• Lykilorð:
  • Kynferðisbrot
  • Nauðgun
  • Skaðabætur

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjaness þriðjudaginn 5. júní 2018 í máli nr. S-38/2018:

Ákæruvaldið

(Fanney Björk Frostadóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn

Helga Fannari Sæþórssyni

(Vilhjálmur H. Vilhjálmsson lögmaður)

 

Mál þetta, sem dómtekið var 9. maí 2018, er höfðað af héraðssaksóknara með ákæru 22. janúar 2018 á hendur Helga Fannari Sæþórssyni, kt. 000000-0000, [...], Kópavogi;

„fyrir nauðgun, með því að hafa að kvöldi föstudagsins 31. júlí 2015, í tjaldi á tjaldstæðinu í Herjólfsdal í Vestmannaeyjum, haft samræði við A, gegn hennar vilja með því að notfæra sér að A gat ekki spornað við verknaðinum sökum svefndrunga og ölvunar.

Telst þetta varða við 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Af hálfu A, kt. 000000-0000, er gerð krafa um að ákærða verði gert að greiða henni miskabætur að fjárhæð kr. 1.600.000 auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. ágúst 2015 þar til mánuður er liðinn frá birtingu skaðabótakröfunnar en með dráttarvöxtum skv. 9. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er gerð krafa um að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.

Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins, en til vara vægustu refsingar sem lög framast leyfa og að refsing verði þá að öllu leyti bundin skilorði. Þá krefst hann þess að skaðabótakröfunni verði vísað frá dómi, en til vara að fjárhæð hennar verði verulega lækkuð. Loks krefst hann málsvarnarlauna.  

Málsatvik

Upphaf málsins er að brotaþoli, A, kom á lögreglustöð 6. ágúst 2015 og lagði fram kæru á hendur ákærða, Helga Fannari Sæþórssyni. Samkvæmt kæruskýrslu sagðist hún hafa farið á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum um verslunarmannahelgi 2015, ásamt tveimur vinum sínum, B, kallaður B, og C. Í Herjólfi hafi hún hitt ákærða, sem bauð henni og vinum hennar að tjalda í Eyjum á sama svæði og hann og félagar hans, og hafi hún þegið það. Um hádegið á föstudeginum hafi hún byrjað að drekka bjór og kvaðst lítið muna annað en glefsur eftir það. Þó sagðist hún minnast þess að hún og vinir hennar, auk ákærða og nokkurra annarra, hafi setið í hring í brekkunni og voru að spila, dansa og syngja. Hafi henni síðar verið sagt að hún hafi dáið áfengisdauða í brekkunni klukkan ellefu um kvöldið. Henni hafi líka verið sagt að ákærði hefði þá farið með henni í tjaldið hennar. Næsta morgun hafi hún vaknað í öllum fötunum. Ekki kvaðst brotaþoli hafa orðið þess áskynja eða séð þess merki að hún hefði haft samfarir um nóttina. Hins vegar hafði hún á orði að hún hefði aldrei áður „fengið svona rosalegt blackout“. Á laugardeginum hefði ákærði sagt henni hvernig ástandið hafi verið á henni þegar hann fór með henni í tjaldið, en ekki minnst á að eitthvað hefði gerst á milli þeirra. Hins vegar hefði B, vinur hennar, alltaf verið að spyrja hana hvort hún hefði sofið hjá ákærða, en hún þverneitað því og sagðist ekki trúa að ákærði hefði gert það. Á sunnudeginum hefði B sagt henni að hann hefði komið í tjaldið um nóttina og hafi þá séð ákærða ofan á henni, og hafi hún verið nakin. Eftir þetta sagðist brotaþoli hafa forðast ákærða. Ákærði hafi hins vegar viljað ræða við hana á sunnudeginum og hafi hún fallist á það. Hafi ákærði þá sagt henni að hún hafi dáið hjá honum í brekkunni og hafi hann fylgt henni í tjaldið. Þegar þangað var komið og hann hafi verið að hjálpa henni úr skónum, hafi hún beðið hann um að leggjast við hliðina á sér og hafi hann tekið því sem hann mætti þá gera það sem hann vildi. Vinur hennar hafi þá komið í tjaldið og hafi ákærði þá strax farið af henni. Hafi ákærði sagt að honum liði eins og hann hefði nauðgað henni og vildi biðjast fyrirgefningar.

Brotaþoli fór frá Vestmannaeyjum 3. ágúst 2015 og sama dag fór hún á neyðarmóttöku vegna kynferðisofbeldis. Í niðurstöðum læknis sem skoðaði brotaþola segir eftirfarandi: „[...] kona sem sefur áfengissvefni þegar vinur hennar kemur í tjaldið og þá liggur hún nakin og maður ofan á henni. Sagði henni frá þessu næsta dag og gerandinn viðurkenndi samfarir í samtali við hana og SMS. Farið í sund og heitan pott síðan. Er í uppnámi við skoðun. Engir áverkar. [...]“

Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 6. október 2015.

Framburður fyrir dómi

Ákærði sagði fyrir dómi að hann hefði, ásamt vinum sínum, D, E og fleirum, farið á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum fimmtudaginn fyrir verslunarmannahelgi 2015. Í Herjólfi hefði hann hitt brotaþola og vini hennar og hefði hann stungið upp á því að þau tjölduðu öll á sama svæði í Herjólfsdal. Hefði brotaþoli tekið vel í það og slegið upp tjaldi við hlið hans. Þegar búið var að tjalda sagði ákærði að þau hafi öll fengið sér að drekka og síðan farið á „húkkaraballið“. Á ballinu hafi hann og brotaþoli verið að draga sig saman, dansa og kyssast. Eftir það hafi þau gist saman í tjaldinu sem brotaþoli var með og deildi með B og C. Tjaldinu hafi verið skipt upp í tvö svefnrými og hafi hann og brotaþoli sofið í öðru þeirra, ásamt þýskri stúlku, en B og C hafi sofið í hinu svefnrýminu. Ekkert kynferðislegt hefði átt sér stað milli hans og brotaþola þessa nótt, þau hefðu aðeins sofið í faðmlögum. Um hádegið daginn eftir hafi þau öll fengið sér að borða, en að því loknu hafi drykkjan hafist á ný. Um kvöldið hafi þau síðan öll farið upp í brekku og hafi brotaþoli setið á milli hans og B. Hafi brotaþoli og hann sjálfur verið nokkuð ölvuð. Nokkru síðar hafi brotaþoli spurt ákærða hvort hann vildi fylgja henni niður í tjald og hafi honum ekkert þótt það athugavert í ljósi samvista þeirra nóttina áður. Þegar þangað var komið hafi brotaþoli spurt hvort hann vildi koma með henni inn í tjaldið og hafi honum heldur ekkert þótt það einkennilegt. Lögðust þau þar fyrir, spjölluðu saman um stund og kysstust, en fóru síðan að klæða hvort annað úr og höfðu samfarir. Sagði ákærði að brotaþoli hefði hreyft sig og snert líkama hans í samförunum. Skyndilega hefði B rennt upp tjaldinu og sagði ákærði að þau hafi þá verið nýhætt í samförum. Hafi þau bæði verið í nærbuxum, en brotaþoli að auki í brjótahaldara, að hann minnti. Hún hafi legið á bakinu og hann haldið hendi sinni um magann á henni. Kvaðst ákærði hafa legið við hlið brotaþola og „þá allt í einu í fyrsta skipti er eins og hún virðist ekki vita hvað er í gangi, en ég myndi aldrei segja að hún hafi verið rænulaus“. Frekar spurður um ástand brotaþola sagði ákærði að þetta hafi verið mjög ringlað „af því að hún var þarna, en samt er eins og hún hafi ekki verið þarna, það er bara eins og hún hafi rankað við sér úr einhverju blackouti eða vaknað upp úr draumi eða einhverju þvílíku“. Ákærði sagði að B hafi strax lokað tjaldinu og hafi hann þá staðið upp og ætlað út að pissa. Þar hafi hann hitt B og hafi brotaþoli í sömu andrá sagt að hún vissi ekki hvað væri í gangi. Sagðist ákærði þá hafa sagt henni að þau hafi verið að sofa saman, en hún hafi ekki skilið neitt í því og hafi það komið ákærða mjög á óvart og fundist það óþægilegt. Ákærði hafi þá ákveðið að útskýra fyrir B hvernig lægi í málinu og hafi hann lagt það til að ákærði ræddi þetta við brotaþola þegar allir væru edrú eða eftir helgina. Að því loknu kvaðst ákærði ásamt B hafa hjálpað brotaþola að klæða sig í skó, en að því loknu hafi þau öll farið aftur upp í brekku að skemmta sér. Sagði ákærði að brotaþoli hafi þá verið ölvuð, en hafi þó vel getað gengið ein og óstudd. Aðspurður sagði ákærði að hvorki hann né brotaþoli hafi rætt um að hafa samfarir þegar þau gengu saman að tjaldinu.

Næsta dag sagði ákærði að hann, brotaþoli og F hafi farið saman í sund, en síðan aftur upp í dal þar sem haldið var áfram að drekka. Á sunnudagskvöldinu kvaðst hann fyrst hafa skynjað að eitthvað væri að, en þá hafi B og C komið ógnandi að honum og sagt að hann hefði nauðgað brotaþola og ætti því að koma sér í burtu. Kvaðst ákærði síðan hafa reynt að ræða við brotaþola og biðja hana fyrirgefningar ef einhvers misskilnings gætti um það sem gerst hefði þeirra í milli. Brotaþoli hafi hins vegar brostið í grát og ekki viljað ræða við hann. Í kjölfarið hafi ákærði pakkað saman og haldið heim á leið.

Aðspurður kvaðst ákærði kannast við að hafa sent brotaþola SMS-skilaboð strax eftir verslunarmannahelgina, þar sem hann biður hana afsökunar og segir að sér þyki mjög leiðinlegt telji hún að hann hafi brotið á henni. Jafnframt hafi hann látið í ljós þá von að einhvern daginn geti þau rætt málið og leyst það.

Brotaþoli sagðist hafa farið á þjóðhátíð ásamt vinum sínum, B og C. Hún hafi ekkert þekkt ákærða og hitti hann fyrst í Herjólfi á fimmtudeginum á leið til Eyja. Eftir stutt samtal þeirra kom í ljós að þau voru tengd fjölskylduböndum og bauð ákærði þeim að tjalda á sama svæði og félagar hans í Herjólfsdal. Hópurinn hafi mikið haldið saman og skemmt sér og drukkið á fimmtudeginum, hún, B og C, svo og ákærði og félagar hans. Hafi henni líkað mjög vel við ákærða. Um nóttina, eftir „húkkaraballið“, kvaðst hún hafa leyft ákærða að gista í hennar tjaldi, en hann hafi sjálfur ekki verið búinn að reisa sitt tjald. Hafi hann gist í svefnrými með henni og þýskri stelpu, en B og C hafi sofið í hinu svefnrýminu. Sagði hún að ákærði, sem svaf við hlið hennar, hefði verið að reyna að kyssa hana um nóttina, en hún lítt tekið undir það og snúið sér undan. Ekkert frekar hafi gerst þá nótt. Á engan hátt hafi hún gefið í skyn að hún vildi sofa hjá ákærða, enda hafi henni þótt hann óaðlaðandi.

Daginn eftir, þ.e. á föstudeginum, sagðist brotaþoli líklega hafa byrjað að drekka áfengi um hádegið og hafi hún drukkið mjög mikið. Því myndi hún mjög lítið af því sem gerðist eftir það. Þó sagðist hún minnast þess að hafa farið í tjald og haft þar kynmök við strák sem hún var skotin í og kallaður var G. Einnig mundi hún eftir því að allur hópurinn hafi setið í hring í brekkunni, drukkið og spilað. Næst sagðist brotaþoli muna eftir því að hún var komin í sitt tjald og einhver var að klæða hana úr skónum. Hafi hún spurt hver þetta væri og hafi ákærði sagt að þetta væri hann. Eftir þetta sagðist hún ekki hafa vitað af sér fyrr en B var að reyna að klæða hana í föt.

Næsta dag sagðist brotaþoli hafa farið í sund með F, vinkonu sinni, og ákærða, og hafi allt virst í góðu lagi. Hafi ákærði og F verið að gera grín að henni þar sem hún hafi dáið í brekkunni og misst af brennunni. Kvaðst hún þá hafa ákveðið að drekka minna þann daginn, þar sem hún vildi ekki líka missa af því kvöldi. B hafi hins vegar sífellt verið að spyrja hana hvort hún hefði sofið hjá ákærða síðustu nótt, en hún hafi svarað því neitandi. Vinir hennar hafi líka verið að rifja það upp að hún hefði dáið í brekkunni og að ákærði hefði boðist til að fylgja henni í tjaldið. Á sunnudeginum hefði B svo sagt henni að hann myndi eftir því að hafa komið í tjaldið aðfaranótt laugardagsins og séð ákærða liggja ofan á henni, og hafi hún verið máttlaus. Hafi ákærði hætt þegar hann varð hans var og farið ofan af henni. B hafi síðan hjálpað henni í föt. Ekki kvaðst hún muna hvort hún hafi eftir þetta farið aftur í brekkuna eða að sofa. Eftir frásögn B sagði brotaþoli að henni hafi liðið ógeðslega og hafi hún forðast ákærða.

Brotaþoli sagði að á mánudagsmorgninum hefði vinur ákærða komið til sín og sagt að ákærði væri grátandi og vildi tala við hana. Í fyrstu hafi hún ekki viljað tala við hann, en síðar kvaðst hún hafa fallist á það. Hefði ákærði þá sagt henni að hún hefði beðið hann um leggjast hjá sér í tjaldinu og hefðu þau sofið saman, en nú liði honum eins og hann hefði nauðgað henni. Kvaðst hún hafa sagt honum að þetta væri nauðgun. Ákærði hafi þá viljað knúsa hana, en hún hafi ýtt honum í burtu og sagt honum að koma ekki við sig. Hefði ákærði þá tekið saman dótið sitt og farið. Síðar hafi hann sent henni og B skilaboð þar sem hann sagði að sér þætti leiðinlegt hvernig þetta hefði farið og hvort ekki væri hægt að leysa málið þeirra í milli. Sagðist brotaþoli ekki hafa svarað skilaboðum hans. Þegar í land var komið sagðist brotaþoli hafa farið á neyðarmóttöku að áeggjan B og mömmu hans, en hún væri hjúkrunarfræðingur. Sjálf sagðist hún bara hafa ætlað að fara heim til sín og gleyma þessu.

Fram kom hjá brotaþola að eftir þetta atvik hafi henni liðið mjög illa og hafi hún um langt skeið þurft að leita sér aðstoðar hjá sálfræðingi. Hafi hún verið [...].

Vitnið B (áður [...]) sagðist hafa kynnst ákærða á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum árið 2015 þegar hann fór þangað með vinum sínum, brotaþola og C. Hafi brotaþoli og ákærði strax orðið vinir og skemmt sér vel. Vitnið kvaðst hafa farið á „húkkaraballið“ á fimmtudagskvöldið og verið nokkuð drukkinn. Ekki mundi hann hvort ákærði hafi verið þar með brotaþola og tók fram að langt væri um liðið. Um nóttina sagðist hann hafa sofið í sínu tjaldi og minnti að hann hefði sofið einn í öðru svefnrýminu, en C í hinu. Ekki mundi hann hvar brotaþoli svaf þá nótt, en hélt að ákærði hefði sofið í sínu eigin tjaldi, sem var við hliðina á tjaldi hans, brotaþola og C.

Á föstudeginum sagðist vitnið hafa verið töluvert drukkinn og hafi hann verið í slagtogi með C, ákærða og brotaþola, sem var mjög drukkin, og bætti við að hún hafi þá verið mun meira drukkin en á fimmtudagskvöldinu. Ekki sagðist vitnið muna hver hafi verið ástæða þess að brotaþoli fór í tjaldið á föstudagskvöldið. Hann hafi hins vegar síðar komið í tjaldið, rennt því upp og þá séð ákærða liggja ofan á brotaþola. Hafi hún verið allsber, en ákærði með buxurnar niður um sig. Kvaðst hann þess fullviss að brotaþoli hafi verið rænulaus, hún hafi legið á bakinu með lokuð augun og hendur upp fyrir höfuð. Þegar ákærði hafi séð hann kvaðst vitnið hafa lokað tjaldinu. Hafi hann verið að ganga í burtu er ákærði kom út úr tjaldinu og sagði honum að hann og brotaþoli hafi verið að stunda samfarir. Ekki kvaðst vitnið muna vel hvert hann hafi farið eftir það eða hvort hann hafi klætt brotaþola þá í föt, enda væri langt um liðið og myndi hann þetta ekki allt. Ekki mundi hann heldur hvort brotaþoli fór síðan aftur upp í brekkuna eða að sofa. Hann gæti þó ekki gleymt því er hann kom að ákærða og brotaþola og áréttaði að brotaþoli hafi verið rænulaus. Þessi minning væri föst í huga hans og hafi sér þótt þetta skrýtið þar sem hann taldi að ákærði væri ekki sú týpa sem brotaþoli hefði áhuga á. Daginn eftir sagðist hann hafa spurt brotaþola hvort hún hefði sofið hjá ákærða, en hún hafi neitað því. Hafi hann þá áttað sig á því að hún mundi ekki eftir því sem gerðist og hann varð vitni að. Hafi brotaþoli orðið mjög sjokkeruð við að heyra lýsingu hans. Aðspurt kvaðst vitnið ekki minnast þess að hann hafi lagt til að þetta atvik yrði ekki rætt frekar. Ekki mundi hann heldur eftir því að brotaþoli hafi síðar rætt við ákærða um það sem fram fór þeirra á milli. Fram kom í máli vitnisins að hann taldi sig bera nokkra ábyrgð á brotaþola þar sem þetta hafi verið hennar fyrsta ferð á þjóðhátíð.

Vitnið C greindi frá því að hann þekkti brotaþola í gegnum sameiginlegan vin þeirra, B. Á leið til Vestmannaeyja hafi hann kynnst ákærða og hefðu þeir, ásamt B og brotaþola, tjaldað á sama svæði. Á laugardagsmorgni sagðist hann hafa séð brotaþola og F vera að pissa í tjald ákærða og hafi honum verið sagt að eitthvað hafi komið fyrir brotaþola um nóttina, án þess að fá á því frekari skýringar. Á sunnudeginum hafi hann fyrst heyrt að brotið hefði verið á brotaþola, en síðar um daginn hafi hann fengið upplýsingar um að ákærði hefði átt þar hlut að máli. Hefði B sagt honum að ákærði hefði sofið hjá brotaþola meðvitundarlausri. Sagðist vitnið hafa viljað ræða þetta við ákærða, en ákærði hafi ýtt honum í burtu og ekki viljað ræða við hann. Ekki kvaðst vitnið muna hvort ákærði hafi gist í tjaldinu með brotaþola eftir „húkkaraballið“, en það gæti þó verið. Vitnið mundi eftir því að hafa fengið skilaboð frá ákærða eftir þjóðhátíð, og að í þeim skilaboðum hefði ákærði verið að biðja hann um að „bakka hann upp“, en ekki mundi hann hverju hann svaraði. 

Vitnið F sagðist hafa kynnst brotaþola og ákærða á  þjóðhátíð í Vestmannaeyjum árið 2015. Hafi hún hitt brotaþola, B og C á „húkkaraballinu“ á fimmtudagskvöldinu, en kvaðst ekki muna mikið eftir því kvöldi þar sem hún hafi verið mjög drukkin. Frá hádegi næsta dag og allan þann dag hafi þau öll verið saman og haldið hópinn. Hafi brotaþoli fljótlega orðið mjög ölvuð, en ekki kvaðst hún hafa séð að ákærði væri svo mjög ölvaður. Ekki kvaðst vitnið hafa orðið vör við nein sérstök samskipti milli ákærða og brotaþola á föstudagskvöldinu. Spurð um ástand brotaþola þetta kvöld sagði vitnið að hún hafi verið algerlega ofurölvi. Hafi hún setið í brekkunni hjá vitninu og ákærða þegar ákærði sagði á einhverjum tímapunkti að brotaþoli væri „hálf dauð“ og þyrfti hann að fara með hana niður í tjald. Mundi vitnið að brotaþoli hafi ekki getað gengið sjálf og hafi ákærði stutt hana. Vitnið kvaðst minnast þess að hún hafi síðar um nóttina spurt annaðhvort B eða C hvar brotaþoli væri og hafi henni verið sagt að hún væri sofandi inni í tjaldi. Þá kvaðst hún ekki hafa séð brotaþola síðar um nóttina.   

Vitnið sagðist fyrst hafa heyrt af meintu broti ákærða á sunnudeginum. Hafi hún þá setið inni í tjaldi með B og brotaþola og hafi B verið að spyrja brotaþola hvað hafi verið í gangi og hvers vegna hún hafi verið nakin. Hafi hann sagt brotaþola að hann hafi komið að henni og ákærða og aðstoðað hana síðar við að klæða sig í föt. Brotaþoli hafi orðið mjög hissa og fengið hálfgert sjokk, og sagðist aðeins muna eftir því að hafa spurt um nóttina hvort einhver væri í tjaldinu. Eftir þetta sagði vitnið að bæði hún og brotaþoli hafi forðast ákærða.

Vitnið var loks að því spurt hvort hún og brotaþoli hafi pissað í eða á tjald ákærða á laugardagsmorgninum. Viðurkenndi vitnið að hafa gert það aðfaranótt mánudagsins og hafi hún ein verið um það. Brotaþoli hafi ekki verið með henni. Sagði hún að engin merking hefði legið þar að baki, henni hefði bara verið mál.

Vitnið E tók fram í upphafi að hann gæti ekkert sagt um atvik málsins annað en það sem aðrir hefðu sagt honum, auk þess sem langt væri um liðið. Þó sagðist hann minnast þess að hann hefði rætt bæði við brotaþola og ákærða á sunnudeginum um það sem átti að hafa gerst þeirra í milli. Hefði brotaþoli sagt að hún myndi ekkert hvað gerst hefði, en ákærði hefði sagt að „hún hafi viljað þetta“. Hafi hann trúað þeim báðum. 

Vitnið D kvaðst bæði þekkja ákærða og brotaþola. Í upphafi sagðist hann lítið vita um atvik málsins annað en það að ákærði og brotaþoli hafi verið að skemmta sér ásamt öðru fólki, og hafi þau sofið saman í tjaldi á föstudagskvöldinu. Þó kvaðst hann vita til þess að ákærði hafi verið að „kúra“ með stelpunum í tjaldi brotaþola eftir „húkkaraballið“, og átti þá við brotaþola og vinkonu hennar. Spurður um föstudagskvöldið kvaðst vitnið einnig muna eftir því að ákærði hafi setið klofvega með brotaþola í fanginu og hafi þau verið að drekka, skemmta sér og „dúlla sér saman“, og hafi honum virst allt í góðu á milli þeirra. Hafi hann séð þau fara saman í tjaldið. Sérstaklega spurður um ölvun brotaþola það kvöld sagði vitnið að hún hafi verið „mjög, mjög ölvuð“ í brekkunni. Ákærði hafi einnig verið ölvaður og almennt hafi mikið fyllerí verið þarna. Þá tók vitnið fram að hann vissi til þess að ákærði hefði ekki aðeins verið að drekka áfengi, heldur hefði hann einnig neytt fíkniefna.

Vitnið H, hjúkrunarfræðingur á neyðarmóttöku, sagði að brotaþoli hefði leitað til neyðarmóttökunnar eftir kynferðisbrot sem hún varð fyrir í Vestmannaeyjum. Við komu þangað hafi brotaþola greinilega liðið illa, hún hafi grátið og verið í uppnámi, og kvaðst vitnið hafa skynjað að þrýst hafi verið á hana að leita sér hjálpar. Brotaþoli hafi hins vegar ekki verið viss um hvort hún myndi kæra atvikið. Engu að síður hafi hún verið sátt við að koma til skoðunar. Hafi brotaþoli greint vitninu frá því að hún hefði verið í Vestmannaeyjum, ásamt vinum sínum, og drukkið of mikið og farið í áfengisdá. Hafi hún því lítið sem ekkert munað eftir brotinu, en vinur hennar hafi síðar upplýst hana um hvað hann hefði séð. Hafi hún átt erfitt með að trúa þessu og hafi það tekið hana tíma að meðtaka frásögn vinar síns, sem hafi ítrekað þurft að endurtaka frásögnina. Skýrði brotaþoli frá því að við þetta hafi henni verið mjög misboðið þar sem hún hafi þekkt ákærða og treyst honum. Vitnið greindi frá því að brotaþoli hefði jafnframt í samtali þeirra tekið fram að gerandi hafi síðar viðurkennt brot sitt, bæði í samtali við brotaþola og síðar í SMS-skilaboðum, og beðið hana fyrirgefningar. Hefði brotaþoli sýnt vitninu og lækni á neyðarmóttökunni skilaboðin frá ákærða. Við lok skoðunar sagði vitnið að brotaþola hefði verið ráðlagt að leita sér aðstoðar sálfræðings. Þá staðfesti vitnið skýrslu sína um móttöku brotaþola á neyðarmóttöku, en skýrsla þessi er meðal málsgagna.

Vitnið I læknir kvaðst hafa skoðað brotaþola við komu hennar á neyðarmóttökuna og ritað eftir frásögn hennar lýsingu á atvikum. Sagði hún að brotaþoli hafi verið í áfalli og þótt erfitt að segja frá upplifun sem hún mundi ekki eftir og tók ekki þátt í. Engir áverkar hafi hins vegar sést á henni. Vitnið staðfesti skýrslu sína, sem liggur fyrir dóminum.

Vitnið J sálfræðingur skýrði frá því að brotaþola hefði verið vísað í sálfræðimeðferð hjá henni í ágúst 2015 og hefði hún alls 16 sinnum komið í viðtalsmeðferð. [...]. Vitnið staðfesti að hafa ritað það vottorð sem liggur fyrir í málinu og dagsett er 4. maí 2018. 

Niðurstaða

I

Í máli þessu er ákærði sakaður um nauðgun, með því að hafa að kvöldi föstudagsins 31. júlí 2015, í tjaldi á tjaldstæðinu í Herjólfsdal í Vestmannaeyjum, haft samræði við brotaþola gegn vilja hennar með því að hafa notfært sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum svefndrunga og ölvunar.

Óumdeilt er að ákærði og brotþoli sváfu í tjaldi brotaþola að loknu „húkkaraballi“ aðfaranótt föstudagsins 31. júlí 2015. Fyrir liggur einnig að ekkert kynferðislegt átti sér stað milli þeirra þá nótt og sagði brotaþoli fyrir dómi að hún hafi á engan hátt gefið í skyn að hún vildi sofa hjá ákærða, enda hafi henni þótt hann óaðlaðandi. Ákærði hefði reynt að kyssa hana um nóttina en hún kvaðst lítt hafa tekið undir það og snúið sér undan. Sagði ákærði að þau hefðu aðeins sofið í faðmlögum.

Ákærði hefur viðurkennt að hafa haft samræði við brotaþola að kvöldi föstudagsins 31. júlí 2015, en neitar því að það hafi verið án vilja hennar og vitundar. Sagði hann að brotaþoli hefði beðið hann um að fylgja sér í tjaldið og hefði honum ekkert þótt það athugavert í ljósi samvista þeirra nóttina áður. Þegar þangað var komið hefðu þau lagst fyrir, spjallað saman og kysst, síðan klætt hvort annað úr og haft samfarir. Hefði brotaþoli hreyft sig í samförunum og snert líkama hans. Ákærði lýsti því einnig að þegar þau voru nýhætt í samförum hefði B skyndilega rennt upp tjaldinu og séð þau þar inni, en lokað því fljótt aftur. Hafi bæði hann og brotaþoli þá verið í nærbuxum, en brotaþoli einnig í brjóstahaldara, að hann minnti. Sagði hann að brotaþoli hefði þá legið á bakinu, en hann við hlið hennar, og hafi honum þá allt í einu fundist sem hún vissi ekki hvað væri um að vera, en tók fram að hann myndi þó aldrei segja að hún hafi verið rænulaus. Lýsti ákærði því þannig fyrir dómi að þetta hafi verið mjög ringlað „af því að hún var þarna, en samt er eins og hún hafi ekki verið þarna, það er bara eins og hún hafi rankað við sér úr einhverju blackouti eða vaknað upp úr draumi eða einhverju þvílíku“. Kvaðst ákærði þá hafa staðið upp og ætlað út úr tjaldinu, en í sömu andrá hefði brotaþoli sagt að hún vissi ekki hvað væri í gangi og hefði hún ekki skilið neitt í því þegar ákærði hefði sagt henni að þau hafi verið að sofa saman. Hefði það komið ákærða mjög á óvart og hafi honum fundist það óþægilegt. Þá sagðist ákærði á mánudagsmorgninum hafa reynt að ræða við brotaþola og biðja hana fyrirgefningar, ef einhvers misskilnings gætti um það sem gerst hefði þeirra í milli. Brotaþoli hefði hins vegar brostið í grát og ekki viljað ræða við hann. Fyrir dómi bar brotaþoli að ákærði hefði við þetta tækifæri sagt henni að þau hefðu sofið saman í tjaldinu, og hafi ákærði bætt því við að honum liði eins og hann hefði nauðgað henni. Kvaðst brotaþoli þá hafa sagt við ákærða að þetta væri nauðgun.  

Eins og áður greinir opnaði vitnið B tjaldið umrætt sinn og sagðist þá hafa séð ákærða liggja ofan á brotaþola. Brotaþoli hafi verið allsber, en ákærði með buxurnar niður um sig. Hafi brotaþoli legið á bakinu með lokuð augun og hendur upp fyrir höfuð. Kvaðst vitnið þá hafa lokað tjaldinu og verið að ganga í burtu þegar ákærði kom út úr tjaldinu og sagði honum að hann og brotaþoli hefðu verið að stunda samfarir. Fyrir dómi sagðist hann þess fullviss að brotaþoli hafi verið rænulaus, og tók fram að þessi minning væri föst í huga hans og gæti hann ekki gleymt henni. Hins vegar kvaðst vitnið ekki muna eftir því hvort hann hafi eftir þetta klætt brotaþola í föt eða hvort brotaþoli hafi aftur farið í brekkuna eða að sofa. Í lögregluskýrslu, sem tekin var af vitninu 28. september 2015, greindi hann frá atvikum á sama hátt og fyrir dómi og hafði einnig á orði að þetta væri eitthvað sem hann myndi aldrei gleyma. Þar sagði hann reyndar að brotaþoli hafi aðeins verið í nærbuxum og hafi hann séð brjóstin á henni, en ákærði hafi verið búinn að taka niður buxur sínar, en að öðru leyti í fötum. Hafi svipurinn á brotaþola verið „eins og hún væri næstum því dauð“. Þá sagði hann að brotaþoli hafi komið á brókinni úr tjaldinu og hafi hún ekkert vitað, „veit ekkert hvar hún er eða neitt“. Hjá lögreglu sagðist vitnið jafnframt hafa hjálpað brotaþola í skó og föt, ásamt ákærða, en týnt henni eftir það.

Meðal gagna málsins eru afrit af SMS-skilaboðum, sem ákærði sendi brotaþola 3. og 5. ágúst 2015. Í fyrri skilaboðunum segir ákærði að honum þyki þetta virkilega leiðinlegt og sjái svo eftir því að þetta hafi farið svona. Skilji hann fullkomlega að hún sé sár og reið, en voni að fyrir utan þetta hafi hún átt æðislega helgi. Um leið þakkar hann fyrir þá hluta helgarinnar sem þau nutu. Í þeim síðari segir hann að ennþá þyki honum ótrúlega leiðinlegt hvernig hlutir enduðu á milli þeirra og að þau hafi ekki getað talað saman aftur og útkljáð þetta þegar þau voru orðin edrú. Hafi hann hugsað mikið um þetta síðan og vildi að hlutirnir hefðu farið öðruvísi, sérstaklega þar sem helgin hafi verið búin að vera svo góð. Vonast hann síðan til þess að þau geti rætt þetta og komist að einhvers konar sáttum sem fyrst. Loks kveðst hann vilja að hann gæti bætt fyrir þetta og sér finnist ótrúlega leiðinlegt að þetta hafi endað svona.

Öll vitni sem gáfu skýrslu fyrir dómi og höfðu verið á þjóðhátíð með brotaþola og ákærða í umrætt sinn báru því við að langt væri um liðið og myndu þau ekki atvik nægilega vel. Engu að síður er það álit dómsins að framburður vitna fyrir dóminum styðji í einu og öllu frásögn brotaþola af því sem þar gerðist. Þannig liggur fyrir að brotaþoli varð ofurölvi í brekkunni á föstudagskvöldið og man hún nánast ekkert eftir því sem þar fór fram. Hún man heldur ekkert eftir því hvernig hún komst í tjald sitt eða að ákærði hafi haft við hana kynmök þegar þangað var komið. Þá er framburður vitnisins B um það sem hann varð vitni að í tjaldinu, og áður er lýst, trúverðugur, enda er hann í samræmi við skynjun ákærða sjálfs þegar hann lýsti ástandi brotaþola og eigin upplifun skömmu eftir samfarir hans við brotaþola. Á hinn bóginn þykir ótrúverðugt að brotaþoli, í því ástandi sem hún var umrætt kvöld og vitnin B, F og D hafa borið um fyrir dómi, hafi á einhvern hátt gefið til kynna að hún væri því samþykk að ákærði hefði við hana kynmök, og því síður að hún hafi tekið þátt í þeim. Í því sambandi er minnt á að samkvæmt framburði ákærða og vitnisins B vissi brotaþoli ekki hvað var í gangi og hefði hún ekki skilið neitt í því þegar ákærði hefði sagt henni að þau hefðu verið að sofa saman. Einnig vísast til viðbragða brotaþola, þegar vitnið B sagði henni á sunnudeginum hvað hann hefði séð í tjaldinu áðurnefnda nótt, samtals brotaþola við ákærða þann sama dag, svo og til SMS-skilaboða ákærða til brotaþola 3. og 5. ágúst 2015. Benda þau skilaboð eindregið til þess að ákærði hafi brotið á brotaþola, enda kveðst hann skilja fullkomlega að hún sé honum sár og reið.

Samkvæmt öllu framanrituðu þykir fram komin lögfull sönnun þess að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru er lýst og er þar rétt heimfærð til refsiákvæða.

II

Ákærði er fæddur í [...]. Hann á að baki sakaferil sem hefur þó ekki áhrif á ákvörðun refsingar í máli þessu. Við ákvörðun refsingar er til þess að líta að ákærði hefur gerst sekur um gróft og alvarlegt brot gegn brotaþola og kynfrelsi hennar. Á hinn bóginn skýrði ákærði af hreinskilni frá atvikum og ástandi brotaþola og upplifun sinni að kynmökum afstöðnum, þótt dómurinn fallist ekki á að kynmökin hafi verið með samþykki brotaþola. Einnig ber að taka tillit til þess að atvik þessa máls gerðust 31. júlí 2015 og var lögreglurannsókn að fullu lokið í nóvember það ár. Ákæra var sem fyrr segir ekki gefin út fyrr en 22. janúar 2018. Töf þessi á meðferð málsins verður hvorki rakin til ákærða né hefur hún verið réttlætt á annan hátt, en hafði hins vegar augljós áhrif á framburð vitna, sem öll báru um að langt væri um liðið og því erfitt að muna atvik. Er málsmeðferðin að þessu leyti í andstöðu við ákvæði 3. mgr. 18. gr. og 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008, 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Að því gættu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 20 mánuði. Ekki þykja efni til að skilorðsbinda refsinguna.

Af hálfu brotaþola er krafist miskabóta að fjárhæð 1.600.000 krónur. Brot ákærða var til þess fallið að valda brotaþola andlegri vanlíðan og kvíða, auk annarra einkenna sem lýst er í framlögðu vottorði J sálfræðings, sem einnig bar vitni fyrir dóminum. Samkvæmt því, og með vísan til b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, verður ákærði dæmdur til að greiða brotaþola miskabætur sem þykja hæfilega ákveðnar 1.500.000 krónur, auk vaxta eins og í dómsorði greinir.

Samkvæmt 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 68. gr. laga nr. 49/2016, verður ákærði dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar. Er þar um að ræða málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar lögmanns, 695.640 krónur, þóknun réttargæslumanns brotaþola, Þórdísar Bjarnadóttur lögmanns, 591.294 krónur, auk ferðakostnaðar lögmannsins, 10.440 krónur, svo og sakarkostnaður lögreglu að fjárhæð 320.480 krónur. Við ákvörðun þóknunar til lögmanna hefur verið tekið tillit til greiðslu virðisaukaskatts.

Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

 

D ó m s o r ð:

Ákærði, Helgi Fannar Sæþórsson, sæti fangelsi í 20 mánuði.

Ákærði greiði A 1.500.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. ágúst 2015 til 7. júní 2018, en dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar lögmanns, 695.640 krónur, þóknun réttargæslumanns brotaþola, Þórdísar Bjarnadóttur lögmanns, 591.294 krónur, auk ferðakostnaðar lögmannsins, 10.440 krónur, og annan sakarkostnað að fjárhæð 320.480 krónur.

 

Ingimundur Einarsson