- Miskabætur
- Nauðgun
- Fangelsi
- Sakarkostnaður
- Sönnun
- Sönnunarmat
D Ó M U R
Héraðsdóms Reykjaness
föstudaginn 10. ágúst 2018 í máli nr. S-107/2018:
Ákæruvaldið
(Anna Barbara Andradóttir aðstoðarsaksóknari)
gegn
X
(Guðmundur St. Ragnarsson lögmaður)
Mál þetta, sem dómtekið var 15. júní 2018, höfðaði héraðssaksóknari með ákæru 23. febrúar 2018 á hendur ákærða, X, kt. [...], rúmenskum ríkisborgara, með dvalarstað að [...], [...],[...];
„fyrir nauðgun, með því að hafa aðfaranótt
sunnudagsins 8. október 2017, við [...] í [...], haft samræði og önnur kynferðismök við A, gegn hennar vilja
með því að beita hana ofbeldi og ólögmætri nauðung en ákærði greip í hár A og
þvingaði hana til að hafa við sig munnmök með því að þrýsta framan á háls
hennar, tók svo niður buxur hennar og reyndi að hafa við hana samræði í
endaþarm og leggöng, greip síðan aftur í hár hennar og þvingaði hana til að
hafa við sig munnmök í annað sinn.
Telst brot þetta varða við 1. mgr. 194. gr. almennra
hegningarlaga nr. 19/1940, með síðari breytingum.
Þess er krafist að ákærði verði
dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Einkaréttarkrafa:
Af hálfu brotaþola A,
kt. [...], er þess krafist að ákærða verði gert
að greiða miskabætur að fjárhæð kr. 2.500.000 auk vaxta skv. 8. gr. laga
nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. október 2017 þar til mánuður er liðinn
frá birtingu bótakröfu þessarar en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr.
9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá er gerð krafa um greiðslu málskostnaðar
að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum
virðisaukaskatti á málflutningsþóknun, með vísan til 48. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.“
Kröfur ákærða í málinu eru aðallega
þær að ákærði verði sýknaður en til vara að honum verði gerð sú vægasta refsing
sem lög leyfa. Hvað bótakröfu brotaþola varðar krefst ákærði þess aðallega að
kröfunni verði vísað frá dómi en til vara að krafan verði lækkuð verulega. Þá
krefst verjandi ákærða hæfilegrar þóknunar sér til handa samkvæmt framlagðri
tímaskýrslu, sem greiðist úr ríkissjóði.
I
Hinn 8. október 2017, um kl. 04:36, barst lögreglu tilkynning um kynferðisbrot gegn konu í miðbæ [...], [...]. Í tilkynningunni kom fram að brotaþoli væri stödd fyrir utan veitingastaðinn Subway við [...]. Tveir lögreglumenn fóru þegar að veitingastaðnum þar sem þeir hittu fyrir brotaþola og systur hennar, B. Í frumskýrslu lögreglu er haft eftir brotaþola að maður sem hún hafi ekki vitað hver var hafi sett getnaðarlim sinn í munn hennar og neytt hana til munnmaka. Hann hafi einnig gert tilraun til þess að setja liminn í endaþarm brotaþola. Í skýrslunni segir að brotaþoli hafi sjáanlega verið í miklu uppnámi og hún grátið. Þá hafi buxur hennar verið blautar á hnjánum. Í skýrslunni er haft eftir B að þær systur hafi verið saman um kvöldið en leiðir þeirra skilið í um 20-30 mínútur og á þeim tíma hafi fyrrgreind atvik gerst.
Brotaþoli lýsti meintum geranda svo fyrir lögreglu að hann væri 170-180 cm á hæð, dökk- og stutthærður, og að hann mælti á enska tungu. Hann hefði verið með tveimur öðrum aðilum sem einnig hefðu talað ensku. Manninn sagði brotaþoli hafa verið utan í sér fyrr um kvöldið. Í frumskýrslu lögreglu segir að „þær“ hafi gefið manninum, sem verið hafi frekar ágengur, til kynna að brotaþoli hefði ekki áhuga á frekari kynnum. Brotaþoli og systir hennar lýstu allt að einu frekari samskiptum brotaþola og mannsins, sem upplýst er að var ákærði, síðar um nóttina, allt til þess tíma sem þær urðu viðskila samkvæmt áðursögðu. Í kjölfarið vísaði brotaþoli lögreglu á vettvang meints brots að [...]. Er í frumskýrslu lögreglu eftir brotaþola haft að ákærði hafi dregið hana inn á lóðina við húsið og að ökutæki sem staðið hafi við lóðamörkin. Þar hafi ákærði ýtt við brotaþola þannig að hún féll niður á hnén. Hann hafi síðan brotið gegn henni með þeim hætti sem áður var lýst.
Brotaþoli kom á lögreglustöðina við [...] í [...] 9. október 2017 til þess að leggja fram kæru vegna málsins. Fór hún samdægurs til skoðunar á neyðarmóttöku Landspítala í Fossvogi. Tveimur dögum síðar, eða hinn 11. október 2017, gaf brotaþoli skýrslu vegna málsins hjá lögreglu.
Við rannsókn málsins aflaði
lögregla myndefnis úr eftirlitsmyndavélum sem staðsettar voru við [...] og [...]
í [...], [...]. Einnig voru rannsakaðar
upptökur úr búkmyndavél sem höfðu að geyma samræður lögreglu við brotaþola í
kjölfar þess að tilkynnt var um málið aðfaranótt 8. október sl. Þá aflaði
lögregla upplýsinga um símanúmer sem systir brotaþola fékk frá öðrum tveggja
félaga sakbornings. Rannsókn á því símanúmeri og öðru númeri sem því tengdist
leiddi síðan til handtöku ákærða og tveggja félaga hans, C og D. Jafnframt var
framkvæmd húsleit á dvalarstað þeirra og hald lagt á fatnað í eigu ákærða og
síma hinna handteknu.
Við rannsókn lögreglu var skýrsla tekin af ákærða. Skýrslur voru einnig teknar af félögum hans tveimur og nokkrum öðrum vitnum. Hjá C og D kom fram að þeir hefðu orðið viðskila við ákærða um tíma um nóttina, en ákærði hefði þá farið upp [...] í fylgd stúlku sem þeir hefðu hitt fyrir utan skemmtistaðinn [...]. Ákærði lýsti fyrir lögreglu samskiptum sínum og brotaþola á skemmtistaðnum um nóttina en hana sagði ákærði hafa kysst sig fyrirvaralaust inni á staðnum. Ákærði sagðist hafa rekist á brotaþola að nýju fyrir utan skemmtistaðinn eftir að honum var lokað. Brotaþoli hefði þá ítrekað beðið ákærða um að koma með sér heim. Það hefði ákærði ekki viljað en hann aftur á móti sagst tilbúinn til þess að eiga við hana kynferðisleg samskipti í næsta nágrenni við skemmtistaðinn. Þau hefðu í framhaldinu farið á bak við hús fyrir aftan skemmtistaðinn [...] þeirra erinda. Brotaþoli hefði strax farið niður á hnén, togað buxur ákærða niður og byrjað að veita honum munnmök. Eftir skammvinn munnmök hefðu þau fært sig aftur fyrir kyrrstæðan húsbíl sem staðið hefði á lóðinni. Þar hefði ákærði sest í stiga sem á bílnum var og brotaþoli sest ofan á hann. Þannig hefðu þau haft samfarir í stutta stund. Brotaþoli hefði þá sagt systur sína vera að leita að sér. Þau gætu því ekki haldið kynmökunum áfram. Því hefði ákærði ekki andmælt og kynmökin því rofnað. Ákærði sagði hin kynferðislegu samskipti þeirra brotaþola hafa farið fram með samþykki brotaþola. Hann kvaðst enga hugmynd hafa um hvers vegna hún hefði kært hann fyrir kynferðisbrot.
Rannsókn málsins lauk í lok janúar 2018. Hinn 23. febrúar sl. gaf héraðssaksóknari síðan út ákæru á hendur ákærða samkvæmt framansögðu.
II
Ákærði kom fyrir dóm við þingfestingu málsins og neitaði sök. Þá hafnaði hann bótakröfu brotaþola. Við upphaf aðalmeðferðar kvað ákærði þessa afstöðu sína óbreytta.
Í skýrslu sinni við aðalmeðferð málsins lýsti ákærði atvikum máls svo að hann hefði farið út að skemmta sér með vinum sínum að kvöldi 7. október 2017. Fyrst hefðu þeir farið út að borða en síðla kvölds eða um nóttina hefðu þeir farið á skemmtistaðinn [...]. Þar inni kvaðst ákærði hafa dansað og drukkið ásamt félögum sínum. Ástandi sínu lýsti ákærði svo að hann hefði verið ölvaður en þó ekki mjög mikið.
Ákærði sagðist hafa veitt brotaþola athygli á dansgólfi skemmtistaðarins. Hann hefði séð að hún var með lokk í tungunni og hefði honum þótt það flott. Hann hefði í kjölfarið gefið sig að brotaþola og sagt henni þá skoðun sína. Þau hefðu í framhaldinu dansað saman og svo kysst. Framburð vitnisins E um að hann hefði reynt að draga brotaþola inn á klósett á skemmtistaðnum kvað ákærði rangan.
Eftir að hafa dansað við brotaþola sagðist ákærði hafa farið með henni út af skemmtistaðnum. Þau hefðu talað saman eftir að út var komið en um hvað þau ræddu kvaðst ákærði ekki muna. Að frumkvæði brotaþola hefðu þau síðan farið aftur fyrir skemmtistaðinn í stutta stund þar sem þau hefðu kysst og kelað. Neitaði ákærði að hafa dregið brotaþola á bak við. Ákærið sagði þau síðan hafa farið aftur inn á skemmtistaðinn, hvort í sínu lagi. Spurður um ástand brotaþola er atvik máls gerðust sagði ákærði hana hafa litið út fyrir að vera mjög ölvaða.
Við lokun skemmtistaðarins [...] hefðu ákærði og félagar hans yfirgefið staðinn. Þeir hefðu ætlað að hringja eftir leigubíl en brotaþoli þá komið til þeirra. Hún hefði ítrekað sagt við ákærða: „Í kvöld kemur þú með mér, þú kemur með mér.“ Ákærði sagðist hafa hrifist af brotaþola en samt ekki viljað fara með henni heim. Hann hefði aftur á móti sagst reiðubúinn til að fara með henni eitthvað annað. Ákærði sagðist hafa talið að brotaþoli hefði viljað fara með honum í kynferðislegum tilgangi og hefði hann ekki verið því andsnúinn. Brotaþoli hefði þá snúið sér að systur sinni og rætt við hana. Að samtali þeirra loknu hefðu ákærði og brotaþoli gengið saman í burtu en félagar ákærða orðið eftir.
Þegar ákærði og brotaþoli höfðu gengið saman í stutta stund sagði ákærði þau hafa komið að húsbíl sem staðið hefði inni í garði. Á leiðinni þangað hefðu þau kysst. Fyrir aftan húsbílinn hefði brotaþoli veitt ákærða munnmök. Neitaði ákærði því að hafa dregið brotaþola inn í garðinn. Kvað hann brotaþola þvert á móti hafa átt frumkvæðið að munnmökunum. Ákærði sagðist hafa staðið meðan á þeim stóð og brotaþoli beygt sig niður. Ákærði hefði fært sig úr buxum og nærbuxum en aðspurður minntist hann þess ekki hvort hann hefði fengið aðstoð við það frá brotaþola. Kannaðist ákærði ekkert við þá lýsingu brotaþola að hún hefði reynt að bíta í lim hans meðan á munnmökunum stóð. Að munnmökunum loknum hefðu þau í sameiningu losað um föt brotaþola og reynt í örstutta stund að hafa samfarir. Ákærði kvaðst meðan á því stóð hafa setið í stiga sem verið hefði aftan við húsbílinn. Brotaþoli hefði setið ofan á ákærða og snúið í hann baki. Fullyrti ákærði að limur hans hefði farið inn í leggöng brotaþola. Samfarirnar hefðu hins vegar staðið mjög stutt yfir þar sem brotaþoli hefði skyndilega sagt: „Systir mín er að leita að mér, systir mín er að leita að mér. Ég þarf að fara.“ Ákærði sagðist ekki hafa andmælt þeirri fyrirætlan brotaþola. Þá neitaði ákærði því að áður en brotaþoli nefndi systur sína hefði hún beðið hann um að láta af samförunum. Brotaþoli hefði ekki á nokkurn hátt látið í ljós að hún væri þeim andsnúin. Þá neitaði ákærði því að brotaþoli hefði grátið. Ákærði kvaðst í kjölfarið hafa staðið upp og ætlað að fara í burtu en brotaþoli þá tekið í öxl hans og togað í hann. Ákærði hefði losað sig og farið án þess að líta til baka.
Spurður um hvort sími hans hefði hringt á meðan framangreind atvik gerðust kvaðst ákærði ekki minnast þess. Hann útilokaði þó ekki að svo hefði verið. Ákærði bar hins vegar um símtal við félaga sína eftir að leiðir hans og brotaþola skildu. Í símtalinu hefði verið rætt hvar þeir ættu að hittast. Þeir hefðu síðan hist framan við verslun í nágrenninu, þaðan sem þeir hefðu tekið leigubíl heim.
Ákærði kvaðst fyrst hafa heyrt af ásökunum brotaþola í sinn garð þegar lögregla kom á dvalarstað hans nokkrum dögum síðar. Nánar aðspurður um þetta atriði bar ákærði síðan að um nóttina hefði félögum hans verið brugðið þegar þeir hittust aftur. Þeir hefðu upplýst ákærða um að það hefði „allt verið brjálað“ og brotaþoli verið að leita að honum. Ákærði hefði þá sagt félögum sínum að hafa ekki áhyggjur. Það hefði ekkert gerst á milli hans og brotaþola sem áhyggjur þyrfti að hafa af.
III
A, brotaþoli í málinu, lýsti málsatvikum svo fyrir dómi að hún hefði umrædda nótt verið að skemmta sér með B, systur sinni, og vinum sínum E og F á skemmtistaðnum [...]. Brotaþoli sagðist hafa neytt áfengis og orðið mjög ölvuð og af þeim sökum myndi hún lítið eftir atvikum inni á skemmtistaðnum. Brotaþoli sagðist þó muna að ákærði hefði komið upp að henni þegar hún var að dansa og í kjölfarið hefði hann leitt hana að karlaklósettinu. Þar hefði ákærði kysst hana. Hvað síðan gerðist sagðist brotaþoli ekki muna.
Eftir lokun [...] hefði brotaþoli farið út af staðnum. Ákærði hefði þá verið kominn út. Hún hefði síðan gengið með ákærða niður fyrir skemmtistaðinn og að blómabúð sem sé þarna skammt frá. Systir brotaþola hefði komið á eftir þeim og kallað á hana. Brotaþoli og ákærði hefðu þá bæði litið til baka en ákærði því næst tekið í hönd brotaþola og greikkað sporið. Þau hefðu í kjölfarið gengið fram á tvo stráka. Þar sem brotaþola hefði fundist ákærði vera orðinn of ágengur, en hann hefði verið að toga hana áfram, hefði hún gefið sig að strákunum, greint þeim frá áhyggjum sínum af framgöngu ákærða og síðan orðið þeim samferða til baka til systur sinnar. Ákærði hefði þá hlaupið í burtu. Brotaþoli og systir hennar hefðu því næst farið og rætt við tvær lögreglukonur sem setið hefðu í lögreglubifreið á [...]. Brotaþoli hefði tjáð þeim að ákærði væri að „... reyna að veiða eitthvað ...“ kynferðislegt en þær sagst ekkert geta gert.
Eftir að hafa rætt við lögreglukonurnar kvaðst brotaþoli hafa farið til baka „... til að passa það að hann muni ekki taka einhverja aðra stelpu.“ Brotaþoli hefði í framhaldinu rætt við ákærða. Eftir nokkra stund hefði komið til tals að þau færu í samkvæmi „heima hjá [...]“ í leigubíl ásamt tveimur félögum ákærða. Hvernig það atvikaðist að samtal þeirra ákærða tók þá stefnu sagðist brotaþoli ekki geta skýrt. Eftir að hafa verið ítrekað að þessu spurð nefndi brotaþoli þó til skýringar að hún hefði verið „... of full til að vita hvað ég var að gera.“ Ákærði hefði sagt brotaþola að leigubíll biði þeirra í nærliggjandi götu og hefði hún því gengið af stað ásamt ákærða og félögum hans. Áður hefði brotaþoli sagt vinkonu sinni, E, sem verið hefði að fara í sama samkvæmi, að hafa ekki áhyggjur af sér. Leigubílstjórinn myndi tryggja að henni yrði ekið þangað sem hún vildi fara.
Þegar ákærði og brotaþoli hefðu verið komin af [...]og yfir á nærliggjandi götu hefði ákærði numið staðar og brotaþoli þá veitt því athygli að félagar ákærða voru ekki lengur með þeim í för. Ákærði hefði byrjað að kyssa brotaþola og taldi brotaþoli aðspurð að hún hefði kysst hann á móti. Sími ákærða hefði síðan hringt og hann í kjölfarið sagt við brotaþola: „Systir þín er að koma, systir þín er að koma.“ Hann hefði í kjölfarið tekið í handlegg brotaþola og dregið hana inn á næstu lóð og að hvítri sendiferðabifreið sem þar stóð. Þegar þangað kom hefði ákærði tekið um hár brotaþola og togað hana niður á hnén. Svo hefði hann ýtt á háls brotaþola til þess að opna munn hennar. Hann hefði því næst tekið lim sinn út og stungið honum í munn brotaþola. Þegar ákærði hefði verið farinn að ýta lim sínum of langt inn kvaðst brotaþoli hafa reynt að stoppa ákærða með því að ýta í læri hans en án árangurs. Fram kom hjá brotaþola að hún hefði í fyrstu ekki verið munnmökunum mótfallin en þegar ákærði var orðinn of ágengur hefði hún ekki viljað þau lengur. Sagði brotaþoli buxur hennar hafa verið blautar á hnjánum eftir að ákærði togaði hana niður á hnén.
Er þarna var komið sögu sagði brotaþoli síma ákærða hafa hringt að nýju og að því símtali loknu hefði ákærði enn sagt að systir brotaþola væri að koma. Hann hefði síðan reist brotaþola við og farið með hana aftur fyrir bifreiðina. Þar hefði hann tekið bol brotaþola upp og girt niður um hana. Hann hefði síðan reynt að setja liminn inn í brotaþola en ekki tekist. Hvort ákærði hefði ætlað að setja liminn inn í leggöng eða endaþarm kvaðst brotaþoli ekki vita en limurinn hefði í það minnsta farið nærri endaþarminum. Þar sem brotaþoli var of lágvaxin hefði ákærða ekki tekist ætlunarverk sitt. Hann hefði því sest niður á aftanverða bifreiðina og reynt að láta brotaþola fara ofan á sig. Brotaþoli sagðist þá hafa sagt nei. Ákærði hefði samt haldið áfram að toga í brotaþola sem ítrekað hefði sagt nei við hann á ensku. Við það hefði ákærði orðið pirraður. Hann togað brotaþola aftur niður á hárinu og sett lim sinn í munn hennar að nýju. Ákærði hefði þá verið ákafari en í fyrra sinnið. Brotaþoli kvaðst hafa reynt að standa upp og fara. Hún hefði einnig freistað þess að bíta í lim ákærða en vör hennar lent á milli og ákærði því ekki fundið fyrir bitinu. Er þarna var komið sögu hefði brotaþoli farið að hágráta. Hún hefði sagt ákærða að hætta og reynt að ýta honum í burtu. Ákærði hefði samt sem áður haldið áfram. Hann hefði síðan skyndilega látið af þessari háttsemi sinni og gengið í burtu. Brotaþoli hefði farið á eftir ákærða og spurt hann þess af hverju hann hefði verið að gera þetta. Hún hefði síðan tekið um háls ákærða og ætlað að freista þess að ná honum niður. Tilgang sinn sagði brotaþoli hafa verið að halda ákærða á staðnum svo lögregla gæti haft af honum afskipti. Ákærði hefði brugðist við með því að ýta við brotaþola. Við það hefði hún misstigið sig og skollið með höfuðið í framenda bifreiðarinnar. Ákærði hefði síðan farið í burtu.
Brotaþoli sagðist hafa farið á eftir ákærða og þá hitt vin sinn, F, á [...] og greint honum frá því að ákærði hefði nauðgað henni. Hún hefði einnig rekist á systur sína. Brotaþoli hefði haldið áfram að leita að ákærða og þá komið auga á félaga hans tvo. Hún hefði innt þá eftir því hvar ákærði væri en þeir sagst ekkert um það vita. Brotaþoli hefði þá rifið í öxl annars þeirra og ýtt honum upp að glugga á húsi sem þau stóðu við til þess að leggja áherslu á hún yrði að ræða við ákærða. Við það hefði hann aðeins gefið sig og látið systur brotaþola fá símanúmer sitt með því að hringja í hennar númer. Hefði félagi ákærða sagst ætla að hringja í hana, fyndi hann ákærða.
Eftir samskipti sín við félaga ákærða kvaðst brotaþoli hafa beðið eftir að lögregla kæmi á vettvang. Hún hefði í framhaldinu greint lögreglu frá atvikum og vísað lögreglu á þann stað sem ákærði braut gegn henni Að því loknu hefði brotaþoli farið heim til systur sinnar ásamt henni og E, með stuttri viðkomu hjá vini brotaþola á [...]. Þangað hefði brotaþoli sótt nokkra muni í sinni eigu, þar með talin náttföt.
Fram kom hjá brotaþola að hún hefði verið með marblett á hálsi eftir atvik næturinnar. Hún kvaðst telja að marbletturinn hefði komið til þegar ákærði ýtti í háls hennar en hann væri á sama stað á hálsinum og ákærði hefði þrýst á. Brotaþoli sagðist hafa tekið ljósmyndir af áverkanum og staðfesti hún fyrir dómi að myndirnar væri að finna í framlagðri myndaskýrslu lögreglu. Hinar myndirnar í skýrslunni af marblettinum kvað brotaþoli rannsóknarlögreglumann hafa tekið á lögreglustöðinni í [...] stuttu síðar.
Brotaþoli kvaðst jafnframt hafa fundið til eymsla í höfði eftir að höfuð hennar skall utan í bifreiðina. Um andlega líðan sína bar brotaþoli að hún hefði eftir að atvik máls gerðust farið að misnota áfengi en hún hefði þá nær ekkert verið búin að drekka í þrjú ár. Þegar áfengið hefði ekki dugað til þess að deyfa vanlíðan brotaþola, þrátt fyrir daglega neyslu, hefði hún farið að neyta fíkniefna. Brotaþoli upplýsti enn fremur að hún væri búin að vera í meðferð hjá sálfræðingi vegna þessara atvika. Þá sagðist hún að mestu vera búin að dvelja erlendis síðan atvikin gerðust „... svo ég þurfi ekki að hitta á hann.“
B, systir brotaþola, kvaðst hafa verið að skemmta sér
á skemmtistaðnum [...] umrædda nótt ásamt brotaþola og vinkonu þeirra systra, E. Þær hefðu verið
að drekka og dansa ásamt nokkrum öðrum stelpum. Vitnið sagði ákærða hafa sýnt
brotaþola mikla athygli. Þar sem brotaþoli hefði verið orðin svolítið drukkin
hefði vitnið reynt eftir fremsta megni að ganga á milli hennar og ákærða og
koma með því í veg fyrir að ákærði dansaði við brotaþola. Þá hefði vitnið
ítrekað beðið ákærða um að fara í burtu. Brotaþoli hefði aftur á móti ekki
verið því mótfallin að dansa við ákærða. Vitnið kvaðst hafa séð að ákærði „...
ætlaði alltaf að reyna að kyssa hana og ná henni til sín ...“ en vitnið þó
aldrei séð þau kyssast. Spurt um ástæðu þess að vitnið vildi stía ákærða og
brotaþola í sundur svaraði vitnið því til að þær systur hefðu verið búnar að
ákveða að vera saman þetta kvöld. Vitnið hefði endað eitt „... ef ég myndi
skilja hana eftir með þessum manni sem við þekktum ekki neitt.“ Vitnið hefði
jafnframt metið ástand systur sinnar svo að hún gæti ekki farið heim með ókunnugum
manni.
Eftir lokun [...] síðar um nóttina sagði vitnið ákærða hafa gengið frá skemmtistaðnum með brotaþola. Vitnið kvaðst hafa hlaupið á eftir þeim og kallað til brotaþola. Ákærði og brotaþoli hefðu í kjölfarið greikkað sporið og vitnið fylgt þeim eftir. Ákærði og brotaþoli hefðu farið úr augsýn vitnisins í stutta stund en við næsta húshorn hefði vitnið mætt brotaþola, sem þá hafði snúið við, í fylgd tveggja stráka. Brotaþoli hefði í framhaldinu greint vitninu frá því að ákærði hefði ætlað að nauðga henni. Í því sambandi hefði brotaþoli nefnt að ákærði hefði haldið mjög fast um handlegg hennar. Hann hefði síðan bæði hert takið og gönguna eftir að vitnið kallaði til brotaþola samkvæmt áðursögðu en brotaþoli hefði viljað stoppa og tala við vitnið.
Skömmu síðar hefðu kvað vitnið þær systur hafa orðið viðskila. Vitnið hefði numið staðar til að tala við fólk sem það þekkti en E gengið áfram með brotaþola. Að nokkrum tíma liðnum hefði vitnið séð til ákærða ganga mjög rösklega niður götuna. Vitnið kvaðst ekki strax hafa áttað sig á því að þetta var ákærði sem var þarna kominn. Nokkru síðar hefði brotaþoli komið til baka mjög reið og pirruð. Minntist vitnið þess að hún hefði verið blaut á öðru hnénu. Brotaþoli hefði í kjölfarið greint vitninu frá því að ákærði hefði togað í hárið á henni og nauðgað henni í munninn. Við það hefði hún meitt sig í hálsinum. Brotaþoli hefði síðan farið að hágráta. Nærstödd kona hefði í kjölfarið kallað símleiðis eftir aðstoð lögreglu.
Skömmu síðar hefðu vitnið og brotaþoli hitt félaga ákærða, sem brotaþoli hefði strax borið kennsl á. Mennirnir hefðu verið beðnir um að vísa á ákærða en þeir ekkert sagst vita um hvar hann væri niður kominn. Brotaþoli hefði þá tekið í peysu annars mannanna og ýtt hraustlega við honum. Bar vitnið að í kjölfarið hefðu mennirnir verið upplýstir um ásakanir brotaþola í garð ákærða. Annar þeirra hefði þá, að beiðni vitnisins, látið vitnið fá símanúmer sitt með því að hringja í síma þess. Mennirnir hefðu í kjölfarið hlaupið í burtu. Mennina sagði vitnið hafa virst vera stressaðir.
Eftir að lögregla kom á staðinn kvaðst vitnið hafa farið með lögreglu og brotaþola á vettvang meints brots þar sem brotaþoli hefði síðan lýst atvikum.
Vitnið sagði brotaþola nokkrum dögum síðar hafa greint sér nánar frá málsatvikum en hún gerði um nóttina. Hún hefði þá nefnt til viðbótar að ákærði hefði þrýst á háls hennar til þess að fá hana til að opna munninn. Einnig hefði komið fram hjá brotaþola að hún hefði reynt að bíta í lim ákærða meðan á þessu stóð. Brotaþoli hefði verið skýr um það að þetta hefði verið gegn hennar vilja, „.... henni hafi verið nauðgað.“ Vitnið kvað brotaþola enn fremur hafa sýnt henni ljósmynd af marbletti á hálsi. Blettinn sagði vitnið hafa verið á stærð við vínber. Jafnframt hefði brotaþoli greint frá hárlosi sem hún hefði tengt við tak ákærða á hári hennar.
Fram kom hjá vitninu að brotaþoli hefði lítið farið út úr húsi fyrst eftir að atvik máls gerðust. Þá kvað vitnið brotþola hafa greint sér frá því að hún gengi til sálfræðings til að vinna úr afleiðingum brots ákærða.
E greindi svo frá fyrir dómi að hún hefði verið að skemmta sér á skemmtistaðnum [...] umrætt sinn með brotaþola og fleiri aðilum. Vitnið sagðist hafa verið sú eina sem var allsgáð í hópnum. Brotaþola kvað vitnið hafa verið frekar drukkna.
Vitnið hefði veitt því athygli að brotaþoli og ákærði spjölluðu saman á barnum um kvöldið. Þá hefði brotaþoli í gríni klipið ákærða í rassinn og dillað sér upp við hann. Vitnið sagði ákærða hafa verið utan í brotaþola allt kvöldið. Hann hefði meðal annars verið að reyna að dansa við hana. Systir brotaþola hefði verið að reyna að ýta ákærða í burtu þar sem henni hefði ekki litist á þessa þróun mála og hefði vitnið veitt henni einhverja aðstoð við það. Taldi vitnið að ekki hefði verið um gagnkvæman áhuga að ræða. Brotaþoli hefði engan áhuga haft á að vera utan í ákærða. Aðspurt kvaðst vitnið ekki hafa séð brotaþola og ákærða kyssast.
Eftir lokun staðarins kvað vitnið ákærða hafa verið að reyna að fá brotaþola með sér. Hefði brotaþoli tjáð vitninu að ákærði væri búinn að panta leigubíl fyrir þau. Kvaðst vitnið hafa sagt brotaþola að fara ekki með ákærða „... en hún náttúrulega hlustaði ekkert á mig.“ Brotaþoli hefði þó ekki ætlað heim með ákærða heldur fara með leigubílnum annað og losa sig þannig við ákærða sem vitnið kvaðst hafa séð á brotaþola að hún hefði engan áhuga á.
Vitnið sagðist síðar hafa orðið viðskila við brotaþola. Hefði vitnið ítrekað hringt í brotaþola án þess að hún svaraði. Brotaþoli hefði síðar gefið á því þá skýringu að ákærði hefði tekið af henni símann og lagt hann til hliðar. Vitnið hefði síðan farið að leita að brotaþola og rekist á hana þegar það var að ræða við félaga ákærða til þess að fá þá til að upplýsa hvar ákærði væri en þeir sagst ekkert um það vita. Brotaþoli hefði öskrað á vitnið að ákærði hefði nauðgað henni. Einnig hefði brotaþoli nefnt að ákærði hefði tekið í hnakkann á brotaþola og kastað henni utan í bifreið er hún reyndi að komast undan honum. Hún hefði verið hágrátandi, döpur og leið og á henni sést að henni leið illa.
Fyrir dómi voru borin undir vitnið ummæli þess í lögregluskýrslu. Tók vitnið fram að er það gaf skýrsluna hefði það munað atvik betur. Minni þess af atvikum nú væri ekki eins gott og þá vegna þess tíma sem frá þeim væri liðinn.
G sagðist hafa hitt brotaþola, sem hún hefði þekkt frá fyrri tíð, á skemmtistaðnum [...] umrædda nótt og hefðu þær dansað og hangið saman fram að lokun staðarins. Vitnið sagðist hafa drukkið áfengi og verið undir áhrifum en þó ekki verið ölvað. Brotaþoli hefði verið undir mikið meiri áhrifum en vitnið.
Vitnið kvað mann, sem það hefði ekki þekkt, hafa sótt mikið í brotaþola um nóttina. Brotaþoli hefði ekki sýnt honum áhuga og frekar viljað vera með vinkonum sínum. Vitnið kvaðst, með vilja brotaþola, ítrekað hafa ýtt manninum frá brotaþola og sagt honum að láta hana vera. Aðspurt kvaðst vitnið ekki hafa séð ákærða og brotaþola kyssast inni á skemmtistaðnum.
Eftir lokun skemmtistaðarins sagðist vitnið hafa verið fyrir utan staðinn að spjalla við fólk þegar það hefði séð fyrrnefndan mann ganga mjög rösklega niður [...]. Stuttu síðar, mögulega eftir hálfa mínútu, hefði brotaþoli birst. Hún hefði verið reið og sár og öskrað nauðgun. Brotaþoli hefði staðnæmst hjá vitninu og farið úr skónum. Vitnið kvaðst fljótlega hafa haldið áfram að spjalla við fólkið sem hún var tala við þegar brotaþoli kom, „... ég alveg bara, æ, mig langar ekki til blanda mér í svona drama af því að ég ætlaði að fara heim.“ Nánar aðspurt sagðist vitnið á þessum tíma ekki hafa tekið orð brotaþola alvarlega. Spurt um ástæðu þess svaraði vitnið því til „... að ég var bara ekki stuði til þess að taka þetta alvarlega.“
Vitnið kvaðst næst hafa hitt brotaþola nokkrum vikum síðar. Brotaþoli hefði þá greint vitninu nánar frá atvikum um nóttina og sagt því að maðurinn hefði troðið typpinu á sér í munninn á henni.
C svaraði því til, spurður um tengsl hans við ákærða,
að þeir væru frændur. Umrædda nótt kvaðst vitnið hafa verið með ákærða og öðrum
félaga sínum á skemmtistað í [...]. Eftir lokun skemmtistaðarins hefði vitnið hitt ákærða og
brotaþola saman fyrir utan staðinn. Vitnið kvaðst ekkert hafa séð til brotaþola
fyrr um kvöldið. Fyrir utan staðinn hefðu einnig verið nokkrar aðrar stelpur.
Vitnið sagði sig og félaga sína hafa ætlað að fara
heim með leigubifreið. Þeir hefðu gengið af stað frá skemmtistaðnum og hefðu
stelpurnar komið á eftir. Ákærði hefði síðan farið í burtu með brotaþola.
Hverra erinda kvaðst vitnið ekki vita. Spurt um hvort brotaþoli og ákærði hefðu
verið að kyssast á meðan þau voru á göngu með vitninu svaraði vitnið því neitandi.
Eftir að ákærði fór kvaðst vitnið hafa hringt í hann
og sagt honum að það vildi fara að komast heim. Ákærði hefði svarað og sagst
vera að koma. Eftir stutta stund hefði hann síðan komið til baka. Um svipað
leyti hefðu tveir menn komið gangandi og byrjað að ýta í vitnið. Brotaþoli
hefði einnig komið gangandi „... og stelpan byrjað að öskra.“ Ákærði hefði þá
verið farinn aftur. Vitnið kvaðst í kjölfarið hafa hlaupið í burtu, enda hefði
vitnið verið hrætt við mennina tvo sem voru að ýta í það.
Skömmu síðar hefðu vitnið og félagi þess hitt ákærða á
ný. Vitnið kvaðst hafa sagt ákærða frá því að tveir menn hefðu verið að ýta í
það og spurt ákærða að því hvort eitthvað hefði komið upp á. Ákærði hefði
svarað því til að ekkert hefði gerst sem áhyggjur þyrfti að hafa af.
D sagði þá ákærða vera vini. Þeir hefðu kynnst eftir
komuna hingað til lands. Umrædda nótt sagðist vitnið fyrst hafa séð til
brotaþola á götunni fyrir utan skemmtistað sem vitnið hefði verið á í [...]. Hún hefði þá verið að
spjalla við ákærða.
Vitnið og félagar þess, ákærði og C, hefðu síðan
gengið af stað og hefði ákærði haldið áfram að tala við brotaþola á göngunni.
Vitnið hefði ekkert tekið þátt í því spjalli. Ákærði hefði síðan farið inn
hliðargötu ásamt brotaþola en vitnið og C beðið eftir honum á aðalgötunni. Áður
en ákærði fór með brotaþola hefði hann sagt við vitnið að hann ætlaði að fara
afsíðis með brotaþola og spjalla við hana í smá stund. Á meðan ákærði var í
burtu sagði vitnið C hafa talað við einhvern í síma.
Nokkru síðar kvaðst vitnið hafa hitt brotaþola aftur og hefði hún þá verið með systur sinni. Brotaþoli hefði þá komið til vitnisins og C og spurt eftir ákærða. Hún hefði þá verið æst og virst hrædd. Vitnið hefði svarað því til að það vissi ekki hvar ákærði væri. Fram kom hjá vitninu að fólk hefði drifið að og hefðu vitnið og C orðið hræddir og forðað sér af vettvangi. Skömmu síðar hefðu þeir hitt ákærða aftur. Þeir hefðu greint honum frá því sem gerst hafði og inn hann eftir því hvað hefði komið fyrir. Ákærði hefði sagt þeim að ekkert hefði gerst og þeir gætu því verið rólegir og farið heim.
H sagðist hafa komið út af skemmtistaðnum [...] um nóttina. Við matsölustað hinum megin við götuna hefði vitnið komið að brotaþola grátandi og í uppnámi. Hún hefði í kjölfarið greint frá því að henni hefði verið nauðgað. Vitnið kvaðst hafa spurt brotaþola að því hver hefði nauðgað henni og hún þá bent að tveimur strákum sem þá hefðu hlaupið í burtu. Vegna þeirra viðbragða hefði vitnið reynt að fylgja mönnunum eftir á hlaupum en það ekki tekist.
F sagðist hafa orðið vitni að því þegar brotaþoli kom í uppnámi til systur sinnar umrædda nótt og hafði í frammi ásakanir í garð manns um að hann hefði þvingað hana til munnmaka. Taldi vitnið þann mann hafa verið á staðnum og að brotaþoli hefði verið að æpa á hann og saka hann um verknaðinn.
I kvaðst umrædda nótt hafa verið staddur á [...] í [...] þegar kona hefði komið
hlaupandi og sagt: „He tried to wrape me.“ Eftir að hún lét þessi orð falla
hefðu tveir menn hlaupið í burtu.
J lögreglumaður sagði lögreglu hafa borist tilkynning
umrædda nótt um konu sem skömmu áður hefði orðið fyrir kynferðisbroti. Vitnið
hefði í framhaldinu farið ásamt starfsfélaga sínum og rætt við brotaþola og
systur hennar í lögreglubifreiðinni. Samtalið sagði vitnið hafa verið tekið upp
á búkmyndavél lögreglu. Eftir að hafa rætt við brotaþola og systur hennar hefði
lögregla farið ásamt systrunum að meintum brotavettvangi við [...] í [...]. Kom fram hjá vitninu að grasið
á lóðinni hefði verið blautt.
Vitnið kvað brotaþola hafa verið í miklu uppnámi og hún grátið. Á henni hefði mátt sjá að hún átti erfitt með að greina frá atvikum. Fram hefði komið hjá brotaþola að ákærði hefði neytt hana til munnmaka og síðan reynt að hafa við hana endaþarmsmök. Frásögn brotaþola sagði vitnið hafa verið nokkuð skýra og trúverðuga. Rak vitnið minni til þess að brotaþoli hefði verið blaut á báðum hnjánum. Vitnið sagðist hafa tilkynnt yfirmanni vaktarinnar um málið og hefði hann tekið ákvörðun um að fara ekki með brotaþola á neyðarmóttöku. Á hverju sú ákvörðun byggðist kvaðst vitnið ekki vita.
Fyrr um kvöldið sagði vitnið tvær konur, brotaþola og systur hennar, hafa komið til lögreglu og látið vita af manni sem verið hefði ágengur við þær. Vitnið sagðist ásamt starfsfélaga sínum hafa ráðlagt þeim almennt að gefa slíkum aðilum skýrt til kynna að þær hefðu ekki áhuga á frekari kynnum og síðan forðast viðkomandi.
K rannsóknarlögreglumaður sagði brotaþola hafa komið á lögreglustöðina við [...] í [...] 9. október 2017 þeirra erinda að leggja fram kæru vegna kynferðisbrots sem hún hefði orðið fyrir helgina áður. Þar sem brotaþoli hefði ekki verið búin að fara á neyðarmóttöku vegna hins meinta brots hefði vitnið séð til þess að henni var samdægurs ekið þangað til skoðunar. Lögregla hefði í kjölfarið hafið gagnaöflun vegna málsins og meðal annars aflað myndefnis úr eftirlitsmyndavélum. Þá hefði vettvangur meints brots verið ljósmyndaður ásamt nærliggjandi götum. Á myndskeiðum úr eftirlitsmyndavélum við [...] í [...] hefði mátt sjá brotaþola í för með þremur aðilum. Í kjölfarið hefði einnig verið aflað myndefnis úr eftirlitsmyndavélum skemmtistaðarins [...] en á því hefði betur mátt sjá útlit nefndra þriggja aðila. Við skýrslugjöf brotaþola 11. október 2017 hefði meðal annars komið fram að aðilarnir þrír væru erlendir. Þá hefði brotaþoli upplýst um símanúmer eins þeirra. Á grundvelli dómsúrskurðar hefði lögregla fengið afhent gögn tengd því númeri þar sem fram hefði komið annað símanúmer. Fyrir því númeri hefði ákærði verið skráður hjá lögreglu. Eftir að fyrir lá hverjir aðilarnir þrír voru hefðu þeir verið handteknir samdægurs. Þá hefði læknisskoðun verið framkvæmd á ákærða.
Vitnið sagði brotaþola hafa verið með sjáanlegan marblett vinstra megin á hálsi er hún gaf skýrslu vegna málsins og hefði lögregla ljósmyndað marblettinn að skýrslutöku lokinni. Þá hefði brotaþoli upplýst að hún hefði sjálf ljósmyndað marblettinn tveimur til þremur dögum fyrir skýrslutökuna. Hefði lögregla unnið skýrslu sem meðal annars geymi þessar ljósmyndir. Skýrsla hefði einnig verið unnin vegna myndefnis úr eftirlitsmyndavélum. Bar vitnið að bæði brotaþoli og ákærði hefðu þekkt sig og aðra á því myndefni og séu merkingar á myndunum í samræmi við samhljóða framburð þeirra hvað það varðar fyrir lögreglu.
L hjúkrunarfræðingur kvaðst hafa tekið á móti brotaþola 9. október 2017 á Neyðarmóttöku vegna kynferðisofbeldis á bráðamóttöku Landspítala í Fossvogi. Staðfesti vitnið gerð og efni framlagðrar móttökuskýrslu hjúkrunarfræðings. Vitnið sagði brotaþola hafa komið vel fyrir. Hún hefði gefið skýra og góða frásögn. Brotaþoli hefði verið mjög reið en þrátt fyrir það yfirveguð. Þá hefði gætt hjá henni bjargar- og ráðaleysi sem oft komi fram hjá brotaþolum. Frásögn af atvikum í framlagðri móttökuskýrslu sagði vitnið frá brotaþola komna. Vitnið hefðir ritað frásögnina eftir henni jafnóðum.
Vegna þess með hvaða hætti brotaþoli hefði lýst hinu meinta broti hefði ekki verið talin ástæða til þess að kalla til lækni til að framkvæma réttarlæknisfræðilega skoðun. Vísaði vitnið í þessu sambandi til þess að brotaþoli hefði borið um að ákærði hefði farið með getnaðarlim sinn upp í munn brotaþola. Þaðan sagði vitnið lífsýni mjög fljót að fara. Öðru hefði gegnt ef brotaþoli hefði borið um að limurinn hefði farið inn í kynfæri eða endaþarm.
M lögreglumaður kom fyrir dóm og staðfesti gerð
tveggja skýrslna er annars vegar innihalda ljósmyndir af áverka á hálsi
brotaþola og hins vegar ljósmyndir af getnaðarlim ákærða. Ljósmyndir í
skýrslunum kvaðst vitnið hafa tekið að þeim myndum undanskildum sem fram kæmi
að brotaþoli sjálf hefði tekið. Þá kom fram hjá vitninu að það hefði verið
viðstatt réttarlæknisfræðilega skoðun á ákærða.
N læknir, sem framkvæmdi réttarlæknisfræðilega skoðun
á ákærða 12. október 2017, bar fyrir dómi að við skoðunina hefðu einungis
fundist áverkaummerki fremst á getnaðalim ákærða, en þar hefði verið roði.
Hvers eðlis sá roði var væri mjög erfitt að segja til um. Mögulega hefði hann
komið til vegna núnings. Aðspurt kvað vitnið engin tannaför hafa verið að finna
á limnum. Sagði vitnið óeðlilegt að við bit hefðu bara komið ummerki ofan á
limnum en ekki undir honum.
IV
Undir rekstri málsins var aflað vottorðs O sálfræðings, dags. 17. maí 2018, um afleiðingar meints kynferðisbrots og meðferðarþarfir brotaþola til framtíðar litið. Í niðurlagi vottorðsins er að finna svohljóðandi samantekt:
Brotaþola,
24 ára gamalli konu, var vísað í sálfræðilegt mat og áfallahjálp hjá
sálfræðiþjónustu Neyðarmóttökunnar vegna meints kynferðisbrots sem átti sér
stað þann 08.10.2017. Þegar þetta vottorð er ritað hefur undirrituð hitt brotaþola fimm sinnum í viðtölum á
tímabilinu 12.10.2017 til 16.05.2018. Frásögn brotaþola var trúverðug og hún samkvæm sjálfri sér.
Í viðtölunum greindi brotaþoli frá ...
O kom fyrir dóm við aðalmeðferð málsins og staðfesti og skýrði vottorð sitt. Fram kom hjá vitninu að brotaþoli hefði sýnt mikil forðunareinkenni. Hún hefði lýst miklu óöryggi og óttast meintan geranda. Vitnið sagði einkenni brotaþola hafa minnkað að einhverju leyti frá því vitnið hitti hana fyrst en þó ekki mjög miklu. Þannig lýsti brotaþoli nú minni pirringi, hún svæfi mun betur og fengi sjaldnar martraðir. Vitnið áréttaði það sem fram kemur í vottorði þess að brotaþoli þarfnaðist sérhæfðrar meðferðar og að slík meðferð væri áformuð. Í þeirri meðferð yrði sérstaklega horft til þeirra mjög svo sterku forðunareinkenna sem brotaþoli væri með, sem og endurupplifunareinkenna.
V
Í málinu er ákærða gefin að sök
nauðgun með því að hafa á þeim stað og tíma sem í ákæru greinir haft samræði og önnur
kynferðismök við brotaþola gegn hennar vilja með því að beita hana ofbeldi og
ólögmætri nauðung með því að grípa í hár brotaþola og þvinga hana til að hafa
við sig munnmök með því að þrýsta framan á háls hennar, hafa svo tekið buxur brotaþola
niður og reynt að hafa við hana samræði í endaþarm og leggöng, og síðan gripið
aftur í hár brotaþola og þvingað hana til að hafa við sig munnmök í annað sinn.
Ákærði neitar sök.
Upplýst er með framburði ákærða, brotaþola og vitnanna B, E og G að fundum ákærða og brotaþola bar saman á
skemmtistaðnum [...] við [...] í [...], [...], aðfaranótt 8. október 2017. Ákærði og brotaþoli þekktust ekkert fyrir.
Ákærði bar fyrir dómi að hann hefði veitt brotaþola athygli á dansgólfi skemmtistaðarins. Hann hefði séð að hún var með lokk í tungunni og honum þótt það flott. Ákærði hefði í kjölfarið gefið sig að brotaþola og sagt henni þá skoðun sína. Þau hefðu í framhaldinu dansað saman og svo kysst. Brotaþoli tók fram, spurð um þessi atvik fyrir dómi, að hún hefði verið að neyta áfengis og hefði hún orðið mjög ölvuð. Af þeim sökum myndi hún lítið eftir atvikum inni á skemmtistaðnum. Brotaþoli sagðist þó muna að ákærði hefði komið upp að henni þegar hún var að dansa og í kjölfarið hefði hann leitt hana að karlaklósettinu. Þar hefði ákærði kysst hana. Systir brotaþola, B, lýsti atvikum þessum með nokkuð öðrum hætti en ákærði. Vitnið sagði ákærða hafa sýnt brotaþola mikla athygli en þar sem brotaþoli hefði verið orðin svolítið drukkin hefði vitnið reynt eftir fremsta megni að ganga á milli hennar og ákærða og koma með því í veg fyrir að ákærði dansaði við brotaþola. Þá hefði vitnið ítrekað beðið ákærða um að fara í burtu. Brotaþoli hefði aftur á móti ekki verið því mótfallin að dansa við ákærða. Vitnið kvaðst hafa séð að ákærði „... ætlaði alltaf að reyna að kyssa hana og ná henni til sín ...“. Nefndi vitnið einnig að það hefði metið ástand systur sinnar svo að hún gæti ekki farið heim með ókunnugum manni. E bar hvað þetta varðaði að hún hefði veitt því athygli að brotaþoli og ákærði spjölluðu saman á barnum um kvöldið. Þá hefði brotaþoli í gríni klipið ákærða í rassinn og dillað sér upp við hann. Vitnið sagði ákærða hafa verið utan í brotaþola allt kvöldið. Hann hefði meðal annars verið að reyna að dansa við hana. Systir brotaþola hefði verið að reyna að ýta ákærða í burtu þar sem henni hefði ekki litist á þessa þróun mála og hefði vitnið veitt henni einhverja aðstoð við það. Taldi vitnið að ekki hefði verið um gagnkvæman áhuga að ræða hjá brotaþola. Þá kom fram hjá G að maður sem vitnið hefði ekki þekkt, en ljóst er af framburðum annarra vitna að var ákærði, hefði sótt mikið í brotaþola um nóttina. Brotaþoli hefði ekki sýnt honum áhuga og frekar viljað vera með vinkonum sínum. Vitnið kvaðst, með vilja brotaþola, ítrekað hafa ýtt ákærða frá brotaþola og sagt honum að láta hana vera.
Af öllu framangreindu virtu þykir dómnum sannað að ákærði hafi sýnt brotaþola mikinn áhuga inni á skemmtistaðnum [...] og margítrekað gefið sig að henni þannig að þeim sem með brotaþola voru þótti nóg um. Þá þykir verða að líta til þess að lýsingar ákærða fyrir dómi á því hvernig kynni tókust með honum og brotaþola voru nokkuð aðrar en lýsingar hans á þeim atvikum fyrst þegar hann gaf skýrslu hjá lögreglu. Við þá skýrslugjöf lýsti lýsti talsverðri ákefð brotaþola, nokkuð sem enga haldbæra stoð hefur fengið í framburði vitna í málinu og ákærði síðan dró nokkuð úr fyrir dómi. Því verður þó allt að einu að halda til haga að upplýst er með framburði brotaþola og systur hennar að brotaþoli var því ekki mótfallin að eiga samskipti við ákærða inni á skemmtistaðnum.
Um ástand brotaþola umrædda nótt liggur það fyrir að samkvæmt áðursögðu bar
brotaþoli um að hún hefði neytt áfengis og orðið mjög ölvuð. Af þeim
sökum kvaðst hún lítið muna eftir atvikum inni á skemmtistaðnum. Ákærði bar
fyrir dómi að brotaþoli hefði litið út fyrir að vera mjög ölvuð. B lýsti
ölvunarástandi systur sinnar þannig að hún hefði verið orðin svolítið drukkin. Einnig kom fram hjá B að
hún hefði metið ástand systur sinnar svo að hún gæti ekki farið heim með
ókunnugum manni. E bar um ástand brotaþola að hún hefði verið frekar drukkin og
þá bar G, sem sjálf kvaðst hafa verið undir áhrifum áfengis en þó ekki
ölvuð, að brotaþoli hefði verið undir mikið meiri áhrifum en hún. Að öllu þessu
virtu þykir mega leggja til grundvallar að brotaþoli hafi verið undir
töluverðum áfengisáhrifum um nóttina.
Fyrir liggur að ákærði og brotaþoli ræddu saman eftir að þau fóru út af skemmtistaðnum við lokun hans. Þá báru bæði brotaþoli og systir hennar að í kjölfarið hefðu ákærði og brotaþoli lagt saman af stað gangandi frá staðnum. Framlögð myndskeið eru þeim framburði til stuðnings. Brotaþoli sagði að þegar systir hennar hefði komið á eftir henni og ákærða og kallað á hana hefði ákærði tekið í hönd hennar og greikkað sporið. Þau tvö hefðu í kjölfarið gengið fram á tvo stráka og þar sem brotaþola hefði fundist ákærði, sem verið hefði að toga hana áfram, vera orðinn of ágengur hefði hún gefið sig að strákunum og greint þeim frá áhyggjum sínum af framgöngu ákærða. Hún hefði síðan orðið þeim samferða til baka til systur sinnar. Ákærði hefði þá hlaupið í burtu. Brotaþoli sagði þær systur því næst hafa farið og rætt framgöngu ákærða og áhyggjur þeirra af henni við lögreglukonur sem verið hefðu í lögreglubifreið skammt frá. Samrýmist þessi frásögn brotaþola vætti J lögreglumanns og fær hún einnig nokkra stoð í framlögðum rannsóknargögnum lögreglu.
Fyrir dómi bar brotaþoli að eftir að hafa rætt við lögreglu hefði hún farið til baka „... til að passa það að hann muni ekki taka einhverja aðra stelpu.“ Brotaþoli hefði í framhaldinu rætt við ákærða. Eftir nokkra stund hefði komið til tals að þau færu í samkvæmi „heima hjá [...]“ í eigubíl ásamt tveimur félögum ákærða. Hvernig það atvikaðist að samtal þeirra ákærða tók þá stefnu sagðist brotaþoli ekki geta skýrt. Eftir að hafa verið ítrekað að því spurð nefndi brotaþoli þó til skýringar að hún hefði verið „... of full til að vita hvað ég var að gera.“
Ákærði bar svo um atvik eftir að skemmtistaðnum [...] var lokað að hann og félagar hans hefðu ætlað að hringja eftir leigubíl en brotaþoli þá komið til þeirra. Hún hefði ítrekað sagt við ákærða: „Í kvöld kemur þú með mér, þú kemur með mér.“ Fær dómurinn ekki séð að sá framburður ákærða hafi fengið nokkra stoð í framburði vitna, ekki frekar en fyrri lýsingar hans á ágengni brotaþola. Þá samrýmist þessi framburður ákærða því illa sem áður var rakið um að brotaþoli hafi snúið aftur að skemmtistaðnum með tveimur mönnum eftir að hún hélt af stað gangandi með ákærða og í framhaldinu farið og tilkynnt lögreglu um óviðeigandi hegðun ákærða.
Ákærði bar jafnframt að hann hefði sagt brotaþola að hann væri reiðubúinn til þess að fara með henni eitthvað annað en heim til hennar. Ákærði sagðist hafa talið að brotaþoli vildi fara með honum í kynferðislegum tilgangi og sjálfur hefði hann ekki verið því andsnúinn. Brotaþoli hefði í kjölfarið rætt við systur sína en að samtali þeirra loknu hefðu ákærði og brotaþoli gengið saman í burtu. Félagar ákærða hefðu orðið eftir.
Hvernig það atvikaðist að hún og ákærði gengu tvö ein að [...] bar brotaþoli fyrir dómi að hún hefði talið að félagar ákærða myndu verða þeim samferða, en brotaþoli hefði talið þau vera að fara að leigubíl sem þeirra biði í nærliggjandi götu. Ákærði hefði síðan numið staðar og brotaþoli þá veitt því athygli að félagar ákærða voru ekki lengur með þeim í för.
Upplýst er að þegar þarna var komið sögu voru brotaþoli og ákærði stödd ein við [...] í [...]. Fyrir liggur með framburði ákærða og brotaþola og þeim tímasetningum sem fram koma á framlögðu myndefni að þau voru þar í stuttan tíma, eða í um fjórar til fimm mínútur. Brotaþoli lýsti því sem gerðist svo fyrir dómi að ákærði hefði byrjað að kyssa hana og taldi brotaþoli aðspurð að hún hefði kysst hann á móti. Sími ákærða hefði síðan hringt og hann í kjölfarið sagt við brotaþola: „Systir þín er að koma, systir þín er að koma.“ Ákærði hefði síðan tekið í handlegg brotaþola og dregið hana inn á næstu lóð og að hvítri sendiferðabifreið sem þar stóð. Þegar þangað kom hefði ákærði tekið um hár brotaþola og togað hana niður á hnén. Svo hefði hann ýtt á háls brotaþola til þess að opna munn hennar. Hann hefði því næst tekið lim sinn út og stungið honum í munn brotaþola. Þegar ákærði hefði verið farinn að ýta lim sínum of langt inn kvaðst brotaþoli hafa reynt að stoppa ákærða með því að ýta í læri hans en án árangurs. Fram kom hjá brotaþola að hún hefði í fyrstu ekki verið munnmökunum mótfallin en þegar ákærði var orðinn of ágengur hefði hún ekki viljað þau lengur. Brotaþoli kvað ákærða því næst hafa reist hana við og farið með hana aftur fyrir bifreiðina. Þar hefði hann tekið bol brotaþola upp og girt niður um hana. Hann hefði síðan reynt að setja liminn inn í brotaþola en ekki tekist. Hvort ákærði hefði ætlað að setja liminn inn í leggöng eða endaþarm kvaðst brotaþoli ekki vita en limurinn hefði í það minnsta farið nærri endaþarminum. Ákærða hefði ekki tekist ætlunarverk sitt og hann því sest niður á aftanverða bifreiðina og reynt að láta brotaþola fara ofan á sig en brotaþoli neitað. Ákærði hefði samt haldið áfram að toga í brotaþola sem ítrekað hefði sagt nei við hann á ensku. Við það hefði ákærði orðið pirraður. Hann togað brotaþola aftur niður á hárinu og sett lim sinn í munn hennar að nýju. Ákærði hefði þá verið ákafari en í fyrra sinnið. Brotaþoli kvaðst hafa reynt að standa upp og fara. Hún hefði einnig freistað þess að bíta í lim ákærða en vör hennar lent á milli og ákærði því ekki fundið fyrir bitinu. Brotaþoli hefði síðan farið að hágráta, sagt ákærða að hætta og reynt að ýta honum í burtu, án árangurs. Ákærði hefði skyndilega látið af háttsemi sinni og gengið í burtu. Brotaþoli hefði farið á eftir ákærða og spurt hann að því af hverju hann hefði verið að gera þetta. Hún hefði síðan tekið um háls ákærða og ætlað að freista þess að ná honum niður í þeim tilgangi að halda ákærða á staðnum svo lögregla gæti haft af honum afskipti. Ákærði hefði brugðist við með því að ýta við brotaþola sem við hefði misstigið sig og skollið með höfuðið í framenda bifreiðarinnar. Ákærði hefði síðan farið í burtu.
Ákærði hefur alfarið hafnað ásökunum brotaþola um nauðgun. Hann hefur neitað að hafa dregið brotaþola inn í garðinn og segir brotaþola hafa haft frumkvæði að munnmökunum. Ákærði kvaðst hafa staðið meðan á þeim stóð og brotaþoli beygt sig niður. Ákærði sagðist hafa fært sig úr buxum og nærbuxum en minntist þess ekki hvort hann hefði fengið aðstoð við það frá brotaþola. Þá kannaðist ákærði ekkert við þá lýsingu brotaþola að hún hefði reynt að bíta í lim hans meðan á munnmökunum stóð. Að munnmökunum loknum hefðu þau í sameiningu losað um föt brotaþola og reynt í örstutta stund að hafa samfarir. Ákærði kvaðst meðan á því stóð hafa setið í stiga sem verið hefði aftan við húsbílinn. Brotaþoli hefði setið ofan á ákærða og snúið í hann baki. Fullyrti ákærði að limur hans hefði farið inn í leggöng brotaþola. Samfarirnar hefðu hins vegar staðið mjög stutt yfir þar sem brotaþoli hefði skyndilega sagt: „Systir mín er að leita að mér, systir mín er að leita að mér. Ég þarf að fara.“ Ákærði sagðist ekki hafa andmælt því að brotaþoli færi og sagði fullyrðingar hennar um að hún hefði beðið hann um að láta af samförunum rangar. Þá neitaði ákærði því að brotaþoli hefði grátið. Eftir að samfarirnar rofnuðu kvaðst ákærði hafa staðið upp og ætlað að fara í burtu en brotaþoli þá tekið í öxl hans og togað í hann. Ákærði hefði losað sig og farið án þess að líta til baka.
Svo sem rakið er að framan liggur fyrir ítarlegur framburður brotaþola af atvikum á lóðinni að [...] umrædda nótt. Framburður brotaþola samræmist því sem fyrir liggur um aðstæður á vettvangi, sbr. framlagðar ljósmyndir. Þá liggja frammi í málinu ljósmyndir af marbletti á hálsi brotaþola á svipuðum stað og hún hefur borið að ákærði hafi þrýst á til þess að opna munn hennar. Af hálfu ákærða hefur réttilega verið á það bent að marbletturinn hafi ekki komið fram við skoðun á neyðarmóttöku 9. október sl. Allt að einu bera nefndar ljósmyndir með sér að marblettur hafi verið sýnilegur við myndatöku lögreglu 11. sama mánaðar, en M lögreglumaður staðfesti fyrir dómi að hafa tekið nokkrar hinna framlögðu ljósmynda þann dag. Þá bar K rannsóknarlögreglumaður að brotaþoli hefði verið með sjáanlegan marblett vinstra megin á hálsi er hún gaf skýrslu vegna málsins þann dag. Marbletturinn var greinilegri þegar brotaþoli sjálf ljósmyndaði hann nokkru áður, svo sem ráða má af framlögðum ljósmyndum sem brotaþoli afhenti lögreglu. Þótt ekki verði fullyrt að marbletturinn hafi komið til með taki ákærða um háls brotaþola er að mati dómsins til stuðnings framburði brotaþola í málinu að hún hafi skömmu eftir að atvik gerðust borið marblett á svipuðum stað og hún hefur borið að ákærði hafi þrýst á.
Fyrir liggur með framburði systur
brotaþola, E, H, F og G að brotaþoli var í grátandi og í uppnámi þegar hún kom
til baka frá [...]. Þá staðfestu vitnin að brotaþoli hefði strax sakað ákærða
um nauðgun. Það gerði hún einnig í samtali við lögreglu skömmu síðar, sbr.
vætti J lögreglumanns
og framlagt myndefni úr búkmyndavél lögreglu. Á þeirri upptöku má sjá og heyra
brotaþola lýsa atvikum og er framburður hennar skýr og afgerandi um að ákærði
hafi brotið gegn henni.
Þá þykir hér mega líta til vottorðs O sálfræðings, sem
dagsett er 17. maí 2018, um afleiðingar meints kynferðisbrots. Í vottorðinu
kemur fram að frásögn brotaþola hafi verið trúverðug og hún verið samkvæm
sjálfri sér. Brotaþoli hafi í viðtölum greint frá áfallastreitueinkennum eftir
meint kynferðisbrot ásamt kvíða-, þunglyndis- og streitueinkennum og
svefnvanda. Segir vottorðsgjafi sálræn einkenni brotaþola í kjölfar áfallsins
samsvara einkennum sem þekkt séu hjá fólki sem upplifað hafi alvarleg áföll
eins og líkamsárás, nauðgun, stórslys eða hamfarir. Ljóst væri að meint
kynferðisbrot hefði haft víðtæk áhrif á líðan brotaþola. Í vitnaskýrslu
sálfræðingsins fyrir dómi kom fram að brotaþoli hefði sýnt mikil
forðunareinkenni og hún lýst miklu óöryggi og hún óttast meintan geranda. Þegar
allt þetta er virt er það mat dómsins að það sem fram kemur í vottorði
sálfræðingsins sé til þess fallið að styðja framburð brotaþola í málinu.
Af framlögðum myndskeiðum úr eftirlitsmyndavélum á [...]
í [...] má ráða
að ákærði hafi hraðað för sinni eftir að leiðir hans og brotaþola skildu við [...].
Til hins sama bendir framburður G, en af framburði hennar má ráða að
stuttu áður en brotaþoli kom til baka á [...] hafi hún séð ákærða ganga mjög
rösklega niður götuna. Af þessu má ráða að ákærði hafi viljað koma sér sem
fyrst burt af svæðinu.
Að mati dómsins hefur framburður brotaþola í málinu
verið stöðugur. Hún hefur aldrei hvikað frá þeirri frásögn sinni að ákærði hafi
beitt hana ofbeldi og nauðung til að koma fram vilja sínum. Af hálfu ákærða var
í munnlegum málflutningi á það bent að ekki væri gott samræmi á milli ýmissa
gerða brotaþola um nóttina. Að sínu leyti má undir það taka. Þannig er
illskiljanleg sú ákvörðun brotaþola að fara með ákærða eftir að hafa skömmu
áður komið að máli við lögreglu og varað við honum. Þegar litið er til þess að
brotaþoli var töluvert drukkin samkvæmt áðursögðu dregur það að mati dómsins
hins vegar ekki eitt og sér úr trúverðugleika framburðar brotaþola að hún hafi
um nóttina tekið óskynsamlegar ákvarðanir. Auk ölvunarástands brotaþola gæti það
hér einnig horft til skýringar sem fyrir liggur um áhuginn hafi að einhverju
leyti verið gagnkvæmur og að brotaþoli hafi verið upp með sér vegna þeirrar
miklu athygli sem ákærði sýndi henni, þótt henni stæði allt að einu af honum
ákveðinn stuggur. Þá er það sem fyrir liggur samkvæmt framansögðu um hversu
ákveðið ákærði sótti í brotaþola fyrr um kvöldið að sínu leyti þeim framburði
brotaþola til stuðnings að ákærði hafi ekki látið af háttsemi sinni þrátt fyrir
að brotaþoli hafi mótmælt framgöngu hans og reynt að streitast á móti. Að
endingu skal tekið fram að sú staðreynd að ekki hafi fundist bitfar á
getnaðarlim ákærða dregur að mati dómsins ekki úr trúverðugleika framburðar
brotaþola þegar til þess er litið að brotaþoli bar þannig um atvikið fyrir dómi
að hún hefði freistað þess að bíta í lim ákærða en vör hennar lent á
milli og taldi hún að ákærði hefði af þeim sökum ekki fundið fyrir bitinu.
Að öllu því sögðu sem að ofan er rakið og þegar virt eru heildstætt öll þau atriði önnur sem áður var vikið að er það niðurstaða dómsins að framburður brotaþola af atvikum að [...] sé trúverðugur. Að sama skapi þykir framburður ákærða um atriði er tengjast málsatvikum og þegar hefur verið vikið að ekki fá viðhlítandi stoð í framburði vitna eða gögnum málsins. Að mati dómsins er framburður ákærða um atvik að [...] samkvæmt því að sama skapi ótrúverðugur.
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið telur dómurinn sannað, gegn neitun ákærða, með skýrum og trúverðugum framburði brotaþola, eins og hann er studdur framburði vitna og gögnum málsins samkvæmt framansögðu, svo ekki verði vefengt með skynsamlegum rökum, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að ákærði hafi reynt að hafa samræði við við brotaþola með þeim hætti sem lýst er í ákæru og að öðru leyti gerst sekur um þá háttsemi sem honum er þar gefin að sök og þar er réttilega heimfærð til refsiákvæða.
VI
Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins hefur ákærða ekki áður verið gerð refsing.
Ákærði er í málinu sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en
brot gegn ákvæðinu varðar fangelsi ekki skemur en í eitt ár og allt að 16 árum.
Að því gættu og með vísan til 1., 2. og 7. töluliðar 1. mgr. 70. gr. almennra
hegningarlaga þykir refsing ákærða, að virtum dómafordæmum Hæstaréttar Íslands,
réttilega ákveðin fangelsi í þrjú ár.
VII
Í málinu krefst
brotaþoli miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 2.500.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og
verðtryggingu frá 8. október 2017, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr.,
sbr. 9. gr., sömu laga frá því ákærða var birt bótakrafan til greiðsludags.
Samkvæmt framansögðu hefur dómurinn slegið því föstu að ákærði hafi brotið gegn brotaþola svo varði við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með hinni refsiverðu háttsemi hefur ákærði bakað sér bótaábyrgð gagnvart brotaþola á grundvelli b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Bætur fyrir miska skulu ákvarðaðar eftir því sem sanngjarnt þykir og við mat á fjárhæð þeirra skal einkum líta til alvarleika brotsins, sakarstigs brotamanns, huglægrar upplifunar brotaþola og loks umfangs tjónsins.
Við mat á miskabótum til handa brotaþola þykir mega
líta til vottorðs O sálfræðings, sem dagsett er 17. maí 2018, sbr. kafla IV hér
að framan. Í vottorðinu kemur fram að í viðtölum hafi brotaþoli greint frá
áfallastreitueinkennum ásamt kvíða-,
þunglyndis- og streitueinkennum og svefnvanda. Þar segir jafnframt að sálræn
einkenni brotaþola í kjölfar áfallsins hafi samsvarað einkennum sem þekkt séu
hjá fólki sem upplifað hafi alvarleg áföll. Ekki sé hægt að segja til um það
með vissu hver áhrif kynferðisbrotsins verði til lengri tíma en líklegt sé að
brotaþoli þurfi reglulega að takast á við áminningar um brotið í sínu daglega
lífi. Þá þykir sálfræðingnum ljóst að brotið hafi haft víðtæk áhrif á líðan
brotaþola.
Með vísan til alls framangreinds og að broti ákærða
virtu þykja miskabætur til handa brotaþola hæfilega ákvarðaðar 1.400.000
krónur. Um vexti og dráttarvexti af kröfunni fer svo
sem í dómsorði greinir, en af gögnum málsins verður ráðið að bótakrafa
brotaþola hafi fyrst verið kynnt ákærða við birtingu fyrirkalls í málinu.
VIII
Með vísan til sakfellingar ákærða, sbr. 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, verður honum gert að greiða allan sakarkostnað málsins. Ákærði dæmist því til að greiða sakarkostnað samkvæmt framlögðu yfirliti héraðssaksóknara, dagsettu 23. febrúar 2018, samtals 94.000 krónur, og útlagðan kostnað við öflun vottorðs sálfræðings, 120.000 krónur. Ákærði greiði einnig þóknun skipaðs verjanda síns, Guðmundar St. Ragnarssonar lögmanns, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Gunnhildar Pétursdóttur lögmanns, en þóknun verjanda og réttargæslumanns þykir að umfangi málsins virtu og með hliðsjón af tímaskýrslum lögmannanna hæfilega ákveðin svo sem í dómsorði greinir.
Dóm þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari. Fyrir uppsögu dómsins var gætt 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
D Ó M S O R Ð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í þrjú ár.
Ákærði greiði 2.711.980 krónur í sakarkostnað, þar með talda þóknun skipaðs verjanda síns, Guðmundar St. Ragnarssonar lögmanns, 1.812.880 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Gunnhildar Pétursdóttur lögmanns, 685.100 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum.
Ákærði greiði brotaþola, A, 1.400.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. október 2017 til 1. apríl 2018, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Kristinn Halldórsson