• Lykilorð:
  • Kynferðisbrot
  • Nálgunarbann
  • Sönnunarbyrði
  • Sönnunargögn
  • Sönnunarmat

D Ó M U R

 Héraðsdóms Austurlands fimmtudaginn 2. ágúst 2018 í máli nr. S-5/2018:

 Ákæruvaldið

 (Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari)

 (Jónína Guðmundsdóttir lögmaður)

 gegn

 A

(Guðrún Björg Birgisdóttir lögmaður)

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 19. júní sl., er höfðað með ákæru héraðssaksóknara, útgefinni 24. janúar 2018, á hendur A, kt. […], […], […]:

„fyrir eftirtalin brot gegn almennum hegningarlögum:

I.

            Fyrir kynferðisbrot gegn dóttur sinni B, kt. […], á árunum 2004-2015, þar sem ákærði nýtti sér yfirburði sína gagnvart stúlkunni og traust hennar og trúnað til hans sem föður, sem hér nánar greinir:

1.                  Með því að hafa á heimili þeirra í […], þegar B var á aldrinum 5 eða 6 ára til 10 eða 11 ára gömul, í allt að 10 skipti, káfað á henni, þar á meðal á kynfærum og haft við hana samræði í leggöng.

            Telst háttsemi þessi varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 að því er varðar þau skipti sem áttu sér stað frá og með 4. apríl 2007 og við 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 að því er varðar öll skiptin.

2.                  Með því að hafa á heimili þeirra í […], þegar B var 9, 10 eða 11 ára gömul látið hana horfa með sér á klámefni í tölvu, klætt hana úr fötunum og haft við hana önnur kynferðismök en samræði, með því að nudda á henni kynfærin og inn í kynfæri hennar.

3.                  Með því að hafa 21. eða 22. nóvember 2011 inni í herbergi á gistiheimilinu […] í […] í […] eða á öðrum gististað í […], þegar B var 12 ára gömul, káfað á henni, þar á meðal kynfærum og haft við hana samræði í leggöng.

            Telst háttsemi skv. 2. og 3. tölulið ákæru varða við 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga.

4.                  Með því að hafa, þar sem þau voru við störf í frystihúsi […] á […] strokið á B rassinn þegar hún var 15 ára gömul.

            Telst háttsemi þessi varða við 2. mgr. 200. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

II.

            Fyrir brot gegn nálgunarbanni gegn dóttur sinni B, kt. […], sem hér nánar greinir:

5.                  Með því að hafa föstudaginn 30. september 2016 farið í verslunarmiðstöðina […], […] í […], hitt B, sem þangað var komin til að hitta systur sínar og ekið henni á dvalarstað hennar að […] í […], þrátt fyrir að ákærða hafi verið bannað að vera í 50 m radíus frá dvalarstað B og bannað að vera í beinu sambandi við hana samkvæmt ákvörðun lögreglustjórans á Suðurlandi frá 6. apríl 2016, sem staðfest var með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands 12. apríl 2016 í máli nr. R-45/2016.

6.                  Með því að hafa laugardaginn 1. október 2016 hitt B ásamt fleirum í verslunarmiðstöðinni […], […] í […], þrátt fyrir að ákærða hafi verið bannað að vera í beinu sambandi við B samkvæmt ákvörðun lögreglustjórans á Suðurlandi frá 6. apríl 2016, sem staðfest var með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands 12. apríl 2016 í máli nr. R-45/2016.

            Telst háttsemi skv. 5. og 6. tölulið ákæru varða við 1. mgr. 232. gr. almennra hegningarlaga.

III.

7.                  Fyrir kynferðisbrot gegn dóttur sinni C, kt. […], þar sem ákærði nýtti sér yfirburði sína gagnvart stúlkunni og traust hennar og trúnað til hans sem föður, með því að hafa 21. eða 22. desember 2009, 3. eða 4. febrúar 2011, 27. eða 28. júní 2011 og 18. eða 19. apríl 2012, í alls fjögur skipti, þegar C var 7-9 ára gömul, inni í herbergi á gistiheimilinu […] í […] í […] eða á öðrum gististað í […], haft við hana samræði í leggöng.

            Telst háttsemi þessi varða við 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga.

            Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

          Einkaréttarkröfur:

          Af hálfu Jónínu Guðmundsdóttur, hdl., sem gerir kröfu sem skipaður fjárhaldsmaður B, er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða B bætur að fjárhæð kr. 3.500.000,- með vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. september 2005 til þess dags er mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.“

            ,,Af hálfu Jónínu Guðmundsdóttur, hdl., sem gerir kröfu sem skipaður fjárhaldsmaður C, er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða C bætur að fjárhæð kr. 3.000.000,- með vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. september 2008 til þess dags er mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.“

          Af hálfu nefnds lögmanns, sem skipaður var réttargæslumaður brotaþolanna B og C, er krafist hæfilegrar þóknunar vegna réttargæslustarfa við alla meðferð málsins, við lögreglurannsókn og fyrir dómi.

 

            Dómkröfur skipaðs verjanda ákærða, Guðrúnar Bjargar Birgisdóttur lögmanns, eru þær að hann verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa vegna þeirrar háttsemi sem lýst er í 5. og 6. tölulið II. kafla ákæru.

            Þá krefst verjandinn þess að ákærði verði alfarið sýknaður af refsikröfu ákæruvalds að því er varðar sakarefni I. kafla, 1.-4. töluliða og III. kafla, 7. og 8. töluliða ákærunnar, en til vara að hann verði vegna háttseminnar dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa.

            Þá krefst verjandinn þess fyrir hönd ákærða að báðum einkaréttarkröfum samkvæmt ákæru verði vísað frá dómi, en til vara að kröfurnar sæti verulegri lækkun og enn fremur að vextir verði í fyrsta lagi dæmdir frá 13. febrúar 2007.

            Loks krefst verjandinn þess að allur sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð, þ.m.t. málsvarnarlaun hennar við meðferð málsins fyrir dómi samkvæmt tímaskýrslu eða að mati dómsins, ásamt útlögðum kostnaði hennar.

            Þá er af hálfu nefnds verjanda, f.h. ákærða, því andmælt að felldur verði á ákærða útlagður kostnaður ákæruvalds samkvæmt sakarkostnaðaryfirliti ákæruvalds, að því er varðar kostnaðarliði sem stafa frá tilnefndum verjanda ákærða á rannsóknarstigi, Sigurði Sigurjónssyni lögmanni, en einnig viðbótarkröfur hans eftir höfðun málsins þar sem ekki hafi verið lagðar fram sundurliðaðar tímaskýrslur.

 

 

 

A.

            Málsmeðferð.

1.         Samkvæmt rannsóknargögnum verður upphaf þessa máls að nokkru rakið til þess að lögreglumönnum, sem voru við tímabundin störf í sveitarfélaginu […], barst tilkynning laust eftir miðnættið laugardaginn 2. apríl 2016, klukkan 00:44, þess efnis að stúlkan B, þá 15 ára, hefði viðhaft undarlega hegðun í návist jafnaldra og vina sinna þá skömmu áður, þ. á m. með því að hafa í ölvunarástandi afklæðst fötum sínum, en hverfa síðan á braut. Í frumskýrslu lögreglu segir frá því að vegna þessa hafi verið haft samband við foreldra stúlkunnar, þ.e. ákærða, A, sem þá hafi verið við vinnu sína við þrif í frystihúsi …., en einnig stjúpmóður hennar, D, en hún er af […] bergi brotin. Fram kemur í skýrslunni að lögreglumennirnir hafi í kjölfarið grennslast frekar fyrir um ferðir B og að þeir hafi að lokum fundið hana, laust fyrir klukkan 02:00, þar sem hún hafði falið sig í stigagangi fjölbýlishúss. Greint er frá því að áfengisþef hafi lagt frá vitum stúlkunnar, en tekið er fram að hún hafi þó ekki borið sýnileg merki um ölvun og m.a. verið skýr í tilsvörum.

            Í nefndri skýrslu segir frá því að B hafi í viðræðum við nefnda lögreglumenn greint frá því að vilji hennar stæði ekki til þess að fara á heimili fjölskyldu sinnar og hafi hún í því sambandi nefnt að stjúpmóðir hennar, D, hefði beitt hana ofbeldi. Fram kemur að þegar stúlkan hafi verið innt frekar eftir eigin högum og þá hvort eitthvað annað amaði að í lífi hennar hafi hún svarað því játandi og tárast. Vegna þessa hafi B verið færð á lögreglustöð þar sem henni hafi verið boðið að greina frekar frá högum sínum, en þá hafi hún aftur beygt af. Í skýrslunni segir að vegna þessa hafi verið gengið enn frekar á stúlkuna og hún m.a. innt eftir því hvort hún hefði sætt einelti í skóla, en er hún hafi neitað því hafi hún verið innt eftir því hvort hún hefði orðið fyrir annars konar ofbeldi og að þá hafi hún játað því og grátið. Segir frá því í skýrslunni að í framhaldi af þessu hafi B greint frá því að faðir hennar, ákærði, A, hefði beitt hana kynferðislegu ofbeldi, að brotin hefðu gerst þegar hún var ásamt fjölskyldu sinni búsett í […] og að hún hefði þá verið á aldrinum 5 til 12 ára. Um orðræðu B er nánar skráð í skýrslunni: „Sagði hún að pabbi hennar hefði beitt hana ofbeldi með því að misnota sig en gat ekki sagt á þessum tímapunkti hvernig það var. Aðspurð svaraði hún játandi að pabbi hennar hefði sett lim sinn í leggöng hennar oftar en einu sinni en mundi ekki hversu oft.

            Í frumskýrslu lögreglu segir frá því að B hafi á lögreglustöðinni umrædda nótt sent vinkonu sinni og frænku, vitninu E, smáskilaboð í síma, klukkan 02:20, sem vitnið hafi svaraði um hæl. Skilaboðin voru vistuð af lögreglu, en efni þeirra eru svohljóðandi:

            „B: E. Þarf að segja eitt. E: Jaa? B: Það sem ég hef aldrei sag þér áður. Pabbi nauðgaði mér þegar ég var 5 eða 6 ár. Svona án djók. Í […].

 

            Samkvæmt rannsóknargögnum höfðu lögreglumenn í kjölfar nefndrar atburðarásar símasamband við vakthafandi rannsóknarlögreglumann, sem gaf þau fyrirmæli að taka skyldi stutta formlega framburðarskýrslu af B þá um nóttina. Gekk það eftir, en áheyrandi og þátttakandi við skýrslutökuna, um síma, var vitnið F, félagsmálastjóri sveitarfélagsins […], en hann var þá utan héraðs. Skráð er að skýrslutakan hafi hafist klukkan 03:17 en lokið klukkan 03:35. Skýrslan var hljóðrituð og var hluti hennar spilaður fyrir dómi við aðalmeðferð málsins.

 

2.         Samkvæmt gögnum lagði ákærði leið sína á lögreglustöðina daginn eftir ofangreindan atburð, klukkan 16:53. Í skýrslu lögreglu segir frá því að ákærði hafi við komu lýst áhyggjum sínum vegna fjarveru dóttur sinnar, B. Tekið er fram að í fylgd með ákærða hafi verið áðurnefnd eiginkona hans, D, en einnig tvö börn þeirra, drengur sem fæddur er árið […], og stúlkan G, sem fædd er árið […]. Að auki hafi verið með þeim dóttir ákærða frá fyrra hjónabandi, brotaþolinn C, sem fædd er árið […].

            Samkvæmt gögnum var ákærða við komu á lögreglustöðina gerð grein fyrir frásögn stúlkunnar B þá um nóttina, en í framhaldi af því var hann handtekinn, en jafnframt tilkynnt að til stæði að gera leit á heimili hans. Liggur fyrir að húsleitin fór fram skömmu síðar og þá með samþykki ákærða og að honum viðstöddum. Að því loknu var ákærði yfirheyrður um kæruefnið, en síðan vistaður í fangaklefa. Loks var ákærði, að kröfu lögreglustjórans á Suðurlandi, úrskurðaður í gæsluvarðhald af Héraðsdómi Suðurlands.

 

3.         Samkvæmt húsleitar- og munaskýrslu lögreglu, dagsettri 2. apríl 2016, skýrði ákærði frá því við húsleitina að hann hefði vistað klámefni, þ.e. myndefni og ljósmyndir, í tölvubúnaði á heimili sínu, en jafnframt staðhæfði hann að það væri ekki af einstaklingum undir 18 ára aldri.

            Lögreglan haldlagði við greint tækifæri turntölvu, þrjár fartölvur, þrjá harða diska, ljósmyndavél, tvo minnislykla, tiltekinn tölvuhlut og kortalesara.

            Samkvæmt rannsóknarskýrslum lögreglu, sem er í samræmi við frásögn ákærða við meðferð málsins, var verulegt magn af klámefni að finna í nefndum tölvubúnaði, en ekkert af því flokkaðist undir svonefnt barnaklám.

 

B.

            Nánar um málsmeðferð og málsatvik

1.         Samkvæmt rannsóknargögnum lögreglu og því sem fram kom við meðferð málsins fyrir dómi fluttist ákærði ásamt þáverandi eiginkonu sinni og dætrum þeirra, brotaþolunum B og C, til ættlands eiginkonunnar, […], haustið 2004. Verður ráðið af gögnum að strax við komu til […] hafi ákærði og eiginkona hans hafið rekstur á netkaffihúsi í borginni […] í […]-héraði.

            Samkvæmt skýrslum ákærða lauk samvistum hans og nefndrar eiginkonu endanlega um áramótin 2006/2007. Var það um það leyti sem hann hafði kynnst þarlendri konu, H, sem þá var búsett ásamt foreldum sínum í bæjarfélagi eigi all fjarri norðurlandamærum V, og því nærri […]. Hélt ákærði að nokkru leyti til hjá þessari konu fyrstu mánuðina eftir skilnaðinn og hafði þá að sögn stöku sinnum dæturnar B og C hjá sér.

            Fram kemur í rannsóknargögnum að eftir hjúskaparslitin hafi ákærði þrátt fyrir nefnd kynni af H haldið áfram búsetu sinni í […]-héraði, og að hann hafi sinnti þar fyrrnefndum rekstri ásamt fyrrverandi eiginkonu sinni. Þar hafi hann og haft til umráða leiguherbergi þar sem hann gat hafst við ásamt dætrunum B og C, þegar hann hafði takmarkaða umgengni við þær í fyrstu. Við meðferð málsins skýrði ákærði frá því að breyting hefði orðið á þessum högum hans vorið 2007 og þá eftir skilnaðarferli og samninga, m.a. um fjármál, eignir og forsjá, við fyrrverandi eiginkonu hans, en það hefði m.a. leitt til þess að hann fékk fulla forsjá með dætrunum B og C. Verður ráðið að í kjölfar þess hafi stúlkurnar að stærstum hluta dvalið hjá ákærða, en farið í umgengni til móður sinnar, a.m.k. í fyrstu.

 

2.         Ágreiningslaust er að á meðan ákærði bjó í […] lagði hann reglulega land undir fót þar sem hann þurfti, sem erlendur ríkisborgari, að endurnýja dvalarleyfi sitt og vegabréfsáritun í landinu á u.þ.b. fjögurra mánaða fresti. Fór ákærði af þessum sökum í stuttar ferðir til […], en hitti þá jafnframt fyrrnefnda konu, H, sem gætti þá á stundum dætra hans, B og C, á meðan hann sinnti erindum sínum handan landmæranna. Sambandi ákærða og nefndrar konu virðist hins vegar hafa lokið eftir stutt kynni þeirra vorið 2007.

 

3.         Ágreiningslaust er að ákærði fluttist búferlum vorið 2007 frá […]-héraði í næsta nágrenni við höfuðborgina […]. Að sögn ákærða naut hann við flutninginn liðsinnis vinar síns, sem hafði aðsetur í borginni, en að auki kom þessi vinur hans því til leiðar að kynni tókust með honum og núverandi eiginkonu hans, áðurnefndri D, um miðjan maí nefnt ár. Liggur fyrir að náin kynni tókust skjótt með þeim og að ákærði fluttist mjög fljótlega eftir það ásamt dætrum sínum B og C á heimili D, þar sem fyrir voru í fleti móðir hennar og þrjú systkini.

            Ákærði og D gengu að sögn í hjónaband að […] sið um mitt árið 2007, en um það leyti fluttu þau einnig, ásamt dætrum ákærða, til […], sem er borgarhverfi í […]. Verður ráðið af framburði þeirra að þar hafi þau hafið rekstur á matsölustað, sem þau ráku í tæp tvö ár.

            Af gögnum verður ráðið að á árinu 2009 hafi ákærði flust með fjölskyldu sína á ný til […]-héraðs, þar sem hann hóf ásamt D rekstur netkaffihúss, en er halla fór undan fæti í þeim rekstri árið 2010 fluttist ákærði enn á ný ásamt fjölskyldu sinni í nágrenni […], þar sem hann stundaði verslunarrekstur.

            Ákærði flutti fjölskylduna, þ.e. eiginkonuna D og börn sín, sem þá voru orðin þrjú, til […] haustið 2012. Eftir stutta viðdvöl í […] settust þau að í sveitarfélaginu […] þar sem dætur ákærða, brotaþolarnir B og C, hófu grunnskólanám, en hann hóf þar starf hjá …félagi, við þrif í frystihúsi, og gegndi hann því starfi um árabil. Dóttir ákærða, brotaþolinn B, starfaði einnig hjá félaginu á sumrin eftir að hún varð 15 ára, en að auki starfaði hún þar að einhverju leyti í hlutastarfi eftir að hún hóf nám sitt í framhaldsskóla í sveitarfélaginu haustið 2015, þá rétt 16 ára.

 

C

1.         Samkvæmt rannsóknargögnum og því sem ítrekað kom fram við meðferð málsins fyrir dómi hafði ákærði verið í sambúð með íslenskri konu um skeið á níunda áratug síðustu aldar. Á því tímabili fæddist þeim dóttir, en er hún var við þriggja ára aldur slitnaði upp úr sambúðinni og hafði stúlkan eftir það umgengni við föður sinn, ákærða.

            Samkvæmt gögnum sendu barnaverndaryfirvöld sumarið 1990 kæruerindi til lögreglu vegna ætlaðra kynferðisbrota ákærða gegn nefndri stúlku í allt að 15 skipti þegar hún var á aldrinum 5 eða 6 ára. Við rannsókn málsins var m.a. leitað til sérfræðilæknis, sem skoðaði stúlkuna. Samkvæmt gögnum kom ekkert óeðlilegt í ljós við þá skoðun, þ. á m. á ytri og innri kynfærum, en m.a. var tekið fram að meyjarhaft stúlkunnar hefði verið órofið og engin merki um áverka.

            Með dómi sakadóms […], þann 21. nóvember 1991, var ákærði, m.a. í ljósi eigin játningar, en einnig skilmerkilegs framburðar nefndrar stúlku, sakfelldur fyrir endurtekin kynferðimök við hana. Var ákærði vegna þessa dæmdur til tímabundinnar refsingar, 10 mánaða fangelsi.

 

2.         Við rannsókn þess máls sem hér er til umfjöllunar bárust lögreglu gögn, sem tengdust hinu eldra sakamáli. Var um að ræða rafpóst millum nefndrar stúlku, vitnisins I, og ákærða, en póstur þessi er dagsettur í júní 2008, í febrúar 2009 og í nóvember 2011. Í síðasta rafpóstinum, sem ákærði staðfesti efnislega hér fyrir dómi, kemur m.a. fram að hann hefði í eitt skipti eftir að hann hafði verið sakfelldur í nefndu sakamáli, árið 1991, en beið fullnustu refsingar, brotið kynferðislega gegn stúlkunni. Í rafpóstinum lýsir ákærði aðstæðum sínum að nokkru þegar það atvik gerðist og þá þannig að móðir stúlkunnar hefði komið með hana óvænt á heimili hans og beðið hann um að gæta hennar yfir nótt, en hann þá brotið gegn henni með líkum hætti og áður, að öðru leyti en því, að hann hefði þá ekki verið í svefnrofunum og þannig séð verið „allsgáður.“ Ákærði lýsti í nefndum rafpósti yfir eftirsjá sinni vegna þessarar háttsemi, en þá afstöðu áréttaði hann einnig hér fyrir dómi.

 

D.

1.         Samkvæmt rannsóknargögnum kom brotaþolinn B í fylgd þriggja vinkvenna sinna á lögreglustöðina í áðurnefndu sveitarfélagi, þann 29. febrúar 2016, og greindi frá langvarandi ofbeldi af hálfu stjúpmóður sinnar, D, og þá nær allt frá því að greind kynni hófust með henni og  ákærða, á árinu 2007. Kæruefnið var rannsakað af lögreglu og var m.a. aflað læknisvottorða, en að auki var B vegna þessa send til meðferðar hjá Barnahúsi.

            Málefni yngri systra B voru af ofangreindu tilefni einnig tekin til rannsóknar. Liggur fyrir að brotaþolinn C gaf skýrslu fyrir dómi vegna þessa í Barnahúsi, þann 1. mars 2016, en hún greindi þá frá því að hún hefði orðið fyrir svipuðum ofbeldisbrotum af hálfu D og systir hennar B.

            Miðvikudaginn 2. mars 2016 ákvað lögreglustjórinn á Suðurlandi að D skyldi sæta nálgunarbanni gagnvart stúlkunum B og C, en jafnframt var henni gert að sæta tímabundinni brotvísun af heimili fjölskyldunnar í fjórar vikur, sbr. ákvæði laga nr. 85/2011, frá birtingu ákvörðunarinnar, þann sama dag. Með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands 7. mars sama ár var þessi ákvörðun lögreglustjórans staðfest.

            Að lokinni lögreglurannsókn var ákæra gefin út á hendur D og með dómi Héraðsdóms Austurlands, þann 9. mars 2017, var hún sakfelld og dæmd til tímabundinnar fangelsisrefsingar vegna margendurtekinna líkamsmeiðinga gagnvart stjúpdætrum sínum, brotaþolunum B og C, en að auki var hún sakfelld fyrir brot gegn barnaverndarlögum vegna athæfisins gagnvart þeim. Þá var D með sama dómi einnig sakfeld fyrir brot á barnaverndarlögum vegna tiltekinnar háttsemi gagnvart dóttur sinni og yngri hálfsystur brotaþola, stúlkunni Tínu.

            Samkvæmt gögnum ritaði sérfróður starfsmaður Barnahúss greiningarskýrslu um stúlkuna B vegna ofangreindrar háttsemi D. Var þetta gert að ósk fjárhaldsmanns og réttargæslumanns stúlkunnar, en skýrslan er dagsett 6. febrúar 2018, en tilurð hennar verður m.a. rakin til skaðabótamáls, sem stúlkna hefur höfðað.

 

E.

1.         Eins og lýst var í kafla A, töluliðum 1-3, hér að framan, hóf lögregla rannsókn á ætluðum brotum ákærða í beinu framhaldi af lýstum afskiptum af brotaþolanum A aðfaranótt 2. apríl 2016, sbr. ákærukafla I., töluliði 1-4. Þá liggur fyrir að eftir hinar fyrstu aðgerðir lögreglu óskaði barnaverndarnefnd […] eftir því við starfsmenn Barnahúss að stúlkan B fengi viðeigandi meðferð, en jafnframt að gerð yrði sérfræðileg greining á henni vegna hinna ætluðu kynferðisbrota ákærða. Samkvæmt skýrslum sérfræðinga Barnahúss fór B af þessu tilefni í 12 viðtöl á tímabilinu frá apríl til nóvember 2016. Einnig liggur fyrir skýrsla Barnahúss um stúlkuna, sem er dagsett 27. apríl 2018, um viðbótarmeðferð hennar.

            Samhliða þessum aðgerðum vorið 2016 var B komið fyrir utan heimilis, í fyrstu hjá ættingjum og vinafólki í heimabyggð, en þá um haustið var henni komið fyrir í langtímafóstur á heimili á höfuðborgarsvæðinu, að V, hjá vitninu J, sbr. til hliðsjónar ákærukafla II., tölulið 5.

 

            Samkvæmt gögnum var B eftir hina fyrstu skýrslugjöf lögreglu, þann 2. apríl 2016, ítrekað yfirheyrð af rannsóknarlögreglu um sakarefnið og málsatvik, að viðstöddum starfsmanni barnaverndarnefndar og tilnefndum réttargæslumanni. Skýrslutökur þessar fóru fram 4. apríl og 7. október 2016 og 2. febrúar 2017. Í kjölfar þess að lögreglustjórinn á Suðurlandi sendi rannsóknargögn málsins til héraðssaksóknara, í ágúst og desember 2017, voru að ósk þess síðarnefnda enn teknar skýrslur af stúlkunni, þann 6. desember nefnt ár og þann 19. janúar 2018.

 

2.         Við lögreglurannsókn málsins voru yfirheyrðar fyrir dómi, þann 5. apríl 2016, í Barnahúsi, yngri dætur ákærða, þ.e. brotaþolinn C og yngsta systirin, G. Við skýrslutökurnar greindu stúlkurnar ekki frá neins konar ofbeldi eða refsiverðri háttsemi af hálfu ákærða, en jafnframt báru stúlkurnar að þær hefðu aldrei séð hann beita slíkri háttsemi gagnvart systur þeirra, brotaþolanum B. Hið sama kom fram hjá eiginkonu ákærða, D, við ítrekaðar yfirheyrslur lögreglu, þann 3. apríl 2016, 13. febrúar 2017 og 22. janúar 2018, en hún andmælti alfarið frásögn stúlkunnar B um kynferðislega háttsemi og brot ákærða. Á síðari stigum andmælti D einnig sambærilegri frásögn stúlkunnar C.

 

3.         Við ítrekaðar yfirheyrslu ákærða hjá lögreglu, líkt og síðar fyrri dómi, neitaði hann alfarið sakarefninu, að því er varðaði ætluð kynferðisbrot hans gegn stúlkunni B. Á síðari stigum lýsti ákærði sömu afstöðu að því er varðaði sams konar brot hans gagnvart stúlkunni C.

            Við meðferð málsins fyrir dómi vék ákærði að því að gefnu tilefni, að hann hefði við rannsókn lögreglu á árinu 2016 veitt formlega heimild, sem forráðamaður stúlkunnar C, til að gerð yrði á henni læknisskoðun. Af þessu tilefni var aflað og lagt fyrir dóminn af hálfu ákæruvaldsins læknabréf K kvensjúkdómalæknis um stúlkuna. Í bréfi þessu, sem dagsett 18. nóvember 2016, segir m.a. frá því að brotaþolinn C hefði komið nefndan dag til skoðunarinnar í fylgd barnaverndarstarfsmanns. Um kvenskoðun stúlkunnar C segir í bréfi læknisins: (  )

           

 

F.

1.         Samkvæmt rannsóknargögnum barst lögreglunni á Suðurlandi, þann 6. október 2017, kærubréf, dagsett 2. sama mánaðar, frá félagsmálastjóranum í sveitarfélaginu […], F. Varðaði efni bréfsins ætluð kynferðisbrot ákærða gagnvart dóttur hans, brotaþolanum C.

            Í kærubréfinu segir frá því að C hefði þann 14. ágúst 2017 farið til dvalar á fósturheimili á höfuðborgarsvæðinu, en fyrir liggur að það var sama heimilið sem systir hennar B hafði þá haldið til á í u.þ.b. eitt ár. Tekið er fram að tilefni þessara ráðstafana hefðu verið þau meðferðar- og ráðgjafarviðtöl sem B var í í Barnahúsi vegna fyrrnefndra ofbeldisbrota sem hún hafði sætt af hálfu stjúpmóður sinnar, D, en í bréfinu segir að vist þessi hafi verið gerð m.a. í samvinnu við ákærða, sbr. ákvæði 25. gr. barnarverndarlaganna. Vísað er til þess að samhliða þessum ráðstöfunum hefði C hafið nám í hverfisgrunnskóla og hafi hún eignast þar vinkonur.

            Í bréfinu upplýsir félagsmálastjórinn að C hefði farið í meðferðarviðtal í Barnahúsi 22. september nefnt ár og að þá hefði hún engin orð haft um ætluð kynferðisbrot ákærða, og enn fremur sagt að hún saknaði hans. Þá segir frá því að C hefði hitt ákærða að máli í Reykjavík þann 23. september, en kvöldið eftir hefði hún greint vinkonum sínum, þ. á m. einni sem hún hafði þá nýverið kynnst í skólanum, frá ætluðum kynferðisbrotum ákærða, en þó án þess að lýsa þeim brotum hans nákvæmlega. Tekið er fram í bréfinu að þessi vinkona hefði skýrt móður sinni frá orðum C, sem brugðist hefði við og greint fósturmóður stúlkunnar frá þessu, sem þá hefði gert félagsmálastjóranum viðvart.

            Á meðal málsgagna er rafpóstur, sem brotaþolinn C sendi starfsmanni barnaverndarnefndar á […], en samkvæmt því sem fram kom við meðferð málsins barst póstur þessi á svipuðum tíma og stúlkan skýrði fyrst frá ætluðum kynferðisbrotum ákærða. Nefndur félagsmálastjóri framsendi lögreglu rafpóstinn 26. október 2017, en efni hans er svohljóðandi:

            hæ eg þarf að segja eitt, eg hef ekki sagt neinum nema vinum minum og þær eru buin að hjalpa mer að segja fra serskatlega L og hun var reið að eg vildi alls ekki segja fra og það særði mig alveg mikið og asa misskildi að L væri ekki goð vink en í raun og veru var L að reyna sitt besta afþvi að hun var að reyna að segja mer að segja fra, þegar eg var fimm ára eða eh eg man það ekki var eg nauðguð af pabba minni og það gerðist alveg nokkra sinnum þegar hann þurfti að fara til […] (eh land við hliðina a […]) til þess að gera eh eg veit ekki hvað þetta heitir a islensku þa tok hann stundum mig með eða B eða stundum forum við öll þa gerðist ekki neitt þannig en þegar hann tekur annaðhvort mig eða B þa gerir hann þetta alltaf eða oft eg man það ekki og þegar annaðhvort okkar er heima er alltaf pint okkur i að borða eh ogeð eða pint i að gera annað td að vinna að gera allt og þetta er það sem eg hef aldrei þorað að segja B ne J fra.

 

            C var yfirheyrð af lögreglu um kæruefnið þann 26. október 2017. Við skýrslugjöfina skýrði hún frá því, líkt og við síðari skýrslugjafir, þann 6. desember sama ár og 19. janúar 2018, að ákærði hefði ítrekað brotið gegn henni kynferðislega. Staðhæfði hún að ákærði hefði brotið gegn henni á hótelum þegar hún var 5 eða 6 ára. Nánar aðspurð skýrði C frá því að ákærði hefði brotið gegn henni þegar hún hefði verið með honum á ferðalögum utan þáverandi heimalands þeirra, […], en ákærði hefði þá verið að sinna erindagjörðum sínum í tengslum vegabréfsáritanir.

 

            Við rannsókn málsins yfirheyrði lögreglan m.a. tvær vinkonur C, en einnig systur hennar, B, fósturmóðurina J og loks stjúpmóðurina D.

 

2.         Á meðal rannsóknargagna eru vottorð Barnahúss um brotaþolann C, en síðustu vottorðin eru dagsett 14. nóvember 2017 og 27. apríl 2018.

            Einnig er á meðal rannsóknargagna læknisvottorð um C, sem dagsett er 5. desember 2017, en það var gert að beiðni lögreglu. Fram kemur í vottorðinu, að skoðun á stúlkunni hafi farið fram í Barnahúsi 29. nóvember nefnt ár, en hún var þá 15 ára. Skoðun var gerð af nafngreindum barnalækni og M, kvensjúkdómalækni á Kvennadeild Landspítala Háskólasjúkrahúsi. Fram kemur að það hafi verið álit barnalæknisins að C hefði komið eðlilega fyrir við hefðbundna líkamsskoðun. Þá segir frá því að í viðtali C við kvensjúkdómalækninn hafi hún greint frá því að hún hefði haft samfarir þá um sumarið við einstakling sem notaði smokk. Greint er frá því að kynfæri stúlkunnar hafi verið skoðuð með ljósalampa og stækkunargleri, en síðan segir: (  )

 

3.         Samkvæmt gögnum var ákærði handtekinn af lögreglu vegna ofangreindrar kæru félagsmálastjóra þann 1. nóvember 2017. Liggur fyrir að hann hefur æ síðan verið í varðhaldi. Samkvæmt gögnum var ákærði yfirheyrður af lögreglu í þrígang um greint kæruefni, þann 1. og 29. nóvember og 15. desember 2017, að viðstöddum tilnefndum verjanda sínum. Ákærði neitaði við yfirheyrslurnar alfarið sakargiftum, líkt og hann gerði hér fyrir dómi.

 

G.

            Samkvæmt gögnum var af hálfu rannsóknaraðila leitað upplýsinga hjá […] yfirvöldum um hagi ákærða þar í landi, þar á meðal varðandi búsetu, en einnig um ferðir hans og fjölskyldu hans til […] og þá í tengslum við fyrrgreindar vegabréfsáritanir.

            Samkvæmt skýrslum lögreglu og framlögðum litljósmyndum af vegabréfum fór brotaþolinn C í sex ferðir til […] á tímabilinu frá 24. september 2009 til 18. apríl 2012, en þar af fór hún í fjórar ferðir án systra sinna, B og G. Samkvæmt áritunum og stimplum í [..] vegabréfi C var hún í þessum fjórum ferðum ein á ferð með ákærða. Skráður dvalartími stúlkunnar í þessum ferðum er einn sólarhringur í öllum tilvikum nema í einni ferð, en þá varði ferðalag hennar og ákærða í tvo sólarhringa.

            Samkvæmt nefndum gögnum fór brotaþolinn B í eina ferð einsömul til [..] með ákærða samkvæmt áritun í [..] vegabréfi hennar, nánar tiltekið þann 21.-22. nóvember 2011.

            Samkvæmt áritunum í íslensku vegabréfi ákærða fór hann á fyrrnefndu árabili í alls átt ferðir til [..], en þar af hafði hann báðar dætur sínar, B og C, með sér í tveimur þeirra, þann 14.-15. júní og 8.-9. september 2010. Hefur ákærði lýst því að  þegar svo háttaði til hefði hann í raun farið með alla fjölskylduna til […] og þá í áðurgreindum erindagjörðum.

 

H.

1.         Samkvæmt gögnum ákvað lögreglustjórinn á Suðurlandi, þann 6. apríl 2016, að ákærði skyldi sæta nálgunarbanni í allt að sex mánuði gagnvart dóttur sinni B, en einnig að hann skyldi þá hlýta tímabundinni brottvísun af heimili fjölskyldunnar. Var sérstaklega tekið fram að ákærða væri óheimilt að eiga nokkur samskipti við stúlkuna, á þáverandi heimili fjölskyldunnar eða á öðrum dvalarstað hennar, sem félagsmálayfirvöld ákvörðuðu síðar, og þá miðað við 50 metra radíus, sbr. ákvæði laga nr. 85/2011. Ákvörðunin var birt ákærða samdægurs, en með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands 12. apríl sama ár var hún og staðfest.

            Með síðari ákvörðunum nefnds lögreglustjóra, sem allar voru staðfestar af héraðsdómi, voru nefndar ráðstafanir framlengdar í nokkur skipti.

 

2.         Samkvæmt rannsóknargögnum skýrði brotaþolinn B frá því í skýrslu hjá lögreglu, þann 7. október 2016, að hún hefði fengið skilaboð frá systur sinni, C, þess efnis að hún gæti hitt hana og yngri systur þeirra, G, í tiltekinni verslun á höfuðborgarsvæðinu föstudaginn 30. september nefnt ár. Í skýrslunni skýrði stúlkan frá því að þegar til hefði komið hefðu systur hennar verið í fylgd ákærða og D. Hún kvað þessum samvistum hafa lokið á þann veg að ákærði hefði ekið henni að heimili fósturmóðurinnar, en þar hefði systir hennar, C, fengið að gista þá um nóttina. Daginn eftir kvað hún ákærða hafa komið á bifreið að heimilinu og hún þá þegið boð um að fara með fjölskyldu sinni og þar með ákærða, á veitingastað. Brotaþoli skýrði frá því að eftir þetta hefði öllum samskiptum hennar við ákærða lokið og vísaði hún þar um m.a. til eigin óöryggis.

            Við yfirheyrslur hjá lögreglu vegna nefndra atvika staðfesti ákærði í öllum aðalatriðum frásögn dóttur sinnar, B, en gaf þá skýringu að hann hefði misreiknað tímamörk fyrrnefnds nálgunarbanns.

 

I.

            Samkvæmt rannsóknargögnum var ákærði á fyrstu stigum lögreglurannsóknar vorið 2016 úrskurðarður í gæsluvarðhald, nánar tiltekið á tímabilinu 4.-6. apríl. Var það gert á grundvelli rannsóknarhagsmuna, sbr. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2002.  Á síðari stigum rannsóknarinnar var ákærði á ný úrskurðaður í gæsluvarðahald, þann 2. nóvember 2017. Hefur þeirri ráðstöfun verið viðhaldið allt til þessa dags, m.a. á grundvelli almannahagsmuna, sbr. ákvæði 2. mgr. 95. gr. nefndra laga, samkvæmt framlögðum dómum Hæstaréttar Íslands.

 

J.

            Nánar um málsatvik samkvæmt I. kafla, 1.-4. tölulið og II. kafla ákæru.

1.         Eins og rakið var hér að framan hefur brotaþolinn B ítrekað verið yfirheyrð um sakarefnið og málsatvik, en fyrstu skýrsluna gaf hún aðfaranótt laugardagsins 2. apríl 2016, eins og áður hefur komið fram. Í þeirri skýrslu, en einnig í frumskýrslu lögreglu, er vikið að því að stúlkan hefði tjáð sig stuttlega um kæruefnið í samræðum við lögreglumenn í lögreglubifreið og á lögreglustöð fyrir formlega skýrslutöku. Jafnframt er í þessum gögnum vikið að því að B hefði á svipuðum tíma verið í símasamskiptum við vinkonu sína, vitnið E, um hin ætluð kynferðisbrot ákærða.

            Í upphafsorðum yfirheyrsluskýrslu B, þann 4. apríl 2016, er af hálfu yfirheyranda vísað til ofangreindrar atburðarásar, en í framhaldi af því er hún beðin um að endurtaka frásögn sína. B svaraði því til ítrekað að það vildi hún ekki gera, en játaði aðspurð að orðræða hennar umrædda nótt hefði varðað ætluð brot ákærða gegn henni þegar hún var búsett í […]. Þá vísaði hún til þess að hún hefði tíðum flust með fjölskyldu sinni, þ. á m. á milli […] og […], en af frásögn hennar verður ráðið að á síðarnefnda staðnum hefði hún um tíma búið ásamt föður sínum, ákærða, en einnig yngri systur sinni, C. Nánar aðspurð svaraði B því til að ákærði hefði brotið gegn henni þegar hún var 5 eða 6 ára, að brotin hafi verið fleiri en eitt, en að hún gæti ekki sagt til um fjöldann og loks að brotin hefðu gerst í svefnherbergi á heimili hennar. Síðar við nefnda yfirheyrslu skýrði B frá því að nefnd brot ákærða hefðu tekið yfir lengra tímabil og þar á meðal að þau hefðu gerst eftir að stjúpmóðir hennar, D, var komin til sögunnar. Hún áréttaði á hinn bóginn að hún gæti ekki greint frekar frá brotum ákærða sökum minnisleysis. Þá treysti hún sér ekki til að segja til um hvort stjúpmóðir hennar hefði haft vitneskju um brotin og sagði þar um: „... ég held ekki, ég veit það ekki. Og við þessar fyrstu yfirheyrslur lögreglu kvaðst B ekki vita til þess að ákærði hefði brotið gegn yngri systur hennar, C, og fullyrti jafnframt að þær hefðu aldrei rætt saman um brot ákærða.

            Aðspurð af yfirheyranda staðfesti B, þegar hér var komið sögu, að hún hefði sent vinkonu sinni, vitninu E, áðurrakin símaskilaboð, þar sem fram hefðu komið þau orð hennar að ákærði hefði nauðgað henni, en hún kvaðst hafa sent skilaboðin eftir að hún var komin á lögreglustöðina umrædda nótt. Í framhaldi af þessu spyr yfirheyrandinn B að því hvort hún telji að henni hefði verið nauðgað í […] og þá þannig að getnaðarlimur hefði verið settur inn í leggöng hennar. B svaraði báðum spurningunum með því að humma, en í endurriti er skráð að hún hefði svarað spurningunum játandi. Skýrsla þessi var eins og aðrar skýrslur lögreglu og eru viðeigandi gögn þar um á meðal málsgagna.

            Brotaþolinn B gaf síðari framburðarskýrslur sínar hjá lögreglu að viðstöddum réttargæslumanni sínum. Við þær yfirheyrslur áréttaði hún ofangreinda frásögn um kynferðisbrot ákærða og að þau hefðu hafist við 5 eða 6 ára aldur hennar og þá í svefnherbergi. Nánar aðspurð bar hún að þessi fyrstu kynferðisbrot ákærða hefðu gerst eftir að foreldrar hennar skildu og að hún hefði þá verið búsett í […] í […]. Hún margítrekaði hins vegar að minni hennar væri stopult frá þessu skeiði, og sagði: „... ég man ekki hvernig þetta var, en það síðasta sem að gerðist var þegar ég var 10 eða 11 ára, ég man mjög lítið eftir því ... í […] ... ég man ekkert eftir þessu ... ég held að það hafi verið eitthvað svipað ... þetta gerðist oftar en ég man ekki hvað mörgum sinnum. ... þetta gerðist 5 til 10 sinnum. Það getur verið meira en 10, þetta er svona 5 til 10 ...

            Ítrekað aðspurð við nefndar lögregluyfirheyrslur bar B að brot ákærða hefðu falist í káfi hans á kynfærum hennar, en hún vildi í fyrstu ekki lýsa háttsemi hans nánar, en sagði síðan um athæfið og viðbrögð ákærða: (  )

            Af lögregluyfirheyrslum B verður ráðið að eftir síðastgreinda háttsemi ákærða minntist hún helst brota hans í tengslum við ferðir þeirra til […], en þar um sagði hún m.a.: ... þá tók hann annað hvort mig eða stundum C með sér og þegar hann tekur mig með þá gerðist það þannig að hann beitir mig kynferðislegu ofbeldi, sem er svona sama og ég lýsti ... Við vorum á einhverju hóteli, sem ég man ekkert hvað heitir, ... sem hann fór alltaf á, þetta er svona ódýrt, alveg svona ágætt hótel.“ Nánar aðspurð minntist B þess ekki hversu oft hún fór ein með ákærða til […], en hún kvaðst síðar, þ.e. eftir að hún var komin á fósturheimilið á höfuðborgarsvæðinu, hafa þekkt umrætt hótel á mynd, sem hún hefði séð á heimasíðu ákærða.

            Ítrekað aðspurð við yfirheyrslu hjá lögreglu staðhæfði B að hún minntist þess að ákærði hefði ekki brotið gegn henni með líkum hætti og hér að framan hefur verið rakið eftir að hún fluttist með fjölskyldunni til […]. Hún kvaðst hins vegar minnast atviks þegar hún var 15 ára og var að vinna með ákærða við þrif hjá útgerðarfélagi. Sagði hún að við þær aðstæður hefði ákærði í eitt skipti snert á henni rassinn viljandi og þá jafnframt hrósað henni fyrir útlitið. Hún kvaðst hafa fundið til óþæginda vegna þessa athæfis ákærða.

 

            Við fyrrgreindar yfirheyrslur hjá lögreglu tjáði brotaþolinn B sig ítrekað um það harðræði sem hún og systir hennar C hefðu mátt þola af hálfu stjúpmóður þeirra, sbr. að því leyti áðurnefndan fangelsisdóm, sem kveðinn var upp yfir D þann 9. mars 2017.

 

            Eins og fyrr sagði voru skýrslur brotaþolans B hjá lögreglu teknar upp með hljóði og mynd og eru diskar þar um á meðal gagna málsins. Var hluti þeirra sýndur við aðalmeðferð málsins fyrir dómi.

 

2.         Málsatvik samkvæmt III. kafla ákæru

            Eins og fyrr var rakið var brotaþolinn C ítrekað yfirheyrð við lögreglurannsókn máls þessa, sbr. kafla F hér að framan. Við fyrstu yfirheyrsluna, þann 5. apríl 2016, var hún vegna ungs aldurs yfirheyrð af sérhæfðum kunnáttumanni í Barnahúsi, en undir stjórn dómara, en hún var þá 13 ára. Liggur fyrir að skömmu áður, þann 1. mars, hafði C gefið skýrslu í Barnahúsi, en þá vegna rannsóknar á ætluðum ofbeldisbrotum stjúpmóður hennar, D, en af því tilefni hafði D um stundarsakir verið vísað af heimili fjölskyldunnar samkvæmt ákvörðun lögreglustjóra.

            Við fyrrnefnda yfirheyrslu C í Barnahúsi greindi hún almennt frá högum sínum og stuttu lífshlaupi og þar á meðal þegar hún var búsett í […] með foreldrum sínum. Einnig greindi hún frá skilnaði foreldranna, við 4 eða 5 ára aldur hennar, og að hún hefði eftir það aðeins hitt móður sína um helgar, en haldið heimili með föður sínum, ákærða, og systur sinni, B. Hún sagði að þær systur hefðu deilt rúmi og bar að ekkert óvenjulegt hefði komið fyrir hana á þessu tímaskeiði. Hún kvað föður sinn á þessu tímabili og áður en hann hóf samband sitt við stjúpmóður hennar, D, hafa lagt lag sitt við aðrar konur.

            C lýsti einnig líðan sinni við nefnda yfirheyslu, vorið 2016, og staðhæfi að hún hefði almennt verið góð, enda þótt hún hefði fundið til smá vanlíðunar um skeið og þá vegna háttsemi stjúpmóður sinnar, D. Aftur á móti staðhæfði hún að samskipti hennar við föður sinn, ákærða, hefðu í gegnum tíðina verið góð og sagði:    „... líkar bara mjög vel við hann. Hún skýrði hins vegar frá því að nokkru fyrir yfirheyrsluna hefði ákærði verið fjarlægður af heimili þeirra og bar að af þeim sökum hefði henni ekki liðið sérlega vel, en staðhæfði að hún hefði ekki haft vitneskju um tilefni þessara aðgerða. Hún lýsti sambandi sínu við B, systur sína, að nokkru og bar m.a. að þar hefðu skipst á skin og skúrir, en greindi jafnframt frá því að systir hennar vildi á þeirri stundu ekki dvelja á heimili fjölskyldunnar. Og nánar aðspurð kvað hún engan einstakling hafa snert „einkastaði“ hennar og ekki kvaðst hún þekkja nokkurn mann sem hefði orðið fyrir slíkri háttsemi. Sagði hún að ef einhver myndi koma þannig fram við hana myndi hún lemja viðkomandi, en einnig segja vinkonum sínum frá háttseminni, en bætti síðan við: „... ef ég mundi þurfa að segja þá mundi ég segja pabba mínum.

 

            Eins og hér að framan hefur verið rakið hafði C orð á því við vinkonur sínar haustið 2017, en einnig í rafpósti sem hún ritaði á svipuðum tíma til félagsmálayfirvalda í fyrrverandi heimbæ sínum, sbr. kafla F hér að framan, að hún hefði orðið fyrir alvarlegum kynferðisbrotum af hálfu föður síns, ákærða, á yngri árum sínum. Af þessu tilefni var C yfirheyrð um sakarefnið þann 26. október nefnt ár. Við þá skýrslugjöf staðhæfði C, sem þá var 15 ára, að ákærði hefði brotið gegn henni kynferðislega á nefndu tímaskeiði í ævi hennar, nánar tiltekið á hótelherbergjum á ferðalögum þeirra í […], en sagði að það hefði gerst „sjaldan.“ Hún lýsti brotum ákærða m.a. þannig: (  ) Aðspurð af yfirheyranda kvaðst hún ekki geta sagt til um hvort ákærði hefði notað smokk og þá ekki hvort hún hefði fundið fyrir líkamlegum sársauka, en kvaðst aftur á móti minnast þess að ákærði hefði haft á orði: „Ekki segja mömmu þetta.“ Hún kvaðst hafa farið eftir þessum fyrirmælum og ekki sagt neinum frá brotum ákærða og áréttaði að hann hefði aðeins brotið gegn henni í nefndum ferðum og því ekki á heimili þeirra í […] eða eftir að fjölskyldan fluttist til […]. Hún kvaðst hins vegar hafa heyrt frásögn systur sinnar, B, um að ákærði hefði brotið gegn henni kynferðislega í eitt skipti á heimili þeirra í […], og að þá hefðu aðstæður verið með þeim hætti að (stjúp)móðir þeirra hefði ekki verið heima við. Hún kvaðst ekki hafa heyrt frekari lýsingu hjá B af þessu broti ákærða.

            Við síðari yfirheyrslu C hjá lögreglu greindi hún frá því að hún hefði séð það á veraldarvefnum, ásamt systur sinni B, að það hótel sem hún hafði gist á í ferðunum með ákærða til […] héti […]. Hún kvaðst m.ö.o. hafa þekkt hótelið á myndum, en að auki, og þrátt fyrir ungan aldur þegar atvik máls gerðust, haft minningar um nánari staðhætti. Hún kvaðst hafa skýrt fósturmóður þeirra systra, vitninu J, frá þessu og bar að vitnið hefði í framhaldi af því miðlað upplýsingunum til réttargæslumanns, sem hefði komið þeim áfram til lögreglu.

 

            Samkvæmt rannsóknargögnum lögreglu var samhljómur um síðasgreint atriði í skýrslu brotaþolans B, að því er varðaði umrætt hótel, en á meðal rannsóknargagna eru myndir, sem þær vísuðu til, þ. á m. á heimasíðu ákærða á veraldarvefnum.

 

K.

            Framburður fyrir dómi.

1.         Fyrir dómi játaði ákærði skýlaust sakarefni II. kafla, 5. og 6. töluliðar ákæru.

Ákærði neitaði aftur á móti alfarið sök að því er varðaði sakarefni I. og III. kafla ákæru.

 

2.         Fyrir dómi greindi ákærði frá dvöl sinni í […] á árabilinu 2004 til 2012, og áréttaði hann fyrr frásögn sína hjá lögreglu í aðalatriðum og þar á meðal að hann hefði fyrstu árin verið þar með þáverandi eiginkonu sinni og dætrum þeirra, B og C. Ákærði áréttaði að auki í aðalatriðum það sem hér að framan var rakið, þar á meðal að til skilnaðar hefði komið í lok ársins 2006 og að hann hefði í framhaldi af því verið í sambandi við þarlendar konur, en eftir u.þ.b. fimm mánuði hefði hann kynnst núverandi eiginkonu sinni, D, þann 18. maí 2007. Þá var frásögn ákærða að því er varðaði verslunar- og veitingarekstur, en einnig um búsetu, búferlaflutninga og loks ferðalög til […] í tengslum við dvalarleyfi og endurnýjun á vegabréfsáritunum, með líkum hætti og hér að framan hefur verið rakið úr skýrslum hans hjá lögreglu, sem hann staðfesti.

            Ákærði skýrði nánar frá högum sínum og bar að eftir hjúskparslitin hefði hann fyrri hluta ársins 2007 leigt sér herbergi og þá stöku sinnum haft dætur sínar, þær B og C, hjá sér í umgengni. Hann áréttaði að breyting hefði orðið á þessu fyrirkomulagi vorið eða sumarið 2007 eftir að hann hafði fengið fulla forsjá stúlknanna og bar að frá þeim tíma hefðu stúlkurnar haldið til á heimili hans. Í fyrstu og eftir að hann hafði tekið saman við D hefðu þau öll búið á heimili móðurfjölskyldu hennar á […] í […] og þá ásamt móður D og þremur systkinum hennar.

 

            Fyrir dómi staðhæfði ákærði að hann hefði aldrei fundið kenndir til barna eða barnagirndar, en sagði að kynhvöt hans í gegnum tíðina hefði verið í „meira lagi.“ Ákærði neitaði því aðspurður fyrir dómi að hin mikla kynhvöt hans hefði að einhverju leyti beinst gegn elstur dóttur hans, I, sbr. fyrrgreint eldra sakamál frá árinu 1991. Ákærði staðhæfði að þegar þau brot gerðust hefðu aðrar aðstæður verið fyrir hendi í lífi hans, þrátt fyrir að stúlkan hefði er hann braut gegn henni sofið í sama rúmi og hann. Vísaði ákærði að því leyti m.a. til þess að þegar hann braut kynferðislega gegn stúlkunni hefði hann ekki kennt kvenmanns um langa hríð, en vaknað upp við fyrrgreindar aðstæður og þá við blautar draumfarir og sáðlát, en þá jafnframt strax áttað sig á því sem gerst hafði. Staðhæfði ákærði að þannig hefði ekki verið um viljaverk að ræða af hans hálfu, en hann engu að síður játað brot sín og sök fyrir dómi. Aðspurður treysti ákærði sér ekki til að útskýra eigin hegðun að þessu leyti gagnvart nefndri stúlku eftir að hann hafði verið sakfelldur á árinu 1991, hlotið dóm og beið refsiúttektar, en þá á ný brotið gegn henni samkvæmt áðurnefndum rafpósti, sem hann staðfesti efnislega við aðalameðferð málsins. Ákærði vísaði þó til þess að þegar það atvik gerðist hefði ekki verið um að ræða „algert kynferðislegt samræði.“

            Ákærði staðhæfði að mörg undanfarin ár hefði hann náð að fullnægja hinni miklu kynhvöt sinni. Í fyrstu eftir skilnaðinn í byrjun árs 2007 með þeim konum sem hann hefði verið í tygjum við, þ. á m. með fyrrnefndri H, en síðan með núverandi eiginkonu sinni, D, og bar að þau hefðu m.a. stundum horft saman á klámefni. Að því leytinu vefengdi ákærði ekki að rannsóknaraðilar hefðu fundið nokkuð mikið af klámefni í tölvubúnaðinum á heimili þeirra vorið 2016, en áréttaði í því sambandi hin fyrri orð sín hjá lögreglu, að slík myndskeið hefðu aðeins verið af fullorðnum einstaklingum. Þá kvaðst hann aldrei hafa sýnt börnum sínum og þá ekki dóttur sinni B slíkt myndefni, en bar að yngri systir hennar, C, hefði haft orð á því í hans eyru, að á seinni árum hefði B skoðað slíkt efni á veraldarvefnum, en jafnframt kvaðst hann hafa veitt því athæfi hennar eftirtekt.

 

3.         Fyrir dómi neitaði ákærði því að hann hefði brotið kynferðislega gegn dóttur sinni B, eins og honum er gefið að sök í I. kafla 1. tölulið ákæru. Hann áréttaði frásögn sína um að stúlkan, líkt og systir hennar, C, hefði alist upp á heimili hans og fyrrverandi eiginkonu og þar á meðal eftir að þau fluttust til […] á árinu 2004 og þá til loka árs 2006. Hann vísaði til þess að fyrst eftir skilnað þeirra hjóna hefði hann sjaldan haft hana hjá sér. Ákærði sagði að þegar það bar við hefði B, líkt og yngri systir hennar, C, búið hjá honum í litlu leiguherbergi. Hann lýsti þeim aðstæðum, en einnig afstöðu sinni til sakarefnisins, nánar þannig: „... þar var ekki nema eitt rúm, en ég fullyrði samt að ég hef ekki gert þetta, sem hún ásakar mig um.“ Borið var undir ákærða orðalag hans við upphaf yfirheyrslu hjá lögreglu þegar frásögn B um kynferðisbrotin var fyrst borin undir hann, þar sem hann sagði: „Það held ég geti ekki verið“, og enn fremur: „Ég veit ekki af hverju ég sagði þarna „held ég“, en það getur bara ekki verið, það getur ekki verið, það er bara ekki. Ákærði áréttaði af þessu tilefni neitun sína, en jafnframt fyrri orð um eigin aðstæður eftir skilnaðinn í lok árs 2006. Ákærði áréttaði jafnframt að allar aðstæður hans hefðu verið með öðrum hætti en t.d. þegar atvik máls gerðust varðandi elstu dóttur hans, samkvæmt dómsmálinu frá árinu 1991. Vísaði ákærði í því viðfangi til þess að allan þann tíma sem hann dvaldi í […] hefði „langtíma kvenmannsleysi“ ekki hrjáð hann og hann þannig ekki verið í neinu svelti að því leytinu til. Ákærði áréttaði jafnframt að eftir að hann fluttist frá […] til […] vorið 2007 hefði hann í fyrstu haft aðsetur hjá gömlum vini sínum, sem mjög fljótlega hefði kynnt hann fyrir D.

            Fyrir dómi kvaðst ákærði enga skýringu hafa á hinum alvarlegum ásökunum B, að öðru leyti en því að hann kvað stúlkuna hafa breyst í allri hegðun og staðhæfði að hún hefði m.a. farið að lifa óheilbrigðu líferni eftir að hún hóf nám í framhaldsskóla, þá 15 ára. Ákærði kvaðst vegna þessa hafa þurft að taka í taumana og þá m.a. með því að herða á útivistarreglum, en einnig að því er varðaði fjármál hennar. Jafnframt vísaði ákærði í þessu sambandi til þess að eiginkona hans, D, hefði beitt harðari uppeldisreglum en tíðkaðist almennt hér á landi, og bar að það hefði um síðir leitt til þess að B hefði sakað D um harðræði, en í kjölfarið hefði lögreglan vísaði henni af heimili fjölskyldunnar um stundarsakir. Ákærði sagði að félagsmálayfirvöld hefðu veitt allri fjölskyldu hans aðstoð og liðsinni  vegna þessa, en staðhæfði að þegar D hefði komið aftur á heimilið, rétt mánuði síðar, hefði það verið í óþökk B. Vísaði ákærði til þess að þegar stúlkan hefði farið út úr húsi þá um kvöldið hefði hann brýnt fyrir henni lífsreglurnar varðandi útivist og drykkjuskap, en hún þá brugðist við með fyrrgreindum ásökunum í hans garð í orðræðu sinni við lögreglumenn þá um nóttina. Ákærði kvaðst í raun ekki hafa aðrar skýringar á öllum þeim ásökunum, sem stúlkan hefði borið á hann, en einnig að nokkru gagnvart eiginkonu hans D, og staðhæfði að hinar fyrri væru alfarið rangar og hinar síðari ýktar. Ákærði bar að allt fram til 15 ára aldurs stúlkunnar hefði samband þeirra feðgina verið mjög gott.

 

            Að því er varðaði sakarefni 2. töluliðar I. kafla ákæru staðfesti ákærði fyrir dómi frásögn stúlkunnar B um að hann hefði rekið netkaffihús, þ. á m. eftir að hann fluttist til borgarinnar […] í […], og ætlaði hann helst að það hefði verið á árunum 2008 og 2009. Ákærði neitaði á hinn bóginn alfarið sakarefninu svo og frásögn B um að hann hefði sýnt henni klámefni, en jafnframt að hann hefði káfað á henni kynferðislega eða viðhaft annað það athæfi sem lýst er í ákæruliðnum.

            Nánar aðspurður kannaðist ákærði við frásögn B, að því leyti að þau hefðu verið búsett í tilteknu húsnæði, og jafnframt staðfesti hann lýsingu og teikningu hennar að því er varðaði innstokksmuni og uppsetningu á tölvum, sem hún hafði gert við yfirheyrslu hjá lögreglu, en einnig fyrir dómi. Loks staðfesti ákærði frásögn B um að það hafi gerst í eitt skipti, að eiginkona hans hefði farið að heiman í heimsókn til móður sinnar, ásamt yngri dætrunum, og að hann hefði þá verið einn á heimilinu ásamt stúlkunni.

            Að því er varðaði sakarefni 3. töluliðs I. kafla ákæru neitaði ákærði sök, en kannaðist við að í fyrrnefndum ferðum hans til […] hefði hann oftast gist á gistihúsinu Line gesthouse, og að hann hefði þá oftast dvalið þar yfir nótt, en í örfá skipti gist í tvær nætur. Ákærði staðfesti að þessu leyti að þær myndir sem dætur hans, B og C, höfðu vísað rannsóknaraðilum á að væru af nefndum gististað.

            Ákærði skýrði frá því að hann hefði tekið dætur sínar, B og C, með sér í nokkrar af þessum […]-ferðum, en bar að það hefði hann fyrst gert þegar þær hefðu fengið eigið […] vegabréf og bar að það hefði gerst eftir að fjölskyldan fluttist aftur í nágrenni […], sennilega á árinu 2009 eða 2010. Ákærði sagði að það hefði einnig komið fyrir að öll fjölskyldan, þar á meðal eiginkona hans D, hefði farið með honum í þessi ferðalög til […].

            Ákærði skýrði frá því að ástæða þess að hann hefði aðeins tekið aðra stúlkuna, þ.e. B eða C, með sér í nefndar […]-ferðir hefði aðallega komið til af auraleysi hans, en sagði einnig: „Bara af því að mig langaði kannski ekki að fara einn og þeim langaði með. Það er nú bara þannig að þeim langað bara með.

            Fyrir dómi neitaði ákærði því alfarið að hann hefði í einni þessara […]-ferða, í nóvember 2011, brotið gegn B kynferðislega, og þá ekki frekar en á öðrum íverustöðum á ferðalögum þeirra eða heimilum. Ákærði vefengdi á hinn bóginn ekki, og þá í ljósi rannsóknarstarfa lögreglu á vegabréfum, að dóttir hans B hefði m.a. farið með honum til […] seinni hluta ársins 2011 og bar að stúlkan hefði í reynd farið með honum í fleiri slíkar ferðir, en það sama hefði hins vegar ekki gilt um yngri dóttur hans, C, eins og síðar verður rakið.

 

            Að því er varðaði sakarefni 4. töluliðar I. kafla ákæru neitaði ákærði sakarefninu og staðhæfði að frásögn brotaþolans B þar um „stemmdi ekki.“ Ákærði staðfesti aftur á móti að stúlkan hefði starfað hjá nefndu félagi við þrif, líkt og hann, en þá aðallega seinni part dags, í u.þ.b. 2-3 klukkustundir á dag, en bar að það hefði fyrst gerst eftir að hún náði 15 ára aldri.

 

4.         Fyrir dómi neitaði ákærði því að hann hefði brotið kynferðislega gegn dóttur sinni C eins og honum er gefið að sök í III. kafla ákæru.

            Ákærði vísaði til áðurrakinna orða um tilefni þessara ferða til […], en sagði að hann minntist þess ekki að C hefði farið oftar en í eina slíka ferð með honum einsömul og bar  að þær hefðu í mesta lagi verið tvær og þá á árunum 2011 eða 2012, en aftur á móti aldrei á árinu 2009. Vísaði ákærði til þess að eftir að fjölskyldan fluttist til […] hefði verið um langan veg að fara, í rútu, og að B hefði verið ung að árum.

            Að athuguðu máli vefengdi ákærði fyrir dómi ekki áritanir í vegbréfum B að því er varðaði nefndar ferðir hennar til […], sbr. kafla G hér að framan, en honum hafði við meðferð málsins fyrir dómi gefist sérstakt svigrúm til þess að kynna sér framlögð gögn, þ. á m. ljósrit af vegabréfum dætra hans, C og B. Að auki hafði ákærða gefist færi á að skoða og kanna ljósmyndir í eigin myndasafni í hinum haldlögðu tölvugögnum. Ákærði kvaðst þrátt fyrir þessar athuganir sínar á hinum haldlögðu gögnum, og að hún hefði ekki gefið honum tilefni til hafa uppi athugasemdir, halda fast við þau orð sín varðandi þau ferðalög sem C fór einsömul með honum í til […]. Hann kvaðst helst telja að einhver mistök hefðu orðið og þá þannig að það hefði verið dóttir hans, B, sem hefði verið með honum í för en ekki C. Hann hefði þannig víxlað vegabréfum dætranna í ógáti, en landamæraverðir síðan ekki gætt nægjanlega að sér við störf sín. Að þessu leyti áréttaði ákærði andmæli sín að því er varðaði frásögn C um að hún hefði að líkindum farið í þrjár slíkar ferðir einsömul með honum til […], en jafnframt áréttaði hann neitun sína um að hann hefði í þessum ferðum þeirra brotið gegn henni kynferðislega og þá ekki eins og lýst er í ákæru.

            Fyrir dómi hafði ákærði ekki eiginlegar skýringar á ásökunum C. Hann vísaði þó til þess að stúlkan hefði við fyrstu yfirheyrslu í Barnahúsi neitað með öllu slíkum brotum af hans hálfu. Eftir það hefði C flust af heimili fjölskyldunnar vegna ásakana um harkalegar uppeldisaðferðir eiginkonu hans, en í kjölfar þess hefðu félagsmálayfirvöld komið C fyrir á fósturheimili, en sagði að það hefði verið í óþökk hans að það hefði verið sama heimilið sem eldri dóttir hans, B, hafði þá dvalið á um hríð. Vísaði ákærði til þess að skömmu eftir þessar ráðstafanir hefði C komið fram með ásakanir sínar gegn honum. Var það álit hans að B og jafnvel fleiri aðilar hefðu haft áhrif á C og þá með þessum hætti.

            Ákærði greindi frá því að samband hans við C hefði ætíð verið „rosalega gott“ og kvaðst hann af þeim sökum hafa orðið undrandi á ásökunum hennar. Ákærði sagði að aldrei hefði borið á óreglu hjá C og bar hann henni vel söguna.

 

5.         Brotaþolinn B skýrði frá því fyrir dómi að kynferðisbrot föður hennar, ákærða, hefðu farið að rifjast upp fyrir henni eftir að hún hóf nám í framhaldsskóla haustið 2015. Staðhæfði hún að fram til þess tíma hefði hún í reynd útilokað allar minningar sínar um brotin, enda hefði verið langt um liðið og hún verið mjög ung að árum þegar atvik gerðust, en að auki hefðu aðrir erfiðir þættir í líf hennar haft þar áhrif á. Staðhæfði hún að það sem hefði sérstaklega hreyft við huga hennar að þessu leyti hefði verið frásögn vinkonu hennar í framhaldsskólanum, sem hefði þurft þola brot af þessu tagi. Einnig sagði hún að slík málefni hefðu verið til umræðu í tengslum við leiklist í skólanum, en þá helst að því er varðaði viðbrögð við slíkum brotum. Hún sagði að í framhaldi af þessu öllu hefðu hennar eigin minningar um brot ákærða smám saman farið að rifjast upp fyrir henni, en hún lýsti líðan sinni vegna þessa með svofelldum orðum: „... mér leið alltaf illa og var alltaf að drekka eða reykja til að bæla niður ég var líka alltaf að hegða mér skringilega ... og þegar ég var undir áhrifum einhvern tímann, þá klæddi ég mig úr fötum ... fyrir framan alla, það er alla vega ekki eðlilegt.

 

            B skýrði frá því að fyrsta minning hennar af kynferðisbrotum ákærða hefði verið frá þeim tíma þegar foreldrar hennar skildu eða skömmu eftir það. Hún sagði að í minningunni hefðu aðstæður hennar þá verið með þeim hætti að hún hefði haldið til hjá ákærða og vísaði hún til þess að fyrst eftir skilnaðinn hefði ákærði haldið áfram búsetu sinni í sama héraði og móðir hennar, í […], og að þar hefði hann haft til umráða eigin íbúð. Þá kvaðst hún minnast þess að hafa búið tímabundið með ákærða í íbúð, sem vinur hans átti, en áréttaði að hún miðaði atvik máls við skilnað foreldra sinna og vefengdi að því leyti ekki frásögn ákærða fyrir dómi að það hefði gerst í lok árs 2006 og að þannig hefðu hin fyrstu brot hans gerst fyrri hluta ársins 2007. Hún hefði því verið aðeins eldri þegar atvik máls gerðust í fyrsta skiptið en hún hefði áður talið við skýrslugjöf hjá lögreglu, þ.e. við 7 ára aldurinn.

            B sagði að fyrstu minningar hennar um brot ákærða, þar sem hann hefði „misnotað“ hana, hefðu tengst fyrrgreindum íbúðum, sem hann hefði haft til umráða, en hún kvaðst hafa haldið þar til og átt náttstað ásamt ákærða, en einnig C, án þess að hún myndi sérstaklega eftir systur sinni. Nánar skýrði B frá því að hún hefði sofið hjá ákærða á einhvers konar dýnu, en hún lýsti minningu sinni fyrir dómi um brot ákærða þannig: „Ég man bara að við vorum að tannbursta okkur og að fara að sofa og hann var að segja mér einhverja sögu ... Ég man, ég var sofandi og svo allt í einu vakna ég við, hann var, ég fann fyrir því, vont bara, og svo fattaði ég það að pabbi var eitthvað að káfa á mér eða eitthvað, ég man ekki alveg hvað það var og svo daginn eftir sagði hann; ,,Fyrirgefðu“ og ég lofa að gera þetta aldrei aftur. ... hann sagði bara að hann gæti lent í einhverju slæmu ef ég myndi segja frá.  En svo gerðist það.

            Nánar aðspurð áréttaði B að í greint sinn hefði hún vaknað við sársaukann í leggöngunum og sagði: „... ég vissi ekki hvað þetta var þá.“ Hún kvaðst ekki minnast þess eða geta sagt til um hvað ákærði hefði gert henni nákvæmlega á verknaðarstundu og þá t.d. ekki hvort hann hefði verið nálægt leggöngum hennar með hendur eða liminn, enda ekki séð það. B kvaðst hafa haft grunsemdir um að álíka tilvik og brot gegn henni hefðu verið fleiri af hálfu ákærða, en kvaðst ekki hafa geta kallað fram einstakar minningar sínar þar um. B kvaðst hins vegar minnast þess að kynferðisbrot ákærða gegn henni hefðu haldið áfram eftir að hann hafði tekið upp samband sitt við D. Hún kvaðst minnast þess að brot ákærða hefðu þá verið með þeim hætti að hann og D hefðu haft á leigu íverustað á hóteli þar sem D starfaði og er þau hefðu haft samfarir hefði ákærði samhliða káfað á henni kynferðislega. Kvaðst hún ætla að D hefði haft vitneskju um þetta athæfði ákærða, en þar um vísaði hún m.a. til þess D hefði síðar haft uppi þau hótunarorð að hún myndi skýra frá misnotkuninni eða nauðgunum ákærða gagnvart henni ef B skýrði frá áðurgreindum ofbeldisverkum D. B kvaðst jafnframt hafa þurft að þola slíkt athæfi af hálfu ákærða áður en hann kynntist D, en hún kvaðst minnast slíkra tilvika er hann hefði verið í tygjum við aðrar konur. Í því sambandi nefndi hún sérstaklega konu sem hefði haft aðsetur nálægt landamærum […] og […] og að hún nefndist H.

            Fyrir dómi kvaðst B sérstaklega minnast tilviks eftir að hún hafði flust ásamt ákærða og fjölskyldunni á ný til […], en hún kvaðst þá hafa verið 10 eða 11 ára. Hún sagði að er þetta gerðist hefði ákærði rekið tölvubúð ásamt því að selja samlokur. Sagði hún að atvik hefðu verið með þeim hætti að D hefði farið af heimilinu ásamt yngri systrum hennar, G og C, í heimsókn til móður D og hún því verið ein á heimilinu með ákærða. Sagði hún við þessar aðstæður hefði ákærði brotið gegn henni og þá með því að láta hana horfa með sér á klámefni á tölvuskjá, þar sem fullorðið fólk hefði verið að stunda kynlíf. Fyrir dómi lýsti B nánar aðstæðum á brotavettvangi með teikningu, sambærilegri þeirri sem hún hafði áður gert við yfirheyrslu hjá lögreglu. (  )

            B staðhæfði að eftir ofangreint athæfi hefði hún farið ásamt ákærða á svefnstað fjölskyldunnar á efri hæð húseignarinnar og lýsti hún atvikum sem þar gerðust þannig: (  ) Hún kvaðst með öðrum orðum hafa vaknað við það að ákærði hefði verið ofan á henni og verið byrjaður að hafa við hana samfarir. Aðspurð sagði hún að þetta væri í raun eina skiptið sem hún myndi eftir því að ákærði hefði farið með lim sinn í leggöng hennar. Hún kvaðst hins vegar ekki minnast þess að ákærði hefði í greint sinn fengið sáðlát, líkt og hún hefði borið í skýrslu sinni hjá lögreglu, en engu að síður kvaðst hún telja að orð hennar þar um hefðu verið sannleikanum samkvæm, enda hefði hún almennt munað atvik máls betur þá en fyrir dómi og þar með um þetta atriði.

            B staðhæfði að auk nefndra atvika minntist hún þess að ákærði hefði brotið gegn henni í gistihúsi í […]. Sagði hún að það hefði gerst í einni þeirra ferða sem hún hefði farið í einsömul með honum, en lýsti aðstöðunni þannig að hún hefði sofið í sama rúmi og ákærði, og sagði: „Ég man ekki hvernig þetta byrja, en bara, ég man ekki, hann notaði alla vega smokkinn þarna og það var smokkur eftir honum .. Þetta var notaður smokkur sem ég sá ... í ruslinu.“ Hún kvaðst í raun ekki geta lýst hinu ætlaða broti ákærða betur og þá vegna minnisglapa og þá t.d. ekki hvort hann hefði snert hana með lim sínum, eða hversu gömul hún var er atburður þessi gerðist,  en vísaði þar um til eigin orða við fyrrnefndar yfirheyrslur hjá lögreglu.

 

            Fyrir dómi svaraði B, aðspurð um hvort ákærði hefði brotið oftar gegn henni kynferðislega í […] en hún hefði getað lýst fyrir dómi, að hún væri þess fullviss að svo hefði verið og sagði: „... en ég man bara ekki eftir, ég get ekki lýst hvernig það gerðist. ... ég hef á tilfinningunni að það hefur gerst meira en ég man eftir og það hefur alveg gerst, já.

 

            Fyrir dómi skýrði B frá því að á þeim árum sem hún bjó í […] hefði stjúpmóðir hennar, D, sífellt verið að lemja hana, jafnframt því sem hún hefði beitt hana andlegu ofbeldi. Hún sagði að þessu ástandi hefði ekki linnt eftir að fjölskyldan fluttist til […], en þar um vísað hún til fyrrnefndrar dómsniðurstöðu í máli nr. S-30/2016 frá 9. mars 2017. Hún kvaðst hafa greint ákærða frá þessari hegðun D, en bar að það hefði ekki haft aðra þýðingu en þá, að ofbeldi D hefði orðið frekar verra. Vegna viðbragðsleysisins kvaðst hún ekki hafa þorað að segja frá þeim ofbeldisverkum sem hún þurfti að þola og bar að þessu til viðbótar hefði hún allt frá 8 ára aldri, og þá í […], þurft að sinna störfum tengdum atvinnurekstri fjölskyldunnar áður en hún hóf skólastarf sitt á morgnana.

 

            Fyrir dómi skýrði B frá því að eftir að hún fluttist með ákærða og fjölskyldu sinni til […] á árinu 2012, til sveitarfélagsins […], þá 13 ára, hefði hún haldið skólagöngu sinni áfram, en þá í 8. bekk grunnskólans. Hún kvaðst minnast þess að nokkru eftir flutningana hefði D verið boðuð á fund félagsmálastjóra, þar sem hún hefði verið upplýst um að ákærði hefði á árum áður hlotið dóm fyrir að brjóta gegn hálfsystur hennar, I. B sagði að D hefði greint henni frá þessum tíðindum, en kvaðst ekki nákvæmlega muna hvenær þetta gerðist, en ætlaði helst að hún hefði verið í 10. bekk grunnskólans eða rétt byrjuð í framhaldsskólanum. B sagði að henni hefði brugðið við þessi tíðindi og sagði: „Ég hélt smá stund að hún væri að tala um mig af því að hún sagði eldri systir, hún sagði ekki I, hún sagði bara eldri systir og mér brá svo ... af því að ég var farin að muna, þá brá mér, af hverju, ég veit það ekki, af hverju er ég þá hér eða hjá þeim …

            B skýrði frá því að eftir búferlaflutningana til […] hefði ákærði í eitt skipti viðhaft kynferðislega háttsemi gagnvart henni og þá með því að strjúka henni utanklæða um rassinn og bar að hann hefði þá sagt: „að rassinn sé flottur.“ Er þetta gerðist kvaðst hún hafa verið við störf sín, í lausamennsku, við þrif hjá útgerðarfyrirtækinu […], með ákærða, og verið 15 ára og því í 10. bekk grunnskólans. Árið eftir kvaðst hún hafa hafið nám í framhaldsskóla sveitarfélagsins.

 

            Fyrir dómi var B kynntur hluti framburðar hennar sem hún hafði gefið við lögreglurannsókn málsins og þá um einstök sakaratriði, sbr. m.a. það sem hér að framan hefur verið rakið. Hún staðfesti að því leyti efni skýrslnanna en áréttaði að fyrir dómi minntist hún atvika máls ekki eins vel og hún hafði gert hjá lögreglu, þ. á m. varðandi fyrstu minningarnar um brot ákærða, og þá um að ákærði hefði, jafnframt því sem hann hefði káfað á kynfærum hennar, einnig sett liminn inn í kynfæri hennar. Hún kvaðst jafnframt ætla að slík brot ákærða hefðu í upphafi verið fleiri og þá á bilinu 5 til 10, líkt og hún hefði borið í skýslum sínum hjá lögreglu þrátt fyrir að hún hefði ekki getað kallað fram minningar þar um fyrir dómi.

            B áréttaði að hún hefði verið haldin vanlíðan vegna þeirra minninga sem hefðu komið upp í huga hennar á unglingsárum og þá vegna lýstra brota ákærða. Hún sagði að þessi vanlíðan hennar hefði farið vaxandi með árunum og staðhæfði að hún hefði verið helsta undirrót þess að hún hóf að lifa óheilbrigðu líferni og hegða sér „skringilega“ í návist jafnaldra sinna. Sagði hún að þannig hefði einmitt verið ástatt fyrir henni föstudagskvöldið 1. apríl 2016, sem aftur hefði leitt til þess að lögreglan hafði afskipti af henni. Hún staðfesti að við það tækifæri hefði hún m.a. verið innt eftir því hvort hún hefði sætt misnotkun, en sagði að nokkru áður hefði félagsmálastjóri sveitarfélagsins inn hana eftir þessu sama. Hún kvaðst í raun ekki hafa svarað lögreglumönnunum með afdráttarlausum hætti heldur aðeins gefið það í skyn að það hefði gerst. Vísað hún til þess að á þeirri stundu hefði hún þá haft í huga að ef hún tjáði sig um málefnið gæti faðir hennar lent í „vondum málum ... myndi kannski missa hann af eilífu eða eitthvað … en svo sagði ég frá og ég var hrædd við alla, ég var hrædd við viðbrög frá D og ömmu og allt heimilið.“ Hún kvaðst m.a. hafa óttast að viðbrögðin við orðum hennar gætu m.a. orðið þau að hún yrði skilin ein eftir hjá stjúpmóður sinni, D, en hún kvaðst hafa sagt lögreglu frá ofbeldi hennar u.þ.b. einum mánuði áður.

            B staðhæfði að nefnda nótt hefði hún í fyrsta skiptið, en þó með takmörkuðum hætti, greint frá kynferðisbrotum ákærða, en er það gerðist hefði hún fundið til vímuáhrifa vegna áfengisdrykkju fyrr um kvöldið. Þá kvaðst hún hafa gefið skýrslur um sakarefnið hjá lögreglu, en við þær seinni hefði hún getað rifjað upp einstök brot ákærða frekar og sagði að það hefði einkum gerst eftir að henni hafði verið komið fyrir í öruggu skjóli á fósturheimili vitnisins J. Hún kvaðst ætíð hafa sagt satt og rétt frá og því hefði ekki verið um nein ósannindi eða tilbúning að ræða af hennar hálfu. Hún kvaðst því ekki hafa haldið orðræðu sinni fram sökum þess að hún hefði verið í fýlu út í föður sinn líkt og hann hefði haldið fram, en þar um sagði hún: „... ég myndi heldur aldrei ... búa til svona stórt mál út af því að ég er í fýlu út í hann (ákærða). Það er enginn sem gerir það. Hún kvaðst að því leyti einnig andmæla frásögn ákærða um að annarlegar hvatir af hennar hálfu hefðu legið að baki ásökunum hennar og vísaði m.a. til þess að kvöldið og nóttina sem hún skýrði lögreglumönnum frá brotum hans hefði hún verið með leyfi frá foreldrum sínum, og þá helst D, en með samþykki ákærða, að vera úti til klukkan þrjú.

            B áréttaði fyrir dómi að hún hefði fyrir greind afskipti lögreglu aldrei rætt um brot ákærða við nokkurn mann og þá ekki heldur við yngri systur sína, C. Hún kvaðst hins vegar eftir þann atburð hafa greint C frá ástæðunni fyrir handtöku föður þeirra, en þó án þess að lýsa brotum hans ítarlega. Hún kvaðst minnast þess að viðbrögð C hefðu verið á þá leið, samkvæmt skilaboðum á „messanger“, að hún hefði í hennar sporum fyrirgefið ákærða háttsemina. B kvaðst á síðari stigum aðeins með mjög takmörkuðum hætti hafa greint C frá brotum ákærða og þá eftir að þær hófu báðar búsetu á sama fósturheimilinu í […]. Hún sagði að það sama hefði í raun gilt um C.

            B skýrði frá því að hún hefði fyrst lifað kynlífi þegar hún var í 10. bekk grunnskólans. Hún kvaðst því aldrei hafa farið í kvenlæknisskoðun við lögreglurannsókn máls þessa. Hún kvaðst aðspurð í einu tilviki hafa mátt þola alvarlegt kynferðisbrot af hálfu rúmlega tvítugs karlmanns og sagði að það hefði gerst þegar hún var í 10. bekk grunnskólans.

 

6.         Brotaþolinn C skýrði frá því fyrir dómi að hún hefði orðið fyrir kynferðisbrotum föður síns, ákærða, þegar hún var mjög ung að árum og hún var búsett í […] með fjölskyldu sinni.

            Fyrir dómi lýsti C brotum ákærða og brotavettvangi á þá leið, að hún hefði þá ávallt verið ein í fylgd með honum á ferðalagi þeirra í […]  og staðhæfði að brotin hefðu gerst á hótelherbergjum og sagði: „... hann bara byrjaði að gera eitthvað, hann byrjað að taka mig úr buxunum, hann setti, byrjaði að stunda mök, eitthvað aðeins, ... að stunda kynlíf eða eitthvað svoleiðis. Nánar aðspurð um háttsemi ákærða svaraði C spurningum sækjanda játandi um að hann hefði sett typpið inn í leggöng hennar og jafnframt að hann hefði með þeim hætti brotið oftar en einu sinni gegn henni, en ítrekað aðspurð hversu oft það hefði gerst svaraði hún: „... ég man það ekki. Af þessu tilefni var C bent á að samkvæmt áritunum í vegabréfi hennar hefði hún farið í fjórar ferðir með ákærða til […], og var hún í framhaldi af því innt eftir því hvort hann hefði brotið gegn henni í öll þau skipti eða einungis í einni ferðinni. Svaraði hún spurningunni þannig: „Ég man það ekki, en örugglega ekki í öll skiptin. Og nánar aðspurð sagði hún að brot ákærða hefðu a.m.k. gerst oftar en í eitt skipti eða tvö skipti, en staðhæði jafnframt að þau hefðu ekki gerst oftar en einu sinni í hverri ferð þeirra.

            Fyrir dómi lýsti C nánar eigin aðstæðum, tímasetningum brota og brotavettvangi á þá leið, að hún hefði verið íklædd bol, og ætlaði jafnframt helst að ákærði hefði ekki verið í neinum fötum og sagði: „... það var stundum þegar við erum nýkomin ... á hótelið ... í […]  ... og þreytt og bara leggjum okkur, en líka áður en við förum að sofa, stundum.“

            C staðhæfði að ákærði hefði haft það fyrir venju að sofa nakinn við hlið hennar í nefndum ferðum þeirra, en hún kvaðst ekki minnast þess hvernig því var háttað þegar fleiri í fjölskyldunni voru með í för. Aðspurð kvaðst hún ekki geta sagt til um af hverju ákærði hætti athæfi sínu hverju sinni og þá ekki hvort hann hefði fengið sáðlát og þá ekki heldur hvort hann hefði notað smokk.  Þá kvaðst hún ekki minnast þess hvort hún hefði fundið fyrir sársauka vegna háttsemi ákærða en vísaði í því sambandi til þess að langt væri um liðið og að hún hefði er atvik gerðust verið nærri 7 ára aldrinum. Í raun kvaðst hún aðeins minnast þess að ákærði hefði eftir brotin gegn henni haft á orði: Ekki segja mömmu. Nánar aðspurð um líðan sína þegar atvik máls gerðust á hótelherbergjunum sagði hún: „Ég viss ekki að þetta væri ólöglegt, ég veit ekki neitt.

            Fyrir dómi kvaðst C á yngri árum sínum aldrei hafa haft orð á kynferðisbrotum ákærða við nokkurn mann. Hún kvaðst fyrst hafa minnst á brot ákærða á árinu 2016 og þá við bestu vinkonurnar, L og N, og vísaði til þess að er það gerðist hefði hún verið farin af heimili fjölskyldunnar á […]  og haft aðsetur á fósturheimili, hjá vitninu J. Hún kvaðst hafa borið traust til nefndra vinkvenna og vísaði til þess að hún hefði þekkt þær allt frá því að hún fluttist til […]. Hún kvaðst hafa afráðið að fara að ráðum þeirra og því skýrt lögreglu frá brotum ákærða, en bar að vinkonurnar hefðu þó áður þurft að beita hana miklum þrýstingi og sagði: „... þær sögðu mér bara að segja frá annars gera þær það og ég bara okey, ég verð að gera það. Brotaþoli bar að fyrsti fullorðni einstaklingurinn sem hún hefði greint frá brotum ákærða hefði verið barnaverndarstarfsmaður, en hún kvaðst hafa upplýst hann um brotin í „sms-“skilaboðum“. Aðspurð um eigin líðan eftir að hún hafði greint frá kynferðisbrotum föður síns sagði hún: „Mér leið ílla og mér fannst ég vera vond ... hann hafði verið góður ... ég veit ekki ...

            Fyrir dómi gerði C nánar grein frá högum sínum, en sagði jafnframt frá því að hún hefði verið í sms-samskiptum við systur sína, brotaþolann B, eftir að hún, þ.e. B, hafði greint frá ætluðum brotum ákærða. Hún kvaðst í fyrstu hafa fundið til reiði í garð systur sinnar og bar að þær hefðu er þetta gerðist aldrei rætt málefnið sín í milli, þ.e. kynferðisbrot ákærða.

            C staðfesti fyrir dómi að hún hefði flust af heimili sínu á […]  nokkru eftir að hún hafði skýrt frá ofbeldisbrotum stjúpmóður sinnar, D, en hún kvaðst hafa sagt þá sögu í Barnahúsi, en um síðir farið á fyrrnefnt fósturheimili og staðhæfði að eftir búferlaflutningana hefði allur hennar hagur og líðan breyst til batnaðar og sagði: „... bara mér líður bara betur ... ég fæ ást og ég þarf ekki alltaf að gera allt og hún bara hjálpar mér við alla heimavinnuna og ég fæ svefn og nóg að borða og ég fær frí. Þá kvaðst hún hafa nýtt sér aðstoð sérfræðinga Barnahúss og bar að þegar frá leið hefði m.a. dregið úr þeim viðvarandi höfuðkvölum, sem hún hafði fundið fyrir um langa hríð.

            C skýrði frá því, líkt og hún hafði áður gert hjá lögreglu, að hún hefði aldrei veitt því eftirtekt að ákærði hefði brotið kynferðislega gegn systur hennar, B. Hún kvaðst því aðeins hafa heyrt orð B þar um löngu eftir að atvik máls gerðust, en þá án þess að heyra eiginlegar lýsingar hennar á hinum ætluðu brotum. Hún kvaðst hins vegar hafa séð stjúpmóður þeirra, D, beita B ofbeldi.

            C kvaðst hafa flust til […]  við 11 ára aldurinn, og af þeim sökum vel minnast veru sinnar í […] . Um eigin líðan er hún var búsett þar í landi sagði hún m.a.: „... ég var sár, reið og öfundsjúk, hinir krakkarnir fengu allt. Hún lýsti líðan sinni nánar og bar að henni hefði fundist lífið óréttlátt. Vísaði hún þar einkum til þess að hún hefði verið látin sinna heimilisstörfum allt frá 5 ára aldri, en bar að sömu reglur hefðu hins vegar ekki gilt gagnvart yngst systur hennar, G. Vegna þess hefði hún fundið til öfundar í hennar garð, en jafnframt fundið til særinda í garð stjúpmóður sinnar, D og föður síns, ákærða. Hún staðhæfði að í raun hefðu gilt sömu reglur eftir að fjölskyldan fluttist til […], en eftir búferlaflutningana kvaðst hún hins vegar hafa séð þann mikla mun sem var á heimilis- og fjölskyldulífi hennar og því sem tíðkaðist hjá vinkonunum.

            C skýrði frá því að hún hefði fyrst haft spurnir af kynferðisbrotum ákærða gagnvart elstu hálfsystur hennar, I, eftir að stjúpmóðir hennar, D, hafði fengið upplýsingar þar um hjá félagsmálastjóranum í heimabyggð þeirra. Hún kvað D hafa miðlað þeim tíðindum til hennar, en hún hefði þá verið í 6. bekk grunnskóla. Fyrir dómi lýsti hún viðbrögðum sínum vegna þessa þannig: „... ég var hissa, að hann hefði gert þetta áður og ég veit ekki, fannst það skrýtið.

            C greindi frá því fyrir dómi að vanlíðan hennar hefði verið orðin slík á árinu 2016 að hún hefði afráðið að taka inn töflur. Hún kvaðst hafa látið verða af þeim verknaði í september eða október það ár, en hún hefði þá verið búsett á fyrrnefndu fósturheimili, en staðhæfði að hún hefði fyrst hugleitt verknaðinn er hún var búsett í fyrrverandi heimabyggð sinni, […].

            Fyrir dómi var C bent á að hún hefði verið innt eftir því við skýrslugjöf í Barnahúsi vorið 2016 hvort hún hefði orðið fyrir kynferðisbrotum, en þá jafnframt bent á að það hefði gerst eftir að systir hennar, B, hafði greint frá hinum ætluðu brotum ákærða. Hún staðfesti þetta og kannaðist jafnframt við að hafa svarað því til að hún hefði ekki orðið fyrir slíkri háttsemi, en sagði: „Ég vildi ekki segja frá. Aðspurð um ástæðu þess að hún hefði ekki gripið tækifærið til þess að segja frá ætluðum brotum ákærða vísaði hún til þáverandi aðstæðna sinna og sagði: „Ég var bara hrædd um að ég var lamin ... D ... og hrædd um hvað fólk hugsar og að fólk dæmir mig. Hún kvaðst hins vegar hafa skipt um skoðun að þessu leyti eftir að hafa hlýtt á orð fyrrnefndra vinkvenna sinna og þá um að það væri henni fyrir bestu að segja frá brotunum. Bar hún að þannig hefði fyrrnefndur þrýstingur þeirra haft áhrif á gjörðir hennar.

            Fyrir dómi staðhæfði brotaþoli að hún hefði ekki þurft að þola kynferðibrot af hálfu annarra aðila en ákærða. Hún kvaðst hins vegar hafa stundað kynlíf og bar að þegar hún fór í læknisskoðunina í Barnahúsi í nóvember 2017 hefði hún verið búin að sofa hjá.

 

7.         Vitnið D, eiginkona ákærða og stjúpmóðir brotaþola, B og C, tjáði sig ítrekað við skýrslutökur hjá lögreglu með aðstoð túlks. Hið sama gilti fyrir dómi, en þá var að nokkru farið yfir frásögn hennar hjá lögreglu og þýðingin leiðrétt að hluta. Frásögn D fyrir dómi um atvik máls var í aðalatriðum samhljóða framburði hennar hjá lögreglu og verður því vikið að honum ef þurfa þykir.

            D kvaðst hafa kynnst ákærða og dætrum hans fyrri hluta ársins 2007 og bar að stúlkurnar hefðu þá verið á fimmta og áttunda aldursári. Er þetta gerðist kvaðst hún hafa verið búsett í fjölbýlishúsi ásamt móður sinni og systkinum í bænum […]  í nágrenni […]. Af frásögn D verður ráðið að fljótlega eftir að þessi kynni tókust hefðu þau hafið sambúð, en að auki giftu þau sig í júlímánuði nefnt ár. Hún sagði að þau hefðu afráðið í fyrstu að halda til á heimili móður hennar og bar að þar hefðu þau öll, af þarlendum sið, sofið í sömu vistarverunni, en að hver og einn hefði haft sérábreiðu og -undirlag. Hún sagði að fljótlega hefðu dætur ákærða þó verið látnar sofa í kojum, en hún og ákærði þá haft til umráða hjónarúm. Hún kvaðst hafa stundað kynlíf með ákærða á heimilinu, en bar að þau hefðu hagað því þannig að stúlkurnar, og þ. á m. B, hefðu þá verið sofandi, en að auki hefðu þau haft aðgang að öðrum stöðum þar sem þau gátu haft næði. Nánar aðspurð kannaðist D ekki við að ákærði hefði við nefndar athafnir samhliða þuklað kynferðislega á kynfærum dóttur sinnar, B, og andmælti að því leyti alfarið frásögn hennar og þá jafnframt að ákærði hefði viðhaft slíka háttsemi á öðrum stöðum þar sem fjölskyldan dvaldi á, t.d. á hótelum. Hún kvaðst aldrei hafa heyrt frásögn B um að hún hefði orðið vitni að kynlífi ákærða og þá hvorki með henni eða öðrum konum. Þá neitaði hún ásökun B um að hún hefði viðhaft hótunarorð þessu tengd og þá vegna kæru stúlkunnar og rannsóknar lögreglu að því er varðaði ætlað heimilisofbeldi hennar.

 

            Fyrir dómi greindi D frá því að hún hefði haft vitneskju um að eftir að ákærði skildi við móður B og C, en áður en hann kynntist henni á árinu 2007, hefði hann keypt sér kynlífsþjónustu og þar á meðal þegar hann þurfti að sinna erindum sínum í […]. Þá staðhæfði hún að ákærði hefði mikla kynlífsþörf og bar að hann hefði af þeim sökum þurft að „stunda kynlíf (hvert) einasta kvöld“ og hefði svo einnig verið þegar hann hefði verið í nefndum ferðalögum sínum. Hún sagði að samhliða þessari þörf hefði ákærði horft á nektarmyndir á heimili þeirra, en staðhæfði jafnframt að þau hefðu almennt lifað góðu kynlífi saman.

            D bar að á þeim árum sem hún bjó með ákærða í […]  hefðu þau flust nokkuð á milli bæja og héraða og nefndi í því sambandi […], […]  og […], og bar að þau hefðu m.a. á þessum stöðum stundað veitingarekstur. Aðspurð kvað hún það hafa komið fyrir að hún legði land undir fót og þá til þess að heimsækja móður sína, en bar að þá hefði hún tekið stúlkurnar B og C og síðar G með sér. Af þessum sökum hefði t.d. stúlkan B aldrei verið ein með ákærða við slíkar aðstæður. Er þetta gerðist hefði fjölskyldan m.a. verið búsett í […], en móðir hennar hefði þá sem fyrr búið í nágrenni […]. Eftir að D hafði verið kynntur framburður ákærða fyrir dómi að þessu leyti sagði hún frásögn hans rétta og þannig hefði það getað komið fyrir einstaka sinnum að B hefði verið um kyrrt hjá ákærða þegar hún fór í þessar heimsóknir.

            D sagði að ákærði hefði farið á þriggja til fjögurra mánaða fresti til […]  þeirra erinda að endurnýja eigið dvalarleyfi í […]  og bar að hver ferð hefði tekið um tvo til þrjá daga, en af þeim sökum hefði hann gist yfir nótt í […]. Hún kvaðst yfirleitt hafa farið með ákærða í þessar ferðir, ásamt börnum þeirra, og bar að þau hefðu þá öll haldið til á gistihúsum þar sem þau hefðu haft til umráða herbergi með tveimur til þremur rúmum. Fyrir dómi kvaðst hún ekki geta fullyrt með vissu hvort að á öllum hótelherbergjunum hefðu verið til reiðu smokkar, líkt og hún hafði borið við skýrslugjöf hjá lögreglu, en sagði að þegar svo hefði verið hefðu slíkar umbúðir verið geymdar í skúffum í vistarverunum.

            Ítrekað aðspurð kvaðst D minnast þess að ákærði hefði í eitt eða tvö skipti tekið dóttur sína, C, með sér í nefnd ferðalög til […], en minntist þess hins vegar ekki að hann hefði nokkru sinni tekið dóttur sína, B, með sér. Að þessu leyti staðfesti hún frásögn sína hjá lögreglu, en bætti því við að stundum hefði ákærði farið með báðar stúlkurnar að heiman þessara erinda, en hún hefði þá ekki haft vitneskju um hvort hann hefði skilið aðra stúlkuna eftir hjá móður þeirra og þá nærri landamærunum og þannig einungis farið með aðra stúlkuna til […]. Að þessu leyti vísaði hún m.a. til ljósmyndar sem hún kvaðst hafa séð þar sem ákærði hefði einungis verið með C með sér í […]. Við skýrslugjöf hjá lögreglu greindi D frá því að auk þessa hefði öll fjölskyldan farið greindra erinda til […]  og bar að þá hefðu þau öll gist á hótelum þar sem börnin hefðu verið saman í rúmi, en hún og ákærði sofið í öðru rúmi.

            D kvaðst fyrst hafa heyrt af þeim eldra dómi sem ákærði hafði hlotið vegna kynferðisbrots hans gagnvart elstu dóttur sinni, I, eftir að hún fluttist með honum til […]  á árinu 2012 og þá frá félagsmálastjóranum í […]. Hún kannaðist ekki við að hafa rætt málefnið við dætur ákærða.

            D staðhæfði að hún hefði aldrei orðið þess áskynja að ákærði bryti gegn dóttur sinni, B, kynferðislega og fyrst heyrt af ásökunum stúlkunnar eftir að lögreglan hafði handtekið ákærða í aprílmánuði 2016. Hún kvaðst heldur aldrei hafa séð annað en að ákærði hefði komið mjög vel fram við B, líkt og aðrar dætur sínar, og bar að hann hefði reynst þeim góður faðir. Hún staðhæfði að B færi með ósannindi í þessum ásökunum sínum á hendur ákærða líkt og hún hefði gert, a.m.k. að hluta til, varðandi þær ásakanir sem hún hefði haft í frammi vegna kærumáls um heimilisofbeldi hennar sjálfrar og staðhæfði að B hefði í raun sjálf veitt sér áverka, a.m.k. að hluta til.

            Fyrir dómi kvaðst D hafa haft vitneskju um að B hefði hitt hálfsystur sína, I, og sagði að það hefði gerst eftir að félagsmálastjórinn í heimabyggð þeirra hafði skýrt henni frá hinu eldra dómsmáli þar sem ákærði hafði verið dæmdur til fangelsisvistar.

            Við lögregluyfirheyrslur sagðist D helst ætla að B hefði gengið það helst til, með ásökunum sínum á hendur ákærða, að kæra hann fyrir brot sem einhver strákur hafði gert henni, enda hefði hún haft vitneskju um að B hefði stundað kynlíf. Jafnframt staðhæfði hún að það væri í raun vilji B að stía henni og ákærða í sundur, enda væri henni illa við sig og hefði að auki verið ósátt við agamál ákærða og þá helst vegna meðferðar hennar á áfengi. Þá kvað hún B hafa haft tök á systur sinni, C, en það hefði m.a. komið í ljós eftir að sú síðarnefnda hafði verið flutt á sama fósturheimilið. Var það ætlan D að þær systurnar hefðu hug á því að komast yfir fasteign þeirra hjóna og áréttaði þá staðhæfingu að B væri að líkindum áhrifavaldur í lífi C og hefði haft áhrif á frásögn hennar og þá í málatilbúnaði þeirra gegn ákærða.

            D kvaðst aldrei hafa séð eða hafa orðið þess áskynja að ákærði bryti gegn dóttur sinni, C, kynferðislega. Hún benti á að við rannsókn málsins hjá lögreglu í upphafi hefði C farið í læknisskoðun, en að þá hefði ekkert óeðlileg komið í ljós sem bent hefði til þess að hún hefði orðið fyrir slíkum verknaði. Þá vísaði D til þess að hún hefði síðar fengið áreiðanlegar upplýsingar um að C hefði stundað kynlíf fyrir 15 ára aldurinn og að hún hefði í rafskilaboðum lýst því yfir að hún hefði ekki í hyggju að kæra dreng þann, sem þar hefði átt hlut að máli, enda þótt hann væri aðeins eldri en hún.

            D bar að hún hefði aldrei orðið vör við að ákærði hefði kenndir til barna og vísaði til þess að ekkert barnaklámefni hefði verið á meðal þess klámefnis sem hann hefði haft undir höndum í þeim tölvubúnaði sem lögreglan hafði haldlagt á heimili þeirra. Þá vísaði hún til þess að ákærði þekkt til laga í […]  og á […]  vegna hins eldra sakamáls og bar að af þeim sökum hefði hann haft vitneskju um að lagareglur hér á landi væru að því leyti „mjög strangar og hann vildi ekki brjóta af sér aftur.

 

8.         Vitnið J kvaðst um árabil hafa starfað sem fósturforeldri og þá m.a. tekið við börnum frá sveitarfélaginu […]. Í raun kvaðst hún hafa verið hætt störfum þegar félagsmálastjóri sveitarfélagsins hefði sumarið 2016 óskað þess eindregið að hún tæki stúlkuna B í fóstur. Vitnið kvaðst hafa fallist á beiðnina, en bar að hún hefði þá í raun lítið vitað um tilefnið, og kvaðst hún hafa tjáð B það við komu hennar á heimilið, en jafnframt tjáð henni að hún mætti ræða við sig um málefni sín kærði hún sig um það, en þá á eigin forsendum. Vitnið kvaðst að þessu leyti hafa fylgt fyrirmælum félagsmálastjórans, enda hefði hún ekki verið í meðferðarstarfi með stúlkunni. Vitnið kvaðst strax við komu B, í ágúst 2016, hafa veitt því eftirtekt að hún var mjög bæld og „niðurbrotin tilfinningalega.“ Vitnið sagði að eftir því sem tíminn leið hefði B farið að segja vitninu af sjálfsdáðum sögu sína og m.a frá einstökum minningarbrotum um hin ætluðu brot föður hennar, ákærða, en einnig um ætluð heimilisofbeldisbrot stjúpmóðurinnar. Vitnið bar að þetta hefði ekki síst gerst á kvöldin og þá rétt fyrir svefninn og var það ætlan þess að B hefði fundið til öryggis að geta tjáð sig um málefni sín og bar að það hefði tekið mjög á hana. Vitnið bar að það hefði verið líkast því sem atvik máls hefðu verið að rifjast upp fyrir stúlkunni smám saman. Vitnið kvaðst hafa haft miklar áhyggjur af ástandi B um tíma og því tekið það til bragðs að rita minningarbrot hennar niður og þá samhliða því sem hún tjáði sig, en í framhaldi af því leyft henni að lesa yfir textann, sem stúlkan hefði þá stundum leiðrétt. Vitnið áréttaði að það hefði aldrei rætt málefnið við B að fyrra bragði og því í raun aðeins hlustað á frásögn hennar. Vitnið kvaðst  heldur ekki hafa lagt orð stúlkunnar að þessu leyti sérstaklega á minnið, en í þess stað miðlað frásögn hennar og því sem það hafði ritað niður áfram og þá til nefnds félagsmálastjóra, en einnig til réttargæslumanns stúlkunnar. Að því leyti staðfesti hún efni rafpósts frá 29. nóvember 2017, en rifjaði að auki fyrir dómi upp nokkrar af þeim lýsingum stúlkunnar, sem hér að framan voru hafðar eftir henni.

            Vitnið bar að svipað ferli hefði gerst og áður var rakið varðandi komu og fóstur stúlkunnar C á heimili þess, að því frátöldu að það kvaðst áður hafa hitt hana í þrígang og þá vegna heimsókna hennar á heimilið, en að auki kvaðst það hafa farið með B á íþróttamót á […]  til að fylgjast með henni. Vitnið sagði að þær systur væru ólíkar að persónugerð og bar að C væri viðkvæmari og dulari en systir hennar, B. Vitnið sagði að C hefði í raun ekkert rætt um hin ætluðu brot ákærða gegn henni, en það kvaðst heldur aldrei hafa gengið á hana eða reynt að fá hana til að segja sögu sína.

 

9.         Vitnið O kvaðst hafa kynnst stúlkunni B þegar hún hóf skólagöngu í sveitarfélaginu […]  og bar að þær hefðu orðið trúnaðarvinkonur. Vitnið skýrði frá því að föstudagskvöldið 1. apríl 2016 hefðu þær verið að skemmta sér saman á heimili sameiginlegrar vinkonu og m.a. neytt áfengis. Vitnið bar að við þessar aðstæður hefði B skyndilega yfirgefið samkvæmið og þær vinkonurnar reynt í framhaldi af því að hafa uppi á henni en án árangurs og þá leitað aðstoðar lögreglu sökum þess að B hefði verið: „... blindfull og að elta einhverja stráka ... og við höfðum áhyggjur af henni, henni leið eitthvað ílla.“ Vitnið sagði að eftir að lögreglan hafði uppi á B hefði hún verið færð á lögreglustöðina. Vitnið bar að faðir ákærðu hefði komið að máli við það þessa nótt, en það kvaðst þá hafa skýrt honum frá því sem gerst hafði og þar á meðal að B væri fundin og væri hjá lögreglunni. Vitnið bar að komið hafi verið fram undir morgun þegar B hefði komið á heimili vinkonu þeirra, en þá kvaðst það hafa hlýtt á frásögn hennar, þ. á m. að viðstaddri vinkonu þeirra, E, um að: „A hefði nauðgað henni einhvern tímann ... og hún sagði að það hefði verið út í […], held ég og áður en hann hitti konuna sína, sem að hann er með núna. Vitnið kvaðst hafa veitt því eftirtekt þegar B skýrði frá þessu að hún var: „... mjög leið og mjög brotin. Vitnið bar að B hefði endurtekið þessa frásögn síðar í þess eyru, en þá líkt og í fyrsta skiptið ekki greint ítarlega frá málsatvikum, að öðru leyti en því að brot ákærða hefði gerst í tvígang. Vitnið kvaðst aldrei hafa heyrt frásögn B um að hún hefði orðið fyrir slíkri eða sambærilegri hegðan af hálfu ákærða þegar hún var við störf sín í frystihúsi […].

 

10.       Vitnið E kvaðst fyrst hafa fengið vitneskju um að faðir vinkonu hennar, brotaþolans B, hefði misnotað hana kynferðislega umrædda nótt, þann 2. apríl 2016, þegar það hefði séð orðsendingu þess efnis á samskiptamiðli í síma, en þá jafnframt fengið þau boð frá henni að þær ættu að hittast á lögreglustöðinni. Vitnið lýsti aðdraganda þessara samskipta með svipuðum hætti og vitnið O og bar að B hefði þá um kvöldið verið „smá ölvuð.“  Vitnið kvaðst hafa hitt B við lögreglustöðina og bar að þar hefði hún endurtekið orð sín um að ákærði hefði misnotað hana, en án þess að lýsa háttseminni nánar. Vitnið sagði að B hefði verið miður sín er þetta gerðist. Vitnið kvaðst síðar hafa hlýtt á aðeins nákvæmari frásögn B um hin ætluðu brot og þá þannig að þau hefðu gerst oftar en einu sinni í […]  og að hún hefði verið mjög ung að árum, en einnig að hún hefði verið á ferðalagi með ákærða. Vitnið kvaðst aldrei hafa heyrt B hafa orð á því að hún hefði orðið fyrir slíkum brotum eftir að hún fluttist til […]. Fyrir dómi staðfesti vitnið áðurrakin netskilaboð, en bar að það hefði auk þessa heyrt frásögn V um ofbeldisfulla framkomu stjúpmóður hennar, D, í hennar garð,

 

11.       Vitnið P kvaðst helst minnast þess að hafa verið með vinkonum sínum að kveldi 1. apríl 2016, þ. á m. brotaþolanum B, en sagði að hún hefði þá átt „eitthvað erfitt.“ Vitnið bar að atvik máls hefðu æxlast á þann veg að B hefði farið á lögreglustöðina, en í framhaldi af því hefði það hlýtt á frásögn vinkvenna sinna um atvik máls varðandi málefni B og að „Pabbi hennar hefði misnotað hana.“ Vitnið kvaðst aldrei hafa heyrt þessa frásögn af vörum B, en þess í stað hlýtt á orð hennar um að „mamma hennar hefði meitt hana.

 

12.       Vitnið L kvaðst fyrst hafa haft kynni af C þegar hún fluttist til […]  og bar að þær hefðu þá verið samnemendur í 4. bekk grunnskólans. Vitnið sagði að með tímanum hefðu þær orðið góðar vinkonur og þá sérstaklega í 9. bekk. Vitnið kvaðst ætla að það hefði verið fyrst til að hlýða á frásögn C um að hún hefði mátt þola kynferðisbrot og bar að það hefði gerst er þær voru báðar í nefndum 9. bekk og bar að það hefði a.m.k. verið áður en C fór á fósturheimilið á höfuðborgarsvæðinu. Vitnið sagði að frásögn C hefði verið á þá leið „að henni hefði verið nauðgað ... í […], en hún sagði mér aldrei hver“ hefði átt þar hlut að máli. Vitnið kvaðst vegna þessa hafa kvatt C til að segja einnig öðrum frá þessari háttsemi, en sagði að C hefði ekki viljað gera það. Vegna þessa kvaðst vitnið hafa verið hálf ráðlaust með viðbrögð, en reynt eftir fremsta megni að veita C liðstyrk og þá ekki síst þegar hún hefði lýst yfir vanlíðan vegna háttseminnar. Vitnið bar að C hefði að lokum skýrt henni frá því að það hefði verið faðir hennar, ákærði, sem hefði brotið gegn henni með greindum hætti, en bar að það hefði fyrst gerst um einum til tveimur mánuðum eftir að C hafði verið komið fyrir á fósturheimilinu. Vitnið sagði að C hefði þá jafnframt greint nánar frá atvikum máls og sagði þar um: „Hún sagði mér frá því að hún hefði verið með pabba sínum í ferð, þau fóru eitthvert til útlanda og þau áttu að sofa saman í hótelherbergi, saman í rúmi og að hún hefði bara sofnað og svo vaknaði hún og þá var hún ofan á pabba sínum (  )... hún sagði við mig að hún vissi ekkert hvað hefði gerst fyrr en bara þegar hún flutti til […]  og þá fór hún að fræðast um í skólanum hvað nauðgun væri og eitthvað svona og þá vissi hún hvað hafði gerst, af því að þá hafði þetta gerst oftar en einu sinni ... ég man það ekki alveg, svona einu sinni í mánuði í eitthvað ár eða eitthvað þannig.“ Vitnið bar að þegar það hefði hlýtt á þessa frásögn C hefði hún verið hágrátandi og sagði: „Henni leið mjög ílla ... og ég sá það bara alveg að hún var að segja mér satt og ég veit að C myndi ekki ljúga með eitthvað svona. Vitnið kvaðst ætla að C hefði að lokum ákveðið að segja frá brotum föður síns sökum þess að það hefði verið með sífelldan þrýsting um að hún skyldi gera það og sagði: „... og ég hætti aldrei að reyna að hughreysta hana til að þess að segja frá, af því að hún sagði alltaf að hún vildi ekki segja af því að það myndi skemma fjölskyldu hennar meira. ... Hún sagði að hún væri búin að gera það nú þegar með því að vera komin í fóstur og að hún hefði sagt frá því sem gerðist með stjúpmömmu hennar.

 

            Vitnið skýrði frá því að C hefði áður en þetta gerðist alltaf verið með skýringar á reiðum höndum varðandi marbletti og aðra áverka sem hún hefði stundum borið og þá með því að segja að hún hefði verið í slagsmálum við systur sínar ellegar að hún hefði dottið. Vitnið bar að um síðir hefði C viðurkennt að þar hefði hún ekki farið með rétt mál þar sem stjúpmóðir hennar hefði átt hlut að máli.

            Vitnið kvaðst hafa haft vitneskju um það þegar C flutti til […]  á árinu 2012 að faðir hennar, ákærði, hafði verið dæmdur til fangelsisvistar, en hins vegar aldrei haft hugmynd um það athæfi sem C hefði síðar greint frá varðandi athæfi stjúpmóður hennar og bar að það hefði fyrst gerst eftir að þær urðu vinkonur í 9. bekk. Vitnið áréttaði að C hefði heldur aldrei á þessum fyrstu árum orðað kynferðisbrot föður síns, en fremur haft á orði að hann hefði verið mjög góður við sig. Var það ætlan vitnisins að C hefði aldrei greint frá kynferðisbrotum hans, haustið 2017, nema fyrir þá sök að systir hennar B hafði þá þegar skýrt frá brotum hans og sagði: „... ég held að C var bara svolítið hrædd, af því að hún vissi hvernig pabba hennar leið þegar B fór, að hún þorði ekki að gera það sama, henni þótti svo vænt um pabba sinn og vildi ekki skemma eða gera þetta ennþá verra en þetta var orðið.“ Vitnið kvaðst hafa veitt því eftirtekt eftir að C fór á fósturheimilið að  henni leið betur en í heimabyggð.

 

13.       Vitnið N kvaðst hafa kynnst C í 5. bekk grunnskólans á […]  eftir að hún hafði flust frá […]  og sagði að þær hefðu mjög fljótlega orðið góðar vinkonur. Vitnið kvaðst minnast þess að C hefði einn daginn í skólanum verið pirruð út í B, systur sína, og þá sökum þess að hún hefði greint frá ætluðum kynferðisbrotum föður þeirra, ákærða, gegn sér. Vitnið orðaði þetta þannig: „... hún var roslega pirruð út í B ... að hún hafi verið að segja þetta við lögregluna og að hún hefði komist til […].“ Vitnið kvaðst á þeirri stundu helst hafa skilið orð C á þá leið að hún hefði í raun efast um sannleiksgildi orða systur sinnar, en vitnið kvaðst þó ekki minnast samræðna þeirra ýkja vel og því gæti verið að hún hefði lagt trúnað á orð systur sinnar um brot ákærða og að það hefði þá frekar verið þannig að B hefði skilið C eftir og að hún hefði þannig verið óviss um eigin viðbrögð í kjölfarið. Vitnið vísaði til þess að þegar atburður þessi gerðist hefði það þegar verið búið að hlýða á orð C um að stjúpmóðir hennar hefði beitt hana ofbeldi. Vitnið bar að nokkru síðar hefði það hlýtt á orðræðu C um að ákærði hefði brotið kynferðislega gegn henni. Lýsti vitnið orðum C þar um nánar þannig: „Hún sagði að pabbi hennar hefði nauðgað henni ... á yngri árum ... í eitt skiptið á hótelherbergi.“ Vitnið kvaðst ekki hafa áttað sig á því hvort brot ákærða hefðu gerst hérlendis eða erlendis og heldur ekki hvort þau hefðu gerst oftar en einu sinni, en þó frekar skilið orð hennar þannig. Vitnið bar að C hefði verið mjög leið þegar hún skýrði frá þessu og bar að hún hefði grátið. Fyrir dómi kvaðst vitnið enn vera í samskiptum við C og bar að svo virtist sem henni liði mun betur, andlega og líkamlega, en þegar hún hafði heimilisfesti á […].

 

14.       Vitnið I, dóttir ákærða og hálfsystir B og C, staðfesti fyrir dómi að það hefði sent rafbréf til réttargæslumanns brotaþolanna, B og C, meðal annars þann 21. febrúar 2017, og bar að með þessum pósti hefði einnig verið í viðhengi rafpóstssamskiptin millum þess og ákærða, sem tengst hefði hinu eldra sakamáli, þar sem hann hafði verið sakfelldur árið 1991 vegna kynferðisbrota gegn henni, sbr. kafla C hér að framan. Vitnið kvaðst hafa gert þetta í tilefni af því að lögregla hafði þá hafið rannsókn á ætluðum brotum ákærða gegn fyrrnefndum yngri systrum hennar.

            Vitnið greindi frá því að það hefði verið í samskiptum við systur sínar síðastliðin misseri, en þó aðallega B, en þá fyrst eftir að það heyrði af því að hún hefði kært föður þeirra, ákærða, fyrir kynferðisbrot. Vitnið kvaðst því engin áhrif hafa haft á B í kæruferlinu, en hins vegar heyrt frásögn hennar um hin ætluðu brot. Vitnið kvað B hafa komið til hennar í heimsókn erlendis vorið 2017 og kvaðst það þá hafa heyrt ítarlegri frásögn hennar af hinum ætluðu brotum ákærða. Vitnið kvaðst hins vegar hafa verið í afar takmörkuðum samskiptum við systur sína, C, og kvaðst m.a. aldrei hafa heyrt frásögn hennar um hin ætluð brot ákærða gegn henni.

 

15.       Vitnið F, fyrrverandi félagsmálastjóri í sveitarfélaginu […], skýrði frá því að félagsmálayfirvöld hefðu fyrir alvöru tekið málefni ákærða og fjölskyldu hans til meðferðar og athugunar um jólin 2015 og bar að tilefnið hefði í fyrstu verið frásögn brotaþolans C um ofbeldi af hálfu stjúpmóður hennar, D. Vitnið greindi frá því að í kjölfarið hefði verið gerð barnaverndaráætlun í samræmi við barnaverndarlög og sagði að í upphafi hefðu félagsmálayfirvöld ekki gert sér grein fyrir því hversu málefnið var í raun umfangsmikið. Vitnið sagði að brotaþolinn B hefði í febrúar 2016 einnig greint frá álíka ofbeldi D, en þá á lögreglustöð sveitarfélagsins. Vitnið lýsti aðgerðum yfirvalda í framhaldi af þessu í samræmi við það sem hér að framan hefur verið rakið, þ. á m. í tengslum við hið tímabundna nálgunarbann og brottvísun D af heimili fjölskyldunnar, en vitnið bar að eftir stuðningsaðgerðir hefði hún komið aftur inn á heimili í lok mars nefnt ár.

            Fyrir dómi vísaði vitnið til þess að í byrjun aprílmánaðar árið 2016 hefði B skýrt frá ætluðu ofbeldi ákærða og bar að hann hefði þá strax verið tekinn af heimili fjölskyldunnar. Í framhaldi af því hefði m.a. R sálfræðingur verið fengin til að ræða við ákærðahann og þá samkvæmt áætlun og greiningu á áhættu. Að auki hefði frá þessum tíma verið í gangi samfelldar áætlanir, stuðningsaðgerðir og ráðstafanir, sem í ljósi aðstæðna hefðu helst beinst að brotaþolunum B og C en einnig að stjúpmóður þeirra, sem og öðrum fjölskyldumeðlimum. Vitnið lýsti að öðru leyti þeim verkefnum sem það hafði komið að, og þar á meðal þeim fósturráðstöfunum sem áður er lýst, og bar að vitninu I hefði af því tilefni verið gefin óformleg fyrirmæli um að yfirheyra ekki stúlkurnar um kæruatriðin, en í þess stað hlýða á þær stæði vilji þeirra til þess á annað borð að ræða málefni sín, en láta að öðru leyti sérfræðinga Barnahúss sinna því verkefni.

            Vitnið staðfesti fyrir dómi að stúlkan C hefði að fyrirlagi barnaverndaryfirvalda farið í læknisskoðun hjá kvensjúkdómalækni í heimabyggð í nóvember 2016. Þá kvað vitnið félagsmálayfirvöld hafa gert samkomulag við ákærða haustið 2017 um að C færi af heimili fjölskyldunnar og þá í fóstur og sagði að það hefði aðallega verið vegna orða stúlkunnar um ofbeldisbrot stjúpmóðurinnar. Vitnið sagði að þegar sú ráðstöfun hefði verið komin í höfn hefði stúlkan sent nafngreindum barnaverndarstarfsmanni tölvupóst þar sem hún greindi frá því að ákærði hefði brotið gegn henni kynferðislega, en það hefði verið breyting frá fyrri frásögn hennar, m.a. við skýrslutöku í Barnahúsi.

 

16.       Vitnið S kvensjúkdómalæknir staðfesti efni áðurrakins vottorðs um kvenskoðun C í nóvember 2016 og staðfesti jafnframt að beiðni þar um hefði komið frá félagsmálayfirvöldum á […]  og þá vegna gruns um ofbeldi eða einhvers konar kynferðisbrot. Vitnið áréttaði að C hefði neitað allri slíkri háttsemi í viðtali þeirra fyrir skoðunina, en bar að stúlkan hefði jafnframt haft vitneskju um tilefnið. Vitnið kvaðst hafa verið með kvensjúkdómamóttöku á […]  er þetta gerðist og því verið með viðeigandi búnað, en sagði, í stuttu máli, að allt hefði verið eðlilegt við skoðun stúlkunnar og þá í ljósi frásagnar hennar og vísaði til efnisatriða vottorðsins. Vitnið skýrði frá því að þegar nefnd skoðun fór fram hefði það áður skoðað stúlkur þar sem grunur hefði verið um kynferðisbrot, en sagði að það hefði þó ekki verið oft.

            Nánar aðspurt vísaði vitnið til þess að meyjarhaft stúlkubarna væri í raun misteygjanlegt en einnig að þykkleika og því gæti verið misjafnt hvernig og af hvaða ástæðu rof yrði þar á. Vitnið sagði enn fremur aðspurt að almennt væru ung börn, á aldrinum 5-7 ára, ekki mjög meðvituð um kynfærasvæðið og þá t.d. hvort farið hefði verið þar inn eða hvort um nudd hefði verið að ræða og bar að hvort tveggja gæti valdið sársaukatilfinningu, en þá ekki síst ef reynt hefði verið að komast inn í leggöng stúlkubarna. Vitnið bar að í tilfelli C hefði það við nefnda skoðun ekki reynt að skoða inn í leggöng hennar og þá sökum þess að það hafi í raun og veru ekki verið hægt og þá vegna hins órofna meyjarhafts hennar. Vitnið áréttaði að af því sem það hefði þó séð hefði ekki verið um nein merki um innþrengingu, líkt og komið hefði ef stúlkan hefði stundað kynmök eða ef innþrenging hefði átt sér stað.

 

            Vitnið M, fæðinga- og kvensjúkdómalæknir, staðfesti efni áðurrakins læknisvottorðs um kvenskoðun á stúlkunni C frá 5. desember 2017 og þar á meðal að komið hefði fram í svonefndri kvensjúkdómasögu að stúlkan hefði með eigin samþykki haft samfarir sumarið 2017. Vitnið vísaði til þess að slík saga gæti haft áhrif á skoðun í málum sem þessum. Vitnið áréttaði að í raun hefði ekkert stutt, en þá ekki heldur hrakið, það að stúlkan hefði orðið fyrir kynferðisbroti þegar hún var 5 eða 6 ára, en áréttaði  að skoðunin hefði verið eðlileg og þá miðað við frásögn stúlkunnar.

            Nánar um álitaefnið og þá með hliðsjón af efni vottorðs S kvensjúkdómalæknis, en vitnið kvaðst hafa haft það undir höndum við skoðun á stúlkunni þann 5. desember 2007 og vísaði vitnið til þess að það hefði annast sambærilegar kvenskoðanir um árabil fyrir Barnahús og þá í tengslum við ætluð kynferðisbrot, en að auki kvaðst það hafa aflað sér sérþekkingar á þessu sviði. Vitnið vísaði jafnframt til þess að við hefðbundnar skoðanir þess í Barnahúsi væri litið til gerðar og lögunar meyjarhaftsins og þá einnig til ops þess, en bar að þessara atriða hefði ekki verið getið með fullnægjandi hætti í hinu fyrra læknisvottorði um C. Það var álit vitnisins að vegna þessa væri ekki unnt að segja til um það hvort eitthvað hefði komið fyrir stúlkuna fyrir þá skoðun eða ekki.

            Vitnið kvað þekkingu ungra barna, 5-7 ára, á kynfæra- og endaþarmssvæðinu vera takmarkað og bar að samkvæmt rannsóknum þar sem börn hefðu greint frá því að þau hefðu mátt þola innþrengingu hefði við læknisskoðanir yfirleitt engin merki sést, sem styddi þá frásögn, enda hefðu börnin þá haft heilbrigð ytri kynfæri og eðlileg meyjarhöft. Vitnið bar að helsta skýring þessa væri sú að börnin hefðu upplifað innþrengingu, en að auki hefðu þau fundið fyrir óþægindum þrátt fyrir að hið fyrrnefnda hefði í raun aldrei gerst. Í þess stað hefði aðeins verið um tilraunir að ræða ellegar að nuddað hefði verið á milli ytri barmanna. Vísaði vitnið til þess að þessi síðastgreinda háttsemi þyrfti þannig ekki að skilja eftir sig neina áverka á meyjarhafti eða leggöngum stúlkna eða á endaþarmi.

 

17.       Vitnið T rannsóknarlögreglumaður staðfesti fyrir dómi verk sín við frumannsókn málsins, í byrjun apríl 2016, að því er varðaði brotaþolann B, sbr. það sem m.a. var rakið í kafla A hér að framan. Vitnið kvaðst í upphafi lögregluaðgerða í raun ekkert hafa þekkt til stúlkunnar eða forsögu hennar, enda hefði það verið í tilfallandi starfi umrædda nótt. Vitnið sagði að í almennum viðræðum við stúlkuna í lögreglubifreið ellegar á lögreglustöðinni hefði hún svarað því til aðspurð að hún hefði orðið fyrir heimilisofbeldi af hálfu móður eða stjúpmóður og ítrekað aðspurð hefði hún einnig skýrt frá því að faðir hennar, ákærði, hefði brotið gegn henni kynferðislega. Vitnið sagði að er þetta gerðist hefði stúlkan verið miður sín og þ. á m. verið grátandi. Vitnið kvaðst hafa fundið einhvern áfengisþef frá vitum B er þetta gerðist, en það kvaðst hafa metið það svo að hún hafi „ekkert verið öfurölvi“ og verið vel viðræðuhæf og því bær til að gefa skýrslu. Vegna þessa og í samráði við vakthafandi rannsóknarlögreglumann kvaðst það hafa tekið formlega stutta skýrslu af stúlkunni um síðara sakarefnið á lögreglustöðinni umrædda nótt.

 

            Vitnið U lögreglufulltrúi staðfesti fyrir dómi verk sín við rannsókn málsins, sbr. það sem rakið var hér að framan, einkum í kafla F, en það kvaðst aðallega hafa komið að þætti brotaþolans C á árinu 2017, en enn fremur kvaðst það hafa haft samskipti við erlend lögregluyfirvöld.

L.

            Önnur sérfræðigögn og vitnisburðir.

1.                  Samkvæmt framlögðum vottorðum sálfræðinga hafa brotaþolarnir B og C um nokkurra missera skeið, en með hléum, verið í meðferðarviðtölum í Barnahúsi vegna ætlaðra brota ákærða í máli þessu, en einnig vegna ofbeldisbrota eiginkonu hans, D, sbr. fyrrgreint dómsmál nr. S-30/2016, þar sem dómur var kveðinn upp þann 9. mars 2017.

 

2          Samkvæmt vottorði V, sálfræðings og sérfræðings í klínískri barnasálfræði, dagsettu 7. nóvember 2006, sótti brotaþolinn B 12 viðtöl á tímabilinu frá 4. apríl til 7. nóvember 2016, en tilefnið var beiðni barnaverndarnefndar um greiningu og meðferð og hvaða afleiðingar ætluð kynferðisbrot hefðu haft á stúlkuna. Fram kemur í vottorðinu að í upphafi meðferðarinnar hafi stúlkan verið hlédræg og átt í erfiðleikum með að tjá líðan sína, en jafnframt hafi hún verið afar döpur, kvíðin og stressuð. Að auki hafi hún verið með sektarkennd þar sem henni hafi fundist að hún hefði eyðilagt fyrir fjölskyldu sinni með því að segja sögu sína og þá um að ákærði hefði brotið gegn henni þegar þau voru búsett í […], og þá í fyrsta sinn þegar hún var við 6 ára aldurinn, en í síðasta skiptið við 10 ára aldurinn. Tekið er fram að B hefði ekki haft orð á því að slík brot hefðu gerst eftir að hún fluttist með fjölskyldunni til […]. Nánar segir um frásögn stúlkunnar í vottorðinu og þá um hina ætluðu háttsemi: (  ) Hann hefði bannað henni að segja frá þar sem hann gæti þá farið í fanglelsi.

            Í nefndu vottorði er sérstaklega vísað til fjögurra matslista, sem B hefði útfyllt. Einnig er þar vísað til sérfræðiviðtala sem tengjast þeim. Í niðurstöðukafla vottorðsins er vikið að þessum sérfræðigögnum og segir m.a. um álitaefnið:

            (  )

            Samkvæmt vottorði W sálfræðings, dagsettu 27. apríl 2018, sótti brotaþolinn B fjögur viðtöl til viðbótar hjá hinum fyrrnefnda sálfræðingi V, en fór síðan í meðferð hjá Kvíðameðferðarmiðstöðinni og varð þá hlé á meðferð Barnahúss frá 11. maí til 6. nóvember 2017. Eftir það hóf B á ný að sækja viðtöl í Barnahúsi og þá hjá nefndum sálfræðingi, W, og hafði hún sótt níu viðtöl fram að útgáfudegi vottorðsins. Í vottorðinu er m.a. vísað til fjögurra matslista og sérfræðiviðtala, þar á meðal við fósturmóður stúlkunnar og þá í tengslum við áðurgreind álitaefni barnaverndarnefndar. Greint er frá því að í nóvember 2017 hafi sjálfsmatslistarnir gefið til kynna alvarlega áfallastreituröskun og geðlægð, en vísað er til þess að þá hafi B verið í yfirheyrslum hjá lögreglu og að hún hafi að auki verið með kvíða vegna yngri systkina sinna. Greint er frá því að jafnframt hafi stúlkan verið með miklar sjáfsásakanir um að hafa eyðilagt fjölskylduna með frásögn sinni. Tekið er fram að þessi einkenni hafi dvínað í desember greint ár og að stúlkan hafi þá náð áttum þrátt fyrir ásakanir ættingja eiginkonu ákærða og hafi einkennin verið orðin væg í janúar 2018.

            Í vottorðinu er staðhæft að stúlkan B hafi komið fyrir sem „eldklár ung kona sem býr yfir mikilli réttlætiskennd og er umhugað um fólkið sitt. Hún tjáir tilfinningar sínar greiðlega og er einlæg.“ Greint frá því að B upplifi öryggi hjá fósturmóður sinni og að hún hafi smám saman náð að setja sér persónuleg mörk. Tekið er fram að fyrrnefnd einkenni hafi verið mjög alvarleg í apríl 2018 og er bent á að það ástand stúlkunnar megi rekja til þeirrar dómsmeðferðar sem þá hafi staðið fyrir dyrum.

            Í vottorðinu segir frá því að við gerð þess hafi B fullyrt að hin ætluðu kynferðisbrot ákærða hafi truflað hana verulega í daglegu lífi. Er í því sambandi vísað til þess að ávallt þegar hún hafi rætt málefnið hafi það tekið á hana og hún þá sýnt sállíkamleg einkenni, en áréttað er að hún hafi við upphaf meðferðarinnar í Barnahúsi greint stuttlega frá fyrsta brotinu sem hún hafði minningar um og þá einnig um viðbrögð ákærða á þeirri stundu.

            Í vottorðinu er greint frá því að B hafi fyrst verið kunnugt um hið eldra brot ákærða gagnvart elstu dóttur sinni við lok náms hennar í grunnskóla. Er staðhæft að það hafi verið henni verulegt áfall, en að hún hefði nokkru síðar áttað sig á alvarleika þeirrar háttsemi sem hún hafði sjálf orðið fyrir.

            Vísað er til þess að í meðferðarvinnu stúlkunnar í Barnahúsi hafi komið fram að hún hefði m.a. glímt við endurupplifanir af hinu ætlaða ofbeldi og hafi það lýst sér í ofur árvekni.

            Í niðurstöðukafla vottorðsins er vikið almennt að afleiðingum ætlaðra kynferðisbrota gagnvart brotaþolanum, en þar segir:

            (  )

 

            Til þess er að líta að samkvæmt málsgögnum ritaði fyrrnefndur sálfræðingur Barnahúss, V, vottorð um brotaþolann B að beiðni réttargæslumanns hennar, en þá vegna fyrrgreindra ofbeldisbrota stjúpmóður hennar, D, sbr. fyrrgreindan dóm, sem kveðinn var upp þann 9. mars 2017. Í vottorði þessu, sem dagsett er 6. febrúar 2018, er ítrekað að B hafi sótt fjölda viðtala allt frá aprílmánuði 2016 og er tekið fram að meðferðinni sé enn ekki lokið. Greint er frá því að B hafi á nefndu tímabili uppfyllt greiningarskilmerki um áfallastreituröskun og þó svo að dregið hafi úr þeim einkennum séu þau enn alvarleg. Í niðurstöðukafla vottorðsins segir enn fremur:

            (  )

 

            Vitnið V sálfræðingur staðfesti efni nefndra vottorða fyrir dómi. Vitnið vísaði til þess að í upphafi meðferðarinnar, vorið 2016, hefði það skynjað að gríðarlegar breytingar hefðu orðið á aðstæðum B og bar að hún hefði í raun verið í áfalli. Af þessum sökum hefði meðferð Barnahúss í fyrstu aðeins falist í stuðningi og hvatningu. Vitnið áréttaði að B hefði verið mjög þjökuð af sektarkennd og að hún hefði átt mjög erfitt með að segja frá atvikum máls. Vitnið sagði að B hefði jafnframt haft áhyggjur af yngri systkinum sínum, ekki síst C, og þá hvort þau hefðu einnig orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. Bar vitnið að hún hefði í raun lýst undrun yfir því að C hefði ekki líka greint frá brotum ákærða í aprílmánuði 2016. Vitni kvaðst á hinn bóginn hafa skynjað það að mjög lítið samband hafi verið á þessum tíma á milli þeirra systra og kvaðst því ætla að B hefði ekki haft eiginlega vitneskju um eða haft áhrif á frásögn systur sinnar á síðari stigum. Því hafi ekki verið um samantekin ráð þeirra að ræða og þá t.d. við að koma málinu af stað. Vitnið kvaðst hafa hugleitt þetta atriði en ályktað að virtum meðferðargögnum að svo hafi alls ekki getað verið. Vísaði vitnið m.a. til þess að B hefði engan ávinning haft af því að segja sögu sína í upphafi, um ætluð brot föður síns. Þvert á móti hefði hún misst allt við það og í raun orðið munaðarlaus. Vitnið kvaðst heldur aldrei hafa fengið það á tilfinninguna að B hefði verið að sækjast eftir athygli af nokkru tagi og vísaði til þess að hún hefði verið niðurbrotin. Vitnið kvaðst hafa haft vitneskju um að B hefði á einhverjum tímapunkti, og þá áður en hún skýrði fyrst frá ætluðum brotum ákærða, verið í samskiptum við elstu systur sína, I, og þá í tenglsum við það að hin síðarnefnda hafði þá tjáð sig um málefni sín og brot ákærða gegn henni í fjölmiðlum.

            Vitnið greindi frá því að B hefði tjáð sig um brot ákærða í frjálsri frásögn, en vísaði til þess að hún væri hlédræg að eðlisfari. Vitnið sagði að B hefði einnig greint frá brotunum með því að fylla út greinigarlista, og þá um hvaða afleiðingar þau hefðu haft á hana.

            Vitnið vísaði til þess að tímaskyn barna á aldrinum 5-7 ára væri ekki fullmótað. Þá staðhæfði vitnið, aðspurt, að mjög algengt væri að börn segðu ekki frá kynferðisbrotum fyrr en við 16 ára aldurinn, en þar kæmi m.a. til vaxandi skilningur á málefninu. Í því viðfangi vísaði vitnið til þess að allar aðstæður B hefðu verið mjög viðkvæmar og þá vegna búferlaflutninga og erfiðra tengsla hennar við stjúpmóður sína. Þannig hefði ákærði eftir atvikum verið eini aðilinn sem hún hefði getað treyst.

            Nánar aðspurt sagði vitnið að alþekkt væri að tilteknar breytingar yrðu á viðhorfi barna við hækkandi aldur og þá kæmi líka fram tiltekin hegðun sem tengst gæti tilteknu áfalli eða lífsreynslu, sem hefð reynst þeim erfið. Vintið kvaðst ekki hafa rætt þennan þátt sérstaklega við B, en staðhæfði að þegar aðstæður hennar hefðu breyst til batnaðar hefði hin erfiða hegðun, sem hún hafði sýnt á tímabili, horfið, þ.e. eftir að henni hafði verið komið fyrir í öruggu skjóli.

            Vitnið sagði að tilfelli B hefði verið nokkuð sérstakt þar sem hún hefði bætt við frásögn sína eftir því sem frá leið, en áréttaði að þegar það gerðist hefði hún verið komin í hið örugga skjól á fósturheimili sínu og þannig verið fjarri þeim erfiðleikum og aðstæðum sem hún hefði áður búið við hjá fjölskyldu sinni á […]. Vitnið staðhæfði enn fremur að áfallaminningar hefðu það eðli að koma helst upp á yfirborðið þegar brotaþolar færu að skilja betur hvað hefði gengið á í lífi þeirra og þegar þeir gætu sett hlutina í samhengi og þá t.d. við fræðslu og jafnframt þegar farið væri í meðferðarvinnu um afleiðingar alvarlegra brota.

            Vitnið kvaðst hafa litið svo á að meðferðaraðilar hefðu verið í eðlilegum tengslum við fósturmóður stúlkunnar, vitnið J, en það kvaðst jafnframt hafa litið það jákvæðum augum að vitnið hefði eftir atvikum skráð jafnóðum niður minningarbrot B þegar þau komu fram og bar að það hefði í raun hjálpað stúlkunni. Vitnið bar að þetta atriði hefði einnig skapað traust þeirra í millum, sem B hefði haft þörf fyrir.

            Vitnið áréttaði að málefni B hefðu í raun komið upp á svipuðum tíma, þ.e. ætluð ofbeldisbrot stjúpmóður hennar og ætluð kynferðisbrot ákærða, og staðhæfði að tekið hefði verið tillit til þessa í meðferðarstarfi stúlkunnar af hálfu starfsmanna Barnahúss.

 

            Vitnið W sálfræðingur kvaðst hafa tekið við meðferð stúlkunnar B í nóvember 2017 og staðfesti efni áðurrakinna vottorða. Vitnið bar að í upphafi hefði B, líkt og systir hennar C, sýnt álagseinkenni, og þá vegna rannsóknaraðgerða lögreglu. Vitnið bar að þrátt fyrir þetta hefði stúlkan verið sátt við sjálfa sig.

            Vitnið áréttaði að fyrrnefndir greiningarlistar hefðu staðfest að B var yfir klínískum mörkum áfallastreitu og bar að þar hefði ráðið mestu hin ætluðu kynferðisbrot ákærða og þá frekar en heimilisofbeldisbrot stjúpmóður hennar eða önnur áföll sem hún hefði orðið fyrir á lífsleiðinni. Vitnið sagði að þetta hefði verið í samræmi við þau meðferðarviðtöl sem það hefði átt við stúlkuna.

            Vitnið bar að B hefði átt í miklum erfiðleikum með að segja frá brotum ákærða. Vísaði vitnið til þess að mjög skýrt hefði komið fram hjá stúlkunni að hún hefði verið mjög reið ákærða og að háttsemi hans hefði valdið henni miklum vonbrigðum þar sem hann hefði með athæfinu brugðist trausti hennar. Vitnið lét það álit í ljós að sú áfallastreituröskun stúlkunnar sem fram hefði komið við sérfræðimeðferð hennar hefði verið skýr merki um að hin ætluðu kynferðisbrot ákærða gegn stúlkunni hefðu í raun gerst.

            Vitnið bar að mjög þekkt væri að börn segðu seint frá brotum sem beindust gegn þeim og að jafnframt væri það ólíklegra að slík frásögn kæmi fram eftir því sem gerandinn væri þeim nátengdari. Að þessu leyti vísaði vitnið til erfiðra aðstæðna B og að hún hefði haft lítið bakland. Vitnið taldi líklegt að um síðir og með aukinni fræðslu og þroska, en einnig vitneskju B um hið eldra brot ákærða gagnvart elstu hálfsystur hennar, hefði hún smám saman treyst sér til að stíga fram og skýra frá eigin reynslu.

            Vitnið kvaðst í meðferðarvinnunni með B, líkt og með systur hennar C, hafa átt mjög gott en þó takmarkað símasamband við fósturmóður þeirra, vitnið J, og þá einkum að því er varðaði atriði sem tengdust líðan þeirra hverju sinni.

            Vitnið sagði að brotaþolarnir, B og C, hefðu báðar í viðtölum ætíð verið samkvæmar sjálfum sér. Enn fremur kvaðst vitnið hafa metið það svo að þær hefðu báðar verið mjög trúverðugar og einlægar þegar þær sögðu frá reynslu sinni og hafði vitnið um það svofelld orð: „Ég sé ekki nein merki um það að þær séu svona að rotta sig saman um atburðarrásir og svo framvegis og þegar C gefur skýrslu  um meint kynferðisbrot að þá hafði hún ekki rætt atburðarrás brotanna við B heldur bara, já það gerðist.

 

3.         Samkvæmt tveimur vottorðum W sálfræðings, dagsettum 14. nóvember 2017 og 27. apríl 2018, hefur brotaþolinn C sótt fjölmörg viðtöl og meðferð hjá Barnahúsi frá 4. apríl 2016 og allt til vors 2018. Í vottorðum þessum er m.a. vísað til þess að í upphafi meðferðarinnar hafi sjálfsmatskvarðar og viðtöl gefið til kynna að C hefði lágt sjálfsmat, ásamt einkennum þunglyndis, sem þó hafi verið undir klínískum mörkum. Í vottorðunum segir frá því, að auk þessa hafi C uppfyllt greiningarskilmerki fyrir áfallastreituröskun.

            Í vottorðinu frá 27. apríl 2018 er vísað til þess að í fyrstu meðferðarviðtölunum hefði C ekki verið búin að greina frá hinum ætluðu kynferðisbrotum ákærða og því hafi þau tekið mið af öðrum atvikum í fyrstu. Tekið er fram að í viðtölum við stúlkuna haustið 2017 hefði fyrst komið fram að hún hafði orðið fyrir ætluðum kynferðisbrotum af hálfu föður síns, ákærða, og því hefði verið tekið mið af því eftirleiðis í meðferðarstarfinu. Vísað er til þess að C hefði fyrst verið reiðubúin í svokallaða áfallvinnu í marsmánuði 2018, en þá hefði hún m.a. rifjað upp hin fyrstu brot ákærða, þegar hún var á aldrinum 5 til 6 ára. Greint er frá því að þessu síðastnefnda starfi með stúlkunni hafi fylgt afar sterkar tilfinningar, þ. á m. sorg.

            Í niðurstöðukafla vottorðsins er ofangreindu ástandi C og afleiðingum ætlaðra brota nánar lýst, en þar segir m.a.:

            (  )

            Nefndur sálfræðingur, W, staðfesti efni ofangreindra vottorða fyrir dómi. Aðspurð um hina breyttu frásögn C vísaði vitnið til þess að þegar hún hefði gefið fyrstu skýrslu sína fyrir dómi í Barnahúsi, þann 5. apríl 2016, og var tekin í framhaldi af því í sálfræðimeðferð, hefði hún enn búið á heimili föður síns, ákærða, og stjúpmóður sinnar, sem hún hefði ásakað um heimilisofbeldi. Jafnframt hefði stúlkan að eigin sögn orðið vitni að þeim miður góðu viðbrögðum sem fram hefðu komið eftir að systir hennar, B, hafði greint frá ætluðum brotum föður þeirra. Var það ætlan vitnisins að af þessum sökum hefði C verið undir gríðarlega miklu álagi. Við þetta ástand hefði bæst að á þessum tíma hefði ekki verið náið samband á milli hennar og B, auk þess sem erfiðleikar hefðu verið í öllum samskiptum fjölskyldunnar, þ. á m. vegna lýstra málefna stjúpmóður þeirra. Vitnið benti enn fremur á að í meðferðarstarfi þeirra systra í Barnahúsi hefði komið í ljós að þær eru mjög ólíkar að persónugerð. Vitnið sagði að stúlkan C væri í raun mjög lokaður og eirðarlaus einstaklingur og bar að hún hefði átt í erfiðleikum með að mynda traust og að tjá sig, en að það hefði heldur farið batnandi þegar á leið meðferðina. Að þessu leyti áréttaði vitnið efni vottorðanna.

            Vitnið skýrði frá því að vorið 2018, og þá í tenglsum við fyrrgreinda áfallvinnu C, hefði komið í ljós að af þeim áföllum, sem hún hafði orðið fyrir í lífinu, hefðu hin ætluð kynferðisbrot ákærða helst haft áhrif á líðan hennar. Vitnið áréttaði að vegna þessa hefði þurft að gera hlé á meðferðinni og þá að ósk stúlkunnar. Staðhæfði vitnið að það hefðu verið skýr merki um forðun og áfallastreituröskun og þá sem afleiðing af hinum ætluðu brotum ákærða. Vitnið sagði að líkt hefði verið komið á með B að þessu leyti, en bar að nefnd einkenni hefðu eftir atvikum verið alvarlegri hjá C. Þar um vísaði vitnið m.a. til minniserfiðleika hennar. Að því er varðaði önnur einkenni hjá C, svo sem þunglyndi og afar lágt sjálfsmat, kvaðst vitnið ætla að þau mætti vafalaust að einhverju leyti rekja til þess heimilisofbeldis sem hún hefði búið við af hálfu stjúpmóður sinnar.

 

            Áðurnefnt vitni, V, kvaðst hafa rætt í fjögur skipti við stúlkuna C vorið 2016. Vitnið bar að stúlkan væri ólík eldri systur sinni, B, og bar að hún hefði í raun gefið lítið færi á sér. Vitnið treysti sér ekki til að segja til um af hverju stúlkan hefði ekki skýrt frá hinum ætluðu brotum ákærða í upphafi meðferðarinnar í Barnahúsi, en taldi hugsanlegt að hún hefði með tímanum öðlast frekari kjark, en það kvaðst ekki hafa rætt það málefni við stúlkuna. Vitnið sagði að í þessum fyrstu viðtölum hefði C haft á orði að málefni fjölskyldu hennar hefðu í raun farið batnandi og þá vegna íhlutunar félagsmálayfirvalda í heimabyggð.

 

4.                  Eins og fyrr hefur komið fram gerði vitnið R sálfræðingur sálfræðimat um ákærða að beiðni félagsmálastjóra sveitarfélagsins […]. Beiðni þessi er frá því í apríl 2016, en í aðfaraorðum skýrslunnar kemur fram að matið hafi verið gert með samþykki ákærða.

            Nefnd sálfræðiskýrsla er dagsett, 14. ágúst 2017 en í upphafsorðum segir að helsti grundvöllur hennar hafi verið 25 viðtöl, sem sálfræðingurinn átti við ákærða á tímabilinu frá því í apríl 2016 til ágúst 2017. Í skýrslunni er fjallað um tilurð hennar, og er þar um vísað til verkbeiðninnar, þ.e. hin ætluðu brot ákærða gegn dóttur hans, brotaþolanum B, en jafnframt er sagt frá því að þá hefðu legið fyrir upplýsingar um að hann hefði um tuttugu árum fyrr verið dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn elstu dóttur sinni. Í lokaorðum skýrslunar er jafnframt greint frá því að síðsumars 2017 hefðu komið fram upplýsingar um að yngri dóttir ákærða, brotaþolinn C, hefði lýst sams konar brotum af hans hálfu.

            Í sálfræðiskýrslunni er að nokkru rakin lífssaga ákærða, en einnig er vikið að því sem gengið hafði á í lífi fjölskyldu hans hin síðustu misserin og þá í tengslum við aðgerðir lögreglu svo og víðtækar aðgerðir félagsmálayfirvalda, ekki síst í heimabyggð, en síðan segir:

            (  )

            Í lokorðum skýrslunnar er nánar vikið að þeim ofbeldibrotum sem eiginkona ákærða og stjúpmóðir brotaþola, D, hafði verið sakfelld fyrir í fyrrgreindum dómi frá 9. mars 2017. Vísað er til þess að ákærði hefði ekki beitt sér stúlkunum B og C til varnar þegar þær aðstæður voru uppi. Er það niðurstaða sálfræðingsins í ljósi allrar þessarar forsögu að yfirvöld beri að hafa virkt eftirlit með heimili ákærða og eiginkonu hans og samhliða því að veita öllu heimilisfólki þeirra nauðsynlegan stuðning.

            R sálfræðingur staðfesti efnisatriði skýrslunnar fyrir dómi og útskýrði einstök atriði nánar. Vitnið áréttaði m.a. að í upphafi hefði verkbeiðnin varðað tilteknar grunsemdir um að ákærði hefði beitt brotaþolann B kynferðislegu ofbeldi og að grípa þyrfti til stuðnings og meðferðar af þeim sökum eftir því sem aðstæður leyfðu, en þá einkum að því er varðaði óviðeigandi kynhegðun og öryggi í samskiptum. Vitnið bar að ákærði hefði í fyrstu viðtölum þeirra vísað til minnisleysis um nefnd atriði og því hefði ekki verið farið nánar út í þá sálma enda hefði yfirstandandi lögreglurannsókn verið í gangi um ætluð brot hans.

            Vitnið staðhæfði að fyrrgreind matstæki og forspársgildi prófa hefði gefið til kynna að ákærði væri í miðlungs- eða nærri lágum miðlungsgildum að því er varðaði áhættu á því að brjóta af sér kynferðilega á nýjan leik, en að því leyti hefði m.a. verið tekið mið af þeim dómi, sem hann hafði hlotið á árinu 1991, en að ekki hafi verið hægt með réttu að taka tillit til þeirra ásakana sem fyrir hafi legið í þessu máli.

            Vitnið kvaðst síðast hafa hitt ákærða í nóvember 2017 og þá fyrst heyrt frá ákærða um fyrrnefndar ásakanir yngri dóttur hans, C. Vitnið bar að ákærði hefði alfarið neitað þeim ásökunum, en sagði að hann hefði að því leytinu til ekki verið eins afgerandi varðandi B. Vísað vitnið þar um til þess að í síðustu viðtölunum hefði ákærði ekki orðað minnisglöp varðandi hennar tilvik, en þess í stað gengist við því að þar hefði verið um að ræða „eitthvað óviðeigandi“ sem gerst hefði af hans hálfu og þá gagnvart henni, en án þess að það atriði hefði verið rætt frekar.

            Vitnið skýrði frá því að það hefði ekki greint ákærða með neinn virkan geðsjúkdóm og sagði enn fremur að hann hefði ekki náð greiningarviðmiðum fyrir því að vera haldinn barnagirnd. Í því sambandi benti vitnið á að aðeins lítill hluti gerenda sem brjóti gegn börnum nái yfirleitt slíkum viðmiðunum og þannig geti aðrar ástæður legið að baki því að einstaklingur sýni af sér óviðeigandi kynhegðun gagnvart barni. Að þessu leyti áréttaði vitnið lokaorðin í skýrslunni um nauðsyn þess að veita ákærða og heimilisfólki hans stuðning og þá sökum þess að við tilteknar aðstæður gætu líkur aukist á óviðeigandi hegðun og þá af hálfu ákærða, en einnig af hálfu eiginkonu hans, þó svo að ekkert í meðferðarvinnunni hefði gefið tilefni til að álykta að svo hefði verið við gerð skýrslunnar.

 

M.

Niðurstaða.

1.         Í máli þessu er ákærða samkvæmt I. kafla ákæru gefið að sök kynferðisbrot gegn dóttur sinni B á árabilinu 2004 og 2015. Er byggt á því að ákærði hafi brotið gegn stúlkunni á heimili þeirra í […], þegar hún var á aldrinum 5 eða 6 ára til 10-11 ára. Einnig er byggt á því að ákærði hafi brotið gegn stúlkunni með líkum hætti í nóvember 2011, en þá í herbergi í tilgreindu gistiheimili í […] og loks að hann hafi brotið gegn henni í frystihúsi í heimabyggð þeirra á […] þar sem hún var við störf sín, þá 15 ára. Þessu til viðbótar er ákærða gefið að sök að hafa í tvígang brotið gegn nálgunarbanni haustið 2016 og þá gagnvart stúlkunni, sbr. II. kafla ákærunnar.

            Verknaðarlýsingin í 1. tölulið I. kafla ákæru er að áliti dómsins harla ónákvæm um tímasetningu, en einnig um ætlaðan brotavettvang. Við meðferð málsins fyrir dómi var úr þessu bætt og þá í ljósi þess sem fram kom við skýrslutökur fyrir dómi, og er ekki í ágareiningur um þetta atriði.

 

            Samkvæmt III. kafla ákærunnar er ákærða gefið að sök kynferðisbrot gegn dóttur sinni C í alls fjögur skipti þegar hún var á aldrinum 7-9 ára og þá á fyrrnefndu gistiheimili í […] eða á öðrum gististað þar í landi.

 

2          Af hálfu ákæruvalds eru sakaratriði ákærunnar einkum reist á frásögn brotaþolanna og systranna B og C um að faðir þeirra, ákærði, hafi gerst sekur um þá refsiverðu háttsemi sem lýst er í nefndum ákæruköflum. Að auki er af hálfu ákæruvalds byggt á sérfræðivottorðum, sem aflað var af lögreglu við rannsókn málsins, en einnig á öðrum gögnum sem aflað var undir rekstri málsins fyrir dómi svo og á vætti vitna.

            Fyrir dómi hefur ákærði alfarið neitað öllum þeim sakaratriðum, sem á hann eru bornar samkvæmt I. og III. kafla ákæru. Ákærði hefur aftur á móti játað sakarefni II. kaflans.

            Af hálfu skipaðs verjanda ákærða var í greinargerð, en einnig við flutning, um sýknukröfu einkum vísað til sönnunarskorts, sem ákæruvaldið yrði að bera hallann af, samkvæmt grunnreglum opinbers réttarfars, sbr. ákvæði XVI. kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Er m.a. á það bent að ákærði hafi staðfastlega neitað sök og verið sjálfum sér samkvæmur í framburði sínum. Frásögn brotaþolanna B og V hafi aftur á móti enga eða takmarkaða stoð í framburði annarra vitna eða af gögnum, en að auki hafi þær við margítrekaðar yfirheyrslur hjá lögreglu svarað leiðandi spurningum rannsakara um hina ætluðu háttsemi. Að því leyti er einkum byggt á því að ekki hafi verið gætt hlutlægnisskyldu við rannsókn málsins.

 

3.         Ákærði, brotaþolarnir B og C og eiginkona ákærða, D, hafa við meðferð málsins m.a. greint frá eigin búsetu í […] á því tímabili sem sakaratriði ákærunnar tekur til og er það atriði í aðalatriðum ágreiningslaust, eins og áður sagði. Liggur þannig fyrir að ákærði fluttist frá […] haustið 2004 til […], ásamt þáverandi þarlendri eiginkonu sinni og tveimur dætrum þeirra, B og C. Settist fjölskyldan að í […], þar sem ákærði og nefnd eiginkona hans hófu rekstur á netkaffihúsi. Er búsetu ákærða og fjölskyldu hans að þessu leyti lýst í kafla B hér að framan, en eins og þar kemur fram lauk nefndum hjúskap nærri áramótunum 2006/2007.

            Samkvæmt skýrslum ákærða við meðferð málsins hafði hann fyrst eftir hjúskaparslitin, þ.e. fyrri hluta ársins 2007, m.a. aðsetur í leiguherbergi í […], og hafði þá að sögn aðeins umgengni við dætur sínar, B og C. Frásögn ákærða um að hann hafi þá um vorið fengið fulla forsjá dætranna hefur ekki verið vefengd og jafnframt að hann hafi þá flutt aðsetur sitt og dætranna til […] og að hann hafi þá í fyrstu haft aðsetur í íbúð vinar síns. Þrátt fyrir ungan aldur stúlkunnar A á nefndu tímaskeiði var nokkur samhljómur með frásögn hennar og ákærða að þessu leyti.

            Samkvæmt framburði ákærða og vitnisins D tókust kynni með þeim um miðjan maí 2007. Verður ráðið af framburði þeirra að þau hafi fljótlega tekið upp sambúð, en í fyrstu haldið til ásamt nefndum dætrum ákærða hjá móðurfjölskyldu D, en eftir að hafa gift sig þá um sumarið hafi þau hins vegar hafið sjálfstæðan búskap innan borgarsvæðis […].

            Samkvæmt gögnum og því sem fram kom fyrir dómi fluttist ákærði með fjölskyldu sinni, þ.m.t. D, aftur til […] á árinu 2009, þar sem hann hóf á ný rekstur á netkaffihúsi. Á árinu 2010 fluttist ákærði og D ásamt börnunum, sem þá voru orðin þrjú, aftur til […], þar sem þau höfðust við í um tvö ár, en eftir það, haustið 2012, fluttust þau öll til […]. Óumdeilt er að fljótlega eftir heimkomuna settist fjölskyldan að í sveitarfélaginu […].

 

4.         Niðurstaða í ákærukafla I., tölulið 1.

            Í þessum þætti málsins er ákærða gefið að sök að hafa á nefndum íverustöðum og heimilum í […] káfað á dóttur sinni B, þar á meðal á kynfærum hennar, og að hafa haft við hana samræði í leggöng, þegar hún var á aldrinum 5 eða 6 ára til 10 eða 11 ára gömul, í allt að 10 skipti, eins og nánar er lýst í ákæru.

            B hefur fyrir dómi skýrt frá því að hin ætluðu brot ákærða hafi hafist eftir að slitnaði upp úr fyrrnefndum hjúskap foreldra hennar, en að því leyti vefengdi hún ekki að það hefði gerst í lok ársins 2006, líkt og ákærði hefur borið. Af þeim sökum hefðu fyrstu brot ákærða gegn henni gerst fyrri hluta ársins 2007 og hún því verið á áttunda aldursári. Að þessu leyti var um breytingu að ræða miðað við frásögn B við ítrekaðar yfirheyrslur hennar hjá lögreglu. Við flutning málsins var tillit tekið til þessa, sbr. að því leyti ákvæði 1. mgr. 181. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

            Fyrir dómi hefur B borið að brot ákærða hafi falist í ítrekuðu káfi hans á kynfærum hennar, auk þess sem hann hefði sett lim sinn í leggöngin. Að þessu leyti staðfesti B frásögn sína hjá lögreglu eftir að einstök atriði úr skýrslum hennar höfðu verið borin undir hana og þ. á m. að ákærði hefði brotið gegn henni með þessum hætti í 5-10 skipti. Í þessu viðfangi vísaði B m.a. til fyrrnefndra aðstæðna, þ.e. að ákærði hefði á tímabili búið einn og að hún hefði þá ásamt C, systur sinni, komið til hans í umgengni. Fyrir dómi vísaði B til þess að minningar hennar um nefnd brot ákærða, þar á meðal um að hann hefði sett lim sinn inn í leggöng hennar, tengdust helst tilviki þegar hún hefði verið hjá ákærða í rúmi, en að þau hefðu þá verið ein á heimili þeirra í […], sbr. að því leyti eftir atvikum ákærulið 2 í I. kafla ákærunnar.

            Af frásögn B verður ráðið að ákærði hafi auk þessa brotið gegn henni með því að káfa á kynfærum hennar á nóttinni og þá samhliða því sem hann hefði haft samfarir við konur og þar á meðal stjúpmóður hennar, D, eftir að hún var komin til sögunnar.

            Ákærði hefur við alla meðferð málsins alfarið neitað ásökunum B, dóttur sinnar. Að því er varðar skýringar á hinum alvarlegu ásökunum stúlkunnar hefur ákærði helst nefnt að hún hafi breyst í allri lund og hegðan eftir að hún hóf nám í framhaldsskóla og að hann hefði af þeim sökum þurft að grípa til harðari agaúrræða en áður og þá til þess að reyna að koma böndum á óheilbrigt líferni hennar. Að auki nefndi ákærði í þessu samhengi fyrrnefnt harðræði eiginkonu hans gagnvart stúlkunni. Í staðfestum skýrslum hjá lögreglu lét ákærði einnig að því liggja að óvildarmenn á meðal náinna ættingja hans hefðu eftir atvikum haft áhrif á stúlkuna að þessu leyti.

            Við meðferð málsins hafa vitni, þ. á m. eiginkona ákærða, D, og brotaþolinn C ekkert getað borið um hin ætluðu kynferðisbrot ákærða gegn B. Báru vitnin að þau hefðu þannig hvorki séð slíka háttsemi af hálfu ákærða né heyrt orð B þar um, og þá ekki fyrr en eftir að hún hafði tjáði sig um málefnið hjá lögreglu aðfaranótt 2. apríl 2016, en þá aðeins með óljósum hætti. Þannig bar C að hún hefði aðeins heyrt ávæning af þeirri ætluðu háttsemi ákærða sem lýst er í 2. tölulið I. kafla ákæurunnar. Aftur á móti staðhæfði stjúpmóðirin D fyrir dómi, líkt og hún hafði áður gert hjá lögreglu, að B færi með staðlausa stafi að þessu leyti, en jafnframt bar hún að annarlegar hvatir B hefðu legið þar að baki.

            Um sakaratriði þessa ákæruliðar er samkvæmt framansögðu í raun ekki við önnur gögn að styðjast en framburð B svo og gögn og vætti þeirra sérfræðinga Barnahúss, sem komu að málum hennar mörgum árum eftir að hin ætluðu atvik gerðust, og þá eftir að B hafði fyrst með takmörkuðum hætti svarað spurningum við lögregluyfirheyrslur á vordögum 2016. Liggur fyrir að er það gerðist hafði B einnig í fyrsta skiptið vikið að hinum alvarlegu kynferðisbrotum ákærða með því að senda vinkonu sinni rafpóst þar um. Er þetta gerðist var B 16 ára.

            Að álit dómsins eru ofangreind gögn og síðari skýrslur B hjá lögreglu framburði hennar fyrir dómi í aðalatriðum til styrktar, en eins og fyrr sagði vísaði hún til þeirra um nánari atvik máls, vegna minnisleysis og vanlíðunar fyrir dómi. Frásögn B er að áliti dómsins trúverðug sem slík, þótt tímasetning og atburðarás gætu hafa skolast til, en það er skiljanlegt með hliðsjón af því að um mörg tilvik er að ræða, sem ná yfir alllangt tímabil samkvæmt ákæru og hún var ung að árum þegar þessir ætluðu atburðir gerðust.

            Að mati dómsins verður við sakarmat ekki horft fram hjá því að brotaþolinn B var margítrekað yfirheyrð við rannsókn málsins hjá lögreglu og að spurningar rannsakara voru á köflum harla leiðandi, en sérstaklega þó í upphafi rannsóknarinnar.

            Frásögn B um hin alvarlegu brot ákærða samkvæmt þessum ákærulið er líkt og hún margoft nefndi því marki brennd, að minni hennar um einstök atvik og brot hefur verið mjög gloppótt. Að áliti dómsins var frásögn hennar fyrir dómi og hjá lögreglu heldur ekki alveg eindregin, nákvæm eða afdráttarlaus. Þá er til þess að líta að engra læknisfræðilegra gagna var unnt að afla við rannsókn lögreglu og loks að þrátt fyrir að ákærði sé í máli þessu borinn sökum um margvísleg kynferðisbrot þá sætir hvert brot fyrir sig sjálfstæðu mati og verður t.d. sakfelling af einu ekki notað til sönnunar um sök af öðru, þótt hún kunni að geta gefið ákveðnar vísbendingar um hvatir ákærða.

Í ljósi alls ofangreinds og með hliðsjón af þeim atriðum sem vísað er til í 126. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, svo og þegar nefnd gögn eru virt heildstætt, þykir gegn eindreginni neitun ákærða ákæruvaldinu ekki hafa tekist að færa fram lögfulla sönnun um sök hans samkvæmt þessum ákærulið sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sbr. 108. gr. og 109. gr. nefndra laga. Er því skylt að sýkna ákærða af sakarefni þessa ákæruliðar.

 

5.         Niðurstaða í ákærukafla I., tölulið 2.

            Í þessum þætti málsins er ákærða gefið að sök að hafa gerst sekur um kynferðisbrot gagnvart dóttur sinni B með því að hafa á heimili þeirra í […], þegar stúlkan var 9, 10 eða 11 ára, látið hana horfa með sér á klámefni í tölvu, klætt hana úr fötunum og haft við hana önnur kynferðismök en samræði, með því að nudda á henni kynfærin og inn í kynfæri hennar, eins og nánar er lýst í ákæru.

            Ágreiningslaust er að ákærði bjó ásamt fjölskyldu sinni, þ. á m. B, í […], á árunum 2009 og 2010, en stúlkan var þá á aldrinum 10-11 ára. Á þessu tímabili rak hann, ásamt eiginkonu sinni D, svokallað netkaffi. Ágreiningslaust er að […] fór á þessum árum í heimsóknir til fjölskyldu sinnar í […] og hafði þá eftir atvikum með sér yngstu börnin. Liggur fyrir að við þessar aðstæður voru ákærði og B tvö ein á heimili fjölskyldunnar.

            B hefur lýst því fyrir dómi að hún hafi mátt þola kynferðisbrot af hálfu ákærða við greindar aðstæður, og var lýsingin í samræmi við sakaratriði þessa töluliðar ákærunnar, en hún kvaðst hafa verið 10 eða 11 ára er atburðurinn gerðist.

            Ákærði hefur neitað sök og hafði, eins og áður er fram komið, uppi efasemdir um heilindi B. Ákærði staðfesti á hinn bóginn lýsingu, en einnig teikningu, sem B gerði af ætluðum brotavettvangi við rannsókn málsins hjá lögreglu. Fyrir dómi endurtók hún þessa lýsingu sína og gjörð.

 

            Að áliti dómsins er nægjanlega fram komið, þ. á m. með áðurröktum sérfræðiskýrslum, að B hafði strax á yngri árum sínum áhyggjur af heill fjölskyldu sinnar og þá ekki síst ákærða, en einnig sinni eigin, ef hún skýrði frá reynslu sinni og ætluðum brotum ákærða. Af þessum gögnum verður ráðið að þar hafi helst ráðið ungur aldur hennar, orð ákærða um alvarlegar afleiðiningar ef hún leysti frá skjóðunni, en einnig sá aðbúnaður og viðmót sem hún bjó þá við af hálfu stjúpmóður sinnar í […], en einnig um árabil eftir að fjölskylda hennar fluttist til […], sbr. fyrrnefndan dóm.

            Að áliti dómsins hefur B frá upphafi verið sjálfri sér samkvæm í vitnisburði sínum um greinda háttsemi og kynferðisbrot ákærða. Þá hefur lýsing hennar verið nákvæm um einstaka þætti atburðarásarinnar og um viðmót ákærða. Er ljóst að þessi atburður og hegðan ákærða kom henni í uppnám og hún man hann vel. Vitnisburður hennar fær nokkra stoð í áðurröktum sérfræðigögnum, en einnig í vitnisburði þeirra vinkvenna sem þekktu hana vel og hlýddu á frásögn hennar. Loks verður í þessu samhengi ekki horft fram hjá því að rannsóknaraðilar fundu verulegt magn af klámefni í tölvubúnaði ákærða við húsleit á heimili hans. Þá hefur frásögn ákærða að áliti dómsins ekki fyllilega verið trúverðug um atvik máls.

            Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða dómsins að framburður stúlkunnar B sé trúverðugur um þær athafnir ákærða sem ákært er fyrir í þessum ákærulið.

            Það er niðurstaða dómsins að öllu ofangreindu virtu að ekki sé varhugavert að telja sannað með vitnisburði B og nefndum gögnum, þrátt fyrir neitun ákærða, að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í þessum tölulið ákæru greinir. Brot ákærða varða við 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga.

 

3.         Niðurstaða í ákærukafla I., tölulið 3.

            Í þessum þætti málsins er ákærða gefið að sök að hafa gerst sekur um kynferðisbrot gagnvart dóttur sinni B með því að hafa 21. eða 22. nóvember 2011 inni í herbergi á gistiheimilinu […]í […] í […] eða á öðrum gististað í […], þegar B var 12 ára gömul, káfað á henni, þar á meðal kynfærum hennar, og haft við hana samræði í leggöng, eins og nánar er lýst í ákæru.

            Ágreiningslaust er að á meðan ákærði bjó í […] lagði hann reglulega land undir fót þar sem hann þurfti, sem erlendur ríkisborgari, að endurnýja dvalarleyfi sitt og vegabréfsáritun í landinu á u.þ.b. fjögurra mánaða fresti. Fór ákærði af þessum sökum í stuttar ferðir til […].

            Ákærði hefur borið að hann hafi stöku sinnum tekið dæturnar B og C með sér í þessi ferðalög. Skýrði hann það á þá leið að hann hefði ekki viljað vera einn á ferð og að dætur hans hefðu verið áhugasamar um ferðalögin. Hins vegar hefði auraleysið tíðum hindrað hann í því að taka þær báðar með sér í einu, en þá einnig aðrar í fjölskyldunni.

            Ákærði hefur fyrir dómi staðfest rannsóknargögn lögreglu að því er varðar það atriði að dóttir hans B hafi m.a. fylgt honum á ferðalagi hans til […] í greindum erindagjörðum hinn 21. eða 22. nóvember 2011, sbr. verknaðarlýsingu þessa ákæruliðar. Er þetta gerðist var B 12 ára. Ákærði hefur jafnframt staðfest frásögn B um að hann hafi í þessari tilteknu ferð gist með henni í umræddu gistihúsi. Í þessu samhengi er til þess að líta að um síðir hafði B við lögreglurannsókn málsins, ásamt systur sinni C, lagt að eigin frumkvæði fram ljósmyndir af umræddu gistihúsi, en heimildir þar um höfðu þær fundið á heimasíðu ákærða á veraldarvefnum.

            Fyrir dómi hefur B borið að ákærði hafi brotið gegn henni kynferðislega í nefndum ferðum þeirra til […], og þá í umræddu gistihúsi. Að því leyti hefur hún sérstaklega nefnt eitt tiltekið tilvik þar sem hún hafði séð notaðan smokk þegar hún vaknaði eftir nætursvefn ásamt ákærða að morgni dags í nefndu gistiheimili. Vegna minnisglapa treysti hún sér fyrir dómi ekki til að lýsa kynferðislegri háttsemi ákærða. Við rannsókn lögreglu hafði hún aftur á móti haft á orði að brot ákærða hefðu gerst á nefndum ferðalögum og að þau hefðu verið lík þeim sem hún hefði áður greint frá, en án þess að skýra það með nákvæmari hætti.

            Fyrir dómi hefur ákærði alfarið neitað sakarefni þessa ákæruliðar.

            Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið og að virtum framlögðum gögnum, en ekki síst í ljósi þess að frásögn brotaþolans B hefur ekki verið eindregin eða nákvæm, þá er að áliti dómsins varhugavert, að virtum fyrrnefndum ákvæðum 108. og 109. gr. sakamálalaganna nr. 88/2008, að telja sannað gegn neitun ákærða að hann hafi viðhaft það athæfi sem hann er sakaður um í þessum ákærulið. Ber því að sýkna ákærða af sakarefninu.

 

4.         Niðurstaða í ákærukafla I., tölulið 4.

            Í þessum þætti málsins er ákærða gefið að sök að hafa gerst sekur um kynferðisbrot gagnvart dóttur sinni B með því að hafa, þegar hún var 15 ára, og var með honum við störf í frystihúsi […] á […] í […], strokið á henni rassinn.

            Um þetta sakaratriði er af hálfu ákæruvalds einkum byggt á frásögn brotaþolans B við alla meðferð málsins, fyrir dómi og hjá lögreglu. Að áliti dómsins er frásögn B skýr og eindregin um greint atriði og þar með um brot ákærða.

            Ákærði hefur við meðferð málsins alfarið neitað sök.

            Með neitun ákærða og þar sem sýnileg gögn eða vitnisburðir styðja ekki málatilbúnað ákæruvalds nægjanlega ber með vísan til 108. og 109. gr. laga nr. 88/2008 að sýkna hann af þeirri háttsemi sem hér um ræðir og þar með um greint sakaratriði.

 

5.         Niðurstaða í ákærukafla II.

            Ákærði hefur gengist við brotum gegn nálgunarbanni samkvæmt 5. og 6. tölulið ákærunnar og er ekki ástæða til að draga í efa að játning hans sé sannleikanum samkvæm, enda er hún m.a. í samræmi við rannsóknargögn lögreglu. Er því sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í nefndum ákærukafla greinir, en hún er og þar rétt heimfærð til refsiákvæða.

 

6.         Niðurstaða varðandi ákærukafla III., tölulið 7.

            Í þessum þætti málsins er ákærða gefið að sök að hafa gerst sekur um kynferðisbrot gagnvart dóttur sinni C í fjögur skipti í […], á nánar tilgreindum tímabilum á árunum 2009, 2011 og 2012, eins og lýst er í ákæru.

            Eins og fyrr hefur verið rakið ferðaðist ákærði reglulega til […] á nefndum árum. Ákærði hefur lýst því að hann hafi ekki viljað ferðast einn og af þeim sökum hafi hann tekið dætur sínar með sér, enda þær verið áhugasamar að fara með honum. Vegna fjárhagsaðstæðna hefði hann þó aðeins getað tekið aðra þeirra með í einu, auk þess sem dóttir hans, C, hefði er atvik gerðust verið ung að árum.

            Samkvæmt rannsókn lögreglu, þar á meðal á […] vegabréfum brotaþola, fór stúlkan C í fjögur skipti einsömul með ákærða til […] á þeim tímaskeiðum sem tilgreind eru í þessum þætti ákærunnar, en stúlkan var þá á aldrinum 7-9 ára. Samkvæmt gögnunum fór ákærði á sama tímabili í alls átta ferðir til […].

            Fyrir dómi hefur ákærði ekki vefengt stimpiláritanir í vegabréfi C, en hann hefur jafnframt kannast við að þær bendi til þess að stúlkan hafi farið umræddar fjórar ferðir með honum yfir landamæri […] og […] og þá í fyrrgreindum erindagjörðum hans. Ákærði hefur á hinn bóginn staðhæft að þetta sé samt sem áður ekki rétt þar sem C hafi í raun aðeins farið með honum einsömul í eina eða tvær slíkar ferðir. Heldur ákærði því fram að um einhvers konar mistök hafi verið að ræða af hans hálfu, en þá einnig hjá landmæravörðum, enda hefði það ekki verið C sem var með honum í öllum þessum fjórum ferðum heldur systir hennar, B. Þessu til skýringar hefur ákærði haldið því fram að hann hafi í misgripum haft með sér rangt vegabréf, en landamæraverðirnir síðan ekki gætt að því sem skyldi við störf sín.

            Brotaþolinn C hefur fyrir dómi greint frá því að í ferðum hennar með ákærða til […] hafi þau gist í hótelherbergjum á umræddu gistihúsi, að hún hafi þá verið látin sofa í sama rúmi og ákærði, að hún hafi við þær aðstæður verið nakin, líkt og ákærði, og að við þessar aðstæður hafi ákærði brotið gegn henni kynferðislega.

            Fyrir dómi hefur C lýst brotum ákærða og að því leyti staðhæft að hann hafi í raun reynt að stunda með henni kynlíf. Jafnframt hefur hún borið að ákærði hafi eftir brotin bannað henni að greina frá athæfinu. Um nánari atvik máls hefur C vísað til þess að langt sé um liðið og að hún hafi auk þess verið ung að árum, en af þeim sökum ætti hún erfitt með að skýra nákvæmlega frá brotum ákærða, en einnig hversu oft hann hefði brotið gegn henni. Nánar aðspurð bar hún að ákærði hefði ekki brotið gegn henni með lýstum hætti oftar en einu sinni í hverri ferð, og helst kvaðst hún ætla að ferðirnar sem hún fór ein með ákærða hefðu verið fleiri en tvær. Hún staðhæfði aftur á móti að ákærði hefði aldrei brotið gegn henni kynferðislega á heimilum þeirra í […].

            Ákærði hefur við alla meðferð málsins andmælt ásökunum C og þar með verknaðarlýsingu og sakarefni þessa ákæruliðar. Hann hefur á hinn bóginn staðfest frásögn C svo og systur hennar, brotaþolans B, að því er varðaði dvöl hans með stúlkunum í gistihúsinu […] í […] í […].

            Við meðferð málsins hefur ákærði borið um að samband hans við C hafi alla tíð verið með ágætum, en af þeim sökum kvaðst hann ekki hafa eiginlegar skýringar á ásökunum hennar. Í því sambandi nefndi hann þó að stúlkan hefði að líkindum orðið fyrir áhrifum frá öðrum, og þá helst systur sinni, B. Ákærði vísaði jafnframt til niðurstöðu fyrrnefndrar læknisrannsóknar, sem stúlkan hefði farið í í nóvember 2016, og að hann hefði veitt samþykki sitt fyrir þeirri skoðun og þá í tengslum við rannsókn lögreglu á máli þessu. Loks vísaði ákærði til þess að C hefði kúvent í frásögn sinni eftir að hún hafði verið vistuð á fósturheimili sumarið 2017, en það hefði verið sama heimilið og systir hennar, B, hafði þá verið á um tíma.

            Hér að framan hefur verið greint frá tildrögum þess að C var færð í Barnahús í byrjun apríl 2016 og yfirheyrð um ætluð kynferðisbrot ákærða. Liggur fyrir að það gerðist nær strax í kjölfar þess að systir hennar, B, hafði greint frá ætluðum brotum föður þeirra, ákærða.

            Fyrir dómi hefur af hálfu ákæruvalds verið vísað til þess að sérfróðir meðferðaraðilar hafi lýst aðstæðum C á ofangreindu tímabili og þá m.a. á þá leið að hún hafi verið miður sín og andlega niðurbrotin vegna þeirra aðstæðna, sem hún hefði búið við. Í þessu sambandi hefur m.a. verið vísað til eigin orða stúlkunnar og þar á meðal að þegar hún hafi gefið skýrslu sína í Barnahúsi, vorið 2016, hefði stjúpmóðir hennar, D, á ný verið komin inn á heimili fjölskyldunnar eftir fjögurra vikna brottvísun samkvæmt ákvörðun lögreglustjóra. Er í því viðfangi minnt á að ákvörðun lögreglustjórans hafði m.a. verið tekin í kjölfar ásakana C í garð D við yfirheyrslu í Barnahúsi, u.þ.b. mánuði fyrr, þann 1. mars 2016, og að það hafi síðan verið niðurstaða héraðsdóms samkvæmt dómi, uppkveðnum hinn 9. mars 2017, að D hefði endurtekið beitt stúlkuna líkamlegu ofbeldi. Loks hefur verið vísað til þess að systir C, brotaþolinn B, hefði er atvik máls gerðust verið farin af heimili fjölskyldunnar, að húsleit lögreglu hafði þá nýlega verið afstaðin og loks að faðir C, ákærði, hefði þá verið í haldi lögreglu vegna ásakana um kynferðisbrot gagnvart systur stúlkunnar, brotaþolanum B.

            Samkvæmt því sem fram kom við meðferð málsins, þ. á m. við skýrslugjöf brotaþolans B, en einnig í vætti vitnisins N, hafði C í kjölfar greindra atburða vorið 2016 lýst neikvæðri afstöðu sinni í garð systur sinnar, B, vegna þeirra ásakanna sem hún hafði þá borið upp í skýrslu hjá lögreglu um hin ætluð kynferðisbrot föður þeirra. Á síðari stigum og þar á meðal fyrir dómi hefur C gefið þær skýringar á þessari afstöðu sinni, en þá einnig varðandi skýrslugjöfina í Barnahúsi í byrjun apríl 2016, að hún hefði vegna lýstra atburða og hræðslu vegna eigin aðstæðna afráðið að tjá sig ekki um kynferðisbrot ákærða. Á síðari stigum hefði henni hins vegar snúist hugur og þá helst vegna þrýstings frá fyrrnefndum vinkonum, en einnig vegna breyttra aðstæðna að því er varðaði búsetu.

            Samkvæmt vætti vitnanna L og N fyrir dómi höfðu þær báðar hlýtt á frásögn C um að hún hefði á yngri árum sínum þurft að þola alvarlegt kynferðisbrot.

            Vitnið N hefur enn fremur borið að það hefði hlýtt á frásögn C í trúnaðarsamtali þeirra í millum, og þá um að það hefði verið ákærði sem hefði brotið gegn henni kynferðislega. Bar vitnið að þetta samtal hefði átt sér stað skömmu eftir að systur C, brotaþolanum B, hafði verið komið fyrir í fósturvistun í […] síðsumars 2016.

            Vitnið L hefur borið að það hefði fyrst hlýtt á nefnda frásögn C þegar þær voru saman í 9. bekk grunnskólans í sveitarfélaginu […]. Vitnið bar að á því tímaskeiði hefði C verið treg til að nafngreina gerandann, en í þess stað haft á orði að brotið hefði verið gegn henni í […]. Vitnið skýrði frá því að u.þ.b. mánuði eftir að C hafði verið komið af heimili sínu á […] hefði hún greint vitninu frá því að það hefði verið faðir hennar, ákærði, sem hefði brotið gegn henni kynferðislega í […].

            Það er álit dómsins, og þá í ljósi ofanrakinnar atburðarásar, en einnig með hliðsjón af efni áðurrakins rafbréfs C til starfsmanns barnaverndarnefndar í heimabyggð haustið 2017 svo og skýrslu hennar hjá lögreglu 26. október sama ár, að ekkert sé því til stuðnings að ásakanir hennar í garð ákærða hafi verið bornar fram af annarlegum hvötum. Þvert á móti standa líkur til þess, sbr. áðurrakin sérfræðigögn starfsmanna Barnahúss svo og vætti þeirra fyrir dómi, að C hafi á árinu 2016 verið andlega miður sín, en jafnframt að hún hafi vegna viðvarandi eigin erfiðleika og aðstæðna að einhverju leyti lagt traust sitt á ákærða og borið hlýhug til hans. Af þessum sökum hafi C lengst af ekki haft vilja til þess að málefni hennar og þar með brot ákærða kæmust í hámæli. Þá hefur að mati dómsins heldur ekkert komið fram um að systurnar C og B hafi haft sammæli sín í millum um að skýra frá brotum ákærða gegn þeim, en samkvæmt því sem áður var rakið skýrði hin fyrrnefnda fyrst frá brotum ákærða í tilfinningaþrungnum samræðum við trúnaðarvinkonur sínar. Að áliti dómsins styður frásögn vitnisins L enn fremur það að C hafi um síðir, og þá ekki síst fyrir áeggjan þess, afráðið að skýra barnaverndarnefndarstarfsmanni og síðar lögreglu frá kynferðisbrotum ákærða.

            Að ofangreindu virtu hafnar dómurinn skýringum og vörn ákærða að þessu leyti.

            Að áliti dómsins var framburður C trúverðugur fyrir dómi, þrátt fyrir að augljóst hafi verið að hún átti á köflum harla erfitt með að tjá sig um ætlaða háttsemi og brot ákærða vegna geðshræringar og að það hafi eftir atvikum leitt til þess að hún átti í erfiðleikum með að rifja upp einstök atvik máls. Í því viðfangi verður ekki horft fram hjá því að langt er um liðið og stúlkan var ung að árum þegar hún fór í umrædd ferðalög með ákærða. Að álit dómsins var frásögn C á hinn bóginn í öllum aðalatriðum í samræmi við skýrslur hennar hjá lögreglu og borin fram af einlægni. Að auki var góður samhljómur með frásögn hennar fyrir dómi og þeim lýsingum sem hún hafði áður viðhaft í trúnaðarsamtölum við áðurnefndar vinkonur. Í þessu samhengi telur dómurinn að líta beri til staðfestra vottorða tveggja kvensjúkdómalækna og þá ekki síst til vættis kvensjúkdómalæknisins M fyrir dómi. Í þessu viðfangi verður að áliti dómsins heldur ekki horft fram hjá skýrslum ákærða hér fyrir dómi, þ. á m. varðandi kynþörf og kynferðislegar hvatir og orð eiginkonu hans þar um, svo og með tilliti til þess að hann hefur í raun staðfest lýsingu C á aðstæðum og veru þeirra í fyrrnefndu gistihúsi í […], og loks hvernig atvikum og aðstæðum var háttað þegar hann að eigin sögn braut gegn elstu dóttur sinni í lok síðustu aldar og þá eftir að hann hafði verið dæmdur fyrir slíka háttsemi, sbr. fyrrnefndan dóm frá árinu 1991. Síðastnefnda atriðið verður ekki notað til sönnunar á broti ákærða samkvæmt þessum ákærulið, en getur gefið ákveðna vísbendingu um hvatir hans að þessu leyti.

            Í ljósi alls ofangreinds metur dómurinn frásögn og skýringar ákærða í aðalatriðum ótrúverðugar að því er varðar ásakanir stúlkunnar C.

            Það er niðurstaða dómsins að öllu ofangreindu virtu að ekki sé varhugavert að leggja trúverðugan og varfærnislegan vitnisburð stúlkunnar C til grundvallar í máli þessu. Er því sannað, þrátt fyrir neitun ákærða, að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í þessum tölulið ákæru greinir, í öllum aðalatriðum. Í ljósi framburðar C og óvissu hennar um fjölda brota ákærða, og þ. á m. að hann hafi ekki í öllum tilvikum brotið gegn henni í nefndum ferðum og að brotin hafi í raun gerst sjaldan, þá ber að áliti dómsins að skýra þá óvissu ákærða í hag.

            Að öllu ofangreindu virtu er að áliti dómsins eigi varhugavert að telja sannað að ákærði hafi brotið gegn dóttur sinni C í tvígang, annars vegar í eitt skipti á árinu 2011 og hins vegar í eitt skipti á árinu 2012, sbr. að því leyti sakaratriði þessa ákæruliðar, og að um hafi verið að ræða önnur kynferðismök en eiginlegt samræði, líkt og vikið var að í sókn og vörn við flutning málins. Brot ákærða varða að þessu virtu við 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með síðari breytingum.

 

7.         Brot ákærða samkvæmt 2. tölulið I. kafla og 7. tölulið III. kafla ákæru voru framin á árunum 2009-2012. Með lögum nr. 23/2016 var lögsögureglum 5. gr. laga nr. 19/1940 breytt á þann veg að samkvæmt 5. gr. laganna skyldi refsað eftir íslenskum lögum fyrir brot manns sem væri íslenskur ríkisborgari og væri framið erlendis, ef brotið varðaði við 194. gr. laga nr. 19/1940. Tilgreind brot ákærða voru framin fyrir gildistöku þessa ákvæðis og fer því um refsilögsögu eftir 2. mgr. 5. gr. laganna. Samkvæmt ákvæðinu skal refsa íslenskum ríkisborgara eftir íslenskum hegningarlögum, fyrir verknað framinn erlendis, ef brotið er framið á stað sem refsivald annars ríkis nær til að þjóðarrétti og var þá jafnframt refsivert eftir lögum þess ríkis. Á meðal gagna sem ákæruvaldið lagði fram við meðferð málsins eru skjöl, sem greina frá sambærilegum ákvæðum í […] og […] og 194. gr. laga nr. 19/1940, en að auki eru heimildir þar um aðgengilegar á veraldarvefnum. Með vísan til þessa eru að áliti dómsins uppfyllt skilyrði um tvöfalt refsinæmi samkvæmt 2 . mgr. 5. gr. laga nr. 19/1940. Með hliðsjón af þessu verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru og er háttsemi hans, eins og fyrr sagði, rétt heimfærð til refsiákvæða í fyrrnefndum töluliðum og köflum ákærunnar.

 

N.

            Ákærði, sem er … ára, hefur samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins ekki brotið af sér áður þannig að áhrif hafi á refsingu hans nú.

            Ákærði hefur í máli þessu verið sakfelldur fyrir kynferðisbrot gagnvart tveimur dætrum sínum, brotaþolunum B og C, þegar þær voru báðar barnungar á árunum 2009-2012. Að auki hefur ákærði verið sakfelldur fyrir endurtekin brot gegn 1. mgr. 232. gr. hegningarlaganna fyrir að virða ekki nálgunarbann gagnvart dóttur sinni B á árinu 2016.

            Brotin sem ákærði er sakfelldur fyrir eru alvarlegs eðlis, framin í skjóli trúnaðartrausts, en þau þykja m.a. sýna einbeittan brotavilja. Við ákvörðun refsingar ber að líta til 1., 2., 3., 6. og 7. tl. 1. mgr. 70. gr., 3. mgr. 70. gr. og a-liðar 1. mgr. 195. gr. almennra hegningarlaga, en einnig ber að tiltaka hana samkvæmt reglum 77. gr. sömu laga. Þykir refsing ákærða að þessu virtu hæfilega ákveðin fangelsi í fjögur ár. Til frádráttar refsingunni skal koma gæsluvarðhald ákærða, eins og segir í dómsorði.

 

            Í málinu eru hafðar uppi einkaréttarkröfur, sem getið er um í ákæru. Krafa brotaþolans B, sem er dagsett 23. nóvember 2016, var birt ákærða 13. febrúar 2017. Krafa brotaþolans C er dagsett 20. nóvember 2017, en hún var birt ákærða 29. sama mánaðar. Báðar kröfurnar voru reifaðar og rökstuddar við munnlegan málflutning af hálfu forráðamanns og skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Jónínu Guðmundsdóttur lögmanns. Er krafist miskabóta samkvæmt 26. gr. laga nr. 50/1993 með síðari breytingum.

            Ákærði hefur bakað sér bótaskyldu samkvæmt greindu lagaákvæði gagnvart brotaþolum. Við ákvörðun bóta verður litið til þess að fyrir liggja vottorð sálfræðinga og fleiri gögn sem benda eindregið til þess að báðir brotaþolar hafi orðið fyrir verulegri tilfinningaröskun og andlegum þjáningum, þ.m.t. áfallastreituröskun, vegna brota ákærða. Ber að ákvarða miskabæturnar að þessu virtu, en enn fremur í ljósi niðurstöðu dómsins um einstök sakaratriði. Að öllu þessu virtu verður ákærði dæmdur til að greiða brotaþolanum B 1.500.000 krónur í bætur, en brotaþolanum C, 3.000.000 króna, í báðum tilvikum með vöxtum eins og nánar greinir í dómsorði. Upphafstími dráttarvaxta er ákveðinn samkvæmt reglu 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38/2001.

 

            Ákæruvaldið hefur í máli þessu haft uppi kröfu um að ákærði verði dæmdur til að greiða allan sakarkostnað, sem samkvæmt sakarkostnaðaryfirliti héraðssaksóknara nemur 2.548.379 krónum. Yfirlitið er sundurliðað og rökstutt með fylgiskjölum. Er m.a. um að ræða ferðakostnaðarreikninga vitna að fjárhæð 289.512 krónur, reikninga vegna vottorða Barnahúss að fjárhæð 150.000 krónur. Þá er um að ræða sundurliðaða reikninga vegna starfa tilnefnds verjanda ákærða, Sigurðar Sigurjónssonar lögmanns, á rannsóknarstigi málsins ásamt útlögðum kostnaði hans, samtals að fjárhæð 1.682.307 krónur, en einnig er um að ræða viðbótarkostnað lögmannsins að fjárhæð 426.560 krónur, sbr. dskj. nr. 28 og dskj. nr. 34. Er til þess að líta að hinn síðarnefndi lögmaður var að ósk ákærða við upphaf meðferðar málsins fyrir dómi skipaður til starfans. Ákærði afturkallaði hins vegar á fyrstu stigum málsmeðferðarinnar þessa ósk sína, þann 6. febrúar 2018, en í framhaldi af því var núverandi lögmaður hans skipaður til starfans. Í ljósi þessa eru ekki efni til annars en að fallast á nefndan kostnað og er því ekki fallist á áðurgreind andmæli ákærða við flutning málsins vegna þessa kostnaðar.

            Auk ofannefnds sakarkostnaðar er um að ræða málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir dómi, Guðrúnar Bjargar Birgisdóttur lögmanns. Að auki fellur þar undir þóknun skipaðs réttargæslumanns beggja brotaþola, Jónínu Guðmundsdóttur lögmanns, við alla meðferð málsins, við rannsókn málsins hjá lögreglu og fyrir dómi.

            Við ákvörðun nefndra launa verður m.a. litið til umfangs málsins og sundurliðaðra skýrslna lögmanna þar um, en þau eru ákvörðuð að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar segir í dómsorði. Að auki verður að nokkru litið til þeirra sjónarmiða sem fram koma t.d. í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 290/2000 um hlutverk réttargæslumanna.

            Með vísan til 1. mgr. 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 68. gr. laga nr. 49/2016, og þá í ljósi niðurstöðu málsins varðandi einstök sakaratriði, verður ákærði dæmdur til að greiða helming sakarkostnaðar, en helmingur skal falla á ríkissjóð.

            Af hálfu ákæruvalds flutti málið Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari.

            Fyrir uppkvaðningu dómsins var gætt ákvæða 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008.

            Dóm þennan kveður upp Ólafur Ólafsson héraðsdómari.

 

D Ó M S O R Ð .

Ákærði, A, sæti fangelsi í fjögur ár. Til frádráttar refsingunni kemur gæsluvarðhald hans frá 4.-6. apríl 2016 og síðan óslitið frá 2. nóvember 2017.

            Ákærði greiði B 1.500.000 krónur í miskabætur, ásamt vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 22. nóvember 2011 til 13. mars 2017, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

            Ákærði greiði Jónínu Guðmundsdóttur, lögmanni og skipuðum fjárhaldsmanni og réttargæslumanni C, 3.000.000 króna í miskabætur, ásamt vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 28. júní 2011 til 29. desember 2017, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

            Ákærði greiði helming sakarkostnaðar, sem í heild er 7.713.053 krónur. Þar á meðal eru talin áðurgreind laun tilnefnds lögmanns, Sigurðar Sigurjónssonar, samkvæmt sakarkostnaðaryfirliti, svo og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðrúnar Bjargar Birgisdóttur lögmanns, 2.958.200 krónur, auk útlagðs kosnaðar hennar að fjárhæð 314.518 krónur, en einnig réttargæslulaun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Jónínu Guðmundsdóttur lögmanns, 1.707.480 krónur, auk útlagðs kostnaðar hennar að fjárhæð 184.476 krónur. Helmingur sakarkostnaðar greiðist úr ríkissjóði.