöglegt við það sem hann gerði fyrir meðákærða. Kvað hann svo ekki hafa verið en fundist hann svikinn eftir á. Við skýrslutöku hjá lögreglu greindi ákærði frá því að meðákærði hefði lofað sér að ferðin tengdist engu ólöglegu og engum fíkniefnum. Fyrir dómi staðfesti ákærði þetta og að meðákærði hefði lofað því að setja hvorugan ákærðu í áhættu.

Ákærði kvaðst ekki hafa vitað að aðrir en meðákærði hefðu komið að skipulagningu ferðarinnar og hann kvaðst ekki þekkja manninn sem meðákærði nafngreindi sem aðilann sem fékk hann til ferðarinnar. Hann kvaðst hafa séð bílinn fyrst um 50 mínútum fyrir brottför hingað til lands og meðákærði hefði greint sér frá því að hann ætti bílinn. Ákærði hefði ekki séð neitt ólöglegt við bílinn. Hann kvað meðákærða ekki hafa sýnt sér SMS-skilaboðin sem hann fékk í síma sinn á leiðinni og rakin voru og hann viti ekki við hvern hann ræddi.

            Vitnið C lögreglumaður lýsti því að grunsemdir tollvarða hefðu orðið til þess að bifreiðin sem um ræðir var rannsökuð. Fram kom að saga mannanna hefði ekki verið talin trúverðug og það leitt til þess að lögreglan kom á vettvang, en áður hefðu kviknað grunsemdir um að einhverjir aðskotahlutir væru í bensíntanki bifreiðarinnar. Hann hefði aðstoðað tollverði við að opna bensíntankinn og þá hefðu plastflöskurnar blasað við og vísaði C í ljósmyndir sem sýndu þetta. Ákærðu voru handteknir og greinilegt hefði verið að öðrum þeirra var meira brugðið eftir að fíkniefnin fundust í bensíntankinum. Af vitnisburði vitnisins má ráða að ökumaðurinn hafi verið ákærði A.

            Vitnið D tollvörður lýsti aðkomu sinni að málinu í upphafi. Hún hefði rætt við ákærðu eftir að bifreið þeirra var tekin til tollskoðunar. Hún kvað frásögn þeirra ekki hafa verið trúverðuga. Þeir hefðu sagst ætla að dvelja hér á landi í eina til tvær vikur og m.a. að athuga með vinnu. Hún kvaðst hafa talið farangur mannanna samrýmast illa frásögn þeirra miðað við það sem þeir sögðu að þeir hygðust gera. Var þá ákveðið að leita í bifreiðinni. Hún lýsti því að tungumálaerfiðleikar hefðu verið en pólskur farþegi með skipinu hefði aðstoðað við túlkun. Hún kvað annan mannanna aðallega hafa haft orð fyrir þeim og af lýsingunni að dæma var það ákærði Jerzy Arkadiusz Ambrozy. Hún kvað málaratrönur og tréliti hafi verið innpakkaða í bifreiðinni og engin mynd hefði verið í myndavélinni sem þar fannst. Allt hafi þetta virkað ótrúverðugt.

            Vitnið E lögreglumaður lýsti aðkomu sinni að rannsókn málsins eftir að tollgæslan fann ætluð fíkniefni. Hann var viðstaddur er efnið var tekið úr bifreiðinni. Hann kvað F lögreglumann hafa ekið bifreiðinni frá Seyðisfirði til Egilsstaða og hefði hann heyrt mjög greinilega „sláttarhljóð“ í bifreiðinni. Vitnið kvaðst hafa tekið fyrstu skýrslur af ákærðu. Hann lýsti innpökkuðum málaratrönum og fleiru sem fannst í bifreiðinni. Hann kvað annan ákærðu hafa orðið hræddari eftir að fíkniefnin fundust í bifreiðinni.

            Vitnið F lögreglumaður kvaðst hafa ekið bifreiðinni sem um ræðir frá Seyðisfirði til Egilsstaða. Hann kvað ekki hafa farið á milli mála að eitthvað væri í bensíntanki bifreiðarinnar, en það hefði verið eins og sullaðist í tankinum og eitthvað slægist þar utan í. Hann kvað ekki fara á milli mála að þeir sem í bílnum voru hefðu átt að heyra þetta.

            Vitnið G lögreglumaður kom að rannsókn málsins eftir komu ákærðu til Reykjavíkur. Hann lýsti því sem fram kom við upphaf rannsóknar málsins á Seyðisfirði og að frásögn ákærðu hefði þótt ótrúverðug. Þeir hefðu ætlað að dvelja hér á landi í allt að tvær vikur og jafnvel ætlað að leita sér að byggingarvinnu. Frásögn ákærðu hefði breyst frá því sem þeir báru upphaflega þar til lögreglan ræddi við þá. G kvað ákærða Jerzy Arkadiusz Ambrozy hafa átt bifreiðina og hann hefði verið með blað því til stuðnings, en hann minni að kona hafi verið skráð fyrir bílnum og ákærði hefði fengið bifreiðina til umráða degi fyrir brottför frá Póllandi. Þetta skjal liggur ekki frammi meðal gagna málsins. Hann kvað lítinn farangur og fatnað hafa fylgt ákærðu miðað við að þeir væru í atvinnuleit, auk þess sem málningartrönurnar og trélitirnir hefðu verið í óopnuðum umbúðum. Þá hefði komið í ljós við skoðun á myndavél og fartölvu sem fundust í bifreiðinni að ekkert væri þar sem tengdist ákærðu. Vitnið kvaðst telja þessa muni hafa verið í bifreiðinni í til að svo liti út sem ákærðu væru eins og ferðamenn að skoða landið. G kvað öll símanúmerin sem ákærði Jerzy Arkadiusz Ambrozy hefði haft samband við á þessum tíma hafa verið óskráð frelsisnúmer og því ekki vitað hver sá var sem hafði númerin til umráða. Þá hefði ákærði Jerzy Arkadiusz Ambrozy ýmist ekki viljað svara, ekki kannast við eða ekki geta útskýrt samskiptin. Þetta hefði litið út eins og einhver væri að fylgjast með ferðalaginu, t.d. þegar nefnt var að hann ætti að muna eftir að dæla bensíni á bílinn og hvort komið hefði fram leki o.fl. sem vitnið nefndi. Fram hefði komið að viðmælandi Jerzy Arkadiusz Ambrozy vissi að ákærðu væru tveir á ferð og nefndi hann í því sambandi að viðmælandinn hefði sagt ákærða Jerzy Arkadiusz Ambrozy að segja vini sínum að taka með sér farangurstösku. Ákærði A  hefði verið peningalaus og ákærði Jerzy Arkadiusz Ambrozy hefði verið sá sem hafði peninga meðferðis. Vitnið kvað ákærða A í fyrstu ekki hafa kannast við að hafa átt að fá greitt fyrir ferðina en hann hefði breytt þeim framburði. Vitnið kvað ekkert hafa verið minnst á flöskurnar sem fundust í bifreiðinni eða amfetamín í SMS-samskiptunum sem rakin voru. Vitnið kvað fyrirspurn hafa verið senda til Póllands um nafnið sem ákærði Jerzy Arkadiusz Ambrozy gaf upp og kvað manninn sem fékk hann til ferðarinnar, og um símanúmerin sem lýst var. Ekkert hefði komið út úr þeirri fyrirspurn, en fram hefði komið að nafnið sem ákærði Jerzy Arkadiusz Ambrozy nefndi væri mjög algengt í Póllandi, auk þess sem ákærði hefði lýst því að hann væri ekki viss um að það væri rétt nafn mannsins. Bankareikningar ákærðu í Póllandi voru ekki rannsakaðir og ekki var gerð húsleit hjá þeim eða reynt að hafa uppi á vitnum, svo sem heimilisfólki, til að fá upplýsingar þar vegna ferðar ákærðu hingað til lands.

            Vitnið H lögreglumaður ritaði skýrslu eftir rannsókn á farsíma ákærða Jerzy Arkadiusz Ambrozy. Hann lýsti stöku skilaboðum og hver þeirra vöktu athygli lögreglu vegna rannsóknar málsins, en þessi samskipti hefjist í upphafi ferðar frá Póllandi. Eldri samskipti voru af allt öðrum toga og lýsti hann því. Greinilegt hefði verið að sá aðili í Póllandi sem hefði notað óskráð símanúmer hefði fylgst með ferðalagi ákærðu, hvernig það gengi, hvort eitthvað læki og minnt á að taka eldsneyti og að hafa samband er komið væri úr ferjunni. Vitnið kvað hvorki hafa verið minnst á flöskur né amfetamín í SMS-samskiptunum sem rakin voru. H kvað enga notkun hafa verið á síma ákærða A frá því að ferðin hófst í Póllandi. H kvað það hafa komið fram hjá ákærða Jerzy Arkadiusz Ambrozy að maðurinn sem fékk hann til ferðarinnar hefði afhent sér myndavél og tölvu sem fundust í bifreiðinni.

            Vitnið I, starfsmaður tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, lýsti því að send hefðu verið til rannsóknar sýni úr tveimur flöskum af þeim 23 sem lagt var hald á. Fjöldinn sem sendur var til rannsóknar helgist af vinnureglu og venju. Pinnasýni hafi verið tekið úr öllum flöskunum og þau gefi svörun sem amfetamín.

            Fyrir liggja matsgerðir Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði á þeim sýnum sem send voru til rannsóknar. Sýnin reyndust innihalda ýmist 23% eða 24% amfetamínbasa miðað við þunga. Vitnið J verkefnastjóri staðfesti og skýrði niðurstöðurnar og kvað hann styrkinn frekar lágan miðað við vökvasýni. Þá reiknaði hann út að miðað við 5,8% styrkleika mætti framleiða 42 kg af amfetamínsúlfati úr efnunum sem lagt var hald á.

Niðurstaða

Ákærðu neita báðir sök. Þeim er gefið að sök að hafa staðið saman að því að flytja hingað til lands 11.500 ml af vökva sem innihélt amfetamínbasa, sem hafði 23% styrkleika, ætlaðan til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni.

Sannað og óumdeilt er, m.a. með framburði beggja ákærðu og öðrum gögnum málsins, að ferðalagi þeirra hingað til lands er rétt lýst í ákærunni.

Eins og rakið var fékk ákærði Jerzy Arkadiusz ákærða A til ferðarinnar sem bílstjóra. Ekkert liggur fyrir um það að sá síðarnefndi hafi haft nokkur samskipti við aðra í Póllandi en ákærða Arkadiusz fyrir ferðina. Ákærði A vissi ekki hvert raunverulegt erindi Jerzy Arkadiusz var hingað til lands og vissi ekkert um þann sem ákærði Jerzy Arkadiusz kvað hafa fengið sig til fararinnar. Þá eru hvorki til staðar símtöl né SMS-skilaboð sem tengja ákærða A við málið þannig að bendi til sektar hans eins og raunin er með ákærða Jerzy Arkadiusz og síðar verður rakið. Enginn vitnisburður eða önnur gögn tengja ákærða A þannig við málið að unnt sé að draga af þeim þá ályktun að hann hafi vitað eða mátt vita af fíkniefnunum sem falin voru í eldsneytistanki bifreiðarinnar. Að öllu þessu og öðrum gögnum málsins virtum er ósannað, gegn neitun ákærða, að ákærði A hafi vitað eða mátt vita af fíkniefnunum sem flutt voru til landsins falin í eldsneytistanki bifreiðarinnar. Ber samkvæmt þessu að sýkna ákærða A.

Framburður ákærða Jerzy Arkadiusz er ótrúverðugur um margt, m.a. um erindið hingað til lands að sækja peninga sem hann vissi ekkert meira um eins og rakið var. Þetta hafi hann gert fyrir ókunnugan mann sem afhenti honum bifreið til verksins og gegn loforði um að fá 10.000 zloty fyrir. Þá liggur fyrir að ákærði var sá sem ávallt dældi eldsneyti á bílinn, sem að mati dómsins bendir til þess að það hafi verið vegna vitneskju hans um það sem falið var í eldsneytistanki bifreiðarinnar. Þá verður ekki annað ráðið af SMS-sendingunum sem raktar voru og af öllum SMS-sendingunum sem fyrir liggja meðal gagna málsins en að ljóst sé að ákærði var á ferðalagi sínu hingað til lands og eftir komuna hingað í sambandi við aðila sem fylgdust með ferð hans hingað og að báðir eða allir vissu um það sem falið var í eldsneytistanki bifreiðarinnar. Skýringar ákærða fyrir dómi á innihaldi þessara samskipta, að svo miklu leyti sem hann svaraði, eru ótrúverðugar og verður ekki á þeim byggt. Það er mat dómsins að sannað sé með SMS-sendingunum og með stuðningi af því sem nú hefur verið rakið og bendir til sektar ákærða, gegn neitun hans, að hann hafi vitað af fíkniefnunum sem falin voru í eldsneytistanki bifreiðarinnar og hefur hann því gerst sekur um háttsemina sem í ákæru greinir. Þá er sannað af efnismagninu einu að efnið var ætlað til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni.

Í ákærunni er því hvorki lýst að breyta hafi átt amfetamínbasanum sem fluttur var til landsins í amfetamínsúlfat né hversu mikið hefði verið unnt að framleiða af því fíkniefni miðað við tiltekinn styrk. Verður því ekki fjallað frekar um þetta enda verður ákærði ekki dæmdur fyrir aðra háttsemi en þá sem í ákæru greinir, sbr. 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Ákærði hefur samkvæmt sakavottorði ekki áður gerst brotlegur við lög. Að þessu virtu og efnismagninu sem um ræðir þykir refsing ákærða Jerzy Arkadiusz hæfilega ákvörðuð fangelsi í 6 ár og 6 mánuði. Með vísan til 76. gr. almennra hegningarlaga skal draga frá refsingunni óslitið gæsluvarðhald ákærða frá 4. október 2017 til dagsins í dag að telja.

Með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 eru dæmd upptæk fíkniefnin svo sem krafist er og greinir í dómsorði.

Fíkniefnin sem um ræðir í málinu voru flutt til landsins falin í bifreiðinni WGM-04322. Með vísan til 1. tl. 1.mgr. 69. gr. a almennra hegningarlaga er bifreiðin dæmd upptæk til ríkissjóðs.

Ákærði Jerzy Arkadiusz greiði 1.971.851 krónu vegna útlagðs sakarkostnaðar ákæruvaldsins.

7.578.260 króna málsvarnarlaun Stefáns Þórs Eyjólfssonar lögmanns, skipaðs verjanda ákærða A, greiðist úr ríkissjóði. Þá greiði ríkissjóður verjandanum 586.687 krónur vegna útlagðs kostnaðar.

Ákærði Jerzy Arkadiusz greiði 4.216.000 króna málsvarnarlaun Brynjólfs Eyvindssonar lögmanns. Tekið hefur verið tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun þóknunar verjenda.

Anna Barbara Andradóttir aðstoðarsaksóknari flutti málið fyrir ákæruvaldið.

Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

 

Dómsorð:

            Ákærði, A, er sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.

Ákærði, Jerzy Arkadiusz Ambrozy, sæti fangelsi í 6 ár og 6 mánuði. Frá refsingunni skal draga óslitið gæsluvarðhald ákærða frá 4. október 2017 til dagsins í dag að telja.

Upptækir eru dæmdir 11.500 ml af vökva sem innihélt amfetamínbasa.

Upptæk er dæmd ríkissjóði bifreiðin WGM-04322.

Ákærði Jerzy Arkadiusz greiði 1.971.851 krónu vegna útlagðs sakarkostnaðar ákæruvaldsins.

7.578.260 króna málsvarnarlaun Stefáns Þórs Eyjólfssonar lögmanns, skipaðs verjanda ákærða A greiðist úr ríkissjóði. Þá greiði ríkissjóður verjandanum 586.687 krónur vegna útlagðs kostnaðar.

Ákærði Jerzy Arkadiusz greiði 4.216.000 króna málsvarnarlaun Brynjólfs Eyvindssonar lögmanns.

Guðjón St. Marteinsson