- Gæsluvarðhaldsvist
- Líkamsárás leiðir til dauða
- Miskabætur
- Fangelsi
Ár 2018, mánudaginn 24. september, er á dómþingi Héraðsdóms Suðurlands, sem háð er í dómsal embættisins að Austurvegi 4, Selfossi af Hirti O. Aðalsteinssyni dómstjóra í málinu nr. S-135/2018:
Ákæruvaldið
(Kolbrún Benediktsdóttir
varahéraðssaksóknari)
gegn
Vali Lýðssyni
(Ólafur Björnsson
lögmaður)
kveðinn upp svohljóðandi
dómur:
Mál þetta, sem dómtekið var þann 3. september sl., er höfðað með ákæru héraðssaksóknara, dagsettri 20. júní 2018, á hendur ákærða, Vali Lýðssyni.
„fyrir manndráp, með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 31.
mars 2018 á heimili sínu að Gýgjarhóli 2 í Bláskógabyggð, veist með ofbeldi að
bróður sínum, A, en ákærði sló A ítrekuðum hnefahöggum í höfuð og líkama, auk
þess að sparka og/eða trampa ítrekað á höfði hans og líkama. Af þessu hlaut A
dreifða áverka, svo sem rispur, sár, margúla og blæðingar víða á líkama og
höfuð og alvarlegan höggáverka ofarlega vinstra megin á enni sem olli sári á
hörundi, blæðingu innan í höfuðkúpu og snöggri breytingu á meðvitundarstigi,
ógleði, svima og uppköstum sem leiddi til þess að A lést af banvænni innöndun magainnihalds. Auk þess
hlaut A mörg rifbeinsbrot hægra megin sem meðal annars ollu sári á hægra lunga
og lifur með blæðingum inn í fleiðruhol og kviðarhol og brot á 7. hálslið.
Telst þetta varða við 211. gr. almennra hegningarlaga nr.
19/1940,
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og
greiðslu alls sakarkostnaðar.
Einkaréttarkröfur:
Af hálfu B, er þess krafist að ákærða verði gert að greiða
henni miskabætur að fjárhæð kr. 10.000.000, að viðbættum vöxtum samkvæmt 1.
mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 31. mars 2018 og
til 22. júní 2018, en með dráttarvöxtum
samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna, frá þeim degi til
greiðsludags. Þá er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni
útfararkostnað að fjárhæð kr. 1.617.592, að viðbættum dráttarvöxtum samkvæmt 1.
mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 22. júní 2018 og
til greiðsludags. Loks er þess krafist að ákærða verði gert að greiða henni
málskostnað að skaðlausu, samkvæmt mati dóms eða síðar framlögðum
málskostnaðarreikningi, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Af hálfu C, er þess krafist að ákærða verði gert að greiða
honum miskabætur að fjárhæð kr. 10.000.000, að viðbættum vöxtum samkvæmt 1.
mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 31. mars 2018 og
til 22. júní 2018, en með dráttarvöxtum
samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna, frá þeim degi til greiðsludags.
Þá er þess krafist að ákærða verði gert að greiða honum málskostnað að
skaðlausu, samkvæmt mati dóms eða síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að
teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Af hálfu D, er þess krafist að ákærða verði gert að greiða
honum miskabætur að fjárhæð kr. 10.000.000, að viðbættum vöxtum samkvæmt 1.
mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 31. mars 2018 og
til 22. júní 2018, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr.
laganna, frá þeim degi til greiðsludags. Þá er þess krafist að ákærði verði
dæmdur til að greiða honum útfararkostnað að fjárhæð kr. 107.125, að viðbættum
dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og
verðtryggingu, frá 22. júní 2018 og til greiðsludags. Loks er þess krafist að
ákærða verði gert að greiða honum málskostnað að skaðlausu, samkvæmt mati dóms
eða síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að teknu tilliti til
virðisaukaskatts.“
Með skírskotun til 1. mgr. 153. gr. laga nr. 88/2008
um meðferð sakamála gaf héraðssaksóknari út framhaldsákæru þann 22. júní sl. á
hendur ákærða til að leiðrétta augljósa villu í framangreindri ákæru og var
eftirfarandi viðbót gerð á henni:
„Einkaréttarkrafa:
Af hálfu E, er þess krafist að ákærða
verði gert að greiða honum miskabætur að fjárhæð kr. 10.000.000, að viðbættum
vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá
31. mars 2018 og til 22. júní 2018, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna,
frá þeim degi til greiðsludags. Þá er þess krafist að ákærða verði gert að
greiða honum málskostnað að skaðlausu, samkvæmt mati dóms eða síðar framlögðum
málskostnaðarreikningi, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.“
Af
hálfu ákærða er þess krafist að hann verði sýknaður af ákæru um manndráp á A,
skv. 211 gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en til vara að hann verði
einungis dæmdur til að þola vægustu viðurlög sem lög framast leyfa vegna brots
þess sem hann kann að verða sakfelldur fyrir, og að brotið verði þá heimfært
undir 2. mgr. 218 gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Komi til
frelsissviptingar þá er þess krafist að gæsluvarðhaldsvist ákærða
komi að öllu leyti í stað refsingar, en að öðrum kosti komi hún að fullu
til frádráttar þeirri vist sem honum kann að verða dæmd. Þá er þess krafist að
bótakröfum í málinu verði vísað frá dómi. Verði það ekki gert þá er krafist
sýknu af bótakröfunum en að öðrum kosti, komi til sakfellingar og þess að bætur
verði dæmdar, að þá verði bæturnar lækkaðar verulega. Jafnframt er af hálfu
ákærða krafist málsvarnarlauna úr ríkissjóði, eftir mati dómsins, eða samkvæmt
málskostnaðaryfirliti.
Málavextir.
Samkvæmt gögnum málsins barst
lögreglu símtal í gegnum neyðarlínuna kl. 08:45 þann 31. mars sl. þar sem
ákærði tilkynnti að bróðir hans, A, væri látinn á heimili ákærða að Gýgjarhóli
2 í Bláskógabyggð. Í símtalinu hafi ákærði lýst því hvernig þeir bræður hefðu
lent í átökum kvöldið áður eftir að hafa setið við drykkju á heimilinu. Minni
ákærða af atburðum hafi verið óljóst en hinn látni hafi orðið brjálaður, þeir
tekist á, en svo hafi rjátlað af hinum látna. Í minningu sinni væri ákærði ekki
sökudólgurinn, hann hafi talið að greiðst hefði úr þessu um nóttina en fljótt á
litið væri hann bara morðingi. Þegar lögregla kom á vettvang hitti hún ákærða fyrir í
anddyri hússins að Gýgjarhóli. Í handtökuskýrslu er því lýst að blóðrák hafi
verið á höfði ákærða sem hafi legið frá hvirfli og þvert yfir enni hans. Hægri
hönd hans hafi verið sjáanlega blóðug, bæði á handarbaki og á fingrum, þá hafi
ákærði verið með gleraugu á sér sem fest hafi verið með gúmmíteygju um höfuð
hans. Af myndum sem lögregla tók af andliti ákærða má sjá blóðslettur um allt
andlit hans, áberandi blóðtaumur lá um enni ákærða en minni slettur víðs vegar
um andlit hans allt frá efri vör og upp að kollvikum hans. Þá sjást áverkar á
höfði ákærða. Á vettvangsmyndum má sjá gleraugu liggja á eldhúsgólfi við fætur
hins látna og er gler þeirra brotið.
Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að
hinn látni hafi legið á þvottahúsgólfi þar sem töluvert blóð hafi legið frá
höfði hans. Stór bogalaga skurður hafi verið á vinstra gagnauga hans, efri vör
hafi verið bólgin og töluvert blóð á andliti hans. Við fyrstu skoðun hafi aðrir
áverkar á líkama og búk ekki verið sjáanlegir en þegar fötum hafi verið lyft af
hinum látna hafi mátt sjá hvar líkblettir hafi verið farnir að myndast.
F, bróðir ákærða og hins látna, mun
hafa verið á heimilinu að Gýgjarhóli umrædda nótt og gaf hann skýrslu hjá
lögreglu. Hann taldi sig hafa lagst til hvílu um klukkan 22 og ekki orðið var
við neitt fyrr en hann hafi vaknað sjálfur um morguninn, hitt fyrir ákærða sem
hafi tilkynnt honum að bróðir þeirra væri látinn og beðið um síma F til þess að
hafa samband við neyðarlínu. Hafi F séð hvar hinn látni hafi legið, orðið við
því að hringja á neyðarlínu og í kjölfarið afhent ákærða símann.
Í handtökuskýrslu lögreglu er því
lýst hvernig F hafi átt erfitt með gang, engir sjáanlegir áverkar hafi verið á
honum sjálfum eða blóð sjáanlegt. Hafi hann blásið 0.0 ng/L í áfengismæli.
Fyrir liggur að F hafi fengið heilablóðfall árið 2005 og hafi það lítinn styrk
í fótum að hann geti ekki gengið sjálfur. Framburður F um að hann hafi lagst
til hvílu snemma umrætt sinn fái stoð í framburði ákærða um að F hafi dregið
sig til hlés snemma kvölds og lagst til hvílu. Að mati lögreglu töldust
skýringar F um að hann hafi ekki átt þátt í andláti hins látna trúverðugar og
fengu auk þess stoð í öðrum gögnum málsins.
Ákærði skýrði svo frá í skýrslutöku
hjá lögreglu að þeir bræður hefi allir þrír setið til borðs og borðað saman en
þar hafi einnig verið drukkið sterkt áfengi, fyrir og eftir kvöldmat. Hafi F
dregið sig til hlés og lagst til hvílu, líklega um kl. 22:00, en ákærði og hinn
látni setið áfram við mikla drykkju. Ákærði bar við minnisleysi um það sem á
milli þeirra hafi farið en peningalán ákærða til hins látna hafi þó borið á
góma en eitthvað hafi verið komið fram yfir umtalaðan greiðsludag. Við rannsókn
málsins var upplýst að ákærði hefði lánað A 8.000.000 krónur í septembermánuði
síðastliðnum vegna húsbyggingar á nafni sambýliskonu A. Ákærði kvaðst muna að
hann hafi verið orðinn verulega ölvaður en hann mundi ekki eftir að hafa lent í
átökum við A eða að hafa veitt honum þá áverka sem hafi dregið hann til dauða.
Við yfirheyrslu hjá lögreglu þann 6. apríl sl. greindi ákærði frá því að hann
myndi eftir óánægjuviðbrögðum frá A þegar ákærði hafi sagt honum frá áformum
sínum um framtíð jarðarinnar og búskapar að Gýgjarhóli 2. Ákærði gat ekki gefið
haldbærar skýringar á því hvers vegna áverkar hafi verið á honum sjálfum eða
hvers vegna blóð hafi verið á andliti hans, hendi og fötum þegar lögreglu hafi
borið að. Hann taldi áverkana benda til þess að hann hefði lent í einhverjum
átökum en hann gæti þó ekki fullyrt neitt um það. Þá væri hann með harðsperrur
í hálsinum sem hann hafi talið benda til að hann hefði lent í einhverjum átökum
eða verið tekinn hálstaki. Ákærði kvaðst hafa vaknað klæddur í rúmi sínu um
morguninn en ekki muna eftir því að hafa lagst í rúmið. Honum hafi brugðið í
brún að sjá bróður sinn liggja látinn á gólfi þvottahússins, því næst hafi hann
farið inn í herbergi þar sem F hafi sofið og beðið um síma hans til þess að
hringja á neyðarlínu. Hafi ákærði séð að gleraugu sín hafi legið brotin við
fætur hins látna og hafi hann ákveðið að hreyfa ekki við þeim.
F bróðir ákærða og hins látna kvaðst
hafa gengið til hvílu um kl. 22:00 umrætt kvöld að Gýgjarhóli en þá hafi bræður
hans setið eftir í eldhúsinu. Hann hafi ekki heyrt eða orðið var við átök í
húsinu eftir að hann hafi farið að sofa. Þegar hann hafi vaknað á níunda
tímanum morguninn eftir hafi ákærði þegar verið á fótum og greint F frá því að
alvarlegur atburður hafi orðið og að F bróðir þeirra væri látinn.
G læknir skoðaði hinn látna kl.
11:13 þann 31. mars sl. og staðfesti andlát hans. Hann taldi dánartíma vera að
minnsta kosti 6 tímum fyrir skoðun.
Við handtöku var ákærði með lítinn skurð á augabrún
auk áverka á hægra handarbaki. Þá var mikið blóð á fatnaði hans, sokkum, buxum
og peysu og var staðfest með DNA greiningu að um blóð úr hinum látna var að
ræða. Þá var einnig staðfest með DNA greiningu að blóð sem fannst á hægri hönd
ákærða og vinstri il hans hafi verið úr hinum látna. Samkvæmt læknisvottorði H
læknis dagsettu 31. mars sl. var ákærði við skoðun þann dag ekki sjáanlega
drukkinn en áfengislykt var úr vitum hans. Lítið fleiðusár/rispa var ofan við
vinstri augabrún og storknað blóð kringum sárið. Þá var lítið fleiðusár/rispa
ofarlega á miðju enni og storknað blóð í kringum sárið. Vægur þroti og mar á
hnúa nr. 4 á hægri hendi og yfir metacarpus 4 á handarbaki, væg þreifieymsli á
þessum svæðum og hægri hendi. Þá voru dökkir óhreinindaflekkir á höndum og
iljum sem læknirinn taldi að væru leifar af storknuðu blóði. Blóðsýni sem tekið
var úr ákærða kl. 11:21 þann 31. mars sl. sýndi 1.07‰ af alkóhóli og í þvagsýni
sem tekið var fjórum mínútum síðar mældist 1.36‰ af alkóhóli.
Niðurstöður vettvangsrannsóknar
bentu til þess að átökin hafi einkum orðið í þvottahúsi inn af eldhúsi
íbúðarhússins þar sem hinn látni lá er lögregla hafi komið á vettvang.
Blóðslettur og blóðferlar á vettvangi voru talin benda til að um ítrekuð
högg/spörk gagnvart hinum látna hafi verið að ræða. Þann 4. apríl sl. var framkvæmd svokölluð
Luminol rannsókn, m.a. í því skyni að kanna hvort blóðug ummerki hefðu verið
þrifin á vettvangi, en þetta efni mun hafa þann eiginleika að flúrljóma þegar
það kemst í snertingu við blóð og blóðleifar. Hafi ljómunarblettir komið fram á
gólfi í þvottahúsi og á þvottavél á þeim stað þar sem hinn látni hafði legið og
einnig á vaskaskáp, gólfteppi og kattaklóru en ekki hafi verið að sjá ummerki
um þrif á þeim. Hafi ljómunarblettir komið fram á eldhúsgólfi framan við dyrnar
að þvottahúsinu en ekki annars staðar í horni eldhússins. Ekkert markvert hafi
komið út úr Luminol rannsókn á baðherbergi, svefnherbergi ákærða eða svefnherbergjagangi
hússins. Þeir ljómunarblettir sem komið hafi fram hafi ekki borið þess merki að
vera þrifblettir.
Lögð hefur verið fram í málinu
blóðferlagreiningarskýrsla I og J, rannsóknarlögreglumanna og K,
réttarmeinafræðings, dags. 25. apríl sl. Það var álit þeirra að A hafi verið
veittar margar atlögur í þvottahúsinu, ein eða fleiri meðan hann var á fjórum
fótum með höfuðið framan við þvottavélina og að margoft hafi verið trampað ofan
á hægri síðu hans. Að frátöldum sárum í munni hafi eina útvortissárið sem blætt
hafi úr verið á höfði A. Blóð á þvottavél sé í samræmi við höggferla sem geti
myndast þegar hlut eða líkamshluta sé slegið í blautt blóð. Stefnuvirkni
blettanna og dreifing þeirra gefi vísbendingu um að þeir séu til komnir vegna
eins eða fleiri atvika. Þeir telja að A hafi verið í álútri stöðu eða á fjórum
fótum og höfuð hans hafi verið framan við þvottavélina á móts við svæði hægra
megin við þvottavélaropið þegar honum hafi verið veitt högg eða spörk í
höfuðið. Hafi blóðferlar á gólfi við höfuð A myndast eftir að hann hafi verið
kominn á gólfið. Hægri síða hans hafi snúið upp og á peysu hans hafi verið
stórt svæði með blóðkámi. Við krufningu hafi komið í ljós mörg brot á rifbeinum
á hægri síðu A. Þá telja þeir að blóð sem spýst hafi út frá polli undir höfðinu
geti verið til komið vegna hreyfingar höfuðsins í pollinum vegna högga eða
sparka í hægri síðu A. Við krufningu hafi komið í ljós að brotin rifbein hefðu
stungist í lifur en blóðmagn í brjóstholi hafi ekki verið mikið sem geti bent
til þess að hann hafi látist skömmu áður en hann hafi fengið þá áverka. Samkvæmt
krufningarskýrslu K, réttarmeinafræðings, dagsettri 17. apríl sl., voru
yfirgnæfandi líkur á að hinn látni hafi orðið fyrir ofsafenginni líkamsárás sem
hafi leitt til dauða hans. Fram kemur í skýrslunni að víða á líkama hins látna
hafi verið merki um marga höggáverka. Staðsetning, ákefð og formfræði þessara
áverka gefi sterklega til kynna aðild annars aðila. Það sé álit
réttarmeinafræðingsins að aðalhöggáverkinn hafi verið á höfuð og valdið snöggri
breytingu á meðvitundarstigi hins látna, ógleði, svima, uppköstum og að lokum
til banvænnar innöndunar magainnihalds. Höfuðáverkanir séu þess eðlis að þeir
samrýmist ekki falláverkum heldur séu sterkar líkur á að þeir hafi hlotist af
ítrekuðum hnefahöggum, spörkum/stappi eða höggum með einhvers konar áhaldi. Þá
hafi verið bólga og áverkar víðs vegar um andlit hins látna sem bendi til þess
að hann hafi verið sleginn ítrekað í andlit. Annað höggáhrifasvæði hafi verið
hægra megin á brjóstkassa sem leitt hafi til rifbrota og banvænna áverka á
hægra lunga og lifur. Þessir áverkar séu eftir a.m.k. eitt högg en þó að öllum
líkindum vegna endurtekinna högga/sparka. Lítið magn blóðs hafi fundist í
fleiðruholi og kviðarholi og er það mat réttarmeinafræðingsins að höggáverkinn
á hægri hlið hins látna hafi verið mjög nálægt dauða hans.
Á dómþingi þann 18. apríl sl. var L,
yfirlæknir á ……….., dómkvödd til þess að leggja mat á sakhæfi ákærða og hvort
ástand hans hafi á þeim tíma er hið ætlaða brot átti sér stað verið með þeim
hætti að 16. gr. almennra hegningarlaga ætti við um hann. Þá var óskað mats á
því hvort beita skyldi vægari ráðstöfunum eða vistun á hæli, sbr. 62. og 63.
gr. sömu laga. Niðurstaða hennar er dagsett 25. maí sl. og telur hún ákærða sakhæfan.
Hann sé ekki með geðsjúkdóm og ekkert í sögu hans bendi til þess að hann hafi
átt við alvarlegan geðrænan vanda að stríða um ævina eins og geðrof eða
geðrofssjúkdóm, hvorki fyrir atburð, meðan á honum stóð né eftir hann. Ekki
hafi komið fram merki um andlegan vanþroska, hrörnun eða rænuskerðingu af
þeirri gráðu er firri hann ábyrgð gerða sinna. Þá sé ákærði með eðlilega
greind. Hann hafi verið undir áhrifum áfengis á verknaðarstundu, hann muni ekki
atburði en óminnið tengist að öllum líkindum ölvun. Ekki hafi komið fram aðrar
skýringar á minnisleysi. Matsmaður taldi 16. gr. almennra hegningarlaga ekki
eiga við. Þau geðrænu einkenni sem lýst sé í matinu séu talin vera á
einhverfurófi en ekki af þeirri gráðu að þau leiði til ósakhæfis. Þau útiloki
heldur ekki fangelsisvist eða að refsing komi að gagni.
Matsmaður óskaði eftir því að M,
sérfræðingur ……….., mæti þroska ákærða og möguleg einkenni á einhverfurófi
ásamt því að leggja fyrir hann persónuleikapróf og skoða möguleg
félagskvíðaeinkenni. Í vottorði M dagsettu 24. maí sl. kemur fram að ákærði
hafi mælst með háa verklega greind og með afburðagreind á málfarslegum hluta
greindarprófs. Ekki hafi komið fram alvarleg geðræn einkenni eða
persónuleikavandamál en niðurstöður bendi til einkenna á einhverfurófi. Ákærði
hafi í viðtölum verið nokkuð bókstafslegur og hafi komið á óvart sumt sem hann
hafi ekki virst átta sig á varðandi sum einföld hugtök varðandi innra
hugarstarf. Hækkun hafi verið á einhverfulista og frekari vísbendingar um
einkenni á einhverfurófi hafi meðal annars komið fram í viðtölum, framkomu,
talsmáta, litlu innsæi í eigið tilfinningalíf og sérstökum áhugamálum sem hann
verði mjög upptekinn af og félagslegri hæfni.
Framburður ákærða og
vitna fyrir dómi.
Ákærði skýrði svo frá fyrir dómi
að bræður hans hafi komið í heimsókn til hans upp úr hálf sjö á föstudeginum.
Þeir hafi borðað kvöldmat og neytt áfengis, en ákærði kvaðst hafa verið búinn
að taka þá ákvörðun að hætta neyslu áfengis. F bróðir þeirra hafi einnig
drukkið en gengið til náða um tíuleytið. A
hafi alltaf bætt í glösin og hafi þeir drukkið og spjallað saman. Ákærði
kvaðst ekki hafa munað mikið eftir samtali þeirra en peningalán hans til A hafi
borið á góma en einnig hugmyndir ákærða eða draumar um jörðina, hann hafi ætlað
að færa bæjarstæðið, hefja búsetu út í Melum og til stæði að leggja þarna mjög
mikla kaldavatnsveitu. Þegar ákærði hafi verið að lýsa þessu hafi komið einhver
ólundarviðbrögð hjá A og kvaðst ákærði ekki muna meira um það nema að hann
kvaðst muna eftir illilegu andliti líku A, en þó hafi honum fundist að það væri
ekki hann. Ákærði kvaðst ekki muna meira og þá kvaðst hann ekki muna eftir
neinum átökum milli þeirra. Ákærði kvaðst hafa vaknað upp úr klukkan átta um
morguninn, hann hafi verið léttur í lund og grandalaus þar til hann hafi komið
fram í þvottahús og séð A liggja þar á grúfu, frekar á vinstri hlið. Hafi honum
fyrst dottið í hug að hann lægi þarna dauður í ölmæði, en talsvert blóð hafi
verið þarna. Hann kvaðst hafa lagst á hnén vinstra megin við A og tekið í hægri
olnboga hans til að finna hvort dauðastirðnun væri byrjuð og hafi honum virst
það greinilegt og því hafi hann ekki hróflað meira við honum. Hann kvaðst síðan
hafa fengið síma lánaðan hjá F og hringt í neyðarlínuna og kallað eftir
lögreglu. Fljótlega hafi björgunarsveit
komið á vettvang og kvaðst hann eiginlega hafa synjað þeim inngöngu í því skyni
að ekki yrði hróflað við vettvangi. Ákærði kvaðst hafa verið slöttungsölvaður
og fundið gleraugun sín við þröskuldinn milli eldhúss og þvottahúss en annað glerið
hafi verið brotið og því hafi hann sett þau á sama stað. Hann kvaðst að öðru
leyti ekki hafa hróflað við neinu en vettvangur hafi eindregið bent til þess að
hann hefði átt þarna hlut að máli því hann hefði verið blóðrisa í andliti. Þá
hafi hann ekki tekið eftir því að hann hefði verið með glóðarauga þeim megin
sem gleraugun höfðu brotnað. Hann kvað hafa flogið afgerandi að sér að stytta
sér aldur þar sem yfirgnæfandi líkur hafi bent til þess að hann hefði átt þarna
afgerandi hlut að máli. Hann hafi því ekki treyst sér til þess að slíta
samtalinu við neyðarlínuna og síðar lögregluna. Hann kvaðst ekki hafa sagt F
alveg strax frá því sem hefði gerst, en hann hafi fljótlega áttað sig á því.
Ákærði mundi ekki eftir því að hann eða A hafi talað við N fyrr um kvöldið.
Hann kvað þá A báða hafa drukkið mjög mikið, en A hafi einn séð um að hella í
glös þeirra, en ákærði kvaðst ekki hafa neytt áfengis síðustu þrjá mánuði fram
að þessu. Hann kvað sér hafa hætt til að drekka of mikið og hafi það oftar en
einu sinni komið fyrir að hann hefði drukkið það mikið að hann myndi ekki eftir
sér. Þá hefði það komið fyrir að hann hefði lent í stimpingum undir áhrifum
áfengis en aldrei við A þótt þeir hefðu oft drukkið saman. Ákærði mundi ekki
eftir neinu ósamkomulagi við A umrætt kvöld. Ákærði mundi ekki eftir því að
hafa farið að sofa og kvaðst hann hafa vaknað í rúmi sínu í þeim fötum sem hann
hafi verið í um kvöldið. Ákærði kannaðist við að hafa verið blóðugur á hægri
hendi ofan á handarbaki og svo hafi verið mar á handarbakinu sem hann hafi
haldið að hafi verið eftir handjárn. Ákærði kvaðst efast um þá kenningu að
marið hefði komið vegna þess að hann hefði verið að slá. Hann kvaðst hvorki
hafa þvegið sér um hendur né í framan. Ákærði kannaðist við að blóð úr A hefði
fundist á fötum hans
og kvaðst hann ekki hafa aðra skýringu á því en þá að hann hljóti að hafa lamið
hann. Ákærði taldi yfirgnæfandi líkur á að orðið hefðu svæsin átök milli hans
og A, barsmíðar af beggja hálfu og vafalaust meiri af hálfu ákærða. Ákærði
mundi ekki eftir því að hafa stigið í blóð um morguninn og því gat hann ekki
gefið skýringu á blóði undir báðum fótum hans. Ef þessir blettir hefðu komið um
nóttina hefði blóð átt að sjást á eldhúsgólfinu og á ganginum. Hann mundi ekki
eftir því hvort hann hefði verið í skóm en fannst það ótrúlegt, hann hafi ekki
átt neitt erindi út. Ákærði kvaðst aldrei hafa borið þungan hug til A og hafði
hann engar skýringar á því sem gerðist en hann kvaðst hafa furðað sig á því
hvað A hefði tekið ónotalega í hin glæsilegu áform ákærða varðandi jörðina, en
ákærði hafi verið að velta því fyrir sér að láta hana renna til frænku þeirra.
Ákærði kvaðst eiga jörðina einn.
F, bróðir
ákærða, nýtti sér rétt sinn samkvæmt b-lið 1. mgr. 117. gr. laga nr. 88/2008 um
meðferð sakamála og skoraðist undan vitnisburði í málinu.
Vitnið O
skýrði svo frá fyrir dómi að hún starfi í ………… og hafi verið kölluð að
Gýgjarhóli vegna meðvitundarleysis. Hún kvaðst hafa hitt ákærða þar og spjallað
við hann. Hann hafi verið í símanum og í dálitlu uppnámi. Hann kvaðst hafa
vaknað um morguninn og áttað sig á því að bróðir hans hefði látist um nóttina
og hefði hann talað um að þeir hefðu verið að rífast og þá hafi hann nefnt að
þeir hefðu eitthvað verið að takast á. Hún kvaðst hafa metið það svo að ákærði
væri töluvert drukkinn en hann hafi ekki verið slagandi.
Vitnið P
skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi farið á vettvang eftir að hafa fengið
útkall og hitt þar ákærða og hafi verið blóðslettur á honum á andliti og
höndum. Hann hafi verið nokkuð rólegur en hann kvaðst ekki hafa heyrt hvað
ákærði hafi sagt um það sem gerst hefði.
Þegar skýrsla vitnisins hjá lögreglu var borinn undir hann kannaðist
hann við að ákærði hafi sagt að þetta hafi komið fyrir hann sakleysingjann og
þá hafi hann talað um að honum og bróður hans hefði orðið sundurorða en hann
hafi haldið að hann hafi verið orðinn rólegur þegar hann hafi farið að sofa.
Vitnið R
skýrði svo frá fyrir dómi að hann starfi í …………. og hafi hann farið á vettvang.
Hann kvað ákærða hafa komið út um þvottahúshurðina, hann hafi verið í símanum
og verið rólegur en blóðugur á höfði og hnúum. Hafi ákærði orðað það þannig að
hann hefði orðið mannsbani en hann mundi ekki hvort hann hafi lýst því eitthvað
nánar. Hann kvaðst ekki hafa séð hvort ákærði var undir áhrifum áfengis.
Vitnið S
lögreglumaður skýrði svo frá fyrir dómi að komið hafi boð frá fjarskiptum um
meðvitundarleysi og þegar komið hafi verið á vettvang hafi ákærði staðið fyrir
utan ásamt þremur frá vettvangsteymi frá Flúðum. Hún kvaðst hafa sett ákærða í
handjárn, tekið símann úr höndum hans, fært hann í lögreglubifreiðina og kynnt
honum réttarstöðu hans. Ákærði hafi verið mjög rólegur, hann hafi ekkert
streist á móti og þá hafi hún fundið áfengislykt af honum. Hann hafi verið með
áverka á hægri hendi og á höfði.
Vitnið I
lögreglufulltrúi skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði farið á vettvang þar
sem teknar hafi verið myndir og líkið skoðað. Hann kvaðst hafa farið á vettvang
nokkrum sinnum eftir þetta í tengslum við leit með efnaaðferð að blóðummerkjum
sem hugsanlega hefðu verið hulin. Þá
hafi hann komið aftur til þess að taka myndir vegna blóðferlagreiningar. Hann
kvað blóðummerki hafa verið til staðar nánast eingöngu í þvottahúsinu og þar
hafi verið strigaskór á gólfinu sem hafi verið mettaður af blóði, bæði að innan
og utan, en ekki hafi verið blóð undir honum. Ekkert hafi bent til þess að átök
hefðu orðið annars staðar en í þvottahúsinu, brotin gleraugu hafi verið við
þröskuldinn milli þvottahúss og eldhúss og brot úr þeim hafi verið undir eða
við eldhúsborðið. Hann kvað Luminol rannsókn ekki hafa sýnt að neitt hefði
verið þrifið upp. Hann kvað blóðferlagreiningu hafa leitt í ljós að A hafi
verið veitt högg, eitt eða fleiri, þar sem hann hefði verið í álútri stöðu eða
á fjórum fótum framan við þvottavélina og sennilega mjög nálægt henni. Þá hafi
hann þegar verið kominn með eitthvert blæðandi sár því að við högg eða spark á
þeim stað kastast blóðið með þeim hætti sem að fram komi á mynd af
þvottavélinni, síðan séu blóðferlar á gólfinu í kringum höfuð hins látna sem
liggi í allar áttir. Þeir hafi væntanlega komið við það að höfuðið sé að skella
í blóðið á gólfinu, fyrir utan það sem hafi verið næst höfðinu hafi fjarlægustu
blettirnir verið í 45 og 60 centimetra fjarlægð frá höfðinu í áttina að dyrunum
út úr þvottahúsinu út á hlaðið. Það sé kölluð stefnuvirkni, stundum megi sjá á blettum úr hvaða átt þeir
hafi komið þegar þeir lenda og stefnuvirkni þeirra sé þannig að það megi ætla
að þeir hafi átt sér upprunastað við höfuðið. Hafi einhver hreyfing orðið til
þess að blóðið hafi kastast þessa vegalengd, ætla mætti að það gæti gerst þegar
slegið eða sparkað sé í síðu hins látna. Vitnið staðfesti að blóðblettir eða
blóðslettur hafi bent til þess að hinum látna hefðu verið veitt eitt eða fleiri högg þegar hann hafi verið í álútri stöð eða
krjúpandi við þvottavélina en hann taldi ekki að þessir blettir hefðu komið úr
sári hins látna á enninu, þeir hefðu frekar komið úr munni hans. Hann taldi að
sárið á enninu hefði komið annað hvort við það að hann hafi skollið í gólfið
eða höfði hans hafi verið skellt í gólfið, en ekkert barefli hefði fundist á
vettvangi. Hann kvað blóð á sokkum ákærða og á peysu hins látna samrýmast því
að trampað eða sparkað hefði verið ítrekað í hægri síðu hans. Hann treysti sér ekki til að segja til um það
hvort Luminolið hefði átt að nema það ef einhver hefði gengið um í eldhúsi með
þurrt blóð á sokkum. Það hafi ekki gefið svörun á þurru blóði í þvottahúsinu
þar sem stóru blettirnir hafi verið, en á öðrum stöðum hafi komið luminolsvörun
sem í sumum tilfellum geti verið blóð sem hafi verið þrifið en þekkt sé að
önnur efni geti gefið svörun eins og t.d. þvottaefni. Vitni tók fram að ekkert
benti til þess að reynt hefði verið að þrífa ummerki, gólfið hafi verið rykugt
og hár á því. Hann kvað engin ummerki hafa fundist sem hafi bent til þess að
hinn látni hefði fallið á stall eða brún milli gönguleiðarinnar á milli eldhúss
og útidyranna.
Vitnið T rannsóknarlögreglumaður skýrði svo frá í
símaskýrslu fyrir dómi að rannsókn á vettvangi hefði leitt í ljós að hinn látni
hefði ekki dottið á steyptan kant í þvottahúsinu.
Vitnið U
lögreglumaður skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi farið á vettvang og hafi
ákærði staðið úti á tröppum, blóðugur í framan og á höndum og hafi hann verið
handtekinn. Hann hafi verið samvinnufús, færður í járn og beint inn í bíl þar
sem honum hafi verið kynnt réttarstaða hans. Vitnið kvaðst hafa kannað hvort A
væri lífs eða liðinn, hann hafi engan púls fundið, hann hafi legið á vinstri
hlið og hafi legið blóðtaumur frá höfði hans. Hann kvaðst hafa beygt hné hans
aðeins og fundið að kominn væri smá stirðleiki í hann og hafi hann greinilega
verið látinn, en hann hafi samt verið volgur viðkomu, en hlýtt hafi verið inni
í rýminu. F hafi setið við eldhúsborðið og verið svolítið utan við sig. Honum
hafi verið kynnt réttarstaða hans en hann hafi ekki virst átta sig á því hvað
væri í gangi. Hann hafi aðstoðað F við að fara inn í aðra lögreglubifreið sem
hafi verið komin á vettvang. Hann kvaðst hafa litið inn í öll herbergi í húsinu
til þess að tryggja að þar væri enginn og hafi húsinu síðan verið lokað. Hann
kvað ákærða hafa verið sjáanlega ölvaðan en hann hafi verið vel áttaður.
Vitnið G
læknir skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði verið kallaður á vettvang vegna
meðvitundarleysis eins og tilkynningin hafi hljóðað. Hann kvaðst hafa skoðað A
kl. 11:13 og hafi hann verið látinn, hann hafi legið á hægri hlið með andlitið
hægra megin niður. Hafi líkblettir verið farnir að myndast en ekkert hefði bent
til þess að líkið hefði verið hreyft. Hann staðfesti að dánartíminn hefði verið
a. m. k 6 tímum fyrir skoðun.
Vitnið H
læknir skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi skoðað ákærða og fundið tvær
rispur á höfði hans og mar á hnúa og miðhandarbeini hægri handar. Þá hafi verið
dökkir blettir á höndum og iljum ákærða sem hann hafi talið leifar af storknuðu
blóði. Hann taldi að mar á hnúum væri tilkomið eftir einhvers konar högg og
ólíklegt að áverkinn stafaði af handjárnum.
Vitnið J
lögreglufulltrúi skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi komið á vettvang
nokkrum dögum eftir atburðinn en sérfag hans sé blóðferlagreining. Framkvæmd
hafi verið efnaleit með Luminol til þess að kanna hvort einhver ummerki væru um
þrif en svo hafi ekki reynst vera. Hann staðfesti að hafa unnið skýrslu um
blóðferlagreiningu ásamt I og K. Hafi þeir verið sammála um að atburðurinn
hefði orðið í þvottahúsinu. Hann kvað blóðbletti sem séu einkennandi fyrir
höggslettur hafa verið á framanverðri hlið þvottavélarinnar og hafi blóðferlar
verið í rökréttu samhengi við að hinn látni hafi verið þar þegar hann hafi
fengið högg, hugsanlega tvö til þrjú og hafi hann hugsanlega verið á fjórum
fótum. Hann taldi að um gæti verið að ræða blóð úr munni eða nefi, en blóð úr
enni hafi lekið á gólfið.
Vitnið V,
sérfræðingur ……………skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði fengið til rannsóknar
fatnað, bæði frá hinum látna og ákærða og einnig sýni sem varðveitt hefðu verið
við vettvangsrannsókn. Þá hafi hann haft milligöngu um að varðveita sýni úr
fatnaðinum og senda sýni til DNA rannsóknar.
Hann kvað sýni sem tekin hefðu verið af hægri hendi og il beggja fóta
hafa verið samkennd við ákærða. Sýni sem tekið hefði verið af hægri hendi og af
il vinstri fótar hafi verið samkennd við hinn látna, en ekki hafi verið hægt að
samkenna stroksýni sem tekið hefði verið af il hægri fótar ákærða við einhvern
ákveðinn einstakling. Þá hafi komið fram DNA snið bæði úr ákærða og hinum látna
í fötum ákærða. Þá hafi blóðblettir á
báðum sokkum ákærða, bæði á rist og il, reynst vera úr hinum látna. Vitnið staðfesti að sýni sem tekin hafi verið
af þvottavél og inni í tromlunni hafi öll verið samkennd við hinn látna, en
eitt sýni sem tekið hefði verið við höfðagafl á rúmi ákærða hafi verið samkennt
við hann. Þá hafi öll sýni úr fatnaði látna verið samkennd við hann. Vitnið
kvað engin sýni sem send hafi verið út úr fatnaði hins látna verið samkennd við
ákærða.
Vitnið K, klínískur dósent, réttarmeina- og
blóðferlafræðingur, skýrði svo frá fyrir dómi að niðurstaða krufningar hafi
verið bráð andnauð sem leitt hafi til dauða en ástæða þessa hafi verið innöndun
innihalds maga. Sú innöndun hafi verið afleiðing þungra högga á höfuð og
niðurstaðan sú að andlátið hafi verið með óeðlilegum og líklega saknæmum hætti.
Á tveimur svæðum líkama hins látna hafi verið lífshættulegir áverkar, annars
vegar á höfði og hins vegar á hægri hlið líkamans. Hafi hinn látni hlotið sár
og margúla á vinstra ennissvæði og blæðingu innan höfuðkúpu. Í tengslum við
þessa áverka hafi verið blæðingar inn á hálsvöðva og brot í sjöunda hálslið,
margúlar í brjóstkassa vinstra megin, mörg rifbeinsbrot og hafi tvö þessara
brota verið þannig að þau hafi stungist annars vegar í lifrarsvæði og hins
vegar í kvið og lungu. Formfræði þessara áverka samsvari þungum höggum, til
dæmis með fæti eða að það hafi verið sparkað í viðkomandi eða stappað á honum
með berum fæti, jafnvel í sokkum. Þá
hafi hinn látni hlotið fjölda annarra áverka sem ekki hafi verið
lífshættulegir. Hann hafi hlotið sár, sérstaklega á hægra augnlok, neðarlega við
hægra eyra sem og á neðri vör. Þá hafi hann verið með margúla við hægra eyra
innan beggja augnsvæða, á nefinu á kinnbeinum og á efri og neðri vörum. Þá hafi
hinn látni einnig verið með margúla hægra megin á hnakkasvæði höfuðs, á
mjaðmaspaða, á báðum olnbogum og á fingrum hægri handar, hann hafi verið með
yfirborðsáverka fyrir neðan hægra kinnbein og rispur við hægri augnbrún og á
nefi og á hægri handlegg voru fingraför, gripför, en þessir áverkar hafi allir
verið afleiðing af þungum höggum til dæmis spörkum og/eða kýlingum og einnig að
gripið hefði verið í hægri handlegg hins látna. Hann kvað myndir af krufningu
sýna bólgur víða á andlitinu og þessar bólgur dreifist bæði við kinnbein í
augnsvæði og upp á enni. Hægra megin á andliti hins látna sé frekar stór
margúll og í miðju margúlsins, nokkurn veginn í miðju, sé sár sem hafi opnast
og þessu hafi valdið þungt högg og síðan rispur sem hafi myndast þegar skinnrof
hafi orðið. Þá bendi áverki á eyra til
þess að stappað eða sparkað hafi verið á svæði aftan við það. Hann taldi fall á
sléttan hlut ekki geta valdið áverka af þeim toga sem var á höfði hins látna,
engar rispur séu í sárinu en við að falla á sléttan flöt myndu myndast rispur
einhvers staðar í sárinu. Þá bendi sár í munni til kýlingar á munnsvæði og
margúlar í kringum augu hafi líklegast orðið vegna kýlinga. Þá bendi skoðun á
heila ekki til þess að áverkinn stafi af falli. Þá kvaðst hann hafa greint
áverka á hálsi, sérstaklega vinstra megin að neðanverðu sem og brot í sjöunda
hálslið en slíkur áverki getur orðið við snögga hreyfingu höfuðsins til hliðar
og það verði óeðlilega mikil teygja á hálsinum og geti valdið blæðingum. Geti
orsök þessa verið að stappað hafi verið eða sparkað með fæti í háls viðkomandi.
Þá hafi verið margúlar á efri hluta útlima en miðað við staðsetningu þeirra séu
þetta einkennandi eða dæmigerð för eftir að gripið hafi verið í
viðkomandi. Þegar litið sé inn í
líkamann, inn fyrir húðina og lífhimnu þá sjáist miklar blæðingar sem hafi
samræmst þeim áverkamerkjum sem sáust á bakinu en þessir áverkar samræmist
miklum spörkum eða að stappað hafði verið á bak viðkomandi. Þessir áverkar geti
ekki samræmst því að hinn látni hefði til dæmis fallið í gólfið eða á jörð eða
verið kýldur í bakið. Þá samræmist
rifbeinsbrotin því ekki að hann hefði fallið og ljóst að ekki sé um eitt tilvik
að ræða heldur endurtekin. Göt hafi verið í lungu og lifur af völdum brotinna
rifbeina en ákaflega lítið blóð hafi verið í kringum lifrina en lifrin sé
líffæri þar sem sé mikið blóð í vefjum. Hafi þessi áverki orðið annað hvort
rétt fyrir andlát eða eftir andlát. Það sé möguleiki að það hafi verið stappað
á þennan líkamshluta rétt fyrir andlát eða nokkrum mínútum jafnvel hálftíma,
klukkutíma eftir dauða. Síðasta stig fyrir dauðann hafi verið innöndun
innihalds maga. Hafi vélinda hins látna verið fullt af magainnihaldi og það
sem hefði gerst hafi verið að hinn látni
hafi kastað upp og það séu þekkt viðbrögð hjá einstaklingi sem hafi hlotið
skaða á höfði, það er að segja innanskúmsskaða. Þegar hann byrji að kasta upp
þá sé hann með litla meðvitund og í því ástandi ófær um að losa sig við
innihald magans. Þá hafi áfengismagn í
blóði hins látna haft áhrif á getuleysi hans til þess að bregðast við uppsölu.
Orsök dauðans hafi því verið bráðir öndunarörðugleikar og þáttur sem stuðlað
hafi enn frekar að því hafi verið höfuðáverki og missir meðvitundar og þegar
hann hafi legið á gólfinu og byrjað að æla eða að magainnihald fór upp í
vélinda og hækkað þar til það hafi fyllt
munnhol. Það sem næst gerist sé innöndun þess sem komi upp úr maga og
viðkomandi kafnar. Það megi segja að áfengismagn í hinum látna hafi haft áhrif
á dauða hans en ekki valdið honum. Hafa verði í huga þol viðkomandi, hversu
vanur hann sé áfengisneyslu og hvernig líkami hans myndi bregðast við
mismunandi stigum áfengisneyslu. Hefði hinn látni verið vanur að neyta áfengis
taldi vitnið að áfengismagnið sem mældist í honum væri ekki afgerandi ekki síst
að teknu tilliti til þess að krufningin hafi leitt í ljós heilablæðingu og
innanskúmsblæðingar sem hafi leitt til missis meðvitundar og uppkasta. Vitnið
kvað áverkann á höfði og rifbeinsbrotin hafa verið lífshættulega áverka og
hefði hann ekki fengið áverkann á höfuðið hefði áverkinn á lifur dregið hann
til dauða fengi hann ekki læknishjálp strax eða fljótlega. Vitnið taldi að hinn
látni hefði fengið að minnsta kosti sex högg á höfuð, annað hvort með krepptum
hnefa eða með fæti og að minnsta kosti tvö högg á líkama, annað hvort með
sparki eða stappi, en hugsanlega fleiri. Hann kvað sum höggin á andlit hafa
verið veitt með miklum krafti og þá bendi ýmislegt til að krafturinn þegar
stappað hafi verið á líkama hins látna hafi verið í meðallagi, hugsanlega
mikill.
Vitnið kvaðst einnig hafa unnið að blóðferlagreiningu
með lögreglunni og kvað hann niðurstöður hennar ríma við niðurstöður
krufningarinnar. Þá kvaðst hann hafa skoðað ákærða sem hafi borið minni háttar
áverka sem bent hafi til þess að hann hafi lent í átökum. Hann kvað hafa komið
mjög á óvart að ekki hefðu fundist merki um blóð annars staðar í íbúðinni, en
vitað væri að ákærði hefði gengið um íbúðina á blóðugum sokkum, en ekki væri
útilokað að blóð í sokkum ákærða hefði þornað alfarið þegar hann gekk um.
Vitnið L yfirlæknir kom fyrir dóm og staðfesti skýrslu
sína. Hún kvaðst hafa komist að þeirri niðurstöðu að ákærði væri sakhæfur og
hafi ekkert komið fram sem gefið hafi neina vísbendingu um einhverja skerðingu
á vitsmunalegri getu. Hún hafi hitt hann í fimm skipti og ekkert hafi komið
fram um að hann hefði verið haldinn
alvarlegum geðsjúkdómi um ævina eða á verknaðarstundu og það hafi engin merki
verið um alvarlega geðsjúkdóma eins og geðklofa eða geðhvörf. Þá hafi ekki
komið fram nein merki um vitglöp eða byrjandi vitglöp eða neitt slíkt, en komið
hafi fram að ákærði hafi átt við áfengisvanda að stríða og ætti sögu um óminni
tengdu áfengisdrykkju áður fyrr. Hafi ákærði haft áhyggjur af þessu og hafi
hann tekið ákvörðun um áramótin að hætta að drekka. Fram hafi komið hjá ákærða
að hann myndi ekki eftir nema fyrri hluta kvöldsins og þá kannaðist hann ekki
við að hafa verið á neinn hátt reiður við bróður sinn. Þá hafi einnig komið
fram að hann sæi ekki aðra skýringu en þá að hann hefði orðið valdur að dauða
bróður síns. Hún kvað erfitt að áætla nákvæmlega hversu ölvaður ákærði hefði
verið á verknaðarstundu, en ljóst hafi verið að ölvunin hafi verið töluverð og
ef ölvun sé mikil minnki hömlur, einstaklingar meðtaki minna af upplýsingum úr
umhverfinu, almennur skilningur á aðstæðum fer minnkandi og einbeiting
skerðist. Erfiðara verður að stjórna tilfinningum, dómgreind skerðist, getan
til að átta sig á afleiðingum og með hækkandi áfengismagni versni þessi
einkenni og tilfinningalegt ójafnvægi verður meira áberandi og æsingur. Þá
aukast líkur á óminni og jafnvel óreiðukennd og versni þetta eftir því sem
áfengismagn í blóði eykst. Komið hafi mjög skýrt fram og endurtekið hjá ákærða
að hann sæi verulega eftir þessu en hann gæti ekki gefið neina skýringu á því
hvernig þetta hefði gerst.
Vitnið M kom fyrir dóm og staðfesti skýrslu sína. Hann
kvað L hafa óskað eftir mati hans á
persónuleika ákærða og mögulegum einhverfueinkennum. Hann kvað enga sögu um
alvarleg geðræn veikindi hjá ákærða, en einhver kvíði hafi greinst hjá honum en
ekkert sem hafi hamlað honum. Hann hafi mælst með mjög góða greind og
málfarslega hafi hann mælst með afburðagreind. Hann sé með mjög góða verklega
greind en engin merki hafi fundist um persónuleikavandamál. Margt hafi bent til
þess að hann væri á einhverfurófi og hafi saga hans, viðtöl við hann og
áhugamál staðfest það. Þá sé hann með mjög gott minni og engin merki um
byrjandi vitglöp hafi fundist.
Vitnið N skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi fengið
hringingu frá A umrætt kvöld um kl. hálf ellefu til ellefu og hafi þeir talað
létt saman. Hann hafi sagt að hann væri á Gýgjarhóli hjá Vali bróður sínum og
hafi hann sagt að hann væri undir áhrifum áfengis. Vitnið kvaðst þó ekki hafa heyrt það á honum. Hann hafi sagt að frá
því að hann hefði verið á vertíð í Vestmannaeyjum hefði hann haldið því að fá
sér í glas á föstudaginn langa. Hann kvaðst ekki hafa heyrt annað en að vel
hafi farið á með þeim bræðrum og þá kvaðst hann ekki hafa heyrt í öðrum.
Niðurstaða.
Ákærða er í máli þessu gefið að sök að hafa veist með ofbeldi að bróður sínum, A og slegið hann ítrekuðum hnefahöggum í höfuð og líkama auk þess að sparka og/eða trampa ítrekað á höfði hans og líkama. Hafi A hlotið af þessu áverka sem nánar er gerð grein fyrir í ákæru og leiddu til þess að hann lést af banvænni innöndun magainnihalds. Auk þess hafi A hlotið mörg rifbeinsbrot hægra megin sem meðal annars hafi valdið sári á hægra lunga og lifur með blæðingum inn í fleiðruhol og kviðarhol og brot á 7. hálslið. Er þessi háttsemi ákærða talin varða við 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot gegn þeirri lagagrein varðar fangelsi, ekki skemur en 5 ár, eða ævilangt. Ákærði neitar sök og krefst sýknu en til vara að verði hann sakfelldur verði brotið heimfært undir 2. mgr. 218 gr. almennra hegningarlaga, en samkvæmt þeirri lagagrein varðar brot fangelsi allt að 16 árum ef stórfellt líkams- eða heilsutjón hlýst af árás eða brot er sérstaklega hættulegt vegna þeirrar aðferðar, þ. á m. tækja, sem notuð eru, svo og þegar sá, er sætir líkamsárás, hlýtur bana af atlögu.
Ákærði hefur borið við minnisleysi
að mestu varðandi þá atburði sem hér er fjallað um. Hann kannast við að hafa
setið við drykkju á heimili sínu ásamt A heitnum eftir að F bróðir þeirra var
genginn til náða en hann kveðst ekkert muna eftir átökum við A. Hann kveðst
ekki muna mikið eftir samtali þeirra en rætt hafi verið um peningalán hans til A
og hugmyndir ákærða varðandi jörðina Gýgjarhól og hafi hann orðið var við
einhver ólundarviðbrögð hjá A við því og jafnframt kveðst hann muna eftir
illilegu andliti líku honum. Vitnið N kvað A hafa hringt í sig umrætt kvöld um
kl. hálf ellefu til ellefu og hafi hann ekki heyrt annað en að vel hafi farið á með þeim bræðrum.
Ákærði kveðst hafa vaknað upp úr klukkan átta um morguninn léttur í lund og
hann hafi verið grandalaus þar til hann hafi fundið A bróður sinn látinn í
þvottahúsinu. Fyrir dómi taldi ákærði yfirgnæfandi líkur á að orðið hefðu
svæsin átök milli hans og A, barsmíðar af beggja hálfu og vafalaust meiri af
hálfu ákærða.
Samkvæmt framansögðu er enginn til frásagnar um þá
atburði sem leiddu til dauða A heitins og verður því að byggja á niðurstöðum
vettvangsrannsóknar, krufningar á líki A og þeim vísbendingum sem
blóðferlagreiningar geta gefið um málsatvik. Samkvæmt krufningarskýrslu K, réttarmeina-
og blóðferlafræðings, var dánarorsökin bráð andnauð vegna banvænnar innöndunar
magainnihalds, en sú innöndun hafi verið afleiðing þungra högga á höfuð. Þá
hafi áfengismagn í blóði hins látna haft áhrif á getuleysi hans til þess að
bregðast við uppsölu. Einnig hafi verið lífshættulegir áverkar á hægri hlið
líkama hins látna og hefðu brotin rifbein stungist í lungu og lifur nálægt
dánarstundu eða skömmu eftir hana og hefði hinn látni ekki fengið áverkann á
höfuðið hefði áverkinn á lifur dregið hann til dauða fengi hann ekki
læknishjálp strax eða fljótlega. Það var mat réttarmeinafræðingsins að hinn
látni hefði fengið að minnsta kosti sex högg á höfuð, annað hvort með krepptum
hnefa eða með fæti og að minnsta kosti tvö högg á líkama, annað hvort með
sparki eða stappi, en hugsanlega fleiri. Hafi sum höggin á andlit verið veitt
með miklum krafti og þá hafi ýmislegt bent til að stappað hafi verið á líkama
hins látna af krafti í meðallagi, hugsanlega miklum.
K kvaðst
einnig hafa unnið að blóðferlagreiningu með lögreglufulltrúunum I og J og kvað
hann niðurstöður hennar ríma við niðurstöður krufningarinnar. Þeir voru sammála
um að atburðurinn hefði orðið í þvottahúsinu og hafi blóðblettir sem séu
einkennandi fyrir höggslettur verið á framanverðri hlið þvottavélarinnar og
hafi blóðferlar verið í rökréttu samhengi við að hinn látni hafi verið þar
þegar hann hafi fengið högg, hugsanlega tvö til þrjú og hafi hann hugsanlega
verið á fjórum fótum. Þá munu engin ummerki hafa fundist sem hafi bent til þess
að hinn látni hafi fallið á þvottavélina, stall eða brún milli gönguleiðarinnar
á milli eldhúss og útidyranna eða á steyptan kant í þvottahúsinu. Þá mun ekkert
hafa komið fram sem bent hafi til þess að reynt hefði verið að þrífa ummerki á
vettangi.
Í skýrslu og
vætti V sérfræðings fyrir dómi kom fram að DNA snið bæði úr ákærða og hinum
látna hafi fundist í fötum ákærða. Þá
hafi blóðblettir á báðum sokkum ákærða, bæði á rist og il, reynst vera úr hinum
látna. Einnig hafi sýni sem tekin hafi
verið af þvottavél og inni í tromlunni öll verið samkennd við hinn látna, en
eitt sýni sem tekið hefði verið við höfðagafl á rúmi ákærða hafi verið samkennt
við hann. Þá hafi öll sýni úr fatnaði hins látna verið samkennd við hann.
Samkvæmt
vitnisburði H læknis var ákærði með tvær rispur á höfði og mar á hnúa og
miðhandarbeini hægri handar. Þá voru dökkir blettir á höndum og iljum ákærða
sem hann taldi leifar af storknuðu blóði. Þá taldi hann mar á hnúum vera
tilkomið eftir einhvers konar högg. K skoðaði einnig ákærða og kvað hann ákærða
hafa borið minni háttar áverka sem bent hafi til þess að hann hafi lent í
átökum.
Þegar allt
framanritað er virt verður að telja hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi
veitt A heitnum þann eða þá áverka sem leiddu hann til dauða. Ákærði bar öll
merki þess að hafa lent í átökum, hann var með áverka og blóð úr hinum látna
fannst á honum og ekkert er fram komið um að einhver annar en ákærði hefði
getað átt þarna hlut að máli. Kemur þá til skoðunar hvort ásetningur hafi búið
með ákærða um að ráða bróður sínum bana. Ekkert hefur fram komið í máli þessu
sem bent gæti til þess að ákærði hafi beitt einhvers konar vopni eða áhaldi er
hann veittist að bróður sínum, enda er ákæra ekki á því byggð. Sannað verður að
telja í máli þessu að ákærði hafi slegið bróður sinn ítrekað með hnefa í höfuð
og líkama og þá benda rannsóknargögn eindregið til þess að hann hafi annað
hvort sparkað eða trampað á höfði hans og líkama. Þá verður ekki fram hjá því
litið að ölvunarástand hins látna átti að mati réttarmeinafræðings þátt í dauða
hans. Á móti því kemur að stunga rifbeina í lifur hefði að öllum líkindum ein
og sér getað valdið dauða hans hefði hann ekki fljótlega komist undir
læknishendur. Þar sem enginn er til frásagnar um þau atvik sem leiddu til átaka
milli þeirra bræðra er ekkert hægt að fullyrða um upptökin að þeim. Fyrir
liggur í máli þessu að ákærði hefur átt það til að beita ofbeldi undir áhrifum
áfengis og þá á ákærði sögu um óminni eftir neyslu áfengis. Sú háttsemi ákærða
að slá eða sparka í höfuð bróður síns var að sönnu hættuleg en ekki verður
talið að honum hafi verið ljóst að langlíklegast væri að afleiðingarnar yrðu
þær að hann myndi lenda í bráðri andnauð vegna banvænnar innöndunar
magainnihalds og láta lífið af þeim sökum. Þá verður heldur ekki talið að
ákærða hafi mátt vera ljóst að langlíklegast væri að högg hans eða spörk í síðu
hins látna myndu leiða til þess að rifbein styngjust í lifur hans með
lífshættulegum afleiðingum. Þá ber þess að gæta að allan vafa í þessum efnum
ber að skýra sakborningi í hag. Að mati dómsins hefur því ekki tekist að sanna
að fyrir ákærða hafi vakað að ráða bróður sínum bana og verður því 211. gr.
almennra hegningarlaga ekki beitt um háttsemi hans. Hins vegar hefur ákærði
gerst sekur um stórhættulega og vísvitandi líkamsárás sem leiddi til dauða A
heitins og varðar sú háttsemi hans við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.
Málið hefur verið flutt með hliðsjón af því að sú lagagrein kynni að eiga við
um háttsemi ákærða.
Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann ekki áður sætt refsingu svo kunnugt sé. Samkvæmt niðurstöðu dómkvadds matsmanns er ákærði sakhæfur. Með hliðsjón af hinni hrottalegu atlögu ákærða gagnvart bróður sínum þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 7 ár. Frá refsivistinni skal draga óslitið gæsluvarðhald ákærða frá 31. mars 2018.
Börn A heitins, þau B, C, D og E, krefjast hvert um sig miskabóta úr hendi ákærða og nemur krafa hvers þeirra um sig 10.000.000 króna auk vaxta. Þar að auki krefjast B og D þess að ákærða verði gert að greiða þeim útfararkostnað með vísan til 12. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og nemur krafa B 1.617.592 krónum auk vaxta og krafa D nemur 107.125 krónum auk vaxta. Brotaþolar hafa notið aðstoðar skipaðs réttargæslumanns við gerð bótakröfu og meðferð hennar fyrir dómi og er krafist þóknunar honum til handa í samræmi við tímaskýrslu hans. Brotaþolar byggja á því að ákærði hafi valdið þeim skaðabótaskyldum miska sem honum beri að bæta þeim samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga. Þau byggja á því að við mat á fjárhæð miskabóta beri að líta til þess að hinn látni sé faðir þeirra. Þau hafi orðið fyrir ómældum þjáningum og miska vegna missis föður síns og við ákvörðun miskabóta beri að líta til verknaðarins og þess hversu hrottafenginn hann hafi verið. Andlát föður þeirra sé fjölskylduharmleikur sem auki enn frekar á þjáningar og miska þeirra.
Ákærði hefur í máli þessu verið fundinn sekur um að hafa valdið dauða föður brotaþola með hrottafengnum hætti og var háttsemi ákærða og afleiðing hennar til þess fallin að valda brotaþolum miska í skilningi 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga. Verður að telja að miski brotaþola hafi verið mikill og þykja miskabætur til hvers brotaþola um sig hæfilega ákveðnar 3.000.000 krónur og bera þær vexti eins og í dómsorði greinir. Þá verður ákærða gert að greiða B og D útfararkostnað eins og þau hafa krafist og með vöxtum eins og í dómsorði greinir. Samkvæmt gögnum málsins voru ákærða kynnar kröfur brotaþola þann 29. maí sl.
Þá ber með vísan til 1. mgr.
233. gr., sbr. 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að dæma
ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, þar með talinn útlagðan kostnað
samkvæmt yfirliti lögreglu, 4.408.028 krónur og málsvarnarlaun skipaðs verjanda
hans, Ólafs Björnssonar lögmanns, sem með hliðsjón af tímaskýrslu lögmannsins
og eðli og umfangi málsins þykir hæfilega ákveðin 8.642.800 krónur að meðtöldum
virðisaukaskatti, en um er að ræða þau störf lögmannsins við lögreglurannsókn
sem ógreidd eru og við dómsmeðferð málsins. Þess ber að geta að verjandi ákærða
hefur þegar fengið greiddar 2.071.110 krónur vegna verjandastarfa á
rannsóknarstigi og er sú upphæð innifalin í framangreindu
sakarkostnaðaryfirliti lögreglu. Ákærða verður einnig gert að greiða þóknun
skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Sigurðar Kára Kristjánssonar lögmanns,
1.200.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og er hún ákveðin í einu lagi
fyrir alla brotaþola.
Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari
flutti mál þetta af hálfu ákæruvaldsins.
Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp dóm þennan.
Dómsorð:
Ákærði, Valur Lýðsson, sæti fangelsi í 7 ár. Til frádráttar refsingunni kemur óslitið gæsluvarðhald ákærða frá 31. mars 2018.
Ákærði greiði B, 3.000.000 króna í miskabætur, ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 31. mars 2018 til 29. júní 2018, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna, frá þeim degi til greiðsludags. Ákærði greiði henni einnig útfararkostnað að fjárhæð 1.617.592 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 29. júní 2018 til greiðsludags.
Ákærði greiði C, 3.000.000 króna í miskabætur, ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 31. mars 2018 til 29. júní 2018, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna, frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði D, 3.000.000 króna í miskabætur, ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 31. mars 2018 til 29. júní 2018, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna, frá þeim degi til greiðsludags. Ákærði greiði honum einnig útfararkostnað að fjárhæð 107.125 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 29. júní 2018 til greiðsludags.
Ákærði greiði E, 3.000.000 króna í miskabætur, ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 31. mars 2018 til 29. júní 2018, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna, frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talinn útlagðan kostnað, 4.408.028 krónur og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ólafs Björnssonar lögmanns, 8.642.800 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Sigurðar Kára Kristjánssonar lögmanns, samtals 1.200.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Hjörtur
O. Aðalsteinsson.