• Lykilorð:
  • Brot gegn valdstjórninni
  • Hegningarauki
  • Skilorð

D Ó M U R

Héraðsdóms Suðurlands fimmtudaginn 10. janúar 2019 í máli nr. S-274/2018:

Ákæruvaldið

                                                (Arndís Bára Ingimarsdóttir saksóknarfulltrúi)

gegn

Gabríel Birni Brown Björnssyni

 

 

Mál þetta, sem þingfest var og dómtekið fimmtudaginn 13. desember sl., er höfðað með ákæru Héraðssaksóknara þann 8. nóvember sl., á hendur Gabríel Birni Brown Björnssyni,   

 

„fyrir neðangreind brot gegn valdstjórninni, framin aðfaranótt sunnudagsins 25. febrúar 2018, í Vestmannaeyjum:

 

1.       Með því að hafa, við handtöku utandyra við Kirkjuveg 21, bitið lögreglumanninn A, sem var við skyldustörf, í handarbak hægri handar með þeim afleiðingum að hann hlaut bitfar, sem var u.þ.b. 2 sentímetrar í þvermál.

 

2.       Með því að hafa, á lögreglustöðinni við Faxastíg eftir handtöku í umrætt sinn, hótað að beita lögreglukonuna B kynferðislegu ofbeldi og því að hún yrði hvergi óhult og með því að hafa hótað henni og lögreglumönnunum A og C, er þau gegndu skyldustarfi sínu, lífláti.

 

Framangreind brot ákærða samkvæmt 1. og 2. tölulið teljast varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940,

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.“

 

Ákærði mætti við þingfestingu málsins og lýsti yfir að hann óskaði ekki eftir skipun verjanda. Ákærði viðurkenndi skýlaust að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Með vísan til skýlausrar játningar ákærða og þar sem dómari taldi ekki ástæðu til að draga í efa að játning hans væri sannleikanum samkvæm var farið með málið í samræmi við ákvæði 1. mgr. 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, eftir að aðilum hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

Um málavexti vísast til ákæruskjals. Sannað er að ákærði hefur gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar þykir rétt færð til refsiákvæða. Ákærði hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar. Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur ákærði tvívegis áður sætt refsingu. Þann 6. júní 2016 var ákærða gerð sekt vegna þjófnaðar. Þá var ákærða þann 6. júlí 2018 gert að sæta fangelsi í 90 daga, vegna líkamsárásar, hótana, umferðarlagabrota og vopnalagabrota, en fullnustu refsingarinnar var frestað skilorðsbundið til tveggja ára. Brot það sem ákærði er nú sakfelldur fyrir er framið fyrir uppkvaðningu síðastgreinds dóms og verður ákærða því nú dæmdur hegningarauki. Með vísan til 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, ber að taka framangreinda refsingu upp og dæma með hinu nýja broti, og ákveða refsingu ákærða í einu lagi með vísan til 78. sömu laga. 

Refsing ákærða er hæfilega ákveðin fangelsi í fjóra mánuði. Að virtum atvikum máls og að teknu tilliti til skýlausrar játningar ákærða, þykir rétt að fresta fullnustu refsingarinnar og skal refsingin falla niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með áorðnum breytingum.

Með vísan til 235. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, með síðari breytingum, ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, sem nemur samkvæmt yfirliti sækjanda samtals 20.678 kr.

Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

D ó m s o r ð :

Ákærði, Gabríel Björn Brown Björnsson, sæti fangelsi í fjóra mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal refsingin falla niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með áorðnum breytingum.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, 20.678 krónur.

 

                                                                        Sigurður G. Gíslason