• Lykilorð:
  • Peningaþvætti
  • Skilorð

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 18. desember 2018 í máli nr. S-486/2018:

Ákæruvaldið

(Björn Þorvaldsson saksóknari)

gegn

Júlíusi Vífli Ingvarssyni

(Hörður Felix Harðarson lögmaður)

 

I

       Mál þetta, sem dómtekið var 3. desember síðastliðinn, var höfðað með ákæru héraðssaksóknara, útgefinni 28. júní síðastliðinn, á hendur Júlíusi Vífli Ingvarssyni, kt. 000000-0000, [...],[...], „fyrir peningaþvætti, með því að hafa árin 2010 til 2014 geymt á bankareikningi sínum nr. 488380 hjá UBS banka á Ermarsundseyjunni Jersey, andvirði 131 til 146 milljóna króna, í bandaríkjadölum, evrum og sterlingspundum, sem að hluta voru ávinningur refsiverðra brota, þar sem um var að ræða tekjur sem ákærða höfðu hlotnast nokkrum árum fyrr, en ekki talið fram til skatts, og því ekki greitt tekjuskatt og útsvar af í samræmi við ákvæði skattalaga, ásamt vöxtum af því fé, og hafa árið 2014 ráðstafað umræddum fjármunum af fyrrnefndum bankareikningi hjá UBS banka inn á bankareikning nr. 0260.1020 02.01, hjá bankanum Julius Bär í Sviss, sem tilheyrði vörslusjóðnum Silwood Foundation, en rétthafar vörslusjóðsins voru ákærði, eiginkona hans og börn. Fjárhæð hins ólögmæta ávinnings, þ.e. þeir skattar sem ákærði kom sér undan að greiða og vextir af því fé, sem ákærði þvætti með þessum hætti, var á bilinu 49 til 57 milljónir króna.

       Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

       Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

       Ákærði neitar sök og krefst sýknu. Hann krefst þess að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.

 

II

       Með bréfi 5. janúar 2017 vísaði skattrannsóknarstjóri til héraðssaksóknara máli vegna ætlaðra brota ákærða á skattalögum og almennum hegningarlögum. Í bréfinu segir að samkvæmt gögnum málsins hafi ákærði átt „fjármuni á erlendum bankareikningum a.m.k. frá árinu 2005, fyrst hjá UBS á Jersey, en frá árinu 2014 hjá Julius Bär í Sviss í nafni Silwood Foundation, skrásettu í Panama. Uppruni umræddra fjármuna er ekki að fullu ljós en rannsókn hefur leitt í ljós líkindi fyrir því að fjármunirnir hafi komist í umráð skattaðila á árinu 2005 eða fyrr. Í skýrslutöku af skattaðila sagði hann fjármunina komna til af samningum, þóknunum og viðskiptum vegna starfa sinna hjá Ingvari Helgasyni ehf., fyrirtæki er var í eigu og rekstri skattaðila og fjölskyldu hans um langt árabil. Staðfesti skattaðili í skýrslutöku að ekki hefði verið greiddur skattur af fjármununum.“

       Í næsta kafla er rakinn framburður ákærða og kemur þar fram lýsing hans á málavöxtum.

 

III

       Við aðalmeðferð kannaðist ákærði við að í ákæru væri rétt skýrt frá fjárhæðum og bankareikningum og hvernig peningum hefði verið ráðstafað milli bankareikninga.

       Ákærði kvaðst hafa hafið störf hjá nefndu hlutafélagi 1982 en hann hefði reyndar komið að rekstri þess fyrir þann tíma. Hann kvaðst hafa starfað hjá félaginu samfellt í 22 ár. Spurður um uppruna þeirra fjármuna sem hann geymdi á framangreindum reikningi á Jersey og flutti síðar til Sviss kvað hann að um hafi verið að ræða þóknanir og umboðslaun. Þetta hefðu verið greiðslur sem samið hefði verið um í tengslum við viðskiptasamninga, til hliðar við þá, eins og ákærði komst að orði. Hann kvað þetta hafa verið mjög algengt á níunda áratug síðustu aldar að nota umboðsgreiðslur. Þetta hefði verið vegna mikillar verðbólgu hér á landi á þeim tíma. Þessar umboðsgreiðslur hefðu verið almennar á þessum tíma en lagst af á tíunda áratugnum meðan ákærði var enn starfandi hjá félaginu. Ákærði var spurður hvort hann hefði talið þessar tekjur fram til skatts og kvaðst hann ekki hafa uppfyllt framtalsskyldu, eins og hann orðaði það. Hann tók hins vegar fram að framtalsskylda og skattskylda væri ekki það sama. Hvernig þessir fjármunir myndu verða skattlagðir kvaðst hann ekki geta sagt til um, enda ekki sérfræðingur í því eins og hann orðaði það. Hann kvaðst ekki hafa talið þessa fjármuni fram þegar þeir komust í hans vörslu frá félaginu. Hver skattskyldan væri kvaðst hann ekki geta fullyrt um.

 

IV

        Ágreiningslaust er í málinu að ákærði átti fjármuni á reikningi í UBS banka er síðar voru færðir inn á reikning í banka í Sviss. Er ekki ágreiningur um að þessu er rétt lýst í ákæru. Þá hefur ákærði viðurkennt að hafa ekki talið þessa fjármuni fram til skatts hér á landi. Í framburði sínum lýsti hann uppruna fjárins, eins og rakið var. Ekki er ágreiningur um þessi atriði og heldur ekki að fjármunirnir hafi orðið til á þeim tímum sem ákærði greindi frá og rakið var. Ákærða er gefið að sök að hafa brotið gegn 1., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga. Í 1. mgr. segir að hver sem taki við, nýti eða afli sér eða öðrum ávinnings af broti á lögunum eða af refsiverðu broti á öðrum lögum, eða meðal annars umbreyti slíkum ávinningi, flytji hann, sendi, geymi, aðstoði við afhendingu hans, leyni honum eða upplýsingum um uppruna hans, eðli, staðsetningu eða ráðstöfun ávinnings skuli sæta refsingu. Í 2. mgr. segir að sá sem fremji frumbrot og fremji jafnframt brot á 1. mgr. skuli sæta refsingu eins og segi í 1. mgr.

        Ákærða bar að telja þessa fjármuni fram til skatts og greiða af þeim skatta samkvæmt gildandi skattalögum á hverjum tíma. Þetta gerði hann ekki og er þar af leiðandi hluti fjármunanna ávinningur af broti hans á skattalögum. Meðhöndlun ákærða á þessum fjármunum, eins og henni er lýst í ákærunni, var honum því refsiverð samkvæmt nefndri 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga. Með því að ákærði framdi einnig frumbrotið, það er brot gegn skattalögum, hefur hann jafnframt brotið gegn 2. mgr. greinarinnar.

        Ekki er ástæða til að draga í efa framburð ákærða um að nú sé langt síðan hann braut gegn skattalögum. Á þeim tíma sem liðinn er hefur hann hins vegar geymt nefnda fjármuni á bankareikningum og flutt þá á milli reikninga. Síðast gerði hann þetta á árinu 2014, eins og greinir í ákæru og ákærði hefur kannast við. Samkvæmt þessu er brot ákærða ófyrnt og hafnar dómurinn því að sýkna hann vegna fyrningar.

        Samkvæmt framanrituðu verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákærunni og er brot hans þar rétt fært til refsiákvæða. Ákærða hefur ekki áður verið refsað. Refsing hans er hæfilega ákveðin tíu mánaða fangelsi sem bundin skal skilorði eins og í dómsorði greinir.

        Loks verður ákærði dæmdur til að greiða málsvarnarlaun verjanda síns sem ákveðin eru með virðisaukaskatti í dómsorði, en annan kostnað leiddi ekki af málinu.

 

        Arngrímur Ísberg héraðsdómari kveður upp dóminn.

 

D ó m s o r ð:

        Ákærði, Júlíus Vífill Ingvarsson, sæti fangelsi í tíu mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveim árum frá deginum í dag að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

        Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Harðar Felix Harðarsonar lögmanns, 5.433.370 krónur.

                                                                                   

Arngrímur Ísberg