• Lykilorð:
  • Dánarbú
  • Skattar

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 26. júní 2008 í máli nr. E-7835/2007:

Soffía Þ. Thoroddsen

(Magnús Thoroddsen hrl.)

gegn

Tollstjóraembættinu í Reykjavík

(Guðfinna H. Þórsdóttir hdl.)

 

 

                                                                     I.

       Mál þetta, sem dómtekið var að loknum munnlegum málflutningi 2. júní sl., er höfðað með stefnu, birtri 15. nóvember 2007, af Soffíu Þ. Thoroddsen, Hofgörðum 12, Seltjarnarnesi, á hendur Tollstjóraembættinu í Reykjavík, Tryggvagötu 19, Reykjavík.

       Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að endurgreiða sér 59.547 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 25. maí 2007 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt framlögðu málskostnaðaryfirliti.

       Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar að mati dómsins.

 

                                                                     II.

       Stefnandi er einn þriggja erfingja dánarbús Bjargar Magnúsdóttur, sem andaðist 27. maí 2004. Var erfingjum veitt leyfi til einkaskipta af Sýslumanninum í Reykjavík 7. júní 2004 og lauk skiptum í maí 2005. Dánarbúið skilaði inn skattframtali á árinu 2005 vegna tekna ársins 2004. Skattstjórinn í Reykjavík lagði skatt á dánarbúið 1. ágúst 2005, samtals að fjárhæð 500.204 krónur. Samkvæmt álagningarseðli var  fyrirframgreiddur skattur 307.068 krónur og staða dánarbúsins við álagningu 193.200 krónur. Átti skuldin að greiðast á 5 gjalddögum, 1. hvers mánaðar, frá 1. ágúst 2005 til 1. desember 2005. Þar sem skuldin var ekki greidd sendi stefndi erfingjum bréf í ágúst 2006 þar sem tilkynnt var um gjaldfallna skuld dánarbúsins. Einn erfingja búsins greiddi 23. ágúst 2006 höfuðstól kröfunnar að fjárhæð 193.200 krónur. Stefndi ráðstafaði greiðslunni inn á áfallna dráttarvexti, en eftirstöðvum inn á höfuðstól.

       Þar sem krafan var ekki greidd að fullu var stefnanda send greiðsluáskorun vegna eftirstöðva hennar 12. janúar 2007. Þar sem greiðsla barst ekki sendi stefndi aðfararbeiðni til Héraðsdóms Reykjavíkur 12. febrúar 2007 og heimilaði dómurinn aðför til fullnustu kröfunnar 14. mars 2007 sama ár. Í kjölfarið var aðfararbeiðni send Sýslumanninum í Reykjavík og var hún móttekin af embættinu 28. mars 2007. Aðfararbeiðni var tekin fyrir hjá Sýslumanninum í Reykjavík dagana 24. og 25. maí 2007. Mótmælti stefnandi þar kröfunni en gerðinni var engu að síður fram haldið. Lauk málinu hjá Sýslumanninum í Reykjavík með því að stefnandi greiddi kröfuna, með fyrirvara um endurheimtu greiðslunnar. Nam fjárhæðin þá 59.547 krónum, sem er stefnufjárhæð máls þessa.

 

III.

       Stefnandi byggir málatilbúnað sinn á því að samkvæmt 98. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, beri að senda hverjum skattaðila tilkynningu um þá skatta sem á hann hafi verið lagðir. Það hafi ekki verið gert í þessu tilfelli og meðan svo hafi staðið á hafi skuldin ekki getað farið að bera dráttarvexti. Því sé dráttarvaxtakrafan lögleysa. Af hálfu stefnanda og annarra erfingja hafi aldrei staðið á greiðslugetu né vilja til greiðslu réttmætra skatta vegna dánarbúsins. Óljóst sé hvernig mögulegt hafi verið að greiða skuldina ef erfingjar hvorki vissu um tilvist hennar né upphæð. Dráttarvaxtakrafan brjóti því einnig í bága við 7. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Þá beri hún ekki síst vott um óvandaða stjórnsýslu og sé því í andstöðu við ákvæði 10. – 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Vegna brota skattyfirvalda á framangreindum lagaákvæðum hafi erfingjar dánarbúsins ekki fengið vitneskju um skattskuld þessa fyrr en búið hafi verið að reikna á hana dráttarvexti. Þeim hafi því aldrei gefist tækifæri til að greiða höfuðstólinn, án viðurlaga. Sleifarlag þetta í stjórnsýslu sé á ábyrgð skattyfirvalda og innheimtumanns ríkissjóðs, en ekki gjaldenda.

       Þá byggir stefnandi á því að samkvæmt aðfararbeiðni sé verið að krefja um greiðslu skuldar vegna vangoldinna opinberra gjalda dánarbúsins. Það sé hins vegar rangt, þar sem verið sé að krefjast dráttarvaxta, en höfuðstóll skattsins hafi áður verið greiddur. Þá taki fulltrúi sýslumanns ekki til meðferðar í aðfarargerð eina einustu varnarástæðu af hálfu gerðarþola, en byggi ákvörðun sína á því að ætla verði að lögmaður stefnanda hafi haft vitneskju um skattskyldu dánarbúsins. Vitanlega hafi lögmaður stefnanda lagalega vitneskju um skattskyldu dánarbúa almennt, en enginn erfingjanna hafi haft hugmynd um þessa skattskuld, enda hafi hún verið greidd strax og hennar var krafist, en dráttarvöxtum hafi verið mótmælt.

       Stefnandi kveðst einnig byggja á réttarreglum um endurgreiðslu ofgreidds fjár.  

           

IV.

       Stefndi byggir málatilbúnað sinn á því að kveðið sé á um skattskyldu dánarbúa í 5. tl. 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Í samræmi við þessa skyldu hafi dánarbúið skilað skattframtali á árinu 2005 vegna tekna og eigna ársins 2004. Framtalið hafi verið móttekið hjá Skattstjóranum í Reykjavík innan skilafrests, sem hafi verið hinn 21. mars 2005. Á framtalinu séu taldar fram tekjur og eignir dánarbúsins, og mynduðu eignirnar stofn til eignarskatts samkvæmt þágildandi VII. kafla laga nr. 90/2003, sem fjallaði um eignarskatt. Eignarskattur reiknist m.a. út frá tölum sem komi fram í reitum 11, 308 og 15 á framtalinu, en frá dragist fjárhæð í reit 168.

       Skylda til að greiða eignarskatt hafi verið afnumin með breytingu á lögum nr. 90/2003, sbr. lög nr. 129/2004. Samkvæmt 95. gr. laga nr. 90/2003 leggi skattstjóri á tekjuskatt og eignarskatt samkvæmt innsendu framtali. Ekki sé þörf á að tilkynna skattaðila um fyrirhugaða álagningu ef innsent framtal er tekið til greina óbreytt. Í samræmi við innsent framtal hafi dánarbúið fengið álagða skatta upp á 500.204 krónur, en fyrirframgreiðsla dánarbúsins, að fjárhæð 307.068 krónur, hafi komið til frádráttar. Staða dánarbúsins við álagningu hinn 1. ágúst 2005 hafi því verið 193.200 krónur.

       Í samræmi við 98. gr. laga nr. 90/2003 hafi skattstjóri tilkynnt um álagninguna með framlagningu álagningarskrár, auk þess sem hann hafi sent skattaðila tilkynningu um álagninguna á uppgefið póstfang á skattframtali. Á þeirri tilkynningu komi skýrt fram að gjalddagar á eftirstöðvum álagningar séu 5 talsins, frá 1. ágúst 2005 til 1. desember 2005, og sé þar tiltekið hvaða fjárhæð skuli greiða í hvert sinn. Sé þetta í fullu samræmi við 112. gr. laga nr. 90/2003.

       Hlutverk stefnda sé að innheimta skatta og gjöld fyrir ríkissjóð í kjölfar álagningar skattstjóra. Stefnda hafi engar greiðslur borist frá dánarbúinu, þrátt fyrir tilkynningu skattstjóra um álagningu og skiptingu gjalddaga. Hvergi í lögum sé kveðið á um skyldu innheimtumanns ríkissjóðs til að senda sérstaka greiðsluseðla, enda eðli skatta með þeim hætti að gjalddagar séu lögbundnir og flestöllum aðilum sé skylt að greiða tekjuskatt af tekjum sínum og eignarskatt af eignum sínum.

       Í 1. mgr. 114. gr. laga nr. 90/2003 komi fram að sé skattur ekki greiddur innan mánaðar frá gjalddaga skuli greiða ríkissjóði dráttarvexti af því sem gjaldfallið sé, og séu dráttarvextir þeir sömu og Seðlabanki Íslands ákveði samkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2001.

       Við útgáfu einkaskiptaleyfa takist erfingjar á hendur óskipta ábyrgð á skattgreiðslum hins látna og dánarbúsins, sbr. 2. mgr. 116. gr. laga nr. 90/2003. Þar sem dánarbúið hafi ekki greitt álagða skatta til innheimtumanns ríkissjóðs hafi erfingjar fengið senda tilkynningu um gjaldfallna skuld dánarbúsins 8. ágúst 2006. Í kjölfarið hafi borist greiðsla inn á reikning stefnda sem nam höfuðstól kröfunnar að fjárhæð 193.200 krónur. Hafi greiðslunni verið ráðstafað til greiðslu dráttarvaxta að fjárhæð 37.111 krónur, en mismun inn á höfuðstól, 155.489 krónur. Ráðstöfun greiðslunnar með þessum hætti sé í samræmi við skýr dómafordæmi Hæstaréttar. Eftirstöðvar kröfunnar hafi síðan verið greiddar með fyrirvara hjá Sýslumanninum í Reykjavík.

       Stefndi byggir einnig á því að samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 14/1905, um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda, teljist upphaf fyrningarfrests frá þeim degi er krafa varð gjaldkræf, þ.e. upphaf fyrningarfrests miðist við gjalddaga skattkröfu, sem séu lögbundnir samkvæmt sérlögum um opinbera skatta og gjöld. Samkvæmt 3. tl. 3. gr. sömu laga fyrnist skattkröfur á 4 árum sé þeim ekki við haldið. Ekki sé bundið í lög á hvaða tímamarki vanskilainnheimta skuli hefjast og því sé nægilegt að hefja innheimtu innan fyrningarfrests kröfunnar. Sú krafa sem deilt sé um í málinu hafi ekki fyrnst fyrr en í fyrsta lagi þann 1. ágúst 2009, en vanskilaðgerðir hafi hafist í byrjun ágúst 2006, eða um 8 mánuðum eftir lok síðasta gjalddaga.

       Að áliti stefnda hefur bréf Skattstjórans í Reykjavík frá 5. júlí 2005, um að erfðafjárskýrsla sem erfingjar skiluðu til Sýslumannsins í Reykjavík 24. maí 2005, sé samþykkt, ekki þýðingu í þessu máli. Sá erfðafjárskattur, sem erfingjum dánarbúsins hafi verið gert að greiða, hafi ekkert með álagningu tekju- og eignarskatts á dánarbúið sjálft að gera.   

 

V.

       Ágreiningur aðila lýtur að því hvort stefnanda hafi borið að greiða dráttarvexti vegna skattskuldar dánarbús Bjargar Magnúsdóttur. Heldur stefnandi því fram að þar sem stefnanda eða öðrum erfingjum hafi ekki verið send tilkynning um skuldina geti hún ekki hafa verið farin að bera dráttarvexti þegar höfuðstóll hennar var greiddur 23. ágúst 2006.

       Í 5. tl. 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er kveðið á um skattskyldu dánarbúa. Af hálfu dánarbús Bjargar Magnúsdóttur var skattframtali skilað innan tilskilins framtalsfrests fyrir árið 2005 vegna tekna og eigna ársins 2004. Var tekju- og eignarskattur lagður á dánarbúið samkvæmt innsendu framtali í samræmi við 95. gr. laga nr. 90/2003.

       Samkvæmt 98. gr. laga nr. 90/2003 skulu skattstjórar leggja fram álagningarskrá eigi síðar en 15 dögum fyrir lok kærufrests samkvæmt 99. gr. sömu laga, og skal í henni tilgreina þá skatta sem hafa verið lagðir á hvern gjaldanda samkvæmt lögunum. Þá skal senda hverjum skattaðila tilkynningu um þá skatta sem á hann hafa verið lagðir.

       Stefnandi hefur borið því við að hafa ekki fengið senda tilkynningu um skattskuld dánarbúsins fyrr en um ári eftir að fyrsta greiðsla hennar féll í gjalddaga. Í skilningi 98. gr. laga nr. 90/2003 er dánarbú Bjargar Magnúsdóttur skattaðili, þótt erfingjar beri ábyrgð á skattskuldum dánarbúsins samkvæmt 2. mgr. 116. gr. sömu laga. Tilkynning um álagningu skattsins var send á síðasta þekkta lögheimili Bjargar Magnúsdóttur að Grundarlandi 15 í Reykjavík, en það heimilisfang var jafnframt skráð lögheimili dánarbúsins og upp gefið sem heimilisfang þess samkvæmt skattframtali ársins 2005. Þar sem ekki liggja fyrir neinar upplýsingar um að stefnandi eða aðrir erfingjar hafi breytt skráðu lögheimili dánarbúsins, verður að telja að tilkynning um þá skatta sem lagðir voru á dánarbúið hafi réttilega verið send að Grundarlandi 15. Með því er uppfyllt sú tilkynningarskylda sem lögð er á skattstjóra samkvæmt áðurnefndri 98. gr. laga um tekjuskatt. Þá er og til þess að líta að álagningarskrá lá frammi hjá skattstjóra á tilskildum tíma samkvæmt sömu grein. Var stefnanda í lófa lagið að kynna sér efni hennar þar sem skattskylda dánarbúsins var skýr skv. 5. tl. 2. gr. laga nr. 90/2003. Með vísan til þessa getur stefnandi ekki borið því við að hafa ekki verið kunnugt um skattskuldina eftir að álagningarskrá hafði verið lögð fram.

       Samkvæmt 114. gr. laga nr. 90/2003 skal greiða dráttarvexti af gjaldföllnum sköttum, sé skattur ekki greiddur innan mánaðar frá gjalddaga. Eru gjalddagar lögbundnir samkvæmt ákvæðinu, sbr. og 112. gr. sömu laga. Samkvæmt skattseðli dánarbúsins átti skattskuldin að greiðast á fimm gjalddögum, 1. hvers mánaðar, frá og með 1. ágúst 2005 til 1. desember 2005. Fyrir liggur að ekkert var greitt inn á kröfuna fyrr en 23. ágúst 2006. Var greiðslunni þá réttilega ráðstafað til greiðslu dráttarvaxta og að hluta inn á höfuðstól. Þar sem krafan var þá ekki að fullu greidd var stefnda heimilt að halda áfram innheimtu þess sem ógreitt var, allt þar til fullnaðargreiðsla barst 25. maí 2007. Stefnda var jafnframt fullkomlega heimilt að krefja stefnanda um dráttarvexti af hinum gjaldföllnu greiðslum. Að þessu virtu verður ekki fallist á þá málsástæðu stefnanda að krafan um dráttarvexti brjóti gegn ákvæðum 7. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Ekki verður heldur á það fallist með stefnanda að dráttarvaxtakrafan brjóti gegn ákvæðum 10.–14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda lögboðið að innheimta skuli dráttarvexti af gjaldfallinni skattskuld, sbr. 114. gr. laga nr. 90/2003.

       Með vísan til þess sem að ofan er rakið verður ekki hjá því komist að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.

       Með hliðsjón af atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

       Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

 

 

DÓMSORÐ:

       Stefndi, Tollstjóraembættið í Reykjavík, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Soffíu Þ. Thoroddsen, í máli þessu.

       Málskostnaður fellur niður.

      

                                                                                    Ingimundur Einarsson