• Lykilorð:
  • Brot gegn valdstjórninni
  • Húsbrot
  • Fangelsi
  • Sekt dæmd og fangelsi sem vararefsing
  • Skilorð
  • Sýkna

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 16. febrúar 2011 í máli nr. S-149/2010:

Ákæruvaldið

(Lára V. Júlíusdóttir settur ríkissaksóknari)

gegn

Andra Leó Lemarquis

(Brynjar Níelsson hrl.)

A

(Tryggvi Agnarsson hdl.)

B

(Tryggvi Agnarsson hdl.)

D

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

E

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

G

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

H

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

F

(Bjarni Eiríksson hdl.)

og

Þór Sigurðssyni

(Brynjar Níelsson hrl.)

 

 

            Ár 2011, miðvikudaginn 16. febrúar, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af héraðsdómurunum Pétri Guðgeirssyni (dómsformanni), Arngrími Ísberg og Jóni Finnbjörnssyni, kveðinn upp dómur í sakamálinu nr. 149/2010:  Ákæruvaldið (Lára V. Júlíusdóttir) gegn Andra Leó Lemarquis (Brynjar Níelsson hrl.), A (Tryggvi Agnarsson hrl.), B (Tryggvi Agnarsson hrl.), D (Ragnar Aðalsteinsson hrl.), E (Ragnar Aðalsteinsson hrl.), G, (Ragnar Aðalsteinsson hrl.), H (Ragnar Aðalsteinsson hrl.), F (Bjarni Eiríksson hrl.) og Þór Sigurðssyni (Brynjar Níelsson hrl.), sem tekið var til dóms hinn 20. janúar sl., að aflokinni aðalmeðferð.

            Málið er höfðað með ákæru setts ríkissaksóknara, dagsettri 1. mars 2010, á hendur ákærðu, Andra Leó Lemarquis, kt. 000000-0000, Garðastræti 13, Reykjavík, A, kt. 000000-0000 […], B, kt. 000000-0000, […], D, kt. 000000-0000, […], E, kt. 000000-0000, […], G, kt. 000000-0000, […], H, kt. 000000-0000, […], F, kt. 000000-0000, […] og Þór Sigurðssyni, kt. 000000-0000, Vitastíg 14, Reykjavík.

 

                                                                                    „I.

Gegn ákærðu öllum fyrir brot gegn Alþingi, brot gegn valdstjórninni, almannafriði og allsherjarreglu og húsbrot með því að hafa, þann 8. desember 2008, ásamt hópi óþekktra manna, í heimildarleysi ruðst inn í Alþingishúsið við Austurvöll meðan á þingfundi stóð.  Til að komast inn í Alþingshúsið og áleiðis upp á þingpalla veittust ákærðu að þingvörðunum Maríu Ditas de Jesus, kennitala 000000-0000, Vilhjálmi Gunnari Jónssyni, kennitala 000000-0000, Brynjari Nikulási Benediktssyni, kennitala 000000-0000, og Guðfinnu Gísladóttur, kennitala 000000-0000, með ofbeldi og hótun um ofbeldi og ofríki, en þingvörðunum var haldið, þeim ýtt úr vegi og þeir hindraðir við störf sín.  Ruddust ákærðu inn í húsið og upp stiga að þingpöllum og veittust með sama hætti að þingvörðunum Þormóði Sveinssyni, kennitala 000000-0000, og Kjartani Egilssyni, kennitala 000000-0000, og lögreglumanninum Kristni Pedersen, kennitala 000000-0000, í þeim tilgangi að komast upp á þingpalla.  Með háttsemi sinni rufu ákærðu friðhelgi Alþingis og starfsfrið auk þess sem öryggi Alþingis var hætta búin.  Allt eins og nánar er lýst í liðum 1-5:

1.      Ákærði Þór tálmaði þingverðinum Maríu í störfum sínum með því að halda austurdyrum á Alþingishúsinu opnum þrátt fyrir að María reyndi að loka þeim.

2.      Ákærði Andri Leó veittist að þingverðinum Maríu aftan frá, ýtti henni út úr húsinu og hélt henni fastri með aðstoð óþekkts einstaklings svo mannsöfnuðurinn, þar með talin meðákærðu, gæti óhindrað ruðst inn í húsið.

3.      Ákærða G ýtti við þingverðinum Vilhjálmi til að komast sjálf inn í Alþingishúsið og tók í þingvörðinn Brynjar og hélt honum til að greiða fyrir leið að stiganum.  Enn fremur tók hún um þingvörðinn Guðfinnu, ýtti henni úr vegi og hélt henni er þingvörðurinn reyndi að varna mannsöfnuðinum inngöngu.

4.      Ákærði Andri Leó veittist,  ásamt tveimur óþekktum mönnum, að þingverðinum Vilhjálmi í störfum sínum er þingvörðurinn reyndi að varna mannsöfnuðinum inngöngu, ýtti honum og hélt honum föstum upp við vegg.

5.      Ákærði Andri Leó braust kröftuglega um er þingvörðurinn Vilhjálmur reyndi að koma honum út og í átökunum ýtti hann með hægri handlegg sínum í þingvörðinn Maríu svo hún féll aftur fyrir sig á miðstöðvarofn í anddyrinu.

6.      Er ákærðu, ásamt hópi óþekktra manna, ruddust upp stiga að þingpöllum vörnuðu þingverðirnir Þormóður og Kjartan ásamt lögreglumanninum Kristni þeim frekari uppgöngu og skömmu síðar komu þingverðirnir Brynjar og Guðfinna þeim til hjálpar, en mannsöfnuðurinn, þar með talin ákærðu, reyndi að komast fram hjá þeim með því að ýta við þeim, ryðjast og klifra yfir þá.  Ákærði E, ásamt óþekktri konu, komst upp á þingpalla og þar hrópaði hann á þingmenn að koma sér út.

Afleiðingar atlögunnar voru þær að María Ditas de Jesus hlaut tognun á hálsi, hálshrygg, brjóst- og lendhrygg og mar á brjóstkassa, Brynjar Nikulás Benediktsson hlaut tognun á vinstri öxl, Guðfinna Gísladóttir hlaut mar á báðum upphandleggjum, mar á hægra læri og eymsli í hnakka, Þormóður Sveinsson hlaut væga tognun í hnakka og Kristinn Pedersen hlaut áverka á hægra þumli og hægra hné og er varanleg læknisfræðileg örorka hans metin 8%.

Telst háttsemi ákærðu varða við 1. mgr. 100. gr., 1. mgr. 106. gr., 107. gr., 1. og 2. mgr. 122. gr. og 231. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

                                                                                    II.

Gegn ákærða Andra Leó fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa, í kjölfar þess sem lýst er í I. kafla ákæru, ráðist á lögreglumennina Albert Örn Sigurðsson, kennitala 000000-0000, og Stellu Mjöll Aðalsteinsdóttur, kennitala 000000-0000, bitið Albert Örn í vinstri hönd og bitið Stellu Mjöll í vinstri öxl.  Við þetta hlaut Albert Örn mikil eymsli, roða og bólgu í vinstri hendi og Stella Mjöll mar aftan á vinstri öxl.

Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

                                                                                    III.

Gegn ákærða E fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa, í kjölfar þess sem lýst er í I. kafla ákæru, reynt að frelsa handtekinn mann úr höndum lögreglumannsins Ellerts Björns Svavarssonar er lögreglumenn voru að flytja handtekna aðila út úr Alþingishúsinu við inngang á afturhlið hússins.

Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

                                                                                    IV.

Gegn ákærðu H fyrir brot gegn lögreglulögum með því að hafa, í kjölfar þess sem lýst er í I. kafla ákæru, hlaupið í tvígang  inn á svæði sem búið var að girða af með lögregluborða við Kirkjustræti og Vonarstræti og í átt að lögreglumönnum sem unnu að flutningi handtekinna einstaklinga og truflað þannig störf lögreglu og óhlýðnast fyrirmælum hennar.

Telst þetta varða við 19. og 21. gr. sbr. 1. mgr. 41. gr. lögreglulaga nr. 90/1996.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

 

Einkaréttarkröfur:

Af hálfu Maríu Ditas de Jesus er krafist skaðabóta úr hendi ákærða Andra Leós Lemarquis að fjárhæð kr. 877.480 auk vaxta samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 8. desember 2008 þar til mánuður er liðinn frá því sakborningi var kynnt bótakrafa, en dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags sbr. 9. gr. sömu laga.  Ennfremur er krafist greiðslu þóknunar réttargæslumanns, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hrl.“

 

Málavextir

            Fyrir liggur að um klukkan 15, mánudaginn 8. desember 2008, hélt hópur fólks frá Iðnó við Tjörnina í Reykjavík og gekk sem leið liggur norður Templarasund og beygði inn í sundið sem liggur að austurdyrum Alþingishússins, en þaðan er gengt upp á áheyrendapalla Alþingis.  Var þingfundur þá nýhafinn.  Á undan hópnum gengu fjórir menn og þegar sá þeirra, sem fremstur gekk, hafði knúið dyra var lokið upp fyrir honum og þremur öðrum.  Á myndskeiði, sem eftirlitsvél tók upp í anddyrinu, sést að einn þessara manna hélt dyrunum opnum, en þær opnast út.  Fjórði og síðasti maðurinn (sem var lítið eitt á eftir hinum þremur) sést ganga inn um dyrnar fram hjá þingverðinum, Maríu Ditas de Jesus, sem í sömu andrá fer út um dyrnar til þess að loka, en getur það sýnilega ekki fyrir þeim sem hurðinni heldur.  Í sömu andrá sést til meginhópsins koma inn sundið og einn þeirra, sem inn voru komnir, sést fara út og taka á þingverðinum þar sem hann togast á um hurðina við þann sem henni heldur.  Sést meginhópurinn strunsa framhjá mönnunum tveimur og þingverðinum inn í anddyrið, 26 manns eftir því sem séð verður.  Sést að sumt af fólkinu hefur hulið andlit sitt að mestu eða nokkru leyti.  Aðrir þingverðir koma á vettvang meðan á þessu gengur, fyrst tveir og litlu síðar einn til viðbótar, og reyna þeir að stöðva fólkið.  Sést að stimpingar verða úr því með þeim og fólkinu.  Verður gerð nánari grein fyrir því síðar í IV. kafla hér á eftir.  Að lokum sést hvar lögreglumenn koma að í bíl og hraða þeir sér inn á eftir fólkinu.  Fram er komið að lögreglumennirnir fóru upp stigann á eftir fólkinu en þingvörður og lögreglumaður, sem er jafnan á verði í þinghúsinu, stöðvuðu fólkið á dyrapallinum á 2. hæð.  Varð þar nokkur senna svo að buldi og brast í lokuðum dyrum sem eru þar að þingrýminu.  Tveimur úr hópnum tókst þó að komast áfram upp á þingpallinn sem ætlaður er almenningi.  Gerði annar þeirra hróp þaðan að þingheimi þar til hann var fjarlægður með valdi.  Þá er einnig komið fram í málinu að þetta leiddi til þess að hlé var gert á þingfundi um skeið.  Frekari átök og greinir urðu svo með fólkinu og vörðum og lögreglumönnum í stiganum, fyrir neðan hann, við útidyrnar og á afgirtu svæði við þinghúsið eins og nánari grein verður gerð fyrir hér á eftir í IV. kafla.  Þá er komið fram að þingverðir Alþingis voru þennan dag í venjulegum einkennisfatnaði sínum, dökkum jakkafötum og með hálsbindi þar sem á er merki eða mynd af þinghúsinu.

            Fyrir liggur, að þótt inngangur þessi sé ætlaður almenningi meðan á þingfundi stendur, er hafður vörður fyrir innan dyrnar og þær hafðar læstar.  Í 11. gr. reglna um aðgang og umgengni í Alþingishúsinu og Skála sem forsætisnefnd Alþingis setti 20. mars 2007 segir að aðgangur að þingpöllum sé öllum opinn, en áheyrendur skuli vera kyrrir og hljóðir.  Brjóti nokkur því í gegn megi þingvörður eða lögreglumaður vísa honum út.  Óheimilt sé að hafa kveikt á farsíma á pöllunum.  Þá segir að gestir sem þangað koma skuli skilja eftir töskur og annan handfarangur í vörslu þingvarða meðan þeir dveljist á pöllunum.  Reglur þessar hafa ekki birst í Stjórnartíðindum en munu hafa hangið uppi í anddyrinu þegar atburðurinn varð.  Dómendur hafa skoðað vettvanginn og orðið þess áskynja að anddyrið er allt mun þrengra en það sýnist vera á kvikmyndinni.  Úr því liggur þröngur hringstigi upp á áheyrendapall sem er fyrir ofan og til hliðar við þingsalinn, austanmegin.  Dyrapallur er um miðjan stigann þaðan sem innangengt er í sjálft þingrýmið.  Fram er komið í málinu að þær dyr eru hafðar læstar og ekki ætlaðar almenningi. 

            Skrifstofustjóri Alþingis ritaði 19. desember 2008 lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu bréf þar sem þess var beiðst að fram færi opinber rannsókn út af þessum atburði.  Þar segir svo:

            Fyrir hönd skrifstofu Alþingis og eftirtalinna starfsmanna Alþingis óska ég eftir því að opinber rannsókn fari fram á því hvort brotið hafi verið gegn almennum hegningarlögum þegar mannsöfnuður þröngvaði sér inn í þinghúsið og reyndi að ryðja sér leið á þingpalla við upphaf þingfundar 8. desember 2008. Þeir starfsmenn, sem lentu í átökum þegar hópurinn var stöðvaður, eru eftirtaldir:

            Kristinn Pedersen, lögreglumaður

            María Ditas de Jesus, þingvörður

            Kjartan Egilsson, þingvörður

            Brynjar Nikulás Benediktsson, þingvörður

            Vilhjálmur G. Jónsson, þingvörður

            Guðfinna Gísladóttir, þingvörður

            Þormóður Sveinsson, þingvörður      

            Ýmsir fyrrgreindra starfsmanna hlutu tognun eða mar eftir átökin en áverkar á Kristni og Maríu eru einna alvarlegastir. Samkvæmt læknisvottorði er Kristinn með bólgu við mót þumals og úlnliðar, þar sem gæti verið um að ræða tilfærslu beins og liðar eða jafnvel sprungu. Röntgenmynd var tekin af úlnliðnum en niðurstöður liggja ekki fyrir. Þá segir í læknisvottorði að María hafi orðið fyrir verulegri tognun bæði í hnakkafestum og einnig í kringum hægri öxl og við lendhrygg. María fór strax eftir atvikið til skoðunar á slysavarðstofu Landspítala — háskólasjúkrahúss. Meðfylgjandi eru læknisvottorð sem tekin voru saman af Magnúsi Böðvarssyni, trúnaðarlækni Alþingis, eftir að hann hafði skoðað starfsmennina 12. desember síðastliðinn. Myndbandsupptaka af átökunum við innganginn hefur þegar verið látin embættinu í té.

            Aðgangur að þingpöllunum.

            Nauðsynlegt er að gera nokkra grein fyrir því hvernig aðgangi að þingpöllunum er háttað áður en atvikin 8. desember eru rakin nánar. Samkvæmt 57. gr. stjórnarskrárinnar eru fundir Alþingis almennt haldnir í heyranda hljóði. Í 70. gr. þingskapa Alþingis, nr. 55/1991, er mælt fyrir um að forseti Alþingis skipi fyrir um hvernig mönnum skuli gefinn kostur á að vera við fundi sem haldnir eru í heyranda hljóði. Ber áheyrendum að vera bæði kyrrir og hljóðir og brjóti nokkur á móti því getur forseti látið vísa honum og eftir atvikum öllum áheyrendum á braut eins og þar segir. Á grundvelli framangreinds ákvæðis í þingsköpum setti forsætisnefnd Alþingis 20. mars 2007 reglur þar sem m.a. er fjallað um aðgang almennings að þingpöllunum. Þar hefur forseti falið þingvörðum að vísa mönnum á braut sem brjóta gegn fyrirmælum um að vera kyrrir og hljóðir á þingpöllunum. Í öryggisskyni er þar enn fremur mælt fyrir um að gestir á þingpöllum skuli setja töskur og annan handfarangur í vörslu hjá þingvörðum meðan dvalist er á þingpöllum.

            Til að unnt sé að framfylgja þessum reglum um aðgang að þingpöllum og í eftirlits- og öryggisskyni eru dyr við innganginn, sem liggur upp á þingpallana, ávallt læstar. Ef gestur óskar eftir að fá að fylgjast með þingfundi af þingpöllunum hleypir þingvörður honum inn og gætir þess að viðkomandi skilji allan handfarangur eftir auk þess sem mælst er til þess að hann taki af sér yfirhöfn. Einn þingvörður hefur fram að þessum atburði annast vörslu inngangsins. Engin leit hefur hins vegar farið fram á gestum áður en þeir fara á þingpallana líkt og tíðkast í nágrannalöndum okkar.

            Málavextir.

            Þau atvik sem hér er óskað eftir að verði tekin til opinberrar rannsóknar urðu við upphaf þingfundar sem hófst kl. 15, hinn 8. desember 2008, þar sem óundirbúinn fyrirspurnartími var að hefjast. María Ditas de Jesus, þingvörður, stóð vaktina við innganginn sem liggur upp á pallana. Gest bar þá að garði og óskaði eftir að fá að fylgjast með þingfundi og var honum hleypt inn af Maríu. Dyrnar lokuðust síðan sjálfkrafa. Þegar hann var að taka af sér lét annar gestur vita af sér við dyrnar og opnaði María fyrir honum og tveimur öðrum sem komu á sama tíma. Þegar tveir þessara gesta voru komnir inn sneri María sér að þeim til að leiðbeina þeim en þriðji gesturinn stóð áfram úti og hélt dyrunum opnum. Þegar María verður þess var snýr hún sér við og ætlaði að fá þann sem hélt hurðinni til að sleppa henni. Þar sem hún stóð í dyragættinni tróð fjórði gesturinn sér inn í húsið. Fjórir gestir voru því komnir inn á nokkrum sekúndum og dyrunum haldið opnum af fimmta manninum. Fjölda manns dreif nú að innganginum. Einn mannanna, sem komnir voru inn, réðst síðan aftan að Maríu og ýtti henni út úr húsinu og hélt henni þar til að opna mannsöfnuðinum leið inn í Alþingishúsið. Hann streymdi síðan óhindraður inn í húsakynni Alþingis og settu ýmsir úr þessum hópi klúta fyrir andlitin.

            Þessi atburðarrás stóð yfir í aðeins tæpa mínútu og engin leið að átta sig á hvað mannsöfnuðurinn hafði í hyggju. Fleiri þingverði bar nú að garði til að aðstoða við að halda uppi röð og reglu við innganginn en þá hafði mesti fjöldinn komist inn. Í atganginum réðust þrír úr hópnum að Vilhjálmi G. Jónssyni, þingverði, og ýttu honum upp við vegg. Þá urðu pústrar við innganginn sem leiddu til þess að María féll aftur fyrir sig og meiddist.

            Þröngur stigi liggur frá innganginum upp á stigapall á annarri hæð og svo áfram upp á þriðju hæð þar sem gengið er inn á þingpallana. Kristinn Pedersen lögreglumaður ásamt þingvörðunum Kjartani Egilssyni og Þormóði Sveinssyni vörnuðu því að mannsöfnuðurinn kæmist óhindraður upp stigann og inn á þingpallana. Mikil átök urðu þar og ljóst að mannsöfnuðurinn hikaði ekki við að beita valdi til þröngva sér upp stigann. Tveir úr hópnum náðu að klöngrast yfir starfsmenn þingsins og komast upp á þingpallana. Við þessi átök hlaut Kristinn þó nokkur meiðsl eins og áður greinir.

            Á þingpöllunum voru gerð hróp að þingheimi og af upptöku má þar greina orðin: „út, farið út, þetta [ógreinil.] þjónar ekki tilgangi sínum lengur, út drullið ykkur út …“ Þingfundi var frestað meðan á þessu gekk. Lögreglumenn voru þá komnir á vettvang og voru þeir sem komust á þingpallana fjarlægðir. Forseti Alþingis gaf síðan fyrirmæli um að þingfundur hæfist ekki fyrr en hópurinn hefði farið úr húsinu. Flestir úr hópnum hlýddu fyrirskipunum lögreglu og þingvarða þessa efnis og gengu sjálfviljugir út úr þingishúsinu. Nokkri einstaklingar neituðu þó að hlíta þessum fyrirmælum og voru handteknir af lögreglu.

            Sjónarmið skrifstofu Alþingis.

            Nauðsynlegt er að tryggja öryggi þingmanna meðan á þingfundi stendur. Aðgangur að þingpöllum getur því ekki verið með öllu óhindraður og án eftirlits. Forseti Alþingis hefur falið þingvörðum framkvæmd þessa eftirlits og er það hluti af starfsskyldum þeirra  að gæta að því að aðgangsreglum í þinghúsinu sé fylgt. Eins og áður segir er einn lögreglumaður enn fremur á vakt í þinghúsinu meðan á þingfundum stendur.

            Alþingi nýtur sérstakrar verndar í XI. kafla almennra hegningarlaga, sem fjallar um brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess. Þar segir í 100. gr. að hver sem ræðst á Alþingi, svo að því eða sjálfræði þess er hætta búin, sem lætur boð út ganga, sem að því lýtur, eða hlýðir slíku boði, skuli sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár, og getur refsing orðið ævilangt fangelsi ef sakir eru mjög miklar. Ekki er ljóst hvað mannsöfnuðinum gekk til með athæfi sínu hinn 8. desember sl. Miðað við þá aðferð sem notuð var til að koma hópnum inn í húsið virtist hann ekki kominn í friðsamlegum tilgangi eða að hann væri líklegur til að hlíta reglum. Ekki var hægt að útiloka að einhverjir í hópnum væru með innanklæða eitthvað sem skaðað gæti alþingismenn og starfsmenn. Viðbrögð voru ákveðin með þessi atriði í huga og allt tiltækt lið þingvarða ásamt lögreglumanni kallað til í því skyni að koma í veg fyrir að mannsöfnuðurinn kæmist í færi við þingmenn sem sátu í þingsal. Þá var þegar leitað aðstoðar lögreglunnar.

            Af myndbandsupptökum má ráða að aðgerðin við innganginn hafi verið skipulögð fyrir fram. Menn komu einn af öðrum inn í húsið með stuttu millibili og varð þingvörður að sinna þeim. Sá síðasti fór hins vegar ekki inn heldur hélt hurðinni opinni og sá til þess að leiðin yrði greið fyrir þá sem á eftir komu. Þegar þingvörður hugðist láta loka dyrunum, eins og ráð er fyrir gert, var hann beittur ofbeldi og ýtt út um dyrnar. Þá voru fleiri starfsmenn beittir ofbeldi eða hindraðir við framkvæmd skyldustarfa sinna. Skrifstofa Alþingis telur að þessi atvik verði að rannsaka m.a. með það í huga hvort brotið hafi verið gegn 106. gr. almennra hegningarlaga en þingverðir eru opinberir starfsmenn í skilningi ákvæðisins. Um var að ræða mannsöfnuð, sbr. 107. gr. laganna, og ber þá að beita leiðtogum upphlaupsins harðari refsingu að tiltölu.

            Fleiri ákvæði almennra hegningarlaga kunna að hafa verið brotin af þeim sem þarna áttu hlut að máli. Benda má á 118. gr. laganna um upphlaup í því skyni að ógna með svo og 122. gr. sömu laga um hindrun á löglegum mannfundi einkum ef ofríki eða ógnun í framferði er viðhaft. Þá kann að vera að um húsbrot hafi verið að ræða í skilningi 231. gr. almennra hegningarlaga.

            Skaðabætur.

            Ekki liggur fyrir á þessu stigi hvaða tjón kann að hafa hlotist af háttsemi þeirra sem þarna áttu hlut að máli. Áskilinn er réttur til að leggja síðar fram kröfur þar að lútandi.“

            Í málinu er annað bréf frá skrifstofustjóra Alþingis, dagsett 18. febrúar 2010, þar sem hann, eftir fyrirspurn frá hinum sérstaka saksóknara og fyrir hönd skrifstofu Alþingis, segir það vilja sinn að ákært verði í málinu fyrir brot gegn 231. gr. almennra hegningarlaga.

 

                                                                                    I.

Ætlað brot allra ákærðu gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess

            Sem fyrr segir hittust ákærðu fyrir atburðinn hjá Iðnó við Tjörnina og lögðu þar á ráðin um það að fara inn í Alþingishúsið og upp á þingpallana til þess að mótmæla ástandi í efnahags- og stjórnmálum landsins, krefjast afsagnar ráðherra og aðgerða til úrbóta.  Þá er komið fram að til fundarins og mótmælanna hafði verið boðað með dreifimiðum á Austurvelli laugardaginn áður á almennum mótmælafundi sem þar var haldinn.  Ekki hefur komið fram nein vísbending um það í málinu að það hafi beinlínis vakað fyrir ákærðu að taka almennt ráð af þinginu eða að kúga það í einstöku máli.  Hafa þau verið rækilega spurð út í þetta en þau hafa neitað því að vakað hafi fyrir þeim að gera slíkt.   

            Samkvæmt 1. mgr. 100. gr. almennra hegningarlaga skal hver, sem ræðst á Alþingi, svo að því eða sjálfræði þess er hætta búin, sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár, og getur refsingin orðið ævilangt fangelsi, ef sakir eru mjög miklar.  Þá segir í 2. mgr. greinarinnar að sömu hegningu skuli hver sá sæta, sem á sama hátt misbrýtur við forsetann eða þann, sem forsetavald hefur á hendi, við ráðuneytin, landsdóminn eða hæstarétt.  Ákvæðum þessum er skipað í XI. kafla almennra hegningarlaga undir heitinu „brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess“.  Er í þessum kafla laganna m.a. að finna ákvæði  um refsingar fyrir það að vekja eða stýra uppreisn í þeim tilgangi að breyta stjórnskipun ríkisins, fyrir að hafast eitthvað það að, sem miðar til þess að svipta forsetann lífi, fyrir hryðjuverk og fyrir að leitast við að aftra því, að fram fari kjör forseta, alþingiskosningar eða bæjar- eða sveitarstjórnakosningar.  Ákvæði þessi hafa það að markmiði að vernda ríkjandi stjórnskipun, eins og hún er ákveðin í stjórnarskrá og öðrum stjórnskipunarlögum, og vernda jafnframt æðstu handhafa ríkisvaldsins.  Er hámarksrefsing fyrir brot í þessum kafla laganna ákveðin ævilangt fangelsi.  Ákærðu, sem voru óvopnuð, fóru í hópi 20 – 30 manna inn í Alþingishúsið og var förinni heitið á þingpallana (eins og beinlínis er tekið fram í ákærunni) en ekki inn í þingrýmið.  Sem fyrr segir er engin vísbending í málinu um það að ákærðu hafi ætlað sér að aðhafast annað en að láta heyra í sér mótmæli vegna ástandsins í landinu frá þingpöllunum.  Verður með engu móti talið að fyrir þeim hafi vakað að reyna að kúga Alþingi eða að athafnir þeirra geti talist vera sú árás á þingið að sjálfræði þess hafi verið hætta búin.  Ber samkvæmt þessu að sýkna öll ákærðu af ákæru fyrir brot gegn 1. mgr. 100. gr. almennra hegningarlaga.

 

                                                                                    II.

                                                            Ætlað húsbrot allra ákærðu

            Af hálfu ákærðu hefur verið vefengt að skrifstofustjóri Alþingis sé bær til þess að gera refsikröfu í málinu samkvæmt 2. tl. a 242. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt 9. gr. laga um þingsköp Alþingis ber forseti Alþingis ábyrgð á rekstri Alþingis og hefur æðsta vald í stjórnsýslu þess.  Þá segir í 1. mgr. 10. gr. laganna að með forseta starfi varaforsetar og að þeir myndi forsætisnefnd Alþingis ásamt honum.  Loks segir í 11. gr. laganna að forsætisnefndin ráði skrifstofustjóra þingsins til sex ára í senn.  Stjórni hann skrifstofu Alþingis og framkvæmdum á vegum þingsins, hafi umsjón með fjárreiðum þess og eignum í umboði forseta.  Álítur dómurinn að skrifstofustjórinn hafi, stöðu sinnar vegna, verið bær til þess af hálfu Alþingis að gera refsikröfu fyrir húsbrot í málinu.

            Ákvæði 231. gr. almennra hegningarlaga um húsbrot leggur refsingu við því ef ruðst er heimildarlaust inn í hús eða niður í skip annars manns, eða þá annan honum óheimilan stað.  Ákvæði þessu er skipað í XXV. kafla almennra hegningarlaga undir heitinu „ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs“.  Í kafla þennan er safnað saman ýmsum ákvæðum um brot gegn frið­helgi einkalífs og æru. Í greinargerð með hegningarlagafrumvarpinu 1940 segir að með ákvæðum frumvarpskaflans sé mönnum ákveðinn réttur til þess að vera í friði um einkamál sín, og það látið varða refsingu, sé þeim friði raskað.  Þá sé refsing lögð við ýmsum at­höfnum, til þess föllnum að lækka menn í sínum augum eða annarra.  Lagagrein þessi samsvari efnislega eldra ákvæði 223. gr. hinna almennu hegningarlaga frá 1869, en sé að því leyti víðtækari, að í stað „heimilis“ komi hús eða skip eða annar staður sem sé sökunaut óheimill.  Dómurinn lítur svo á að saga þessa ákvæðis sýni að því sé einkum ætlað að taka til húsnæðis eða staða í einkaeigu, enda er því í núgildandi hegningarlögum enn skipað í kafla með ákvæðum sem vernda friðhelgi einkalífs.  Ákvæðið hefur þó á síðari tímum einnig verið talið taka til staða eða húsnæðis í opinberri eigu sem ekki er opið almenningi.  

            Óumdeilt er að almenningur hefur ávallt, meðan á þingfundi stendur, átt aðgang inn um margumræddar dyr þinghússins, upp stigann, sem þar tekur við, og upp á áheyrendapallinn margnefnda.  Er það enda í samræmi við 57. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33, 1944 sem kveður á um það að þingfundir skuli almennt haldnir í heyranda hljóði.  Þessi réttur almennings er enn fremur áréttaður í 11. gr. reglnanna um aðgang og umgengni í þinghúsinu, sem vikið var að.  Dómurinn lítur svo á, að þrátt fyrir þennan ótvíræða rétt almennings til þess að fylgjast með fundum Alþingis geti húsráðandinn, forsætisnefnd þingsins, sett almennar reglur um notkun hins almenna rýmis.  Sé þannig heimilt að kveða á um aðgang og umgengni í hinu almenna rými, um fjölda áheyrenda, um hegðun þeirra og ýmis önnur atriði, svo sem að þar skuli hafa vörð, að útidyr skuli að jafnaði vera læstar og að gestir megi ekki hafa með sér handfarangur inn á þingpalla.  Er það jafnframt skoðun dómsins að reglur af þessu tagi þurfi ekki að birta í Stjórnartíðindum.  Dómurinn lítur enn fremur svo á að starfsmenn Alþingis geti meinað mönnum inngöngu í þetta rými áheyrenda ef ástæða er til þess að ætla að þeir muni ekki virða reglurnar eða vísað þeim þaðan og látið fjarlægja þá með valdi, gegni þeir reglunum ekki.  Þrátt fyrir allar þessar takmarkanir verður ekki fram hjá því litið að almenningi er, meðan á þingfundi stendur, almennt heimill aðgangur að þessu almenna rými þinghússins.  Verður ekki séð að 231. gr. almennra hegningarlaga hafi verið ætlað að taka til staða af þessu tagi og verður þannig ekki talið að ákærðu hafi farið inn í margnefnt almannarými í heimildarleysi.  Ber þannig að sýkna öll ákærðu af ákæru fyrir húsbrot. 

 

                                                                                    III.

                                                            122. gr. almennra hegningarlaga     

            Í lok I. kafla ákærunnar er verknaður ákærðu sagður varða við 1. mgr. 122. gr. almennra hegningaralaga, auk annars.  Samkvæmt þessu ákvæði varðar það mann refsingu að hindra það, að löglegur mannfundur sé haldinn, þ.e. sektum eða fangelsi allt að 2 árum, ef miklar sakir eru.  Þessu broti er ekki lýst að neinu leyti í ákærukaflanum en til þess að það kæmi til álita í málinu hefði þurft að skilgreina það í ákærunni með orðum sem svara til efnislýsingar lagagreinarinnar, þ.e. að ákærðu hefðu hindrað það að fundur Alþingis væri haldinn.

            Verknaðurinn er jafnframt þessu sagður varða við 2. mgr. 122. gr. laganna.  Samkvæmt þessu ákvæði varðar það mann refsingu að raska fundarfriði á lögboðnum samkomum um opinber málefni með háreysti eða uppivöðslu, þ.e. sektum eða fangelsi allt að 3 mánuðum.  Brotalýsing þessa ákærukafla er að þessu leyti almennt orðuð og álítur dómurinn að þar sé ekki lýst broti gegn þessari málsgrein, þótt þar segi að vísu að starfsfriður Alþingis hafi verið rofinn.  Getur enda starfsfriði þingmanna og starfsmanna Alþingis verið raskað án þess að fundarfriðinum sé raskað.  Hefði þurft að skilgreina brotið í ákærunni með orðum sem svara til efnislýsingar lagagreinarinnar til þess að 2. mgr. 122. gr. almennra hegningarlaga kæmi til álita í málinu, þ.e. að ákærðu hefðu raskað fundarfriði Alþingis.

            Í 6. tl. þessa ákærukafla segir sérstaklega um þátt ákærða E að þessu leyti, að hann hafi komist upp á þingpalla og hrópað þaðan að þingmönnum.  Álítur dómurinn að 2. mgr. 122. gr. hegningarlaganna taki ekki til þessa athæfis og hefði þurft að skilgreina brotið í ákærunni með orðum sem svara til efnislýsingar lagagreinarinnar til þess að 2. mgr. 122. gr. almennra hegningarlaga kæmi til álita í málinu, þ.e. að ákærði hefði með hrópi sínu raskað fundarfriði Alþingis.

            Með vísan til c- liðar 1. mgr.152. gr. laga um meðferð sakamála, telur dómurinn að þrátt fyrir þessa heimfærslu til refsiheimilda við ákærukaflann sé aðalatriðum brotanna ýmist ekki lýst þar eða ekki rétt lýst.  Leiðir þetta til þess að sýkna ber öll ákærðu af ákærunni að þessu leyti.

 

 

                                                                                    IV.

                                                Ætlað brot allra ákærðu gegn valdstjórninni

            Samkvæmt I. kafla ákærunnar eru ákærðu saksótt fyrir það að hafa í félagi brotið gegn valdstjórninni með því að veitast að sex nafngreindum þingvörðum og lögreglumanni, með ofbeldi og hótun um ofbeldi (sem einnig er þar látið heita ofríki) með því að halda þeim, ýta þeim úr vegi og hindra þá við störf sín.  Eins og áður sagði vakti það fyrir ákærðu að fara upp á þingpallana til þess að mótmæla þar því sem ákærðu álitu að hefði miður farið í landstjórninni og í stjórnmálum.  Ákærðu hafa neitað því að hafa jafnframt farið inn í þinghúsið með það í huga að beita starfsmenn þingsins ofbeldi eða hindra þá í störfum eða að slíkt hafi komið til tals með þeim áður, nema það sem segir hér á eftir um verknað ákærða Þórs í 1. tl. I. kafla ákærunnar.  Þá benda framburðir vitna og gögn í málinu, svo sem myndskeið, ekki til þess að átökin við þingverði og lögreglu hafi verið undirbúin, að öðru en þessu eina leyti.  Verður því að telja ósannað að ákærðu hafi verið saman um brot gegn valdstjórninni og verða þau því öll talin sýkn af samaðild að þessu leyti.  Ekki hefur verið leitt í ljós í málinu að ákærðu hafi haft í frammi hótanir gagnvart lögreglu og þingvörðum.  Verða þau því öll talin sýkn af því sakaratriði.

            Samkvæmt því rakið hefur verið koma einvörðungu til álita í málinu ætluð brot gegn valdstjórninni af hálfu þeirra Andra Leós, E, G, H og Þórs og þá einungis vegna þess eða þeirra verknaða sem hverju þeirra er sérstaklega gefin sök á, eins og greinir hér á eftir.

 

                                                                        Ákærði Andri Leó

1.         Ákærða er í fyrsta lagi gefið að sök að hafa veist að þingverðinum Maríu Ditas de Jesus aftan frá, ýtt henni út úr húsinu og haldið henni fastri með aðstoð annars manns svo mannsöfnuðurinn gæti óhindrað ruðst inn í húsið (2. tl. I. kafla ákæru).  Er þetta talið varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga. 

            Ákærði tjáði sig ekki um þetta sakaratriði frekar en önnur þegar hann var yfirheyrður hjá lögreglu í desember 2008.  Fyrir dómi hefur hann sagst þekkja sig á myndskeiðinu úr anddyrinu og kannast hann við að sjást koma þar inn sundið að dyrunum.  Hann kveðst ekki muna eftir því að hafa ýtt Maríu Ditas út úr húsinu og haldið henni þar né heldur eftir því að hafa átt í stimpingum við hana. 

            María Ditas hefur sagt um þetta sakaratriði að fjórði maðurinn af þeim sem fyrstir komu hafi staðið fyrir utan dyrnar og haldið hurðinni opinni fyrir þeim, sem á eftir komu, þannig að hún gat ekki lokað á þá.  Þá hafi maðurinn einnig tekið lykilinn úr skránni.  Segist hún hafa reynt að stöðva fólkið en verið hrint til hliðar.  Annar maður en sá, sem hurðinni hélt, hafi haldið henni fastri svo að hún gat sig ekki hreyft.

            Á myndskeiðinu sést hvar ákærði fer út á eftir Maríu Ditas þegar hún fer til þess að loka dyrunum.  Sést hann koma aftan að henni, taka hana tökum og halda henni fastri meðan hópurinn, sem komið hafði inn sundið, hraðar sér inn um dyrnar.  Ekki verður séð að hann ýti henni út og virðist hún frekar hafa farið út sjálf og ákærði ekki tekið á henni fyrr en út er komið.

            Sannað er með framburði Maríu Ditas og myndskeiðinu að ákærði tók hana tökum og hélt henni fastri úti fyrir dyrunum.  Ósannað telst hins vegar að hann hafi ýtt henni út og ber að sýkna hann af því atriði ákærunnar.  Ákærða gat ekki dulist að María Ditas var starfsmaður Alþingis að skyldustörfum og hefur hann með þessu athæfi gerst sekur um brot gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga.

 

2.         Ákærða er í öðru lagi gefið að sök að hafa, ásamt tveimur öðrum, veist að þingverðinum Vilhjálmi, sem reyndi að varna mannsöfnuðinum inngöngu, og ýtt honum og haldið honum föstum  upp við vegg (4. tl. I. kafla ákæru).  Er þetta talið varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga.

            Ákærði segir aðspurður um þetta atriði að hann muni til þess að einhver hafi tekið um hendur hans og lyft þeim upp, eins og til að halda þeim föstum. Geti það eins hafa verið þessi Vilhjálmur, en þingverðina þekki hann ekki með nafni.  Kveðst hann hafa sagt við manninn að láta sig í friði.  Hann segist vísa um þetta til myndskeiðsins, enda sé það áreiðanlegra en minni manns.

            Vilhjálmur Gunnar Jónsson þingvörður hefur skýrt frá því að þegar hann kom í anddyrið hafi fólk verið að ryðjast inn um dyrnar.  Hafi hann reynt að varna því inngöngu en gefist upp við það fyrir ofureflinu og hrökklast upp að vegg.  Hann kveðst svo hafa séð á upptöku eftir á, að honum hafi verið haldið þarna örfáar sekúndur. 

            María Ditas de Jesus hefur borið að tveir eða þrír menn hafi veist að Vilhjálmi Gunnari og sett hann upp að vegg og haldið honum þar.

            Á upptökunni úr anddyrinu sést að ákærði ryðst í þvögu fólks inn úr dyrunum og ýtir þá við Vilhjálmi Gunnari sem hrökklast aftur á bak.  Aðrir tveir taka svo á þingverðinum og er hann settur upp að vegg.  Þingvörðurinn heldur í vinstri öxl ákærða með annarri hendi og virðist toga hann með sér þegar hann er settur upp að veggnum.  Snýr ákærði sér þá að honum.  Þá sést að þingvörðurinn tekur um höfuð ákærða en ákærði setur lófann fyrir bringu hans.  Virðist hann eins geta verið að reyna að losa sig úr því taki eins og að ýta manninum upp að vegg. 

            Sannað er með framburði Vilhjálms Gunnars og Maríu Ditas, svo og upptökunni, að ákærði veittist að honum, ýtti honum svo að hann hrökklaðist aftur á bak.  Ósannað telst hins vegar að hann hafi eftir það ýtt þingverðinum upp að vegg og haldið honum þar og ber að sýkna hann af því atriði ákærunnar.  Ákærða gat ekki dulist að Vilhjálmur Gunnar var starfsmaður alþingis við skyldustörf og hefur hann með þessu athæfi gerst sekur um brot gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga.

 

3.         Ákærða er í þriðja lagi gefið að sök, þegar Vilhjálmur Gunnar reyndi að koma honum út, að hafa ýtt í þeim átökum með hægri handlegg við þingverðinum Maríu, svo hún féll aftur fyrir sig á miðstöðvarofn í anddyrinu (5. tl. I. kafla ákæru).  Er þetta talið varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga.

            Aðspurður um þetta atvik segist ákærði ekki muna eftir þessum atburðum og tekur sérstaklega fram að hann muni ekki eftir þessu tiltekna atriði.  Aftur á móti sjáist á myndskeiðinu að togað sé í hann aftan frá svo að hann falli niður sem svo valdi því að María Ditas hverfi úr myndsviðinu.  Sjáist hann líta aftur fyrir sig, líklega til þess að aðgæta hvort nokkuð hafi komið fyrir hana.

            María Ditas hefur sagt frá því að í stimpingunum í anddyrinu, þegar þrír menn voru að fást við Vilhjálm, hafi henni fundist sér vera hrint.  Hafi þar verið að verki ungur maður með ljósleitt hrokkið hár.  Hún hafi hrökklast við þetta aftur á bak og rekist á miðstöðvarofn. Þetta hafi gerst mjög snöggt og kveðst hún þá hafa fundið fyrir sársauka í bakinu. 

            Vilhjálmur Gunnar segir frá því að hann hafi tekið utan um mann þarna og reynt að koma honum út en gefist upp á því eftir nokkrar stimpingar.  Hann hafi svo heyrt Maríu Ditas segja: „Hann hrinti mér.“

            Á myndupptökunni sést, eins og áður segir, að ákærði, annar karl til og kona eru að stimpast í anddyrinu við Vilhjálm Gunnar.  Sést svo hvar Vilhjálmur Gunnar hefur ákærða í tökum aftan frá og að María Ditas kemur í sömu andrá inn úr dyrunum.  Sést hún koma Vilhjálmi Gunnari til hjálpar og er þá að baki ákærða.  Jafnframt er að sjá sem Vilhjálmur Gunnar haldi um upphandleggi ákærða.  Berst leikurinn þannig innar í anddyrið og sést hvernig María Ditas hrökklast aftur á bak undan ákærða sem snýr þá í hana baki og hverfur hún við það út úr myndsviðinu.  Ekki er hægt að ráða í það af upptökunni hvor þeirra ákærða eða Vilhjálms veldur þessari hreyfingu.  Af þessu, og því sem dómendur urðu áskynja við athugun á vettvangi þykir vera víst að María Ditas hafi þá rekist í miðstöðvarofninn.  Jafnframt sést hún á myndskeiðinu koma aftur inn í myndina og að hún heldur þá um bak sér með annarri hendi.

            Ákærði hefur neitað því að hafa ýtt Maríu Ditas með handleggnum svo að hún lenti á miðstöðvarofninum.  Ekki verður það ráðið af myndskeiðinu að ákærði hafi gert þetta og virðist hann allt eins hafa rekist með vinstri upphandlegg eða vinstri öxl í hana, þar sem honum var haldið í stimpingunum og hún var fyrir aftan hann.  Er því ósannað að ákærði hafi haft ásetning til þess að ráðast á þingvörðinn og ýta við honum.  Ber samkvæmt því að sýkna ákærða af ákærunni að þessu leyti.

 

4.         Ákærða er í fjórða lagi gefið að sök að hafa ráðist á lögreglumanninn Albert Örn Sigurðsson og bitið hann í vinstri hönd (II. kafli ákæru).  Er þetta talið varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga.

            Ákærði segir aðspurður um þetta atriði, að þegar hann hafi verið kominn upp á stigapallinn hafi þar myndast þvaga af fólki.  Ung stúlka hafi verið þar úti í horni og hafi hún kallað á hjálp vegna þess að tveir lögreglumenn voru að þjarma að henni.  Kveðst ákærði hafa snúið sér að þeim og beðið þá um að sleppa stúlkunni.  Þegar hann svo endurtók þetta hafi annar lögreglumaðurinn tekið í höndina á honum eða þá höfuð eða andlit og ýtt honum að stiganum.  Geti verið að hann hafi þá glefsað í höndina á lögreglumanninum í hræðslu.  Hins vegar kveðst hann ekki telja að um eiginlegt bit hafi verið að ræða.

            Albert Örn Sigurðsson hefur sagt frá því að þegar hann kom þarna að hafi allt verið logandi í átökum.  Tveir menn hafi verið í gólfinu og löggæslumenn verið í erfiðleikum með að setja hendur annars þeirra, Andra Leós, aftur fyrir bak.  Kveðst hann hafa farið að aðstoða þá við þetta.  Þegar hann tók í aðra hönd ákærða hafi hann bitið mjög fast í vinstri hönd vitnisins og hangið á bitinu.  Hafi hann marist á hendinni og einnig haft verk í nokkurn tíma eftir þetta en svo jafnað sig.  Hann segist hafa verið með kevlar-hanska, sem hafi komið í veg fyrir frekari meiðsli. 

            Meðal gagna málsins er vottorð Herberts Arnarsonar, læknis á slysa- og bráðadeild Fossvogsspítala, Landspítala - háskólasjúkrahúss.  Segir þar að á vinstri hendi hafi mátt sjá roða og byrjandi mar yfir thenar-svæði vinstri handar.  Ekki hafi þó verið bitfar að sjá né heldur hafi vottað fyrir doða fram í fingur.  Þá hafi maðurinn getað hreyft fingurinn eðlilega.

            Sannað er með framburði ákærða sjálfs, að nokkru leyti, og með vætti lögreglumannsins sem stuðning hefur af læknisvottorðinu, að ákærði beit í hönd lögreglumannsins þegar hann var að skyldustörfum í umrætt sinn.    Hefur hann með þessu athæfi gerst sekur um brot gegn 1. mgr. 106. gr. almennar hegningarlaga.

 

5.         Ákærða er í síðasta og fimmta lagi gefið að sök að hafa ráðist á lögreglumanninn Stellu Mjöll Aðalsteinsdóttur og bitið hana í vinstri öxlina (II. kafli ákæru).  Í ákærunni er þetta talið varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga.

            Ákærði kveðst, í framhaldi af því sem greinir í liðnum hér á undan, hafa fallið fram yfir sig í stiganum.  Kveðst hann hafa gripið í rimla í stigahandriðinu til þess að stöðva sig.  Lögreglukona sem í stiganum var hafi hins vegar kýlt hann og sparkað honum áfram niður stigann.  Hann hafi reynt að rísa upp en fallið við aftur og þá hafi tveir aðrir lögreglumenn tekið við honum og sett í gólfið fyrir neðan stigann.  Við það hafi önnur hönd hans skorðast undir honum en hin verið sveigð aftur fyrir bak.  Kveðst hann hafa átt mjög erfitt um andardrátt við þessar aðstæður enda hafi einnig verið setið á bakinu á honum.  Þá hafi öðrum fótlegg á honum verið lyft upp og hann þá fundið til mikils sársauka.  Hafi hann óttast um sig og beðið lögreglumanninn vægðar.  Sérstaklega aðspurður segist hann ekki muna eftir því að hafa bitið lögreglukonuna í öxlina.    

            Stella Mjöll Aðalsteinsdóttir hefur skýrt frá því að hún hafi verið stödd í tröppunum upp á þingpallana þegar niður þær hafi verið færður mjög æstur maður, ákærði Andri Leó.  Hafi þau reynt að tala hann til en úr þessu hafi orðið átök og stimpingar.  Hafi hann bitið snöggt í vinstri öxl hennar þarna í stiganum.  Hún hafi fengið roða, mar og bólgu undan bitinu, sem varað hafi í nokkra daga, en annað hafi ekki hlotist af þessu.  Hún segist halda að ákærði hafi staðið uppréttur í stiganum þegar hann beit hana, þótt hún geti ekki fullyrt um það.

            Guðmundur Ingi Rúnarsson lögreglumaður hefur skýrt frá því að hann hafi verið við það verk að taka á móti fólki sem sett var niður stigann og að leiða það út.  Þar á meðal hafi verið maður sem ófriðlega lét, ákærði Andri Leó.  Kveðst hann hafa tekið á móti manninum og tekið um báða upphandleggi hans.  Hafi maðurinn spyrnt í handriðið svo að vitnið féll aftur fyrir sig.  Þá hafi maðurinn kastað sér áfram og bitið í vinstri öxlina á lögreglukonu sem stóð fyrir neðan hann. 

            Svava Snæberg Hrafnkelsdóttir lögreglumaður hefur skýrt frá því að hún hafi séð þegar verið var að færa ákærða niður stigann.  Hafi hann brotist um á hæl og hnakka og m.a. reynt að bíta lögreglukonu í hálsinn.  Kveðst hún hafa getað afstýrt þessu. 

            Í málinu er vottorð Elísabetar Benedikz, læknis á bráða- og slysadeild Fossvogsspítala.  Segir þar að aftan á vinstri öxl Stellu Mjallar hafi verið  roðasvæði, örlítið upphleypt og um það bil 5-6 cm í þvermál.  Ekki hafi sést þar tannaför og húðin hafi ekki verið rofin.  Loks hafi heldur ekki greinst þar aukinn húðhiti.

            Sannað er með vætti Stellu Mjallar og Guðmundar Inga, sem stuðning hefur af læknisvottorðinu, og að nokkru leyti af vætti Svövu Snæberg, að ákærði beit Stellu Mjöll lögreglumann í öxlina í átökunum í stiganum.  Hefur hann með þessu athæfi gerst sekur um brot gegn 1. mgr. 106. gr. almennar hegningarlaga.

 

                                                                        Ákærði E

1.         Í fyrra ákæruatriðinu sem varðar ákærða E sérstaklega (6. tl. I. kafla ákæru) er ákærða gefin sök á því að hafa ýtt við fjórum þingvörðum og lögreglumanni í stiganum og að hafa enn fremur ruðst og klifrað yfir þá.  Er þetta talið varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga.

            Ákærði tjáði sig ekki um þetta sakaratriði, frekar en önnur málsatvik, þegar hann var yfirheyrður hjá lögreglu í desember 2008.  Fyrir dómi hefur hann að mestu leyti neitað að svara spurningum um sakarefni málsins en þó hefur hann neitað því að hafa beitt þingverði eða lögreglumenn ofbeldi.  Hann kannast hins vegar við það að hafa farið upp á þingpallana og er það er samræmi við ljósmyndir sem lagðar hafa verið fram í málinu.

            Kristinn Pedersen lögreglumaður, stóð á dyrapallinum margnefnda og tálmaði fólki för áfram upp stigann að þingpöllunum ásamt tveimur þingvörðum.  Kveðst hann hafa verið með úðabrúsa og sagt fólkinu að hann myndi úða yfir það ef það næmi ekki staðar.  Þá hafi hann sýnt fólkinu lögreglukylfuna.  Hafi staðið í stappi í dálítinn tíma þarna á pallinum milli fólksins og þeirra þriggja.  Fólk hafi reynt að klifra yfir þá þrjá og einnig hafi öll tæki verið rifin af þeim, talstöðvar og annað.  Þá segir hann að skyrtan hans hafi verið rifin og tætt og þá hafi jafnframt verið slegið, sparkað og togað í þá og klifrað hafi verið yfir hann.  Eins hafi menn klifrað upp handriðið.  Einn piltur úr hópnum hafi komist upp á þingpallana og kveðst Kristinn hafa farið þangað og sótt hann og pilturinn ekki sýnt mótþróa.  Stúlka úr hópnum hafi einnig komist fram hjá þeim en líklega komist eitthvað styttra en pilturinn.  Kveðst hann hafa meiðst á hálsi, hendi og hné í átökunum en ekki geta gert sér grein fyrir því hver eða hverjir ollu þessum meiðslum.  Hann segist halda að sá, sem hann sótti upp á þingpalla, hafi klifrað upp handriðið og fram hjá þeim. 

            Kjartan Egilsson þingvörður hefur skýrt frá því  að hann hafi hraðað sér úr þingrýminu fram á dyrapallinn ásamt Þormóði Sveinssyni þingverði.  Hafi þeir haldist í hendur og þannig getað lokað gangveginum upp.  Tveimur úr hópnum hafi þó tekist að komast upp á pallana.  Þarna hafi verið troðningur mikill og hróp og köll. Sérstaklega aðspurður segist Kjartan ekki hafa orðið fyrir ofbeldi þarna. 

            Þormóður Sveinsson þingvörður hefur skýrt frá því að hann hafi farið fram á dyrapallinn og þá hafi verið fólk í stiganum og háreysti.  Hafi hann reynt að hindra för fólksins upp á þingpallana ásamt öðrum þingverði sem hafi staðið við dyrnar.  Sjálfur hafi hann staðið lítið eitt ofar.  Þarna hafi einnig verið lögreglumaður.  Einn maður hafi klifrað upp á vitnið og upp á handriðið og reynt að komast fram hjá vitninu.  Hafi þeir Kristinn reynt að draga manninn niður og hafi orðið talsvert mikil átök úr þessu.  Þá hafi verið þarna ungur maður efst í stiganum sem hafi hrópað fúkyrði og einnig hafi verið þar stúlka.  Hafi þau verið fólkið sem inn á þingpallana fór.  Vitnið segist ekki hafa orðið fyrir meiðslum í þessum átökum.

            Ákærði neitar sök.  Ekkert vitnanna þriggja sem þarna voru hefur borið að ákærði hafi sérstaklega veist með ofbeldi að þeim eða sýnt af sér hegðun gagnvart þeim sem talist getur hindrun í starfi í skilningi 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga og bendir frásögn Kristins lögreglumanns einnig til þess að ákærði hafi komið sér hjá því að takast á við þá þarna.  Telst þetta því vera ósannað í málinu og ber að sýkna ákærða af þessu ákæruatriði.

 

2.         Ákærða er í öðru lagi gefið að sök að hafa reynt að „frelsa“ handtekinn mann úr höndum lögreglumanns við inngang á bakhlið Alþingishússins þegar lögreglumenn unnu að því að færa handtekna menn úr húsinu (III. kafli ákæru).  Er þetta talið varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga.  Ákærði hefur ekki viljað tjá sig um þetta sakaratriði.

            Kristján Helgi Þráinsson lögreglumaður hefur greint frá því að hann hafi verið við austurdyr Alþingishússins.  Lögreglumaður hafi verið með handtekinn mann þar í sundinu að dyrunum.  Hafi ákærði þá komið að og reynt að „toga hann, frelsa hann frá lögreglumanninum“.  Hafi hann einnig ýtt við lögreglumanninum og reynt að troða sér á milli hans og hins handtekna.  Segist vitnið þá hafa ásamt öðrum lögreglumanni tekið ákærða og sett í járn. 

            Ellert Björn Svavarsson hefur sagt frá því að hann hafi átt einhver orðaskipti við mann sem hafði hrækt á annan lögreglumann.  Segist hann þó halda að sá maður hafi ekki verið handtekinn út af þessu.  Þá muni hann ekki til þess að neinn hafi reynt að „frelsa“ þennan mann.  Þó segir hann eftir umhugsun að einhverjar ryskingar geti hafa orðið varðandi þennan mann og einhver hafi skipt sér af þessu.  Hann muni þetta atriði þó ekki svo að hann geti greint frekar frá því.   

            Guðmundur Ingi Rúnarsson lögreglumaður hefur skýrt frá því að hann hafi verið staddur úti fyrir austurdyrum þinghússins.  Hafi maður þar hrækt á lögreglumann og hafi þá annar lögreglumaður tekið manninn afsíðis.  Kveðst hann hafa litið svo á að sá maður hefði með þessu verið handtekinn til þess að „tala við hann út af þessu máli“.  Hafi þá ákærði tekið sig út úr hópi sem þarna var fyrir utan húsið, gengið að þeim tveimur og reynt að losa hrákamanninn úr höndum lögreglumannsins með því að ganga á milli þeirra tveggja og reyna að rífa þann fyrrnefnda úr höndum lögreglumannsins.  Hafi þeir Kristján Helgi þá handtekið ákærða og sett hann í járn.

            Samkvæmt 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga varðar það mann refsingu ef hann ræðst með ofbeldi eða hótun um ofbeldi á opinberan starfsmann við skyldustarf eða vegna þess, leitast á sama hátt við að hindra hann í skyldustarfinu eða neyða hann til einhverrar athafnar í því.  Í ákærunni er verknaði ákærða einungis lýst með þeim orðum að hann hafi reynt að „frelsa“ handtekinn mann úr höndum Ellerts Björns Svavarssonar lögreglumanns.  Dómurinn lítur svo á að með svo almennu orðalagi sé ekki lýst refsiverðu athæfi og að borið hefði að lýsa verknaðinum nánar með orðum sem svara til efnislýsingar lagagreinarinnar til þess að slíkt brot komi hér til álita, þ.e. að hann hafi með nánar tilgreindu ofbeldi reynt að frelsa manninn úr höndum lögreglu.  Ber því að sýkna ákærða af þessum ákærulið.

 

                        Sératkvæði Arngríms Ísberg héraðsdómara um þennan ákærulið

            Í 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga er lögð refsing við því að ráðast með ofbeldi eða hótunum um ofbeldi á opinberan starfsmann, þegar hann er að gegna skyldustarfi sínu eða út af því, og eins við því að leitast við að hindra framkvæmd slíks starfa.  Í III. kafla ákærunnar er ákærða E gefið að sök að hafa reynt að frelsa handtekinn mann úr höndum lögreglumanns eins og rakið er.  Fram er komið að ákærði hefur ekki tjáð sig um þetta ákæruatriði.  Tvö vitni, lögreglumenn, bera hins vegar, eins og rakið var, að ákærði hafi reynt að frelsa handtekinn mann úr höndum lögreglumanns.  Með framburði þeirra er sannað að ákærði leitaðist við að hindra lögreglumann í að gegna skyldustarfi sínu og hefur ákærði því gerst brotlegur við nefnda grein hegningarlaganna.  Tel ég hæfilega refsingu 60.000 króna sekt og komi 6 daga fangelsi í stað sektar verði hún ekki greidd innan 4 vikna.  Þá tel ég og rétt að ákærði verði dæmdur til að greiða 1/10 hluta málsvarnarlauna verjanda síns.

 

                                                            Ákærða G

1.         Ákærðu er í fyrsta lagi gefið að sök að hafa ýtt við þingverðinum Vilhjálmi Gunnari Jónssyni til þess að komast sjálf inn í Alþingishúsið (3. tl. I. kafla ákæru).  Er þetta talið varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga.

            Ákærða gaf skýrslu hjá lögreglu 15. janúar 2009 að viðstöddum verjanda.  Var henni þá sýnt myndskeið úr upptökunni margnefndu úr anddyrinu.  Bar hún kennsl á sig á myndskeiðinu og nokkrum myndum úr því sem prentaðar voru út.  Jafnframt merkti hún við sjálfa sig á þeim myndum.  Kvaðst ákærða hafa gengið nokkurn veginn óhindrað inn í húsið.

            Fyrir dómi hefur ákærða skýrt frá því aðspurð að hún hafi verið íklædd gallabuxum og svörtum jakka og með húfu á höfði og sagst þekkja sig á upptökunni.  Hún segist hafa verið aftarlega í hópnum sem fór inn um dyrnar.  Segist hún hafa verið niðri í anddyrinu allan tímann og ekki hafa farið upp í stigann.  Hún neitar því að hafa ýtt við þingverðinum Vilhjálmi Gunnari þarna en vísar annars til upptökunnar.  

            Vilhjálmur Gunnar hefur, eins og fyrr var rakið, sagt þannig frá atvikum í anddyrinu að þegar hann kom þangað hafi fólk verið að ryðjast inn um dyrnar.  Hafi hann reynt að varna fólkinu inngöngu en gefist upp á því fyrir ofureflinu og hrökklast upp að vegg.  Hann kveðst svo hafa séð á upptökunni eftir á að honum hafi verið haldið þarna örfáar sekúndur. 

            Brynjar Nikulás Benediktsson þingvörður, sem kom í anddyrið á hæla Vilhjálmi Gunnari, hefur ekki getað borið um þetta tiltekna atriði.

            María Ditas de Jesus þingvörður, sem þarna var, hefur heldur ekki getað borið um þetta tiltekna atriði.

            Á upptökunni má sjá ákærðu koma inn úr dyrunum í þvögu fólks og einnig að Vilhjálmur Gunnar kemur aðvífandi í sömu andrá og reynir að standa fyrir fólkinu.    Ekki sést hvort ákærða ýtir við honum, því hann skyggir á hana.  Þó verður það greint að hann hörfar aðeins undan ákærðu sem þá er ein fyrir framan hann.  Í þessum sömu svifum veitist sá, sem hafði verið næstur inn á undan henni, að þingverðinum og stjakar honum til hliðar, svo að ákærða kemst inn úr dyrunum. 

            Ákærða neitar sök.  Þingvörðurinn Vilhjálmur Gunnar hefur ekki borið sérstaklega um það hvort ákærða hafi beinlínis ýtt við honum.  Enda þótt myndskeiðið geti talist vera vísbending um þetta er hún ekki óyggjandi og á það er að líta að í þessari andrá stjakar annar maður þingverðinum til hliðar svo að ákærða á greiða leið inn.  Verður að telja ósannað að ákærða hafi ýtt við þingverðinum Vilhjálmi Gunnari og ber að sýkna hana af þessum ákærulið.

 

2.         Ákærðu er í öðru lagi gefið að sök að hafa tekið í þingvörðinn Brynjar Nikulás og haldið honum til þess að greiða fyrir för annarra að stiganum (3. tl. I. kafla ákæru).  Er þetta talið varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga.

            Ákærða neitar því fyrir dómi að hafa tekið í þingvörðinn eða haldið honum.  Hún segist hafa verið þarna niðri í anddyrinu og sé augljóst af myndbandinu hvað þarna gerðist.

            Brynjar Nikulás Benediktsson þingvörður hefur skýrt frá því að hann hafi hraðað sér yfir í anddyrið við austurdyrnar þegar boð komu um það að þar væru vandræði.  Hafi verið mikill gauragangur þar og fjöldi manns verið að ryðjast inn í þeim svifum.  Hafi hann reynt að stöðva fólkið en ekki haft erindi, því honum hafi verið ýtt til hliðar.  Kveðst hann hafa endað uppi í tröppunum sem þarna eru inn af.  Þá hafi hann heyrt kallað að lögreglan væri komin og þá farið niður að taka á móti lögreglumönnunum.  Síðan hafi hann dregið sig í hlé.  Hefur hann ekki borið neitt um athafnir ákærðu sérstaklega og hvorki María Ditas de Jesus né Vilhjálmur Gunnar Jónsson, þingverðir, hafa borið um þetta tiltekna sakaratriði fyrir dómi.

            Á myndskeiðinu verður það ekki séð með vissu að ákærða hafi tekið í þingvörðinn eða haldið honum.  Sést að hún hverfur út úr myndsviðinu í átt að stiganum og á meðan sést Brynjar Nikulás standa í jaðri þess og snúa baki í stigann.  Sést svo að hann hörfar innar og virðist eins og togað sé í hann aftan frá.  Í þann mund sést lítillega til ákærðu, en hún virðist þá vera til hliðar við hann, fremur en fyrir aftan hann.  Virðast einhverjar stimpingar vera með þeim en ekki er hægt að greina með vissu hvort þeirra heldur í hitt.

            Ákærða neitar sök.  Vitnin hafa ekki borið sérstaklega um athafnir hennar þarna í anddyrinu og myndskeiðið sker ekki úr um þetta sakaratriði.  Telst því vera ósannað að ákærða hafi tekið í þingvörðinn eða haldið honum og ber að sýkna hana af þessum sakargiftum.  

 

3.         Loks og í þriðja lagi er ákærðu gefið að sök að hafa tekið um þingvörðinn Guðfinnu Gísladóttur, ýtt henni úr vegi og haldið henni þegar hún reyndi að varna mannsöfnuðinum inngöngu (3. tl. I. kafla ákæru).  Er þetta talið varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga.

            Í lögregluskýrslunni, sem fyrr er getið, kannaðist ákærða við að hafa haldið utan um einn þingvarðanna og sagðist hún hafa gert það til þess að fleiri kæmust inn.  Fyrir dómi hefur ákærða vísað um þetta sakaratriði til upptökunnar úr anddyrinu og ekki tjáð sig um það frekar.

            Guðfinna þingvörður hefur sagt frá því fyrir dóminum að hún hafi hlaupið fram í anddyrið og hefur jafnframt lýst því hvernig Maríu Ditas var haldið úti og að Vilhjálmur hafi verið skorðaður upp að vegg.  Kveðst hún hafa reynt að stöðva fólk sem ætlaði úr anddyrinu og upp stigann.  Hafi hún staðið neðst í stigatröppunum og þar hafi einhver ruðst yfir hana svo að hún datt.  Hefur hún ekki borið sérstaklega um þetta sakaratriði og önnur vitni hafa heldur ekki borið sérstaklega um það. 

            Á myndskeiðinu sést ákærða koma aftan að þingverðinum, sem hefur hraðað sér að dyrunum til þess að meina fólki inngöngu, að því er virðist.  Sést hún taka um þingvörðinn miðjan með báðum höndum og halda um hann á meðan hann er að stimpast við aðra þarna í anddyrinu.

            Sannað telst með játningu ákærðu, sem gefin var hjá lögreglu, að viðstöddum verjanda, og með því sem sést á myndskeiðinu, að ákærða tók utan um þingvörðinn og hélt utan um hann meðan vörðurinn reyndi að sinna starfa sínum.  Aftur á móti verður ekki séð fyrir víst að ákærða hafi ýtt þingverðinum til hliðar.  Telst það vera ósannað í málinu og ber að sýkna ákærðu af því atriði.  Ákærðu gat ekki dulist að Guðfinna var þarna í þingvarðarstarfi sínu og telst hún hafa með ofbeldi hindrað opinberan starfsmann við skyldustarf og þannig brotið gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga.

 

                                                            Ákærða H

            Ákærðu er gefið að sök að hafa tvisvar hlaupið inn á svæði sem búið var að girða af með lögregluborða við Kirkjustræti og Vonarstræti og í átt að lögreglumönnum sem voru þá að flytja handtekna menn og hafa þannig truflað störf lögreglu og óhlýðnast fyrirmælum lögreglunnar (IV. kafli ákæru).  Er þetta talið varða við 19. og 21. gr. sbr. 1. mgr. 41. gr. lögreglulaga nr. 90, 1996.

            Í málinu er staðfest skýrsla Eiríks Valberg rannsóknarlögreglumanns, dagsett 8. desember 2008.  Þar segir frá því að hann hafi verið staddur í Templarasundi vegna óláta við Alþingishúsið.  Þá segir að svæði þar hafi verið afgirt með lokunarborðum lögreglu við Kirkjustræti og Vonarstræti.  Segir þar einnig að ákærða hafi hlaupið um fyrir innan borðana og ekki sinnt fyrirmælum lögreglu um að fara út fyrir þá.  Þegar þeir höfðu tekið hana og voru að leiða hana út fyrir þá við Vonarstræti hafi hún hlaupið inn fyrir þá aftur og að lögreglumönnum sem hafi verið að flytja til handtekna menn.  Hafi hún þá verið gripin aftur og sett í lögreglubíl.

            Ákærða neitaði að svara nokkru um þetta sakarefni eins og önnur þegar hún var yfirheyrð hjá lögreglu í desember 2008 og í janúar 2009.  Fyrir dómi hefur hún sagt að hún muni ekki eftir því að hafa farið yfir gulan plastborða inn á afmarkað svæði.  Fyrir dómi hefur hún einnig neitað að svara frekari spurningum um þetta eða um atvikin að því þegar hún var handtekin.

            Eiríkur Valberg hefur komið fyrir dóm og skýrt frá því að hann hafi staðið vörð um svæðið sem búið var að afgirða fyrir austan þinghúsið, milli þess og Dómkirkjunnar, og hafi honum verið ætlað að gæta þess að fólk færi ekki inn fyrir öryggisborðana.  Ákærða H hafi farið inn á afgirt svæðið og hafi þeir Jens Gunnarsson lögreglumaður beðið hana um að fara þaðan út.  Hafi þeir gert þetta tvisvar en hún hafi ekki sinnt því.  Hafi þeir þá fært hana út fyrir borðana en hún hlaupið aftur inn fyrir þá í áttina að lögreglumönnum sem hafi verið að flytja handtekna menn.  Þeir hafi þá handtekið ákærðu og sett hana inn í lögreglubíl.       

            Jens Gunnarsson lögreglumaður hefur komið fyrir dóm og skýrt frá því að þegar þeir Eiríkur komu á vettvang hafi verið búið að afgirða svæði með borða og hafi þeir verið settir til þess að gæta svæðisins.  Kona, sem vitnið heldur að heiti H, hafi verið inni á svæðinu og hafi hún óhlýðnast fyrirmælum þeirra um að fara út fyrir borðana.  Hafi þeir handtekið hana og fylgt henni út fyrir þá.  Hún hafi hins vegar þegar komið inn fyrir borðana aftur og hlaupið að lögreglumönnum sem voru þar fyrir innan að störfum.  Minnir hann að hann hafi skorað á konuna aftur að fara út fyrir en hún hafi svo verið tekin og sett í lögreglubíl. 

            Samkvæmt 19. gr. lögreglulaga er almenningi skylt að hlýða fyrirmælum sem lögreglan gefur, svo sem vegna umferðarstjórnar eða til þess að halda uppi lögum og reglu á almannafæri.  Ekki hefur annað komið fram við meðferð málsins um gerð umrædds plastborða en að hann er gulur á lit.  Þá hefur ekki verið sýnt fram við meðferð málsins hvort eitthvað og þá hvað hafi staðið á borðanum.  Þá er ekki að sjá að settar hafi verið reglur um gerð og þýðingu slíkra borða.  Loks liggur það ekki fyrir í málinu að ákærðu hafi fyrir fram verið bannað að fara inn fyrir hann.    Ákvæði þetta verður að skilja svo að það taki einungis til fyrirmæla, munnlegra eða skriflegra, en ekki til merkis af þessu tagi.  Breyta valdheimildir lögreglu samkvæmt 2. mgr. 15. gr. laganna þessu ekki.  Verður ákærða því sýknuð af því að hafa brotið gegn þessu refsiákvæði með því að fara inn fyrir borðann.  Dómurinn álítur aftur á móti að sannað sé með vætti lögreglumannanna tveggja að ákærða hafi tvisvar sinnum óhlýðnast fyrirmælum þeirra um það að fara út fyrir svæði sem afmarkað hafði verið með borðanum.  Telst hún hafa með því gerst sek um brot gegn 19. gr. lögreglulaga.

 

            Ákærðu er enn fremur gefið að sök að hafa í umrætt sinn truflað störf lögreglu og er hún talin hafa með þessu brotið gegn 21. gr. lögreglulaga.  Samkvæmt þessu ákvæði er það bannað að tálma því á nokkurn hátt að maður gegni lögreglustörfum.  Jafnframt er sett við greinina svohljóðandi fyrirsögn:  „Bann við að tálma lögreglu í störfum sínum.“  Ákvæðið tekur þannig til hvers konar hindrunar við því að lögreglan sinni störfum sínum.  Aftur á móti verður það ekki skilið svo rúmt að það taki einnig til þess er maður með athæfi sínu eykur á annríki lögreglu.  Verður ekki séð að ákærða hafi með því að fara inn fyrir lögregluborðann og vera þar í skamma stund gert annað en að auka lítils háttar ómaki við aðrar annir lögreglumannanna.  Hefur því ekki verið sýnt fram á að hún hafi tálmað lögreglunni störf í skilningi 21. gr. lögreglulaga.  Ber því að sýkna hana af þessu ákæruatriði.

 

                                                                        Ákærði Þór

            Ákærða er gefið að sök að hafa tálmað þingverðinum Maríu Ditas í störfum sínum með því að halda austurdyrum á Alþingishúsinu opnum þrátt fyrir að María Ditas reyndi að loka þeim (1. tl. I. kafla ákæru).  Er þetta talið varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga.

            Ákærði sagði í skýrslu hjá lögreglu, daginn sem atburðurinn varð, að hann hefði farið á fund fólks við Iðnó.  Þar hefði maður sem hann áleit vera einn af forsprökkum hópsins beðið sig og annan mann að halda opnum dyrunum á þinghúsinu fyrir þeim hinum.  Kvaðst hann hafa haldið hurðinni meðan fólkið fór inn og upp í stigann.  Fyrir dómi hefur ákærði kannast við sig á myndskeiðinu margnefnda og við það að hann sjáist þar halda útidyrunum opnum.  Hann hefur þó sagt að ekki hafi verið búið að ákveða fyrir fram að þetta skyldi gert.  Hann hefur enn fremur kannast við að hafa tekið lykil sem stóð í skránni á hurðinni, eins og sjáist á myndskeiðinu.  Hafi það verið gert til þess að ekki væri hægt að loka fyrr en allir væru komnir inn.  Hann hefur að öðru leyti vísað til myndskeiðsins um sinn hlut í málinu. 

            María Ditas hefur skýrt frá því hvernig fyrstu mennirnir komu inn í anddyrið umræddan dag.  Segir hún að einn þeirra hafi haldið hurðinni opinni og einnig hafi hann tekið lykilinn úr skránni.  Hafi hann haldið opnu fyrir hópinn sem á eftir kom en hún hafi reynt að loka, en henni hafi ekki tekist það fyrir manninum sem hafi haldið hurðinni. 

            Á myndskeiðinu úr anddyrinu má sjá ákærða koma inn í dyragættina að utan, snúast þar á hæli og taka sér svo fyrir hendur að halda opnum þinghúsdyrunum (sem opnast út) fyrir hópnum sem sést koma inn sundið nokkru á eftir honum.  Sést hann halda þeim opnum nokkra stund eftir að fólkið er komið inn og hefur farið innar.  Sést að ákærði tekur lykilinn upp af jörðinni á bak við hurðina og setur hann í skrána.  María Ditas heldur áfram að togast á við hann um hurðina en hann lætur sig ekki og fær hún engu áorkað.  Að lokum gengur hann inn á eftir hinum.

            Sannað er með játningu ákærða, vætti Maríu Ditas de Jesus og myndskeiðinu að ákærði hindraði með ofbeldi þingvörðinn í því að gegna starfa sínum með því að halda opnum dyrunum, þótt hann margreyndi að loka þeim.  Gat ákærða ekki dulist að þingvörðurinn var þarna að rækja opinberan starfa sinn.  Hefur hann með þessu orðið sekur um brot gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga.

 

Refsing, skaðabætur og sakarkostnaður

            Ákærði Andri Leó hefur ekki áður gerst sekur um refsilagabrot.  Refsing hans þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 4 mánuði.  Rétt þykir að fresta framkvæmd refsingarinnar og ákveða að hún falli niður að liðnum tveimur árum frá dómsuppsögu, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

            Ákærða G hefur ekki áður gerst sek um  refsilagabrot. Refsing hennar er hæfilega ákveðin 100.000 króna sekt og komi 8 daga fangelsi í stað sektarinnar, greiðist hún ekki innan 4 vikna frá dómsbirtingu.

            Ákærða H var sektuð árið 2006 fyrir brot gegn 19. gr. lögreglulaga.  Þá var hún sektuð árið eftir fyrir þjófnað.  Refsing hennar er hæfilega ákveðin 100.000 króna sekt og komi 8 daga fangelsi í stað sektarinnar, greiðist hún ekki innan 4 vikna frá dómsbirtingu.

            Ákærði Þór hefur ekki áður gerst sekur um refsilagabrot.  Refsing hans þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 60 daga.  Rétt þykir að fresta framkvæmd refsingarinnar og ákveða að hún falli niður að liðnum tveimur árum frá dómsuppsögu, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

            Bótakröfu Maríu Ditas de Jesus ber samkvæmt 2. mgr. 176. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88, 2008 að vísa frá dómi

            Dæma ber ákærðu Andra Leó og Þór til þess óskipt að greiða verjanda sínum, Brynjari Níelssyni hrl., 400.000 krónur í málsvarnarlaun en úr ríkissjóði ber að greiða verjandanum 400.000 krónur í málsvarnarlaun.  Þá ber að dæma ákærðu G og H til þess að greiða verjanda sínum, Ragnari Aðalsteinssyni hrl., óskipt 400.000 krónur í málsvarnarlaun en úr ríkissjóði ber að greiða verjandanum 1.000.000 krónur í málsvarnarlaun fyrir starfa hans í þeirra þágu og í þágu ákærðu D og E.  Dæma ber að 800.000 króna málsvarnarlaun verjanda ákærðu A og B, Tryggva Agnarssonar hrl., skuli greiðast úr ríkissjóði.  Enn fremur ber að dæma að 700.000 króna málsvarnarlaun verjanda ákærða F, Bjarna Eiríkssonar hdl., skuli greiðast úr ríkissjóði.  Loks ber að leggja á ríkissjóð réttargæslulaun til handa Guðrúnu Sesselju Arnardóttur hrl., 300.000 krónur.  Málsvarnar- og réttargæslulaun eru ákveðin með virðisaukaskatti. 

           

                                                                        DÓMSORÐ: 

            Ákærðu, A, B, D, E og F, eru sýkn af ákæru í máli þessu.

            Ákærði, Andri Leó Lemarquis, sæti fangelsi í 4 mánuði.  Frestað er framkvæmd refsingarinnar og fellur hún niður að liðnum tveimur árum frá dómsuppsögu, haldi ákærði almennt skilorð.

            Ákærðu, G og H, greiði hvor um sig 100.000 krónur í sekt að viðlögðu 8 daga fangelsi, greiðist sektin ekki innan 4 vikna frá dómsbirtingu.

            Ákærði, Þór Sigurðsson, sæti fangelsi í 60 daga.  Frestað er framkvæmd refsingarinnar og fellur hún niður að liðnum tveimur árum frá dómsuppsögu, haldi ákærði almennt skilorð.

            Bótakröfu Maríu Ditas de Jesus er vísað frá dómi.

            Ákærðu Andri Leó og Þór greiði verjanda sínum, Brynjari Níelssyni hrl., óskipt 400.000 krónur í málsvarnarlaun. 

            Ákærðu G og H greiði verjanda sínum, Ragnari Aðalsteinssyni hrl., óskipt 400.000 krónur í málsvarnarlaun.

            Úr ríkissjóði greiðist verjendum ákærðu málsvarnarlaun sem hér segir: Bjarna Eiríkssyni hdl., 700.000 krónur, Brynjari Níelssyni hrl., 400.000 krónur, Ragnari, Aðalsteinssyni hrl., 1.000.000 krónur og Tryggva Agnarssyni hrl., 800.000 krónur.  Loks greiðist Guðrúnu Sesselju Arnardóttur hrl. 300.000 króna réttargæslulaun úr ríkissjóði.

 

                                                                        Pétur Guðgeirsson

                                                                        Arngrímur Ísberg

                                                                        Jón Finnbjörnsson