• Lykilorð:
  • Aðild
  • Ráðningarsamningur
  • Vinnulaun

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 13. október 2017 í máli nr. E-3797/2016:

 

Kristýna Králová

(Anna Lilja Sigurðardóttir hdl.)

gegn

R. Guðmundssyni ehf.

(Ómar Karl Jóhannesson hdl.)

 

Mál þetta sem höfðað var 2. desember 2016 var dómtekið eftir aðalmeðferð þess 5. október sl.

 

Stefnandi er Kristýna Králová, [...] og stefndi er R. Guðmundsson ehf., [...]

 

Stefnandi gerir þá kröfu að stefndi verði dæmdur til að greiða henni skuld að fjárhæð 2.323.553 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af 12.133 krónum frá 15. desember 2015 til 1. janúar 2016, af 45.457 krónum frá 1. janúar 2016 til 1. febrúar 2016, af 539.443 krónum frá 1. febrúar 2016 til 1. mars 2016, af 990.327 krónum frá 1. mars 2016 til 1. apríl 2016, af 1.451.062 krónum frá 1. apríl 2016 til 1. maí 2016, af 1.902.057 krónum frá 1. maí 2016 til 1. júní 2016, og af 2.323.553 krónum frá 1. júní 2016 til greiðsludags.

 

Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

 

Stefndi gerir aðallega þær kröfur að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Til vara gerir stefndi þær kröfur að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Í báðum tilvikum er gerð krafa um að stefnandi verði dæmd til að greiða stefnda máls­kostnað að skaðlausu.

 

I.

Stefnandi, sem er tékknesk, var ráðin til starfa á Hótel Adam á Skólavörðustíg í nóvember 2015 en stefnandi fullyrðir að hótelið sé rekið af stefnda. Stefndi heldur því hins vegar fram að þótt stefnandi skyldi starfa á Hótel Adam væri hún ráðin til vinnu hjá tékknesku félagi í eigu Ragnars Guðmundssonar, forsvarsmanns stefnda, Osbotn s.r.o. Aðdragandi þess að stefnandi hóf störf hér á landi var sá að vinkona hennar úti í Tékklandi þekkti Ragnar sem jafnframt rekur kaffihús þar í landi, Coffee 4 You, sem er í miðborg Prag. Eftir að stefnandi hafði lýst yfir áhuga á starfi hér á landi kom vinkona hennar á fundi með Ragnari út í Prag þar sem hann réði stefnanda til starfa á Hótel Adam. Að sögn stefnanda var samið um að stefnandi ynni hér í þrjá mánuði til að byrja með og fengi greiddar sem samsvaraði í kringum 300.000 kr. á mánuði auk þess sem Ragnar myndi útvega henni herbergi á hótelinu til að búa í. Ragnar pantaði flug fyrir stefnanda og greiddi fyrir. Stefnandi kom til landsins 5. nóvember 2015 og hóf störf á hótelinu daginn eftir. [........] Stefnandi kveðst hafa starfað í móttöku hótelsins auk þess sem hún hafi sinnt ræstingum í afleysingum. Hófst vinna stefnanda yfirleitt um hádegi að hennar sögn og sá hún um að loka hótelinu á kvöldin. Ekki var gerður skriflegur ráðningarsamningur við stefnanda. Stefnandi kveðst enga launaseðla hafa fengið afhenta fyrr en í kjölfar þess að hún óskaði eftir launauppgjöri í tengslum við starfslok sín hjá stefnda. Stefnandi mótmælir þeim launaseðlum sem forsvarsmaður stefnda hefur framvísað sem tilhæfulausum. Að sögn stefnda var það stefnandi sem óskaði eftir því við Ragnar að ekki yrði gerður skriflegur ráðningarsamningur milli hennar og Osbotn s.r.o. og hafi hann orðið við þeirri beiðni þótt honum þætti beiðnin sérkennileg. Forsvarsmaður stefnda segir að samist hafi um að stefnanda yrðu greidd föst laun upp á 242 þúsund krónur á mánuði fyrir fjóra vinnudaga í viku í 7 tíma í senn, sem legðist út á u.þ.b. 126 vinnustundir í mánuði. Jafnframt hafi stefnandi óskað eftir því að hluti af launum hennar yrði greiddur tilgreindum aðila í Tékklandi en stefnandi sagðist skulda honum tiltekna fjárhæð. Hafi stefnandi beðið Ragnar um að hitta viðkomandi persónulega til að greiða honum skuldina en stefnandi hafi ekki virst treysta sér til þess. Kveðst Ragnar hafa átt fund með viðkomandi aðila snemma árs 2016 þar sem skuldin var greidd.

 

Stefnandi kveðst ekki hafa fengið uppgjör heldur hafi forsvarsmaður stefnda greitt henni einhverjar smáupphæðir af og til tímabilið nóvember 2015 til apríl 2016. Í maímánuði 2016 óskaði stefnandi eftir uppgjöri á launum. Afhenti hún forsvarsmanni stefnda blað þar sem fram kom hvað hún taldi hann skulda sér og hvað ætti að koma til frádráttar. Þar sem illa gekk að fá svör ákvað stefnandi að hætta störfum hjá stefnda og leitaði í kjölfarið til lögreglunnar og Alþýðusambands Íslands. Fékk Efling-stéttarfélag málið á sitt borð frá sambandinu. Stefnandi kveður lögregluna hafa haft mál hennar til rannsóknar sem svokallað mansalsmál.

 

Eftir aðkomu Eflingar-stéttarfélags að málinu var farið yfir gögn stefnanda. Sendi stéttarfélagið stefnda launakröfu 13. júní 2016 þar sem gerð var krafa um greiðslu vangreiddra launa fyrir allan starfstíma stefnanda hjá stefnda. Byggði krafan á tímaskráningu stefnanda sjálfrar en stefnandi kveðst hafa samviskusamlega skráð vinnutíma sinn hvern dag. Engin viðbrögð urðu við kröfunni og var hún því afhent lögmanni félagsins til frekari innheimtu sem sendi bréf 14. júlí 2016. Í kjölfarið barst svarbréf stefnda frá 29. júlí 2016 þar sem fram kom að stefnandi hefði aldrei verið á launaskrá hjá stefnda. Var kröfu stefnanda því hafnað.

 

Forsvarsmaður stefnda kveður umsaminn vinnutíma stefnanda hafa verið að hennar ósk fjóra daga í viku, þ.e. þriðjudaga og fimmtu- til laugardaga, og þá frá kl. 14 á daginn til kl. 21 á kvöldin, eða 28 tíma í viku, en stefnandi hafi alls ekki viljað vinna á morgnana. Stefndi segir framangreinda vinnuskyldu hafa endurspeglast í vaktaskrá sem fyrirsvarsmaður stefnda hafi hengt upp í hótelinu í mánuði hverjum. Fyrirsvarsmaður stefnda, sem sinnir starfi hótelstjóra, kveðst sjálfur hafa viljað annast það að loka móttöku hótelsins sem sé opin til kl. 22 og það sé því rangt að stefnandi hafi séð um það. Stefnandi fékk herbergi í fasteign í eigu stefnda og fyrir það skyldi hún greiða stefnda 80 þúsund krónur í leigu á mánuði. Enginn samningur var gerður um leiguna, að sögn forsvarsmanns stefnda, vegna þess að stefnandi hafi ekki viljað gera neina skriflega samninga vegna veru sinnar á Íslandi. [..........].

 

Stefnanda voru að sögn forsvarsmanns stefnda greidd laun í reiðufé enda hafi hún ekki verið með bankareikning hér. Fyrir framangreinda vinnuskyldu var að sögn stefnda umsamið að heildarlaun stefnanda á mánuði yrðu 242.000 krónur en leiga samkvæmt framangreindu var dregin frá útborguðum launum. Stefndi mótmælir staðhæfingum um önnur kjör. Þá hafi ýmis kostnaður sem stefnandi hafi stofnað til verið dreginn frá launum hennar fyrir útborgun þeirra og nefnir forsvarsmaður stefnda t.d. sígarettukaup fyrir stefnanda í Tékklandi, kaup á tölvu í Tékklandi, kostnað við íslenskunám sem stefnandi hafi viljað fara í hjá Mími-símenntun, tannlæknakostnað stefnanda, kaup á flugmiðum og úttektir í Krambúðinni. Vegna slíks kostnaðar hafi því ekki verið mikið afgangs til útborgunar til stefnanda. Þess vegna hafi það verið að hún hafi fengið lágar upphæðir afhentar í reiðufé eins og lýst sé í stefnu.

 

Stefndi kveðst hafa lagt út fyrir flugmiða fyrir stefnanda til Tékklands en þangað hafi hún farið í frí 17.-24. maí auk þess sem stefnandi hafi fengið greiddar 65 þúsund krónur í bæði íslenskum og tékkneskum krónum til að hún gæti haft með sér reiðufé í ferðalagið. Á meðan stefnandi hafi dvalist í Tékklandi hafi byrjað að birtast fréttir í fjölmiðlum um meint mansal á hóteli stefnda sem höfðu mikil áhrif á starfsemi stefnda og hafi valdið honum umtalsverðu tjóni, bæði fjárhagslegu og einnig á orðspori. Stefndi telur augljóst að stefnandi hafi átt kveikjuna að umræddri umfjöllun í því skyni að refsa stefnda fyrir að greiða henni ekki það sem hún krafði hann um nokkrum dögum áður.

 

Stefndi bendir á að þótt stefnandi hafi hætt í vinnu hjá stefnda í maí 2016 hafi hún haldið áfram að búa þar ásamt kærasta sínum. Leigusamningur um það herbergi hafi runnið út 1. júní 2016 og hafi kærasta stefnanda borið að skila herberginu þann dag en það hafi hann ekki gert og hafi stefnandi dvalið ásamt honum í herberginu um fjögurra mánaða skeið án þess að greiða leigu. Stefndi kveður hegðun þeirra hafa farið mjög versnandi undir lok vistarinnar, samfara aukinni óreglu. Herbergið kveðst stefndi ekki hafa fengið til afnota fyrr en 17. september 2016 eftir aðkomu lögreglu.

 

II.

Stefnandi byggir á því að hún hafi verið í ráðningarsambandi við stefnda. Í nóvember 2015 hafi hún verið ráðin til starfa á Hótel Adam við Skólavörðustíg sem rekið sé af stefnda. Stefnandi hafi starfað sem almennur starfsmaður undir verkstjórn forsvarsmanns stefnda á starfsstöð hótels stefnda við hlið annarra starfsmanna hótelsins. Framlögð gögn styðji þetta með óyggjandi hætti.

 

Stefnandi byggir jafnframt á því að stefndi beri sönnunarbyrðina fyrir því að stefnandi hafi starfað á Hótel Adam fyrir annan en stefnda sem reki umrætt hótel. Mjög óeðlilegt sé að starfsmenn sem vinna hér á landi séu ráðnir til erlendra fyrirtækja. Enginn ráðningarsamningur né gögn hafi verið lögð fram sem staðfesti að svo sé í tilfelli stefnanda. Þá beri erlendum atvinnurekendum jafnt sem íslenskum að virða lágmarkskjör kjarasamninga sbr. 1. gr. nr. 55/1980 um starfskjör launafólks o.fl. Vísist hér til 4. gr. laga nr. 45/2007 um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra. Rétt sé að benda á að stefndi hafi ekki sýnt fram á að launauppgjör hafi farið fram við stefnanda í gegnum eitthvert annað félag.

 

Stefnandi gerir kröfu um greiðslu vangreiddra launa vegna alls starfstíma hennar hjá stefnda, frá 5. nóvember 2015 til 7. maí 2016. Byggi krafan á meginreglu vinnuréttarins um skyldu vinnuveitanda til að greiða starfsmanni laun fyrir alla þá vinnu sem hann innir af hendi. Taki krafan mið af tímaskráningu stefnanda sjálfrar vegna alls starfstíma hennar hjá stefnda en stefnandi hafi skráð vinnutíma hvern dag. Launakjör stefnanda hafi átt að fara eftir launaflokki 5 miðað við 1 ár í starfi skv. ákvæði 1.2.1 og 1.2.5 í kjarasamningi. Vísist hér jafnframt til 1. gr. um starfskjör launafólks o.fl., nr. 55/1980. Tímakaup árið 2015 hafi átt að vera 1.373,32 kr. í dagvinnu, 2.453,05 kr. í yfirvinnu og 3.247,90 kr. á stórhátíðardögum. Árið 2016 átti kaupið að vera 1.460,53 kr. í dagvinnu, 2.608,83 kr. í yfirvinnu og 3.454,15 kr. á stórhátíðardögum. Hvað vinnutíma varði vísist til 2. kafla í gildandi kjarasamningi. Stefndi hafi enga skrá haldið um vinnutíma starfsmanna sinna og sé því ljóst að hann hafi ekki virt ákvæði 1.11.5 í gildandi kjarasamningi. Verði því að leggja samtíma tímaskráningu stefnanda sjálfrar til grundvallar við útreikning kröfunnar.

 

Stefnandi gerir kröfu um greiðslu orlofs, 10,17% á heildarlaun stefnanda. Byggi krafan á ákvæðum 5. kafla gildandi kjarasamnings og laga nr. 30/1987 um orlof. Þá er krafist orlofsuppbótar vegna orlofsársins sem hófst 1. maí 2016. Samkvæmt ákvæði 1.5.2 í gildandi kjarasamningi, greiðist uppbótin þann 1. júní miðað við starfshlutfall og starfstíma á orlofsárinu, öllum starfsmönnum sem verið hafa samfellt í starfi hjá atvinnurekanda í 12 vikur á síðustu 12 mánuðum m.v. 30. apríl eða eru í starfi fyrstu viku í maí. Fullt ársstarf teljist í þessu sambandi 45 unnar vikur eða meira fyrir utan orlof. Áunna orlofsuppbót skuli gera upp samhliða starfslokum verði þau fyrir gjalddaga uppbótarinnar. Full uppbót hafi verið 44.500 kr. Við útreikning uppbótarinnar sé miðað við að stefnandi hafi áunnið sér rétt til greiðslu vegna 25 vikna. Samtals sé krafa stefnanda vegna vangreiddrar orlofsuppbótar því 24.722 kr.

 

Samkvæmt ákvæði 1.5.1 í gildandi kjarasamningi skuli desemberuppbót greidd eigi síðar en 15. desember ár hvert, miðað við starfshlutfall og starfstíma. Desemberuppbót miðist við hvert almanaksár. Árið 2015 hafi uppbótin m.v. fullt starf verið 78.000 kr. og 82.000 kr. árið 2016. Fullt ársstarf teljist í þessu sambandi 45 unnar vikur eða meira fyrir utan orlof. Desemberuppbót innifeli orlof, sé föst tala og taki ekki breytingum skv. öðrum ákvæðum. Við útreikning uppbótarinnar er miðað við að stefnandi hafi starfað samtals sjö vikur hjá stefnda árið 2015 og 18 vikur árið 2016.

 

Kröfu sína sundurliðar stefnandi því með eftirfarandi hætti:

 

                Nóvember 2015

DV          61 klst. * 1.373,32 kr.         kr.             83.773,-

YV          106 klst. * 2.453,05 kr.       kr.           260.023,-

                Samtals                                 kr.           343.796,-

                Áður greitt                             kr.           343.796,-

                Samtals                                 kr.                      0,-

 

                Desember 2015

DV          96 klst. * 1.373,32 kr.         kr.           131.839,-

YV          127 klst. * 2.453,05 kr.       kr.           311.537,-

SH          33,5 klst. * 3.247,90 kr.      kr.           108.805,-

                Samtals                                 kr.           552.181,-

                Áður greitt                             kr.           450.204,-

                Úttektir Krambúðin o.fl.     kr.             68.653,-

                Samtals                                 kr.             33.324,-

 

                Janúar 2016

DV          80 klst. * 1.460,53 kr.         kr.           116.842,-

YV          130 klst. * 2.608,83 kr.       kr.           339.148,-

SH          11 klst. * 3.454,15 kr.         kr.             37.996,-

                Samtals                                 kr.           493.986,-

 

                Febrúar 2016

DV          64 klst. * 1.460,53 kr.         kr.             93.474,-

YV          137 klst. * 2.608,83 kr.       kr.           357.410,-

                Samtals                                 kr.           450.884,-

 

                Mars 2016

DV          40 klst. * 1.460,53 kr.         kr.             58.421,-

YV          137 klst. * 2.608,83 kr.       kr.           357.410,-

SH          13 klst. * 3.454,15 kr.         kr.             44.904,-              

                Samtals                                 kr.           460.735,-

 

                Apríl 2016

DV          48 klst. * 1.460,53 kr.         kr.             70.105,-

YV          146 klst. * 2.608,83 kr.       kr.           380.889,-

                Samtals                                 kr.           450.994,-

 

                Maí 2016

DV          4 klst. * 1.460,53 kr.           kr.              5.842,-

YV          27 klst. * 2.608,83 kr.         kr.           70.438,-

                Samtals                                 kr.           76.280,-

 

                Samtals                                 kr.      1.966.203,-

 

Orlof 2.828.856 kr. * 10,17%, 287.695 kr. orlofsuppbót 44.500 kr./45 vikur * 25 vikur, 24.722 kr., desemberuppbót 2015, 78.000 kr./45 v. * 7 v. 12.133 kr. og vegna 2016, 82.000 kr./45 v. * 18 v. 32.800 kr. eða samtals í desemberuppbót 44.933 kr.

 

Til frádráttar kröfunni komi 794.000 kr. sem stefnandi viðurkenni að skulda stefnda sbr. eftirgreint. Hafi þeirri fjárhæð verið ráðstafað inn á elsta gjalddaga launa og sem innborgun á desemberlaun 2015. Um er að ræða skuld vegna flugmiða 70.000 kr., skólagjalda 40.000 kr., tölvu 50.000 kr., skuldar 135.000 kr., leigu o.fl. 6 mánuðir x 50.000 kr., alls 300.000 kr., móttekins reiðufé 180.000 kr. og tannlæknakostnaðar 19.000 kr.

 

Stefnandi kveðst hafa fengið afhent frá stefnda blað með yfirskriftinni „Kristyna – statement“ sem lagt er fram í málinu. Stefnandi mótmæli þeim kostnaðarliðum sem þar sé að finna að því marki sem það stangist á við það sem stefnandi hefur viðurkennt að skulda stefnda sbr. hér að framan. Sönnunarbyrði um réttmæti frádráttarliða hvíli á stefnda en hann hafi engin gögn lagt fram um þær fjárhæðir sem hann byggir á. Vísist hér til ákvæðis 1.11.5 í kjarasamningi. Þess beri þó að geta að stefnandi kannast við einhverjar úttektir í Krambúðinni sem stefndi hafi greitt fyrir hana. Kveðst hún hafa afhent forsvarsmanni stefnda allar kvittanir hvað það varðar og skorar á stefnda að leggja þær fram. Vísist hér jafnframt til þess að stefndi sé bókhaldsskyldur skv. lögum og beri því halda til haga gögnum um þann frádrátt sem hann byggi kröfu sína á.

 

Stefnandi krefst dráttarvaxta frá gjalddaga hverrar launagreiðslu til greiðsludags, þ.e. fyrsta hvers mánaðar miðað við eftirágreiðslu launa.

 

Stefnandi kveðst hafa verið félagsmaður í Eflingu-stéttarfélagi á því tímabili er krafa hennar stofnaðist. Vísað er til meginreglu vinnu-, kröfu- og samningaréttar um að laun beri að greiða í samræmi við umsamda launataxta skv. gildandi ráðningar- og/eða kjarasamningi. Vísist um réttindi stefnanda aðallega til 1., 2., 3., 4. og 12. kafla kjarasamnings félagsins. Jafnframt til laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks o.fl., 1. gr., laga nr. 28/1930 um greiðslu verkkaups, laga nr. 30/1987 um orlof, aðallega 1., 7., og 8. gr. og laga nr. 19/1979 um rétt launafólks til uppsagnarfrests o.fl. Byggt er á því að stefndi hafi vanefnt bindandi ráðningarsamning við stefnanda með því að greiða ekki umsamin laun og uppfylla aðrar samningsskyldur sínar. Samkvæmt framangreindum réttarheimildum og samningum sé greiðsluskylda stefnda ótvíræð. Um sönnun sé jafnframt vísað til stjórnunarréttar stefnda og þess að hann sé bókhaldsskyldur að lögum.

 

Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við reglur III. og V. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, með síðari breytingum. Krafan um málskostnað styðst við XXl. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

III.

Stefndi byggir kröfu sína um sýknu á aðildarskorti, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefnda sé ranglega stefnt þar sem stefnandi hafi verið starfsmaður tékkneska félagsins Osbotn s.r.o. en ekki stefnda á þeim tíma er hún var að störfum á Hótel Adam og því beri henni að beina launakröfum sínum á hendur því félagi en ekki á hendur stefnda. Stefndi vekur athygli á því að það sé rangt sem komi fram í stefnu að félagið reki kaffihúsið Coffee 4 You í miðborg Prag, heldur sé meginstarfsemi Osbotn s.r.o. sú að selja smávöru í gegnum netsíðuna www.icelandic-products.eu en félagið hafi einnig stöku sinnum haft milligöngu um að ráða erlent starfsfólk, sem hafi haft áhuga á því að vinna á Íslandi.

 

Byggir stefndi á því að þótt Ragnar Guðmundsson sé fyrirsvarsmaður bæði stefnda og hins tékkneska félags hafi hann á fundi sínum með stefnanda í Prag árið 2015, þar sem stefnandi var ráðin í vinnu, komið fram sem fyrirsvarsmaður tékkneska félagsins en ekki sem fyrirsvarsmaður stefnda. Aldrei hafi staðið til af hans hálfu að ráða stefnanda sem starfsmann stefnda en stefnandi hafi á fundinum aldrei spurst fyrir um það hvort félagið væri að ráða hana í vinnu. Vísist til framlagðra launaseðla í málinu útgefinna af Osbotn s.r.o. Það að ekki sé ráðningarsamningur fyrir hendi á milli aðila sé aðeins vegna þess að stefnandi hafi sett fram eindregna ósk í þá veru. Sú staða sé því alfarið á ábyrgð stefnanda.

 

Ef litið yrði á stefnda sem vinnuveitanda stefnanda og aðildarskorti hafnað þá telur stefndi að sýkna beri á grundvelli þess að stefnandi eigi enga kröfu á hendur honum þar sem stefnandi hafi fengið greitt að fullu í samræmi við ráðningarsamkomulag. 

 

Stefndi bendir á að stefnandi hafi unnið vaktavinnu á hótelinu og fengið greitt fyrir vinnu sína eftir þeim reglum sem um vaktavinnu gilda, sbr. ákvæði í grein 3.2 í gildandi kjarasamningi um störf hótelstarfsmanna.

 

Stefndi heldur því þannig fram að krafa stefnanda sé byggð á röngum útreikningum hvað varðar vinnulaun og þannig séu kröfur stefnanda um orlof, orlofsuppbót og desemberuppbót jafnframt rangar. Stefnandi hafi unnið fastar og fyrir fram ákveðnar vaktir á hótelinu 4 daga vikunnar, samtals 28 tíma á viku sem leggist út sem 70% starf. Þannig sé ekki hægt að miða við að stefnandi hafi unnið það sem skilgreint er sem tilfallandi vinna í kjarasamningnum og því sé hvorki rétt að miða við grein 1.2.1 né kafla 1.7 í honum. Telur stefndi að með því að reikna launakröfu sína upp á grundvelli þess að um tilfallandi vinnu hafi verið að ræða velji stefnandi þann kost sem leiði til miklu hærri kröfu en eðlilegt geti talist. 

 

Stefndi kveðst benda á að stefnandi hafi fengið greiddar umsamdar 242 þúsund krónur á mánuði, m.v. 28 tíma vaktavinnu á viku, sbr. framlagða launaseðla. Það sé nálægt því að vera lágmarkslaun skv. kjarasamningi fyrir fullt starf, 40 stundir í viku, sbr. grein 1.4 í kjarasamningi. Frá launum stefnanda hafi svo verið dregnar fjárhæðir sem lagðar hafi verið út fyrir stefnanda fyrir ýmiss konar uppihaldi, skólagjöldum o.fl. þess háttar sem og fyrir leigu á herbergi en mismuninn hafi stefnandi fengið afhentan í reiðufé. Stefnandi hafi þannig fengið greitt það sem eftir var af launum hennar þegar útgjöld hennar höfðu verið dregið frá þeim.

 

Um útreikning stefnda á launum vísist til vinnuyfirlits sem stefndi hefur tekið saman til skýringar sem sýnir umfang umsaminnar vinnuskyldu stefnanda á hótelinu. Sýni yfirlitið hvernig umsamin heildarlaun stefnanda séu reiknuð út miðað við vaktavinnu, sbr. grein 3.2 í kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Eflingar-stéttarfélags o.fl. vegna vinnu starfsfólks á veitinga- og gistihúsum og hliðstæðri starfsemi, sem gildi frá 1. maí 2015 til 31. desember 2018.

 

Stefndi bendir á að vaktafyrirkomulag sé alþekkt hjá starfsmönnum hótela og það að stefnandi hafi sinnt störfum sínum á hótelinu samkvæmt slíku fyrirkomulagi geti hvorki talist óvenjulegt né óeðlilegt. 

 

Þegar framlagt yfirlit stefnda sé skoðað megi sjá að útreikningur á launagreiðslum stefnda til stefnanda grundvallist á föstu vaktafyrirkomulagi. Þannig falli til eftirfarandi fjöldi vinnustunda sem falli í framangreinda flokka með eftirfarandi hætti skv. grein 3.2 í kjarasamningnum:

 

 

dagv.st.

33% álag

45% álag

90% álag

Samtals vinnust.

nóv.15

27

36

28

0

91

des.15

33

44

21

28

126

jan.16

36

48

35

7

126

feb.16

36

48

28

0

112

mar.16

39

52

28

7

126

apr.16

39

52

35

0

126

maí.16

9

12

7

0

28

SAMT.

219

292

182

42

735

 

 

Þá telur stefndi að þrátt fyrir að stefnandi hafi verið á föstum launum, en það fyrirkomulag hafi verið viðhaft til hægðarauka við útborgun launa, hafi hún ekki fengið of lítið greitt fyrir störf sín m.v. framangreindan útreikning stefnda á vaktalaunum stefnanda en eftirfarandi tafla sýni fram á það sem rétt hefði verið að greiða stefnanda ef hún hefði fengið greitt samkvæmt stífum útreikningi launa fyrir vaktavinnu skv. kjarasamningi samanborið við þau laun sem henni voru greidd skv. launaseðlum:

mánuður

dagvinnust.

33% álag

45% álag

90% álag

Samtals

laun skv. launaseðl.

nóv.15

37.080 kr.

65.755 kr.

55.757 kr.

0 kr.

158.591 kr.

193.600 kr.

des.15

45.320 kr.

80.367 kr.

41.818 kr.

73.061 kr.

240.565 kr.

242.000 kr.

jan.16

52.579 kr.

93.240 kr.

74.122 kr.

19.425 kr.

239.366 kr.

242.000 kr.

feb.16

52.579 kr.

93.240 kr.

59.298 kr.

0 kr.

205.117 kr.

242.000 kr.

mar.16

56.961 kr.

101.010 kr.

59.298 kr.

19.425 kr.

236.693 kr.

242.000 kr.

apr.16

56.961 kr.

101.010 kr.

74.122 kr.

0 kr.

232.093 kr.

242.000 kr.

maí.16

13.145 kr.

23.310 kr.

14.824 kr.

0 kr.

51.279 kr.

62.452 kr.

1.363.703 kr.

1.466.052 kr.

 

Miðað við framangreinda töflu megi sjá að stefnandi hafi í raun fengið hærri laun greidd en hún hefði fengið ef hún hefði fengið greitt einungis fyrir umsamda vinnuskyldu. Ekki sé því hægt að halda því fram að stefnandi hafi tapað á því fyrirkomulagi að fá greidd föst laun í stað vaktagreiðslna. Útborguð heildarlaun vegna vinnu stefnanda hefðu þannig átt að vera 920.965 kr. sbr. framlagða launaseðla, en frá þeirri tölu hafi stefndi dregið ýmsan kostnað sem stefnandi stofnaði til og stefndi hafi haldið saman. Með vísan til þessa telur stefndi að réttur útreikningur orlofs, orlofsuppbótar og desemberuppbótar sé með eftirfarandi hætti, miðað við þær forsendur um fjölda vikna sem stefnandi gefur sér við útreikning í stefnu, en stefndi telur að fjárhæðir krafna vegna þessara atriða séu rangar skv. þeim útreikningi. Stefndi telur réttan útreikning vera að orlof sé reiknað af 1.466.052 kr. x 10,17%, og sé þá 149.097 kr. Orlofsuppbót skuli reikna svo: 44.500 kr./45 vikur/70% starfshlutfall x 25 vikur, 17.305 kr. Desemberuppbót reiknist svo: 2015, 78.000 kr./45 vikur/70% starfshlutfall x 7 vikur, 8.493 kr. Vegna 2016, 82.000 kr./45 vikur/70% starfshlutfall x 18 vikur eða 22.960 kr. Samtals nemi þessir launaliðir alls 197.855 kr.

 

Eins og sjá má af framlögðu yfirliti hafi heildarfrádráttur frá launum numið 1.331.111 kr. en útborguð heildarlaun skv. launaseðlum numið 920.965 kr. Því hafi stefnandi fengið ofgreidd laun vegna vinnu sinnar sem nemi 410.146 kr.

 

Í greinargerð til dómsins taldi stefndi sig eiga á þessum grundvelli gagnkröfu sömu fjárhæðar á hendur stefnanda og væri heimilt að krefjast skuldajafnaðar hvað varðaði þær kröfur sem kynnu að vera ógreiddar að mati dómsins, t.a.m. orlofsgreiðslur, orlofsuppbót og desemberuppbót. Við aðalmeðferð var hins vegar fært til bókar að lögmaðurinn félli frá kröfu um skuldajöfnuð.

 

Þá mótmælir stefndi framlagðri tímaskrá stefnanda yfir unnar stundir á hótelinu sem rangri en skráin sé undirstaða útreiknings dómkröfu í stefnu. Stefndi telur að umrædd skrá sé búin til eftir á í stað þess að vera samtímaskrá eins og haldið er fram í stefnu. Fráleitt sé að halda því fram að stefnandi hafi unnið allt að 253,5 tíma í einum mánuði á vinnustað þar sem að heildarvinnustundir starfsfólks séu að meðaltali 280 stundir í mánuði en að meðaltali vinni þrír til fjórir starfsmenn í vaktavinnu eða hlutastarfi á hótelinu auk hótelstjóra. Þá kveðst stefndi jafnframt draga í efa að um samtímaskráningu sé að ræða á þeim forsendum að stefnandi hafi ekki á meðan hún starfaði á hótelinu haft aðgang að tölvu til að gera þá skrá sem liggur frammi í málinu.

 

Stefndi mótmælir fjárhæðum sem í stefnu eru annars vegar tilteknar sem viðurkenndar leigugreiðslur og hins vegar sem peningar sem stefndi hafi afhent stefnanda. Hvað varði leigugreiðslurnar þá bendi stefndi á að leiga á herberginu hafi verið 80 þúsund krónur á mánuði en ekki 50 þúsund krónur auk þess sem stefndi hafnar því alfarið að inni í mánaðarlegri leigufjárhæð hafi notkun stefnanda á tóbaki átt að vera innifalin. Til marks um leiguverð á herbergjum í eigu stefnda vísar stefndi til tveggja leigusamninga milli hans og annarra starfsmanna á hótelinu sem sýni fram á að 10 fm. herbergi hafi í september 2016 verið leigð út á 90 til 95 þúsund krónur á mánuði. Þá vísar stefndi jafnframt til þess að stefnandi hafi haft herbergið til ráðstöfunar frá nóvember 2015 til og með maí 2016 og hafi henni því borið að greiða fyrir sjö mánuði en ekki sex. Hvað varði það sem fram kemur í stefnu um hve mikið stefnandi fékk afhent í reiðufé vísar stefnandi til þess sem fram komi í yfirliti sem hann hefur lagt fram, en þar komi fram að stefnandi hafi móttekið samtals andvirði 360.000 kr. í reiðufé frá stefnda.

 

Vegna áskorunar í stefnu um framlagningu vísar stefndi til framlagðra kvittana frá Krambúðinni o.fl. ásamt yfirliti. Sýni þær að stefnandi tók út í Krambúðinni, og víðar, vörur eða þjónustu fyrir samtals 68.653 kr. á kostnað stefnda og gerir stefndi því kröfu til þess að tekið verði tillit til þeirrar fjárhæðar til lækkunar dómkröfu.

 

Stefndi vísar til þess að með því annars vegar að skemma tölvu í eigu stefnda og hins vegar að dvelja í herbergi í eigu stefnda í fjóra mánuði án þess að greiða fyrir það leigu hafi stefnandi valdið sér fjárhagslegu tjóni. Hvað tjón vegna herbergisins varðar telur stefndi að stefnandi hafi tekið þátt í að hafa af stefnda fjögurra mánaða leigu, eða samtals að lágmarki 380 þúsund krónur. Leigan hafi verið 95 þúsund krónur á mánuði og megi því reikna með því að stefndi hefði getað leigt herbergið út á sama verði. Þá hafi hlotist tjón og kostnaður af því fyrir stefnda að láta gera við tölvuna sem og herbergið og dyrastaf í hótelinu eftir að stefnandi og kærasti hennar hafi yfirgefið það loksins með látum. Þá sé ótalið það tjón sem orðspor hótelsins hafi orðið fyrir með þeirri fjölmiðlaumfjöllun um mansal á hótelinu sem stefnandi virðist hafa staðið fyrir án þess að nokkur fótur sé fyrir slíku. 

 

Með vísan til allra framangreindra atriða telur stefndi að sýkna beri hann af kröfu stefnanda um greiðslu.

 

Með vísan til sömu sjónarmiða gerir stefndi til vara þá dómkröfu að dómkrafa stefnanda verði lækkuð  verulega.

 

[.....] Sama telur stefndi að eigi við um framlagningu fréttar RÚV um málefni stefnda en umrædd frétt hafi ekkert sönnunargildi í málinu, hún sé aðeins lögð fram í sama skyni og áðurnefnd ósannindi og sé framlagningu hennar því jafnframt mótmælt.

 

Þá tekur stefndi fram að hann hafi ekki heyrt neitt frá lögreglu, Vinnueftirliti ríkisins né stéttarfélagi stefnanda vegna framangreinds þó að liðnir séu um 10 mánuðir frá því að málið hafi komið fram í fjölmiðlum. Þá sé því mótmælt sem röngu og ósönnuðu sem fram komi í stefnu að málefni stefnda hafi verið rannsökuð hjá lögreglu sem mansalsmál. Ekkert liggi frammi í málinu þessari staðhæfingu til staðfestingar.

 

Krafa stefnda um málskostnað styðst við XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. 

 

IV.

Stefnandi og Ragnar Guðmundsson, forsvarsmaður stefnda, gáfu aðilaskýrslu fyrir dómi.

 

Nokkur atriði eru ágreiningslaus í málinu. Þannig er ekki deilt um hvernig fundum stefnanda og forsvarsmanns stefnda bar saman í Prag þar sem sammælst var um að stefnandi kæmi til starfa á Íslandi. Þá er ekki ágreiningur um að stefndi sé sá aðili sem rekur Hótel Adam við Skólavörðustíg í Reykjavík. Ekki er heldur deilt um að stefnandi hafi verið starfsmaður á hótelinu og að hvorki hafi verið gerður við hana skriflegur ráðningarsamningur né skriflegur húsaleigusamningur um gistingu stefnanda á vegum stefnda. Þá eru lýsingar aðila á starfsskyldum stefnanda nokkuð samhljóða, þ.e. vinna á kaffihúsi sem þjónaði í raun einnig sem móttaka hótelsins, móttaka gesta og ræsting.

 

Stefndi krefst aðallega sýknu vegna aðildarskorts. Forsvarsmaður stefnda, Ragnar Guðmundsson, fullyrðir þannig að það hafi verið annað félag í hans eigu, tékkneska félagið Osbotn s.r.o, sem hafi ráðið stefnanda til vinnu og þar með átt að greiða henni laun. Stefndi eigi því enga aðild að málinu.

 

Eins og að framan greinir var enginn skriflegur samningur gerður í ráðningarsambandinu en það, segir Ragnar, hafa verið að ósk stefnanda vegna þess, eins og honum virtist, að hún hafi einhverra hluta vegna ekki viljað hafa undirrituð skjöl um fyrirhugað starf hennar á Íslandi.

 

Ekki verður séð að upplýst hafi verið um þessa sýn rekstraraðila hótelsins og Ragnars fyrr en með bréfi rituðu 29. júlí 2016 til lögmanns stefnanda þar sem kröfu á hendur félaginu var hafnað. Þar var reyndar ekki getið um Osbotn s.r.o., heldur var því einungis haldið fram að stefndi ætti enga aðild að samningi við stefnanda.

 

Dómurinn telur framlagða launaseðla sem bera með sér að hafa verið gefnir út af Osbotn s.r.o., ekki sanna að það félag hafi verið launagreiðandi og viðsemjandi stefnanda. Ekkert liggur fyrir um að félagið hafi gefið út launaseðla mánaðarlega og sent stefnanda, en því hefur hún neitað. Jafnframt er ekkert sem gefur til kynna að greiddur hafi verið tekjuskattur vegna launagreiðslna sem þó er dreginn frá á umræddum launaseðlum. Launaseðlarnir bera það og með sér að þeir hafi allir verið gefnir út sama dag eða 10. maí 2016, þegar vinnusambandinu var lokið. Engin gögn hafa verið lögð fram um skattgreiðslur af launum til stefnanda þótt samkvæmt öllum framlögðum seðlum sé gert ráð fyrir frádrætti á 36,2% tekjuskatti. Ekki er gert ráð fyrir persónuafslætti svo séð verði og ekki er getið fjölda vinnustunda hverju sinni eða einingaverðs. Engin gögn hafa heldur verið lögð fram um félagið Osbotn s.r.o. eða eignarhald Ragnars Sigurðssonar á því, eða úr bókhaldi þess félags.

 

Því eru engin rök eða gögn sem benda til þess að telja megi Osbotn s.r.o. réttan aðila málsins. Hins vegar er ágreiningslaust að stefndi er rekstraraðili Hótels Adams og stefnandi var launaður starfsmaður þar. Því verður að telja að stefnda sé réttilega stefnt í málinu og þurfi að svara kröfum stefnanda.

 

-----

 

Fyrir liggur eins og áður sagði að ekki var gerður skriflegur ráðningarsamningur með aðilum en á stefnda hvíldi kjarasamningsbundin skylda til þess að gera slíkan samning sbr. grein 1.13.1 í kjarasamningi milli Samtaka atvinnulífsins og Eflingar-stéttarfélags og Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur vegna vinnu starfsfólks á veitinga- og gistihúsum og hliðstæðri starfsemi sem gildir frá 1. maí 2015 til 31. desember 2018, sbr. og auglýsingu nr. 503/1997 um gildistöku tilskipunar Evrópusambandsins nr. 91/533/EBE frá 14. október 1991 um skyldu vinnuveitanda til að skýra launþegum frá samningsskilmálum eða ráðningarfyrirkomulagi. Af þeim ástæðum verður stefndi að bera hallann af skorti á sönnun um efni ráðningarsambandsins sbr. fjölmörg dómafordæmi í þá veru.

 

Enginn ágreiningur hefur verið um að framangreindur kjarasamningur gildi á milli aðila og því til marks hafa báðir aðilar lagt fram hluta af samningnum.

 

Það endurspeglar hluta af ágreiningi aðila að stefndi hefur einungis lagt fram 3. kafla samningsins sem fjallar um vaktavinnu. Stefnandi leggur ekki fram þennan kafla enda hafnar hún því að um vaktavinnu hafi verið að ræða. Af dómaframkvæmd, og almennum reglum, verður hér einnig ráðið að um þetta atriði beri stefndi einnig ótvíræða sönnunarbyrði. Enginn samningur liggur fyrir sbr. framangreint, en í kafla 3.1 er útfært með ítarlegum hætti hvaða skilyrði þarf að uppfylla til að vinnusamband teljist byggjast á vaktavinnu og sé um vaktavinnu að ræða skuli það koma fram í ráðningarsamningi starfsmanns. Jafnframt að tilgreina skuli tímalengd vaktar, vaktir skuli að jafnaði skipuleggja í fjórar vikur í senn og vaktaskrá skuli liggja fyrir. Ósannað er að þessum skilyrðum og öðrum samkvæmt 3. kafla hafi verið fullnægt. Þá saknar dómurinn þess miðað við málatilbúnað stefnda að þessu leyti og sem hefði einnig getað verið hjálplegt vegna annarra málsástæðna hans, að ekki skuli hafa verið kallaðir til samstarfsmenn stefnanda sem a.m.k. hafa verið þrír auk forsvarsmanns stefnda, og nokkurra starfsmanna sem voru á staðnum við byggingarvinnu í þágu stefnda að því er virðist, en framburði stefnanda um þetta var ekki mótmælt af stefnda. Þótt þeir starfsmenn sem unnu sannanlega á hótelinu hafi verið í hlutastarfi þá er ekki ólíklegt að þeir hefðu getað borið um vinnutilhögun og fleiri atriði á vinnustaðnum, m.a. um vaktatöflu sem forsvarsmaður stefnda sagði að hefði hangið uppi á vinnustaðnum og útreikningur launa hefði miðast við.

 

Með vísan til framangreinds verður talið ósannað gegn neitun stefnanda, að um vaktavinnu hafi verið að ræða.

 

Óumdeilt er að stefndi sinnti ekki þeim skyldum sem hvíla á honum samkvæmt grein 1.11.5 í framangreindum kjarasamningi um að halda saman vinnustundum starfsmanna. Ekki var rafræn skráning á vinnustundum starfsmanna eða stimpilklukka og ekki voru fylltar út vinnuskýrslur í tvíriti þar sem starfsmaður skal halda öðru eintakinu. Framburður forsvarsmanns stefnda um að vinnuskylda starfsmanna hafi verið rituð á töflu sem var á vegg í hótelinu er óstaðfestur enda vart skiljanlegt hvernig færslu af þessari töflu var komið til bókara félagsins í Prag til að útbúa launaseðla. Starfsmaður Osbotn s.r.o. var ekki kallaður fyrir dóm til að gefa skýrslu um hvernig launaseðlar voru útbúnir og hvernig hann hafi fengið upplýsingar um fjölda vinnustunda hjá stefnanda hverju sinni, eða hvaða breytingar hafi orðið á þessari skráningu á milli mánaða. Telja verður að það hafi staðið stefnda nær að halda utan um vinnustundir stefnanda einkum þar sem ljóst er að þær voru mismunandi milli daga sbr. framburð forsvarsmanns stefnda fyrir dómi. Sá framburður dregur og úr trúverðugleika þess að útgefnir launaseðlar af Osbotn s.r.o. hafi verið gefnir út mánaðarlega, enda byggja þeir allir á sömu forsendum, en ekki breytilegum tímafjölda.

 

Ragnar Guðmundsson fullyrti að hann keypti, eins og hann orðaði það, um 250-280 tíma á mánuði í heildina af starfsmönnum í allri starfseminni og því gæti það ekki staðist að stefnandi hefði unnið frá 190 til 250 tíma á mánuði. Stefndi lagði hins vegar engin gögn fram um þetta. Jafnframt eru engin gögn í málinu sem gefa að öðru leyti vísbendingu um umfang starfseminnar. Stefnandi taldi að herbergi í boði gætu verið um 24 á hótelinu og svo sex til viðbótar í öðru húsi. Ragnar Guðmundsson sagði þetta rangt, herbergi í skammtímaleigu væru einungis níu, önnur herbergi væru í langtímaleigu. Um þetta liggja þó engin gögn frammi.

 

Stefnandi hefur lagt fram í málinu yfirlit yfir unnar vinnustundir fyrir allt tímabilið sem hún vann hjá stefnda sundurliðað á daga. Samkvæmt framburði fyrir dómi og með hliðsjón af framlögðum gögnum en einnig að því athuguðu að stefndi hefur enga tilraun gert að mati dómsins til að hnekkja þessari skráningu, telur dómurinn ekki varhugavert að leggja skráningu stefnanda til grundvallar við úrlausn málsins. Ekkert styður heldur vangaveltur stefnda um að skráningin sé gerð eftir á. Ekki verður séð að fjöldi vinnustunda sé óeðlilegur miðað við það hvernig starfseminni hefur verið lýst og að fram kom að stefnandi hefði einungis starfað eftir hádegi fram að lokunartími kaffihússins, sem þjónaði einnig sem móttaka, sem var kl. 22:00.

 

Þrátt fyrir að stefndi hafi dregið í efa fjölda vinnustunda hafa engar athugasemdir verið gerðar við útreikning stefnanda á launum. Laun stefnanda miðast við lágmarkslaun samkvæmt framangreindum kjarasamningi og launatöflum. Erlendum jafnt sem innlendum atvinnurekendum ber að virða lágmarkskjör kjarasamninga sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Stefnandi hefur lagt fram gögn sem staðfesta útreikninga hennar og hefur enda stefndi ekki gert athugasemdir við forsendur hennar og útreikninginn sem slíkan. Verður því fallist á launakröfu stefnanda eins og hún er sett fram sbr. endanlega kröfugerð hennar.

 

Varðandi frádráttarliði hefur stefnandi viðurkennt að frá kröfunni beri að draga alls 794.000 krónur sbr. sundurliðun á frádráttarliðum í stefnu. Með breyttri kröfugerð og útskýringu við aðalmeðferð hefur stefnandi lækkað kröfu sína enn frekar eða um 68.653 krónur, á grundvelli yfirlits sem stefndi lagði fram með greinargerð sinni þar sem fram koma úttektir stefnanda á tímabilinu einkum úr Krambúðinni. Þær úttektir styðja reyndar meginniðurstöðu málsins um viðveru stefnanda og aðkomu stefnda að málinu.

 

Stefnandi gerir í frádrætti sínum ráð fyrir 50.000 króna leigu á mánuði í sex mánuði. Stefndi hefur mótmælt þessari fjárhæð og segir leiguna hafa verið 80.000 krónur. Sú skylda samkvæmt húsaleigulögum nr. 36/1994, að gera skriflegan leigusamning sbr. 4. gr. laganna, var vanrækt í samningssambandinu, en eftir 6. gr. hefði fjárhæðar húsaleigu verið getið þar. Tveir leigusamningar sem stefndi hefur lagt fram og gerðir voru síðar við aðra starfsmenn megna ekki að sanna að leigugjald sem stefnandi hafi átt að greiða hafi verið hærra en það sem hún sjálf viðurkennir, en ekkert hefur verið lagt fram um að gjaldið sé óeðlilegt miðað við húsnæðið sjálft og leigumarkaðinn.

 

Stefndi hefur einnig mótmælt þeirri fjárhæð sem stefnandi tiltekur til frádráttar vegna móttöku á reiðufé frá forsvarsmanni stefnda og segir þá fjárhæð vera mun hærri. Engar greiðslukvittanir voru gefnar út af þessu tilefni, eins og lá beint við með hliðsjón af greiðslufyrirkomulagi. Verður stefndi, að bera hallann af því, enda var honum í lófa lagið að binda greiðslu því skilyrði að hann fengi staðfest að hún hefði verið innt af hendi.

 

Aðrar kröfur stefnda um lækkun á stefnukröfum eru engum gögnum studdar og staðfesti lögmaður stefnanda við aðalmeðferð að krafa vegna leigu í fjóra mánuði eftir starfslok stefnanda, þegar hún dvaldi í herbergi kærasta síns, sem var með leigusamning við stefnda, væri ekki lengur höfð uppi. 

 

Þá féll lögmaður stefnda frá kröfu um að gagnkröfum hans yrði skuldajafnað við kröfur stefnanda. Er það enda svo að skuldajöfnun verður að öllu jöfnu ekki komið við gagnvart launakröfu sbr. 1. gr. laga nr. 28/1930, um greiðslu verkkaups.

 

Með vísan til alls framangreinds verður fallist á stefnukröfur málsins og stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 2.323.553 krónur ásamt vöxtum eins og nánar greinir í dómsorði en stefndi hefur engin rökstudd mótmæli haft uppi um vaxtakröfur stefnanda.

 

Að virtum þessum úrslitum verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað sem með hliðsjón af umfangi málsins og framlagðri tímaskýrslu telst hæfilegur 800.000 krónur þ.m.t. virðisaukaskattur.

 

Mál þetta flutti f.h. stefnanda Anna Lilja Sigurðardóttir héraðsdómslögmaður og fyrir hönd stefnda Ómar Karl Jóhannesson héraðsdómslögmaður.

 

Dóm þennan kveður upp Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari.

 

D Ó M S O R Ð:

Stefndi R. Guðmundsson ehf. greiði stefnanda Kristýna Králová, 2.323.553 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af 12.133 krónum frá 15. desember 2015 til 1. janúar 2016, af 45.457 krónum frá 1. janúar 2016 til 1. febrúar 2016, af 539.443 krónum frá 1. febrúar 2016 til 1. mars 2016, af 990.327 krónum frá 1. mars 2016 til 1. apríl 2016, af 1.451.062 krónum frá 1. apríl 2016 til 1. maí 2016, af 1.902.057 krónum frá 1. maí 2016 til 1. júní 2016 og af 2.323.553 krónum frá 1. júní 2016 til greiðsludags.

 

Stefndi greiði stefnanda 800.000 krónur í málskostnað.

 

Lárentsínus Kristjánsson