• Lykilorð:
  • Brot gegn valdstjórninni

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 9. október 2017 í máli nr. S-259/2017:

Ákæruvaldið

(Katrín Hilmarsdóttir saksóknari)

gegn

V

(Kolbrún Garðarsdóttir hdl.)

 

            Mál þetta, sem dómtekið var 21. september sl., er höfðað með ákæru útgefinni af héraðssaksóknara 11. apríl 2017 á hendur V, fyrir brot gegn valdstjórninni, með því að hafa föstudaginn 9. september 2016, í anddyri Landspítalans við Eiríksgötu í Reykjavík, hrint X, geislafræðingi á spítalanum, utan í tauvagn með þeim afleiðingum að hún datt í gólfið og hlaut tognun og ofreynslu á hálshrygg og tognun á axlarlið.

            Þetta er talið varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

            Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

            Af hálfu brotaþola er þess krafist í ákæru að ákærði verði dæmdur til að greiða henni skaðabætur að fjárhæð 866.259 krónur auk vaxta af 51.800 krónum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og af 750.000 krónum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 9. september 2016 til 27. nóvember 2016, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga af 866.259 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði neitar sök. Verjandi ákærða krefst aðallega sýknu en til vara vægustu refsingar er lög leyfa. Þá er þess krafist að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi, ellegar að skaðabætur verði lækkaðar. Loks er þess krafist að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.

 

Föstudaginn 9. september 2016, kl. 11.36, fékk lögregla boð um fara að Landspítala háskólasjúkrahúsi við Hringbraut en þaðan hafði verið óskað aðstoðar lögreglu vegna einstaklings er hrint hefði starfsmanni spítalans fyrir innan inngang í spítalann þar sem sjúkrabifreiðar kæmu að. Fram kemur að er lögregla hafi mætt á staðinn hafi ákærði verið hjá öryggisvörðum í anddyri spítalans. Hafi hann virkað illa áttaður og undir áhrifum áfengis- eða vímuefna. Skömmu eftir komu hafi ákærði orðið æstur sem leitt hafi til þess að lögregla hafi þurft að handjárna hann. Eiginkona ákærða hafi verið á staðnum. Hún hafi tjáð lögreglu að ákærði hafi nauðsynlega þurft að komast að heiman og hún fylgt honum. Þau hafi farið á Landspítalann. Fram kemur að lögregla hafi rætt við X geislafræðing, starfsmann Landspítalans, brotaþola í máli þessu. Hún hafi tjáð lögreglu að hún hafi verið á leið framhjá aðstöðu öryggisvarða og ekki vitað fyrr en ákærði hafi hrint henni og hún lent utan í einhverju. X hafi virst vera í töluverðu uppnámi og kennt sér meins í baki. Farið hafi verið með ákærða á bráðamóttöku geðsviðs Landspítala þar sem hjúkrunarfræðingur hafi rætt stuttlega við ákærða. Hafi það verðið mat starfsfólks að ekki væri unnt að taka á móti ákærða vegna vímuástands hans og hafi hann í framhaldi verið fluttur á lögreglustöð.

Fimmtudaginn, 15. september 2016, mætti brotaþoli á lögreglustöð og lagði fram kæru á hendur ákærða fyrir líkamsárás frá föstudeginum 9. s.m. og greindi þá frá atvikum málsins. Sérfræðingur á slysa- og bráðamóttöku Landspítala hefur, þann 8. nóvember 2016, ritað læknisvottorð vegna komu brotaþola á spítalann, 9. september s.á. Í vottorðinu kemur fram að brotaþoli hafi verið greind með tognun og ofreynslu á hálshrygg og tognun á axlarlið. Tekið er fram að áverkar hafi í sjálfu sér verið mildir en hefðu haft talsverð andleg áhrif á brotaþola.

 

Ákærði hefur greint svo frá að hann hafi mætt til vinnu kl. 8.00 að morgni föstudagsins 9. september 2016. Hann hafi sofið lítið um nóttina, notað áfengi og amfetamín og fleiri efni. Hafi hann verið farinn að heyra raddir og orðið hræddur um að ástand hans myndi versna. Hann hafi beðið vinnufélaga sinn  um að leysa sig af, en vinnufélaginn ekki getað það. Ástand hans hafi farið versnandi og hafi hann því haft samband við eiginkonu sína og beðið hana um að aðstoða sig við að komast á geðdeild Landspítala. Hún hafi komið ásamt dóttur þeirra og þau hafi farið upp á spítala. Þau hafi farið inn á röngum stað og allt virkað á einhvern veg óeðlilegt og hann hlaupið á eftir einhverjum manni. Hann hafi sest niður og farið að gráta. Þá hafi hann séð lögreglu koma og í því staðið á fætur og hlaupið í burtu. Hann hafi óvart hlaupið á konu sem hafi dottið. Hann hafi ekki hrint henni viljandi. Öryggisverðir hafi komið á móti honum og hann sest niður og grátið. Hann kvaðst hafa komið á Landspítala þennan dag til að leita sér hjálpar en honum hafi liðið mjög illa.

Brotaþoli kvaðst starfa sem geislafræðingur á Landspítalanum. Umrætt sinn hafi hún verið á leið úr matsal spítalans inn á röntgendeild með matarbakka í hendi. Er hún hafi verið á móts við aðstöðu öryggisvarða við inngang þar sem sjúkrabifreiðar komi að spítalanum hafi hún heyrt einhver læti og séð mann hjá öryggisvörðunum. Hún hafi hægt á sér til að athuga hvort hún gæti aðstoðað eitthvað en síðan ákveðið að ganga áfram ganginn í átt að röntgendeild. Er hún hafi verið komin aðeins frá hafi hún heyrt öskur og hratt fótatak fyrir aftan sig. Það hafi verið maðurinn sem hafi verið hjá öryggisvörðunum en hann hafi hrint henni með höndum utan í tauvagn. Við það hafi hún fengið slink á bakið. Hún hafi fallið í gólfið og fundist hún ekki geta andað. Þetta hafi verið mjög óþægileg tilfinning. Hægt og rólega hafi hún áttað sig á aðstæðum. Hún hafi álengdar séð sama mann, ásamt konu og barni. Brotaþoli kvaðst hafa verið klædd í vinnufatnað sinn umræddan dag. Hafi brotaþola liðið illa andlega eftir atvikið og hún ekki að fullu jafnað sig líkamlega eftir fallið og verið einhverjar vikur frá vinnu vegna atviksins.

A kvaðst hafa starfað sem öryggisvörður á Landspítala er atvik hafi átt sér stað. Þennan dag hafi kona með barn komið inn í spítalann um innganginn við Eiríksgötu. Maður sem hafi verið með konunni í för hafi verið fyrir utan. Maðurinn hafi síðan komið inn og verið mjög æstur. Annar öryggisvörður hafi komið að og hafi A ætlað að hringja á lögreglu. Hann hafi teygt sig í síma í aðstöðunni en við það hafi maðurinn tekið á rás inn spítalann. Maðurinn hafi horfið A sjónum og hann því ekki séð það sem næst hafi gerst. Hinn öryggisvörðurinn, B, hafi farið á eftir ákærða og hafi hann, ásamt öðrum manni, stöðvað för mannsins og komið með hann í aðstöðu öryggisvarða. Á meðan beðið hafi verið eftir lögreglu á staðinn hafi brotaþoli verið hjá eiginkonu mannsins og barni.

B kvaðst hafa starfað sem öryggisvörður á Landspítala greint sinn og verið í aðstöðu öryggisvarða ásamt A. Hafi þeir orðið varir við einhver læti fyrir utan spítalann og séð konu með barn sitt. Þeir hafi farið út þar sem þeir hafi talið að einhverjar erjur væru í gangi á milli konunnar og manns hennar sem hafi verið með henni í för. Konan hafi sagt að maðurinn væri hjálpar þurfi. B hafi rætt við þau innandyra og fram hafi komið að maðurinn vildi fara á geðdeild. Þar hafi hins vegar ekki verið búið að opna þennan dag. Maðurinn hafi öskrað og töluverður hávaði verið í gangi. Skyndilega hafi maðurinn tekið á rás inn gang spítalans og á þeirri leið hrint brotaþola frá sér þar sem hún hafi verið á gangi. Brotaþoli hafi verið í vegi mannsins og hann hafi notað báðar hendur við hrindinguna. Brotþoli hafi skollið utan í þvottavagn og vegg. B kvaðst hafa farið á eftir manninum en annar starfsmaður spítalans komið á móti þeim. Þeir hafi í sameiningu náð að stöðva manninn og halda honum þar til lögregla hafi mætt á svæðið og tekið við honum.

Eiginkona ákærða lýsti því að ákærði hafi hringt í sig þennan morgun. Hafi honum liðið illa og öskrað og grátið. Hún hafi sagt að hún skyldi skutla honum á Landspítala. Þangað hafi þau farið. Ákærða hafi liðið það illa að hann hafi hlaupið um allt. Öryggisverðir spítalans hafi komið til aðstoðar þar sem ákærði hafi verið brjálaður. Hún hafi ekki séð er ákærði hafi átt að ýta við brotaþola.

Lögreglumaður er kom á Landspítala þennan dag og hafði afskipti af ákærða kom fyrir dóminn og gerði grein fyrir aðkomu lögreglu að málinu. Kvað hann ástand ákærða þennan dag hafa verið þannig að ekki hafi verið unnt að ná sambandi við hann. Ástæða þess hafi getað verið neysla áfengis eða vímuefna eða andlegt ástand hans.

 

Niðurstaða:

Ákærða er gefið að sök brot gegn valdstjórninni með því að hafa hrint geislafræðingi á Landspítala utan í tauvagn með þeim afleiðingum að hún hafi dottið í gólfið, hlotið tognun og ofreynslu á hálshrygg og tognun á axlarlið. Er brot ákærða talið varða við 1. mgr. 106. gr. laga nr. 19/1940. Ákærði neitar sök. Kveðst hann ekki hafa haft ásetning um að valda brotaþola líkamstjóni. Hafi hann óvart rekist utan í brotaþola með þeim afleiðingum að hún hafi fallið. Ákærði kvaðst hafa átt mjög erfitt andlega þennan dag en hann hafi verið að leita sér hjálpar á spítalanum þar sem hann hafi verið með miklar ofskynjanir.    

Ekki er annað komið fram en að ákærði sé sakhæfur. Með framburði brotaþola og öryggisvarðarins B er sannað að ákærði hafi hrint brotaþola á spítalanum umrætt sinn. Fær það einnig stoð í framburði ákærða sjálfs, sem hefur viðurkennt að hafa rekist á starfsmann spítalans sem hafi dottið. Ákærða mátti ljóst vera að slys gæti hlotist af þeirri háttsemi að hlaupa um ganga Landspítalans og hrinda þar starfsmanni spítalans. Er skilyrðum ákvæða 1. mgr. 106. gr. laga nr. 19/1940 um ásetning fullnægt. Með hliðsjón af því verður ákærði sakfelldur samkvæmt  ákæru og er háttsemi hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.

            Ákærði er fæddur í mars 1985. Hann hefur ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi svo kunnugt sé. Við ákvörðun refsingar er til þess að líta að ákærði var að leita sér aðstoðar á Landspítala vegna ofskynjana er hann glímdi við. Með hliðsjón af því að áverkar brotaþola voru samkvæmt læknisvottorði mildir, er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 2 mánuði, sem í ljósi sakaferils ákærða þykir unnt að skilorðsbinda með þeim hætti er í dómsorði greinir.

            Af hálfu brotaþola er gerð krafa um skaðabætur, sem  tekin  er upp í ákæru, að fjárhæð 866.259 krónur, auk vaxta og málskostnaðar. Er bótakrafan þannig saman sett að gerð er krafa um þjáningabætur að fjárhæð 51.800 krónur samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og 750.000 króna í miskabætur samkvæmt 26. gr. laga nr. 50/1993. Þá er gerð krafa um málskostnað. 

Við aðalmeðferð málsins var til viðbótar gerð krafa um sjúkrakostnað og annað fjártjón samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 50/1993, samtals að fjárhæð 64.459 krónur. Þessarar kröfu var ekki getið í ákæru og hefur ákærði ekki veitt samþykki sitt fyrir því að krafan komist að, sbr. 173. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Verður þeim kröfulið því vísað frá dómi.

Þjáningabætur samkvæmt 3. gr. laga nr. 50/1993 verða teknar til greina eins og þeirra er krafist, en fyrir dóminum liggja gögn um veikindi og óvinnufærni brotaþola. Ekki kemur til frádráttar greiðslu þessara bóta vegna slysatryggingar samkvæmt 8. gr. samkomulags fjármálaráðherra og félags geislafræðinga, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1993, þar sem umrædd slysatrygging fellur ekki undir ákvæði 4. mgr. 5. gr. sömu laga.

Ákærði hefur með ólögmætri háttsemi sinni valdið brotaþola miskatjóni samkvæmt 26. gr. laga nr. 50/1993. Samkvæmt fyrirliggjandi læknisvottorði sérfræðings á slysa- og bráðamóttöku Landspítala, sem áður var gerð grein fyrir, er tekið fram að áverkar brotaþola hafi í sjálfu sér verið mildir en hefðu haft talsverð andleg áhrif á brotaþola. Brotaþoli hefur til viðbótar lagt fram læknisvottorð heilsugæslulæknis, frá 24. apríl 2017, þar sem fram koma atriði um vanlíðan brotaþola í kjölfar árásarinnar og óvinnufærni. Í vottorðinu er greint frá því að brotaþoli hafi farið í viðtöl hjá sjúkrahúspresti, en þau viðtöl hafi hjálpað henni. Þá kemur fram um kvíða af hálfu brotaþola í viðtali 4. nóvember 2016. Einnig er lýst síðari komum brotaþola þar sem vanlíðan er tilgreind. Þá liggur fyrir vottorð geðlæknis um brotaþola, frá 29. maí 2017, þar sem m.a. er lýst svefntruflunum og þunglyndiseinkennum í kjölfar árásarinnar. Með hliðsjón af framangreindum vottorðum um andlega líðan brotaþola í kjölfar árásarinnar eru miskabætur ákveðnar 400.000 krónur. Um vexti og málskostnað fer sem í dómsorði greinir. 

Ákærði greiði sakarkostnað samkvæmt yfirliti og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem nánar greinir í dómsorði

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Katrín Hilmarsdóttir saksóknari.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

                                                              D ó m s o r ð :

            Ákærði, V, sæti fangelsi í tvo mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

            Ákærði greiði X 451.800 krónur í skaðabætur, ásamt vöxtum ,samkvæmt 16. gr. laga nr. 50/1993, af 51.800 krónum og samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 af 400.000 krónum, frá 9. september 2016 til 18. júní 2017 en með dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af fjárhæðinni frá þeim degi til greiðsludags. Ákærði greiði brotaþola 200.000 krónur í málskostnað.

Kröfu um sjúkrakostnað og annað fjártjón samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 50/1993 að fjárhæð 64.459 krónur, er vísað frá dómi.

            Ákærði greiði 558.543 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kolbrúnar Garðarsdóttur héraðsdómslögmanns, 518.543 krónur.

 

                                                            Símon Sigvaldason.