• Lykilorð:
  • Eignarréttur
  • Gjafsókn
  • Þjóðlenda
  • Landamerkjamál

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Norðurlands vestra 13. maí 2013 í máli nr. E-24/2010:

Akrahreppur og

Kirkjumálasjóður

(Ólafur Björnsson hrl.)

gegn

Íslenska ríkinu

(Indriði Þorkelsson hrl.)

 

I

Mál þetta var tekið til dóms 16. apríl sl.

Stefnendur eru Akrahreppur, Framnesi, Akrahreppi, Skagafirði, og Kirkjumála-sjóður, Laugavegi 31, Reykjavík.

Stefndi er íslenska ríkið.

Mál þetta var upphaflega höfðað 21. janúar 2010 af Akrahreppi á hendur stefnda. Með stefnu birtri 9. maí 2012 höfðuðu Akrahreppur og Kirkjumálasjóður mál á hendur stefnda. Bæði málin snúast um kröfu stefnenda þess efnis að úrskurðir óbyggðanefndar varðandi Silfrastaðaafrétt í Skagafirði verði felldir úr gildi. Þar sem málin taka til svæðis sem í raun er ein heild, þótt óbyggðanefnd hafi úrskurðað um það í tveimur málum, var ákveðið að sameina þessi mál og reka þau í einu lagi.

Dómkröfur

Akrahreppur krefst þess að felldur verði úr gildi úrskurður óbyggðanefndar frá 19. júní 2009 í máli nr. 4/2008, Skagafjörður austan Vestari-Jökulsár, þess efnis að eignarland Silfrastaðaafréttar sé þjóðlenda, þ.e. eftirtalin úrskurðarorð:

„Það er því niðurstaða óbyggðanefndar að Silfrastaðaafréttur, svo sem hann er afmarkaður hér á eftir, teljist til þjóðlendu í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998: Upphafspunktur er við sýslumörk Skagafjarða- og Eyjafjarðarsýslna á Öxnadalsheiði (þar sem Grjótá fellur í Heiðará). Þaðan er Heiðará fylgt til vesturs þar til Króká fellur í hana. Síðan er Króká fylgt til suðurs í botn Ernisdals og þaðan beina stefnu í punkt nr. 16 á kröfulínu gagnaðila ríkisins. Þaðan er fylgt kröfulínu gagnaðila ríkisins þar til komið er að punkti nr. 14 á henni. Þaðan er línan dregin í drög Kaldbaksdals og eftir daldrögunum í Kaldbaksá. Síðan er Kaldbaksá fylgt þar til komið er að skurðpunkti við línu sem dregin er beina stefnu frá Vatnsgötu á Öxnadalsheiði (þar sem vötnum fyrst hallar til vesturs af heiðinni) um Tjaldhól í Kaldbaksá. Frá skurðpunktinum er nefndri línu fylgt í Vatnsgötu á Öxnadalsheiði. Þaðan er línan dregin í upptök Heiðarár og Heiðará síðan fylgt að þeim stað sem Grjótá fellur í hana.“

Akrahreppur krefst þess að viðurkennt verði að enga þjóðlendu sé að finna innan þinglýstra landamerkja Silfrastaðaafréttar, sem afmörkuð er í landamerkjabréfi Silfrastaða með svofelldri lýsingu:

„[...] fram í botn á Víkingsdal. Þá yfir fjall í Vatnsgötu á Öxnadalsheiði, þar [svo] sem vötnum fyrst hallar vestur af heiðinni. Þaðan beina línu um Tjaldhól í Kaldbaksá, er ræður merkjum fram í botn á Kaldbaksdal, austan við Kinnar. Þá yfir fjall í Krókárdalsbotn, fyrir sunnan Austurgil. Þaðan yfir fjall í Ernidalsbotn. Ræður svo Ernidalsá ofan til þess, er hún fellur í Króká. Þá ræður Króká ofan í Norðurá og síðan Norðurá ofan til þess, er Valagilsá fellur í hana.“

Akrahreppur krefst þess einnig að felldur verði úr gildi úrskurður óbyggðanefndar frá 10. október 2011 í máli nr. 2/2009, Skagafjörður ásamt Almenningi norðan Hrauna en án Lágheiðar, þess efnis að Silfrastaðaafréttur, að meðtöldum Hálfdánartungum og Krosslandi, sé þjóðlenda, þ.e. eftirtalin úrskurðarorð:

„Það er því niðurstaða óbyggðanefndar að Silfrastaðaafrétt, að meðtöldum Hálfdánartungum, og Krossland, svo sem heildarsvæðið er afmarkað hér á eftir með vísan til punkta í kröfugerð íslenska ríkisins, sé þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998: Upphafspunktur er þar sem Grjótá fellur í Heiðará á sýslumörkum í Norðurárdal (1). Þaðan er haldið með Grjótá og síðan eystri Grjótárdal, yfir Grjótárdalsdrög að fyrrum hornmarki milli Akrahrepps, Skriðuhrepps og Öxnadalshrepps (2). Síðan er fyrrum hreppsmörkum Akrahrepps og Skriðuhrepps fylgt allt að fyrrum hornmarki milli Akrahrepps, Skriðuhrepps og Hólahrepps við Hjaltadalsjökul (3). Þaðan með fyrrum hreppsmörkum Akrahrepps og Hólahrepps um Suðurárdalshnjúk í Reykjanibbu (1302 m) (4). Þaðan er háfjallinu fylgt til suðvesturs í 1298 m hæðarpunkt (5) og síðan til suðausturs í 1247 m hæðarpunkt (6) vestan við botn Seljadals. Þaðan er línan áfram dregin eftir háfjöllum í 1224 m hæðarpunkt (7) norðvestan við botn Smaladals. Þaðan er háfjallinu enn fylgt til vesturs og síðan suðvesturs í 1209 m hæðarpunkt (8) fyrir botni á Fylsmýrum og Kleifum og síðan í 1210 m hæðarpunkt (9) fyrir botni Fletjárdals. Þaðan er Fletjá fylgt suður í Valagilsá (10). Þaðan með Valagilsá í Norðurá (11). Þaðan er Norðurá fylgt og síðar Heiðará uns komið er í Grjótá sem er upphafspunktur.“

Stefnandinn Kirkjumálasjóður krefst þess að felldur verði úr gildi nefndur úrskurður óbyggðanefndar frá 10. október 2011 í máli nr. 2/2009 að því marki er hann varðar Krossland sem afmarkast með eftirfarandi hætti:

Upphafspunktur er þar sem Valagilsá fellur í Norðurá (1). Þaðan er Valagilsá fylgt að þeim stað þar sem Smalalækur fellur í hana (2). Þaðan er lína dregin beina stefnu í Landshnjúk (3). Frá Landshnjúk er línan dregin beina stefnu í Landsendagjá við Horná (4). Frá Landsendagjá er línan dregin í Horná og ánni fylgt þar til hún fellur í Norðurá og Norðurá síðan fylgt að upphafspunkti.

Akrahreppur krefst þess til vara, varðandi þann hluta Silfrastaðaafréttar sem úrskurður óbyggðanefndar í máli nr. 4/2008 tók til, að hann eigi einkarétt til beitar, veiða, dýraveiða, hagnýtingar vatnsréttinda og nýtingar á auðlindum í jörðu, án endurgjalds, á því svæði sem úrskurðað var afréttareign eiganda Silfrastaðaafréttar, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. laga nr. 58/1998, þótt landið teljist þjóðlenda.

Stefnandinn Akrahreppur krefst málskostnaðar úr hendi stefnda eins og málið sé ekki gjafsóknarmál og þá krefst Kirkjumálasjóður málskostnaðar úr hendi stefnda.

 

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnenda og málskostnaðar úr hendi þeirra.

 

II

Samkvæmt 7. gr. laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta skal óbyggðanefnd kanna og skera úr um hvaða land telst til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda, skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur og úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna. Með bréfi til fjármálaráðherra 29. mars 2007 tilkynnti nefndin að hún hefði ákveðið að taka til meðferðar nýtt landsvæði, það sjöunda í röðinni, en svæðið var nánar afmarkað svo að það væri „Eyjafjarðarsýsla öll, Skagafjarðarsýsla öll og Austur-Húnavatnssýsla austan Blöndu, auk Hofsjökuls.“ Í bréfi nefndarinnar til fjármálaráðherra 28. desember 2007 kom fram að hún hefði samþykkt tilmæli hans þess efnis að taka að svo stöddu einungis til meðferðar syðri hluta áðurgreinds svæðis, en fresta málinu um sinn að því er varðaði norðurhlutann. Landsvæðið, sem var til umfjöllunar eftir þessa breytingu, var nefnt vestanvert Norðurland syðri hluti, svæði 7A, en sá hluti, sem meðferð var frestað á, vestanvert Norðurland nyrðri hluti, svæði 7B. Var fyrrnefnda svæðið nánar afmarkað svo að norðurmörk þess fylgdu norðurmörkum fyrrum Bólstaðarhlíðarhrepps og Seyluhrepps, Norðurá og Norðurárdal í Skagafirði, Öxnadalsheiði og Öxnadalsá þar til hún fellur í Hörgá og síðastnefndri á til ósa. Austurmörk miðuðust við Fnjóská frá ósum þar til hún sker sveitarfélagamörk Eyjafjarðarsveitar að austan. Þeim mörkum var fylgt til suðurs í Fjórðungakvísl. Suðurmörk fylgdu suðurmörkum Eyjafjarðarsveitar og suðurjaðri Hofsjökuls þar sem jafnframt voru norðurmörk svæða nr. 1 og 3 hjá óbyggðanefnd. Vesturmörk miðuðust við Blöndu frá norðurmörkum fyrrum Bólstaðarhlíðarhrepps til upptaka í Blöndujökli í Hofsjökli.

Eftir þessa skiptingu á svæði 7 lenti Silfrastaðaafrétt að hluta á svæði 7A og að hluta á svæði 7B.

Fjármálaráðherra var upphaflega veittur frestur til 31. desember 2007 til að lýsa kröfum um þjóðlendur á svæði 7A, en sá frestur var tvívegis framlengdur, í síðara skiptið til 14. mars 2008. Kröfulýsing hans, sem varðaði allt svæði 7A, barst óbyggðanefnd síðastnefndan dag. Þann 28. mars 2008 birti nefndin kröfugerð stefnda í samræmi við ákvæði 2. mgr. 10. gr. laga nr. 58/1998 og skoraði á þá, sem teldu til eignarréttinda á því landsvæði sem féll innan svæðis 7A, að lýsa kröfum sínum fyrir óbyggðanefnd eigi síðar en 30. júní 2008. Bárust nefndinni fjölmargar kröfur og athugasemdir við kröfur stefnanda. Að liðnum settum fresti ákvað nefndin að fjalla um svæðið í fimm aðskildum málum. Var eitt þeirra nr. 4/2008 um þjóðlendur í Skagafirði austan Vestari-Jökulsár og tók það meðal annars til svæða sem stefnandinn Akrahreppur taldi til eignarlanda sinna.

Úrskurður óbyggðanefndar í málinu féll 19. júní 2009. Varð niðurstaðan sú að á hluta svæðisins, einkum í austanverðum Skagafirði, var kröfum stefnda hafnað og lagt til grundvallar að land þar væri eignarland. Nefndin taldi á hinn bóginn að nánar afmarkað landsvæði á Silfrastaðaafrétt væri þjóðlenda. Hinu sama gegndi um Nýjabæjarafrétt og landsvæði sunnan hennar, sem nefnt er Fjöllin, með nánari afmörkun hvors svæðis. Réttur Akrahrepps til afréttarnota á Silfrastaðaafrétt var viðurkenndur sem og eigenda Nýjabæjar að Nýjabæjarafrétti. Þá taldi nefndin að bæði vesturhluti og austurhluti Hofsafréttar auk Lambatungna væri þjóðlenda þar sem hvert þessara landsvæða var nánar afmarkað. Viðurkenndur var réttur eigenda nafngreindra jarða til afréttarnota á vestur- og austurhluta Hofsafréttar. Að sama skapi var réttur eigenda Lambatungna og Þorljótsstaðarunu viðurkenndur til afréttarnota þar.

Varðandi norðurhluta svæðisins (svæði 7B) var stefnda upphaflega veittur frestur til að lýsa þar kröfum um þjóðlendur til 31. janúar 2009 en fresturinn síðar framlengdur til 11. maí á því ári. Stefndi fór fram á það við óbyggðanefnd með bréfi dagsettu 8. janúar 2009 að afmörkun á svæði 7B yrði breytt til vesturs þannig að svokallaður Skagi félli utan svæðisins. Með bréfi dagsettu 21. janúar 2009 féllst nefndin á beiðni þessa og afmarkaði svæði 7B svo: Héraðsvötnum er fylgt frá ósum og þar til Norðurá rennur í þau. Þá er Norðurá fylgt í Norðurárdal og yfir Öxnadalsheiði í Öxnadal. Síðan er Öxnadalsá fylgt þar til hún fellur í Hörgá og Hörgá til ósa. Að öðru leyti afmarkast svæði af hafi.

Kröfur stefnda varðandi þjóðlendur á vestanverðu Norðurlandi, nyrðri hluta bárust óbyggðanefnd 11. maí 2009. Í framhaldi af því, hinn 22. maí, birtist í Lögbirtingablaðinu tilkynning um málmeðferð á svæðinu og útdráttur úr þjóðlendukröfum stefnda ásamt uppdrætti, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 58/1998. Skorað var á þá sem teldu til eignarréttinda á svæðinu að lýsa kröfum sínum fyrir óbyggðanefnd í síðasta lagi 25. ágúst 2009. Í september 2009, að lokinni vettvangsferð, gerði stefndi breytingar á kröfugerð sinni sem m.a. fólst í því að kröfur um þjóðlendur voru stækkaðar. Tilkynning vegna þessa birtist í Lögbirtingablaðinu 5. mars 2010 og var skorað á þá sem töldu til eignarréttinda á stækkuðu svæði og ekki höfðu þegar lýst kröfum sínum að gera það í síðasta lagi 7. júní 2010. Gefið var út yfirlit yfir allar lýstar kröfur og þær færðar inn á uppdrátt. Lögboðin kynning fór síðan fram með því að yfirlit og uppdráttur lágu frammi á skrifstofum viðkomandi sýslumanna frá 5. mars til og með 6. apríl 2010. Sérstök kynning fór einnig fram á viðbótarkröfum stefnda. Öll kynningargögn voru einnig aðgengileg á skrifstofum viðkomandi sveitarfélaga, auk heimasíðu og skrifstofu óbyggðanefndar.

Fjölmörgum kröfum var lýst vegna þessara svæða, á meðal þeirra voru kröfur stefnenda máls þessa en þeir lýstu kröfum sínum fyrir óbyggðanefnd innan tilskilinna tímamarka. Akrahreppur krafðist þess að enga þjóðlendu væri að finna á Silfrastaðaafrétt og þá kröfðust Akrahreppur og Kirkjumálasjóður þess að svæði sem kallað er Krossland sé ekki þjóðlenda en það land liggur innan Silfrastaðaafréttar. Eins og áður er getið er hluti Silfrastaðaafréttar á svæði 7A og hluti hennar á svæði 7B. Óbyggðanefnd leysti því úr ágreiningi um eignarhald á afréttinni í tveimur úrskurðum. Annars vegar í máli nr. 4/2008 varðandi syðri hluta afréttarinnar og hins vegar í máli nr. 2/2009 varðandi norðurhlutann.

Ekki er um það deilt að stefnendur höfðuðu mál þetta innan þess frests, sem gefinn er skv. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 58/1998.

 

III

Í nefndum úrskurðum óbyggðanefndar er ítarlega gerð grein fyrir heimildum varðandi Silfrastaðaafrétt. Í úrskurðunum kemur fram að í Landnámu segi að landnám í Skagafirði hafi verið eitt stærsta landnám á Íslandi. Er það eignað Eiríki Hróaldssyni sem nam land frá Gilá um Goðdali alla og ofan til Norðurár. Annar landnámsmaður var Önundur vís en hann nam land upp frá Merkigili, eystra dal allt fyrir austan. Varðandi landsvæði það sem hér er til umfjöllunar kemur fram að Landnáma greini frá því að Þorbrandur örrek hafi numið land upp frá Bólstaðará Silfrastaðahlíð alla og Norðurárdal allan fyrir norðan. Við hann er kennd Ørreksheiði upp frá Hökustöðum. Þorbrandur bjó að Þorbrandsstöðum. Um landnám á Silfrastöðum segir í Landnámu:

„Þorbrandr ørrek nam upp frá Bólstaðará Silfrastaðahlíð alla ok Norðrárdal allan fyrir norðan ok bjó á Þorbrandsstöðum og lét gera eldhús svá mikit at allir þeir menn, er þeim megin fóru, skyldu þar bera klyfjar í gegnum ok öllum matr heimill. Við hann er kennd Ørreksheiðr upp frá Hökustöðum. Hann er einn göfgasti maðr ok enn kynstærsti.“

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1713 kemur fram að Silfrastaðakirkja eigi tvo afrétti á Öxnadalsheiði og Hörgárdalsheiði. Í bókinni greinir frá því að sumar- og vetrarhagar séu merkilega góðir. Útigangur fyrir sauðfé á vetrum næstum óbilandi, nema voveiflegir áfreðar eður lognsnjór byrgi. Um afréttina í eigu jarðarinnar er tekið fram að aðrar jarðir eigi þar ítök. Blönduhlíðarmenn eigi þar upprekstur fyrir lömb og geldfé annaðhvort fyrir toll til ábúandans á Silfrastöðum eður hann eftirgefur þeim tollinn fyrir góðvilja. Tollurinn er lamb fyrir xx og ekki meira, ef ekki kemur góðvilji til. Sama upprekstur og með sömu kostum brúki Norðurárdalur og byggðin austan Jökulsár allt fram að Merkigili. Þá er þess getið að skógur hafi verið á Öxnadalsheiði en hann sé nú eyddur þannig að ekki sé eftir annað en rifhrís og fjalldrapi. Í lýsingu Jarðabókarinnar á Akraþingsókn greinir frá því að fjöldi jarða hafi átt upprekstur í Silfrastaðaafrétt fyrir toll. Í úrskurði óbyggðanefndar í máli nr. 2/2009 er ítarlega rakin lýsing Jarðabókarinnar á því hvaða jarðir í Akrahreppi áttu upprekstur í Silfrastaðaafrétt en jarðirnar voru allmargar og flestar þurftu að greiða toll fyrir uppreksturinn. Þá er einnig rakið að níu jarðir hafi látið af upprekstri vegna landþrengsla á afréttinni.

Á manntalsþingi á Stóru-Ökrum, í byrjun maí 1730, var upplesinn dómur Jóns Sigurðssonar lögmanns frá 1611 varðandi lambarekstur á Silfrastaðaafrétt. Sýslumaður lagði fyrir íbúa hreppsins að fylgja fyrirmælum dómsins varðandi lambatolla og rekstur. Skjal þetta var sagt eftirrit af kálfskinsbréfi. Á árinu 1736 var, á manntalsþingi í Skagafjarðarsýslu, lesið upp skjal varðandi Silfrastaðaafrétt. Að upplestrinum loknum voru þeir sem áttu skylduafrétt áminntir um að brúka afréttina löglega ella mæta frekara tiltali síðar. Á héraðsþingi að Stóru-Ökrum hinn 1. maí 1739 var upplesin lögfesta klausturhaldarans Hans Scheving frá því í aprílmánuði sama ár, fyrir Silfrastöðum, Krákugerði, Efri- (Fremri) og Neðri-Kotum sem og allri afréttinni Silfrastöðum. Sýslumaður færði í tal lambarekstur í afréttina eftir þingdómi þeim sem gekk á sama stað 1738 og gengust bændur við því að virða dóminn að því tilskildu að afréttin yrði hreinsuð og réttin hlaðin. Fimm árum síðar var Silfrastaðaafrétt lögfest og þeir aðvaraðir sem skyldurekstur áttu í hana að halda uppi lögskilum, bæði til rekstrar og gangna. Í jarðamati frá 1804 kemur fram að leiguliði á Silfrastöðum fái sex ríkisdali í tekjur árlega af afréttinni. Á manntalsþingi, sem fram fór að Stóru-Ökrum 12. júní 1819, bannaði Jón Erlendsson hreppstjóri leyfislausan nauta- og hrossarekstur á Silfrastaðaafrétt.

Silfrastaðaafrétt er lýst í sóknarlýsingu fyrir Miklabæjarprestakall frá 13. febrúar 1840 og kemur þar fram að afréttarlönd séu afdalir og heiðar, aðallega út úr Norðurárdal og tilheyra Silfrastöðum. Þangað reki flestir úr sóknunum, ásamt Flugumýrarsókn, hver eð næst liggur á norðursíðuna. Í jarðamati frá 1849 kemur fram að undir Silfrastöðum liggi víðlend og jarðgóð afrétt sem meirihluti Akrahrepps noti til upprekstrar gegn gjaldi. Afréttin er metin ígildi 12 hundraða. Í sömu heimild segir að Víðivellir og Miklibær eigi til helminga landspart í Silfrastaðaafrétt sem kallaður sé Krossland.

Á manntalsþingum að Stóru-Ökrum á árunum 1862, 1964 og 1871 voru lesnar upp lögfestur varðandi Silfrastaði og Silfrastaðaafrétt. Með þeim voru bændur m.a. áminntir um að reka trippi til afréttar ekki seinna en um fardaga og þeir sem það gerðu skyldu sýna trippin á Silfrastöðum og greina frá hve mörg trippi væru frá hverjum bæ. Þá var trippatollur ákveðinn en helmingur hans skyldi fara til Silfrastaða en hinn helmingurinn til bóndans á Fremrikotum sem í staðinn tók að sér að vera fyrirstöðumaður. Bóndinn á Víðivöllum geymdi sér rétt til að láta kanna hvort Krossland væri ekki svo mikið að þangað mætti reka fleiri trippi en frá Víðivöllum og Miklabæ. Í maí 1871 var lesin lögfesta Arnljóts Ólafssonar, prests á Bægisá, og Þorsteins Daníelssonar á Öxnadalsheiði að norðan til Kaldbaksár og Grjótár. Páll Þorsteinsson hreppstjóri mótmælti lögfestunni með vísan til lögfestu á Silfrastaðaafrétt sem lesin var ári fyrr með ummerkjum til Kaldbaksár og þvert yfir og með báðum Grjótárdölum. Jón Guðmundsson, bóndi á Silfrastöðum, lét lesa upp áskorun frá 1. júní 1880 á manntalsþingi sem fram fór degi síðar að Stóru-Ökrum þess efnis að þeir sem ekki ættu ítök í Silfrastaðaafrétt greindu honum frá fjölda trippa þar sem hann ætlaði framvegis að ganga rækilega eftir trippatolli.

Ábúandinn á Silfrastöðum skrifaði yfirlýsingu (um 1882) þar sem fram kemur m.a. að hann telji vafalaust að öll býli í Akrahreppi frá Kyrfisá fram að Norðurá hafi rétt til uppreksturs á Silfrastaðaafrétt gegn fullri borgun. Miklibær og Víðivellir eigi síðan Krossland sem er innan afréttarinnar en þangað geti þeir bæir rekið án greiðslu. Þá hafi sjö nafngreindir bæir tekið á leigu býlið Hálfdánartungur, sem sé innan afréttarlandsins, til uppreksturs fyrir sitt sauðfé. Ábúandinn lítur svo á að aðrar jarðir, að undanskildum Ytri- og Fremri-Kotum og Krókárgerði, sem eru innan þeirra marka sem getið var í upphafi, skuli greiða sanngjarna fjár- og trippatolla. Hins vegar hafi allflestir tregðast við að standa skil á tollum. Bréfritari vísar síðan í bréf frá 25. maí 1848 en í því kvartar ábúandi Silfrastaða undan slæmri innheimtu afréttartolla og óskar eftir betri háttum þeirra sem málinu tengjast. Í því bréfi er tekið fram að svokallað Land tilheyri ekki Silfrastöðum.

Landamerkjabréf fyrir afréttarland Silfrastaða var gert 2. júní 1885 og því þinglýst degi síðar. Þar segir svo: „Allt norður að Kaldbaksá, og þar þvert yfir, og sýnist að stefna þessi láti nærri, að merkin sjeu um Tjaldhól á flóanum og þaðan til Vatnsgötu, er svo nefnist á veginum fyrir norðan Grjótá til fjallseggja beggja megin. Þess er að geta, að enginn á ítak innan þeirra merkja, sem ofanskrifuð landamerkjalýsing tilgreinir, nema sannað verði með löggildum máldaga fyrir næstkomandi aprílmánaðarlok 1886.“ Jóh. Þorkelsson skrifaði undir landamerkjabréfið í umboði M. R. F. Lárusdóttur. Á árinu 1889 bárust mótmæli við þessu landamerkjabréfi frá eigendum Bakka og Bakkasels í Öxnadal. Töldu þeir lýsingu á landamerkjum ranga þannig að þeir ættu land að Grjótá að vestan austur fyrir Tjaldhól og þar þvert yfir og bönnuðu um leið öðrum not landsins nema með þeirra leyfi. Mótmælum þessu var þinglýst 23. maí 1889.

Byggingabréf var gert vegna Silfrastaða 1. mars 1888 en í því greinir m.a. að Silfrastaðaafrétt fylgi heimajörðinni. Þess er getið að Ytri- og Fremrikot, Krókárgerði, Miklibær og Víðivellir þurfi ekki að greiða afréttartolla. Þá er tekið fram að sjö jarðir hafi Hálfdánartungur á leigu til upprekstrar fyrir sauðfé. Annars skuli þeir sem reka á afréttina greiða ábúanda Silfrastaða afréttartoll samkvæmt lögum og landsvenju. Leiguliði þurfi hins vegar á eigin kostnað að annast grenjaleitir og dýravinnslu á afréttinni eftir þeim reglum sem um slíkt gilda.

Landamerkjabréf fyrir Silfrastaði er dagsett 31. mars 1890 og þinglýst 22. maí sama ár. Efni bréfsins er tekið upp undir málsástæðum stefnenda. Í bréfinu kemur m.a. fram að Krossland í eigu Miklabæjar og Víðivalla liggi innan marka Silfrastaðaafréttar. Í Byggðasögu Skagafjarðar, fjórða bindi, frá árinu 2007 kemur fram að Krossland sé innan marka Silfrastaðaafréttar en Krókárgerðisland hafi bæst við afréttina árið 1898 en Gulreitur árið 1997. Þar kemur og fram að afréttin sé talin vera 19.630 hektarar að stærð.

Akrahreppur keypti Silfrastaðaafrétt ásamt Krákugerði af eiganda Silfrastaða rétt fyrir lok 19. aldar. Í ritinu Göngur og réttir kemur fram að eftir þessi kaup hafi þeir sem þangað áttu upprekstur hætt að greiða afréttartolla.

Árið 1919 sendi stjórnarráð Íslands öllum sýslumönnum bréf og óskaði eftir upplýsingum um svæði í þeirra umdæmum sem teldust „almenningar“ eða „afréttarlönd“ sem ekki hafi tilheyrt eða tilheyri ekki nokkru lögbýli. Sýslumaðurinn í Eyjafjarðarsýslu svaraði bréfi þessu með vísan í bréf hreppstjórans í Öxnadalshreppi. Í bréfi hreppstjórans kom fram að í þeim hreppi væri einn afréttur sem nefnist almenningur, þar sem ýmsir telji jarðir sínar eiga frían upprekstur en sveitarstjórn hafi umsjón með afréttinni. Afrétt þessi liggi fyrir framan byggð í Öxnadal og upptök Öxnadalsár séu í almenningsbotni.

Í Skrá yfir afrétti, eignarheimildir og landamerki, sem stafar frá sýslumanninum í Skagafjarðarsýslu og gerð var árið 1985, kemur m.a. fram að Austurmörk Silfrastaðaafréttar séu á Öxnadalsheiði. Girðing milli Kaldbakshnjúks og Heiðarfjalls. Þessi mörk séu austan sýslumarka en Skagfirðingar hafi átt Bakkasel áður fyrr og haldið landi eftir við sölu þess. Frá Heiðarfjalli liggi mörkin um Grjótárdrög, norður eftir miðjum Víkingsdal. Úr Víkingsdal liggi mörkin um Lúpuá í Lúpuárhnjúk, þaðan vestur á vatnaskilum í Suðurárdalshnjúk og Reykjanibbu. Vesturmörk, þ.e milli heimalanda Skagfirðinga og afréttar, eru þar sem vötnum hallar. Því næst eru mörkin um Valagilsá og Stóralæk í Krókárgerðisfjall. Að sunnan ráða vatnaskil (milli Tungudals og Krókárdals) í vestanverðum Kaldbakshnjúk.

Í áðurnefndri Byggðasögu Skagafjarðar er afréttareign Silfrastaða lýst með sama hætti og áður er rakið, þ.e. að hún eigi tvo afrétti. Þá er og lýst hvaða bæir eigi þangað upprekstur og hverjir skuli greiða toll fyrir uppreksturinn. Í byggðasögunni er því einnig lýst að fjórum kílómetrum framan við Silfrastaði sé fornbýlið Bessakot. Það hafi síðar orðið selstaða og loks beitarhús frá Silfrastöðum sem notuð voru fram undir það að sauðfjárbúskapur lagðist af á jörðinni árið 1991. Þá er því lýst að fleiri sel hafi verið í landi jarðarinnar á Silfrastaðaafrétt, bæði frammi á Öxnadalsheiði og í Horni auk tveggja selja í Krosslandi tilheyrandi Víðivöllum og Miklabæ.

Í málinu liggja fyrir kvittanir fyrir arðgreiðslum til handa ábúanda Miklabæjar og Fjallskilasjóðs Akrahrepps vegna veiði í Norðurá frá árinu 2004. Einnig kvittanir fyrir greiðslum frá Vegagerðinni frá árunum 1991 og 1995 til fjallskilasjóðs vegna efnistöku úr eyrum Grjótár og malartekju.

Hálfdánartungur eru, líkt og áður hefur komið fram, innan marka Silfrastaðaafréttar en þar virðist hafa verið býli. Þeirra er getið í vísitasíu Silfrastaða frá 2. október 1663. Í Jarðabók Árna Pálssonar og Páls Vídalíns frá 1713 segir að Hálfdánartungur séu fornt eyðibýli sem ekki hafi verið byggt í manna minni þó að þar séu ljós byggingarmerki og girðingar miklar svo sem á stórjörð. Landið tilheyri afréttinni sem liggur á Hörgárdalsheiði í eigu Silfrastaða. Árið 1713 eru Silfrastaðir virtir á 80 hundruð en með Krákugerði og Hálfdánartungum tíutíu hundruð. Þá er Hálfdánartungna getið í Árbók Ferðafélags Íslands frá árinu 1946 og því lýst að inn og upp af brúnni standi gangnamannakofi á sléttum grundum þar sem fyrr var innsta býlið í dalnum og tekið fram að sauðaland þyki afburðagott í hlíðinni. Í Jarða- og búendatali Skagafjarðarsýslu 1781-1949 frá 1956 segir m.a. svo um Hálfdánartungur: „Árið 1713 er jörð þessi í eyði, og talin fornt eyðibýli. En líklegt má þykja, að jörð þessi hafi verið í ábúð fyrr á öldum. Í Ljósvetninga sögu er getið ábúðar þar en ekki þó virðulega – Jörðin er komin í ábúð um 1750, en fór aftur í eyði fyrir 1780. – Þegar jörðin byggðist aftur 1813, var hún ekki metin til dýrleika, en metin með Silfrastöðum, en eftir 1861 var jörðin kölluð 5 hundr. að dýrleika. Sami eigandi mun alltaf hafa verið að Silfrastöðum og Hálfdánartungum, voru því Hálfdánartungur leigujörð, og búendur á Silfrastöðum munu oftast hafa haft umráðarétt jarðarinnar. Þegar Silfrastaðir voru seldir, fylgdu Hálfdánartungur með. Eftir að jörðin fór algjörlega í eyði 1876, lagðist hún undir Silfrastaðaafrétt og síðar seld með afréttinni árið 1895. Hálfdánartungur voru í Silfrastaðasókn.“

Krossland er líkt og Hálfdánartungur innan merkja Silfrastaðaafréttar. Krosslands er getið í máldagabók Péturs biskups Nikulássonar, frá 1394. Þar segir svo: „ [...] ä hun allt heimaland er þorvaldur prestur Grimsson gaf med þessum vmmerckium. ad Landfall rædur fyrer sunnan. og geingur hagagardur ofann vr fialli fyrer vtann Vijdevallagierde og riettsyne yfer j raudaskridu sudur fra arnarbergi. stendur steirn a melnum vppi fyrer ofan skriduna. suo vt til þuergarda. og vpp ad akrasyium. rædur þa akbraut vtann til motz vid mosagrund. Eiga hier j vpphogguid gras med Teygum sijnum. akrar og vijdevellr. fiskueidi j Jokulsä a Myklabæiarkyrkia alla med krossi j holmi. þa sem edur verda kann og til motz vidur reyki. hrijs a auxnadalsheydi. fra fiallsenda fyrer ofuann reydgotur. og framm til Griothryggs til modz vid vijivollu. kross land halft fyrer framann valagilsä. og til Seliadalsar. nautarekstur j millum krakuär og kalldbaksar. millum reydslugils og griotär.“

Í máldaga Miklabæjarkirkju frá því eftir 1590 kemur fram að kirkjan eigi hálft Krossland á móti Víðivöllum. Hið sama kemur fram í nefndri Jarðabók en þar segir einnig að selstaða sé í landinu. Enn er þessa sama getið í brauðalýsingu Odds Gíslasonar á Miklabæ frá 1782. Þá segir í jarðamati frá 1849 að Miklibær og Víðivellir eigi til helminga Krossland sem sé á Silfrastaðaafrétt. Þar er tekið fram að landið gefi ekki annað af sér en að bæirnir brúki það til upprekstrar án endurgjalds. Á manntalsþingi, sem fram fór að Stóru-Ökrum 26. maí 1862, var lesin upp lögfesta fyrir Silfrastaði. Þar var m.a. ákveðið að þeir sem rækju trippi á Silfrastaðaafrétt skyldu sýna þau á Silfrastöðum og gera grein fyrir fjölda þeirra. Sigurður Jónatansson á Víðivöllum vildi af þessu tilefni geyma sér rétt til að láta kanna hvort hið svonefnda Krossland sem tilheyrir Víðivöllum og Miklabæ væri ekki svo stórt að þangað mætti reka fleiri trippi en frá þeim bæjum. 

Í landamerkjabréfi fyrir Víðivelli frá árinu 1890, sem þinglýst var 22. maí það ár, segir um Krossland: „Jörðin Víðivellir á Krossland á Norðurárdal til helminga á móts við Miklabæ. Sunnan að því liggur Norðurá, en að vestan Valagilsá upp til þess, er Smalalækur fellur í hana. Þaðan ræður bein stefna eptir hæðinni neðan við Smaladalinn upp í Landshnjúk eða fjallsbrúnina fyrir ofan Landið, er ræður merkjum að norðan. Að austan liggur Seljadalsá upp í Landsendagjá, og þaðan ræður bein stefna eptir hæðunum neðan við Seljadalinn upp í fjallbrún móti Horni neðan til. Einnig á jörðin Víðivellir ítak í Silfrastaðaafrjett, sem er hrossa og nauta rekstur.“ Bréfið er undirritað af Sigurði Sigurðssyni fyrir hönd eigenda Víðivalla. Þá er það samþykkt af ábúanda Miklabæjar, eiganda Miðsitju, umráðamanni Silfrastaða og eiganda Borgargerðis.

Í fasteignamati 1916-1918 kemur fram að Víðivellir eigi upprekstur í Silfrastaðaafrétt og talið að jörðin eigi einnig selför þangað. Þá er þar tekið fram að beitiland jarðarinnar sé víðlent og landamerki hennar þinglesin.

Í áðurnefndri Byggðasögu Skagafjarðar kemur fram að Víðivellir eigi ítök víða, þar á meðal hrossa- og nautaupprekstur á Silfrastaðaafrétt, hálft Krossland í Norðurárdal og landsvæði sunnan árinnar milli Krókárgerðis og Borgargerðis er Gulreitur nefnist. Ítökin hafi verið seld Akrahreppi í júlí 1997 að undanteknu rekaítaki á Skaga. Í kaupsamningnum frá 1997 er tekið fram að seldur sé hlutur Víðivalla í Krosslandi og merkjum þess lýst. Þá kemur fram að stærð landsins sé 200 ha. Einnig er selt ítak jarðarinnar í Silfrastaðaafrétt fyrir upprekstur hrossa og nauta. Kaupsamningurinn er undirritaður af Unni Gröndal fyrir hönd seljanda og Brodda Björnssyni oddvita fyrir hönd kaupanda. Í framhaldi af sölu á hlut Víðivalla í Krosslandi var því lýst yfir af hálfu Prestsetrasjóðs að sjóðurinn væri samþykkur sölunni.

Landamerkjabréf fyrir Miklabæ var útbúið í maí 1890 og þinglesið rúmum tveimur árum síðar. Þar er fjallað um Krossland og tekið fram að jörðin eigi það land til helminga á móti Víðivöllum. Merkjum Krosslands er síðan lýst með sama hætti og í landamerkjabréfi Víðivalla sem áður er rakið. Þá er þess getið að kirkjan eigi hrísítak á Öxnadalsheiði frá fjallsenda fyrir ofan Reiðgötur og fram til Grjóthryggs og Nautarekstur milli Kolbaksár og Krókaár, milli Reiðslugils og Grjótár. Landamerkjabréf þetta var undirritað af prestinum á Miklabæ, samþykkt af eigendum Víðivalla, Vindheima, Stokkhólma, Vagla, Grundarkots og Silfrastaða.

Í fasteignamati 1916-1918 kemur fram að Miklibær eigi upprekstur á Silfrastaðaafrétt og að merki jarðarinnar séu óátalin.

Ábúandi Silfrastaða lýsti því yfir um 1882 að Miklibær og Víðivellir ættu í sameiningu svonefnt Krossland innan Silfrastaðaafréttar sem er upprekstrarland fyrir fé og hross þeirra án borgunar nema fyrir stóðatoll. Í landamerkjabréfi fyrir Silfrastaði frá 31. mars 1890 kemur fram að innan merkja Silfrastaðaafréttar liggi Krossland sem tilheyri Miklabæ og Víðivöllum.

Í Byggðasögu Skagafjarðar frá 2007 er fjallað um Krossland með eftirfarandi hætti: „Niður frá Landshnjúk er Krossland, oftast nefnt Land, sem skiptist í Efra-Land ofan brúna en Neðra-Land frá Norðurá upp á brúnir. Krossland endar við Landsendagjá, nokkru ofar en þar sem Horná fellur í Norðurá. Hrafnsgil er djúpt og hrikalegt klettagil sem sker brúnina niður á milli Efra- og Neðra-Lands og hlíðina niður undir Norðurá á móts við brúna sem notuð var fram til 2007. Til forna var selstaða á Landinu frá Miklabæ og Víðivöllum í Blönduhlíð og talið að jarðir þessar ættu Landið að hálfu hvor. Selið frá Miklabæ var fram og upp frá svonefndum Prestshöfða þar sem eldri steinsteypubrúin er yfir Norðurá en Víðivallasel var miklu neðar móts við eyðibýlið Krókárgerði, og er tóftir þess að mestu horfnar undir veginn.“

 

IV

Málsástæður og lagarök

Af hálfu stefnenda er á því byggt að landsvæði það sem hér er um deilt sé háð beinum eignarrétti þeirra og því verndað af 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 10. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995 og 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við Mannréttindasáttmála Evrópu sem lögefstur var með lögum nr. 62/1994.

Stefnendur halda því fram að allt það landsvæði sem afmarkað er í aðalkröfu þeirra hafi verið numið í öndverðu og sá eignarréttur sem þá skapaðist hafi ekki fallið niður. Í Landnámu séu skýrar lýsingar um landnám í Skagafirði en lýsingar Landnámu hafi oft verið túlkaðar á þann hátt að þær styðji við beinan eignarrétt, sbr. t.d. Hrd. 1960:726 og 1994:2228. Sama niðurstaða komi fram í almennum niðurstöðum óbyggðanefndar og í fyrri úrskurðum nefndarinnar.

Stefnendur byggja eignarréttarkröfu sína einnig á þeirri meginreglu íslensks eignarréttar að jörð með þinglýstum landamerkjum sé eignarland og þeir sem haldi öðru fram beri sönnunarbyrði fyrir þeirri staðhæfingu. Heimildir Landnámu fari ekki í bága við landamerkjabréf jarðarinnar Silfrastaða sem Silfrastaðaafrétt tilheyrði eða Miklabæjar og Víðivalla sem eiga Krossland. Þá benda þeir á að við landnám hafi landið verið betur gróið og gróður náð lengra inn á heiðar auk þess sem heimildir séu fyrir því að það hafi verið skógi vaxið.

Stefnendur vísa til landamerkjabréfs fyrir Silfrastaði sem dagsett er 31. mars 1890 og þinglesið án athugasemda 22. maí sama ár. Í bréfinu segi:

„Vestan að Silfrastaða heimalandi liggja Hjeraðsvötn. Að norðan ræðr bein lína frá Hjeraðsvötnum í Bóluárgil og síðan Bóluá, þaðan sem árgilið heldur, uppí botn á yzta Þvergili. Þaðan eptir háfjallinu austur í Kotabotna. Að austan Kotagil síðan Kotá ofan í Norðuá, er ræðr merkjum að sunnan, vestur í Hjeraðsvötn. Að Silfrastaðafrjett liggur Valagilsá frá því hún fellur í Norðurá, út á bak við Kotaheiði, upp til þess, er Fletjárdalslækr rennur í hana, þá ræðr hann fram í botn á Fletjárdal. Þaðan yfir háfjallið norðr í botn á Fletjárdal Fylsmýrum og Kleifum. Þaðan yfir fjall í Smaladalsbotn. Þaðan yfir fjall í botn á Seljadal og Horni. Þá yfir Miðdalsbotn. Þaðan í Lúpá á Hörgárdalsheiði, norðanvert við Hörgárdalstungur. Ræðr svo Lúpá og Víkingsá fram í botn á Víkingsdal. Þá yfir fjall í Vatnsgötu á Öxnadalsheiði, þar sem vötnum fyrst hallar vestur af heiðinni. Þaðan beina línu um Tjaldhól í Kaldbaksá, er ræðr merjum fram í botn á Kaldbaksdal, austan við Kinnar. Þá yfir fjall í Krókárdalsbotn, fyrir sunnan Austurgil. Þaðan yfir fjall í Einisdalsbotn. Ræðr svo Norðurá ofan til þess, er Valagilsá fellur í hana. Innan þessara ummerkja á Silfrastaðaafrjett liggr Krossland, tilheyrandi Miklabæ og Víðivöllum. Sunnan að því liggur Norðurá, en vestan Valagilsá upp til þess er Smalalækur rennur í hana. Þaðan ræðr bein stefna, eptir hæðinni neðan við Smaladalinn, uppí Landshnjúk eða fjallsbrúnina fyrir ofan Landið, er ræðr merkjum að norðan. Austan að því liggur Seljadalsá upp að Landsendagjá, og þaðan ræðr bein lína, eptir hæðunum neðan við Seljadalinn, upp í fjallbrún móti Horni neðan til. Einnig eiga nefndar jarðir, Miklibær og Víðivellir, hrossa og nauta upprekstur á Silfrastaðaafrjett, og Stóru Akrar geldneyta upprekstur á afrjettina.“

Stefnendur vísa til landamerkjabréfsins og annarra skráðra eignarheimilda fornra og nýrra svo og landamerkjabréfa fyrir aðliggjandi jarðir. Benda þeir sérstaklega á að Silfrastaðakirkju sé getið í máldagabók Auðuns biskups rauða frá 1318 og registri Egils biskups Eyjólfssonar þó að þar sé ekki getið um jarðeignir eða ítök Silfrastaðakirkju. Þá hafi Silfrastaðir verið seldir í mars 1448. Í vísitasíu frá 2. október 1663 komi fram að kirkjan eigi Fremrikot og Krákugerði með Hálfdánartungum. Í Jarðabókinni frá 1713 komi fram að kirkjan eigi tvo afrétti á Öxnadalsheiði og Hörgárdalsheiði. Í lýsingu Silfrastaða segi að sumarhagar og vetrarhagar séu merkilega góðir. Útigangur fyrir sauðfé á veturna næsta óbilandi, nema vont árferði eða lognsnjóar byrgi. Afrétti eigi jörðin tvo, annan hálfa Öxnadalsheiði vestanverða, en í það eiga aðrar jarðir ítök. Annan hálfa Hörgárdalsheiði vestan- eða sunnanverða, geldfjár- og lambaupprekstur hafa Blönduhlíðarmenn í afrétt þennan, annaðhvort fyrir toll til ábúandans á Silfrastöðum eða hann eftirgefur þeim tollinn fyrir góðvilja. Þá er tekið fram í lýsingu jarðarinnar að skógur hafi verið á Öxnadalsheiði en hann sé nú eyddur svo ekki er eftir nema rifhrís og fjalldrapi.

Stefnendur halda því fram að gögn málsins styðji eignarrétt þeirra og að úrskurðir óbyggðanefndar séu rangir og brjóti í bága við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og Mannréttindasáttmála Evrópu.

Stefnendur vísa einnig til þess að við setningu landamerkjalaga nr. 5/1882 og síðar laga nr. 41/1919, hafi það verið ætlun löggjafans að framkvæmdavaldið hefði frumkvæði að því að gengið yrði frá landamerkjum jarðeigna, þau skráð og leyst úr þeim ágreiningi sem til staðar kunni að vera. Að virtum ákvæðum nefndra laga og tilgangi þeirra byggja stefnendur á því að landamerkjabréf Silfrastaða bendi til þess að Silfrastaðaafrétt sé landsvæði sem háð sé beinum eignarrétti. Landamerkjabréfið styðjist við fjölda eldri heimilda svo sem fram komi í úrskurðum óbyggðanefndar. Eldri heimildir fari því ekki gegn landamerkjabréfi jarðarinnar. Í þessu sambandi vísa stefnendur til dóms Hæstaréttar í máli nr. 48/2008, en þar hafi rétturinn talið að það skipti máli hvort land teldist innan upphaflegra landnáma og hvort með landið hefði verið farið sem eignarland samkvæmt elstu heimildum, sbr. einnig dóm réttarins í máli nr. 47/2007. Stefnendur halda því fram að jörð sem lögð er til afréttar sé eignarland, sbr. dóm Hæstaréttar frá árinu 1971 sem birtur var á bls. 1137 í dómasafni réttarins fyrir það ár.

Stefnendur byggja enn fremur á því að þeir hafi farið með öll réttindi og heimildir sem fylgja umþrættu landsvæði. Þeir hafi nýtt svæðið til beitar og vísa um aðra notkun til úrskurða óbyggðanefndar. Þá hafi þeir greitt skatta og önnur lögboðin gjöld af landinu. Stefnendur benda á að eignarréttur þeirra hafi verið virtur af öllum, stefnda þar með töldum, frá ómunatíð sem m.a. hafi lýst sér í því að þeir hafi getað bannað öðrum not eignarinnar. Eignarréttur stefnenda hafi þannig verið virtur í viðskiptum og því byggist eignarhaldið einnig á viðskiptavenju.

Stefnendur benda á að Silfrastaðaafrétt ásamt Hálfdánartungum hafi verið afsalað til stefnandans, Akrahrepps, með afsalsbréfi Steingríms Jónssonar á Silfrastöðum, dags. 6. nóvember 1898. Krossland hafi hins vegar samkvæmt elstu heimildum ávallt tilheyrt Miklabæ og Víðivöllum. Hlut Víðivalla í landinu hafi verið afsalað til Akrahrepps með afsali hinn 18. júlí 1997.

Stefnendur halda því einnig fram að venjuréttur og hefðarreglur leiði til þeirrar niðurstöðu að landsvæðið sé eign í skilningi áðurnefndrar 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu en fullur hefðartími sé liðinn frá því að þau tóku að nýta landið. Öll afnot og nytjar landsins séu háð leyfi þeirra og enginn hafi notað landið á nokkurn hátt nema eigendur þess. Þá halda stefnendur því fram að sjónarmiði óbyggðanefndar þess efnis að flokka hefð, með lögum, sem frumstofnun eignarréttar hafi ekki verið breytt af Hæstarétti Íslands.

Stefnendur halda því einnig fram að þar sem hefðarlög heimili eignarhefð lands, sem er í opinberri eigu, hljóti að vera unnt að hefða land sem ekki er háð eignarrétti. Í þessu sambandi vísa þeir m.a. til tveggja dóma Hæstaréttar Íslands. Annars vegar til dóms frá árinu 1997, sem birtist á bls. 2792 í dómasafni réttarins fyrir það ár, en í þeim dómi hafi eignarhefð verið viðurkennd þrátt fyrir að not hefðanda, sem studdi rétt sinn við kaupsamning, hefðu verið sambærileg afréttarnotum. Hins vegar vísa stefnendur til dóms réttarins frá árinu 1939, bls. 28, en þar hafi eignarhefð verið talin fullnuð enda þótt eignarheimild væri glötuð og eingöngu um takmörkuð not að ræða. Þeir vísa einnig til máls Helgu klaustranna gegn Grikklandi sem dæmt var af Mannréttindadómstól Evrópu 9. desember 1994. Í þeim dómi komi fram markverð sjónarmið varðandi afstöðu dómstólsins til sönnunar á eignarhaldi á landsvæði. Fræðimenn hafi talið að eignarhefð yrði unnin á landi, hvort heldur um væri að ræða afrétt eða almenning, ef skilyrðum hefðar er á annað borð fullnægt en þá verði að gera strangari kröfur um not ef um eigendalaust landsvæði er að tefla. Þá verði að slaka á kröfum til eignarhalds eftir því sem verðmæti og aðstæður allar gefa minna tilefni til víðtækra umráða og fjölbreyttra nota. Stefnendur halda því fram að fræðimenn hafi talið að eignarhefð verði unnin á landi, hvort heldur sem um sé að ræða afrétt eða almenning, ef skilyrðum hefðar er fullnægt en þá jafnframt talið að gera verði strangari kröfur um not ef um eigendalaust landsvæði er að ræða. Jafnframt að slaka verði á kröfum til eignarhalds eftir því sem verðmæti og allar aðstæður gefa minna tilefni til víðtækra umráða og fjölbreyttra nota.

Stefnendur halda því fram að við mat á því hvort hið umþrætta landsvæði sé eign eða háð eignarrétti þeirra í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. 1. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu verði að horfa til þeirra sjónarmiða sem Mannréttindadómstóllinn hefur lagt til grundvallar við úrlausn á þessu álitaefni. Horfa verði til þess að Mannréttindadómstóllinn hafi túlkað hugtakið eign í skilningi 1. gr. 1. viðauka á þá leið að það hafi sjálfstæða merkingu. Stefnendur reisa kröfur sínar einnig á þeim sjónarmiðum sem Mannréttindadómstóllinn hefur lagt til grundvallar um lögmætar væntingar. Dómstóllinn hafi talið að væntingar einstaklinga og lögaðila til að njóta eigna sinna séu verndaðar af títtnefndum samningsviðauka ef þær eru byggðar á sanngjörnu og réttlætanlegu trausti á réttargerningi sem tengdur er við eignarréttindi og hefur áreiðanlegan lagagrundvöll. Loks telja stefnendur að ef kröfur þeirra verði ekki teknar til greina sé verið að mismuna eigendum jarða með því að gera aðrar kröfur til þeirra um sönnun en annarra landeigenda hér á landi. Slík íþyngjandi sönnunarbyrði jafngildi bótalausri sviptingu eignarréttar.

Stefnendur gera í málatilbúnaði sínum athugasemdir við úrskurð óbyggðanefndar. Þeir telja að tilgangur laga nr. 58/1998 hafi fyrst og fremst verið sá að gera stefnda að þinglýstum eiganda þeirra landsvæða sem enginn hefur skjöl fyrir að hann eigi en svo hátti til um hluta afrétta og jökla á miðhálendinu. Það sé í verkahring óbyggðanefndar að finna þessi eigendalausu svæði. Silfrastaðaafrétt sé hins vegar ekki eigendalaus og því ekki þjóðlenda. Í 1. gr. laga nr. 58/1998 komi fram að þjóðlendur séu utan eignarlanda. Eignarland sé síðan skilgreint sem „landssvæði sem háð er einkaeignarrétti þannig að eigandinn fer með öll venjuleg eignarráð þess.“ Stefnendur byggja á því að svo sé með allt það land sem þeir hafi þinglýstar eignarheimildir fyrir.

Stefnendur vísa til þess að óbyggðanefnd hafi fjallað um hefð og þýðingu hennar við úrlausn þjóðlendumála og komist að þeirri niðurstöðu að hefð sé eitt dæmi um frumstofnun eignarréttar. Þá hafi nefndin sagt að við mat á því hvort tekist hafi að fullna eignarhefð yfir landsvæði skipti máli hvort það er innan eða utan landamerkja jarða og þá hafi gildistaka hefðarlaga á árinu 1905 einnig áhrif og styrki eignartilkall í slíkum tilvikum. Skilyrði fyrir eignarhefð utan landamerkja jarða séu hins vegar þröng en ekki útilokuð. Stefnendur fá ekki séð hvers vegna þessi sjónarmið nefndarinnar eigi ekki við í þessu máli, enda sé þrætulandið innan landamerkja jarðar þeirra og háð einkanýtingarrétti þeirra. Þrátt fyrir að afréttin liggi ekki að Silfrastöðum sé ekki unnt að álykta sem svo að um sé að ræða afrétt sem hafi ekki sömu eignarréttarlegu stöðu og heimaland jarðarinnar. Silfrastaðaafrétt hafi verið nýtt sem eignarland í gegnum tíðina og aðrir hafi virt eignarrétt eigenda Silfrastaða.

Stefnendur halda því einnig fram að nefndin telji ranglega að merki Silfrastaðaafréttar séu óljós, þau séu dregin á kort og enginn ágreiningur við aðliggjandi jarðir og landsvæði. Enn fremur sé það rangt að afréttin sé almenningsafrétt, þvert á móti sé um að ræða jörð sem keypt var af sveitarfélagi og lögð til afréttar. Öll ítök í landið, hafi þau verið fyrir hendi, hafi fallið niður með lögum um lausn ítaka en ítök hafi ævinlega verið í eignarland.

Að teknu tilliti til þessa telja stefnendur að óbyggðanefnd hafi ranglega metið sönnunargögn málsins og lagt óhóflega sönnunarbyrði á þá, sem ekki fái staðist jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og því beri að ógilda úrskurð nefndarinnar.

Loks telja stefnendur að Hæstiréttur Íslands hafi orðað þá reglu, að mannréttindi sem verndar njóta verði ekki skert nema fyrir því sé skýr regla í settum lögum og að reglan samræmist ákvæðum stjórnarskrár. Slík ákvæði sé ekki að finna í þjóðlendulögum og ekkert hafi komið fram við meðferð frumvarps til þjóðlendulaga sem bendi til þess að stefnt hafi verið að því að svipta landeigendur eignarrétti sínum. Úrskurður óbyggðanefndar sem um er deilt í máli þessu sé því brot á vernduðum rétti stefnenda.

Varakröfu sína styðja stefnendur sömu rökum og rakin hafa verið varðandi aðalkröfu þeirra.

Hvað lagarök varðar vísa stefnendur til stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, einkum 72. gr. varðandi friðhelgi eignarréttarins og 65. gr. varðandi jafnræði. Þá vísa þeir til meginreglna stjórnsýsluréttar um málsmeðferð, laga um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda þjóðlendna og afrétta nr. 58/1998. Enn fremur vísa stefnendur til laga um hefð nr. 46/1905, laga um afréttarmál og fjallskil nr. 6/1986, laga um mannréttindasáttmála Evrópu nr. 62/1994, í sáttmálann sjálfan og viðauka við hann, þá sérstaklega 1. gr. 1. viðauka. Þá er vísað til stjórnsýslulaga nr. 37/1993, til laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Þá er byggt á meginreglum og almennum reglum eignaréttar um venjurétt og óslitin not, sem og almennum reglum samninga- og kröfuréttar. Einnig er vísað til almennra reglna um ítaksrétt og stofnun ítaka. Þá vísa stefnendur til meginreglna um traustfang og traustnám og almennra reglna um tómlæti. Loks er vísað til þinglýsingalaga nr. 39/1978, einkum IV. kafla laganna. Hvað varnarþing varðar er vísað til 3. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um málskostnað úr hendi stefnda er reist á XXI. kafla sömu laga.

 

Stefndi heldur því fram að Silfrastaðaafrétt sé svæði utan eignarlanda og teljist af þeim sökum þjóðlenda líkt og ákveðið er í úrskurðum óbyggðanefndar. Stefndi telur ljóst að af heimildum megi ráða að landsvæðið hafi aldrei verið undirorpið beinum eignarrétti og að nýting þess hafi verið í samræmi við það. Telur stefndi að stefnendur verði að sanna beinan eignarrétt sinn að landinu eða einstökum hlutum þess.

Stefndi vísar til þess að óbyggðanefnd hafi byggt úrskurði sína á umfangsmikilli upplýsingaöflun og rannsóknum og skýrslum sem gefnar voru fyrir nefndinni. Óbyggðanefnd hafi talið ótvírætt að við gildistöku laga nr. 58/1998 hafi landsvæði það sem um er deilt í máli þessu talist til afrétta samkvæmt eignarréttarlegri flokkun lands sem almennt var miðað við fram til þess tíma. Tekur stefnandi undir niðurstöður nefndarinnar og gerir að sínum auk þeirra sjónarmiða sem hann rekur í greinargerð sinni.

Stefndi byggir á því að umþrætt landsvæði sé utan eignarlanda. Af rituðum heimildum verði ráðið að afréttarinnar sé fyrst sérstaklega getið í dómi frá 1611, þar sem Jón Sigurðsson lögmaður dæmdi um skylduupprekstur og lambatoll en heimildir um jörðina Silfrastaði nái allt aftur til ársins 1311. Hinn 2. júní 1885 hafi verið útbúið sérstakt landamerkjabréf fyrir afréttarland Silfrastaða og merkjum þess lands lýst. Þá liggi fyrir landamerkjabréf frá árinu 1890 sem kallað sé „landamerkjaskrá fyrir Silfrastöðum“. Í því bréfi sé merkjum afréttarinnar sérstaklega lýst en eldri heimildir um mörk afréttarinnar séu ekki til. Stefndi segir að ekki sé ágreiningur milli aðila um afmörkun svæðisins.

Stefndi vísar einnig til þess að Silfrastaðir séu landfræðilega aðskildir frá umræddri afrétt og liggi nokkrar jarðir á milli. Í þessu efni bendir hann á að almennt hafi verið litið svo á að þegar þannig háttar til þá bendi það ótvírætt til þess, að um sé að ræða svæði utan eignarlanda. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1713 komi fram að Silfrastaðir eigi tvo afrétti, annar þeirra sé hálf Öxnadalsheiði vestanverð. Í bókinni segi um Miklabæ að sú jörð eigi upprekstur fyrir geldnaut á Öxnadalsheiði svo og hrístak á heiðinni frá fjallsenda fyrir ofan reiðgötur fram til grjóthryggs. Í jarðamati frá 1804 komi fram að leiguliði á Silfrastöðum fái sex ríkisdali árlega í tekjur af afrétt sem tilheyri jörðinni. Þá segi í jarðamati frá 1849 að undir Silfrastöðum liggi víðlend og landgóð afrétt sem meiri hluti Akrahrepps noti til upprekstrar gegn gjaldi. Hinn 6. nóvember 1898 afsalar Steingrímur Jónsson, bóndi á Silfrastöðum, jörðinni til Akrahrepps og segir stefndi að stefnandinn Akrahreppur byggi eignarréttarlegt tilkall sitt á því skjali. 

Stefndi vísar einnig í ritið Göngur og réttir IV þar sem fram kemur í umfjöllun um Silfrastaðaafrétt að hún sé aðalafrétt meiri hluta Akrahrepps. Hið sama komi fram í skjali frá sýslumanninum í Skagafjarðasýslu sem segi að allar jarðir í Akrahreppi nema tvær eigi upprekstur á Silfrastaðaafrétt. Í skýrslum sem teknar voru af aðilum fyrir óbyggðanefnd komi fram að landsvæðið sé nýtt sem sumarbeitiland fyrir sauðfé af jörðum í hreppnum.

Stefndi heldur því fram að við mat á gildi landamerkjabréfa beri að gæta að því að þau fela fyrst og fremst í sér sönnun um mörk milli eigna, en í þeim felist á engan hátt að allt land innan merkja skuli teljast eignarland. Þótt landamerkjabréfi hafi verið þinglýst, þá takmarkist gildi þinglýsingarinnar af því að ekki er unnt að þinglýsa meiri rétti en viðkomandi á. Með gerð landamerkjabréfs hafi menn ekki getað aukið við land sitt eða annan rétt, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 48/2004. Ósannað sé að afréttarlandið hafi verið undirorpið beinum eignarrétti áður en landamerkjabréfin voru gerð. Þá hafi það áhrif á gildi landamerkjalýsingarinnar frá 31. mars 1890 að það er ekki samþykkt af umráðamönnum aðliggjandi landsvæða. Stefndi byggir á því að af rituðum heimildum megi ótvírætt ráða að Silfrastaðaafrétt sé ekki háð beinum eignarrétti heldur sé afréttin þjóðlenda í skilningi 1. gr. laga nr. 58/1998 sem sé háð takmörkuðum eignarrétti stefnenda.

Stefndi heldur því fram að almennt skipti máli hvort um sé að ræða jörð í eignarréttarlegum skilningi eða annað landsvæði. Landamerkjabréf hafi ekki eingöngu verið gerð fyrir jarðir heldur annað svæði líka, svo sem afréttarlönd sem ekki tengist ákveðinni jörð. Almennt sé þó talið að landamerkjabréf fyrir jörð feli í sér ríkari sönnun þess efnis að um eignarland sé að ræða en þó verði að taka tillit til eldri skjala og meta gildi hvers landamerkjabréfs fyrir sig. Einnig verði við mat á gildi landamerkjalýsinga að horfa til þess að merki Silfrastaðaafréttar hafa ekki verið samþykkt af umráðamönnum aðliggjandi svæða, einkum til suðurs og austurs, enda umlukið afréttarsvæðum utan eignarlanda á þá vegu. Þá bendir stefndi á að ekki verði séð að nokkru sinni hafi verið búseta á þrætulandinu ef frá er talinn búskapur í Hálfdánartungum. Telur stefndi að staðhættir og nýting landsins bendi eindregið til þess að landið sé ekki háð beinum eignarrétti.

Stefndi tekur undir niðurstöður óbyggðanefndar varðandi Krossland sem er innan Silfrastaðaafréttar og stefndi Kirkjumálasjóður telur sig eiganda að á móti stefnda Akrahreppi. Stefndi heldur því fram að ekkert bendi til þess að það svæði hafi aðra eignarréttarlega stöðu en afréttin að öðru leyti. Varðandi Hálfdánartungur, sem einnig eru innan marka Silfrastaðaafréttar, bendir stefndi á að engin afmörkun sé til varðandi það býli og sú stutta búseta sem virðist hafa verið þar og hugsanleg hagnýting þess fyrir setningu hefðarlaga nr. 36/1905 hafi ekki að þágildandi lögum getað stofnað beinan eignarrétt.

Stefndi byggir á því að í Landnámu sé ekki lýst hversu langt inn til lands landnám náði á þessu svæði. Að mati stefnda er ólíklegt að landið hafi verið numið í öndverðu, einkum með hliðsjón af staðháttum, gróðurfari, víðáttu svæðisins, lengd þess frá byggðum bólum og hversu hálent það er. Stefndi telur að af dómafordæmum megi ráða að þegar deilt sé um upphaflegt nám lands verði aðeins stuðst við glöggar landfræðilegar heimildir en heimildaskortur leiði til þess að ósannað teljist að land hafi í öndverðu verið numið. Í þessu sambandi vísar hann til dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 67/1996, 48/2004 og 128/1967. Sönnunarbyrði um stofnun eignarréttar með þeim hætti hvíli á þeim sem slíku heldur fram. Gögn málsins og heimildir sýni að svæðið hafi eingöngu verið nýtt með afar takmörkuðum hætti. Svæðið hafi í upphafi verið tekið til sumarbeitar fyrir sauðfé en þó geti verið að það hafi einnig verið nýtt með einhverjum afar takmörkuðum hætti. Verði talið að svæðið hafi verið numið í öndverðu heldur stefndi því fram að það hafi ekki verið numið til eignar heldur eingöngu til takmarkaðra nota, svo sem afréttarnota. Frá upphafi byggðar hafi menn helgað sér svæði, ekki eingöngu til eignar heldur einnig ítök, afrétti og önnur réttindi sem þýðingu gátu haft fyrir afkomu þeirra. Meðan svæðin gáfu eitthvað af sér hafi hagsmunir falist í því að halda við merkjum réttindanna hver sem þau voru. Stefndi heldur því fram að hafi landið verið numið í öndverðu og þá stofnast beinn eignarréttur þá hafi slíkur réttur ekki yfirfærst heldur fallið niður og menn hafi í framhaldi af því tekið, óátalið, að nýta svæðið sem afrétt. Í þessu efni vísar stefndi til umfjöllunar óbyggðanefndar svo og dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 67/2006 og 27/2007.

Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að svæðið kunni að hafa verið numið að hluta eða öllu leyti og þá háð beinum eignarrétti byggir stefndi á því að slíkt eignarhald hafi fallið niður en svæðið tekið til takmarkaðra nota en ekkert liggi fyrir um að eignarréttur hafi haldist í gegnum aldirnar.

Stefndi vísar máli sínu til stuðnings, eins og áður er getið, til staðhátta og fjarlægðar frá byggð sem að hans mati leiða líkur að því að landið hafi ekki verið numið í öndverðu og lúti ekki beinum eignarrétti. Svæðinu sé lýst í úrskurðum óbyggðanefndar þar sem m.a. kemur fram að það liggi á Tröllaskaga til norðurs upp af Norðurá í Norðurárdal. Svæðið sé skorið giljum og dölum og þá afmarkist Hörgárdalsheiði af háum fjöllum. Að teknu tilliti til staðhátta og gróðurfars á svæðinu svo og hæðar þess yfir sjávarmáli virðist augljóst að það hafi ekki verið nýtt til annars en beitar og eftir atvikum annarra takmarkaðra nota. Engin gögn séu til sem bendi til annars. Fjallskil hafi verið sameiginleg á svæðinu og þangað hafi búpeningur af öðrum svæðum getað leitað, enda svæðið ekki girt. Um afréttarnotkun og fjallskil hafi snemma verið settar reglur, sem sveitarstjórnum var falið að annast framkvæmd á.

 

Stefndi heldur því fram að skilyrði eignarhefðar séu ekki til staðar varðandi umþrætt landsvæði, einkum þegar horft er til þess sem áður er rakið um nýtingu landsins, staðhætti og eldri heimildir. Í aldanna rás hafi landið verið nýtt með afar takmörkuðum hætti eins og áður er getið. Hefðbundin afréttarnot og takmörkuð nýting geti ekki stofnað til beinna eignarréttinda yfir landi, sbr. t.d. dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 103/1953, nr. 47 og 48/2004. Þessi rök leiði einnig til þess að hafna beri þeirri málsástæðu stefnenda að venjuréttur leiði til þess að öll réttindi sem landsvæðinu fylgja tilheyri stefnendum.

Stefndi hafnar því einnig að réttmætar væntingar geti verið grundvöllur fyrir eignartilkalli á svæðinu. Þá reglu megi leiða af dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 199/1978, að löggjafinn sé einn bær til að ráðstafa réttindum yfir landsvæði utan eignarlanda en lög þurfi til ef ráðstafa á fasteignum ríkisins. Athafnir eða athafnaleysi starfsmanna stjórnsýslunnar geti ekki leitt af sér slík yfirráð nema að lagaheimild hafi verið fyrir hendi og það eigi við um ráðstöfun á þjóðlendu. Stefndi heldur því fram að menn geti ekki haft réttmætar væntingar til þess að öðlast meiri rétt og frekari réttindi en þeir mögulega gátu átt rétt á. Gögn málsins, staðhættir, gróðurfar og nýting landsins bendi ekki til beins eignarréttar og því geti réttmætar væntingar stefnenda ekki stofnað bein eignarréttindi þeim til handa.

Stefndi bendir einnig á að þinglýsing heimildarskjals fyrir landsvæði feli ekki í sér sönnun um tilvist beins eignarréttar, sbr. þá meginreglu eignarréttarins að menn geti ekki með eignayfirfærslugerningi öðlast betri rétt en seljandi átti.

Stefndi telur, með vísan til þeirra málsástæðna sem hann hefur fært fram, að stefnendum hafi ekki tekist að sýna fram á eignarrétt sinn að svæðinu. Silfrastaðaafrétt falli öll undir skilgreininguna „landsvæði ... sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfé.“, sbr. 1. gr. laga nr. 58/1998. Telur stefndi að allt landsvæði það sem hér er til umfjöllunar teljist þjóðlenda. Engin gögn liggi fyrir um að hið umþrætta landsvæði hafi haft mismunandi eignarréttarlega stöðu og því teljist það allt þjóðlenda.

Stefndi mótmælir, með sömu rökum og að framan eru rakin, varakröfum stefnenda að því marki sem krafist er rýmri eignarráða en þeirra sem felast í afréttareign. Þá mótmælir stefndi því alfarið að stefnendur eigi einkarétt til dýraveiða, hagnýtingar vatnsréttinda og nýtingar á auðlindum í jörðu sem kunna að vera á ágreiningssvæðinu. Um auðlindir í jörðu gildi lög nr. 57/1998 og því gildi ákvæði 3. gr. laganna um svæðið, enda sé það þjóðlenda en á slíku svæði séu auðlindir í jörðu í eigu ríkisins nema aðrir geti sannað eignarrétt sinn til þeirra. Slíka sönnun hafi stefnendur ekki fært fram í máli þessu.

Varðandi lagarök vísar stefndi til þeirra lagaákvæða sem áður eru rakin en auk þess til almennra reglna eignarréttar og til þjóðlendulaga nr. 58/1998. Þá vísar hann til 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, til meginreglna eignarréttar um nám og töku og óslitin not, sem og meginreglna um eignarráð fasteignareigenda og almennra reglna samninga- og kröfuréttar. Þá vísar hann til laga um hefð nr. 14/1905 og til laga nr. 6/1986 um afréttarmálefni og fjallskil. Þá vísar hann til ýmissa eignarréttarreglna Grágásar og Jónsbókar. Krafa um málskostnað úr hendi stefnenda er reist á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 129. og 130. gr. laganna.

 

V

Niðurstaða

            Í máli þessu er, eins og að framan er getið, deilt um eignarhald á Silfrastaðaafrétt í Skagafirði sem að mati stefnenda er háð beinum eignarrétti þeirra. Stefndi heldur því hins vegar fram að staðfesta beri úrskurði óbyggðanefndar, þar sem niðurstaðan var sú að afréttin teldist þjóðlenda í skilningi laga nr. 58/1998. Í málinu er ekki ágreiningur um mörk afréttarinnar en við það er miðað að merkjum hennar sé réttilega lýst í „landamerkjaskrá fyrir Silfrastöðum“, dagsettri 31. mars 1890.

            Að framan er rakið í öllum aðalatriðum það er fram kemur í úrskurðum óbyggðanefndar um sögu Silfrastaðaafréttar, notkun hennar lýst svo og þeim rituðu heimildum sem til eru um afréttina. Af gögnum þessum má ráða að þrætusvæðið hefur í aldanna rás verið nýtt eftir aðstæðum á hverjum tíma og þá einkum til beitar fyrir búpening. Silfrastaðaafrétt er nokkuð stórt landsvæði (í Byggðasögu Skagafjarðar talið vera um 1.630 hektarar) sem nær yfir hluta Öxnadalsheiðar og Hörgárdalsheiðar en innan þess er Krossland sem stefnandinn Kirkjumálasjóður telur eign sína að hálfu á móti stefnandanum Akrahreppi. (Í kaupsamningi frá 18. júlí 1997 er Krossland sagt vera 200 hektarar að stæð.) Áður hefur verið rakið hvernig landnámi á svæðinu er lýst í landnámu.

            Við mat á eignarréttarlegri stöðu Silfrastaðaafréttar innan þeirra merkja sem lögð eru til grundvallar í málinu ber m.a. að líta til landamerkjalýsinga og ritaðra heimilda sem fyrir liggja. Í dómum Hæstaréttar, sem gengið hafa í málum um mörk eignarlanda og þjóðlendna, hefur rétturinn ítrekað vísað til þess að þótt landamerkjabréf fyrir jörðum feli almennt í sér ríka sönnun fyrir því að land sem þau taki til sé háð beinum eignarrétti, verði að gæta að því að með gerð þeirra hafi ekki verið unnt að auka einhliða við lönd eða önnur réttindi umfram það, sem verið hafði. Þurfi því að líta til þess hvort til séu eldri heimildir sem fallið geti að lýsingu í landamerkjabréfi, enda stangist hún ekki á við staðhætti, gróðurfar og upplýsingar um nýtingu landsins.

            Í dómum Hæstaréttar hefur einnig ítrekað komið fram að landamerkjabréf hafa verið gerð bæði fyrir jarðir og annars konar réttindasvæði svo sem ítök og afrétti. Land utan jarða, þar á meðal afréttarland, hefur að jafnaði verið talið þjóðlenda. Notkun hugtaksins afrétt í landamerkjabréfi og/eða öðrum heimildum hefur þó ekki úrslitaþýðingu um það að þar sé þjóðlenda, enda hefur merking þess ekki verið einhlít og geta slík svæði því talist eignarlönd. Við mat á eignarréttarlegri stöðu svæða sem nefnd hafa verið afréttir hefur verið horft til eignarréttarlegrar stöðu aðliggjandi svæða en einnig er mögulegt að unninn hafi verið réttur á áður eigendalausu svæði, svo sem á grundvelli hefðar. Við úrlausn máls þessa verður að taka tillit til þessara atriða.

            Í máli þessu liggur fyrir að ritaðar heimildir með lýsingu á merkjum Silfrastaðaafréttar eru takmarkaðar og verður ekki annað ráðið en merkjum afréttarinnar sé fyrst lýst með beinum hætti í landamerkjabréfi á árinu 1885, síðan með öðru bréfi fimm árum síðar. Ætla verður að bréf þessi hafi verið rituð í tilefni af setningu landamerkjalaga sem þá höfðu nýlega verið sett, einkum í þeim tilgangi að skrá merki jarða hér á landi. Aðrar eldri heimildir lýsa merkjum afréttarinnar með ónákvæmum hætti og má þar t.d. nefna lögfestur fyrir Silfrastaði frá 1743, 1752, 1768 og 1870. Þegar afréttarinnar er getið í eldri heimildum er það gjarnan með þeim hætti að Silfrastaðaafrétt tilheyri Silfrastöðum. Má í þessu nefna lýsingu í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1713 en þar segir m.a. um Silfrastaði: „Afrjetti á jörðin tvo, annan hálfa Öxnadalsheiði vestaverða, en í það eiga aðrar jarðir ítök, sem síðar mun getið verða.“

            Í máli þessu háttar svo til að heimildir um beinan eignarrétt að þrætulandinu eru takmarkaðar og þá er lýsing Landnámu þannig að hún er ekki til þess fallin að renna á óyggjandi hátt stoðum undir kröfur stefnenda. Hins vegar eru staðhættir þannig að óhætt er að fullyrða að hluti landsins hefur verið numinn í öndverðu. Í úrskurði óbyggðanefndar er á því byggt að jarðir liggi milli afréttarinnar og heimalands Silfrastaða. Þetta er vissulega rétt í dag en vísbendingar eru um að landnámsjörðin Þorbrandsstaðir sé sami bær og nefndur hefur verið Ytri-Kot hin síðari ár. Að því gefnu var samfella milli landnámsjarðarinnar og afréttarinnar.

            Þegar tekið er tillit til þeirra takmörkuðu heimilda sem varða afmörkun þrætulandsins, staðhætti, nýtingu og önnur atriði sem skipta máli við mat á eignarréttarlegri stöðu svæða sem þessa, er það mat dómsins að fallast verði á þau sjónarmið sem fram koma í úrskurðum óbyggðanefndar, þ.e. að réttur til svæðisins hafi orðið til á þann veg að það hafi verið tekið til sumarbeitar fyrir búpening og, ef til vill, annarrar takmarkaðrar notkunar og þá hafi beinn eignarréttur sem vera má að stofnast hafi yfir svæðinu fallið niður í kjölfar þess að svæðið var tekið til takmarkaðra nota annarra. Eins og notkun svæðisins hefur verið háttað hefur stefnendum ekki tekist að sýna fram á að eignarhefð hafi verið unnin á því. Verður því fallist á með stefnda að stefnendur hafi ekki sýnt fram á að þrætulandið sé eignarland þeirra, hvorki fyrir nám, löggerninga né með öðrum hætti. Verður stefndi því sýknaður af kröfum stefnandans Akrahrepps varðandi annað svæði en svonefnt Krossland en um það verður fjallað hér á eftir. Svæðið þar sem Hálfdánartungur eru hefur aldrei verið sérstaklega afmarkað, enda líklegt að Hálfdánartungur hafi verið hjáleiga frá Silfrastöðum og því engin merkjalýsing gerð fyrir þær. Að þessu virtu er ógerlegt að taka það svæði út úr öðru svæði sem tilheyrir Silfrastaðaafrétt og telst það svæði því þjóðlenda.

            Áður er þess getið að líkur eru til þess að landnámsbærinn Þorbrandsstaðir hafi staðið á því svæði sem Ytri-Kot er í dag. Staðhættir eru með þeim hætti að leggja má til grundvallar að svæðið sem Krossland tekur til og raunar Hálfdánartungur líka hafi verið numið í öndverðu. Í þeim heimildum sem raktar eru hér að framan er jafnan tekið fram að Krossland sé innan Silfrastaðaafréttar, að hálfu í eigu Miklabæjar og að hálfu í eigu Víðivalla. Krosslands er getið í máldagabók Péturs biskups Nikulássonar frá 1394 og segir þar að landið sé að hálfu í eigu Miklabæjar. Í máldaganum er landið sagt liggja fyrir framan Valagilsá og til Seljadalsár. Af gögnum málsins verður ráðið að merkjum Krosslands hafi fyrst verið lýst með þeim hætti sem þau eru sögð í dag í landamerkjabréfum fyrir Miklabæ og Víðivelli en þau eru bæði frá árinu 1890. Lýsingin í landamerkjabréfunum fær stoð í nefndum máldaga frá 1394. Þá benda selstöður í landinu frá báðum bæjunum, sem nefnd voru Prestssel annars vegar og Víðivallasel hins vegar, til þess að landið hafi verið í eigu þessara jarða. Að auki er þess ítrekað getið í rituðum heimildum að nefndar jarðir eigi Krossland að hálfu hvor. Að þessu gættu og staðháttum á svæðinu fellst dómurinn á að Krossland sé háð beinum eignarrétti stefnendanna Akrahrepps og Kirkjumálasjóðs. Verður krafa þeirra því hvað þetta svæði varðar tekin til greina.

            Varakrafa stefnandans Akrahrepps þess efnis að hann eigi einkarétt til beitar, veiða, dýraveiða, hagnýtingar vatnsréttinda og nýtingar á auðlindum í jörðu, án endurgjalds á því svæði sem úrskurðað var afréttareign eiganda Silfrastaðaafréttar, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. laga nr. 58/1998 þótt svæðið teljist þjóðlenda, á sér ekki stoð í lögum, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 350/2011, og verður stefndi því sýknaður af þeirri kröfu.

            Rétt þykir að málskostnaður falli niður milli stefnandans Akrahrepps og stefnda. Stefndi greiði stefnda Kirkjumálasjóði 502.000 krónur í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.

Allur gjafsóknarkostnaður Akrahrepps greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningsþóknun lögmanns hreppsins, Ólafs Björnssonar hæstaréttarlögmanns. Með hliðsjón af umfangi málsins og þeim hagsmunum sem í húfi voru, en einnig þegar virt eru gögn um vinnuframlag, þar á meðal vegna vettvangsferða og endurflutnings, er nefnd þóknun ákveðin 1.851.245 krónur og er þá virðisaukaskattur meðtalinn. Samkvæmt 2. mgr. 127. gr. laga nr. 9/1991 kemur aðeins í hlut dómstóla að ákveða þóknun handa lögmanni gjafsóknarhafa og á því ekki að réttu lagi að taka afstöðu til útlagðs kostnaðar hans í dómi.

Af hálfu stefnda flutti málið Indriði Þorkelsson hæstaréttarlögmaður.

          Halldór Halldórsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:

          Úrskurður óbyggðanefndar í máli nr. 2/2009 frá 10. október 2001 er felldur úr gildi varðandi svæði það sem kallað er Krossland og viðurkennd krafa stefnenda þess efnis að á svæði innan eftirtalinna marka sé engin þjóðlenda: Frá þeim punkti er Valagilsá fellur í Norðurá (1). Þaðan er Valagilsá fylgt að þeim stað sem Smalalækur fellur í hana (2). Þaðan er línan dregin beina stefnu í Landshnjúk (3). Frá Landshnjúki er línan dregin beina stefnu í Landsendagjá við Horná (4). Frá Landsendagjá er línan dregin í Horná og ánni fylgt þar til hún fellur í Norðurá og Norðurá síðan fylgt að upphafspunkti.

          Stefndi er sýkn af öðrum kröfum stefnenda.

          Stefndi greiði Kirkjumálasjóði 502.000 krónur í málskostnað

          Málskostnaður fellur niður milli stefnandans Akrahrepps og stefnda.

          Gjafsóknarkostnaður Akrahrepps greiðist úr ríkissjóði þar með talin þóknun Ólafs Björnssonar hæstaréttarlögmanns 1.851.245 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

 

                                                          Halldór Halldórsson