• Lykilorð:
  • Tolllagabrot

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 22. febrúar 2012 í máli nr. S-8/2012:

Ákæruvaldið

(Fanney Björk Frostadóttir fulltrúi)

gegn

Sigurði Sæmundssyni

 

Mál þetta, sem dómtekið var í dag, er höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, útgefinni 3. janúar 2012, á hendur Sigurði Sæmundssyni, kt. 000000-0000, Selvaði 9, Reykjavík, fyrir tollalagabrot, með því að hafa við komu m/s Arnarfells, sem ákærði er bátsmaður á, til Reykjavíkur, aðfaranótt miðvikudagsins 9. febrúar 2011, komið með hingað til lands 60 lítra af Fjorda vodka, 12 lítra af Blomer vodka, 9 lítra af rauðvíni, 3.600 stykki af Winston vindlingum og 400 grömm af píputóbaki, án þess að gera tollgæslunni grein fyrir varningnum, en tollverðir fundu hann við tollskoðun.

Telst þetta varða við 1. mgr. og 4. mgr. 27. gr., sbr. 1. mgr. 170. gr. tollalaga nr. 88/2005, sbr. 6. og 12. gr. reglugerðar nr. 630/2008 um ýmis tollfríðindi.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Jafnframt er þess krafist að framangreint áfengi og tóbak, sem hald var lagt á, verði gert upptækt samkvæmt 1. mgr. 181. gr. tollalaga.

Ákærði krefst vægustu refsingar er lög leyfa.

            Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga. 

            Ákærði hefur skýlaust játað brot sitt. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og er brot hans rétt heimfært til refsiákvæða í ákæru.

            Ákærði er fæddur árið 1959. Samkvæmt sakavottorði gekkst hann þrívegis undir sektir vegna tollalagabrota á árunum 2002 til 2005. Þá gekkst hann undir lögreglustjórasekt vegna umferðarlagabrots árið 2006. Ákærði hefur gengist greiðlega við broti sínu. Þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 60 daga, en fresta skal fulln­ustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

            Ákærði verður dæmdur til að sæta upptöku á áfengi, tóbaki og lyfjum, sem hald var lagt á í málinu, samkvæmt lagaákvæðum sem í ákæru greinir.

            Engan kostnað leiddi af málinu.

            Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Fanney Björk Frostadóttir, fulltrúi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.

            Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:

 

            Ákærði, Sigurður Sæmundsson, sæti fangelsi í 60 daga, en fresta skal fulln­ustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga

            Upptæk eru gerð 60 lítrar af Fjorda vodka, 12 lítrar af Blomer vodka, 9 lítrar af rauðvíni, 3.600 stykki af Winston vindlingum og 400 grömm af píputóbaki.

 

                                                     Ragnheiður Harðardóttir