• Lykilorð:
  • Málsvarnarlaun
  • Fangelsi
  • Sakarkostnaður
  • Skaðabætur
  • Tilraun

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 17. febrúar 2009 í máli nr. S-100/2009:

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari)

gegn

Inga Páli Eyjólfssyni

(Brynjar Níelsson hrl.)

 

 

 

            Ár 2009, þriðjudaginn 17. febrúar, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Pétri Guðgeirssyni, héraðsdómara,  kveðinn upp dómur í sakamálinu nr. 100/2009:  Ákæruvaldið (Sigríður Friðjónsdóttir) gegn Inga Páli Eyjólfssyni (Brynjar Níelsson hrl.) sem tekið var til dóms hinn 11. febrúar sl. að lokinni aðalmeðferð.

            Málið er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri  21. janúar sl. á hendur ákærða, Inga Páli Eyjólfssyni, kt. 000000-0000, sem ekki er skráður til lögheimilis, “fyrir tilraun til manndráps með því að hafa þriðjudaginn 25. nóvember 2008 á Hlemmtorgi í Reykjavík ráðist að hálfbróður sínum, Gísla Inga Gunnarssyni, kennitala 000000-0000, og stungið hann með hnífi í bak og öxl með þeim afleiðingum að Gunnar Ingi hlaut sár yfir vinstra herðablaði, brot á herðablaðinu, blæðingu í brjóstholi aftan við vinstra lunga, loftbrjóst og blæðingu í vinstra lunga og sár yfir axlarvöðva vinstra megin.

Telst þetta varða við 211. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.”

            Þá er málið höfðað á hendur ákærða með svohljóðandi framhaldsákæru, dagsettri 26. janúar sl.: “Með skírskotun til 1. mgr. 153. gr. og 5. mgr. 173. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 er framhaldsákæra þessi gefin út vegna upplýsinga sem ekki lágu fyrir við útgáfu ákæru ríkissaksóknara 21. þ.m. á hendur: Inga Páli Eyjólfssyni, [...] og er svohljóðandi bótakröfu hér með aukið við ofangreinda ákæru: “Gísli Ingi Gunnarsson, kennitala 000000-0000, krefst bóta úr hendi ákærða að fjárhæð kr. 3.062.922 auk dráttarvaxta sbr. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 25. nóvember 2008 til greiðsludags.””

           

Málavextir

            Samkvæmt framburði ákærða og vitna og öðrum sakargögnum liggur það fyrir að aðfaranótt þriðjudagskvöldið 25. nóvember sl. hittust ákærði og hálfbróðir hans sammæðra,Gísli Ingi Gunnarsson, fæddur 1968, við gatnamót Rauðarárstígs og Laugavegar við Hlemm.  Höfðu þeir á undan talast við í síma og mælt sér mót þarna en það símtal var ekki vinsamlegt.  Þegar þeir svo hittust um klukkan um 18.30, að ætla má, kastaðist enn í kekki með þeim.  Ákærði var með oddhvassan hníf á sér, sem var með 13,4 cm blaði og hann hafði tekið heima hjá vinkonu sinni þá skömmu áður.  Réðst hann að bróður sínum og stakk hann tvisvar sinnum með hnífnum.  Kom annað hnífslagið ofarlega í bakið á honum, gekk þar á hol í gegn um vinstra herðablað og langt inn í lunga.  Hin stungan kom í vinstri öxlina og gekk þar inn í vöðva.  Vegfarendur skárust í leikinn og en ákærði komst undan á flótta.  Hann var svo handtekinn á Vatnsstíg tæpri klukkustund eftir þetta.  Hnífurinn varð eftir á vettvangi og var lagt hald á hann. 

            Gísli Ingi og stjúpfaðir hans, sem var nærstaddur þessi átök bræðranna, gengu yfir á lögreglustöðina við Hverfisgötu og gáfu sig þar fram.  Var Gísla Inga ekið á slysadeild Fossvogsspítala.  Samkvæmt staðfestu vottorði Theódórs Friðrikssonar sérfræðilæknis á slysa- og bráðadeild var komið þangað með hann kl. 19.05 og leið honum þá greinilega mjög illa.  Var honum þungt um andardrátt og kvartaði hann um mikla verki.  Sárið á bakinu var á miðju herðablaði þó nær innanverðri brún og um 2 cm á breidd.  Sárið á yfir axlarvöðvanum var stærra að sjá og gapti talsvert.  Eftir komuna þyngdi manninum heldur, honum varð þyngra um andardrátt og blóð-þrýstingur féll.  Fékk hann þá vökva í æð sem hækkaði þrýstinginn aftur.  Á sneiðmynd af brjóstkassa mátti sjá blæðingu aftan við vinstra lunga og talsvert loft-brjóst svo að lungað var allmikið fallið saman.  Þá var að sjá að blætt hafði um það bil 5 cm inn í lungnavefinn. Brot sást á herðablaðinu þar sem hnífurinn hafði gengið í gegn og talsvert mikið loft í mjúkvefjum aftanvert á baki alveg upp undir háls og niður undir mitti.  Var gert að þessum áverkum mannsins.  Að áliti læknisins var hér um að ræða mjög alvarlegan áverka þar sem hnífurinn hafi verið rekinn af talsverðu afli djúpt inn í brjóstkassann, gegn um herðablað og inn í lungnavefinn.  Þó að hnífurinn hafi ekki skaddað stórar æðar hefðu afleiðingar hnífsstungunnar getað orðið mun alvarlegri og jafnvel banvænar ef hnífurinn hefði haft aðeins aðra stefnu eða gengið dýpra.  Fram er komið í málinu að Gísli Ingi muni ná sér að fullu eftir þennan áverka.

            Ákærða var tekið blóð til rannsóknar og greindist í því umbrotsefni amfetamíns svarandi til þess að hann hefði tekið efnið í lækningaskyni.

            Verður nú gerð grein fyrir því sem fram hefur komið í aðalmeðferð málsins. 

            Ákærði játar sök.  Hann segist hafa hringt í  Gísla Inga vegna skilaboða sem hann hafði sent vinkonu ákærða.  Hafi hann reiðst þessum boðum þar sem henni var hótað ef hún ekki segði hvar ákærði héldi sig.  Hafi þeir rifist í símann og Gísli Ingi spurt hvort ákærði vildi ekki hitta “vin” sinn sem myndi lægja í honum rostann.  Ákærði kveðst vita að bróðir hans eigi sér misjafna fortíð, þar á meðal fangavist erlendis, og þekki hann ýmis konar fólk sem ákærði telur vera hættulegt.  Kveðst hann því hafa orðið mjög hræddur við þetta.  Hann segir þó aðspurður að bróðir hans hafi aldrei beitt hann neinu ofbeldi enda hafi samskipti þeirra alla tíð verið mjög góð.  Tilefnið að því að bróðir hans var að leita að honum hafi verið að hann hafði tekið bíl foreldra sinna að ófrjálsu og þar með ýmsa hluti sem í bílnum voru.  Hann kveðst ekki muna eftir því að hafa hótað bróður sínum í þessu símtali.  Til þess að vera við öllu búinn hafi hann tekið stóran hníf heima hjá vinkonu sinni á Hrefnugötu og hafa svo gengið þaðan með hnífinn í erminni niður á Hlemm þar sem þeir bræður höfðu mælt sér mót á veitingastofunni “Monaco”.  Næst muni hann eftir sér þegar bróðir hans kom aftan að honum og greip um axlir hans.  Kveðst ákærði þá hafa orðið mjög hræddur og reiður og því misst stjórn á sér.  Hann segist ekki muna eftir orðaskiptum á milli þeirra þarna.  Næst muni hann eftir sér uppi á Grettisgötu og kveðst hann ekki muna eftir því að hafa stungið Gísla Inga.  Hann kveðst þó hafa áttað sig á því hvað hann hafði gert.  Hafi hann óttast mjög að hafa orðið bróður sínum að bana.  Ákærði kveðst hafa verið í mikilli amfetamínneyslu marga daga á undan þessu og einnig hafði hann neytt annarra lyfja, svo sem rítalíns og mógadons.     

            Gísli Ingi Gunnarsson hefur skýrt frá því að þeir hafi mælt sér mót á “Monaco” vegna þess að ákærði hafði tekið hluti ófrjálsri hendi heima hjá foreldrunum og hafði þetta verið kært til lögreglu.  Hann kveðst hafa verið að koma frá Vestmannaeyjum þegar þeir töluðu saman.  Hafi hann sagt það í símann að ef vinkona ákærða ætlaði að hylma yfir með honum mætti hún búast við því að vera kærð einnig.  Hann kveðst hins vegar ekki hafa hótað ákærða ofbeldi.  Stjúpfaðir hans hafi sótt hann út á flugvöll á bílnum sem þá hafði komið í leitirnar.  Hafi þeir ekið inn á Hlemm og hefði verið talað um það í símtalinu að faðir þeirra yrði einnig á fundi þeirra bræðranna.  Hafi þá sést til ákærða þar sem hann gekk fram hjá “Háspennu” og í áttina niður Laugaveg.  Kveðst vitnið hafa farið úr bílnum og gengið til ákærða.  Hafi hann tekið í handlegginn á ákærða og beðið hann um að koma og tala við þá feðga.  Hafi ákærði þá spurt hvort hann ætlaði að stúta sér en vitnið minnt hann á að þeir væru bræður og að hann þyrfti ekki að óttast þá feðga.  Hafi ákærði dregið upp hníf og virst vera trylltur og mjög skelkaður.  Kveðst hann þá hafa hlaupið upp götuna og upp á bílastæði við bankahúsið og ákærði á eftir.  Hafi hann snúið þar við en þá fundið fyrir höggi í bakið.  Hafi hann þá snúið sér að ákærða, tekið hann hálstaki og náð af honum hnífnum.  Hann kveðst hafa setið í fangelsi í Finnlandi fyrir fíkniefnabrot og hafi ákærði vitað af því.  Þá segist hann einnig eiga þar ólokið mál fyrir að berja mann mjög illa með kylfu.  Hann kveðst ekki vita hvort ákærði viti af því máli og hann kveðst aldrei hafa beitt hann neinu ofbeldi. 

            Gísli Ingi segist hafa verið um sex daga á sjúkrahúsi og vera nýlega orðinn vinnufær aftur.  Hefði hann stundað sjó í Eyjum fyrir atburðinn en hann geti þó ekki stundað erfiðisvinnu enn sem komið er.  Hann muni þó geta það von bráðar.

            Grétar Hauksson hefur komið fyrir dóm og skýrt frá því að hann hafi séð úr strætisvagni til tveggja manna á hlaupum upp Laugaveg fram hjá Hlemmi og upp hjá bankabyggingunni hafi annar þeirra, sem var á eftir hinum, haft höndina á lofti og haldið þar á einhverju.  Þeir hafi svo snúið við og hlaupið í átt að strætisvagnastöðinni.  hafi hann þá séð að það var hnífur sem aftari maðurinn hélt á lofti.   Hafi sá dregið uppi hinn manninn og farið að “slá til hans með hnífnum”.   Mennirnir hafi svo lent utan í vagninum sem vitnið sat í og fallið í götuna.  Hann segir þá vagnstjórann hafa farið úr vagninum og hafi sá sem fyrir árásinni varð þá haft hinn undir.  Ennfremur hafi þriðji maðurinn legið ofan á hinum tveimur og hélt höndum árásarmannsins.  Hnífurinn hafi legið í götunni hjá þeim.  Segist vitnið hafa heyrt árásarmanninn segja: “Þú hótar mér ekki” og endurtekið það nokkrum sinnum.  Kveður hann árásarþolann hafa greinilega verið drukkinn og árásarmaðurinn verið í annarlegu ástandi, æstur mjög. 

            Ásta Kristmannsdóttir, sem rekur áfangaheimili og hitti ákærða eftir atburðinn, segir hann fyrst hafa hringt í miklu uppnámi og beðið um hjálp því hann væri í miklum vandræðum.  Kveðst hún hafa farið að finna hann og þau hist á Grettisgötu.  Hafi hann verið í taugaáfalli, ruglaður í tali og allur á iði.  Hafi hann talað sífellt um að hann hefði skaðað bróður sinn með því að stinga hann tvisvar ofarlega í bakið með hnífi sem hann hefði fengið heima hjá vinkonu sinni.  Hafi hann sagst vera hræddur um að hafa orðið honum að bana.    

 

Niðurstaða

            Sannað er með framburði ákærða og vitnanna Gísla Inga Gunnarssonar og Grétars Haukssonar sem nýtur stuðnings af vætti Ástu Kristmannsdóttur og rannsóknarskjölum málsins að ákærði réðst að Gísla Inga og stakk hann tvisvar sinnum með hnífi, eins og gerð hefur verið grein fyrir.  Ákærði beitti oddhvössum og stórum hnífi við verkið og af svo miklu afli að hnífurinn fór í gegnum herðablað og djúpt inn í vinstra lunga.  Verður að telja að hending ein hafi ráðið því að ekki hlaust bani af atlögunni og að ákærða hafi hlotið að vera það ljóst að langlíklegast væri að svo færi.  Hefur hann gerst sekur um brot gegn 211. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga.

 

Refsing, skaðabætur og sakarkostnaður

            Af hálfu ákærða er á því byggt að hann hafi framið brot sitt í svo mikilli reiði eða geðshræringu að 4. tl. 74. gr. og 75. gr. almennra hegningarlaga eigi við um mál hans sem og 2. mgr. 20. gr. sömu laga.  Dómurinn fær ekki séð að Gísli Ingi hafi vakið reiði hjá ákærða á þann hátt sem áskilið er í 4. tl. 74. gr. eða að ákærði hafi sérstakar málsbætur, sbr. 2. ml. 75. gr., né heldur að 2. mgr. 20. gr. laganna eigi við um hann.  Fram er komið í málinu að Gísli Ingi biður bróður sínum vægðar og hefur fyrirgefið honum árásina.  Þá er það einnig komið fram að móðir þeirra á við erfiðan sjúkdóm að stríða.  Þegar allt þetta er haft til hliðsjónar þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 5 ár.   Frá refsingunni ber að draga gæsluvarðhaldsvist sem ákærði hefur sætt frá 26. nóvember sl., samtals 83 daga.

            Af hálfu Gísla Inga Gunnarssonar hefur bótakrafan í málinu verið lækkuð um 958.583 krónur og sundurliðast hún nú sem hér segir:

            bætur vegna tímabundins atvinnutjóns                         kr.           941.417

            miskabætur                                                                              --         1.000.000

            sjúkrakostnaður                                                                       --                2.922

            fatatjón                                                                                    --              60.000

            lögmannsþóknun                                                                      --             100.000

            alls                                                                                          --         2.104.339

            Ákærði mótmælir ekki bótakröfunni að öðru leyti en því að hann krefst þess að bætur fyrir tímabundið atvinnutjón verði dæmdar lægri en krafist er.  Í málinu er vottorð Gunnars M. Einarssonar sérfræðings í brjóstholsskurðlækningum þar sem fram kemur að Gísli Ingi var talinn óvinnufær frá því að hlaut áverkann og til 1. febrúar sl.  Þá hafa verið lögð fram gögn frá Bergi-Huginum hf. um tekjur háseta í desember og janúar, en Gísli Ingi hafði verið háseti í afleysingum hjá félaginu hluta af október 2008.  Kemur þar fram að hann, eins og aðrir afleysingamenn, hefði átt möguleika á því að fara í veiðiferðir í desember og janúar en afleysingamenn hefðu verið í öllum veiðiferðum á þessum tíma.  Þykir mega slá því föstu að Gísli Ingi hafi orðið fyrir atvinnutjóni vegna meiðslanna en þar sem hann var ekki fastráðinn í skiprúm verða honum ekki dæmdar frekari bætur fyrir það tjón en 450.000 krónur.  Ber samkvæmt þessu að dæma ákærða til þess að greiða Gísla Inga 1.612.922 krónur ásamt vöxtum, eins og nánar greinir í dómsorðinu. 

            Dæma ber ákærða til þess að greiða verjanda sínum, Brynjari Níelssyni hrl. málsvarnarlaun fyrir verjandastörf við rannsókn og meðferð málsins, 250.000 krónur.  Þá ber að dæma ákærða til þess að greiða Stefáni Karli Kristjánssyni hdl. 86.154 krónur í málsvarnarlaun fyrir starfa við rannsókn málsins.  Málsvarnarlaunin dæmast með virðisaukaskatti.

            Annan sakarkostnað, 170.763 krónur, ber að dæma ákærða til þess að greiða.

 

                                                            DÓMSORÐ:

            Ákærði. Ingi Páll  Eyjólfsson, sæti fangelsi í 5 ár.  Frá refsingunni ber að draga 83 daga gæsluvarðhaldsvist.

            Ákærði Greiði Gísla Inga Gunnarssyni 1.612.922 krónur í skaðabætur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001 frá 25. nóvember til greiðsludags. 

            Ákærði greiði verjanda sínum, Brynjari Níelssyni hrl. 250.000 krónur í máls-varnarlaun og Stefáni Karli Kristjánssyni hdl. 86.154 krónur í málsvarnarlaun.  

            Annan sakarkostnað, 170.763 krónur, greiði ákærði.

                                                                       

                                                                                    Pétur Guðgeirsson