D Ó M U R
Héraðsdóms Austurlands miðvikudaginn
20. júní 2018 í máli nr. S-17/2017:
Ákæruvaldið
(Helgi Jensson, fulltrúi lögreglustjóra)
gegn
A og
B
(Þórhallur Haukur Þorvaldsson lögmaður)
Mál þetta, sem dómtekið var 26. apríl 2018, er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Austurlandi, útgefinni 10. mars 2017, á hendur A, kennitala […], […], […] og B, kt. […], […], […], fyrirsvarsmaður A stjórnarmaður,
„fyrir brot á lögum um atvinnuréttindi útlendinga og lögum um útlendinga, með því að hafa, A sem stjórnarmaður og eigandi einkahlutafélagsins B, á tímabilinu frá byrjun árs til 18. maí 2016, ráðið til starfa við landbúnaðarstörf á jörðinni […], […], C, kt. […], D, kt. […] og E, kt. […], allt bandaríska ríkisborgara og á tímabilinu frá 18. maí til 10. júní 2016, nýtt sér starfskrafta C og D, en á tímabilinu frá 14. maí til 10. júní 2016, nýtt sér starfskrafta E, til landbúnaðarstarfa á jörðinni […], í atvinnustarfsemi B, án þess að þau hefðu tilskilin atvinnu- og dvalarleyfi á Íslandi.
Telst þetta varða við 2. mgr. 6. gr., sbr. a. lið 1. mgr. og a. lið 2. mgr. og 4. mgr. 27. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga nr. 97/2002 og a. lið 2. mgr., sbr. 5. mgr. 57. gr., sbr. 9. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002, sbr. nú a. lið 2. mgr. og 5. mgr. 116. gr., sbr. 2. mgr. 50. gr. laga nr. 80/2016.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Við aðalmeðferð málsins leiðrétti fulltrúi ákæruvalds lok þess tímabils sem getið er um í ákæru og var miðað við 9. júní 2017 í öllum tilvikum.
Ákærðu krefjast þess að þau verði sýknuð af refsikröfu ákæruvaldsins, en til vara að þau verði dæmd til vægustu refsingar sem lög leyfa og að þeim verði ekki ákvörðuð eiginleg refsing. Þá krefjast ákærðu þess að allur sakarkostnaður falli á ríkissjóð, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda þeirra, Þórhalls Hauks Þorvaldssonar lögmanns, við alla meðferð málsins, samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi og útlögðum kostnaði hans.
I.
1. Málavextir eru þeir helstir að með bréfi lögmanns …félags til lögreglustjórans á Austurlandi, dagsettu 14. júní 2016, kærði félagið ákærðu í máli þessu, B og A, stjórnarmann og stofnanda félagsins. Í kærunni er vísað til ákvæða laga um atvinnuréttindi útlendinga nr. 97/2002 og laga um útlendinga nr. 96/2002 og er farið fram á rannsókn lögreglu, m.a. á grundvelli fylgiskjals, sem ritað var af framkvæmdastjóra stéttarfélagsins, þar sem vikið er að viðveru og starfi þeirra þriggja bandarísku einstaklinga, sem nafngreindir eru í ákæru vegna ætlaðra starfa þeirra á jörðinni […] á […].
Samkvæmt gögnum var tilefni kærunnar eftirlitsferð framkvæmdastjóra stéttarfélagsins, en einnig starfsmanns Ríkisskattstjóra og starfsmanns Vinnumálastofnunar, með skráningu starfsfólks á starfsstöð B ehf. í […] þann 9. júní nefnt ár.
Í kærunni er það sjónarmið m.a. reifað að umræddir einstaklingar hafi starfað við matvælaframleiðslu hjá hinu ákærða félagi og að afurðum þess hafi verið ætlað að fara á almennan markað, til hagsbóta fyrir félagið og/eða ákærða A. Vísað er til þess að níu einstaklingar hafi verið við störf á vettvangi í greint sinn, þ.e. fjórir launþegar, tveir sjálfboðaliðar frá ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins og loks hinir þrír bandarísku einstaklingar. Tiltekið er að kæran taki til starfa þriggja síðastnefndu sjálfboðaliðanna þar sem launaðir starfsmenn hefðu ella unnið störf þeirra. Staðhæft er í kærunni að nefndir sjálfboðaliðar hafi þegið greiðslu fyrir störf sín í formi fæðis og gistingar. Þá hafi þeir verið án tilskilinna atvinnu- eða dvalarleyfa, sem sé í andstöðu við ákvæði áðurgreindra lagabálka.
2. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu, sem dagsett er 9. júní 2016, fóru lögreglumenn á vettvang í […] er atvik máls gerðust, klukkan 15:13, að beiðni starfsmanns Vinnumálastofnunar „til að taka niður upplýsingar vegna ólaunaðra starfsmanna, sjálfboðaliða.“ Í skýrslunni segir m.a. frá því að við komu lögreglumanna í […] hafi þeir hitt fyrir áðurgreinda starfsmenn stéttarfélags og ríkisstofnana, en í framhaldi af því hafi þeir m.a. rætt við þrjá bandaríka ríkisborgara. Tekið er fram að á vettvangi hafi einnig verið fleiri erlendir einstaklingar, þ. á m. frá meginlandi Evrópu, en auk þess fastráðnir starfsmenn B.
Í lögregluskýrslunni er haft eftir C, fæddri 1995, að hún hafi komið að […] þann 18. maí nefnt ár og að hún starfaði þar sem lærlingur, en hafi ætlað að fara af landinu í lok júlímánaðar. Þá er haft eftir D, fæddum árið 1990, að hann hafi komið á býlið 18. maí, sem sjálfboðaliði, en hann hafi ætlað að fara af landinu í lok júlímánaðar. Loks er haft eftir E, fæddri 1986, að hún hafi komið á býlið sem sjálfboðaliði „stuttu áður“ og hafi ætlað að dvelja þar í þrjár til fjórar viku. Í skýrslunni er haft eftir nefndum einstaklingum að vera þeirra í […] tengdist lífrænni ræktun plantna, að starfsdagur þeirra hafi verið um 6 klukkustundir, en í skiptum stæði þeim til boða húsnæði og fæði.
Í lögreglukýrslunni er m.a. haft eftir ákærða A að í […] störfuðu fimm fastir starfsmenn, en að umræddir sjálfboðaliðar væru starfseminni til viðbótar. Einnig er haft eftir ákærða að umræddir sjálfboðaliðar hafi komið á býlið fyrir tilstuðlan og samkvæmt beiðni samtakanna World Wide Opportunities in Organic Farms (WWOOF), og að tilgangurinn með dvöl þeirra hefði verið að veita þeim tækifæri til að kynnast starfsemi búsins, en af þeim sökum legðu þeir m.a. fram eigin vinnu. Að auki væri tilgangurinn með dvöl sjálfboðaliðanna hér á landi að kynnast annarri menningu, en í staðinn fyrir tiltekið vinnuframlag fengju þeir húsaskjól og fæði.
3. Samkvæmt gögnum sendi …félag greinargerð um vettvangs- og eftirlitsferðina í […] til Útlendingastofnunar, Vinnumálastofnunar og Ríkisskattstjóra.
Fyrir liggur að fyrirsvarsmenn B báru fram ítrekaðar skriflegar fyrirspurnir til Vinnumálastofnunar, þ. á m. þann 11. júlí 2016, og þá um hvort að það hefði verið í samræmi við vinnureglur og stjórnsýsluhætti stofnunarinnar að kalla til lögreglu í nefndri eftirlitsferð, þar sem slík heimsókn hefði verið hin fyrsta sinnar tegundar hjá félaginu. Í svarbréfi Vinnumálastofnunar, dagsettu 3. ágúst sama ár, er vísað til starfsskyldna stofnunarinnar, þ. á m. samkvæmt lögum um atvinnuréttindi útlendinga, einkum 2. og 4. mgr. 6. gr., 4. og 5. mgr. 19. gr. og 27. gr. nr. 97/2002. Jafnframt er í bréfinu vísað til þess að ákærðu hefðu ekki lagt inn umsókn fyrir erlenda ríkisborgara né hafi þeir óskað eftir leiðbeiningum um það hvort störf erlendra sjálfboðaliða utan ríkja EES krefðust útgáfu atvinnuleyfa. Bent er á í bréfinu að slíkar umsóknir séu metnar hverju sinni, og þá m.a. út frá því hvort fyrirhugað starf sé þáttur í efnahagslegri starfsemi. Síðan segir í svarbréfinu: „Ef svo er þá er það mat stofnunarinnar að nauðsynlegt sé að fá útgefið atvinnuleyfi … Þegar um er að ræða sjálfboðaliðastörf í þágu frjálsra félagasamtaka eða annarra sambærilegra aðila hefur Vinnumálastofnun veitt undanþágur frá kröfu um atvinnuleyfi ef það liggur skýrt fyrir að sjálfboðaliðinn komi ekki í staðinn fyrir launamann, þ.e. starf sem almennur launamaður myndi gegna. Hefur því verið um að ræða algera viðbót við fyrirliggjandi starfsmannafjölda.“
4. Samkvæmt rannsóknargögnum lögreglu var ákærði A yfirheyrður um kæruefnið, að viðstöddum tilnefndum verjanda sínum, þann 7. október 2017. Skýrsla ákærða er ítarleg, en þar neitar hann því alfarið að kæran eigi við rök að styðjast. Hann staðhæfir m.a. að hin bandarísku ungmenni hafi verið náms- og ferðamenn, en einnig gestir á […] og þá aðeins til skamms tíma og að þeir hafi ekki verið starfsmenn B.
5. Samkvæmt
Hlutafélagaskrá var B stofnað þann […] af ákærða A og eiginkonu hans, vitninu F.
Ákærði A er framkvæmdastjóri félagsins, en um tilgang þess segir: „Ræktun, framleiðsla matvæla, rekstur
fasteigna, leiga og annar skyldur rekstur, svo og ræktun á öðru ótöldu grænmeti
og hnýði.“
6. Fyrir liggur að ákærði A hefur um árabil stundað búrekstur á jörðinni […]. Fyrstu árin var hann með hefðbundinn kúabúsakap, en frá árinu 1990 hefur á jörðinni nær eingöngu verið stunduð sérhæfð lífræn grænmetisræktun af margvíslegum toga. Reksturinn var fyrst vottaður af vottunarstofunni Túni árið 1996. Vottuninni hefur verið viðhaldið æ síðan.
Við áðurnefnda lögregluyfirheyrslu, líkt og síðar fyrir dómi, lýsti ákærði A í stórum dráttum búskaparháttum sínum og síðan B á sviði lífrænnar ræktunar, en einnig vék hann að umfangi starfseminnar. Vísaði hann þar um m.a. til þess að starfsemin hjá B hefði ekki verið ýkja mikil, en að síðustu árin hefðu starfað fjórir til fimm fastráðnir starfsmenn hjá félaginu, en því til viðbótar væru tvö stöðugildi á höfuðborgarsvæðinu. Auk þess störfuðu eigendur þess, þ.e. hann og nefnd eiginkona, við reksturinn. Við yfirheyrsluna gerði ákærði m.a. grein fyrir tímabundinni viðveru erlendra ungmenna í […] og staðfesti að á meðal þeirra hefðu verið þeir einstaklingar sem fjallað er um í ákæru lögreglustjóra.
7. Við meðferð
málsins hjá lögreglu og í tengslum við nefnda skýrslugjöf ákærða A voru af hans
hálfu lögð fram vottorð, yfirlýsingar og umsóknir, sem m.a. lýstu dvöl erlendra
ungmenna á […]. Í því viðfangi tíundaði ákærði sérstaklega þátt áðurnefndra
samtaka, World Wide Opportunities in Organic Farms (WWOOF), og þá m.a. með þeim
hætti að B væri skráð hjá samtökunum sem svokallaður gestgjafi. Ákærði vísaði
til tilgangs samtakanna og lagði fram gögn því til staðfestu, sbr. m.a. skjal,
sem dagsett er 11.
júlí 2016.
Í hinu síðastgreinda skjali segir m.a.
að á Íslandi séu sjö lífræn bændabýli skráð sem samstarfsaðilar World
Wide Opportunities in Organic Farms, (WWOOF). Staðhæft er að samtökin séu ekki rekin í hagnaðarskyni og
að markmið þeirra sé að stuðla að menntunar- og menningartengdum samskiptum bændabýla
annars vegar og sjálfboðaliða sem dveljist á þeim tímabundið hins vegar. Tekið
er fram að meirihluti þeirra sjálfboðaliða sem séu á vegum samtakanna búi ekki
yfir kunnáttu í landbúnaði en hafi áhuga og ástríðu til að bera á því sviði.
Í nefndu skjali kemur fram að nefnd
samtök hafi verið stofnuð í Bretlandi árið 1971 og hafi breiðst út til yfir 100
landa og að um 12.000 gistibýli séu skráð sem viðtakendur sjálfboðaliða, en
þeir séu um 80.000 talsins. Vísað er til þess að starfsemi samtakanna samræmist
öllum þeim sautján markmiðum sem fram komi í nýrri hnattrænni áætlun Sameinuðu
þjóðanna um sjálfbæra þróun (e. UN Global Sustainable Development Agenda), en
veiti að auki nýrri kynslóð matvælaræktenda innblástur. Þá er staðhæft að
starfsemi samtakanna stuðli að vinarböndum fólks með ólíkan menningarlegan
bakgrunn og stuðli þannig að friði og gagnkvæmum skilningi þjóða heims.
Við rannsókn lögreglu lagði ákærði A fram samning B og D…háskólans í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum um „samstarfsmenntunaráætlun“ nemenda. Að auki lagði hann fram nokkurn fjölda umsókna/eyðublaða um starfsnám sjálfboðaliða/starfsnema, sem sótt hafa um dvöl hjá B, á […] á árunum 2015 og 2016.
8. Við meðferð
málsins fyrir dómi hafa aðilar, en aðallega ákærðu, lagt fram fjölda gagna. Gögn
þessi varða helst hina lífrænu ræktun á […], þ. á m. á byggi og grænmeti, en
einnig greina þau frá allviðamikilli trjárækt. Um er að ræða fréttagreinar í
héraðs- og landsmálablöðum frá árunum 2001-2003 og allt til þessa dags. Í
greinum þessum er einnig vikið að nefndum samtökum, World Wide Opportunities in
Organic Farms (WWOOF),
svo og dvöl erlendra ungmenna á […] og þá í tengslum við þá lífrænu ræktun sem þar er stunduð.
Að auki er þar vikið að öðrum verkefnum á jörðinni, þ. á m. sérstakri
göngustígagerð. Þá eru á meðal þessara gagna greinar um sama efni á erlendri
tungu, svo og fréttir um að ákærði A hafi verið sæmdur hinni íslensku fálkaorðu
árið 2012 fyrir frumkvæði á sviði búskaparhátta og matvælamenningar, en
jafnframt um að hann hafi það sama ár verið tilnefndur til náttúru- og
umhverfiverðlauna Norðurlandaráðs fyrir 25 ára starf við lífrænan búskap og
trjárækt og fyrir að leggja áherslu á mannlegan fjölbreytileika, en um það
segir nánar: „... ár hvert starfa hjá
honum ungir sjálfboðaliðar og mynda þannig alþjóðlegan félagsskap sem trúir á
jörðina og lærir að sýna umhverfi sínu virðingu.“
II.
Framburður ákærða og vitna fyrir dómi.
Ákærði skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði ekki verið heima við þegar fulltrúi stéttarfélags og starfsmenn Ríkisskattstjóra og Vinnumálastofnunar komu á starfstöð B í […] í júnímánuði 2016. Aftur á móti hefði þar verið að störfum eiginkona hans, vitnið F. Hafi hún gert komumönnum grein fyrir hverjir væru fastráðnir starfsmenn félagsins og hverjir hefðu verið þar sem sjálfboðaliðar. Ákærði sagði að komumenn hefðu í raun verið að fara af vettvangi þegar hann renndi í hlaðið, en um það leyti hefðu og lögreglumenn komið á vettvang, og að þá hefði fulltrúi stéttarfélagsins komið á nýjan leik.
Ákærði greindi frá því að umræddan dag hefðu nefndir sjálfboðaliðar, og þar á meðal þeir þrír bandrísku sem tilteknir eru í ákæru, verið að „pikkla“ utandyra í sólinni, þ.e. að hreinsa illgresi úr bökkum með kryddjurtum; „voru að dunda við það.“ Ákærði vísaði til þess að hann hefði gefið lögreglu skýrslu á vettvangi, sem eigandi og framkvæmdastjóri félagsins, en í framhaldi fylgst með því er lögreglumennirnir ræddu við „krakkana.“
Ákærði skýrði frá því að þegar hann hefði verið með búreksturinn í […] undir eigin nafni hefði hann tekið við sjálfboðaliðum til tímabundinnar dvalar og bar að það hefði fyrst komið til vegna fyrirspurna frá Bændasamtökunum, en síðar, þ.e. frá árinu 2001, einkum í gegnum erlend samtök. Ákærði vísaði til þess að hann væri búfræðingur að mennt og að hann hefði litið á hina tímabundnu dvöl sjálfboðaliðanna á jörðinni sem samfélagslegt verkefni, sem nyti viðurkenningar hér á landi, líkt og í öðrum löndum.
Vísaði ákærði til þess að frá nefndu ári, 2001, hefði hann verið skráður sem gestgjafi á sveitabúi í áðurnefndum samtökum, World Wide Opportunities in Organic Farms (WWOOF). Hann hefði haft það að markmiði, enda hefði það og verið tilgangurinn með dvöl þeirra ungmenna og sjálfboðaliða sem kæmu á vegum samtakanna, að þau nytu leiðsagnar hans sem búfræðings við hina lífrænu ræktun, líkt og nefnd samtök ætluðust til. Því hefðu ungmenni, sem lýst hefðu áhuga á að kynnast þeim gildum sem nefnd samtök stæðu fyrir, getað gengið til liðs við þau gegn tiltekinni greiðslu, en í framhaldi af því hefðu þau haft möguleika á því að sækja um tímabundna dvöl hjá skráðum sveitabýlum og þ. á m. í […]. Ákærði kvaðst árlega fá hundruð netpósta frá áhugasömum ungmennum vegna þessa, en bar að B hefði aðeins getað tekið við fáeinum umsækjendum og sjálfboðaliðum og nefndi í því sambandi 5-10 á ári. Í því sambandi vísaði ákærði til þess að þó svo að fallist hefði verið á umsókn tiltekins einstaklings væri allur gangur á því hvort viðkomandi kæmi til dvalar á tilsettum tíma, enda væri í raun um ferðamenn að ræða, sem oft færu landa á milli. Því væri um eins konar landkönnun á nútímavísu að ræða, en hver og einn greiddi eigin ferðakostnað.
Ákærði greindi frá því að í samræmi við ofangreint umsóknarferli hefðu Bandaríkjamennirnir þrír komið til tímabundinnar dvalar á […] og var það ætlan hans að þeir hefðu verið búnir að dvelja á býlinu í 2-4 vikur þegar lögreglan kom á vettvang í júnímánuði 2016.
Nánar skýrði ákærði frá því að stúlkan C hefði verið í óformlegu starfsnámi, enda þótt hún hefði sótt um vistina í gegnum bókunarkerfi fyrrnefndra samtaka. Vísaði ákærði í því sambandi til þess að B væri í samningssambandi við nokkra skóla og þá einkum í Frakklandi, um að taka við nemendum í óformlegt starfsnám í lífrænni ræktun. Nefnd stúlka hefði hins vegar verið fyrsti starfsnemandinn sem hefði komið frá Bandaríkjunum í þessum tilgangi.
Fyrir dómi staðhæfði ákærði að þeir sjálfboðaliðar sem hefðu dvalið í […], þar á meðal umræddir Bandaríkjamenn, hefðu ekki haft neinar launþegaskyldur gagnvart B, og þ. á m. ekki vinnuskyldu og viðveruskyldu eða bæru aðra ábyrgð. Engu að síður hefði þeim verið tryggt fæði og húsaskjól, en í þessu sambandi vísaði ákærði til áðurrakinna gilda og reglna WWOOF-samtakanna og einnig að ætlast væri til þess að sjálfboðaliðarnir hjálpuðu til við hina lífrænu ræktun í 5-7 klst. á dag. Fyrirkomulagið væri því líkt því sem um heimilisfólk væri að ræða, enda væru bændabýlin ekki að reka frí farfuglaheimili. Ákærði áréttaði að samkvæmt reglum WWOOF-samtakanna færu engar fjárgreiðslur á milli gestgjafanna, í þessu tilfelli B, og sjálfboðaliðanna, enda væri slíkt óheimilt. Af þessum sökum hefðu engar launagreiðslur farið til sjálfboðaliðanna frá Bandaríkjunum og þeir heldur ekki greitt fyrir fæði eða húsaskjól. Á hinn bóginn hefði það verið hluti af námi þeirra og lífsreynslu, líkt og annarra sjálfboðaliða á meðan á dvöl þeirra stóð, að þeir tækju þátt í ræktunarstarfi búsins, auk þess sem þeir hefðu hlýtt á fræðslu starfsmanna um hina lífrænu ræktun. Ákærði vísaði til þess að það hefði einnig verið hluti af nefndri reynslu sjálfboðaliðanna að þeim hefði verið ætlað að rækta eigið grænmeti og afurðir, a.m.k. að hluta til, og undir handleiðslu launaðra starfsmanna félagsins. Afraksturinn hefðu sjálfboðaliðarnir síðan nýtt til eigin nota og þá til matreiðslu, en að auki hefðu þeir annast eigið húshald. Ákærði staðhæfði að í gegnum tíðina hefðu margir sjálfboðaliðarnir í raun ekki verið matvinnungar, en staðhæfði í því sambandi að aldrei hefðu verið hafðar uppi tilteknar kröfur um að þeir skiluðu tiltekinni framlegð.
Ákærði greindi frá því að auk lífrænu ræktunarstarfanna hefðu sjálfboðaliðarnir sinnt sérstökum verkefnum, sem annars væru ekki unnin. Þannig legðu þeir hönd á plóginn við að stinga upp njóla og annað illgresi til fegrunar fyrir umhverfið. Þá hefðu þeir unnið við gerð sérstaks göngustígs, sem hefði verið opinn fyrir almenning vegna útivistar. Vísaði hann til þess að B hefði fengið styrk vegna stígsins og staðhæfði að um væri að ræða sambærilegt verkefni og tíðkaðist t.d. hjá Skógrækt ríkisins og hjá öðrum ríkisstofnunum.
Ákærði skýrði frá því að hann hefði aldrei, og þá ekki eftir að B tók við búrekstrinum í […], sótt um atvinnu- eða dvalarleyfi fyrir þá sjálfboðaliða sem dvalið hefðu á jörðinni. Hefði það einnig gilt um Bandaríkjamennina þrjá. Ákærði áréttaði í því sambandi að nefndir aðilar hefðu í raun verið ferðamenn, þ.e. „krakkar í sumarfríi,“ sem hann eða félagið hefðu í raun ekki haft þörf fyrir við reksturinn; „… þau eru bara eins og hverjir aðrir gestir í sumarfríi … og með tryggingar sem ferðamenn … og eru aldrei kallaðir starfsmenn.“ Ákærði bætti því við að B hefði verið með tryggingar fyrir eigin starfsemi, sem tæki til allra einstaklinga sem dveldu á jörðinni.
Fyrir dómi áréttaði ákærði það sem áður var rakið um rekstur félagsins […] og þar á meðal að þar færi helst fram korn- og grænmetisræktun og bar að um 98% afurða félagsins færi til höfuðborgarsvæðisins. Þá kvað hann félagið einnig vera með ferðaþjónustu í […] og ræki þar auk þess lítið kaffihús. Samtals væri um sjö ársverk að ræða og bar ákærði að hluti núverandi starfsmanna hefðu upphaflega komið sem sjálfboðaliðar í gegnum nefnd samtök, WWOOF.
Ákærði áréttaði að félagið hefði undanfarin ár verið fullmannað með hinu launaða starfsfólki og þar af leiðandi hefði hlutur sjálfboðaliðanna í starfseminni verið algjör viðbót við reksturinn, sem í raun hefði verið íþyngjandi fyrir félagið, enda skilaði vera þeirra engum efnahagslegum ávinningi. Ákærði staðhæfði að sjálfboðaliðarnir kæmu aðeins að ræktunarhluta starfseminnar, enda væri það skýrt samkvæmt áðurröktum reglum WWOOF-samtakanna að ferðaþjónustan og veitingareksturinn væri utan verksviðs þeirra.
Ákærði greindi frá því að fyrirsvarsmenn B hefðu nær hætt því að taka við sjálfboðaliðum frá WWOOF-samtökunum eftir að kærumáli því sem hér er til umfjöllunar var hrundið úr vör sumarið 2016. Af þeim sökum hefði félagið nær eingöngu tekið við ungmennum í starfsnám samkvæmt sérstökum verknámssamningum við tvo háskóla í Frakklandi. Þar um vísaði ákærði m.a. til ráðlegginga starfsmanna Ríkisskattstjóra, þrátt fyrir að engar álögur eða skattalegt endurmat hefði verið viðhaft af hálfu embættisins í kjölfar eftirlitsheimsóknarinnar í júnímánuði 2016.
Vitnið F kvaðst hafa hafið störf við búrekstur B í […] þegar félagið var stofnað á árinu 2010. Vitnið, sem er viðskiptafræðingur að mennt, bar að reksturinn bygðist helst á lífrænni ræktun matvæla, og þá ekki síst á korni. Vitnið skýrði frá því að við reksturinn störfuðu auk hennar og eiginmanns hennar, A, að jafnaði fjórir fastir starfsmenn, auk tveggja starfsmanna á suðvesturhorni landsins. Þessu til viðbótar hefðu í gegnum tíðina komið til skemmri vistar í […] tveir hópar erlendra einstaklinga. Annars vegar hafi verið um að ræða sjálfboðaliða, sem hefðu komið í gegnum fyrrnefnd samtök, WWOOF, en þeir hefðu helst sinnt samfélagslegum verkefnum, líkt og tíðkast hafi hjá Erasmus og Veraldarvinum, og hins vegar hafi verið einstaklingar í starfsnámi. Vitnið bar að síðarnefndi hópurinn kæmi til dvalar að frumkvæði skóla, sem B hefði gert samstarfssamninga við og þá í tengslum við tiltekin og afmörkuð verkefni.
Vitnið skýrði frá því að dvöl sjálfboðaliðanna hjá félaginu snérist helst um fræðslu á sviði lífrænnar ræktunar. Vitnið bar að stór hluti fræðslunnar fælist í því að sjálfboðaliðarnir tækju þátt í kjarnastarfsemi B en í því sambandi nefndi það meðhöndlun plantna og almenn hreinsunarstörf. Vitnið bar að miðað væri við sex klukkustunda verkefni á búinu fjóra daga vikunnar, en eftir atvikum væri reynt að finna hverjum og einum hlutverk við hæfi.
Vitnið staðhæfði að sjálfboðaliðarnir lytu ekki boðvaldi fyrirsvarsmanna B líkt og hinir fastráðnu starfsmenn félagsins, þ. á m. varðandi framlegð og viðveru í […]. Vísaði vitnið til þess að litið væri á móttöku og viðveru sjálfboðaliðanna frá WOOF-samtökunum sem samfélagslegt verkefni á sviði umhverfis- og loftslagsmála, á jafningjagrundvelli, og því væri ekki um ráðningarsamband að ræða á milli félagsins og þeirra, enda væri fremur litið á þá sem ferðamenn og gesti.
Vitnið staðhæfði að viðvera og verkefnastarf sjálfboðaliðanna væri ekki þáttur í efnahagslegri starfsemi B. Vísaði vitnið til þess að sjálfboðaliðarnir kæmu á eigin forsendum í […], að undangenginni umsókn, en að fylgt væri reglum og gildum WWOOF-samtakanna. Vitnið áréttaði að megintilgangur sjálfboðaliðanna með hinni tímabundnu dvöl væri að kynnast sjálfbærri lífrænni ræktun í verki.
Vitnið kvaðst hafa verið að störfum í […] við komu fyrrnefndra starfsmanna stéttarfélags og stofnana í júnímánuði 2016, og samkvæmt beiðni strax vísað komumönnum til fjögurra starfsmanna félagsins sem þá hefðu verið við hefðbundin störf sín. Í framhaldi af því kvaðst vitnið hafa kynnt komumenn fyrir sjálfboðaliðum, þ. á m. þeim sem tilteknir eru í ákæruskjali, og bar að þeir hefðu þá verið að handfjatla plöntur. Vitnið staðhæfði að fyrirspurn fulltrúa stéttarfélagsins hefði helst varðað rekstur kaffihúss, sem félagið hafði í bígerð að stofna árið eftir, og þá um það hvort væntanlegur rekstur þess myndi byggjast á starfi sjálfboðaliða. Vegna starfsanna nefndan dag kvaðst vitnið hafa þurft að fara af vettvangi um það leyti sem eiginmaður þess, A, kom á vettvang.
Vitnið bar að engir eftirmálar, athugasemdir eða formlegar leiðbeiningar hefðu borist frá Ríkisskattsjóra eftir greinda heimsókn.
Vitnið G kvaðst hafa hafið störf hjá B í aprílmánuði 2016, sem launþegi. Vitnið sagði að aðdragandinn hafi verið sá að á árinu 2011 hefði það verið í 30 daga launalausu starfsnámi í […], en það hefði verið hluti af námi þess í umhverfisfræði við landbúnaðarháskóla í Frakklandi. Vitnið staðhæfði að slík vist tíðkaðist almennt í slíku námi í Frakklandi.
Vitnið skýrði frá því að sá munur væri á starfi launaðra starfsmanna B og á verkefnum sjálfboðaliða, að hinir fyrrnefndu bæru ábyrgð á þeim verkefnum sem þeir störfuðu við hverju sinni. Aftur á móti gengju sjálfboðaliðarnir inn í tiltekin verkefni, en bæru þar enga ábyrgð, auk þess sem þeir dveldu aðeins takmarkaðan tíma í […] um 3-4 vikur.
Vitnið skýrði frá því að eftir að það hóf störf sem fastráðinn starfsmaður hefðu m.a. þeir þrír sjálfboðaliðar, sem vikið er að í ákæru, komið að […]. Og þegar lögreglumennirnir komu á vettvang í júnímánuði ætlaði vitnið helst að nefndir sjálfboðaliðar hefðu verið að sinna verkefnum tengdum blómabeðum. Það var og ætlan vitnisins að einn þessara sjálfboðaliða, C, hefði verið á sérstöku námskeiði á býlinu, sem tengst hefði skólastarfi hennar. Vitnið bar að í raun hefðu verkefni C þó verið sambærileg og hinna tveggja.
Vitnið H, framkvæmdastjóri …félags, skýrði frá því að aðdragandinn að umræddri eftirlitsheimsókn á starfsstöð B í […] hefði verið samvinnuverkefni Alþýðusambands Íslands, Vinnumálastofnunar, Ríkisskattsjóra og annarra aðila, sem hefði beinst gegn svartri atvinnustarfsemi og þá m.a. með hliðsjón af ákvæðum laga nr. 42/2016 um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum. Vitnið greindi frá því að atvik hefðu verið með þeim hætti að starfsmaður Vinnumálastofnunar hefði gert því viðvart um að til stæði að fara í starfsstöð nefnds félags og að sú atburðarás hefði verið nokkuð hröð. Vitnið lýsti heimsókninni með líkum hætti og í fyrrgreindri kæru, og þ. á m. að komið hefði verið á vettvang laust fyrir klukkan 14:00. Vitnið kvaðst strax hafa veitt því eftirtekt að fimm til sex starfsmenn voru að vinna við umplöntun nærri gróðurhúsi, en að auki hefði það séð einn til tvo starfsmenn að störfum í vinnsluhúsi. Vitnið kvaðst hafa tekið fólkið tali og komist að raun um að það var flest nýkomið til landsins, þ.e. í apríl og maí.
Vitnið skýrði frá því að það hefði skráð hjá sér að nokkrir þessara einstaklinga hefðu verið launaðir starfsmenn B og þá samkvæmt ráðningarsamningi, en að aðrir hefðu verið sjálfboðaliðar. Vitnið bar að hinir síðastnefndu hefðu gert grein fyrir því að þeir væru á vegum alþjóðasamtakanna WWOOF, sem útvegaði sjálfboðaliða til þess að starfa við lífræna ræktun. Vitnið bar að þrír þessara sjálfboðaliða hefðu verið bandarískir ríkisborgarar, en að auki hefðu verið þrír aðrir einstaklingar frá löndum Evrópu. Vitnið kvaðst sérstaklega hafa rætt við bandarísku sjálfboðaliðana og m.a. skráð niður þá frásögn, að þeir hefðu verið að framleiða vörur fyrir B, sem færu á markað. Vitnið kvaðst hafa gert sjálfboðaliðunum, en einnig vitninu F, grein fyrir þeirri skoðun sinni að slík störf væru unnin í efnahagslegum tilgangi, að þau væru ólögleg, en einnig í andstöðu við kjarasamning Alþýðusambandsins og Bændasamtakanna um lágmarkskjör. Þá kvaðst vitnið hafa látið það álit í ljós á vettvangi að með nefndri háttsemi væri verið ganga í störf launafólks, og að af lýstri sjálfboðaliðastarfsemi bæri báðum aðilum, vinnuveitandanum og sjálfboðaliðunum, að greiða skatta. Vitnið kvaðst ekki hafa litið á nefnda aðila sem ferðamenn, en haft vitneskju um að fyrirsvarsmenn B hefðu um árabil tekið á móti erlendum sjálfboðaliðum. Þá kvaðst vitnið hafa haft vitneskju um að embætti Ríkisskattstjóra hefði í athugunum sínum og eftirliti ekki tekið beina afstöðu til þess hvort sjálfboðaliðastarf væri sem slíkt ólögmætt. Vitnið tók fram að það hefði ekki gert ráð fyrir að sérstakir eftirmálar yrðu af nefndri eftirlitsferð og þá ekki að málið rataði fyrir dómstóla. Af þeim sökum kvaðst það ekki hafa skráð hjá sér nákvæmlega það sem gerðist í greint sinn, enda hefði nefnd heimsókn aðallega verið farin til þess að „sannreyna að kennitölur væru til í kerfinu.“ Vitnið kvaðst þó hafa skráð niður nöfn og kennitölur einstaklinga, sem það hitti fyrir í […], og enn fremur hvenær viðkomandi komu til landsins, og á síðari stigum miðlað þeim upplýsingum til lögreglu. Að auki kvaðst vitnið hafa gert sérstaka skýrslu, sem það staðfesti fyrir dómi, um atvik máls og sent hana til áðurnefndra ríkisstofnana svo og til lögmanns stéttarfélagins og þá í þeim tilgangi að málið yrði kært til lögreglu vegna brota á lögum um atvinnuréttindi útlendinga. Vitnið kvaðst hafa farið af vettvangi eftir u.þ.b. 30-45 mínútur, en bar að skömmu eftir það hefði starfsmaður Vinnumálastofnunar tilkynnt símleiðis að hann hefði gert lögreglu viðvart, en þá jafnframt farið fram á að vitnið færi aftur í […] og þá með lögreglumönnum. Vitnið kvaðst hafa orðið undrandi vegna þessa, en fengið þær skýringar að yfirmenn Vinnumálastofnunar hefðu gefið þessi fyrirmæli og þá vegna viðveru bandarísku sjálfboðaliðanna. Vitnið kvaðst hafa orðið við erindinu og bar að í raun hefði þá sama sagan endurtekið sig, þ.e. eftir að tveir lögreglumenn komu á vettvang.
Vitnið bar að öll samskipti á vettvangi hefðu verið vinsamleg, en það kvaðst m.a. hafa tekið ljósmyndir á vettvangi og af vegabréfum bandarísku sjálfboðaliðanna, en að auki ritað greinar um málefnið á vefsíðu félagsins.
Vitnið I, lögfræðingur Vinnumálastofnunar á Egilsstöðum, greindi frá því að aðdragandinn að för þess í starfsstöð B í […] hefði verði á þá leið að framkvæmdastjóri …félags hefði beðið það um að koma með sér í vinnustaðaeftirlit ásamt starfsmanni Ríkisskattstjóra. Vitnið sagði að sá síðarnefndi hefði reyndar verið í sambandi við þá báða á svipuðum tíma. Vitnið greindi frá því að við nefnt eftirlit hefði það komið í ljós að nokkrir starfsmenn nefnds félags voru þar að störfum, og þar á meðal þrír einstaklingar, sem búsettir hafi verið utan hins Evrópska efnahagssvæðis (EES). Vitnið kvaðst í samræðum við þessa einstaklinga hafa hlýtt á frásögn þeirra, þ. á m. um að „þau væru í sjálfboðaliðastarfi í gegnum WWOOF“, en sagði jafnframt: „þarna voru þau í fyrirtæki, sem hefur efnahagslegan ávinning af þessu, … mér sýndist þau vera að raða einhverjum blómapottum eða einhverju slíku, a.m.k. að meðhöndla vöruna.“ Vitnið kvaðst að auki hafa rætt við ákærða A á vettvangi, en í kjölfar þess og þar sem nefndir sjálfboðaliðar hefðu ekki verið með atvinnuleyfi, líkt og þeim hafi borið vegna lýstra starfa, og ekki verið að starfa fyrir viðurkennd góðgerðasamtök, hefði það rætt við stjórnsýslusvið Vinnumálastofnunar, en í framhaldi af því gert lögreglu viðvart. Þá kvaðst vitnið hafa gert skýrslu um atvik máls og sent til yfirmanna sinna.
Vitnið J, eftirlitsfulltrúi og viðskiptafræðingur hjá Ríkisskattstjóra, greindi frá því að embættið væri í stöðugum vinnustaðaheimsóknum hjá fyrirtækjum vegna almenns skattaeftirlits, þ. á m. varðandi tekjuskráningu og skilagreinar vegna launa starfsmanna svo og vegna staðgreiðslu og virðisaukaskatts. Vitnið sagði að á árinu 2016 hefði embættið verið í óformlegu samstarfi við Vinnumálastofnun og stéttarfélögin í landinu, og bar að í greindu tilviki hefði það farið á starfsstöð B vegna orða starfsmanns annars hvors nefndra aðila, en þó fremur stéttarfélagsins, um að sjálfboðaliðar væru við störf á jörð félagsins í […]. Vitnið sagði að á vettvangi hefði það átt orðastað við eigendur félagsins um reksturinn, en á meðan hefðu starfsmenn nefndra samstarfsaðila haft tal af starfsfólkinu.
Vitnið kvaðst hafa hlýtt á þær skýringar hjá eigendum B, að þeir sjálfboðaliðar sem voru á vettvangi væru ekki hluti af rekstri fyrirtækisins. Að þessum upplýsingum fengnum kvaðst vitnið hafa afráðið að gefa nefndum fyrirsvarsmönnum almenn munnleg tilmæli; „um að það væri ekki í lagi að sjálfboðaliðar væru að sinna störfum sem tengdist rekstri fyrirtækisins … og að þau yrðu að vera á launum.“ Vitnið bar að fyrirsvarsmennirnir hefðu af þessu tilefni endurtekið hin fyrri orð sín og þá þannig að sjálfboðaliðarnir sinntu einkum almennum hreinsunarverkefnum, þ.e. slætti og arfatínslu, en jafnframt upplýst að þeir væru á vegum sjálfboðaliðasamtaka og dveldust einungis í skamman tíma, um tvær vikur. Vitnið orðaði það svo að fyrirsvarsmennirnir hefðu verið skildir eftir með fyrrgreind tilmæli, en bar að þeim hefði jafnframt verið tilkynnt að málefnið yrði skoðað síðar og þá með endurtekinni eftirlitsferð.
Vitnið skýrði frá því að greint samtímaeftirlit hafi alls ekki verið metið á þann veg að þörf hefði verið á að vísa málinu til frekari rannsóknar, t.d. hjá Skattrannsóknarstjóra. Vitnið kvað starfsmenn Ríkisskattstjóra engu að síður og þá í samræmi við fyrrnefnd orð og tilmæli á vettvangi í greint sinn hafa farið í tvígang í eftirlitsferðir á starfstöð B í […]. Vitnið upplýsti að í báðum þessum síðari ferðum hefði öll starfsemi félagsins verið í lagi, þ.e.: „allir starfsmenn sem við höfum hitt hafa verið á launum.“ Vegna þessa kvað vitnið starfsemi nefnds félags ekki hafa verið til frekari skoðunar hjá embætti Ríkisskattstjóra.
Vitnið K, eftirlitsfulltrúi og lögfræðingur hjá Ríkisskattstjóra, kvaðst hafa farið í hefðbundið skattaeftirlit á starfsstöð B í […] í júnímánuði 2016, en bar að sú ferð hefði aðallega verið farin á forsendum …félags. Vitnið kvaðst við komu hafa fengið þær upplýsingar frá eiganda B að þar dveldust m.a. sjálfboðaliðar frá samtökunum WWOOF. Vitnið kvaðst hafa veitt því eftirtekt að sjálfboðaliðarnir voru að sýsla við plöntur fyrir utan gróðurhús. Vegna þessa kvaðst það hafa leiðbeint eigandanum óformlega um þá almennu reglu að „sjálfboðavinna, þar sem gengið væri í störf í svona atvinnurekstri, væri ekki í lagi … og ef svo væri ættu þeir að vera á launum.“ Vitnið bar að undantekningar gætu verið á þessari reglu. Vitnið kvaðst ekki minnast annars en að að ári liðnu, þ. e. í næstu heimsókn starfsmanna Ríkisskattstjóra á starfsstöð B í […], hefðu starfsmannamál hjá félaginu öll verið í góðu lagi.
Vitnið L, sem er búsettur á […], en er starfsmaður WWOOF-samtakanna, með höfuðstöðvar í Englandi, lýsti stofnun og starfsemi, en einnig helstu gildum samtakanna að því er varðaði vistvænan landbúnað um allan heim, með líkum hætti og hér að framan hefur að nokkru verið rakið í kafla I,7. Vitnið greindi jafnframt frá því að samtökin væru með sjálfstæða starfsemi í hverju landi og að þar af leiðandi væri farið eftir gildandi löggjöf í einstökum löndum. Vitnið staðhæfði að grundvallaratriðið væri þó ætíð það sama, þ.e. að sjálfboðaliðum samtakanna væri ætíð óheimilt að ráða sig til starfa og að þiggja laun fyrir þau verkefni sem þeir tækju að sér á einstökum bændabýlum og þar á meðal á Íslandi.
E, sem búsett er í Bandaríkjunum, kvaðst hafa komið til Íslands sumarið 2016 sem sjálfboðaliði á vegum alþjóðasamtakanna WWOOF. Vitnið skýrði frá því að í tengslum við nám sem það hafði lagt stund á í heimalandi sínu hefði það fengið mikinn áhuga á sjálfbærum og vistvænum landbúnaði, en einnig á allri menningu tengdri því. Vitnið kvaðst í gegnum nefnd samtök hafa komist í tengsl við B, en í framhaldi af því komið til landsins þann 18. maí 2016. Vitnið kvaðst í fyrstu hafa dvalið fáeina daga í höfuðborginni, en í framhaldi af því ferðast um Suðurland, enda hefði það m.a. verið tilgangur þess með Íslandsferðinni. Vitnið kvaðst hafa komið í starfsstöð B í […] þann 24. maí nefnt ár og hafið sjálfboðaliðastörfin daginn eftir. Vitnið kvaðst hafa dvalið á býlinu í u.þ.b. sex vikur. Vitnið sagði að nefndur komutími þess á býlið hefði verið sveigjanlegur, en að auki kvaðst það hafa framlengt dvöl sína í […] miðað við það sem upphaflega hafði verið ákveðið. Vitnið staðhæfði að greint fyrirkomulag hefði verið í samræmi við reglur WWOOF-samtakanna, en hið sama hefði gilt um önnur þau atriði sem vörðuðu dvöl þess á býlinu. Vitnið kvaðst ekki hafa fengið greidd laun vegna veru sinnar í […], enda ekki litið svo á að það væri þar við eiginleg störf. Að því leyti vísað vitnið til þeirra gilda sem WWOOF-samtökin stæðu fyrir, en með dvölinni kvaðst það m.a. hafa fengið tækifæri til að kynnast vistvænum landbúnaði, allt frá meðhöndlun fræja til sáningar plantna í gróðurhúsum. Þá kvaðst vitnið hafa lært og tekið þátt í starfinu á akrinum og þar á meðal meðhöndlun á byggi. Loks kvaðst það hafa lært um úrvinnslu á afurðum jarðarinnar og þar á meðal hvernig þær nýttust til matargerðar til hagsbóta fyrir alla þá sem dvöldu í […].
Vitnið greindi frá því að sjálfboðaliðastarfið í […] hefði yfirleitt hafist um klukkan 9. Vitnið sagði að hlé hefði verið gert um klukkan 12:00, og þá snæddur hádegisverður úr afurðum býlisins, en samhliða hefði verið rætt um hráefnið. Vitnið sagði að eftir hádegið hefði verið hafist handa að nýju, en að starfinu hefði síðan lokið um klukkan 17:00. Vitnið bar að starfsmenn B hefðu stjórnað verkefnum dagsins hverju sinni, en þá jafnframt veitt leiðbeiningar eftir þörfum.
Vitnið greindi frá því að sjálfboðaliðastarfið í […] hefði ekki verið krefjandi eða bindandi. Vitnið kvaðst m.a. hafa verið hvatt til þess að ferðast um nágrennið og kynna sér staðhætti nánar. Enn fremur hefði verið lagt að því að njóta útivistar og að taka sér þannig hlé frá sjálfboðaliðastarfinu. Vitnið kvaðst hafa afráðið að fara ekki að þessum ráðum, a.m.k. ekki á þeim tíma sem dagskrá var í gangi á býlinu, á milli klukkan 9 og 17, og áréttaði að markmið þess með dvölinni í […] hefði verið að kynnast hinni lífrænu landbúnaðarframleiðslu og því hefðu verkefni dagsins hverju sinni verið í forgangi þann tíma sem það dvaldi þar. Það var ætlan vitnisins að það hefði verið við sjálfboðaliðastörf sín á akrinum er lögreglumenn komu á vettvang í júnímánuði 2016.
Vitnið kvaðst ekki hafa verið með atvinnuleyfi eða sérstakt dvalarleyfi á Íslandi. Vitnið kvaðst hafa ætlað að slíkra skilríkja hefði ekki verið þörf þar sem það hefði aðeins verið sjálfboðaliði í takmarkaðan tíma, og hefði lagt stund á og lært um sjálfbæra vistvæna ræktun á vegum WWOOF-samtakanna. Vitni kvaðst hafa farið af landinu 26. júní nefnt ár, en þá um leið sent þakkarbréf til fyrirsvarsmanna […] fyrir þá dýrmætu reynslu sem það hafði öðlast með veru sinni í […].
Vitnið C, sem er búsett í Bandaríkjunum, kvaðst hafa dvalið á Íslandi sumarið 2016, nánar tiltekið frá 21. maí til 2. ágúst, en jafnframt stærstan hluta tímabilsins dvalið á starfsstöð B í […]. Vitnið bar að hið sama hefði gilt um D, enda hefðu þau ferðast saman.
Vitnið greindi frá því að helsta markmiðið með dvöl þess í […] hefði verið að kynnast og læra um vistvænan búskap. Vitnið kvaðst hafa komist í kynni við B í gegnum WWOOF-samtökin, og sagði að það hefði verið í tengslum við það háskólanám sem það hafði þá stundað. Vitnið bar að dvöl þess í […] hefði verið metið til námseininga.
Vitnið kvaðst hafa sinnt almennu sjálfboðaliðastarfi á býlinu, frá klukkan 9 til 16, með hléum, og sagði að hið eiginlega starf hefði m.a. verið fólgið í því að reyta arfa og annað illgresi. Vitnið bar að hinir launuðu starfsmenn B hefðu skipulagt hin daglegu verkefni sjálfboðaliðanna á býlinu.
Vitnið kvaðst ekki hafa verið með sérstakt atvinnu- eða dvalarleyfi vegna dvalar sinnar eða starfa í […], enda ekki þegið nein laun fyrir viðvikið. Vitnið áréttaði að með nefndri dvöl hefði það fengið tækifæri til að fræðast, en einnig að ferðast um heiminn.
Vitnið M lögreglumaður staðfesti efni áðurrakinnar frumskýrslu lögreglu, og þar á meðal að í umræddri vettvangsferð í […] hefði það hitt fyrir fimm erlend ungmenni. Vitnið staðfesti að ungmennin hefðu gefið þær upplýsingar að þau væru sjálfboðaliðar á vegum samtakanna WWOOF, að þau stöfuðu á býlinu í u.þ.b. sex klukkustundir á dag og kynntustu starfseminni með þeim hætti. Í staðinn fengju þau fæði og húsaskjól. Vitnið bar að ákærði A hefði staðfest frásögn ungmennanna að þessu leyti, en þá jafnframt upplýst um að hann fengi beiðnir frá samtökum um að taka við sjálfboðaliðum.
Vitnið skýrði frá því að aðaltilgangurinn með greindri vettvangsferð lögreglu hefði verið að staðreyna hvort fólk væri að starfa á býlinu án þess að fá launagreiðslur eða önnur réttindi. Vitnið bar að aðgerðir af þessum toga hefðu ekki komið inn á borð lögreglu um langa hríð eða allt frá því stórvirkjunarframkvæmdir voru í gangi á árum áður á Austurlandi. Vitnið lýsti aðgerðum lögreglu að öðru leyti með sama hætti og fram kemur í áðurrakinni lögregluskýrslu og er því óþarft að rekja frásögn vitnisins frekar.
III.
Í máli þessu er ákærðu gefið að sök að hafa brotið gegn lögum um atvinnuréttindi útlendinga og lögum um útlendinga, með því að hafa, A sem stjórnarmaður og eigandi einkahlutafélagsins B, í byrjun árs 2016, ráðið til starfa við landbúnaðarstörf á jörðinni […], […], fyrrgreinda þrjá Bandaríkjamenn, og hafa á nánar tilgreindu tímabili í maí og til 9. júní nefnt ár nýtt sér starfskrafta þeirra til landbúnaðarstarfa á jörðinni í atvinnustarfsemi félagsins, án þess að þau hefðu tilskilin atvinnu- og dvalarleyfi á Íslandi.
Í ákæru er háttsemi ákærðu annars vegar talin varða við 2. mgr. 6. gr., sbr. a-lið 1. mgr. og a-lið 2. mgr., og 4. mgr. 27. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga nr. 97/2002 og hins vegar við a-lið 2. mgr., sbr. 5. mgr. 57. gr., sbr. 9. gr., laga um útlendinga nr. 96/2002, sbr. nú a-lið 2. mgr. og 5. mgr. 116. gr., sbr. 2. mgr. 50. gr., laga nr. 80/2016.
Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga er hverjum manni, félagi eða stofnun sem rekur atvinnu eða starfrækir fyrirtæki, hverju nafni sem það nefnist, óheimilt að ráða útlending til starfa, hvort heldur er um langan tíma eða skamman, eða hlutast til um að útlendingur flytjist til landsins í því skyni að starfa án atvinnuleyfis. Með 122. gr. laga nr. 80/2016, sem tóku gildi 1. janúar 2017, var breyting gerð á ákvæði nefndrar 2. mgr. 6. gr., sem þó hefur ekki efnisleg áhrif í máli þessu, sbr. að því leyti m.a. 2. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Í tilvitnuðum ákvæðum 27. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga er kveðið á um að það varði sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum ef maður af ásetningi eða gáleysi brýtur gegn lögunum eða reglum settum samkvæmt þeim, en sektum eða fangelsi allt að tveimur árum ef maður af ásetningi eða stórfelldu gáleysi nýtir starfskrafta útlendings sem ekki hefur atvinnuleyfi samkvæmt lögunum. Loks varðar það sektum þegar brot er framið í starfsemi lögaðila og má þá gera lögaðilanum sekt skv. II. kafla A í almennum hegningarlögum nr. 19/1940.
Í 2. mgr. 50. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga er kveðið á um að útlendingur sem hyggst ráða sig í vinnu þurfi, auk atvinnuleyfis, þar sem það er áskilið í lögum um atvinnuréttindi útlendinga, að hafa dvalarleyfi. Jafnframt er tekið fram að útlendingi sé óheimilt að starfa hér á landi sem sjálfstætt starfandi einstaklingur nema viðkomandi sé undanþeginn kröfunni um atvinnuleyfi samkvæmt lögum um atvinnuréttindi útlendinga. Nefnd lög tók gildi 1. janúar 2017, en áður giltu lög nr. 96/2002 um sama efni. Er til þess að líta að yngri lögin eru mun ítarlegri, en að auki eru þar nýmæli og endurbætur sem fjalla m.a. um dvalarleyfi vegna menntunar, fyrir sjálfboðaliða og um svonefndar vistarráðningar.
Í tilvitnuðu ákvæði 116. gr. laga nr. 80/2016 eru sambærileg refsiákvæði og í eldri lögunum, en þau eru auk þess í samræmi við lögin um atvinnuréttindi útlendinga. Stendur þetta því ekki í vegi fyrir því að ákærðu verði dæmd refsing í máli þessu, ef svo ber undir, sbr. fyrrgreind 2. gr. laga nr. 19/1940, en saknæmisskilyrðið er í öllum tilvikum almennt gáleysi.
Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 97/2002, sbr. nú 50. gr. laga nr. 80/2016, hefur útlendingur, þ. á m. ferðamaður, heimild til dvalar hér á landi eins og vegabréfsáritun hans kveður á um hverju sinni, þó eigi lengur en 90 daga. Að öðrum kosti þarf hann dvalarleyfi.
Af hálfu ákærðu er sök alfarið neitað í máli þessu.
Fyrir dómi hefur ákærði A, líkt og hann hafði áður gert við yfirheyrslu hjá lögreglu, gert grein fyrir búskap sínum á […], þ. á m. hinni sérhæfðu lífrænu ræktun, sem hann hefur lagt stund á um áratugaskeið. Þá hefur hann gert grein fyrir þeirri breytingu sem varð á rekstrarformi búsins árið 2010 er hið ákærða félag tók við búrekstrinum. Loks hefur hann gert grein fyrir mannahaldi og starfi fastráðinna starfsmanna B, en hann hefur og fullyrt að búreksturinn hafi á árinu 2016 verið fullmannaður.
Við alla
meðferð málsins hefur ákærði A gert ítarlega grein fyrir dvöl erlendra ungmenna
í […], fyrst að nokkru leyti fyrir áeggjan bændasamtakanna, en frá árinu 2001 í
tengslum við samstarfsaðilann
og alþjóðasamtökin World Wide Opportunities in Organic Farms (WWOOF).
Í framlögðum gögnum segir um nefnd
samtök að þau séu ekki rekin í hagnaðarskyni og að markmið þeirra sé að stuðla
að menntunar- og menningartengdum samskiptum bændabýla annars vegar og
sjálfboðaliða sem dveljist á þeim tímabundið hins vegar. Fram kemur að
markmiðið sé að sjálfboðaliðarnir læri um uppruna matar og um mikilvægi
lífrænnar ræktunar/sjálfbærs landbúnaðar. Enn fremur segir frá því í gögnum um
samtökin, að ætlast sé til þess að sjálfboðaliðarnir búi með gistifjölskyldu og
fái húsnæði og mat og fái þannig innsýn í daglegt líf bænda, en jafnframt að
þeim beri að styðja við litla staðbundna framleiðendur. Vegna þessa sé og til
þess ætlast að sjálfboðaliðarnir veiti skammtímaaðstoð í vinnuaflsfrekri grein,
í eina til tvær vikur, en tekið er fram að þeir megi aldrei koma í stað
launaðra verkamanna. Þá segir að lykilatriðið í nefndum samskiptum sé það, að
ekkert fé gangi á milli gestgjafans og sjálfboðaliðans, að þeir séu jafningjar,
að engir formlegir samningar séu gerðir þeirra í millum og að báðir geti gengið
frá samvinnunni án allra eftirmála.
Í máli þessu liggur fyrir að
samskipti C, D og E við ákærða A, sem fyrirsvarsmann B, hófust fyrri hluta árs 2016, og
jafnframt að þau samskipti leiddu til þess að hin fyrrnefndu komu til dvalar að
[…] í byrjun
sumars. Þá er óumdeilt að ungmennin voru á býlinu þegar lögreglan kom á
vettvang þann 9. júní eftir að fulltrúar stéttarfélags, Vinnumálastofnunar og
Ríkisskattstjóra höfðu verið þar við lögbundið eftirlit, sbr. ákvæði laga nr.
42/2010 um vinnustaðaskírteini og eftirlit með vinnustöðum.
Er til þess að líta að markmið nefndra laga, nr. 42/2010, er að tryggja að atvinnurekendur á innlendum vinnumarkaði og starfsmenn þeirra fari að gildandi lögum, reglugerðum og kjarasamningum, sbr. að því leyti ákvæði 1. og 2. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, með síðari breytingum.
Samkvæmt skýrslum fyrir dómi höfðu C
og D dvalið í […]
í 17-18 daga er atvik
máls gerðust. Þá hafði E dvalið þar í 14-15 daga, en hún hafði áður ferðast um landið í
nokkra daga sem ferðamaður. Verður þetta m.a. lagt til grundvallar við úrlausn
máls þessa.
Samkvæmt frumskýrslu lögreglu voru
nefnd ungmenni að handfjatla plöntur þegar lögreglumenn komu á vettvang. Gögn rannsakara
eru fyrir utan frumskýrsluna og yfirheyrsluskýrslu ákærða A að áliti dómsins
harla takmörkuð. Þar fyrir utan eru helst gögn á rannsóknarstígi þau sem
lögmaður ákærða lagði fram og þá um búreksturinn í […] og um fyrrnefnd
alþjóðasamtök.
Fyrir dómi hefur ákærði m.a. gert ítarlega grein fyrir komu, dvöl og starfi nefndra ungmenna í […]. Þá hafa tvö þeirra, C og E, gefið vitnaskýrslur, eins og hér að framan hefur verið rakið.
Auk nefndra
skýrslna liggja fyrir fjölmörg gögn,
sem var aflað af hálfu ákærðu undir rekstri málsins fyrir dómi. Nokkur þeirra
eru á ensku, sem hafa að nokkru verið lögð fram í íslenskri þýðingu og hafa
ekki komið fram athugasemdir um að sú þýðing sé ekki rétt. Gögn þessi eru af
svipuðum toga og ákærði A hafði áður lagt fram við lögreglurannsókn málsins.
Þegar frásögn ákærða A og nefndra vitna er virt, ásamt framlögðum gögnum, verður að áliti dómsins að leggja til grundvallar að nefnd ungmenni hafi í raun haft frumkvæðið að komu og dvöl sinni í […] og að þau hafi verið þar sem sjálfboðaliðar.
Jafnframt verður að áliti dómsins að leggja til grundvallar að starf ungmennanna á […] hafi nær eingöngu tengst þeirri lífrænu ræktun sem þar er stunduð. Hafi störf þeirra helst falist í ýmsum smálegum og tilfallandi verkefnum, en einnig gerð sérstaks göngustígs. Verður ekki annað séð, en að að því leyti hafi verið fylgt reglum og gildum fyrrnefndra alþjóðasamtaka, World Wide Opportunities in Organic Farms (WWOOF), þó svo að það ráði ekki úrslitum. Í því viðfangi verður þó ekki fram hjá fyrrnefndri staðhæfingu ákærða A horft, að starfsemi B hafi verið fullmönnuð með fastráðnum starfsmönnum. Ákæruvaldið hefur ekki hnekkt þessum orðum ákærða og verða þau lögð til grundvallar.
Þegar framangreint er virt
heildstætt er það niðurstaða dómsins að ákæruvaldið hafi ekki sannað að ákærðu
í máli þessu hafi ráðið fyrrnefnd ungmenni til starfa í þeim skilningi að til
vinnuréttarsambands hafi stofnast þeirra í millum á því stutta tímaskeiði sem
tiltekið hefur verið hér að framan. Verknaðarlýsingin í ákæru markar að því
leyti endaskeiðið og verður við það miðað. Það er og álit dómsins að ekki verði
heldur séð að ákærði A hafi af ásetningi eða stórfelldu gáleysi nýtt sér
starfskrafta margnefndra ungmenna með þeim hætti sem vísað er til í þeim
ákvæðum laga, sem tiltekin eru í ákæru lögreglustjóra. Verður í því sambandi
ekki fram hjá því litið að atvik máls þessa gerðust fyrir gildistöku
áðurnefndra laga nr. 80/2016 og enn fremur að margs konar sjálfboðaliðastörf
til sjávar og sveita eiga sér langa sögu hér á landi, ekki síst þegar
tímabundnar annir standa yfir. Er það niðurstaða dómsins að ákærðu í máli þessu
hafi ekki eins og hér á stendur gerst sek við refsiákvæði þeirra laga sem
tíunduð eru í ákæru. Verða ákærðu því sýknuð af refsikröfu ákæruvalds.
Í samræmi við
ofangreind málsúrslit og 235. gr. sakamálalaganna greiðist allur kostnaður
sakarinnar, þ.m.t. kostnaður af störfum skipaðs verjanda ákærðu, úr ríkissjóði.
Þórhallur Haukur Þorvaldsson lögmaður var
tilnefndur verjandi ákærðu á rannsóknarstigi, en hann var þá m.a. viðstaddur
yfirheyrslu ákærða A. Við þingfestingu málsins þann 6. júní 2017 var
lögmaðurinn skipaður verjandi ákærðu, en í framhaldi af því voru haldin fjögur
dómþing og loks aðalmeðferð máls, en verjandinn hafði þá lagt fram greinargerð
og nokkurn fjölda málsskjala. Af hálfu ákærðu er krafist málskostnaðar samkvæmt
tímaskráningu verjandans. Þar eru tíundaðar 238 klukkustundir, en tímagjaldið
er tiltekið 24.900 krónur, og því er krafist þóknunar að fjárhæð 7.348.488
krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti. Þá er krafist greiðslu vegna útlagðs
kostnaðar samkvæmt framlögðum reikningum, m.a. vegna ferðakostnaðar verjandans
og þýðinga löggilts skjalaþýðanda, að fjárhæð 662.939 krónur, að meðtöldum
virðisaukaskatti.
Við munnlegan flutning andmælti sækjandi
öllum kröfum ákærðu.
Málsvarnarlaun
skipaðs verjanda ákærðu þykja að ofangreindu virtu, en einnig með hliðsjón af
eðli og umfangi málsins, þ. á m. ferðatíma, hæfilega ákveðin í einu lagi 2.975.000.krónur,
180.748 krónur vegna ferðalaga verjandans og 387.570 krónur vegna annars
útlagðs kostnaðar hans. Virðisaukaskattur er ekki meðtalinn.
Gætt var 1. mgr.
184. gr. laga nr. 88/2008.
Helgi Jensson
fulltrúi sótti málið af hálfu ákæruvalds.
Ólafur Ólafsson
héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð:
Ákærðu, A og B,
eru sýkn af refsikröfu ákæruvalds.
Allur
sakarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun
skipaðs verjanda ákærðu, Þórhalls Hauks Þorvaldssonar lögmanns, 2.975.000.
krónur, og útlagður kostnaður hans að fjárhæð 568.318 krónur.