- Lykilorð:
- Aðild
- Fyrning
- Vátrygging
- Vátryggingarsamningur
D Ó M U R
Héraðsdóms
Reykjavíkur 24. mars 2017 í málinu nr. E-3511/2014:
Kaupþing hf.
(Ólafur Finnbogi Haraldsson
hrl.)
gegn
Riverstone Insurance Ltd.
Great Lakes Reinsurance UK
Chubb Insurance Company of
Europe SE
Aspen Insurance UK Ltd.,
AXIS Specialty Europe Ltd.
o.fl.
(Stefán Þór Ingimarsson
hdl.)
Mál
þetta sem höfðað var 24. september 2014, var tekið til dóms eftir endurflutning
þess 9. mars 2017.
Stefnandi
er Kaupþing hf., [...]. Stefndu eru Riverstone Insurance Limited, [...]; Great
Lakes Reinsurance (UK) P[...], Chubb Insurance Company of Europe SE, [...];
Aspen Insurance UK Limited, [...]; AXIS Specialty Europe Limited, [...].
Jafnframt er málið höfðað gegn tilteknum samtökum vátryggjenda Lloyd’s sem
tilgreindir eru með eftirfarandi hætti:
Markel
Capital Limited sem eina meðlimnum í samtökum 3000 (e. Syndicate 3000) fyrir
reikningsárið 2007 (e. for the 2007 year of account), Markel Syndicate
Management Limited, [...]
Chaucer Corporate Capital (No 2) Limited sem eina meðlimnum í
samtökum 1084 fyrir reikningsárið 2007, Chaucer Syndicates Limited, [...]
Argo (No 604) Limited sjálfu og fyrir hönd allra annarra meðlima í
samtökum 3245 fyrir reikningsárið 2007, Argo
Managing Agency Limited, Exchequer Court, [...]
Chaucer Corporate Capital
(No 2) Limited sjálfu og fyrir hönd allra annarra meðlima í samtökum 4000 fyrir
reikningsárið 2007, Chaucer Syndicates Limited, [...]
QBE
Corporate Limited sem eina meðlimnum í samtökum 1886
fyrir reikningsárið 2008, QBE Underwriting Limited, Plantation Place, [...]
Catlin Syndicate Limited
sem eina meðlimnum í samtökum 2003 fyrir
reikningsárið 2008, Catlin Underwriting Agencies Limited, [...]
Antares
Underwriting Limited sem eina meðlimnum í samtökum
1274 fyrir reikningsárið 2008, og Antares Managing Agency Limited, [...]
Alterra Corporate Capital 2 Limited sjálfu og fyrir
hönd allra annarra meðlima í samtökum 1400 fyrir reikningsárið 2007, Markel
Syndicate Management Limited, [...]; og
QBE Corporate Limited sem eina meðlimnum í samtökum
0386 fyrir reikningsárið 2007, QBE Underwriting Limited, [...]
Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmdir til að greiða honum þær fjárhæðir sem við nafn þeirra greinir í evrum sem hér segir: Riverstone Insurance Limited, 12.256.000 evrur, Great Lakes Reinsurance, (UK) Plc. 12.257.000 evrur, Chubb Insurance Company of Europe SE, 5.448.500 evrur, Aspen Insurance UK Limited, 10.350.000 evrur, Chaucer Corporate Capital (No 2) Limited, samtök 1084, 6.127.500 evrur, Chaucer Corporate Capital (No 2) Limited, samtök 4000, 2.179.500 evrur, Markel Capital Limited, 3.704.000 evrur, Argo (No 604) Limited, 3.704.000 evrur, QBE Corporate Limited samtök 1886, 15.000.000 evrur, QBE Corporate Limited samtök 386, 2.287.000 evrur, Catlin Syndicate Limited, 8.986.500 evrur, Antares Underwriting Limited, 8.170.500 evrur, Axis Specialty Europe Limited, 3.811.500 evrur og Alterra Corporate Capital 2 Limited, 5.718.000 evrur, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi sem mál þetta var höfðað og til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu in solidum úr hendi stefndu.
I.
Málið
var þingfest 25. september 2014. Í þinghaldi 20. maí 2015 krafðist lögmaður
stefnanda að málinu yrði frestað með vísan til 3. mgr. 102. gr. laga nr.
91/1991 þar sem rekið væri skaðabótamál fyrir dómstólnum og niðurstaða þess
gæti haft veruleg áhrif á þetta mál. Stefndu mótmæltu því að málinu yrði frestað.
Í þinghaldi 16. júní 2015, féllu stefndu frá kröfu um frávísun málsins og sama
dag fór fram munnlegur málflutningur um frestun málsins. Þeirri kröfu var
hafnað með ákvörðun þáverandi dómara málsins 2. júlí 2015. Í því þinghaldi var
gerð krafa um skiptingu sakarefnis þannig að fyrst yrði tekin afstaða til þess
hvort sýkna bæri stefndu á grundvelli aðildarskorts eða vegna fyrningar á
vátryggingarkröfu stefnanda. Málflutningur fór fram 2. nóvember 2015. Áður en
ákvörðun var tekin um þá kröfu var málinu endurúthlutað 18. desember 2015. Sá
dómari sem tók við málinu hélt annan málflutning um kröfuna, sem fram fór 31.
mars 2016, og tók ákvörðun um að fallast á skiptingu sakarefnis 27. apríl 2016.
II.
Það mun hafa verið snemma
árs 2008 sem stefnandi sóttist eftir kaupum á tryggingum í gegnum
vátryggingarmiðlarann Howden Insurance Brokers Ltd. („Howden“). Í lok febrúar
og fram í byrjun mars 2008 óskaði Howden, f.h. stefnanda, eftir tilboðum í
heildstæða vátryggingarvernd sem næði til tryggingar vegna brota starfsmanna
(e. bankers blanket bond), tryggingar vegna tölvuglæpa (e. electronic and
computer crime), starfsábyrgðartryggingar (e. professional indemnity) og
stjórnendaábyrgðar-tryggingar (e. directors and officers liability insurance)
fyrir tímabilið 1. apríl 2008 til 1. apríl 2009. Mál þetta lýtur að
stjórnendaábyrgðartryggingunni en upplýsingar í umsóknum um hinar
tryggingarnar, t.a.m. starfsábyrgðartrygginguna, voru veittar samhliða umsókn
um stjórnendaábyrgðartrygginguna.
Tryggingakaup stefnanda munu
hafa farið þannig fram að miðlarinn sóttist eftir vátryggingum á
tryggingamörkuðum í London. Í framhaldi af umleitunum vátryggingarmiðlarans var
kynningarfundur með mögulegum vátryggjendum haldinn hinn 5. mars 2008 á
skrifstofu miðlarans. Á fundinum kynnti stefnandi starfsemi sína og
fjárhagsstöðu ásamt því að gefa væntanlegum vátryggjendum tækifæri til að afla
frekari upplýsinga um stöðu bankans. Fulltrúar stefnanda greindu svo frá
árangri félagsins árið 2007, fjárhagslegri stöðu þess, áhættuþáttum og áætlaðri
afkomu í framtíðinni.
Stefnandi skilaði til
stefndu útfylltu umsóknarformi vegna
trygginganna, 15. mars 2008 ásamt fylgiskjölum. Umsóknin var undirrituð
af framkvæmdastjóra stefnanda á Íslandi. Með undirritun sinni lýsti stefnandi
því m.a. yfir að hann hefði enga vitneskju eða upplýsingar um einhverja þá
hegðun, yfirsjón, athafnaleysi, staðreynd eða þær kringumstæður sem gætu orðið
grundvöllur kröfu sem undir trygginguna gæti fallið. Jafnframt kom fram í
umsóknarforminu sem og vátryggingarskilmálunum sjálfum að svör við spurningum í
umsókninni og fylgigögnum mynduðu forsendur fyrir samningssambandi stefnanda og
stefndu.
Endanlegir skilmálar þeir
sem lágu til grundvallar vátryggingarsamningi aðila voru, að sögn stefndu, að
mestu samdir af vátryggingarmiðlara og umboðsmanni stefnanda, að teknu tilliti
til áhættumats vátryggjenda sem byggði á framangreindri upplýsingagjöf
stefnanda.
Samkvæmt
vátryggingarsamningnum var vátryggingartímabil
stjórnendaábyrgðar-tryggingarinnar frá 1. apríl 2008 til 1. apríl 2009.
Í skilmálum tryggingarinnar sagði að gegn greiðslu iðgjaldsins og í samræmi við skilmála og skilyrði vátryggingarsamningsins (þ. á m. en þó ekki takmarkað við ákvæði viðauka með samningnum) samþykkti vátryggjandi, vegna ábyrgðar stjórnarmanna og yfirmanna, að greiða fyrir hönd þessara aðila allt tjón sem yrði vegna kröfu sem gerð yrði vegna óréttmætra athafna (þ. á m. starfstengdra deilna) sem vátryggingin tæki til í tilvikum þar sem stjórnarmenn og yfirmenn nytu ekki skaðleysis skv. sérstöku skaðleysisákvæði í skilmálunum. Ef félagið samþykkti að bæta allt tjón sem yrði vegna kröfu sem gerð væri vegna óréttmætra athafna (þ. á m. starfstengdra deilna) sem vátryggingin tæki til, í tilvikum þar sem félaginu væri heimilt eða skylt skv. dómaframkvæmd eða lögum að ábyrgjast skaðleysi stjórnarmanna og yfirmanna. Vegna sérstakrar rannsóknar að endurgreiða stjórnarmönnum og yfirmönnum jafnóðum allan eðlilegan kostnað, fjárútlát og útgjöld sem þeir yrðu fyrir vegna slíks. Einnig að endurgreiða stjórnarmönnum og yfirmönnum jafnóðum allan eðlilegan kostnað, fjárútlát og útgjöld sem þeir yrðu fyrir vegna málsvarna í tengslum við kröfur sem gerðar yrðu á hendur þeim vegna óréttmætra athafna sem féllu undir gildissvið vátryggingarsamningsins.
Þann 8. október 2008 fór
stjórn stefnanda þess á leit við Fjármálaeftirlitið að það yfirtæki vald
hluthafafundar stefnanda í samræmi við lög nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr.
125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á
fjármálamarkaði o.fl. Með ákvörðun, 9. október 2008, yfirtók Fjármálaeftirlitið
vald hluthafafundar stefnanda og vék félagsstjórn þess í heild sinni frá
störfum samstundis og skipaði jafnframt skilanefnd yfir stefnanda, sem skyldi
fara með öll málefni hans, þar á meðal að hafa umsjón með allri meðferð eigna
bankans, svo og að annast rekstur hans.
Með ákvörðun
Fjármálaeftirlitsins, 21. október 2008, var eignum og skuldum stefnanda
ráðstafað, með heimild í 100. gr. a laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki,
sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008. Var öllum eignum, fasteignum, kröfum,
tryggingaréttindum og óefnislegum eignum stefnanda ráðstafað til Nýja Kaupþings
banka hf. (nú Arion banki hf.), að undanskildum tilteknum eignum sem
tilgreindar voru í ákvörðuninni.
Með bréfi, dags. 1. desember
2008, tilkynnti lögmaður stefndu vátryggingarmiðlara stefnanda að vernd
samkvæmt tryggingu vegna brota starfsmanna, tryggingu vegna tölvuglæpa og
starfsábyrgðartryggingu stefnanda hefði lokið í kjölfar yfirtöku
Fjármálaeftirlitsins á stefnanda. Í sama bréfi var stefnanda tilkynnt um að
stefndu hefðu hafið rannsókn á því hvort samruna- og yfirtökuákvæði
stjórnendaábyrgðartryggingar stefnanda hefði orðið virkt við atburðina í
október 2008, auk þess sem stefndu áskildu sér allan rétt til að grípa til viðeigandi
úrræða í kjölfar rannsókna sinna. Jafnframt óskaði lögmaður stefndu eftir
frekari gögnum frá stefnanda um flutning eigna frá stefnanda til Nýja Kaupþings
banka hf. 21. október 2008.
Í kjölfar fundar 13. mars
2009 um málið, áttu sér stað nokkur tölvupóstsamskipti milli fulltrúa stefndu
og vátryggingarmiðlara stefnanda skömmu fyrir lok vátryggingartímabilsins 1.
apríl, eða dagana 27. mars til 2. apríl 2009, um gildi tryggingarinnar og
framhald mála. Þá áttu sér stað samskipti lögmanna stefnanda og stefndu á
tímabilinu frá 20. apríl til 1. september 2009 þar sem stefndu settu m.a. fram
beiðnir um frekari upplýsingar og lýstu vilja til samstarfs um úrlausn
ágreinings aðila varðandi samruna- og yfirtökuákvæði skilmálanna og stefnandi
óskaði eftir staðfestingu á að þau ákvæði hefðu ekki orðið virk, auk þess
sem með bréfi 30. júní 2009 var óskað
staðfestingar á því að stefnandi ætti rétt á að kaupa
viðbótartilkynningarfrest. Með bréfi, 11. nóvember 2009, vísaði stefnandi til
fyrri samskipta um að stefnandi hefði áður tilkynnt vátryggjendunum að hann
hefði ákveðið að kaupa viðbótartilkynningarfrest og ítrekaði þann vilja og
óskaði eftir staðfestingu á því að þessi réttur stefnanda væri til staðar.
Jafnframt var boðin fram greiðsla á iðgjaldi. Þessi sjónarmið voru ítrekuð í
bréfi 18. nóvember 2009. Í framhaldi áttu málsaðilar í enn frekari samskiptum
vegna áhrifa samruna- og yfirtökuákvæðis, með bréfum, 18. nóvember 2009 og 15.
janúar 2010. Þann 23. febrúar 2010, ritaði stefnandi bréf þar sem fram kom sú afstaða
hans, að þar sem stefndu hefðu andmælt gildi stjórnendaábyrgðartryggingarinnar
myndi stefnandi fljótlega höfða mál fyrir íslenskum dómstólum.
Þann 16. júní 2010 sendu
stefndu bréf til stefnanda þar sem framkomnum kröfum í 25 liðum var hafnað þar
sem kröfum hefði verið lýst utan tímamarka. Jafnframt var vakin athygli á því
að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis, sem þá var nýkomin út, virtist gefa til
kynna að stefnandi hefði vanefnt verulega upplýsingaskyldu sína og áskildu
stefndu sér allan rétt til þess að beita fyrir sig vanefndarúrræðum vegna
skýrslunnar. Eftir nánari skoðun stefndu varð það niðurstaða þeirra að
upplýsingaskylda hefði verið sviksamlega vanrækt við samningsgerð og síðar,
sbr. bréf til stefnanda þess efnis 23. desember 2010.
Stefndu munu hafa boðið
fulla endurgreiðslu á iðgjöldum tryggingarinnar með bréfi 12. apríl 2012, sem
ávísun fylgdi, en stefnandi hafnaði móttöku þeirra. Þeir fjármunir hafa verið í
vörslu breskra lögmanna stefndu.
Bótakröfur stefnanda í
málinu byggja á meintri vátryggðri háttsemi Bjarka H. Diego, Bjarnfreðs
Ólafssonar, Guðmundar Þórs Gunnarssonar, Gunnars Páls Pálssonar, Hjörleifs Þórs
Jakobssonar, Hreiðars Más Sigurðssonar og Sigurðar Einarssonar, fyrrum
stjórnendum hjá stefnanda. Stefnandi höfðaði mál gegn þessum fyrrum
starfsmönnum stefnanda með stefnu útgefinni 15. október 2012, en málið var
þingfest 18. desember það ár. Þar er þess aðallega krafist að þeir verði dæmdir
til að greiða stefnanda óskipt 381.120.087 evrur en til vara
105.726.460 evrur ásamt nánar tilgreindum vöxtum og dráttarvöxtum. Málið hefur
verið í ótilteknum fresti frá 29. október 2014 á meðan beðið er niðurstöðu
rannsóknar saksóknara sem tengist sömu atvikum.
Dómurinn
telur ekki ástæðu til að lýsa frekar málsatvikum varðandi háttsemi framangreindra
enda ekki gerðar kröfur í þessu máli um viðurkenningu á því að þeir hafi sýnt
af sér saknæma og ólögmæta háttsemi. Slík krafa felst hins vegar í fjárkröfu
þeirri sem gerð er í fyrrnefndu máli sem er nr. E-4446/2012. Jafnframt er horft
til þess að sakarefni hefur verið skipt og háttsemi framangreindra hefur ekki
nema óveruleg áhrif við úrlausn málsins eins og það liggur fyrir dómnum nú.
Með bréfi, 24. maí 2010,
sendi stefnandi tilkynningu til Howden vátryggingarmiðlara síns sem áframsendi
bréfið til stefndu. Stefndu draga í efa að bréfið uppfylli skilyrði
vátryggingarskilmála um að teljast tilkynning í tryggingu þá sem mál þetta
snýst um. Stefndu töldu trygginguna úr gildi og sendu bréf þess efnis 16. júní
2010, jafnframt að ekki lægju fyrir nægar upplýsingar til að stefndu gætu tekið
afstöðu til krafna stefnanda. Viðbótarupplýsingar voru sendar með bréfi, 2.
júlí 2013, en stefndu töldu þó að þarna væri ekki um að ræða
viðbótarupplýsingar nema að litlu leyti.
Stefnandi höfðaði mál á
hendur stefndu með stefnu, sem þingfest var í Héraðsdómi Reykjavíkur hinn 6.
september 2011, þar sem krafist var
viðurkenningar á skyldu stefndu til að selja stefnanda 36 mánaða
tilkynningarfrest í samræmi við tiltekin ákvæði vátryggingarskilmálanna. Því
máli er frestað á meðan beðið er matsgerðar.
Stefndu eru vátryggjendur samkvæmt stjórnendatryggingu (e. Directors‘ and Officers‘ Liability Insurance) sem stefnandi keypti og mál þetta varðar.
Stefndu samanstanda annars vegar af nánar tilgreindum vátryggingarfélögum og hins vegar af samtökum vátryggjenda sem starfa undir merkjum Lloyd‘s (e. Lloyd‘s syndicates). Slík samtök hafa ekki stöðu lögaðila, heldur er um að ræða hóp meðlima sem hafa ákveðið að taka þátt í tilteknum samtökum fyrir ákveðið tímabil og geta meðlimir hvort tveggja verið einstaklingar eða skráð félög. Þar sem slík samtök eru ekki viðurkennd sem lögaðilar í Englandi og njóta þar af leiðandi ekki aðildarhæfis mun ekki unnt að stefna einstökum samtökum með beinum hætti. Samkvæmt enskum rétti mun hver einstakur meðlimur bær til þess að vera í fyrirsvari fyrir aðra meðlimi samtakanna og dómur á einn meðlim sem stefnt hefur verið sjálfs síns vegna og fyrir hönd allra annarra meðlima viðkomandi samtaka bindur alla meðlimi samtakanna.
Tilgreining á stefndu mun í samræmi við upplýsingar sem lögmenn þeirra hafa lagt fram í tilefni af öðru máli milli sömu málsaðila, sem varðar skyldu stefndu til að selja stefnanda viðbótartilkynningafrest í samræmi við vátryggingarskilmála, sbr. mál nr. E-3162/2011 sem nú er rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Hæstiréttur hefur talið að tilgreining á stefndu með þessum hætti sé fullnægjandi og standist réttarfarslög, sbr. dóm réttarins frá 27. febrúar 2013 í máli nr. 53/2013.
Ábyrgð stefndu samkvæmt vátryggingunni er hlutfallsleg (pro rata).
Við aðalmeðferð gáfu skýrslu
fyrir dómi Vignir Rafn Gíslason,
löggiltur endurskoðandi hjá PricewaterhouseCoopers hf. og Arnaldur Jón
Gunnarsson, starfsmaður hjá stefnanda.
III.
Eins
og fyrr greinir hefur sakarefni þessa máls verið skipt upp, að kröfu stefndu.
Umfjöllun um málsástæður verður því einskorðuð við það hvort sýkna beri vegna
fyrningar eða vegna aðildarskorts.
Stefnandi
telur kröfur í málinu ekki fyrndar.
Um
vátryggingarkröfuna gildi lög nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga en í 2. mgr.
52. gr. komi fram sú regla að í ábyrgðartryggingum fyrnist ábyrgð félags
samkvæmt sömu reglum og gilda um fyrningu skaðabótaábyrgðar, og í 3. mgr. segi
að að öðru leyti gildi ákvæði laga nr. 14/1905, um fyrning skulda og annarra
kröfuréttinda. Kröfur sem hafi stofnast á árinu 2008 og síðar fyrnist hins
vegar eftir 1. mgr. 9. gr. laga nr. 150/2007, um fyrningu kröfuréttinda.
Stefnandi
telur að fyrningarfrestur hafi verið rofinn með málshöfðun á málinu nr.
E-3162/2011 í júní 2011 um viðbótartilkynningarfrest, sbr. 1. mgr. 15. gr. laga
um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007. Það mál sé í raun krafa um
viðurkenningu á því að réttarsamband hafi verið á milli aðila á ákveðnu
tímabili. Stefnandi vísar til þess að málsókn geti rofið fyrningu kröfu þótt krafan
sjálf sé ekki andlag ágreiningsins. Samkvæmt vátryggingarskilmálum falli krafan
undir trygginguna enda hafi henni verið lýst á því tímabili sem
viðbótarfresturinn taki til.
Þá
hafi málskot stefnanda til úrskurðarnefndar í vátryggingarmálum 15. júní 2011
einnig rofið fyrningu. Þegar nefndin hafi vísað málinu frá 9. ágúst 2011, þ.e.
þegar ákvörðun nefndarinnar lá fyrir, hafi nýr fjögurra ára fyrningarfrestur
byrjað að líða. Þá vísar stefnandi til 1. mgr. 22. gr. laga nr. 150/2007 um að
sé máli vísað frá af úrskurðaraðila geti kröfuhafi höfðað nýtt mál eða borið
málið aftur undir sama úrskurðaraðila þótt fyrningarfrestur sé liðinn sé það
gert innan sex mánaða. Þetta eigi ekki við nema krafa sé fyrnd en því fari
fjarri að svo hátti til um kröfuna í þessu máli.
Í
þriðja lagi hafi málshöfðun í undirliggjandi máli rofið fyrningu en mál gegn
þeim sjö fyrrum stjórnendum stefnanda vegna atvika 21. október 2008 hafi verið
höfðað í 15. október 2012.
Að
síðustu telur stefnandi að ef talið yrði að fyrning á undirliggjandi kröfu hafi
verið rofin með málshöfðun í þessu máli, verði að fara fram sérstakt mat á því
hvenær fyrningarfrestur kröfunnar hafi þá byrjað að líða skv. 9. gr. laga nr.
150/2007.
Stefnandi
byggir á því að fyrningarfrestur undirliggjandi skaðabótakröfu hafi byrjað að
líða þá fyrst er kröfuhafi fékk vitneskju um tjónið og þann sem ábyrgð bar á
því eða bar að afla sér slíkra upplýsinga, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr.
150/2007. Þessi frestur byggi á huglægri vitneskju kröfuhafa. Kröfuhafi þurfi
þannig að þekkja málavexti og vita hver hin skaðabótaskylda athöfn sé, hverjir
beri ábyrgð o.s.frv.
Stefnandi
leggur áherslu á að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis hafi ekkert
sönnunargildi í málinu eða þýðingu varðandi fyrningarfrest.
Þá
vísar stefnandi til 1. mgr. 12. gr. laga nr. 150/2007, um að fyrning vegna
ábyrgðar stjórnarmanns eða framkvæmdastjóra hefjist í fyrsta lagi einu ári
eftir að viðkomandi lét af starfanum. Þetta ákvæði gefi til kynna að nýir
aðilar þurfi ætíð að fá sanngjarnt svigrúm til að rannsaka gjörðir forvera
sinna. Stefnandi bendir og á að fall stefnanda hafi verið gríðarlega
umfangsmikið og langan tíma hafi tekið að ná böndum á málin.
Stefnandi
telur ljóst að undirliggjandi kröfur, þ.e. á fyrrum stjórnendur stefnanda séu
ófyrndar.
Lán
sem veitt hafi verið félaginu Kjalari hf. á tímabilinu 7. til 22. nóvember 2007
að fjárhæð 125.000.000 evra, hafi verið greidd út í nóvember 2007 og þá hafi
bótaskylda stofnast þar sem áhætta stefnanda myndaðist á sama tíma. Þessar
kröfur fyrnist því á tíu árum þar sem þær stofnuðust í gildistíð eldri laga nr.
14/2005.
Lán í janúar og mars séu hins vegar háð tíu ára fyrningarfresti skv. 9. gr. laga nr. 150/2007. Stefnandi bendir á mikið flækjustig í málinu og að stefndu viðurkenni sjálfir að þarna sé um flókna fjármálagerninga að ræða er tengist lánveitingum til Kjalars hf., með aðkomu margra mismunandi einstaklinga innan bankans. Skýrsla sem PricewaterhouseCoopers ehf. vann um þessi mál, hafi ekki litið dagsins ljós fyrr en í apríl 2012 en hún hafi kallað á gríðarlega umfangsmikla rannsókn. Þá hafi skýrslur verið teknar af helstu forsvarsmönnum bankans vegna þessa Kjalarmáls í mars 2011. Af þeim megi ráða að þá hafi stefnandi enn verið að velta fyrir sér hvernig í málinu lægi.
Stefnandi mótmælir því að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis hafi einhverja þýðingu fyrir sakarefnið eða hafi áhrif á upphaf fyrningarfrests. Lýsing nefndarinnar á lánveitingum sé hlutlæg og fábrotin. Ekkert sé fjallað um hugsanleg brot á lánareglum bankans og engin umfjöllun sé um lánveitingarnar í nóvember 2007. Þá telur hann að tilkynning sem send var 24. maí 2010, þar sem gerð var krafa af hálfu stefnanda í trygginguna, hafi ekki getað markað upphaf fyrningarfrests þar sem hún var almennt orðuð og beri þess merki að stefnandi hafi ekki gert sér á þeim tíma fulla grein fyrir málsatvikum. Bendir stefnandi á, í tengslum við hversu flókið málið sé, að héraðssaksóknari, áður sérstakur saksóknari, hafi verið með málið til rannsóknar í fjögur og hálft ár og rannsókn sé ekki enn lokið. Það hafi gerst þrátt fyrir víðtækar rannsóknarheimildir saksóknara og að hann hafi þurft að gæta að málshraðareglu sakamálaréttarfars.
-------
Stefnandi hafnar því að hann njóti ekki sjálfur verndar samkvæmt stjórnendatryggingunni. Stefnandi telur reyndar að þessi málsástæða stefndu sé í raun ekki málsástæða um aðildarskort. Aðildarskortur sé sú staða þegar annar hvor aðilinn er ekki sá rétti til að krefjast hagsmunanna í máli eða bera skylduna heldur ætti þriðji maður með réttu að eiga í hlut. Stefndu haldi hins vegar engu fram um það hver sá þriðji aðili gæti verið sem bera ætti skylduna, heldur að vátryggingarskilmálar, rétt skýrðir, leiði til þess að stefnandi eigi ekki kröfu. Búið sé að taka afstöðu til þess að stefnandi eigi lögvarða hagsmuni af úrlausn þessa máls, með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 347/2013.
Stefnandi telur ljóst að greiðsluskylda stefndu samkvæmt tryggingunni nái til hvers konar krafna á hendur stjórnarmönnum og öðrum yfirmönnum. Þá sé greiðsluskyldan ekki takmörkuð við kröfur frá þriðja manni. Stjórnendatrygging nái og til krafna viðkomandi fyrirtækis nema sérstaklega sé samið um annað og þar vísar stefnandi til reglna sem kallast á ensku „Insured vs. Insured“. Þannig að ef slíku ákvæði er ekki til að dreifa geti vátryggingartaki gert kröfur á grundvelli tryggingar.
Stefnandi hafnar því að þær kröfur sem tekist er á um í undirliggjandi málum hafi færst yfir til Arion banka en fyrir liggi tvær yfirlýsingar frá Fjármálaeftirlitinu um að skaðabótakröfur hefðu ekki verið færðar yfir við fall bankans. Því sé ljóst að krafan tilheyri stefnanda.
Þá mótmælir stefnandi því að krafa málsins tilheyri íslenska ríkinu eins og stefndu hafi byggt á. Fjármálaeftirlitið hafi þannig haft óskertar heimildir til að ráðstafa réttindum og skyldum fjármálafyrirtækja við þær aðstæður sem hafi skapast eins og staðfest hafi verið með dómum Hæstaréttar. Stjórnskipulegt gildi neyðarlaganna hafi og verið staðfest af réttinum.
IV.
Stefndu byggja málatilbúnað sinn á fjölda málsástæðna en einungis verður hér fjallað um tvær þeirra í samræmi við skiptingu sakarefnisins.
Stefndu byggja þannig kröfu sína um sýknu annars vegar á aðildarskorti stefnanda. Um aðildarskort sé að ræða ef stefnandi er ekki sá sem með réttu á þá hagsmuni sem hann krefst dóms um og leiði varnir vegna aðildarskorts til sýknu ef á þær er fallist, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Á því er byggt að krafa stefnanda beinist gegn röngum aðila, þar sem krafan ætti með réttu að beinast gegn íslenska ríkinu. Stefnandi hafi sjálfur lýst því að lánssamningarnir þrír sem ætlað tjón stefnanda leiðir af hafi verið fluttir yfir til Arion banka hf. á grundvelli ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins frá 21. október 2008. Arion banki hf. hafi þá verið í 100% eigu íslenska ríkisins. Fjárhæð sú sem umþrættar kröfur hafi verið metnar á í stofnefnahagsreikningi Arion banka hf. og eru grundvöllur tjóns þess sem stefnandi krefur fyrrum stjórnendur sínar um greiðslu vegna, séu óviðkomandi raunverulegri greiðsluhæfni lánþegans. Þetta eigi sérstaklega við hvað varði lán nr. 0358-35-007739 að fjárhæð 287.744.098,33 evra en gjalddagi þess láns hafi verið 25. apríl 2009 og því ókominn er íslenska ríkið hafi tekið kröfurnar yfir. Hvað hin lánin varðar hafi gjalddagi verið kominn en stefnandi hafi ekki sýnt fram á að reynt hafi á innheimtu gagnvart Kjalari hf. fyrir yfirfærslu krafnanna og sé því óljóst hvort og þá hversu mikið tjón hafi mátt rekja til umræddra krafna á þeim tíma.
Í ljósi atvika hinn 21. október 2008 byggja stefndu á því að íslenska ríkið hafi með eignarnámi, eða með sérstökum gerningi sem leggja megi að jöfnu við eignarnám, yfirtekið umþrættar kröfur á tilteknu matsvirði. Hvort sem íslenska ríkið hafi metið sjálfstætt eða með aðkomu stefnanda verðmæti umræddra krafna, verði stefnandi að beina kröfum vegna tjóns sem hann telur sig hafa orðið fyrir vegna þessa gegn íslenska ríkinu, enda lá ekki fyrir að umræddar kröfur væru með öllu tapaðar og ekki hafði reynt á innheimtu þeirra. Þvert á móti glötuðust þær stefnanda við yfirtökuna. Í öllu falli sé ljóst að það tjón sem varð við það að kröfur stefnanda voru færðar yfir til Arion banka hf. á undirverði og á grundvelli ónákvæms mats geti ekki talist vera á ábyrgð hinna vátryggðu stjórnenda eða stefndu, heldur á ábyrgð íslenska ríkisins og sé kröfum stefnanda í þessu máli því beint gegn röngum aðila.
Stefnandi geti ekki gert kröfu sem viðkemur tryggingunni, hvort heldur sem er á hendur stjórnarmönnum og yfirmönnum stefnanda eða á hendur stefndu í ljósi þess að stefnandi sé vátryggingartaki, en vátryggingin sé sett til hagsbóta fyrir stjórnendur og yfirmenn en ekki stefnanda sjálfan. Tryggingin bæti eingöngu kröfur sem gerðar eru af þriðja aðila á hendur stjórnendum og/eða yfirmönnum.
Afstöðu stefnanda sem birtist í þeirri stefnu að stjórnendaábyrgðartryggingin nái til krafna þriðja manns og til krafna viðkomandi vátryggingartaka stjórnanda nema sérstaklega sé samið um annað með svokölluðum „Insured v. Insured clause“ sé alfarið mótmælt. Byggt er á því að tryggingin nái ekki til krafna vátryggingartaka gegn stjórnendum sínum. Ákvæði sem þetta sé undantekningarákvæði og byggi á ósönnuðum erlendum reglum sem samræmist ekki íslenskum lögum. Er slíkri nálgun hafnað sem óviðkomandi máli þessu enda lúti vátryggingarsamningurinn íslenskum lögum og rétti. Hér sé fyrst og fremst um viðbót að ræða sem komi til skoðunar í engilsaxneskum réttarkerfum til að mæta sérstökum aðstæðum sem upp geta komið þar sem hluthafi eða annar náinn aðili vátryggingartaka, sem annars væri að þar lendum lögum þriðji aðili, sé sérstaklega undanþeginn vernd vátryggingarinnar í ljósi náinna tengsla hans við félagið, þ.e. vátryggingartaka og/eða hinn vátryggða.
Þá vísa stefndu til ákvæðis í vátryggingarskilmálum til frekari skýringar á stöðu stefnanda undir vátryggingunni með hliðsjón af þeim skyldum sem á honum hvíli. Samkvæmt þeim beri stefnandi óskilyrta skyldu, samhliða hinum vátryggða stjórnanda, til að veita vátryggjendum allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar séu til að verjast kröfum og málssóknum á hendur stjórnendum. Umrætt ákvæði veiti stefnanda engar undanþágur hvað slíka aðstoð varðar, s.s. ef stefnandinn sjálfur beinir kröfu gegn stjórnendum sínum, enda geri tryggingin ekki ráð fyrir því að slíkar kröfur njóti vátryggingarverndar.
Stefndu vísa til þess að athafnir og/eða athafnaleysi stjórnenda félags séu að íslenskum vátryggingarrétti samsamaðar athöfnum og/eða athafnaleysi félagsins sjálfs. Að mati stefndu sé ótækt að vátryggingartaki sem vanefnt hafi skyldur sínar samkvæmt vátryggingarsamningi og með óréttmætum athöfnum hafi valdið og/eða beri ábyrgð á mögulegum vátryggingaratburði, geti síðan gert kröfu í ábyrgðartryggingu stjórnenda. Hér vísi stefndi og til þeirra almennu sjónarmiða skaðabótaréttar, þess efnis að annar aðili en tjónvaldur þurfi að hafa orðið fyrir tjóni. Í máli þessu sé stefnandi valdur að og/eða ábyrgur fyrir því tjóni sem af hlaust er lánveitingar þær sem veittar voru voru greiddar út. Við þetta bætist að stefnandi geti ekki talist vera tjónþoli í skilningi 44. og 46. gr. laga nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga.
Af framangreindu sé ljóst að stefnandi eigi ekki með réttu þá hagsmuni sem hann krefst dóms um í máli þessu og beri því að sýkna stefndu vegna aðildarskorts stefnanda.
Stefndu byggja sýknukröfu sína hins vegar á því að krafa stefnanda sé fyrnd. Byggt er á því að krafan gegn framangreindum starfsmönnum stefnanda, hinum meintu vátryggðu, sé fyrnd en jafnframt er á því byggt að krafan undir vátryggingunni sé í öllu falli fyrnd.
Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 150/2007, um fyrningu kröfuréttinda, segi að kröfur um peninga eða aðrar greiðslur fyrnist samkvæmt reglum laganna, nema annað sé ákveðið með lögum. Samkvæmt 3. gr. fyrningarlaga sé almennur fyrningarfrestur kröfuréttinda fjögur ár. Þá leiði af 1. mgr. 9. gr. laganna að skaðabótakrafa fyrnist á fjórum árum frá þeim degi er tjónþoli fékk nauðsynlegar upplýsingar um tjónið og þann sem ábyrgð ber á því eða bar að afla sér slíkra upplýsinga. Þegar þessar upplýsingar liggi fyrir byrji fyrningarfrestur kröfunnar að líða. Þessi afstaða komi skýrt fram í greinargerð með lögunum þar sem lögð sé áhersla á að frá þeim tíma er tjónþoli fékk eða bar að afla sér nauðsynlegra upplýsinga um fyrrgreind tvö atriði verði að telja að hann hafi haft grundvöll til að setja fram kröfu sína um bætur. Hann geti hins vegar ekki setið aðgerðarlaus eða borið við vanþekkingu á réttarstöðu sinni.
Hvað varði kröfu stefnanda gegn Bjarka H. Diego, Bjarnfreði Ólafssyni, Guðmundi Þór Gunnarssyni, Gunnari Páli Pálssyni, Hjörleifi Þór Jakobssyni, Hreiðari Má Sigurðssyni og Sigurði Einarssyni byggja stefndu á því að hún sé að öllu leyti fyrnd og að sökum tómlætis verði henni ekki komið að gagnvart umræddum stjórnendum og því ekki heldur gagnvart stefndu.
Stefndu byggi á því að þær lánveitingar sem endurfjármagnaðar voru með lánssamningunum þremur í lok mars og lok apríl 2008 hafi enga þýðingu við úrlausn þessa máls. Að því er varðar þá lánssamninga sem eftir standa, telja stefndu að fyrningarfrestur hafi byrjað að líða 31. mars 2008 vegna lánssamninga nr. 0358-35-007377 og nr. 0358-35-007378 en 25. apríl 2008 vegna lánssamnings nr. 0358-35-007739. Í öllu falli hafi meint tjón stefnanda í síðasta lagi legið fyrir þann 29. maí 2008, þegar framangreindir lánssamningar voru lagðir fyrir fund lánanefndar stjórnar stefnanda. Þar sem fyrningarfrestur kröfu sem þessarar sé fjögur ár, hafi krafa stefnanda á hendur umræddum stjórnendum því verið fyrnd í síðasta lagi 29. maí 2012, eða rúmu hálfu ári áður en mál nr. E-4446/2012 var höfðað.
Verði ekki fallist á framangreint, og telji dómurinn rétt að miða upphaf fyrningarfrests við lánveitingar sem áttu sér stað á árinu 2007, byggja stefndu á því að ákvæði þágildandi b-liðar 1. mgr. 136. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, valdi því að kröfur stefnanda séu með öllu fyrndar. Stefndu byggi þannig á því að það skilyrði ákvæðisins, að höfða þyrfti skaðabótamál gegn umræddum stjórnendum innan tveggja ára frá lokum þess reikningsárs, þegar ákvörðunin eða athöfnin sem málið byggist á var samþykkt eða gerð, sé ekki uppfyllt. Umrætt ákvæði hafi verið skýrt af Hæstarétti sem sérstakur fyrningarfrestur og er á þeim skilningi byggt af hálfu stefndu í þessu máli.
Vert sé að geta þess að ákvæði b-liðar 1. mgr. 136. gr. laga nr. 2/1995 hafi verið fellt niður með lögum nr. 68/2010 sem samþykkt voru á Alþingi 10. júní 2010. Stefndu telja þó ljóst að sú niðurfelling geti ekki haft þýðingu í fyrirliggjandi máli, enda var málið fyrnt á grundvelli b-liðar 1. mgr. 136. gr. laganna er sú lagabreyting tók gildi. Á því er byggt af hálfu stefndu að, þrátt fyrir ákvæði 31. gr. laga nr. 68/2010, sem lýsi ákvæði 136. gr. laganna sem málsóknarfresti en ekki sérstökum fyrningarfresti, geti lagabreytingin ekki haft afturvirk áhrif gagnvart fyrrum stjórnendum og framkvæmdastjórum sem höfðu réttmæta trú á að hugsanlegar kröfur gegn þeim væru fyrndar á grundvelli þágildandi b-liðar 136. gr. laga nr. 2/1995. Kröfur sem fyrndar voru við gildistöku laganna verði ekki endurvaktar með breytingarlögum, enda væri slíkt andstætt 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 sem og meginreglum stjórnskipunarréttar um bann við afturvirkni, sbr. og I. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.
Í ljósi skýrs orðalags b-liðar 1. mgr. 136. gr. laga nr. 2/1995 hafi borið að höfða slíkt skaðabótamál innan tveggja ára frá viðeigandi reikningsári sem lauk 31. desember 2007 ef við lánveitingarnar frá 2007 er miðað. Það leiði til þess að hinn tveggja ára frestur laganna hafi verið liðinn hinn 31. desember 2009, löngu áður en mál nr. E-4446/2012 var höfðað gegn fyrrum stjórnendum stefnanda.
Stefndu byggja aukinheldur á því að aðgerðarleysi stefnanda um langan tíma frá hinum ætluðu skaðabótaskyldu athöfnum og því tímamarki sem stefnandi vissi og/eða mátti vita af þeim leiði til þess að kröfur stefnanda séu niður fallnar sökum tómlætis. Kveðast stefndu byggja á ólögfestum meginreglum um tómlæti og því að stjórn stefnanda ásamt lykilstarfsmönnum vissu og/eða máttu frá upphafi vita um þær athafnir umræddra stjórnenda sem stefnandi byggir kröfu sína á. Þá hafi stefnandi ekki brugðist við fyrr en mörgum árum seinna þegar hinir vátryggðu stjórnendurnir sem og stefndu höfðu réttmætar væntingar um að þurfa ekki að sæta kröfum vegna umþrættra atvika. Við þetta bætist að sönnunarfærsla sé torveld og mikil hætta á réttarspjöllum sökum þess að langur tími sé liðinn frá atburðum þeim er stefnandi byggi kröfu sína á.
Stefndu byggja einnig á því að í öllu falli sé krafa stefnanda í ábyrgðartrygginguna fyrnd gagnvart stefndu.
Ákvæði laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamning þann sem grundvallar kröfu stefnanda gildi. Í 2. mgr. 52. gr. þeirra laga segir að í ábyrgðartryggingum fyrnist ábyrgð vátryggingafélags samkvæmt sömu reglum og gilda um fyrningu skaðabótaábyrgðar, en um þær er fjallað í 1. mgr. 9. gr. fyrningarlaga. Þannig byggja stefndu á því að krafa stefnanda sé fyrnd enda séu liðin meira en fjögur ár frá þeim degi er stefnandi fékk nauðsynlegar upplýsingar um hið meinta tjón og þá sem ábyrgð bera á því eða bar að afla sér slíkra upplýsinga.
Stefndu byggja á því að fyrningarfrestur gagnvart sér hafi byrjað að líða við sömu tímamörk og nefnd eru hér að framan, þ.e. 31. mars 2008 og 25. apríl 2008, eða í síðasta lagi 29. maí 2008. Verði ekki fallist á að fyrningarfresturinn hafi byrjað að líða á einhverjum þessara daga byggja stefndu á því að fyrningarfrestur hafi byrjað að líða þegar kröfur stefnanda voru framseldar Arion banka hf. hinn 21. október 2008. Verði ekki fallist á þá dagsetningu byggja stefndu á því að fyrningarfrestur hafi byrjað að líða er skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis kom út hinn 12. apríl 2010, enda hafi stefnanda þá í öllu falli mátt vera umræddir gerningar ljósir. Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar var fjallað ítarlega um yfirtöku stefnanda á fjármögnun Citibank á bréfum Eglu Invest B.V. í stefnanda. Í öllu falli hafi stefnanda hlotið að vera umrædd atvik ljós þann 24. maí 2010, þar sem hann telji sig hafa tilkynnt um þau með bréfi frá þeim degi og verði að miða við þá dagsetningu í allra síðasta lagi.
Samkvæmt 15. gr. fyrningarlaga verði fyrning rofin með málshöfðun, sem á sér stað við stefnubirtingu. Í fyrirliggjandi máli hafi stefna verið birt stefndu hinn 22. september 2014, eða rúmum fjórum árum eftir að fyrningarfrestur kröfu stefnanda hófst í allra síðasta lagi og um sex árum eftir að stefnandi mátti sannanlega vita um meint tjón sitt og ætlaða ólögmæta háttsemi stjórnenda sinna. Sé krafa stefnanda á hendur stefndu í þessu máli því með öllu fyrnd gagnvart stefndu.
V.
Fyrir dómnum hafa verið rekin fjögur
sambærileg mál, þar sem krafist er greiðslna úr stjórnendatryggingu sem keypt
var af stefndu. Jafnframt þessum málum eru rekin fjögur undirliggjandi mál þar
sem tekist er á um hvort stjórnendur stefnanda hafi bakað sér bótaskyldu með
háttsemi sinni við störf sín hjá stefnanda. Hvert mál um hvort tryggingaverndar
njóti við, á sér þannig undirliggjandi mál. Ef sýknað verður af bótakröfu í
undirliggjandi máli leiðir það því til þess að mati dómsins að stefnandi hefur
ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að halda áfram rekstri máls um
tryggingarverndina.
Tvö af fjórum málum hafa samkvæmt ákvörðunum
dómara beðið í ótilteknum fresti með vísan til þess að sérstakur saksóknari, nú
héraðssaksóknari væri með til rannsóknar þau atvik sem málin varða. Eitt mál
var fellt niður en höfðað að nýju strax í kjölfarið. Það mál var lengi í fresti
á reglulegu dómþingi, en var úthlutað til dómara í janúar sl. Dómur er síðan
genginn í fjórða málinu gegn Sigurði Einarssyni fyrrum stjórnarformanni
stefnanda, en þar var fallist á kröfur stefnanda eftir að þingsókn féll niður
af hálfu stefnda.
-------
Til stuðnings sýknukröfu vegna aðildarskorts
byggja stefndu á því að með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 21. október 2008 hafi
þeir lánasamningar sem um ræðir í málunum nr. E-3510, 3511 og 3512/2014, sbr.
framangreint verið færðir yfir til Arion banka hf. og því geti stefnandi ekki
byggt á þeim bótakröfur sínar.
Dómurinn getur ekki fallist á þetta. Telja
verður að það komi fram í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um ráðstöfum á eignum
stefnanda en þar er gefin sú forsenda að ráðstöfun eigna og skulda miðist við
upplýsingar á efnahagsreikningi stefnanda skömmu fyrir fall hans. Síðari kröfur
á stjórnendur stefnanda, eins og skaðabótakröfur, komu ekki fram á þeim
efnahagsreikningi eðli máls samkvæmt, heldur koma þær til síðar við frekari
rannsóknir á slitabúinu. Skaðabótakröfur voru skildar eftir í stefnanda og sú
regla hlýtur að gilda einnig um slíkar kröfur sem ekki hafði verið upplýst um
við skiptingu eigna og skulda. Þannig verður ekki séð að Arion banki hf. geti
undir nokkrum kringumstæðum gert skaðabótakröfur á hendur fyrrum stjórnendum
vegna bótaskyldrar háttsemi þeirra fyrir fall bankans miðað ákvörðun
Fjármálaeftirlitsins heldur séu þær á forræði stefnanda.
Sú málsástæða er höfð uppi í þessu máli, til
stuðnings sýknu vegna aðildarskorts, að lánasamningar þeir sem gerðir voru við
Kjalar hf. hafi flust yfir til Arion banka hf. með ákvörðun
Fjármálaeftirlitsins frá 21. október 2008. Stefnandi lýsi tjóninu þannig að
lánin hafi að mestu verið afskrifuð í bókum hans og við framsal til Arion banka
hf. hafi verðmæti þeirra verið lágt. Ákvörðun um framsal og verðmætamat hafi
verið á ábyrgð stefnanda sjálfs eða íslenska ríkisins vegna ákvarðana
Fjármálaeftirlitsins. Lánasamningarnir hafi verið á forræði Arion banka hf. en þeir hafi verið gerðir upp
með skuldajöfnuði og stefnandi hafi hagnast af því uppgjöri vegna afturköllunar
Kjalars hf. á kröfum félagsins í slitabúið. Því sé það ákvörðun yfirvalda og
uppgjör stefnanda sjálfs sem hafi valdið hinu meinta tjóni, en það verði ekki
leitt til athafna eða athafnaleysis stjórnenda stefnanda. Dómurinn telur að
þessi sjónarmið eigi frekar við undir heildarumfjöllun um málsástæður aðila ef
til hennar kemur síðar, m.a. um það hvort bótaskylt tjón hafi yfir höfuð orðið
vegna athafna stjórnenda, en geti ekki verið rökstuðningur fyrir sýknu á
grundvelli aðildarskorts. Vísast og til framangreindrar umfjöllunar um að
flutningur á lánasamningum yfir til Arion banka hf. hafi ekki áhrif á mögulegan
rétt stefnanda til að fara fram með skaðabótakröfur vegna háttsemi fyrrum
stjórnenda í tengslum við gerð samninganna.
Í öllum málunum er til stuðnings sýknukröfu á
þessum grunni á því byggt að tryggingin sé keypt af stefnanda til hagsbóta
fyrir stjórnendur hans. Hún bæti því aðeins kröfur sem gerðar eru af þriðja
aðila á hendur stjórnendum og skapi stefnanda engan rétt til að krefjast bóta
úr tryggingunni vegna háttsemi stjórnenda.
Dómurinn telur að þessi málsástæða sé nokkuð
vanreifuð af hálfu aðila. Umfjöllun um svokallað Insured vs. Insured ákvæði, er
af skornum skammti, en stefnandi fullyrðir að sé slíku ákvæði ekki til að
dreifa í vátryggingarsamningi þá standi tryggingin til hagsbóta fyrir
vátryggingartaka. Þessi fullyrðing stefnanda hefur ekki verið studd nægum
gögnum eða rökstudd með fullnægjandi hætti, en stefnandi virðist þarna vísa í erlenda
réttarreglu eða venju og ber sönnunarbyrði fyrir tilvist hennar og þýðingu
fyrir sakarefnið sbr. 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Hið sama gildir um stefndu. Þar fer vafalaust saman stór hópur sérfræðinga um
enskan vátryggingarétt og venjur og hefðir sem þar gilda. Þrátt fyrir það er
ekkert í þeirra málatilbúnaði sem gefur ótvírætt til kynna þá meginreglu að
stjórnendatrygging sem þessi geti ekki verið til hagsbóta fyrir
vátryggingataka. Dómurinn telur ekki óvarlegt að álykta sem svo að um þetta
gildi ákveðnar reglur sem gætu veitt leiðsögn í málinu þótt um samning aðila
skuli fjallað samkvæmt íslenskum lögum. Ætla verður og að stefndu hafi verið
hæg heimatökin að útlista slíka reglu. Það hafa stefndu hins vegar ekki gert og
verða látnir bera hallann af því. Eins og málatilbúnaður aðila er verður því
ekki byggt á öðru hvað þetta atriði varðar en vátryggingarsamningnum sjálfum.
Í honum er ekkert ákvæði sem tekur af skarið
varðandi þetta atriði og ekkert ákvæði sem beinlínis girðir fyrir þennan rétt
stefnanda. Ekki er fallist á með stefndu að ákvæði í C-lið 6. kafla skilmálanna
gefi hér vísbendingar. Í því er einungis fjallað um upplýsingaskyldu aðila
gagnvart vátryggjanda og ekki nema sjálfsagt að stefnandi, þ.e. félagið sem vátryggingartaki,
sé settur á bekk með stjórnendum og yfirmönnum í þeim efnum. Alveg eins mætti
draga gagnstæða ályktun t.d. af 1. tölulið, F-liðar 5. kafla skilmálanna, þar
sem segir beinlínis að vátryggingin bæti 100% allan þann kostnað sem félagið,
stjórnarmenn og yfirmenn verða krafðir um.
Dómurinn sér ekki hvers vegna það geti talist
óeðlilegt að banki með gríðarlega mikil umsvif og mikla hagsmuni undir, sjái
ástæðu til að tryggja sig sjálfan fyrir ólögmætum aðgerðum starfsmanna sinna.
Það geti jafnvel talist æskilegt í slíkri starfsemi. Þá athugist að
stjórnendatrygging sú sem hér er fjallað um getur ekki eingöngu talist til
hagsbóta fyrir stjórnendurna, þ.e. ef kröfur koma frá þriðja aðila á hendur
þeim, heldur ekki síður til hagsbóta fyrir stefnanda sem væntanlega myndi alla
jafnan bera ábyrgð vinnuveitanda gagnvart þriðja aðila.
Burt séð frá því hvort almenna reglan sé sú að
vátryggingataki geti ekki gert kröfur á grundvelli tryggingar sem hann hefur
keypt vegna ólögmætra athafna stjórnenda sinna eða ekki verður ekki annað séð
en að aðilar gætu þá samið um slíka vernd til handa vátryggingartaka og að 3.
gr. laga nr. 30/2004 standi því ekki í vegi.
Ekki verður því fallist á að sýkna beri
stefndu á grundvelli aðildarskorts, en í þeirri afstöðu dómsins fellst engin
viðurkenning á því hvort stefnandi eigi rétt á bótum úr þeirri vátryggingu sem
mál þetta snýst um.
------
Í annan stað byggja stefndu sýknukröfu sýna á
fyrningu.
Annars vegar á því að undirliggjandi
krafa í þessu máli, þ.e. gegn sjö tilgreindum fyrrum stjórnendum stefnanda sé
fyrnd og því geti ekki komið til greiðslu úr vátryggingunni, en ákvörðun um það
hvort krafa sé fyrnd sé hlutlæg og rúmi ekki huglægt mat.
Þrátt fyrir að þeir einstaklingar sem
sakaðir er um bótaskylda háttsemi gagnvart stefnanda eigi ekki aðild að þessu
máli lítur dómurinn svo á hægt sé að fjalla um hvort meint krafa á hendur þeim
sé fyrnd eða ekki. Nauðsyn krefst þess að tekin sé afstaða til þessa atriðis
svo felldur verði dómur á sakarefnið. Slíkur dómur mun ekki hafa bindandi áhrif
(res judicata) samkvæmt 1. mgr. 116. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991
gagnvart framangreindum.
Dómurinn telur rétt að leggja til
grundvallar, að ef fallist verður á á seinni stigum að lánveitingar til Kjalars
hf. samkvæmt fimm peningamarkaðslánum í nóvember 2007, sem voru endurfjármögnuð
með lánasamningi að fjárhæð 126.000.000 evra 18. desember 2008, hafi bakað
stefnanda skaðabótaskylt tjón þá verði að líta svo á að þær kröfur hafi
stofnast á þeim degi þegar lánin voru greidd út. Ágreiningslaust er að
upphaflegar lánveitingar hafi verið greiddar út á tímabilinu 7. til 22.
nóvember 2007. Þrátt fyrir að þessi lán hafi verið endurfjármögnuð á árinu 2008
verður málatilbúnaður stefnanda ekki skilinn öðruvísi en að byggt sé á því að sú
háttsemi sem krafist er skaðabóta fyrir hafi átt sér stað við upphaf þessarar
lánafyrirgreiðslu og verður á það fallist, ef á annað borð verður talið að um
bótaskylda háttsemi hafi verið að ræða. Því gilda um þennan hluta krafna
stefnanda eldri lög, þ.e. lög um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda nr.
14/1905, en samkvæmt þeim fyrndust skaðabótakröfur á tíu árum. Því ber ekki
nauðsyn til að fjalla sérstaklega um upphaf fyrningarfrests varðandi þessar
kröfur þegar af þeirri ástæðu að mál var höfðað um kröfurnar í október 2012 og
teljast þessar kröfur því ófyrndar.
Öðru gildir um afgang krafna stefnanda
á hendur umræddum aðilum, fyrir utan þær sem sérstaklega var ætlað að
endurfjármagna framangreind lán frá 2007, en það gerðist síðast að því er
virðist sem hluti af þremur lánasamningum, tveimur frá 31. mars og einum frá
25. apríl 2008. Með þessum lánasamningum var einnig verið að endurfjármagna
önnur lán til Kjalars hf. sem veitt höfðu verið á árinu 2008. Lagt verður til
grundvallar að um mismun á heildarstefnukröfum stefnanda í undirliggjandi máli
nr. E-4446/2012 og þeim lánum sem veitt voru á árinu 2007 fari um fyrningu
eftir ákvæðum laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, sem tóku gildi 1.
janúar 2008, þar sem kröfurnar stofnuðust í mars og apríl 2008. Dómurinn telur
í ljósi 1. mgr. 9. gr. laganna sbr. nánari umfjöllun hér síðar að ekki sé hægt
að miða fyrningarfrest við stofndag krafnanna heldur verði að gefa eitthvert
svigrúm til að rannsaka mál og undirbúa hugsanlega málsókn. Fjármálaeftirlitið tók
yfir vald hluthafafundar í stefnanda 9. október 2008 og skipaði skilanefnd yfir
stefnanda. Án þess að því verði slegið föstu í málinu hvenær upphaf
fyrningarfrests sé, verður samkvæmt grunnrökum 1. mgr. 9. gr. að líta svo á að
stefnanda hafi borið án nokkurs vafa svigrúm að fá til að átta sig á kröfum sem
hann kynni að eiga og útilokað verði að telja að krafan hafi verið fyrnd þegar
mál var höfðað um hana 15. október 2012 eða fjórum árum og sex dögum eftir fall
bankans.
Dómurinn telur að 1.
mgr. 136. gr. laga um hlutafélög nr. 2/1995, um málshöfðunarfrest, sem felld
var úr lögunum með lögum nr. 68/2010 sem tóku gildi 22. júní það ár, hafi ekki
áhrif í málinu. Samkvæmt gildistökuákvæði í 31. gr. þeirra laga sagði: „Ákvæði
um brottfall (136. gr. laga um hlutafélög og 110. gr. laga um einkahlutafélög)
taka til atvika og háttsemi sem átti sér stað fyrir gildistöku laga þessara
jafnvel þótt málsóknarfrestur hafi verið liðinn er þau tóku
gildi.“ Dómurinn telur ekki ástæðu í ljósi niðurstöðu málsins, til þess að
taka afstöðu til þess hvort þetta ákvæði brjóti gegn 72. gr. stjórnarskrárinnar
og meginreglu stjórnskipunarréttar um bann við afturvirkni laga. Þá bendir allt
til þess að hluti af þeim einstaklingum sem stefnt var í málinu nr. E-4446/2012
hafi ekki haft þá stöðu hjá stefnanda að málshöfðunarfrestur 1. mgr. 136. gr.
hafi gilt um þá og því hefði stefnandi, hvort sem ákvæðinu yrði beitt á hluta
þessara aðila eða ekki, enn lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn í málinu.
Um mögulega fyrningu kröfunnar byggja stefndu
hins vegar á því að vátryggingarkrafan sjálf sé fyrnd. Í 2. mgr. 52. gr. laga
um vátryggingarsamninga kemur fram að í ábyrgðartryggingum fyrnist ábyrgð
félagsins samkvæmt sömu reglum og gildi um fyrningu skaðabótaábyrgðar. Því
verður horft til 1. mgr. 9. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007 sem
tóku gildi 1. janúar 2008, þar sem kveðið er á um að skaðabótakröfur fyrnist á
fjórum árum frá þeim degi er tjónþoli fékk nauðsynlegar upplýsingar um tjónið
og þann sem ábyrgur er fyrir því eða bar að afla sér slíkra upplýsinga.
Sú skýring gæti
komið til álita að líta svo á að þessi skírskotun í ákvæðinu til
skaðabótaábyrgðar, leiði til þess að krafan úr vátryggingunni sé háð sama
fyrningarfresti og undirliggjandi skaðabótakrafa, þannig að sé undirliggjandi
krafa ófyrnd sé krafan úr vátryggingunni það einnig. Ef þetta hefði verið
tilgangur ákvæðisins telur dómurinn að það hefði þurft að orða skýrar, en ekki
verður séð að lögskýringargögn gefi sterkar vísbendingar í þá áttina. Það
verður að telja óumdeilt að stefnanda gafst kostur á að gera kröfu úr
tryggingunni a.m.k. á þeim tíma sem mál var höfðað vegna undirliggjandi kröfu í
júní 2012 og ljóst að með slíkri málshöfðun hefði fyrning verið rofin. Þrátt
fyrir það var það ekki gert fyrr en 24. september 2014, en stefndu eiga enga
aðild að skaðabótamálinu. Þótt vissulega megi færa rök fyrir því að stefndu
hafi mátt ætla að krafa yrði gerð eftir atvikum í vátrygginguna verður ekki
talið að sá meinti grunur geti hafa leitt til þess að fyrning hafi verið rofin
gagnvart stefndu með höfðun á skaðabótamálinu. Samkvæmt framangreindu verður
því í samræmi við 1. mgr. 9. gr. laga nr. 150/2007 að leggja mat á hvenær
stefnandi fékk nauðsynlegar upplýsingar um tjónið eða bar að afla sér slíkra
upplýsinga. Í því sambandi verður horft til þess sem sagði
um ákvæðið í greinargerð frumvarps þess sem varð að lögum nr. 150/2007, en um
9. gr. segir m.a.: „Miðað við framkvæmd
á sambærilegu ákvæði sem verið hefur í norskum lögum frá árinu 1979 má segja að
almennt sé litið svo á að fyrningarfresturinn byrji að líða þegar tjónþoli fékk
eða bar að afla sér nauðsynlegra upplýsinga um fyrrgreinda tvo þætti, þ.e.
tjónið sjálft og þann sem ábyrgðina ber. Þá fyrst hefur verið talinn
grundvöllur fyrir hann til að setja fram kröfu sína um bætur. Hann getur hins
vegar ekki setið aðgerðalaus eða borið við vanþekkingu sinni á réttarstöðu
sinni. Fyrningarfrestur samkvæmt þessu ákvæði fer ekki eftir persónubundinni
vitneskju einstakra tjónþola um réttarstöðu sína, heldur eftir því hvenær tjónþoli
bjó yfir þeirri vitneskju að honum væri fært að leita fullnustu kröfu sinnar.“
Með bréfi 24.
maí 2010 til Howden Insurance Brokers Ltd. sendi stefnandi „tilkynning[u] um
kröfu“ sem var sögð byggja á VI. kafla vátryggingarskilmálanna, þ.e. kröfulýsingarákvæði
ábyrgðartryggingar stjórnenda. Jafnframt var vísað til kaupa á
tilkynningarfresti sbr. fyrrgreint dómsmál sem rekið er vegna hans. Vísað var
til rannsóknar PricewaterhouseCoopers hf., á ráðstöfunum sem bankinn greip til
áður en hann var tekinn yfir, en við rannsóknina hefðu komið í ljós atvik sem
stefnandi taldi að féllu undir trygginguna. Enn fremur var tilvísun til skýrslu
rannsóknarnefndar Alþingis, sem þá var nýlega komin út, en þar kæmu fram
upplýsingar um ráðstafanir sem gætu fallið undir trygginguna.
Rannsóknarskýrsla
Alþingis kom út 12. apríl 2010. Hún verður ekki ein og sér almennt talin hafa
ótvírætt sönnunargildi um það sem í henni kemur fram. Skýrslan gaf hins vegar
greinargóða lýsingu á margháttuðum atvikum og nýttist því vel til frekari og
nákvæmari rannsóknarvinnu. Í 2. kafla skýrslunnar, í köflum 8.7.3.9, 8.8.2.3,
8.8.3.2 og 8.12.3.6 er lýst þessum viðskiptum þ.e. þegar Citibank fjármagnaði
hlutafjáreign Eglu hf. í stefnanda og þegar stefnandi þurfti í kjölfarið að
greiða upp skuldir félagsins við bankann. Gríðarlegu umfangi skuldbindinga
Kjalars hf. og Ólafs Ólafssonar eiganda 96% hlutar í félaginu við stefnanda. Dómurinn telur óhjákvæmilegt að líta
svo á að fyrningarfrestur hafi byrjað að líða þarna. Ekki hefur verið sýnt fram
á annað en að öll gögn er málið vörðuðu hafi á þessum tíma, og jafnvel allt frá
falli bankans verið til staðar. Jafnframt liggur fyrir að stefnandi hafði keypt
þjónustu frá alþjóðlegu endurskoðunarfyrirtæki til að láta rannsaka mál sem
þessi, auk þess að hafa yfir að ráða fjölmennu starfsliði sem einkum var skipað
sérfræðingum. Þá er það alkunna að fjöldinn allur af erlendum sérfræðilegum
ráðgjöfum kom að málefnum stefnanda. Líkast til hafa grunsemdir um að kröfur
gætu hafa skapast í vátryggingu vaknað fyrr, a.m.k. gáfu upplýsingar frá
PricewaterhouseCoopers hf. sem og úr rannsóknarskýrslu Alþingis stefnanda fullt
tilefni til að rannsaka ítarlega málið. Enda var það síðar gert sbr. skýrslu
endurskoðunarfyrirtækisins um málið frá 15. mars 2011 en sú skýrsla var unnin
samkvæmt beiðni slitastjórnar stefnanda frá nóvember 2009.
Dómurinn telur
að það hafi ekki verið ætlan löggjafans með orðalagi 1. mgr. 9. gr. laga nr.
150/2007 að veita kröfuhafa allt að því sjálfdæmi um það hvenær
fyrningarfrestur byrjaði að líða, t.a.m. með því að taka sér ótæpilegan tíma
til að rannsaka og skoða mál. Í því tilviki sem hér um ræðir verður því talið
að upphafstími fyrningarfrests hafi byrjað að líða þegar stefnanda bar að gera
gangskör að skoðun málsins og huga að nákvæmri kröfugerð sinni úr tryggingunni,
en það var eigi síðar en vorið 2010 og jafnvel fyrr.
-------
Stefnandi
byggir á því að með höfðun málsins nr. E-3162/2011 hafi hann rofið fyrningu á
kröfu í vátrygginguna og vísar þar m.a. til umfjöllunar fræðimanna úr norskum rétti
en íslensk fyrningarlög eru að norskri fyrirmynd, þ.e. hliðsjón var höfð af
norsku fyrningarlögunum frá 1979 með síðari breytingum eins og segir í almennum
athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 150/2007. Stefnandi bendir á að
málshöfðun til að fá viðurkenningardóm fyrir kröfu geti einnig rofið fyrningu
sbr. 1. mgr. 15. gr. laga nr. 150/2007 og að málsókn geti rofið fyrningu í
samræmi við þetta þótt krafan sjálf sé ekki andlag ágreiningsins.
Eins og fram er
komið fjallar málið nr. E-3162/2011 um rétt stefnanda til að kaupa af stefndu
viðbótarfrest til að tilkynna um bótaskylda háttsemi stjórnenda. Fallist er á
með stefnanda að málið snúist því um viðurkenningu á því að réttarsamband hafi
verið á milli aðila á ákveðnu tímabili. Þeim kröfum sem stefnandi hafði lýst á
grundvelli tryggingarinnar var hafnað af stefndu þar sem hinn umsamdi
tilkynningarfrestur var á þeim tíma liðinn og því forsenda fyrir kröfugerð
stefnanda í vátrygginguna að freista þess að fá viðurkenndan rétt til að kaupa
aukinn frest. Ef það mál tapast má leiða að því líkum að botninn detti úr
málsókn þessari og jafnvel undirliggjandi skaðabótamálum.
Í stefnu
málsins nr. E-3162/2011 er ekkert fjallað um þær kröfur sem kynnu að verða
gerðar á grundvelli tryggingarinnar, þ.e. engin útlistun er á fjárhæð krafna,
eðli þeirra, tjónsatvikum eða
tjónvöldum. Til þess að viðurkenningarmál hafi þau réttaráhrif að slíta
fyrningarkröfu verður litið svo á að það skilyrði verði að vera uppfyllt að
dómur í því staðfesti tilvist kröfunnar sjálfrar og jafnframt að úr
réttarágreiningi sé skorið til fullnustu hvað varðar einstakar kröfur, svo
notast sé við orðalag úr héraðsdómi í Hæstaréttarmálinu nr. 549/2002. Það mál
fjallaði þó um atvik í gildistíð laga nr. 14/1905, en þótt það væri ekki tekið
skýrt fram í þeim lögum þá var talið að viðurkenningardómur um kröfu aðila gæti
rofið fyrningu. Dómurinn telur jafnframt að áskilnaði í framangreinda veru
verði ekki fullnægt með því móti að útlista kröfurnar síðar með sannanlegum
hætti ef það er ekki gert með málshöfðun. Þá verður ekki séð að stefndu hafi
fyrir höfðun á málinu nr. E-3162/2011, verið gerð nægjanleg grein fyrir þeim
kröfum sem tekist er á um í undirliggjandi málum.
Þá byggir stefnandi á því að
fyrning hafi jafnframt verið rofin með kæru stefnanda til úrskurðarnefndar í
vátryggingarmálum 15. júní 2011. Þar var óskað eftir því að nefndin tæki til
skoðunar og úrskurðar tiltekin atriði sem hefðu áhrif á greiðsluskyldu úr
tryggingunni ásamt fleiri atriðum. Þegar nefndin vísaði kæru stefnanda frá með
ákvörðun 9. ágúst 2011 hafi byrjað að líða nýr fjögurra ára fyrningarfrestur.
Stefnandi telur að skilyrði 1. mgr. 22. gr. laga nr. 150/2007 um að höfða verði
mál eða kæra á ný innan sex mánaða frá því að ákvörðun stjórnvalds liggur fyrir
ef hún er um frávísun eða niðurfellingu máls gildi eingöngu um fyrndar kröfur.
Dómurinn getur ekki fallist á það heldur verður talið að þar sé átt við að
krafa skuli ekki talin fyrnd ef kröfuhafi aðhefst í framangreinda veru innan
sex mánaða, þótt hún hefði ella fyrnst á því tímabili. Um slíkt er ekki að ræða
í þessu máli. Stefnandi hafði þegar þessi ákvörðun lá fyrir, þá þegar höfðað
málið nr. E-3162/2011 og því gat það ekki haft áhrif samkvæmt ákvæðinu sbr. og
framangreind sjónarmið um gildi þeirrar málshöfðunar fyrir fyrningarrof í
málinu. Þau mál sem höfðuð voru 24. september 2014 fullnægðu ekki skilyrði 1.
mgr. 22. gr. auk þess sem þau vörðuðu í raun annað sakarefni; önnur
úrlausnarefni en óskað var úrskurðar á með beiðninni 15. júní 2011.
Dómurinn telur
því að virtu framangreindu að þegar mál þetta var höfðað, 24. september 2014,
hafi meint krafa stefnanda í vátrygginguna verið fyrnd.
-------
Með vísan til framangreinds verða stefndu því
sýknaðir af kröfum stefnanda.
Með hliðsjón m.a. af umfangi málsins, fjölda
fyrirtaka, af því að rekin eru þrjú önnur mjög keimlík mál fyrir dómnum og því
að nokkur vafi er uppi í málinu verður stefnandi dæmdur til að greiða stefndu
óskipt hluta af málskostnaði þeirra sem ákveðst hæfilegur alls 1.000.000 króna.
Af
hálfu stefnanda flutti málið Víðir Smári Petersen héraðsdómslögmaður og af
hálfu stefndu flutti málið Stefán Þór Ingimarsson héraðsdómslögmaður.
Lárentsínus
Kristjánsson héraðsdómari, sem tók við málinu 18. desember 2015, kveður upp dóm
þennan.
D Ó M S O R Ð:
Stefndu
eru sýknaðir af kröfum stefnanda.
Stefnandi greiði stefndu sameiginlega 1.000.000 krónur
í málskostnað.